Hæstiréttur íslands

Mál nr. 431/2014


Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Símahlerun
  • Friðhelgi einkalífs


                                     

Fimmtudaginn 12. mars 2015.

Nr. 431/2014.

Íslenska ríkið

(Óskar Thorarensen hrl.)

gegn

Guðrúnu Sigurðardóttur

(Reimar Pétursson hrl.)

og gagnsök

Skaðabætur. Símahlerun. Friðhelgi einkalífs.

G krafði Í um bætur vegna ólögmætrar símahlerunar lögreglu við rannsókn máls á hendur eiginmanni hennar. Við rannsóknina aflaði lögreglan dómsúrskurðar þar sem henni var veitt heimild til að hlusta á og hljóðrita símtöl úr og í þrjú tilgreind símanúmer, svo og önnur númer sem eiginmaður hennar hefði í eigu sinni eða umráðum á tilgreindu tímabili. Var sími G hleraður í kjölfar þess að eiginmaður hennar bað viðmælanda sinn í símtali, sem sætti hlustun á grundvelli fyrrnefnds úrskurðar, að hringja í hennar síma. Talið var að Í hefði ekki hnekkt þeirri staðhæfingu G að hún hafi ekki lánað eiginmanni sínum símann á þeim tíma þegar hlustað var á símtöl úr og í umræddan síma, heldur notað hann sjálf. Því hefði sú aðgerð, að hlusta á síma G á umræddu tímabili, ekki verið heimil á grundvelli fyrirliggjandi dómsúrskurðar. G ætti því rétt á bótum samkvæmt 3. mgr., sbr. 2. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála þar sem mælt væri fyrir um hlutlæga bótaábyrgð Í ef maður sem ekki væri borinn sökum um refsiverða háttsemi hefði beðið tjón af aðgerðum á borð við símahlustum. Var Í því dæmt til að greiða G 300.000 krónur í bætur. 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Eiríkur Tómasson.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 20. júní 2014 að fengnu áfrýjunarleyfi. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að krafan verði lækkuð og málskostnaður fyrir Hæstarétti felldur niður.

Gagnáfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar fyrir sitt leyti 1. september 2014. Hún krefst þess að aðaláfrýjanda verði gert að greiða sér 1.000.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, án tillits til gjafsóknar sem henni var veitt í héraði.

I

            Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi heimilaði héraðsdómur Sérstökum saksóknara með úrskurði 9. júní 2011 að hlusta á og hljóðrita símtöl úr og í þrjú tilgreind símanúmer og „önnur símanúmer og símtæki (IMEI númer)“ sem eiginmaður gagnáfrýjanda „hefur í eigu sinni eða umráðum frá og með 10. júní 2011 til og með 19. júní 2011“. Jafnframt var heimilað að „nema SMS-sendingar, þar með taldar SMS-sendingar á lesanlegu formi, sem sendar eru eða mótteknar með símanúmerunum á sama tíma og hlusta og hljóðrita samtöl við talhólf greindra númera á sama tíma.“

Laust fyrir miðnætti 12. júní 2011 svaraði eiginmaður gagnáfrýjanda símtali í farsíma sinn, sem var einn af þeim þremur símum sem vísað var sérstaklega til í dómsúrskurðinum. Viðmælandi hans hringdi úr síma er einnig sætti hlustun lögreglu samkvæmt öðrum úrskurði. Símtalið hafði ekki staðið lengi yfir er viðmælandinn sagði síma sinn að verða straumlausan og kvaðst vilja hringja úr öðrum síma sem hann tiltók ekki hver væri. Spurði viðmælandinn jafnframt hvort hann ætti að hringja aftur í sama síma. Eiginmaður gagnáfrýjanda bað hann þá að hringja í annað símanúmer og gaf upp númer farsíma gagnáfrýjanda.

