Hæstiréttur íslands

Mál nr. 267/2002


Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Vopnalög
  • Upptaka


Fimmtudaginn 21

 

Fimmtudaginn 21. nóvember 2002.

Nr. 267/2002.

Ákæruvaldið

(Sigríður Jósefsdóttir saksóknari)

gegn

Sævari Erni Helgasyni

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

 

Líkamsárás. Vopnalög. Upptaka.

S var gefið að sök að hafa þrívegis gerst sekur um líkamsárás á hendur Z á árinu 2000, auk brots gegn vopnalögum. Var S sakfelldur fyrir brot gegn 217. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa ráðist að Z í júlí 2000, tekið hann kverkataki og hert að þar til hann hafi misst meðvitund og fallið í gólfið, en við það hlaut hann ýmsa áverka. Þá var hann og sakfelldur fyrir brot gegn sama ákvæði með því að hafa ráðist að Z í ágúst 2000 og beygt aftur fingur hans svo fingurinn tognaði. S var einnig fundinn sekur um brot gegn vopnalögum með því að hafa haft rafmagnsstuðbyssu í vörslum sínum. Var mótbára S um að byssan gæti ekki talist vopn í skilningi vopnalaga ekki tekin til greina og byssan gerð upptæk. Jafnframt var S sakfelldur fyrir að hafa ekið á Z svo hann kastaðist upp á vélarhlíf bifreiðar S og þaðan yfir bifreiðina og í götuna. Var niðurstaða héraðsdóms um 15 mánaða fangelsisvist S staðfest.

 

Dómur Hæstaréttar.

          Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

          Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 4. júní 2002 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar héraðsdóms á sakfellingu og upptöku, en þyngingar á refsingu. Þá er þess krafist að honum verði gert að greiða Zhang Tongxiang 1.200.000 krónur í miskabætur.

          Ákærði krefst aðallega sýknu en til vara að refsing verði milduð. Einnig krefst hann frávísunar bótakröfu og kröfu um réttargæsluþóknun, en til vara að bótafjárhæð verði lækkuð.

          Eins og nánar er lýst í héraðsdómi er ákærða gefið að sök að hafa þrívegis gerst sekur um líkamsárás á hendur Zhang Tongxiang á árinu 2000, 7. júlí, 5. ágúst og 20. sama mánaðar, auk brots gegn vopnalögum 19. ágúst 2000.

          Með vísan til forsendna héraðsdóms er staðfest niðurstaða hans um sakfellingu og heimfærslu til refsiákvæða vegna þeirra líkamsárása, sem fjallað er um í I. og II. kafla ákæru.

          Í IV. kafla ákæru, eins og henni var breytt af hálfu ákæruvalds við framhald aðalmeðferðar málsins 12. apríl 2002, er ákærða gefið að sök að hafa haft rafmagnsstuðbyssu í vörslum sínum 19. ágúst 2000. Ákærði hefur játað að hafa haft byssuna í vörslum sínum umrætt sinn og fær sú játning stoð í framburði vitnanna Zhang Tongxiang, Rui Jia og Xibei Zhang fyrir dómi. Hann hefur hins vegar haldið því fram að byssan geti ekki talist vopn í skilningi 1. gr. vopnalaga nr. 16/1998 þar sem hún sé notuð til varnar en ekki til að skaða, eins og áskilið sé í ákvæðinu. Á þetta verður ekki fallist. Í c. lið 2. mgr. 30. gr., sbr. 36. gr. vopnalaga, er lagt bann við vörslum rafmagnsvopna. Hefur ákærði með vörslum rafmagnsstuðbyssunnar gerst sekur um brot á þessu ákvæði og skal hún gerð upptæk með vísan til 1. mgr. 37. gr. sömu laga. Hann er hins vegar hvorki ákærður fyrir innflutning byssunnar né eignarhald og verður því ekki sakfelldur fyrir þá háttsemi. 

          Í umfjöllun héraðsdóms um V. kafla ákæru er vísað til þess að vitnið Xibei Zhang hafi séð Zhang Tongxiang kastast upp á vélarhlíf bifreiðar ákærða og þaðan yfir bifreiðina og í götuna. Um þetta sagði vitnið fyrir dómi að þær mæðgurnar hafi hlaupið upp brekkuna á bifreiðageymslunni undan bifreiðinni, sem verið hafi á miklum hraða, en Zhang Tongxiang hafi ekki náð að forða sér. Hún hafi ekki sjálf séð þegar hann lenti á bifreiðinni. Að þessu athuguðu og að öðru leyti með skírskotun til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu og heimfærslu til refsiákvæða vegna líkamsárásar ákærða samkvæmt þessum kafla ákæru.

