Hæstiréttur íslands

Mál nr. 260/2014


Lykilorð

  • Birting
  • Áfrýjunarheimild
  • Frávísun frá Hæstarétti


Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn 4. júní 2015.

Nr. 260/2014.

Ákæruvaldið

(Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari)

gegn

X

(Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.)

(Björgvin Jónsson hrl. f.h. brotaþola)

Birting. Áfrýjunarheimild. Frávísun frá Hæstarétti.

X var sakfelldur í héraði fyrir líkamsárás og brot gegn valdstjórninni og var dómur í málinu birtur honum 19. febrúar 2014. Var strikað undir orðin ,,Ég uni dómi“ í texta sem X undirritaði ásamt birtingarmanni og færður var með stimpli á endurrit dómsins. Tæpum mánuði síðar lýsti verjandi X því yfir við ríkissaksóknara að hann hefði ákveðið að áfrýja dóminum. Ríkissaksóknari svaraði bréfinu stuttu síðar og vísaði til þess að X hefði við birtingu dómsins lýst því yfir að hann yndi honum og að hann hefði því með bindandi hætti fallið frá rétti sínum til áfrýjunar. Verjandi X ítrekaði kröfu sína um áfrýjun málsins og gaf ríkissaksóknari í kjölfarið út áfrýjunarstefnu en krafðist þess að málinu yrði vísað frá Hæstarétti. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að samkvæmt áðurgreindum texta hefði X lýst því yfir við birtingarmann að hann yndi niðurstöðu dómsins. Samkvæmt 3. mgr. 87. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sem talin var eiga við með lögjöfnun, teldist efni þessa birtingarvottorðs rétt þar til hið gagnstæða sannaðist. Var ekki talið að X hefði hnekkt því sem fram kæmi í vottorðinu og því lagt til grundvallar að hann hefði gefið umrædda yfirlýsingu og með því afsalað sér rétti til málskots svo bindandi væri. Áfrýjun héraðsdóms af hans hendi, sem síðar var lýst yfir, var þessu ósamrýmanleg og var málinu því vísað frá Hæstarétti.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari og Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 8. apríl 2014 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess aðallega krafist að málinu verði vísað frá Hæstarétti en til vara að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst aðallega sýknu en til vara að refsing hans verði milduð. Þá krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfu verði vísað frá dómi en til vara að tildæmdar bætur verði lækkaðar.

A krefst þess að ákvæði héraðsdóms um einkaréttarkröfu sína verði staðfest. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti. 

Hinn áfrýjaði dómur var birtur ákærða 19. febrúar 2014 og eftirfarandi texti, sem hann undirritaði ásamt birtingarmanni, færður með stimpli á endurrit dómsins:  ,,Framanskráður dómur er birtur mér í dag. Ég hef tekið við leiðbeiningum um rétt til áfrýjunar og áfrýjunarfrest. Ég uni dómi/tek áfrýjunarfrest.“ Strikað var undir fyrri orðin þrjú í lokamálslið þessa texta. Með bréfi til ríkissaksóknara 14. mars 2014 tilkynnti verjandi ákærða um að hann hefði ákveðið að áfrýja dóminum. Því svaraði ríkissaksóknari með bréfi 18. sama mánaðar, þar sem vísað var til þess að ákærði hafi við birtingu dómsins lýst því yfir að hann yndi honum. Ákærði hefði því með bindandi hætti fallið frá rétti sínum til áfrýjunar. Verjandi ákærða ítrekaði kröfu sína um útgáfu áfrýjunarstefnu í bréfi til ríkissaksóknara 4. apríl 2014, þar sem greint var frá því að ákærði hafi frá dómsuppkvaðningu verið ákveðinn í að áfrýja dóminum. Í bréfinu sagði síðan: ,,Hafi dómfelldi strikað undir ranga línu við birtingu dómsins þá eru það mistök. Annað hvort hans eða birtingarmanna.“ Í framhaldi af þessu gaf ríkissaksóknari út áfrýjunarstefnu, en af hálfu ákæruvaldsins, sem unir dómi, er þess krafist að málinu verði vísað frá Hæstarétti sökum þess að ákærði hafi áður lýst því yfir með bindandi hætti að hann yndi hinum áfrýjaða dómi.

Samkvæmt framangreindum texta, sem færður var með stimpli á endurrit hins áfrýjaða dóms, lýsti ákærði því yfir við birtingarmann að hann yndi niðurstöðu dómsins. Svo sem áður er rakið hefur ákærði haldið því fram að fyrir mistök hafi verið strikað undir ranga línu í birtingarvottorði. Samkvæmt 3. mgr. 87. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sem á hér við með lögjöfnun, telst efni þessa birtingarvottorðs rétt þar til hið gagnstæða sannast. Ákærði hefur engar sönnur fært fram til að hnekkja því sem fram kemur í vottorðinu. Verður af þessum sökum að leggja til grundvallar að hann hafi gefið þá yfirlýsingu, sem þar er greint frá, og með því afsalað sér rétti til málskots svo að bindandi sé. Áfrýjun héraðsdóms af hans hálfu, sem síðar var lýst yfir, var þessu ósamrýmanleg. Málinu verður því vísað frá Hæstarétti.

Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði. Einnig verður ákærði dæmdur til að greiða bótakrefjanda málskostnað fyrir Hæstarétti, svo sem í dómsorði segir.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

Ákærði, X, greiði áfrýjunarkostnað málsins, 338.386 krónur þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns 310.000 krónur. Ákærði greiði A 150.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.