Hæstiréttur íslands
Mál nr. 162/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Dómkvaðning matsmanns
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. febrúar 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 8. mars sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. febrúar 2016, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um dómkvaðningu matsmanns til þess að svara matsspurningum númer 1 til 18 og 20 til 30 í matsbeiðni hans. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að áðurgreindri beiðni varnaraðila verði hafnað. Þá krefst hann kærumálskostnaðar og málskostnaðar í héraði „af þessum hluta málsins.“
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Samkvæmt 1. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 hafa aðilar máls forræði á sönnunarfærslu í einkamálum. Því til samrýmis hefur aðilum verið játaður víðtækur réttur til að afla matsgerðar undir rekstri máls til að færa sönnur á staðhæfingar sínar, enda bera þeir áhættu af sönnunargildi matsgerðar og standa straum af kostnaði við öflun hennar. Þá verður matsbeiðni ekki hafnað af þeirri ástæðu að torvelt kunni að vera fyrir matsmann að svara einstökum spurningum, heldur er það matsmanns að taka afstöðu til þess hvort svo hátti til. Með þessum athugasemdum, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir, en við ákvörðun hans er tekið tillit til þess að samhliða máli þessu er rekið annað mál um samkynja ágreining.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Goldman Sachs International, greiði varnaraðila, Kaupþingi hf., 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. febrúar 2016.
I
Mál þetta, sem var tekið til úrskurðar 16. desember 2015, um beiðni um dómkvaðningu matsmanns, er höfðað af Kaupþingi hf., Borgartúni 26, Reykjavík, með stefnu birtri 27. júní 2012 á hendur Goldman Sachs International, company number: [...], Peterborough court, 133 Fleet street, London, EC4A, Englandi.
Dómkröfur stefnanda eru í fyrsta lagi aðallega þær að rift verði ráðstöfun til stefnda, dags. 8. október 2008, að upphæð 23.393.097 Bandaríkjadollarar og 4.195.776 bresk sterlingspund.
Í öðru lagi krefst stefnandi þess aðallega að stefndi greiði stefnanda 22.999.972 Bandaríkjadollara og 4.195.776 bresk sterlingspund með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá málshöfðunardegi til greiðsludags.
Til vara gerir stefnandi í fyrsta lagi þær dómkröfur að rift verði eftirfarandi ráðstöfunum til stefnda:
-
Greiðslu stefnanda, að fjárhæð 6.404.300 bresk sterlingspund, til Oscatello Investment Limited, dags. 7. ágúst 2008, sem sama dag var greidd inn á veðsett vörslusafn hjá stefnda nr. 013-00614-3 með 12.500.000 Bandaríkjadollara.
-
Greiðslu stefnanda, að fjárhæð 5.300.000 bresk sterlingspund, til Oscatello Investment Limited, dags. 12. ágúst 2008, sem sama dag var greidd inn á veðsett vörslusafn hjá stefnda nr. 013-00614-3 með 10.000.000 Bandaríkjadollara.
-
Greiðslu stefnanda, að fjárhæð 1.375.000 bresk sterlingspund, til Oscatello Investment Limited, dags. 26. ágúst 2008, sem sama dag var greidd inn á veðsett vörslusafn hjá stefnda nr. 013-00614-3 með 2.500.000 Bandaríkjadollara.
-
Greiðslu stefnanda, að fjárhæð 499.996 bresk sterlingspund, sem greidd var inn á veðsett vörslusafn hjá stefnda nr. 013-00614-3, dags. 23. september 2008.
-
Greiðslu stefnanda, að fjárhæð 1.856.586 bresk sterlingspund, til Oscatello Investment Limited, dags. 29. september 2008, sem sama dag var greidd inn á veðsett vörslusafn hjá stefnda nr. 013-00614-3.
-
Greiðslu stefnanda, að fjárhæð 377.537 bresk sterlingspund, til Oscatello Investment Limited, dags. 1. október 2008, sem sama dag var greidd inn á veðsett vörslusafn hjá stefnda.
-
Greiðslu stefnanda, að fjárhæð 155.944 bresk sterlingspund, til Oscatello Investment Limited, dags. 1. október 2008, sem sama dag var greidd inn á veðsett vörslusafn hjá stefnda nr. 013-00614-3.
-
Greiðslu stefnanda, að fjárhæð 1.305.743 bresk sterlingspund, til Oscatello Investment Limited, dags. 6. október 2008, sem sama dag var greidd inn á veðsett vörslusafn hjá stefnda nr. 013-00614-3 með 1.305.713 breskum sterlingspundum.
Í öðru lagi krefst stefnandi þess til vara að stefndi greiði stefnanda 22.999.972 Bandaríkjadollara og 4.195.776 bresk sterlingspund með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá málshöfðunardegi til greiðsludags.
Þá er þess krafist bæði í aðal- og varakröfu að stefnda verði gert að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi eða að mati réttarins.
Stefndi hefur tvisvar gert kröfu um frávísun málsins en kröfunum var hafnað með úrskurðum uppkveðnum 1. júlí 2013 og 7. október 2015. Til vara krefst sýknu af öllum dómkröfum stefnanda og til þrautavara að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar.
Í öllum tilvikum er þess krafist að stefnda verði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati dómsins eða samkvæmt málskostnaðaryfirliti, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun. Þá er krafist álags á málskostnað samkvæmt 2. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sbr. a- og c- lið 1. mgr. sömu greinar.
