Hæstiréttur íslands
Mál nr. 258/2013
Lykilorð
- Vátrygging
|
|
Fimmtudaginn 17. október 2013. |
|
Nr. 258/2013.
|
Merlot ehf. (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) gegn Verði tryggingum hf. (Björn L. Bergsson hrl.) og gagnsök |
Vátrygging.
M ehf. höfðaði mál gegn vátryggingafélagi sínu V hf. og krafðist greiðslu vegna tjóns er varð er skemmtistaður M ehf. brann. Ekki var deilt um bótaskyldu heldur um umfang tjónsins og eignarhaldi á hluta þeirra muna sem brann en kröfur M ehf. voru byggðar á lausafjár- og rekstrarstöðvunartryggingum. Ekki var fallist á með M ehf. að félagið ætti að fá bætt tjón vegna muna sem fyrir lá að höfðu verið í eigu annars fyrirtækis sem rekið hafði skemmtistað í sama húsnæði en M ehf. þótti ekki hafa sýnt fram á að það hefði eignast umrædda muni. Þá var ekki fallist á að munir sem töldust hluti fasteignar hefðu verið í eigu M hf. Yfirmatsgerð var að öðru leyti lögð til grundvallar um fjárhæð munatjóns M ehf. og var miðað við verðmæti muna á tjónsdegi án virðisaukaskatts. Þar sem M ehf. hafði ekki sýnt fram á greiðslur launa eftir brunann var ekki fallist á að þann hluta kröfu félagsins en talið var að M ehf. ætti að fá greitt vegna tjóns á vínbirgðum í samræmi við mat í undirmati. Var því fallist á hluta af kröfum M ehf. að frádreginni þeirri greiðslu sem V hf. hafði þegar greitt.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. apríl 2013. Hann krefst þess að gagnáfrýjanda verði aðallega gert greiða sér 46.675.491 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 26. apríl 2010 en til vara 43.630.237 krónur með dráttarvöxtum eins og greinir í aðalkröfu, allt að frádreginni innborgun 28. júní 2013 samtals að fjárhæð 12.996.195 krónur. Þá krefst aðaláfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 26. júní 2013. Hann krefst sýknu af kröfu aðaláfrýjanda og að málskostnaður í héraði verði felldur niður. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi hóf aðaláfrýjandi rekstur skemmtistaðarins Batteríið ehf. í Hafnarstræti 1-3 í Reykjavík í september 2008 og rak hann allt til 23. mars 2010 er staðurinn eyðilagðist í bruna. Þegar tjónið varð hafði aðaláfrýjandi gildar tryggingar hjá gagnáfrýjanda, annars vegar lausafjártryggingu og hins vegar rekstrarstöðvunartryggingu. Aðaláfrýjandi tilkynnti gagnáfrýjanda um tjónið 26. mars 2010 og krafðist greiðslu bóta.
Í málinu er ekki deilt um bótaskyldu gagnáfrýjanda heldur lýtur ágreiningur að umfangi tjónsins og eignarhaldi á hluta þeirra muna sem brann. Gagnáfrýjandi greiddi aðaláfrýjanda 28. júní 2013 bætur vegna brunans samtals 12.996.195 krónur, þar af 461.687 krónur vegna dráttarvaxta miðað við gjalddaga 15. janúar 2013. Telur gagnáfrýjandi sig þar með hafa greitt aðaláfrýjanda fullar bætur í samræmi við vátryggingarskilmála trygginganna.
II
Hinn 23. ágúst 2013 voru Erlendur Örn Fjelsted og Finnur Torfi Magnússon dómkvaddir að beiðni aðaláfrýjanda til að leggja yfirmat á tjón sem varð á lausafjármunum í brunanum. Reisir aðaláfrýjandi dómkröfu sína á þessari matsgerð.
Í yfirmatinu kom fram að hlutverk matsmanna væri að meta tjón á lausafé samkvæmt þeim upplýsingum og gögnum sem fyrir lágu en ekki að taka afstöðu til eignarhalds á því. Óumdeilt er að í matinu eru upptaldar og metnar eignir sem áður voru í eigu Jam ehf. en það félag leigði húsnæðið áður en aðaláfrýjendur tóku það á leigu. Í forsendum matsgerðarinnar var rakið við hvaða gögn væri stuðst, en magntölur hafi komið fram á listum sem stafi annars vegar frá aðaláfrýjanda og hins vegar gagnáfrýjanda auk þess sem hafðar hafi verið til hliðsjónar myndir sem teknar voru þegar húsið var hreinsað. Metna lausafjármuni hafi verið að finna á listum þessum, á lista yfir muni í gámi, á myndum og teikningum.
