Hæstiréttur íslands

Mál nr. 417/2006


Lykilorð

  • Ávana- og fíkniefni
  • Upptaka


Fimmtudaginn 18

 

Fimmtudaginn 18. janúar 2007.

Nr. 417/2006.

Ákæruvaldið

(Ragnheiður Harðardóttir vararíkissaksóknari)

gegn

Arvydas Maciulskis og

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.

 Stefán Ólafsson hdl.)

Saulius Prusinskas

(Björgvin Jónsson hrl.

 Ágúst Sindri Karlsson hdl.)

 

Ávana- og fíkniefni. Upptaka.

A og S voru sakfelldir fyrir að hafa átt þátt í að flytja til landsins verulegt magn vökva, sem innihélt amfetamínbasa, ætluðum til framleiðslu og söludreifingar hættulegra fíkniefna. Samkvæmt fyrirliggjandi matsgerð hefði verið hægt að framleiða 13,3 kg af amfetamíni með 10% styrkleika úr efnunum. Í niðurstöðu Hæstaréttar sagði að af gögnum málsins mætti ráða að innflutningurinn hefði verið vandlega skipulagður. Segja mætti að S hefði veitt nokkurn atbeina til þess að málið upplýstist en A hafi hins vegar reynt að afvegaleiða rannsóknina sem mest hann mátti, auk þess sem hlutur hans í málinu var meiri. Að þessu gættu og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms var refsing A ákveðin fangelsi fjögur ár en refsing S þrjú ár. 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Hrafn Bragason og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 28. júlí 2006 í samræmi við yfirlýsingar ákærðu um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þyngingar á refsingu.

Ákærði Arvydas Maciulskis krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins. Til vara krefst hann þess að refsing verði lækkuð og að gæsluvarðhald er hann hefur sætt frá 12. febrúar 2006 komi með fullri dagatölu til frádráttar dæmdri refsingu.

Ákærði Saulius Prusinskas krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins. Til vara krefst hann þess að refsing verði lækkuð og að gæsluvarðhald er hann hefur sætt frá 5. febrúar 2006 komi með fullri dagatölu til frádráttar dæmdri refsingu.

Með vísun til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærðu og heimfærslu brota þeirra til refsiákvæða. Ákærðu eru með þessu sakfelldir fyrir að hafa átt þátt í að flytja til landsins verulegt magn af vökva, sem innihélt amfetamínbasa, ætluðum til framleiðslu og söludreifingar hættulegra fíkniefna. Samkvæmt matsgerð Rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði var um að ræða 1.745 ml vökva er innihélt amfetamínbasa sem úr hefði mátt framleiða 1.813 g af amfetamínsúlfati væri hámarksárangri náð. Væri það drýgt niður í 10% styrkleika, sem sé algengur styrkleiki til neyslu, hefði mátt fá úr því 13,3 kg af amfetamíni. Þótt af matsgerð og öðrum gögnum megi ráða að nokkur rýrnun geti orðið við framleiðsluna er við ákvörðun refsingar til þess að líta hversu mikið magn mátti fá úr innfluttum efnum. Ákærði Saulius Prusinskas tók að sér innflutning efnanna sem ljóslega var vandlega skipulagður. Hann hafði skömmu áður farið svipaða för til landsins og afhent ákærða Arvydas Maciulskis tvær flöskur. Verður ekki annað af málsgögnum ráðið en ákærðu hafi tekið þátt í vandlega skipulögðum innflutningi og framleiðslu fíkniefna til dreifingar hér á landi. Segja má að ákærði Saulius Prusinkas hafi veitt nokkurn atbeina til þess að málið upplýstist eftir að fyrir hann voru lögð óyggjandi gögn um fyrri för hans til landsins. Má taka tillit til þess og dæma honum vægari refsingu en ákærða Arvydas Maciulskis, sem samkvæmt gögnum málsins hefur ekki fengist til að upplýsa málið að neinu leyti heldur reynt að afvegaleiða rannsóknina sem mest hann mátti, auk þess sem hlutur hans í málinu er meiri. Að þessu gættu og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms er refsing ákærða Arvydas ákveðin fangelsi fjögur ár en refsing ákærða Saulius þrjú ár. Til frádráttar refsingum þeirra kemur gæsluvarðhald sem sá fyrrnefndi hefur sætt frá 12. febrúar 2006 en sá síðarnefndi frá 5. sama mánaðar.

Ákvæði héraðsdóms um upptöku efna og sakarkostnað verða staðfest.

Ákærðu verða sameiginlega dæmdir til greiðslu áfrýjunarkostnaðar málsins samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara auk málsvarnarlauna samkvæmt ákvörðun  Hæstaréttar, svo sem nánar greinir í dómsorði.

                                      Dómsorð:

Ákærði Arvydas Maciulskis sæti fangelsi í fjögur ár. Frá refsingunni skal draga gæsluvarðhald sem hann hefur sætt frá 12. febrúar 2006.

Ákærði Saulius Prusinskas sæti fangelsi í þrjú ár. Frá refsingunni skal draga gæsluvarðhald sem hann hefur sætt frá 5. febrúar 2006.

Ákvæði héraðsdóms um upptöku efna og sakarkostnað skulu vera óröskuð.

Ákærði Arvydas greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 311.250 krónur.

Ákærði Saulius greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Björgvins Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 311.250 krónur.

Annan áfrýjunarkostnað málsins, 91.269 krónur, greiði ákærðu óskipt.

                  

                                                  Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. júlí 2006.

Mál þetta, sem dómtekið var 12. júlí sl., er höfðað með ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 29. júní 2006 á hendur Arvydas Maciulskis, kennitala 030462-2899, Nýbýlavegi Lundi 3, Kópavogi, og Saulius Prusinskas, litháískum ríkisborgara, fæddum 20. ágúst 1968, með lögheimili í Litháen, fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot á árinu 2006, með því að hafa í félagi með óþekktum vitorðsmanni í Litháen, í ágóðaskyni staðið að innflutningi til Íslands á 1.745 ml (1.619 g) af vökva sem innihélt amfetamínbasa sem unnt er að framleiða 1.813 g af amfetamínsúlfati úr til söludreifingar hér á landi.  Samkvæmt ráðagerðum ákærða Arvydas og hins óþekkta vitorðsmanns fékk hinn óþekkti vitorðsmaður ákærða Saulius til að flytja fíkniefnið til Íslands og var í samskiptum við ákærða Arvydas um móttöku þess á Íslandi.  Að beiðni hins óþekkta vitorðsmanns flutti ákærði Saulius fíkniefnin til landsins frá Litháen um Kaupmannahöfn sem farþegi með flugi FI-205 laugardaginn 4. febrúar í því skyni að afhenda það ákærða Arvydas samkvæmt nánari leiðbeiningum þar um sem hann átti að fá símleiðis frá ákærða Arvydas eftir komu til landsins, en tollverðir fundu efnið við leit í farangri ákærða Saulius við komu hans til Keflavíkurflugvallar.

Þetta er talið varða við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 64/1974, sbr. 1. gr. laga nr. 32/2001.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar. Þá er þess krafist að framangreint efni, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins, verði gert upptækt samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar um sölu og meðferð ávana- og fíkniefna nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002. Með vísan til sömu lagaákvæða er einnig krafist upptöku á 2 töflum af fíkniefninu MDMA sem fundust við húsleit á heimili ákærða Arvydas og með vísan til 7. mgr. 5. gr. sömu laga og 2. mgr. 14. gr. sömu reglugerðar er krafist upptöku á 1.505 ml af  etanólvökva sem einnig fannst við húsleitina.

Verjendur ákærðu Arvydas Maciulskis og Saulius Prusinskas krefjast þess að ákærðu verði sýknaðir af kröfum ákæruvalds og að sakarkostnaður verði felldur á ríkissjóð. Þá krefjast þeir málsvarnarlauna.

Laugardaginn 4. febrúar 2006 stöðvuðu tollverðir á Keflavíkurflugvelli för ákærða Saulius Prusinskas, en ákærði kom til landsins með flugi frá Kaupmannahöfn. Farangur ákærða var athugaður, auk þess sem rætt var við hann um tilgang með komu til landsins. Kvaðst ákærði vera kominn til landsins sem ferðamaður og áformaði að dvelja til 11. febrúar 2006. Ferðina myndi hann hugsanlega stytta. Þá gerði hann tollvörðum grein fyrir því að hann hefði húsaskjól hjá manni að nafni Robertas Vaigauskas, sem búsettur væri í Reykjavík. Ætlaði ákærði að fara með rútu til Reykjavíkur, en þar myndi Robertas hringja í ákærða til að mæla sér mót við hann. Ekki kvaðst ákærði þekkja símanúmer nefnds Robertas eða vita hvar hann ætti heima. Í lögregluskýrslu er fært að ákærði hafi verð með lítinn farangur meðferðis, einungis íþróttagalla, snyrtitösku og handklæði. Þá hafi hann verið með tvær vínflöskur meðferðis, sem hafi litið út fyrir að vera óopnaðar. Hafi önnur flaskan verið Eaglehawk Chardonnay, 750 ml en hin Colombard Chardonnay, 1 l. Við nánari skoðun hafi komið í ljós að átt hafði verið við korktappa á báðum flöskunum og þeir límdir aftur með vaxi. Hafi ákærði hvorki getað gert sig skiljanlegan um hvar hann hafi fengið flöskurnar í hendur né hvert innihald þeirra væri. Ákærði hafi verið með tvo farsíma meðferðis. Hafi hann tjáð tollvörðum að Robertas hafi ætlað að hringja í annan þeirra. Ákærði hafi kveikt á öðrum símanum og slegið inn í hann PIN númer. Ekkert athugavert hafi fundist við skoðun á símanum. Hinn símann hafi ákærði ekki getað opnað þar sem hann kvaðst ekki muna PIN númerið. Í þann síma hafi þó nefndur Robertas ætlað að hringja. Vegna gruns um að áfengisflöskurnar kynnu að innihalda ólögleg efni hafi verið ákveðið að færa þær, ásamt ákærða, í hendur rannsóknarlögreglu. Í skýrslu lögreglu kemur fram að ákærði hafi tjáð lögreglu að hann hafi keypt flöskurnar á markaði. Drykki hann sjálfur þó ekki hvítvín, heldur einungis vodka. Hafi hann ekki getað gefið skýringar á kaupum sínum á flöskunum.

