Hæstiréttur íslands

Mál nr. 178/2001


Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Ákæruvald
  • Brotaþoli


Fimmtudaginn 29

 

Fimmtudaginn 29. nóvember 2001.

Nr. 178/2001.

X

(Lára V. Júlíusdóttir hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Skarphéðinn Þórisson hrl.)

                                              

Skaðabætur. Ákæruvald. Brotaþoli.

 

X var stödd ein í bifreið kunningja síns þar sem hún hafði leitað afdreps vegna ölvunar á nýársdag 1994. Kom þá nafngreindur maður inn í bifreiðina og hafði við hana samfarir, en hún kvaðst ekki hafa komið neinum vörnum við vegna ölvunarástands síns. Var maðurinn handtekinn þar á staðnum og málið rannsakað í kjölfarið. Leiddi það til þess að hann var ákærður 15. febrúar sama árs og var athæfi hans talið varða við 196. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Maðurinn fór hins vegar til Grænlands 19. febrúar sama árs áður en tekist hafði að birta honum ákæruna og fyrirkall. Að tilhlutan ríkissaksóknara var þess krafist án árangurs að dönsk stjórnvöld framseldu manninn til Íslands svo unnt yrði að ljúka meðferð dómsmálsins gegn honum. Var síðan leitað eftir því að opinbert mál yrði höfðað gegn honum í Danmörku, en þeirri málaleitan var einnig hafnað af þarlendum yfirvöldum í október 1997. Í kjölfarið lýsti ríkissaksóknara því yfir að ekki yrði séð að ákæruvaldið gæti aðhafst frekar í málinu. Af þessu tilefni höfðaði X skaðabótamál á hendur íslenska ríkinu. Var málatilbúnaður hennar reistur á því að ríkissaksóknara hafi orðið á mistök við rekstur málsins, sem kenna megi um að hinn ákærði hafi ekki hlotið dóm og þar með refsingu, en með því hafi ríkissaksóknari stuðlað að tjóni hennar. Benti hún meðal annars á að ríkissaksóknari hefði látið undir höfuð leggjast að krefjast gæsluvarðhalds eða farbanns yfir manninum, sem væri erlendur ríkisborgari, þótt ljóst væri samkvæmt yfirlýsingu, sem lögregla hafði eftir honum í skýrslu 26. janúar 1994, að hann hygðist fara úr landi. Í dómi Hæstaréttar segir að sú skylda hvíli á ákæruvaldi að hlutast til um að mál séu rannsökuð og þeim síðan lokið svo fljótt, sem kostur er, og með þeim hætti, sem eðlilegt getur talist. Sé út af brugðið geti það varðað þann starfsmann ríkisins ábyrgð, sem hlut á að máli. Aðgerðir ákæruvalds, sem feli í sér tilteknar þvingunarráðstafanir, geta jafnframt leitt til bótaskyldu gagnvart þeim, sem fyrir þeim verður, eftir ákvæðum XXI. kafla laga nr. 19/1991 eða almennum reglum skaðabótaréttar. Sú aðstaða sé ekki fyrir hendi gagnvart þeim, sem verði fyrir tjóni af völdum brotamanns. Tjónþolinn skuli eiga þess kost að koma að bótakröfu í máli gegn hinum brotlega, en að öðru leyti sé ekki réttarsamband milli tjónþola og ákæruvalds. Sé hvorki tjónþola né öðrum ætlað að hafa áhrif á einstakar ákvarðanir ríkissaksóknara í tengslum við framkvæmd ákæruvalds, en um þær njóti ríkissaksóknari sjálfstæðis í starfi. Eigi það eins við um mat hans á því hvort nauðsyn sé fyrir hendi, sem réttlæti að krefjast þess að grunaður maður eða ákærður sæti þvingunarráðstöfunum. Af framanröktu leiði að tjónþoli geti ekki haft síðar uppi bótakröfu á hendur íslenska ríkinu með vísan til þess að aðgerða eða frekari aðgerða hafi verið þörf gagnvart ætluðum brotamanni heldur en þeirra, sem handhafi ákæruvalds greip til. Var íslenska ríkið því sýknað af kröfu X.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 22. maí 2001. Hún krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 6.483.449 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 23. september 1999 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr.   6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem henni var veitt fyrir héraðsdómi.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Málið var upphaflega dómtekið í héraði við lok aðalmeðferðar 12. janúar 2001. Við uppkvaðningu hins áfrýjaða dóms 22. febrúar sama árs lýstu aðilarnir því yfir að þeir teldu ekki þörf á að flytja málið að nýju og var dómarinn því sammála, sbr. 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

I.

Málið er sprottið af atviki, sem gerðist aðfaranótt 1. janúar 1994. Áfrýjandi var þá stödd ein í bifreið kunningja síns á bílastæði í miðborg Reykjavíkur, þar sem hún hafði leitað afdreps vegna ölvunar. Kom þá nafngreindur maður inn í bifreiðina og hafði við hana samfarir, en hún kveðst ekki hafa komið neinum vörnum við vegna ölvunarástands síns. Var maðurinn handtekinn þar á staðnum og málið rannsakað í kjölfarið. Leiddi það til þess að hann var ákærður 15. febrúar 1994 og var athæfi hans í ákæru talið varða við 196. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Maðurinn fór hins vegar til Grænlands 19. febrúar sama árs áður en tekist hafði að birta honum ákæruna og fyrirkall. Er fram komið að hann hafi ekki eftir það komið aftur til Íslands. Að tilhlutan ríkissaksóknara var þess krafist án árangurs að dönsk stjórnvöld framseldu manninn til Íslands svo unnt yrði að ljúka meðferð dómsmálsins gegn honum. Var síðan leitað eftir því að opinbert mál yrði höfðað gegn honum í Danmörku, en þeirri málaleitan var einnig hafnað af þarlendum yfirvöldum í október 1997. Var því síðan lýst yfir af ríkissaksóknara í bréfi til áfrýjanda 4. nóvember sama árs að ekki yrði séð að ákæruvaldið gæti aðhafst frekar í málinu. Hinn 27. október 1998 ákvað bótanefnd samkvæmt lögum nr. 69/1995 um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota að áfrýjanda skyldu greiddar 300.000 krónur í skaðabætur og 83.737 krónur í lögmannsaðstoð vegna atviksins 1. janúar 1994.