Í yfirmatsgerð eru munir flokkaðir í þrjá flokka en þeir eru í fyrsta lagi munir sem taldir eru upp á listum beggja aðila, í öðru lagi munir sem einungis eru taldir upp á lista aðaláfrýjanda en eru hvorki á lista gagnáfrýjanda né á myndum og í þriðja lagi munir sem matsmenn telja ekki lausafé heldur hluta fasteignar eða upplýsingar um þá ófullnægjandi. Í málinu er ekki við önnur gögn að styðjast en þau sem matsmenn vísa til. Hefur aðaláfrýjanda ekki tekist að sýna fram á það með haldbærum gögnum að öðrum eignum hafi verið til að dreifa við brunann en þeim sem eru á listum beggja aðila og eftir atvikum á ljósmyndum. Þá hefur aðaláfrýjanda ekki tekist sönnun á að hann hafi átt tilkall til þeirra muna sem matsmenn telja hluta fasteignar, en í leigusamningi um eignina kemur fram að allar innréttingar og standsetning á hinum leigða húsnæði skuli vera eign leigusala við lok leigusamnings. Verður aðaláfrýjandi að bera hallann af þessum sönnunarskorti. Verður yfirmatsgerð verður lögð til grundvallar mati á tjóni aðaláfrýjanda vegna lausafjármuna í hans eigu sem eyðilögðust í brunanum, enda hefur henni ekki verið hnekkt. Skal í því sambandi miðað við verðmæti munanna á tjónsdegi 23. mars 2010 án virðisaukaskatts. Samkvæmt yfirmatsgerð eru munir þeir sem sannað þykir að hafi skemmst í brunanum metnir á 18.445.400 krónur.
Aðilar deila um það hvort munir sem áður tilheyrðu Jam ehf. hafi á tjónsdegi verið eign aðaláfrýjanda en munir þessir eru ekki sérgreindir í yfirmatsgerðinni. Aðaláfrýjandi hefur haldið því fram að hann hafi keypt þessa muni af leigusalanum þegar hann tók húsnæðið á leigu og staðfesti fyrirsvarsmaður leigusala það fyrir dómi. Fyrirsvarsmaður leigusala kvaðst hafa eignast þessa muni þar sem Jam ehf. hefði skuldað í kringum 10.000.000 til 12.000.000 krónur í húsaleigu og „ég tók bara lögin í mínar hendur og henti honum út ... Ég fór og læsti húsinu og tók húsið.“ Hafi leigusalinn selt aðaláfrýjanda þessa muni en hann mundi ekki söluverðið „einhverjar 10.00.000 15.000.000, ég man ekki nákvæmlega töluna“. Fyrir dómi bar Páll Gunnar Ragnarsson, annar eigenda aðaláfrýjanda, að félagið hafi keypt þessar eignir af leigusala en hann myndi ekki alveg verðið en sagði það hafa verið „svona 15 milljónir, eitthvað svoleiðis.“ Engum öðrum gögnum er til að dreifa um þessi ætluðu viðskipti og ekkert er á þau minnst í ítarlegum skriflegum leigusamningi milli leigusala og aðaláfrýjanda. Þegar það er virt að hin ætluðu viðskipti voru um eignir sem óljóst var um eignarhald á, milli tveggja bókhaldsskyldra aðila og að um háar fjárhæðir var að ræða hefur aðaláfrýjandi ekki lagt fram óyggjandi gögn því til stuðnings að hann hafi eignast umrædda muni.
Í undirmatsgerð Jóns Scheving Thorsteinssonar sem dómkvaddur var 1. júní 2012 eru þeir munir sem tilheyrðu Jam ehf. sérgreindir. Eru munir þessir sundurliðaðir í matsgerðinni svo: Leður á súlum, leðurbekkur, stórt búr fyrir hljóðmenn, uppþvottavél, stórt stálborð fyrir uppþvottavél, hillur á lagersvæði, stálvaskar og rafmagnstafla. Tveir fyrsttöldu munirnir og sá síðasti eru ekki metnir til verðs í yfirmati þar sem þeir teljast hluti fasteignar. Þá er stórt búr fyrir hljóðmenn ekki á listum beggja aðila og því ekki meðal þeirra muna sem sannað þykir að tilheyrt hafi aðaláfrýjanda. Aðrir munir sem tilheyrðu Jam ehf. voru metnir svo í yfirmatsgerð miðað við tjónsdag og án virðisaukaskatts: Uppþvottavél 543.900 krónur, stórt stálborð fyrir uppþvottavél 422.000 krónur, hillur á lagersvæði 44.800 krónur, stálvaskar 70.100 krónur eða samtals 1.080.800 krónur sem dragast því frá ofangreindu mati lausafjármuna. Er því tjón aðaláfrýjanda á lausafé samtals að fjárhæð 17.364.600 krónur.
III
Kostnaður vegna rekstrarstöðvunar var metinn í undirmati en ekki í yfirmati. Hefur gagnáfrýjandi hafnað því að rétt hafi verið að reikna með launum og launatengdum gjöldum í þeim kostnaði en matsmaður áætlaði þann kostnað miðað við að um væri að ræða greiðslu launa í uppsagnarfresti. Þrátt fyrir áskorun þess efnis frá gagnáfrýjanda hefur aðaláfrýjandi ekki lagt fram gögn um greiðslur launa eftir að tjónið varð og er því sá liður kröfunnar að fjárhæð 1.264.494 krónur ósannaður. Í kostnaði vegna rekstrarstöðvunar reiknar matsmaður með efnisnotkun vegna áfengis samtals að fjárhæð 2.354.696 krónur. Telur gagnáfrýjandi að þar sem hann hafi í samræmi við hinn áfrýjaða dóm þegar greitt fyrir þennan lið sem hluta af tjóni á lausafjármunum sé honum óskylt að gera það aftur en hann fellst á að honum beri að greiða fyrir vínbirgðir, en einungis einu sinni. Enda þótt hér sé í raun um að ræða vínbirgðir sem eru hluti af lausafé, þá voru þær ekki metnar í yfirmati þar sem upplýsingar um magn og verð lágu ekki fyrir. Með því að gagnáfrýjandi hefur viðurkennt að honum beri að bæta aðaláfrýjanda tjón vegna vínbirgða sem fóru forgörðum og ekki er ágreiningur um mat á þeim verður krafa aðaláfrýjanda vegna rekstrarstöðvunar viðurkennd að fjárhæð 3.389.204 krónur.