Umræddar vínflöskur voru teknar til rannsóknar hjá tæknideild lögreglunnar í Reykjavík. Í skýrslu lögreglu frá 5. febrúar 2006 kemur fram að greinilega hafi verið átt við innsigli á flöskunum, en samskonar korktappi hafi verið á báðum flöskunum og hafi það vakið grunsemdir, þar sem þær hafi komið frá sitt hvoru landinu. Ekki hafi verið unnt að opna tappa á flöskunum með hefðbundnum hætti, heldur hafi þurft að bora í gegnum tappana með borvél til að komast að innihaldinu. Er sýni úr annarri flöskunni hafi verið rannsakað hafi komið í ljós að eðlisþyngd þess hafi einungis verið 0,91, sem sé léttara en vatn. Sú niðurstaða hafi gefið vísbendingu um að um væri að ræða lífrænan vökva. Bráðabirgðagreining hafi gefið mjög sterka svörun við amfetamín.

Rannsóknarstofa í lyfja- og eiturefnafræðum hefur 14. febrúar 2006 ritað matsgerð vegna beiðni um rannsókn á efnisinnihaldi úr flöskunum. Í matsgerðinni kemur fram að sýni úr annarri flöskunni hafi verið 995 ml af tærum, næstum litlausum vökva í flösku merktri Colombard Chardonnay. Heildarþyngd vökvans hafi verið 917 g. Með blettagreiningu á þynnu, gasgreiningu, massagreiningu, vökvagreiningu og ýmsum efnaprófum hafi fundist að sýnið innihélt amfetamín. Efnapróf hafi bent til að amfetamínið hafi að mestu verið í formi amfetamínbasa. Magn amfetamínbasa í sýninu hafi verið 77% af þunga sýnisins. Úr hinni flöskunni hafi komið 750 ml af glærum vökva í flösku merktri Eaglehawk Chardonnay. Heildarþyngd vökvans hafi verið 702 g. Með blettagreiningu á þynnu, gasgreiningu, massagreiningu, vökvagreiningu og ýmsum efnaprófum hafi fundist að sýnið hafi innihaldið amfetamín. Efnapróf hafi bent til að amfetamínið hafi að mestu verið í formi amfetamínbasa. Magn amfetamínbasa í sýninu hafi verið 89% af þunga sýnisins. Í bréfi frá 23. febrúar 2006 lætur A dósent uppi það álit sitt að sýni, sem hafi verið 917 g og hafi innihaldið 77% af amfetamíni, hafi samsvarað 7061 g af amfetamíni, sem væri 10% að styrkleika. Þá hafi sýni, sem hafi verið 702 g og hafi innihaldið 89% amfetamín, samsvarað 6248 g af amfetamíndufti, 10% að styrkleika. Samtals hafi innihaldið í báðum flöskunum samsvarað 13,3 kg af amfetamíni, 10% að styrkleika.

Í matsgerð rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræðum frá 20. mars 2006 kemur fram að reiknað sé með að amfetamínbasa verði breytt í amfetamínsúlfat, en amfetamínduft, sem greint hafi verið, hafi nær eingöngu verið í því formi. Hreint amfetamínsúlfat (100%) sé hvítt duft, sem innihaldi 73,4% amfetamínbasa. Sýni, 917 g að þyngd með 77% amfetamínbasa, samsvari 962 g af hreinu amfetamínsúlfati. Sýni, 702 g að þyngd með 89% amfetamínbasa, samsvari 851 g af hreinu amfetamínsúlfati. Samtals samsvari innihaldið í báðum flöskunum 1813 g af hreinu amfetamínsúlfati, sem sé hvítt duft. Við breytingu á amfetamínbasa í vökvaformi í amfetamínsúlfat sé óhjákvæmilegt að eitthvað lítilsháttar tapist af efninu. Fari það eftir uppskrift sem notuð sé og þekkingu og þjálfun þess sem framkvæmi verkið.

Ákærði Arvydas Maciulskis var handtekinn af lögreglu 13. febrúar 2006. Í framhaldi var gerð húsleit á heimili hans að Lundi III í Kópavogi. Samkvæmt skýrslu lögreglu um haldlagningu var m.a. lagt hald á fé á heimili ákærða, tvær töflur er síðar voru sendar til efnagreiningar og vínflöskur. Samkvæmt efnaskýrslu lögreglu reyndust töflurnar vera MDMA töflur. Þá lagði lögregla hald á pappíra í náttborðsskúffu í hjónaherbergi. Voru þeir merktir nr. 3. Efni blaðs 3A, sem á meðal rannsóknarganga málsins er nr. 6.1.2, hefur verið þýtt yfir á íslensku af Alþjóðahúsi ehf. og er það skjal á meðal rannsóknargagna málsins nr. 5.6.30. Samkvæmt matsgerð Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræðum frá 2. maí 2006 eru alkóhól og spritt nöfn sem almennt tákna vínanda. Oft sé spritt þó látið tákna mengaðan vínanda, þ.e. vínanda sem blandaður hafi verið efnum, sem geri hann ódrykkjarhæfan. Alkóhól sé þá fremur látið tákna hreinan vínanda. Við framleiðslu á amfetamínsúlfati út frá amfetamínbasa og brennisteinssýru samkvæmt meðfylgjandi forskrift megi þó með jafn góðum hætti eða betri árangri nota alkóhól, þ.e. hreinan vínanda í stað spritts.

Með bréfi 7. febrúar 2006 fór lögregla þess á leit við Flugleiðir ehf. að félagið léti lögreglu í té upplýsingar um kaup á farmiða ákærða Saulius til Íslands 19. desember 2005, frá Íslandi 22. desember 2005 og komu til Íslands 4. febrúar 2006. Í bréfi 11. apríl 2006 frá Fjárvakri fjármálaþjónustu kemur fram að 20. desember 2005 hafi Arvydas Maciulskis keypt farmiða á söluskrifstofu Icelandair á Reykjavíkurflugvelli fyrir farþegann Saulius Prusinskas fyrir flug FI 306 þann 22. desember 2005 frá Reykjavík til Stokkhólms og áfram með Air Baltic 22. desember 2005 til Riga. Greitt hafi verið fyrir miðann með greiðslukorti. Kaupandi hafi gefið upp símanúmerið 6626482. Þá hafi Arvydas Maciulskis keypt farmiða á heimasíðu Icelandair fyrir farþegann B fyrir flug FI 204 þann 21. janúar 2006 frá Reykjavík til Kaupmannahafnar. Greitt hafi verið fyrir farseðilinn með greiðslukorti. Kaupandi hafi gefið upp símanúmerið 8458755.

Lögregla aflaði heimilda til þess að fjarskiptafyrirtæki létu lögreglu í té upplýsingar um tengingar við fjölmörg símanúmer er lögregla hafði til skoðunar og tengdust rannsókn málsins. Þar á meðal voru símanúmer ákærða Saulius, sem og símanúmerið 8660470 er ákærði Arvydas hafði viðurkennt að hafa notað. Einnig aflaði lögregla upplýsinga um símanúmerið 8458755. Gögn þessi eru umfangsmikil á meðal rannsóknargagna málsins. Er ekki ástæða til að rekja þau sérstaklega. Í gögnum þessum kemur m.a. fram að úr símanúmeri 8458755 hafi 13 sinnum verið reynt að ná sambandi við símanúmerið 0037 67539716 er ákærði Saulius hefur viðurkennt að vera eigandi að og hafa haft með sér við komu til landsins 4. febrúar 2006. Þá kemur fram að símanúmerið 8458755 hafi fyrst farið í notkun 19. janúar 2006 og hafi það ekki verið notað eftir 6. febrúar 2006, eftir að ákærði Saulius hafi verið úrskurðaður í gæsluvarðhald. Þá hefur lögregla sett á tímalínu tengingar símanúmeranna 8458755 og 8660470 við senda á tilteknu tímabili. Þar koma fram staðsetningar símanna miðað við daga og tíma.                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                 

Ákærði Arvydas Maciulskis var með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 14. febrúar 2006 úrskurðaður í gæsluvarðhald til 17. febrúar 2006. Úrskurðurinn var staðfestur með dómi Hæstaréttar Íslands 16. febrúar 2006. Gæsluvarðhald var framlengt til 24. febrúar 2006 með úrskurði dómsins 17. febrúar. Úrskurðurinn var staðfestur með dómi Hæstaréttar Íslands 21. febrúar 2006. Gæsluvarðhaldið var framlengt til 2. mars 2006 með úrskurði dómsins 24. febrúar 2006. Við það tilefni staðfesti ákærði lögregluskýrslur sínar frá 13., 15., 21. og 23. febrúar 2006. Úrskurðurinn var staðfestur með dómi Hæstaréttar Íslands 28. febrúar 2006. Enn var gæsluvarðhald framlengt með úrskurði héraðsdóms 2. mars 2006 og þá til 17. mars 2006. Úrskurðurinn var staðfestur með dómi Hæstaréttar Íslands 6. mars 2006. Þá var gæsluvarðhald framlengt 17. mars 2006 til 28. apríl 2006. Úrskurðurinn var staðfestur með dómi Hæstaréttar Íslands 21. mars 2006. Gæsluvarðhald var framlengt 28. apríl 2006 til 9. júní 2006. Gæsluvarðhald var framlengt 28. apríl 2006 til 9. júní 2006. Þá var gæsluvarðhald framlengt 9. júní 2006 ekki lengur en til 21. júlí 2006. Að síðustu var gæsluvarðhald framlengt til dómur gengi í máli hans, þó ekki lengur en til 11. ágúst 2006.

Ákærði Saulius Prusinskas var með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 5. febrúar 2006 úrskurðaður í gæsluvarðhald til 17. febrúar 2006. Gæsluvarðhald var framlengt til 24. febrúar 2006 með úrskurði dómsins 17. febrúar. Gæsluvarðhaldið var framlengt til 7. apríl 2006 með úrskurði dómsins 24. febrúar 2006. Við það tilefni staðfesti ákærði lögregluskýrslur sínar frá 7., 10., 16. og 21. febrúar 2006. Enn var gæsluvarðhald framlengt með úrskurði héraðsdóms 7. apríl 2006 og þá til 19. maí 2006. Þá var gæsluvarðhald framlengt 19. maí 2006 til 30. júní 2006. Að síðustu var gæsluvarðhald framlengt 30. júní 2006 og þá þar til dómur gengi í máli hans, þó ekki lengur en til 11. ágúst 2006.

Ákærði Saulius Prusinskas var fyrst yfirheyrður af lögreglu 5. febrúar 2006. Við það tilefni greindi hann frá því að hann hafi keypt tvær flöskur, eina af vodka og aðra af víni með 11% að styrkleika, á markaði í Siauliai, um 22 km frá lögheimili ákærða í Litháen. Vinur ákærða, sem byggi í Reykjavík, hafi boðið ákærða í heimsókn til sín. Hafi ákærði komið til landsins frá Litháen, með millilendingu í Danmörku. Vinur ákærða héti Robertas Vaigutis og hafi hann búið í Reykjavík í um mánuð, en hann væri frá Litháen. Ekki myndi ákærði hvar Robertas ætti heima. Ekki kvaðst ákærði vita hvað Robertas væri að gera hér á landi, en hann gerði ráð fyrir að hann væri að vinna. Ákærði kvaðst hafa talið að innihald í þeim flöskum er hann hafi komið með til landsins hafi verið vodki og vín.