Í þinghaldi í málinu 3. október 2013 lagði stefnandi fram beiðni um dómkvaðningu matsmanns. Málinu var síðan frestað allt til 2. desember sama ár að ósk lögmanna aðila. Í því þinghaldi krafðist stefndi þess að málinu yrði frestað með vísan til 3. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991 þar til fyrir lægi ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins við þeim spurningum, sem Héraðsdómur Reykjavíkur beindi til hans í öðru máli. Af hálfu stefnanda var frestbeiðninni mótmælt og fór fram munnlegur málflutningur um ágreining aðila 16. desember sama ár. Með úrskurði 20. sama mánaðar var krafa stefnda um frestun málsins tekin til greina og málinu síðan frestað þar til fyrir lægi umrætt ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins. Hinn 17. október 2014 kvað EFTA-dómstóllinn upp dóm sinn. Málið var næst tekið fyrir 28. maí 2015 og lagði stefndi þá fram frekari gögn, m.a. nýja kröfu um frávísun málsins og mótmæli gegn matsbeiðni stefnanda. Munnlegur málflutningur um nýja frávísunarkröfu stefnda fór fram 9. september sama ár og með úrskurði uppkveðnum 7. október sama ár var frávísunarkröfunni hafnað. Í síðargreindu þinghaldi var munnlegur málflutningur um ágreining aðila vegna matsbeiðni stefnanda ákveðin 16. desember 2015. Þá fór stefnandi fram á að dómkvaðning færi fram í samræmi við matsbeiðni hans og krafðist þess að málskostnaðarákvörðun biði efnisdóms. Af hálfu stefnda var þess krafist að matsbeiðni stefnanda yrði hafnað, að öllu leyti eða að því er varðaði stærstan hluta matsspurninga. Stefndi krefst málskostnaðar úr hendi stefnanda.
II
Stefnandi krefst í máli þessu riftunar á nánar tilgreindum ráðstöfunum sem stefnandi kveðst hafa innt af hendi til stefnda við gerð tveggja skuldatryggingarsamninga milli stefnda og Roxinda Limited dagana 7. og 13. ágúst 2008. Tryggingarféð, sem greitt hafi verið til stefnda á grundvelli samninganna, hafi komið frá stefnanda. Er viðskiptunum lýst í matsbeiðni. Stefnandi telur að hann hafi sjálfur fjármagnað greiðslur á grundvelli skuldatryggingarsamninga sem Roxinda Limited hafi gert við stefnda. Er því lýst að þegar seld sé skuldatrygging þar sem fjármögnun tryggingarinnar sé í raun runnin frá sjálfum undirliggjandi lögaðilanum, sé hinn undirliggjandi lögaðili í raun að veita tryggingu fyrir greiðslufalli sjálfs sín, í þágu kaupanda tryggingarinnar. Að mati stefnanda feli slíkur samningur í sér mismunun kröfuhafa hins undirliggjandi aðila. Þá sé ráðstöfunin til þess fallin að villa um fyrir öðrum kröfuhöfum hins undirliggjandi aðila, þar sem bókfærð og verðmæt eign hins undirliggjandi aðila, sem hér sé krafa stefnanda á hendur Oscatello Investment Limited og/eða Roxinda Limited vegna fjármögnunar skuldatryggingarinnar, verði verðlaus eða mun verðminni við greiðslufall hans. Stefnandi byggir á því að Roxinda Limited hafi á þessum tíma verði ógjaldfært.
Stefnanda var skipuð slitastjórn 25. maí 2009 á grundvelli ákvæðis II til bráðabirgða í lögum nr. 44/2009, sem gaf út innköllun til kröfuhafa 6. júlí 2009. Stefnandi var síðan tekinn til formlegrar slitameðferðar með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 22. nóvember 2010.
Stefndi reisir sýknukröfu sína á aðildarskorti. Auk þess telur hann að um þær ráðstafanir, sem krafist sé riftunar á, hafi gilt ensk lög í samræmi við skýr ákvæði rammasamnings stefnda og Roxinda Limited þess efnis og samkvæmt enskum lögum séu ráðstafanirnar ekki riftanlegar. Þá byggir stefndi á því að almenn skilyrði íslenskra riftunarreglna, sem stefnandi byggir kröfur sínar á, séu ekki uppfyllt, auk þess sem engin ráðstöfun þrotamanns í skilningi XX. kafla laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., hafi átt sér stað. Jafnframt telur stefndi að riftunarkröfur stefnanda séu fallnar niður fyrir tómlæti og því beri að sýkna stefnda í máli þessu. Loks byggir stefndi á því að sýkna verði af endurgreiðslukröfum stefnanda í fyrsta lagi vegna aðildarskorts, auk þess sem stefndi hafi ekki haft hag af hinum ætluðu riftanlegu ráðstöfunum og þar sem tjón stefnanda sé ósannað. Loks byggir stefndi kröfu sína um stórlega lækkun dómkrafna stefnanda á sömu sjónarmiðum og sýknukröfuna.