Í héraðsdómi er þess ranglega getið að ákærði hafi tvívegis sætt nálgunarbanni gagnvart Zhang Tongxiang, en hið rétta er að í síðara skiptið, í lok janúar 2002, beindist bannið ekki að honum heldur að framangreindum mæðgum og öðrum nafngreindum manni. Þá er sagt í niðurstöðum dómsins að ákærði hafi ekið yfir Zhang Tongxiang, en ljóst er af framburði vitna að ákærði ók á fyrrgreindan mann en ekki yfir hann. Með þessum athugasemdum og að öðru leyti með vísun til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um refsingu ákærða, bótakröfu og málskostnað. Frá refsingu ákærða skal draga gæsluvarðhald hans frá 22. til 28. ágúst 2000.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og nánar greinir í dómsorði.        

Dómsorð:

          Héraðsdómur skal vera óraskaður að öðru leyti en því að frá refsingu ákærða, Sævars Arnar Helgasonar, skal draga gæsluvarðhald hans frá 22. til 28. ágúst  2000.

          Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 150.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 23. apríl 2002.

I.

Þetta mál, sem var dómtekið 12. apríl sl., er höfðað með ákæru ríkissaksóknara útgefinni 21. maí 2001 gegn Sævari Erni Helgasyni, kt. 140844-5789, Reykja­víkurvegi 68, Hafnarfirði, „fyrir eftirtalin brot gegn almennum hegningarlögum í júlí og ágúst 2000:

I.

Fyrir líkamsárás, með því að hafa föstudaginn 7. júlí 2000, í húsnæði Kínversku nuddstofunnar að Hamraborg 20a, Kópavogi, gripið um háls Zhang Tongxiang, kt. 130558-2249, ýtt honum upp að vegg og hert að hálsi hans þannig að hann missti meðvitund, féll í gólfið og lenti í fallinu með höfuðið á tröppu, með þeim afleiðingum að hann hlaut heilahristing, sár á höfði, tognun í hálsi og tognun í millirifjavöðvum í brjóstkassa.

Telst þetta varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

II.

Fyrir líkamsárás með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 5. ágúst 2000, í húsnæði Kínversku nuddstofunnar að Hamraborg 20a, Kópavogi, ráðist að Zhang Tongxiang, gripið um og beygt aftur þumalfingur hægri handar hans með þeim afleiðingum að fingurinn tognaði.

Telst þetta varða við 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

III.

Fyrir eignaspjöll, með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 19. ágúst 2000, kastað steini í útidyrahurð að Hamraborg 20a, Kópavogi, með þeim afleiðingum að rúða brotnaði.

Telst þetta varða við 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

IV.

Fyrir líkamsárás og brot gegn vopnalögum, með því að hafa um hádegisbil laugardaginn 19. ágúst 2000, haft í vörslum sínum rafmagnsstuðbyssu af gerðinni Panther, beint byssunni að Zhang Tongxiang, á nuddstofunni, Hamraborg 20a, Kópavogi og gefið honum rafstuð úr byssunni, með þeim afleiðingum að hann féll þar niður nokkrar tröppur.

   Telst þetta varða við 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 og 30. gr. sbr. 36. gr. vopnalaga nr. 16, 1998.

V.

Fyrir líkamsárás, með því að hafa sunnudaginn 20. ágúst 2000, ekið bifreiðinni LI-886, á mikilli ferð austur bifreiðageymslu í Hamraborg í Kópavogi, þannig að bifreiðin lenti á Zhang Tongxiang, með þeim afleiðingum að hann marðist og hlaut yfirborðsáverka á mjöðm og læri.

Telst þetta varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar. Einnig er þess krafist að ofangreind rafstuðbyssa af gerðinni Panther verði gerð upptæk samkvæmt 2. mgr. 37. gr. vopnalaga nr. 16, 1998 og 69. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

Bótakrafa:

Zhang Tongxiang, kt. 130558-2249, Grenigrund 6, Kópavogi, krefst þess að ákærði verði dæmdur til að greiða sér kr. 1.200.000 í miskabætur, kr. 195.000 vegna vinnutaps og kr. 48.600 fyrir lögfræðiaðstoð þ.m.t. virðisaukaskattur.“

Við framhalds aðalmeðferð málsins þann 12. apríl sl. féll fulltrúi ákæruvaldsins frá kröfu samkvæmt ákærulið III. Varðandi ákærulið IV. gerði fulltrúi ákæruvalds þá breytingu að einungis er ákært fyrir brot gegn c-lið 2. mgr. sbr. 1. mgr. 30. gr. vopnalaga nr. 16/1998 og krafist upptöku á rafmagnsstuðbyssu af gerðinni Panther á grundvelli 1. mgr. 37. gr. sömu laga. 

Ákærði krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins í málinu en til vara að honum verði gerð vægasta refsing sem lög frekast leyfa og að hún verði skilorðsbundin.  Þá krefst hann þess að bótakröfu í málinu verði vísað frá dómi en til vara að hún verði lækkuð verulega.  Að auki krefst hann hæfilegra málsvarnarlauna til handa skipuðum verjanda sínum, Hilmari Ingimundarsyni hrl.

