Hæstiréttur íslands

Mál nr. 284/2010


Lykilorð

  • Ávana- og fíkniefni
  • Tilraun


Fimmtudaginn 16. desember 2010.

Nr. 284/2010.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Benediktsdóttir

settur saksóknari)

gegn

Borgþóri Friðriki Ágústssyni

(Ólafur Örn Svansson hrl.)

Inga Þór Thorarensen og

(Björgvin Jónsson hrl.)

Sæþóri Ágústssyni

(Brynjar Níelsson hrl.)

Ávana- og fíkniefni. Tilraun.

B, I og S voru ásamt A sakfelldir í héraði fyrir brot á lögum um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 með því að hafa í sölu- og dreifingarskyni á bænum B ræktað 16 kannabisplöntur og fyrir tilraun til stórfellds brots á lögunum með því að setja upp ræktunarstöð fyrir allt að 600 kannabisplöntur á bænum. Ekki var fallist á að ákvæði 21. gr. hegningarlaga nr. 19/1940 um afturhvarf frá tilraun ætti við til að sýkna ákærðu í málinu. Talið var sannað að B hafi haft veg og vanda af skipulagningu starfseminnar og lagt fé til hennar. Þá hafi S og I, sem unnu að því að setja upp ræktunarstöðina, átt að vera ljós tilgangur starfseminnar og þeir tekið þátt í henni með fullri vitund og vilja. Talið var að um samverknað allra ákærðu væri að ræða og engu skipti þótt I hafi einn viðurkennt að hafa komið með á bæinn þær 16 kannabisplöntur sem ákært var fyrir, enda hafi það verið í samræmi við ætlan annarra ákærðu að slíkar plöntur yrðu fluttar á staðinn og ræktaðar þar. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að það brot sem þeir gerðu tilraun til að fremja hafi varðað verulega almannahagsmuni og þeir hafi unnið það í félagi. Niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærðu var staðfest og var I  gert að sæta fangelsi í fjóra mánuði, S í fimm mánuði og B í sex mánuði.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 5. og 25. maí og 2. júní 2010 í samræmi við yfirlýsingar ákærðu um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að héraðsdómur verði staðfestur um annað en refsingu ákærðu, sem verði þyngd.

Ákærði Borgþór Friðrik Ágústsson krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing verði milduð. Þá krefst hann þess að kröfu um upptöku verði hafnað að frátöldum ætluðum 16 kannabisplöntum.

Ákærði Ingi Þór Thorarensen krefst aðallega sýknu af öðrum sökum en að hafa haft í vörslum sínum 16 kannabisplöntur og til vara að héraðsdómur verði staðfestur um annað en refsingu, en í báðum tilvikum krefst hann þess að hún verði milduð. Þá krefst hann þess að hafnað verði kröfu um upptöku á sjö nánar tilgreindum munum.

Ákærði Sæþór Ágústsson krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, til vara að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins, en að því frágengnu að sér verði ekki gerð refsing eða hún milduð ella.

Með hinum áfrýjaða dómi var auk ákærðu A sakfelldur í málinu og honum gerð refsing, en hann unir dómi.

 Krafa ákærða Sæþórs um að málinu verði frá héraðsdómi er reist á því að verknaðarlýsing í ákæru sé ekki í samræmi við 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi var þessi málsástæða höfð uppi í héraði og því borið við að annmarki á ákæru ætti að varða frávísun málsins án kröfu eða sýknu ákærðu. Með vísan til forsendna héraðsdóms verður þessari kröfu hafnað.

Í greinargerð ákærða Borgþórs Friðriks fyrir Hæstarétti er því lýst yfir að hann viðurkenni að hafa komið að uppsetningu á búnaði til ræktunar á kannabis að B og hafi hann að því leyti greint rétt frá atvikum í þeirri síðari af tveimur skýrslum, sem hann gaf hjá lögreglu 6. maí 2009 og lýst er í hinum áfrýjaða dómi. Svo sem í héraðsdómi greinir könnuðust ákærðu Sæþór og Ingi Þór við að hafa komið að uppsetningu þessa búnaðar. Að þessu gættu og með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms um að ákvæði 21. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 um afturhvarf frá tilraun eigi hér ekki við til sýknu ákærðu verður niðurstaða hans staðfest, þar á meðal ákvæði hans um refsingu ákærðu og upptöku.

Ákærðu verður gert að greiða áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjenda sinna, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærðu, Borgþór Friðrik Ágústsson, Ingi Þór Thorarensen og Sæþór Ágústsson, greiði hver fyrir sitt leyti málsvarnarlaun skipaðra verjenda sinna, hæstaréttarlögmannanna Ólafs Arnar Svanssonar, Björgvins Jónssonar og Brynjars Níelssonar, 313.750 krónur í hlut hvers, en annan áfrýjunarkostnað málsins, 31.938 krónur, skulu ákærðu greiða óskipt.

Dómur Héraðsdóms Austurlands 31. mars 2010.

Mál þetta, sem dómtekið var 26. febrúar sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Eskifirði, útgefinni 25. nóvember 2009, á hendur Borgþóri Friðrik Ágústssyni, kt. 030174-3569, Ársölum 1, Reykjavík, Sæþóri Ágústssyni, kt. 181079-4019, Sóleyjargötu 8, Vestmannaeyjum, Inga Þór Thorarensen, kt. 280878-5379, Drekavogi 4, Reykjavík og A, kt. [...], [...], [...], „fyrir brot gegn lögum um ávana-  og fíkniefni í [...]hreppi, með því að hafa um nokkurt skeið fram til miðvikudagsins 6. maí 2009, í sölu- og dreifingarskyni, á bænum B á [...], sem ákærði Borgþór hafði umráð yfir, ræktað 16 kannabisplöntur sem vógu samtals 8,8 g og fyrir tilraun til stórfells brots á sömu lögum, með því að setja upp mjög stóra ræktunaraðstöðu fyrir allt að 600 kannabisplöntur,  sem lögreglan fann þar við leit þann 6. maí 2009.

Telst þetta varða  við og 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. breytingarlög og 2. gr., sbr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. breytingarreglugerðir.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Þá er þess  krafist, að gerðar verði upptækar framangreindar kannabisplöntur, sem hald var lagt á,  sbr. 6. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og  2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.

Jafnframt er, sbr. 7. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og  2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001, krafist upptöku á eftirtöldum munum sem notaðir höfðu verið eða ætlaðir voru til ólögmætrar ræktunar kannabisjurta og meðferðar fíkniefna og uppsetningar á búnaði til ræktunar fíkniefna, sem lögreglan lagði hald á við rannsókn málsins:

  1. Lofthreinsikerfi, tegund Gold, ásamt loftstokkum, inntökum og nemum. (Nr. í munaskrá,  294982 og 294983).
  2. Rör til að festa ræktunarljós í og stilla hæð þeirra, 1/2 “, 24 stk. (Nr. 294984).
  3. 10 cm plaströr, 5m löng, 30 stk. (Nr. 294985).
  4. Plastskúffur, bakkar og pottar, 47 stk. (Nr. 294986).
  5. Upprúlluð plaströr, 35 m. (Nr. 294987).
  6. Steinullarkubbar til nota við ræktun, í poka. (Nr. 294988).
  7. Búkkar/fætur undir vatnsræktunarrör, 18 stk. (Nr. 294989).
  8. Dæla, tegund Peedrollo, ásamt barka og tengigrind. (Nr. 294990).
  9. Tjarnardúkur á rúllu, 2ja metra breitt. (Nr. 294991).
  10. Handvindur til að hækka/lækka ræktunarljós, 2 stk. (Nr. 294992).
  11. Rafmagnssnúrur í ýmsum lengdum, 11 stk. (Nr. 294993).
  12. Þvingur, 2 stk. (Nr. 294994).
  13. Málband u.þ.b. 30m. (Nr. 294995).
  14. Fastlyklasett, teg. Chrom Vanadium. (Nr. 294996).
  15. Bosch brotvél, teg. GBH-4-DFE. (Nr. 294997).
  16. Bakki með skrúfum ofl. (Nr. 294998).
  17. De Walt hleðsluborvél, teg. AMT02: (Nr. 294999).
  18. Hæðarkíkir, teg. Spectra LL300, ásamt þrífæti og mælistiku. (Nr. 295000).
  19. Bosch GSA1100PE, steinsög. (Nr. 295001).
  20. De Walt DC224, hleðsluborvél. (Nr. 295002).
  21. De Walt DW956, hleðsluborvél. (Nr. 295003).
  22. Verkfærataska, teg. Fennel, með ýmsum verkfærum. (Nr. 295004).
  23. Hitachi DH24PC2, höggborvél, sundurtekin. (Nr. 295005).
  24. Black & Decker KG915, slípirokkur. (Nr. 295006).
  25. De Walt DW933, stingsög. (Nr. 295007).
  26. De Walt DC945, hleðsluborvél. (Nr. 295008).
  1. Master B100CEH, olíuknúinn hitablásari. (Nr. 295010).
  1. De Walt Dw678ek, rafmagnshefill. (Nr. 295012).

31. Hitachi DH24PB3, höggborvél. (Nr. 295013).

      35. Tengikassi, typ. 9030010. (Nr. 295017).

      36. Gavita Gan 6-800, gróðurhúsalampar, 16 stk. (Nr. 295018).

      37. Bora- og bitasett, án tegundarheitis, 2 stk. (Nr. 295019).

      38. Lux, topplyklasett. (Nr. 295020).

      39. Borar. (Nr. 295021).

      40. Kassi með skrúfum og ýmsu smádóti. (Nr. 295022).

      41. Komelon, hallamál, 80cm. (Nr. 295023).

      42. WORX, taska með ýmsum skrúfum og smáverkfærum.  (Nr. 295024).

      43. Vinnufatnaður: vesti o.þ.h. (Nr. 295025).

      44. Glærar slöngur á rúllu. (Nr. 295026).

      45. Fjöltengi og annað smádót í kassa. (Nr. 295027).

      46. PVC hné í kassa. (Nr. 2950028).

      47. Lampaskermur með peruskrúfgangi, aflangur. (Nr. 295029).

      48. Kassi með perum í gróðurhúsalampa og fleiru. (Nr. 295030).

      49. Ýmislegt dót tilheyrandi forræktun. (Nr. 295031).

      50. Dælubúnaður úr forræktun. (Nr. 295033).

      51. Raflagnir úr ræktunarrými. (Nr. 295034).

      52. Matsui, viftur í kössum. (Nr. 295035).

      53. Ruck, vifta úr forræktunarherbergi. (Nr. 295036).

      54. Zanussi, borðvifta úr forræktunarherbergi. (Nr. 295037).

      55. Ýmislegt úr forræktunarherbergi. (Nr. 295038).

      56. Gróðurhúsalampar, með skermum, 2 stk. (Nr. 295039 og 295042).

      57. Envirolite, gróðurhúsalampi. (Nr. 295040).

      58. Áburður o.þ.h. í kassa. (Nr. 295041).

      59. Fluorljós, 2 stk. (Nr. 295043).

      60. Skermar af gróðurhúsalömpum, 34 stk. (Nr. 295066).

      61. Fatnaður og skór úr holi. (Nr. 295069).

      62. Kassi með raflagnaefni og öðru af lagerhillum úr holi. (Nr. 295071).

      63. Kassi með verkfærum og ýmislegu öðru af lagerhillum úr holi. (Nr. 295074).

      64. Kassi með ýmsu af lagerhillu úr holi. (Nr. 295076).

      65. Kassi með ýmsu af borði úr holi. (Nr. 295077).

      66. Kassi með ýmsu af lofthreinsara úr holi. (Nr. 295078).

      67. Samanbrjótanlegur stigi, teg. Faraone. (Nr. 304452).

      68. Tjalddúkur úr forræktun. (Nr. 304458).

      69. 4 pokar af vikri. (Nr. 304459).“

Ákærði Borgþór krefst aðallega sýknu, en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa og hafnar upptökukröfu. Þá krefst hann þess að sakarkostnaður verði lagður á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans Vilhjálms H. Vilhjálmssonar hrl. og þóknun vegna starfa hans sem tilnefnds verjanda á rannsóknarstigi.

Ákærði Sæþór krefst aðallega sýknu, til vara að honum verði ekki gerð refsing, en að því frágengnu vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá krefst hann þess að sakarkostnaður verði lagður á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans Brynjars Níelssonar hrl.

Ákærði Ingi krefst aðallega sýknu en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá hafnar hann upptökukröfu að því er varðar aðra muni en þær plöntur sem um er getið í ákæru. Þá krefst hann þess að sakarkostnaður verði lagður á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans Guðbjarna Eggertssonar hdl. Einnig var af hans hálfu haldið uppi kröfu um að Sveini Andra Sveinssyni hrl. verði ákvörðuð þóknun vegna starfa hans sem tilnefndur verjandi ákærða á rannsóknarstigi málsins, en fulltrúi verjandans hafi verið viðstaddur eina skýrslutöku af ákærða hjá lögreglu.

Ákærði A krefst aðallega sýknu, til vara að honum verði ekki gerð refsing, en að því frágengnu vægustu refsingar sem lög leyfa. Hann hafnar upptökukröfu Þá krefst hann þess að sakarkostnaður verði lagður á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans Grétars Dórs Sigurðssonar hdl. og þóknun vegna starfa hans sem tilnefnds verjanda á rannsóknarstigi.

Við aðalmeðferð gáfu ákærðu skýrslu. Þá voru teknar skýrslur af vitnunum C, D, E, F, G og H, en allir eru þeir lögreglumenn og komu að rannsókn málsins. Þá voru teknar skýrslur af I garðyrkjukandidat og J garðyrkjufræðingi, en í málinu liggur fyrir skýrsla þeirra, sem unnin var að beiðni lögreglustjórans á Eskifirði og ber yfirskriftina: „Ræktunaraðstaða að B í [...]“.

I

Í málinu liggur fyrir leigusamningur um jörðina B í [...] undirritaður af ákærða Borgþóri fyrir hönd leigutaka sem sagður er K. Samningurinn sem er dagsettur 20. febrúar 2009 og er tímabundinn gildir frá 1. mars. 2009 til 28. febrúar 2010 og er leigugjald 100.000 krónur á mánuði.

Í málinu liggur fyrir yfirlitsskýrsla F lögreglufulltrúa um rannsókn lögreglu og er hún sögð gerð í ágúst 2009. Í skýrslunni er fjöldi mynda er sýna aðstæður og umbúnað að B þegar lögregla gerði þar húsleit. Kemur þar fram að lögreglumenn hafi fengið af því fréttir í apríl 2009 að líklega væri í gangi ræktun að B í [...]. Þegar hafi verið farið og kannað með mannaferðir en enginn hafi verið á bænum þá. Fengin hafi verið heimild  til húsleitar hjá Héraðsdómi Austurlands og í framhaldi hafi verið kannað með hina ætluðu ræktun og þá komið í ljós að langt hafi verið komið með að setja upp ræktunarrými í íbúðarhúsnæði á jörðinni og forræktun hafin á kannabisplöntum. Í framhaldi hafi verið fylgst með bænum og látið til skarar skríða 6. maí 2009, en þá hafi enginn látið sjá sig á bænum frá því eftirlit hafi hafist þann 9. apríl sama ár.

