Hæstiréttur íslands

Mál nr. 456/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Lögbann
  • Grennd


Mánudaginn 28

 

Mánudaginn 28. ágúst 2006.

Nr. 456/2006.

Arngunnur Regína Jónsdóttir og

Helgi Rúnar Rafnsson

(Eiríkur Elís Þorláksson hdl.)

gegn

Birni Andrési Bjarnasyni

(Jón Höskuldsson hdl.)

 

Kærumál. Lögbann.Grennd.

A og H kröfðust lögbanns við áframhaldandi framkvæmdum við viðbyggingu ofan á hús B. Vísað var til þess að sú skerðing, sem A og H vildu hindra, væri þegar orðin, enda viðbyggingin risin. Þá var ekki fallist á að þau gætu stutt kröfu sína við að B myndi bæta réttarstöðu sína í dómsmáli, sem A og H ætluðu að höfða með kröfu um niðurrif viðbyggingarinnar, ef ekki yrði lagt bann við frekari framkvæmdum innanhúss. Kröfu þeirra um lögbann var því hafnað.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 18. ágúst 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. ágúst 2006, en með honum var hafnað kröfu sóknaraðila um að felld yrði úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík 4. sama mánaðar þar sem synjað hafði verið kröfu þeirra um að lögbann yrði lagt á áframhaldandi framkvæmdir við fasteign varnaraðila að Suðurhúsum 4 í Reykjavík. Kæruheimild er í 1. mgr. 35. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl., sbr. 4. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, eins og henni var breytt með 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að lagt verði fyrir sýslumanninn í Reykjavík að leggja lögbann við því að varnaraðili haldi áfram framkvæmdum við viðbyggingu framangreindrar fasteignar. Þá krefjast þeir málskostnaðar í héraði auk kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Verði fallist á kröfu sóknaraðila um lögbann gerir varnaraðili þá kröfu að þeim verði þeim gert að leggja fram tryggingu að fjárhæð 15.000.000 krónur. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Gögn málsins bera með sér að viðbygging sú ofan á hús varnaraðila, sem málsaðilar deila um, sé þegar risin. Sóknaraðilar telja að með viðbyggingunni sé brotinn á þeim réttur sem efnislega felist í því að hún skyggi á hús þeirra, meðal annars verði viðbyggingin beint fyrir stofuglugga þess. Af þessu er ljóst að þegar er orðin sú skerðing sem sóknaraðilar vilja hindra með lögbanni. Þau hafa þrátt fyrir þetta rökstutt kröfu sína með því að með frekari framkvæmdum innanhúss muni gerðarþoli bæta réttarstöðu sína í dómsmáli sem sóknaraðilar kveðast munu höfða með kröfu um niðurrif viðbyggingarinnar. Ekki verður á það fallist að þessi sjónarmið geti stutt kröfu þeirra um lögbann við framkvæmdum við hús varnaraðila. Lögbanni verður aðeins beitt til að hindra athafnir sem sennilegt má telja að muni, ef þær hefjast eða halda áfram, brjóta gegn rétti þess sem lögbanns leitar, sbr. 24. gr. laga nr. 31/1990.

Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur um annað en málskostnað, sem með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður felldur niður en ákvæðið gildir um mál þetta samkvæmt 1. mgr. 35. gr. laga nr. 31/1990, sbr  1. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur um annað en málskostnað.

Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. ágúst 2006.

          Mál þetta var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur hinn 14. ágúst sl. og tekið til úrskurðar 15. ágúst sl.

          Sóknaraðilar eru Arngunnur Regína Jónsdóttir, kt. [...] og Helgi Rúnar Rafnsson, kt. [...], bæði til heimilis að Suðurhúsum 2, 112 Reykjavík.

          Varnaraðili er Björn Andrés Bjarnason, kt. [...], Suðurhúsum 4, 112 Reykjavík.     

          Dómkröfur sóknaraðila eru þær að felld verði úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík frá 4. ágúst 2006 um að synja um lögbann í máli nr. L-27/2006 og að lagt verði lögbann við því að framkvæmdum við fasteign varnaraðila að Suðurhúsum 4 verði haldið áfram. Þá er þess krafist að varnaraðila verði gert að greiða þeim málskostnað.