Samkvæmt framlagðri matsbeiðni stefnanda er tilgangur hennar í fyrsta lagi að sanna, hversu mikil verðmæti hafi runnið til stefnda á grundvelli umræddra skuldatryggingarsamninga og hversu mikið stefndi hafi hagnast á gerð þeirra. Í öðru lagi hyggst stefnandi sanna að fjármögnun samninganna hafi alfarið komið frá stefnanda, og að Roxinda Limited hafi verið með öllu ófært um að standa undir skuldbindingum samkvæmt skuldatryggingarsamningunum þegar þeir voru gerðir, í þriðja lagi að gerð samninganna, efni þeirra og fjármögnun hafi verið óvenjuleg og í andstöðu við almennar viðskiptavenjur sem ríkt hafi á markaði með skuldatryggingarsamninga sem og að krafa, sem gerð hafi verið um tryggingu fyrir efndum skuldatryggingarsamninganna við gerð þeirra hafi verið óvenju há og andstæð almennum viðskiptavenjum, í fjórða lagi hverjar séu almennar venjur og reglur á alþjóðlegum markaði með skuldatryggingar og að sanna að þeim venjum og reglum hafi ekki verið fylgt varðandi umrædda samninga. Jafnframt hygðist stefnandi sanna að fjárhagsleg áhætta af gerð umræddra skuldatryggingarsamninga lægi eingöngu hjá stefnanda og einnig leiða í ljós, hvort ráða mætti af markaðsþróun skuldatryggingarálags og öðrum gögnum að stefndu hefðu beitt áhættuvörnum við gerð samninganna og hvaða áhrif slíkir samningar hefðu haft á almennan markað með skuldatryggingarsamninga, hafi þeir verið gerðir. Loks kemur fram í matsbeiðni að með matsgerð hyggist stefnandi sanna að stefndi hafi ekki staðið til boða að gera sambærilega samninga og hér um ræði á almennum markaði með skuldatryggingar og að upplýsingar um efni og eiginleika greindra samninga hefðu haft veruleg áhrif á markað með skuldatryggingar, hefðu þær verið gerðar opinberar. Með matsbeiðni óskaði stefnandi eftir því, að dómkvaddur yrði sérfróður og óvilhallur matsmaður til þess að láta í té skriflegt og rökstutt álit um eftirfarandi matsspurningar:
-
„VERÐMÆTI SAMNINGA
-
Óskað er mats á því hversu mikil fjárverðmæti (hvort sem er við gerð samninga, við veðköll eða við lokun samninga) voru alls greidd til matsþola á grundvelli skuldatryggingarsamninga við Roxinda, sem gerðir voru dagana 7. og 13. ágúst 2008 og hversu mikil fjárverðmæti matsþoli greiddi til Roxinda á grundvelli framangreindra samninga.
-
Óskað er mats á því hver voru almenn viðskiptakjör á markaði með skuldatryggingarsamninga með matsbeiðanda sem hinn undirliggjandi aðila (e. market trading level) á tímabilinu frá 1. ágúst til 9. október 2008.
-
Óskað er mats á því hver hagnaður matsþola var á grundvelli skuldatryggingarsamninga við Roxinda Limited, sem gerðir voru dagana 7. og 13. ágúst 2008.
-
FJÁRMÖGNUN OG GJALDFÆRNI ROXINDA LIMITED
-
Óskað er mats á því hvort ráða megi af bókhaldi, bankareikningum, endurskoðunarskýrslum, skýrslum skiptastjóra eða öðrum gögnum úr rekstri matsbeiðanda, Oscatello, Roxinda og matsþola, að matsbeiðandi hafi fjármagnað eftirfarandi greiðslur til matsþola, sem inntar voru af hendi á grundvelli samninga um sölu skuldatrygginga sem gerðir voru dagana 7. og 13. ágúst 2008 milli Roxinda og matsþola:
-
Greiðslu matsbeiðanda, að fjárhæð GBP 6.404.300 (bresk sterlingspund), til Oscatello, dags. 7. ágúst 2008, sem sama dag var greidd inn á veðsett vörslusafn hjá matsþola nr. 013-00614-3 með USD 12.500.000 (bandarískir dollarar).
-
Greiðslu matsbeiðanda, að fjárhæð GBP 5.300.000 (bresk sterlingspund), til Oscatello, dags. 12. ágúst 2008, sem sama dag var greidd inn á veðsett vörslusafn hjá matsþola nr. 013-00614-3 með USD 10.000.000 (bandaríkir dollarar).
-
Greiðslu matsbeiðanda, að fjárhæð GBP 1.375.000 (bresk sterlingspund), til Oscatello, dags. 26. ágúst 2008, sem sama dag var greidd inn á veðsett vörslusafn hjá matsþola nr. 013-00614-3 með USD 2.500.000 (bandarískir dollarar).
-
Greiðslu matsbeiðanda, að fjárhæð GBP 499.996 (bresk sterlingspund), sem greidd var inn á veðsett vörslusafn hjá matsþola nr. 013-00614-3, dags. 23. september 2008.
-
Greiðslu matsbeiðanda, að fjárhæð GBP 1.856.586 (bresk sterlingspund), til Oscatello, dags. 29. september 2008, sem sama dag var greidd inn á veðsett vörslusafn hjá matsþola nr. 013-00614-3.
-
Greiðslu matsbeiðanda, að fjárhæð GBP 377.537 (bresk sterlingspund), til Oscatello, dags. 1. október 2008, sem sama dag var greidd inn á veðsett vörslusafn hjá matsþola.
-
Greiðslu matsbeiðanda, að fjárhæð GBP 155.944 (bresk sterlingspund), til Oscatello, dags. 1. október 2008, sem sama dag var greidd inn á veðsett vörslusafn hjá matsþola nr. 013-00614-3.
-
Greiðslu matsbeiðanda, að fjárhæð GBP 1.305.743 (bresk sterlingspund), til Oscatello, dags. 6. október 2008, sem sama dag var greidd inn á veðsett vörslusafn hjá matsþola nr. 013-00614-3 með GBP 1.305.713 (bresk pund).