Málatilbúnaður áfrýjanda er á því reistur að ríkissaksóknara hafi orðið á mistök við rekstur málsins, sem kenna megi um að hinn ákærði hafi ekki hlotið dóm og þar með refsingu, en með þessu hafi ríkissaksóknari stuðlað að tjóni áfrýjanda. Er bent á margs konar ætluð mistök, en einkum sýnist þó lagt upp úr því að ákæruvaldið hafi látið undir höfuð leggjast að krefjast gæsluvarðhalds eða farbanns yfir ætluðum brotamanni, sem sé erlendur ríkisborgari, þótt ljóst væri samkvæmt yfirlýsingu, sem lögreglan hafði eftir honum í skýrslu 26. janúar 1994, að hann hygðist fara úr landi. Er málatilbúnaðurinn að öðru leyti skýrður svo að ákæruvaldinu hafi borið að gera almennar ráðstafanir til að gæta hagsmuna áfrýjanda, þannig að hún fengi notið þjónustu, sem einstaklingur í sömu stöðu eigi rétt á af hálfu ríkisins. Telur hún þann rétt sinn varinn af ákvæðum stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála og er í því sambandi sérstaklega tilgreind friðhelgi einkalífs. Ákæruvaldi beri að gæta þess að brotamenn fái refsingu fyrir misgerðir sínar og að brotaþolar fái með því uppreisn æru og öðlist aftur sjálfsvirðingu sína. Það hafi brugðist í þessu máli. Sé þessari skyldu ekki sinnt og brot liggi refsilaust án ástæðu stofnist skaðabótaskylda vegna tjóns, sem brotaþoli verði fyrir af þessum sökum. Segist áfrýjandi ekki geta sætt sig við að ákærði hljóti ekki verðskuldaðan dóm. Vegna aðgerðarleysis síns eigi ákæruvaldið sök á því að hún hafi ekki náð bata á andlegri heilsu sinni meðan svo standi sakir. Á því verði stefndi að bera ábyrgð.

Af hálfu stefnda er mótmælt að bótaskylda geti hafa stofnast vegna aðgerða eða aðgerðaleysis ákæruvalds í málinu. Hlutverk ákæruvalds sé að gæta hagsmuna, sem séu af meiði opinbers réttar, og brotaþoli eigi engan aðgang að ákæruvaldi utan þess að gefa beri honum kost á að gera bótakröfu, sem dæma megi í væntanlegu máli, sbr. 170. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Eigi sakarreglan því alls ekki við þegar litið sé til þess hversu vel eða illa aðgerðir ákæruvalds gagnvart brotlegum manni í hverju einstöku máli kunni að hafa þjónað hagsmunum brotaþolans. Komi sakarmat hins vegar til einhverra álita á þessu sviði sé á því byggt að skilyrði sakarreglu séu hér ekki uppfyllt, svo sem um ásetning, gáleysi, orsakatengsl eða sennilega afleiðingu. Er á það bent að ákæra hafi verið gefin út aðeins einum og hálfum mánuði eftir að ætlað brot var framið og eðlilega verið staðið að málinu eftir það. Að því er varði sérstaklega gæsluvarðhald eða farbann vegna utanfarar ákærða hafi legið fyrir að hann hafi haft sérstök tengsl við Ísland og því ekki verið talin þörf á að grípa til þvingunarráðstafana gagnvart honum á því stigi. Verði þá jafnframt að hafa í huga að til slíkra aðgerða geti ekki komið nema sérstök réttlæting sé fyrir hendi í hverju tilviki. Breyti engu þótt síðar hafi komið á daginn að mat á þörf hafi að þessu leyti ekki staðist.

II.

Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 19/1991 með áorðnum breytingum er ríkissaksóknari æðsti handhafi ákæruvalds. Við meðferð þess er hann óháður vilja stjórnvalda sem annarra, en samkvæmt 1. málslið 1. mgr. 26. gr. sömu laga hefur dómsmálaráðherra eftirlit með framkvæmd ákæruvalds.

Sú skylda hvílir á ákæruvaldi að hlutast til um að mál séu rannsökuð og þeim síðan lokið svo fljótt, sem kostur er, og með þeim hætti, sem eðlilegt getur talist. Sé út af brugðið getur það varðað þann starfsmann ríkisins ábyrgð, sem hlut á að máli, eftir lögum og fyrirmælum, sem gilda um ríkisstarfsmenn. Aðgerðir ákæruvalds, sem fela í sér tilteknar þvingunarráðstafanir, geta jafnframt leitt til bótaskyldu gagnvart þeim, sem fyrir þeim verður, eftir ákvæðum XXI. kafla laga nr. 19/1991 eða almennum reglum skaðabótaréttar. Sú aðstaða er ekki fyrir hendi gagnvart þeim, sem verður fyrir tjóni af völdum brotamanns. Tjónþolinn skal eiga þess kost að koma að bótakröfu í máli gegn hinum brotlega, en að öðru leyti er ekki réttarsamband milli tjónþola og ákæruvalds. Er hvorki tjónþola né öðrum ætlað að hafa áhrif á einstakar ákvarðanir ríkissaksóknara í tengslum við framkvæmd ákæruvalds, en um þær nýtur ríkissaksóknari sjálfstæðis í starfi, svo sem áður er komið fram. Á það eins við um mat hans á því hvort nauðsyn sé fyrir hendi, sem réttlæti að krefjast þess að grunaður maður eða ákærður sæti þvingunarráðstöfunum. Af framanröktu leiðir að tjónþoli getur ekki haft síðar uppi bótakröfu á hendur stefnda með vísan til þess að aðgerða eða frekari aðgerða hafi verið þörf gagnvart ætluðum brotamanni heldur en þeirra, sem handhafi ákæruvalds greip til. Samkvæmt því stofnaðist enginn bótaréttur áfrýjanda á hendur stefnda á grundvelli framgöngu ákæruvaldsins í máli vegna atviksins 1. janúar 1994, sem getið er um í I. kafla að framan. Verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms því staðfest, þar á meðal ákvæði hans um málskostnað og gjafsóknarkostnað.

Rétt er að hvor aðilanna beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 22. febrúar 2001.

Mál þetta sem dómtekið var 12. janúar sl. er höfðað með stefnu þingfestri 14. mars 2000 af X á hendur íslenska ríkinu til greiðslu neðangreindrar kröfu.

Dómkröfur

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð 6.483.449 kr. með dráttarvöxtum samkvæmt ákvæðum vaxtalaga nr. 25/1987 frá 23. september 1999 til greiðsludags.

Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu samkvæmt málskostnaðar­­­­­­reikningi eins og mál þetta væri eigi gjafsóknarmál.

Stefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum dómkröfum stefnanda og stefnda verði tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda. Til vara er þess krafist að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar og málskostnaður þá látinn niður falla.

Málavextir

Málavextir eru á þá leið að aðfaranótt 1. janúar 1994 var B handtekinn og grunaður um kynferðislega misneytingu á stefnanda. Stefnandi heldur því fram að hann hafi komið að sér þar sem hún lá meðvitundarlaus af áfengisáhrifum í bifreið á bílastæði í miðbæ Reykjavíkur og hafi haft samfarir við hana íframsæti bifreiðarinnar. Skömmu síðar kom vinur stefnanda þar að, stöðvaði verknaðinn og kallaði til lögreglu. B var handtekinn á staðnum og færður í skýrslutöku, en stefnandi lagði fram lögreglukæru á hann næsta morgun eftir læknisskoðun á neyðarmóttöku Sjúkrahúss Reykjavíkur. Við skýrslutöku af kærða kom í ljós að hann var danskur ríkisborgari og framvísaði hann dönsku vegabréfi hjá lögreglu. Kærði neitaði sök og hélt því fram að stefnandi hefði gefið samþykki sitt. Af hálfu lögreglu var hvorki farið fram á gæsluvarðahald yfir kærða né gerð krafa um að hann yrði settur í farbann.