Samkvæmt upplýsingaskýrslu 13. júní 2011, gerðri af þeim lögreglumanni sem hlustaði á símtalið, taldi hann með hliðsjón af atvikum nauðsynlegt að fá þegar í stað hlustun á síma þann sem eiginmaður gagnáfrýjanda gaf viðmælanda sínum upp og hefði „auðsjáanlega aðgang að og fá jafnframt data upplýsingar á það númer svo hægt sé að sjá hvort sé hringt í það númer í beinu framhaldi og þá úr hvaða númeri.“ Einnig þyrfti að fá hlustun á það símanúmer sem væntanlega væri það sem viðmælandi eiginmanns gagnáfrýjanda hefði aðgang að. Samkvæmt annarri upplýsingaskýrslu lögreglu síðar þennan dag munu þessir tveir menn hafa kvöldið áður átt langt samtal úr símum maka sinna. Það símtal sætti aftur á móti ekki hlustun. Í kjölfarið var farsími gagnáfrýjanda hlustaður og er því ómótmælt að svo hafi verið gert til loka þess tímabils sem dómsúrskurðurinn 9. júní 2011 tók til.  

II

Samkvæmt 81. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er heimilt í þágu rannsóknar að leggja fyrir fjarskiptafyrirtæki að leyfa að hlustað sé á símtöl við síma í eigu eða umráðum tilgreinds manns. Sams konar heimild var tekin upp í eldri lög um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991, með lögum nr. 86/2004. Í athugasemdum með frumvarpi til þeirra laga og umfjöllun um það á Alþingi kom fram að ástæðan fyrir þeirri breytingu, að heimild til símahlustunar yrði ekki framvegis einskorðuð við símtöl við tiltekinn síma eins og áður hafði verið, væri sú að tíð skipti á símum og símanúmerum hjá þeim sem sættu símahlustun gæti leitt til réttarspjalla. Með breytingunni fengi lögregla heimild til að hlusta á símtöl úr síma sem viðkomandi ætti eða hefði sannanlega yfir að ráða.

Símtal eiginmanns gagnáfrýjanda að kvöldi 12. júní 2011, þar sem hann bað viðmælanda sinn um að hringja í sig í farsíma gagnáfrýjanda, veitti vísbendingu um að eiginmaðurinn hefði símann í umráðum sínum í skilningi 81. gr. laga nr. 88/2008, en ekki eingöngu aðgang að honum umrætt sinn. Í stað þess að leita dómsúrskurðar í því skyni að afla heimildar til að hlusta á símtöl við símann var ákveðið að leggja fyrir hlutaðeigandi fjarskiptafyrirtæki 13. júní 2011 að veita þann aðgang. Gagnáfrýjandi heldur því fram að hún hafi ekki lánað eiginmanni sínum símann á þeim tíma þegar hlustað var á símtöl við símann, heldur notað hann sjálf. Hefur aðaláfrýjandi ekki hnekkt þeirri staðhæfingu, svo sem með því að leggja fram gögn um símtölin eins og honum hefði verið unnt, en miða verður við að sími hennar hafi sætt hlustun frá 13. til og með 19. júní 2011 er heimild til hlustunar síma eiginmanns gagnáfrýjanda rann út. Samkvæmt því verður fallist á með héraðsdómi að sú aðgerð að hlusta síma gagnáfrýjanda á umræddu tímabili hafi ekki verið heimil á grundvelli fyrirliggjandi dómsúrskurðar. Af þeim sökum á hún rétt til bóta samkvæmt 3. mgr., sbr. 2. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 þar sem mælt er fyrir um hlutlæga bótaábyrgð aðaláfrýjanda ef maður sem ekki hefur verið borinn sökum um refsiverða háttsemi hefur beðið tjón af aðgerð á borð við símahlustun.

Gagnáfrýjandi krefst bóta sökum miska sem hún kveðst hafa orðið fyrir vegna þess að sími hennar var hlustaður, sbr. 5. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008. Með því að mannréttindi hennar voru skert með þeirri aðgerð verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.

