Hæstiréttur íslands
Mál nr. 194/2002
Lykilorð
- Handtaka
- Gæsluvarðhald
- Skaðabótamál
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 7. nóvember 2002. |
|
Nr. 194/2002. |
Pétur Þormóðsson(Kristján Stefánsson hrl.) gegn íslenska ríkinu (Guðrún Margrét Árnadóttir hrl.) |
Handtaka. Gæsluvarðhald. Skaðabótamál. Gjafsókn.
P hafði setið í gæsluvarðhaldi vegna gruns um aðild að ólöglegum innflutningi á tollskyldum varningi. Hafði ákæra á hendur honum verið afturkölluð þar sem umræddur varningur hafði farið forgörðum hjá tollgæsluyfirvöldum. Krafðist P bóta á þeim grundvelli að hann hefði sætt gæsluvarðhaldi að ósekju og sætt ólögmætri frelsisskerðingu. Fallist var á það með Í að eyðing sönnunargagna hefði legið til grundvallar afturköllun ákæru en ekki það að sönnunargögn hefðu ekki komið fram við rannsókn eða meðferð máls, sbr. 175. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Var því talið að lagaskilyrði hefðu verið uppfyllt til að kveða á um gæsluvarðhaldsvist P og dómsúrlausnir í máli hans reistar á lögmætum grunni og í samræmi við ákvæði laga um meðferð opinberra mála, stjórnarskrá nr. 33/1944 og mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Þá var það mat dómsins að P hefði ekki setið lengur í gæsluvarðhaldi en nauðsyn bar til þar sem sönnunargögn gátu með réttu bent til aðildar hans að málinu þó að ekki lægi fyrir hve stór þáttur hans væri. Að lokum var með vísan til 1. mgr. 105. gr. laga nr. 91/1991 ekki fallist á að P hefði verið í haldi án heimildar. Var bótakröfu P því hafnað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason og Haraldur Henrysson.
Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 24. apríl 2002. Hann krefst þess, að stefndi greiði sér skaðabætur að fjárhæð 1.500.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 8. mars 1999 til 1. júlí 2001 en 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti verði látinn niður falla.
Með skírskotun til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður, en gjafsóknarkostnaður áfrýjanda greiðist svo sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Péturs Þormóðssonar, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 200.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 25. janúar 2002.
Mál þetta, sem dómtekið var 7. janúar síðastliðinn, er höfðað 12. mars 2001, af Pétri Þormóðssyni, Eiðistorgi 2, Seltjarnarnesi, gegn íslenska ríkinu.
Stefnandi gerir þær dómkröfur, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 1.500.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 8. mars 1999 til 1. júlí 2001, en vöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda, eins og mál þetta væri eigi gjafsóknarmál.
Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans, en til vara, að stefnukröfur verði lækkaðar stórkostlega og málskostnaður verði felldur niður.
I.
Að kvöldi 8. mars 1999 kom ms. Goðafoss til Reykjavíkur frá Kanada. Hafði tollgæslan fylgst með skipinu á siglingu þess frá Garðskaga áleiðis til Reykjavíkur. Er skipið var statt skammt utan innsiglingarinnar í Reykjavíkurhöfn sáu tollverðir hvar vökvaflaumur kom frá lunningu skipsins stjórnborðsmegin. Var ekki um kælivatn að ræða, þar sem það sást koma frá síðu skipsins. Er skipið var komið um tvær mílur inn fyrir svonefnda ,,sexbauju” um kl. 18.15 sást hvar varpað var fyrir borð trossu með stórri kippu af hvítum plastbrúsum, sem flutu á yfirborðinu og virtust tómir. Eftir um einnar mílu siglingu frá því þetta gerðist sást til þriggja manna kasta trossu með öðru eins af brúsum bakborðsmegin skipsins, en þeir sukku þegar í stað. Komu brúsarnir greinilega fram á dýptarmæli, er siglt var yfir staðinn. Skömmu síðar sást maður henda frá borði, stjórnborðsmegin, tveimur uppblásanlegum pokum. Í trossu, sem tollverðir náðu úr sjó, voru 29 plastbrúsar, um 20 lítrar hver brúsi. Hafði verið skorið gat á þá og lagði af þeim megna áfengislykt. Hin trossan fannst ekki þrátt fyrir mikla leit. Skipið kom til hafnar kl. 20 um kvöldið og var áhöfn þess, 11 manns, handtekin um 25 mínútum síðar og hófst þá leit í skipinu.
