Hæstiréttur íslands

Mál nr. 341/2007


Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Börn
  • Miskabætur


Fimmtudaginn 13

 

Fimmtudaginn 13. desember 2007.

Nr. 341/2007.

Ákæruvaldið

(Sigríður Elsa Kjartansdóttir, saksóknari)

gegn

X

(Gunnar Sólnes hrl.)

 

Kynferðisbrot. Börn. Miskabætur.

X játaði að hafa framið kynferðisbrot gagnvart stúlku fæddri árið 1996. Með dómi héraðsdóms var X gert að sæta fangelsi í 18 mánuði og greiða stúlkunni 1.000.000 krónur í miskabætur. Við mat á refsingu X var sérstaklega horft til þess að hann var tengdur stúlkunni fjölskylduböndum og að brotin fóru fram á heimili föður hennar. Þá var einnig litið til þess að X hefði mátt vera ljóst að stúlkan hefði átt við ýmsa erfiðleika að stríða og þess að atvikin hefðu haft mikil og alvarleg áhrif á hana. Með vísan til forsendna staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu héraðsdóms.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 8. júní 2007 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvaldsins sem krefst þess að refsing hans verði þyngd og hann dæmdur til að greiða Y 3.000.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 30. október 2006 til 12. janúar 2007, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði krefst mildunar refsingar og lækkunar á miskabótum.

Með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin er að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, X, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 364.338 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Gunnars Sólness hæstaréttarlögmanns, 249.000 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Ragnars Baldurssonar hæstaréttarlögmanns, 99.600 krónur.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 18. maí 2007.

Mál þetta, sem dómtekið var þann 30. apríl sl., er höfðað hér fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 16. mars 2007, á hendur X, [...],

 

„fyrir kynferðisbrot, gagnvart Y, fæddri 1996, með því að hafa, á þáverandi heimili sínu að [...]:

1.        Um haustið 2006 káfað á kynfærum stúlkunnar utanklæða.

2.        Að kvöldi föstudagsins 20. október 2006 sleikt kynfæri stúlkunnar og látið getnaðarlim sinn í munn hennar.

Telst brot ákærða samkvæmt 1. tölulið varða við 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 40/1992 og 4. gr. laga nr. 40/2003 en samkvæmt 2. tölulið við 1. mgr. sömu greinar.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

 

Bótakrafa.

Af hálfu Y, [...], er krafist miskabóta að fjárhæð kr. 3.000.000 auk vaxta samkvæmt 8. sbr. 4. gr. laga nr. 38/2001 frá 30. október 2006 til 12. janúar 2007 en dráttarvaxta samkvæmt 9. gr., sbr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.“

Verjandi ákærða krefst vægustu refsingar sem lög leyfa og að kröfur um skaðabætur verði lækkaðar.  Þá krefst hann hæfilegra málsvarnarlauna sér til handa.

I.

Samkvæmt rannsóknargögnum leitaði A til lögreglunnar á Akureyri þann 30. október 2006 og lagði fram kæru á hendur ákærða fyrir kynferðisbrot gegn dóttur sinni, Y.  Þann sama dag gaf B, móðir stúlkunnar, einnig skýrslu fyrir lögreglu.  Lýstu þau því meðal annars hvernig borið hefði til að stúlkan skýrði frá brotum ákærða í hennar garð og hvernig hún hefði lýst þeim.

Að morgni 31. október var ákærði handtekinn á vinnustað sínum og færður til yfirheyrslu á lögreglustöð og var honum skipaður verjandi sem var viðstaddur.  Viðurkenndi ákærði þá þegar það brot sem lýst er í 2. ákærulið og að hafa í eitt annað skipti lagt hönd sína á kynfæri stúlkunnar utan klæða.

Þann 2. nóvember var stúlkan yfirheyrð fyrir dómi í sérútbúnu herbergi í Héraðsdómi Norðurlands eystra með aðstoð Vigdísar Erlendsdóttur, forstöðumanns barnahúss.  Eru myndbandsupptaka, hljóðupptaka og endurrit af þeirri yfirheyrslu meðal gagna málsins.

 

II.