          Dómkröfur varnaraðila eru þær að hafnað verði öllum kröfum sóknaraðila í málinu og staðfest verði ákvörðun sýslumannsins í máli nr. L-27/2006. Verði fallist á kröfu sóknaraðila um lögbann er þess krafist að sóknaraðilum verði gert að leggja fram tryggingu fyrir skaðleysi varnaraðila vegna lögbannsins að fjárhæð kr. 15.000.000. Þá er þess krafist að sóknaraðilum verði gert að greiða varnaraðila málskostnað in solidum að mati dómsins.

I.

          Málavextir eru þeir að á árinu 2005 sótti varnaraðili um byggingarleyfi til viðbyggingar á fasteign sinni að Suðurhúsum 4. Stærð fasteignar hans var 240 fermetrar og nýtingarhlutfall 0,33. Samkvæmt umsókn varnaraðila skyldi húsið verða 269,7 fermetrar og nýtingarhlutfallið 0,37. Í deiliskipulagi svæðisins var gert ráð fyrir að stærðir húsa væru ekki yfir 250 fermetrum og að nýtingarhlutfall færi ekki yfir 0,34. Erindið var tekið fyrir af skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar hinn 12. apríl 2005, og liggur bréf hans dagsett 14. apríl frammi í málinu. Þar koma ofangreindar upplýsingar fram en auk þess segir, að í skipulagsskilmálum komi ekki skýrt fram að 2 hæða hús séu óheimil á lóðum í Suðurhúsum. Vegna byggingarmagnsaukningar sem sótt hafi verið um fari byggingarmagn á lóðinni 19,7 fermetra yfir leyfilegt hámarksbyggingarmagn og teljist það óveruleg aukning. Séu fordæmi fyrir því að leyfilegt hámarksbyggingamagn sé yfirstigið til að mynda á lóð nr. 10. Uppbygging á lóðum á þessum svæði hafi orðið þannig að á þeim flestum væru tveggja hæða hús. Var mælt með því að ekki yrði gerð athugasemd við erindið og var sú niðurstaða staðfest á fundi skipulagsfulltrúa 15. apríl 2005. Framkvæmdir varnaraðila hófust hinn 3. ágúst sl.

          Sóknaraðilar fóru fram á það við sýslumanninn í Reykjavík, að lögbann yrði lagt við framkvæmdum varnaraðila með bréfi dagsettu 3. ágúst sl. Beiðnin var tekin fyrir hinn 4. ágúst sl. og fóru aðilar máls á vettvang ásamt aðstoðardeildarstjóra sýslumanns. Ákvörðun sýslumanns um að synja gerðarbeiðendum um framgang lögbannsins lá fyrir þann sama dag. Til grundvallar þeirri ákvörðun lá það mat sýslumanns að við skoðun á vettvangi hafi komið í ljós að framkvæmd varnaraðila hafi verið komin það langt á veg að ekki hafi verið talið að um að ræða byrjaða eða yfirvofandi framkvæmd í skilningi 24. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann og fleira.

II

          Sóknaraðilar byggja kröfur sínar á því að úrlausn sýslumannsins í Reykjavík fái ekki staðist með neinu móti og sé niðurstaða hans í brýnni andstöðu við einfalda orðskýringu lagaákvæðisins. Telur sóknaraðili aðgerðir á vegum varnaraðila ekki það langt á veg komnar að ekki sé tækt að stöðva þær. Eigi þeir lögvarða og verulegra hagsmuna að gæta um að framkvæmdir verði stöðvaðar þegar í stað. Fyrir liggi að bygging varnaraðila verði um 270 fermetrar en deiliskipulag geri aðeins ráð fyrir 250 fermetra húsnæði á lóðum á þessu svæði. Því brjóti byggingin í bága við skipulags- og byggingalög nr. 73/1997 sem áskilja að byggt sé í samræmi við byggingaleyfi, sbr. 43. gr. laganna. Þá hafi engin grenndarkynning fram eins og kveðið sé á um í 7. mgr. 43. gr. laganna, enda sé í þessu tilviki um að ræða slíka óverulega breytingu á deiliskipulagi sem kveðið sé á um í lagaákvæðinu. Ferlið við veitingu byggingaleyfis hafi því verið ólögmætt og geti viðbyggingin ekki grundvallast á leyfinu. Verði af framkvæmdum sé ljóst að bygging varnaraðila muni skyggja mjög á byggingu gerðarbeiðanda en byggt sé beint fyrir stofuglugga sóknaraðila. Telja sóknaraðilar að þeir hafi mátt treysta því að ekki yrði byggt við fasteign varnaraðila án þess að unnið yrði nýtt deiliskipulag eins og skipulags- og byggingalög geri ráð fyrir. Í þeim tilvikum sem hús hafi verið stækkuð í nágrenni sóknaraðila sé um að ræða hús sem standi í landhalla. Sóknaraðilar telji augljóslega líklegt að réttindi sín fari forgörðum verði þau látin bíða dóms um réttindi sín. Haldi varnaraðili framkvæmdum áfram gefist honum kostur á að halda því fram að eyðilegging verðmæta hamli því að fallast megi á kröfu um ógildingu og bæti þannig stöðu sína að lögum með ólögmætum framkvæmdum.

