Hæstiréttur íslands

Mál nr. 799/2014


Lykilorð

  • Þjófnaður
  • Gripdeild
  • Nytjastuldur
  • Skjalafals
  • Brot gegn valdstjórninni
  • Ölvunarakstur
  • Akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna
  • Akstur án ökuréttar
  • Fíkniefnalagabrot


Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn 1. október 2015.

Nr. 799/2014.

Ákæruvaldið

(Hulda María Stefánsdóttir saksóknari)

gegn

Arnari Inga Jónssyni

(Björgvin Jónsson hrl.)

Þjófnaður. Gripdeild. Nytjastuldur. Skjalafals. Brot gegn valdstjórninni. Ölvunarakstur. Akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Akstur án ökuréttar. Fíkniefnabrot.

A var í héraði sakfelldur fyrir sjö þjófnaðarbrot, gripdeild, tvo nytjastuldi, skjalafals, brot gegn valdstjórninni, brot gegn lögum um ávana-og fíkniefni, ölvunarakstur og akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Var niðurstaða héraðsdóms staðfest í Hæstarétti að öðru leyti en því að einum ákærulið var, með vísan til 2. mgr. 186. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, vísað frá héraðsdómi þar sem A hafði áður verið sakfelldur fyrir sama brot. Var refsing A ákveðin fangelsi í 10 mánuði auk þess sem hann var sviptur ökurétti ævilangt.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 24. nóvember 2014 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er krafist staðfestingar héraðsdóms.

Ákærði krefst refsimildunar.

Brotaþolarnir N1 hf. og Hagar hf. hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti og verður því litið svo á að þeir krefjist þess að ákvæði héraðsdóms um einkaréttarkröfur þeirra verði staðfest, sbr. 1. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Með hinum áfrýjaða dómi var ákærði dæmdur fyrir margvísleg brot samkvæmt ákærum 8. júlí og 25. september 2014. Meðal annars var hann sakfelldur fyrir skjalafals samkvæmt 2. lið V. kafla fyrri ákærunnar með því að hafa 14. júlí 2013 í blekkingarskyni sett rangt skráningarnúmer á bifreið og ekið henni þannig. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 9. desember 2013 var hann sakfelldur fyrir sama brot. Verður því með vísan til 2. mgr. 186. gr. laga nr. 88/2008 að vísa þessum ákærulið frá héraðsdómi. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærða.

Ákærði hefur í máli þessu verið sakfelldur fyrir sjö þjófnaðarbrot, gripdeild, tvo nytjastuldi, skjalafals, brot gegn valdstjórninni, brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni, ölvunarakstur og akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna, svo og sviptur ökurétti. Hann hefur frá árinu 2004 margsinnis hlotið refsingu fyrir brot gegn almennum hegningarlögum nr. 19/1940 og umferðarlögum nr. 50/1987. Við ákvörðun refsingar ákærða verður litið til sakaferils hans og fjölda framangreindra brota, en á móti kemur að ákærði játaði þau skýlaust. Þá verður höfð hliðsjón af 77. og 78. gr. almennra hegningarlaga. Með dómi Héraðsdóms Norðurlands Eystra 20. nóvember 2013 var ákærði dæmdur í sex mánaða fangelsi, þar af fimm mánuði skilorðsbundið í þrjú ár. Með flestum þeim brotum sem ákærði er nú dæmdur fyrir hefur hann rofið það skilorð en ekki var tekið tillit til þess í hinum áfrýjaða dómi. Hefði því verið tilefni til að ákvarða ákærða þyngri refsingu en með vísan til kröfugerðar ákæruvaldsins verður héraðsdómur staðfestur um refsingu ákærða. Þá verða staðfest ákvæði hins áfrýjaða dóms um sviptingu ökuréttar, upptöku, sakarkostnað og einkaréttarkröfur.

Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður að öðru leyti en því að vísað er frá héraðsdómi 2. lið V. kafla ákæru 8. júlí 2014.

Ákærði, Arnar Ingi Jónsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 420.678 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Björgvins Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 372.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 20. október 2014.

