Hæstiréttur íslands
Mál nr. 390/2001
Lykilorð
- Ávana- og fíkniefni
- Hilming
- Ólögmæt meðferð fundins fjár
- Ítrekun
- Hegningarauki
|
|
Fimmtudaginn 7. febrúar 2002. |
|
Nr. 390/2001. |
Ákæruvaldið(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari) gegn Úlfari Ólafssyni (Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Ávana- og fíkiefni. Hilming. Ólögmæt meðferð fundins fjár. Ítrekun. Hegningarauki.
Ú var sakfelldur fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og hilmingu, svo og ólögmæta meðferð fundins fjár. Brot þessi voru umfangsmikil. Húsleit var tvívegis gerð á heimili Ú haustið 1999 og fannst í bæði skiptin mikið þýfi. Við ákvörðun refsingar var og til þess litið að Ú átti að baki langan brotaferil. Að þessu gættu þótti refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í átta mánuði og hafði þá verið tekið tillit til ítrekunaráhrifa frá eldri dómum fyrir auðgunarbrot.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 5. október 2001 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur varðandi sakfellingu ákærða samkvæmt töluliðum 1, 2, og 3, 3.1 til 3.4 í A kafla og tölulið 2 í C kafla ákæru frá 9. október 2000 og að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvalds samkvæmt tölulið 3, 3.1 til 3.4 í A kafla og tölulið 2 í C kafla ákæru frá 9. október 2000, en til vara að refsing verði milduð.
Með hinum áfrýjaða dómi var ákærði sakfelldur fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 samkvæmt töluliðum 1 og 2 í A kafla ákæru frá 9. október 2000. Þá var hann sakfelldur fyrir hilmingu samkvæmt fjórum undirliðum töluliðs 3 í A kafla sömu ákæru og ólögmæta meðferð fundins fjár samkvæmt tölulið 2 í C kafla hennar. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða samkvæmt framangreindum ákæruliðum.
Ákærði á að baki langan brotaferil eins og nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi. Auk þeirra dóma, sem þar er getið, var ákærði með dómi héraðsdóms Suðurlands 19. júní 2001 sakfelldur fyrir hilmingarbrot, en ekki gerð sérstök refsing. Brot ákærða, sem hann er nú sakfelldur fyrir, eru umfangsmikil. Húsleit var tvívegis gerð á heimili hans með þriggja mánaða millibili haustið 1999 og fannst mikið þýfi í bæði skiptin. Er þýfi þetta úr fjórum innbrotum. Að þessu gættu og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í átta mánuði og hefur þá verið tekið tillit til ítrekunaráhrifa frá eldri dómum fyrir auðgunarbrot, sem kveðnir voru upp yfir ákærða 27. nóvember 1998 og 29. september 1994, sbr. 71. og 255. gr almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákvæði héraðsdóms um upptöku eru staðfest. Þá er staðfest ákvæði héraðsdóms um greiðslu málsvarnarlauna til skipaðs verjanda ákærða í héraði.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og nánar segir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Úlfar Ólafsson, sæti fangelsi í átta mánuði.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um upptöku og greiðslu málsvarnarlauna skulu óröskuð.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 50.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 29. júní 2001.
Málið er höfðað með tveimur ákærum lögreglustjórans í Hafnarfirði svo sem rakið verður:
Með ákæru dagsettri 9. október 2000 er mælt fyrir um höfðun opinbers máls á hendur Úlfari Ólafssyni, kt. 090258-7619, Grettisgötu 82, Reykjavík, Guðrúnu Halldóru Valsdóttur, kt. 140971-3329, Írabakka 10, Reykjavík, og Maríu Sveinsdóttur, kt. 220959-2449, Írabakka 10, Reykjavík, fyrir eftirtalin brot:
„A. Á hendur ákærðu Úlfari Ólafssyni og Guðrúnu Halldóru Valsdóttur:
1. Fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni með því að hafa hinn 25. ágúst, 1999 haft í vörslum sínum samtals 0.62 grömm af amfetamíni, sem fundust við húsleit á heimili þeirra að Brekkubyggð 85, Garðabæ.
2. Fyrir brot gegn sömu lögum með því að hafa hinn 15. nóvember 1999 haft í vörslum sínum 0.35 grömm af amfetamíni, sem fundust við húsleit á heimili þeirra að Brekkubyggð 85, Garðabæ.
Brot þessi teljast varða við 2. sbr. 5. og 6. gr. laga nr. 65/1974, sbr. lög nr. 60/1980, sbr. lög nr. 13/1985, sbr. 7. gr. laga nr. 10/1997, sbr. 166. gr. laga nr. 82/1998, sbr. reglugerð nr. 16/1986.
3. Fyrir hylmingu með því að halda ólöglega fyrir réttum eigendum eftirtöldum hlutum sem aflað hafði verið með þjófnaði og viðhalda þannig ólöglegum afleiðingum þjófnaðarbrota en hlutir þessir fundust á heimili þeirra við húsleitir 25. ágúst og 15. nóvember 1999:
3.1 Pioneer sambyggðu bílaútvarpstæki og geislaspilara, serial no. RLMH006979EW sem stolið hafði verið úr bifreið við Bæjarhraun 22, Hafnarfirði hinn 14. 07. '99. Verðmæti talið u.þ.b. kr. 20 - 25.000.00.
3.2 grænni Bosch borvél nr. PSB-750 RE í grárri hirslu, annarri Bosch hleðsluborvél, 9.6 v ásamt 14.4 v Bosch hleðslurafhlöðu, grænni verkfæratösku með verkfærum og skrúfbitasetti, svörtum krossviðarkassa með verkfærum, þ.á m. sérmerktum bor, fimm hvítum samanlímdum vinklum, 12 v Porter Cable batterísborvél í grárri plasttösku, dökkgrænni Hitachi DS10DVA batterís skrúfvél nr. D-850063, ásamt hleðslutæki að Hitachi VC 12 V, nr. D751268, hvítum Gustavsberg vaski og Ariston helluborði og bakarofni, en munum þessum hafði verið stolið frá Núpalind 8, Kópavogi hinn 10. 08. '99. Verðmæti muna þessara er talið u.þ.b. kr. 140- 150.000.00.
3.3 Panasonic RX DS101 sambyggðu útvarps- , CD og kasettutæki og Sharp UX 70 faxtæki sem stolið hafði verið frá Álfhólsvegi 111, Kópavogi hinn 15. 08. '99. Verðmæti talið u.þ.b. kr. 74.000.00.
3.4 gulu stjórnborði fyrir Linden-byggingarkrana, Bosch hitabyssu, Dimplex hitablásara, heftibyssu, Sunlon 50 m málbandi, rauðri járntösku með Split 325 höggborvél ásamt borum, merktri Pétri Halldórssyni, s. 642186, og ýmsum handverkfærum, svo sem þvingu, tveim hömrum, lyklum, skrúfjárni, sporjárni o.fl., en munum þessum hafði verið stolið frá Akralind 7, Kópavogi, 20-22. 08. '99 og/eða 27.-29. 08. '99. Verðmæti talið u.þ.b. kr. 200.000.00.
Brot þessi teljast varða við 254. gr. sbr. 263. gr. sbr. 22. gr. alm. hgl. nr. 19/1940.
4. Fyrir þjófnað með því að hafa hinn 12. ágúst 1999 haft samráð um að stela veski úr bifreiðinni PB-302 þar sem hún stóð við Ármúla í Reykjavík, en í því voru ávísanahefti frá Sparisjóði Kópavogs, blöð númeruð 4528351 - 4528375, kreditkort og persónulegir munir.
Brotið telst varða við 244. gr. sbr. 22. alm. hgl. nr. 19/1940.
5. Fyrir skjalafals og fjársvik með því að hafa:
5.1 hinn 23. september 1999 greitt fyrir vöruúttekt í bensínstöð OLÍS við Sæbraut með falsaðri ávísun á kr. 10.000.-. Ávísanablaðið, sem var nr. 4528370, hafði verið í veski sem stolið var úr bifreiðinni PB-302 hinn 12. ágúst 1999, sbr. ákærulið A4.
5.2 hinn 24. september 1999 greitt vörur í versluninni Fjölsporti í Hafnarfirði með falsaðri ávísun á kr. 8.000.-. Ávísanablaðið, sem var nr. 4528369, hafði verið í veski sem stolið var úr bifreiðinni PB-302 hinn 12. ágúst 1999, sbr. ákærulið A4.
Brot þessi teljast varða við 155. gr. og 248. gr. sbr. 22. gr. alm. hgl. nr. 19/1940.
B. Á hendur ákærðu Guðrúnu Halldóru Valsdóttur:
1. Fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni með því að hafa hinn 19. júní 1999 haft í vörslum sínum 0.31 gramm af amfetamíni sem fannst í tösku hennar er hún var handtekin í bifreiðinni NP-299 á Lækjargötu í Reykjavík.
Brot þetta telst varða við 2. sbr. 5. og 6. gr. laga nr. 65/1974, sbr. lög nr. 60/1980, sbr. lög nr. 13/1985, sbr. 7. gr. laga nr. 10/1997, sbr. 166. gr. laga nr. 82/1998, sbr. reglugerð nr. 16/1986.
2. Fyrir skjalafals og fjársvik með því að hafa hinn 25. september 1999 greitt vörur í söluskálanum Goðahrauni í Vestmannaeyjum með falsaðri ávísun á kr. 10.000.-. Ávísanablaðið, sem var nr. 4528368, hafði verið í veski sem stolið var úr bifreiðinni PB-302 hinn 12. ágúst 1999, sbr. ákærulið A4.
Brot þetta telst varða við 155. gr. og 248. gr. alm. hgl. nr. 19/1940.
3. Fyrir nytjastuld og umferðalagabrot með því að hafa hinn 27. október 1999 látið hjá líða að skila bifreiðinni JU-609, sem hún hafði fengið léða til reynsluaksturs hjá bifreiðaversluninni Jöfri, ekið henni, svipt ökuréttindum og farið heimildarlaust með bifreiðina heim til sín þar sem lögregla og starfsmaður Jöfurs fundu hana morguninn eftir.
Brot þessi teljast varða við 259. gr. alm. hgl. og 1. mgr. 48. gr. sbr. 1. mgr. 100. gr. og
1. og 2. gr. 101. gr. umferðalaga nr. 50/198, sbr. og reglug. nr. 431/1998.
C. Á hendur ákærða Úlfari Ólafssyni:
1. Fyrir þjófnað með því að hafa hinn 24. september 1999 stolið úr versluninni Fjölsporti í Hafnarfirði hvítum bol að verðmæti kr. 4.990.00.
Brotið telst varða við 244. gr. alm. hgl. nr. 19/1940.
2. Fyrir ólögmæta meðferð fundins fjár með því að hafa kastað eign sinni á greiðslukortavél frá Visa Ísland af gerðinni Hypercom, sem hann kvaðst hafa fundið á Arnarnesvegi, skammt frá Reykjavíkurvegi. Vélin fannst 15. nóvember 1999 við leit í húsagarði við heimili hans en henni hafði verið stolið frá Hlíðarsmára 14 í Kópavogi hinn 18. október 1999. Verðmæti telst u.þ.b. kr. 15.000.00.
Brotið telst varða við 246. gr. alm. hgl. nr. 19/1940.
D . Á hendur ákærðu Guðrúnu Halldóru Valsdóttur og Maríu Sveinsdóttur:
1. Fyrir þjófnað með því að hafa
1.1 hinn 4. ágúst 1999 haft samráð um að stela eftirtöldum munum úr verslun Kaupfélags Borgfirðinga við Egilsgötu í Borgarnesi: bókinni "List friðarins", svörtum þráðlausum síma af gerðinni United, þremur myndbandsspólum með myndunum "Fríða og dýrið", "Six days seven nights" og "Konungur ljónanna II, stolt Simba" 2 áletruðum glerplöttum og hljóðnema af gerðinni AIWA. Munir þessir, sem að verðmæti teljast u.þ.b. kr. 27.000.00, fundust við leit í og við hjólhýsi í landi Galtarholts í Borgarbyggð þar sem konurnar tvær dvöldust ásamt fjölskylduliði.
1.2 hinn 5. ágúst 1999 haft samráð um að stela eftirtöldum munum úr verslun fyrirtækisins Gallerí Handar sf. í Borgarnesi: svörtum spilakassa úr tré, hjartalaga hálsmeni úr skel, bók með tauáklæði, lyklaveski úr leðri og selskinni, tréskál, tréstyttu af fugli, armbandi og tveimur hálsmenum úr hrosshári. Munirnir fundust í vörslum Maríu er hún var handtekin við Hyrnuna í Borgarnesi. Verðmæti u.þ.b. kr. 18.000.00.
1.3. hinn 5. ágúst 1999 haft samráð um að stela eftirtöldum munum í Íþróttahúsinu í Borgarnesi: svörtum bakpoka með NIKE merki, svörtum sandölum með PUMA merki, tvennum öðrum sandölum og blárri snyrtitösku með gleraugum og linsum. Bakpokinn og sandalarnir fundust í vörslum þeirra en snyrtitöskunni höfðu þær fleygt inn í Skallagrímsgarð í Borgarnesi. Verðmæti u.þ.b. kr. 10.000.00.
1.4 hinn 5. ágúst 1999 brotist inn í íbúð að Borgarbraut 46, Borgarnesi og stolið þaðan eftirtöldum munum: Panasonic myndbandstæki, rafmagnsklippum, Sony símtæki, slípuðum steini, 2 hálsfestum, úr gulli og silfri, 2 gullhringjum og armbandi. Flestir muna þessara fundust í vörslum ákærðu Maríu þegar hún var handtekin við Hyrnuna í Borgarnesi. Myndbandstækið fannst skammt frá húsinu og klippurnar fundust skammt frá húsinu þar sem Guðrún hafði falið þessa hluti. Símtækið fannst við hjólhýsi í landi Galtarholts í Borgarbyggð. Verðmæti u.þ.b. kr. 98.000.00.
Brot þessi teljast varða við 244. gr. sbr. 22. gr. alm. hgl. nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar. Ennfremur að ákærða Guðrún sæti upptöku á 0.31 gr. af amfetamíni og að ákærðu Guðrún og Úlfar sæti sameiginlega upptöku á 0.97 gr. af amfetamíni, sem lögreglan lagði hald á við rannsókn málanna, svo og sprautur og nálar til fíkniefnanotkunar, sem fundust á heimili þeirra eða á þeim sjálfum. Vísast um þetta til 69. gr. alm. hgl. nr. 19/1940 og 6. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni.
Fyrir liggja skaðabótakröfur samtals að fjárhæð kr. 37.190.00 sem skiptast svo:
Sigríður Högnadóttir fyrir söluskálann Goðahraun, Vestmannaeyjum kr. 10.000.00
Björg Gilsdóttir fyrir verslunina Fjölsport, Hafnarfirði kr. 12.990.00
Jóhann Kristjánsson fyrir Olíuverslun Íslands, Reykjavík kr. 10.000.00
Ragnheiður S. Jóhannsdóttir fyrir Gallerí Hönd sf., Borgarnesi kr. 4.200.00.”
Með ákæru dagsettri 11. janúar 2001 er mælt fyrir um höfðun opinbers máls á hendur ákærðu Úlfari Ólafssyni og Guðrúnu Halldóru Valsdóttur sem hér segir:
„1. Ákærða Úlfari fyrir skjalafals með því að hafa falsað leigusamning dagsettan 01.4.98, um íbúð að Brekkubyggð 85, Garðabæ, til að blekkja með honum í lögskiptum við bæjarsjóð Garðabæjar til að fá þaðan húsaleigubætur, skráð á hann nafn sitt sem leigutaka og falsað nafn leigusala, Guðmundar Kristjánssonar.
Botið telst varða við 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
2. Ákærðu Guðrúnu fyrir hlutdeild í skjalafalsi með því að votta með nafnritun sinni undirskrift, dagsetningu og fjárræði aðila samningsaðila.
Brotið telst varða við 155. gr., sbr. 22. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.”
Mál samkvæmt framangreindum ákærum voru sameinuð, sbr. 3. mgr. 23. gr. laga
nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Ákæra dagsett 9. október 2000
A- kafli ákæru
Upphaf málsins varðandi ákæruliði 1, 3.1, 3.2 að hluta, 3.3 og 3.4. í þessum kafla ákæru má rekja til þess að aðfaranótt miðvikudagsins 25. ágúst 1999, um kl. 0.30, fóru lögreglumenn í lögreglunni í Hafnarfirði í ómerktri lögreglubifreið að Brekkubyggð 85, Garðabæ, til þess að fylgjast með mannaferðum í og við húsið, en lögreglu höfðu borist vísbendingar um að fíkniefnaneytendur vendu komur sínar þangað og að þar færi fram sala á fíkniefnum. Einnig að grunur léki á að þar væri geymt þýfi. Kl. 0.39 var óskað eftir fleiri lögreglumönnum að Brekkubyggð 85 og fóru þrír lögreglumenn á vettvang.
Um nóttina var haldið áfram að fylgjast með mannaferðum í kringum húsið vegna gruns um fíkniefnamisferli, en fjórir menn höfðu verið handteknir við það fyrr um nóttina. Laust fyrir kl. 4 taldi lögreglumaður sig sjá inn um glugga á húsinu nokkra menn vera að sjúga hvítt efni í nefið við eldhúsborðið. Varðstjóri á vettvangi ákvað þá að biðja um aðstoð frá lögreglunni í Reykjavík og Kópavogi og komu tveir lögreglumenn úr hvoru lögregluliði um sig á vettvang.
Í ljósi framangreindra upplýsinga var ákveðið að ráðast til inngöngu að Brekkubyggð 85, sem er parhús með sérinngangi, og var hurðin aðaldyramegin brotin upp. Þegar lögreglumennirnir réðust til inngöngu voru ákærði Úlfar Ólafsson og Ari Þorsteinsson í eldhúsinu. Ákærði Úlfar var vopnaður langri kylfu og gerði hann sig líklegan til að reiða hana til höggs. Ákærða Guðrún Halldóra Valsdóttir var við salernisdyrnar og tveir menn sátu í sófa í stofunni. Þau voru öll handtekin og færð í handjárn. Á eldhúsborðinu mátti sjá spegil og rakvélablað ásamt hvítu efni á speglinum. Þar hjá lá lítill poki með hvítu efni í. Ákærði Úlfar var ásamt einum mannanna fluttir á lögreglustöðina við Hverfisgötu í Reykjavík þar sem þeir voru vistaðir í fangaklefa. Tveir menn voru fluttir á lögreglustöðina í Hafnarfirði þar sem þeir voru vistaðir í fangaklefa.
Eftir að mennirnir höfðu verið handteknir var gerð húsleit að Brekkubyggð 85. Húsráðandi, ákærða Guðrún Halldóra, veitti samþykki fyrir leitinni og undirritaði húsleitarheimild. Jafnframt fylgdist hún með leitinni.