Í málinu liggur fyrir skýrsla Ólafar Ástu Farestveit, uppeldis- og afbrotafræðings í Barnahúsi, sem hefur haft Y í viðtalsmeðferð.  Í lok skýrslu hennar, sem hún staðfesti fyrir dóminum, er eftirfarandi niðurstaða og álit:

„Y er mjög upptekin af þeirri misnotkun sem hún varð fyrir og er það orðið að ákveðinni þráhyggju hjá henni.  Allt hennar líf snýst nú mikið til um reynslu hennar og hefur hún haft þörf fyrir að benda jafnvel öðrum börnum á að gæta sín á mönnum eins og [...] (sic) en einnig hefur hún sagt nokkrum vinum og kunningjum frá því sem komi fyrir hana.  Andúð hennar á eigin kynferði tengir hún beint við það ofbeldi sem hún varð fyrir þrátt fyrir að hafa alltaf verið strákastelpa að hennar sögn.  Með kynferðislegu misnotkuninni var Y leidd inn í veröld sem börn á hennar aldri eiga ekki að hafa reynslu af og enn í dag er hugur hennar fastur við reynslu sína sem og öll þau börn sem hafa sömu reynslu og hún.  Mikil vanlíðan hefur einkennt síðastliðið ár hjá Y en líðan hennar fer þó smám saman batnandi.  Reiði hennar hefur verið mikil á sama tíma en einnig særindi yfir þessari reynslu sinni.  Breytingar eru að verða á líðan Y og mun undirrituð halda áfram að hitta stúlkuna þar til líðan hennar hefur batnað til mikilla muna.  Hún á enn langt í land og mjög líklega þarf hún á enn frekari meðferð að halda á unglingsárum þegar líkamlegum þroska er náð og önnur hugsanatengd vandamál geta komið fram vegna misnotkunarinnar sem hún varð fyrir.“

 

III.

Ákærði var yfirheyrður hjá lögreglu þann 31. október sl. og 10. nóvember sl.  Þann 10. nóvember kom hann fyrir Héraðsdóm Norðurlands eystra og staðfesti fyrir þeim sama dómara og nú fer með málið að það sem kæmi fram í lögregluskýrslunum rétt eftir honum haft og það væri satt og rétt.  Ákærði mætti við þingfestingu málsins þann 17. apríl sl., ásamt skipuðum verjanda sínum, og kvaðst viðurkenna brot sín eins og þeim er lýst í ákæru.  Við aðalmeðferð málsins upplýsti skipaður verjandi ákærða að ákærði óskaði eftir því að mæta ekki við aðalmeðferð málsins en vísaði til framangreindra lögregluskýrslna sem hann hafði þegar staðfest fyrir dómi.  Verður því rakið það helsta í framburði ákærða fyrir lögreglu.

Ákærði kvað A, föður Y, hafa leigt hjá sér í um ár þegar atvik urðu.  Y og systir hennar hafi því stundum gist þar, Y yfirleitt aðra hvora helgi.  Eitt sinn hafi A farið í vinnuna en hann og Y hafi horft á sjónvarpið.  Y hafi verið búin að hátta sig og hafi verið á bol og nærbuxum en setið við hliðina á honum með teppi vafið um sig.  Kvaðst ákærði hafa lagt hönd sína yfir kynfæri stúlkunnar eða utan yfir buxurnar en hann kvaðst ekki hafa sett fingur inn í kynfæri hennar.  Ákærði kvaðst hafa spurt Y hvort hann mætti kyssa kynfæri hennar og hún hafi játað því.  Hann hafi þá lagt hana út af og kysst á henni kynfærin.  Hann hafi svo spurt hvort hún vildi kyssa kynfæri hans, það hafi ekki verið neitt mál, hún hafi tekið hann aðeins upp í sig og svo hafi þau hætt.  Þetta hafi allt tekið um 10-15 sekúndur.  Hann hafi svo spurt Y hvort þau ættu ekki að hafa þetta sitt leyndarmál og hún hafi játað því.  Aðspurður kvað ákærði getnaðarlim sinn hafa verið reistan en honum hafi ekki orðið sáðlát.  Ákærði kvað það ekki rétt hjá Y að hann hafi sett getnaðarlim sinn í munn hennar, hún hafi fært sig frá en hann alltaf ýtt henni að sér aftur.  Þá væri það ekki rétt hjá henni að þetta hefði staðið yfir í um hálftíma.  Aðspurður kvaðst ákærði í eitt annað skipti hafa lagt hönd sína á kynfæri stúlkunnar en hún hafi þá fært sig frá honum.  Ekki væri um fleiri tilvik að ræða.  Hann hafi þó stundum haldið utan um hana og lagt hönd sína á maga hennar.  Ákærði bar að sér hefði liðið mjög illa síðan þetta gerðist, hann hafi lagst inn á geðdeild FSA í kjölfar fyrri yfirheyrslunnar og væri að bíða eftir aðstoð sálfræðings.