Enginn skipverja kannaðist við að hafa haft vitneskju um, að kastað hefði verið frá borði umbúðum utan af áfengi. Lýstu þeir sig allir saklausa af aðild að málinu. Í framhaldi af því var af hálfu lögreglu krafist gæsluvarðhalds yfir þeim og á það fallist í öllum tilvikum. Var stefnandi leiddur fyrir dómara kl. 20.20 um kvöldið og féllst héraðsdómur á gæsluvarðhaldskröfu yfir honum með úrskurði, uppkveðnum 10. mars kl. 00.25. Í forsendum úrskurðarins kemur fram, að rökstuddur grunur væri kominn fram um, að stefnandi kynni að tengjast brotum á tollalögum og áfengislögum og kynni hann að torvelda rannsókn málsins, sem skammt væri á veg komin, með því að koma undan sönnunargögnum eða hafa áhrif á vitni eða samseka, gengi hann laus. Stefnandi skaut úrskurðinum til Hæstaréttar, sem staðfesti hann með dómi 12. sama mánaðar. Sat stefnandi í gæsluvarðhaldi til 15. mars, en með úrskurði að kvöldi þess dags hafnaði héraðsdómur kröfu um framlengingu gæsluvarðhalds yfir honum. Úrskurðurinn var kærður til Hæstaréttar af hálfu lögreglustjórans í Reykjavík, en kæran afturkölluð.
Við leit í svefnherbergi á heimili stefnanda 9. mars fundust þrír minnismiðar. Á einn miðanna voru rituð þrjú nöfn, eitt þeirra þrisvar, og fyrir aftan þau tölurnar ,,9100, 34000, 75000, 41000 og 100.000.” Á annan miða voru rituð fjögur nöfn og fyrir aftan þau var ritað í þessari röð ,,12 fl, 13 fl, 60 Korton, 59 fl [og] 60 Korton.” Á þriðja miðann var ritað: ,,52 x 3500 = 182,000 10 x 3700 = 37,000, 10 x 3700 = 37,000, 3 x 3700 = 11,100, 4 x 3700 = 14,800, 2 x 3700 = 7,400, 1 x 300 = 3,000 [og] Winston = 27.000.” Einnig fannst þar í fataskáp grænn bakpoki með svartri áletrun ,,US” og í honum fjórir bakpokar sömu tegundar. Sama dag fundust við leit heima hjá öðrum skipverja tvö tölvuprentuð blöð með nöfnum manna, er ætla mætti að væru skipverjar á ms. Goðafossi. Við nöfnin er á öðru blaðinu getið um fjárhæðir í sambandi við tölur, sem auðkenndar eru með viðskeytinu ,,L”. Þá er og tíundaður fjöldi ,,kúta” og innihald þeirra, miðað við mælieininguna L. Á hitt blaðið eru skráðar upplýsingar um nöfn og fjárhæðir, auk þess sem taldir eru upp ýmsir kostnaðarliðir, þar á meðal lásar og kútar. Á báðum listunum er að finna nafnið Pétur.
Við leit í vélarrúmi skipsins 11. mars fannst hólf, sem innihélt tæpa 100 lítra af sterku áfengi og 62 lengjur af vindlingum. Var varningurinn falinn í sérútbúnu hólfi í vatnstanki við stýrisvél. Þá fundust þar fjórir grænir nælonpokar sömu tegundar og fundust í hólfinu í málningargeymslu skipsins. Enn fremur fannst tollskyldur varningur í skipinu við leit 12. mars, falinn í loftinntaki á skorsteini og 16. mars fannst tollskyldur varningur undir gólfplötu í vélarrúmi. Alls fundust í skipinu 659 lítrar af sterku áfengi, 23 lítrar af rauðvíni, 2.910 töflur af ætluðu Herbalife, sem samkvæmt merkingu á umbúðum innihélt ephedrine og 616 vindlingalengjur, auk óverulegs magns af bjór. Var varningurinn falinn á fjórum stöðum í skipinu. Með skipinu komu 186 gámar og í einum þeirra, sem var tómur og tekinn var síðastur frá borði, mátti finna greinilega áfengislykt.
