Hæstiréttur íslands

Mál nr. 446/2014


Lykilorð

  • Börn
  • Forsjársvipting
  • Gjafsókn


                                     

Fimmtudaginn 20. nóvember 2014.

Nr. 446/2014.

A

(Valborg Þ. Snævarr hrl.)

gegn

Barnaverndarnefnd Reykjanesbæjar

(Einar Hugi Bjarnason hrl.)

Börn. Forsjársvipting. Gjafsókn.

Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um að A skyldi svipt forsjá B á grundvelli a., b. og d. liðar 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Var talið að öll vægari úrræði til úrbóta, stuðnings og aðstoðar við A hefðu verið reynd, sbr. 2. mgr. ákvæðisins.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Benedikt Bogason hæstaréttardómari og Guðrún Erlendsdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 27. júní 2014. Hún krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt. 

Stefnda krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti dæmist ekki, en um gjafsóknarkostnað áfrýjanda fer eins og segir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar 700.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 24. júní 2014.

                Mál þetta, sem dómtekið var 13. júní síðastliðinn, er höfðað 27. mars 2014.

                Stefnandi er barnaverndarnefnd Reykjanesbæjar, Tjarnargötu 12, Reykjanesbæ.

                Stefnda er A, […], […].

                Stefnandi krefst þess að stefnda verði svipt forsjá yfir barninu B, kt. […], sbr. a., b. og d. liði 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Þá krefst stefnandi þess að málskostnaður verði felldur niður hver sem úrslit málsins verða.

                Stefnda krefst sýknu af kröfum stefnanda. Þá krefst stefnda málskostnaðar eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.

I

                Stefnda eignaðist drenginn B 6. mars 2013. Er hann eina barn stefndu. Faðir drengsins er C. Stefnda fer ein með forsjá drengsins þar sem hún og C voru ekki í skráðri sambúð þegar drengurinn fæddist. Barnsfaðir stefndu á fyrir tvö börn sem hafa reglulega helgarumgengni við föður og gista þá hjá honum.

                Í tilkynningu frá Landspítalanum til Fjölskyldu- og félagsþjónustu Reykjanesbæjar 3. apríl 2013 segir að B hafi legið á Barnaspítala Hringsins dagana 19. - 23. mars 2013 vegna vanþrifa. Fram er tekið að stefnda, móðir drengsins, sé mjög grönn og að könnun hafi leitt í ljós að hún mjólkaði ekki nóg fyrir drenginn og því hafi verið ákveðið að gefa honum pela. Enn fremur segir að faðir drengsins virðist hafa lítil fjárráð og þegar drengurinn var lagður inn hafi foreldrar hans ekki haft fjármuni til að kaupa sér mat. Einnig segir að þar sem um seinfæra foreldra virðist vera að ræða sé óskað eftir því að haft verði samband við foreldra og þau aðstoðuð bæði fjárhagslega og með umönnun drengsins.

                Í samantekt D, starfsmanns stefnanda, dagsettri 17. febrúar 2014, segir meðal annars að í kjölfar tilkynningar Landspítalans hafi verið haft samband við stefndu og föður drengsins og þau boðuð í viðtal hjá starfsmanni barnaverndar. Þar hafi komið fram að drengurinn hafi dafnað vel og þyngst eðlilega eftir að hann fór að fá pela. Þá hafi stefnda greint frá því að hún og barnsfaðir hennar fengju góða aðstoð frá foreldrum hennar og bræðrum en að tveir af bræðrum hennar héldu með þeim heimili. Þau greindu auk þess frá því að fjárhagsstaða þeirra væri orðin betri. Tveimur dögum eftir viðtalið hafi starfsmaður barnaverndar farið í vitjun á heimili drengsins í þeim tilgangi að skoða aðstæður hans. Í húsinu hafi verið kominn tími á miklar endurbætur og hafi hreinlæti verið ábótavant. Drengurinn virtist hafa dafnað ágætlega. Þá segir að í júlí 2013 hafi starfsmaður barnaverndar haft samband við ungbarnaeftirlitið á Heilsugæslustöð Suðurnesja og óskað eftir upplýsingum um hvort mætt hefði verið með drenginn í hefðbundið eftirlit. Hafi svo verið að undanskildum tíma í þriggja mánaða skoðun. Hafi starfsmaður barnaverndar óskað eftir því að vera látinn vita ef foreldrar mættu ekki með drenginn á tilskildum tímum í skoðanir hjá ungbarnaeftirlitinu. Tveimur dögum síðar hafi starfsmaður barnaverndar farið aftur í vitjun á heimili drengsins hjá stefndu og barnsföður hennar. Hafi starfsmaðurinn talið að drengurinn dafnaði vel en upplifði að stefnda væri kvíðin og þreytt auk þess sem hún tjáði starfsmanninum að hún væri svolítið óörugg með drenginn og fyndi fyrir depurð. Starfsmaður barnaverndar hafi þá lagt til að stefnda fengi tilsjónarmann inn á heimilið sem stefnda vildi ekki þiggja. Hún hafi hins vegar þegið að starfsmaður barnaverndar myndi sækja um aðstoð fyrir hana í teymi fyrir nýbakaðar mæður hjá heilsugæslu Suðurnesja.

                Í læknabréfi E, barnalæknis hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, 20. september 2013 kemur fram að hann hafi áhyggjur af velferð drengsins. Í bréfinu kemur fram að drengurinn sé mjög linur og geti ekki haldið höfði almennilega. Er það mat læknisins að foreldrar drengsins séu vanfærir að verulegu leyti og ekki þess umkomnir að annast drenginn. Er farið fram á aðkomu stefnanda að málinu sem allra fyrst. Þá segir að drengurinn hafi verið í ítarlegum rannsóknum og að meðal annars sé ljóst að um vanstarfsemi á skjaldkirtli hans sé að ræða. Þá þurfi að leggja hann inn á Barnaspítala Hringsins til frekari rannsókna. Í öðru læknabréfi Úlfs, sem barst stefnanda 27. september 2013, segir til frekari áréttingar að drengurinn hafi verið í meðferð hjá F barnalækni vegna vanstarfsemi á skjaldkirtli, en ekki mætt sem skyldi í eftirlit.