Mál þetta, sem þingfest var 10. september sl. og dómtekið 26. september sl., er höfðað með tveimur ákærum lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, sú fyrri dagsett 8. júlí 2014, á hendur Arnari Inga Jónssyni, kt. [...], óstaðsettum í húsi, fyrir:

I

Líkamsárás, með því að hafa, aðfaranótt sunnudagsins 2. júní 2013, í íbúð að [...], [...], veist að I, kt. [...], með ofbeldi, ýtt á bringu hennar svo að hún féll aftur fyrir sig á gólfið með þeim afleiðingum að hún hlaut áverka og eymsli í rófubeini og á höfði.

(Mál nr. 014-2013-[...])

Telst brot þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981 og 110. gr. laga nr. 82/1998.

II.

Þjófnaði, með því að hafa:

Sunnudaginn 7. júlí 2013, í bifreið B, stolið ÓB lykli, og síðar, sunnudaginn 14. júlí 2013, á ÓB stöðinni í Grindavík, notað umræddan lykil til þess að greiða fyrir eldsneyti, að verðmæti kr. 9.680.

(Mál nr. 008-2013-[...])

Sunnudaginn 10. nóvember 2013, í verslun Hagkaups við Litlatún í Garðabæ, stolið þremur DVD mynddiskum og einni DVD þáttaröð, samtals að verðmæti kr. 14.496.

(Mál nr. 007-2013-[...])

Fimmtudaginn 12. desember 2013, í verslun Hagkaups við Litlatún í Garðabæ, stolið 2 rakspírum, samtals að verðmæti kr. 13.598.

(Mál nr. 007-2013-[...])

Föstudaginn 13. desember 2013, í íbúð að [...] í [...], stolið 2 Samsung símum og greiðslukorti, að óþekktu verðmæti. 

(Mál nr. 007-2013-065885)

Mánudaginn 6. janúar 2014, að [...], stolið Sony Ericson síma, að verðmæti kr. 20.000.

(Mál nr. 007-2014-[...])

Þriðjudaginn 21. janúar 2014, í verslun Byko í Breiddinni, Skemmuvegi 4 í Kópavogi, stolið veggfestingu fyrir kerrur og Bosch skanna, samtals að verðmæti kr. 33.385.

(Mál nr. 007-2014-[...])

Á tímabilinu frá kl. 21:00 þann 20. febrúar 2014 til kl. 8:00 þann 21. febrúar 2014, við [...] í Reykjavík, stolið tveimur númeraplötum af bifreiðinni [...], að óþekktu verðmæti.

Teljast brot þessi varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

III.

Nytjastuld, með því að hafa, miðvikudaginn 5. febrúar 2014, ekið bifreiðinni [...] án heimildar eiganda um höfuðborgarsvæðið, en bifreiðin fannst að kvöldi 6. febrúar 2014 á bifreiðaplani við [...] í Reykjavík þar sem ákærði hafði skilið hana eftir.

(Mál nr. 007-2014-[...])

Telst brot þetta varða við 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

IV.

Gripdeild, með því að hafa, fimmtudaginn 20. febrúar 2014, dælt eldsneyti á bifreiðina [...] við bensínstöð N1 Bíldshöfða í Reykjavík að andvirði kr. 14.185, og ekið á brott án þess að greiða fyrir eldsneytið.

(Mál nr. 007-2014-[...])

Telst þetta varða við 245. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

V.

Skjalabrot og umferðarlagabrot, með því að hafa:

Föstudaginn 21. febrúar 2014, í blekkingarskyni sett skráningarmerkin [...] á bifreið af gerðinni KIA Sorento, sem bera átti fastanúmerið [...], og ekið henni þannig með röngum skráningarmerkjum, sviptur ökurétti, undir áhrifum áfengis og óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist vínandamagn 0,91‰, MDMA 135 ng/ml og metýlfenídat 10 ng/ml) austur Hringbraut í Reykjavík þar sem lögregla stöðvaði aksturinn.