Þegar húsleit hafi farið fram hafi legið fyrir nöfn nokkurra aðila sem líklegir hafi verið til að hafa verið að verki við að koma upp umræddum búnaði. Enginn hafi verið viðstaddur húsleitina af hálfu eigenda eða leigjenda jarðarinnar og því hafi lögregla kvatt til lögmann til að fylgjast með leitinni.

Er þá í skýrslunni gerð grein fyrir að fyrst hafi verið leitað í bifreiðageymslu sem standi milli tveggja íbúðarhúsa sem á jörðinni séu. Þar inni hafi verði búið að koma fyrir stórri (33 kW) díselrafstöð. Hafi rafstöðin verið á tveggja öxla vagni og verið merkt tiltekinni vagnaleigu. Komið hafi í ljós við eftirgrennslan að stöðin hafi verið í leigu frá umræddum fyrirtæki. Rafstöðinni hafi verið komið fyrir, smíðaður fyrir hana loftinntaksstokkur og lenging á pústlögn og hafi hvorutveggja legið út úr bifreiðageymslunni um norðurvegg. Einnig hafi verið búið að koma fyrir pústlögn fyrir aðra rafstöð en hún hafi ekki verið í húsinu. Norðan við húsið hafi verið minni rafstöð á vagni sem líklega hafi átt að fara inn í geymsluna. Einnig hafi verið sverir rafkaplar í hönkum á túni við íbúðarhúsið.

Inni í bifreiðageymslunni hafi verið nokkuð af verkfærum og slíku ásamt því að þar inni hafi verið einingaklefi ósamsettur sem hafi líklega átt að verða þurrkklefi. Stór gashitablásari hafi staðið á gólfinu.

Þá kemur fram í skýrslunni að næst hafi verið farið í íbúðarhúsið (hér mun vera átt við nýrra íbúðarhús af tveimur sem þarna eru). Hafi þarna verið útbúið ræktunarrými í stofu sem sé austan til í húsinu. Búið hafi verið að taka niður millivegg og taka herbergi sem verið hafi norðan við stofuna undir ræktunarrými. Engar plöntur hafi verið í þessu rými en það hafi verið næstum fullklárað utan þess að helmingur ljósa hafi ekki verið uppsettur og ekki á staðnum. Þarna hafi átt að vera svokölluð vatnsræktun, það er að plöntur séu hafðar í rörum og þar í vatni.

Ræktunarrýminu hafi verið svo fyrir komið að reist hafi verið trégrind og útveggir klæddir af með plasti, en rýmið hafi náð fast að útveggjum nema að norðanverðu þar sem um einn metri hafi verið frá rýminu að útvegg. Gluggar hefðu verið klæddir svo ekki sæist inn í rýmið. Þrjátíu, um fimm metra löng og tíu sentimetra sver, pvc plaströr hafi verið á grindum á gólfinu og hafi verið búið að taka hringlaga göt í þau þar sem búið hafi verið að hluta að koma fyrir grindum fyrir plöntur. Þar ofan við hafi verið hálftommu heildregin vatnsrör, tólf neðan við og tólf ofan við þau, en rörin hafi verið fest upp með nælonböndum. Kaðlar hafi verið úr efri rörunum að útveggjum ræktunarrýmisins að norðan og sunnan. þar hafi verið handvindur sem hægt hafi verið að hífa og slaka neðri rörunum en í þau hafi verið búið að festa sextán Gavita ræktunarlampa.

Búið hafi verið að koma fyrir mjög öflugu loftræstikerfi í ræktunarrýminu og hafi verið lofthreinsari á gólfi framan við rýmið og hafi verið lagnir frá honum um herbergi í norðanverðu húsinu og áfram þar út um spjald sem hafi verið sett í stað rúðu sem hafi verið í herberginu.

Í herbergi, næstu vestan við þar sem loftræstikerfi hafi farið út, hafi verið búið að koma fyrir ræktunarskáp sem útbúinn hafi verið úr málmgrind með efnisklæðningu. Þar hafi verið uppsett ræktunarljós og sjálfvirk vökvun. Þar til hliðar hafi verið í plastkassa ræktunarljós og sjálfvirk vökvun. Loftræstiviftu hafi verið komið fyrir í lausu fagi og glugginn þar klæddur af með þykku dökku plasti svo ekki sæist inn. Í ræktunarrýminu hafi verið samtals 16 mjög litlar, ætlaðar kannabisplöntur. Rafmagn hafi slegið út í rýminu og hafi hluti plantnanna verið hálfvisnaður. Reynt hafi verið að slá inn rafmagni en það hafi ekki gengið þar sem útleiðsla hafi virst vera í rafbúnaði í herberginu. Þá hafi allt verið aftengt þar og hafi þá verið hægt að slá inn rafmagni.

Búið hafi verið að koma upp hillum í rými framan við ræktunarrýmin og hafi verið þar að sjá sem lager framkvæmda hafi verið en mikið hafi verið af ýmsu byggingaefni, s.s. skrúfur, vinklar og slíkt. Einnig hafi verið þar raflagnaefni s.s. dósir, tengi og slíkt. Búið hafi verið að koma fyrir rafmagnstöflum í rýminu og hafi legið þar lagnir úr stóra ræktunarrýminu og hafi virst sem það hafi átt að tengja þær eitthvað og þá líklega rafstöð þeirri sem búið hafi verið að koma upp.

Verkfæri hafi verði á staðnum en mest af þeim hafi verið í þvottahúsi og í geymslu sem sé inn af þvottahúsinu en um hafi verið að ræða 14 rafmagnsverkfæri, s.s. borvélar, brotvélar, hefil, hjólsagir og stingsög. Einnig hafi þar verið verkfæratöskur með handverkfærum, skrúfum, skrúfbitum og ýmislegu slíku ásamt hæðarkíki. Nokkrar af þessum vélum hafi verið af gerðinni DeWalt og virst vera nýlegar.

Öll rafmagnsverkfæri hafi verið haldlögð ásamt hitablásara, verkfæratöskum, lausum búnaði úr hillum og af borðum, s.s. allt byggingarefni og raflagnaefni. Rör úr ræktunarrými og vindur, dælubúnaður vegna vatnsræktunar, loftræstikerfi með lögnum. Forræktunarklefi og annað sem þar hafi verið ásamt öllum ræktunarljósum. Bakkar, ræktunarvökvar, lagnir og töfluskápar svo eitthvað sé tiltekið. Sé um þetta vísað nánar til munaskrár sem fyrir liggi í málinu.

Auk þessa hafi verið á vettvangi vegabréf ákærða A, teikningar af uppsetningu ræktunarrýmis og annað slíkt. Þetta hafi einnig verið haldlagt.

Vegna þessa máls hafi lögreglan á höfuðborgarsvæðinu verið fengin til aðstoðar og hafi á hennar vegum verið teknar skýrslur af fjórum aðilum sem tengst hafi málinu. Auk þess hafi verið haldlagt við húsleit á höfuðborgarsvæðinu 33 gróðurhúsalampar, perur, hitari, tímarofar, steinullarpúðar, pottar í vatnsræktunarkerfi og næringarefni til gróðurræktunar.

Þær sextán plöntur sem verið hafi í forræktun hafi verið sendar til tæknideildar LHS og hafi greining þeirra verið sú að um væri að ræða kannabisplöntur.

Þá er í skýrslunni gerð grein fyrir helstu atriðum sem komið hafi fram í skýrslum af ákærðu, en gerð verður grein fyrir framburði ákærðu hér síðar.

Loks er í skýrslunni dregin saman niðurstaða rannsóknar. Kemur þar fram að ljóst sé að býlið að B í [...] hafi verið tekið á leigu af ákærða Borgþóri og tilgangurinn hafi verið að setja þar upp ræktun. Ákærði Borgþór hafi sagt að hann hafi ætlað að rækta þar tómata eða slíkt en hann hafi breytt því síðan í að hann hafi ætlað að rækta þar kannabisplöntur, en það hafi einnig komið fram hjá honum í viðurvist þriggja lögreglumanna við handtöku hans.

Fram hafi komið hjá ákærða Sæþóri að setja hafi átt upp kannabisræktun og að þeir hafi staðið að þessu en ákærði Borgþór hafi fjármagnað þetta. Þeir ákærðu Ingi og A hafi verið fengnir til að sjá um smíðar og þeir hafi einnig komið að því, hann og ákærði Borgþór.

Ingi hafi sagst hafa aðstoðað við að smíða þarna og að þeir hafi verið að koma upp tómataræktun. Nokkuð hafi liðið frá skýrslutöku af ákærðu Borgþóri og Sæþóri þar til skýrsla hafi verið tekin af ákærða Inga.

Ákærði A hafi sagst hafa verið að aðstoða þarna við að smíða. Fram hafi komið að hann hafi játað spurningum er hann hafi verið spurður um smíði kannabisverksmiðju og ræktunar en er hann hafi verið beint spurður um hvað sett hafi verið upp þarna þá hafi hann ekki sagst hafa hugmynd um það né vilja tala um það. Nokkuð hafi liðið frá skýrslutöku af ákærðu Borgþóri og Sæþóri þar til skýrsla hafi verið tekin af ákærða A.

Ljóst sé að í herbergi á B hafi verið búið að koma í forræktun 16 kannabisplöntum. Rafmagn hafi farið af viðkomandi herbergi og því hafi hluti plantnanna verið visnaður. Fram hafi komið bæði hjá ákærðu Borgþóri og Inga að þeir hafi átt þessar plöntur, en hvor um sig hafi sagst hafa komið með þessar plöntur og að engir aðrir hafi átt þátt í því.

Ekki hafi fullkomlega verið lokið við uppsetningu á öllum búnaði til að ræktun gæti hafist en eftir hafi verið að setja upp um tvo þriðju ræktunarljósa og tengja rafmagn að þeim ásamt því að tengja vatn inn á ræktunarrörin. Ljóst sé að ekki hefði tekið langan tíma að koma ræktun af stað hefði til þess staðið vilji.

Miðað við uppsetningu í ræktunarrýminu, þ.e. þrjátíu rör með tuttugu götum fyrir plöntur, hafi verið hægt að rækta 600 plöntur í rýminu á hverjum tíma. Uppsetningin sé talin nokkuð fagmannlega unnin en hún hafi verið með þeim hætti hönnuð að ekki hefði þurft að vitja plantnanna nema með nokkurra daga millibili.

Miðað við það sem áður hafi sést og skýrsluritari hafi verið upplýstur um af þeim sem komið hafi að vinnu við að uppræta kannabisræktanir hafi uppsetningin þarna verið með sama hætti. Miðað við það sem fram hafi komið í upphafi hjá ákærðu Borgþóri og  Sæþóri verði að telja að umræddur ræktunarbúnaður hafi verið settur upp til að rækta kannabisplöntur. Þá hafi slíkar plöntur verið í forræktun í hliðarherbergi og styðji það framangreinda ályktun. Auk þess sé ljóst að kostnaður sem stofnað hafi verið til í tengslum við þetta hafi verið mjög mikill, s.s. leiga á jörðinni, kaup á búnaði og uppsetning hans.

Niðurstaða rannsóknarinnar sé sú að á B hafi verið áformuð stórfelld ræktun á kannabisplöntum eða allt að 600 plöntur. Forræktun hafi verið hafin, en ljóst sé að tekin hafi verið ákvörðun um að fresta ræktun, eða eins og ákærðu Borgþór og Sæþór hafi sagt, að hætt hefði verið við hana. Ekki hafi verið byrjað að taka niður búnað þann sem komið hafi verið upp og ekki hafi leigusamningi við land- og fasteignareiganda verið sagt upp.

Þá er um það getið að ákærði Borgþór hafi óskað eftir að gefa nýjan framburð hjá lögreglu þar sem hann teldi sig hafa verið þvingaðan með hótunum til að játa að hafa ætlað að setja upp kannabisræktun. Ekki hafi þótt ástæða til að taka þriðja framburð af ákærða Borgþóri vegna þessa, enda gæfist honum kostur á að tjá sig fyrir dómi kæmi til þess að ákært yrði í málinu.

Í umræddri skýrslu eru myndir sem sýna umbúnað og aðstæður að B þegar lögregla kom þar að.

II

Tvær skýrslur voru teknar af ákærða Borgþóri Friðrik Ágústssyni við rannsókn málsins og voru þær teknar upp á mynddisk. Endursögn skýrslnanna liggur fyrir í málinu, sem og afrit af mynddiskunum. Endursögnin er gerð af Jóni G. Sigurgeirssyni rannsóknarlögreglumanni en hann kom fyrir dóminn við aðalmeðferð málsins og er gerð grein fyrir framburði hans hér síðar.

Í fyrri skýrslunni, sem tímasett er klukkan 16:07 til 16:34 miðvikudaginn 6. maí 2009, greinir að við skýrslutökuna hafi ákærði Borgþór viðurkennt að hafa ætlað að búa til gróðurhús en hafi síðan ákveðið að hætta við þau áform og taka það niður. Hafi Borgþór sagst hafa búið til gróðurhús sem hægt hefði verið að nota til að rækta hvað sem er í, tómata, papriku og kannabis en hann hafi ákveðið að rækta ekki neitt í gróðurhúsinu. Aðspurður að því hvers vegna hann hafi viðurkennt fyrir þremur lögreglumönnum við handtökuna að hafa ætlað að rækta kannabisplöntur í húsnæðinu hafi Borgþór sagt að það hefði aldrei neitt farið í gang þarna. Yfirheyrandi hafi þá bent Borgþóri á að í húsnæðinu hefðu verið litlar kannabisplöntur (sem Borgþór hefði sjálfur talað um í samtali við lögreglu). Borgþór hafi sagst hafa vitað af visnuðum plöntum sem í hans huga hefði getað verið hampur eða hvað sem væri. Borgþór hafi sagt að hann hafi ekki vitað hver hefði sett þessar plöntur niður þarna í húsnæðinu. Þetta hefði verið komið þarna allt í einu.

Hafi Borgþór sagst viðurkenna að hafa keypt allan búnaðinn og hafi sagst hafa ætlað að koma búnaðinum aftur í verð. Hann langi ekki til að eiga gróðurhúsið því hann hafi ekki lengur trú á ræktun.

Hann hafi sagt aðspurður að hann hafi leigt húsnæðið til að búa þar til gróðurhús. Aðspurður um samverkamenn hafi Borgþór tilgreint Sæþór Ágústsson, Inga og A, en eftirnöfn þeirra hafi hann ekki sagst vita.

Borgþór hafi vísað á þann búnað sem ekki hafi verið búið að flytja austur og setja þar upp. Um væri að ræða 30 – 35 gróðurhúsalampa og næringu. Borgþór hafi sagt munina vera í herbergi heima hjá Sæþóri Ágústssyni. Borgþór hafi sagst hafa smíðað vatnsræktunarkerfin eftir kerfi sem hann hefði séð og sé selt til að rækta tómata. Aðspurður um kostnað hafi Borgþór sagt að hann hefði lagt út um fjórar milljónir króna og að hann einn hefði lagt út kostnað vegna uppsetningar gróðurhússins. Hafi Borgþór sagst hafa fengið peningana þar sem hann hefði skilað inn lóð sem honum og konu hans hefði verið úthlutað að [...] í [...], en lóðin hefði verið skráð á konu hans.