Ákærði var aftur yfirheyrður um sakarefnið 7. febrúar 2006. Þá kvaðst hann hafa áformað að dvelja á Íslandi í um viku. Hafi hann ætlað að dvelja hjá vini sínum og skoða landið. Kvaðst hann sem fyrr ekki vita hvar Robertas ætti heima, en ákærði væri að koma til landsins í fyrsta skipti. Robertas hafi ákærði hitt fyrst fyrir um tveimur mánuðum í Litháen. Robertas hafi hringt í ákærða fyrir um tveim vikum og boðið ákærða í heimsókn. Ekki kvaðst ákærði muna í hvaða síma Robertas hafi hringt, en ákærði hafi skipt um síma síðan þá. Er ákærða var gerð grein fyrir því að samkvæmt gögnum lögreglu hafi ákærði komið til landsins í desember 2005 viðurkenndi hann að hafa komið til landsins 19. desember 2005 og hafa yfirgefið það 23. desember. Hafi ákærði á leið sinni til Litháen millilent í Stokkhólmi. Í þeirri ferð hafi ákærði gist á Hótel Cabin, þar sem hann hafi útvegað sér gistingu. Kvaðst ákærði í þeirri ferð hafa hitt einn mann sem hann hafi þekkt. Kvaðst ákærði ekki vilja gera grein fyrir því hvern hann hafi þá hitt. Ákærði hafi keypt ferðina í Litháen og greitt fyrir hana með peningum. Ákærði kvaðst hafa unnið á Englandi við byggingarvinnu frá 1999 til 2004. Um hafi verið að ræða ,,svarta vinnu” og vildi ákærði því ekki gefa upp nafn viðkomandi fyrirtækis. Ákærði var inntur eftir því hvort hann kannaðist við meðákærða Arvydas Maciulskis. Kvaðst ákærði ekki kannast við hann. Þá kvaðst ákærði ekki kannast við aðsetrið Lund III í Kópavogi. Kvaðst ákærði ekki geta skýrt að við kaup á farmiða fyrir ákærða í ferð 19. desember 2005 hafi aðsetur á Íslandi verið skráð að Lundi III og meðákærði verið skráður tengiliður.

Er hér var komið í skýrslutökunni kvaðst ákærði vilja breyta framburði sínum. Kvaðst hann vilja gera grein fyrir því að hann hafi í desember 2005 hitt karlmann á bar í Litháen. Þann mann hafi ákærði ekki hitt áður. Viðkomandi hafi farið þess á leit við ákærða að hann færi með tvær flöskur af áfengi til Íslands. Ákærði hafi ekki verið á leiðinni til Íslands, en þar sem viðkomandi hafi boðið ákærða 2.000 evrur fyrir að fara ferðina hafi hann ekki þurft að hugsa sig lengi um. Fjárhæðin hafi átt að duga fyrir flugi, hótelgistingu og uppihaldi. Hafi ákærði spurt viðkomandi mann hvort innihald í flöskunum væri fíkniefni og hafi maðurinn sagt svo ekki vera. Komið hafi verið með flöskurnar til ákærða daginn áður en hann fór til Íslands. Ákærði hafi fengið afhent símakort sem hann hafi átt að koma fyrir í sínum síma. Tilgangurinn með því hafi átt að vera sá að sá sem ætti flöskurnar gæti hringt í ákærða til að afhending gæti átt sér stað. Ákærði hafi farið í ferðina 19. desember 2005 með tvær flöskur. Á Íslandi hafi karlmaður hringt í ákærða eftir að ákærði hafi verið kominn á hótel. Hafi hann sagt að hann ætlaði að sækja flöskurnar. Hann hafi síðan komið á hótelið og fengið tösku með flöskunum afhenta. Hann hafi síðan yfirgefið hótelið en komið til baka með töskuna tóma. Ákærði kvað mann að nafni Robertas, er hann hafi áður gert grein fyrir, ekki vera til. Ákærði kvaðst gera ráð fyrir að sami maður og hitti hann á hóteli við komuna í desember 2005 hafi átt að hitta hann á hóteli við komuna 4. febrúar 2006.

Ákærði var á ný færður til skýrslutöku 10. febrúar 2006. Greindi hann þá frá aðdraganda fyrstu ferðar sinnar til Íslands með sama hætti og við skýrslugjöfina 7. febrúar 2006. Hafi ákærði og maðurinn í Litháen mælt sér mót í heimahéraði ákærða. Hafi ákærði farið þangað fótgandandi og hitt manninn, sem hafi verið á Audi bifreið. Hafi viðkomandi verið einn í bifreiðinni. Hafi ákærði aftur spurt hvort innihald í flöskunum væri fíkniefni og maðurinn svarað því til að um væri að ræða áfengi. Viðkomandi hafi viljað fá upplýsingar hjá ákærða um nafn til að maðurinn gæti keypt fyrir hann flugmiða. Hafi hann boðið ákærða 1.400 evrur fyrir að fara í ferðina, en fjárhæðin hafi átt að duga fyrir gistingu og uppihaldi. Afganginn hafi ákærði mátt eiga. Maðurinn hafi ákveðið að ákærði færi til Íslands 19. desember og að hann hafi átt að koma til baka 27. sama mánaðar. Við þetta tækifæri hafi ákærði ákveðið að fara í þessa ferð. Síðan hafi ekkert gerst fyrr en 18. desember er maðurinn hafi hringt. Hafi þeir á ný mælt sér mót á þeim stað er þeir hafi áður hist á. Þar hafi maðurinn afhent ákærða tvær flöskur, flugmiða til Íslands og símakort. Með símakortinu hafi fylgt upplýsingar um PIN númer og fleira. Ákærði hafi farið heim til sín til að undirbúa ferðina. Við komu til Reykjavíkur hafi engin afskipti verið höfð af ákærða á Keflavíkurflugvelli. Hafi hann tekið rútu til Reykjavíkur og yfirgefið hana á endastöð. Þaðan hafi hann tekið leigubifreið og beðið bifreiðastjórann um að fara með sig á ódýrt hótel í Reykjavík. Hafi ákærða verið ekið á Hótel Cabin. Þar hafi ákærði greitt fyrir gistingu. Stuttu eftir að ákærði hafi komið sér fyrir á hótelinu hafi verið hringt í hann. Í símanum hafi verið karlmaður frá Litháen sem hafi spurt ákærða hvar hann væri og á hvaða herbergi. Hafi ákærði sagt honum það og maðurinn sagt að hann kæmi næsta dag til hans. Ákærði hafi beðið á hótelinu til næsta dags allt þar til maðurinn hafi bankað á dyr herbergisins. Nánast ekkert hafi farið þeim á milli annað en að maðurinn hafi sagt að hann væri kominn til að sækja flöskurnar. Hafi hann látið manninn fá töskuna með flöskunum. Eftir það hafi maðurinn yfirgefið herbergið og beðið ákærða um að bíða um stund í herberginu. Eftir um 30 mínútur hafi maðurinn komið aftur og látið ákærða fá töskuna aftur. Hafi ákærði spurt manninn hvort unnt væri að breyta flugmiðanum þannig að ákærði kæmist fyrr heim en áætlað var. Hafi maðurinn sagt að það væri örugglega hægt og hafi orðið úr að þeir hafi farið sama dag á farmiðasölu Flugleiða. Ekki hafi verið hægt að breyta miðanum og hafi orðið úr að ákærði hafi keypt flugmiða til Stokkhólms 23. desember og þaðan til Riga sama dag. Fyrir flugmiðann hafi ákærði borgað um 600 evrur. Maðurinn hafi séð um að ræða við starfsmenn Flugleiða og gengið frá farmiðakaupunum. Maðurinn hafi verið frekar dökkur á hörund, um 170 cm að hæð, svarthærður, stuttklipptur, ríflega 30 ára og þéttvaxinn. Maðurinn hafi verið á Mercedes Bens bifreið, silfurgrárri að lit, nýleg að sjá. Ákærði hafi síðan flogið heim til Litháen.

Sá maður sem hafi hitt ákærða á bar í Litháen í desember 2005 hafi aftur haft samband við ákærða í síma eftir að ákærði hafi verið kominn heim. Hafi það verið um 20. janúar 2006. Hafi hann boðið ákærða að fara aðra ferð til Íslands. Hafi þeir hist 30. janúar 2006 á fyrri stað og maðurinn verið á sömu bifreið og áður. Hafi hann spurt ákærða hvort hann væri reiðubúinn að fara aðra ferð til Íslands og ákærði lýst sig reiðubúinn til þess. Hafi þeir ákveðið að hittast aftur 2. febrúar og þá keypt flugmiða til Íslands. Hafi ákærði greitt fyrir flugmiðann og notað til þess peninga er maðurinn hafi látið ákærða fá. Hafi ákærði í upphafi fengið 400 evrur til að kaupa miðann en síðan hafi maðurinn látið ákærða fá 1.000 evrur. Hafi þeir ákveðið að hittast aftur næsta dag á sama stað og áður. Þar hafi maðurinn afhent ákærða tvær flöskur af víni og símakort sem ákærði hafi haft meðferðis til Íslands. Til viðbótar hafi maðurinn afhent ákærða 300 evrur sem hafi átt að nýtast ákærða við ferðina fyrir gistingu og uppihaldi. Eftir þetta hafi ákærði farið heim til sín þar sem hann hafi komið flöskunum fyrir í sömu tösku og í fyrri ferð til Íslands. Ákærði hafi síðan farið til Íslands 4. febrúar, en hann hafi flogið frá Riga um Kaupmannahöfn til Íslands. Ef allt hefði gengið eftir hafi ákærði átt að taka rútuna til Reykjavíkur og fara á sama hótel og áður. Þar hafi ákærði átt að bíða þar til samband yrði haft við hann. Ákærði kvaðst ekki geta sagt til um hvort sami aðili og áður hafi átt að ná í flöskurnar. Ákærði bar að sér hafi ekkert þótt athugavert við að hafa verið beðinn um að fara með flöskurnar til Íslands. Sér hafi fundist þetta gaman og tækifæri til að sjá landið. Ákærði kvaðst ekki þekkja símanúmer það sem hafi verið í Nokia síma þeim er maðurinn í Litháen hafi afhent honum. 