Við leit í íbúðinni fannst svört taska sem innihélt Bosch hleðsluborvél, Bosch hleðslurafhlöðu, rafknúið skrúfjárn, straumbreyti, Bosch hleðslutæki og talsvert magn handverkfæra og fleira. Þá fannst grá verkfærataska úr plasti sem innihélt verkfæri og skrúfbitasett, svört þykk skjalataska, all þung, sem ekki var hægt að opna, en lásar höfðu verið skemmdir við að reyna að opna töskuna. Einnig tölva af gerðinni Uni Ron. Þá fannst við leitina krossviðarkassi með handfangi ofaná, sem innihélt trésmíðaverkfæri. Fimm hvítir vinklar sem voru límdir saman, lítið topplyklasett í svartri plasttösku, stjórnborð fyrir byggingakrana, gult að lit, Porter Cable hleðsluborvél í grárri plasttösku, Pioneer sambyggt bílaútvarpstæki og geislaspilari, Audioline sambyggt bílaútvarpstæki og geislaspilari, græn taska sem innihélt Bosch hitablásara og Dimplex hitablásara, hermannataska undan gasgrímu sem innihélt eitt Mitchell MX 60 veiðihjól og eitt Abu Garcia veiðihjól ásamt girni, önglum, flugum og spúnum, Abu Garcia veiðistöng, Sunlon 50 mm málband, Nesco PRCD 700U sambyggt útvarp og CD kassettutæki, rauð járntaska sem innihélt Split 325 höggborvél ásamt borum, en utan á töskuna var skrifað Pétur Halldórsson, s. 642186.
Í eldhúskrók fannst m.a. hvítur vaskur af gerðinni Gustavsberg ásamt fylgihlutum, tvö myndbönd, níu óopnaðir geisladiskar, Sharp UX 70 faxtæki, 17 sólgleraugu í plastpoka, svört taska sem innihélt sjö hleðslutæki fyrir GSM síma í bíla og rafmagnssnúrur.
Í eldhúsi fannst eftirfarandi. Á eldhúsborði fannst 15x15 cm spegill með hvítu efni á ásamt málningarsköfublaði, plastflaska með hálfum lítra af landa, silfurhnífur með hvítum efnisleyfum á, annað málningarsköfublað með hvítum efnisleyfum á, glær plastpoki með hvítum efnisleyfum í. Í skáp í eldhúsinnréttingu fundust þrjár 35 mm myndavélar, ein Pentax Zoom, ein Olympus LT 1 og ein Yashica Microlee. Í skáp þar hjá voru einnig þrír sams konar speglar og á eldhúsborðinu með efnisleyfum á. Á borði í eldhúsinnréttingunni var Panasonic RX DS-101 sambyggt útvarps-, CD og kassettutæki sem ákærða Guðrún Halldóra sagði að vinkona sín María ætti. Í svefnherbergi íbúðarinnar fannst undir hjónarúmi Mash geislaspilari model SS V77 og undir tölvuborði í svefnherberginu voru tveir Sony hátalarar. Í glerskáp í stofu fannst hálsfesti úr gulli undir viðarskríni. Í tágarkistu í stofu fundust átta sólgleraugu Á sófaborði í stofu voru fimm CD möppur.
Málavextir varðandi ákærulið 2 og hluta ákæruliðar 3.2 í þessum kafla ákæru, svo
og ákærulið 2 í C-kafla ákæru eru þeir að mánudaginn 15. nóvember 1999, laust fyrir kl. 16, barst lögreglunni í Hafnarfirði tilkynning um að mikil neysla fíkniefna ætti sér stað í húsinu nr. 85 við Brekkubyggð í Garðabæ. Til að kanna þetta frekar ákvað lögreglan að fara á staðinn og hafa tal af húsráðendum, ákærðu Guðrúnu Halldóru og ákærða Úlfari. Eftir að knúð hafði verið dyra opnaði ákærða Guðrún Halldóra bréfalúgu á hurðinni til þess að athuga hverjir væru þarna á ferð. Þegar henni var sagt það krafðist hún þess að lögreglan færi burt. Í framhaldi af því neitaði hún að opna fyrir lögreglu og hvarf aftur inn í íbúðina. Með því að gægjast inn í um bréfalúguna sáu lögreglumenn hvar maður sem þeir töldu vera ákærða Úlfar á hlaupum inni í íbúðinni ásamt því sem þeir sáu ákærðu Guðrúnu Halldóru á hlaupum inni í íbúðinni.
Til að koma í veg fyrir að sönnunargögn spilltust, en lögreglumennirnir töldu þau vera að koma frá sér fíkniefnum, reyndu lögreglumennirnir að sparka upp hurðinni. Áður en það tókst opnaði ákærða Guðrún Halldóra fyrir þeim. Er þeir komu inn sáu þeir hvar um hálft gramm af meintu amfetamíni lá á eldhúsborðinu ásamt ýmsum áhöldum til fíkniefnaneyslu, sprautur, nálar og skeiðar. Ákærða Guðrún Halldóra var mjög óróleg og barðist um. Þurfti af þeim sökum að færa hana í handjárn.
Þegar lögreglumennirnir komu inn í íbúðina sáu þeir ákærða Úlfar hvergi, en skömmu síðar veitti lögreglumaður því athygli að hann var að fara inn í lögreglubifreiðina. Eftir að hafa kallað til hans kom hann til þeirra og var hann handtekinn.
Er lögreglumennirnir fóru þess á leit við ákærðu Guðrúnu Halldóru að hún heimilaði húsleit neitaði hún því og krafðist þess að fá lögmann sinn á staðinn. Þar sem ákveðið var að fá húsleitarheimild var lögregluvörður settur um húsið. Að fengnum dómsúrskurði sem heimilaði að húsleit færi fram var gerð húsleit að Brekkubyggð 85. Við húsleitina, sem hófst kl. 20.28, var notaður fíkniefnaleitarhundur.
Meðal þess sem fannst við leitina í svefnherberginu var Bosch PSB 750 RE borvél græn að lit, og var hún í kassa gráum að lit. Borvélin fannst undir rúmi. Þar fannst einnig hirsla sem í var Hitachi DS 10DVA rafhlöðuvél græn að lit og hleðslutæki af gerðinni Hitachi UC 12V. Meðal þess sem fannst í eldhúsinu var sprauta sem á var nál með meintum fíkniefnaleyfum í. Í eldhússkáp fannst einnig sprauta ásamt nál með meintum fíkniefnaleyfum í.
Þar sem í ljós kom þegar lögreglan kom, þ.e. laust fyrir kl. 16, að ákærði Úlfar hafði komist út um bakdyr hússins áður en lögreglan komst inn í íbúðina var leitað með fíkniefnaleitarhundinum á baklóðinni. Engin fíkniefni fundust við þá leit, en á baklóðinni fannst greiðslukortavél af gerðinni Hypercom, svört að lit, og var hún í svörtum plastpoka.
1. Ákærði Úlfar hefur játað að hafa þann 25. ágúst 1999 haft í vörslum sínum samtals 0,62 grömm af amfetamíni sem fundust við húsleit á heimili hans og ákærðu Guðrúnar Halldóru að Brekkubyggð 85, Garðabæ.
Ákærða Guðrún Halldóra var yfirheyrð um sakarefnið 25. ágúst 1999 í framhaldi af handtöku hennar á heimili hennar aðfarnótt sama dags. Hún neitaði sakargiftum. Kvaðst hún hafa sofnað um miðnættið og vaknað þegar maður að nafni Ari Þorsteinsson kom í heimsókn milli kl. 2 og 3 um nóttina. Með Ara hafi verið tveir menn sem hún þekkti ekki. Ákærða neitaði því að hafa notað fíkniefni kvöldið áður og kvaðst ekki hafa vitað af því að fíkniefni væru í íbúðinni. Kvað hún fíkniefnin sem voru á speglinum á eldhúsborðinu ekki hafa verið þar áður en Ari og kunningjar hans komu í heimsókn. Ákærða var yfirheyrð öðru sinni 21. september s.á. Hún kvaðst ekki kannast við að hafa átt fíkniefni í íbúðinni. Hins vegar hafi Ari Þorsteinsson verið þarna og gerði hún ráð fyrir og teldi raunar fullvíst að þetta væri hans efni.
Ákærða Guðrún Halldóra kom fyrir dóm 24. nóvember sl. Hún neitaði sök, en sagði að Ari Þorsteinsson hafi átt það efni sem hér um ræðir. Við aðalmeðferð málsins sagði ákærða að hún hafi ekki vitað að umrætt fíkniefni væri á heimilinu. Hún hafi verið í neyslu á þessu tímabili, en þegar þarna var komið hafi hún verið á niðurtúr og því hefði hún neytt efnanna hefði hún vitað um þau. Kvaðst ákærða telja að Ari Þorsteinsson hafi átt efnin. Ákærða kannaðist ekki við að hafa verið við neyslu efnanna í eldhúsinu þetta kvöld.
Við aðalmeðferð málsins kom Ari Þorsteinsson fyrir dóminn. Hann kvaðst hafa verið staddur að Brekkubyggð 85, Garðabæ, aðfaranótt 25. ágúst 1999 þegar lögreglan réðist þar til inngöngu. Kvaðst hann hafa setið í eldhúsinu ásamt ákærða Úlfari og ákærðu Guðrúnu Halldóru og drukkið úr vínflösku þegar lögreglan ruddist inn í húsið. Sagði vitnið að hann hafi komið að Brekkubyggð 85 þetta kvöld ásamt tveimur nafngreindum mönnum. Vitnið kvað einhverja neyslu fíkniefna hafa farið fram þarna greint sinn og hafi hann ásamt ákærða Úlfari og ákærðu Guðrúnu Halldóru neytt fíkniefna. Kvaðst vitnið ekki hafa átt fíkniefnin, heldur hafi hann fengið þau hjá húsráðendum, en fíkniefni hafi verið í húsinu þegar vitnið bar að garði. Vitnið sagði að á eldhúsborði hússins hafi verið hvítt duft sem þau hafi neytt. Kvaðst vitnið hvorki hafa vitað að þýfi væri í húsinu né hafi hann sjálfur komið með þýfi í húsið, hvað þá að hann hafi tekið þátt í innbrotum.
Guðjón Ragnar Grétarsson, rannsóknarlögreglumaður í Hafnarfirði, kom fyrir dóminn. Hann kom að handtöku fólks að Brekkubyggð 85, Garðabæ, og húsleit sem var gerð í kjölfar hennar þann 25. ágúst 1999. Vitnið lýsti atvikum á þá leið að menn hefðu komið að húsinu og þeir hafi verið handteknir. Í framhaldi af þeim handtökum hafi verið ákveðið að bíða lengur fyrir utan húsið. Þar sem sterkar vísbendingar hafi borist um að í húsinu færi fram fíkniefnaneysla hafi verið ákveðið að leita í því og hafi verið farið inn í það að framanverðu. Vitnið kvaðst hins vegar hafa farið inn í húsið um bakdyr, en hlutverk hans hafi verið að fylgjast með fólki á meðan leit fór fram í húsinu. Kvaðst vitnið hafa orðið var við merki um fíkniefnaneyslu, en hann hafi ekki séð fíkniefni á staðnum. Vitnið sagði að ákærði Úlfar og ákærða Guðrún Halldóra hafi verið í sæmilegu ástandi, en ákærði Úlfar hafi verið ósamvinnuþýður við lögreglu. Sagði vitnið að mikil óreiða hafi verið á öllum hlutum innandyra og hlutir á víð og dreif.
Við aðalmeðferð málsins kom Arnar Þór Egilsson, lögreglumaður í Hafnarfirði, fyrir dóminn. Hann kvaðst hafa verið viðstaddur handtöku manna sem komu frá Brekkubyggð 85, Garðabæ, þann 25. ágúst 1999 og hafi fíkniefni fundist á einum þeirra. Sagði vitnið að einn lögreglumannanna sem vöktuðu húsið hafi séð hvar fólk sat við borð í eldhúsi hússins og saug hvítt efni upp í nefið. Í kjölfar þess hafi verið ákveðið að ráðast til inngöngu og fengin hafi verið aðstoð frá lögreglunni í Reykjavík og Kópavogi. Þegar komið var inn hafi ákærði Úlfar tekið á móti lögreglunni með langri kylfu og mundað hana til höggs, en hætt við. Ákærða Guðrún Halldóra hafi verið inni á baðherbergi og kvaðst vitnið hafa handtekið hana ásamt tveimur öðrum einstaklingum vegna gruns um fíkniefnamisferli. Sagði vitnið að leitað hafi verið í íbúðinni og hafi efni fundist á spegli á eldhúsborðinu og hafi ákærði Úlfar verið þar nálægur. Vitnið kvaðst ekki muna sérstaklega eftir því að hlutir hafi legið á gólfi hússins sem kæmu annars staðar frá eða væru þýfi. Vitnið sagði að varðstjóri á vettvangi hafi tekið ákvörðun um að ráðast til inngöngu í húsið þar sem hætta hafi verið talin á að ella yrði sakargögnum spillt.
Við aðalmeðferð málsins kom Kristján Ólafur Guðnason, lögreglufulltrúi í Hafnarfirði, fyrir dóminn. Vitnið sagði að lögreglunni hefðu borist ítrekaðar ábendingar um ferðir einstaklinga, sem tengdust fíkniefnaheiminum, að Brekkubyggð 85. Að kvöldi 25. ágúst 1999 hafi lögregla fylgst grannt með húsinu og handtekið einstaklinga sem komu þaðan. Talið hafi verið að eitthvað væri um að vera þar inni og því hafi verið haft samband við vitnið þar sem lögreglumenn höfðu séð til fólks neyta þess sem þeir töldu vera fíkniefni í gegnum glugga hússins. Vitnið sagði að við leit í húsinu hafi fundist mikið magn tækja og tóla til neyslu fíkniefna og í geymslu hafi fundist mikið magn af munum sem talið hafi verið að væru þýfi. Á gólfinu, þegar komið var inn að framanverðu, hafi strax blasað við kassi með þýfi. Vitnið kvað ástandið á húsráðendum hafa verið með þeim hætti að ákærði Úlfar hafi ætlað að taka á móti lögreglu með látum, en hætt við það þegar hann áttaði sig á því að um lögreglumenn var að ræða. Vitnið lýsti því hvernig munir sem fundust við leitina voru raktir til réttra eigenda. Vitnið kvað það hafa rennt stoðum undir þann grun lögreglu að fíkniefnin væru í eigu heimilisfólks að í eldhússkáp hafi fundist sams konar speglar og sá sem var notaður undir efnin í eldhúsinu, en þeir hafi allir verið með fíkniefnaleyfum á. Önnur fíkniefni sem sem fundust við leit í húsinu hafi verið falin á ýmsum stöðum og m.a. hafi einn poki af fíkniefnum fundist í barnaherbergi hússins. Aðspurður hvort eitthvað hafi tengt heimilisfólk við þýfið sagði vitnið að bifreið svipuð þeirri sem ákærði Úlfar var á, hafi sést fyrir utan Núpalind 8 í Kópavogi þar sem innbrot var framið. Ákærði Úlfar og ákærða Guðrún Halldóra hafi auk þess ekki getað gefið ákveðna skýringu á því hvernig stæði á því að þýfi væri á heimilinu og þau hafi talað um að María hefði komið með munina inn á heimilið. Ákærða Guðrún Halldóra hafi talað um að hún hafi ekki vitað af því að þessir munir væru inni í geymslu hjá henni. Sagði vitnið að vart hafi verið hægt að komast inn í geymslurýmið vegna þess hve mikið þýfi var geymt þar innandyra.
2. Ákærði Úlfar hefur viðurkennt að þann 15. nóvember 1999 hafi hann haft í vörslum sínum 0,35 grömm af amfetamíni sem fundist hafi við húsleit á þáverandi heimili hans og ákærðu Guðrúnar Halldóru að Brekkubyggð 85, Garðabæ.
Ákærða Guðrún Halldóra var yfirheyrð hjá rannsóknardeild lögreglunnar í Hafnarfirði þann 30. nóvember sama ár, varðandi fíkniefni sem fundust á heimili hennar og ákærða Úlfars þann 15. nóvember sama ár. Hún kannaðist við að neysla fíkniefna hafi átt sér stað að Brekkubyggð 85 og að hún hafi tekið þátt í henni umræddan dag. Ákærðu var gerð grein fyrir að meint amfetamín hafi fundist á eldhúsborði íbúðar hennar. Er ákærða var spurð hvað hún vildi segja um það sagði hún að ákærði Úlfar hafi átt þetta amfetamín. Hún hafi ekki notað neitt af því efni. Ákærðu var bent á að einnig hafi fundist m.a. málmskeið með ætluðum fíkniefnaleyfum og sprauta ásamt tveimur lausum nálum. Er hún var spurð hvað hún vildi segja um þessa muni, sagði ákærða að skeiðina og sprauturnar hafi hún ætlað að nota til að neyta amfetamínsins sem verið hafi á borðinu. Hún hafi þó hætt við það áður en lögreglan kom á staðinn. Henni var bent á að við líkamsleit hafi fundist ónotuð sprauta innanklæða á henni. Hún kvaðst kannast við það. Hún hafi komið sprautunni fyrir innanklæða þegar hún varð vör við lögregluna. Ákærðu var kynnt að þrjár sprautur með meintum fíkniefnaleyfum hafi fundist bæði í eldhúsi og í svefnherbergi. Er hún var spurð hvað hún vildi segja um það sagði ákærða að það hafi verið fólk á heimili hennar um nóttina og líklega væru sprauturnar í eigu þess.
Ákærða Guðrún Halldóra kom fyrir dóm 24. nóvember sl. Hún kvaðst ekkert vita um það efni sem um getur í þessum ákærulið. Við aðalmeðferð málsins endurtók ákærða að hún kannaðist ekki við umrædd efni og hún vissi ekkert um þau.
Arnar Þór Egilsson lögreglumaður kom fyrir dóminn. Hann kvaðst hafa verið viðstaddur leit í húsinu nr. 85 við Brekkubyggð, Garðabæ, þann 15. nóvember 1999. Við það tækifæri hafi hann tekið eftir því að heimilisfólk hafi verið farið að undirbúa sig fyrir flutning og hafi búslóð verið í kössum. Lagt hafi verið hald á einhverja hluti við þessa leit, en vitnið kvaðst ekki muna hvaða hlutir það voru. Vitnið kvaðst ekki muna hvort hann hafi haft afskipti af ákærða Úlfari eða ákærðu Guðrúnu Halldóru. Sennilega hafi verið búið að handtaka þau því verjandi þeirra hafi verið einn til staðar.