Borgþór hafi sagst hafa keypt búnað og lampa af Tomma og hafi hann greitt 20 þúsund krónur fyrir hvern lampa. Þetta væru þeir lampar sem enn væru fyrir austan, þ.e. hvítu lamparnir. Hina hafi hann keypt í [...]. Hann telji ekki að lamparnir séu þýfi.

Aðspurður um upphafið hafi Borgþór sagt að þetta hafi allt byrjað í janúar eða þar um bil. Hafi hann leigt húsnæðið. Einnig hafi hann leigt dísilrafstöð, sem enn sé fyrir austan, af fyrirtækinu [...] en þetta hafi hann gert í febrúar eða mars. Minni rafstöðina hafi hann keypt af manni fyrir 100.000 krónur (um síðustu ummælin er þess getið í skýrslu að Borgþór hafi verið spurður „utan skýrslu“).

Loftræstikerfið hafi Borgþór sagst hafa fengið hjá nafngreindum vini sínum en sá hafi fengið kerfið gefins úr Faxaskála áður en hann hafi verið rifinn. Kerfið hafi verið bilað en hann hafi lagað það.

Borgþór hafi sagst hafa flutt búnaðinn austur með flutningabíl sem hann hafi leigt og greitt fyrir 100.000 krónur.

Borgþór hafi vísað lögreglu á tvö húsnæði sem hann haf sagst hafa leigt í aðdraganda þess að hann hafi farið austur með allan búnaðinn. Borgþór hafi sagst hafa leigt umrædd húsnæði, sem verið hafi í Hafnarfirði og Kópavogi, til að safna saman þeim munum sem til þurfti og til að undirbúa uppsetningu þeirra í húsnæðinu fyrir austan.

Aðspurður um hvaðan hann sækti þá þekkingu sem til þyrfti til ræktunarinnar hafi Borgþór sagt að hann sækti hana af internetinu.

Í síðari skýrslunni, sem tímasett er sama dag frá klukkan 17:07 til 17:15, er sagt að Borgþór hafi sjálfur óskað eftir að fá að gefa skýrslu að nýju til að breyta framburði sínum sem skráður hafi verið stuttu áður.

Borgþór hafi sagt að ætlunin hafi verið að setja upp kannabisræktun á staðnum, en hann hafi hætt við það. Borgþór hafi sagt að ekkert hefði farið þarna í gang vegna ótta við að vera tekinn af lögreglu og eins vegna þess að hann hafi viljað vera heiðarlegur. Hann hafi sagt að samviskubitið hefði verið búið að naga hann. Borgþór hafi sagst vera bindindismaður sjálfur og hafi svosem ekki viljað hagnast á eymd annarra. Hafi Borgþór sagst hafa ætlað að koma búnaðinum í verð á einhvern annan hátt, en hann hafi keypt búnaðinn heiðarlega.

Hafi Borgþór sagt að persónulega liti hann ekki svo á að hann hefði brotið af sér þar sem hann teldi sig hafa stoppað í tæka tíð.

Hafi Borgþór viðurkennt að hafa fengið „afleggjara“ sem hann hafi sett inn í annað lítið herbergi. Hann hafi sett afleggjarana í „steinullarkubb“. Þetta hafi verið gert í lok mars um það bil. Hann hafi ekkert komið í húsið eftir þetta. Ætlunin hafi verið að rýma húsnæðið og taka til. Borgþór hafi sagst hafa ætlað að greiða samverkamönnum sínum laun þegar hann hefði verið búinn að fá einhverja peninga inn. Hann hafi ekki verið búinn að hugsa hvernig hann hafi ætlað að koma efnunum í verð, en samkvæmt þeim upplýsingum sem hann hefði þá væri það auðvelt. Aðspurður um hver hefði átt að sjá um ræktunina fyrir austan hafi hann sagst sjálfur hafa ætlað að sjá um það að hluta en ekkert hefði verið ákveðið frekar.

Aðspurður hafi Borgþór ekki vilja afsala sér haldlögðum munum. Hann hafi sagt að það gerði hann ekki vegna þess að búnaðurinn væri ekki ólöglegur þar sem hann hefði ekki verið notaður og eins vegna þess að hann hefði keypt hann löglega í búð sem mætti selja hann og hann hafi sagst ekki skilja hvers vegna hann mætti ekki eiga búnaðinn ef verslunin mætti selja hann.  

Ákærði Borgþór gaf skýrslu fyrir dómi. Neitaði hann því þá að hafa komið að því að setja upp ræktunaraðstöðu að A í [...]. Hann kvaðst hafa haft umrædda jörð á leigu og hafi ætlað að koma þar á fót ferðaþjónustu. Aðspurður um það hvort hann hefði verið byrjaður að setja upp aðstöðu til að stunda ferðaþjónustu á jörðinni kvaðst hann hafi verið byrjaður að undirbúa sig. Nánar aðspurður um þetta kvaðst hann hafa gert greiningu á því hvað það væru margir ferðamenn sem ættu þarna leið um, hvað væru margir ferðamenn sem kæmu með Norrænu, t.d. Ákærði staðfesti að hann hefði gert leigusamning um jörðina til eins árs, sem fyrir liggur í málinu. Þá var ákærði spurður hvort hann gæti tjáð sig um lögregluskýrslur sem teknar hefðu verið af honum við rannsókn málsins. Kom þá fram hjá honum að hann teldi sig hafa verið þvingaðan til þess að játa sök í málinu með því að skýrslutaka hefði verið rofin og honum gerð grein fyrir því meðan slökkt hafi verið á upptöku að þeir myndu „æða út um allan bæ“ og fara í öll húsnæði sem tengist honum. Hann hafi tengst fyrirtækjum í bænum og eigi tengdaforeldra og stjóra fjölskyldu. Hann hafi talið sig vera að fórna minni hagsmunum fyrir meiri. Hafi honum liðið eins og verið væri að taka hann af lífi, mannorð hans, fyrir eitthvað sem hann hafi ekki átt sök á. Aðspurður um það hvort það hafi verið í seinni skýrslunni sem hann hafi ákveðið þetta kvað hann að það hefði raunar verið „svolítið leiðandi í þeim báðum“ en skýrslutakan hafi harðnað eftir þessa fyrri. Þá í raun og veru hafi hann játað að hafa tekið þátt í þessu. Aðspurður um það hvort hann þekkti til þess búnaðar sem myndir séu af í gögnum málsins og komið hafi verið upp að B kvaðst hann ekki gera það. Hann kvaðst aldrei hafa komið á staðinn til að setja þessa aðstöðu upp. Hann kvaðst ekki vita hverjir hafi sett þetta upp en það hafi verið fleiri sem hafi haft aðgang að húsnæðinu. Aðspurður um það hverjir það hafi verið nefndi hann Inga, Sæþór og A. Þeir hafi haft lykla frá honum. Aðspurður um það hvort þeir hafi verið að setja þarna upp ræktunaraðstöðu kvaðst hann ekki viss. Þá var borið undir ákærða að fram kæmi í skýrslum af meðákærðu að hann hafi borgað fyrir ýmiskonar tæki til að setja upp þarna og aðstöðu og hann spurður hvort hann kannaðist við það. Ákærði óskaði þá eftir að fá að ráðfæra sig við lögmann sinn. Spurningin var þá umorðuð og ákærði spurður hvort hann kannist við það að meðákærðu í málinu hafi verið að vinna á hans vegu á B. Kvað hann þá ekki hafa verið að vinna á hans vegum. Þá var ákærði beðinn um að upplýsa dóminn um hvers vegna meðákærðu hafi haft aðgang að jörðinni, hvort þeir hafi verið undirleigjendur eða hvernig þessu hafi verið háttað og hvort það hafi þá verið með samkomulagi við hann. Kvað hann það hafa verið með samkomulagi við hann. Aðspurður um hvort hann hefði haft einhverja hugmynd um hvers vegna þeir hafi óskað eftir að hafa aðgang að jörðinni kvaðst hann ekki hafa vitað það og að hann hafi ekki spurt þá að því. Þeir hafi greitt fyrir aðganginn, eitthvað um 50 þúsund krónur en hann myndi það ekki nákvæmlega, þetta hafi verið stuttur tími. Nánar aðspurður um hverjir hafi framleigt jörðina af honum kvað hann það hafa verið Inga. Aðspurður um það hvort gerður hafi verið samningur kvað hann það ekki hafa verið búið. Þá var ákærði inntur eftir því hvort hann hefði einhvern tímann farið þarna austur og kvaðst hann hafa gert það. Hann myndi ekki nákvæma dagsetningu á því. Var þá borið undir hann að hann leigði jörðina frá 1. mars og lögregla fari þarna inn í byrjun maí. Hvort það hafi verið einhvern tímann á því tímabili. Kvaðst hann þá hafa verið þarna einhvern tímann í lok mars eða byrjun apríl. Aðspurður um það hvort þá hafi verið búið að setja upp ræktunaraðstöðu í bænum kvaðst hann ekki hafa orðið var við það. Var ákærði þá spurður hverjir hafi verið þarna þá kvaðst hann minna að það hafi verið meðákærðu A og Sæþór. Þá var borið undir ákærða það sem haft var eftir honum í skýrslu lögreglu um að hann hefði leigt flutningabíl og flutt mikið dót austur og hann spurður um það hvort það væri ekki rétt eftir honum haft kvað hann að það væri rétt eftir sér haft. Aðspurður um hvaða dót það hefði verið kvað hann það hafa verið allskonar dót, verkfæri og annað dót sem hann hafi síðan tekið með sér til baka í síðasta skiptið sem hann hafi farið þarna. Aðspurður um dótið sem verið hafi þarna þegar lögregla hafi komið og hvort það hafi ekki verið dót sem hann hafi flutt þarna austur kvað hann að það hafi verið eitthvað brot af því. Aðspurður um hvað hann hafi eytt miklum peningum í þessi kaup kvaðst hann ekki vita það nákvæmlega en að stærstum hluta hafi hann fengið til baka aftur verkfæri og annað sem hann hafi átt þarna. Aðspurður um stóra díselvél sem verið hafi þarna og hvort hann hafi leigt þessa vél kvaðst hann ekki muna það nákvæmlega. Þá var borið undir hann að tvær díselvélar hafi fundist á staðnum og að lögregla hefði eftir honum að hann hafi keypt aðra díselvélina en leigt hina. Vísaði ákærði þá til þess sem hann hefði áður sagt að hann hefði átt einhvern búnað þarna sem hann væri búinn að fá allan til baka. Hann kvaðst hafa átt díselvél. Aðspurður um hvers vegna hún hafi verið þarna á staðnum kvað hann að vélin hefði verið þarna í geymslu af hans hálfu. Hann hafi líka starfað í kvikmyndaiðnaði og öðru þar sem að hann hafi getað notað sér díselvélar. Þá var borið undir hann að það hafi verið búið að koma þarna fyrir umbúnaði og tengja vélina við púst og tengja það út úr húsi og annað og hann spurður hvort það hefði verið umbúnaður sem hann hefði komið fyrir. Kvað hann svo ekki vera. Aðspurður um hvort hann hefði einhverjar skýringar á honum kvaðst hann ekki hafa það, hann hafi ekki lánað neinum þessa vél. Þá var borið undir ákærða að lögreglumenn sem handtekið hafi hann 6. maí sl. hafi sagt hann hafa sagt þeim þá strax áður en skýrslutaka hafi byrjað að hann hafi ætlað að koma upp kannabisræktun á B. Kvað hann þetta ekki rétt og að þetta væri rangt eftir honum haft. Það sé ennfremur rangt sem haft sé eftir honum í skýrslum að hann hafi ætlað að koma upp slíkri ræktun. Vísaði hann aftur til þess að hann hafi verið beittur þvingunum til að segja þetta. Hann kvað það aðspurður að hann hefði verið beittur þvingunum einnig við fyrri skýrslu sína. Aðspurður af verjanda sínum um það hvernig hann þekkti meðákærðu kvaðst ákærði vera búinn að þekkja Sæþór lengi. Hina þekki hann í raun og veru ekki neitt. Hafi hann kynnst þeim fyrir rúmu ári síðan. Beðinn um að lýsa nánar atvikum við skýrslutöku á lögreglustöð 6. maí 2009 og í hverju hefðu falist þær þvinganir sem hann áður hefði vísað til kvað ákærði að lögreglumenn hafi áður en fyrri skýrslutakan hófst sagst vita allt og það þýddi ekkert fyrir ákærða að vera með múður. Svo hafi hann verið að reyna að segja þeim það sem þeir hafi viljað heyra í fyrri skýrslutökunni. Þá hafi lögreglumenn slökkt á upptöku og hafi sagt að ef hann færi ekki að segja það sem að þeir hafi viljað heyra þá myndu þeir fara inn í „[...]“ sem sé veitingastaður sem hann hafi sett upp með öðrum í Kópavogi. Þeir myndu fara heim til hans, til ömmu hans og afa. Myndu fara í öll húsnæði sem tengdust honum á höfuðborgarsvæðinu. Þeir hafi gert ákærða ljóst að það væri betra fyrir hann að segja það sem þeir hafi viljað heyra til að fórna minni hagsmunum fyrir meiri. Aðspurður um það hvernig þetta hafi nákvæmlega farið fram og hvort þeir hafi upplýst hann strax um þetta fyrir fyrri skýrslutökuna eða hvort þetta hafi gerst í hléi á milli þessara tveggja skýrslna kvað ákærði að þetta hafi gerst í hléi á milli skýrslna, en þeir hafi verið búnir að vera mjög ögrandi allan tímann í raun og veru. Aðspurður af verjanda sínum hvort þetta kæmi þá fram á þeim mynddiskum sem lagðir hafi verið fyrir dóminn kvað hann svo ekki vera. Hann hafi tekið eftir því að þeir hafi slökkt á upptökunni áður en þessi samskipti hafi farið fram. Nánar aðspurður af verjanda sínum um hverju lögreglumenn hafi verið að hóta, hvort þeir hafi verið að hóta húsleit eða einhverju öðru, kvað ákærði að það hefðu verið hótanir um húsleitir. Kvaðst hann hafa talið sig vera að fórna minni hagsmunum fyrir meiri og að ef farið hefði verið í allar þessar húsleitir sem hótað hafi verið ætti hann ekki fjölskyldu í dag og hefði verið útskúfaður víða. Þá var ákærði beðinn um að skýra það nánar fyrir dóminum hver tilgangur hans hafi verið með því að leigja jörðina B. Hann kvaðst fyrst hafa ætlað að fara í ferðaþjónustu og setja upp kajakaferðir, heimagistingu, en tvö íbúðarhús séu á jörðinni, og einhverja „cateringu“. Nánar aðspurður um hlé sem gert hafi verið á skýrslutöku og slökkt á upptökubúnaði kvað ákærði að þar vísaði hann til þess hlés sem varð á milli þeirra tveggja skýrslna sem samkvæmt gögnum málsins voru teknar af honum. Þá kvaðst hann minnast þess að lögreglumenn hafi hótað honum að stinga honum inn í sólarhring. Aðspurður af verjanda ákærða A hvort hann hefði ráðið A til vinnu að B kvað ákærði að það hefði hann ekki gert. A hafi komið þarna í gegn um ákærða Inga, en þeir séu gamlir vinir. Þá var borið undir hann að eftir honum hefði verið haft í skýrslu 6. maí 2009 að hann hefði keypt lampa af A. Kvað ákærði að þetta væri ekki rétt. Aðspurður af verjanda meðákærða Inga hvort hann hefði látið hann hafa lykil af húsnæðinu kvað ákærði að hann hefði gert það. Spurður um það hvort hann hefði látið fleiri lykla af hendi kvað hann að það hefðu verið lyklar sem hafi verið á staðnum og hafi hangið í einu útihúsinu. Ákærði kvaðst ekki muna hvenær hann hafi afhent lyklana en það hafi verið einhvern tímann í mars eða apríl. Á þeim tíma hefði hann þekkt meðákærða Inga kannski í tvo mánuði.

