Hæstiréttur íslands
Mál nr. 335/2003
Lykilorð
- Dómsuppkvaðning
- Ómerking
- Heimvísun
|
|
Mánudaginn 5. janúar 2004. |
|
Nr. 335/2003. |
Rá ehf. Rúnar S. Gíslason og Gunnar Rósinkranz (Gestur Jónsson hrl.) gegn Nandos ehf. (sjálfur) |
Dómsuppsaga. Ómerking. Heimvísun.
Héraðsdómur var ómerktur og málinu vísað heim í hérað til munnlegs málflutnings og dómsuppsögu að nýju, þar sem ekki hafði verið fylgt fyrirmælum síðari málsliðar 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason og Pétur Kr. Hafstein.
Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 25. ágúst 2003. Þeir krefjast aðallega ómerkingar héraðsdóms en til vara sýknu. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Mál þetta var flutt og dómtekið í héraði 26. maí 2003. Héraðsdómur var kveðinn upp rúmum sjö vikum síðar hinn 16. júlí og var ekki sótt þing af hálfu áfrýjenda, eins og bókað var í þingbók. Þar var jafnframt skráð, að lögmenn og dómari væru sammála um, að málflutningur að nýju væri óþarfur. Í greinargerð sinni til Hæstaréttar andmælir lögmaður áfrýjenda þessari síðarnefndu bókun og kveður ekkert samráð hafa verið við sig haft um þetta.
Samkvæmt þessu fór uppkvaðning héraðsdómsins í bága við 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Ber að ómerkja dóminn og vísa málinu heim í hérað til málflutnings og dómsuppsögu að nýju.
Rétt er, að hver aðila beri sinn kostnað af þessum þætti málsins fyrir Hæstarétti.
D ó m s o r ð:
Héraðsdómur skal vera ómerkur og er málinu vísað heim í hérað til málflutnings og uppsögu dóms að nýju.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 16. júlí 2003.
Mál þetta, sem tekið var til dóms að loknum munnlegum málflutningi þann 26. maí sl. er höfðað með stefnu útgefinni 3. janúar 2003 og var málið þingfest þann 14. janúar 2003.
Stefnandi málsins er Nandos ehf., [kt.], Leirubakka 34-36, Reykjavík.
Stefndu eru Rúnar S. Gíslason, [kt.], Miðvangi 53, Hafnarfirði, Rá ehf. [kt.], Bolholti 6, Reykjavík og Gunnar Rósinkranz, [kt.] Skólavörðustíg 10, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndu verði dæmdir in solidum til greiðslu skuldar að fjárhæð kr. 4.000.000,00 auk dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 20. desember 2002 til greiðsludags, kr. 11.350,00 í stimpil- og afsagnarkostnað auk málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti eftir framlögðum virðisaukaskatti.
Stefndu krefjast aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda, en til vara er krafist stórfelldrar lækkunar á stefnukröfum.
Jafnframt krefjast stefndu þess, að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefndu málskostnað að skaðlausu samkvæmt gjaldskrá Lögmanna Mörkinni ehf. og að við málskostnaðarákvörðun verði gætt að skyldu stefndu til að greiða 24,5% virðisaukaskatt af þóknun málsins. Málskostnaðar er krafist óháð úrslitum málsins.
Málavextir:
Krafa stefnanda er byggð á víxli að fjárhæð kr. 4.000.000,00, útgefnum af stefnda, Rúnari Gíslasyni, hinn 23. 05. 2002 og samþykktum af stefnda, Rá ehf., til greiðslu við sýningu í Búnaðarbanka Íslands hf., Reykjavík. Víxillinn er ábektur af útgefanda og stefnda, Gunnari Rósinkranz. Á víxilinn er skráð, að hann sé án afsagnar. Víxillinn var sýndur í Búnaðarbanka Íslands hf. í Reykjavík og afsagður þann 20. desember 2002. Á víxilinn eru skráð orðin: „Tryggingarvíxill sbr. 2. gr. makaskiptasamnings dags. 17. maí ´02.”
Málsástæður stefnanda:
Stefnandi rekur mál þetta samkvæmt ákvæðum 17. kafla laga nr. 91/1991 og vísar auk þess til laga nr. 93/1933, einkum sjöunda kapítula.
Málsástæður stefndu:
Stefndu benda á, að víxill sá, sem krafa stefnanda byggist á, sé áritaður um að hann sé tryggingarvíxill, sbr. makaskiptasamning dags. 17. maí ´02.
Varnir stefndu byggist á því, að stefnandi eigi enga lögvarða kröfu á hendur stefndu, hvað þá höfuðstólsfjárhæð, kr. 4.000.000, eins og stefnandi gerir kröfu til, auk vaxta og málskostnaðar, enda hafi verið boðnar fram efndir þeirra skuldbindinga, sem víxlinum var ætlað að tryggja. Engin efnisleg skilyrði samkvæmt meginreglum kröfuréttar og skaðabótaréttar séu til að innheimta tryggingarvíxilinn. Innheimtan á víxlinum sé ólögmæt, hvernig sem á málið er litið.
Niðurstaða:
Stefnandi hefur lagt fram víxil, sem er í samræmi við málavaxtalýsingu hans að öllu leyti. Víxillinn fullnægir formskilyrðum víxla skv. víxillögum nr. 93/1933 og getur víxilhafi neytt allra þeirra réttinda, sem víxillinn veitir honum, sbr. 19. gr. sömu laga.
Stefndu hafa ekki haft uppi neinar þær varnir, sem koma má að í málinu skv. 118. gr. laga nr. 91/1991, og öðrum vörnum verður ekki komið að án samþykkis stefnanda.
Samkvæmt framansögðu verða kröfur stefnanda, Nandos ehf., teknar til greina að öllu leyti.
Málskostnaður ákveðst kr. 600.000.
Dóm þennan kveður upp Logi Guðbrandsson, héraðsdómari.
D ó m s o r ð:
Stefndu, Rá ehf., Rúnar S. Gíslason og Gunnar Rósinkranz, greiði in solidum stefnanda, Nandos ehf., kr. 4.000.000,00 auk dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 20. desember 2002 til greiðsludags, kr. 11.350,00 í stimpil, og afsagnarkostnað og kr. 600.000 í málskostnað.