(Mál nr. 007-2014-[...])

Mánudaginn 14. júlí 2013, í blekkingarskyni sett skráningarmerkin [...] á bifreið af gerðinni Toyota Avensis, sem bera átti fastanúmerið [...], og ekið henni þannig með röngum skráningarmerkjum og sviptur ökurétti um ÓB bensínstöðina í Grindavík.

(Mál nr. 007-2013-[...])

                Teljast brot þessi varða við 1. mgr. 157. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 1., sbr. 2., mgr. 45. gr., 1. og 2. mgr. 45. gr. a og 1. mgr. 48. gr., allt sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 5. gr. laga nr. 66/2006.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til að sæta sviptingu ökuréttar skv. 101. og 102. gr. laga nr. 50/1987, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993, sbr. 18. gr. laga nr. 66/2006.

 Einkaréttarkröfur:

Vegna ákæruliðar II.2 gerir C, kt. [...], forstjóri Haga hf., fyrir hönd Haga, kt. 670203-2120, kröfu um að ákærði verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð kr. 14.496 auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 10. nóvember 2013 og þar til mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar en síðan dráttarvaxta samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Vegna ákæruliðar IV. gerir D, kt. [...], stöðvarstjóri N1 Bíldshöfða, fyrir hönd N1 540206-2010, kröfu um að ákærði verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð kr. 14.185 auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 20. febrúar 2014 og þar til mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar en síðan dráttarvaxta samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Seinni ákæran er útgefin 25. september sl. á hendur ákærða fyrir eftirfarandi brot gegn almennum hegningarlögum, umferðarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni að morgni þriðjudagsins 4. mars 2014, nema annað sé tekið fram:

1.   Fyrir nytjastuld, með því að hafa að morgni sunnudagsins 2. mars 2014 tekið bifreiðina [...] á leigu hjá Cargo sendibílaleigu og ekki skilað henni á umsömdum tíma og þannig notað hana í heimildarleysi og til eigin nota, uns lögregla stöðvaði aksturinn í kjölfarið á atviki sem lýst er í ákærulið 2.

Telst þetta varða við 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

2.  Fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa ekið bifreiðinni [...], óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í þvagi mældist tetrahýdrókannabínólsýra) og sviptur ökuréttindum um Vesturlandsveg í Mosfellsbæ og Reykjavík, uns lögregla stöðvaði aksturinn.

Telst þetta varða við 1. og 2. mgr. 45. gr. a., og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987.

3.  Fyrir brot gegn lögum um ávana og fíkniefni, með því að hafa í  kjölfarið á atviki sem lýst er í ákærulið 2., er lögregla framkvæmdi öryggisleit á ákærða á lögreglustöðinni við Vínlandsleið í Reykjavík, haft í vörslum sínum 5,58 g af fíkniefninu MDMA, sem lögregla fann við leit og lagði hald á.

Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 60/1980, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

4.  Fyrir brot gegn valdstjórninni, með því að hafa í kjölfarið á atviki sem lýst er í ákærulið 3., er flytja átti ákærða til vistunar á lögreglustöðinni við Hverfisgötu í Reykjavík, hótað lögreglumanninum E og fjölskyldu hans líkamsmeiðingum og lífláti og í lögreglubifreið skömmu síðar bitið í hægri framhandlegg fyrrgreinds lögreglumanns með þeim afleiðingum að hann hlaut mar og bitfar á hægri framhandlegg.

Telst þetta varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar og til að sæta sviptingu ökuréttar skv. 101. og 102. gr. laga nr. 50/1987. Jafnframt er þess krafist að gerð verði upptæk ofangreind fíkniefni sem hald var lagt á, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

Fékk síðari ákæran málanúmer S-494/2014 og voru málin sameinuð og rekin undir númeri S-373/2014.