Réttargæslumaður brotaþola gerir kröfu um að ákærði verði dæmdur til að greiða Zhang Tongxiang 1.200.000 krónur í miskabætur og 48.600 krónur vegna lögfræðiaðstoðar en í þinghaldi 5. júlí 2001 hafði hann fallið frá kröfu um bætur vegna vinnutekjutaps að fjárhæð 195.000 krónur.  Réttargæslumaður krefst þess að dæmd verði hæfileg þóknun úr ríkissjóði vegna starfa hans.

Í þinghaldi 30. ágúst 2001 samþykkti ákærði þau tilmæli fulltrúa ákæruvaldsins að hann gengist undir geðrannsókn.  Ákveðið var að fela Tómasi Zoëga geðlækni að framkvæma rannsóknina.  Lá niðurstaða geðlæknisins fyrir 27. nóvember 2001 og var lögð fyrir réttinn í þinghaldi þann 4. desember 2001.

Við aðalmeðferð málsins var tekin skýrsla af ákærða.  Einnig báru vitni, Rui Jia, eiginkona ákærða, Xibei Zhang stjúpdóttir ákærða, Zhang Tongxiang, nuddari á Kínversku Nuddstofunni og Wang Bin sem varð vitni að atburði sem lýst er í ákærulið nr. IV.  Tómas Zoëga geðlæknir staðfesti geðrannsókn sem hann framkvæmdi á ákærða undir rekstri málsins.  Stefán Rúnar Bjarnason bar vitni varðandi atburð þann sem lýst er í ákærulið nr. II.  Varðandi ákærulið V. báru vitni auk þeirra þriggja vitna sem fyrst voru nefnd, Víðir Gunnarsson, Ívar Örn Þráinsson og Ellen Sif Sævarsdóttir.  Auk þeirra kom fyrir dóminn sem vitni rannsóknaralögreglumaðurinn Páll Sigurðsson en hann sá um rannsókn á vettvangi varðandi ákærulið nr. V.

II.

Málsatvik eru í stuttu máli þau að ákærði og vitnið Rui Jia eru í hjónabandi en hjónaskilnaðarmál er í gangi á milli þeirra.  Rui Jia hefur rekið nuddstofu í Hamraborg 20a, Kópavogi.  Býr hún í húsnæði nuddstofunnar ásamt dóttur sinni, vitninu Xibei Zhang.  Þegar þeir atburðir gerðust sem þetta mál fjallar um bjó þar einnig kínverskur nuddari, vitnið Zhang Tongxiang.  Var hann á þeim tíma starfsmaður nuddstofunnar.

Vert er að nefna að vitnið Rui Jia kveðst, frá því að hún og ákærði slitu samvistir hafa orðið fyrir verulegu ónæði af hans völdum.  Var ákærða gert að sæta nálgunarbanni samkvæmt 110. gr. a. laga nr. 19/1991, sbr. 3. gr. laga nr. 94/2000 í sex mánuði, vegna framkomu sinnar gagnvart nefndri Rui Jia, Xibei Zhang og Zhang Tongxiang, með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness uppkveðnum þann 4. september 2000.  Úrskurður þessi var staðfestur í Hæstarétti.  Eftir að nálgunarbann þetta hafði runnið sitt skeið á enda hófst áreiti ákærða gagnvart nefndum einstaklingum að nýju og var ákærði því enn dæmdur í nálgunarbann í Héraðsdómi Reykjaness og var sá úrskurður staðfestur í Hæstarétti 30. janúar sl.

Hér á eftir verður fjallað um atvik og vitnisburði varðandi hvern ákærulið fyrir sig og sett fram niðurstaða um hvort ákærði sé sannur að sök varðandi þann ákærulið.  Í III. kafla mun fjallað um ákvörðun refsingar í einu lagi vegna allra ákæruliða.

Málsatvik varðandi I. ákærulið eru þau að lögreglan í Kópavogi var kölluð til um klukkan 22:00 að kvöldi föstudagsins 7. júlí 2000 vegna átaka milli ákærða og vitnisins Zhang Tongxiang, sem átt hafi sér stað í húsnæði Kínversku nuddstofunnar að Hamraborg 20a, Kópavogi.  Í kjölfar átakanna var vitnið Zhang sendur í sjúkra­bifreið á slysa- og bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi.  Samkvæmt læknisvottorði sem er meðal gagna málsins var sjúkdómsgreining sem Zhang fékk við komu á slysadeild, sú að hann væri með heilahristing, sár á höfði, tognun í hálsi og tognun í millirifjavöðvum í brjóstkassa.  Þegar atburður þessi átti sér stað var ákærði á staðnum ásamt vitninu Zhang, vitninu Xibei og vitninu Rui. 

Vitnið Zhang lýsti atvikum svo í framburði sínum fyrir dómi að vitnið hefði verið að vinna þegar ákærði kom inn á nuddstofuna og vildi nota símann.  Kvað vitnið að vitnið Rui hafi ekki viljað leyfa ákærða þetta og hafi þau farið að rífast.  Hafi vitnið þá reynt að ganga á milli en þá hafi ákærði snúið sér við og gripið um háls þess og hert að þar til það hafi misst meðvitund.  Kvaðst vitnið hafa fengið skurð á augabrún, líklega þegar það hafi fallið meðvitundarlaust í gólfið.