Þann 26. janúar 1994 var gerð upplýsingaskýrsla hjá Rannsóknarlögreglu ríkisins um að haft hafi verið samband við kærða símleiðis vegna hálsbindis sem fannst á vettvangi og hafi hann þá gefið þær upplýsingar að hann væri á leiðinni úr landi og hvert heimilisfang hans yrði í Grænlandi.

Þann 15. febrúar 1994 var gefin út ákæra á kærða fyrir brot gegn 196. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en þar sem hann var farinn úr landi var ekki unnt að birta hana fyrir honum. Fyrirkall var gefið út 16. febrúar s.á. og átti að þingfesta málið 23. sama mánaðar. Frekari fyrirköll voru gefin út 6. apríl og 10. ágúst 1994 án árangurs og kom ákærði ekki fyrir dóm vegna málsins.

 Stefnandi kveðst ekki hafa sætt sig við að ákærði yrði ekki látinn svara til saka fyrir brot sitt. Því hafi hún ítrekað haft samband við lögreglu og ríkissaksóknara til að reyna að stuðla að því að ákærði yrði saksóttur, m.a. með aðstoð Stígamóta, en með bréfi til dómsmálaráðuneytisins dags. 11. janúar 1995 óskuðu samtökin eftir skýringum á drætti á máli ákæruvaldsins gegn ákærða. Ráðuneytið óskaði eftir skýringum ríkissaksóknara sem með bréfi dags. 20. janúar 1995 skýrði dráttinn með þeim hætti að ákærði hefði farið af landi brott en ítrekað hefði verið reynt að ná í hann.

Stefnandi heldur því fram að ítrekaðar tilraunir hennar hafi borið þann árangur að gefinn var út handtökuskipun á ákærða þann 20. desember 1995, tæpum tveimur árum eftir verknaðinn. Handtökuskipunin var send ásamt framsalsbeiðni til Danmerkur. Með bréfi danska dómsmálaráðuneytisins, dags. 18. desember 1996, var kröfu um framsal mannsins til Íslands hafnað með vísan til þess að ekki væru lagaskilyrði fyrir framsalinu samkvæmt dönskum lögum.

Stefnandi leitaði þá til lögmanns síns sem óskaði skýringa á meðferð málsins hjá ríkis­saksóknara og dómsmálaráðuneyti með bréfum dags. 4. apríl 1997. Óskaði ráðuneytið eftir umsögn ríkissaksóknara um málið þann 11. apríl s.á. Var sérstaklega óskað eftir upplýsingum um það hvort látið hefði verið á það reyna að framsenda málið til meðferðar í Danmörku. Í svari ríkissaksóknara, dags. 21. apríl 1997, sagði m.a. að ekki hefði verið látið á það reyna að framsenda málið til Danmerkur þar sem slík hugmynd væri ekki raunhæf og vandséð hvernig slíkt gæti gengið fyrir sig.

Þrátt fyrir efasemdir ríkissaksóknara sendi hann málið til Danmerkur til saksóknar. Áður lét hann taka vitnaskýrslur af vitnum og af stefnanda að ákærða fjarstöddum. Sendi lögmaður stefnanda þá jafnframt bótakröfu á ákærða til danskra yfirvalda til að halda henni fram í opinberu máli þar. Í október 1997 höfnuðu dönsk yfirvöld að höfða opinbert mál gegn ákærða vegna sönnunarörðugleika og þess hve langt væri liðið frá brotinu með bréfi dags. 22. október 1997. Með bréfi ríkissaksóknara til lögmanns stefnanda, dags. 4. nóvember 1997, var lögmanninum tilkynnt að ekki væri séð að ákæruvaldið gæti aðhafst frekar í málinu.

Með bréfi, dags. 9. nóvember 1998, var lögmanni stefnanda tilkynnt bréflega að umbjóðandi hennar myndi fá bætur úr sjóði samkvæmt lögum nr. 69/1995 um bætur til þolenda afbrota að fjárhæð 300.000 krónur auk lögmannskostnaðar 83.737 krónur.

Með bréfi dags. 30. júní 1999 var stefnanda veitt gjafsóknarleyfi til að höfða mál gegn íslenska ríkinu með kröfu um bætur vegna málsins. Með bréfi lögmanns stefnanda dags. 22. september 1999 til ríkislögmanns var gerð krafa um greiðslu skaðabóta úr ríkissjóði vegna þess tjóns og óþæginda sem stefnandi taldi sig hafa orðið fyrir vegna málsins. Með bréfi ríkislögmanns dags. 27. september 1999 var kröfunni hafnað á þeim grundvelli að bótaskilyrði væru ekki fyrir hendi.

Stefnandi heldur því fram að meðan á meðferð málsins stóð hjá ákæruvaldinu og ekki var komin lokaniðurstaða í því hafi hún átt mjög erfitt með að jafna sig á því áfalli sem hún hafði orðið fyrir. Vegna afgreiðslu málsins hjá rannsóknar- og ákæruvaldi hafi hún orðið sannfærð um að ekkert yrði aðhafst í málinu án hennar atbeina og hafi alls ekki getað sætt sig við að kærði yrði ekki látinn svara til saka. Þetta og það hvað málið tók langan tíma í meðferð hjá ákæruvaldinu hafi haft mjög slæmar afleiðingar fyrir andlegt ástand stefnanda og hafi hún m.a. af þeim sökum verið í meðferð hjá geðlæknum og geðhjúkrunarfræðingi. Stefnandi kveðst hafa orðið óvinnufær 1995 og hafi þá fyrst verið á endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins en seinna hafi hún verið metin öryrki og hafi verið á örorkulífeyri undanfarin ár. Stefnandi kveðst ítrekað hafa reynt að svipta sig lífi frá 1. janúar 1994, auk þess sem hún hafi þurft að leita sér aðstoðar hjá Stígamótum vegna afleiðinga brotsins og þeirra afleiðinga sem löng og árangurslaus meðferð málsins hjá rannsóknar- og ákæruvaldi hafi haft fyrir hana. Vegna undirbúnings máls þessa og til að afla upplýsinga sérfræðings um ástand stefnanda fyrir dóminn hafi stefnandi farið í mat hjá Gylfa Ásmunds­syni sálfræðingi og liggur það fyrir í málinu. Niðurstöður matsins séu þær aðallega að geðrænt ástand stefnanda beri vott um mikla og langvarandi áfallaröskun sem rekja megi til nauðgunarinnar og eftirmála hennar.