Skýrsla var tekin af ákærða Sæþóri Ágústssyni  hjá lögreglu 6. maí 2009 og ber með sér að hafa hafist klukkan 18:05 og lokið klukkan 18:23 og vera gerð af Jóni G. Sigurgeirssyni rannsóknarlögreglumanni. Fram kemur í skýrslunni að Sæþór sé grunaður um aðild að kannabisræktun að B. Er eftir honum  haft að það hafi verið sameiginleg ákvörðun að setja upp kannabisræktun á B. Hann hafi tekið þátt í að smíða þetta og koma þessu upp. Kvað hann Borgþór hafa átt frumkvæði að leigu á húsnæðinu. Aðspurður um það hver hefði útvegað munina sem til hafi þurft kvað hann að það hefði verið „bara svona hér og þar eitthvað. Þetta [sé] allt keypt löglega.“ Borgþór hafi lagt út allan kostnað, en Sæþór ekkert. Aðspurður um hvað hafi verið hans hlutverk kvað hann það ekki hafa verið neitt sérstakt. Bara að koma þessu upp. Hann kvaðst ekki vita hver hafi átt að sjá um kannabisræktunina og kvaðst aðspurður hafa farið tvisvar austur vegna þessa en hann myndi ekki nákvæmlega hvenær það hafi verið. Aðspurður um það hvers vegna þeir hafi hætt við að rækta kannabis í húsnæðinu kvað hann það hafa verið vegna samviskunnar. Hann hafi bara farið að spá hvort hann ætlaði að vera edrú og lifa samkvæmt því eða hvort hann ætlaði að verða glæpamaður. Hann hafi fattað það að það myndi ekki ganga að vera bæði. Aðspurður um hverjir aðrir hefðu komið að þessari kannabisræktun, kvað hann það vera Inga, A og L. Þeirra hlutverk hafi verið að smíða. Þeir Borgþór hafi báðir fengið þá til verksins þar sem þeir könnuðust aðeins við þá. Aðspurður um hverjir eigi kannabisplöntur sem verið hafi í húsnæðinu kvaðst hann ekki vita það og að hann hefði ekki vitað að það væru neinar plöntur þarna. Hann kvaðst síðast hafa komið í húsið í lok mars eða byrjun apríl, en þá hafi hann og Borgþór farið þangað. Enginn annar hafi verið í húsinu þegar þeir hafi komið austur.

Aðspurður um það hver kynni að hafa orðið eftir í húsinu þegar þeir hafi farið til Reykjavíkur kvað hann það geta verið A, en hann hafi verið að smíða þarna. Í síðustu ferð sinni austur hafi tilgangur þeirra verið að smíða. Aðspurður um hvenær þeir hafi hætt við þetta kvað hann það hafa verið svona viku eftir að þeir hafi komið heim, svona viku inn í apríl. Þetta hafi þeir gert samviskunnar vegna og „eins vegna rassíunnar hjá lögreglunni í ræktununum.“ Hann kvaðst aðspurður ekki hafa átt neina muni eða verkfæri í húsnæðinu. Þá kvað hann aðspurður að lampar, perur og næring fyrir plöntur sem fundist hafi við húsleit á heimili hans séu í eigu Borgþórs.

Þá var borið undir hann að Borgþór hefði sagt að hann hefði selt Borgþóri lampa sem verið hafi í húsnæðinu fyrir austan og hann spurður hvar hann hafði fengið þessa lampa. Kvaðst Sæþór hafa keypt lampana fyrir Borgþór fyrir peninga sem Borgþór hafi látið hann hafa. Hann hafi greitt 20.000 krónur fyrir hvern lampa. Þessi kaup hafi átt sér stað einhvern tímann á árinu 2008 eða í byrjun árs 2009. Hann telji ekki að þessir lampar séu þýfi, en hann hafi keypt lampana af „strák út í bæ“. Aðspurður um það hver hefði haft kunnáttu á að setja upp kannabisræktunina kvað hann að það hefði „bara hver [verið] að koma með sitt innput í þetta.“ Aðspurður hvort þeir hefðu ákveðið hvernig ætti að koma efnunum í verð kvað hann það ekki hafa verið. Það hefði ekki einu sinni verið byrjað að rækta þarna. Aðspurður um hvort hann notaði fíkniefni kvaðst hann hafa hætt því fyrir sex mánuðum. Hann hafi farið í meðferð í nóvember 2008. Framangreind skýrsla Sæþórs er undirrituð af honum.

Ákærði Sæþór gaf skýrslu fyrir dómi. Aðspurður kvaðst hann hafa tekið þátt í að setja upp ræktunaraðstöðu fyrir kannabis á B. Um aðdraganda þess kvað hann að það hefði verið í janúar og kreppa nýskollin á. Hann hafi verið tiltöluleg nýkominn úr meðferð og hafi verið edrú á þessum tíma. Hann hafi skuldað fíkniefnaskuldir og hafi ekki haft vinnu eða neitt. Hann hafi því slegið til að taka þátt í undirbúningi að þessu. Hann hafi ekkert borgað í undirbúningnum en hann hafi aðstoðað við þetta og smíðað þennan klefa þarna, eða hafi verið með í því. Hins vegar, eins og hann hafi sagt í skýrslum og hann hafi séð þegar hann hafi verið að fara yfir gögnin að lögreglan hafi verið búin að fylgjast með þarna í meira en mánuð án þess að væru nokkrar mannaferðir þarna og honum finnist það nokkuð augljóst í þessu máli og það hafi komið síðar á daginn að þeir hafi ákveðið að gera þetta ekki og hafi verið byrjaðir að taka þetta niður. Það hafi verið áður en lögregla hafi byrjað að fylgjast með þessu. Þannig að lögreglan hafi ekki stöðvað neina ræktun. Hann kvaðst aldrei hafa séð þessar kannabisplöntur þarna. Aðspurður um það hvað hann hafi oft farið austur taldi hann það hafa verið tvisvar. Hann kvaðst ekki muna hvenær það hafi verið en hann hafi verið þarna um það bil 10 daga í hvort skipti. Þeir hafi verið þarna hann og Ingi og A og Boggi hafi eitthvað verið þarna líka. Hann hafi komið með Borgþóri til baka. Kvaðst hann ekki muna hvort A hafi orðið eftir og Ingi Þór hafi verið á leiðinni austur. Aðspurður um það hvernig ákvörðun hafi verið tekin um að gera þetta í ljósi þess að þetta hafi kostað talsverðan undirbúning, kvað ákærði að eitt hafi bara leitt af öðru. Það hafi bara verið talað um að fara að rækta. Ákærði neitaði að svara spurningu um það hverjir hefðu verið að ræða um það. Það hafi reyndar ekki verið talað sérstaklega um að rækta kannabis það hefði bara verið talað um að rækta, en í hausnum á honum sé það að fara að rækta að fara að rækta kannabis, en ekki sé víst að allir hugsi eins. Ákærði kvaðst ekki vita hver hafi greitt kostnað við framkvæmdirnar, en kvað að hann hefði ekki gert það. Hann hafi enga peninga átt. Borið var undir hann að í lögregluskýrslu hafi hann sagst hafa séð um að borga. Þar sé tekið fram að Borgþór hafi lagt út allan kostnað og borið undir ákærða hvort hann kannist við að hafa sagt það. Kvaðst ákærði ekki muna þetta og ítrekaði að hann hefði ekki hugmynd um hver hefði borgað fyrir þetta. Þá kvaðst ákærði neita að svara spurningu um hver hefði séð um að framkvæma kaupin. Hann kvaðst ekki vita hvað kostnaðurinn hefði verið mikill, en örugglega einhverjar milljónir. Aðspurður um tengsl við meðákærða Borgþór kvað hann þá vera gamla vini, en hann hafi bara kynnst A og Inga Þór þarna rétt áður. Þá kvað ákærði að hann hafi litið þannig á málið að þeir hafi hætt við í tæka tíð og hann hafi sjálfur tekið ákvörðun um að gera þetta ekki. Þannig að hann hafi ekki skilið hvers vegna hann hafi verið ákærður, fyrir að hafa smíðað þetta og ákveðið síðan að gera þetta ekki og hafi verið byrjaður að taka þetta niður. Það sé deginum ljósara að það hafi aldrei farið neitt af stað þarna og hann geti ekki séð að hann hafi gert neitt ólöglegt. Aðspurður um það að lögregla kvæðist ekki hafa séð neinar vísbendingar um að byrjað hafi verið að taka þarna niður, heldur hafi verið allt í fullum gangi við að setja þetta upp, kvað ákærði að það væri bara þeirra mat til að gera „þetta eitthvað hott dæmi“. Kvaðst hann muna hvernig fréttaflutningur hafi verið um þetta: Lögregla stöðvar kannabisræktun í [...]. Svo hafi verið sýndar myndir úr fullbúnum ræktunum. Þetta sé bara kjaftæði. Þeir hafi ekki gert þetta og það sé alveg ljóst. Ef hægt væri að koma með þennan búnað þá myndi hver sem er sjá það að það hafi aldrei neitt verið gert í þessum búnaði. Þá var ákærði beðinn um að skýra með hvaða hætti hefði verið byrjað að taka búnaðinn niður. Kvað  hann hafa verið búið að setja upp öll ljós og tengja þau. Það hafi verið búið að rífa það allt í sundur aftur og fara með það til Reykjavíkur. Það hafi verði tekið heima hjá honum. Það liggi fyrir þarna í málinu. Aðspurður um það af hverju hann hafi ekki sagt lögreglu þetta, kvað ákærði að lögregla hefði komið heim til hans og hafi sótt þetta drasl. Hann hafi sagt lögreglunni frá því að það hefði verið byrjað að taka þetta niður, en eins og hafi komið fram þá geri lögregla bara skýrsluna eins og þeim hentar best. Hafi hann ekki grunað að hann ætti eftir að sitja í dómsal út af þessu máli. Það hafi ekki veri framið brot. Aðspurður um það hvenær ákvörðun hafi verið tekin um að hætta við þetta kvað hann að það hefði verið einum til einum og hálfum mánuði áður en lögregla hafði afskipti af honum. Þetta hafi allt verið löglega keypt „drasl“ en allt í einu hefði lögreglan verið komin inn heima hjá honum og rótandi í öllu og með einhvern kjaft og leiðindi. Þá var borið undir hann úr skýrslu af honum að hann hafi síðast komið þarna í lok mars eða byrjun apríl og kvað hann það geta passað en hann hefði ekki skrá yfir þetta. Hann hafi ekki verið að vinna á þessu tíma og hafi ekki verið að pæla í því hvaða dagsetning væri þegar hann hafi komið þarna heim. Þetta hafi verið einhvern tímann á þessu tímabili. Hann hafi verið farinn af B og þetta komi fram í skýrslu hans hjá lögreglunni. Það hafi verið búið að fylgjast með þarna í mánuð og hann hafi aldrei sést þarna eða neinn annar. Aðspurður um hver hafi keypt og komið með kannabisplöntur sem verið hafi á staðnum kvaðst hann ekki hafa hugmynd um það og hafi aldrei séð neinar kannabisplöntur. Það hafi engar plöntur verið þarna þegar hann hafi verið þarna að vinna. Aðspurður um hvort hann hefði tekið þátt í að byrgja alla glugga á húsinu kvað hann sig hafa gert það. Það hafi verið gert til að ekki væri hægt að sjá inn í húsið. Þá var hann spurður um til hvers rafstöðvarnar, sem verið hafi á staðnum, hafi verið notaðar kvað hann það örugglega vera til að fá rafmagn inn í húsið til að keyra lampana. Hann kvaðst ekki vita af hverju hafi þurft rafstöðvar í það, en hann kvað hafa verið rafmagn á bænum. Þá kvaðst hann ekki vita til hvers átti að nota gashitara sem fannst á staðnum. Þá kannaðist hann ekki við ósamsettan klefa sem verið hafi á staðnum eða til hvers hafi átt að nota hann. Aðspurður um það hvort rætt hafi verið um hvað hafi átt að gera við það kannabis sem ræktað yrði kvað hann að það hefði ekki verið komið neitt kannabis og ekkert verið farið að ræða hvað ætti að gera við það. Þá var borið undir hann úr lögregluskýrslu hans þar sem haft var eftir honum að það hefði verið sameiginleg ákvörðun „þeirra“ að koma upp kannabisræktun og hann spurður við hverja sé átt. Neitaði ákærði að svara þeirri spurningu.  