                Í fyrrnefndri samantekt D segir að drengurinn hafi verið lagður inn á Barnaspítala Hringsins frá 25. september til 2. október 2013. Þann 4. október 2013 hafi verið haldinn fundur á spítalanum sem starfsmaður stefnanda hafi setið ásamt læknum drengsins, G og E, og sjúkraþjálfara, hjúkrunarfræðingi og félagsfræðingi sem hafi verið starfandi á spítalanum. Á fundinum hafi komið fram áhyggjur lækna drengsins af því að drengurinn hafi ekki fengið þá líkamlegu örvun sem börn þyrftu á að halda. Jafnframt hafi vanþrifnaður stefndu og barnsföður hennar verið ræddur en þau hafi lyktað það illa að þau hafi verið beðin um að fara í sturtu á spítalanum og fötin þeirra þvegin. Eftir að drengurinn hafi farið aftur heim með foreldrum sínum hafi stefnda og barnsfaðir hennar samþykkt þá tillögu stefnanda að tilsjónaraðili kæmi inn á heimili þeirra og að þau fengju heimaþjónustu, þar á meðal þrif. Auk þess hafi þau samþykkt að undirgangast foreldrahæfnismat. Drengurinn hafi jafnframt verið bókaður í sjúkraþjálfun hjá H sjúkraþjálfara og átt að mæta þar þrisvar í viku. Á þessum tíma hafi stefnda verið mikið inni á heimili móður sinnar í […] þar sem hún hafi þurft á stuðningi hennar að halda á meðan barnsfaðir hennar var við vinnu. Tilsjónaraðili á vegum stefnanda hafi því farið inn á heimili móður stefndu á meðan hún hafi dvalið þar með drenginn. Hafi samskipti og samvinna stefndu við tilsjónaraðila ekki gengið vel og hafi tilsjónaraðila meðal annars verið vísað á dyr í eitt skipti og ekki hleypt inn í annað skipti, þrátt fyrir að stefnda og móðir hennar hafi verið innandyra með drenginn. Í framhaldinu hafi stefnda verið boðuð á fund barnaverndar þar sem farið var yfir mikilvægi þess að hún tæki við tilsjón og hún hvött til þess að skrifa undir samning þess efnis, sem hún hafi gert. Á fundinum hafi stefnda tjáð starfsmanni stefnanda að hún væri ósátt við sjúkraþjálfara drengsins og að hún teldi hann ekki vera að vinna rétt með drenginn. Hafi sú ákvörðun verið tekin í samráði við stefndu að skipta um sjúkraþjálfara og hafi I sjúkraþjálfari verið fengin til verksins. Þrátt fyrir að stefnda hafi undirritað samning um tilsjón hafi framkvæmd hennar ekki gengið vel nema í nokkur skipti á eftir og svo hafi farið að tilsjón af hálfu barnaverndar Reykjanesbæjar var lögð niður.

                Um miðjan október tilkynnti stefnda starfsmanni stefnanda að hún hygðist flytja til móður sinnar í Sandgerði. Var málið í framhaldinu flutt til Félagsþjónustu Sandgerðis, Garðs og Voga, enda flutti stefnda lögheimili sitt til Sandgerðisbæjar. Félagsþjónustan í Sandgerði kom á tilsjón inn á heimili stefndu og drengsins hjá móður stefndu með það að markmiði að aðstoða stefndu við uppeldishlutverkið og halda utan um mál drengsins.  Tilsjónaraðili kom inn á heimilið tvisvar á dag og fór með stefndu og drengnum í sjúkraþjálfun og þau læknisviðtöl sem drengurinn þurfti að fara í. Tilsjónaraðili hafði einnig milligöngu um að útvega drengnum dagvistun hjá dagmóður í Reykjanesbæ þar sem hann fékk vistun í fjóra tíma á dag. 

                Í samantekt Félagsþjónustu Sandgerðis, Garðs og Voga kemur fram að málefni drengsins hafi verið flutt til félagsþjónustunnar 7. nóvember 2013. Þar segir meðal annars að könnun máls hjá barnavernd Sandgerðisbæjar hafi leitt í ljós að þörf hafi verið á öflugum stuðningi við stefndu og barnsföður hennar sem þrátt fyrir það hafi ekki áttað sig á umfangi og alvarleika vandans. Í svonefndum dagnótum tilsjónaraðila á vegum barnaverndar Sandgerðisbæjar, dagsettum 18. mars 2014, vegna tilsjónar á tímabilinu 20. - 28. janúar 2014, segir að verulegar áhyggjur séu af aðbúnaði og umönnun drengsins sem tilsjónaraðili telur vanræktan, meðal annars hvað varðar næringu, hreinlæti og örvun. Þann 29. janúar 2014 er eftirfarandi skráð: „Máli lokið af hendi tilsjónaraðila, öll vinnsla komin til Reykjanesbæjar.“ Flutti stefnda með drenginn aftur í húsnæði sitt og barnsföður síns í Reykjanesbæ í janúar 2014.

                Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja skoðaði húsnæðið að […] í […] 26. nóvember 2013. Samkvæmt skoðunarskýrslu voru miklar rakaskemmdir undir parketi og í loftum, umgengni um húsnæðið slæm, þrifum verulega ábótavant og úrgang katta að finna á víð og dreif um húsnæðið. Mælti heilbrigðiseftirlitið með því að heimilisfólk gerði tafarlausar úrbætur á eigin umgengni en eftirlitið tók jafnframt þá ákvörðun að taka til meðferðar hvort banna ætti afnot af íbúðarhúsnæðinu á grundvelli reglugerðar um hollustuhætti. 

                Í foreldrahæfnismati J sálfræðings 27. janúar 2014 segir meðal annars að þrátt fyrir að stefnda og barnsfaðir hennar sýni drengnum ást og væntumþykju hafi þau ekki getað sinnt þörfum hans á viðunandi hátt. Þau hafi, þrátt fyrir viðamikinn og daglegan stuðning félagsráðgjafa vikum saman, ekki getað tileinkað sér þá færniþjálfun og ráðgjöf sem þau hafa hlotið varðandi næringu og umönnun drengsins. Segir að án mjög þétts stuðnings og eftirfylgni við daglega umönnun drengsins sé mikil hætta á því að drengurinn alist upp við líkamlega og andlega vanrækslu. Þá sé mikið áhyggjuefni hversu lítið meðvituð foreldrar drengsins eru um takmarkanir sínar í foreldrahlutverkinu en þeim hefur sjálfum fundist óþarfur sá stuðningur sem þau hafa fengið inn á heimilið. Muni þessi innsæisskortur foreldra óhjákvæmilega leiða til vanrækslu í umönnun þeirra á drengnum.

                Í bréfi K barnalæknis til stefnanda 12. febrúar 2014 segir að Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins hafi tengst B og fjölskyldu vegna fötlunar drengsins, þroskahömlunar og hreyfiþroskaröskunar. Fram kemur að hreyfi- og málþroski drengsins sé síðbúinn og að klínískt þroskamat bendi til þess að hann hafi verið með þroska á við 4-6 mánaða við 9 mánaða lífaldur. Einnig kemur fram að stefnda hafi verið skjólstæðingur Greiningarstöðvarinnar vegna þroskahömlunar. Þá segir að 9. janúar 2014 hafi  ráðgjafaþroskaþjálfi á vegum Greiningarstöðvarinnar farið í heimsókn til dagmæðra drengsins og veitt þeim ráðgjöf varðandi mataræði og örvun hans. Þá hafi ráðgjafi og starfsmaður stefnanda farið inn á heimili móðurömmu drengsins, þar sem stefnda hafi dvalið með drenginn, og talið aðstæður bæði móður og barns óásættanlegar. Hafi það verið mat ráðgjafa Greiningarstöðvarinnar að grunnþörfum barnsins væri ekki mætt og að móðir þess, vegna eigin veikinda og þroskaskerðingar, væri ófær um að annast drenginn ein. Í framhaldinu hafi það verið mat starfsmanna Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins að stefnda hefði ekki þroska né heilsu til að taka við sérhæfðri ráðgjöf um þroskaörvun/íhlutun vegna drengsins. 

