Hæstiréttur íslands
Mál nr. 407/2007
Lykilorð
- Kærumál
- Fjárnám
- Áfrýjunarfjárhæð
- Kæruheimild
- Frávísun frá Hæstarétti
|
|
Mánudaginn 27. ágúst 2007. |
|
Nr. 407/2007. |
Sjóvá-Almennar tryggingar hf. (Guðrún Hólmsteinsdóttir hdl.) gegn Kjartani Björnssyni (Sigurður Sigurjónsson hrl.) |
Kærumál. Fjárnám. Áfrýjunarfjárhæð. Kæruheimild. Frávísun máls frá Hæstarétti.
S krafðist þess að felld yrði úr gildi ákvörðun sýslumannsins á Selfossi 23. janúar 2007 um að gera ekki fjárnám til fullnustu kröfu S á hendur K. Höfuðstóll kröfunnar sem leita átti fullnustu á var 263.301 króna og náði hún því ekki áfrýjunarfjárhæð samkvæmt 1. mgr. 152. gr. laga nr. 91/1991. Var málinu því vísað af sjálfsdáðum frá Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. júlí 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 1. ágúst sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 11. júlí 2007, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að felld yrði úr gildi ákvörðun sýslumannsins á Selfossi 23. janúar sama ár um að gera ekki fjárnám til fullnustu kröfu sóknaraðila á hendur varnaraðila. Um kæruheimild vísar sóknaraðili til 4. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Hann krefst þess að ákvörðun sýslumanns verði felld úr gildi og lagt fyrir hann að gera fjárnám hjá varnaraðila. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.
Sóknaraðili leitaði fjárnámsins, sem málið varðar, með beiðni til sýslumannsins á Selfossi 8. desember 2006. Samkvæmt henni var höfuðstóll kröfunnar, sem leita átti fullnustu á, 263.301 króna. Skilyrði um áfrýjunarfjárhæð í 1. mgr. og 2. mgr. 152. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 6. gr. laga nr. 38/1994, verður beitt um kæru sem þessa, sbr. 4. mgr. 150. gr. fyrrnefndu laganna og 4. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989, svo sem ítrekað hefur verið í dómaframkvæmd Hæstaréttar eftir að dómur gekk, sem birtur er í dómasafni réttarins 1994, bls. 1101. Krafa sóknaraðila nær ekki áfrýjunarfjárhæð samkvæmt fyrstnefnda lagaákvæðinu. Verður málinu því vísað af sjálfsdáðum frá Hæstarétti.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Sóknaraðili, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., greiði varnaraðila, Kjartani Björnssyni, 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 11. júlí 2007.
Sóknaraðili er Sjóvá Almennar tryggingar hf., kt. 701288-1739, Kringlunni 5, 103 Reykjavík, og varnaraðili er Kjartan Björnsson, kt. 140345-7099, Grásteini, 801 Selfossi.
Með bréfi dagsettu 8. febrúar sl. og mótteknu 12. febrúar sl. krafðist sóknaraðili þess ,,að felld verði úr gildi ákvörðun sýslumannsins á Selfossi þann 23.01.2007 sl. að stöðva aðfarargerð nr. 033-2006-01686 og að lagt verði fyrir sýslumann að gera fjárnám hjá gerðarþola fyrir kröfu að fjárhæð kr. 700.831 með dráttarvöxtum til greiðsludags og áfallandi kostnaði af frekari innheimtukröfum.“ Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila að mati dómsins að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
Varnaraðili krefst þess ,,að staðfest verði ákvörðun sýslumannsins á Selfossi þann 23.01.2007 að stöðva aðfarargerð nr. 033-2006-01686 og að ekki verði lagt fyrir sýslumann að gera fjárnám hjá gerðarþola fyrir kröfu að fjárhæð kr. 700.831 með dráttarvöxtum til greiðsludags og áfallandi kostnaði af frekari innheimtuaðgerðum.“ Þá krefst varnaraðili málskostnaðar að skaðlausu skv. gjaldskrá Lögmanna Suðurlandi úr hendi sóknaraðila samkvæmt málskostnaðarreikningi sem verði lagður fram síðar.