Málsástæður stefnanda og lagarök

I. Krafa stefnanda er á því byggð að með athöfnum sínum og aðallega athafnaleysi hafi ríkissaksóknari og rannsóknarlögregla valdið henni tjóni á saknæman og ólögmætan hátt og beri ríkissjóður bótaskyldu á því tjóni. Athafnaleysið hafi leitt til þess að kærði hafi komist hjá að bera refsi- og bótaábyrgð á gerðum sínum en auðveldlega hefði mátt tryggja að hann yrði sóttur til saka ef rétt hefði verið staðið að málum. Þannig hafi stefnanda verið valdið bótaskyldu tjóni sem stefndi beri ábyrgð á samkvæmt reglum um vinnuveitendaábyrgð.

Stefnandi byggir bótakröfu sína á því að rannsóknar- og ákæruvald, sem stefndi beri ábyrgð á, hafi með athöfnum sínum og athafnaleysi á saknæman hátt brotið gegn réttindum stefnanda sem brotaþola sem tryggð séu í íslenskum rétti. Þannig hafi stofnast bótaskylda á hendur stefnda á grundvelli sakarreglunnar og á grundvelli reglunnar um vinnuveitendaábyrgð á því tjóni sem stefnandi hafi orðið fyrir vegna þessara brota á réttindum hennar. Vísað er til þess að bótaréttur sakaðra manna sé tryggður í lögum verði mistök við meðferð opinbers máls og því eigi brotaþolar ekki síður rétt á bótum verði mistök við meðferð opinbers máls sem komi niður á þeim og þeirra hagsmunum enda sé meðferð opinberra mála fyrst og fremst ætlað að vernda þeirra hagsmuni.

Krafa stefnanda byggir á því að mistök hafi verið gerð við meðferð málsins á rannsóknar- og ákærustigi og þessi mistök hafi leitt til þess að kærði hafi sloppið úr landi og þurfi ekki að svara fyrir brot sitt. Þegar málið var rannsakað af lögreglu hafi legið fyrir að kærði væri ekki íslenskur ríkisborgari. Líkur hefðu því verið fyrir því að hann færi úr landi til að komast hjá saksókn, sérstaklega þar sem hann hafi neitað sök. Þrátt fyrir þetta hafi ekki verið gerðar neinar ráðstafanir af hálfu lögreglu. Kærði hafi síðan óbeðinn gefið lögreglu þær upplýsingar að hann væri að fara úr landi og enn hafi ekkert verið gert, þó svo að fyrir lægi undir hvaða hegningarlagaákvæði brotið væri heimfært, hvaða refsingar væru leyfðar og að þær væru ekki nægjanlegar til að heimila framsal frá heimalandi mannsins.

Þegar ljóst var orðið að kærði væri farinn úr landi hafi ekkert verið aðhafst í málinu fyrr en í desember 1995, nærri tveimur árum síðar. Framsalsbeiðni hafi síðan verið hafnað af dönskum yfirvöldum í desember 1996 og bent á þann möguleika að senda málið til saksóknar í Danmörku. Undirbúningur að þvíhafi þó ekki hafist fyrr en í maí 1997 þegar send hafði verið formleg fyrirspurn vegna málsins og gerður fyrirvari um skaðabótakröfu. Málið hafi síðan verið sent til Danmerkur í júlí 1997 en þar hafi verið hafnað saksókn í október 1997, ekki síst vegna þess tíma sem liðinn var frá brotinu.

II. Byggt er á því að gera hefði átt þær almennu ráðstafanir sem fylgja hefðu átt á eftir kæru stefnanda til rannsóknarlögreglu ríkisins til að tryggja að unnt væri að saksækja stefnda og dæma hér á landi, bæði fyrir refsivert brot og til að greiða stefnanda skaðabætur vega brotsins. Þessar almennu ráðstafanir sem finna megi í lögum um meðferð opinberra mála hefðu átt að tryggja að hagsmuna stefnanda sem brotaþola væri gætt og hún fengi notið þeirrar þjónustu sem einstaklingum í sömu stöðu beri að fá af hálfu ríkisvaldsins. Þar sem stefnanda hafi ekki verið heimilt að sækja eða tryggja refsingu kærða fyrir það brot sem hún varð fyrir hafi hún orðið að treysta því að það væri gert af hálfu þeirra opinberu aðila sem fara með þau verkefni lögum samkvæmt. Sjálftaka stefnanda hafi verið og sé óheimil og þannig hafi vald hennar til að verja eigin hagsmuni verið framselt til ríkisvaldsins með lagasetningu. Því beri ríkisvaldinu að sinna rannsókn og saksókn brota eins og best verði á kosið hverju sinni og gæta þess að brotamenn fái refsingu fyrir brot sín og brotaþolar þar með uppreisn æru og sjálfsvirðingar. Ef þessu sé ekki sinnt af hálfu stefnda skapist skaðabótaréttur vegna þess tjóns sem brotaþolinn verði fyrir þar sem það brot sem beint hafi verið gegn honum liggi refsilaust að ástæðulausu.

Þá beri að benda á það að auðveldlega hefði mátt komast hjá þessu öllu án mikillar fyrirhafnar eða tilkostnaðar hefði þeim úrræðum sem séu til staðar í lögum um meðferð opinberra mála verið beitt. Það er ef óskað hefði verið eftir kyrrsetningu á kærða eða eftir atvikum gæsluvarðhaldi og séu dæmi til um hvorttveggja þegar í hlut eigi erlendir ríkisborgarar sem grunaðir séu um refsiverð brot hér á landi.

Þegar stefnandi hafi fylgt eftir meðferð málsins með aðstoð lögmanns hafi það orðið úr að ríkissaksóknari hafi ákveðið að senda málið til Danmerkur til dómsmeðferðar gegn ákærða. Hafiþað sýnt og sannað að til hafi verið úrræði þegar í upphafi til að fylgja eftir saksókn gegn kærða þó svo hann hafi sloppið úr landi, sem hann hefði þó aldrei átt að gera. Hafi það því bersýnilega verið ónauðsynlegt og óheimilt að leggja þá bið og þjáningar, sem henni fylgdi, á stefnanda allan þann tíma sem málið hafi legið hreyfingarlaust hjá ríkissaksóknaraembættinu.

III. Þá er á því byggt að ljóst sé að ekki hafi verið gerðar nægilegar almennar ráðstafanir við meðferð málsins eða heildarstefna hafi verið mótuð um aðstoð við stefnanda, sem brotaþola, af hálfu stefnda sem styðjast hefði mátt við og hún getað gengið að á eðlilegan hátt sem einstaklingur sem hafði orðið fyrir alvarlegum refsiverðum skaða. Þess í stað hafi stefnandi stöðugt þurft að biðja um að meðferð málsins væri fram haldið og ýta á eftir því að einhverjar ráðstafanir yrðu gerðar, til að ná fram saksókn gegn kærða. Þegar málsmeðferðin hjá hinu opinbera sé virt heildstætt verði ekki komist að annarri niðurstöðu en að eitthvað hafi farið úrskeiðis við meðferð málsins, mistök hafi verið gerð, og málsmeðferðin hafi þannig í heild sinni brotið gegn rétti stefnanda sem brotaþola þar sem hagsmuna hennar hafi einnig átt að gæta við meðferð málsins. Byggt sé á því að saksókn í málinu hafi í eðli sínu aðallega verið til að vernda hagsmuni stefnanda þar sem það hafi verið hún ein sem fyrir brotinu varð. Byggt sé á því að þó að óskilgreindir þjóðfélagslegir hagsmunir hljóti ávallt að vera til staðar fyrir því að ná fram refsingu og dómi vegna afbrota þá sé það alltaf fyrst og fremst hagsmunir brotaþolans sem refsivörslukerfið eigi að vernda. Verið sé að veita honum endurgjald fyrir það brot sem hann hafi orðið fyrir með refsingu brotamannsins og vernda hans hagsmuni með því að saksækja þann brotlega.