Stúlkan Y var yfirheyrð í Héraðsdómi Norðurlands eystra þann 2. nóvember 2006.  Hún kvaðst vera hjá pabba sínum aðra hvora helgi, frá föstudagskvöldum til sunnudags.  Pabbi hennar hafi oft þurft að skreppa í vinnuna og hún hafi þá verið hjá ákærða.  Í fyrsta skipti sem ákærði hafi áreitt hana hafi þau verið að horfa á sjónvarpið og hann hafi komið við kynfæri hennar.  Hann hafi svo snert kynfæri hennar ítrekað þegar pabbi hennar fór að vinna, bæði innan og utan klæða, líklega 20-40 sinnum.  Í fyrstu hafi hún ekki áttað sig á þessu en þegar hún hafi gert það hafi hún ekki viljað vera hjá honum lengur.  Henni hafi líkað þetta mjög illa þó hún hafi ekki gefið það til kynna.  Hún hafi ekki viljað leyfa honum þetta og hafi verið mjög reið og brotið upp hurðir heima hjá sér.  Ákærði hafi alltaf sagt henni að hún mætti ekki segja frá þessu.  Viku áður en skýrslan var tekin hafi hún svo verið að horfa á sjónvarpið með ákærða en pabbi hennar verið í vinnunni.  Hún hafi verið næstum sofnuð því hún hafi verið mjög þreytt.  Ákærði hafi þá girt niður um hana buxur og nærbuxur og sleikt á henni kynfærin, líklega í um hálftíma.  Hann hafi þá líka legið í sófanum.  Hún hafi orðið hrædd við hann en hann hafi svo látið hana sleikja tippið á sér.  Hún hafi ekki viljað það en hann hafi rennt niður buxnaklaufinni og tekið tippið upp og látið hana gera þetta.  Hann hafi stungið því upp í hana, hún hafi alltaf fært sig frá en hann ýtt henni aftur að sér.  Til að sleppa hafi hún svo sagt að hún þyrfti að fara inn að sofa og hafi legið þar undir sæng með bangsann sinn og leikið sér.  Þegar hann hafi verið með typpið í munni hennar hafi hún verið hrædd um að hann myndi pissa eða eitthvað slíkt, ekkert hafi þó komið úr typpinu.  Aðspurt kvað vitnið sér hafa liðið illa þegar hann gerði þetta, hún hafi fundið til í hjartanu.  Þá hafi henni liðið illa í kynfærunum, henni hafi ekki líkað þetta.  Hún hafi einnig fundið til í höndunum, næstum öllum líkamanum og heilanum.

Vitnið B, móðir stúlkunnar, kveður Y hafa verið skrýtna í skapi sumarið 2006.  Hegðun hennar hafi verið breytt og hún hafi talað um að fyrirfara sér.  Laugardaginn 28. október 2006 hafi hún verið mjög erfið í skapi og mölvað hluti og barist um.  C, sambýlismaður vitnisins, hafi farið með hana inn í herbergi og róað hana niður.  Hann hafi rætt við hana og reynt að hughreysta hana og eftir nokkurt spjall hafi komið fram að ákærði kæmi við hana á stöðum sem ekki eigi að snerta.  C hafi þá náð í sig og stúlkan hafi sagt sér að þetta hefði byrjað þá um sumarið.  Hún hafi sagt að ákærði hefði strokið henni um læri og kynfæri og helgina áður hefði hann látið hana sleikja typpið á sér.  Þau hafi ekki spurt hana ítarlega um atvik heldur hafi þau hringt í A, föður stúlkunnar, sem hafi strax komið og þau hafi svo farið til lögreglunnar.  Aðspurt kveður vitnið miklar og slæmar breytingar hafa orðið á stúlkunni.  Fyrstu vikuna eftir að hún skýrði frá þessu hafi virst sem henni liði betur en svo hafi hún misst stjórn á öllu.  Hún hafi lagt heimilið í rúst og þau hafi barist við hana í fleiri mánuði.  Hún hafi svo farið á Barna- og unglingageðdeild 2. janúar.  Hún hafi lokað sig af og hætt samskiptum við önnur börn.  Hún hafi ekki þorað út og alltaf verið með hugann við það sem gerst hafði.  Hún sé hrædd um að hitta ákærða og dreymi oft illa.  Stúlkan sé ofvirk en hegðun hennar hafi versnað til muna eftir þetta.  Stundum þurfi að halda henni niðri, jafnvel þrisvar sama daginn og hún hafi uppi hótanir um sjálfsvíg, þetta hafi ekki gerst áður.  Aðspurt kveður vitnið stöðuna hafa verið betri síðan um páska, vistin á Barna- og unglingageðdeild hafi hjálpað henni og henni virðist vera farið að líða betur.