-
Óskað er mats á því hvort félagið Roxinda hafi verið ógjaldfært dagana 7. og 13. ágúst 2008. Nánar tiltekið er óskað mats á annars vegar því hvort skuldir félagsins hafi verið hærri en eignir þess og hins vegar hvort félagið hafi verið ófært um að standa við skuldbindingar sínar þegar þær féllu í gjalddaga, og ekki væri fyrirséð í náinni framtíð að breyting yrði þar á.
-
Óskað er mats á því hvort félagið Roxinda Limited hafi verið ógjaldfært dagana 7. og 13. ágúst 2008, miðað við skilgreiningar á ógjaldfærni í spurningu nr. 5, sé eingöngu miðað við fjárhagsstöðu félagsins á tilgreindum dögum og þá fjármuni sem félaginu stóð þá til boða eða fyrirséð var að því myndi standa til boða í náinni framtíð (e. projected cashflow), án tillits til möguleika félagsins á að fjármagna skuldbindingar sínar með framtíðarlánveitingum frá Oscatello eða matsbeiðanda.
-
MARKAÐSVENJA VIÐ GERÐ SKULDATRYGGINGARSAMNINGA
-
Óskað er mats á því hvort það sé almenn venja á markaði að seljandi skuldatryggingar þurfi sjálfur að hafa fjárhagslega burði til að standa við skuldbindingar samkvæmt samningi um skuldatryggingu, þegar slíkur samningur er gerður.
-
Óskað er mats á því hvort það sé almenn viðskiptavenja meðal alþjóðlegra fjármálafyrirtækja, við gerð skuldatryggingarsamninga við félög, sem eru eins eða svipuð að eðli, uppbyggingu, heimilisfesti eða fjármögnun og Roxinda, að krefjast staðfestingar á framtíðarfjármögnun félagsins, yfirlýsingar um stuðning við félagið, tryggingar eða annars konar staðfestingar frá félaginu sjálfu eða þriðja aðila um að félagið geti staðið við skuldatryggingarsamningana, áður en slíkir samningar eru gerðir.
-
Óskað er mats á því hvort það sé almenn viðskiptavenja milli fjármálafyrirtækja við gerð skuldatryggingarsamninga að hinn undirliggjandi aðili (e. reference entity, sbr. lýsingu fyrr í matsbeiðni á eðli tilvísunar í „undirliggjandi aðila“ í skuldatryggingarsamningum) fjármagni greiðslur samkvæmt samningnum, þ.m.t. upphafs- og viðbótartryggingar.
-
Óskað er mats á því hver sé almenn viðskiptavenja um setningu trygginga við gerð skuldatryggingarsamninga, bæði í upphafi slíkra samninga og á líftíma þeirra. Er bæði óskað mats á fjárhæð slíkra tryggingar, sem og hlutfalli þeirra af heildarverðmæti samnings. Svarið óskast sundurliðað eftir því hvort seljandi skuldatryggingar sé 1) alþjóðleg fjármálastofnun, 2) banki 3) tryggingafélag, 4) vogunarsjóður eða 5) aðrir.
-
Óskað er mats á því hver sé almenn viðskiptavenja um þau viðmið sem notuð eru við gerð skuldatryggingarsamninga, svo að ákvæði um skyldu til að setja viðbótartryggingar fyrir efndum samningsins verði virkt, og hversu títt krafa verði sett fram um viðbótartryggingar.
-
Óskað er mats á því hvort það sé almenn viðskiptavenja við gerð skuldatryggingarsamninga sem alþjóðleg fjármálafyrirtæki eru aðilar að, að skilmálar um viðbótartryggingar séu byggðir á skuldatryggingaálagi hins undirliggjandi aðila (e. spread triggers).
-
Óskað er mats á því til hvaða ráðstafana kaupandi skuldatryggingar grípur að jafnaði, áður en gerður er skuldatryggingarsamningur, til að tryggja efndir samningsins, annarra en tryggingaráðstafana samkvæmt ákvæðum skuldatryggingarsamningsins sjálfs.
-
REGLUFYLGNI VIÐ GERÐ SKULDATRYGGINGARSAMNINGA
-
Óskað er mats á því hvaða formskilyrði alþjóðlegar fjármálastofnanir þurftu að uppfylla á tímabilinu frá 1. ágúst til 9. september 2008, áður en stofnað var til viðskipta með skuldatryggingar við félög sem voru sambærileg Roxinda Limited að eðli, uppbyggingu, heimilisfesti og fjármögnun. Með formskilyrðum er m.a. átt við útfyllingu og vinnslu eyðublaða tengdum reglufylgni á grundvelli sjónarmiða um hæfismat viðskiptavina (e. Know Your Client), peningaþvætti, reglufylgni og öðrum þáttum í rekstri alþjóðlegra fjármálafyrirtækja. Þess er óskað að spurningunni verði svarað m.t.t. skilyrða sem um slík viðskipti giltu á Íslandi og í Bretlandi.
-
Óskað er mats á því hvaða gagna og upplýsinga alþjóðlegum fjármálafyrirtækjum bar að afla á grundvelli þeirra formskilyrða sem lýst er í spurningu nr. 14.
-
Óskað er mats á því hvort slíkar ráðstafanir, sem lýst er í spurningu nr. 14, taki mið af markaðsaðstæðum og fjárhagslegri stöðu seljanda tryggingarinnar og hins vegar undirliggjandi félags.