Aðaláfrýjandi verður dæmdur til að greiða gagnáfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti, eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Aðaláfrýjandi, íslenska ríkið, greiði gagnáfrýjanda, Guðrúnu Sigurðardóttur, 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. febrúar 2014.

                Mál þetta höfðaði Guðrún Sigurðardóttir, kt. [...],[...],[...], með stefnu birtri 14. janúar 2013, á hendur íslenska ríkinu, kt. 550169-2829, Arnarhvoli, Reykjavík.  Innanríkisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra er stefnt fyrir hönd ríkisins.  Málið var dómtekið 7. febrúar sl. 

                Stefnandi krefst greiðslu á 1.000.000 króna auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 12. júní 2011 til 30. september 2012, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.  Þá krefst stefnandi málskostnaðar eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, en henni var veitt gjafsókn 19. febrúar 2013.

                Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar, til vara að kröfur hennar verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður. 

                Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 9. júní 2011 var Sérstökum saksóknara heimiluð símhlerun.  Náði heimildin til að hlusta á og hljóðrita símtöl úr og í þrjú tiltekin símanúmar Jóhannesar Baldurssonar, eiginmanns stefnanda, auk þess að nema SMS-sendingar og hlusta og hljóðrita samtöl við talhólf þessara símanúmera.  Auk hinna tilgreindu símanúmera var aðgerð þessi heimiluð gagnvart öðrum símanúmerum og símtækjum „sem [eiginmaður stefnanda] hefur í eigu sinni eða umráðum ...“.  Heimildir þessar voru veittar fyrir tímabilið frá og með 10. júní 2011 til 19. sama mánaðar. 

                Í skjóli þessa úrskurðar lét lögreglan hlera farsíma stefnanda.  Ekki hafa verið lögð fram í dóminum nákvæm gögn um þá aðgerð.  Einungis liggja frammi tvær upp­lýsingaskýrslur lögreglu.  Önnur er skráð 13. júní 2011 kl. 14.45.  Þar segir frá samtali eiginmanns stefnanda við annan mann kvöldið áður, en sími þess manns virðist einnig hafa verið hleraður vegna rannsóknar sama máls.  Kemur fram að þeir hafi þurft að skipta um síma og bað eiginmaður stefnanda viðmælanda sinn þá að hringja í farsíma eiginkonu sinnar, stefnanda.  Er að sjá sem lögregla hafi ekki heyrt næsta samtal þeirra, en fram kemur að viðmælandinn hafi ekki hringt úr neinu því númeri sem þá var hlerað.  Síðan segir orðrétt í skýrslunni:  „Nauðsynlegt er því að fá strax hlustun á símanúmerið 696-0570 sem [eiginmaður stefnanda] hefur auðsjáanlega aðgang að ...“ 

                Síðari skýrslan er skráð sama dag kl. 16.20.  Þar segir að samkvæmt áreiðanlegum upplýsingum rannsóknaraðila hafi áðurgreindir aðilar notast við farsíma maka sinna.  Hafi þeir átt rúmlega 45 mínútna samtal í síma þessa um miðnætti kvöldið áður. 

                Frekari gögn hafa ekki verið lögð fram um aðdraganda þess að sími stefnanda var hleraður. 

                Fyrir dómi kom fram hjá Aldísi Hilmarsdóttur lögreglufulltrúa að hún hefði skrifað fyrri skýrsluna sem nefnd var.  Hún hefði verið afhent stjórnanda rannsóknarinnar.  Hún hafði ekki vitneskju um hver hefði ákveðið að hlera síma stefnanda.  Hún sagði að símtöl sem væru hlustuð væru skráð í dagbók og þar kæmu helstu upplýsingar fram.  Jónatan Guðbjartsson lögreglufulltrúi staðfesti að hann hefði ritað síðarnefndu skýrsluna.  Hann mundi ekki eftir einstökum atriðum varðandi rannsóknina, þ. á m. hver hefði ákveðið að láta hlera síma stefnanda. 