                Í tilkynningu sjúkraþjálfara drengsins, I, til stefnanda 27. janúar 2014 koma fram áhyggjur vegna færni foreldra til að sinna drengnum. Sagt er að móðir búi yfir skertri færni til þess að sinna grunnþörfum drengsins, svo sem að klæða hann í og úr fatnaði. Þá sé móðir einnig illa fær um að halda á drengnum og sé mjög óörugg í umönnun hans. Loks segir að áhyggjur séu af því að foreldrar örvi drenginn mjög takmarkað heima fyrir. Í tilkynningu frá dagmóður drengsins, L, til stefnanda 29. janúar 2014, kemur fram að drengurinn sé ávallt mjög skítugur og föt hans illa lyktandi. Þá kemur fram að búnaður drengsins sé óviðunandi og hlý föt vanti. Kveðst dagmóðirin hafa áhyggjur af færni foreldra til að annast drenginn.

                Í byrjun febrúar 2014 var tilsjón stefnanda aftur komið á inn á heimili stefndu. Mun tilsjónaraðili hafa mætt nokkru mótlæti af hálfu stefndu og barnsföður hennar og hafi  hann áhyggjur af velferð drengsins. Þá telji tilsjónaraðili grunnþörfum drengsins illa sinnt, meðal annars hvað varðar hreinlæti og næringu auk þess sem stefnda og barnsfaðir hennar hafi ekki sinnt því nægilega vel að fara með drenginn í daggæslu.

                Þann 10. febrúar 2014 var stefnda og C, barnsfaðir hennar, boðuð á fund stefnanda og þeim kynnt sú tillaga að drengurinn yrði vistaður utan heimilis. Voru þau mótfallin því. Mál þeirra var tekið fyrir á fundi stefnanda 24. febrúar 2014 og greinargerð lögð fram af hálfu starfsmanna stefnanda, þar sem lagt er til að drengurinn fari í varanlegt fóstur og að stefnda afsali sér forsjá hans til stefnanda. Á fundinn mætti barnsfaðir stefndu ásamt lögmanni þeirra beggja sem lagði fram greinargerð fyrir þeirra hönd. Í greinargerðinni kemur fram að stefnda og barnsfaðir hennar hafni tillögu starfsmanna barnaverndar, auk annarra athugasemda. Í kjölfarið kvað stefnandi upp úrskurð sem kveður á um vistun drengsins utan heimilis í tvo mánuði, á grundvelli 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, en auk þess skuli krefjast þess fyrir dómi að stefnda, móðir drengsins, skuli svipt forsjá sinni yfir drengnum með vísan til a., b. og d. liða 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. 

II

                Stefnandi kveðst byggja á því að það þjóni best hagsmunum drengsins að svipta stefndu forsjá hans og að honum verði komið í varanlegt fóstur hjá fósturfjölskyldu. Að mati stefnanda hefur það sýnt sig, svo ekki verður um villst, að stefnda getur ekki búið syni sínum þær uppeldisaðstæður og -skilyrði sem hann eigi rétt á. Telji stefnandi að drengurinn hafi að einhverju leyti búið við líkamlega vanrækslu af hálfu stefndu allt frá fæðingu. Vísar stefnandi meðal annars til þess að drengurinn var lagður inn á Barnaspítala Hringsins aðeins tveggja vikna gamall vegna vanþrifa en jafnframt hafi komið í ljós að nauðsynlegt hafi verið að gefa honum pela þar sem móðurmjólkin hafi ekki nægt honum. Þá hafi allir þeir sérfræðingar sem komið hafi að málefnum drengsins og stefndu síðan haft verulegar áhyggjur af velferð hans í hennar umsjá. Drengurinn hafi verið greindur með litningagalla sem hafi ýmsar alvarlegar læknisfræðilegar afleiðingar í för með sér auk þess sem hann sé með vanvirkan skjaldkirtil. Þá liggi fyrir að stefnda hafi sjálf verið greind með þroskaskerðingu og sé að öllum líkindum um að ræða sama litningagalla hjá móður og syni.

                Stefnandi kveðst byggja kröfu sína um að stefnda skuli svipt forsjá drengsins á því að daglegri umönnun drengsins sé alvarlega ábótavant. Í gögnum málsins komi ítrekað fram að stefnda eigi erfitt með að sinna eigin grunnþörfum jafnt sem grunnþörfum drengsins en alvarlegir vankantar hafi verið á umönnun hans hvað varði næringu, hreinlæti, öryggi, lyfjagjöf og örvun, sbr. meðal annars greinargerð barnaverndar Sandgerðisbæjar 8. janúar 2013 og dagnótur tilsjónaraðila 18. mars sama ár. Þá komi fram í forsjárhæfnismati, sem framkvæmt hafi verið á stefndu af J sálfræðingi, að stefnda og barnsfaðir hennar hafi, þrátt fyrir viðamikinn og daglegan utanaðkomandi stuðning vikum saman, ekki getað tileinkað sér þá færni, þjálfun og ráðgjöf sem þau hafi hlotið varðandi næringu og umönnun drengsins. Telji J mikið áhyggjuefni hversu lítið meðvituð foreldrar drengsins séu um takmarkanir sínar í foreldrahlutverkinu og að þessi innsæisskortur þeirra muni óhjákvæmilega leiða til vanrækslu í umönnun á drengnum.

                Stefnandi byggi kröfu sína jafnframt á því að það hafi sýnt sig að stefnda sé ekki fær um að tryggja drengnum viðeigandi læknisfræðilega meðferð eða þjálfun vegna veikinda hans og virðist ekki gera sér grein fyrir alvarleika málsins. Fram komi í gögnum málsins að ítrekað hafi gleymst að gefa drengnum lyf vegna vanvirks skjaldkirtils haustið 2013 og illa hafi verið mætt með hann í eftirlit til innkirtlalæknis. Þá hafi stefnda ekki mætt með drenginn í sjúkraþjálfun sem skyldi, þrátt fyrir að vera vel upplýst um mikilvægi þess í ljósi læknisfræðilegs ástands drengsins. Stefnandi kveðst einnig vísa til mats sérfræðinga Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins 12. febrúar 2014 um að stefnda sé ófær um að annast drenginn vegna eigin veikinda og þroskaskerðingar auk þess sem hún hafi ekki þroska til þess að taka við sérhæfðri ráðgjöf vegna læknisfræðilegs ástands drengsins.

                Í ljósi framangreinds telji stefnandi fullvíst að líkamlegri og andlegri heilsu drengsins sem og þroska hans sé hætta búin í umsjá stefndu. Að mati stefnanda virðist stefnda ekki hafa burði eða þroska til að sinna eigin grunnþörfum og hvað þá grunnþörfum drengsins en stefndu hafi þrátt fyrir mikinn stuðning ekki tekist að tileinka sér þá færni sem nauðsynleg sé til að búa drengnum viðunandi uppeldisaðstæður. Af þeim sökum telji stefnandi stefndu vanhæfa til þess að fara með forsjá hans.