-
Óskað er mats á því hverjar voru almennar markaðsvenjur hjá alþjóðlegum fjármálastofnunum við mat á fjárhagsstyrk seljanda skuldatryggingar áður en a) bankareikningur er opnaður, b) samþykkt er samningsheimild (e. credit limit) og c) gengið er til samninga við seljanda skuldatryggingar á tímabilinu frá 1. ágúst 2008 til 9. október 2008.
-
Óskað er mats á því hvort svar við spurningum nr. 14 og 17 breytist ef tekið er mið af því að seljandi skuldatryggingar nýtur fjármögnunar frá undirliggjandi aðila skuldatryggingarsamningsins.
-
Óskað er mats á því hvort matsþolar hafi uppfyllt þau formskilyrði eða gripið til þeirra ráðstafana, sem lýst er í spurningum nr. 14-18, áður en gengið var til skuldatryggingarsamninga við Roxinda dagana 7. og 13. ágúst 2008.
-
ÁHÆTTA AF VIÐSKIPTUM
-
Óskað er mats á því hversu mikil fjárhagsleg áhætta af gerð skuldatryggingarsamninganna við matsþolann MSCS, á tímabilinu frá 7. ágúst 2008 til 9. október 2008, hafi legið hjá kröfuhöfum Roxinda.
-
MARKAÐSAÐSTÆÐUR MEÐ SKULDATRYGGINGARSAMINGA MEÐ MATSBEIÐANDA SEM HIÐ UNDIRLIGGJANDI FÉLAG
-
Óskað er mats á því:
-
hver var velta (e. liquidity), framboð (e. supply) og eftirspurn (e. demand) á markaði með skuldatryggingar, þar sem matsbeiðandi var hið undirliggjandi félag, frá 1. ágúst 2008 til 9. október 2008,
-
hversu margir aðilar á alþjóðlegum fjármálamarkaði seldu skuldatryggingar með matsbeiðanda sem hið undirliggjandi félag á sama tíma og umrædd viðskipti áttu sér stað, og hvert var hlutfall hvers aðila af heildarmarkaðinum,
-
fyrir hversu háar upphæðir einstakir samningar um skuldatryggingu með matsbeiðanda sem hið undirliggjandi félag voru gerðir umrætt tímabil.
-
Þess er óskað að seljendur skuldatrygginga samkvæmt liðum b) og c) í spurningu nr. 21 verði flokkaðir sem 1) alþjóðleg fjármálafyrirtæki, 2) bankar, 3) tryggingafélög, 4) vogunarsjóðir og 5) aðrir.
-
Óskað er mats á því hversu stóran hluta af markaði með lánshæfistengdar fjármálaafurðir, með matsbeiðanda sem hið undirliggjandi félag, á tímabilinu frá 1. ágúst 2008 til 9. október 2008, var fjármagnaður af matsbeiðanda. Með lánshæfistengdum fjármálaafurðum er átt við skuldatryggingar sem eingöngu vísa til lánshæfis eins aðila (e. single name credit default swaps) og aðra fjármálagerninga, þ.m.t. lánshæfistengd skuldabréf, sem í skilmálum sínum vísa til sambærilegra skuldatrygginga.
-
Óskað er mats á því hversu hátt hlutfall skuldatryggingarsamningar matsþolans MSCS og Roxinda, sem gerðir voru dagana 7. og 13. ágúst 2008, voru af a) heildarmarkaði með skuldatryggingarsamninga þar sem matsbeiðandi var hinn undirliggjandi aðili og b) markaði með lánshæfistengda fjármálagerninga með matsbeiðanda sem hinn undirliggjandi aðila (sbr. skilgreiningu þar á í spurningu nr. 23), á tímabilinu frá 1. ágúst 2008 til 9. október 2008.
-
ÁHÆTTUTRYGGING FYRIR ÞRÓUN SKULDATRYGGINGARSAMNINGANNA
-
Óskað er mats á því hvort viðskipti á markaði með skuldatryggingar, þar sem matsbeiðandi var hinn undirliggjandi aðili, í kjölfar samninga matsþolans MSCS og Roxinda dagana 7. og 13. ágúst 2008, gefi til kynna að matsþolar hafi áhættutryggt sig (e. hedge) fyrir verðbreytingum samninganna.
-
Óskað er mats á því hvaða áhrif það hafi á verðmæti samninganna fyrir matsþola, hafi þeir ákveðið að áhættutryggja sig ekki fyrir verðþróun umræddra samninga.
-
Óskað er mats á því hvort viðskipti matsþola og Roxinda með skuldatryggingarsamninga dagana 7. og 13. ágúst 2008, hafi verið til þess fallin að hafa áhrif á markað með skuldatryggingar þar sem matsbeiðandi var hinn undirliggjandi aðili, eða á markað með skráð verðbréf útgefin af matsbeiðanda.
-
Óskað er mats á því hvort hugsanleg kaup matsþola á áhættuvörnum (e. hedge) gegn þeim skuldatryggingarsamningum sem hann gerði við Roxinda dagana 7. og 13. ágúst 2008, hefðu haft áhrif á markað með skuldatryggingar þar sem matsbeiðandi var hinn undirliggjandi aðili, eða á markað með skráð verðbréf útgefin af matsbeiðanda.