Málið var þingfest þann 22. febrúar sl. Af hálfu varnaraðila var greinargerð skilað þann 27. mars sl. Þann 14. júní sl. fór fram munnlegur málflutningur og var málið að því loknu tekið til úrskurðar.
Málavextir.
Þann 14. júlí 1997 gaf Bílaskemman ehf., kt. 560293-2089, út veðskuldabréf til sóknaraðila, sem tryggt var með 1. veðrétti í bifreiðinni EÞ-429. Veðskuldabréfið var að fjárhæð kr. 1.202.286 og skyldi greiðast með 24 mánaðarlegum afborgunum. Varnaraðili var fyrirsvarsmaður Bílaskemmunnar ehf. og skrifaði undir skuldabréfið fyrir hönd félagsins. Skuldabréfið lenti í vanskilum og var sett í innheimtu. Þann 21. mars 2001 var skilmálum bréfsins breytt þannig að gjalddögum var fjölgað í 24 með gjalddaga á mánaðarfresti frá og með 20. júní 2001 en að öðru leyti voru skilmálar skuldabréfsins óbreyttir. Eftirstöðvar bréfsins voru þá kr. 701.336. Skilmálabreytingin var gerð skriflega og undirrituð fyrir hönd sóknaraðila og af varnaraðila fyrir hönd skuldara. Þá er lína fyrir undirskrift á blaðinu og undir henni er vélrituð kennitala varnaraðila, nafn hans og orðið ,,sjálfskuldarábyrgð“. Á þessa línu ritaði varnaraðili nafn sitt. Frumrit skuldabréfsins er glatað og var bréfið ógilt með dómi Héraðsdóms Suðurlands þann 29. september 2006.
Málsástæður og lagarök sóknaraðila.
Sóknaraðili byggir á því að varnaraðili beri sjálfskuldarábyrgð in solidum á skuld samkvæmt skuldabréfi nr. 0101355. Þann 21. mars 2001 hafi skilmálum skuldabréfsins verið breytt á þann veg að skuldari skyldi greiða eftirstöðvar bréfsins með 24 afborgunum á eins mánaðar fresti frá og með 20. júní 2001. Skuldara hafi þá verið heimilt að losa bifreiðina EÞ-429 undan veði en varnaraðili hefði átt að takast á hendur sjálfskuldarábyrgð í stað veðsins. Varnaraðili hafi skrifað undir skilmálabreytinguna sem sjálfskuldarábyrgðaraðili. Jafnframt hafi frumrit skuldabréfsins verið áritað um breytinguna og varnaraðili ritað nafn sitt í reit þar sem gert er ráð fyrir nafni og kennitölu sjálfskuldarábyrgðaraðila og ritað dagsetninguna 23/3 þar við. Þann 21. júní 2001, daginn eftir fyrsta gjalddaga skv. skilmálabreytingunni, hafi bifreiðin EÞ-429 verið seld. Sóknaraðili byggir á því að aukna aðgæsluskyldu eigi að leggja á varnaraðila sem hafi verið fyrirsvarsmaður Bílaskemmunnar ehf. og borið ábyrgð á atvinnurekstrinum. Varnaraðila hafi vegna reynslu sinnar í viðskiptum mátt vera ljóst að um staðlað skuldabréf hafi verið að ræða og að undirritun hans á umræddan reit í bréfinu og undirritun hans á skilmálabreytinguna, þar sem skýrt hafi komið fram að hann væri sjálfskuldarábyrgðaraðili, fæli í sér að hann væri að gangast undir sjálfskuldarábyrgð á greiðslu skuldabréfs Bílaskemmunnar ehf. Með vísan til staðlaðra ákvæða skuldabréfsins og undirritunar varnaraðila á skilmálabreytinguna og skuldabréfið sjálft verði að telja að varnaraðili beri sönnunarbyrðina fyrir því að hann hafi ekki tekist