Þann 2. júní 2009 var tekin skýrsla hjá lögreglu af ákærða Inga Þór Thorarensen, að viðstöddum löglærðum fulltrúa tilnefnds verjanda hans á rannsóknarstigi. Er hann spurður um aðild að málinu, en sakarefnið snúist um kannabisræktun á B í [...]. Er eftir honum haft að hann hafi komið með þessar örfáu plöntur sem verið hafi þarna og að hann hafi tekið þátt í að smíða og setja upp þann búnað sem verið hafi þarna. Ekkert hafi verið rætt um hvað hann hafi átt að fá fyrir sitt hlutverk og er eftir honum haft að hann hafi farið þarna austur með plönturnar í óþökk annarra sem tengst hafi málinu. Aðspurður um tengsl sín við meðákærðu Borgþór, A og Sæþór kvað hann að þeir hefðu verið saman á AA fundum. Hann og A séu æskuvinir, en Ingi kvaðst stundum hafa verið að vinna fyrir Borgþór við að sinna ýmsum málum. Hafi hann átt að vera að vinna þarna í þessari tómatræktun hans. Hann kvaðst aðspurður hafa verið með verktakafyrirtækið M. Aðspurður um það hvernig hafi komið til að hann hafi aðstoðað við uppsetningu kvað hann þá bara hafa verið að ræða saman og hann kunni að smíða. Borgþór hafi fengið hann til verksins. Hann kvaðst ekki muna hversu oft hann hafi farið austur til að vinna að þessari uppsetningu en það hafi verið nokkrum sinnum. Þetta hafi átt að vera tómataverksmiðja. Hann kvaðst ekki vita til þess að það hafi verið þýfi þarna. Aðspurður um það hvort hann hafi átt einhverja muni í húsnæðinu kvaðst hann hafa átt öll verkfærin þarna, eða flestöll. Allt DeWalt hafi hann átt og handverkfærin. Hann hafi ekki átt ljósavélarnar, olíu „bambana“ og ekki dæluna eða rafmagnstöfluna en hann hafi átt eitthvað af rafmagnssnúrum. Hann kvaðst hafa keypt þessa muni í BYKÓ og Húsasmiðjunni og eiga kvittanir fyrir þeim flestum. Aðspurður kvaðst hann ekki hafa neina þekkingu á kannabisræktun. Hann hafi farið með kannabisplöntur og sett í ræktun að B eins og áður komi fram. Hafi sett þær í box og því hafi hann ræktað smá. Aðspurður um hvort hann kannist við nafnið N, þar sem lagt hafi verið hald á muni sem svo hafi verið merktir, kvað hann að hann og A hafi verið að smíða og hafi ætlað að breyta M í N, það sé því ekkert fyrirtæki sem heiti þetta. Það sem merkt sé N tilheyri honum en það hafi verið einhver tvö eða þrjú smíðavesti. Þá var borið undir hann hvort hann þekkti til einstakra muna og verkfæra sem hald var lagt á við húsleitir, en ekki þykir ástæða til að gera nánari grein fyrir því hér. Þá var Ingi spurður að því hvað hafi verið ætlun þeirra að gera að B og kvað hann það hafa verið að rækta tómata. Aðspurður um það hvort hann hefði einhverja þekkingu á slíkri ræktun kvað hann að þeir hafi ætlað að prófa sig áfram. Aðspurður um það hvers vegna hefðu þá verið kannabisplöntur í ræktun í húsnæðinu kvaðst hann hafi farið með þær þarna í óþökk hinna. Hann hafi ætlað að prófa, en hafi fengið samviskubit og hafi hætti við og skilið þær eftir þarna. Við hann var fullyrt að rýmið hafi verið sett upp eins og kannabisverksmiðja og hann spurður hvers vegna það hafi verið og kvað hann þá að hann vissi það ekki, en að kannski væri það vegna þess að blóm væri blóm.

Aðspurður um það hvort vatnsrör væru notuð við tómataræktun kvaðst hann ekki vita það en þeir hafi ætlað að reyna það. Aðspurður um hvers vegna þeir hafi ekki látið verða af því kvaðst hann ekki vita það, þeir hafi bara hætt við. Um fyrirætlanir varðandi hugsanlega uppskeru kvaðst hann ekki vita það. Ef til vill hafi átt að skipta henni á milli fjölskyldna þeirra eða selja hana. Þá vissi hann ekki hver kostnaður hefði verið af því að koma upp aðstöðunni. Er borið var undir hann að Borgþór segði að þarna hefði átt að rækta kannabis kvaðst hann ekki vita hvers vegna Borgþór hefði sagt það. Þá var borinn undir hann framburður Borgþórs um að Borgþór hefði sjálfur sett kannabisplönturnar sem verið hafi í húsnæðinu í lítið herbergi og hann hafi sjálfur sett plönturnar í steinullarkubba. Kvað Ingi að þetta væri bara lygi, þetta hafi verið plöntur sem hann hafi sjálfur komið með þarna austur.

Skýrsla þessi er undirrituð af ákærða Inga Þór og Grétari Dór Sigurðssyni hdl. fulltrúa tilnefnds verjanda og ber með sér að vera lokið 2. júní 2009 klukkan 14:28.

Ákærði Ingi Þór Thorarensen gaf skýrslu fyrir dómi. Aðspurður kvaðst ákærði kannast við að hafa tekið þátt í að setja upp ræktunaraðstöðu á B í [...]. Kvað hann þá hafa ætlað að fara að rækta tómata á þessum stað hann og nokkrir strákar. Ákærði neitaði að svara spurningu um hverjir aðrir það hafi verið. Hann kvaðst ekki vita hver hafi átt frumkvæðið að þessu, þetta hafi „verið svona í umræðunni bara“. Spurður um af hverja þetta hafi verið gert á þessari jörð kvað hann þar vera fallegt útsýni yfir [...]. Kvað hann aðspurður að það gæti verið að meðákærði Borgþór hefði verið með jörðina á leigu. Ákærði neitaði að svara spurningu um það hvort Borgþór hefði verið einn af þeim sem hafi ætlað að fara út í þessa ræktun. Þá neitaði hann að svara spurningu um hver hafi greitt kostnað af uppsetningunni og spurningu um hvort hann vissi hversu mikill kostnaðurinn var. Aðspurður um það hversu oft hann hafi farið þarna austur, kvaðst hann hafa farið nokkrum sinnum en hann hefði ekki tölu á því. Kvaðst hann ekki hafa verið lengi í hvert skipti, hann hafi stoppað stutt en farið oft. Þá var hann spurður um þær sextán kannabisplöntur sem fundist hafi þarna á staðnum og hann spurður hvort hann kannaðist við þær. Kvaðst hann gera það og að hann hefði farið með þessar plöntur þarna uppeftir, eins og fram komi í skýrslu hans hjá lögreglu. Þá kvað hann aðspurður um ástæðu þess að hann hafi komið með plönturnar að hann hafi ætlað að fara að framleiða hamp. Þá var ákærði spurður hvers vegna aðstaðan þarna hafi ekki verið kláruð og kvað hann að þeir hafi verið hættir við tómatræktunina og því hafi þeir verið byrjaðir að rífa þetta niður. Nánar spurður um hvað hafi verið búið að gera í því að rífa þetta niður kvað hann að það hefði verið búið að fjarlægja lampa og eitthvað fleira, sem hann myndi ekki alveg hvað hafi verið. Þeir hafi ekki verið farnir að fjarlægja verkfæri þar sem þeir hafi ekki verið búnir að rífa allt niður. Aðspurður kvaðst hann kannast við að tvær rafstöðvar hafi verið þarna á staðnum og að það hefði sennilega átt að nota þær til að framleiða rafmagn. Þá kvað hann að þeir hafi verið með mikið af lömpum þarna og því hafi þurft rafstöðvarnar til að vera með nóg af rafmagni fyrir þá. Ákærði kvaðst hafa tekið þátt í að byrgja gluggana á íbúðarhúsinu og kvað það gert í þeim tilgangi að byrgja fyrir ljós til að skapa nótt fyrir tómatana. Gashitari hafi verið þarna til upphitunar. Þá var borið undir ákærða að fyrir lægi í málinu álit garðyrkjufræðinga um að ræktun matjurta við þessar aðstæður gæti vart talist arðbær kvaðst hann ekki vera garðyrkjufræðingur og því ekkert vita um þetta. Þeir hafi verið gera þessa tilraun, en hafi síðan hætt við. Aðspurður um það hvort hann hefði haft eitthvað eftirlit með þeim plöntum sem hann hafi farið með þarna austur kvaðst hann ekki hafa gert það. Hann hafi farið með þær og sett þær upp og síðan hafi hann slökkt ljósin. Þá hafi verið byrjað að rífa þarna niður og þá hafi hann ákveðið að halda ekki áfram með þessar kannabisplöntur sem hafi verið þarna og hann hafi yfirgefið svæðið. Hann kvaðst hafa slökkt ljósin á plöntunum og aðspurður um hvernig hann hefði gert það kvaðst hann bara hafa tekið úr sambandi. Þá var ákærði spurður hvernig hann þekki meðákærðu og kvaðst hann hafa kynnst Sæþóri og Borgþóri á AA fundum, en hann og A hafi verið vinir frá því þeir hafi verið litlir guttar. Aðspurður kvaðst hann hafa átt eitthvað af verkfærunum sem voru á staðnum. Hann kvaðst ekki starfa neitt eins og væri og kvað aðspurður að erindi sitt á B hafi verið að taka þátt í uppsetningu og smíðum á þeirri ræktunaraðstöðu sem þar var. Aðspurður af verjanda sínum um hvort hann hefði haft einhver lyklavöld af húsnæðinu kvað hann svo ekki hafa verið. Hann minntist þess ekki að það hafi verið einhverjir lyklar og þá ekki að honum hafi verið afhentur lykill. Hann kvaðst ekki hafa verið með húsnæðið á leigu og hafnaði því að hann hefði framleigt það af meðákærða Borgþóri. Aðspurður um hvort sú ræktunaraðstaða sem sett hafi verið upp hafi einhvern tíma orðið nothæf kvað hann að hún hefði aldrei orðið fullgerð og að þeir hefðu verið byrjaðir að rífa hana niður áður en svo hefði orðið. Aðspurður um þessar sextán plöntur sem verið hafi í eigu ákærða og hver ætlunin hafi verið með þeim kvað ákærði að hann hafi ekki ætlað þær til sölu. Þegar ákveðið hafi verið að hætta við þetta hafi hann farið með þetta þarna uppeftir og þar sem hann hafi reykt á þessu tímabili hafi hann ætlað gera svona fyrir sjálfan sig. Síðan hafi hann hætt við það þegar strákarnir hafi verið farnir þarna. Hann hafi aldrei fengið neina afurð af þessum plöntum. Þá var borið undir hann að plöntunum hefði verið lýst í lögregluskýrslum sem visnuðum og litlum og kvað ákærði að þetta hefðu verið græðlingar. Hann kvaðst ekki vera sérfræðingur og því ekki vita hvort þetta hafi einhvern tíma verið nothæft en kvaðst efast um það. Aðspurður um það hvort hann myndi hvenær hann hafi farið síðast að A kvaðst hann ekki muna dagsetningu en það gæti hafa verið í lok mars eða byrjun apríl. Aðspurður um það hvort hann hefði tekið þátt í því að taka aðstöðuna niður kvaðst hann ekki hafa verið viðstaddur þegar það hefði verið gert en hann hefði komið stuttu síðar og séð ummerki þess. Nánar aðspurður um þann framburð sinn að hann hefði slökkt ljósin og hvort ljós hefðu þá verið yfir þessum sextán plöntum kvað hann að það hefði verið svona lítill svartur klefi, svona gróðurklefi og þar hafi hangið eitthvað ljós og hann hafi sett þessar plöntur þarna í og kveikt ljósið og síðan hafi hann gefist upp á þessu og hafi slökkt á þessu. Hann kvaðst búast við því að þetta hefði þau áhrif að plöntur visni og drepist enda þurfi þær sólarljós en hann sé ekki sérfræðingur í þessu. Aðspurður um það hvort hann hefði meðan hann hafi haft plönturnar þarna hvort hann hefði vökvað þær kvaðst hann ekki hafa gert það, þar sem það hefði verið þarna sjálfsvökvunarkerfi. Hann kvaðst hafa slökkt á klefanum þegar hann hafi farið og þá hafi slokknað á vökvuninni líka. Hann hafi ekki búist við að geta nýtt plönturnar og hafi talið að þær myndu drepast við þetta. Aðspurður um hvort meðákærða Borgþóri hafi verið kunnugt um að hann hefði verið með þessar sextán plöntur þarna kvað hann það ekki hafa verið. Hvorki Borgþór né aðrir hafi verið á staðnum þegar ákærði hafi verið með þessar plöntur þarna. Hann hafi verði einn þarna.

Skýrsla var tekin hjá lögreglu af ákærða A 2. júní 2009 frá 14:21 til 14:51 að viðstöddum tilnefndum verjanda hans á rannsóknarstigi.

Bókað er í skýrslunni að ákærða sé kynnt sakarefnið sem varði kannabisræktun að A í [...]. Er ákærði fyrst spurður um aðild sína að málinu og kveðst hafa komið svo lítið að því að hann vilji ekki tjá sig um það. Er hann var spurður um hvað hann hafi átt að fá fyrir sitt hlutverk kvaðst hann aðeins hafa verið smiður á tímakaupi og að hann ætli ekki að segja neitt meira um það. Þá var ákærði spurður um tengsl sín við meðákærðu og kvað hann Inga vera æskuvin sinn og Sæþór eiginlega líka en Borgþóri hafi hann kynnst í gegn um Sæþór. Er hann var spurður um það hvernig það hafi komið til að hann aðstoðaði við uppsetningu kvaðst hann hafa verið ráðinn sem smiður og hann viti ekki meir. Borgþór hafi fengið hann til verksins. Hann kvaðst bara hafa farið einu sinni þarna austur og hafi ekkert fengið greitt fyrir vinnuna. Hann kvaðst eiga verkfæri á B, rafmagnsverkfæri og annað sem sé þarna. Borgþór eigi að vera með kvittanir fyrir þessu öllu, hann hafi látið hann hafa kvittanir til að ná þessu öllu til baka. Hann kvaðst ekki hafa þekkingu á kannabisræktun og ekki hafa ræktað kannabisplöntur. Þá var borið undir ákærða að við húsleit hafi lögregla lagt hald á muni sem merktir hafi verið N og hann spurður hvort hann kannist við það fyrirtæki. Kvað hann það vera fyrirtæki sem fara hafi átt á stað, en engin kennitala hafi verið á því svo það hafi bara verið nafn. Hann og Ingi hafi verið með þetta og hafi verið að smíða. Hafi þeir ætlað að stofna þetta fyrir einu og hálfu ári síðan en hafi svo hætt við. Þá er í skýrslunni borið undir ákærða hvort hann þekki einstaka muni sem hald hafi verið lagt á. Þykir ekki ástæða til að gera nákvæma grein fyrir því hér, utan að hann var að lokum spurður um hitablásara sem hann taldi að þeir hafi haft að láni og að um eignarhald á rafstöð sem staðið hafi úti vissi hann ekkert. Spyrja yrði Borgþór um  hana og eins um 16 Gavita gróðurlampa. Borið var undir ákærða að Borgþór segðist hafa keypt gróðurhúsalampana af honum og greitt fyrir með peningum. Hann kvað það lygi og að hann hefði aldrei fengið peninga frá Borgþóri. Þá var hann spurður um hvað hafi verið ætlun þeirra að gera að B og kvaðst ákærði ekki hafa hugmynd um það og að hann neiti alfarið að tjá sig um það. Hann kvaðst aðspurður ekki hafa lagt út kostnað sjálfur við uppsetninguna bara vinnu.

Ákærði A undirritar skýrslu sína ásamt tilnefndum verjanda sínum Grétari Dór Sigurðssyni hdl.