          Af hálfu varnaraðila er á því byggt að varnaraðili hafi hafist handa við framkvæmdir hinn 3. ágúst sl. á grundvelli byggingaleyfis frá byggingafulltrúanum í Reykjavík. Fram hafi komið í umsögn skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar að fordæmi séu fyrir því að í götunni hafi risið hús sem hafi yfirstigið leyfilegt hámarksbyggingamagn þeirrar húsgerðar sem um ræðir. Viðbygging varnaraðila hafi verið reist á rúmum sólarhring og henni lokað. Fari því fjarri að viðbyggingin sé á frumstigi og skammt á veg komin eins og glögglega hafi sést þegar farið hafi verið á vettvang við meðferð lögbannsmálsins hjá sýslumanni. Þá hafi sóknaraðilar ekki sýnt fram á það í málinu eða gert sennilegt að hugsanleg réttindi þeirra fari forgörðum, þurfi sóknaraðilar að bíða dóms um þau.

III

          Dómari málsins fór á vettvang hinn 15. ágúst. Mátti þá sjá að viðbygging sú sem um ræðir að Suðurhúsum 4 í Reykjavík er þegar risin á þaki hússins. Framkvæmdum við bygginguna er þó ekki að fullu lokið og frekari framkvæmdir standa enn yfir. Fyrir liggur sú ákvörðun sýslumanns að vísa varakröfu sóknaraðila frá, en hún tók til þess að lögbann yrði lagt við framkvæmdum við viðbygginguna innanhúss.           

          Við mat á því hvort skilyrði lögbanns séu uppfyllt samkvæmt 24. gr. laga nr. 31/1990 skal litið til þess hvort gerðarbeiðandi hafi sannað eða gert sennilegt að, í þessu tilviki byrjuð athöfn, sem gerðarþoli hafi þegar hafist handa við, brjóti gegn lögvörðum rétti hans, á þann hátt að réttindi hans muni fara forgörðum eða verða fyrir teljandi spjöllum verði hann knúinn til að bíða dóms um þau.

          Þegar litið er til málavaxta allra og gagna málsins er ekki útilokað að brotið hafi verið gegn lögvörðum rétti þeirra. Mat á því byggir meðal annars á túlkun á ákvæðum skipulagslaga um útgáfu byggingaleyfis og hvernig að því var staðið. Úr því verður ekki leyst í máli þessu. Hins vegar hafa sóknaraðilar ekki sýnt fram á að réttindum þeirra verði raskað með frekari framkvæmdum varnaraðila verði þau knúin til að bíða dóms um þau. Verður þannig ekki séð að sóknaraðilar hafi slíka hagsmuni af lögbanninu, eins og hér háttar til, að unnt sé að fallast á kröfu þeirra um lögbann og er kröfu þeirra um að fella úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík frá 4. ágúst sl. því hafnað.

          Eftir úrslitum málsins verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila 150.000 krónur í málskostnað.

          Allan Magnússon héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

 

Úrskurðarorð

          Kröfu sóknaraðila, Arngunnar Regínu Jónsdóttur og Helga Rúnars Rafnssonar er hafnað. Sóknaraðilar skulu greiða varnaraðila, Birni Andrési Bjarnasyni, 150.000 krónur í málskostnað.