-
Ef svörin við spurningum 27 eða 28 eru á þann veg, að viðskipti sem þar er lýst væru til þess fallin að hafa áhrif á umrædda markaði, er óskað mats á því hvort alþjóðlegum fjármálastofnunum hafi borið að grípa til sérstakra ráðstafana, t.d. tengdum reglufylgni vegna hugsanlegrar markaðsmisnotkunar, áður en gengið var til sambærilegra skuldatryggingarsamninga og matsþoli gerði við Roxinda dagana 7. og 13. ágúst 2008.
-
Óskað er mats á því hvaða áhrif það hefði haft á markað með skuldatryggingar með matsbeiðanda sem hinn undirliggjandi aðila, ef upplýsingar um efni og fjárhæðir samninga matsþola og Roxinda, dagana 7. og 13. ágúst 2008, hefðu verðið gerðar opinberar. Sérstaklega er óskað mats eða lýsingar á því hvaða áhrif það hefði haft á markað með skuldatryggingar ef upplýst hefði verið opinberlega um þátt matsbeiðanda, sem hins undirliggjandi aðila í samningunum, í fjármögnun samninganna.“
III
Stefndi byggir mótmæli sín gegn matsbeiðni stefnanda á því að beiðnin uppfylli ekki skilyrði IX. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, að því er varðar efni hennar, forsendur, spurningar og rökstuðning fyrir því, hvers vegna dómkvaðningin og einstakar matsspurningar eru nauðsynlegar. Matsbeiðnin sé afar umfangsmikil og hún sé þannig í andstöðu við rétt stefnda til að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur með réttlátri málsmeðferð innan hæfilegs tíma samkvæmt 1. mgr. 70 gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Ljós sé jafnframt að vegna umfangs matsbeiðninnar sé útilokað að einn matsmaður geti svarað öllum spurningum hennar og geti það einungis leitt til frekari kostnaðar við öflun hennar. Þá telur stefndi að raunverulegur tilgangur matsbeiðninnar sé að afla gagna og upplýsinga eða að veita álit á lagaatriðum eða staðreyndum. Tilteknar matsspurningar virðist ekki vera í samhengi við málatilbúnað stefnanda í stefnu og svo óskýrar og ónákvæmar að jafnvel þótt matsmanni tækist að svara þeim, væri ekki unnt að tengja svörin við málatilbúnað í stefnu. Auk þess lúti tilteknar matsspurningar að atriðum sem hafi enga þýðingu fyrir atvik málsins eða sem enginn ágreiningur sé um. Jafnframt vísar stefndi til þess að tilteknar matsspurningar séu ýmist tilgátuspurninga eða varði atriði sem ómögulegt sé að afla gagna um. Telur stefndi að framangreind sjónarmið eigi að leiða til þess að hafnað verði í heild matsbeiðni stefnanda. Loks byggir stefndi mótmæli sín gegn matsbeiðni stefnanda á því, að ensk lög gildi um riftanleika þeirra ráðstafana sem deilt sé um í málinu. Sumar matsspurninganna krefjist þess því að matsmaður leggi mælikvarða bæði enskra og íslenskra laga á álitaefnið. Telur stefndi að framangreind sjónarmið eigi að leiða til þess að hafnað verði í heild matsbeiðni stefnanda.
IV
Stefnandi er fjármálafyrirtæki í slitameðferð samkvæmt II. kafla laga nr. 161/2002 og krefst riftunar á þeim greiðslum, sem að framan greinir, samkvæmt aðalkröfu á grundvelli 131. gr. og 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., en varakröfu 1. mgr. 137., 1. mgr. 134. og 1. mgr. 131. gr. sömu laga. Fjármálafyrirtæki í slitameðferð er heimilt að krefjast riftunar eftir sömu reglum og gilda um riftun ráðstafana við gjaldþrotaskipti, enda sé sýnt að eignir þess muni ekki nægja til að efna skuldbindingar þess að fullu, sbr. ákvæði 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Þá gilda öll ákvæði XX. kafla laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991 en fyrrgreind ákvæði eru í þeim kafla.
Samkvæmt 1. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, hefur aðili forræði á því, hverra gagna hann aflar til stuðnings kröfum sínum fyrir dómi. Sá réttur málsaðila takmarkast hins vegar af ákvæðum 3. mgr. sömu lagagreinar þar sem segir að dómari geti meinað aðila um sönnunarfærslu ef hann telur bersýnilegt að atriði, sem aðili vill sanna, skipti ekki máli eða að gagn sé tilgangslaust til sönnunar. Þá leiðir af öðrum meginreglum réttarfars, m.a. reglunni um að hraða beri meðferð máls eftir föngum, að líta verður svo á að framangreindur réttur aðila til að afla matsgerðar sé háður þeirri forsendu að slík sönnunarfærsla leiði ekki til óhóflegra tafa máls.
Fyrir liggur að rekstur máls þessa hefur tekið langan tíma sem m.a. má rekja til mjög umfangsmikillar gagnaöflunar. Hins vegar er ljóst að stefnandi málsins gerði í stefnu áskilnað um öflun matsgerðar dómkvaddra matsmanna, m.a. til að renna frekari stoðum undir málsástæður varðandi greiðslugetu og ógjaldfærni stefnanda og önnur atriði þeim tengd. Var matsbeiðni stefnanda síðan lögð fram við fyrirtöku málsins 3. október 2013 en þá var málið tekið fyrir í fyrsta sinn frá því úrskurður dómsins um að hafna frávísunarkröfu stefndu gekk hinn 1. júlí sama ár. Þegar málið var næst tekið fyrir 2. desember sama ár kröfðust stefndu þess að málinu yrði frestað þar til fyrir lægi ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins vegna annars máls. Af hálfu stefnanda var frestbeiðninni mótmælt en með úrskurði uppkveðnum 20. sama mánaðar var krafa stefndu um frestun málsins tekin til greina og málinu síðan frestað þar til framangreint álit lægi fyrir. Málið var næst tekið fyrir 28. maí 2015 og lögðu stefndu þá fram frekari gögn, m.a. mótmæli gegn matsbeiðni stefnanda.