Ákærði A gaf skýrslu fyrir dómi. Kvaðst hann aðspurður um hvernig hann hefði komið að málinu, hafa verið ráðinn þarna sem smiður, til að smíða einhvern klefa og henda upp einhverjum veggjum. Aðspurður um hver hefði ráðið hann til verksins kvað hann að meðákærði Ingi Þór og hann hafi verið vinir og Ingi hafi spurt hann hvort hann vildi taka þátt í þessu. Hann kvaðst hafa verið að vinna fyrir Inga, en hann hafi aldrei fengið greitt. Aðspurður um hvað hann hefði gert þarna nákvæmlega kvað hann að hann hefði hent upp einhverri grind fyrir eitthvað og hann hafi rifið niður nokkra veggi. Hann hafi tekið þátt í að setja upp loftræstikerfi þarna og hafi tekið þátt í að byrgja glugga. Aðspurður um það hvort hann hafi vitað hvað þetta hafi verið sem þarna hafi verið kvaðst hann ekki vita það. Best sé að spyrja ekki spurninga. Honum hafi ekki komið þetta við þar sem hann hafi bara verið að vinna þarna sem smiður og ekki að gera neitt ólöglegt. Aðspurður um það hvort hann hafi gert sér grein fyrir að þarna hafi verið sett upp einhverskonar ræktunaraðstaða, kvaðst hann ítreka að hann hefði ekki spurt neinna spurninga og ef hann spyrji ekki og fái ekki svör geti hann ekki áætlað að þeir væru að gera eitthvað af sér. Hann kvaðst ekki hafa verið neitt að hugsa um hvað verið væri að gera þarna og hafi því ekki gert sér grein fyrir neinu. Aðspurður um hvenær Ingi Þór hefði beðið hann um þetta og hvenær hann hafi farið austur kvaðst hann ekki hafa dagsetningar á hreinu og hann myndi þetta ekki. Kvaðst hann vera gleyminn að eðlisfari og hafi alltaf verið það. Aðspurður um það hver greitt hafi kostnað kvaðst hann ekki hafa hugmynd um það og að hann neitaði að svara spurningunni. Þá neitaði hann að svara spurningu um það hvort hann hafi vitað fyrir hvern hafi verið unnið. Aðspurður um það hvernig hann þekkti meðákærðu í málinu, kvað hann að hann og Ingi Þór hafi verið vinir frá því þeir voru litlir og hinum tveimur hafi hann kynnst þarna rétt áður. Aðspurður um hvort þeir hafi allir verið saman á staðnum þarna fyrir austan kvaðst hann ekki muna vel hvernig þetta var. Hann hafi hitt Inga þarna nokkrum sinnum og Sæþór en taldi sig ekki hafa séð Borgþór þarna. Aðspurður um hvenær hafi staðið til að klára framkvæmdirnar kvað hann að það hefði verið byrjað að taka þetta niður og því hafi hann ekki hugmynd. Hann kvaðst ekki hafa tekið þátt í að flytja búnað austur. Ákærði neitaði að svara spurningu um það hver hefði gert það. Aðspurður um hvort næsta ferð austur hafi verið fyrirhuguð kvað hann svo ekki vera og að vinnu hans hafi verið lokið þarna á staðnum eftir að hann hafi farið þaðan síðast. Aðspurður kannaðist hann ekki við að hafa séð kannabisplöntur þarna á staðnum. Þá kvaðst hann ekki hafa hugmynd um af hverju gluggarnir á húsinu hafi verið byrgðir. Hann kvaðst ekki hafa tekið þátt í að tengja rafstöðvar eða kvaðst hann vita um tilgang með þeim á staðnum. Þá hafnaði hann því aðspurður að hann hefði selt meðákærða Borgþóri gróðurhúsalampa. Aðspurður um það hvort hann hefði einhvern tímann verið einn að vinna að B kvaðst hann ekki muna það. Aðspurður um það hvort hann hefði verið á eigin bíl þarna kvað hann svo ekki hafa verið en hann og Ingi hafi farið nokkrum sinnum saman. Hann hafi komið þarna nokkrum sinnum og hafi orðið eftir þarna. Hann og Sæþór hafi verið einir þarna einhvern smátíma og taldi ákærði að hann kynni að hafa verið einn þarna einhvern smátíma. Enginn bíll hafi verið á staðnum. Ingi Þór hafi komið og náð í hann þegar hann hafi síðan haldið suður á ný. Aðspurður um hvort hann hafi átt eitthvað af verkfærum á staðnum kvað hann svo hafa verið og hann hafi ekki tekið verkfærin með sér þó hann hafi verið hættur að vinna þarna af því hinir hafi þurft að nota verkfærin og hann hafi verið beðinn um að lána þau. Hann hafi fallist á það. Aðspurður um það hvort hann hefði tekið þátt í þeirri vinnu að taka niður kvaðst hann ekki hafa gert það. Hann hafi hins vegar verið þarna og hafi séð aðra vera að gera þetta. Aðspurður af verjanda sínum um það hvort kannabisræktun hefði einhvern tímann verið nefnd kvað hann það ekki hafa verið. Hann kvaðst ekki hafa hugmynd um hvernig slík ræktun fari fram og ekki hvernig ræktunarkerfi líti út. Aðspurður um hvort hann hefði einn sjálfstæðan aðgang að húsnæðinu kvað hann að meðan hann hafi verið þarna þá hafi hann komist þarna inn, annars hefði hann orðið úti. Það hafi bara verið opið. Aðspurður um það hvort einver verkstjórn hafi verið á staðnum og hvort hann hefði verið að vinna eftir teikningu kvað hann verkstjórn hafa verið en enga teikningu. Hann hafi verið að rífa niður milliveggi og setja upp grind og þetta hafi verið einfalt verk þar sem hann hefði lengi unnið sem smiður. Hann kvaðst ekki muna hver hafi sagt honum fyrir verkum þetta sé það langt síðan.

III

Tekin var skýrsla við aðalmeðferð málsins af C rannsóknarlögreglumanni. Fyrst var hann beðinn um að lýsa aðkomu sinni að handtöku ákærða Borgþórs 8. maí 2009. Kvaðst hann hafa farið ásamt öðrum lögreglumönnum, að  beiðni lögreglunnar á Eskifirði, til að handtaka Borgþór vegna gruns um aðild hans að ræktun að B fyrir austan. Þeir hafi farið að heimili hans og beðið fyrir utan. Borgþór hafi heimilað húsleit sem þá hafi farið fljótlega fram. Þeir hafi fundið hjá Borgþóri pappíra, sem hafi m.a. verið kvittanir fyrir kaupum á vörum til ræktunar, lömpum og þess háttar. Við húsleitina hafi hann greint lögreglumönnunum frá því að hann hafi ætlað að rækta kannabis. Í framhaldinu sé hann síðan færður til yfirheyrslu á lögreglustöðina í Hafnarfirði og þá hafi hann breytt framburði frá því sem hann hafi sagt þeim og þá sagst hafa ætlað að rækta tómata. Þegar skýrslutökunni hafi lokið þá hafi staðið til að flytja ákærða á Hverfisgötuna og fyrir hafi legið að ná í muni sem ákærði hafi verið búinn að vísa á. Þá hafi þeir greint ákærða frá því að þeim finnist þessi framburður hans afar ótrúverðugur. Hann sé búinn að leggja í mikinn kostnað austur á landi til að rækta tómata, eitthvað fjórar til fimm milljónir. Þá hafi Borgþór óskað eftir að gefa aðra skýrslu og það hafi hann gert og þá hafi hann játað að hafa ætlað að rækta kannabis. Það hafi einhverjar plöntur verið teknar á B og Borgþór hafi vitað af þeim án þess að lögregla hefði verið búin að greina honum frá því. Aðspurður kvaðst C hafa verið viðstaddur skýrslur sem teknar hafi verið af Borgþóri. D hafi verið spyrjandi en C hafi verið viðstaddur. Þá staðfesti hann skýrslu sína m.a. varðandi handtöku ákærða Borgþórs sem dagsett er 8. maí 2009 og liggur fyrir í gögnum málsins. Hann staðfesti að skýrslutökur af ákærða Borgþóri hafi verið teknar upp á mynddisk. Þá bar verjandi ákærða Borgþórs undir vitnið að fyrir lægi í málinu að teknar hafi verið tvær skýrslur af ákærða Borgþóri sama daginn, með stuttu millibili og hann beðinn að gera grein fyrir hvað hafi farið fram í hléi á milli skýrslna. Kvaðst C ekki muna hvort Borgþór hafi verið færður í fangaklefa eða hvort hann hafi setið hjá þeim, meðan þeir hafi verið að skrifa mynddiskinn, en það taki tíma. Það hafi bara verið almennt spjall, en hann kvaðst ekki muna hvort ákærði hafi setið hjá þeim eða farið í klefa. Til hafi staðið að fara í húsleit í vesturbænum þar sem ákærði Borgþór hafi vísað á að væru ræktunarvörur sem ættu eftir að fara austur. Aðspurður um það hvort það hefði verið rætt í þessu hléi að það myndi koma Borgþóri illa ef hann myndi ekki játa sök í málinu kvað hann það ekki hafa verið. Honum hafi hins vegar verið gerð grein fyrir því að þeim þætti breyttur framburður hans um tómatræktun afar ótrúverðugur. Þá var hann spurður hvort það hafi einhvern tímann komið til tals að ef að Borgþór myndi ekki játa sök þá yrði hann látinn dúsa í fangaklefa þann tíma sem lögreglu sé heimilt að halda mönnum án úrskurðar dómara. Kvað hann svo ekki hafa verið. Hann kvað húsleit á vinnustað Borgþórs ekki hafa komið til tals eða húsleit hjá tengdafólki hans. Aðspurður um það hvort eitthvað það hefði farið þarna fram sem líta mætti á sem þvingun til játningar kvað hann svo ekki hafa verið.

Þá gaf D rannsóknarlögreglumaður skýrslu við aðalmeðferð málsins. Skýrði hann svo frá að komið hefði beiðni um aðstoð frá lögreglunni á Eskifirði og hann ásamt tveimur öðrum lögreglumönnum hafi haldið að heimili ákærða Borgþórs í Reykjavík 6. maí sl. til að handtaka hann vegna gruns um aðild að uppsetningu á kannabisræktun. Þeir hafi verið fyrir utan hjá honum þegar Borgþór hafi birst og þeir hafi gefið sig á tal við hann og hafi kynnt honum að hann væri handtekinn og hafi kynnt honum réttarstöðu. Hann hafi viðurkennt að hafa leigt húsnæðið fyrir austan og hafa ætlað að setja upp kannabisræktun. Hann minni að Borgþór hafi sagt að hann hafi svo hætt við af því að hann hefði fengið samviskubit og út af rassíunni hjá lögreglunni. Hann kvaðst hafa tekið af Borgþóri framburðarskýrslur í framhaldi af þessu, sem og öðrum ákærðu. Aðspurður um það hvernig framkvæmd hefði verið á skýrslutökunni kvað hann að framburður hefði verið tekinn upp á mynddisk. Þá var borið undir hann að fyrir liggi í málinu úrdrættir af tveimur skýrslum sem hann hafi gert og kannaðist hann við það. Þá var hann spurður hvort hann myndi eitthvað eftir þessu og af hverju teknar hafi verið tvær skýrslur af Borgþóri. Kvað D að áður en að Borgþór hafi verið færður fyrst til skýrslutöku hafi hann viðurkennt allt fyrir þeim í bílnum en svo í skýrslutökunni hafi hann sagst hafa getað ræktað eitthvað annað líka og hafi ekki verið búinn að ákveða hvort hann ætlaði að rækta kannabis eða tómata, en hann hafi verið hættur við ræktun. Svo kvaðst hann ekki muna nákvæmlega hvernig framhaldið hafi verið. Borgþór hafi væntanlega verið færður í klefa eftir þessa skýrslutöku, eða það hafi allavega staðið til, þar sem þessi framburður hafi verið ótrúverðugur og þeir hafi ætlað að leita uppi samverkamenn. Svo kvaðst hann muna eftir að Borgþór hafi beðið um að fá að gefa aðra skýrslu þar sem hann hafi viðurkennt að hafa ætlað að rækta þarna kannabis, en að hafi svo hætt við af ótta við lögregluna og út af samviskubiti. Það hafi svo komið fram í þeirri skýrslutöku að það hafi verið þarna einhverjar kannabisplöntur inni, allavega einhverjar litlar. Hann hafi lýst þarna aðstæðum og svo hafi hann vísað lögreglunni á tvo staði í Hafnarfirði og Kópavogi þar sem þeir hafi verið að smíða búnaðinn áður en þeir hafi farið með hann austur. Hann hafi verið með lykla á sér að þessum stöðum, sem lögregla hafi tekið og þessir lyklar hafi gengið að þessum húsum. Þetta hafi verið í vesturbæ Kópavogs og að Dalshrauni í Hafnarfirði. Þeir hafi fengið það staðfest hjá eigendum húsanna að Borgþór hafi verið að leigja þau. Aðspurður af verjanda ákærða Borgþórs um hvað hafi verið rætt við Borgþór í því hléi sem verið hafi á milli þeirra tveggja skýrslna sem teknar hafi verið af honum kvaðst hann ekki muna nákvæmlega hvernig þetta hafi verið en væntanlega hafi þeir verið að færa hann í klefa og kvaðst D ekki muna hvort Borgþór hafi verið kominn í klefa þegar hann hafi beðið um nýju skýrslu eða á leið þangað. Það hafi allavega verið ljóst að átt hafi að færa hann í klefa meðan þeir leituðu uppi samverkamenn þar sem framburður ákærða hafi þótt ótrúverðugur. Aðspurður um það hvort það hafi staðið til á einhverjum tímapunkti að vista Borgþór þann tíma sem lögreglu sé heimilt að halda sakborningi án þess að leiða hann fyrir dómara og honum hafi verið sagt það, kvað hann það ekki hafa verið þannig, en það kunni að vera að Borgþóri hafi verið sagt að vegna þess að framburður hans teldist ótrúverðugur þá yrði hann vistaður í klefa meðan leitast yrði við að hafa uppi á hugsanlegum samverkamönnum hans. Það hefðu aldrei orðið neinir tuttugu og fjórir tímar. Það hafi aldrei staðið til og þannig vinni þeir ekki. Aðspurður um það hvort það hafi verið rætt við ákærða Borgþór að ef hann myndi ekki játa þá yrði gerð húsleit á vinnustað hans kvað hann að hann teldi að ákærði hafi ekki haft vinnustað. Þeir hafi spurt hann um það og ákærði hafi sagt þeim að hann hefði ekki vinnustað. Hann hafi sagt þeim að hann hafi unnið í [...] og að hann væri með lykil þar að en hann ynni þar ekki lengur. Það hafi aldrei staðið til að leita þar. Þá kannaðist hann ekki við að talað hafi verið um tengdafólk ákærða og því ekki komið til greina að framkvæma húsleit hjá því. Aðspurður hvort ákærði Borgþór hefði á einhvern hátt verið þvingaður til að játa sök í málin kvað hann að það hefði alls ekki verið. Hann hafi sjálfur beðið um þessa skýrslutöku, að eigin frumkvæði. Aðspurður af verjanda ákærða Sæþórs hvort hann hefði tekið skýrslu af Sæþóri kvað hann svo vera. Þá var borið undir hann hvort ákærði Sæþór hafi talað um það eins og ákærði Borgþór að þeir hafi verið hættir við, kvaðst hann minna það að þeir hafi báðir talað um það að þeir hafi hætt við vegna ótta við lögregluna og vegna samviskubits.

Þá gaf E lögreglumaður á tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu skýrslu við aðalmeðferð málsins. Hann staðfesti efnaskýrslu sem hann undirritaði og liggur fyrir í málinu. Um hafi verið að ræða sextán smáar plöntur sem vógu 8,8 grömm. Plönturnar hafi greinst sem kannabisplöntur með stöðluðu prófi. Þá lýsti hann því hvernig plönturnar bærust honum og að hvernig hann ásamt þeim sem undirrita skýrsluna með honum vinni saman að greiningu með stöðluðum prófum. Þá kom fram hjá honum að hann rannsakaði ekki efnainnihald en ef rannsakari óskaði eftir slíkri rannsókn þá væru efni send til Háskólans til frekari rannsóknar. Hann gat ekki svarað spurningu verjanda um áreiðanleik fyrrnefndra prófa. Honum væri kennt að framkvæma þau og lesa úr þeim en viti ekki hversu áreiðanleg þau eru. Aðspurður kvað hann kannabisplöntur vera með köntuðum laufum og frekar auðþekkjanlegar í útliti þó ekki kæmi til prófunin. Það sjáist nokkuð vel þó plönturnar séu litlar, blöðin séu svona tennt og nokkuð sérstök.