Vitnið C kveðst hafa kynnst stúlkunni í maí 2006.  Hún sé ofvirk og með athyglisbrest en hún hafi þó fengið köst sem honum hafi þótt óeðlileg, hún hafi þá talað um að hún vildi bara deyja.  Vitnið kveðst oft hafa náð ágætlega að róa hana.  Laugardaginn 28. október 2006 hafi hún fengið eitt slíkt kast og kveðst vitnið hafa farið með hana inn í herbergi hennar til að ræða við hana.  Hún hafi sagst eiga leyndarmál sem hún mætti ekki segja honum.  Hann hafi spurt hana með hverjum hún ætti þetta leyndarmál og hún sagst eiga það með ákærða.  Vitnið kveðst aðeins hafa leitt hana áfram með spurningum og þegar hann hafi spurt hvort ákærði væri eitthvað að strjúka henni hafi hún sagt já.  Vitnið kveðst þá hafa stöðvað hana og náð í B móður hennar.  Stúlkan hafi svo skýrt þeim frá þessu og þau hafi þá strax náð í A, föður hennar.  Aðspurður kveður vitnið köst Y stöðugt hafa versnað frá því hann kynntist henni þar til hún skýrði þeim frá þessu.  Eftir það hafi henni virst líða betur í um vikutíma en svo hafi hún alveg hrapað niður.  Eftir það hafi þetta verið mjög erfitt og meðal annars hafi stúlkan lagst inn á barna- og unglingadeild.

Vitnið A kveðst hafa leigt hjá ákærða í nærri því tvö ár, líklega frá því seinni hluta árs 2004.  Stúlkan hafi yfirleitt verið hjá honum aðra hvora helgi.  Um það leyti sem athæfi ákærða hafi líklega byrjað kveðst vitnið hafa starfað sem lagermaður hjá Vífilfelli og hafi hann þá stundum þurft að skjótast í vinnuna á föstudagskvöldum eða laugardagsmorgnum.  Hann hafi þá oft verið frá í um tvær klukkustundir og stúlkan þá orðið eftir heima, ásamt ákærða, og horft á barnaefni í sjónvarpinu.  Vitnið segir að eftir pabbahelgi hafi B, móðir stúlkunnar, og C, maður hennar, haft samband við sig.  Þetta hafi líklega verið 28. október og hafi stúlkan þá verið búin að skýra þeim frá þessu.  Hún hafi sagt þeim hvað ákærði hefði gert en þau hafi ekki rætt það við hana frekar.  Aðspurt kveðst vitnið hafa tekið eftir breytingum á Y, bæði áður en hún sagði frá og eftir það.  Skólinn hafi verið búinn að kvarta yfir því að hún væri orðin klámfengin í orðum en þau hafi ekki skilið í því.  Þá líði henni mjög illa, hún sé ofvirk og með athyglisbrest og þetta hafi svo bæst við og skaðað hana mjög.  Erfiðleikar hennar hafi aukist mjög og hafi þau sótt hjálp til Reykjavíkur.  Vitnið kveður stúlkuna hugsa mjög mikið um þessi atvik og um síðustu helgi, þegar þau hafi verið á ferð í bíl, hafi hún séð bíl eins og ákærði á og þá sigið niður í sætinu og orðið miður sín.  Þá verði hann að gæta þess að keyra ekki fram hjá heimili ákærða.  Henni finnist hún hafa svikið ákærða með því að segja frá hlutum sem hún mátti ekki segja frá.  Vitnið kveður ákærða hafa verið tengdur þeim fjölskylduböndum, hann hafi áður verið giftur móðursystur stúlkunnar, og hafi hann og ákærði verið bestu vinir.  Vitnið kveðst hafa talið sig geta treyst ákærða algerlega fyrir stúlkunni.  Vitnið kveður stúlkuna nú vera mjög feimna með líkama sinn og vera hrædda við karlmenn.  Eftir bað megi vitnið til dæmis ekki fara inn á baðherbergið til að færa henni handklæði.