á hendur sjálfskuldarábyrgð á greiðslu skuldabréfsins. Sóknaraðila sé því heimilt að biðja um aðför á grundvelli ógildingardómsins um skuldabréfið, sem sé vottað af tveimur vottum og aðfararheimild því til staðar skv. 7. tl. 1. mgr. 1. gr. og 1. mgr. 3. gr. aðfararlaga nr. 90/1989. Mótmæli varnaraðila eigi ekki við rök að styðjast og samkvæmt 2. mgr. 27. gr. laga nr. 90/1989 hafi sýslumanni borið að halda gerðinni áfram þrátt fyrir mótmæli varnaraðila. Í október 2001 og í maí 2002 hafi orðið vanskil á skuldabréfinu og hafi varnaraðila verið sent innheimtubréf á grundvelli sjálfskuldarábyrgðar. Í bæði skiptin hafi bréfinu verið komið í skil án þess að varnaraðili hafi gert athugasemdir við sjálfskuldarábyrgðina. Þá hafi varnaraðila tvisvar verið birtar greiðsluáskoranir vegna þessa innheimtumáls án þess að hann hafi gert athugasemdir. Mótmæli varnaraðila hafi fyrst komið fram við sjálfa gerðina, mörgum árum eftir að innheimtuaðgerðir hafi fyrst hafist gagnvart honum. Sé hér um gróft tómlæti varnaraðila að ræða. Ljóst sé að mótmæli varnaraðila séu tilhæfulaus, ekki í samræmi við lög og hreinn fyrirsláttur. Gerð sé krafa um að tekið verði tillit til þess við ákvörðun málskostnaðar.
Sóknaraðili vísar til laga nr. 90/1989, sbr. 2. og 3. mgr. 27. gr. og 14. kafla laganna. Um ábyrgð varnaraðila vísar sóknaraðili til skuldabréfsins og ólögfestra reglna um viðskiptabréf og ábyrgð fjárskuldbindinga. Varðandi kröfu um málskostnað er vísað til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Þá vísar sóknaraðili til laga nr. 50/1988.
Málsástæður og lagarök varnaraðila.
Varnaraðili byggir á því að hann hafi ekki gengist undir sjálfskuldarábyrgð á umræddu skuldabréfi. Varnaraðili hafi ekki skrifað undir bréfið sjálft sem sjálfskuldarábyrgðarmaður við útgáfu þess og hafi ekki tekið á sig slíka ábyrgð við skilmálabreytingu í mars 2001. Umrædd skilmálabreyting hafi einungis verið gerð til að létta greiðslubyrði skuldara og hafi varnaraðili undirritað hana fyrir hönd skuldara. Í þeirri línu sem beri heitið ,,samþykki skuldara“ séu aðeins rituð orðin ,,pr.pr. Bílaskemman ehf.“ en þar vanti undirskrift prókúruhafa, sem sé varnaraðili. Þá undirskrift sé að finna á næstu línu. Sú lína sé merkt ,,140345-7099 Kjartan Björnsson sjálfskuldarábyrgð“ en varnaraðili hafi talið sig skrifa undir einungis fyrir hönd Bílaskemmunnar ehf., ekki persónulega. Merking á línu geti ein og sér ekki stofnað sjálfskuldarábyrgð viðkomandi aðila.
Varnaraðili byggir einnig á því að ef dómurinn komist að þeirri niðurstöðu að undirritun varnaraðila ein og sér á skilmálabreytinguna sé nægjanleg til að ábyrgðin stofnist, þá verði að líta til þess að þá sé engin undirritun á skilmálabreytingunni af hálfu skuldarans sjálfs. Undirritun varnaraðila á einum stað á skjalinu geti ekki bæði gilt sem undirritun prókúruhafans fyrir hönd lögaðilans og hans persónulega sem sjálfskuldarmanns.