Ákærði var á ný yfirheyrður af lögreglu 16. febrúar 2006. Ákærði kvaðst vilja ítreka það að hann hafi talið að flöskur þær er hann hafi komið með til Íslands hafi innihaldið áfengi. Þá kvaðst ákærði telja að sá maður er hafi tekið á móti vínflöskunum á Hótel Cabin hafi greitt fyrir flugmiða ákærða til Stokkhólms 20. desember 2005 með greiðslukorti sínu. Maðurinn hafi boðið ákærða það. Ákærði hafi engu að síður haft efni á að greiða fyrir farið. Er ákærði var beðinn um að gera grein fyrir ferðum sínum í tengslum við farmiðakaupin kvaðst hann hafa farið frá Hótel Cabin með manninum. Þaðan hafi leið þeirra legið heim til mannsins. Þar hafi ákærði þegið te og hitt konu sem hann hafi talið vera eiginkonu mannsins. Sonur mannsins hafi komið með þeim og hafi þeir farið á söluskrifstofu Flugleiða. Á meðan hafi sonurinn beðið úti í bíl. Frá söluskrifstofunni hafi verið ekið að skóla sonar mannsins. Skólinn hafi verið læstur. Þá hafi verið ákveðið að aka um borgina en í framhaldinu hafi þeir fengið sér að borða. Maðurinn frá Litháen hafi greitt fyrir matinn. Eftir það hafi verið ekið á nokkur hótel til að reyna að finna ódýra gistingu fyrir ákærða. Að því búnu hafi verið ekið aftur að Hótel Cabin þar sem ákærði hafi gist þar til hann hafi farið til Stokkhólms. Þann dag sem ákærði hafi farið úr landi hafi maðurinn komið á hótelið og ekið honum á stað þar sem hann hafi tekið rútuna út á flugvöll. Maðurinn hafi verið á Mercedes Bens bifreið. 

Ákærði var aftur yfirheyrður af lögreglu 21. febrúar 2006. Ákærði var spurður út í nafnið Nezinom er lögregla fann í símabókum beggja þeirra farsíma er ákærði hafði meðferðis til landsins er hann var handtekinn. Ákærði bar að nefndur Nezinom væri sá aðili í Litháen er hafi látið ákærða fá flöskurnar í bæði skiptin. Þann mann þekkti ákærði ekki neitt og hafi ákærði skýrt hann þessu nafni sem í reynd væri ,,ónefndur”. Meira vissi ákærði ekki um þann mann. Ákærði hafi fært símanúmer mannsins í símann er símanúmerið hafi birst á símanum eftir að maðurinn hafi hringt í ákærða. Ákærði hafi einu sinni sjálfur hringt í þetta númer. Hafi það verið í tengslum við seinni ferð ákærða til Íslands. Ákærði var á ný yfirheyrður 2. mars 2006. Kvaðst hann ekki hafa velt fyrir sér varðandi seinni ferðina til Íslands hver myndi taka við flöskunum við komu til landsins. Hafi honum verið sagt að fara á sama hótel og áður en að því búnu myndi einhver hafa samband við hann. Trúlega hafi sami aðili átt að koma og taka við flöskunum. Þegar meðákærði hafi á sínum tíma komið á hótelið til að aka honum út á flugrútu hafi hann sagt við ákærða að þeir myndu sjást aftur ef ákærði tæki að sér að fara svona ferð aftur til Íslands. Ákærði var að síðustu yfirheyrður hjá lögreglu 16. mars 2006.

Fyrir dómi bar ákærði um atvik með sama hætti og þegar hann gaf skýrslu hjá lögreglu 7. febrúar 2006, eftir að hafa breytt framburði sínum. Ákærði kvað þó að hann hafi ekki fengið neina þóknun fyrir að hafa farið ferðirnar til Íslands með áfengisflöskurnar. Ákærði kvaðst ekki hafa spurt sérstaklega að því hvað væri í flöskunum er hann hafi fengið þær afhentar og ekki hafi hann skoðað þær sérstaklega. Þá staðfesti ákærði að sá maður er hafi hitt hann á Hótel Cabin hafi keypt miða fyrir ákærða í desember 2005 og greitt fyrir miðann með greiðslukorti sínu. Ákærði hafi síðan greitt honum til baka. Er undir ákærða voru borin ummæli í lögregluskýrslu í tilefni af því að viðkomandi maður hafi kvatt ákærða þar sem ákærði hafi ætlað að taka rútu til Keflavíkur kvaðst hann sennilega sjálfur hafa sagt að það gæti verið að þeir myndu sjást aftur ef ákærði kæmi aftur til Íslands. Væri það sem fært væri í lögregluskýrslu sennilega tilkomið vegna ,,túlkunarvandkvæða”. Þá staðfesti ákærði að umgjörð ferðanna í desember 2005 og í febrúar 2006 hafi verið með svipuðum hætti. Ákærði myndi sennilega hafa farið á sama hótel og áður er hann hafi komið í febrúar. Ekki hafi hann þó vitað hvort sami maður hafi átt að hitta hann á hótelinu og áður. Ákærði kvaðst hafa starfað á Englandi í 5 ár. Eftir það hafi hann farið heim til Litháen. Hafi hann ekki verið í fastri vinnu í um 1 ár áður en hann hafi ráðist í ferðirnar til Íslands.

Ákærði Arvydas Maciulskis var fyrst yfirheyrður af lögreglu 13. febrúar 2006. Kvaðst ákærði hafa komið til Íslands árið 2000. Hafi hann verið með fyrirtæki sem hafi heitið Mek Tré, en fyrirtækið hafi séð um innflutning á timburhúsum frá Litháen. Starfsemi fyrirtækisins hafi lagst niður árið 2003 en eftir það hafi ákærði tekið til við að leita að viðskiptavinum um kaup á bjálkahúsum og hafi ákærði fengið einhverja prósentu í þóknun eftir stærð húsa. Ákærði kvaðst ekki vilja gera grein fyrir því fyrir hvern hann hafi verið að vinna en viðskiptavinir hafi komið frá Akureyri og Egilsstöðum. Væri ákærði enn að starfa við þetta, auk þess sem ákærði væri að aðstoða eiginkonu sína sem ynni við ræstingar. Kvaðst ákærði fá um 100.000 krónur á mánuði fyrir ræstingavinnuna. Kvaðst ákærði hafa verið með um 1.000.000 krónur í heildartekjur á árinu 2005. Ákærði kvað eiginkonu sína vera eiganda að grárri Mercedes Bens bifreið er hann hafi verið á við handtöku. Hjónin notuðu bifreiðina þó bæði. Þá væri ákærði eigandi að rauðri Audi bifreið er hafi verið fyrir utan heimili ákærða. Ákærði var inntur eftir því hvort hann kannaðist við símanúmerið 6626468. Kvaðst hann ekki kannast við það númer. Þá kvaðst hann ekki hafa tekið þátt í komu manns frá Litháen á árinu 2006. Er ákærði var inntur eftir því hvort hann hafi átt von á karlmanni frá Litháen í desember 2005 kvaðst hann ef til vill hafa átt von á konu, sem væri starfandi sem læknir í Litháen. Væri von á henni, en hún ætlaði að reyna að starfa sem læknir á Íslandi. Ákærði kvaðst ekki kannast við að hafa aðstoðað eða hitt mann frá Litháen í desember 2005 á Íslandi. Þá kvaðst ákærði ekki kannast við nafn meðákærða. Er ákærði var inntur eftir hvort hann hafi aðstoðað karlmann frá Litháen við kaup á farmiða til útlanda frá Íslandi á árinu 2006 kvaðst ákærði einhverju sinni hafa verið staddur í farmiðasölu til að kanna hvað ferð til Spánar kostaði. Þá hafi komið til hans maður frá Litháen sem hafi beðið ákærða um að aðstoða sig við kaup á farmiða til útlanda þar sem hann væri ,,blankur”. Maðurinn hafi viljað fara til Danmerkur og hafi ákærði greitt fyrir hann ferðina og notað greiðslukort sitt til þess. Hafi hann greitt 20.000 krónur fyrir ferðina. Þetta hafi gerst öðru hvoru megin við áramót. Manninn hafi ákærði ekki þekkt. Maðurinn hafi sagt að móðir sín væri veik og hafi ákærði viljað aðstoða hann. Ekki vissi ákærði hvað maðurinn héti. Er ákærða var bent á að samkvæmt gögnum lögreglu hafi miðinn verið keyptur í gegnum netið hjá Flugleiðum kvað ákærði það vera rétt, en starfsmaður Flugleiða hafi séð um þau kaup. Er ákærða var bent á að samkvæmt gögnum lögreglu hafi maðurinn ekki farið til Danmerkur heldur Stokkhólms kvað ákærði það geta staðist. Er undir ákærða var borið að kaupin á flugmiðanum hafi átt sér stað 20. desember 2005 kvað ákærði það geta staðist. Er undir ákærða var borið hvort hann hafi hitt viðkomandi einstakling frá Litháen á hóteli í borginni synjaði ákærði fyrir það. Ákærði kvað nokkur hundruð þúsund í íslenskum krónum og eitthvað af dollurum hafa átt að vera á heimili sínu er lögregla framkvæmdi þar húsleit. Um hafi verið að ræða fjármuni er ákærði hafi fengið vegna sölu á timburhúsum.

Ákærði var aftur yfirheyrður af lögreglu 15. febrúar 2006. Í upphafi yfirheyrslunnar kvaðst ákærði vilja taka fram að tryggingafélag hafi greitt honum bætur vegna slyss sem ákærði hafi lent í árið 2002, en um hafi verið að ræða 2.600.000 krónur. Árið 2003 hafi ákærði selt hús í Litháen og fengið fyrir það 2.600.000 krónur. Hann hafi selt veitingastað í Reykjavík með nafninu Purpul Onion á árinu 2005 og fengið fyrir hann 2.200.000 krónur. Ákærði kvaðst hafa farið í tvígang til útlanda frá í ágúst 2005. Hann hafi farið til Chicago í október 2005 og til Litháen í nóvember eða byrjun desember 2005. Hafi ákærði heimsótt móður sína til Litháen, en hún hafi verið veik. Ákærði hafi hitt systur konu sinnar í Siauliai og gist þar eina nótt. Síðan hafi hann farið til bæjarins Telsiai þar sem móðir hann byggi. Eftir dvöl þar hafi ákærði fari til Vilnius og heimsótt þar fyrirtæki sem seldi sumarbústaði. Hafi ákærði reynt að ná samningum þar og í því skyni farið til margra fyrirtækja. Ákærði kvaðst ekki vilja tjá sig um þau fyrirtæki er hann hafi farið til. Ákærði hafi náð samningum í þessari ferð sinni. Ákærði hafi sennilega komið til baka úr ferðinni 15. desember 2005. Er undir ákærða var borið að lögregla hefði gögn um að hann hafi komið til baka 19. desember kvaðst ákærði ekki muna hvenær hann hafi komið til landsins. Varðandi ferðina til Bandaríkjanna kvaðst ákærði ásamt manni að nafni Valdas vera eigandi að fyrirtækinu Arva Inkorparaeion, sem væri byggingarfyrirtæki. Kvaðst ákærði ekki vilja tjá sig um það fyrirtæki frekar. Ákærði var aftur inntur eftir því hvort hann hafi hitt mann frá Litháen á Hótel Cabin 20. desember 2005. Ákærði kvað svo ekki vera. Ákærði var inntur eftir því hvort hann kannaðist við símanúmerið 8458755. Ákærði kvaðst ekki kannast við það símanúmer.