                Stefnandi kveður stuðning við stefndu og barnsföður hennar hafa verið mjög mikinn og leitast hafi verið við að vera í samvinnu við stefndu um málefni sonar hennar eftir fremsta megni og beita eins vægum úrræðum og unnt hafi verið hverju sinni. Að mati stefnanda sé alveg ljóst að við meðferð málsins hafi verið kappkostað að gæta meðalhófs og öll möguleg úrræði tæmd áður en ákvörðun um að höfða þetta mál hafi verið tekin. Einnig hafi stefnandi leitast við að upplýsa málið eins og frekast sé unnt og í því skyni meðal annars aflað upplýsinga frá sérfræðingum sem komið hafi að málinu. Í ljósi aðstæðna, og læknisfræðilegs ástands drengsins og stefndu, telji stefnandi önnur barnaverndarúrræði en forsjársviptingu ekki tiltæk, enda brýn nauðsyn á því að skapa drengnum öryggi og viðunandi umgjörð og heimilisaðstæður.

                Með hagsmuni drengsins að leiðarljósi sé það mat stefnanda að mikilvægt sé að drengurinn fari í umsjá umönnunaraðila þar sem öryggi hans sé tryggt. Það sé mat stefnanda að stuðningsúrræði á grundvelli barnaverndarlaga nr. 80/2002 séu fullreynd og dugi ekki til að tryggja hagsmuni drengsins til frambúðar á heimili stefndu. Þá sé stefnda ekki í stakk búin til að mæta þörfum drengsins. Það sé mat stefnanda að hagsmunum drengsins sé best borgið með langtímafóstri hjá fósturfjölskyldu.

                Með hliðsjón af öllu framanröktu telji stefnandi að hagsmunum drengsins sé best borgið með því að stefnda verði svipt forsjá hans. Stefnandi telji það hafa sýnt sig að stefnda geti ekki veitt syni sínum þá umönnun og það heimili sem hann þarfnist og eigi skýlausan rétt á. Forsjárréttur foreldra takmarkist af þeim mannréttindum barna að njóta forsvaranlegra uppeldisskilyrða. Þegar hagsmunir barns og foreldra vegast á séu hagsmunir barnsins, og hvað því sé fyrir bestu, þyngri á vogarskálunum. Þessi regla sé grundvallarregla í íslenskum barnarétti og komi einnig fram í þeim alþjóðlegu sáttmálum sem Ísland sé aðili að. Hinu opinbera sé skylt að veita börnum vernd svo sem fyrir sé mælt um í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, barnaverndarlögum nr. 80/2002 og samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 18/1992. Þá eigi reglan sér stoð í 2. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem lögfestur sé með lögum nr. 62/1994, og í alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, sbr. lög nr. 10/1979. Með vísan til meginreglna í barnaverndarstarfi, sbr. 4. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, og gagna málsins, geri stefnandi þá kröfu að stefnda verði svipt forsjá drengsins, B, sbr. a., b. og d. liði 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga, enda muni önnur og vægari úrræði ekki skila tilætluðum árangri. 

III

Af hálfu stefndu er bent á að í 2. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 komi fram að kröfu um sviptingu forsjár skuli því aðeins gera að ekki sé unnt að beita öðrum og vægari úrræðum til úrbóta eða slíkar aðgerðir hafi verið reyndar án viðunandi árangurs. Meginmarkmið barnaverndarlaganna sé að börn á Íslandi búi við viðunandi aðstæður. Það þýði þó ekki að öll börn skuli búa við bestu mögulegar aðstæður, einungis að börnin búi við viðunandi aðstæður. Almenna sjónarmið barnaréttar sé að hagsmunir barnsins séu best tryggðir með því að alast upp hjá sinni eigin fjölskyldu.

Á því sé byggt af hálfu stefndu að samkvæmt 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, skuli barnaverndaryfirvöld eftir föngum gæta þess að almenn úrræði til stuðnings fjölskyldu séu fullreynd áður en gripið sé til annarra úrræða. Þá skuli þau jafnframt ávallt miða við að beitt sé vægustu ráðstöfunum til að ná þeim markmiðum sem að sé stefnt. Heimildarákvæðið um forsjársviptingu samkvæmt 1. mgr. 29. gr. laga nr. 80/2002 verði að vera stutt nægjanlegum og jafnframt ótvíræðum rökum, bæði að því er taki til a., b. og d. liða greinarinnar, og í þessu tilviki sé þeim skilyrðum ekki fullnægt. Samkvæmt 2. mgr. 29. gr. laganna skuli því aðeins krafist sviptingar forsjár að ekki sé unnt að beita öðrum og vægari úrræðum til úrbóta. Slíkt hafi ekki verið fullreynt í máli þessu. Í læknisvottorði 6. mars 2014 gagnrýni F barnalæknir barnaverndarnefnd harðlega fyrir ófagleg vinnubrögð. Í vottorðinu segi meðal annars orðrétt: „Þessi fjölskylda þarf sannarlega stuðning til að sinna sínu barni m.a. vegna veikinda móður en það getur á engan hátt verið besta lausnin að svipta foreldra forræði, heldur skyldi miðast við að hjálpa foreldrum.“ Stefnda sé reiðubúin að þiggja alla þá aðstoð sem henni býðst til þess að hún geti séð um barn sitt. Samkvæmt 2. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga skuli einungis gera kröfu um forsjársviptingu að ekki sé unnt að beita öðrum vægari úrræðum til úrbóta eða slíkar aðgerðir hafi verið reyndar án viðunandi árangurs. Þau úrræði sem hafi þó verið reynd af hálfu barnaverndaryfirvalda hafi borið árangur. Því séu lagaleg skilyrði til sviptingar forsjár ekki fyrir hendi í máli þessu. Í máli þessu hafi ekki verið lögð fram ótvíræð rök þess efnis að það beri að svipta stefndu forsjá yfir barninu. Því beri að hafna kröfu stefnanda um forsjársviptingu.

Samkvæmt 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu beri stjórnvöldum að stuðla að því að sameina fjölskyldur, en ekki að sundra þeim eða búa til nýjar fjölskyldur með því að taka börn af fjölskyldum þeirra og færa þau til annarra aðila. Stefnandi virðist vera búinn að ákveða að færa fósturforeldrum barn stefndu í stað þess að aðstoða stefndu af fremsta megni við að annast barn sitt. Markmið laganna sé að styrkja uppeldishlutverk fjölskyldunnar og það almenna sjónarmið að hagsmunir barna séu að öllu jöfnu best tryggðir með því að þau alist upp hjá foreldrum sínum. Það sé í samræmi við almenna meðalhófsreglu, sbr. 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Það sé meginregla í íslenskum rétti að barni sé fyrir bestu að alast upp hjá kynforeldrum sínum. Í dag fari stefnda ein með forsjá barnsins. Forsjá megi skilgreina í þrjá þætti. Í fyrsta lagi feli það í sér rétt foreldra til að ráða persónulegum högum barns. Í öðru lagi feli það í sér skyldu foreldra til að annast barn sitt og í þriðja lagi feli forsjá í sér rétt barnsins til forsjár foreldra sinna. Í 4. mgr. 28. gr. barnalaga nr. 76/2003 komi fram að foreldrar hafi rúma heimild til að ákveða hvers konar uppeldi börn þeirra fái. Heimild þessi sé í raun í samræmi við grundvallarreglur um friðhelgi einkalífs. Í 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands sé friðhelgi fjölskyldunnar lögfest. Með henni sé tryggð sú grundvallarregla að fjölskyldan fái að búa saman, foreldrar fái að annast uppeldi barna sinna án utanaðkomandi afskipta. Grundvallareglan um friðhelgi fjölskyldunnar eigi sér einnig lagastoð í 1. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

 Foreldrum sé ekki einungis tryggður réttur til þess að ráða persónulegum högum barna sinna, heldur sé þeim það einnig skylt, sbr. 4. mgr. 28. gr. laga nr. 76/2003, og í 5. mgr. sömu greinar sé tekið fram að börn eigi rétt á forsjá foreldra sinna uns þau verði sjálfráða. Með þessu sjáist að meginreglan sé sú að foreldrar skuli fara sameiginlega með forsjá barna sinna og ráða yfir högum þeirra. Þessari meginreglu séu sett takmörk með hagsmuni barnsins í huga. Hins vegar beri að gæta að því að hagur barnsins geti oft verið sá að búa hjá foreldri þrátt fyrir misfellur á aðbúnaði þess að einhverju marki.