Með ákæru 9. maí 2000 var stefnanda gefið að sök að hafa smyglað hingað til lands 6,14 lítrum af sterku áfengi, 1 lítra af rauðvíni og 600 vindlingum, en varningurinn fannst við leit í málningargeymslu skipsins og var í pappakassa, sem merktur var ,,Pétur.” Ákæran var þingfest 26. maí 2000. Stefnandi neitaði sök og var málið tekið til aðalmeðferðar 8. september sama ár. Meðferð málsins var þá frestað af hálfu ákæruvalds til 13. sama mánaðar, en þann dag afturkallaði fulltrúi ákæruvalds ákæruna, með því að varningur sá, er ákærði var sakaður um að hafa flutt til landsins, hafði farið forgörðum hjá tollgæsluyfirvöldum.
Stefnandi setti fram bótakröfu á hendur stefnda 29. október 2000, en með bréfi ríkislögmanns 21. desember 2000 var bótaskyldu hafnað með þeim rökum, að lagaskilyrði skorti til að verða við henni.
Í stefnu var, auk miskabóta, krafist bóta fyrir fjártjón, að fjárhæð 595.000 krónur, en fallið var frá þeirri kröfu við aðalmeðferð málsins.
II.
Stefnandi byggir á því, að honum hafi ekki verið gert ljóst tilefni handtöku hans og að ekki hafi verið kvaddur til réttargæslumaður fyrir hann, fyrr en við skýrslutöku hjá lögreglu kl. 5.50, eða 9 klukkustundum eftir handtöku. Í skýrslu lögreglu frá 9. mars 1999 hafi stefnanda verið tilkynnt, að hann væri undir grun um aðild að ólöglegum innflutningi á tollskyldum varningi, þar á meðal áfengi. Þá hafi verið framkvæmd húsleit á heimili stefnanda 9. mars, að fengnu samþykki hans, en án þess að þar væri gætt hagsmuna hans. Hafi stefnandi fyrst verið hafður í haldi á lögreglustöðinni á Hverfisgötu við alls ófullnægjandi aðstæður, þar sem unnið hafi verið við endurbætur á húsnæði með múrbroti, en síðan verið fluttur á Litla-Hraun.
Grunur um refsiverða háttsemi stefnanda hafi leitt til þess, að honum hafi verið vikið úr starfi hjá Eimskipafélagi Íslands hf., en félagið hafi nú hins vegar greitt bætur vegna ólögmætrar uppsagnar.
Stefnandi hafi á engan hátt stuðlað að þeim aðgerðum, er leiddu til þess, að hann var borinn sökum. Geri hann ýtrustu kröfur til miskabóta úr hendi ríkisins vegna ólögmætrar handtöku, húsleitar, gæsluvarðhalds að ósekju og setu í haldi án dómsúrskurðar í 6 klukkustundir og 15 mínútur, auk setu í gæsluvarðhaldi við ,,ófullnægjandi aðstæður og fleira.”
Reisir stefnandi kröfur sínar á meginreglum skaðabótaréttar svo og á ákvæðum XXI. kafla laga nr. 19/1991 um bætur handa sakborningi.
Af hálfu stefnda er mótmælt, að bótaskilyrði 175. og 176. gr. laga um meðferð opinberra mála séu uppfyllt í máli þessu. Stefnandi hafi við yfirheyrslur hjá lögreglu kosið að neita að svara spurningum eða neita sök. Við yfirheyrslu hjá lögreglu í september 1999 hafi komið fram hjá nafngreindum manni, að hann hafi heyrt áhafnarmeðlimi ræða að smygla tollskyldum varningi inn í landið og að fleiri en einn áhafnarmeðlimur hafi spurt hann að því, hvort hann vildi kaupa áfengi af skipshöndlara og vera með í að smygla því inn í landið. Maðurinn hafi hins vegar neitað að nafngreina skipverjana, en kannast við að hafa, eins og allir aðrir, tekið þátt í því að bera um borð áfengi, er pantað hafi verið. Hafi stefnanda mátt vera ljóst mikilvægi þess, að hann skýrði undanbragðalaust og greinilega frá og á þann hátt, að unnt væri að afla staðfestingar þess, að rétt væri frá greint. Hafi það átt við, þrátt fyrir þá meginreglu, að sakborningi sé óskylt að svara spurningu um refsiverða hegðun, sem honum er gefin að sök, sbr. 3. mgr. 32. gr. laga nr. 19/1991. Með því að neita allri vitneskju um málið í upphafi rannsóknar og neita að svara spurningum, hafi hann torveldað rannsókn málsins og fellt á sig grun um aðild að brotinu, eða a.m.k. hilmingu, sem leitt hafi til þeirra aðgerða, sem hann krefjist bóta út af.
