Hæstiréttur íslands

Nr. 2024-2

Geðverndarfélag Íslands (Magnús Björn Brynjólfsson lögmaður)
gegn
SÍBS (Sigurður Örn Hilmarsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Viðurkenningarkrafa
  • Samningur
  • Eignarréttur
  • Afnotaréttur
  • Hefð
  • Frávísun
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen og Karl Axelsson.

2. Með beiðni 5. Janúar 2024 leitar Geðverndarfélag Íslands leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 15. desember 2023 í máli nr. 476/2022: Geðverndarfélag Íslands gegn SÍBS og SÍBS gegn Geðverndarfélagi Íslands. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Ágreiningur aðila á rætur að rekja til samnings þeirra 26. september 1967 þar sem gagnaðili heimilaði leyfisbeiðanda að byggja smáhýsi í landi Reykjalundar. Málið laut að þremur tilgreindum smáhýsum sem byggð voru á grundvelli samningsins. Leyfisbeiðandi sagði honum upp í apríl 2020 og höfðaði í kjölfarið mál á hendur gagnaðila til viðurkenningar á eignarrétti sínum að smáhýsunum með tilheyrandi lóðum og umferðarrétti en til vara á óskertum afnotarétti. Gagnaðili höfðaði jafnframt mál á hendur leyfisbeiðanda og krafðist aðallega viðurkenningar á eignarrétti sínum að sömu smáhýsum en til vara að leyfisbeiðanda yrði gert að fjarlægja þau af lóðinni. Málin voru sameinuð fyrir Landsrétti.

4. Með héraðsdómi í máli leyfisbeiðanda á hendur gagnaðila var viðurkenndur eignarréttur hans að smáhýsunum en því hafnað að þeim fylgdu frekari lóðarréttindi eða umferðarréttur. Með héraðsdómi í máli því sem gagnaðili höfðaði á hendur leyfisbeiðanda var leyfisbeiðandi sýknaður af kröfum gagnaðila. Landsréttur vísaði á hinn bóginn frá héraðsdómi kröfu leyfisbeiðanda um viðurkenningu eignarréttar hans að smáhýsunum og sýknaði af kröfu um viðurkenningu á óskertum afnotarétti. Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um að sýkna leyfisbeiðanda af kröfum gagnaðila.

5. Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu að samningur aðila frá árinu 1967 væri enn í gildi. Í dóminum kom fram að úrlausn um kröfu leyfisbeiðanda um viðurkenningu á eignarrétti að smáhýsunum myndi engu breyta um réttarstöðu hans á meðan samningurinn við gagnaðila væri enn í gildi. Taldi Landsréttur dómkröfuna ekki fullnægja skilyrðum 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Þá komst rétturinn að þeirri niðurstöðu að ekkert í gögnum málsins benti til þess að leyfisbeiðandi hefði ætlað að færa gagnaðila smáhýsin að gjöf. Loks tók rétturinn fram að umráða- og afnotaréttur gagnaðila hefði verið reistur á samningi um að skila þeim félli samningurinn niður og gæti gagnaðili því ekki unnið rétt fyrir hefð, sbr. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 46/1905. Var leyfisbeiðandi því sýknaður af kröfu gagnaðila um viðurkenningu eignarréttar. Þar sem komist hafði verið að niðurstöðu um að samningur aðila væri enn í gildi var gagnaðili sýknaður af kröfu leyfisbeiðanda um afnotarétt og leyfisbeiðandi var á sama grundvelli sýknaður af kröfu gagnaðila um að fjarlægja mannvirkin.

6. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi og varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína. Hann byggir einkum á því að málsmeðferð fyrir héraðsdómi hafi verið ábótavant þar sem upphaflega hafi með sama dómi tveimur kröfum leyfisbeiðanda verið vísað frá en sýknað af öðrum tveimur. Þá byggir hann jafnframt á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur þar sem rétturinn hafi ekki virt eigin niðurstöðu í úrskurði sínum 9. september 2022 í máli nr. 466/2022 þar sem ákvæði héraðsdóms um að vísa frá dómi kröfu leyfisbeiðanda um að viðurkenndur yrði eignarréttur hans að húsunum var fellt úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka þá dómkröfu til efnismeðferðar.

7. Niðurstaða Landsréttar um frávísun á kröfu leyfisbeiðanda um viðurkenningu eignarréttar sætti kæru til Hæstaréttar á grundvelli a-liðar 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Leyfisbeiðandi nýtti sér ekki þá kæruheimild og er frestur til þess runninn út samkvæmt 1. mgr. 168. gr. sömu laga. Stendur því sú úrlausn Landsréttar óhögguð. Varðandi ákvæði dóms Landsréttar um aðrar kröfur leyfisbeiðanda er að virtum gögnum málsins hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að málsmeðferð fyrir héraðsdómi eða Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant eða dómur Landsréttar bersýnilega rangur að formi eða efni, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.