                Jakob Þór Guðbjartsson, forstöðumaður hjá Fjarskiptum hf., sagði að beiðni um hlerun síma stefnanda hefði borist 13. júní kl. 15.45.  Slíkar beiðnir bærust ætíð í tölvupósti og með fylgdi úrskurður sem veitti heimildina.  Hann taldi að hlerun hefði staðið eins lengi og heimilað hefði verið í úrskurðinum. 

                Stefnandi sagði fyrir dómi að hún væri hjúkrunarfræðingur og starfaði sem deildarstjóri á geislameðferðardeild Landspítalans.  Hún kvaðst hafa haft farsíma­númerið 6960570 frá því að hún fékk fyrst farsíma, fyrir a.m.k. fjórtán árum síðan.  Hún kvaðst ekki muna eftir því að hún hafi lánað símann sinn á þeim tíma sem hlerunin stóð yfir í júní 2011.  Þá kvaðst hún ekki muna eftir því að hafa lánað eiginmanni sínum símann að kvöldi 11. júní 2011. 

Málsástæður og lagarök stefnanda

                Stefnandi kveðst krefjast miskabóta vegna ólögmætrar hlustunar, upptöku og öflunar upplýsinga um símtöl hennar á tímabilinu 12. til 19. júní 2011.  Hún telur að bótaábyrgðin sé hlutlæg, sbr. 228. gr. laga nr. 88/2008.  Til vara byggir hún á því að aðgerðirnar hafi verið saknæmar og ólögmætar. 

                Stefnandi segir að rannsókn Sérstaks saksóknara hafi beinst að eiginmanni hennar, en ekki að henni.  Í júní 2012 hafi eiginmaður hennar fengið upplýsingar um símhlerun þessa.  Hafi lögmaður sinn þá fengið þær upplýsingar frá embætti Sérstaks saksóknara að hlerunin hefði byggst á framangreindum úrskurði Héraðsdóms Reykja­víkur.  Hafi embættið talið sér heimilt að hlera síma stefnanda þar sem eiginmaður hennar hefði haft umráð símans.  Mótmælir stefnandi þessum skilningi.  Hún hafi sjálf haft umráð þessa síma og símanúmer hennar sé ekki tilgreint í úrskurðinum. 

                Stefnandi vísar til 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu um friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu.  Undanþágur verði að skýra þröngt og þær verði að byggjast á lögum.  Samkvæmt 1. mgr. 84. gr. laga nr. 88/2008 verði símhlerun aðeins beitt eftir sérstakri heimild í dómsúrskurði.  Stefnandi byggir á því að hlerun á síma sínum og aðrar aðgerðir hafi ekki staðist þessar lögmæltu kröfur.  Hún eigi umræddan síma og hafi hann í sínum umráðum.  Úrskurðurinn hafi því ekki heimilað hlerun símans og hljóti rannsakendum að hafa verið það ljóst.  Því hafi aðgerðir lögreglu brotið gróflega gegn einkalífi stefnanda. 

                Þá telur stefnandi að óheimilt hefði verið að heimila hlerun með úrskurði.  Rannsökuð hafi verið meint brot gegn 249. gr. almennra hegningarlaga og lögum nr. 145/1994 um bókhald.  Hefðu því ríkir almannahagsmunir eða einkahagsmunir þurft að standa til þess að heimila hlerun.  Útilokað sé að slíkir hagsmunir hafi staðið til þess að hlera síma hennar.  Ekkert hafi bent til annars en að hún hafi heimilað eigin­manni sínum afnot símans einu sinni. 

                Stefnandi krefst miskabóta vegna þess tjóns sem aðgerðirnar hafi valdið henni.  Ábyrgðin sé hlutlæg eins og áður segir samkvæmt 3. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008.  Til vara byggir stefnandi á því að aðgerðin hafi farið fram án heimildar í dómsúrskurði og hafi því verið ólögmæt.  Bótaskylda byggist þá á almennu sakarreglunni.  Verði talið að heimild til hlerunar hafi falist í úrskurðinum byggir stefnandi til þrautavara á því að sá úrskurður hafi verið ólögmætur og stefndi sé því bótaskyldur samkvæmt almennu sakarreglunni. 