Kristján Ólafur Guðnason lögreglufulltrúi lýsti atvikum að Brekkubyggð 85 þann 15. nóvember 1999. Hann kvað atburði þann dag hafa verið um margt líka inngöngu og leit lögreglunnar 25. ágúst sama ár. Sagði vitnið að lögreglan hafi orðið vör við að mikið gekk á innanhúss þegar knúð var dyra og kvaðst vitnið hafa heyrt að hlaupið var um þar inni. Áður en lögreglan sparkaði hurðinni upp hafi ákærða Guðrún Halldóra opnað fyrir lögreglumönnunum. Ákærði Úlfar hafi þá verið horfinn. Vitnið sagði að í íbúðinni hafi fundist efnisleyfar og stuttu síðar hafi lögreglan fundið ákærða Úlfar þar sem hann vafraði um fyrir utan lögreglubifreið. Þá hafi þýfi fundist við leit í húsinu og ummerki hafi verið á heimilinu í þá veru að húsráðendur hyggðu á flutning. Mundi vitnið eftir því að á staðnum hafi verið svokölluð posavél sem síðar hafi verið rakin til fyrirtækis sem hafði saknað hennar eftir innbrot í húsakynni þess.
Við aðalmeðferð málsins kom Margeir Sveinsson, rannsóknarlögreglumaður í Hafnarfirði, fyrir dóminn, en hann var viðstaddur inngöngu og húsleit að Brekkubyggð 85 15. nóvember 1999. Vitnið kvað lögreglu hafa knúð dyra greint sinn og hafi kona komið til dyra. Lögreglumenn hafi gert grein fyrir sér. Sagði vitnið að konan hafi brugðist illa við og rekið þá í burtu. Vitnið kvaðst þá hafa orðið var við að inni í íbúðinni fór allt á fleygiferð. Hafi lögreglan því haldið áfram að knýja dyra. Kvaðst vitnið síðar hafa komið auga á ákærða Úlfar þar sem hann stóð við lögreglubifreið sem var staðsett fyrir utan Brekkubyggð 85 og þar hafi ákærði Úlfar verið handtekinn. Ákærða Guðrún Halldóra hafi síðan opnað fyrir þeim, en neitað þeim um leitarheimild í húsinu. Því hafi verið óskað dómsúrskurðar og að honum fengnum hafi verið leitað í húsinu. Sagði vitnið að greinilegt hafi verið að heimilisfólk var í neyslu fíkniefna. Vitnið kvaðst hafa séð talsvert af dóti í kössum í íbúðinni.
Sú háttsemi ákærða Úlfars sem honum er gefin að sök í liðum 1 og 2 í A- kafla ákæru er sönnuð með skýlausri játningu hans og öðrum gögnum málsins. Atferli ákærða er rétt heimfært til refsiákvæða í ákæru.
Ákærða Guðrún Halldóra hefur staðfastlega neitað að hafa vitað af þeim fíkniefnum sem um getur í lið 1 og 2 í A-kafla ákæru á heimili sínu. Sem fyrr greinir hefur ákærði Úlfar viðurkennt vörslur þessara efna. Að því virtu og gegn staðfastri neitun ákærðu Guðrúnar Halldóru verður að telja ósannað að hún hafi haft þau fíkniefni í vörslum sínum sem um getur í liðum 1 og 2 í A-kafla ákæru. Samkvæmt því ber að sýkna hana af þeirri háttsemi sem henni er þar gefin að sök.
3.1 Aðfaranótt miðvikudagsins 14. júlí 1999 var lögreglan í Hafnarfirði kvödd að Suðurvangi 10, Hafnarfirði, vegna innbrots í bifreiðina KR-930. Á vettvangi hittu lögreglumenn fyrir eiganda bifreiðarinnar, Edvard Friðjónsson, sem skýrði þeim frá því að hann hefði komið að bifreið sinni þar sem hann yfirgaf hana kvöldið áður í stæði við Bæjarhraun 22, Hafnarfirði. Hafi hann þá séð ummerki þess að brotist hafði verið inn í bifreiðina.
Edvard kvaðst hafa ekið að heimili sínu, Suðurvangi 10, Hafnarfirði, og óskað eftir lögreglu þangað. Skemmdir voru á læsingu hurðar ökumannsmegin á bifreiðinni. Kvaðst Edvard sjá að sambyggt útvarpstæki og geislaspilari, tegund Pioneer, hefði horfið úr bifreiðinni. Hann taldi andvirði tækisins vera 20-25.000 krónur. Auk þess kvaðst hann sakna um tuttugu geisladiska.
Í skýrslutöku 21. október 1999, hjá rannsóknardeild lögreglunnar í Hafnarfirði var ákærði Úlfar spurður um sambyggt bílaútvarpstæki og geislaspilara af gerðinni Pioneer, raðnúmer RLMH00697EW. Ákærði sagði að hann og ákærða Guðrún Halldóra ættu þetta tæki. Honum var gerð grein fyrir að þessu tæki hefði verið stolið úr bifreið við Bæjarhraun 22, Hafnarfirði, aðfaranótt 14. júlí s.á. Ákærði sagði að hann hafi keypt þetta tæki fyrir 14.000 krónur af manni sem hann hefði hitt í miðbæ Reykjavíkur. Kvaðst hann ekki kannast við að tækið væri stolið.
Ákærði Úlfar kom fyrir dóm 15. desember sl. Hann neitaði sök. Við aðalmeðferð málsins kvaðst ákærði Úlfar ekki vita hvernig Pioneer bílaútvarpstæki með sambyggðum geislaspilara komst inn á heimili hans. Kvað hann ákærðu Guðrúnu Halldóru hafa greint sér frá því þegar hann kom úr afplánun frá Litla-Hrauni að menn sem hann kunni ekki að nafngreina hefðu komið með tækið inn á heimilið. Við nánari athugun kvað ákærði sig minna að umrætt tæki væri tæki sem hann hefði keypt fyrir 15.000 krónur í reiðufé þegar hann var á gangi ásamt ákærðu Guðrúnu Halldóru í tívólíinu á hafnarbakkanum í Reykjavík af tveimur piltum sem hann kannaðist ekki við. Kvaðst ákærði ekki hafa talið neitt óeðlilegt við þau viðskipti.
Í skýrslutöku 21. september 1999, var ákærða Guðrún Halldóra spurð um sambyggt bílaútvarpstæki og geislaspilara af gerðinni Pioneer. Ákærða sagði að hún og ákærði Úlfar hefðu keypt þetta tæki þá um sumarið fyrir 15.000 krónur í gegnum dagblaðsauglýsingu. Tækið væri því heiðarlega fengið. Þau ákærði Úlfar hafi ætlað að setja það í bifreið sína, en þau hafi ekki komið því í verk. Ákærðu var gerð grein fyrir að talið væri að þessu tæki hafi verið stolið úr bifreið við Bæjarhraun 22, Hafnarfirði, þann 14. júlí sama ár. Hún endurtók að þau ákærði Úlfar hefðu keypt tækið í gegnum dagblaðsauglýsingu og hún tryði því ekki að það væri stolið.
Ákærða Guðrún Halldóra kom fyrir dóm 24. nóvember sl. Hún neitaði að vera sek um hylmingu samkvæmt þessum ákærulið. Hún kvaðst hafa keypt tæki það sem um getur, en hún gæti ekki tilgreint seljanda tækisins. Þau ákærði Úlfar hafi greitt 15.000 krónur fyrir tækið. Við aðalmeðferð málsins sagði ákærða að tækið það sem um getur í þessum ákærulið hafi hún og ákærði Úlfar keypt við tívolíið í Reykjavík. Tveir menn, vinir ákærða Úlfars, hafi ekið þeim til Garðabæjar og þeir hafi selt þeim tækið. Á leiðinni hafi þau komið við á Smáratorgi í Kópavogi til að taka út peninga í hraðbanka. Kvaðst ákærða hafa tekið út 15.000 krónur til að greiða fyrir tækið. Ákærða kvaðst ekki hafa talið þetta undarlega viðskiptahætti.
Edvard Friðjónsson kom fyrir dóminn. Hann kvaðst hafa komið að Bæjarhrauni 22, Hafnarfirði, um kl. eitt um nótt og gist á gistiheimilinu Bergi þá um nóttina. Kvaðst hann hafa vaknað um kl. fimm næsta morgun þar sem hann hafi ætlað að fara til útlanda. Vitnið sagði að hann hafi tekið eftir því að búið var að brjóta upp læsinguna á bifreið hans, ökumannsmegin, og hirða úr bifreiðinni sambyggt bílaútvarpstæki og geislaspilara ásamt geisladiskum. Einnig hafi verið búið að fara í farangursgeymsluna innanfrá og hirða þaðan allt lauslegt. Kvað hann öll ummerki hafa verið fagmannleg því ekki hafi verið klippt á neina víra eða neitt skemmt að frátalinni læsingunni á ökumannshurðinni. Vitnið sagði að síðar hafi lögreglan haft samband við sig og hafi hann farið og borið kennsl á sambyggða bílaútvarpstækið og geislaspilarann og staðreynt að það var úr bifreið hans.
Við aðalmeðferð málsins kom Ægir Ellertsson, lögreglumaður í Hafnarfirði, fyrir dóminn. Vitnið kvaðst ásamt Pétri Jóhannessyni lögreglumanni hafa verið kvaddur til vegna þjófnaðar við Bæjarhraun 22, Hafnarfirði, umrædda nótt. Vitnið kvaðst ekki hafa verið viðstaddur þegar eiganda bifreiðarinnar voru sýndir munir sem voru endurheimtir og voru taldir vera úr bifreiðinni.
3.2. Þess er áður getið að þann 25. ágúst 1999, réðist lögreglan í Hafnarfirði til inngöngu í húsið nr. 85 við Brekkubyggð í Garðabæ. Því til viðbótar er þess að geta að þann 10. ágúst sama ár, um kl. 8, var lögreglunni í Kópavogi tilkynnt að brotist hefði verið inn í húsið nr. 8 við Núpalind í Kópavogi og að þaðan hafi verið stolið ýmsum verkfærum og tækjum. Lögreglumenn fóru á staðinn og hittu fyrir tilkynnandann. Greindi hann þeim frá því að ýmis verkfæri hefðu horfið af fyrstu hæð og úr kjallara hússins.
Eftirfarandi munir í eigu Sveinbjörns Hrafnssonar voru teknir: Tvær Hitachi rafhlöðuborvélar, Metabo rafhlöðuborvél, Porter Cable rafhlöðuborvél, Holzer rafmagnshefill og stingsög af sömu gerð, Hitachi rafmagnshöggborvél, Holz fræsari og hjólsög af sömu gerð, Bosch hleðslutæki og þrjár rafhlöður fyrir Bosch borvélar.
Kristinn Jörundsson, forsvarsmaður byggingafyrirtækisins Reisnar ehf., hafði símleiðis samband við lögreglumennina er þeir voru farnir af vettvangi og sagði hann að hlutir í eigu fyrirtækisins hefðu verið teknir ófrjálsri hendi. Nánar tiltekið væri þar um að ræða tvo veggofna af gerðinni Ariston, þrjár viftur sömu tegundar, eitt helluborð sömu tegundar, tvær borvélar af gerðinni Bosch, eina brotvél af sömu tegund, tvær rafhlöðuborvélar sömu tegundar og eina línubyssu.
Kristinn kvað íbúa í húsinu hafa orðið vara við umgang um kl. 6 um morguninn og hafi íbúinn séð tvær ungar stúlkur bera muni út úr húsinu inn í bláa Nissanbifreið með vindskeið, dældaða að framan.
Þann 21. október 1999, var ákærði Úlfar yfirheyrður um sakarefnið hjá rannsóknardeild lögreglunnar í Hafnarfirði. Hann var fyrst spurður um svarta tösku sem innihélt Bosch hleðsluborvél, Bosch hleðslurafhlöðu, rafknúið skrúfjárn, Bosch hleðslutæki og handverkfæri. Ákærði sagði að hann ætti rafknúna skrúfjárnið og einnig eitthvað af handverkfærunum. María Sveinsdóttir hefði komið með hina munina og fengið að geyma þá í íbúðinni. Kvað ákærði hana hafa sagt að hún væri að geyma þá fyrir vin sinn. Ákærða var gerð grein fyrir að komið hefði í ljós að Bosch hleðslu-borvélinni og Bosch hleðslurafhlöðunni hefði verið stolið úr nýbyggingu að Núpalind 8, Kópavogi, þann 10. ágúst sama ár. Aðspurður hvað hann hefði að segja um það sagði ákærði að hann kannaðist ekki við það og hann vissi ekkert um það mál. Ákærði var spurður um græna verkfæratösku úr plasti sem innihélt verkfæri og skrúfbitasett. Ákærði sagði að hann ætti græna verkfæratösku og vera kynni að þetta væri hún. Hann væri þó ekki viss þar sem hann hefði ekki séð þessa tösku hjá lögreglu. Honum var gerð grein fyrir að komið hefði í ljós að þessari verkfæratösku hefði verið stolið frá Núpalind 8, Kópavogi, þann 10. ágúst sama ár. Aðspurður hvað hann vildi segja um það, sagði ákærði að úr því að svo væri ætti hann ekki þessa tösku. Kvað hann Maríu Sveinsdóttur hafi komið með verkfæratöskuna og fengið að geyma hana á heimilinu. Ákærði var þá spurður um krossviðarkassa með handfangi sem innihélt trésmíða-verkfæri. Hann kvað Maríu Sveinsdóttur hafa komið með þennan kassa og fyllt hann af verkfærum, m.a. verkfærum frá sér. Sagði ákærði að María hafi komið með mikið af verkfærum annaðhvort að kvöldi eða nóttu til. Með henni hafi verið maður sem hann myndi ekki hvað héti. Þau verkfæri sem hún setti í kassann, auk verkfæra hans, hafi hún komið með heim til hans og fengið að geyma þau hjá honum. María hafi sagt að hún væri að geyma þessa muni fyrir mann sem hefði misst húsið sitt eða væri orðinn húsnæðislaus. Sagði ákærði aðspurður að hann hafi trúað þessari skýringu. Ákærða var bent á að komið hefði í ljós að þessum krossviðarkassa, sem hefði haft að geyma Holzer fræsara, en hann hefði ekki fundist, hafi verið stolið úr nýbyggingu að Núpalind 8, Kópavogi, þann 10. ágúst sama ár. Er ákærði var spurður hvað hann vildi segja um það sagði hann, að hann kannaðist ekki við það. Hann vissi ekkert um það mál. Ákærði var spurður um fimm hvíta samanlímda vinkla. Hann kvaðst ekki kannast við þá. María Sveinsdóttir hafi komið með þá á sama tíma og hina hlutina. Ákærða var gerð grein fyrir að þessum vinklum hefði verið stolið úr nýbyggingu að Núpalind 8, Kópavogi, þann 10. ágúst sama ár. Aðspurður hvað hann vildi segja um það sagði ákærði að að hann kannaðist ekki við það. Ákærði var þá spurður um lítið topplyklasett í svartri plasttösku. Hann sagði að hann kynni að eiga þetta topplyklasett. Ákærði var þá spurður um hvítan vask af gerðinni Gustavsberg. Hann kvaðst ekki kannast við þennan vask og hann vissi ekki hver hefði komið með hann. Ákærða var gerð grein fyrir að komið hefði í ljós að þessum vaski hefði verið stolið úr margnefndri nýbyggingu að Núpalind 8, Kópavogi, 10. ágúst sama ár. Er hann var spurður hvað hann vildi segja um það sagði ákærði að hann kannaðist ekki við það. Ákærði var spurður um Porter Cable hleðsluborvél í grárri plasttösku. Hann kvaðst ekki eiga þessa borvél. María Sveins-dóttir hafi komið með þessa borvél á sama tíma og hún kom með hina munina. Honum var gerð grein fyrir að þessari borvél hefði verið stolið frá Núpalind 8, Kópavogi, þann 10. ágúst sama ár. Aðspurður hvað hann vildi segja um það sagði ákærði að hann kannaðist ekki við það.
Ákærði Úlfar kom fyrir dóm 15. desember sl. Hann neitaði sök. Við aðalmeðferð málsins greindi ákærði Úlfar svo frá varðandi þá muni sem um getur í þessum lið ákæru, að María Sveinsdóttir hefði komið ásamt manni í íbúð þá sem hann og ákærða Guðrún Halldóra höfðu á leigu að Brekkubyggð 85, Garðabæ. Sagði ákærði að María hefði sagt sér að maður þessi væri að skilja við konu sína. Hafi þau beðið ákærða að geyma verkfærin fyrir hann í einhvern tíma. Hlutir þessir væru taldir upp í lið 3.2 í ákæru. Sagði ákærði að hann vissi ekki annað en umræddir hlutir hafi komið frá Maríu og þessum manni, þar á meðal vaskur sem fannst á heimilinu.
Í skýrslutöku hjá rannsóknardeild lögreglunnar í Hafnarfirði 21. september 1999, var ákærða Guðrún Halldóra spurð um þá muni sem fundust við leit í íbúðinni og væru taldir vera þýfi. Varðandi svarta tösku sem innihélt Bosch hleðsluborvél, Bosch hleðslurafhlöðu, rafknúið skrúfjárn, Bosch hleðslutæki og talsvert magn handverkfæra, sagði ákærða að ákærði Úlfar hafi átt eina borvél, en hún vissi ekki af hvaða tegund. Sagði ákærða að hún gæti lítið sagt um það hvaðan þessi verkfæri væru komin. Ákærðu var gerð grein fyrir að framangreindri hleðsluborvél og hleðslurafhlöðu hefði verið stolið frá Núpalind 8, Kópavogi, 10. ágúst sama ár. Hún kvaðst hvorki kannast við neitt þýfi né að hafa stolið þessum tækjum. Ákærða sagði að þau fengju oft heimsóknir þegar þau væru undir áhrifum ávana- og fíkniefna og vera kynni að gestir hafi komið með þýfi með sér. Er ákærða var spurð hvaða fólk það væri sem kom með þessi verkfæri, kvaðst hún ekki hafa hugmynd um það. Hins vegar hafi María Sveinsdóttir, sem byggi að Írabakka 10, Reykjavík, stundum komið í heimsókn til þeirra og skilið eftir eitthvert dót, en hún vissi ekki hvaða dót það væri. Er ákærða var spurð um verkfæratösku úr plasti sem innihélt verkfæri og skrúfbitasett kvaðst hún ekki kannast við það. Henni var kynnt að töskunni hefði verið stolið frá Núpalind 8, Kópavogi, 10. ágúst sama ár. Ákærða kvaðst ekkert vita um það. Hún var næst spurð um krossviðarkassa með handfangi sem innihélt verkfæri. Ákærða sagði að ákærði Úlfar ætti ekki neinn verkfærakassa úr tré og því vissi hún ekki hver ætti hann. Henni var gerð grein fyrir að umræddum kassa hefði verið stolið úr nýbyggingu að Núpalind 8, Kópavogi, þann 10. ágúst sama ár. Ákærða sagði að hún hafi ekki vitað um þennan kassa og hún hefði ekki hugmynd um hvernig hann komst inn í íbúðina. Þó kynni að vera að María Sveinsdóttir hafi komið með hann. Þá var ákærða spurð um fimm hvíta samanlímda vinkla. Hún kvaðst ekki kannast við þá. Henni var kynnt að þessum vinklum muni hafa verið stolið úr framangreindri nýbyggingu umræddan dag. Ákærða sagði að hún gæti aðeins sagt það sama og áður. Hún kannaðist ekki við þá, en hún benti á Maríu Sveinsdóttur varðandi þetta mál. Ákærða var spurð um Porter Cable hleðsluborvél í grárri plast-tösku. Hún kvaðst ekki kannast við þá hleðsluborvél. Er henni var bent á að umræddri borvél hefði verið stolið úr nýbyggingu að Núpalind 8, Kópavogi, þann 10 ágúst sama ár, kvaðst hún ekkert frekar hafa að segja um það, umfram það sem hún hefði áður sagt varðandi þá muni sem stolið hefði verið að Núpalind 8. Ákærða var spurð um hvítan vask af gerðinni Gustafsberg sem fannst í eldhúskróki íbúðarinnar. Hún sagði að baðvaskurinn í íbúðinni hafi verið ónýtur og María Sveinsdóttir hafi boðist til að selja þeim ákærða Úlfari vask fyrir 5.000 krónur. Kvaðst hún ekki muna hvenær María kom með vaskinn, en hún hafi átt eftir að greiða henni fyrir hann. Er ákærða var spurð hvar María hafi fengið þennan vask sagði ákærða að hún vissi það ekki. Hún kvað það þó hafa hvarflað að sér og jafnvel talið það líklegt að vaskurinn væri illa fenginn. Vaskurinn hafi hins vegar verið ódýr og því hafi hún ákveðið að kaupa hann. Henni var bent á að komið hafi í ljós að þessum vaski hefði verið stolið úr nýbyggingu að Núpalind 8, Kópavogi, þann 10. ágúst sama ár. Ákærða sagði að það kæmi sér ekki á óvart, miðað við það að hinir munirnir voru þaðan.