Við rannsókn málsins hafi legið fyrir framburðir annarra sakborninga þess efnis, að stefnandi væri eigandi hluta þess varnings, sem falinn hafi verið í hólfi undir málningargeymslunni og haft vitneskju um þann felustað, sem og að hann hafi tekið þátt í að tappa af 20 lítra plastbrúsum, sem í var sterkt áfengi, hellt því niður, skorið brúsana í sundur og síðan hent þeim frá borði.
Handtaka stefnanda, húsleit og eftirfarandi gæsluvarðhald hafi verið lögmætar og réttmætar aðgerðir og ekki verið framkvæmdar á óþarflega hættulegan, særandi eða móðgandi hátt. Bresti því þegar af þeirri ástæðu skilyrði fyrir því, að stefnandi geti átt bótarétt samkvæmt 176. gr. laga um meðferð opinberra mála vegna aðgerðanna, teldi dómurinn hann uppfylla skilyrði 175. gr.
Meðal þess, sem fundist hafi í ms. Goðafossi, hafi verið pappakassi, merktur ,,Pétur”, en í honum hafi fundist 3 lengjur af vindlingum, 6,14 lítrar af sterku áfengi og 1 lítri af rauðvíni, en í áhöfn skipsins hafi ekki verið aðrir með þessu nafni. Eftir að í ljós kom við meðferð opinbers máls á hendur honum, að kassanum hafði fyrir mistök verið fargað í vörslu tollgæslunnar, hafi ákæra á hendur stefnanda verið afturkölluð, þar sem hún hafi takmarkast við innflutning á varningi, sem í kassanum var. Hafi eyðing sönnunargagna þannig legið til grundvallar afturköllun ákærunnar, en ekki þær forsendur um afturköllun ákæru samkvæmt 175. gr., að sönnunargögn hafi ekki komið fram við rannsókn eða meðferð máls.
Ekki hafi tekist í rannsókninni að leiða í ljós eignarhald og smygl á um það bil 235 lítrum af áfengi, en útilokað þyki, að aðrir en meðlimir úr áhöfninni hafi borið ábyrgð á því.
Varðandi varakröfu er miskabótakröfu mótmælt sem allt of hárri og ekki í samræmi við dómvenju í sambærilegum málum. Staðhæfingum stefnanda um ófullnægjandi aðstæður í gæsluvarðhaldinu er mótmælt sem röngum og ósönnuðum og því haldið fram, að aðstæður stefnanda í gæsluvarðhaldinu hafi í hvívetna verið lögum samkvæmar og vistunin ekki verið framkvæmd á óþægilegan, hættulegan, særandi eða móðgandi hátt, þannig að bótaskyldu geti varðað samkvæmt b-lið 176. gr. Þá er kröfum stefnanda um dráttarvexti frá fyrri tíma en þingfestingu máls þessa mótmælt, sbr. 15. gr. vaxtalaga nr. 25/1987.
III.
Samkvæmt 175. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála má dæma bætur, ef rannsókn hefur verið hætt eða ákæra ekki gefin út vegna þess að sú háttsemi, sem sakborningur var borinn, hafi talist ósaknæm eða sönnun hafi ekki fengist um hana eða sakborningur verið dæmdur sýkn með óáfrýjuðum eða óáfrýjanlegum dómi af sömu ástæðu. Þó má fella niður bætur eða lækka þær, ef sakborningur hefur valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum, sem hann reisir kröfu sína á. Samkvæmt 176. gr. laganna má dæma bætur vegna handtöku, leitar á manni eða í húsi, halds á munum, rannsókn á heilsu manns, gæsluvarðhalds og annarra aðgerða, sem hefur frelsisskerðingu í för með sér, aðra en fangelsi, ef lögmælt skilyrði hefur brostið til slíkra aðgerða eða ef ekki hefur verið, eins og á stóð, nægilegt tilefni til slíkra aðgerða eða þær verið framkvæmdar á óþarflega hættulegan, særandi eða móðgandi hátt enda, sé jafnframt uppfyllt skilyrði 175. gr.