Ákærði lýsti sama atburði svo fyrir dómi að hann hafi verið að ræða við eiginkonu sína (vitnið Rui) þegar vitnið Zhang hafi ráðist að honum.  Kveðst ákærði hafa ýtt Zhang frá sér og hafi hann lent á spegli sem sé þarna á vegg og hafi vitnið þá látið sig detta í gólfið.  Í fallinu hafi vitnið fengið skurð á ennið.  Ákærði fullyrti að hann hefði ekki ýtt vitninu af neinu afli og að vitnið hefði leikið það að falla í gólfið og eins meðvitundarleysi sitt í framhaldi af því.  Ákærði kvað vitnið Zhang hafa legið hreyfingarlaust á gólfinu þar til sjúkrabifreið kom á staðinn.  Taldi ákærði að vitnið hefði ekki verið meðvitundarlaust en kvaðst ekki hafa gáð sérstaklega að því.  Ákærði kvað vitnið ekki hafa reynt að bera fyrir sig hendurnar þegar það féll í gólfið og taldi ákærði það bera vott um það hversu vel vitnið hafi leikið yfirlið sitt. 

Vitnið Rui lýsti sama atburði með þeim hætti að ákærði hafi komið inn á nuddstofuna og verið með læti.  Ákærði hafi farið í símann og vitnið hafi reynt að banna honum það og þau hafi farið að rífast.  Vitnið Zhang hafi reynt að gefa ákærða til kynna að hann ætti að róa sig niður en þá hafi ákærði tekið um kverkar Zhangs og hert að þar til hann hafi misst meðvitund og fallið í gólfið.  Í fallinu hafi höfuð Zhang slegist utan í og hann fengið skurð á augabrún og í framhaldi af því hafi verið kallað á sjúkrabifreið og farið hafi verið með Zhang á slysadeild.  Vitnið kvað af og frá að vitnið Zhang hafi átt upptök að þessum átökum.

Vitnið Xibei Zhang bar fyrir dómi að ákærði hefði tekið með greip annarrar handar um háls vitnisins Zhang og ýtt honum upp að vegg með áföstum spegli, síðan hafi vitnið Zhang fallið niður og hafi rekið höfðið í tröppu í fallinu.  Þegar vitnið var spurt um það hvort Zhang hefði misst meðvitund kvaðst það hafa reynt að tala til hans eftir að hann hafi fallið í gólfið en ekki fengið svar.

Samkvæmt framburði vitna og ákærða sjálfs er það óumdeilt að vitnið Zhang reyndi að ganga á milli í deilu ákærða og vitnisins Rui.  Ákærði kveðst hafa ýtt við vitninu og að það hafi þóst falla í gólfið við það og í fallinu hafi það rekið höfuðið í og fengið skurð yfir augabrún.  Af framburði ákærða er ljóst að hann ber ekki brigður á það að vitnið Zhang hafi fallið í gólfið og fengið við það áverka á augabrún.  Ákærði hefur hins vegar haldið því fram að hann hafi aðeins ýtt lítillega við vitninu og alls ekki það fast að vitnið ætti að falla í gólfið af þeim sökum.  Framburður vitnanna Rui og Xibei er hins vegar á annan veg.  Vitnin lýsa því að ákærði hafi tekið vitnið Zhang kverkataki og hafi hert að þar til vitnið hafi misst meðvitund og hafi fallið í gólfið.  Verður því að telja sannað með framburði vitnanna að ákærði hafi tekið vitnið Zhang kverkataki með þeim afleiðingum að vitnið missti meðvitund og að í fallinu hafi það hlotið þá áverka sem lýst er í læknisvottorði frá slysa- og bráðamóttöku sem fyrir liggur í málinu og áður er vitnað til.  Einnig kemur fram í nefndu læknisvottorði að ekki sé hægt að útiloka að rif séu brákuð.  Ekki hefur verið leitt í ljós að rif hafi brákast.  Þegar litið er til þeirra áverka sem hlutust af atlögu ákærða að vitninu Zhang telst brot hans réttilega heimfært til 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en ekki til 1. mgr. 218. gr. sömu laga eins og gert er í ákæruskjali. Verður ákærði því sakfelldur fyrir brot gegn 217. gr.almennra hegningarlaga. 

Varðandi ákærulið nr. II. eru málsatvik þau að um klukkan 04:45 aðfaranótt laugardagsins 5. ágúst 2000 var lögreglan í Kópavogi kvödd að Kínversku nudd­stofunni í Hamraborg 20a, Kópavogi en þar hafði komið til átaka á milli ákærða og vitnisins Zhang Tongxiang.  Þegar lögregla kom á vettvang var ákærði þar og var hann handtekinn.  Var farið með ákærða í framhaldi af því á slysa- og bráðamóttöku Landspítalans og að því loknu var hann vistaður í fangageymslu.  Af handtökuskýrslu yfir ákærða má ráða að hann hefi verið mjög drukkinn og kom það og fram í skýrslu ákærða fyrir dómi.  Samkvæmt læknisvottorði sem gefið var út vegna komu ákærða á slysadeild í umrætt sinn var greiningin sem hann fékk að hann væri með mar og yfirborðsáverka á augum.  Vitnið Zhang Tongxiang fór á slysadeild eftir að átökum hans og ákærða lauk og fékk samkvæmt læknisvottorði þá greiningu að hann væri með tognun á fingri.