Ákærði var aftur yfirheyrður af lögreglu 21. febrúar 2006. Aðspurður kvaðst ákærði ekki vilja gefa lögreglu upp nafn og heimili móður sinnar í Litháen, þar sem ákærði vildi ekki blanda henni í mál sitt. Er ákærði var inntur eftir því hvort verið gæti að hann hafi farið á tælenskan matsölustað eftir að hafa keypt flugmiða fyrir manninn frá Litháen í desember 2005 kvaðst ákærði ekki muna það. Undir ákærða var borin sú ætlan lögreglu að ákærði hafi hitt mann frá Litháen á Hótel Cabin 20. desember 2005. Þaðan hafi för ákærða og mannsins legið að heimili ákærða að Lundi III, en þangað hafi þeir farið á Mercedes Bens bifreið ákærða. Þar hafi sonur ákærða komið í bifreiðina. Þaðan hafi verið ekið á söluskrifstofu Flugleiða þar sem miði hafi verið keyptur fyrir manninn til Stokkhólms. Eftir farmiðakaupin hafi verið ekið að skóla sonar ákærða, sem hafi reynst læstur. Eftir það hafi ákærði, sonur hans og maðurinn farið á tælenska eldhúsið við Tryggvagötu þar sem þeir hafi fengið sér að borða. Ákærði kvað ekkert af þessu rétt. Ákærði var inntur eftir innihaldi í rauðum plastbrúsa er lögregla hafi lagt hald á á heimili hans. Ákærði kvað brúsann hafa haft að geyma alkóhól. Ákærði væri eigandi brúsans. Hafi ákærði keypt hann af Rússa sem hafi komið til Reykjavíkur með skipi. Kaupin hafi átt sér stað fyrir einhverjum mánuðum síðan. Vökvann hafi ákærði notað vegna bakmeiðsla sinna, en hann léti bera vökvann á bakið á sér. Ákærða var gerð grein fyrir að lögregla hafi lagt hald á tvær töflur á heimili ákærða sem grunur léki á um að væru fíkniefnið MDMA. Kvaðst ákærði ekkert vita um þessar töflur. Gæti verið að hann hafi verið að skemmta sér og hafa fundið töflurnar og farið með þær heim til sín. Töflurnar hafi hann sennilega fundið á dansgólfi staðarins. Ákærði væri vanur að taka allt upp af gólfum sem hann sæi. Erfitt væri að segja til um af hverju hann hafi farið með töflurnar heim til sín. Ákærði var aftur inntur eftir viðskiptum sínum við aðila á Akureyri og Egilsstöðum. Ákærði kvaðst hafa fengið nokkrar greiðslur frá þessum aðilum en erfitt væri að segja til um heildarupphæðina. Hana myndi ákærði ekki, auk þess sem hann vildi ekki greina frá henni. Greiðslur hafi farið fram í seðlum og átt sér stað í Reykjavík. Ekki gæti ákærði sagt til um hvar greiðslurnar hafi farið fram. Ákærða var gerð grein fyrir að lögregla hafi lagt hald á nokkra muni í náttborðsskúffu í svefnherbergi ákærða. Ákærði kvaðst geyma alls konar drasl í skúffunni og væri hann eigandi hlutanna. Enginn þeirra hluta tengdist fíkniefnum á nokkurn hátt. Ákærði bar kennsl á uppskrift á blaði er lögregla lagði hald á og tilgreind er sem nr. 3a á munaskrá lögreglu frá 13. febrúar 2006. Ákærði kvaðst ekki kannast við uppskriftina eða það sem búið væri að rita á blaðið. Ekki væri um að ræða skrift ákærða. Ákærði vissi ekki hvaðan hún kæmi. 

Ákærði var yfirheyrður á ný 23. febrúar 2006. Fram kemur í upphafi skýrslutökunnar að ákærði hafi sjálfur óskað eftir því að yfirheyrslan færi fram. Kvaðst ákærði nú vilja segja frá sínum þætti í málinu. Ákærði kvað upptökin hafa verið fyrir um fjórum mánuðum er hann dag einn hafi verið staddur í íþróttamiðstöðinni World Class. Hafi hann verið á æfingu og að henni lokinni farið í gufu. Þar hafi ákærði hitt karlmann, sem hafi borið að væri frá fyrrum Júgóslavíu og héti C. Þann mann hafi ákærði hvorki hitt né séð áður. Sá hafi verið einn á ferð. C hafi gefið sig á tal við ákærða og spurt ákærða um fjölskylduhagi sína. Spjallið hafi átt sér stað í gufunni og hafi þeir ekki verið einir baðgesta. Í framhaldi hafi C spurt ákærða um hvort hann væri reiðubúinn að taka á móti flöskum hér á landi sem innihéldu rándýran vökva. Fyrir það hafi ákærði átt að fá 2.000 evrur. Ákærða hafi þótt þetta skrítið en þó viljað taka verkið að sér. C hafi viljað fá upplýsingar um símanúmer ákærða og hafa samband við hann síðar. Tveim dögum síðar hafi C hringt í ákærða og beðið hann um að hitta sig í skógi rétt við heimili ákærða til að ræða málið frekar. Ákærði hafi farið á fundarstaðinn um kl. 15.00 sama dag og hitt C. Þar hafi þeir farið yfir verkefnið sem hafi falist í því að þegar ákærði væri kominn með flöskurnar í hendi hafi hann átt að koma þeim fyrir á ákveðnum stað sem C væri búinn að ákveða hvar væri. Um hafi verið að ræða svæði sem væri nærri Landspítala háskólasjúkrahúsi í Fossvogi þar sem Skógræktin væri með aðstöðu. Þar hafi ákærði átt að setja flöskurnar niður og fela þær með því að setja yfir þær laufblöð. Eftir það hafi ákærði átt að fara heim til sín og koma síðan aftur næsta dag til að ná í peninga sem ákærða hafi verið lofað fyrir verkið. Eftir það hafi leiðir skilið, C gengið að spítalanum og ákærði farið heim. Eftir það hafi liðið mánuður. Þá hafi verið hringt í ákærða og hafi C ekki verið þar á ferð. Hafi viðkomandi gefið ákærða upplýsingar um símanúmer er ákærði hafi átt að hringja í til að kanna á hvaða hótel ákærði ætti að sækja flöskurnar. Ákærða hafi síðan verið skipað að kaupa flugmiða fyrir aðilann sem hafi verið á hótelinu til að hann kæmist frá Íslandi sem fyrst. Að þessu búnu hafi ákærði hringt í viðkomandi símanúmer og karlmaður frá Litháen svarað. Hann hafi sagt að hann væri staddur á Hótel Cabin. Hafi hann sagt að hann væri með flöskur fyrir ákærða. Ákærði hafi farið sama dag á hótelið. Þar sem maðurinn hafi verið nývaknaður hafi ákærði viljað gefa honum færi á að taka sig til og því farið niður í bifreið sína fyrir utan hótelið. Um 10 til 15 mínútum síðar hafi maðurinn komið niður og verið með svarta tösku meðferðis. Töskunni hafi verið komið fyrir í bifreið ákærða, en hann hafi verið á grárri Mercedes Bens bifreið sinni. Frá hótelinu hafi verið ekið heim til ákærða. Þó væri ákærði ekki viss um hvort á leiðinni þangað hafi verð komið við á farmiðasölu Flugleiða til að kaupa flugmiða fyrir manninn til Stokkhólms. Ákærði hafi boðið manninum te heima hjá sér og tekið flöskurnar úr tösku mannsins. Þeim hafi ákærði komið fyrir í vínskáp heima hjá sér. Maðurinn hafi síðan fengið töskuna aftur. Sonur ákærða hafi fengið far með þeim og hafi hann ætlað að nálgast tiltekin gögn í fjölbrautarskóla. Skólinn hafi hins vegar verið læstur. Að því búnu hafi þeir ekið um borgina til að kanna með ódýrari gistingu fyrir manninn. Þeir hafi farið út að borða á tælenskum veitingastað. Að því búnu hafi ákærði ekið manninum á Hótel Cabin þar sem ákærði hafi skilið við hann. Flöskunum hafi ákærði síðan komið fyrir á umsömdum stað. Næsta dag hafi ákærði farið aftur á staðinn til að kanna með þá peninga er hann hafi átt að fá. Engir fjármunir hafi verið sjáanlegir. Hringt hafi verið í ákærða fyrir um þremur vikum síðan þar sem ákærða hafi verið hótað lífláti og sprengingu á heimili sínu ef ákærði segði til um þann mann er hafi dvalið á Hótel Cabin. Einnig hafi ákærða verið sagt að búið væri að handtaka þann mann hér á landi. Sá sem hafi hringt í ákærða hafi verið sá sami og greint hafi honum frá símanúmeri mannsins á Hótel Cabin. Ákærði kvaðst ekki hafa komið nærri komu meðákærða til landsins í febrúar 2006. Að því er varðaði haldlagðar upplýsingar lögreglu um uppskrift á framleiðslu fíkniefna á heimili ákærða þá kvaðst ákærði, að beiðni C, hafa farið inn á tölvupóst hjá einhverjum, sem ákærði vissi ekki hver væri, til að nálgast uppskriftina. Hafi ákærði ritað upplýsingarnar á það blað sem lögregla hafi lagt hald á. Hafi C beðið ákærða um að geyma upplýsingarnar þar til einhver maður kæmi til ákærða til að sækja þær.