Í skýrslutöku hjá rannsóknardeild lögreglunnar í Hafnarfirði 30. nóvember sama ár, var ákærðu gerð grein fyrir því að við húsleit 15. sama mánaðar hafi fundist, undir rúmi í hjónaherbergi, borvél af gerðinni Hitachi DS 10DVA, rafhlöðuvél nr. D-850053, græn að lit, ásamt hleðslutæki af gerðinni Hitachi UC 12v nr. D751268. Er hún var spurð hver ætti þessi tæki og hvernig þau væru komin inn í íbúð hennar sagði ákærða að líklega ætti ákærði Úlfar þessa borvél, annars vissi hún það ekki.
Ákærða Guðrún Halldóra kom fyrir dóm þann 24. nóvember sl. Hún neitaði því að vera sek um hylmingu samkvæmt þessum ákærulið. Kvaðst hún ekki hafa vitað um tilvist þessara hluta að Brekkubyggð 85, Garðabæ. Hún kvaðst hafa búið þar ásamt ákærða Úlfari á þeim tíma sem greinir í 3. lið A-kafla ákæru. Við aðalmeðferð málsins sagði ákærða að hún gæti ekki gert aðra grein fyrir þeim hlutum sem tilgreindir eru í lið 3.2 í A-kafla ákæru en að María Sveinsdóttir og maður á hennar vegum hafi komið á heimili hennar með þessi tæki. Kvaðst ákærða hafa verið sofandi þegar þetta gerðist, en það hafi verið alvanalegt að María hefði næturdvöl á heimili þeirra ákærða Úlfars. Sagði ákærða að hún hafi ekki vitað að þar greint helluborð, vaskur eða bakstursofn væru til staðar í íbúð þeirra.
María Sveinsdóttir kom fyrir dóminn sem vitni varðandi þennan ákærulið. Hún var spurð um þá muni sem fundust á heimili ákærðu Úlfars og ákærðu Guðrúnar Halldóru að Brekkubyggð 85, Garðabæ. Vitnið sagði að það væri rangt sem haldið væri fram, að hún hafi komið með þessa hluti inn á heimilið og fengið að geyma þá þar. Kvaðst vitnið ekki geta gefið neinar upplýsingar um innbrot að Núpalind 8, Kópavogi. Loks staðfesti vitnið skýrsluna sem hún gaf hjá lögreglu þann 7. janúar 2000.
Kolbrún Ýr Jóhannsdóttir kom fyrir dóminn. Hún skýrði svo frá að hún hafi litið út um glugga á fjórðu hæð í íbúð sinni að Núpalind 8, Kópavogi, um kl. 7 að morgni 10. ágúst 1999. Kvaðst hún þá hafa séð tvær stúlkur bera eitthvað sem virtist vera þvottavél eða eldavél út úr húsinu. Hafi umræddur varningur verið án umbúða. Kvað hún stúlkurnar hafa sett varninginn í dökkan fólksbíl með vindskeið á skottloki. Vitnið sagði að það hafi vakið grunsemdir sínar að samskonar bifreið hafði verið á planinu við húsið seint kvöldið áður og hún hafi ekki kannast við að hann væri í eigu íbúa í húsinu. Vitninu var sýnd mynd af bifreið og kvaðst hún hafa talið að slík bifreið hafi verið fyrir utan húsið umrætt kvöld og hafi bifreiðin verið með skemmd á hlið. Fram kom hjá vitninu að hún gat ekki borið kennsl á stúlkurnar á myndum frá lögreglu. Önnur þeirra hafi alls ekki verið á myndum lögreglunnar, en hin ef til vill, þó væri hún ekki viss. Sagði vitnið að auðvelt hafi verið að sjá stúlkurnar fyrir utan húsið og kvaðst hún hafa séð þær nokkuð vel. Loks staðfesti vitnið skýrsluna sem hún gaf við lögreglurannsókn málsins.
Jóhann Guðni Hlöðversson kom fyrir dóminn. Hann kvaðst hafa verið kallaður til, til þess að bera kennsl á hluti sem lögreglan fann við húsleit. Vitnið tók fram að hann hafi þó ekki á þeim tíma kært þjófnað. Vitnið kvaðst hafa borið kennsl á hluti sem hann hafði keypt í húsið nr. 8 við Núpalind í Kópavogi og vitnið vann við að innrétta. Kvaðst vitnið hafa borið kennsl á ýmis verkfæri sem hurfu þaðan. Þá hafi hann borið kennsl á vask, borvélar og áhöld og að auki smáhluti. Kvað hann þessa muni hafa horfið frá Núpalind 8. Loks staðfesti vitnið skýrslu þá sem hann gaf við lögreglu-rannsókn málsins.
Kristinn Jörundsson kom fyrir dóminn. Vitnið sagði að frá fyrirtæki hans hafi verið stolið ýmsum hlutum við innbrot í húsið nr. 8 við Núpalind í Kópavogi. Sagði vitnið að farið hafi verið inn í húsið og inn í íbúðir sem ekki hafði verið flutt inn í og m.a. teknir bökunarofnar, viftur og fleira. Kvað vitnið ekki nema lítinn hluta þess sem saknað var hafa skilað sér aftur og ekkert af dýrari tækjunum, svo sem eldavélum.
Páll Egill Winkel lögreglumaður kom fyrir dóminn. Vitnið ritaði frumskýrslu um innbrotið að Núpalind 8. Hann staðfesti að efni skýrslunnar væri rétt.
3.2 Áður er þess getið að þann 25. ágúst 1999 réðist lögreglan í Hafnarfirði til inngöngu í húsið nr. 85 við Brekkubyggð í Garðabæ. Því til viðbótar er þess að geta að sunnudaginn 15. ágúst 1999, um kl. 12, hafði Kristinn Helgi Eiríksson, Kjarrhólma 38, Kópavogi, símleiðis samband við lögregluna í Kópavogi og greindi frá því að brotist hefði verið inn í íbúð að Álfhólsvegi 111, Kópavogi. Lögreglumenn fóru að Álfhólsvegi 111 og var þeim vísað að kjallaraíbúð, en þar hafði Kristinn aðstöðu fyrir heildverslun með sportveiðiklæðnað.
Kristinn benti lögreglumönnumum á glugga sem snýr í suður inn í garð bakvið húsið, en þar taldi hann að sá eða þeir sem höfðu verið að verki hefðu getað farið inn. Gluggi þessi mun hafa verið opinn og reyndist hann vera 32x22 cm að ummáli.
Að sögn Kristins hafði sá eða þeir sem höfðu verið þarna að verki, tekið faxtæki með síma, ferðahljómflutningstæki með geislaspilara, heimilistölvu, peningakassa án peninga og einhvern varning sem var geymdur þarna.
Lögreglumennirnir hittu einnig fyrir íbúa á efri hæð hússins. Hann kvaðst hafa orðið var við mannaferðir um kl. 4.30 um nóttina, en hann hafi ekki áttað sig á hvað var á seyði.
Ákærði Úlfar var yfirheyrður um sakarefnið hjá rannsóknardeild lögreglunnar í Hafnarfirði 21. október 1999. Hann var fyrst spurður um Sharp UX 70 faxtæki. Hann kvaðst ekki kannast við þetta tæki. María Sveinsdóttir hafi komið með þetta tæki. Ákærða var gerð grein fyrir að komið hefði í ljós að þessu faxtæki muni hafa verið stolið frá Álfhólsvegi 111, Kópavogi, þann 15. ágúst sama ár. Aðspurður hvað hann vildi segja um það sagði ákærði að hann kannaðist ekki við það. Hann var þá spurður um sambyggt útvarps-, CD og kassettutæki af gerðinni Panasonic RX DS 101, sem ákærða Guðrún Halldóra segði að María vinkona hennar ætti. Ákærði sagði að þau hafi keypt þetta tæki af Maríu Sveinsdóttur nokkru áður en lögreglan lagði hald á það, en hann myndi ekki hve löngu áður það var. Þá myndi hann ekki hvaða verð þau hafi greitt fyrir tækið. Sagði ákærði að sér væri ókunnugt um hvaðan María fékk tækið, en líklega hafi hún átt það. Honun var gerð grein fyrir að komið hafi í ljós að þessu Panasonictæki muni hafa verið stolið frá Álfhólsvegi 111, Kópavogi, þann 15. ágúst sama ár. Aðspurður hvað hann vildi segja um það sagði ákærði að hann kannaðist ekki við það.
Ákærði Úlfar kom fyrir dóm 15. desember sl. Hann neitaði sök varðandi þennan ákærulið. Við aðalmeðferð málsins skýrði ákærði svo frá varðandi þá muni sem um getur í þessum lið ákæru, þ.e sambyggt útvarp, kasettutæki og geislaspilara og faxtæki að hann vissi ekkert um þetta. Hann kvað það þó geta verið að sambyggða tækið væri tæki sem María hefði komið með inn á heimilið.
Í skýrslu sem tekin var af ákærðu Guðrúnu Halldóru hjá rannsóknardeild lögreglunnar í Hafnarfirði 21. september 1999, var hún spurð um faxtæki af gerðinni Sharp. Ákærða sagði að hún hafi fyrst séð þetta tæki þegar lögreglan dró það út úr skenk í eldhúsinu á heimili hennar. Hún kvaðst ekki vita hvaðan það var komið. Ákærða var þá spurð um Panasonic RX DS101 sambyggt útvarps- CD og kassettutæki sem fannst á borði í eldhúsinnréttingunni. Ákærða kvað þau ákærða Úlfar hafa fengið þetta tæki lánað hjá vinafólki sínu. Henni var gerð grein fyrir að þessu tæki hefði verið stolið frá Álfhólsvegi 111, Kópavogi, 15. ágúst sama ár. Aðspurð hvað hún vildi segja um það sagði ákærða að hún hefði logið til um hvar hún fékk þetta tæki. Hið rétta væri að hún hafi fengið það hjá Maríu Sveinsdóttur, en hún myndi ekki hvenær.
Ákærða var yfirheyrð um sakarefnið öðru sinni þann 13. desember sama ár. Henni var bent á að á borði í eldhúsi hafi fundist sambyggt útvarpstæki og geislaspilari sem hún hefði við yfirheyrslu sagt að hún hafi keypt af Maríu Sveinsdóttur. Er hún var spurð hvernig þetta tæki hafi borist inn á heimili hennar sagði ákærða að hún hafi fengið þetta tæki hjá Maríu og María hafi fengið föt hjá sér í staðinn. Hún ætti því þetta tæki. Ákærða kvaðst þó ekki muna hvenær tækið kom inn á heimili hennar, en hugsanlega hafi það verið í júlí sama ár. Ákærðu var gerð grein fyrir að þetta tæki væri úr innbroti sem framið var þann 15. ágúst s.á. að Álfhólsvegi 111, Kópavogi. Hún var spurð hvað hún vildi segja um það. Ákærða sagði að hún vissi ekkert um það innbrot og því hefði hún ekkert um það að segja. Kvaðst ákærða ekki hafa haft hugmynd um að tækið væri illa fengið.
Ákærða Guðrún Halldóra kom fyrir dóm 24. nóvember sl. Hún neitaði því að vera sek um hylmingu samkvæmt þessum ákærulið. Kvaðst hún ekki hafa vitað um tilvist þessara hluta að Brekkubyggð 85, Garðabæ. Hún kvaðst hafa búið þar ásamt ákærða Úlfari á þeim tíma sem greinir í lið 3 í A-kafla ákæru. Við aðalmeðferð málsins var framburður ákærðu á þá leið að hún hefði ekki hugmynd um hvernig þau tæki sem þar greinir væru til komin eða hvernig hafi staðið á því að þau voru til staðar í íbúðinni.
María Sveinsdóttir kom fyrir dóminn sem vitni varðandi þennan ákærulið. Hún var spurð um þá muni sem fundust á heimili ákærðu Úlfars og ákærðu Guðrúnar Halldóru að Brekkubyggð 85, Garðabæ. Vitnið sagði að það væri rangt sem haldið væri fram að hún hafi komið með þessa hluti inn á heimili ákærðu og fengið að geyma þá þar. Kvaðst vitnið ekki geta gefið neinar upplýsingar um innbrot að Álfhólsvegi 111 í Kópavogi. Loks staðfesti vitnið skýrsluna sem hún gaf við lögreglurannsókn málsins þann 7. janúar 2000.
Kristinn Helgi Eiríksson kom fyrir dóminn. Vitnið greindi svo frá að hann hafi uppgötvað við komu sína í kjallara hússins nr. 111 við Álfhólsveg í Kópavogi að farið hafði verið inn um lítinn glugga að skrifstofuherbergi. Sagði vitnið að úr herbergjum í kjallaranum hafi verið tekið talsvert af munum og af ummerkjum hefði mátt sjá að gardínur höfðu verið teknar og settar á gólfið og dót verið sett í gardínurnar og bundið fyrir. Vitnið taldi að íbúi í húsinu hafi vaknað, sennilega á milli kl. 4.30 og 5, og við það hafi komið styggð af innbrotsþjófunum sem hefðu farið út um útidyrahurðina og skilið eftir þann varning sem þeir höfðu safnað saman. Vitnið kvað opið sem farið hafði verið inn um hafa mælst 32x22 cm. Hann kvaðst hafa fengið eitthvað af munum til baka, en þó ekki allt.
3.4. Áður er þess getið að þann 25. ágúst 1999, réðist lögreglan í Hafnarfirði til inngöngu í húsið nr. 85 við Brekkubyggð í Garðabæ, íbúð ákærðu Úlfars og Guðrúnar Halldóru, þar sem grunur lék á að þar ætti fíkniefnaneysla sér stað. Þá var einnig talið að þýfi væri geymt þar innandyra. Við leitina fundust bæði fíkniefni og meint þýfi. Hið meinta þýfi sem fannst reyndist vera úr nokkrum innbrotsþjófnuðum. Lögreglu hafði borist kæra vegna sumra þeirra, en ekki annarra. Þeir innbrotsþjófnaðir sem höfðu ekki verið kærðir til lögreglu voru kærðir síðar af meintum tjónþolum eftir að þeir höfðu borið kennsl á muni sína.
Það mál sem hér um ræðir, innbrotsþjófnaður að Akralind 7, Kópavogi, var eitt þeirra mála sem hafði ekki verið tilkynnt til lögreglu áður en framangreind atvik urðu, en meintur tjónþoli, Einar Þór Ingvason, kom til lögreglu í framhaldi af því. Áður hafði lögregla haft samband við hann og tilkynnt honum um fund á munum í eigu hans.
Þann 25. ágúst 1999, kom Einar Þór Ingvason, Ísalind 3, Kópavogi, í skrifstofu rannsóknardeildar lögreglunnar í Hafnarfirði. Eftir að hann hafði skoðað verkfæri og fleiri muni sem lögreglan í Hafnarfirði hafði lagt hald á þá um nóttina að Brekkubyggð 85, Garðabæ, kvaðst hann kannast við ýmsa hluti sem þar gæfi að líta og kvaðst hann vilja nefna eftirtalið: Stjórntæki fyrir Linden byggingakrana, sem hann taldi vera að verðmæti 50.000 til 100.000 krónur, Bosch hitabyssa að verðmæti 15.000 til 20.000 krónur, hitablásari að verðmæti 7.000 krónur, heftibyssa að verðmæti 5.000 krónur, málband að verðmæti 6.000 krónur, ýmis handverkfæri, svo sem þvinga, tveir hamrar, ýmsir lyklar, skrúfjárn, sporjárn o.fl. að verðmæti 20.000 krónur.
Aðspurður kvaðst Einar Þór vera viss um að allir þessir hlutir væru í eigu hans. Þeim hafi verið stolið frá fyrirtæki hans, byggingarfélaginu Öspum. Kvað hann hlutunum hafa verið stolið úr vinnuskúr að Akralind 7, Kópavogi, líklega um næstliðna helgi. Hann hafi verið búinn að uppgötva innbrot í nefndan vinnuskúr, en hann hafi ekki verið búinn að taka saman hverju var stolið og því hafi hann ekki verið búinn að kæra þjófnaðinn til lögreglunnar.
Sama dag kom Steinþór Hjaltason, Fjallalind 37, Kópavogi, í skrifstofu rann-sóknardeildar lögreglunnar í Hafnarfirði, en hann var talinn vera umráðamaður eins hlutar sem fannst við húsleit að Brekkubyggð 85, Garðabæ aðfaranótt sama dags, þ.e. Split 325 höggborvélar ásamt borum, en taska sem þessi borvél var í var merkt Pétri Hákoni Halldórssyni.
Steinþór kvaðst kannast mætavel við þessa höggborvél, en hann hafi fengið hana að láni hjá Pétri Hákoni Halldórssyni, sem væri eigandi hennar. Kvaðst Steinþór hafa haft höggborvélina að láni í nokkurn tíma, en hann hafi ekki notað hana í u.þ.b. viku. Því hafi henni verið stolið frá Akralind 7, Kópavogi, þar sem hann hafi geymt hana, eftir þann tíma. Sagði Steinþór að hann vissi borvélin hafi ekki verið þar sem hún átti að vera í fyrradag, en hann hafi talið að Pétur hefði sótt hana og hann hafi ekki hugsað meira um það. Steinþór sagði að hann hafi ekki getað merkt að um innbrot hafi verið að ræða, en Akralind 7 væri nýbygging sem hann væri með í byggingu. Húsið hafi ekki verið læst á nóttunni auk þess sem rúður hafi verið nýkomnar í glugga. Kvaðst hann telja að verðmæti nýrrar höggborvélar af þessari gerð væri um 50.000 krónur, auk bora sem voru í henni og kostuðu um 1.000 krónur hver. Kvaðst hann áætla að miðað við að vélin væri líklega átta eða níu ára gömul, væri verðmætið um 40.000 krónur.