                Stefnandi segir að aðgerðirnar hafi valdið sér miska.  Með hlerun síma hennar hafi verið brotið gróflega og alvarlega á rétti hennar til friðhelgi einkalífs.  Málið sé enn alvarlegra þar sem hún sé hjúkrunarfræðingur og ræði einatt viðkvæm heilbrigðis­málefni um einstakar persónur í símann.  Hún sé sár og reið, upplifi öryggisleysi og sér líði illa.  Þá hafi hún ekki fengið neinar upplýsingar um aðgerðirnar og verið mætt af fullkomnu virðingarleysi af hálfu embættis Sérstaks saksóknara. 

                Fjárhæð kröfu sinnar miðar stefnandi við að um hafi verið að ræða sérstaklega alvarlega og ólögmæta meingerð gegn persónu og einkalífi hennar.  Þá hafi hún ekki valdið eða stuðlað að þessum aðgerðum. 

                Auk áðurgreindra lagareglna vísar stefnandi til XI. og XXXVII. kafla laga nr. 88/2008.  Loks vísar hún til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. 

Málsástæður og lagarök stefnda

                Stefndi mótmælir því að aðgerðir sérstaks saksóknara hafi verið ólögmætar og að stefnandi eigi kröfu til miskabóta.  Sími stefnanda hafi verið í umráðum eigin­manns hennar, en samkvæmt úrskurði héraðsdóms hafi verið heimilt að hlera síma sem hann hafði umráð yfir. 

                Stefndi byggir á því að ekki felist hlutlæg bótaregla í 3. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008.  Þá séu heldur ekki uppfyllt þau skilyrði að aðgerðin hafi verið saknæm eða ólögmæt.  Aðgerðin hafi verið lögmæt og uppfyllt skilyrði XI. kafla laga nr. 88/2008.  Aðgerðin hafi verið heimil eins og áður segir samkvæmt úrskurði héraðsdóms.  Þá hafi ekki verið brotið gegn 71. gr. stjórnarskrárinnar eða 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu. 

                Þá mótmælir stefndi því að engar forsendur hafi verið til að veita heimild til hlerunar eins og gert var með úrskurðinum. 

                Stefndi mótmælir því að aðgerðirnar hafi valdið stefnanda miska.  Þá hafi ekki verið brotið gegn friðhelgi einkalífs hennar.  Þá mótmælir stefndi þeirri fullyrðingu í stefnu að um hafi verið að ræða sérstaklega alvarlega ólögmæta meingerð gegn persónu og einkalífi stefnanda.  Ósannað sé að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni, en sönnun tjóns sé skilyrði bóta samkvæmt 3. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008.  Þá mótmælir stefndi því að skilyrði séu til að dæma bætur samkvæmt 26. gr. skaðabóta­laga. 

                Stefndi telur að framlagðar upplýsingaskýrslur lögreglu og endurrit af samtali eiginmanns stefnanda og annars manns sem lá undir grun sýni að nauðsynlegt var að hlera síma stefnanda. 

                Varakrafa um lækkun er byggð á öllum framangreindum málsástæðum, en bent á að dómkrafa sé of há og ekki í neinu samræmi við dómvenju.  Þá mótmælir stefndi því að vextir reiknist fyrr en frá þingfestingardegi. 

Niðurstaða

                Samkvæmt 81. gr. laga nr. 88/2008 er heimilt í dómsúrskurði að leyfa lögreglu hlustun eða upptöku símtala og annarra fjarskipta við síma í eigu eða umráðum tiltekins aðila.  Í framkvæmd hefur þessi heimild verið nýtt þannig að lögreglu er heimiluð hlerun tiltekinna símanúmera, en auk þess allra símtækja í eigu og umráðum viðkomandi, án þess að önnur símanúmer séu tilgreind í úrskurði.  Áðurnefndur úrskurður, er heimilaði hlerun á símum eiginmanns stefnanda, er dæmi um þessa beitingu 81. gr. 