Stefnandi byggir á því að með athafnaleysi sínu hafi starfsmenn stefnda brotið jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar í meðferð opinbers máls þar sem réttindi hennar voru í húfi, um að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda og annarra réttinda án tillits til stöðu sinnar eða aðstæðna. Stefnandi byggir á því að með mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar og samsvarandi ákvæðum í alþjóðlegum mannréttindasáttmálum sem stefndi eigi aðild að þá eigi félagsleg og efnahagsleg réttindi hennar að njóta verndar en það hafi ekki verið gert við meðferð málsins hjá Rannsóknarlögreglu ríkisins og ríkissaksóknaraembættinu. Réttindi stefnanda við meðferð opinbers máls gegn B hafi verið að engu virt og því hafi bótaskylda stefnda stofnast.

IV. Háttsemi og viðbrögð starfsmanna ríkissaksóknaraembættisins við málaleitan stefndu og eftirgrennslan við meðferð málsins hafi bæði verið ómálefnaleg og óviðunandi miðað við allar aðstæður í málinu, þá raunhæfu möguleika sem hafi verið til staðar í upphafi til að ná fram sakfellingu gegn ákærða eða a.m.k. að láta hann svara til saka fyrir brot sitt fyrir dómi og miðað við þá mikilvægu og persónulegu hagsmuni stefnanda sem hvílt hafi á niðurstöðu málsins. Stefnanda hafi verið gefið það til kynna beint og óbeint að það væri til of mikils ætlast að ríkið væri að elta sakamenn úr landi vegna brota af þessu tagi sem væru ekki sérlega alvarleg, eins og stefnandi hafi skilið það. Einnig hafi stefnanda verið gefið það til kynna að fyrirspurnir hennar væru bæði til óþæginda og ama fyrir svaranda hverju sinni og í raun illskiljanlegt hvers vegna hún gæti ekki gleymt þessu máli. Þannig hafi beint og óbeint verið vegið að sjálfsímynd stefnanda þegar hún hafi gert sitt besta og það eina sem hún hafi getað gert til að stuðla að framgangi málsins og hafi þetta aukið á vanlíðan hennar og andlegar þjáningar sem til staðar hafi verið eftir það brot sem hún varð fyrir. Með þessu hafi stefnandi orðið fyrir miskatjóni sem stefndi beri ábyrgð á.

Stefnanda hafi ekki tekist að jafna sig á afleiðingum þeirrar refsiverðu háttsemi sem hún hafi orðið fyrir vegna þess að meðferð málsins hafi í raun ekki verið lokið af hálfu hins opinbera fyrr en með afgreiðslu ríkissaksóknara 4. nóvember 1997 og með niðurstöðu bótanefndar í október 1998. Það hafi fyrst verið þá sem stefnandi hafi fengið staðfestingu á að hennar framburður af atvikum væri réttur og að hún ætti rétt á bótum sem brotaþoli. Á meðan málinu var ólokið og stefnandi hafi mátt búast við að vera kölluð sem vitni og hennar framburður veginn og metinn fyrir dómi hafi hún ekki getað jafnað sig á því sem gerst hafði og einbeitt sér að framtíð sinni, vinnu eða námi. Auk þess sem það skipti hana gífurlegu máli að staðfestur væri hennar framburður af atvikum og kærði yrði látinn svara til saka fyrir brot sitt. Þar sem aðgerðir lögreglu og ríkissaksóknara í málinu hafi verið ófullnægjandi til að tryggja saksókn gegn ákærða sé nú orðið ljóst að honum verði aldrei refsað fyrir það brot sem stefnandi varð fyrir.

Stefnandi hafi margítrekað reynt á þeim tíma sem leið á meðan ríkissaksóknara­embættið hafði málið til meðferðar að stytta sér aldur. Hún hafi mikið til verið óvinnufær á þessu tímabili, m.a. vegna andlegra þjáninga og hafi ekki getað slitið hugann frá málsmeðferðinni. Háttsemi og andlegt ástand stefnanda á þessum tíma hafi verið mjög í samræmi við ástand brotaþola í þessum brotaflokki og því fyrirsjáanlegar hverjum þeim sem eigi að hafa sérþekkingu á málaflokknum, svo sem starfsmönnum rannsóknar­lögreglu og ríkissaksóknara sem fari með þau verkefni lögum samkvæmt að rannsaka og ákæra í málum af þessu tagi.

Stefnandi hafi lýst því frá upphafi málins fyrir hverjum sem við hana ræddi vegna rannsóknar- og ákærumeðferðar málsins að hún legði ofurkapp á að kærði yrði látinn svara til saka fyrir brot sitt. Einnig að það skipti hana og hennar velferð og vellíðan máli að hann yrði sóttur til saka og hlyti dóm. Auk þess hafi stefnandi skýrt frá áhyggjum sínum og vanlíðan hverju sinni þegar hún hafi gert tilraunir til að fylgja málinu eftir hjá ríkissaksóknaraembættinu, vanlíðan sem síðan hafi leitt nokkrum sinnum til þess m.a. að hún hafi reynt að stytta sér aldur eða valda sér líkamstjóni á annan hátt. Starfsmönnum stefnda hafi þess vegna verið ljóst eða að minnsta kosti átt að vera það ljóst að sú afleiðing gæti hlotist af athöfnum þeirra og athafnaleysi að stefnandi yrði fyrir verulegum óþægindum, vanlíðan og miskatjóni.

Eftir standi að stefnandi hafi lagt nokkur ár af lífi sínu í það að bíða eftir niðurstöðu málsins þar af a.m.k. þremur árum lengri tíma en nauðsynlegt hafi verið vegna eðlis og umfangs málins og hafi það haft alvarlegar afleiðingar á líf hennar og velferð, auk þess sem meðferð sú sem hún hafi mátt þola hafi bæði verið þjáningarfull og niðurlægjandi. Bótakröfu sína í máli þessu miði stefnandi við það fjárhagslega og ófjárhagslega tjón sem hún hafi orðið fyrir sökum þessa.

V. Krafa stefnanda um skaðabætur byggist á því að henni hafi verið valdið tjóni með mistökum og ófullnægjandi meðferð opinbers máls gegn B á rannsóknar- og ákærustigi.

