Hæstiréttur íslands
Mál nr. 433/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Vitni
- Embættismenn
|
|
Mánudaginn 25. ágúst 2014. |
|
Nr. 433/2014.
|
Ólafur Þór Hauksson (sjálfur) gegn Pálma Haraldssyni (Sigurður G. Guðjónsson hrl.) |
Kærumál. Vitni. Embættismenn.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem tekin var til greina krafa P um að Ó yrði meðal annarra gert að koma fyrir dóm sem vitni til að gefa skýrslu í máli P á hendur G hf., um viðurkenningu á skaðabótakröfu sem hann lýsti við slit G hf.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Helgi I. Jónsson og Viðar Már Matthíasson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. júní 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. júní 2014, þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um að sóknaraðila yrði meðal annarra gert að koma fyrir dóm til að gefa vitnaskýrslu í máli varnaraðila á hendur Glitni hf. um viðurkenningu á kröfu, sem hann lýsti við slit á félaginu. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hafnað verði kröfu varnaraðila um að sér verði gert að gefa vitnaskýrslu. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Í kæru gerði sóknaraðili ekki kröfu um kærumálskostnað, en sú krafa var á hinn bóginn sett fram í greinargerð hans til Hæstaréttar. Með því að kröfu þessari var ekki hreyft í kæru kemur hún ekki frekar til álita.
I
Mál þetta á rætur að rekja til þess að varnaraðili lýsti 18. október 2012 kröfu á hendur Glitni hf. um skaðabætur vegna tjóns, sem hann taldi stafa af „ólögmætum og saknæmum aðgerðum slitastjórnar Glitnis banka hf. á árunum 2010 til 2012“ gagnvart sér. Þessar aðgerðir hafi meðal annars verið fólgnar í því að félagið hafi höfðað mál á hendur varnaraðila fyrir erlendum dómstól og leitað eftir kyrrsetningu á eignum hans, en í aðdraganda þessa hafi slitastjórn félagsins haft samstarf við embætti sérstaks saksóknara, sem sóknaraðili veitir forstöðu. Slitastjórn Glitnis hf. hafnaði kröfu varnaraðila og var ágreiningi um viðurkenningu hennar beint til héraðsdóms 8. mars 2013, þar sem mál var þingfest af því tilefni 3. apríl sama ár.
Í tengslum við fyrirhugaða aðalmeðferð málsins 3. apríl 2014 beindi varnaraðili kvaðningu til sóknaraðila um að koma þá fyrir dóm til að gefa skýrslu sem vitni. Í kvaðningunni var vísað til þess að varnaraðili ræki þetta mál til heimtu skaðabóta vegna málshöfðunar Glitnis banka hf. „á hendur honum í New York í maí 2010“, en í framhaldi af því sagði meðal annars eftirfarandi: „Eftir að máli þessu hafði verið ýtt úr vör af hálfu slitastjórnar og skilanefndar Glitnis hf. með langri fréttatillkynningu og blaðamannafundi á Hótel Nordica, ræddi Egill Helgason sjónvarpsmaður um málið við Evu Joly í sjónvarpsþættinum Silfri Egils í Ríkissjónvarpinu. Eva Joly hafði þá unnið hug og hjörtu margra Íslendinga, þar á meðal forsætis- og fjármálaráðherra, sem sáu til þess að hún var ráðin sem ráðgjafi embættis sérstaks saksóknara. Í viðtalinu í Silfri Egils 16. maí 2010 fullyrti Eva Joly að málssókn slitastjórnar Glitnis hf. í New York væri afrakstur samvinnu embættis yðar og slitastjórnar Glitnis, sem byggði á samningi milli embættisins og skilanefndar Glitnis banka hf. Þá kom fram hjá Eva Joly að hún hefði samþykkt þessa aðgerð slitastjórnarinnar og rétt væri að nota