 

IV.

Eins og áður greinir hefur ákærði viðurkennt að hafa gerst sekur um þá háttsemi sem er lýst í ákæru.  Er játning hans í samræmi við framburð stúlkunnar og önnur gögn málsins. Þykir sök hans því nægjanlega sönnuð.  Varðar brot samkvæmt 1. tölulið ákæru við 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 40/1992, 4. gr. laga nr. 40/2003 og 11. gr. laga nr. 61/2007, sbr. 2. gr. hegningarlaga nr. 19/1940.  Brot samkvæmt 2. tölulið ákærunnar varðar við 1. mgr. 202. gr., sbr. 10. gr. laga nr. 40/1992, 4. gr. laga nr. 40/2003 og 11. gr. laga nr. 61/2007, sbr. 2. gr. hegningarlaga nr. 19/1940.

Samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins hefur ákærði ekki áður sætt refsingum og verður litið til þess við ákvörðun refsingar.  Þá verður einnig litið til þess að ákærði hefur skýlaust viðurkennt þá háttsemi sem lýst er í ákæru og þess að hann hefur leitað sér aðstoðar í kjölfar þeirra atburða sem hér eru til umfjöllunar.  Hins vegar verður einnig litið til þess að ákærði, sem var tengdur stúlkunni fjölskylduböndum, braut alvarlega gegn henni þar sem hún átti að vera örugg á heimili föður síns.  Þá verður að telja að ákærða hafi hlotið að vera ljóst að stúlkan átti við ýmsa erfiðleika að stríða og er fram komið í málinu að þessi atvik hafa haft mjög mikil og alvarleg áhrif á hana.  Að framangreindu virtu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 18 mánuði.

Í málinu gerir B, fyrir hönd dóttur sinnar Y, kröfu um kr. 3.000.000,- í miskabætur, auk vaxta samkvæmt 8. gr., sbr. 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 30. október 2006 til 12. janúar 2007 en dráttarvaxta samkvæmt 9. gr., sbr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.  Eins og áður greinir er fram komið að verknaður ákærða hefur haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir stúlkuna og þykja miskabætur að því virtu og með hliðsjón af dómafordæmum Hæstaréttar Íslands, hæfilega ákveðnar kr. 1.000.000- með vöxtum eins og greinir í dómsorði.

Í málinu liggur fyrir kostnaður kr. 20.000,- fyrir vottorð frá Barnahúsi.  Með vísan til 164. gr. og 165. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála ber að dæma ákærða til greiðslu þess kostnaðar auk málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns, Gunnars Sólnes hrl. bæði á rannsóknarstigi og fyrir dómi sem samtals þykja hæfilega ákveðin kr. 320.000- og þóknunar skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Elísabetar Sigurðardóttur hdl., fyrir dómi og á rannsóknarstigi, sem samtals þykir hæfilega ákveðin kr. 210.000-.  Er virðisaukaskattur innifalinn í tildæmdum málsvarnarlaunum. Af málsvarnarlaunum verjanda hefur hann þegar fengið greiddar kr. 151.268- vegna vinnu á rannsóknarstigi.

 

Dóminn kveður upp Freyr Ófeigsson dómstjóri.

 

D Ó M S O R Ð :

Ákærði X sæti fangelsi í 18 mánuði.

Ákærði greiði B, f.h. Y, kr. 1.000.000- ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr., sbr. 4. gr. laga nr. 38/2001 frá 30. október 2006 til 12. janúar 2007 en dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði kr. 550.000- í sakarkostnað, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Gunnars Sólnes hrl., kr. 320.000- og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Elísabetar Sigurðardóttur hdl., kr. 210.000- og er virðisaukaskattur innifalinn í framangreindum fjárhæðum.