Að öllu því virtu sem nú hefur verið rakið verður gagnáfrýjanda gert að greiða aðaláfrýjanda 20.753.804 krónur með dráttarvöxtum eins og greinir í dómsorði allt að frádreginni innborgun 28. júní 2013 samtals að fjárhæð 12.996.195 krónur.
Eftir þessum úrslitum verður gagnáfrýjanda gert að greiða aðaláfrýjanda málskostnað sem ákveðinn verður í einu lagi í héraði og fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Gagnáfrýjandi, Vörður tryggingar hf., greiði aðaláfrýjanda, Merlot ehf. 20.753.804 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 17. október 2013 til greiðsludags allt að frádreginni innborgun 28. júní 2013 að fjárhæð 12.996.195 krónur.
Gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjanda samtals 2.500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 22. janúar 2013.
Mál þetta, sem var dómtekið 15. janúar sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Merlot ehf., Rauðagerði 65, Reykjavík á hendur Verði hf., Borgartúni 25, Reykjavík, með stefnu birtri 21. desember 2011.
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær aðallega, að stefnda verði gert að greiða honum 58.241.698 kr. með dráttarvöxtum frá 26. mars 2010 til greiðsludags, skv. III. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.
Til vara að stefnda verði gert að greiða 43.630.237 kr. með dráttarvöxtum frá 26. mars 2010 til greiðsludags, skv. III. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Þá er krafist málskostnaðar.
Endanlegar dómkröfur stefnda eru þær að hann krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar að mati réttarins. Til vara er krafist lækkunar á dómkröfu stefnanda og málskostnaðar.
Málavextir
Stefnandi þessa máls er einkahlutafélag sem var stofnað 2008 og er í eigu Gunnars Más Þráinssonar og Páls Gunnars Ragnarssonar. Stefnandi hóf rekstur skemmtistaðarins Batteríið í Hafnarstræti 1-3 í Reykjavík hinn 25. september 2008 og rak hann allt til 23. mars 2010 er staðurinn eyðilagðist í bruna. Um altjón var að ræða á húsi og innréttingum og hóf stefnandi ekki starfsemi aftur í húsnæðinu.
Í desember 2009 keypti stefnandi tryggingar hjá stefnda. Meðal þeirra var lausafjártrygging sem tók gildi 2. desember 2009 og var gildistími hennar til 30. nóvember 2010. Tryggingin náði til innréttinga, áhalda og tækja og er vátryggingarfjárhæðin 70.000.000 kr. Einnig var keypt rekstrarstöðvunartrygging sem hafði sama gildistíma og lausafjártryggingin en var tekin vegna bruna, vatns og innbrots. Vátryggingarfjárhæðin er 36.000.000 kr. Kröfur stefnanda á hendur stefnda byggja á þessum tveimur tryggingum.
Hinn 26. mars 2010 tilkynnti stefnandi um tjónið og krafðist greiðslu bóta. Í fyrstu hafnaði stefndi bótaskyldu, þar sem bruninn var rannsakaður hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu sem brennubrot. Rannsókn málsins var hætt hinn 9. ágúst 2010, þar sem ekki var hægt að upplýsa um ætlaðan geranda. Stefndi hefur viðurkennt bótaskyldu en ágreiningur snýst um fjárhæð bótanna.
Í málinu liggja fyrir tvær matsgerðir. Annars vegar leitaði stefndi til Þóris Ólafssonar endurskoðanda hjá Local Partnes. Niðurstöður hans voru þær að lausafjártjónið væri á bilinu 1,8-7,8 milljónir króna og rekstrarstöðvunartjónið væri 714 þúsund krónur.
Hinn 1. júní 2012 var Jón Scheving Thorsteinsson dómkvaddur til að leggja mat á fjárhagstjón stefnanda. Niðurstaða hans var sú að tjón á lausafé var metið á 38.976.539 krónur og tjón vegna rekstarstöðvunar var metið á 4.653.698 krónur eða samtals 43.630.237 krónur sem er varakrafa stefnanda.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Í upphafi tekur stefnandi fram að ágreiningslaust sé að tjón hans sé bótaskylt af hálfu stefnda. Einungis sé ágreiningur um fjárhæð bótanna,
Um lausafjártrygginguna. Stefnandi telur að skemmtistaðurinn Batteríið hafi verið óvenju glæsilegur staður. Miklu hafi verið kostað til við innréttingar og allur búnaður verið hinn vandaðasti. Sé því ekki kynlegt að fulltrúi stefnda sem kom og skoðaði aðstæður hafi tryggt lausaféð og innréttingar upp á 70 milljónir króna.