Þá telur varnaraðili að sú breyting sem gera eigi á skuldabréfi verði að koma fram í meginmáli viðkomandi breytingaskjals. Þá þurfi slík undirritun að vera vottuð af tveimur vitundarvottum til að skuldbinding stofnist. Í meginmáli skilmálabreytingarinnar komi ekki fram að varnaraðili eigi að takast á hendur sjálfskuldarábyrgð á skuldinni, heldur sé skýrt tekið fram að einungis eigi að breyta afborgunartíma og fjölda afborgana og orðrétt standi: ,,að öðru leyti eru skilmálar óbreyttir“. Það hafi því ekki verið ætlunin að stofna til sjálfskuldarábyrgðar þegar skilmálunum var breytt. Skilmálabreytingin sé aðeins vottuð af einum einstaklingi. Varnaraðili hafi aldrei undirritað skuldabréfið sjálft sem sjálfskuldarábyrgðaraðili. Til að skrá sjálfskuldarábyrgðarmenn á skuldabréf þurfi að koma fram í meginmáli bréfsins hver ábyrgðarmaðurinn sé og síðan þurfi viðkomandi að undirrita bréfið sem sjálfskuldarábyrgðarmaður og undirritun hans að vera vottuð af tveimur vitundarvottum. Sóknaraðili hafi lagt fram tvö ólík ljósrit af skuldabréfinu og á þeim báðum sjáist að varnaraðili sé hvorki skráður í meginmáli skuldabréfsins sem sjálfskuldarábyrgðaraðili né hafi hann skrifað undir bréfið sem slíkur og undirritun hans verið staðfest af tveimur vitundarvottum. Því er mótmælt að varnaraðili hafi ritað nafn sitt á frumrit skuldabréfsins. Ekki sé sýnt fram á að athugasemd sem skráð sé í reit sem merktur sé ,,heimili og staður“ hafi verið rituð á frumrit bréfsins. Þá sé athugasemdin ólæsileg og óvottuð. Ekki sé vitað hvort merkingin ,,23/3“ tákni dagsetningu og jafnvel þó svo væri þá sé ekki vitað frá hvaða ári hún sé. Varnaraðila sé ekki kunnugt um að hafa ritað athugasemd á bréfið eða að annar aðili hafi gert það. Engin gögn styðji þá fullyrðingu sóknaraðila að skilmálabreytingin hafi verið gerð í þeim tilgangi að skipta út veði en það komi ekki fram í skilmálabreytingunni og ekki sé vitað hvenær veðinu hafi verið aflétt af bifreiðinni. Sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á tengsl milli skilmálabreytingarinnar og sölu bifreiðarinnar. Varnaraðili mótmælir þeirri staðhæfingu sóknaraðila að hann hafi sýnt af sér tómlæti með því að mótmæla því ekki að hann væri ábyrgðarmaður fyrr en við fyrirtöku aðfararbeiðninnar og að það styðji málatilbúnað sóknaraðila. Með tómlæti geti maður aðeins tapað réttindum en ekki stofnað til þeirra. Sjálfskuldarábyrgð stofnist aðeins með undirritun undir ábyrgðaryfirlýsingu og útilokað sé að slík ábyrgð geti stofnast með því að mótmæla ekki skráningu sem ábyrgðarmaður hjá innheimtuaðila.
Varnaraðili vísar til ólögfestra reglna um viðskiptabréf og ábyrgð fjárskuldbindinga. Varðandi málskostnað vísar varnaraðili til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.
Niðurstaða.
Sóknaraðili byggir aðfararheimild sína á 7. tl. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989. Skuldabréf það sem sóknaraðili byggir rétt sinn á er eins og framar greinir glatað, en sóknaraðili hefur fengið ógildingardóm fyrir bréfinu. Er því réttilega byggt á 7. tl. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989.
Varnaraðili hefur mótmælt því að hafa undirritað sem sjálfskuldarábyrgðarmaður skuldabréf sem Bílaskemman ehf. gaf út til sóknaraðila. Varnaraðila og sóknaraðila greinir ekki á um að varnaraðili hafi ritað nafn sitt á yfirlýsingu um breytingu á greiðsluskilmálum viðkomandi skuldabréfs, á línu þar sem undir stendur kennitala og nafn varnaraðila og orðið ,,sjálfskuldarábyrgð“ en greinir á um í hvaða tilgangi sú undirritun hafi verið. Sóknaraðili telur varnaraðila hafa með undirritun sinni gengist undir sjálfskuldarábyrgð en varnaraðili telur sig aðeins hafa ritað undir skuldabréfið sem fyrirsvarsmaður Bílaskemmunnar ehf.