Í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sem lögfestur hafi verið með lögum nr. 19/2013, komi fram í 1. mgr. 18. gr. samningsins sú meginregla að foreldrar beri sameiginlega ábyrgð á að ala upp barn og koma því til þroska. Foreldrar beri aðalábyrgð á uppeldi barns. Í 5. gr. samningsins sé svo fjallað um að aðildarríkin skuli virða ábyrgð, réttindi og skyldur foreldra til að veita barninu tilhlýðilega leiðsögn og handleiðslu í samræmi við þroska barnsins.  Í raun skuli afskiptum hins opinbera haldið í lágmarki. Í 9. gr. samningsins sé svo áréttað að barn skuli ekki skilið frá foreldrum sínum, nema að aðskilnaður sé nauðsynlegur með tilliti til hagsmuna barnsins. Svo sé ekki í þessu máli. 

Forsjársvipting sé ein sú mest íþyngjandi aðgerð sem barnaverndarnefnd geti gripið til samkvæmt barnaverndarlögum. Því sé mikilvægt að vandað sé vel til verka. Starfsmenn barnaverndar þurfi því að vinna sín störf af fagmennsku. Það geti varla talist til fagmennsku að starfsmenn stefnanda hafi heimtað að læknar sendu inn tilkynningar til þeirra um vanhæfi foreldra, eða að það geti talist fagleg vinnubrögð að túlka orð lækna með öðrum hætti en þau merki, sbr. fyrrgreint læknisvottorð F, þar sem segi meðal annars orðrétt: „Hef rætt við barnaverndarnefnd sem með nokkrum þjósti og ófaglega heimtaði að ég sendi þeim tilkynningu um að ég hefði áhyggjur af velferð þessa barns og að hann hafi ekki mætt hjá mér í tíma, ég neitaði þessu þar sem ég gat ekki samþykkt það ...“ Nauðsynlegt sé að hafa í huga að forsjársvipting sé verulega íþyngjandi ráðstöfun fyrir foreldri, sem feli í sér skerðingu á grundvallarrétti sem varinn sé af 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Um skilyrði forsjársviptingar sé það að segja að undir a. lið 1. mgr. 29. gr. falli í raun þrjú atriði, það er dagleg umönnun, uppeldi og samskipti foreldra og barns. Einhverjum af þessum liðum þurfi að vera alvarlega ábótavant með hliðsjón af aldri og þroska barns. Það nægi ekki að einhverjum liðnum sé ábótavant, heldur þarf þeim lið að vera alvarlega ábótavant til að skilyrðum forsjársviptingar verði fullnægt.

Í upphafi hafi stefnda vissulega verið óörugg með daglega umönnun drengsins en það hafi breyst og sé ekkert sem bendi til annars en að hún geti vel séð um daglega umönnun hans. Hún eigi ekki í neinum vandræðum með að baða drenginn, gefa honum að borða eða að klæða hann. Stefnda sýni barninu ást, umhyggju og alúð. Hún sé einnig mjög dugleg við að örva drenginn. Þannig hafi hún reynt að þroska drenginn eftir fremsta megni. Stefnda hafi farið eftir ráðum bæði frá starfsmönnum barnaverndar og frá öðrum sérfræðingum og nýtt sér þekkingu sem hún hafi meðal annars fengið eftir að hafa sótt námskeið Rauða krossins um umönnun ungbarna. Þá hafi stefnda til að mynda verið dugleg við að örva barn sitt með æfingum sem henni hafi verið kenndar af sérfræðingum.

Það sé enn fremur skilyrði samkvæmt b. lið 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga að barni sem sé sjúkt eða fatlað sé ekki tryggð viðeigandi meðferð, þjálfun eða kennsla. Vissulega hafi drengurinn verið sjúkur, meðal annars með vanvirkan skjaldkirtil ásamt því að hafa litningagalla. Drengnum sé hins vegar tryggð viðeigandi meðferð, þjálfun og kennsla. Stefnda hafi verið mjög dugleg við að fara með barnið til læknis. Um það vitni fyrrgreint læknisvottorð 6. mars 2014. Stefnda hafi nýtt sér þau úrræði sem sérfræðingar, svo sem læknar, hafi kennt henni til að örva og þroska barn sitt, þannig að ljóst megi vera að drengnum sé tryggð viðeigandi meðferð, þjálfun og kennsla. Þessi liður eigi einungis við þegar foreldrar hirði ekki um að veita barni viðunandi læknismeðferð, sérþjálfun eða sérkennslu vegna fötlunar eða veikinda. Stefnda hafi ekki hafnað læknismeðferð og hún hafi veitt barninu alla þá sérþjálfun og sérkennslu sem því hefur boðist.

Þá kveður stefnda að d. liður 1. mgr. 29. gr. laganna fjalli í raun um augljósa vanhæfni foreldra. Það þurfi að vera fullvíst að líkamlegri eða andlegri heilsu barnsins eða þroska þess sé hætta búin. Til að skilyrði þau sem komi fram í d. lið 29. gr. teljist uppfyllt þá verði það að teljast fullvíst að líkamlegri eða andlegri heilsu barns eða þroska þess geti verið hætta búin sökum þess að foreldrar séu augljóslega vanhæfir til að fara með forsjá, svo sem vegna vímuefnaneyslu, geðrænna truflana, greindarskorts eða að  hegðun foreldra sé líkleg til að valda barni alvarlegum skaða. Stefnandi þurfi því að sýna fram á með óyggjandi hætti að líkamlegri eða andlegri heilsu barnsins eða þroska þess sé hætta búinn eða að breytni stefndu sé líkleg til að valda barninu alvarlegum skaða.

Ef farið sé yfir helstu tilkynningar sem sé að finna í þessu máli þá snúi þær að atriðum sem auðvelt sé að laga fái stefnda viðhlítandi aðstoð frá stefnanda. Tilkynnt sé um slæma félagslega og fjárhaglega stöðu stefndu. Í þessu sambandi sé rétt að taka fram að það hafi komið til tals af hálfu starfsmanna stefnanda að það þurfi að aðstoða stefndu við að fá félagslegt húsnæði. Af einhverjum orsökum hafi það mál sofnað hjá stefnanda.