Þá gaf F lögreglufulltrúi vitnaskýrslu við aðalmeðferð málsins.

Hann lýsti því að þegar lögregla hafi komið að B til að framkvæma þar húsleit hafi fyrst sést að á þeirri hlið hússins sem snúi frá vegi hafi verið komið mikið loftræstikerfi út um glugga. Einnig hafi verið búið að koma fyrir rafleiðslum og svo hafi verið búið að koma fyrir díselrafstöð í bifreiðageymslu sem sé þarna vestan við húsið. Þegar hafi verið kíkt á glugga hafi sést að búið hafi verið að byrgja alla glugga. Það sem þeir hafi gert næst hafi verið að skrúfa úr glugga til að komast inn og þeir hafi farið inn í húsið í gegn um þvottahús. Þegar komið hafi verið inn í hol framan við þar sem stofan sé, eða hafi verið, þá hafi þeir séð það að þar hafi verið búið að setja upp loftræstikerfi og lagnir frá því út í gegn um þann glugga sem minnst var á hér fyrr. Þessar lagnir hafi svo legið áfram inn í rými það sem stofan hafi verið í og í eitt herbergi að auki. Búið hafi verið að taka millivegg á milli stofunnar sem sé svona sunnan til í húsinu og milli herbergis sem hafi þá verið norðan til í húsinu og opna þar og búa til eitt rými. Þar hafi verið búið að klæða af þetta rými með plasti allt að innan alveg í hólf og gólf og þarna inni hafi verið búið að setja stokk sem verið hafi vestast í herberginu og klæða með vatnsheldum dúk þannig að ljóst hafi verið að þarna hafi verið svona „dammur“ sem hægt hafi verið að setja vatn í og leggja lagnir þar að og dæla hafi verið komin þarna framan við og búið að setja upp ventlakistu til að geta tengt inn á lagnir. Þarna hafi verið komnir svona stólar eða svona álstatíf og á þeim hafi verið plaströr og það hafi verið búið að bora í hluta þeirra og setja gróður- eða ræktunargrindur litlar ofaní og raða upp mörgum rörum. Þarna ofan við hafi verið búið að setja hálftommu vatnsrör og hengja upp í loft og útbúa þannig að önnur hafi hangið þar neðan við og setja gróðurlampa á þau að hluta til og leggja fyrir öðrum. Það hafi verið hægt að hækka og lækka þessa gróðurlampa með sveifum sitthvoru megin í þessu rými, hálft rýmið í einu. Það hafi því verið hægt að ráða hæðinni á þessum lömpum, hversu neðarlega eða ofarlega ætti að hafa þá. Þetta hafi verið það sem blasað hafi við þarna. Í herbergi til hliðar sem sé svona fyrir miðju húsi þar sem verið hafi salerni þar hafi verði búið að koma fyrir svona léreftstjaldi, eða tjaldskáp og í því hafi verið lampar og kannabisplöntur sem verið hafi á ræktunarstigi. Þegar þeir hafi farið þarna inn og haldlagt allt og hafi tekið þetta niður þá hafi þær verið orðnar hálfvisnaðar. Það hafi verið lifandi plöntur við hliðina þar á og líka lampi þar á, sem reyndar hafi verið dautt á út af því að það hefði slegið út þessu rými, eða slegið út rafmagninu. Þar hafi verið lifandi plöntur nokkrar í svona plastkössum. Hann minni að það hafi verið samtals sextán plöntur, bæði þessar visnuðu og þessar lifandi. Þeir hafi séð mikið af verkfærum og mikið af efni sem notað hefði verið, raflagnaefni. Aðspurður um á hvaða stigi þetta gróðurhús hafi verið að hans áliti kvað hann að forræktun hefði verið í gangi þarna í hliðarherberginu. Staðan á hinu hafi verið það að það hafi verið langt komið með að setja upp þarna stórt og mikið ræktunarrými og ekki hafi verið langt eftir til að fullgera það hefðu menn haft hug á því. Aðspurður um hvort möguleiki sé á að byrjað hafi verið að taka búnaðinn niður kvað hann svo ekki hafa verið. Öll ummerki hafi bent til að verið væri að setja upp en ekkert hafi verið þarna sem gefið hafi til kynna að byrjað væri að taka niður. Nánar aðspurður um af hverju ekki hafi verið rafmagn í fyrrnefndu herbergi þar sem plönturnar hafi fundist og hvort hann gæti gefið skýringu á því kvaðst hann ekki vita hvers vegna það hefði gerst en það hafi verið útslegið öryggi í rafmagnstöflu fyrir þetta svæði í húsinu og þegar reynt hafi verið að slá því inn hafi það slegið jafnóðum út aftur. Það hafi því verið einhver útleiðsla, eða eitthvað í rýminu hafi valdið því að rafmagnið hafi ekki haldist inni. Aðspurður um það hvort ekki hafi getað verið um það að ræða að lamparnir yfir plöntunum hafi verið teknir úr sambandi kvað hann allt hafa verið tengt. Þeir hafi tekið allt úr sambandi. Kvaðst hann ítrekað hafa reynt að slá inn örygginu og það hafi jafnharðan slegið út. Hann kvað hins vegar að ekki hafi verið reynt að komast að því hvað hafi verið að. Það hafi líka verið þarna vifta í þessu herbergi og skýringarnar gætu legið í einhverjum tengingum hennar. Útslátturinn hafi verið bundinn við þetta herbergi. Aðspurður um hvort rétt væri að gluggar hefðu verið byrgðir í húsinu þannig að ekki hafi verið hægt að sjá inn kvað hann það rétt. Ræktunarrýmið þarna í stofunni hafi verið klætt með grind og plasti og hafi þar af leiðandi verið alveg lokað, einnig hafi verið búið að klæða gluggana sérstaklega áður og líma fyrir þá. Hann staðfesti rannsóknarskýrslu sína sem fyrir liggur í málinu. Beðinn af verjanda ákærða Inga Þórs að lýsa nánar ætluðum kannabisplöntum sem hann hafi fundið kvað hann að hluti þeirra hafi verið visnaður af því að það hafi ekki verið neitt rafmagn og bara myrkur í herberginu og vatnsdælubúnaður sem hafti átt að vökva þær hafi einnig verið óvirkur. Aðrar plöntur hafi verið í 20 til 30 lítra plastkassa með loki sem á hafi verið lampi og þær hafi verið lifandi en frekar óhrjálegar. Aðspurður um hvað hann ætti við að plönturnar hafi verið lifandi kvað hann að þær hafi staðið uppi, blöðin hafi staðið úti og ekki farin að visna. Plönturnar hafi staðið þó þær hafi verið aðeins farnar að gulna. Hann kvaðst hafa séð um að taka plönturnar niður og senda þær til tæknideildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Óskað hafi verði eftir greiningu en ekki hafi verið óskað eftir styrkleikamælingu á plöntunum. Hann kvaðst ekki telja að kominn væri styrkleiki í plöntur á þessum aldri þó hann ætli ekki að fullyrða það. Hann lýsti því einnig að hann hafi gengið fyrstur um vettvanginn og hafi tekið myndir áður en nokkur hafi stigið inn í þau rými sem mynduð hafi verið. Ekki komi til greina að aðrir lögreglumenn á vettvangi hafi átt við raflögn að fyrrnefndu hliðarrými þannig að útsláttur rafmagns geti skýrst af því. Hann sé alveg klár á því að rofinn í töflunni hafi verið útsleginn þegar hann kom og hann hafi meira að segja tekið myndir af því.

G lögreglumaður gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins. Hann tók þátt í húsleit að B. Var hann spurður um á hvaða stigi umbúnaður þar hefði verið. Kvað hann að þegar komið hafi verið að húsinu þá hafi það borið merki þess að þarna væri eitthvað mikið að gerast, vegna þess að það hafi verið stórir loftstokkar út úr húsinu. Aðstaðan hafi verið nánast tilbúin og fá handtök eftir. Aðspurður um hvort gæti verið að það hafi verið byrjað að rífa aðstöðuna niður kvað hann að það myndi hann ekki segja. Ekkert hafi verið sem bent hafi til þess. Ekki hafi verið hægt að sjá ummerki þess að byrjað hefði verið að taka eitthvað það niður sem sett hefði verið upp. Hann staðfesti að nokkrar kannabisplöntur hafi verið í því sem kallað hafi verið forræktunarherbergi. Aðspurður um hvernig rafmagnið hafi verið í þessu herbergi kvað hann að þetta hafi verið aðallega á einhverjum millistykkjum og framlengingarsnúrum. Ástæða þess að ekki hafi verið ljós á þessu hafi verið að slegið hafi út í rafmagnstöflunni. Hann kvaðst ekki hafa reynt að slá inn rafmagninu aftur, en það geti verið að einhver annar hafi gert það.

H, yfirlögregluþjónn gaf skýrslu við aðalmeðferð. Hann staðfesti að hann hefði tekið þátt í húsleit að B. Var hann beðinn um að gefa álit sitt á því á hvaða stigi þær framkvæmdir hafi verið sem þarna hafi verið. Kvað hann að þarna hafi greinilega verið hafin forræktun og uppsetning á ræktunaraðstöðu hafi verið vel á veg komin. Aðspurður um það hvort einhver möguleiki væri að segja að það hafi verið vel á veg komið að taka ræktunaraðstöðuna niður kvað hann það ekki geta verið. Það hafi verið alveg greinilegt að verið væri að setja aðstöðuna upp. Aðspurður um af hverju hann segði það kvað hann að það hafi verið búið að bora göt í rör og þarna hafi verið fleiri rör við hliðina sem átt hafi eftir að bora í það hafi verið greinilegt að það hafi staðið yfir uppsetning. Þá var hann spurður hvort það hafi verið einhverjar rafmagnslagnir eða eitthvað slíkt sem virst hafi að búið hafi verið að rífa niður en kvað nei við því. Þetta hafi allt saman verið nýuppsett.

Þá voru teknar skýrslur af I garðyrkjukandídat og J garðyrkjufræðingi og staðfestu þau álitsgerð sem þau unnu að beiðni fulltrúa ákæruvalds og liggur fyrir í málinu. 

IV

Af hálfu ákærðu allra er í fyrsta lagi byggt á því að ágalli sé á ákæruskjali sem leitt gæti til frávísunar málsins af sjálfsdáðum eða, eins og þeir gera kröfu um, til sýknu. Telja þeir að í því sem þeir nefna síðari hluta verknaðarlýsingarkrafla ákæru vanti fullnægjandi verknaðarlýsingu. Sé þar einungis vísað til þess að ákærðu sé gefið að sök tilraun til stórfellds brots á lögum um ávana- og fíkniefni með því að hafa sett upp ræktunaraðstöðu fyrir allt að 600 kannabisplöntur. Hér sé ekki ákært fyrir að hafa ætlað að rækta kannabisplöntur og þá ekki að ætlunin hafi verið að gera það í sölu- og dreifingarskyni. Af hálfu ákæruvalds var vísað til þess að háttsemislýsingu ákæru þurfi að lesa í heildarsamhengi og eigi inntak fyrri hluta háttsemislýsingarinnar um ræktun í sölu- og dreifingarskyni einnig við um þá tilraun sem ákæruvaldið telji felast í uppsetningu ræktunaraðstöðunnar.

Sú háttsemislýsing sem fram kemur í ákæruskjali er sett fram í einu lagi og innheldur annars vegar það brot á lögum um ávana- og fíkniefni að hafa ræktað 16 kannabisplöntur og hins vegar tilraun til stórfellds brots á sömu lögum með því að setja upp mjög stóra ræktunaraðstöðu fyrir allt að 600 kannabisplöntur. Er það mat dómsins að það sé nægilega skýrt að um ræktun sé að ræða, sem jafnframt sé hluti af tilraun til stórfellds brots, þ.e.a.s. til frekari ræktunar og að þetta sé allt gert í sölu- og dreifingarskyni. Þótt fallast megi á með ákærðu að háttsemislýsing hefði mátt vera skýrari er ekki um slíkan óskýrleika að ræða að hann geti með réttu talist koma niður á vörnum ákærðu. Er háttsemislýsing ákæru því fullnægjandi og þykir enginn vafi leika á því hvað ákærðu er hér gefið að sök.  Er því hafnað kröfum ákærðu sem á þessum grunni eru byggðar.

Verður þá næst vikið að þeirri aðstöðu sem reist var að B og hvað talið verður sannað um hana og tilgang hennar. Af myndum sem fyrir liggja í málinu og sýna aðkomu þegar lögregla gerði húsleit að B þann 6. maí 2009 má sjá að viðamiklar breytingar hafa verið gerðar á íbúðarhúsinu að B og einnig smíðaður varnalegur útbúnaður til að koma fyrir díselrafstöðvum í bifreiðageymslu þar nálægt. Blasir það við jafnvel leikmanni að um er að ræða aðstöðu til ræktunar. Hús að B eru nokkuð frá vegi og því ekki í alfaraleið. Ekki var unnt að sjá ummerki um þær framkvæmdir sem þarna höfðu farið fram frá vegi. Önnur þeirra rafstöðva sem þarna var hafði verið sett inn í bifreiðageymslu en hin var á bak við hús og sást ekki frá vegi. Þá liggur fyrir að allir gluggar í íbúðarhúsi höfðu verið byrgðir. Þá liggur ekki fyrir að ákærðu eigi nokkur tengsl við B eða [...]hrepp sem gætu skýrt hvers vegna þeir hafi ákveðið að hefja þar atvinnustarfsemi eða frístundaræktun af einhverju tagi og hafa ákærðu ekki gefið slíkar skýringar við meðferð málsins. Þykir dóminum einsýnt að allur umbúnaður og aðstæður, sem og þokukenndar skýringar allra ákærðu á hvernig staðið hafi verið að uppsetningu og hver tilgangur umræddra framkvæmda hafi verið, gefi sterklega til kynna að ekki hafi verið ætlunin að stunda löglega garðyrkju að B. Er þá einkum til þess að líta að umbúnaður allur bendir til að reynt sé að halda framkvæmdum leyndum, t.d. með því að byrgja alla glugga og með því að gera ráðstafanir til að setja upp díselrafstöðvar til að leyna þeirri miklu orkunotkun sem leitt hefði af notkun þess fjölda gróðurhúsalampa sem samkvæmt ummerkjum á vettvangi átti að setja þar upp.  Þá verður ekki litið hjá því að einu plönturnar sem þarna fundust voru kannabisplöntur þó fáar og litlar væru. Liggur fyrir að umræddur plöntur reyndust vera kannabisplöntur samkvæmt stöðluðu prófi sem framkvæmt var á þeim, en einnig liggja fyrir í málinu myndir sem sýna svo ekki verður um villst að um kannabisplöntur er að ræða, en blöð jurtarinnar eru sérstæð og verður vart ruglað saman við blöð annarra plantna. Það er því mat dómsins að með vísan til þeirra ljósmynda af umræddri aðstöðu sem fyrir liggja í málinu, sem og framburði þriggja lögreglumanna sem stóðu að húsleit á vettvangi, teljist sannað svo  hafið sé yfir skynsamlegan vafa að á B hafi verið langt komin uppsetning á ræktunaraðstöðu fyrir stórfellda kannabisræktun. Veita ummerki á vettvangi fullnægjandi vísbendingar um að fullbúin hafi ræktunin getað afkastað 600 plöntum á hverjum tíma. Liggur ljóst fyrir að umfang framkvæmda og sá kostnaður sem lagt hafði verið í getur ekki hafa verið í öðrum tilgangi en til að framleiða til dreifingar og sölu í hagnaðarskyni það kannabis sem þarna hafi átt að rækta.