Um brunatryggingar lausafjár hjá stefnda gildi skilmálar nr. E-3, er tóku gildi hinn 1. janúar 2010. Samkvæmt skilmálunum gildi tryggingin á þeim stað sem tiltekinn sé í vátryggingarskírteini, en það sé einmitt Hafnarstræti 1-3, fastanúmer 200-2581 og sé eigandi hagsmunanna vátryggður. Samkvæmt grein 2.1 bætir tryggingin tjón sem verður vegna eldsvoða og við ákvörðun bóta skal skv. ákvæði 5.1 miða við enduröflunarverð á sambærilegum hlutum og þeim sem skemmst hafa eða eyðilagst.
Í tölvubréfi til Páls Eiríks Kristinssonar hdl., segir Sigurður Óli Kolbeinsson, þáverandi forstöðumaður tjónasviðs stefnda, að félagið hafi verið að fara yfir ársreikninga stefnanda skv. ársreikningum fyrir árið 2009 og lista yfir tjónaða muni og að skv. þeim hafi stefnandi átt áhöld og tæki að verðmæti 1.739.377 kr. og því til viðbótar hafi vörubirgðir að fjárhæð 2.443.250 kr. verið til staðar í árslok 2009. Bætir hann við að vænta megi að þar hafi að langmestu leyti verið um áfengi að ræða en þar sem ekki hafi fundist ein einasta vínflaska á staðnum í kjölfar brunans, ætli stefndi að þessar birgðir hafi verið geymdar annars staðar og því ekki orðið fyrir tjóni.
Varðandi ársreikninga stefnanda og verðmæti lausafjár þá sé það auðvitað svo að ársreikningar gefi oft ekki rétta mynd af verðmæti lausafjár, t.d. vegna afskrifta eða vegna þess að viðkomandi útgjöld hafa ekki verið eignfærð heldur færð sem rekstrargjöld og enn síður að efnisgjöld og vinna vegna innréttingasmíði sé færð undir lausafé í bókhaldi en skv. skilmálum lausafjártryggingar nær hún einnig til innréttinga. Vanhöld geta síðan iðulega verið á því að allar eignir rati inn í bókhald félags í rekstri eins og þeim sem stefnandi stundar. Einnig ber að hafa í huga að ekki sé hægt að setja samasemmerki milli bókfærðs verðmætis lausafjár og bótaskylds tjóns, jafnvel þótt tekið væri tillit til afskrifta og rekstrargjalda, þar sem gert sé ráð fyrir því í skilmálum tryggingarinnar að tjónsbætur miðist við enduröflunarverð á sambærilegum hlutum og þeim sem skemmst hafi.
Varðandi áfengislager sé bent á efnahags- og rekstarreikning Merlot ehf. fyrir árið 2009. Kemur þar fram að vörubirgðir á áramótum séu 2.443.250 kr. en í árshlutauppgjöri fyrir 2010 miðað við 23. mars 2010, kemur fram að hráefniskaup séu 2.586.500 kr. Jafnframt sé vísað til yfirlýsingar Stefáns Aðalsteinssonar, sem tók þátt í hreinsun brunarústanna, sem staðfestir að þar hafi verið að finna mikið magn af áfengisflöskum og umbúðum sem orðið höfðu eldinum að bráð. Einnig sé bent á lista, sem hafi að geyma yfirlit stefnda yfir muni sem urðu eldinum að bráð, þar vantar lausafé af miðhæðinni en fulltrúar frá stefnda mættu ekki á vettvang þegar sú hæð var hreinsuð. Af hálfu stefnanda hafi verið lagður fram list yfir verðmæti sem skemmdust af þessari hæð sem og öðrum. Hafi þessi misskilningur stefnda því verið leiðréttur.
Stefnandi tók á leigu húsnæðið að Hafnarstræti 1-3 í Reykjavík skv. leigusamningi sem dags. er 25. september 2008. Þennan stað rak áður einkahlutafélag sem hét Jam ehf., en eignir þess á staðnum höfðu runnið til leigusala og voru við leigusamning um húseignina yfirteknar af stefnanda.
Um rekstrarstöðvunartrygginguna. Stefnandi tekur fram að samkvæmt skilmálum stefnda um rekstarstöðvunartryggingu taki vátryggingin til tjóns sem vátryggður verði fyrir vegna samdráttar í vörusölu eða þjónustu. Hefjist atvinnurekstur vátryggingartaka ekki aftur eftir vátryggingaratburð miðast bótafjárhæð við þann tíma sem eðlilegt megi telja að liðið hefði áður en rekstur gæti hafist aftur, en þó aldrei lengri tíma en tilgreindur sé í vátryggingarskírteini, sem sé 12 mánuðir. Af þeirri fjárhæð sem fæst með þessu skal aðeins greiða óhjákvæmilegan kostnað, sem stefnandi getur sannað að hann hafi lagt út í. Stefndi skal bæta þann mismun sem verður á bótatímanum á áætlaðri veltu að frádreginni raunverulegri notkun aðkeyptra verslunarvara til endursölu og hráefni og hálfunninna vara. Frá bótafjárhæðinni dragist kostnaður sem vátryggður getur sparað sér.