                Ekki þarf að leysa úr því hvort heimilt hafi verið að hlera síma eiginmanns stefnanda eins og heimilað var með úrskurðinum.  Hins vegar er öldungis ljóst og óumdeilt að ekki var heimiluð hlerun á síma stefnanda. 

                Sími stefnanda var hleraður.  Samkvæmt úrskurðinum var heimilt að hlera síma sem eiginmaður hennar hefði í sínum umráðum.  Hvað í því felst er ekki skýrt nánar í lögunum og lögskýringargögn gefa ekki skýrar vísbendingar.  Almennt verður að ætlast til þess að hinn grunaði hafi símann í vörslum sínum og fari með sem sinn eigin, þótt hann sé skráður á nafn annars aðila. 

                Vísbending sú sem lögregla byggði á þegar hún hóf hlerun síma stefnanda var sú að eiginmaður stefnanda hafði beðið viðmælanda sinn að hringja í númer símans.  Í framangreindum skýrslum lögreglu er ekki fullyrt að hann hafi haft símann í umráðum sínum, einungis er sagt að hann hafi aðgang að honum..  Af því sem lögregla hafði í höndum þegar hlerun var fyrirskipuð verður ekki dregin sú ályktun að eiginmaður stefnanda hafi haft umráð símans.  Þá hefur ekki verið sýnt fram á að svo hafi verið í reynd.  Var því ekki heimilt að hefja hlerun á síma stefnanda. 

                Það athugast í þessu sambandi að stefndi hefur ekki reynt með framlagningu gagna að sýna fram á að eiginmaður stefnanda hafi í raun haft umráð símans og notað hann á tímabilinu.  Kom fram í skýrslum lögreglumanna fyrir dómi að öll símtöl í hleraða síma væru skráð, einnig þau sem er eytt.  Var ekkert upplýst um notkun á síma stefnanda á tímabilinu. 

                Þar sem sími stefnanda var hleraður án heimildar á hún rétt á bótum fyrir fjár­tjón og miska sem af því leiðir, sbr. 3. mgr., sbr. 2. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008.  Þarf ekki að leysa úr því hvort bótaregla þessi er hlutlæg, en aðgerðin var ólögmæt gagnvart stefnanda.  Þegar 3. mgr. áskilur að viðkomandi hafi orðið fyrir tjóni af aðgerðunum er með því vísað bæði til fjártjóns og miska.  Af sjálfu leiðir að hlustun á einkasímtöl er rof á friðhelgi einkalífs og þarf ekki frekari sönnun um tjón að koma hér til. 

                Samkvæmt gögnum málsins hófst hlerun á síma stefnanda 13. júní, en ekki þann 12., eins og miðað er við í kröfugerð hennar. 

                Dæma verður stefnanda miskabætur samkvæmt b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabóta­laga nr. 50/1193, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1999.  Eru þær hæfilega ákveðnar 300.000 krónur.  Ber sú fjárhæð vexti frá þeim degi er hlerun hófst, 13. júní 2011.  Stefnandi krafðist bóta með bréfi lögmanns síns 31. ágúst 2012 og ber því að reikna dráttarvexti frá 30. september, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001. 

                Stefnandi hefur gjafsókn og ber ríkissjóði að greiða málskostnað hans.  Er því rétt að málskostnaður milli aðila málsins falli niður, en gjafsóknarkostnaður stefnanda er ákveðinn 550.000 krónur.  Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts. 

                Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan. 

D ó m s o r ð

                Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda, Guðrúnu Sigurðardóttur, 300.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 13. júní 2011 til 30. september 2012, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. 

                Málskostnaður fellur niður. 

                Gjafsóknarkostnaður stefnanda, 550.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.