Hæstiréttur íslands

Mál nr. 373/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Miðvikudaginn 11

 

Miðvikudaginn 11. júlí 2007.

Nr. 373/2007.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Stefán Eiríksson lögreglustjóri)

gegn

X

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms, sem hafnaði kröfu L um að X yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. júlí 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. júlí 2007, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi til mánudagsins 3. september 2007 kl. 16.00. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að varnaraðila verði gert að sæta gæsluvarðhaldi til 3. september 2007 kl. 16.

 Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. 

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

                                                    Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. júlí 2007.

    Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að X, kt. [...], Reykjavík, verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, allt til mánudagsins 3. september nk. kl. 16.00.

Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að tilkynning barst frá fjarskiptamiðstöð lögreglunnar kl. 19:07 fimmtudaginn 5. júlí um að verið væri að ráðast á mann í húsnæði bifhjólaklúbbsins Fáfnis að Hverfisgötu 61 í Reykjavík. Lögreglumenn komu þar að kærða ásamt 9 öðrum mönnum. Brugðust þeir allir illa við afskiptum lögreglu og voru í kjölfarið handteknir og færðir á lögreglustöð til yfirheyrslu. Stuttu seinna gaf Y, kt. [...], sig á tal við lögreglumenn og kvaðst hafa orðið fyrir árás af hálfu kærða og A kt. [...]. Í viðræðum lögreglumanna við Y hafi hann sagst hafa komið í húsnæði bifhjólaklúbbsins í þeim tilgangi að skila fatnaði þar sem hann hafi ætlað að hætta sem meðlimur í Fáfni. Stuttu seinna hafi svo X og “A” lamið sig og sparkað ítrekað í sig og m.a. lamið sig með skiptilykli og röri. Hafi árásin staðið yfir þegar lögreglan kom á vettvang. Sé nánar vísað til framburðaskýrslu í gögnum málsins sem tekin hafi verið af Y. Lýsing á áverkum Y sé að finna í bráðabirgðalæknisvottorði sem fylgi gögnum málsins. Auk þess sem myndir voru teknar af ákverkunum en þar má meðal annars sjá skóför á baki Y. Y kvaðst hafa hringt í kærustu sína, B, og hún hafi heyrt árásina. Skýrsla hafi verið tekin af henni við rannsókn málsins og hún kveðst hafa heyrt árásina og kvaðst hafa kannast við rödd A eða ,,A.”

Kærði liggi undir rökstuddum grun um að hafa ráðist á Y, kt. [...], og veitt honum áverka með vopni. Kærði hafi neitað sök við yfirheyrslur hjá lögreglu. Brot það sem kærði sé grunaður um að hafa framið varði við 2. mgr. 218. gr.  almennra hegningarlaga sem fjalli um meiriháttar líkamsárás og hafi mjög hættulegri aðferð verið beitt við árásina. Með tilliti til hagsmuna almennings þyki þannig nauðsynlegt að kærði sæti gæsluvarðhaldi á meðan mál hans sé til meðferðar en telja verði að ef sakborningur, sem orðið hafi uppvís að jafn alvarlegu broti og kærði, gangi laus áður en máli ljúki með dómi þá valdi það hneykslun í samfélaginu og særi réttarvitund almennings. Þrátt fyrir neitun kærða, telur lögreglustjóri brotið vera þess eðlis að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Sakarefni málsins séu talin varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en brot gegn ákvæðunum geti varðað fangelsi allt að 16 árum ef sök sannist.  Um heimild til gæsluvarðhalds sé vísað til a-liðar 1. mgr. og 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991.

Krafa lögreglustjóra er byggð á 2. gr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991. Ströng skilyrði eru fyrir því að sakborningur verði látinn sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli þessa lagaákvæðis. Í ákvæðinu er fjallað um að brotið sé þess eðlis að ætla megi varðhald nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Dómurinn fellst ekki á að fullnægt sé skilyrðum ákvæðisins að þessu leyti. Kröfunni er því hafnað.

Ingimundur Einarsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, allt til mánudagsins 3. september nk. kl. 16:00, er hafnað.