öll tiltæk ráð til að endurheimta fé föllnu bankanna. Nokkuð virðist til í þessari staðhæfingu Eva Joly, því á sama tíma og slitastjórn og skilanefnd lögðu til atlögu gegn umbjóðanda mínum í New York fékk embætti yðar heimild til að hlera síma hans. ... Til að varpa ljósi á undirbúning málshöfðunarinnar og önnur atriði tengd þessum samhæfðu aðgerðum embættis yðar og forsvarsmanna Glitnis hf. á hendur umbjóðanda mínum er nauðsynlegt að taka af þér vitnaskýrslu fyrir rétti þegar aðalmeðferð málsins fer fram fimmtudaginn 3. apríl n.k.“
Aðalmeðferð málsins, sem átti að fara fram síðastnefndan dag, mun hafa verið frestað. Sóknaraðili ritaði í kjölfarið bréf 16. apríl 2014 til héraðsdómarans í málinu, þar sem vitnað var til kvaðningar frá nafngreindum lögmanni varnaraðila, en þar sagði síðan meðal annars: „Með vísan til 5. mgr. 52. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er mér óskylt að koma fyrir dóm til að vitna um atvik sem gerst hefur í embætti mínu eða sýslan og leiða má nægilega í ljós með vottorði úr embættisbók eða öðru opinberu skjali. Þannig háttar til í þessu máli að ofangreindur lögmaður hefur beint fyrirspurn um þetta tiltekna atriði til embættisins með bréfi 19. mars 2012 og fékk svarbréf frá embættinu 3. apríl s.á. Bæði bréfin fylgja hjálagt ... Af þessum sökum mun ég ekki gefa skýrslu sem vitni fyrir dómi þar sem mér er það óskylt enda búið að gera lögmanninum grein fyrir málinu í formlegu bréfi frá embættinu. Ljóst er því að leiða má nægjanlega í ljós þau atvik sem hann vill draga fram með framlagningu á nefndu bréfi embættisins í dómsmálinu.“
Héraðsdómari lagði þetta bréf sóknaraðila fram í þinghaldi 29. apríl 2014 og krafðist þá varnaraðili að kveðinn yrði upp úrskurður um skyldu sóknaraðila til að gefa vitnaskýrslu, sem Glitnir hf. andmælti. Í framhaldi af því sendi héraðsdómari sóknaraðila bréf, þar sem honum var gefinn kostur á að sækja þing 8. maí 2014 til að láta málið til sín taka, en því hafnaði sóknaraðili bréflega. Málið var síðan flutt munnlega um þetta ágreiningsefni síðastnefndan dag og gekk hinn kærði úrskurður í framhaldi af því.
II
Bréf sérstaks saksóknara til lögmanns varnaraðila 3. apríl 2012, sem vitnað var til í fyrrnefndu bréfi sóknaraðila til héraðsdóms 16. apríl 2014, var ritað í tilefni af bréfi lögmannsins, sem bar fyrirsögnina: „Tilkynning um bótaskyldu embættis sérstaks saksóknara og beiðni um gögn.“ Þar var því meðal annars borið við að embættið hafi aflað sér heimildar til að hlera síma varnaraðila 11. maí 2010, sem honum hafi ekki verið kunngert fyrr en 18. október 2011, en hann teldi mega ætla að sú aðgerð hafi verið „liður í sameiginlegri atlögu embættis sérstaks saksóknara, slitastjórnar og skilanefndar Glitnis banka hf. á hendur honum og fleiri aðilum í maí 2010.“ Vísað var til ummæla, sem fyrrnefnd Eva Joly hafi viðhaft í sjónvarpsþætti 16. maí 2010, og sagt að hvergi væri í lögum að finna „heimild til handa embættinu til að gera samninga við einkaaðila um málarekstur á hendur meintum sakborningum. Hvað þá að einkaaðilum sé falið það að kyrrsetja eignir meintra sakborninga. Samkvæmt Evu Joly var mikilvægast að embættið ... og einkaaðilar þeir, sem embættið semdi við sýndu skilvirkni og legðu hald á fjármuni meintra sakborninga. Embætti sérstaks saksóknara hefur heimild til kyrrsetningar í 88. gr. laga um meðferð sakamála. Sú heimild verður ekki framseld eins og Eva Joly virðist ganga út frá í spjalli sínu við Egil Helgason.“
