Hæstiréttur íslands
Mál nr. 268/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
Reifun
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Karl Axelsson og Ingibjörg Benediktsdóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. apríl 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. maí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 28. apríl 2017, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 10. maí 2017 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 28. apríl 2017.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur í dag krafist þess að kærða X, fd. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 10. maí nk. klukkan 16. Þá er þess krafist að kærða verði gert að sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.
Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að embættið hafi nú til rannsóknar mál er varði innflutning fíkniefna hingað til lands. Lögreglu hafi borist upplýsingar þess efnis að til stæði að flytja inn til landsins mikið magn af sterkum fíkniefnum með ferjunni Norrænu. Lögreglan hafi því verið með eftirlit á tollsvæðinu á Seyðisfirði þegar ferjan kom til landsins 25. apríl sl.
Bifreiðin [...] hafi vakið athygli lögreglu og tollvarða og hafi hún verið tekin til frekari skoðunar. Ökumaður bifreiðarinnar hafi verið kærði X og hafi afskipti lögreglu og tollvarða af honum og bifreiðinni leitt til þess að grunsemdir vöknuðu um að í bifreiðinni væru falin fíkniefni. Lögregla hafi í kjölfarið fengið heimild í dómsúrskurði til að koma fyrir eftirfararbúnaði og hljóðupptöku í bifreiðinni, sem og hlustun á farsíma X.
Bifreiðinni hafi síðan verið fylgt eftir til Reykjavíkur og hafi X ekið sem leið liggur til Keflavíkur þar sem hann hafi sótt A á flugvöllinn. Þeir hafi síðan ekið að gistiheimilinu [...] fyrir [...] þar sem þeir hafi átt pantað herbergi.
Í gær hafi þeir X og A farið í verslunina [...] og keypt þar topplyklasett, sexkanta, nælonhanska, skrúfjárn og vigt. Lögregla telji að ætlunin hafi verið að nota þessi verkfæri til að ná fíkniefnum úr bifreiðinni. Kærði X og A hafi verið handteknir síðdegis í gær á gistiheimilinu [...] með rúmlega eitt kíló af sterkum fíkniefnum. Við handtöku hafi A verið búinn að setja um helming efnanna inn á vasa á yfirhöfn sinni. Það sé ætlun lögreglu að þeir hafi ætlað að afhenda efnin einhverjum óþekktum aðila.
Í ljósi ofangreinds og þeirra gagna sem lögreglan hafi aflað sé kærði undir rökstuddum grun um aðild að innflutningi á miklu magni af sterkum fíkniefnum hingað til lands. Ljóst sé að fíkniefnin hafi verið ætluð til sölu og dreifingar hér á landi og sé það grunur lögreglu að fleiri aðilar tengist málinu. Telji lögregla því brýna nauðsyn á því á þessu stigi málsins að kærði sæti gæsluvarðhaldi og verði hafður í einangrun þar sem ljóst sé að gangi kærði laus geti hann sett sig í samband við meinta samverkamenn eða þeir sett sig í samband við hann. Þá geti kærði einnig komið undan gögnum með sönnunargildi sem lögreglan hafi ekki lagt hald á nú þegar.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og a-liðar 1. mgr. 95. gr. og b-liðar 1. mgr. 99. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, sbr. 2. mgr. 98. gr. sömu laga, sé þess krafist að krafan nái fram að ganga eins og hún er sett fram.
Með hliðsjón af framangreindu og gögnum málsins er fallist á það með lögreglustjóra að kærði sé undir rökstuddum grun um refsiverðan verknað sem fangelsisrefsing er lögð við. Rannsókn málsins er á frumstigi og má ætla að kærði muni torvelda rannsókn málsins, svo sem með því að afmá merki eftir brot, skjóta undan munum ellegar hafa áhrif á samseka eða vitni, fari hann frjáls ferða sinna. Er því fullnægt skilyrðum a-liðar 1. mgr. 95. gr. og b-liðar 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008, til að taka megi til greina kröfu lögreglustjóra eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.
Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 10. maí nk. klukkan 16. Kærði sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.