Ákærði var á ný yfirheyrður af lögreglu 1. mars 2006. Þá var hann yfirheyrður um æfingu í World Class er hann sagðist hafa hitt nefndan C. Ákærði kvaðst telja að hann hafi farið á æfingu líklega í síðustu viku október 2005. Æfingin hafi verið um hádegið, líklega klukkan 12.00 eða 13.00. Ákærði hafi farið á Mercedes Bens bifreiðinni á æfinguna. Æfingin hafi staðið í eina og hálfa klukkustund. Eftir æfingu í tækjum hafi ákærði synt í 20 til 30 mínútur og síðan farið í gufubað við Laugardalslaugina. Hann hafi farið út þar sem sturtur væru í World Class. Í gufunni hafi ákærði hitt C. Þar inni hafi ákærði sennilega verið í 5 mínútur. C hafi byrjað að ræða við ákærða og spurt hann hvaðan hann kæmi, hvar hann ætti heima og hvar hann væri að vinna. Hafi ákærði svarað honum. Í beinu framhaldi hafi C spurt að því hvort ákærði væri tilbúinn til að taka að sér ákveðið verkefni sem fælist í því að sækja flöskur, koma þeim fyrir á ákveðnum stað og fá fyrir það borgað. C hafi spurt ákærða frekar um hvar heimili ákærða væri og um símanúmer hans því hann ætlaði að hringja í ákærða eftir nokkra daga. Ekkert frekar hafi verið rætt. Eftir að hafa verið í gufunni hafi ákærði farið aftur í sund og í framhaldinu í búningsklefa í World Class þar sem hann hafi klætt sig. Eftir það hafi hann yfirgefið húsið. Ákærði kvaðst hafa gefið C upp símanúmer sitt sem hafi verið 8660470. Innan viku hafi C hringt í ákærða í uppgefið símanúmer. Ekki hafi komið fram úr hvaða síma C hafi hringt. Þá hafi ákærði verið staddur heima hjá sér. Síðar sama dag hafi ákærði og C hist. Fundur þeirra hafi staðið í 15 til 20 mínútur. Eftir það hafi ákærði farið aftur heim til sín. Í desember 2005 hafi ákærði síðan fengið símhringingu vegna málsins en viðmælandinn hafi ekki verið C, heldur einhver annar karlmaður. Það hafi verið að morgni til og ákærði verið heima hjá sér. Ekki hafi heldur komið fram á síma ákærða úr hvaða síma viðkomandi hafi hringt. Sá hafi sagt ákærða að hringja í ákveðið símanúmer og fara að sækja manninn sem væri kominn. Símtalið hafi verið mjög stutt og farið fram á litháísku. Ákærða hafi verið sagt að hringja í tiltekið íslenskt símanúmer. Ákærði hafi umsvifalaust hringt í númerið en ákærði hafi hringt úr sínum síma með númerinu 8660470. Karlmaður hafi svarað, sem ákærði vissi nú að héti Saulius. Er Saulius hafi svarað hafi hann sagt að hann væri á Hótel Cabin. Er ákærði hafi komið þeim flöskum fyrir er hann hafi fengið frá meðákærða Saulius hafi verið komið myrkur. C hafi hringt og beðið ákærða um að koma á nefndan stað þar sem hann vildi taka við flöskunum sjálfur. Hafi hann jafnframt sagt að hann vildi ekki greiða ákærða fyrir viðvikið fyrr en hann væri búinn að kanna innihald í flöskunum. Greiðslan hafi síðan átt að fara fram næsta dag. Símtalið hafi átt sér stað um kl. 18.30 og ákærði þá verið heima hjá sér. Ákærði hafi tekið flöskurnar úr vínskáp þar sem hann hafi verið búinn að koma þeim fyrir. C hafi tekið við flöskunum úr hendi ákærða. Næsta dag hafi ákærði farið að vitja um greiðsluna til sín og farið á staðinn upp úr kl. 11.00. Hafi hann leitað að fjármununum en enga fundið. Að því búnu hafi hann farið heim til sín. Ákærði ítrekaði að C hafi beðið sig um að fara inn á slóðina kuilysarklys@yahoo.com. Um leið og ákærði hafi slegið inn slóðina hafi opnast fyrir hann slóð að uppskrift er hann hafi skráð niður. Ekki hafi ákærði áttað sig á hvað væri í uppskriftinni. C hafi farið þess á leit við ákærða að gera þetta um leið og hann hafi tekið á móti flöskunum frá ákærða. Einhver karlmaður myndi síðan nálgast uppskriftina hjá ákærða. Ákærði hafi farið inn á tölvu heima hjá sér til að ná í uppskriftina. Tölvan hafi verið í herbergi sonar ákærða, en um hafi verið að ræða IBM tölvu.

Ákærði var aftur yfirheyrður af lögreglu 8. mars 2006. Ákærði kvaðst hafa farið í helgarfrí á Íslandi helgina 20. til 22. janúar 2006. Hafi hann farið upp í Bláfjöll. Þaðan hafi verið haldið að Gullfossi og Geysi. Í ferðalagið hafi ákærði farið með kunningja sínum. Ekki vildi ákærði gefa upp nafn hans. Þeir hafi gist í sumarbústað. Ákærði hafi farið á internetið og þar áttað sig á sumarbústöðum er unnt hafi verið að taka á leigu. Ákærði hafi hringt í tiltekið símanúmer og tekið bústaðinn á leigu í eina nótt. Ákærði hafi greitt fyrir leiguna með seðlum. Ekki hafi verið auðvelt að finna heimili leigusalans, en sá hafi leiðbeint ákærða um hvernig komast mætti til sín. Þær leiðbeiningar hafi farið fram um síma ákærða. Ákærði hafi hringt í hann er hann hafi verið að nálgast Geysi, en bústaðurinn hafi verið í um 15 mínútna akstursfjarlægð frá Geysi. Ákærði og félagi hans hafi einungis verið tveir í bústaðnum. Eiginkona ákærða hafi ekki farið með í ferðina. Ákærða var bent á að heimilisfang það er ákærði hafi gefið upp varðandi hús er hann hafi greint lögreglu frá að hann hafi selt í Litháen árið 2003 væri ekki til. Kvaðst ákærði vita að umrætt heimilisfang væri ekki til. Vildi ákærði ekki tjá sig frekar um það, en frændi hans hafi verið skráður fyrir húsinu, en hann væri látinn. Ekki kvaðst ákærði vilja segja til þessa frænda síns. Ákærði ítrekaði að hann kannaðist ekki við símanúmerið 8458755. 

Ákærði var síðast yfirheyrður af lögreglu 15. mars 2006. Var ákærði enn inntur eftir hvort hann kannaðist við símanúmerið 8458755. Ítrekaði ákærði að hann kannaðist ekki við það símanúmer. Ákærða var gerð grein fyrir að samkvæmt gögnum lögreglu hafi ákærði greitt fyrir flugmiða manns að nafni B 21. janúar 2006. Kvaðst ákærði ekki þekkja umræddan B. D hafi komið til Íslands nokkrum sinnum. D hafi ákærði hitt í bænum tveimur dögum fyrir miðakaupin. Þeir hafi tekið tal saman og hafi D verið kunnugt um að ákærði væri með greiðslukort. D hafi beðið ákærða um að kaupa flugmiða fyrir B, þar sem D hafi ekki verið með greiðslukort meðferðis. D hafi þá verið einn á ferð. B hafi þá verið á Hótel Cabin. Eftir þetta hafi leiðir þeirra skilið. Ákærði hafi keypt flugmiðann á söluskrifstofu Flugleiða við Reykjavíkurflugvöll. Með honum í för hafi verið D og B. Eftir farmiðakaupin hafi ákærði ekið B á Hótel Cabin og D niður í bæ. Þar hafi leiðir þeirra skilið. Er ákærða var gerð grein fyrir að símanúmerið 8458755 hafi verið gefið upp við kaup á flugmiða fyrir B kvaðst hann telja öruggt að D eða B hafi gefið númerið upp.

Fyrir dómi bar ákærði að hann hafi ekki þekkt meðákærða fyrir þann tíma er hann hafi hitt hann á Hótel Cabin. Ákærði staðfesti að hafa hitt C í World Class. Bar hann að lýsing hans á atvikum tengdum C við lögregluyfirheyrslur væri rétt, en langt væri um liðið frá því atburðir hafi átt sér stað. C hafi beðið ákærða um að hitta mann sem hafi átt að afhenda ákærða tvær flöskur. Þann mann hafi ákærði hitt á Hótel Cabin. Ákærði hafi farið með manninn heim til sín og tekið á móti tveimur flöskum sem hann hafi geymt heima hjá sér. Flöskurnar hafi verið áfengisflöskur. Hafi ákærði drukkið úr einni þeirra um jól. Hafi ákærði tekið eina flösku úr eigin áfengisbirgðum og látið í staðinn fylgja hinni flöskunni. Að öðru leyti væri framburður ákærða hjá lögreglu réttur. Ekki kvaðst ákærði minnast þess að hafa gefið meðákærða vísbendingu um að þeir myndu ef til vill hittast aftur er ákærði hafi ekið meðákærða á þann stað þar sem meðákærði hafi tekið rútu til Keflavíkur. Ákærði staðfesti að símanúmer sitt mánuðina fyrir handtöku hafi verið 8660470. Ákærði kvaðst hringja oft til Litháen vegna viðskipta sinna með sumarbústaði. Ákærði kvaðst ekki kannast við símanúmerið 8458755. Ákærði kvaðst hafa hitt mann að nafni D í miðbæ Reykjavíkur. D hafi beðið ákærða um að kaupa flugmiða fyrir B, þar sem D hafi ekki verið með greiðslukort. D hafi ákærði þá ekki þekkt. Hafi ákærði farið með D og B á söluskrifstofu Flugleiða og keypt farmiða fyrir B. Þetta hafi verið í janúar 2006. Er ákærða var gerð grein fyrir að símanúmerið 8458755 hafi verið gefið upp af kaupanda, kvaðst ákærði ekki hafa gefið það númer upp. Ákærði kvaðst hafa farið með D í sumarbústað skammt frá Geysi. Var honum gerð grein fyrir því að samkvæmt gögnum lögreglu hafi símanúmerið 8458755 verið staðsett í nefndum sumarbústað á sama tíma. Kvaðst ákærði telja að D hlyti þá að hafa verið með þann síma. Ákærða var bent á að samkvæmt gögnum lögreglu hafi nefnt símanúmer verið staðsett á heimili ákærða á sama tíma og sími ákærða. Kvaðst ákærði þá hafa keypt síma af D og hafa geymt heima hjá sér. Væri sá sími sennilega með númerinu 8458755. Kvaðst ákærði ekki hafa notað símanúmerið 8458755. Varðandi uppskrift, er lögregla lagði hald á tengda fíkniefnaframleiðslu, skýrði ákærði frá atvikum með sama hætti og hjá lögreglu. Þá staðfesti ákærði að etanól, er lögregla hafi lagt hald á heima hjá ákærða, notaði ákærði til að láta nudda á sér bakið vegna bakmeiðsla.