                Ákærði kom fyrir dóminn við þingfestingu málsins og játaði þá að hafa ýtt við brotaþola eins og lýst er í ákærulið I en neitaði að um líkamsárás hafi verið að ræða eða ásetning um ofbeldi. Neitaði hann því einnig að brotaþoli hafi fengið þá áverka sem lýst er í ákæruliðnum. Ákærði játaði greiðlega aðra kafla ákærunnar og samþykkti framkomnar bótakröfur. Varð málinu frestað til aðalmeðferðar til 26. september sl. Við upphaf aðalmeðferðar var síðari ákæran kynnt ákærða. Játaði hann sök í öllum ákæruliðum. Var málið dómtekið þann 26. september sl. að aðalmeðferð lokinni.

Málsatvik.

Vegna ákærukafla I. í ákæru útgefinni 8. júlí sl.

Samkvæmt gögnum málsins voru ákærði og I gestkomandi að [...], [...]. Hafði ákærði farið á dansleik og lent í útistöðum við lögreglu. Er hann kom heim voru brotaþoli og F þar fyrir. Mun einhver ágreiningur hafa orðið milli þeirra og ákærði þá ýtt við brotaþola þannig að hún féll aftur fyrir sig. Í framhaldi var ákærði handtekinn og færður burt af heimilinu. Virðast allir aðilar hafa verið undir áhrifum vímugjafa. Þann 4. júlí 2013 fór brotaþoli til lögreglu og kærði atvikið.

Skýrslur fyrir dómi.

Ákærði kom fyrir dóminn og kvað það rétt vera að hann hefði einn farið út að skemmta sér þessa nótt en I hafi verið heima ásamt F. Hann hafi komið heim um nóttina og orðið reiður og ýtt á brjóstkassa brotaþola og sagt henni að [...]. Brotaþoli hafi dottið aftur fyrir sig en hún hafi verið mjög ölvuð. Hún hafi staðið upp og sagst finna fyrir einhverjum eymslum en ekki kvartað neitt frekar. Þau hafi farið heim daginn eftir og brotaþoli ekki kvartað yfir neinu þá. Ákærði neitaði því að um nokkur átök hafi verið að ræða. Ákærði kvað sig og I [...] vera góða vini. Ákærði kvaðst vera í afplánun um þessar mundir og vera búinn að standa sig vel, en það hafi mælst efni í honum um daginn og hann væri á meðferðargangi nú.

                Vitnið F kom fyrir dóminn og kvað nokkra hafa verið að [...] umrætt sinn að skemmta sér. Ákærði og brotaþoli hafi komið í heimsókn og í framhaldi hafi allir utan vitnisins og brotaþola farið á dansleik. Brotaþoli hafi dáið áfengisdauða. Ákærði hafi síðan komið heim með einhverjum látum og verið reiður en brotaþoli hafði þá rankað við sér og þau setið í sófa í stofunni. Ákærði hafi gengið að brotaþola og einhver öskur verið en brotaþoli og ákærði hafi þá staðið uppi. Ákærði hafi þá ýtt á brjóstkassa brotaþola þannig að hún skall niður með hnakkann í gólfið. Vitnið hafi þá gripið brotaþola og hlaupið með hana inn í herbergi og hringt þar á lögreglu. Brotaþoli hafi verið frekar vönkuð á eftir.  

                Vitnið G lögreglumaður kom fyrir dóminn og kvaðst hafa farið að [...] umrætt sinn. Lögreglan hafði haft afskipti af ákærða fyrr um kvöldið og þá ekið honum heim. Síðan hafi lögreglan fengið útkall aftur þar sem ákærði átti að vera með hníf. Lögreglan hafi farið á staðinn og ákærði komið þá á móti lögreglunni. Ákærði hafi verið handtekinn og færður á lögreglustöð. Minnti vitnið að ákærði hafi verið reiður út I en hann hafi verið rólegur. Vitnið minnti að brotaþoli hafi talað um einhverja áverka en mundi ekki hverjir þeir voru.

                Vitnið I, brotaþoli, kom fyrir dóminn og nýtti sér heimild í 2. mgr. 117. gr. laga nr. 88/2008 og kvaðst ekki svara spurningum.

Forsendur og niðurstöður.