Samkvæmt leigusamningi stefnanda við leigusalann BS 10 ehf. var um að ræða 10 ára leigusamning og samkvæmt grein 9.3 í samningnum skal leigutaki hafa nægjanlega rekstrarstöðvunartryggingu til að standa undir leigugreiðslum til 12 mánaða. Mánaðarleg leigugreiðsla var fyrst 1.469.373 kr. á mánuði og skyldi sú fjárhæð fylgja neysluvísitölu, en með sérstöku samkomulagi hinn 5. ágúst 2009 var mánaðarleiga lækkuð í 1.000.000 kr. Leigutaki réðst í að byggja að nýju á grunni brunarústanna en ekki varð af frekari rekstri stefnanda í húsnæðinu. Hann sé hins vegar skuldbundinn því að standa skil á leigugreiðslum út tryggingartímann en leigusali kom húsnæðinu ekki aftur í útleiguhæft ástand fyrr en sumarið 2011.
Kröfugerð stefnanda í aðalkröfu miðast við verðmat á yfirliti frá stefnanda að viðbættum hlutum sem fram koma á lista frá stefnda, sbr. dskj. 13 samtals 53.588.000 kr. sem er vegna lausafjár. Vegna rekstrarstöðvunartryggingarinnar er krafist 4.653.698 kr. sem er samkvæmt niðurstöðu dómkvadds matsmanns. Samtals er aðalkrafan að fjárhæð 58.241.698 kr. Varakrafan tekur mið af niðurstöðu matsgerðar dómkvadds matsmanns.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi telur bótakröfu stefnanda svo vanreifaða og ósannaða, að ekki verði fallist á dómkröfur hans. Fjárhæð bóta sem stefnandi kann að eiga rétt á sé algerlega ósönnuð. Það sé grundvallarskylda stefnanda sem bótakrefjanda að gera grein fyrir umfangi tjóns síns sem hann krefst bóta fyrir enda tryggingar þær sem um sé að ræða hvorug verðsett. Sönnunarskortur sem slíkur, sem ekki er bætt úr, leiðir ekki til annarrar niðurstöðu en þeirrar að sýkna verði stefnda. Stefnandi hefur teflt fram algerlega ófullnægjandi gögnum í þessum efnum og lítt haldbærum röksemdum.
Um lausafjártrygginguna. Í staðhæfingum stefnanda felst í raun engin sönnun. Starfsmaður stefnda sem skoðaði staðinn, þegar tryggingin var tekin, verðlagði ekki þá muni sem á staðnum voru, enda er tryggingin ekki verðsett. Ósannað sé af hálfu stefnanda í öllum verulegum dráttum að hann hafi átt þá muni sem fjarlægðir voru eftir bruna. Gögn úr bókhaldi annars félags í eigu óskylds aðila, Jam ehf., skýtur í raun öndverðum stoðum undir það. Af þeim gögnum megi álykta að stefnandi hafi ekki átt þessa muni.
Dómskjal nr. 14, sem sagt sé fela í sér tilboð um endurnýjun muna, feli ekki heldur í sér neina sönnun um eignarhald þeirra muna sem forgörðum fóru. Þessi gögn styðja málatilbúnað stefnanda í litlu og gefa í raun, eins og bókhald Jam ehf., jafnvel tilefni til að álykta að stefnandi eigi ekki þá hagsmuni sem hann krefst bóta fyrir. Sem dæmi megi nefna að listar frá fyrirtækinu Fastus, sem geti að líta meðal gagna sem dómskjal þetta hafi að geyma, virðast að hluta fela í sér sama búnaðinn. Eins komi beinlínis fram að stefnandi hafi ekki greitt fyrir merkingar á veitingastaðnum sem Auglýsingastofan Korter ehf. hafi útbúið. Það hafi komið í hlut Ölgerðarinnar. Tilboðsskjöl þessi eiga sér síðan sáralitla samsvörun, ef nokkra, í bókhaldi stefnanda.
Stefnandi hafi beinlínis haldið því fram, að ekki sé hægt að byggja á ársreikningum stefnanda sjálfs um verðmæti lausafjár, vegna afskrifta og að búnaður hafi ekki verið eignfærður heldur gjaldfærður. Hvernig því megi víkja við og hvernig það samrýmist ákvæðum laga nr. 3/2006 sé í litlu útskýrt af hálfu stefnanda, sbr. t.d. III. kafla laganna og 5. gr. þeirra. Væri hlutum gerð réttilega skil í bókhaldi stefnanda ætti hvorugt að valda vandkvæðum, sbr. t.d. 28. og 29. gr. laga nr. 145/1994 um bókhald. Að mati stefnda getur stefnanda ekki orðið kápan úr því klæðinu að á sönnunarkröfum sé slakað vegna þess að hann hafi sjálfur látið undir höfuð leggjast að halda brúklegan skikk á lögbundum skyldum í þessum efnum. Að mati stefnda hallar helst þá í hina áttina, að heldur þyngist fyrir um sönnunarbyrðina fyrir stefnanda. Jafnvel þó svo frjálslega væri í hluti farið eins og stefnandi vill, að litið væri fram hjá raunverulegu bókfærðu virði lausafjár hans, sýnist í það minnsta mega gera þá lágmarkskröfu til stefnanda að hann geti vísað til þess að einhverjum tilteknum munum séu gerð skil í bókhaldi hans, t.d. á afskrifuðu verði svo dæmi sé tekið. Ekkert slíkt sé nefnt eða sýnt fram á af hálfu stefnanda. Sönnunarskorturinn sé nánast alger í þessum efnum sem leiðir til sýknu að mati stefnda.