Ákærði kvaðst fyrir dómi lítið muna um atburð þennan þar sem hann hafi verið verulega ölvaður þegar hann átti sér stað.  Það eina sem hann kveðst muna er að hann hafi legið á gólfinu og að Zhang hafi legið ofan á honum og hafi slegið hann mörg högg í andlitið.

Vitnið Zhang lýsti atvikum svo að umrædda nótt hafi verið brotin rúða í nuddstofunni og að lögregla hafi verið kvödd til vegna þess máls en hafi verið nýfarin þegar ákærði hafi komið inn á nuddstofuna og ráðist beint að vitninu og tekið það kverkataki með báðum höndum.  Vitnið hafi þá reynt að grípa í hendur ákærða til að losa takið en þá hafi ákærði tekið um þumalfingur hægri handar vitnisins og sveigt hann aftur.  Kvaðst vitnið þá hafa óttast að það myndi missa meðvitund eins og í fyrri viðureign þeirra og því hafi það slegið ákærða eitt högg og við það hafi ákærði fallið við og sleppt takinu.  Vissi vitnið ekki nákvæmlega hvar höggið lenti en kvaðst hafa slegið beint fram fyrir sig.  Vitnið fullyrti að það hefði aðeins greitt ákærða þetta eina högg og kvað ákærða hafa veitt mikla mótspyrnu við handtöku og því gætu áverkar sem hann hlaut átt uppruna sinn að einhverju leyti í þeim átökum. 

Aðrir sem báru vitni fyrir dómnum varðandi þennan atburð voru Rui Jia, Xibei Zhang og Stefán Rúnar Bjarnason.  Síðastnefnda vitnið var á staðnum til að fram­kvæma viðgerð vegna rúðubrots sem fyrr var minnst á. 

Vitnunum Rui og Xibei ber saman um að það hafi verið ákærði sem réðst að vitninu Zhang og að Zhang hafi einungis slegið ákærða eitt högg til að verja sig.  Vitnið Stefán sá ekki upphaf átakanna en kvaðst hafa séð þá takast á og að ákærði hafi ýtt Zhang afturábak og að Zhang hafi þá slegið ákærða og við það hafi ákærði fallið í gólfið.  Aðspurt kvað vitnið að Zhang hafi ekki fylgt þessu höggi sínu eftir og hafi vitninu virst hann frekar vera hræddur.

Þegar framburðir vitna eru virtir heildstætt og eins læknisvottorð vegna komu vitnisins Zhang á slysadeild í beinu framhaldi átakanna, er það mat dómsins að nægilega sé í ljós leitt að í umrætt sinn hafi ákærði ráðist á vitnið Zhang og tekið um kverkar honum og þegar vitnið hafi reynt að losa hendur ákærða af hálsi sér hafi ákærði sveigt aftur fingur þess með þeim afleiðingum að fingurinn tognaði.  Er það mat dómsins að með framburði vitna sé það í ljós leitt að vitnið Zhang sló ákærða aðeins eitt högg til að verjast árás hans.  Sú fullyrðing ákærða að vitnið Zhang hafi slegið hann oft eftir að ákærði hafi fallið í gólfið verður að teljast ólíkleg, einkum ef horft er til vitnisburðar vitnisins Stefáns sem sá þegar ákærði féll í gólfið og lýsti því að honum hafi fyrst og fremst virst vitnið Zhang vera hrætt og hafi því ekki fylgt eftir því höggi sem það hafi veitt ákærða.  Í ljósi þessa verður ákærði því sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í II. lið ákæruskjals og er þar réttilega heimfærð til  217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Varðandi lið IV. í ákæruskjali, hefur ákærði viðurkennt í skýrslu sinni hér fyrir dómi að hafa fest kaup á rafmagnsstuðbyssu af gerðinni Panther og hafa flutt hana til landsins og að hafa haft umrædda stuðbyssu í vörslum sínum þegar lögreglan í Kópavogi lagði hald á hana þann 19. ágúst 2000.  Kvaðst ákærði ekki hafa gert sér grein fyrir því að um ólöglegt vopn væri að ræða.

Innflutningur, eignarhald og varsla ákærða á nefndri rafstuðbyssu er skýrt brot á c. lið 2. mgr. 30. gr. vopnalaga nr. 16/1998 og ber því að sakfella hann fyrir brot á því ákvæði.  Fallist er á kröfu ákæruvaldsins um að nefnd rafstuðbyssa skuli gerð upptæk í ríkissjóð í samræmi við 1. mgr. 37. greinar sömu laga.