Tjón stefnanda sé í fyrsta lagi það að henni hafi ekki verið unnt að koma að skaðabóta­kröfu sinni gegn kærða í opinberu máli þar sem hann hafi ekki verið sóttur til saka fyrir brot sitt. Skaðabótakrafa stefnanda vegna málsins hafi verið gerð í kæru til lögreglu þann 1. janúar 1994, að fjárhæð 700.000 krónur auk dráttarvaxta til greiðsludags og þar af hafi hún aðeins fengið greiddar 300.000 krónur frá bótanefnd. Þannig byggir stefnandi á því að tjón hennar vegna skaðabótakröfu á kærða sé alls 400.000 krónur auk dráttarvaxta frá tjónsdegi 1. janúar 1994 til þess dags sem málið var afgreitt frá bótanefnd þar sem hún hafi enga vexti fengið greidda á bótafjárhæðina frá nefndinni.

Varðandi miskabótakröfu stefnanda er byggt á því að henni hafi verið valdið tjóni á saknæman og ólögmætan hátt sem stefndi beri ábyrgð á vegna vinnuveitenda­ábyrgðar og þar sem íslenska ríkið fari með ákæru- og rannsóknarvald í opinberum málum. Stefndi beri því ábyrgð á mistökum sem gerð séu við meðferð opinberra mála og því að réttindi aðila, þar með brotaþola, séu ekki nægilega tryggð við meðferð þeirra. Stefnandi byggir á því að við meðferð málsins hafi bæði verið gerð mistök og að réttindi hennar hafi almennt ekki verið tryggð sem brotaþola í málinu. Það hafi leitt til þeirra afleiðinga sem málsmeðferðin hafi haft fyrir hana, andlegra þjáninga, óþæginda og brotinnar sjálfsímyndar.

Það að ákærði var ekki sóttur til saka hafi haft mjög slæmar andlegar afleiðingar fyrir stefnanda sem hafi margsinnis reynt að stytta sér aldur frá því að brotið var framið. Fyrst eftir brotið hafi hún búið við stöðugan ótta við að mæta kærða úti á götu og við að hann gæti unnið henni frekara mein þar sem hann hefði ekki hlotið refsingu. Sjálfsmat stefnanda hafi orðið lélegt, hún eigi erfitt með að einbeita sér og sé haldin þunglyndi. Allt frá því brotið var framið hafi hún gert allt sem í hennar valdi stóð til að sjá til þess að kærði væri sóttur til saka, hringt og ýtt á eftir málinu og fylgst með að unnið væri í því. Við þetta hafi hún fengið ýmis svör hjá ríkissaksóknaraembættinu og hafi oft verið illa tekið. Þetta hafi sett mikið álag á stefnanda sem hafi orðið sannfærð um að ekkert yrði gert í málinu ef hún fylgdi því ekki eftir sjálf. Álagið hafi síðan leitt til þunglyndis og andlegra erfiðleika hjá stefnanda sem hafi a.m.k. einu sinni reynt sjálfsvíg eftir að hafa fengið afvísandi svör um framgang málsins hjá ríkissaksóknaraembættinu.

Byggt er á því að það sé sérstaklega mikilvægt fyrir brotaþola í kynferðisbrotum að sakfelling eða a.m.k. ákæra sé gerð í þeim málum þar sem það sé eina leiðin fyrir þá til að fá staðfestingu á því að hennar frásögn af atvikum sé rétt. Ef kærði sé ekki ákærður sé vegið að stefnanda persónulega og óbeint gefin þau skilaboð að henni sé ekki trúað. Byggt er á því að þetta hafi falið í sér ólögmæta meingerð gegn persónu stefnanda og persónufrelsi og eigi hún því rétt á bótum vegna ófjárhagslegs tjóns.

Varðandi kröfu vegna lögmannskostnaðar er vísað til dskj. nr. 18 og 19 þar sem fram komi að stefnandi hafi fengið aðstoð lögmanns í málinu og er byggt á því að það hafi verið henni nauðsynlegt vegna þess hvernig málsmeðferð opinbera málsins hafði verið hjá ákæruvaldinu fram að því. Kostnaður stefnanda af nauðsynlegri lögmannsaðstoð sé því hluti af tjóni hennar vegna málsins og eigi að vera greiddur af stefnda.

Sundurliðun og skýringar við kröfu stefnanda.

Krafa stefnanda sundurliðast þannig:

I. Skaðabætur vegna tapaðrar fjárkröfu á kærða

kr. 400.000

II. Dráttarvaxtakrafa vegna fjárkröfu á kærða

kr. 700.851

III. Miskabætur

kr. 5.000.000

IV. Lögmannskostnaður þ.m.t. virðisaukaskattur

kr. 382.598

Samtals

kr. 6.483.449

Skýringar:

I. Útreikningur kröfu stefnanda sé þannig, að gerð sé krafa vegna þeirrar skaðabótakröfu sem stefnandi hafi gert á kærða í lögreglukæru þann 1. janúar 1994, að fjárhæð 700.000 krónur að frádreginni greiðslu úr ríkissjóði vegna greiðslu bóta til þolenda afbrota, 300.000 krónur, sem samþykkt hafi verið þann 27. október 1998.

II. Þá sé gerð krafa um greiðslu dráttarvaxta fram til þess dags sem bótanefnd ákvað greiðslu til stefnanda 27. október 1998, vegna þess dráttarvaxtataps sem stefnandi hafi orðið fyrir þar sem hún hafi ekki getað haldið fram kröfu sinni gegn kærða.

III. Að lokum er gerð krafa um greiðslu miskabóta að fjárhæð 5.000.000 króna vegna þeirra óþæginda, ama og sálrænu afleiðinga sem rekstur hins opinbera máls hafi valdið stefnanda og það að ákærði var ekki sóttur til saka fyrir brot sitt. Miðist miskabótakrafan við 1.000.000 króna í miskabætur á ári á meðan málið hafi verið til meðferðar hjá ríkisvaldinu, þ.m.t. bótanefnd, þ.e. árin 1994-1998 að báðum árum meðtöldum.

IV. Auk þess er gerð krafa um greiðslu lögmannskostnaðar vegna málsins að fjárhæð 382.598 krónur sem stefnandi beri greiðsluskyldu á vegna vinnu lögmanns í málinu frá apríl 1997 vegna meðferðar málsins hjá ákæruvaldinu og hjá yfirvöldum í Danmörku eftir að málið hafi verið sent þangað, allt í samræmi við samning stefnanda við lögmann sinn, dags. 26. mars 1997.

V. Þá er gerð krafa um dráttarvexti af höfuðstól kröfunnar frá 23. september 1999, miðað við kröfubréf stefnanda til ríkislögmanns dags. 22.09.99.