Þegar litið er til ferils málsins er ljóst að framlagning stefnanda á matsbeiðni er ekki meginorsök þess, að töf hefur orðið á málsmeðferðinni. Að þessu virtu og meginreglunni um forræði aðila til að afla sönnunargagna í máli, telur dómurinn ekki efni til að hafna matsbeiðni stefnanda með þeim rökum einum að hún muni tefja málið óhóflega, yrði á hana fallist. Enn fremur verður henni ekki hafnað með vísan til þess að það myndi leiða til mikillar vinnu og kostnaðar fyrir stefnda ef á hana yrði fallist. Verður hér að líta til þess að öflun matsgerðar er í öndverðu á kostnað matsbeiðanda og jafnframt á hans eigin áhættu. Þá verður matsbeiðni ekki hafnað með vísan til mikils umfangs hennar og spurningafjölda að því tilskildu að matsbeiðnin teljist nægilega skýr um það, hvað eigi að meta, hvar það er sem meta á og hvað aðili hyggist sanna með mati, svo sem segir í 1. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991.
Stefndu byggja kröfu sína um höfnun á matsbeiðni stefnanda jafnframt á því að það skorti verulega á að stefnandi hafi sýnt fram á þýðingu matsbeiðninnar, bæði í heild og að því er varðar einstakar matsspurningar.
Eins og rakið hefur verið telur stefndi tilgang stefnanda með matsbeiðninni vera þann að afla gagna eða upplýsinga um tiltekin atriði frá stefnda sem geti ekki talist falla undir öflun þeirra sönnunargagna sem nauðsynleg séu til að matsmaður geti samið umbeðna matsgerð. Stefnandi mótmælir þessu og vísar til þess að umræddir skuldatryggingasamningar, sem ágreiningur málsins lúti að, séu flóknir, óvenjulegir og sérhæfðir. Í ljósi þeirra varna, sem stefndi tefli fram í greinargerð sinni, sé honum nauðsynlegt að fá sérfræðilegt mat dómkvadds matsmanns til þess að renna frekari stoðum undir málsástæður sínar til stuðnings stefnukröfum.
Eins og áður er rakið eiga málsaðilar samkvæmt 1. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 rétt á að afla og leggja fram í einkamáli þau sönnunargögn sem þeir telja málstað sínum til framdráttar og verður sá réttur ekki skertur umfram það sem leiðir af ákvæðum 3. mgr. sömu lagagreinar. Þá hefur verið litið svo á, að þótt með matsbeiðni sé leitað eftir áliti á einhverju, sem öðrum þræði snertir lagaleg atriði, myndi niðurstaða þar að lútandi í matsgerð ekki binda hendur dómara eða þrengja svigrúm hans og skyldu til að meta þau endanlega sjálfur. Geta staðhæfingar í matsbeiðni ekki skert frelsi matsmanns til að leggja á þau sjálfstætt mat. Hér verður jafnframt að líta til þess að matsbeiðandi bæri halla af því verði sönnunargildi matsgerðar rýrara en ella vegna þess að lögð hafi verið til grundvallar í mati forsenda hans sem reynist ekki eiga við rök að styðjast. Er það mat dómsins að ekki sé útilokað fyrir dómkvaddan matsmann að framkvæma umbeðið mat en stefnandi ber að lögum áhættuna af notagildi matsgerðar til sönnunar í málinu og kostnað af öflun hennar.
Loks er fallist á það með stefnanda að deiluefni máls þessa lúti að flóknum samningum og þá verður ekki séð að í framlagðri matsbeiðni sé sérstaklega farið fram á dómkvaddur matsmaður afli gagna við matið. Að þessu virtu og með vísan til ákvæða 2. mgr. 62. gr. laga nr. 91/1991 þar sem gert er ráð fyrir því að dómkvaddur matsmaður afli þeirra gagna, sem hann telur þörf á við matsvinnu, verður ekki fallist á það með stefnda að hafna beri matsbeiðni stefnanda með þeim rökum að tilgangur beiðninnar sé ónauðsynleg gagnaöflun. Þá er það mat dómsins að í matsbeiðni sé með nægjanlega skýrum hætti gerð grein fyrir tilgangi stefnanda með beiðninni. Er þar rakið að stefnandi hyggist með matsgerð sanna hversu mikil verðmæti runnið hafi til stefnda á grundvelli umþrættra skuldatryggingarsamninga, atriði er varða fjármögnun samninganna, að efni samninganna og gerð þeirra hafi verið óvenjuleg og í andstöðu við almennar viðskiptavenjur á markaði með slíka samninga, að sanna almennar venjur og reglur á alþjóðlegum skuldatryggingamarkaði, að sanna að öll fjárhagsleg áhætta af gerð samninganna hafi legið hjá stefnanda, að stefndi hafi beitt svonefndum áhættuvörnum og hvað það hafi í för með sér á almennum markaði með skuldatryggingarsamninga og loks hyggst stefnandi sanna að stefndi hefði ekki staðið til boða að gera sambærilega samninga á almennum skuldatryggingamarkaði og að upplýsingar um efni þeirra hefðu haft áhrif á þann markað.