Varðandi V. lið í ákæruskjali eru málsatvik þau að lögreglan í Kópavogi var kölluð að bílageymsluhúsi við Hamraborg í Kópavogi laust eftir klukkan 15 sunnudaginn 20. ágúst 2000, vegna þess að þar hefði verið ekið á mann og ökumaður hafi horfið af vettvangi.  Á grundvelli upplýsinga sem fengust frá vitnum að atburðinum var ákærði handtekinn skömmu síðar og færður í fangageymslur.  Í framhaldi af því fór sýslumaðurinn í Kópavogi fram á gæsluvarðhald yfir ákærða en þeirri kröfu var endanlega hafnað með dómi Hæstaréttar þann 28. ágúst 2000.  Ákærði hefur síðan tvívegis verið dæmdur til að sæta nálgunarbanni gagnvart vitnunum Rui Jia, Zhang Tongxiang og Xibei Zhang. 

Atvik voru nánar tiltekið með þeim hætti að sunnudaginn 20. ágúst 2000 voru vitnin Xibei Zhang, Rui Jia og Zhang Tongxiang að ganga til bifreiðar sinnar í bílageymslu við Hamraborg í Kópavogi.  Kom ákærði akandi inn í bílageymsluna og var akstursstefna hans til austurs.  Voru vitnin þá að ganga til vesturs niður brekku milli hæða í bílageymslunni í beinni sjónlínu við þann stað þar sem ákærði ók inn í bílageymsluna.  Virðist Zhang Tongxiang hafa gengið fremstur og síðan Rui Jia og Xibei Zhang hafi rekið lestina.  Kveðast síðastnefndu vitnin hafa tekið eftir að ákærði ók inn í bílageymsluna á nokkurri ferð og stefndi á þau.  Hafi þau þá snúið við og hlaupið upp brekkuna.  Af myndum sem teknar voru af vettvangi og liggja fyrir í gögnum málsins má sjá að brekka þessi er afmörkuð af steinveggjum á báðar hliðar og því ekki um það að ræða að hægt sé að víkja sér út af akbrautinni nema alveg efst eða neðst í brekkunni.  Vitnin Rui og Xibei kveðast hafa komist alla leið upp og í skjól en vitnið Zhang hafi verið nokkuð á eftir þeim og hafi ákærði ekið bifreið sinni á það þannig að það hafi kastast upp á vélarhlíf bifreiðarinnar og þaðan yfir bifreiðina og hafi svo fallið í götuna, en ákærði hafi ekið viðstöðulaust í burtu og af vettvangi.  Eru vitnin sammála um að ákærði hafi ekið hratt og að hann hafi ætlað sér að keyra á þau.  Vitnin Rui og Zhang bera að ákærði hafi ekið utan í steinvegg sem afmarkar akbrautina á þessum stað þeim megin sem vitnið  Zhang hafi verið að hlaupa og hafi það greinilega verið gert í þeim tilgangi að vitnið kæmist ekki undan bifreiðinni.  Vitnunum Rui og Zhang ber saman um það að ákærði hafi ekið hratt og frekar aukið ferðina eftir því sem hann nálgaðist vitnið Zhang og að hann hafi ekki gert tilraun til að bremsa áður en hann ók á vitnið.  Ennfremur ber vitnið Rui að ákærði hafi ekki sveigt bifreið sinni frá veggnum fyrr en eftir að hann hafði ekið á Zhang.

Ákærði lýsti atvikum svo að hann hefði verið þarna akandi á bifreiðinni LI-886.  Hann hafi ætlað sér að ná tali af eiginkonu sinni, vitninu Rui og hafi í þeim tilgangi ekið fram hjá Hamraborg 20a.  Hann hafi síðan ekið inn í bílageymsluna og séð vitnið Zhang og hafi ákærði ætlað að hræða vitnið.  Ákærði kveðst hafa verið á lítilli ferð en bifreið hans hafi veri með bilaðan hljóðkút og því hafi heyrst nokkuð hátt í henni.  Kveðst ákærði hafa ætlað að keyra nálægt vitninu og sveigja síðan frá veggnum.  Þegar ákærði hafi ætlað að sveigja frá þá hafi vitnið hins vegar gengið út á akbrautina fyrir bifreiðina.  Þegar þetta hafi gerst og vitnið hafi lent á bílnum hafi ákærða brugðið svo að hann hafi ekið beint af vettvangi.  Kvað ákærði vitnið ekki hafa verið á flótta þegar hann ók á það, heldur hafi það labbað út á götuna án þess að átta sig á því hvað það væri að gera.  Ákærði kvað sig hafa ekið utan í steinvegginn sem afmarkar akbrautina mun neðar en vitnið hafi staðið.  Ákærði neitaði því að um ásetning af hans hálfu hefði verið að ræða.  Í lögregluskýrslu sem tekin var af ákærða daginn eftir umræddan atburð er framburður hans nokkuð á annan veg en fyrir dómi.  Þá er haft eftir ákærða að hann hafi ekið í átt að vitninu Zhang og hafa haldið sig þeim megin sem vitnið hafi gengið niður brekkuna.  Þegar hann hafi komið að vitninu hafi hann reynt að beygja frá en ekki getað það þar sem bifreiðin hafi legið utan í veggnum og því hafi hann ekið á vitnið með þeim afleiðingum að vitnið hefði kastast upp á vélarhlífina, upp á topp bifreiðarinnar og yfir hana.  Í nefndri skýrslu kemur og fram eins og í framburði ákærða hér fyrir dómi að það hafi ekki verið ásetningur hans að aka á vitnið.