Í læknabréfi E 20. september 2013 sé fyrst og fremst varpað fram ótímabærum áhyggjum. Egefi sér ýmsar forsendur. Þar segi meðal annars: „Drengurinn hefur nú þegar farið í skoðun og meðhöndlun hjá F barnalækni og innkirtlalækni barna og hefur drengurinn mætt einu sinni að ég held...“. Það sé ekki nóg að halda, menn verði að vita. Verði að segja að tilkynning sem þessi sé mjög ófagleg og ekki sé mark takandi á henni. Ekki sé annað hægt en að spyrja sig hvort E læknir hafi verið hvattur með þjósti til að senda inn tilkynningu til barnaverndar eins og gert hafi verið með F lækni. E læknir sjái ástæðu til að senda inn enn eina tilkynninguna sökum þess að barnið hafi ekki mætt í sex mánaða bólusetningu. Tilkynning þessi sé send sama dag og barnið hafi átt að mæta í bólusetningu. Úlfi detti ekki í hug að reyna að kanna hver sé ástæða þess að barnið hafi ekki mætt.

Þá verði bréf Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins 12. febrúar 2014 ekki skilið öðruvísi en svo að það sé gagnrýni á stefnanda, en þar segi meðal annars orðrétt: „Starfsmenn Greiningarstöðvar munu áfram vera til samráðs, ráðgjafar og íhlutunar vegna B við starfsmenn félagsþjónustu og barnaverndar og síðar einnig inn á heimili móður og barns þegar þeim hefur verið veittur viðeigandi stuðningur og aðstæður.“ Af þessu skjali verði ekki annað ráðið en að Greiningarstöðin telji að stefnandi hafi ekki veitt stefndu viðeigandi stuðning og aðstæður.

Í forsjárhæfnismati komi fram að matsmaðurinn hafi einungis hitt stefndu og barnsföður hennar í tvígang. Þann 9. desember 2013 á heimili foreldra og svo þann 6. janúar 2014 í húsnæði félagsþjónustu Sandgerðisbæjar. Af þessu sjáist að matsgerðin hafi verið unnin í miklum flýti. Eins sé óljóst hvort foreldrar hafi verið undirbúnir fyrir hana. Á þeim tíma sem matsgerðin hafi verið unnin hafi stefnda haft miklar áhyggjur af eigin heilsu, enda hafi hún þá nýlega greinst með krabbamein. Við forsjármatið hafi aðstæður verið þannig að taka verði matið með mikilli varúð.

Af framannefndu megi ljóst vera að ákvæði a., b., eða d. liða 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 um skilyrði til forsjársviptingar séu ekki uppfyllt hvað stefndu varði. Beri því að hafna kröfu stefnanda um að svipta stefndu forsjá yfir drengnum. Í greinargerð með frumvarpi að barnaverndarlögum sé tekið fram að barnaverndaryfirvöldum sé ekki falið það verkefni að stuðla að því að öll börn búi við bestu mögulegu aðstæður, heldur fyrst og fremst að aðstæður einstakra barna séu viðunandi. Það geti verið breytilegt á hverjum tíma og eftir almennum efnahag hvað teljist viðunandi. Markmið barnaverndarlaga sé meðal annars að tryggja að börn sem búi við óviðunandi uppeldisaðstæður fái nauðsynlega aðstoð, sbr. 2. gr. laganna. Í lögunum séu fyrirmæli um að barnaverndaryfirvöldum beri að grípa til viðeigandi úrræða þegar aðstæður barns séu óviðunandi eða líkamlegri eða andlegri heilsu barns eða þroska þess geti verið hætta búin vegna vanrækslu foreldris, vanhæfis eða framferðis þess. Rekist hagsmunir foreldris og barns á verða hagsmunir foreldris að víkja. Því sé mótmælt að stefnandi hafi sýnt fram á með ótvíræðum hætti að stefnda sé ekki fær um að fara með forsjá barns síns.

Um lagarök vísast að öðru leyti en því sem að framan greinir til IV. kafla barnaverndarlaga nr. 80/2002, meginreglna barnalaga nr. 76/2003 og stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Jafnframt er vísað til grundvallarreglna um friðhelgi einkalífs sem varið er í 71. gr. stjórnarskrár íslenska lýðveldisins og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Krafa um málskostnað er byggt á 60. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 og enn fremur á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 130. gr.

IV

Stefnda gaf aðilaskýrslu fyrir dómi við aðalmeðferð málsins. Þá gáfu skýrslur vitnin D, starfsmaður barnaverndarnefndar Reykjanesbæjar, M, félagsráðgjafi, G, læknir, F, læknir, J sálfræðingur, N og C.

Sonur stefndu, B, er fæddur 6. mars 2013. Faðir hans og sambýlismaður stefndu er C. Stefnda og Cvoru ekki í skráðri sambúð þegar drengurinn fæddist og því fer stefnda ein með forsjá hans.

Í læknabréfi E 20. september 2013 segir að drengurinn sé ákaflega linur og geti ekki borið höfuðið almennilega. Hann virðist vera með vanstarfsemi á skjaldkirtli sem skýri þó ekki öll hans einkenni. Að mati læknisins virðast foreldrar drengsins vanfærir að verulegu leyti.

Í læknisvottorði G sérfræðilæknis 3. mars 2014 segir meðal annars að B sé 11 mánaða drengur með örtvöföldunar 22q11.2 heilkenni (microduplication 22q11.2 syndrome). Helstu einkenni séu mismikil þroskavandamál, vaxtarskerðing, hyptonia, heyrnartap og margvísleg vansköpun, þar á meðal á innri líffærum. Þá segir að drengurinn sé með vanstarfsemi á skjaldkirtli og sé í eftirliti hjá F lækni vegna þess. G gaf skýrslu fyrir dómi og greindi frá því að hann hefði fyrst komið að málefnum B þegar hann hafi verið 6-7 mánaða og lá á Barnaspítala Hringsins. Vitnið kvaðst hafa verið beðið um að skoða drenginn til að komast að því hvers vegna hann væri svona seinn í þroska og finna greiningu á vanda hans. Vitnið kvaðst ekki hafa hitt drenginn síðan í apríl síðastliðinn. Börn sem eru með tvöföldun á litningi 22q11 eru yfirleitt með þroskavandamál. Þau eru seinþroska, með minnkaða vöðvaspennu og önnur hegðunarvandamála síðar meir. Um sé að ræða erfðasjúkdóm. Börn með sjúkdóminn þurfa sjúkraþjálfun, hlýju frá foreldrum og uppeldi eins og önnur börn. Lyfjagjöfum þarf að sinna og oft þarf að heimsækja lækna, en þetta reyni á foreldra. Þá kom fram að sjúkdóminn hefði áhrif á greind og hegðun. Mótþrói og athyglisbrestur gætu komið fram síðar án þess að víst sé að það verði alvarlegt. Búast mætti við slíkum vandamálum og þá væri mikilvægt að foreldrar geti lesið í aðstæður barnsins og fylgt þeim eftir. Vitnið staðfesti fyrir dómi læknisvottorð sem það skrifaði vegna drengsins.