Kröfu sína byggir stefnandi á óskráðum meginreglum skaðabótaréttarins og dómvenju um greiðslu miskabóta vegna ófjárhagslegs tjóns. Þá byggir stefnandi kröfu sína á sakarreglunni, á reglunni um vinnuveitendaábyrgð, óskráðum reglum skaðabótaréttarins um útreikning tjóns og 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

Kröfu um dráttarvexti styður stefnandi við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, með síðari breytingum.

Kröfu um málflutningsþóknun styður stefnandi við reglur XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og gjafsóknarleyfi dómsmálaráðherra þar sem sett er skilyrði fyrir gjafsókn, að gerð verði réttarkrafa um að málskostnaður verði tildæmdur gjafsóknarhafa eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.

Málsástæður stefnda og lagarök

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að sakarreglan, sem stefnandi byggi alfarið á, eigi ekki við um samskipti stefnanda og stefnda og þar af leiðandi sé ekki hægt að beita henni vegna meints tjóns stefnanda og þar með beri að sýkna stefnda af kröfum stefnanda. Meint tjón stefnanda verði eingöngu rakið til atburðanna þann 1. janúar 1994. Þar komi stefndi að sjálfsögðu hvergi nærri. Ekkert samband sé á milli ákæruvalds og brotaþola og þaðan af síður milli brotaþola og annarra þátta ríkisvalds.  Brotaþoli hafi engan aðgang að ákæruvaldinu að öðru leyti en því að hann geti samkvæmt XX. kafla l. nr. 19/1991 komið að bótakröfu í opinberu máli eins og gert hafi verið í máli stefnanda. Önnur tengsl séu ekki milli brotaþola og ákæruvalds og sé ákæruvaldinu ætlað að starfa sem sjálfstætt og óháð embætti en þó undir eftirliti dómsmála­ráðuneytis, sbr. 26. gr. 1. nr. 19/1991.

Jafnvel þótt talið yrði að sakarreglan ætti við um samskipti málsaðila, þá er á því byggt að bótaskyldu sé ekki í málinu hægt að rekja til sakarreglunnar vegna þess að grunnskilyrði hennar, svo sem ásetningur, gáleysi, orsakatengsl og sennileg afleiðing, séu til dæmis alls ekki fyrir hendi. Bótaskyld sök sé ósönnuð í málinu, orsakatengsl og sennileg afleiðing meints tjóns stefnanda séu líka ósönnuð gagnvart stefnda.

Stefnandi byggi bótaskyldu aðallega á því að athafnaleysi ríkissaksóknara og rannsóknar­lögreglu hafi valdið henni bótaskyldu tjóni. Stefndi mótmælir þessari fullyrðingu á þeim grundvelli að það sé meginregla í skaðabótarétti utan samninga, að athafnaleysi varði ekki bótaskyldu. Samhliða er því mótmælt að rannsóknar- og ákæruvaldinu hafi orðið á mistök í málinu. Stefndi telur að fullyrðingar stefnanda um mistök séu ósannaðar. Mál þetta hafi allt verið ágætlega rannsakað og ákæra gefin út 45 dögum eftir að atburður átti sér stað þar sem m.a. hafi verið tekið tillit til bótakröfu stefnanda. Hvorki hafi verið talin nauðsyn til þess að óska eftir gæsluvarðhaldi eða farbanni þar sem stefndi hafi á þessum tíma verið búsettur hér á landi, af íslensku bergi brotinn og málið allt upplýst eins og hægt var. Ákærði hafi kosið að hverfa af landi brott eftir fyrirkall ákæru og hafi stefndi ekki getað séð fyrir um þá atburðarrás og vandséð hvernig hann hefði átt að gera það. Fráleitt sé að byggja bótaskyldu á þessum ákvörðunum eða afstöðu stefnda. Eftir standi að rannsóknar- og ákæruvaldið hafi staðið að rekstri máls þessa á hefðbundinn og eðlilegan hátt og ekki sé hægt að gera þær kröfur til þeirra að þeir sjái fyrir um óorðna hluti.

Síðar hafi allt verið reynt sem hægt var til að koma lögum yfir ákærða. Tilraunir þar að lútandi tókust ekki og sé við aðra en stefnda að sakast í því efni.

Nauðsynlegt sé að benda á, að jafnvel þótt tekist hefði að ákæra meintan brotamann hér á landi eða í Danmörku, þá sé ekki hægt að fullyrða fyrir fram um fjárhæð þeirra miskabóta sem dómur hefði hugsanlega dæmt stefnanda. Það hefði verið mat viðkomandi dómara og óvíst hvort sú fjárhæð hefði orðið hærri en sú sem stefnandi þó fékk frá bótanefnd. Það sé líka fullkomin óvissa um það hvort stefnanda hefði tekist að innheimta hugsanlegar bætur úr hendi ákærði hefði málið komist á það stig. Óvissa um þessa hluti leiði sjálfstætt til sýknu í málinu, burtséð frá öðrum sýknuástæðum.

Stefnandi byggir kröfur sínar á hendur stefnda m.a. á því að mannréttindaákvæði stjórnarskrár o. fl. hafi verið brotin á sér við meðferð opinbera málsins á hendur ákærða. Þessum fullyrðingum er algjörlega mótmælt sem fjarstæðu, m.a. á þeirri ástæðu að brotaþoli hafi ekkert með rekstur opinbers máls á hendur ákærðum að gera. Brotaþoli hefur þar enga aðild. Jafnframt er mótmælt lýsingum stefnanda á meintri óviðunandi framkomu starfsmanna ríkissaksóknaraembættisins við sig og hugleiðingum hennar um meinta afstöðu starfsmanna embættisins til hennar og bótaskyldu stefnda í því samhengi.

Fjárkröfum stefnanda er öllum mótmælt. Skaðabótakrafa sé órökstudd með öllu og þar með ósönnuð. Miskabótakröfu er líka mótmælt sem órökstuddri og án tengsla við nokkurn bótagrundvöll. Öllum öðrum kröfum stefnanda er á sama hátt mótmælt og vakin athygli á því að krafa stefnanda um lögmannsþóknun sé bæði í höfuðstólskröfu hans og sem sjálfstæður liður í dómkröfu sem málskostnaður að skaðlausu.

Stefnandi vísi í málflutningi sínum til meginreglna skaðabótaréttarins, dómvenju um greiðslu miskabóta vegna ófjárhagslegs tjóns og 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Stefndi hafi hér að framan reifað sýknukröfur sínar með tilliti til meginreglna skaðabótaréttarins og vísar til þess. Því er enn og aftur mótmælt að dómvenja sé um greiðslu miskabóta eins og hér standi á. Stefnandi hafi ekki sérstaklega reifað sjónarmið varðandi bætur á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þar sem stefnandi vísi til greinarinnar verði að mótmæla því að rekstur ákæruvaldsins á margnefndu opinberu máli geti verið ólögmæt meingerð gegn frelsi, friði, æru stefnanda og fl. eins og stefnandi virðist byggja á. Það sjónarmið sé fráleitt í þessu samhengi.

