Hæstiréttur íslands
Mál nr. 759/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Reynslulausn
- Skilorðsrof
- Fullnusta refsingar
|
|
Þriðjudaginn 3. desember 2013. |
|
Nr. 759/2013. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H.B. Snorrason saksóknari) gegn X (Jón Bjarni Kristjánsson hdl.) |
Kærumál. Reynslulausn. Skilorðsrof. Fullnusta refsingar.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að afplána eftirstöðvar fangelsisrefsinga.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir og Þorgeir Örlygsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. nóvember 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. desember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. nóvember 2013 þar sem varnaraðila var gert skylt að afplána samtals 360 daga eftirstöðvar reynslulausnar tveggja dóma Héraðsdóms Reykjavíkur 20. desember 2011 og 19. september 2012 samkvæmt reynslulausn sem Fangelsismálastofnun veitti honum 22. nóvember sama ár. Kæruheimild er í 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Lögð hefur verið fyrir Hæstarétt skýrsla varnaraðila hjá lögreglu 29. nóvember 2013 þar sem hann viðurkenndi að hafa átt aðild að þjófnaði á áfengisflöskum og peningakassa á [...] í Reykjavík 28. sama mánaðar. Að þessu virtu, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður talið að sterkur grunur leiki á að varnaraðili hafi ítrekað á þessu ári framið brot sem varðað geta sex ára fangelsi. Með því hefur hann rofið gróflega almennt skilyrði reynslulausnar, sem honum var veitt 22. nóvember 2012, og verður úrskurðurinn því staðfestur á grundvelli 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005.
Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. nóvember 2013.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að að X, kt. [...], verði gert að afplána samtals 360 daga eftirstöðvar reynslulausnar tveggja dóma Héraðsdóms Reykjavíkur frá 20. desember 2011 og frá 19. september 2012, sbr. reynslulausn sem honum var veitt af Fangelsismálastofnun þann 22. nóvember 2012.
Í greinargerð kemur fram að kærði hafi verið handtekinn í gærmorgun grunaður um innbrot í [...] við [...] í Reykjavík fyrr um morguninn en þaðan hafi verið stolið tölvuskjá sem síðar hafi fundist í íbúð að [...] þar sem kærði hafi verið handtekinn ásamt öðrum sem þar hafi verið. Þá sé kærði jafnframt grunaður um þjófnað á [...] við [...] í Reykjavík fyrr um nóttina en þaðan hafi verið stolið áfengisflöskum og peningakassa. Frá [...] séu til upptökur úr eftirlitsmyndavélakerfi sem sýni hvar, að því hafi verið talið þrír, menn fara inn í matsal og taka þaðan áfengisflöskur og peningakassa. Mennirnir séu aldrei saman heldur aðeins einn í einu í matsalnum. Við nánari rannsókn sé það mat lögreglu að um sé að ræða aðeins tvo menn þar sem annar mannanna komi inn í tvígang. Þekki lögreglumenn kærða sem þann aðila. Þá hafi aðrir sem handteknir hafi verið með kærða í umrætt sinn borið um það að kærði sé annar aðilanna. Þá hafi einn aðili borið um það að kærði hafi greint frá því að hann hafi ásamt öðrum brotist inn í fyrirtækið [...] og þá muni hann hafa boðið öðrum aðila að kaupa af sér tölvuskjá.
Kærði hafi ekki verið skýrsluhæfur við rannsókn málsins í gær og hafi því ekki fengist afstaða hans til þessa.
Auk þessa hafi kærði viðurkennt innbrot og þjófnað í sumarhúsi og tilraun til innbrots og þjófnaðar í annað sumarhús í [...] í mars á þessu ári. Þá sé hann einnig grunaður um þjófnað í [...] við [...] í Reykjavík í mars á þessu ári. Loks hafi hann viðurkennt innbrot í sumarhús í [...] í september á þessu ári.
Að mati lögreglustjóra hafi kærði gerst brotlegur við almenn hegningarlög og eru skilyrði 2. mgr. 65. gr. laga um fullnustu refsingu nr. 49/2005 uppfyllt. Muni embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu gefa út ákæru á hendur honum vegna framangreindra brota eins fljótt og kostur sé.
Vísað sé til framangreinds, hjálagðra gagna og 2. mgr. 65. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 49/2005.
Með vísan til greinargerðar lögreglu og rannsóknargagna málsins þykir kominn fram rökstuddur grunur um að kærði hafi gerst sekur um háttsemi sem varðar geti allt að 6 ára fangelsisrefsingu. Hann hefur því brotið gróflega gegn skilyrðum reynslulausnarinnar. Það er því fallist á með lögreglustjóra að uppfyllt séu skilyrði 2. mgr. 65. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 49/2005.
Er krafan því tekin til greina eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
X, kt. [...], skal afplána samtals 360 daga eftirstöðvar reynslulausnar tveggja dóma Héraðsdóms Reykjavíkur frá 20. desember 2011 og frá 19. september 2012, sbr. reynslulausn sem honum var veitt af Fangelsismálastofnun þann 22. nóvember 2012.