Ákærði Úlfar var yfirheyrður um sakarefnið hjá rannsóknardeild lögreglunnar í Hafnarfirði 21. október 1999. Hann var fyrst spurður um gult stjórnborð fyrir byggingakrana. Hann kvaðst ekki eiga það. María Sveinsdóttir hafi komið með þetta stjórnborð í sömu ferð og alla hina munina. Hann hafi þó ekki fylgst með því þegar þessir munir komu inn í húsið og því hafi hann ekki vitað af þessu stjórnborði. Ákærða var bent á að umræddu stjórnborði hafi verið stolið frá Akralind 7, Kópavogi, að líkindum um helgina 20. til 22. ágúst sama ár. Aðspurður hvað hann vildi segja um það sagði ákærði að hann vissi ekkert um það. Ákærði var spurður um græna tösku sem í voru Bosch hitablásari og Dimplex hitablásari. Ákærði sagði að hann ætti græna tösku og verið gæti að þetta væri hún. Hins vegar kannaðist hann ekki við þessa hitablásara. María Sveinsdóttir hafi komið með þá. Honum var bent á að í ljós hefði komið að þessum hitablásurum hafi verið stolið frá Akralind 7, Kópavogi, líklega um helgina 20. til 22. ágúst sama ár. Aðspurður hvað hann vildi segja um það sagði ákærði að vissi ekkert um það. Ákærði var þá spurður um málband af tegundinni Sunlon, 50 m. Hann kvaðst ekki kannast við málbandið. María Sveinsdóttir hafi komið með það að líkindum á sama tíma og hina munina, en hann minnti að hún hafi komið með þessa muni sitthvort kvöldið eða sitthvora nóttina. Hvaða muni hún kom með í hvaða skipti myndi hann ekki. Honum var gerð grein fyrir að þessu málbandi hafi verið stolið frá Akralind 7, Kópavogi, líklega um helgina 20. til 22. ágúst sama ár. Aðspurður hvað hann vildi segja um það kvaðst hann ekki kannast við það mál. Þessu næst var ákærði spurður um rauða járntösku sem í var Split 325 höggborvél ásamt borum, en taskan var merkt Pétri Halldórssyni. Hann kvaðst ekki kannast við þessa tösku. María Sveinsdóttir hafi komið með töskuna. Honum var bent á að komið hefði í ljós að eigandi þessarar tösku væri Pétur Hákon Halldórsson og að henni muni hafi verið stolið frá Akralind 7, Kópavogi, líklega um helgina 20. til 22. ágúst sama ár. Aðspurður hvað hann vildi segja um það kvaðst ákærði ekkert vita um það.
Ákærði Úlfar var yfirheyrður aftur um sakarefnið þann 2. desember sama ár. Varðandi hið meinta þýfi sem fannst á heimili hans, sagði ákærði að hann kannaðist ekki við að þýfi hafi verið í íbúðinni. Hins vegar kvaðst hann kannast við þær borvélar sem lögreglan hafi tjáð honum að hafi fundist undir rúmi í íbúðinni Sagði ákærði að þær borvélar hafi María Sveinsdóttir komið með á svipuðum tíma og hún kom með alla hina munina sem lögreglan lagði hald á í einni húsleitinni heima hjá honum. Lögreglan hafi hins vegar ekki fundið þessar borvélar við húsleitina, en þær hafi verið bakvið frystiskáp í geymslu íbúðarinnar. Sagði ákærði að hann hafi ætlað að láta lögregluna vita af þeim, en það hafi alltaf farist fyrir og að endingu hafi hann látið þær undir rúm sitt til að halda því uppi að hluta, en botn þess hafi verið brotinn.
Ákærði Úlfar kom fyrir dóm þann 15. desember sl. og neitaði þá sök. Við aðal-meðferð málsins var framburður ákærða um þá muni sem greinir í þessum ákærulið á þá leið að hann vissi ekkert um þá, en verið gæti að þeir væru komnir frá Maríu Sveinsdóttur og áðurnefndum manni. Ákærði kvaðst þó ekki hafa séð Maríu koma með þessa muni.
Ákærða Guðrún Halldóra var yfirheyrð um sakarefnið hjá rannsóknardeild lögreglunnar í Hafnarfirði 21. september 1999. Hún var fyrst spurð um stjórnborð fyrir byggingakrana, gult að lit. Hún kvaðst ekki kannast við það. Henni var gerð grein fyrir að komið hefði í ljós að stjórnborðinu hefði verið stolið frá Akralind 7, Kópavogi, að líkindum helgina 20. til 22. ágúst sama ár. Ákærða sagði að hún kannaðist ekki við þetta stjórnborð og hún vissi ekki hvernig það hefði komist inn á heimili hennar. Þessu næst var ákærða spurð um græna tösku sem innihélt Bosch hitablásara og Dimplex hitablásara. Hún kvaðst ekki kannast við þessa muni. Henni var gerð grein fyrir að í ljós hefði komið að þessum hitablásurum hefði verið stolið frá Akralind 7, Kópavogi, sennilega um helgina 20. til 22. ágúst sama ár. Ákærða sagði að hún vissi ekkert um það mál, en hún teldi líklegt að María Sveinsdóttir hefði komið með þessa muni. Hún var spurð um Sunlon 50 m málband. Hún kvað það geta verið að ákærði Úlfar ætti þetta málband, en það gæti allt eins verið að það væri komið úr Núpalind 8 eða Akralind 7. Henni var bent á að málbandinu hefði verið stolið frá Akralind 7, Kópavogi, líklega um helgina 20. til 22. ágúst sama ár. Ákærða sagði að ef ákærði Úlfar ætti það ekki, þá vissi hún ekkert um það. María Sveinsdóttir vissi það kannski. Ákærða var spurð um rauða járntösku sem innihélt Split 325 höggborvél ásamt borum, en utan á töskuna væri skrifað nafnið Pétur Halldórsson. Ákærða sagði að hún kannaðist ekki við þessa tösku. Henni var gerð grein fyrir að umræddri tösku hefði verið stolið frá Akralind 7, Kópavogi, líklega um helgina 20. til 22. ágúst sama ár og að komið hefði í ljós að eigandi töskunnar væri Pétur Halldórsson. Hún kvaðst ekkert hafa að segja um það.
Ákærða Guðrún Halldóra var aftur yfirheyrð um sakarefnið 13. desember sama ár. Henni var fyrst gerð grein fyrir að við fyrri skýrslutöku hafi hún greint svo frá að það þýfi sem fannst á heimili hennar 25. ágúst sama ár hafi verið borið þangað inn af Maríu Sveinsdóttur og vini hennar. Hún var spurð hvort hún hafi orðið vitni að því þegar þessir munir komu inn á heimilið og hvort hún gæti tilgreint einhvern eða einhverja sem urðu vitni að þeim flutningi. Ákærða sagði að hún hafi verið sofandi þegar komið var með þessa muni inn í húsið og því hafi hún ekki orðið vör við þá sjálf. Hins vegar muni ákærði Úlfar hafa tekið á móti þessum munum og hann hafi leyft Maríu og vini hennar að geyma munina í íbúðinni þar sem maðurinn hafi sagst vera verktaki og vantaði geymslu undir þessi verkfæri. Sagði ákærða að hún hafi, þegar lögregla gerði leit á heimili hennar þann 25. ágúst s.á., ekki veitt þessum munum athygli, en þeir hafi verið í geymslu íbúðarinnar þar sem talsvert dót hafi verið fyrir.
Ákærða Guðrún Halldóra kom fyrir dóm þann 24. nóvember sl. Hún neitaði því að vera sek um hylmingu samkvæmt þessum ákærulið. Við aðalmeðferð málsins kvaðst ákærða ekki kannast við að hafa nokkurn tíma séð þessa muni áður og hún hafi ekki vitað að þeir voru á heimilinu. Kvaðst hún hafa verið að mestu sofandi í fjóra til sex daga á ákveðnu tímabili áður en húsleit lögreglu var framkvæmd og því gæti e.t.v. verið að munirnir hafi verið fluttir í húsið á þeim tíma.
María Sveinsdóttir kom fyrir dóminn sem vitni varðandi þennan ákærulið. Hún var spurð um þá muni sem fundust á heimili ákærðu Úlfars og ákærðu Guðrúnar Halldóru að Brekkubyggð 85, Garðabæ. Vitnið sagði að það væri rangt sem haldið væri fram að hún hafi komið með þessa hluti inn á heimilið og fengið að geyma þá þar. Kvaðst vitnið ekki geta gefið neinar upplýsingar um innbrot að Akralind 7 í Kópavogi. Loks staðfesti vitnið skýrsluna sem hún gaf við lögreglurannsókn málsins þann 7. janúar 2000.
Einar Þór Ingvason kom fyrir dóminn. Hann sagði að það hafi ekki reynst erfitt að þekkja þá hluti sem hurfu frá honum úr vinnuskúr við Akralind 7, Kópavogi. Vitnið mundi að veigamesti hluturinn sem hvarf frá honum hafi verið fjarstýring fyrir byggingakrana. Kvaðst vitnið ekki vita nákvæmlega hvenær umræddir hlutir hurfu úr vörslum hans. Hann kvaðst hafa fengið alla muni sína til baka.
Steinþór Hjaltason kom fyrir dóminn. Vitnið greindi svo frá að lögreglan hefði haft samband við sig og tilkynnt sér að borvél merkt rafvirkja á hans vegum hefði fundist og þá hefði hann uppgötvað að brotist hefði verið inn að Akralind 7, Kópavogi. Kvaðst hann hafa farið með lögreglunni og borið kennsl á ýmsa muni sem hann hefði kannast við og hafi verið í eigu manns sem vann fyrir vitnið, en engu hafi verið stolið frá vitninu. Vitnið kvaðst hafa greint frá fleiri horfnum hlutum en þeim sem getið er í lögregluskýrslu þar sem lögregluskýrslan hafi verið gerð áður en hann gekk á vettvang.
Í ákærulið 3, 3.1 til 3.4 er ákærðu gefin að sök hylming með því að halda ólöglega fyrir réttum eigendum þeim hlutum sem þar eru taldir upp. Upplýst er í málinu að hlutirnir fundust á heimili ákærðu að Brekkubyggð 85, Garðabæ, við húsleitir sem gerðar voru 25. ágúst og 15. nóvember 1999. Í málinu er einnig upplýst að þeirra hluta sem taldir eru upp undir framangreindum ákæruliðum hafði verið aflað með þjófnaði. Enn fremur liggur fyrir að ákærðu bjuggu að Brekkubyggð 85, Garðabæ, á þeim tíma sem umræddir hlutir fundust þar innandyra og voru þar húsráðendur. Glöggar upplýsingar liggja fyrir um hvar þessum hlutum var stolið. Ákærðu neita bæði sök. Við dómsmeðferð málsins var áberandi hjá ákærðu, einkum ákærða Úlfari, sú skýring á tilvist hlutanna á þáverandi heimili beggja ákærðu að María Sveinsdóttir hafi komið með þessa hluti í íbúðina og fengið að geyma þá fyrir vin hennar sem væri á hrakhólum með húsnæði. Þessu hefur María staðfastlega neitað. Í málinu hefur ekkert sérstakt komið fram sem styður þann framburð að María hafi komið með hlutina á þáverandi heimili ákærðu. Hjá ákærðu Guðrúnu Halldóru kom fram við dómsmeðferð málsins að hún hafi verið sofandi þegar komið var með hlutina á heimilið. Þá var það einkennandi við framburð hennar við lögreglurannsókn málsins að hún lét í veðri vaka að hún hafi ekki séð nema lítinn hluta munanna áður en lögregla lét til skarar skríða.
Framburður ákærðu um sambyggða bílaútvarpstækið og geislaspilarann í ákæru-lið 3.1 hefur verið reikull og ótrúverðugur, einkum hvað varðar meint kaup þeirra á tækinu. Hið sama má segja um framburð þeirra varðandi það hvernig þau segjast hafa eignast sambyggða útvarps-, CD og kassettutækið sem um getur í ákærulið 3.3.
Telja verður sannað með framburði vitna, skýrslum ákærðu og með hliðsjón af öllum atvikum að ákærðu hafi hlotið að vera ljóst og ekki getað dulist að þeirra hluta sem um getur í lið 3 í A-kafla ákæru hafi verið aflað með þjófnaði eða annars konar auðgunarbroti. Með framanlýstri háttsemi hafa ákærðu unnið sér til refsingar samkvæmt 1. mgr. 254. gr. almennra hegningarlaga.
4. Mánudaginn 16. ágúst 1999, kom Gunnar Steinn Pálsson, Reynigrund 75, Kópavogi, á lögreglustöðina í Kópavogi þeirra erinda að tilkynna um þjófnað á veski sem hann kvað hafa að geyma mikið af persónulegum eigum. Gunnar Steinn kvaðst hafa skilið veskið eftir í bifreiðinni PB-302 um miðjan dag 12. sama mánaðar. Bifreiðin hafi þá verið ólæst. Sagði hann að í veskinu hafi verið skilríki, svo sem ökuskírteini, debetkort, kreditkort, vildarkort, dagbók og fleiri persónulegir munir. Kvaðst hann hafa tilkynnt þjófnaðinn til Kreditkorts hf. þar sem honum hefði verið tjáð að tvívegis hefði verið reynt að nota kortið í hraðbanka í Sparisjóði Kópavogs sama dag og veskið hvarf úr bifreiðinni.
Þann 29. september sama ár, hafði Gunnar Steinn aftur samband við lögregluna í Kópavogi vegna framangreinds þjófnaðar á veski hans úr bifreiðinni PB 302 þann 12. ágúst 1999. Hann kvaðst vilja tilkynna að í veskinu hefði einnig verið tékkhefti frá Sparisjóði Kópavogs. Kvaðst hann trúlega hafa gleymt að tilkynna lögreglunni um hvarfið, en bankinn hafi verið búinn að loka fyrir notkun þess.
Í framhaldi af þessum upplýsingum hafði lögreglan samband við starfsmann Sparisjóðs Kópavogs. Kvað hann tvo tékka hafa borist sparisjóðnum úr umræddu hefti og þeir hafi verið endursendir. Báðir tékkarnir hafi verið framseldir á bensínstöð. Stúlka hefði framselt tékkana og hafi hún verið í fylgd karlmanns.
Ákærði Úlfar var yfirheyrður um sakarefnið hjá rannsóknardeild lögreglunnar í Hafnarfirði þann 2. desember sama ár. Hann kvaðst ekki kannast við þetta mál og hann hafi ekki komið þar nærri. Honum voru sýndar ljósmyndir sem teknar voru í Sparisjóði Kópavogs við Engihjalla 12. ágúst sama ár. Honum var gerð grein fyrir að þá hafi tvívegis verið gerð tilraun til að taka út peninga með korti Gunnars Steins Pálssonar eiganda veskisins sem stolið var úr bifreiðinni PB-302. Af öryggismyndavél bankans hafi náðst myndir af þeim einstaklingi sem þarna muni hafa verið að verki og væri ekki annað að sjá en að um ákærðu Guðrúnu Halldóru væri að ræða. Spurður um hvað hann vildi segja um það sagði ákærði að þetta væri ekki ákærða Guðrún Halldóra. Vera kynni að þetta væri líkt henni, en þetta væri ekki hún. Hárið á ákærðu Guðrúnu Halldóru væri miklu síðara en á konunni sem væri á myndinni, auk þess sem þessi kona væri feitlagnari en ákærða Guðrún Halldóra. Kvaðst ákærði halda að þessi kona héti Björg og ætti heima í Unufelli í Reykjavík. Er ákærði var spurður hvernig hann þekkti þessa konu, sagði hann að hann hafi verið samtímis henni í áfengismeðferð á meðferðarstöð SÁÁ að Vogi fyrir nokkrum árum. Hann var spurður hvort hann hefði rætt við ákærðu Guðrúnu Halldóru um þetta mál eftir að hún var tekin til yfirheyrslu hjá lögreglu vegna þess. Ákærði sagði að hann hafi rætt við ákærðu Guðrúnu Halldóru og hafi hún sagt að henni hafi þótt það fyndið að lögregla héldi að hún væri á þessum myndum. Þá hafi hún sagt að þetta væri þessi Björg og eftir að hann hafði séð þessar myndir væri hann sammála því.
Ákærði Úlfar kom fyrir dóm 15. desember sl. og neitaði þá sök varðandi þennan ákærulið. Við aðalmeðferð málsins neitaði ákærði alfarið að hafa stolið veski úr bifreiðinni PB-302 þann 12. ágúst 1999.
Ákærða Guðrún Halldóra var yfirheyrð um sakarefnið hjá rannsóknardeild lögreglunnar í Hafnarfirði 30. nóvember 1999. Hún kvaðst ekki kannast við þetta mál og hún vissi ekki hver eða hverjir hafi verið þar að verki. Henni voru sýndar ljósmyndir sem voru teknar í Sparisjóði Kópavogs við Engihjalla 12. ágúst sama ár., um kl. 14.23, en þá hafi tvívegis verið gerð tilraun til að taka út peninga með korti Gunnars Steins Pálssonar, eiganda veskisins. Af öryggismyndavél bankans hafi náðst myndir af þeim einstaklingi, sem muni hafa verið þarna að verki og væri ekki annað að sjá en þar væri um ákærðu að ræða. Hún var spurð hvað hún vildi segja um þetta. Ákærða sagði að myndirnar væru keimlíkar sér, en það væri ekki hún sem væri þarna á ferð. Sagði ákærða að hún vildi gera grein fyrir því að hún vissi hvaða kona væri á myndum þeim sem henni voru sýndar í tengslum við þetta mál. Kvað hún konuna heita Björgu og hún byggi í efra Breiðholti í Reykjavík, líklega í Unufelli. Sagði ákærða að hún vissi hver þessi kona væri. Kvaðst ákærða hafa unnið í söluturni í Breiðholtshverfi og þá hafi þessi kona verið þar fastur viðskiptavinur.
Er ákærða Guðrún Halldóra kom fyrir dóm 24. nóvember sl. neitaði hún sök. Við aðalmeðferð málsins var framburður ákærðu á þann veg að hún neitaði að hafa tekið veski úr bifreiðinni PB-302 þann 12. ágúst 1999. Henni voru sýndar áðurnefndar ljósmyndir úr öryggismyndavél sem teknar voru í Sparisjóði Kópavogs við Engihjalla 12. ágúst 1999. Hún neitaði því að myndirnar væru af sér.
