Hæstiréttur íslands

Nr. 2022-144

Glaucia Da Conceicao Pereira (Guðni Á. Haraldsson lögmaður)
gegn
Daníel Pétri Axelssyni (Skúli Sveinsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Kæruleyfi
  • Kæruheimild
  • Kærufrestur
  • Skuldabréf
  • Fasteign
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

2. Með beiðni 22. nóvember 2022 leitar Glaucia Da Conceicao Pereira leyfis Hæstaréttar til að „áfrýja“ til réttarins „dómi“ Landsréttar í málinu nr. 442/2021 frá 28. október 2022: Glaucia Da Conceicao Pereira gegn Daníel Pétri Axelssyni. Um heimild til málskots er vísað til 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Ágreiningur aðila lýtur að kröfu gagnaðila um greiðslu skuldar samkvæmt veðskuldabréfi sem leyfisbeiðandi gaf út til gagnaðila. Málið var höfðað sem skuldabréfamál á grundvelli XVII. kafla laga nr. 91/1991.

4. Með héraðsdómi var fallist á framangreinda kröfu gagnaðila. Leyfisbeiðandi áfrýjaði dóminum til Landsréttar og krafðist þess að málinu yrði vísað frá héraðsdómi. Landsréttur rakti að samkvæmt kröfugerð leyfisbeiðanda hefði málið eingöngu verið flutt um formhlið þess en því til samræmis yrði kveðinn upp úrskurður í málinu, sbr. 2. málslið 2. mgr. 164. gr. laga nr. 91/1991. Þá taldi rétturinn að umrætt skjal væri skuldabréf í lögskiptum leyfisbeiðanda og gagnaðila. Í því væri skýrlega kveðið á um heimild til að reka mál til innheimtu þess samkvæmt XVII. kafla laga nr. 91/1991. Því væru ekki efni til að vísa málinu frá héraðsdómi á þeim grundvelli að lagaskilyrðum væri ekki fullnægt til að málið yrði rekið samkvæmt þeim kafla. Var kröfu leyfisbeiðanda um að málinu yrði vísað frá héraðsdómi því hafnað.

5. Leyfisbeiðandi reisir beiðni sína um áfrýjunarleyfi á því að skilyrðum 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 sé fullnægt. Þannig hafi úrslit málsins verulegt almennt gildi meðal annars um réttarstöðu aðila þegar metið er hvort skilyrði séu fyrir að þrengja málsvarnir í dómsmálum, sem eiga rót sína að rekja til texta í skuldabréfum eða viðskiptabréfum. Þá byggir hún á því að úrslit málsins varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína.

6. Samkvæmt 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 sem leyfisbeiðandi vísar til í umsókn sinni er unnt að sækja um leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar til Hæstaréttar. Sú dómsathöfn er beiðni leyfisbeiðanda lýtur að er hins vegar úrskurður en ekki dómur eins og leyfisbeiðandi tilgreinir í beiðni sinni. Um heimild til að skjóta úrskurði Landsréttar til Hæstaréttar gildir 2. mgr. 167. gr. laganna. Þar kemur fram að unnt sé að sækja um leyfi Hæstaréttar til að kæra úrskurði Landsréttar í kærumálum þegar svo er fyrir mælt í öðrum lögum. Eftir 1. mgr. 168. gr. laga nr. 91/1991 er frestur til að kæra og, ef við á, leita leyfis til að kæra dómsathöfn Landsréttar tvær vikur og var hann liðinn þegar leyfisbeiðandi óskaði leyfis 22. nóvember 2022. Þegar af þessum ástæðum er beiðninni hafnað en jafnframt skal áréttað að úrskurður Landsréttar þar sem hafnað er kröfu um frávísun máls frá héraði sætir hvorki kæru til Hæstaréttar á grundvelli 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 né verður sótt um leyfi Hæstaréttar til að kæra slíkan úrskurði Landsréttar samkvæmt 2. mgr. sömu greinar.