Ákvæði 175. gr. laganna var breytt með 42. gr. laga nr. 36/1999, sem tóku gildi 1. maí sama ár. Enda þótt atvik máls hafi átt sér stað, áður en breytingin tók gildi, verður að skýra 175. gr. laga nr. 19/1991 til samræmis við hana og fær sú skoðun stoð í lögskýringargögnum.
Skýra verður 175. gr. og 176. gr. laga nr. 19/1991 svo, að í síðarnefndu greininni, svo og 177. gr. laganna, sem hér á ekki við, séu tæmandi taldar þær aðgerðir, er leitt geta til bótaskyldu stefnda á grundvelli hlutlægrar ábyrgðarreglu. Jafnframt þurfi þó að vera fullnægt öðrum skilyrðum, sem greinir í 176. gr. laganna, og þeim skilyrðum, sem tilgreind eru í 175. gr. þeirra. Hafa ákvæði 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar, með áorðnum breytingum, verið skýrð svo, að þau veiti ekki ríkari bótarétt en reglur XXI. kafla laga nr. 19/1991.
Í 176. gr. laga nr. 19/1991 er heimilað að dæma bætur meðal annars vegna handtöku, húsleitar og gæsluvarðhalds. Áskilið er, að brostið hafi lögmæt skilyrði til slíkra aðgerða eða ekki hafi, eins og á stóð, verið nægilegt tilefni til þeirra eða þær framkvæmdar á óþarflega særandi eða móðgandi hátt. Samkvæmt 175. gr. laganna má þó fella niður bætur eða lækka þær, hafi sakborningur valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum, sem hann reisir kröfu sína á.
Svo sem áður greinir var stefnandi handtekinn að kvöldi 8. mars 1999 í framhaldi af komu ms. Goðafoss til landsins, þar sem stefnandi var skipverji, en grunur hafði vaknað hjá tollgæslu um refsivert athæfi skipverja og að ólöglegur varningur kynni að leynast í skipinu, eftir að tveimur trossum með plastbrúsum hafði verið varpað frá borði skammt utan við innsiglinguna í Reykjavíkurhöfn. Reyndust vera 29 tómir og gataðir brúsar í annarri trossunni, en brúsar í hinni trossunni höfðu sokkið og þeirra leitað. Þar sem álitið var, að um verulegt magn áfengis væri að ræða, mátti ætla, að allir skipverjar væru við brotið riðnir eða að minnsta kosti um það kunnugt. Að framangreindu virtu er fallist á með stefnda, að stefnandi og aðrir skipverjar hafi verið undir rökstuddum grun um þátttöku í refsiverðum verknaði. Bar þar af leiðandi nauðsyn til handtökunnar, til þess að koma í veg fyrir að sakargögnum væri spillt. Voru því uppfyllt skilyrði 1. mgr. 97. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 7. gr. laga nr. 84/1996, til að handtaka stefnanda greint sinn.
Stefnandi hefur borið fyrir sig, að réttargæslumaður hafi ekki verið tilkvaddur í þágu stefnanda, fyrr en við yfirheyrslu níu klukkustundum eftir handtöku hans. Af því tilefni skal tekið fram, að í skýrslu lögreglu um handtöku stefnanda kemur fram, að nafngreindur lögmaður hafi verið tilkvaddur sem réttargæslumaður stefnanda þegar eftir handtöku hans. Þegar til yfirheyrslu kom, hafði annar lögmaður hins vegar tekið við hlutverki hans. Verður því ekki talið, að þessi málsástæða stefnanda sé á rökum reist.
Stefnandi viðurkenndi í skýrslutöku hjá lögreglu, sem hófst kl. 5.50 að morgni 9. mars 1999, að hafa verið einn af þeim sem köstuðu ,,plastkippu” frá borði ms. Goðafoss, skömmu áður en skipið kom til landsins greint sinn, en um hafi verið að ræða tóma, ónýta, tóma brúsa og hafi ekkert áfengi verið í þeim. Ætti stefnandi enga aðild að smygli. Aðspurður um hverjir fleiri hefðu tekið þátt í þessum verknaði, svaraði stefnandi: ,,Er ekki best að þeir segi frá því.”