Niðurstaða

Eins og að framan getur gerir stefnandi kröfu um skaðabætur vegna tapaðrar fjárkröfu á ákærða, B, 400.000 krónur. Þá er gerð krafa um miskabætur 5.000.000 króna vegna meints tjóns stefnanda vegna meðferðar málsins og þess að ekki tókst að koma lögum yfir kærða.

Ekki liggur fyrir að stefnandi hafi látið reyna á bótaábyrgð ákærða, B, í einkamáli.

Brotaþoli er ekki aðili opinbers máls og hefur samkvæmt lögum engin áhrif á gang þess. Hins vegar er brotaþola, samkvæmt XX. kafla laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, tryggður réttur til þess að koma að bótakröfu í opinberu máli hafi viðkomandi orðið fyrir tjóni af völdum sakbornings. Eins og fram er komið var mál á hendur ákærða ekki þingfest og gat stefnandi því ekki komið þar að slíkri kröfu. Með bréfum, dags. 6. júní og 10. nóvember 1997, fór lögmaður stefnanda þess á leit að stefnanda yrðu greiddar skaðabætur úr ríkissjóði á grundvelli laga nr. 69/195 vegna kynferðisafbrots af hálfu B. Þegar ljóst var að bótakröfunni yrði ekki ráðið til lykta með dómi tók bótanefnd, samkvæmt nefndum lögum, kröfuna til úrlausnar. Þótti bótanefnd nægilega sannað, til að unnt væri að greiða bætur, að B hefði gerst sekur um brot gagnvart stefnanda sem félli undir 196. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með vísan til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og 3. gr. laga nr. 69/1995 var ákveðið að stefnanda skyldu greiddar miskabætur úr ríkissjóði að fjárhæð 300.000 krónur. Þá var krafa stefnanda um þóknun til lögmanns síns tekin til greina með 83.737 krónum.

Eins og rakið er hér að framan var B handtekinn 1. janúar 1994 grunaður um kynferðislega misneytingu gagnvart stefnanda og var hann færður til skýrslutöku. Í handtökuskýrslu kemur fram að B sé danskur ríkisborgari en eigi lögheimili á Laugarvatni en dvalarstað að Dalseli 29, Reykjavík. Í lögregluskýrslu sem tekin var af B 1. janúar 1994 kemur fram að grænlensk móðir hans er búsett á Íslandi en foreldrar hans bæði danskir ríkisborgarar. B neitaði sök.

Grunaði og vitni voru yfirheyrð og verður að telja að málið hafi verið rannsakað með eðlilegum hætti. Ákæra var síðan gefin út 15. febrúar 1994.

Samkvæmt lögregluskýrslu dags. 26. janúar 1994 var haft samband við B vegna hálsbindis sem hald hafði verið lagt á. Í það sinn tilkynnti B lögreglu að hann væri á förum til Grænlands og gaf upp heimilisfang sitt þar.

Þegar litið er til þess hvernig atvik urðu og litið til þess að ákærði fór úr landi, þykir mega fallast á að umdeilanleg hafi verið sú ákvörðun lögreglu að fara ekki fram á gæsluvarðhald eða farbann yfir ákærða og gera þannig tilraun til þess að tryggja nærveru hans við meðferð málsins. Hins vegar verður að líta til þess að hefðu slíkar kröfur verið settar fram liggur ekkert fyrir um það að þær hefðu verið teknar til greina.

Sú almenna skylda hvílir á lögreglu og ákæruvaldi að rækja sinn starfa af bestu getu og vinna að því að mál upplýsist. Eins og rakið er hér að framan var málið rannsakað með eðlilegum hætti og þegar ákærði var horfinn úr landi var neytt þeirra úrræða sem tiltæk voru lögum samkvæmt til þess að fá kærða til landsins og til þess að fá hann framseldan til landsins til þess að svara til saka fyrir meint brot.

Í framlögðum gögnum og framburði vitna kemur fram að stefnandi hefur allt frá því að hún var barn átt við erfiðleika að stríða í lífi sínu og gert tilraunir til sjálfsvígs. Þá segir í álitsgerð Gylfa Ásmundssonar sálfræðings, sem dags. er 30. nóvember 1999, að geðrænt ástand stefnanda beri vott um mikla og langvarandi áfallaröskun sem rekja megi til nauðgunarinnar (sic) og eftirmála hennar.

Telja verður sýnt að stefnandi hafi orðið fyrir miklu áfalli við atburðinn 1. janúar 1994. Þá þykir einnig fram komið að eftirmálar þessa atburðar og meðferð málsins hafi valdið henni hugarangri. Hins vegar þykir ekki sýnt fram á að framganga eða framkoma lögreglu og ákæruvalds ein sér hafi verið með þeim hætti að hún hafi valdið stefnanda slíku tjóni sem fram er haldið eða að meint tjón hennar sé sennileg afleiðing af málsmeðferðinni. Þá þykir ekki sýnt fram á að mistök hafi verið gerð af hálfu þessara aðila við rannsókn og meðferð málsins sem jafna megi til ásetnings eða vítaverðs gáleysis. Ekki er heldur fallist á að brotið hafi verið gegn jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar eða mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar við rannsókn og meðferð málsins.

Þegar virt er það sem fram er komið þykir stefnandi ekki hafa sýnt fram á að skilyrði skaðabóta samkvæmt almennu skaðabótareglunni séu fyrir hendi. Þá er ekki fallist á að þau réttindi sem stefnandi hefur samkvæmt lögum, sem brotaþoli, hafi verið á henni brotin þar sem fyrir liggur að stefnandi fékk greiddar miskabætur úr ríkissjóði að fjárhæð 300.000 krónur. Hefur ekki verið sýnt fram á að stefnandi hefði fengið hærri miskabætur sér til handa í opinberu máli, ef höfðað hefði verið, en þær bætur sem bótanefnd samkvæmt lögum nr. 69/1995 taldi hæfilegar.

Þar sem ekki hefur verið sýnt fram á í máli þess að stefndi beri skaðabótaábyrgð á meintu tjóni stefnanda ber að sýkna stefnda af kröfu stefnanda um skaðabætur og miskabætur. Á sömu forsendum er stefndi sýknaður af dráttarvaxtakröfu að fjárhæð 700.851 króna.

Í stefnufjárhæð er innifalin krafa um greiðslu lögmannskostnaðar að fjárhæð 382.598 krónur. Þar að auki er krafist málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi. Engar lagalegar forsendur eru fyrir hendi til þess að unnt sé að taka til greina kröfu stefnanda um lögmannskostnað sem innifalinn er í stefnufjárhæð.

Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af máli þessu.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, 299.033 krónur, þar með talin þóknun lögmanns stefnanda, Þorbjargar I. Jónsdóttur hdl., 200.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði. Við ákvörðun málflutningsþóknunar er ekki er tekið tillit til virðisaukaskatts.

Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, íslenska ríkið, skal vera sýkn af kröfum stefnanda, X.

Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda 299.033 krónur, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Þorbjargar I. Jónsdóttur hdl., 200.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.