Hæstiréttur íslands

Mál nr. 479/2005


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald


Fimmtudaginn 17

 

Fimmtudaginn 17. nóvember 2005.

Nr. 479/2005.

Ríkislögreglustjóri

(Jón H. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 19. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum og  b. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. nóvember 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. nóvember 2005, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 5. desember 2005 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að hann verði látinn sæta farbanni í stað gæsluvarðhalds.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. nóvember 2005.

Ríkislögreglustjóri hefur krafist þess að X, fd. [...] 1972, verði með úrskurði gert að sæta gæsluvarðhaldi til mánudagsins 5. desember 2005 kl. 16.00. Vísað er til 19. og 15 gr. laga um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum nr. 13/1984 og til b.-liðar  1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991.

Í greinargerð ríkislögreglustjóra kemur fram að hinn 9. nóvember 2005 barst ríkislögreglustjóranum beiðni grískra dómsmálayfirvalda um framsal X, albansks ríkisborgara. Ríkislögreglustjórinn hafi tilkynnt dómsmálaráðuneytinu um framsalbeiðnina og ríkissaksóknari sé upplýstur um málið.

Samkvæmt framsalsbeiðninni er kærða gefið að sök að hafa þann 25. desember 2004, af ásetningi, banað manni með skotvopni svo sem nánar sé lýst í meðfylgjandi skjölum.

Grísk yfirvöld hafi farið fram á við íslensk stjórnvöld að kærði verði þegar handtekinn, úrskurðaður í gæsluvarðhald og framseldur til Grikklands. Jafnframt lýsa þau því yfir að framsalsbeiðnin verði send eftir diplómatískum leiðum til dómsmálaráðuneytisins og innan þess tímaramma sem settur sé fram í Evrópusamningi um framsal sakamanna frá 1957.

Kærði hafi komið hingað til lands þann 20. september sl., með flugi [...]  frá [...]og hafi framvísað fölsuðum skilríkjum við komuna til landsins, nánar tiltekið fölsuðu albönsku vegabréfi og fölsuðu grísku nafnskírteini (special Identity Card for Alien).  Við rannsókn málsins hjá lögreglu kvaðst kærði heita X, vera albanskur ríkisborgari og fæddur þann [...] 1972. 

Kærði hafi sótt um hæli og hafi hann þá verið færður til Reykjanesbæjar á gistiheimilið [...], þar sem hælisleitendur séu vistaðir meðan mál þeirra séu til meðferðar hjá Útlendingastofnun. Með ákvörðun Útlendingastofnunar þann 27. september sl. hafi kærða verið synjað um hæli og frávísað frá landinu.

Sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli hafi gefið út ákæru á hendur kærða þann 30. september sl. og hafi hann í Héraðsdómi Reykjaness þann sama dag verið dæmdur í 45 daga fangelsi. Kærði hafi lokið afplánun dómsins í dag.

Útlendingastofnun hafi vísað kærða brott af landinu þann 11. október sl. og hafi honum verið bönnuð endurkoma til landsins í þrjú ár. 

Í málinu liggi fyrir staðfesting frá Albaníu um að kærði sé X og staðfesting frá Grikklandi um að kærði sé grunaður um framangreindan verknað og framsals verið krafist.

Til að tryggja nærveru kærða meðan framsalsmálið er til meðferðar hjá íslenskum stjórnvöldum og með hliðsjón af alvarleika sakargiftanna er þess krafist að kærði verði úrskurðaður í gæsluvarðhald  með vísan til 19. og 15. gr. laga nr. 13/1984 og b.-lið 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991. 

Að öðru leyti með vísan til gagna málsins sem fylgja í ljósriti er kröfu þessari beint til Héraðsdóms Reykjavíkur.

             Fram hefur komið yfirlýsing frá grískum yfirvöldum um að þeir muni krefjast framsals á kærða. Jafnframt hefur komið fram yfirlýsing um að nauðsynleg gögn vegna framsalsbeiðni verði send yfirvöldum á Íslandi.

             Með hliðsjón af alvarleika þess brots sem kærði er grunaður um ber að fallast á að nauðsynlegt sé að tryggja nærveru hans meðan framsalsmálið er til meðferðar hjá íslenskum stjórnvöldum. Þykir ekki eins og atvikum háttar unnt að beita vægari úrræðum en gæsluvarðhaldi til að tryggja nærveru hans.

             Með vísan til 19. gr. laga nr. 13/1984 svo og til b-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 teljast lagaskilyrði uppfyllt og ber því að taka kröfu ríkislögreglustjóra til greina.

Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, skal sæta gæsluvarð­haldi allt til mánudagsins 5. desember 2005 kl. 16.00.