Í 5.mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 segir að tilraun og hlutdeild í brotum á lögunum séu refsiverð, eftir því sem segi í III. kafla almennra hegningarlaga. Nær sá kafli almennra hegningarlaga til greina nr. 20  til 23. Segir í 1. mgr. 20. gr. að hver sá sem tekið hafi ákvörðun um að vinna verk sem refsing sé lögð við í lögunum og ótvírætt hafi sýnt þann ásetning í verki, sem miði að, eða ætlað sé að miða að framkvæmd brotsins, hafi, þegar brotið sé ekki fullkomnað, gerst sekur um tilraun til þess.

Samkvæmt því sem að framan greinir er það niðurstaða dómsins að sá, eða þeir sem sett hafi upp þá ræktunaraðstöðu sem að framan er lýst teljist hafa uppfyllt öll skilyrði 1. mgr. 20. gr. almennra hegningarlaga og sýnt sé að um sé að ræða refsiverða tilraun til brots á 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, en kannabis er meðal þeirra efna sem óheimil eru á íslensku yfirráðasvæði og nær bannið til plöntunnar og afurða hennar.

Með framburðum þeirra þriggja lögreglumanna sem framkvæmdu húsleit að B, sem nánar eru raktir hér að framan og einnig með vísan til ljósmynda af vettvangi, telst sannað að engar aðgerðir hafi verið framkvæmdar til að hefja niðurrif umræddrar ræktunaraðstöðu, andstætt því sem ákærðu hafa haldið fram. Þá verður með vísan til vættis sömu lögreglumanna talið sýnt að ekki standist sá framburður ákærða Inga Þórs að hann hafi tekið úr sambandi lampa og vökvunarkerfi á þeim plöntum sem þarna voru. Eru með vísan til þess sem hér er rakið haldlausar viðbárur ákærðu um að þeir hafi verið hættir við umrædda ræktun og hafa þær fullyrðingar þeirra enga stoð í þeim efnislegu staðreyndum sem fyrir liggja í málinu eða framburði þeirra lögreglumanna sem rannsökuðu vettvang. Er það einnig til að draga úr trúverðugleika fullyrðinga ákærðu í þessa veru að enginn þeirra gat þess við skýrslugjöf hjá lögreglu að byrjað hefði verið að taka búnað á staðnum niður. Hefur hér ekki úrslitaáhrif þó enginn hafi komið á staðinn þann mánuð sem lögregla fylgdist með vettvangi áður en látið var til skarar skríða. Eru því ekki uppfyllt skilyrði 21. gr. almennra hegningarlaga þannig að um afturhvarf frá tilraun geti talist að ræða.

Ákærðu Sæþór, Ingi og A hafa allir kannast við í framburði sínum hér fyrir dómi að hafa starfað við að setja upp framangreinda ræktunaraðstöðu. Eins og umræddri aðstöðu er lýst hér að framan er það mat dómsins að enginn ákærðu geti hafa gengið þess dulinn til hvers sú aðstaða var ætluð og eru skýringar þeirra allra, hvers fyrir sig, ótrúverðugar og án stuðnings í þeim efnislegu staðreyndum sem fyrir liggja í málinu. Þykir sannað í málinu þrátt fyrir sakarneitun þeirra að þeim hafi verið ljós tilgangur þeirrar starfsemi sem verið var að setja upp og þeir hafi tekið þátt í henni með fullri vitund og vilja.

Framburður ákærða Borgþórs hér fyrir dómi þykir fráleitur og fær enga stoð í gögnum málsins eða framburði meðákærðu. Ákærði Borgþór gaf skýrslu fyrir lögreglu þar sem fram kom að hann þekkti til aðstæðna, hann vísaði á muni sem ætlaðir voru til umræddrar starfsemi og eins vísaði hann á þá menn sem síðar könnuðust við að hafa unnið þarna á staðnum og eru ákærðir með honum í máli þessu. Kom fram hjá honum að hann hefði fármagnað framkvæmdir. Eru engin rök til að telja þá endursögn lögreglumanns af skýrslugjöf ákærða rýrara sönnunargagn, en skýrslur sem ákærði hefði undirritað eins og verjandi hans hefur byggt á, enda er umrædd endursögn studd mynd- og hljóðupptöku af skýrslutökunni og verður réttmæti hennar kannað með einföldum hætti. Má hins vegar fallast á það með verjandanum að það sé ámælisvert að ákæruvald hafi ekki sinnt áskorun hans um að láta honum í té afrit af umræddum mynddiski. Hins vegar var dómnum afhent afrit mynddisksins og varð ekki annað séð en endursögn lögreglumanns af skýrslutöku af ákærða hafi verið í samræmi við það sem þar kom fram. Framburður ákærða um ætlaðar þvinganir eða hótanir lögreglumanna til að knýja hann til játningar fá hvorki stoð í efni mynddisksins, né þykja trúverðugar skýringar hans á því af hverju hann hafi játað saklaus á sig sakir. Verður því talið að í samræmi við þá frásögn sem ákærði Borgþór sjálfur hafði uppi hjá lögreglu, sem og skýrslu meðákærða Sæþórs sem bar um að ákærði Borgþór hefði lagt út þá fjármuni sem til hefði þurft, að sannað sé í málinu að ákærði Borgþór hafi haft veg og vanda af skipulagningu umræddrar starfsemi og hafi lagt fram fé til hennar. Þykir það ekki skipta sérstöku máli hér þó meðákærði Sæþór hafi neitað að svara spurningum um þátt annarra í skýrslu sinni fyrir dómi.

Í samræmi við það sem að framan greinir verður talið sannað að ákærði Borgþór hafi í félagi við aðra ákærðu í málinu gerst sekur um þá háttsemi sem í ákæru greinir. Er hér um samverknað allra ákærðu að ræða. Þykir engu skipta þó ákærði Ingi Þór hafi einn viðurkennt að hafa komið með á staðinn þær 16 kannabisplöntur sem lýst er í ákæruskjali, enda verður talið að þó rétt kunni að vera að hann hafi framkvæmt það einn þá hafi það verið í samræmi við ætlan annarra ákærðu að slíkar plöntur yrðu fluttar á staðinn og ræktaðar þar, sbr. það sem rakið er hér að framan um huglæga afstöðu ákærðu.

Er það því niðurstaða dómsins að allir ákærðu hafi gerst sekir um þá háttsemi sem í ákæru greinir. Varðar háttsemi þeirra við, að því er varðar ræktun á 16 kannabisplöntum, 2. gr. sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, með síðari breytingum, sbr. 2. gr., sbr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001 og að því er varðar tilraunaverknað ákærðu sem að framan er lýst við sömu laga- og reglugerðarákvæði, sbr. 1. mgr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Við ákvörðun refsingar ákærðu allra verður litið til þess til refsiþyngingar að það brot sem þeir gerðu tilraun til að fremja verður að teljast varða verulega almannahagsmuni. Þá er og litið til þess að þeir unnu verkið í félagi. Enginn ákærðu telst eiga sér málsbætur. Þá þykja ekki fyrir hendi í málinu skilyrði til að líta til 2. mgr. 20 gr. almennra hegningarlaga við ákvörðun refsingar.

Ákærði Borgþór Friðrik Ágústsson er fæddur árið 1974. Samkvæmt sakavottorði hans var honum gerð sekt og svipting ökuréttar fyrir umferðarlagabrot með dómi 1998. Þá var hann dæmdur til sektar fyrir brot á lögum um ávana- og fíkniefni árið 2000. Þar sem svo langt er um liðið hafa umrædd brot ekki áhrif á refsiákvörðun nú. Með hliðsjón af því að ákærði Borgþór hafði forgöngu um og fjármagnaði þá starfsemi og uppsetningu þess umbúnaðar sem að framan er lýst telst refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í sex mánuði. Engin tilefni þykja til að skilorðsbinda þá refsingu.

Ákærði Sæþór Ágústsson er fæddur 1979. Samkvæmt sakavottorði hans fékk hann skilorðsbundinn dóm fyrir líkamsárás árið 1998 og gerði sátt árið 1999 um greiðslu sektar fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Þá var hann dæmdur árið 2001 í fimm mánaða fangelsi þar af þrjá mánuði skilorðsbundið til þriggja ára fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Hann lauk afplánun með samfélagsþjónustu 19. júlí 2002. Þá hlaut hann dóm árið 2002 og var dæmdur til þriggja mánaða fangelsisvistar skilorðsbundið til þriggja ára fyrir brot á sömu lögum. Þá var hann enn dæmdur á árinu 2003 fyrir brot á sömu lögum og hlaut þá sex mánaða fangelsi, þar af þrjá mánuði skilorðsbundna til þriggja ára. Hann lauk samfélagsþjónustu vegna þess brots á árinu 2003. Á árinu 2007 var hann dæmdur til sektar fyrir brot á sömu lögum, sem og á árinu 2008, en síðastnefndur dómur var einnig vegna aksturs undir áhrifum fíkniefna og var hann þá einnig sviptur ökurétti í átta mánuði. Með hliðsjón af því sem áður er sagt um sjónarmið við refsiákvörðun gagnvart ákærðu öllum og eins með hliðsjón af sakarferli ákærða þykir refsing hans nú hæfilega ákveðin fangelsi í fimm mánuði. Ekki eru efni til að skilorðsbinda þá refsingu.

Ákærði Ingi Þór Thorarensen er fæddur árið 1978. Samkvæmt sakavottorði hans hefur hann frá árinu 2000 gert fjórum sinnum sátt um greiðslu sektar vegna brota á umferðarlögum og fékk á árinu 2002 í tvígang dóm fyrir brot á þeim lögum og var í annað skiptið dæmdur til sextíu daga fangelsisrefsingar vegna ölvunaraksturs og ítrekaðs aksturs sviptur ökurétti. Hefur framangreindur sakarferill hans ekki áhrif við ákvörðun refsinga nú. Með hliðsjón af þessu sem og þeim sjónarmiðum sem áður voru rakin og eiga við alla ákærðu þykir refsing hans nú hæfilega ákveðin fangelsi í fjóra mánuði. Ekki eru efni til að skilorðsbinda þá refsingu.

Ákærði A er fæddur árið [...]. Samkvæmt sakavottorði hans hefur hann einu sinni, á árinu 2006, gengist undir sátt um greiðslu sektar vegna brots á lögum um ávana- og fíkniefni. Hefur sakarferill hans engin áhrif á refsingu hans nú og þykir hún hæfilega ákveðin, með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem áður eru rakin og eiga við um alla ákærðu, fangelsi í fjóra mánuði. Ekki þykja efni til að skilorðsbinda þá refsingu.

Með vísan til þeirra lagaákvæða sem greinir í ákæruskjali eru 16 kannabisplöntur sem haldlagðar voru við rannsókn málsins gerðar upptækar.

Þá er, með vísan til þeirra laga- og reglugerðarákvæða sem greinir í ákæruskjali, einnig fallist á að upptækir skuli gerðir þeir munir, efni og verkfæri, sem ætlaðir voru, eða höfðu verið notaðir, til að setja upp þá ræktunaraðstöðu sem um ræðir og hald var lagt á við húsleit lögreglu að B. maí 2009 og nánar eru tilgreindir í töluliðum nr. 1 til 69 í ákæru.

Samkvæmt yfirliti sækjanda um sakarkostnað felst hann aðeins í reikningi tveggja garðyrkjufræðinga vegna álitsgerðar sem ákæruvaldið aflaði einhliða stuttu fyrir aðalmeðferð málsins. Umræddir sérfræðingar voru ekki dómkvaddir til að framkvæma mat og verður ekki séð hvaða sönnunargildi álitsgerð þeirra gæti haft í málinu. Hafa verjendur ákærðu mótmælt því að kostnaður vegna þessa verði lagður á ákærðu. Er á það fallist og verður umræddur kostnaður 13.800 krónur lagður á ríkissjóð.

Verður því hver og einn ákærðu dæmdur til að greiða sakarkostnað sem er þóknun verjanda sem þykir hæfilega ákveðin eftir atvikum bæði á rannsóknarstigi og fyrir dómi, allt eins og nánar greinir í dómsorði. Er virðisaukaskattur innifalinn í þeim fjáræðum sem þar greinir og útlagður kostnaður verjanda ákærða Borgþórs án virðisaukaskatts.

Dómur þessi er kveðinn upp af Halldóri Björnssyni dómstjóra í dómsal Héraðsdóms Austurlands að Lyngási 15, Egilsstöðum, miðvikudaginn 31. mars 2010 kl. 11:30 að gættu ákvæði 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, en dómsuppsaga hefur dregist vegna embættisanna dómara.

Dómsorð:

Ákærði, Borgþór Friðrik Ágústsson, sæti fangelsi í sex mánuði.

Ákærði greiði sakarkostnað sem er málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hrl., og þóknun sama verjanda fyrir störf sem tilnefndur verjandi á rannsóknarstigi samtals 376.500 krónur, auk útlagðs kostnaðar verjandans að fjárhæð 37.180 krónur.

Ákærði Sæþór Ágústsson, sæti fangelsi í fimm mánuði.

Ákærði greiði sakarkostnað sem er málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Brynjars Níelssonar hrl., 313.750 krónur.

Ákærði Ingi Þór Thorarensen sæti fangelsi í fjóra mánuði.

Ákærði greiði sakarkostnað sem er málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans Guðbjarna Eggertssonar hdl. 313.750 krónur, sem og þóknun tilnefnds verjanda á rannsóknarstigi Sveins Andra Sveinssonar hrl. 37.650 krónur.

Ákærði A sæti fangelsi í fjóra mánuði.

Ákærði greiði sakarkostnað sem er málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans Grétars Dórs Sigurðssonar hdl. og þóknun sama verjanda fyrir störf sem tilnefndur verjandi á rannsóknarstigi 313.750 krónur.

Upptækar skulu þær sextán kannabisplöntur sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins.

Upptækir skulu þeir munir, efni og verkfæri, sem lögregla lagði hald á við húsleit að B og taldir eru upp í ákæru undir töluliðum nr. 1. til 69, sbr. tilvísanir í viðeigandi númer í munaskrá lögreglu.         

Kostnaður vegna álitsgerðar garðyrkjufræðinga að fjárhæð 13.800 krónur greiðist úr ríkissjóði.