A, dósent á Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræðum, staðfesti fyrir dómi matsgerðir er frammi liggja í málinu og frá rannsóknarstofunni stafa. Bar hann um að amfetamíni væri skipt í amfetamínbasa og amfetamínsúlfat. Amfetamínbasi væri virkur hluti á meðan amfetamínsúlfat væri óvirkt. Súlfatið væri almennt hvítt að lit. Í öðru sýninu hafi basi verið 77% að styrkleika og afgangurinn því lífræn leysiefni. Hitt sýnið hafi verið með 89% styrkleika af amfetamínbasa. Amfetamínbasa væri síðan unnt að breyta í amfetamínsúlfat. A kvað rannsóknarstofuna hafa fengið í hendur frá lögreglu minnisblað vegna amfetamíngerðar. Forsendur þeirrar uppskriftar hafi komið heim og saman við gerð á amfetamínsúlfati úr amfetamínbasa. Þá hafi rannsóknarstofan fengið í hendur sýnishorn af etanóli. Það hafi mátt nota við umbreytingu á amfetamínbasa í amfetamínsúlfat. Gjarnan væri miðað við að amfetamín væri 10% að styrkleika við neyslu. Þrátt fyrir það hafi meðalstyrkur þeirra efna er rannsóknarstofan hafi fengið á árinu 2005 verið 20%, en það hafi sótt skýringu í að í nokkrum tilvikum hafi sýni af miklum styrkleika komið til rannsóknar. Algengast væri að sýni væru undir 20% að styrkleika. Í gögnum málsins lægi fyrir álit á hve mikið amfetamínsúlfat hafi verið unnt að framleiða úr þeim efnum er lögregla hafi lagt hald á. Þar væri miðað við hámarkstölur, en magn hafi getað orðið minna ef viðkomandi einstaklingur hafi ekki notað rétt tæki eða réttan búnað, auk þess sem forsendur hafi orðið að vera réttar. A kvaðst telja að einstaklingar sem væru að breyta amfetamínbasa í amfetamínsúlfat yrðu ekki ánægðir ef ekki næðist a.m.k. 90% árangur við breytinguna. Reglugerð um sölu og meðferð ávana- og fíkniefna kvæði á um amfetamínbasa. Ákvæði reglugerðarinnar tækju einnig til allra salta og félli súlfat undir að vera sölt að sínu mati.  

E rannsóknarlögreglumaður stjórnaði lögreglurannsókn málsins. Gerði hann grein fyrir framvindu hennar og einstökum þáttum í rannsókninni. Lögreglumennirnir F og G staðfestu afskipti sín af ákærða við handtöku 4. febrúar 2006. Kváðu þeir ákærða hafa verið órólegan er hann hafi verið inntur eftir tilgangi með komu sinni til landsins. Þá hafi tilgangur hans með komu virst óljós og ákærði orðið tvísaga. Þá hafi verið ákveðið að skoða betur þær áfengisflöskur er hann hafi komið með og þá sést að átt hafi verið við tappa á báðum flöskunum. Hafi m.a. samskonar tappi verið í báðum flöskunum þó svo þær hafi verið mismunandi gerðar. Einnig hafi sést að yfirborð vökva í annarri flöskunni hafi verið óvenjulega lágt.

H aðstoðaryfirlögregluþjónn staðfesti þátt sinn í rannsókn málsins, sem og I rannsóknarlögreglumaður. I kvað frágang á flöskum þeim er ákærði hafi komið með til landsins engan vegin hafa verið í samræmi við það sem almennt gerðist varðandi vínflöskur. Glært vax hafi verið sett yfir tappa á báðum flöskunum sem hafi verið gríðarlega hart og ekki unnt að skafa það af. Þá hafi tappi í báðum flöskunum setið dýpra en almennt væri. J lögreglumaður staðfesti aðkomu sína að rannsókn málsins. Gerði hann grein fyrir því hvernig gögn frá fjarskiptafyrirtækum hafi verið unnin. Hafi J sett þau upp í tímalínu til að þau yrðu myndrænni og auðveldara að átta sig á þeim. Væru símar þar bornir saman miðað við dagsetningar og þá senda sem notaðir væri hverju sinni fyrir viðkomandi síma. Samkvæmt rannsókn lögreglu hafi viðkomandi símar yfirleitt verið saman. Hafi það einnig átt við er sími ákærða hafi farið á Selfoss og upp í Biskupstungur. Sími ákærða og síminn 8458755 hafi þá verið á sömu sendum. Sendar næmu síma við símhringingar og tilraunir til hringinga. K lögreglumaður staðfesti aðkomu sína að rannsókn málsins. Kvaðst hann hafa annast rannsókn á tölvu er ákærði hafi borið að hann hafi nálgast uppskrift í gegnum. Svokölluð internetsaga tölvunnar hafi verið skoðuð og hafi engin samskipti tölvunnar við þau netföng er ákærði hafi fullyrt að hann hafi tengst fundist. L rannsóknarlögreglumaður kvaðst hafa verið viðstaddur yfirheyrslur af ákærða Saulius. Hafi framburður er ákærði gaf við yfirheyrsluna verið færður í lögregluskýrsluna. M rekstrarstjóri Farmiðaþjónustu gaf skýrslu í gegnum síma, en vitnið var statt fjarri þingstað við aðalmeðferð málsins. Féllst dómurinn á þá tilhögun, að beiðni ákæruvalds og með samþykki verjenda ákærðu. Staðfesti M að hafa gefið lögreglu upplýsingar um farmiðakaup og væru á meðal gagna málsins. Kaupandi farmiða hafi gefið upp tiltekin símanúmer við kaupin og hafi þau verið skráð við kaupin. Kaup á farmiða hafi farið fram í gegnum internetið, en ekki í gegnum söluskrifstofu Flugleiða. N kom fyrir dóminn og skýrði gögn úr aðgangskerfi líkamsræktarstöðvarinnar World Class. Kom fram hjá N að teknar væru myndir af auga nýs meðlims stöðvarinnar, en engin tvö augu í einstaklingum væru eins. Gæti aðgangskerfið sagt nákvæmlega til um ferðir viðskiptavina stöðvarinnar um húsnæði World Class.

O kvaðst ekki kannast við símanúmerið 8458755. Kvaðst hún þekkja ákærða Arvydas og eiginkonu hans P. Eiginkona ákærða Arvydas, P, kom fyrir dóminn og kvaðst reiðubúinn að gefa skýrslu. Kvaðst hún ekki kannast við símanúmerið 8458755. Bar hún að eiginmaður sinn gæti hafa keypt síma af einhverjum manni að nafni D. Ákærði hafi hins vegar ekki notað þann síma. Q kvaðst hafa unnið fyrir ákærða Arvydas. Að því er varðaði samskipti við símanúmerið 8458755 frá 19. janúar 2006 til 6. febrúar 2006 kvaðst Q lítið getað sagt um það en muna að á því tímabili hafi maður að nafni Vidas haft samband við sig, þá nýkominn frá Litháen. Hafi hann spurt Q hvort hann gæti aðstoðað sig með vinnu á Íslandi. Hafi hann lofað að kanna málið en ekki hafi verið hægt að fá vinnu fyrir Vidas þar sem maðurinn hafi ekki verið með atvinnuleyfi. Hvorki þekkti hann manninn né hefði hann heyrt frá honum eftir þetta.  

Niðurstaða:

Ákærðu neita báðir sök. Ákærði Saulius hefur frá upphafi rannsóknar máls þessa borið að hann hafi staðið í þeirri trú að umræddar flöskur hafi einungis innihaldið leyfilegt áfengismagn. Hefur hann lýst því að óþekktur maður hafi hitt ákærða á veitingastað í Litháen og beðið ákærða um að fara til Íslands með tvær áfengisflöskur. Hafi ákærða einungis verið gefið upp að hringt yrði í hann við komu til Íslands í símanúmer er ákærða hafi verið afhent ytra. Hafi ákærði farið í fyrri ferðina 19. desember 2005 og afhent þær flöskur manni er hafi, að undangenginni símhringingu til ákærða, sótt þær þar sem ákærði hafi verið staddur á Hótel Cabin í Reykjavík. Hafi ákærði farið með manninum heim til hans, auk þess sem maðurinn hafi keypt fyrir ákærða farmiða heim aftur, þar sem ákærði hafi viljað flýta för sinni. Sami háttur hafi verið hafður á í tengslum við ferðina til landsins 4. febrúar 2006, en fyrir hana hafi ákærði aftur fengið afhentar af sama manni í Litháen tvær áfengisflöskur til að flytja til Íslands. Sú för hafi fengið annan endi í kjölfar þess að tollverðir hafi lagt hald á flöskur þær sem ákærði hafi haft meðferðis.

Ákærði Arvydas hefur viðurkennt að hafa hitt mann á Hótel Cabin er hafi komið til landsins 19. desember 2005. Að beiðni manns að nafni C hafi ákærði veitt tveimur flöskum af áfengi viðtöku hjá þessum manni, sem ljóst er af gögnum málsins og framburðum ákærðu að hafi verið meðákærði Saulius. Ákærði Arvydas hefur borið að hann hafi afhent þessar flöskur nefndum C. Um vitneskju, tengda síðari komu ákærða Saulius til landsins 4. febrúar 2006, hefur ákærði Arvydas ekkert viljað kannast við.

Í málinu liggja fyrir matsgerðir Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræðum. Þær staðfesta að ákærði Saulius flutti með sér til landsins 1.745 ml af vökva sem innihélt amfetamínbasa. Reyndust 995 ml vera í annarri flöskunni með 77% styrkleika af amfetamínbasa. Í hinni flöskunni voru 750 ml með 89% styrkleika af amfetamínbasa. Þá liggja frammi í málinu matsgerðir, auk þess sem A dósent á Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræðum hefur staðfest, að amfetamínsúlfat sé unnt að framleiða úr amfetamínbasa. Ef hámarksárangri sé náð sé unnt að framleiða 1.813 g af amfetamínsúlfati úr efninu. Sé það drýgt niður í 10% styrkleika, sem sé almennur styrkleiki við neyslu, sé unnt að framleiða úr efninu 13,3 kg af amfetamíni.