Í bréfi sérstaks saksóknara 3. apríl 2012 var meðal annars tekið fram að „engum samningi er til að dreifa um samstarf milli embættisins og slitastjórnar eða skilanefndar Glitnis banka hf. og því ekki unnt að verða við beiðni um afrit af slíkum samningi“. Embættinu hafi á hinn bóginn borist tilkynning slitastjórnar um ætlaða refsiverða háttsemi og hafi fylgt tilkynningunni afrit stefnu í einkamáli, sem Glitnir banki hf. hafi höfðað á hendur varnaraðila og fleirum í Bandaríkjunum, en ekki væri „fyrir að fara öðrum gögnum hjá embættinu varðandi umræddan einkamálarekstur í New York ríki og höfðun þess einkamáls, hvorki sem varða undanfara þess né heldur meðan á þeim málarekstri stóð.“ Vegna ummæla Evu Joly, sem lögmaður varnaraðila hafi vitnað til, var þess getið að embætti sérstaks saksóknara hafi 28. mars 2009 gert samning við hana um að veita „sérfræðiráðgjöf, aðstoða við að koma á tengslum við erlend lögregluembætti og koma á og hafa eftirlit með samskiptum við sérstaka erlenda sérfræðinga varðandi skoðun á bókhaldi, ársreikningum og tölvugögnum.“ Í samningnum væri tekið fram að sérstakur saksóknari stýrði rannsóknum embættisins og bæri ábyrgð á framkvæmd þeirra, en leita mætti til Evu Joly um ráðgjöf varðandi þær eftir því, sem þurfa þætti. Hafi öll störf hennar verið innan ramma þessa samnings og hafi hún „á engan hátt stýrt rannsóknum embættisins eða fyrirskipað stjórnvöldum eitt né neitt varðandi rekstur embættisins“. Væri því hafnað að embættið bæri skaðabótaskyldu gagnvart varnaraðila, enda hafi rannsóknaraðgerðir þess stuðst við „lagafyrirmæli og fyrirliggjandi dómsúrskurði.“
Samkvæmt 5. mgr. 52. gr. laga nr. 91/1991 er embættis- og sýslunarmönnum óskylt að koma fyrir dóm til að vitna um atvik, sem hafi gerst í embætti þeirra eða sýslan og leiða megi nægilega í ljós með vottorði úr embættisbók eða öðru opinberu skjali. Eftir 1. mgr. 71. gr. sömu laga teljast þau skjöl opinber sem embættis- eða sýslunarmenn gefa út í embættisnafni um það, sem gerist í embætti þeirra eða sýslan. Efni sínu samkvæmt telst fyrrnefnt bréf sérstaks saksóknara 3. apríl 2012 til opinberra skjala í skilningi þessara tveggja lagaákvæða. Til þess verður á hinn bóginn að líta að í bréfi þessu kom sem fyrr segir fram að enginn samningur hafi verið gerður um samstarf milli sérstaks saksóknara og slitastjórnar eða skilanefndar Glitnis banka hf., en ekkert var þó sagt um hvort einhverju slíku samstarfi hafi í reynd verið til að dreifa. Ætla verður af fyrrnefndri kvaðningu til sóknaraðila um að koma fyrir dóm til skýrslugjafar að varnaraðili hafi ekki aðeins haft í hyggju að árétta þar fyrri bréflegar spurningar sínar, sem sérstakur saksóknari svaraði á áðurgreindan hátt. Er því ekki unnt að líta svo á að atvik, sem varnaraðili vill leita vættis sóknaraðila um, hafi verið leidd nægilega í ljós með bréfi sérstaks saksóknara 3. apríl 2012. Eins og atvikum er hér háttað verður ekki slegið föstu að ákvæði 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 geti staðið því í vegi að aflað verði vitnisburðar sóknaraðila. Samkvæmt því verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.
Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af kærumáli þessu.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður skal vera óraskaður.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. júní 2014.
Í máli þessu krefur sóknaraðili varnaraðila um skaðbætur vegna tjóns sem hann kveðst hafa orðið fyrir vegna þess að slitastjórn varnaraðila stefndi honum fyrir rétt í New York borg í Bandaríkjunum. Hefur hann lýst skaðabótakröfu sinni við slitameðferð varnaraðila og krefst þess að krafan njóti stöðu í skuldaröð eftir 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Mál þetta er ágreiningsmál við slitameðferðina um framangreinda kröfu og var beint til dómsins með bréfi slitastjórnar 8. mars 2013. Um heimild til að leita úrlausnar dómsins um ágreininginn vísaði slitastjórn til 171. gr., sbr. 120. gr. laga nr. 21/1991.
Byggir sóknaraðili á því að umrædd lögsókn hafi falið í sér saknæma og ólögmæta háttsemi af hálfu slitastjórnar varnaraðila sem leitt hafi til umrædds tjóns. Þá byggir hann einnig á því að slitastjórn varnaraðila hafi haft samvinnu við embætti sérstaks saksóknara við undirbúning umræddrar málsóknar og telur að atvik sem að því snúi eigi að hafa áhrif við sakarmat. Byggir sóknaraðili á því að tilgangur umræddra aðgerða hafi verið að koma honum á kné.
Vegna framangreindra málsástæðna kveðst sóknaraðili vilja leiða fyrir dóminn til að gefa vitnaskýrslu Ólaf Þ. Hauksson sérstakan saksóknara og einnig Jón Óttar Ólafsson fyrrum starfsmann embættis sérstaks saksóknara. Byggir sóknaraðili á því að framangreindir menn geti að hans mati borið um með hvaða hætti samstarfi embættis sérstaks saksóknara og slitastjórnar varnaraðila hafi verið háttað í tengslum við fyrrnefnda málsókn.
Í úrskurði þessum eru til úrlausnar tvö álitaefni. Annars vegar hefur Ólafur Þ. Hauksson sérstakur saksóknari hafnað því að honum beri skylda til að bera vitni fyrir dómi í málinu með vísan til 5. mgr. 52. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Varnaraðili hefur tekið undir sjónarmið hans. Sóknaraðili hefur á hinn bóginn krafist úrskurðar um skyldu Ólafs til að bera vitni.
Á hinn bóginn krefst varnaraðili þess að úrskurðað verði að Jón Óttar Ólafsson gefi ekki vitnaskýrslu í málinu en sóknaraðili hefur krafist þess að framangreindri kröfu varnaraðila verði hafnað.
Í bréfi Ólafs Þ. Haukssonar sérstaks saksóknara til dómsins vísar hann til 5. mgr. 52. gr. laga nr. 91/1991 því til stuðnings að honum beri ekki að gefa skýrslu fyrir dómi í málinu. Með bréfi hans fylgdu bréfaskipti lögmanns sóknaraðila við embætti sérstaks saksóknara þar sem fjallað var um aðkomu embættisins að þeirri málsókn slitastjórnar varnaraðila sem um ræðir í málinu. Er skemmst frá því að segja að í því bréfi embættis sérstaks saksóknara er því hafnað að embættið hafi haft nokkra aðkomu að ákvörðun slitastjórnar um umrædda málsókn. Í bréfi Ólafs Þ. Haukssonar er á því byggt að umrætt bréf verði að teljast jafngilda vottorði úr embættisbók eða sé opinbert skjal í skilningi tilvitnaðrar 5. mgr. 52. gr. laga nr. 91/1991.