Vitnin, Víðir, Ívar og Ellen báru um þennan atburð.  Lýsa vitni þessi atburðum mjög með sama hætti og vitnin Rui, Xibei og Zhang.  Eru þau sammála um að þau hafi séð tvær konur og einn mann á flótta undan bifreið sem ekið hafi verið hratt upp brekku í bílageymslunni.  Konurnar hafi náð að forða sér en maðurinn ekki.   Kveða vitnin að bifreiðinni hafi verið ekið utan í steinvegg þeim megin í brekkunni sem maðurinn hafi verið að hlaupa og að hraði bílsins hafi frekar aukist heldur en hitt þegar bíllinn nálgaðist manninn.  Kveða vitnin að maðurinn hafi kastast upp á vélarhlíf bifreiðarinnar og síðan á götuna og að bifreiðinni hafi ekki verið sveigt frá veggnum fyrr en eftir að henni hafði verið ekið á manninn.  Öll töldu vitnin að atburðarásin öll hefði verið með þeim hætti að enginn vafi væri í þeirra huga um að ökumaður hafi ætlað sér að aka á manninn.

Fyrir dóminn komu fimm vitni, auk vitnisins Zhang sem varð fyrir bifreið ákærða, og hafa öll borið um að um augljóst ásetnigsverk hafi verið að ræða.  Vitnin hafa og öll borið um það að bifreiðinni hafi verið ekið hratt miðað við aðstæður, þó ekkert verði fullyrt um á hvaða hraða ákærði ók.  Er það mat dómsins, með vísan til þess sem að framan er rakið, að komin sé fram lögfull sönnun um það að ákærði hafi ætlað sér að aka á vitnið Zhang og að sá ásetningur hans hafi verið einbeittur.  Verður að telja að ásetningur ákærða til verksins hafi skapast þegar ákærði ók inn í bifreiðageymsluna og sá vitnin Zhang, Rui og Xibei ganga niður fyrrnefnda brekku.  Afleiðingar árásarinnar fyrir brotaþola urðu ef til vill minni en efni stóðu til, en telja verður það mikla mildi að ekki fór verr.  Að mati dómsins verður að telja að háttsemi ákærða feli í sér líkamsárás með stórhættulegu tæki og er því fallist á heimfærslu ákæruvaldsins til 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.  Afleiðingar árásarinnar urðu ekki eins miklar og hættueiginleikar hennar gefa til kynna en það verður að telja mikla mildi eins og hér stóð á að ekki hlaust af stórfellt líkamstjón eða jafnvel bani.  Árásin var hins vegar ófyrirleitin og gerð með hættulegri aðferð í skilningi 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Í ákæru er ekki krafist refsingar vegna brota á umferðarlögum og ekki er þess heldur krafist að ákærði verði sviptur ökurétti.  Verður ákærða því ekki gerð refsing í dómi þessum fyrir brot sín á umferðarlögum né verður hann sviptur ökurétti.

III.

Í niðurstöðu geðrannsóknar Tómasar Zoëga geðlæknis á ákærða kemur fram að viðskipti ákærða við eiginkonu sína Rui Jia hafi verið með sérstökum hætti, séu óuppgerð og sýnist vera orsakaþáttur í deilum þeirra.  Kveður geðlæknirinn að ekki sé hægt að finna afbrigði við þroska eða andlegt og líkamlegt ástand ákærða.  Segir því næst að það sé mat geðlæknisins að engin merki séu um það að ákærði hafi verið haldinn virkri geðveiki, andlegum vanþroska eða hrörnun, rænuskerðingu eða öðru samsvarandi ástandi sem hafi haft það í för með sér að hann hafi ekki getað stjórnað gerðum sínum þegar atburðir sem lýst sé í ákæruskjali hafi átt sér stað.  Með hliðsjón af þessari niðurstöðu geðrannsóknar er það mat dómsins að ákærði sé sakhæfur.

Samkvæmt sakavottorði ákærða á hann að baki nokkurn brotaferil fram til ársins 1991.  Geta brot þessi ekki haft áhrif við ákvörðun refsingar í máli þessu og verða því ekki rakin hér.