Við leit, sem gerð var á heimili stefnanda 9. mars 1999, að fengnu samþykki hans, fundust í svefnherbergi þrír minnismiðar, sem gerð hefur verið grein fyrir hér að framan. Mátti ráða af þessum gögnum, að um væri að ræða tiltekið magn áfengis og vindlinga, sem skipst hefði milli nafngreindra manna. Þá mátti ráða af einum miðanna, að um tilteknar fjárhæðir væri að ræða, sem gátu tengst ólögmætum innflutningi á ofangreindum varningi. Sama dag fundust við leit heima hjá öðrum skipverja tvö tölvuprentuð blöð með nöfnum manna, er ætla mátti að væru skipverjar á ms. Goðafossi. Við nöfnin er á öðru blaðinu getið um fjárhæðir í sambandi við tölur, sem auðkenndar eru með viðskeytinu ,,L”. Þá er og tíundaður fjöldi ,,kúta” og innihald þeirra, miðað við mælieininguna L. Á hitt blaðið eru skráðar upplýsingar um nöfn og fjárhæðir, auk þess sem taldir eru upp ýmsir kostnaðarliðir, þar á meðal lásar og kútar. Á báðum listunum er að finna nafnið Pétur.
Með vísan til þess, sem rakið hefur verið, er það mat dómsins, að uppfyllt hafi verið skilyrði 89. gr. og a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 til að gera húsleit hjá stefnanda og úrskurða hann til að sæta gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar málsins. Þá verður engan veginn talið í ljós leitt af hálfu stefnanda, að húsleitin hafi verið framkvæmd á óþarflega harkalegan, særandi eða móðgandi hátt eða að gæsluvarð-haldsvistin hafi verið óþarflega harkaleg í upphafi.
Við leit í skipinu 8. mars 1999 fannst tollskyldur varningur falinn í hólfi, er var undir vinnuborði í málningargeymslu. Var hólfið útbúið þannig, að skorið hafði verið úr dekki skipsins neðan þilja og plata, með áfestu vinnuborði, verið felld í gatið og fest með fjórum skrúfboltum. Við leit í vélarrúmi skipsins 11. mars 1999 fannst hólf, sem innihélt tæplega 100 lítra af sterku áfengi og 62 lengjur af vindlingum. Var varningurinn falinn í sérútbúnu hólfi í vatnstanki við stýrisvél. Þá fundust þar fjórir grænir nælonpokar, sömu tegundar og fundist höfðu í hólfi í málningargeymslu skipsins. Fjórir samskonar pokar höfðu fundist við leit á heimili stefnanda 9. sama mánaðar. Næsta dag fannst tollskyldur varningur, falinn í loftinntaki á skorsteini, og 16. mars fannst tollskyldur varningur, falinn undir gólfplötu í vélarrúmi. Alls fundust við leit í skipinu 659 lítrar af sterku áfengi, 23 lítrar af rauðvíni, 616 vindlingalengjur og 2.910 töflur af ætluðu Herbalife, sem samkvæmt merkingu á umbúðum innihélt ephedrine. Með skipinu komu 186 gámar og í einum þeirra, sem var tómur og tekinn var síðastur frá borði, mátti finna greinilega áfengislykt.
Í framburði eins skipverja við skýrslutöku hjá lögreglu kom fram, að stefnandi hefði tekið þátt í að henda frá borði 20 lítra plastbrúsum. Þá greindi hann frá því, að stefnandi væri eigandi hluta þess varnings, er falinn var í hólfi undir málningar-geymslu og enn fremur hefði stefnandi látið áfengi og líklega tóbak í græna hermannabakpoka. Í málningargeymslunni fannst pappakassi merktur ,,Pétur”, sem innihélt 6,14 lítra af sterku áfengi, 1 lítra af rauðvíni og þrjár lengjur af vindlingum. Í framburði annars skipverja kom fram, að stefnandi hafi haft vitneskju um hólfið undir málningargeymslunni, tekið þátt í að tappa áfengi af 20 lítra plastbrúsunum, skorið brúsana í sundur og kastað þeim frá borði. Þá greindi þriðji skipverjinn frá því, að stefnandi hafi vitað um hólfið undir málningargeymslunni.
Stefnandi neitaði frá upphafi rannsóknar að eiga nokkra aðild að ætluðu smygli. Áður er getið um yfirheyrslu lögreglu yfir stefnanda 9. mars 1999. Við yfirheyrslu 11. mars neitaði stefnandi að tjá sig og í yfirheyrslu 13. mars neitaði hann að svara langflestum þeirra spurninga, sem beint var til hans.