Gunnar Steinn Pálsson kom fyrir dóminn. Hann kvaðst hafa lagt bifreið sinni fyrir utan hús Kaupþings við Ármúla í Reykjavík þann 12. ágúst 1999. Kvaðst hann hugsanlega hafa skilið bifreiðina eftir ólæsta og hafi veski hans verið á milli framsæta bifreiðarinnar. Þegar hann kom að bifreiðinni um klukkustundu síðar hafi veskið verið horfið. Í veskinu hafi m.a. verið kreditkort, peningar, debetkort og tékkhefti.
Björg Arnþórsdóttir kom fyrir dóminn. Hún var spurð um meintan þjófnað á veski úr bifreið við Ármúla í Reykjavík þann 12. ágúst 1999. Vitnið sagði að það sem haft væri eftir ákærða Úlfari og ákærðu Guðrúnu Halldóru þess efnis að hún hefði greitt þeim fyrir GSM síma, sem þau hefðu selt henni, með tékkum sem síðar hafi komið í ljós að hafði verið stolið úr umræddri bifreið væri ekki rétt. Sagði vitnið að hún hafi engin viðskipti átt við ákærða Úlfar og ákærðu Guðrúnu Halldóru. Vitnið sagði að hún þekkti ekki mikið til þeirra. Hún hafi þó kannast við ákærða Úlfar eftir kynni við hann í áfengismeðferð fyrir u.þ.b. 10 til 12 árum. Þá kvaðst vitnið hafa unnið með ákærðu Guðrúnu Halldóru á myndbandaleigu. Vitnið neitaði því að hafa komið nærri framangreindri bifreið eða þeim munum sem hurfu úr henni. Vitninu voru sýndar ljósmyndir úr öryggismyndavél Sparisjóðs Kópavogs við Engihjalla í Kópavogi. Hún kvaðst ekki muna til þess að hafa verið þarna í umrætt sinn og hún kannaðist ekki við að þessar myndir væru af henni. Kvaðst hún hvorki hafa verið í neyslu áfengis né fíkniefna á þeim tíma sem myndirnar voru teknar. Er vitninu voru sýndar skýrslur þær sem hún gaf við lögreglurannsókn málsins kvaðst hún ekki geta munað hvort það sem stæði í skýrslunum væri rétt eftir henni haft.
Ásmundur Steinar Guðmundsson, starfsmaður Sparisjóðs Kópavogs, kom fyrir dóminn. Hann var spurður um myndbandsuppöku sem hann útvegaði lögreglu við lögreglurannsókn málsins frá því atviki þegar reynt var að misnota kreditkort í hraðbanka í útibúi Sparisjóðs Kópavogs að Engihjalla 8, Kópavogi. Aðspurður hvað myndirnar úr hraðbankanum sýndu sagði vitnið að þær sýndu hraðbankann sjálfan, myndir af útidyrum hans og hvar stúlka fer inn í anddyri bankans og hvar hún fer aftur út. Kvað vitnið tímasetningar koma fram á myndunum og tímasetning færslna kæmi einnig fram á strimli.
Í þessum lið ákærunnar eru ákærðu saksótt fyrir þjófnað með því að hafa haft samráð um að stela veski, sem í var m.a. tékkhefti frá Sparisjóði Kópavogs, úr bifreiðinni PB-302 þann 12. ágúst 1999 þar sem hún stóð við Ármúla í Reykjavík. Ákærðu hafa bæði staðfastlega neitað sök við rannsókn og meðferð málsins. Það sem ákæruvald virðist leggja megináherslu á í málatilbúnaði sínum eru ljósmyndirnar úr öryggismyndavélinni sem náðust af konu sem var að reyna að taka út peninga með kreditkorti eiganda veskisins í Sparisjóði Kópavogs við Engihjalla sama dag og þjófnaðurinn var framinn. Í því sambandi hafa verið nefndar til sögu ákærða og vitnið Björg Arnþórsdóttir. Við dómsmeðferð málsins neituðu þær báðar að myndirnar væru af þeim. Ákærðu töldu bæði að myndirnar væru af framangreindu vitni. Ákærða Guðrún Halldóra kvaðst hafa fengið þrjá tékka frá vitninu Björgu í tengslum við viðskipti milli þeirra með tvo GSM síma. Þessu hefur vitnið Björg neitað. Þá er þess að geta að tékkar úr hinu stolna tékkhefti koma við sögu í liðum 5.1 og 5.2 í A-kafla ákæru og lið 2 í B-kafla ákæru. Jafnvel þótt unnt þætti að líta svo á að myndirnar sem áður er að vikið væru af ákærðu Guðrúnu Halldóru gætu þær einar og sér ekki sýnt fram á sekt ákærðu. Þegar framanritað er virt og að öðru leyti með vísan til þess sem komið er fram í málinu er það álit dómsins að það sé ósannað að ákærðu hafi þann 12. ágúst 1999 stolið veski sem í var tékkhefti úr bifreið þeirri sem um getur í þessum ákærulið. Verða þau samkvæmt því því sýknuð af þeirri háttsemi sem þeim er gefin að sök í þessum ákærulið.
5.1 Með bréfi dagsettu 11. október 1999, sendi Jóhann Kristjánsson, aðal-gjaldkeri Olíuverslunar Íslands hf., OLÍS, lögreglustjóranum í Reykjavík kæru vegna falsaðs/innstæðulauss tékka. Fram kom í bréfinu að tékkinn hefði verið móttekinn í bensínstöð OLÍS við Sæbraut 23. september sama ár. Tékkinn bæri með sér að hann væri falsaður. Hann væri frá Sparisjóði Kópavogs og væri að fjárhæð 10.000 krónur. Tékki þessi var úr tékkhefti sem hafði verið stolið úr bifreiðinni PB-302 þann 12. ágúst sama ár, svo sem nánar greinir að framan undir ákærulið 4.
Ákærði Úlfar kom fyrir dóm 15. desember sl. og neitaði alfarið sök. Við aðalmeðferð málsins neitaði hann einnig sök.
Ákærða Guðrún Halldóra kom fyrir dóm 24. nóvember sl. Framburður hennar um sakarefnið var á þá leið að hún hefði notað tékka þann sem um getur í þessum ákærulið á bensínstöð OLÍS við Sæbraut í Reykjavík. Kvaðst ákærða hafa fengið tékkann í hendur sem greiðslu fyrir GSM síma. Sagði ákærða að henni hafi verið með öllu ókunnugt um að þessi tékki var falsaður. Kvaðst hún því neita sök varðandi þennan ákærulið. Ákærða upplýsti að hún hafi selt konu að nafni Björg GSM síma, en hún myndi ekki hvort viðskiptin hefðu farið fram á heimili Bjargar eða hennar sjálfrar. Björg hefði greitt með tveimur tékkum. Við aðalmeðferð málsins neitaði ákærða því að hafa vísvitandi greitt með fölsuðum tékka á bensínstöð OLÍS við Sæbraut greint sinn. Kvaðst ákærða hafa selt fyrrnefndri Björgu tvo GSM síma og hafi hún greitt fyrir þá með tveimur tékkum. Ákærða kvaðst þó ekki muna eftir því sérstaklega að hún hafi greitt fyrir vöru eða þjónustu á framangreindri bensínstöð OLÍS með umræddum tékka.
Vitnið Björg Arnþórsdóttir kom fyrir dóminn. Framburður hennar er rakinn að framan undir lið 4. Hún neitaði því að hafa átt nokkur viðskipti við ákærða Úlfar og ákærðu Guðrúnu Halldóru.
Haraldur Árnason, lögreglufulltrúi við embætti ríkislögreglustjórans, kom fyrir dóminn. Vitnið lýsti því hvernig staðið er að rithandarrannsóknum. Sagði vitnið að fyrir rannsakanda væru lögð þau gögn sem rannsaka ætti. Því næst væru tekin sýni af rithönd. Þau væru ýmist fengin úr málsskjölum eða sýni væri fengið með öðrum hætti af rithönd grunaðs. Sýnin væru þessu næst borin saman og rannsökuð. Niðurstaðan væri metin út frá einkennum í skrift einstaklinga og skoðað væri hvort viðkomandi einkenni finnist í tiltekinni skrift eða ekki. Fram kom hjá vitninu að skriftarsýni ákærða Úlfars, sem væri skrifað með lykkjskrift, væri gamalt sýni sem komið hefði frá embætti ríkislögreglustjórans. Vitnið sagði að almennt væru þrjú skriftarform í notkun, lykkjuskrift, blokkskrift og prentskrift. Sagði vitnið að til þess að samanburður næðist yrði að vera um sama skriftarformið að ræða, þ.e. hlutaðeigandi aðili yrði að nota sömu tegund skriftar. Vitnið sagði að ekki hefði verið hægt að tengja saman skrift á tékkum þeim sem til rannsóknar voru við ákærða Úlfar sökum þess að skriftin hafi ekki verið samanburðarhæf þar sem mismunandi tegund skriftar hafi verið notuð og í raun hefði stundum verið um ólæsilegt krafs að ræða. Vitnið sagði að ekki hefði verið tekin afstaða til þess hvort hægt hefði verið að rekja skriftina á tékkunum til ákærðu Guðrúnar Halldóru. Því væri hvorki hægt að segja af eða á um það hvort ákærði Úlfar eða ákærða Guðrún Halldóra hefðu komið að ritun tékkanna. Loks staðfesti vitnið skýrslu þá sem hann vann í þágu rannsóknar málsins.
Ákærða Guðrún Halldóra hefur við dómsmeðferð málsins greint frá því að hún hafi notað tékka þann sem um getur í þessum ákærulið á bensínstöð Olíuverslunar Íslands hf. við Sæbraut í Reykjavík. Hafi hún fengið tékkann í hendur sem greiðslu fyrir GSM síma. Kvað hún sér hafa verið með öllu ókunnugt um að tékki þessi var falsaður. Afstaða ákærða Úlfars til þessa ákæruliðar er sú að hann neitar sök. Upplýst er í málinu að tékki þessi var út tékkhefti sem var stolið úr bifreiðinni PB-302 þann 12. ágúst 1999, svo sem nánar greinir í lið 4 hér að framan. Niðurstaða rithandarrannsóknar vitnisins Haraldar Árnasonar var á þá leið að afstaða yrði ekki tekin til þess á grundvelli fyrirliggjandi gagna hvort ákærðu hafi fyllt út, undirritað og/eða framselt umræddan tékka. Með þeim gögnum sem ákæruvaldið hefur lagt fyir dóminn hefur því að mati dómsins ekki tekist að færa fram sönnur fyrir því að ákærðu hafi staðið að fölsun tékkans eða að þau hafi vitað að hann var falsaður. Þegar framanritað er virt og gegn neitun ákærðu verður því að telja ósannað að þau hafi gerst sek um þá háttsemi sem þeim er gefin að sök í þessum ákærulið. Samkvæmt því ber að sýkna þau af því atferli sem þau eru þar saksótt fyrir.
5.2 Föstudaginn 24. september 1999, laust fyrir kl. 14.30, var óskað eftir lögreglu í verslunina Fjölsport í Hafnarfirði og þess getið að keyptar hefðu verið vörur fyrir innstæðulausan tékka. Þegar lögreglumenn komu á staðinn hittu þeir fyrir verslunarstjórann, Björgu Gilsdóttur. Greindi hún frá því að hún hefði verið við afgreiðslu þegar ungt par kom í verslunina. Hún sagði að parið hafi valið bakpoka og peysu í versluninni. Kvað hún parið hafa verið að tala um að þau væru að flýta sér þar sem þau ætluðu að fara með “strákinn” til Vestmannaeyja kl. 17. Parið hafi greitt fyrir vörurnar með tékka sem maðurinn hafi sagst hafa skrifað aftaná. Hann hafi framvísað ökuskírteini sem skilríkjum. Kvaðst Björg hafa skrifað niður ökuskírteinisnúmerið og athugað myndina sem var af maninum. Parið hafi svo yfirgefið verslunina.
Björg kvaðst hafa verið ein í versluninni þegar atvikið átti sér stað. Kvaðst hún hafa beðið þar til maðurinn hennar kom, sem hafi verið um hálftíma síðar. Þá kvaðst hún hafa farið með tékkann í banka til að fá honum skipt. Þar hafi komið í ljós að engin innstæða var fyrir tékkanum. Bankastarfsmaður hafi tjáð henni að tékkinn hefði ekki verið tilkynntur stolinn.
Björg sagði að bakpokinn hafi verið svartur og grænn með hvítum Adidas stöfum. Rennilás hafi verið ofaná bakpokanum og handfang. Peysan hafi verið blá hettupeysa með gulum Nike stöfum og Nike merki framaná. Bakpokinn hafi kostað 1.590 krónur, en peysan 5.990 krónur. Þar sem tékkinn hafi verið að fjárhæð 8.000 krónur hafi hún gefið þeim til baka 420 krónur.
Björg lýsti manninum sem mjög grönnum, dökkhærðum með rytjulegt hár, u.þ.b 170 cm á hæð, og um fertugt. Konan hafi verið mjög grönn með topp og tagl, klædd bláum gallabuxum, í svartri Nike peysu með gulum stöfum, í gráum úlpujakka, í svörtum skóm með gráum þykkum botnum. Kvað hún konuna hafa verið á aldrinum 32 til 40 ára.
Tékkinn reyndist vera frá Sparisjóði Kópavogs, Hlíðasmára 19, Kópavogi. Reikningsnúmerið á tékkanum var 384 og bankanúmer 1135. Tékkinn var stílaður á handhafa. Útgáfudagur tékkans var 23. september 1999 og fjárhæð hans 8.000 krónur.
Ákærði Úlfar var yfirheyrður um sakarefnið hjá rannsóknardeild lögreglunnar í Hafnarfirði 2. desember sama ár. Eftir að honum hafði verið kynnt sakarefnið sagði ákærði að hann kannaðist ekki við þetta mál. Er hann var spurður hvort hann kannaðist við að hafa verið í versluninni Fjölsport í Hafnarfirði ásamt ákærðu Guðrúnu Halldóru greint sinn kvaðst hann ekki kannast við það. Hann hafi komið einu sinni í þessa verslun, en það hafi verið tveimur árum áður. Hann myndi hins vegar ekki eftir því að hafa verið í þessari verslun á þeim tíma sem spurt væri um. Þá kvaðst ákærði ekki muna eftir því að ákærða Guðrún Halldóra hafi farið til að versla í þessari verslun á þeim tíma sem hér um ræðir. Ákærði var spurður hvort hann gæti skýrt það að bakpoki nákvæmlega eins og sá sem var afhentur í versluninni Fjölsport út á hinn falsaða tékka, fannst í fórum sjö ára gamals sonar ákærðu Guðrúnar Halldóru skömmu eftir að þessi úttekt átti sér stað. Ákærði sagði að hann hann myndi eftir því að ákærða Guðrún Halldóra hafi keypt pakpoka einhvern tíma þá um sumarið handa syni hennar, en það hafi verið hvítur barnabakpoki. Þann bakpoka hafi hún keypt í sportvöruverslun við Laugaveg í Reykjavík. Kvaðst hann ekkert vita um þennan bakpoka. Aðspurður hvort hann myndi eftir því að hafa séð þennan bakpoka hjá syni ákærðu, Guðrúnar Halldóru svaraði ákærði neitandi. Ákærði var spurður hvort hann gæti útskýrt það að sonur ákærðu Guðrúnar Halldóru var með þennan bakpoka þegar hann kom til Vestmannaeyja 24. september 1999. Ákærði svaraði því neitandi og sagði að ákærða Guðrún Halldóra hafi séð um að pakka fyrir drenginn og hann hafi ekki fylgst með því. Ákærða var sýnd mynd af bakpoka sömu gerðar og keyptur var í versluninni Fjölsport 24. september sama ár. Hann var spurður hvort hann kannaðist við slíkan poka. Ákærði sagði að hann myndi ekki eftir því að hafa séð þennan poka áður. Hins vegar kvað hann sig minna að pokinn sem ákærða Guðrún Halldóra keypti í versluninni við Laugaveg hafi verið hvítur að lit. Ákærða var bent á að samkvæmt framburði afgreiðslukonu í versluninni Fjölsport hafi par það sem verslaði fyrir hinn falsaða tékka á nefndum tíma rætt um að það þyrfti að fara með “strákinn” til Vestmannaeyja kl. 17, en komið hefði í ljós að sonur ákærðu Guðrúnar Halldóru, sem og hún sjálf hafi farið til Vestmannaeyja þennan dag. Aðspurður hvað hann vildi segja um það sagði ákærði að hann myndi ekki eftir því að hafa verið í þessari verslun þennan dag og hann myndi ekki eftir þessum orðaskiptum.
Ákærði kom fyrir dóm 15. desember sl. Hann kvaðst kannast við að hafa þann 24. september 1999, greitt fyrir vörur í versluninni Fjölsporti í Hafnarfirði með tékka að fjárhæð 8.000 krónur. Aftur á móti hafi honum verið ókunnugt um að tékkinn var falsaður. Aðspurður sagði ákærði að tékkinn hafi verið látinn ákærðu Guðrúnu Halldóru í té frá konu að nafni Björg, en ákærða hafi selt Björgu GSM síma af gerðinni Nokia og fengið greitt fyrir hann með þessum tékka. Kvaðst ákærði hafa staðið í þeirri trú að um góðan og gildan tékka væri að ræða. Við aðalmeðferð málsins neitaði ákærði að hafa komið í verslunina Fjölsport í Hafnarfirði umræddan dag og greitt þar fyrir vörur með tékka.
Ákærða Guðrún Halldóra var yfirheyrð um sakarefnið hjá rannsóknardeild lögreglunnar í Hafnarfirði 30. nóvember 1999. Hún var fyrst spurð hvort hún vildi tjá sig um sakarefnið. Ákærða sagði að hún kannaðist ekki við þetta mál og hún vissi ekki hver hefði verið þarna að verki. Hún var spurð hvort hún kannaðist við að hafa verið í versluninni Fjölsport ásamt ákærða Úlfari greint sinn. Ákærða sagði að hún hafi ekki farið í verslun í Hafnarfirði þennan dag. Henni var gerð grein fyrir að aðili sem segðist þekkja hana hefði, lýst klæðaburði hennar greint sinn á nákvæmlega sama hátt og afgreiðslukonan í versluninni Fjölsport gerði. Ákærða sagði að það stæðist ekki. Hún hafi ekki verið þarna á ferð. Ákærða var spurð hvort hún gæti útskýrt það að bakpoki nákvæmlega eins og sá sem var afhentur í versluninni Fjölsport út á hinn falsaða tékka fannst í fórum sjö ára gamals sonar hennar skömmu eftir að úttekt þessi var gerð. Svar ákærðu var að hún gæti ekki útskýrt það. Hún var spurð hvort hún hafi gefið syni sínum bakpoka þann sem hann kom með til Vestmannaeyja á framangreindum tíma. Ákærða sagði að hún hafi keypt bakpoka handa honum einhvern tíma um sumarið. Kvaðst hún muna það glöggt þar sem þau hafi farið í sund þann dag. Er hún var spurð hvar hún hafi keypt þann bakpoka sagði ákærða að hún hafi keypt hann í íþróttavöruverslun við Laugaveg í Rekjavík, en hún myndi ekki nafn verslunarinnar. Ákærðu var bent á að komið hefði fram í málinu, samkvæmt framburði afgreiðslukonu í versluninni Fjölsporti, að par það sem verslaði með þessum tékka á nefndum tíma hafi rætt um að þau þyrftu að fara með “strákinn” til Vestmannaeyja kl. 17. Henni var bent á að hún hafi farið með son sinn í flugi til Vestmannaeja um kl. 17 þennan dag. Aðspurð hvað hún vildi segja um það sagði ákærða að hún hefði ekkert um það að segja.