Afskipti stefnanda af drengnum hófust um mánuði eftir fæðingu hans vegna tilkynningar frá Landspítalans þar sem drengurinn lá dagana 19. – 23. mars 2013 vegna vanþrifa hans. Fram er tekið að foreldrar drengsins séu seinfærir og að óskað sé eftir fjárhagsaðstoð og aðstoð við umönnun drengsins. Fólust afskipti stefnanda af drengnum í því að gerðar voru áætlanir samkvæmt 23. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 um meðferð málsins frá haustmánuðum 2013, sem stefnda samþykkti fyrir sitt leyti, og fólu meðal annars í sér reglubundið eftirlit, eða svonefnda tilsjón, með stefndu og heimili fjölskyldunnar.

Í samantekt Félagsþjónustu Sandgerðisbæjar, Garðs og Voga 8. janúar 2014, sem gerð var í tilefni af flutningi á máli drengsins til stefnanda, segir að ljóst sé, þrátt fyrir að ýmislegt hafi áunnist og að fjárhagsleg staða foreldra sé betri, að foreldrar þurfi mikinn stuðning við að sinna eigin grunnþörfum og grunnþörfum drengsins. Foreldrar séu báðir slakir á ýmsum sviðum en styrkleiki þeirra felist einna helst í því hve vænt þeim þyki um drenginn og hve velviljug þau séu. Af málsgögnum verður ráðið að samvinna barnaverndaryfirvalda í Reykjanesbæ og í Sandgerðisbæ við stefndu hafi ekki gengið sem skyldi. Svo fór að stefnandi kvað upp úrskurð 24. febrúar 2014 um að drengurinn skyldi vistaður utan heimilis í tvo mánuði samkvæmt heimild í b. lið 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, en auk þess yrði farið fram á að stefnda yrði svipt forsjá yfir drengnum samkvæmt a., b. og d. liðum 1. mgr. 29. gr. laganna.

Í foreldrahæfnismati J sálfræðings, dagsettu 27. janúar 2014, segir um stefndu að samkvæmt mælingum, fengnum úr fyrirliggjandi gögnum sé stefnda með þroskaskerðingu. Í viðmóti sé stefnda óörugg, óframfærin og tilbaka. Á persónuleikaprófi komi fram að stefnda dragi upp fegraða mynd af sjálfri sér og gangist ekki við mannlegum veikleikum sem flestir hafi. Prófmyndin sýni konu sem sé með neikvætt sjálfsmat, sé sjálfsgagnrýnin og áfellist sjálfa sig fyrir misgjörðir og glötuð tækifæri. Hún kunni að vera með meiri efasamdir um hæfni sína en hún vilji vera láta. Félagslega sé stefnda ekki sterk og líklegt sé að þörfum hennar sé illa mætt í persónulegum samskiptum. Tengslahæfni hennar sé skert þar sem stefnda eigi erfitt með að setja sig í spor drengsins, lesa í líðan hans og bregðast við henni á viðeigandi hátt. Einnig segir í matinu að alvarlegir misbrestir hafi orðið á því að foreldrar drengsins sýndu staðfestu og stöðugleika, tækju ábyrgð á barninu og verðu það fyrir hættum og óþægindum. Hafi foreldrar ítrekað sýnt mikið ábyrgðarleysi og sinnuleysi varðandi mikilvæga og lífsnauðsynlega umönnun drengsins. Megi þar nefna lyfjagjöf sem hafi ítrekað farist fyrir, skeytingarleysi sem komi fram í því að þau hafi ekki sinnt því að fara með drenginn í ungbarnaeftirlit og sprautur og einnig að þau hafi ekki fylgt sjúkraþjálfun drengsins eftir.

Í lokaorðum matsins segir Jþað vera mat sitt að foreldrar drengsins sýni honum ást og væntumþykju en geti ekki sinnt þörfum hans á viðunandi hátt. Foreldrarnir hafi fengið viðamikinn og daglegan stuðning félagsráðgjafa vikum saman. Stuðningurinn hafi falist í færniþjálfun og ráðgjöf um næringu og umönnun drengsins og eftirfylgni í öll úrræði vegna fötlunar hans. Hafi foreldrar ekki getað tileinkað sér þessi úrræði á fullnægjandi hátt. Til að svo megi verða þurfi að koma til mjög þéttur stuðningur og eftirfylgni við umönnun og daglegar þarfir sem drengurinn hafi. Fái þau ekki slíka aðstoð sé mikil hætta á að drengurinn alist upp við líkamlega og andlega vanrækslu. Foreldrarnir muni þurfa mikla aðstoð við að fylgja eftir þeim sérúrræðum sem fundin verða vegna sérþarfa drengsins. Áhyggjuefni sé hversu foreldrarnir séu lítið meðvituð um takmarkanir sínar sem foreldrar en það komi annars vegar á tengslaprófi og hins vegar á því að þeim hefur fundist óþarfur sá stuðningur sem þau hafa fengið inn á heimilið. Muni þessi skortur á innsæi foreldra óhjákvæmilega leiða til vanrækslu á umönnun þeirra á drengnum.

J sálfræðingur gaf skýrslu fyrir dómi við aðalmeðferð málsins og staðfesti áðurnefnt foreldrahæfnismat sem hún vann fyrir Fjölskyldu- og velferðarnefnd Sandgerðis, Garðs og Voga. Voru málefni drengsins og fjölskyldu hans um tíma þar til meðferðar vegna tímabundinnar búsetu stefndu hjá móður sinni í Sandgerði. Vitnið greindi frá því að um væri að ræða fatlað barn, en við vinnslu málsins hafi ekki verið að fullu ljóst hversu mikil fötlunin væri. Móðir barnsins væri eftir á í þroska og mjög sennilega faðirinn líka. Mikil inngrip hafi verið frá barnaverndarnefnd og miklar áhyggjur af velferð barnsins í umsjá foreldra. Athugun á málinu hafi leitt í ljós að full ástæða hafi verið til að hafa áhyggjur. Foreldrarnir hafi ekki haft burði til að annast grunnþarfir barnsins, þarfir sem öll börn hafa og forsjáraðilar verða að mæta til að barn geti þroskast eðlilega. Hin miklu inngrip frá barnaverndarnefnd hafi verið til að foreldrar gætu sinnt grunnþörfum barnsins. Það virtist ekki nægja þó að inngrip væru mjög mikil miðað við hvað almennt er, það er innlit tvisvar á dag í margar vikur. Að eiga fatlað barn krefst mjög mikils af foreldrum, eftirfylgni og styrks sem foreldrar drengsins hafi því miður ekki. Hag barnsins sé því best borgið hjá fólki sem geti sinnt þessum þörfum og meira en bara grunnþörfunum. Það sé alveg nauðsynlegt. Spurð um það hvort niðurstaða vitnisins í forsjárhæfnismatinu væri eins og raun bæri vitni vegna þess að móðir drengsins sé lítt móttækileg eða nánast ómóttækileg fyrir því að tileinka sér stuðning eða læra þannig að það gagnist drengnum og einkum og sér í lagi til frambúðar. Svaraði vitnið því til að eigin vitsmunaskerðing stefndu vægi þar þyngst og eitthvað í persónugerð hennar líka sem skýri þessa vanvirkni. Vitsmunlega þroskahamlað fólk geti upp að vissu marki sinnt grunnþörfum barna sinna en stefnda virðist ekki gera það, þannig að fleira komi til í tilviki stefndu en greindarskerðing.