Því sé haldið fram að lausafjármunir Jam ehf. hafi runnið til leigusala þegar nefnt einkahlutafélag lét af rekstri veitingastaðar í húsnæðinu að Hafnarstræti 13. Því sé svo slegið fram að þegar stefnandi hafi hafið rekstur veitingastaðar hafi nefndir munir verið yfirteknir af stefnanda. Ekkert í máli þessu gefur tilefni til að ætla að stefnanda hafi verið seldir þessir munir eða gefnir þegar leigusamningurinn var gerður. Hvergi sé þar minnst á að stefnandi kaupi þessa muni eða fái þá fyrir örlætisgerning framselda úr hendi leigusala. Raunar sé þess ekki heldur getið að munirnir hafi verið leigðir stefnanda. Ljóst sé alltént af ótvíræðri málflutningsyfirlýsingu stefnanda að hann átti þessa muni ekki. Eigandinn var annaðhvort Jam ehf. eða leigusalinn, BS 10 ehf. Hvorugur þeirra aðila tryggði þessa muni hjá stefnda og verða þeir því ekki bættir. Munir í eigu þriðja manns falla ótvírætt ekki undir lausafjártryggingu stefnanda hjá stefnda. Hugtaksskilyrði þeirrar tryggingar sé að vátryggingartaki sé að tryggja eigin hagsmuni, sbr. grein 1.2 í skilmálum E-3.
Að mati stefnda hefur stefnandi ekki fært fullnægjandi sannanir fyrir því að vínlager á þriðju milljón hafi farið forgörðum. Sé þar fyrst til þess að líta að bruninn á sér stað að afstaðinni helgi þegar síst sé mikils lagers að vænta á vínveitingahúsi og eins sé engri sönnun telft fram um það magn áfengis sem á að hafa farið forgörðum. Yfirlýsing Stefáns Aðalsteinssonar tommar ekki langt í þeim efnum.
Til þess að freista þess að átta sig á tjóni stefnanda leitaði stefndi til Þóris Ólafssonar, löggilts endurskoðanda hjá Local Partners, sem sérfróður er um afmörkun tjóns sem þessa sem á reynir hér. Þórir komst að þeirri niðurstöðu að tjón stefnanda sem kynni að falla undir lausafjártrygginguna, gæti numið allt frá 1,8 milljónum króna til 7,8 milljóna. Það mikla bil sem á milli nefndra fjárhæða stendur sýnir í hnotskurn þann vanda sem stefndi stendur frammi fyrir sökum þess hve klénum gögnum stefnandi hefur telft fram. Ekki er unnt með nokkurri vissu að festa hendur á því sem telja má rauntjón í þessum efnum. Slíkt stendur að sjálfsögðu upp á stefnanda að sýna fram á og sanna, sbr. VI. kafla laga nr. 91/1991, og því leiðir sönnunarskortur til sýknu. Í það minnsta sé á því byggt af hálfu stefnda að tjón stefnanda í þessum efnum geti ekki numið hærri fjárhæð en hér var gerð grein fyrir og þá með þeim fyrirvara sem settur er af hálfu Þóris að efri fjárhæðarmörkin séu vart raunhæf þar sem þau gera ekki ráð fyrir verðrýrnun lausafjármuna við notkun.
Áréttað skal að skýrslu Þóris sé ekki telft fram til að hnekkja fyrirliggjandi sönnun af hálfu stefnanda. Engri slíkri sönnun sé til að dreifa. Felur skýrslan ekki annað í sér en viðleitni stefnda til að leiða fram hvert tjón stefnanda geti hugsanlega verið. Sú forsenda kann svo að verða grundvöllur bótagreiðslu bæti stefnandi ekki úr sönnunarskorti og talið verði réttmætt að hann njóti bóta þrátt fyrir að svo sé fyrirkomið af hans völdum.
Um rekstarstöðvunartrygginguna. Sé takmörkuðum sönnunargögnum til að dreifa til stuðnings kröfu um bætur úr lausafjártryggingu eru gögnin er grundvalla bótakröfu vegna rekstarstöðvunar enn fátæklegri. Varla sé gerð tilraun til að leiða fram raunverulegt rekstarstöðvunartap sem samkvæmt skilmálum tryggingarinnar felst í framlegðartapi þegar starfsemi stöðvast varanlega, það er að segja vegna þess kostnaðar sem á fellur þrátt fyrir að starfsemi stöðvist, sbr. grein 5.2 í skilmálum nr. E-4. Stefnandi hefur engu hreyft í þeim efnum öðru en kröfu um húsaleigu. Sú krafa sé þó þeim annarka háð að engin grein sé gerð fyrir því að stefnandi hafi verið krafinn um greiðslu og eða greitt slíka leigu. Eru enda engar forsendur til slíkrar kröfugerðar þar sem leigusalinn sé þess ekki umkominn að láta leiguandlagið í té. Húsnæðið sem leiga sé greidd fyrir var ekki til staðar í útleiguhæfu ástandi og varð ekki í slíku ástandi fyrr en rúmu ári síðar eftir því sem gerð er grein fyrir af hálfu stefnanda. Engri réttmætri kröfu um leigu getur verið til að dreifa af hálfu leigusala enda liggur ekki heldur fyrir að slíkri kröfu hafi verið haldið á lofti né að stefandi hafi greitt hana.