Verður nú vikið að einstökum matsspurningum eins og þær eru settar fram í matsbeiðni.
Í kafla A í matsbeiðni er óskað mats á hversu mikil fjárverðmæti hafi verið greidd til stefnda á grundvelli umræddra skuldatryggingarsamninga, hver hafi verið almenn viðskiptakjör á markaði með skuldatryggingarsamninga með stefnanda sem undirliggjandi aðila á tilteknu tímabili og hver hagnaður stefnda hafi verið á grundvelli slíkra nánar tilgreindra samninga. Ljóst er að stefndi hefur mótmælt því sem lýst er í stefnu um þau verðmæti sem stefnandi byggir á að hafi runnið til stefnda á grundvelli umræddra samninga. Þá verður önnur spurningin ekki skilin öðruvísi en svo að hún lúti að þeirri málsástæðu stefnanda að samningarnir hafi verið óvenjulegir. Að þessu virtu verður því ekki fallist á að spurningarnar lúti að gagnaöflun stefnanda en eins og að framan er rakið er aðilum dómsmáls játað allnokkurt svigrúm við öflun matsgerðar. Þá er til þess að líta að því verður ekki slegið föstu að um sé að ræða atriði sem dómara sé fært að meta, án atbeina sérfróðra manna, sbr. ákvæði 2. mgr. 60. gr. laga nr. 91/1991.
Þriðja spurning matsbeiðanda í kafla A lýtur að því hver hafi verið hagnaður stefnda af umræddum samningum en af stefnu og greinargerð verður ráðið að djúpstæður ágreiningur er milli málsaðila að þessu leyti. Verður ekki annað séð en að þessi spurning tengist málsástæðum stefnanda fyrir endurgreiðslukröfum sínum.
Matsspurningar í kafla B lúta að fjármögnun og gjaldfærni Roxinda Limited og kveður stefnandi þær settar fram í þeim tilgangi að sanna að fjármunir fyrir skuldatryggingarsamningana hafi komið frá stefnanda en ekki Roxinda Limited en um þetta er ágreiningur í málinu sem og um gjaldfærni þess fyrirtækis. Verður því ekki fallist á það með stefnda að spurningarnar séu annað hvort eingöngu settar fram til að afla gagna eða að þær séu þýðingarlausar. Matsspurningar í kafla C lúta að því að leiða í ljós hvaða almennu venjur gildi við gerð skuldatryggingarsamninga. Samkvæmt 2. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991 ber þeim, sem ber fyrir sig venju, að sanna tilvist hennar og efni. Að þessu virtu verður ekki fallist á það með stefnda að spurningarnar séu þarflausar og það er mat dómsins að þær séu hvorki svo óskýrar að þeim beri að hafna af þeim sökum.
Í kafla D er að finna matsspurningar sem lúta að reglufylgni við gerð skuldatryggingarsamninganna. Er þar spurt um atriði er lúta að því hvaða formskilyrði alþjóðlegar fjármálastofnanir hafi þurft að uppfylla á tilteknu tímabili áður en stofnað var til viðskipta með skuldatryggingar, auk þess sem spurt er út í almennar markaðsvenjur að þessu leyti. Áður er rakið að sá, sem ber fyrir sig venju, þurfi að sanna bæði tilvist hennar og efni, svo sem stefnandi leitast við að gera. Þá lúta spurningarnar einnig að erlendum reglum á þessu sviði. Verður því ekki fallist á það með stefnda að hafna beri matsspurningum þessa kafla, að öðru leyti en að því er varðar spurningu nr. 19 sem telja verður að fjalli um atriði sem dómari leggur sjálfur mat á, sbr. ákvæði 2. mgr. 60. gr. laga nr. 91/1991.
Spurning nr. 20 í kafla E í matsbeiðni tengist matsspurningum nr. 5 og 6 um gjaldfærni Roxinda Limited á tilteknu tímabili sem dómurinn hefur fallist á að hafi þýðingu í málinu. Telst þessi matsspurning ekki þarflaus og þá er það mat dómsins að hún sé nægjanlega ákveðin og skýr.
Með matsspurningum nr. 21 – 24 í kafla F í matsbeiðni og spurningum nr. 25 -30 hyggst stefnandi afla mats sérfróðs matsmanns á því, hver áhrif skuldatryggingarsamningar hafa og um þróun á skuldatryggingamarkaði en hann byggir mál sitt á hendur stefnda m.a. á því að tilgangurinn með samningsgerðinni hafi verið sá, að lækka skuldatryggingaálag en um það er m.a. ágreiningur í málinu. Því verða ekki talin efni til að hafna matsspurningum í kafla F í matsbeiðni.
Samkvæmt framansögðu verður fallist á beiðni stefnanda um dómkvaðningu matsmanns til þess að svara matsspurningum í matsbeiðni hans að öðru leyti en að því að hafnað er beiðni stefnanda samkvæmt spurningu nr. 19.
Rétt þykir að ákvörðun málskostnaðar bíði efnisdóms í málinu.
Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Uppkvaðning úrskurðarins hefur dregist vegna embættisanna dómarans.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Fallist er á að hlutlaus og óvilhallur matsmaður verði dómkvaddur til þess að svara matsspurningum nr. 1 - 18 og 20 – 30 í matsbeiðni stefnanda. Kröfu stefnanda samkvæmt matsspurningu nr. 19 er hafnað.
Ákvörðun málskostnaðar bíður efnisdóms í málinu.