Ákærða Guðrún Halldóra kom fyrir dóm 24. nóvember sl. Framburður hennar var á þá leið að það væri rétt að hún hafi greitt fyrir vörur í versluninni Fjölsporti í Hafnarfirði þann 24. september 1999, með tékka að fjárhæð 8.000 krónur. Ákærða kvaðst hafa fengið tékkann sem greiðslu fyrir GSM síma. Kvaðst hún hafa selt konu að nafni Björg umræddan síma, en hún myndi ekki hvort viðskiptin fóru fram á heimili Bjargar eða heimili ákærðu. Kvað hún Björgu hafa greitt með tveimur tékkum. Síminn hafi verið af gerðinni Nokia 5110. Ákærða tók fram að ákærði Úlfar hafi greitt vöruna, en hún hafi verið stödd í versluninni þegar viðskiptin áttu sér stað. Ákærða sagði að ákærði Úlfar hafi verið að greiða fyrir vörur sem hún var að kaupa í versluninni, en það hafi verið lítill bakpoki og peysa. Við aðalmeðferð málsins var framburður ákærðu á þann veg að hún myndi eftir því að hafa farið í verslunina Fjölsport og að ákærði Úlfar og sonur hennar hafi verið með í för. Hvort ákærði Úlfar var með henni inni í versluninni myndi hún ekki. Ákærða kvaðst hvorki muna hvað hún keypti greint sinn né hvernig hún hafi greitt fyrir vörurnar. Kvaðst ákærða hafa verið í einhverri neyslu á umræddu tímabili.
Björg Gilsdóttir kom fyrir dóminn. Vitnið skýrði svo frá að greint sinn hefði par komið í verslunina Fjölsport í Hafnarfirði og hafi konan verið að skoða íþróttavörur handa barni. Kvað vitnið sér strax hafa þótt fólkið grunsamlegt og því hafi hún fylgst vel með því. Vitnið kvaðst hafa orðið vör við að karlmaðurinn tók nokkra íþróttaboli og fór með þá inn í mátunarklefa. Hann hafi augljóslega sett herðatré inn í einn bolinn og skilað vitninu honum, en á meðan hafi konan reynt að halda vitninu upptekinni. Að lokum hafi parið keypt pakpoka og eitthvað fleira og greitt fyrir með tékka. Vitnið kvaðst hafa innt þau eftir því hvort þau væru með debetkort, en þau hafi ekki getað framvísað því og hafi hún þá beðið þau um ökuskírteini sem þau hafi framvísað og framselt tékkann. Vitnið kvaðst svo hafa beðið eftir því að hún yrði ekki ein í versluninni og farið með tékkann um leið og svo var ekki, í banka til athugunar. Þar hafi hún komist að því að nánast allt sem var ritað á tékkann var falsað. Myndin í ökuskírteininu hafi verið fölsuð, nafn og kennitala. Vitnið kvaðst hafa horft á manninn framselja tékkann og hafi hún staðið yfir honum á meðan. Kvað hún myndina í ökuskírteininu hafa verið af manninum. Henni hafi verið sýnd mynd af manninum sem átti ökuskírteinið í bankanum og hafi það verið allt annar maður.
Aðspurð um myndbendingu sem hún tók þátt í sagði vitnið að hún hafi skrifað undir tilteknar myndir af fólki sem hún bar kennsl á. Vitnið staðfesti að hún hefði ritað nafn sitt við mynd af tilteknum karlmanni og tiltekinni konu. Sagði vitnið að hún hafi ekki athugað hvort maðurinn skilaði báðum bolunum. Hafi hún þá orðið vör við að einn bolinn vantaði og að undir þeim bol sem maðurinn mátaði hafi verið tvö herðatré. Sagði vitnið að enginn hafi komið inn í verslunina í millitíðinni. Hún hafi athugað þetta um leið og parið yfirgaf verslunina. Aðspurð kvað vitnið myndina af karlmanninum, sem hún merkti við hjá lögreglu, vera af eina manninum sem hún hefði áður séð af þeim sem voru á myndunum og væri hann sennilega sá sem kom í verslunina umrætt sinn. Vitnið sagði að búið væri að greiða 1.600 krónur sem væri andvirði bakpokans.
Haraldur Árnason lögreglufulltrúi kom fyrir dóminn. Framburður vitnisins er rakinn undir lið 5.1.
Vitnið Björg Arnþórsdóttir kom fyrir dóminn. Framburður hennar er rakinn að framan undir lið 4. Hún neitaði því að hafa átt nokkur viðskipti við ákærða Úlfar og ákærðu Guðrúnu Halldóru.
Framburður beggja ákærðu hefur ekki verið stöðugur um það hvort þau hafi komið í verslunina Fjölsport þann 24. september 1999. Við lögreglurannsókn málsins könnuðust þau ekki við að hafa verið í versluninni Fjölsport á framangreindum tíma. Þegar ákærði Úlfar kom fyrst fyrir dóm vegna málsins kannaðist hann við að hafa þann 24. september 1999, greitt fyrir vörur í framangreindri verslun með tékka að fjárhæð 8.000 krónur. Honum hafi hins vegar verið ókunnugt um að tékkinn var falsaður. Við aðalmeðferð málsins neitaði ákærði Úlfar að hafa komið í þessa verslun greint sinn. Framburður ákærðu Guðrúnar Halldóru fyrir dómi var í bæði skiptin á þann veg að hún hafi verið í versluninni umræddan dag og að þar hafi þau ákærði Úlfar greitt fyir vörur með tékka að fjárhæð 8.000 krónur. Kvað hún sér hafa verið ókunnugt um að tékkin var falsaður. Samkvæmt framansögðu telur dómurinn að leggja verði til grundvallar framburð beggja ákærðu um að þau hafi verið stödd í versluninni Fjölsport þann 24. september 1999, og að þau hafi greitt fyrir vöruna sem þau keyptu með tékka að fjárhæð 8.000 krónur. Ákærðu er gefið að sök að hafa greitt fyrir vöruna með fölsuðum tékka. Upplýst er í málinu að umræddum tékka var stolið úr bifreiðinni PB-302 þann 12. ágúst sama ár, eins og nánar greinir í lið 4 í A-kafla ákæru. Niðurstaða rithandar-rannsóknar vitnisins Haraldar Árnasonar var á þá leið að afstaða yrði ekki tekin til þess á grundvelli fyrirliggjandi gagna hvort ákærðu hafi fyllt út, undirritað og/eða framselt umræddan tékka. Þegar framanritað er virt og að öðru leyti með vísan til gagna málsins telur dómurinn ósannað gegn neitun ákærðu að þau hafi staðið að fölsun tékkans eða vitað að hann var falsaður. Samkvæmt því verða ákærðu sýknuð af þeirri háttsemi sem þeim er gefin að sök í þessum ákærulið.
B-kafli ákæru
1. Ákærða Guðrún Halldóra hefur játað að þann 19. júní 1999, hafi hún haft í vörslum sínum 0,31 gramm af amfetamíni sem fundist hafi í tösku hennar þegar hún var handtekin í bifreiðinni NP-299 í Lækjargötu í Reykjavík.
Framanlýst háttsemi ákærðu er sönnuð með skýlausri játningu hennar og öðrum gögnum málsins. Þetta atferli ákærðu Guðrúnar Halldóru er rétt heimfært til refsiákvæða í ákæru.
2. Föstudaginn 1. október 1999, kom Sigríður Högnadóttir á lögreglustöðina í Vestmannaeyjum með tékka að fjárhæð 10.000 krónur sem hún sagði að væri falsaður. Kvað hún tékkann hafa verið notaðan til að kaupa vörur í söluskálanum við Goðahraun, líklega þann 25. september sama ár. Hún kvaðst ekki vita hver það var sem notaði tékkann. Sigríður sagði að þegar tékkanum var framvísað í Sparisjóði Vestmannaeyja hafi komið í ljós að hann var falsaður. Tékki þessi reyndist vera á eyðublaði frá Sparisjóði Kópavogs dagsettur 23. september 1999. Við athugun í málaskrá lögreglu kom í ljós að tékki úr sama hefti hafði verið notaður í viðskiptum í versluninni Fjölsporti í Hafnarfirði 24. september sama ár.
Ákærða Guðrún Halldóra var yfirheyrð um sakarefnið hjá rannsóknardeild lögreglunnar í Hafnarfirði 30. nóvember s.á.. Hún var fyrst spurð hvort hún vildi tjá sig um sakarefnið. Ákærða sagði að að hún kannaðist ekki við málið. Þá kvaðst hún ekki minnast þess að hafa verið með 10.000 króna tékka í Vestmannaeyjum á þessum tíma. Ákærða var þá spurð hvort hún hafi verið í Vestmannaeyjum á þeim tíma sem umræddur tékki var notaður. Hún kvaðst hafa farið til Vestmannaeyja í septembermánuði s.á., en hún myndi ekki hvaða mánaðardag það var.
Ákærða Guðrún Halldóra kom fyrir dóm þann 24. nóvember sl. og neitaði þá sök. Hún kvaðst hafa greitt fyrir vörur í söluskálanum við Goðahraun í Vestmannaeyjum þann 25. september 1999 með tékka að fjárhæð 10.000 krónur. Sagði ákærða að sama skýring væri á því hvernig þessi tékki komst í vörslur hennar og hún hefði greint frá undir lið 5.2 í A-kafla ákæru. Um hafi verið að ræða að hún hafi selt þar greindri Björgu GSM síma. Ákærða sagði að Björgu þessari hafi verið seldir tveir GSM símar fyrir samtals 28.000 krónur. Símarnir hafi báðir verið gerðinni Nokia 5110. Ákærða sagði að henni hafi verið með öllu ókunnugt um að þessi tékki var falsaður og stolinn. Hún kvað Björgu ekki hafa fengið báða símana samtímis, heldur hafi einhverjir dagar liðið á milli. Við aðalmeðferð málsins var framburður ákærðu Guðrúnar Halldóru á þá leið að hún kannaðist við að hafa verslað í verslun við Goðahraun í Vestmannaeyjum greint sinn. Kvaðst hún hafa greitt fyrir það sem hún keypti með tékka að fjárhæð 10.000 krónur. Ákærða kvað sér ekki hafa verið kunnugt um að tékki þessi var falsaður. Hún kvaðst ekki hafa framselt tékkann.
Sigríður Högnadóttir kom fyrir dóminn. Vitnið gaf skýrslu í gegnum síma. Vitnið skýrði svo frá að hún hafi ekki tekið við tékkanum sem um getur, heldur starfsmaður verslunar K.Á. Sagði vitnið að reglur verslunarinnar væru þær að lagt væri fyrir starfsmenn að krefja viðskiptavini um persónuskilríki og að þeir framseldu tékka með undirritun sinni. Vitnið sagði að starfsmaðurinn sem var við afgreiðslu greint sinn hafi verið ungur og óreyndur og því hafi hann fyrir slysni ekki farið að þessum fyrirmælum. Sagði vitnið að hlutaðeigandi starfsmaður hafi ekki munað eftir því hver notaði umræddan tékka í versluninni.
Tryggvi Kristinn Ólafsson, lögreglufulltrúi í Vesmannaeyjum, kom fyrir dóminn. Vitnið gaf skýrslu í gegnum síma. Hann var spurður um tékkann sem hann fékk til rannsóknar haustið 1999. Hann kvaðst hafa fengið tékkan í hendur þann 1. október 1999.
Vitnið Björg Arnþórsdóttir kom fyrir dóminn. Framburður hennar er rakinn að framan undir lið 4. Hún neitaði því að hafa átt nokkur viðskipti við ákærða Úlfar og ákærðu Guðrúnu Halldóru.
Haraldur Árnason lögreglufulltrúi kom fyrir dóminn. Framburður vitnisins er rakinn undir lið 5.1 í A-kafla ákæru.
Ákærða hefur við dómsmeðferð málsins staðfest að þann 25. september 1999, hafi hún komið í söluskálann við Goðahraun í Vestmannaeyjum og greitt fyrir vörur með tékka að fjárhæð 10.000 krónur. Upplýst er í málinu að tékkinn sem ákærða greiddi vörurnar með var falsaður og að hann var úr tékkhefti sem stolið var úr bifreiðinni PB-302 og um getur í lið 4 í A-kafla ákæru. Ákærða hefur neitað því staðfastlega við dómsmeðferð málsins að henni hafi verið kunnugt um að tékki þessi var falsaður og stolinn. Niðurstaða rithandarrannsóknar vitnisins Haraldar Árnasonar var á þá leið að afstaða yrði ekki tekin til þess á grundvelli fyrirliggjandi gagna hvort ákærða hafi fyllt út, undirritað og/eða framselt umræddan tékka. Með þeim gögnum sem hafa verið lögð fyrir dóminn hefur ákæruvaldinu að mati dómsins tekist að sýna fram á að ákærðu Guðrúnu Halldóru hafi verið kunnugt um að tékkin var fasaður. Þegar litið er til þess og gegn staðfastri neitun ákærðu telur dómurinn ósannað á ákærða hafi gerst sek um þá háttsemi sem henni er gefin að sök í þessum ákærulið. Verður hún samkvæmt því sýknuð af því sem hún er saksótt fyrir undir lið 2 í B-kafla ákæru.
3. Miðvikudaginn 27. október 1999, laust eftir kl. 10, fóru lögreglumenn úr lögreglunni í Hafnarfirði að beiðni lögreglunnar í Kópavogi að Brekkubyggð 85, Garðabæ, til að aðstoða Lúðvík Hraundal, starfsmann bifreiðaumboðsins Jöfurs hf., við að endurheimta bifreið sem hann kvað Guðrúnu Halldóru Valsdóttur, ákærðu í máli þessu, hafa fengið lánaða til reynslu daginn áður vegna hugsanlegra kaupa hennar á bifreiðinni.
Að sögn Lúðvíks ætlaði ákærða einungis að fara stuttan hring í hverfinu áður en gengið yrði frá kaupunum, en hún hefði gert óformlegt tilboð í bifreiðina. Kvaðst Lúðvík hafa fengið bankakort og bankabók hjá ákærðu til geymslu á meðan á reynsluakstrinum stæði. Hann sagði að erfitt hafi reynst að gangsetja bifreiðina og því hafi hann aðstoðað ákærðu og förunaut hennar við að koma bifreiðinni í gang og svo horft á eftir þeim þar sem ákærða ók bifreiðinni af bifreiðaplani fyrirtækisins. Lýsing Lúðvíks á samferðamanni ákærðu Guðrúnar Halldóru var hin sama og á við um sambýlismann hennar, Úlfar Ólafsson.
Lögreglumennirnir knúðu dyra hjá ákærðu Guðrúnu Halldóru og ræddi hún við þá í gegnum svefnherbergisgluggann. Hún lét kveikjuláslykla bifreiðarinnar strax af hendi. Lúðvík Hraundal heimilaði lögreglu leit í bifreiðinni.
Ákærða Guðrún Halldóra var yfirheyrð um sakarefnið hjá rannsóknardeild lögreglunnar í Hafnarfirði 30. nóvember sama ár. Hún var fyrst spurð hvort hún vildi tjá sig um sakarefnið. Ákærða sagði að umrædd bifreið hafi ekki verið tekin í heimildarleysi, heldur hafi sölumaður á bílasölunni lánað þeim bifreiðina. Þegar til kom hafi bifreiðin reynst vera rafmagnslaus og hafi þau þurft að sjá um að koma henni í gang. Ákærði Úlfar hafi verið með henni og vinur hans sem hún þekkti mjög lítið. Sökum þess hve erfiðlega gekk að koma bifreiðinni í gang hafi verið lítill tími til að reynsluaka henni. Þau hafi farið á bifreiðinni að Brekkubyggð 85, Garðabæ, þar sem bifreiðin hafi drepið á sér og þau hafi ekki getað komið henni aftur í gang. Þá hafi klukkan verið orðin 18 og búið að loka fyrirtækinu, sem hún hafi haldið að væri opið til kl. 19. Úr því að svo var komið að bifreiðin var rafmagnslaus og að búið var að loka bifreiðasölu Jöfurs hafi þau látið bifreiðina standa fyrir utan heimili sitt. Starfsmenn Jöfurs hafi svo sótt bifreiðina strax næsta morgun, en hún hafi ætlað að láta vita af því hvar bifreiðin væri, en hún hafi ekki verið vöknuð þegar þeir komu að sækja bifreiðina.
Er ákærða var spurð hver hafi ekið bifreiðinni greint sinn kvaðst hún ekki muna nafn þess manns, en það hafi verið kunningi ákærða Úlfars. Ákærðu var gerð grein fyrir að samkvæmt upplýsingum frá þeim starfsmanni Jöfurs sem afhenti henni lyklana að bifreiðinni vegna reynsluakstursins, hafi þau verið tvö á ferð, hún og dökkhærður grannur maður á að giska 175 til 180 cm á hæð. Aðspurð hvort hún vissi hvaða maður það var, sagði ákærða að það hafi verið Úlfar sambýlismaður sinn. Hún var spurð hvar þriðji maðurinn sem hún segði að hafi verið með þeim hafi verið. Ákærða sagði að hann hafi verið úti með Úlfari á meðan hún fór inn til að fá lyklana að bifreiðinni. Hún kvaðst ekki muna eftir því að Úlfar hafi nokkurn tíma komið inn á bílasöluna í þetta sinn fremur en þessi vinur hans. Ákærða var spurð hvað orðið hafi um þennan þriðja mann eftir að bifreiðinni hafði verið lagt við Brekkubyggð 85, Garðabæ. Svar ákærðu var að hún vissi það ekki, en sennilega hafi hann farið heim til sín.
Ákærða Guðrún Halldóra kom fyrir dóm 24. nóvember sl. Hún neitaði sök varðandi þennan ákærulið. Sagði ákærða að hún hafi fengið umrædda bifreið lánaða til reynsluaksturs, en sá sem ók bifreiðinni hafi verið kunningi ákærða Úlfars. Við aðalmeðferð málsins var framburður ákærðu Guðrúnar Halldóru á þá leið að hún hafi ekki ekið bifreiðinni, heldur hafi kunningi ákærða Úlfars ekið bifreiðinni. Ákærða sagði að þennan umrædda dag hafi verið slæmt veður. Sagði ákærða að það hafi tekið langan tíma að koma bifreiðinni í gang eftir að kveikjuláslyklar bifreiðarinnar fundust. Í reynsluakstrinum hafi komið fram gangtruflanir í bifreiðinni og hafi þau farið á henni til Garðabæjar. Þegar þangað var komið hafi klukkan verið orðin 18. Kvað hún þau hafa hringt í bifreiðasölu Jöfurs, en þá hafi verið búið að loka henni.