Við mat á sök ákærða Saulius er til þess að líta að ákærði hafði augljóslega einhverju að leyna við komu til Íslands 4. febrúar 2006. Gaf hann tollyfirvöldum og lögreglu rangar og misvísandi upplýsingar um tilgang með komu sinni til landsins. Í framburðum F og G, er afskipti höfðu af ákærða á Keflavíkurflugvelli, kom auk þess fram að ákærði hafi verið taugaóstyrkur við komuna og eftir að hann varð þess vís að grunur hafði vaknað um að ekki væri allt með felldu. Þá er til þess að líta að ákærði hefur orðið tvísaga í málinu. Hélt hann lengi vel við þann framburð sinn að hann hafi eingöngu verið á leið til Íslands til að kynnast landi og þjóð og breytti ekki þeim framburði fyrr en að loknum talsverðum yfirheyrslum, en þá skýrði hann frá  raunverulegum tilgangi með för sinni til landsins. Þá verður að horfa til þess að öll umgjörð í tengslum við flutning ákærða á umræddum flöskum var afar sérkennileg. Þannig kveðst ákærði, að beiðni óþekkts manns í Litháen sem greitt hafi fyrir flug og uppihald, hafa flutt til Íslands tvær flöskur af áfengi án þess að hann hefði nokkrar upplýsingar um viðtakanda eða símanúmer hans, sem ákærði hafi afhent óþekktum manni á Íslandi á hótelherbergi, eftir að hinn síðarnefndi hafi hringt í ákærða og sannreynt veru hans hér á landi. Jafnframt liggur fyrir að frágangur á vínflöskunum var ekki venjubundinn og leyndist tollyfirvöldum ekki við skoðun að átt hafði verið við tappa á báðum flöskunum. Þrátt fyrir að ákærði hafi fyrir dómi synjað fyrir að hafa fengið sérstaka þóknun fyrir þennan flutning bar hann í tvígang hjá lögreglu að hafa átt að fá þóknun fyrir verkið. Öll þessi umgjörð samræmist því sem þekkt er þegar svonefnd burðardýr flytja fíkniefni milli landa. Er sá framburður ákærða, að hann hafi ekki vitað um að flöskurnar innihéldu ólögmæt fíkniefni, fjarstæðukenndur í ljósi annarra gagna málsins. Þegar til alls þessa er litið er það niðurstaða dómsins að ákærða hafi verið fullljóst að hann hafi greint sinn verið að flytja ólögleg fíkniefni til landsins. Um er að ræða verulegt magn amfetamíns af miklum styrkleika. Verður ákærði sakfelldur samkvæmt ákæru fyrir brot gegn 173 gr. a. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 64/1974, sbr. 1. gr. laga nr. 32/2001.

Við mat á sök ákærða Arvydas er til þess að líta að ákærði hefur orðið margsaga um fjölmörg atriði. Bera umfangsmiklar yfirheyrslur með sér að ákærði hefur verið ákaflega ósamvinnuþýður við yfirheyrslur og svarað mörgum spurningum lögreglumanna af ónákvæmni og jafnvel út í hött. Í upphafi rannsóknar vildi ákærði ekkert kannast við flutning á vínflöskum til landsins og það var ekki fyrr en í fjórðu yfirheyrslu hjá lögreglu að hann kannaðist við þátt sinn í málinu er tengdist ferð meðákærða til landsins 19. desember 2005. Þá hefur ákærði greint frá manni að nafni C, sem hann hefur enga grein getað gert fyrir, sem hafi beðið ákærða, gegn þóknun, að veita viðtöku tveimur áfengisflöskum á hótelherbergi af manni sem hafi verið að koma með flugi frá útlöndum. Ákærði hefur ýmist fullyrt að hann hafi skilið flöskurnar eftir nærri heimili sínu eða að hann hafi afhent þær nefndum C. Ákærði hafi hins vegar verið svikinn um þóknun fyrir verkið. Öll atriði tengd þessari afhendingu eru tortryggileg og gátu ekki gefið ákærða tilefni til annars en að álykta að um væri að ræða ólöglegan varning. Þá liggur fyrir að lögregla lagði hald á minnismiða í náttborðsskúffu á heimili ákærða sem A, dósent á Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræðum, hefur staðfest að hafi að geyma lýsingu á því hvernig breyta megi amfetamínbasa í amfetamínsúlfat. Sú fullyrðing ákærða að hann hafi sótt uppskriftina á internetið að beiðni C er fráleit, auk þess sem lögregla gekk úr skugga um internetsögu þeirrar tölvu er ákærði bar að hann hafi notað til verksins, en þar voru engin ummerki um að farið hafi verið inn á þá slóð er ákærði fullyrðir að hann hafi gert. Lögregla hefur aflað yfirgripsmikilla ganga um símasamskipti í tengslum við málið. Notkun símanúmersins 8458755 skipar þar veglegan sess. Við það símanúmer hefur ákærði ekkert viljað kannast. Ákærði hefur viðurkennt að hafa sjálfur verið með símanúmerið 8660470. Samkvæmt gögnum lögreglu hefur það símanúmer löngum stundum verið á sama stað og símanúmerið 8458755, en það hefur komið í ljós þegar skoðað hefur verið hvaða sendar hafa móttekið sendingar frá þessum símum. Þá hefur ákærði viðurkennt að hafa farið í ferð á Gullfoss og Geysi, sem hafi endað með því að hann hafi, ásamt öðrum manni, gist í sumarbústað skammt frá Geysi. Athuganir á gögnum frá fjarskiptafyrirtækjum hafa leitt í ljós að bæði sími ákærða og sími með númerinu 8458755 voru með í þeirri ferð. Einnig er til þess að líta að er ákærði keypti farmiða fyrir mann að nafni B 20. janúar 2006 og greiddi fyrir hann með greiðslukorti sínu var símanúmerið 8458755 gefið upp sem númer kaupanda. Þá er til þess að líta að símanúmerið 8458755 hefur samkvæmt gögnum lögreglu alloft verið í sambandi við símanúmer vinkonu eiginkonu ákærða Arvydas og vinar hans Q. Loks er til þess að líta að ákærði breytti fyrir dómi framburði sínum varðandi þennan síma, sem hann hafði fram til þess ekkert viljað kannast við og bar þá að hann hafi keypt síma af manni að nafni D sem hafi sennilega verið með þessu símanúmeri. Þann síma hafi hann geymt heima hjá sér án þess að nota hann. Þegar til alls þessa er litið eru að mati dómsins komin fram fullnægjandi gögn til að slegið verði föstu að ákærði Arvydas hafði yfir að ráða símanúmerinu 8458755. Rannsóknargögn bera með sér að úr þessu símanúmeri var hringt alls 13 sinnum í símanúmer ákærða Saulius eftir komu þess síðarnefnda til landsins 4. febrúar 2006. Ákærði Saulius hefur ekki viljað fullyrða hver hafi átt að veita viðtöku flöskum þeim er hann flutti til landsins 4. febrúar 2006, en borið að umgjörð þeirrar ferðar hafi öll verið hin sama og þegar hann réðst í ferðina í desember síðastliðnum. Samkvæmt framansögðu er framburði ákærða Arvydas hafnað sem ótrúverðugum. Þegar allt framangreint er virt heildstætt er það niðurstaða dómsins að hafið sé yfir skynsamlegan vafa að ákærði Arvydas hafi átt að veita viðtöku þeim flöskum er meðákærði Saulius flutti til landsins í febrúar 2006 og vitað að þær innihéldu fíkniefni. Svo sem áður er rakið var um að ræða 1.745 ml af vökva er innihélt amfetamínbasa, sem unnt hefði verið að framleiða 13,3 kg af amfetamíni í neysluformi úr. Slíkt magn af amfetamíni er ekki flutt til landsins til annars en að setja það í söludreifingu í ágóðaskyni. Samkvæmt því  verður ákærði Arvydas einnig sakfelldur samkvæmt ákæru fyrir brot gegn 173 gr. a. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 64/1974, sbr. 1. gr. laga nr. 32/2001.

Ákærði Arvydas gekkst undir tvær sáttir á árinu 2001 vegna umferðarlagabrota. Að öðru leyti hefur hann ekki áður sætt refsingu svo kunnugt sé. Ákærði Saulius hefur ekki áður sætt refsingu svo kunnugt sé.

Við ákvörðun refsingar beggja ákærðu er til þess að líta að þeir hafa verið sakfelldir fyrir að hafa átt þátt í að flytja til landsins verulegt magn hættulegra fíkniefna af miklum styrkleika. Um var að ræða styrkan og einbeittan brotavilja beggja ákærðu. Þegar horft er til innflutningsins í desember síðastliðnum, sem hefur allur sama yfirbragð og innflutningur sá er mál þetta tekur til, þykir og vera ljóst að um skipulagða brotastarfsemi hefur verið að ræða. Ekki þykja efni til að gera greinarmun á þætti ákærðu í málinu, en hvorugur þeirra á sér neinar málsbætur. Samkvæmt framansögðu og með vísan til 1. og 6. tl. 1. mgr. 70. gr. laga nr. 19/1940 er refsing beggja ákærðu ákveðin fangelsi í 2 ár og sex mánuði. Frá refsingunni ber að draga gæsluvarðhaldsvist ákærðu, en gæsluvarðhald ákærða Arvydas hefur staðið óslitið frá 12. febrúar 2006 og ákærða Saulius frá 4. sama mánaðar.

Með vísan til lagaákvæða í ákæru eru upptæk gerð til ríkissjóðs 1.745 ml af vökva sem innihélt amfetamínbasa, 2 töflur af fíkniefninu MDMA og 1.505 ml af etanólvökva, sem lagt var hald á við rannsókn málsins.

Ákærðu verða dæmdir til að greiða í félagi sakarkostnað samkvæmt yfirliti lögreglustjóra um sakarkostnað frá 15. júní 2006. Þá greiði þeir í félagi ferðakostnað vitnis, að fjárhæð 25.810 krónur. Ákærði Arvydas verður dæmdur til að greiða ferðakostnað verjanda síns, að fjárhæð 108.000 krónur. Loks verður hann dæmdur til að greiða tildæmd málsvarnarlaun verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, að viðbættum virðis­aukaskatti, sem í dómsorði greinir. Ákærði Saulius verður dæmdur til að greiða þóknun verjanda síns Bjarna Haukssonar héraðsdómslögmanns á rannsóknarstigi að fjárhæð 654.247 krónur. Jafnframt ber að dæma hann til að greiða  málsvarnarlaun verjanda síns fyrir dómi, að viðbættum virðis­aukaskatti, eins og í dómsorði greinir.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Daði Kristjánsson, fulltrúi lögreglustjórans í Reykjavík.

Dóminn kváðu upp héraðsdómararnir Símon Sigvaldason, Friðgeir Björnsson og Helgi I. Jónsson dómstjóri.

D ó m s o r ð:

Ákærðu, Arvydas Maciulskis og Saulius Prusinskas, sæti hvor um sig fangelsi í tvö ár og sex mánuði. Til frádráttar refsingum komi gæsluvarðhald ákærða Arvydas frá 12. febrúar 2006 og ákærða Saulius frá 4. febrúar 2006.

Upptæk eru gerð til ríkissjóðs 1.745 ml af vökva sem innihélt amfetamínbasa, 2 töflur af fíkniefninu MDMA og 1.505 ml af etanólvökva, sem lagt var hald á við rannsókn málsins.

Ákærði, Arvydas Maciulskis, greiði 2.006.344 krónur í sakarkostnað, þar með talin réttargæslu- og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 1.766.655 krónur.

Ákærði, Saulius Prusinskas, greiði 1.163.918 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Björgvins Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 377.982 krónur, og þóknun verjanda síns á rannsóknarstigi, Bjarna Haukssonar héraðsdómslögmanns, 654.247 krónur.