Annað tjón sé ekki nefnt í þessum efnum af hálfu stefnanda. Því séu ekki forsendur til annars en að sýkna stefnda af þessari kröfu þar sem stefnandi hefur ekki gert grein fyrir neinu tjóni sem fellur í raun undir tryggingu þessa. Sönnunarbyrðin sé í þessum efnum sem öðrum stefnanda.
Þrátt fyrir að svona sé á málum haldið af hálfu stefnanda hafi stefndi hlutast til um útreikning á því hvert tjón stefnanda kann að vera í þessum efnum, sbr. skýrslu Þóris Ólafssonar. Þar kemur fram að fjárhæð þessa tjóns sé byggð á bókhaldi stefnanda sjálfs og nemi 714 þúsund krónum. Verði frekari sönnunargögnum ekki telft fram af hálfu stefnanda sýnast helst standa rök til að leggja fjárhæð þessa til grundvallar enda engar forsendur til að líta fram hjá áliti Þóris þó að stefndi hafi aflað útreiknings hans. Útreikningurinn sé einvörðungu byggður á gögnum frá stefnanda án nokkurrar úrvinnslu á vegum stefnda. Þóri var algerlega eftirlátið að rannsaka málið með hliðsjón af málsgögnum stefnanda og draga eigin ályktanir þar af út frá þekkingu sinni ,og reynslu án afskipta stefnda.
Sama er til hvorrar tryggingarinnar er að líta; það er stefnanda að sanna þá staðhæfingu að hann hafi orðið fyrir tjóni og eins ber hann byrðina af því að sanna umfang þess tjóns. Sú sönnun er ekki fyrirliggjandi.
Niðurstaða
Ágreiningslaust er að stefnandi hafi gilda brunatryggingu lausafjár og rekstarstöðvunartryggingu hjá stefnda. Bótaskyldan er því viðurkennd. Ágreiningurinn er um eignarhald á munum þeim sem stefnandi krefst bóta fyrir og fjárhæð bótanna.
Aðalkrafa stefnanda er að fjárhæð 58.241.698 kr., þ.e. 53.588.000 kr. vegna lausafjártryggingarinnar og 4.653.698 krónur vegna rekstarstöðvunartyggingarinnar. Krafan um rekstrarstöðvunartrygginguna byggir á matsgerð dómkvadds matsmanns. Krafa um lausafjártrygginguna byggir á lista er forsvarsmenn stefnanda gerðu. Á hann er einnig bætt hlutum er voru á lista frá stefnda. Stefndi hefur vefengt lista þennan og mótmælt honum sem sönnun fyrir tjóni stefnanda.
Stefnandi er einkahlutafélag. Um þau félög gilda lög nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Samkvæmt 1. tl. 1. gr. laga nr. 145/1994 er stefnandi bókhaldsskyldur. Samkvæmt 5. gr. laganna bera stjórnendur ábyrgð á að ákvæðum laganna og reglugerða samkvæmt þeim verði fullnægt. Samkvæmt 6. gr. laganna skal bókhaldi hagað þannig að rekja megi viðskipti og notkun fjármuna á skýran og aðgengilegan hátt. Bókhaldið skal veita svo sundurliðaðar upplýsingar um rekstur og efnahag sem þarfir eigenda, lánardrottna og hins opinbera krefjast og nauðsynlegar eru til að meta megi tekjur og gjöld, eignir og skuldir.
Í málinu liggur fyrir ársreikningar stefnanda vegna áranna 2009 og 2010. Fyrir dóminn kom Ólafur Halldórsson sem sá um bókhald félagsins. Aðspurður sagði hann að eignfært og gjaldfært lausafé í félaginu á árunum 2008 til 2010 hafi verið um 9 milljónir króna að viðbættum áfengisbirgðum að andvirði 2,5 milljónir króna. Í framburði Ólafs kom fram að bókhaldið hafi verið fært á hans vegum hluta ársins 2009 og árið 2010. Áður hafi annar aðili fært bókhaldið, en hann hafi stemmt það af og hafi fylgiskjölin í sinni vörslu. Samkvæmt bókhaldi félagsins nemur lausafjártjón stefnanda því um 11,5 milljónum króna.
Krafa stefnanda byggir eins og áður segir á heimatilbúnum lista forsvarsmanna stefnanda. Rakinn hefur verið uppruni flestra hlutanna. Svo dæmi sé tekið eru rúmar 2,9 milljónir taldar vera tilgreindar í ársreikningi, rúmar 13,1 milljón króna frá Jam ehf., 9,3 milljónir króna frá Halldóri Ólafssyni og fleira.