Ákærði neitaði að hafa beitt brotaþola ofbeldi en viðurkenndi að hafa ýtt á brjóstkassa hennar með þeim afleiðingum að hún hafi dottið. Neitaði ákærði því að afleiðingar þess hafi verið eins og lýst er í ákærunni. Engin gögn voru lögð fram um afleiðingar fallsins og er eingöngu við frásögn brotaþola að styðjast. Þá neitaði brotaþoli að tjá sig fyrir dóminum þannig að frásögn hennar fyrir lögreglu fær ekki stoð í framburði hennar fyrir dómi. Þá kom einnig fram fyrir dóminum að brotaþoli hafi verið mjög drukkin umrætt sinn. Er ekki loku fyrir það skotið að ástand hennar sjálfrar hafi átt þátt í því að hún hafi dottið þegar ákærði ýtti við henni. Þá hefur það ekki verið hrakið að brotaþoli fór með ákærða til Reykjavíkur daginn eftir og kvað ákærði brotaþola ekki hafa minnst á óþægindi þá eftir fallið. Brotaþoli kvaðst hins vegar varla hafa getað gengið í þrjár vikur eftir fallið þegar hún gaf skýrslu hjá lögreglu mánuði eftir atvikið. Fær sá framburður hvorki stoð í öðrum gögnum málsins né öðrum framburði. Telur dómurinn að ósannað sé að ákærði hafi veist að brotaþola með ofbeldi eins og lýst er í ákæru með þeim afleiðingum sem þar er lýst. Verður ákæri í máli þessu að njóta vafans sem uppi er og ber að sýkna hann af þessum ákærulið.

                Ákærði hefur skýlaust játað alla aðra ákæruliði. Er játning hans í samræmi við gögn málsins og verður ákærði sakfelldur fyrir þau brot en þau eru réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

                Ákærði á langan sakaferil að baki frá árinu 2004. Þann 26. janúar 2004 var ákærði dæmdur í eins mánaðar fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára, fyrir brot gegn 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga, 1., sbr. 3., mgr. 45. gr. og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga. Þann 20. nóvember 2006 var ákærði dæmdur til greiðslu sektar fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Þann 18. október 2007 var ákærði dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára, fyrir brot gegn 209. gr. almennra hegningarlaga og var skilorðsdómur frá janúar 2004 dæmdur upp. Þann 8. apríl 2011 var ákærði dæmdur fyrir brot gegn 2. mgr. 45. gr. a umferðarlaga og fyrir að aka án þess að hafa til þess réttindi. Þann 18. júlí 2011 gekkst ákærði undir sátt vegna brota gegn 1. og 2. mgr. 45. gr. a umferðarlaga og fyrir að aka án þess að hafa til þess réttindi. Þann 29. nóvember 2011 gekkst ákærði undir tvær sektargerðir fyrir að aka sviptur ökurétti. Þann 11. júní 2012 var ákærði dæmdur í þrjátíu daga fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára, fyrir þjófnað. Þann 24. október 2013 var ákærði dæmdur til greiðslu sektar fyrir brot gegn 1., sbr. 3., mgr. 45. gr. og 1., sbr. 2., mgr. 45. gr. a umferðarlaga og að aka án þess að hafa til þess réttindi. Rauf ákærði með þeim brotum skilorð fyrri dómsins en skilorðið var látið halda sér. Þann 20. nóvember 2013 var ákærði dæmdur í sjö mánaða fangelsi fyrir brot gegn 1. mgr. 259. gr., 248. gr., 1. mgr. 244. gr. og 157. gr. almennra hegningarlaga og 1., sbr. 2., mgr. 45. gr. a umferðarlaga og að aka án þess að hafa öðlast til þess réttindi. Var skilorðsdómur frá 11. júní 2012 dæmdur upp í því máli. Þann 16. mars 2014 var ákærði dæmdur til greiðslu sektar fyrir brot gegn 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga. Þann 10. apríl 2014 var ákærða ekki gerð sérstök refsing fyrir brot gegn 244. gr. almennra hegningarlaga, 2. mgr. 37. gr., 3. mgr. 45. gr. umferðarlaga og að aka án þess að hafa öðlast til þess réttindi og þann 26. maí 2014 var ákærði dæmdur í þrjátíu daga fangelsi fyrir brot gegn 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga.