Af hálfu sóknaraðila er á því byggt að umrætt bréf geti hvorki talist „vottorð úr embættisbók“ né „opinbert skjal“ í ofangreindum skilningi.
Um andmæli sín við skýrslugjöf Jóns Óttars Ólafssonar hefur varnaraðili einkum vísað til þess að ekki liggi fyrir í málinu að umræddur maður geti gefið skýrslu um „málsatvik“ enda liggi ekki fyrir að hann hafi upplifað málsatvik af eigin raun, sbr. 1. mgr. 51. gr. laga nr. 91/1991. Lögmaður sóknaraðila kveðst vísa til þess að umræddur maður hafi í samtölum við lögmanninn sagst hafa vitneskju um samstarf embættis sérstaks saksóknara og slitastjórnar varnaraðila í tengslum við umrædda málsókn. Hyggist hann leiða vitnið til að bera um þetta.
Niðurstaða:
Það er meginregla í réttarfari að málsaðili hefur forræði á málatilbúnaði sínum og sönnunarfærslu. Kemur þetta m.a. fram í 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 en í ákvæðinu greinir að dómari geti meinað aðila um sönnunarfærslu ef hann telur bersýnlegt að atriði sem aðili hyggst sanna skipti ekki máli eða að gagn sé tilgangslaust til sönnunar. Af orðalagi reglunnar leiðir að telja verður að henni yrði aðeins beitt í undantekningartilvikum þegar enginn teljandi vafi teldist uppi um að sönnunarfærsla væri þýðingarlaus.
Í máli þessu byggir sóknaraðili á því að slitastjórn stefnanda hafi sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi þegar hún stefndi honum fyrir rétt í New York í Bandaríkjunum. Einnig byggir hann á því að það eigi að hafa áhrif við sakarmat í málinu að þetta hafi slitastjórnin gert í samvinnu við embætti sérstaks saksóknara. Freistar hann þess í málinu að færa fram sönnur um umrædda samvinnu með því að leiða framangreinda tvo menn fyrir dóminn sem vitni. Til stuðnings fullyrðingu sínum um framangreint samstarf hefur sóknaraðili vísað til sjónvarpsviðtals við nafngreindan ráðgjafa embættis sérstaks saksóknara þar sem hann telur að fram komi að samstarf hafi verið með þessum aðilum.
Það er mat dómsins að sóknaraðili hafi skýrt það með fullnægjandi hætti hvað hann hyggst reyna að sanna með því að leiða umrædda menn sem vitni í málinu. Er þessi ráðagerð um sönnunarfærslu í samræmi við þær málsástæður sem hann teflir fram í málinu og eru ekki efni til að hafna sönnunarfærslunni sem þýðingarlausri á þessu stigi málsins.
Fallist er á með sóknaraðila að þau bréf sem embætti sérstaks saksóknara hefur sent honum geti ekki eins og hér stendur á talist „vottorð úr embættisbók“ eða „opinber skjöl“ í skilningi 5. mgr. 52. gr. laga nr. 91/1991. Getur Ólafur Þ. Hauksson því ekki með réttu skorast undan vitnaskyldu í málinu með vísan til þess ákvæðis.
Með vísan til þess sem að framan greinir er fallist á kröfu sóknaraðila um að úrskurðað verði að Ólafi Þ. Haukssyni, sérstökum saksóknara, sé skylt að bera vitni í máli þessu.
Þá er hafnað andmælum varnaraðila við að skýrsla verði tekin af Jóni Óttari Ólafssyni við aðalmeðferð málsins.
Halldór Björnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð
Ólafi Þ. Haukssyni er skylt að gefa vitnaskýrslu við aðalmeðferð máls þessa.
Hafnað er kröfu, varnaraðila Glitnis hf., um að úrskurðað verði að Jón Óttar Ólafsson skuli ekki gefa vitnaskýrslu við aðalmeðferð málsins.