Í framburði Aðalsteins Gíslasonar hluthafa í BS 10 ehf., sem var eigandi fasteignarinnar og leigusali, kom fram að Jam ehf. hefði leigt eignina á undan stefnanda. Félagið hefði ekki staðið í skilum og hefði hann þá skipt um læsingu á húsinu. Í eigninni hefðu verið ýmsir hlutir að verðmæti u.þ.b. 10-15 milljónir króna sem hann hefði yfirtekið upp í leiguskuldina. Vitnið kveður að stefnandi hafi keypt hlutina fyrir 12-15 milljónir króna og það hafi verið gengið frá því hjá lögfræðingi, en enginn skriflegur samningar sé til um þetta. Í málinu liggur fyrir ítarlegur leigusamningur, vottaður af hæstaréttarlögmanni. Í engu er þar getið um kaup á lausafé því sem hér er um rætt, en bæði leigusali og leigutaki eru bókhaldsskyldir aðilar. Því er ósannað að stefnandi sé eigandi að eignum þessum.
Í málinu liggur fyrir reikningur frá Halldóri Ólafssyni, vegna hljóðkerfis. Reikningurinn er dags 25. nóvember 2008 og stílaður á stefnanda, Merlot ehf. Samkvæmt gögnum málsins hét stefnandi áður Club 101 ehf. og var nafninu breytt 7. apríl 2009, eða u.þ.b. fimm mánuðum eftir ætlaða útgáfu reikningsins. Er reikningur þessi því ekki trúverðugur auk þess sem hans er ekki getið í bókhaldi félagins.
Þá er framlag Alla ehf. samkvæmt gögnum málsins vinnuframlag/viðskiptaskuld að fjárhæð 9,7 milljónir sem breytist í hlutafé er hann verður hluthafi í Chardonnay ehf.
Þá er samkvæmt lista forsvarsmanna stefnanda byggt á því að myndavélakerfi sem metið er á 650.000 kr. hafi verið þeirra eign og það eyðilagst. Hins vegar liggur fyrir afrit af innheimtureikningi og má ætla að kerfi þetta sé eign Securitas hf.
Eins og að framan greinir er dómskjal það er stefnandi byggir á útbúið af forsvarsmönnum stefnanda. Með vísan til þess sem að framan greinir, svo og þegar skjalið er virt í heild sinni, sem og það að framburður vitna um skjal þetta var ekki trúverðugur, þá veitir skjalið ekki sönnun fyrir því að stefnandi hafi átt alla þá muni er þar eru tilgreindir, en stefndi bætir einungis tjón á munum í eigu stefnanda. Því er aðalkröfu stefnanda um bætur vegna lausafjártjóns hafnað.
Til vara byggir stefnandi á matsgerð dómkvadds matsmanns. Samkvæmt matsbeiðni bar matsmanni að leggja mat á fjárhagslegt tjón stefnanda vegna húsbrunans. Í matsgerðinni er vegna lausafjártryggingarinnar lagður til grundvallar listi sá er forsvarsmenn stefnanda gerðu og hafnað var hér að framan. Þegar af þeirri ástæðu verður matið ekki lagt til grundvallar bótum vegna lausafjártjónsins til handa stefnanda.
Ágreiningslaust er að stefnandi hafði gilda brunatryggingu vegna lausafjár þegar bruninn átti sér stað. Einnig er ljóst að lausafé í eigu stefnanda skemmdist í brunanum. Ágreiningurinn er um fjárhæð tjónsins. Af málatilbúnaði stefnanda verður ráðið að nótulaus viðskipti hafa átt sér stað. Slík viðskipti verða ekki lögð til grundvallar bótum úr hendi stefnda. Stefnandi verður að bera hallann af því að hafa ekki sinnt því að færa lögboðið bókhald og ekki fengið kvittanir fyrir greiðslum vegna kaupa á lausafé. Er það því niðurstaða dómsins að leggja til grundvallar upplýsingar í ársreikningi stefnanda. Samkvæmt framburði bókara félagsins var bókfært lausafé stefnanda samtals 9.000.000 kr. að viðbættum áfengisbirgðum að fjárhæð 2.500.000 kr. Ber stefnda því að greiða stefnanda 11.500.000 kr. vegna tjóns á lausafé.
Til grundvallar kröfum sínum vegna tjóns vegna rekstrarstöðvunar byggir stefnandi í aðal- og varakröfu á niðurstöðu dómkvadds matsmanns. Í matsgerð hans kemur fram að við matið sé stuðst við gögn úr ársskýrslu stefnanda fyrir árin 2008 til 2010 og einnig við áætlun ársins 2010 sem fram komi í skýrslu Þóris Ólafssonar hjá Local Partners sem unnin var fyrir stefnda. Matsgerð þessari hefur ekki verið hnekkt með yfirmati, hvað þetta varðar og er hún því lögð til grundvallar og ber stefnda að greiða stefnanda 4.653.698 kr. í bætur vegna tjóns hans vegna rekstrarstöðvunar.
Með vísan til þess sem að framan greinir ber stefnda að greiða stefnanda samtals 16.153.698 krónur. Stefnandi krefst dráttarvaxta skv. III. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu frá 26. mars 2010 til greiðsludags. Hér er til þess að líta að endanleg kröfugerð stefnanda leit dagsins ljós í upphafi aðalmeðferðar. Ber krafan því dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá dómtöku málsins 15. janúar 2013. Eftir atvikum þykir rétt að stefndi greiði stefnanda 700.000 kr. upp í málskostnað.
Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
DÓMSORÐ
Stefndi, Vörður hf., greiði stefnanda, Merlot ehf., 16.153.698 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 15. janúar 2013 til greiðsludags og 700.000 kr. í málskostnað.