                Ákærði hefur í máli þessu verið sakfelldur fyrir að aka tvívegis undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Ákærða hefur fimm sinnum áður verið gerð refsing fyrir að aka undir áhrifum ávana-og fíkniefna og hafa þær refsingar ítrekunaráhrif við ákvörðun refsingar nú. Þá hefur ákærða tvisvar sinnum áður verið gerð refsing fyrir að aka sviptur ökurétti og hafa þær refsingar ítrekunaráhrif við ákvörðun refsingar. Ákærða hefur einu sinni áður verið gerð refsing fyrir nytjastuld sem hefur ítrekunaráhrif nú, en ákærði hefur verið sakfelldur fyrir tvö slík brot í máli þessu. Ákærða hefur margoft verið gerð refsing fyrir þjófnað en fyrir brot þau, sem ákærði er sakfelldur fyrir nú og framin eru fyrir 10. apríl 2014, verður ákærða gerður hegningarauki við þann dóm. Sömu brot 11. júní 2012, 20. nóvember 2013 og 9. desember 2013 hafa ítrekunaráhrif við hluta brotanna framin eftir þann tíma. Þá hefur dómur frá 20. nóvember 2013 ítrekunaráhrif við brot ákærða gegn 245. gr. almennra hegningarlaga. Dómur frá 9. desember 2013 hefur ítrekunaráhrif vegna brots gegn 157. gr. almennra hegningarlaga og brot ákærða þann 2. mars 2014 gegn 106. gr. almennra hegningarlaga er hegningarauki við dóm frá 26. maí 2014. Þá hefur ákærða ekki áður verið gerð refsing við broti gegn lögum um ávana- og fíkniefni.

                Með hliðsjón af sakaferli ákærða er refsing hans ákveðin fangelsi í tíu mánuði. Ákærði játaði brot sín skýlaust við þingfestingu málsins. Ákærða hefur þrisvar áður verið gerð skilorðsbundin refsing sem hann hefur ítrekað rofið. Þykir dóminum því ekki tilefni til að skilorðsbinda refsinguna nú. Þá ber að svipta ákærða ökurétti ævilangt. Að auki verður upptökukrafa ákæruvaldsins tekin til greina. Loks verður ákærði dæmdur til greiðslu sakarkostnaðar. Í yfirliti yfir sakarkostnað er krafa um rannsókn á morfíni í þvagi og blóði. Ekki er ákært fyrir slíkt brot og verður ákærði ekki dæmdur til að greiða þann kostnað. Ákærði verður því dæmdur til að greiða annan sakarkostnað vegna málsins, sem er samtals 241.783 krónur, auk 3/4 hluta málsvarnalauna skipaðs verjanda síns, Guðmundar St. Ragnarssonar, sem er hæfilega ákveðin 375.500 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum. Annar sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði. 

                Í málinu liggja fyrir tvær bótakröfur sem ákærði hefur samþykkt að greiða. Verður hann dæmdur til greiðslu þeirra eins og greinir í dómsorði.

Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D ó m s o r ð :

                Ákærði, Arnar Ingi Jónsson, skal sæta fangelsi í tíu mánuði.

Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt.

Ákærði sæti upptöku á 5,58 g af MDMA.

Ákærði greiði 241.783 krónur í sakarkostnað auk 3/4 hluta málsvarnalauna skipaðs verjanda síns, Guðmundar St. Ragnarssonar, sem eru samtals 375.500 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum en 1/3 greiðist úr ríkissjóði.

Ákærði greiði C, kt. [...], vegna Haga, kt. 670203-2120, 14.496 krónur auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 10. nóvember 2013 til 26. október 2014 en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði D, kt. [...], vegna N1,  kt. 540206-2010, 14.185 krónur auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 20. febrúar 2014 til 26. október 2014 en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.