Í tilkynningu frá sjúkraþjálfara drengsins, I, 27. janúar 2014, greinir hún frá áhyggjum sínum vegna vanfærni foreldra til að sinna drengnum. Stefnda hafi skerta færni til að sinna grunnþörfum drengsins, hún sé illa fær um að halda á drengnum og sé mjög óörugg í umönnun hans. Þá hafi hún skerta færni til að klæða drenginn í og úr fatnaði.

Samkvæmt bréfi Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins 12. febrúar 2014 hafi komið fram við taugalæknisfræðilega skoðun á drengnum slök vöðvaspenna, slakur hreyfiþroski og jafnir en daufir reflexar í öllum útlimum. Klínískt þroskamat bendi til þess að drengurinn sé með þroska á við 4-6 mánaða barn við níu mánaða lífaldur. Þá segir að almennri umönnun sé ábótavant þrátt fyrir stuðning af hálfu félagsmálayfirvalda. Í bréfinu segir enn fremur að stefnda hafi verið skjólstæðingur Greiningarstöðvar vegna þroskahömlunar. Hún hafi komið til athugunar vorið 2008, þá 17 ára gömul. Hún sé róleg og vel skapi farin, samviskusöm og hjálpsöm. Hún hafi greint frá migrene-höfuðverkjum og svefnerfileikum. Þroskamælingar (WISC-IVís) hafi sýnt að vitsmunaþroski hafi verið á stigi þroskahömlunar. Mælitala vitsmunastarfs hafi verið 53. Hreyfiþroski hafi verið metinn (M-ABC2) og hafi frammistaða verið í lágu meðaltali. Aðlögunarfærni í daglegu lífi hafi verið metin með Vineland í viðtali og við móður og hafi heildartalan verið 70. Þá hafi matslistar, sem stefnda og móðir hennar hafi svarað, sýnt kvíða og depurðareinkenni. Loks segir orðrétt í bréfinu, sem ritað er af K barnalækni: “Í ljósi þess að móðir drengsins hefur ekki þroska og heilsu til þess að taka við sérhæfðri ráðgjöf um þroskaörvun/íhlutun verður sérhæfðri ráðgjöf inn á heimili B hætt. Starfsmenn Greiningarstöðvar munu áfram vera til samstarfs, ráðgjafar og íhlutunar vegna B við starfsmenn félagsþjónustu og barnaverndar og síðar einnig inn á heimil móður og barns þegar þeim hefur verið veittur viðeigandi stuðningur og aðstæður.”

Krafa stefnanda um að stefnda verði svipt forsjá yfir drengnum B er reist á a., b. og d. liðum 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Samkvæmt tilvitnuðum stafliðum er barnaverndarnefnd heimilt að krefjast þess að foreldrar, annað eða báðir, skuli sviptir forsjá ef hún telur að daglegri umönnun, uppeldi eða samskiptum foreldra og barns sé alvarlega ábótavant með hliðsjón af aldri barns og þroska, að barni sem sé sjúkt eða fatlað sé ekki tryggð viðeigandi meðferð, þjálfun eða kennsla, að fullvíst sé að líkamlegri eða andlegri heilsu barns eða þroska þess sé hætta búin sökum þess að foreldrar séu augljóslega vanhæfir til að fara með forsjána, svo sem vegna vímuefnaneyslu, geðrænna truflana, greindarskorts eða að breytni foreldra sé líkleg til að valda barni alvarlegum skaða. Samkvæmt 2. mgr. 29. gr. laganna skal því aðeins gera kröfu um sviptingu forsjár að ekki sé unnt að beita öðrum og vægari úrræðum til úrbóta eða slíkar aðgerðir hafi verið reyndar án viðunandi árangurs.

Af gögnum málsins er ljóst að úrræði samkvæmt 23. gr. laga nr. 80/2002 hafa verið reynd frá því að stefnandi hóf afskipti af málefnum drengsins um það bil mánuði eftir fæðingu hans án þess að þau hafi skilað tilætluðum árangri. Ræður þar mestu um að stefnda og barnsfaðir hennar hafa ekki náð að tileinka sér ráðgjöf og sérúrræði vegna fötlunar drengsins á fullnægjandi hátt. Einnig liggur fyrir að stuðningur og færniþjálfun hefur ekki skilað viðunandi árangri og hefur stefnda ekki náð að sinna grunnþörfum drengsins svo viðunandi sé. Þá skortir stefndu innsæi í eigin vanda. Hún á erfitt með að treysta fagfólki og vera í virkri samvinnu við það, einkum vegna þroskaskerðingar og persónuleikaröskunar. Kemur þetta fram í forsjárhæfnismati J sálfræðings, framburði hennar fyrir dómi og í bréfi Greiningar- og ráðgjafastöðvar ríkisins dagsettu 12. febrúar 2014. Með framtíðarhorfur drengsins í huga ber einnig að líta til álits G barnalæknis, þess efnis að erfiðleikar drengsins munu frekar aukast með aldrinum en minnka. Líkur séu á að drengurinn fái ADHD hegðunarvanda og muni eiga erfitt uppdráttar námslega. Þessi vandi kallar sérstaklega á að foreldri sé næmt fyrir þörfum drengsins og geti komið til móts við þær, meðal annars með mikilli samvinnu við fagaðila.  

Það er mat dómsins, með vísan til þess sem að framan er rakið og framburðar vitnisins J sálfræðings fyrir dóminum, að stefnda uppfylli ekki, þrátt fyrir allan þann stuðning sem tiltækur er, þær lágmarkskröfur sem gera verður til hennar sem uppalanda, þannig að hún geti veitt drengnum B, sem gögn málsins staðfesta að býr við alvarlega þroskahömlun, þau uppeldisskilyrði sem nauðsynleg eru miðað við aðstæður hans, heilsufar og þroska. Er það mat dómsins að skilyrði a., b. og d. liða 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 séu uppfyllt í málinu. Það er enn fremur mat dómsins að öll vægari úrræði til úrbóta, stuðnings og aðstoðar við stefndu hafi verið reynd af hálfu stefnanda og Félagsþjónustu Sandgerðisbæjar, Garðs og Voga. Ákvæði 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, eða 1. mgr. 18. gr. laga nr. 19/2013, sem byggt er á af hálfu stefndu, fá að mati dómsins ekki breytt þessari niðurstöðu.

Samkvæmt öllu framangreindu verður að telja að hagsmunum barnsins B best borgið með því að stefnda verði svipt forsjá yfir barninu. 

Stefnandi krefst ekki málskostnaðar. Stefnda krefst málskostnaðar óháð gjafsóknarleyfi. Þykir rétt að málskostnaður falli niður. Allur gjafsóknarkostnaður stefndu, það er málsvarnarlaun lögmanns hennar, Leifs Runólfssonar héraðsdómslögmanns, sem þykja hæfilega ákveðin 913.013 krónur, að virðisaukaskatti meðtöldum, greiðast úr ríkissjóði.

Dóm þennan kveða upp Jón Höskuldsson héraðsdómari, og sálfræðingarnir Helgi Viborg og Guðfinna Inga Eydal.

D ó m s o r ð:

Stefnda, A, kennitala […], er svipt forsjá yfir barninu B, kennitala […].

Málskostnaður fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður stefndu greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun lögmanns hennar, Leifs Runólfssonar, héraðsdómslögmanns, samtals 913.013 krónur.