Eins og fyrr greinir er frumrit skuldabréfsins glatað og hefur sóknaraðili aflað sér ógildingardóms um skuldabréfið. Á ljósriti skuldabréfsins sem sóknaraðili hefur lagt fram kemur fram að á bréfinu var þrískiptur reitur þar sem skrifa átti nöfn, kennitölur og heimili og stað sjálfskuldarábyrgðarmanna. Í þann hluta reitsins sem merktur er ,,Heimili og staður“ hefur verið rituð athugasemd, sem þó er með öllu ólæsileg, og talan ,,23/3“. Athugasemdin virðist ekki rituð með sömu rithönd og undirritun varnaraðila fyrir hönd Bílaskemmunnar ehf. Ekkert annað er ritað í reitinn. Að þessu virtu verður að telja ósannað að varnaraðili hafi staðfest sjálfskuldarábyrgð sína með því að hafa áritað á skuldabréfið sem sjálfskuldarábyrgðarmaður. Slíkt er þó ekki þörf til að síðar tilkomin ábyrgð stofnist með skilmálabreytingu. Kemur þá til skoðunar hvort varnaraðili hafi við undirritun skilmálabreytingarinnar gengist undir sjálfskuldarábyrgð á greiðslu skuldabréfsins.
Varnaraðili ritaði nafn sitt á línu þar sem undir stóð nafn hans, kennitala og orðið ,,sjálfskuldarábyrgð“. Varnaraðili hefur borið fyrir sig að hann hafi undirritað skilmálabreytinguna fyrir hönd Bílaskemmunnar ehf. sem fyrirsvarsmaður, en óumdeilt er að það var varnaraðili sem ritaði orðin ,,pr.pr. Bílaskemman ehf.“ á línuna ,,samþykki skuldara“. Í 28. gr. laga nr. 42/1903 er kveðið á um að prókúruhafi skuli rita firma og bæta við það orðum eða stöfum, sem merkja umboð hans, og auk þess rita nafn sitt. Ljóst er að ein nafnundirritun getur ekki verið fyrir bæði skuldara og sjálfskuldarábyrgðarmann. Hjá því verður ekki litið að varnaraðili ritaði nafn sitt á línu þar sem undir stóð, ásamt nafni hans og kennitölu, orðið ,,sjálfskuldarábyrgð“. Þessi staðsetning áritunar varnaraðila gefur ekki annað til kynna en að varnaraðili hafi með undirritun sinni tekið á sig sjálfskuldarábyrgð á greiðslu skuldabréfsins, sbr. dóma Hæstaréttar í málum nr. 400/2001 og 223/1997. Er því vafi fyrir hendi hvort undirritun varnaraðila var fyrir hönd skuldara eða persónulega sem sjálfskuldarábyrgðarmanns. Af því leiðir að annaðhvort er ekki fyrir hendi gild undirritun prókúruhafa fyrir hönd skuldara eða gild undirritun sjálfskuldarábyrgðarmanns. Hvor niðurstaðan sem er leiðir til þess að sjálfskuldarábyrgð varnaraðila stofnaðist ekki. Sóknaraðili er fyrirtæki sem sinnir m.a. lánastarfsemi. Þá kröfu verður að gera til slíkra fyrirtækja að þau sjái til þess að öll skjöl séu réttilega útfyllt og undirrituð til að þau haldi því gildi sem skjali er ætlað að gera. Það hefur sóknaraðili ekki gert og verður að bera hallann af því.
Með vísan til framangreinds ber að staðfesta þá ákvörðun sýslumannsins á Selfossi þann 23. janúar sl. að stöðva aðfarargerð nr. 033-2006-01686. Með vísan til þessarar niðurstöðu skal sóknaraðili greiða varnaraðila málskostnað sem telst hæfilega ákveðinn kr. 149.400 og er þá tekið tillit til virðisaukaskatts.
Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Staðfest er ákvörðun sýslumannsins á Selfossi þann 23.01.2007 að stöðva aðfarargerð í málinu nr. 033-2006-01686.
Sóknaraðili greiði varnaraðila kr. 149.400 í málskostnað að teknu tilliti til virðisaukaskatts.