Ákæra var gefin út á hendur stefnanda 9. maí 2000, en honum þar einungis gefið að sök að hafa smyglað til landsins innihaldi pappakassa þess, er áður er getið og fannst við leit í málningargeymslu ms. Goðafoss, merktur ,,Pétur.” Um var að ræða 6,14 lítra af sterku áfengi, 1 lítra af rauðvíni og 600 vindlinga. Ákæran var hins vegar afturkölluð af hálfu ákæruvalds í þinghaldi 13. september sama ár, þar sem í ljós kom, að varningur sá, er ákærði var sakaður um að hafa flutt til landsins og verjandi stefnanda hafði krafist, að lagður yrði fram í dómi, hafði farið forgörðum hjá tollgæslu. Verður þannig fallist á með stefnda, að eyðing sönnunargagna hafi legið til grundvallar afturköllun ákærunnar, en ekki þær forsendur um afturköllun ákæru samkvæmt 175. gr. laga nr. 19/1991, að sönnunargögn hafi ekki komið fram við rannsókn eða meðferð máls.
Samkvæmt framansögðu verður að telja, að uppfyllt hafi verið lagaskilyrði til að kveða á um gæsluvarðhald yfir stefnanda og dómsúrlausnir í þá átt þar af leiðandi reistar á lögmætum grunni og í samræmi við ákvæði laga um meðferð opinberra mála, stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Þá er það mat dómsins, að stefnandi hafi ekki setið lengur í gæsluvarðhaldi en rannsóknarnauðsynjar gáfu tilefni til. Er þá haft í huga, að framangreind sönnunargögn gátu með réttu bent til aðildar hans að málinu, þó að ekki lægi fyrir, hve stór þáttur hans væri. Þá verður að líta til þess, að margir menn tengdust ætluðu broti, sem gerði það að verkum, að rannsóknin varð töluvert umfangsmikil. Enn fremur þykir ekki unnt að horfa fram hjá því, að stefnandi neitaði að vita neitt um málið, þrátt fyrir að hafa játað að hafa, í félagi við aðra skipverja, varpað umræddum plastbrúsum útbyrðis, sem megna áfengislykt lagði af, er þeir fundust. Með því framferði, sem og því að neita að upplýsa hverjir hefðu verið að verki með honum, felldi hann sjálfur á sig grun um aðild að brotinu. Þykir stefnandi þannig hafa stuðlað að gæsluvarðhaldi yfir sér í skilningi niðurlagsákvæðis 1. mgr. 175. gr. laga nr. 19/1991.
Stefnandi heldur því fram, að honum hafi verið haldið í gæsluvarðhaldi í 6 klukkustundir og 15 mínútur 15. mars 1999, eða þann tíma sem leið frá því hann var leiddur fyrir dómara kl. 15 þann dag vegna kröfu lögreglustjóra um áframhaldandi gæsluvarðhald yfir honum, þar til honum var sleppt að uppkveðnum úrskurði kl. 22.15 að kvöldi sama dags. Samkvæmt 1. mgr. 105. gr. laga nr. 91/1991 skal dómari að jafnaði leggja úrskurð á gæsluvarðhaldskröfu í sama þinghaldi, en heimilt er þó að fresta uppkvaðningu úrskurðar í allt að sólarhring frá því sakborningur kom fyrir dóm. Endurrit úr þingbók dómsins ber með sér, að úrskurði hafi verið lokið á kröfu lögreglustjóra í sama þinghaldi og krafan var tekin fyrir. Samkvæmt því og með vísan til fyrrgreinds lagaákvæðis eru engin efni til að fallast á með stefnanda, að hann hafi verið í haldi án heimildar þann tíma, sem að ofan greinir.
Það er því niðurstaða dómsins, að lög standi ekki til þess, að stefnanda verði dæmdar bætur úr hendi stefnda vegna umræddra rannsóknaraðgerða. Ber því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í máli þessu, en eftir atvikum þykir rétt, að málskostnaður falli niður.
Stefnandi fékk gjafsókn með bréfi dómsmálaráðuneytisins, dagsettu 7. janúar síðastliðinn. Ber að ákveða, að allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, sem þykir hæfilega ákveðin 250.000 krónur.
Dóminn kvað upp Helgi I. Jónsson héraðsdómari.
Dómsorð:
Stefndi, íslenska ríkið, er sýkn af kröfum stefnanda, Péturs Þormóðssonar, í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 250.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.