Eins og fram hefur komið var ákærði dæmdur til að sæta nálgunarbanni m.a. gagnvart Zhang Tongxiang, brotaþola í máli þessu, í kjölfar þeirra atvika sem hann er hér sakfelldur fyrir.  Í úrskurði Héraðsdóms Reykjaness frá 4. september 2000 sem staðfestur var í Hæstarétti 8. september 2000 segir orðrétt:

„Samkvæmt framansögðu er ljóst að varnaraðili hefur á undanförnum vikum ítrekað raskað friði Rui Jia, Xibei Zhang og Zhang Tongxiang með ofsóknum, ónæði að næturlagi, ofbeldi og hótunum um beitingu ofbeldis, en vettvangur háttseminnar er yfirleitt í eða við heimili þeirra og starfsstöð að Hamraborg 20a í Kópavogi.  Bera rann­sóknargögn málsins með sér að stígandi hefur verið í þeim ofsóknum og keyrði um þverbak er varnaraðili veitti fólkinu eftirför í fólksbifreið og ók á Zhang Tongxiang 20. ágúst síðastliðinn.  Að þessu virtu má fallast á með sóknaraðila að rökstudd ástæða sé til að ætla að varnaraðili muni fremja afbrot gagnvart umræddu fólki eða að minnsta kosti halda áfram að raska friði þess verði ekki tafarlaust gripið í taumana.“ 

Virðist ákærði hafa virt nálgunarbann þetta, en þegar það hafði runnið sitt skeið á enda hóf ákærði að nýju að áreita Jui Ria, Xibei Zhang og Zhang Tongxiang.  Leiddi þetta til þess að ákærða var að nýju gert að sæta nálgunarbanni gagnvart nefndum einstaklingum með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness sem staðfestur var í Hæstarétti þann 30 janúar sl. eins og áður hefur komið fram.  Þykir því sýnt að ákærði hefur ekki bætt ráð sitt og hefur haldið áfram áreiti sínu gagnvart brotaþola í þessu máli og hefur auk þess hafnað því alfarið að honum beri að greiða brotaþola bætur vegna misgerða sinna við hann.  Þetta háttalag verður metið ákærða til refsiþyngingar sbr. 5. tl. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.  Einnig er það til refsiþyngingar varðandi þá háttsemi sem lýst er í V. kafla ákæruskjals að vilji ákærða var styrkur og einbeittur, árás hans var ófyrirleitin, hætta sú sem skapaðist var veruleg gagnvart heilsu brotaþola og að hann yfirgaf vettvang án þess að huga að líðan þess manns sem hann hafði keyrt yfir, sbr. 1., 3., 6., og 8. tl. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.  Til refsimildunar varðandi sama ákærulið verður horft til þess að meiðsli virðast ekki hafa orðið mikil, sbr. 2. tl. sömu greinar almennra hegningarlaga.  Síðasttalið sjónarmið á og við gagnvart ákærulið II.  Einnig verður horft til þess að ákærði hefur ekki áður hlotið dóm fyrir ofbeldisverk og að hann hefur ekki hlotið refsingu frá árinu 1991.  Refsing ákærða vegna þeirra brota sem hann er nú sakfelldur fyrir og varða við 217. og 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga, verður ákveðin í einu lagi í samræmi við 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og þykir hæfilegt með vísan til þess sem að framan er rakið að ákærði sæti fangelsi í 15 mánuði.  Engin efni eru til að skilorðsbinda refsinguna eins og atvikum er háttað í máli þessu.

Brotaþoli Zhang Tongxiang hefur krafist miskabóta að fjárhæð 1.200.000 krónur auk greiðslu vegna lögmannsaðstoðar að fjárhæð 48.600 krónur.  Með vísan til þess sem að framan er rakið þykir ákærði, með ítrekuðum ofbeldisbrotum sínum gagnvart Zhang Tongxiang, sem náðu hámarki þegar hann ók hann niður á bifreið sinni, hafa bakað sér bótaskyldu gagnvart honum á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og þykja bætur vegna þessa hæfilega metnar 250.000 krónur.  Tekið er tillit til vinnu réttargæslumanns við framsetningu bótakröfu við ákvörðun þóknunar hans hér á eftir.

   Rafmagnsstuðbyssa af gerðinni Panther sem er í eigu ákærða en nú í vörslum lögreglunnar í Kópavogi er gerð upptæk til ríkissjóðs sbr. 1. mgr. 37. gr. vopnalaga nr. 16/1998.

Með vísan til 165. gr. laga nr. 19/1991 ber að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar og eru þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Hilmars Ingimundarsonar hrl. sem þykja hæfilega ákveðin 250.000 krónur og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Þórðar Clausen Þórðarsonar hrl. sem þykir hæfilega ákveðin 100.000 krónur.

   Sveinn Sigurkarlsson, héraðsdómari, kveður upp þennan dóm.

DÓMSORÐ

Ákærði, Sævar Örn Helgasons, sæti fangelsi í 15 mánuði. 

Ákærði sæti upptöku á rafmagnsstuðbyssu af gerðinni Panther.

Ákærði greiði Zhang Tongxiang, 250.000 krónur í miskabætur.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hrl., 250.000 krónur og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Þórðar Clausen Þórðarsonar hrl., 100.000 krónur.