Lúðvík Hraundal kom fyrir dóminn. Hann skýrði svo frá að ákærða Guðrún Halldóra hefði komið í bifreiðasölu Jöfurs og falast eftir því að fá að reynsluaka tiltekinni bifreið. Hafi það verið tveimur dögum fyrir umrætt atvik. Sagði vitnið að við það tækifæri hafi hann ekki þorað að lána henni bifreiðina þar sem hann hefði metið það svo að hún hafi ekki verið í ökuhæfu ástandi. Sagði vitnið að hann hafi haft það á tilfinningunni að hún hefði ekki sérstakan áhuga á bifreiðinni, heldur lægi eitthvað annað undir. Tveimur dögum síðar hafi ákærða Guðrún Halldóra komið aftur og þá í fylgd manns. Hafi hún þá virst hafa áhuga á kaupunum. Hann hafi því leyft henni að reynsluaka bifreiðinni og hafi ákærða skilið eftir skilríki og myndin í skilríkjunum hafi verið af henni. Vitnið sagði að ákærða Guðrún Halldóra hafi verið ein í bifreiðinni þegar hún ók henni á brott. Kvaðst hann hafa gefið henni þau fyrirmæli að hún mætti fara einn hring um nágrennið, en ekki hafi verið rætt um tíma í því sambandi. Vitnið kvaðst hafa frétt það síðar, að ákærða Guðrún Halldóra hafi þurft að fá aðstoð á verkstæði fyrirtækisins þar sem bifreiðin hafi ekki farið í gang og að þurft hafi að notast við startkapla til að ræsa vél bifreiðarinnar. Vitnið sagði að eftir að bifreiðin skilaði sér ekki, hafi hann farið morguninn eftir að heimili ákærðu Guðrúnar Halldóru og knúð þar dyra, en honum hafi ekki verið svarað. Vitnið kvaðst þá hafa leitað aðstoðar lögreglunnar og hafi hún komið sér til aðstoðar. Þegar lögreglan hafði knúð dyra heima hjá ákærðu Guðrúnu Halldóru hafi kveikjuláslyklum bifreiðarinnar verið hent út um glugga til þeirra. Sagði vitnið að ákærða Guðrún Halldóra hafi sagt að hún myndi ræða síðar við vitnið í sambandi við bifreiðakaupin, en hún hafi sagt að hún ætlaði að kaupa bifreiðina. Vitnið kvað sig minna að þurft hafi að nota startkapla við að ræsa bifreiðina við heimili ákærðu greint sinn. Aðspurður kvaðst vitnið ekki geta fullyrt hvort ákærða Guðrún Halldóra hafi komið rétt fyrir lokun bílasölunnar, enda væri langt um liðið.
Halldór Sigurbergur Sveinsson, lögreglumaður í Hafnarfirði, kom fyrir dóminn. Vitnið kvaðst hafa verið fenginn til að aðstoða starfsmenn Jöfurs við að endurheimta bifreið sem hafði ekki verið skilað eftir reynsluakstur. Fram kom hjá vitninu að bifreiðin hafi fundist að Brekkubyggð 85, Garðabæ, þar sem ákærða Guðrún Halldóra hafi búið og hafi þeim verið afhentir kveikjuláslyklar bifreiðarinnar. Í bifreiðinni hafi fundist áhöld til fíkniefnaneyslu. Sagði vitnið að engar skýringar hafi fengist á því hvers vegna bifreiðinni var ekki skilað.
Ákærða Guðrún Halldóra hefur við rannsókn og meðferð málsins staðfastlega neitað sök bæði hvað varðar nytjatöku bifreiðarinnar JU-609 og að hafa ekið henni. Vitnið Lúðvík Hraundal fullyrti í framburði sínum að ákærða hafi ekið bifreiðinni brott frá bifreiðasölunni og að hún hafi verið ein í bifreiðinni. Ákærða heldur því hins vegar fram að ökumaður bifreiðarinnar hafi verið kunningi Úlfars Ólafssonar og að þau hafi verið þrjú í bifreiðinni. Fram kemur í gögnum málsins að maður sá sem ákærða heldur fram að hafi ekið bifreiðinni greint sinn er látinn. Gegn neitun ákærðu telur dómurinn ósannað að hún hafi ekið bifreiðinni JU-609 greint sinn. Verður hún því sýknuð af því að hafa ekið bifreiðinni svipt ökurétti.
Ákærðu er einnig gefið að sök að hafa látið hjá líða að skila bifreiðinni eftir reynsluaksturinn og að hafa heimildarlaust farið með bifreiðina heim til sín. Hún fékk hana lánaða til reynsluaksturs síðdegis þann 26. október 1999, hjá vitninu Lúðvík Hraundal, starfsmanni bifreiðasölu Jöfurs í Kópavogi. Ákærða heldur því fram að erfiðlega hafi gengið að ræsa bifreiðina og að í reynsluakstrinum hafi komið fram gangtruflanir. Þetta hafi leitt til þess að henni hafi ekki reynst unnt að skila bifreiðinni fyrir lokun bifreiðasölunnar. Fram kom hjá vitninu Lúðvík Hraundal að þurft hafi að nota svokallaða startkapla við að ræsa bifreiðina við heimili ákærðu morguninn eftir að hann hafði léð henni bifreiðina til reynsluakstursins. Þá lét hann þess og getið að hann hafi frétt síðar að ákærða Guðrún Halldóra hafi þurft að fá aðstoð á verkstæði fyrirtækisins þar sem bifreiðin hafi ekki farið í gang og að þurft hafi að notast við startkapla til að ræsa vél bifreiðarinnar. Þessi framburður vitnisins styður þannig framburð ákærðu um að erfiðleikar hafi verið við að gangsetja bifreiðina. Þá kvaðst vitnið ekki geta fullyrt hvort ákærða hafi komið skömmu fyrir lokun bifreiðasölunnar. Þegar framanritað er virt þykir ekki unnt að líta framhjá þeim framburði ákærðu að atvik hafi verið með þeim hætti að hún hafi reynt að hringja í bifreiðasölu Jöfurs eftir kl. 18, til að skýra frá því að bifreiðin væri haldin gangtruflunum sem yllu því að hún gæti ekki skilað henni og að þá hafi verið búið að loka fyrirtækinu þann daginn. Samkvæmt því verður gegn neitun ákærðu að telja ósannað að hún hafi gerst sek um brot gegn 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga. Verður hún því einnig sýknuð af því ákæruatriði.
C-kafli ákæru
1. Þar sem sakarefni þessa ákæruliðar er samofið atvikum í lið 5.2 í A-kafla ákæru vísast til málavaxtalýsingar varðandi þennan ákærulið til liðar 5.2. í A-kafla ákæru. Þess er þó að geta að í frumskýrslu lögreglu um það mál kemur ekki fram að grunur væri um þjófnað úr versluninni. Samkvæmt upplýsingaskýrslu lögreglunnar í Hafnarfirði dagsettri 4. október 1999, greindi Björg Gilsdóttir lögreglu frá því að komið hefði í ljós síðar, að hvítum pólóbol hefði verið stolið í sama skipti og um getur í lið 5.2 í A-kafla ákæru, þ.e. 24. september sama ár. Sagði hún að það hafi gerst með þeim hætti að sá maður sem var á ferð greint sinn í versluninni hafi fengið tvo pólóboli með sér inn í mátunarklefa, en þegar farið var að kanna málið eftir að hann og konan sem var með honum voru farin, hafi komið í ljós að einungis annar bolurinn var þar eftir. Kvað hún herðatréi því sem bolurinn hafði verið á hafa verið stungið inn í þann bol sem skilinn hafði verið eftir. Sá pólóbolur hafi því verið á tveimur herðatrjám er að var komið.
Er ákærði Úlfar kom fyrir dóm þann 15. desember sl. neitaði hann sök. Við aðalmeðferð málsins neitaði ákærði aftur sök og kvaðst ekki hafa tekið neinn bol úr versluninni Fjölsport í Hafnarfirði.
Um framburð vitnisins Bjargar Gilsdóttur við aðalmeðferð málsins vísast til þess sem rakið er í lið 5.2 í A-kafla ákæru.
Eins og fram kemur í framburði vitnisins Bjargar Gilsdótur við aðalmeðferð málsins, bar hún að maðurinn sem var að versla í versluninni greint sinn hafi fengið lánaða nokkra boli til að máta í mátunarklefa. Hún hafi ekki uppgötvað fyrr en nokkru eftir að maðurinn og fylgdarkona hans yfirgáfu verslunina að einn bolinn vantaði. Upplýst er í málinu, sbr. það sem rakið er undir ákærulið 5.2 í A-kafla ákæru, að ákærði Úlfar og sambýliskona hans, Guðrún Halldóra, voru í versluninni greint sinn að kaupa vörur sem þau greiddu fyrir með tékka þeim sem nefndur er í framangreindum ákærulið. Vitnið Björg Gilsdóttir fullyrti að engir aðrir viðskiptavinir hafi verið í versluninni á meðan ákærði Úlfar og Guðrún Halldóra voru þar.
Enda þótt afar líklegt sé samkvæmt því sem nú hefur verið rakið að ákærði hafi stolið bolnum, er það álit dómsins að gegn staðfastri neitun ákærða Úlfars sé ekki komin sé fram lögfull sönnum þess að hann hafi verið að verki með framanlýstum hætti. Er í því efni m.a. litið til þess að hvarf pólóbolsins var ekki tilkynnt fyrr en alllöngu eftir að hann á að hafa horfið úr verslunninni. Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið verður ákærði sýknaður af þeirri háttsemi sem honum er gefin að sök í þessum ákærulið.
2. Málavöxtum er að nokkru lýst í málavaxtalýsingu varðandi A-kafla ákæru, en upphaf málsins má rekja til þess að mánudaginn 18. október 1999, kl. 11.30, tilkynnti Ásgeir Norðdahl Ólafsson lögreglunni í Kópavogi um þjófnað úr verslun Kaj Pind, Hlíðasmára 14, Kópavogi. Tveir lögreglumenn fóru á vettvang. Við athugun kom í ljós að farið hafði verið inn um ólæstar dyr að norðanverðu, inn úr sameign, á meðan starfsmenn voru uppteknir. Að sögn tilkynnanda hafði eftirfarandi verið tekið af afgreiðsluborði: Reiknivél af tegundinni Canon að verðmæti allt að 10.000 krónur, sími af tegundinni Goldstar, sem notaður var sem móðurstöð, og greiðslukortavél frá Visa Ísland. Tilkynnandinn kvaðst ekki vita raðnúmer hlutanna.
Ákærði Úlfar var yfirheyrður um sakarefnið hjá rannsóknardeild lögreglunnar í Hafnarfirði 2. desember sama ár. Honum var gerð grein fyrir því að í garði við húsið að Brekkubyggð 85, Garðabæ, hafi við húsleit þann 15. nóvember sama ár fundist greiðslukortavél af gerðinni Hypercom, en fyrir lægi að henni hefði verið stolið úr verslun Kaj Pind, Hlíðarsmára 14, Kópavogi, 18. október sama ár. Ákærði var spurður hvort hann gæti skýrt veru þessa tækis í garðinum heima hjá honum. Ákærði sagði að hann hafi fundið þessa greiðslukortavél á víðavangi, en hann myndi ekki nákvæmlega hvar hann fann hana. Líklega hafi það verið á Arnarnesvegi, skammt frá Reykja-nesbraut. Kvaðst hann hafa tekið greiðslukortavélina og ætlað að reyna að fá fundarlaun fyrir hana þar sem hann hefði frétt að Visa Ísland greiddi fundarlaun fyrir vélar sem þessar, en hann hefði ekki komið því í verk. Ástæðu þess að hann geymdi vélina í garðinum heima hjá sér kvað hann vera þá að hann hafi ekki talið ólíklegt að lögregla kæmi til húsleitar hjá honum og myndi telja að hann hefði stolið greiðslukortavélinni. Það hafi hann hins vegar ekki gert. Aðspurður kvaðst ákærði ekki muna hvenær hann fann greiðslukortavélina. Er ákærði var spurður hvort hann kannaðist við innbrotið í verslun Kaj Pind og hver hafi verið þar að verki sagði hann að hann vissi það ekki. Hann hafi ekki staðið að þeim þjófnaði.
Ákærði Úlfar kom fyrir dóm þann 15. desember sl. Hann neitaði sök. Hann kvaðst hafa fundið umrædda greiðslukortavél á þeim stað sem lýst er í ákæru. Kvaðst hann hafa þrifið vélina þegar hann kom heim, pakkað henni inn í plast og síðan sett hana út í bakgarð hússins að Brekkubyggð 85, Garðabæ. Kvaðst hann hafa sett vélina í húsagarðinn vegna þess að hann hafi ekki viljað hafa hana inni á heimilinu, en það hafi verið vegna þess að hann hafi haft grun um að hún kynni að vera illa fengin. Ákærði kvaðst hafa ætlað að skila vélinni til Visa Ísland, en af því hafi ekki orðið áður en hún fannst í húsagarðinum. Við aðalmeðferð málsins kvað ákærði það vera rétt að hann hafi fundið títtnefnda greiðslukortavél. Kvaðst hann hafa ákveðið hafa vélina úti í garði þar sem hann hafi átt von á lögreglu vegna þess að margt fólk tengt fíkniefnum hafi vanið komur sínar á heimili hans. Ákærði kvað það hafa verið slóðaskap af sinni hálfu að hafa ekki verið búinn að skila vélinni.
Ásgeir Norðdahl Ólafsson kom fyrir dóminn. Vitnið skýrði svo frá að hann hafi tilkynnt lögreglunni í Kópavogi um þjófnað úr verslun Kaj Pind að Hlíðarsmára 14, Kópavogi, þann 18. október 1999. Kvaðst vitnið hafa komið í verslunina og þá hafi hann séð að reiknivél verslunarinnar, sími og greiðslukortavél voru horfin úr versluninni, en hann hafi verið einn í versluninni á meðan þetta gerðist. Kvað hann hvorki reiknivélina né símann hafa fundist.
Ákærði Úlfar hefur skýrt svo frá að hann hafi fundið greiðslukortavélina sem mál þetta snýst um á víðavangi við Arnarnesveg í Garðabæ. Upplýst er í málinu að umræddri greiðslukortavél var stolið í verslun Kaj Pind þann 18. október 1999, og að þann 15. nóvember sama ár, fann lögregla vélina við leit í húsagarði við þáverandi heimili ákærða, Brekkubyggð 85, Garðabæ. Skýringar ákærða varðandi vélina og meðferð hennar voru þær að hann hafi sett hana í húsagarðinn við heimili sitt sökum þess að hann hafi ekki viljað hafa vélina inni á heimili sínu þar sem hann hafi grunað að hún kynni að vera illa fengin. Þá hafi hann átt von á lögreglu á heimilið sökum þess að margt fólk tengt fíkniefnum hafi vanið komur sínar á heimili hans. Af framburði ákærða verður ráðið að nokkur tími hafi liðið frá því hann fann greiðslukortavélina þar til lögreglan fann hana í húsagarðinum. Dómurinn telur, eins og mál þetta er vaxið, að ásetingur ákærða hafi staðið til að kasta eign sinni á umrædda vél. Verður hann samkvæmt því sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í þessum ákærulið. Með þessu athæfi hefur hann brotið gegn 246. gr. almennra hegningarlaga.
D- kafli ákæru
Fimmtudaginn 5. ágúst 1999, kl. 19.30, heimilaði Úlfar Ólafsson lögreglunni í Borgarnesi leit í hjólhýsi í landi Grafarholts í Borgarbyggð vegna rannsóknar lögreglu á þjófnaði á munum úr verslun og íbúðarhúsi í Borgarnesi fyrr sama dag. Úlfar var gestkomandi í hjólhýsinu greint sinn.
Í hjólhýsinu og í nágrenni við það fundust eftirtaldir munir: Þráðlaus sími, tegund Sony, svartur að lit, þrjú verðmerkt myndbönd; Fríða og dýrið, Six days seven nights og Konungur ljónanna II, stolt Simba, bók með heitinu List friðarins, verðmerkt, hljóðnemi, tegund Aiwa, tveir áletraðir glerplattar, verðmerktir, svartur pakpoki, tegund Nike, fjögur pör af svörtum barnasandölum, par af sandölum með gulum röndum, farsímatól, tegund Panasonic, svart að lit, standlampi, hvítur að lit, grænn kertastjaki úr málmi, svartur spilakassi úr tré, hvítur taupoki, þráðlaus sími af tegundinni United, silfurlituð snyrtitaska, svart leðurveski, svart gleraugnahulstur, silfurlitað karlmannsúr, hringur með svörtum platta, hringur með aflöngum svörtum steini, hringur með þremur litlum steinum, hálsfesti með krossi, plastpoki með eyrnalokkum og armbandi, hálsmen með stjörnum á, naglaklippur, lítil skæri, lyklakippa með hníf, svört að lit, eyrnalokkur með hengilás, tveir eyrnalokkar með steini, eyrnalokkur með gullkeðju og stjörnum, hárbursti, tveir svitalyktareyðisbrúsar, hársápa, húðkrem og einn brúsi af hárfroðu.
Þann 7. ágúst sama ár hafði lögreglan í Borgarnesi samband við Björn Bjarka Þorsteinsson, verslunarstjóra hjá Kaupfélagi Borgfirðinga, vegna muna sem lögreglan hafði lagt hald á í hjólhýsahverfinu í Galtarholti í Borgarbyggð, tveimur dögum fyrr. Björn Bjarki kvaðst þekkja ýmsa muni úr verslun kaupfélagsins. Hann kvað tvær konur, einn karlmann og tvö börn hafa komið í verslun kaupfélagsins þann 4. sama mánaðar, um kl. 19, og hafi þau yfirgefið verslunina án þess að versla.
Sama dag kom framangreindur verslunarstjóri á lögreglustöðina í Borgarnesi þeirra erinda að leggja fram kæru vegna þjófnaðar á munum úr verslun kaupfélagsins við Egilsgötu í Borgarnesi. Honum voru sýndir munir sem voru í vörslum lögreglu, en muni þessa hafði lögreglan lagt hald á við húsleit í hjólhýsi í landi Galtarholts í Borgarbyggð og tekið úr vörslum ákærðu Guðrúnar Halldóru Valsdóttur og ákærðu Maríu Sveinsdóttur. Verslunarstjórinn kvaðst þekkja eftirtalda muni í vörslum lögreglu: Bókina List friðarins, þráðlausan síma af gerðinni United, myndbandsspólur með heitunum Fríða og dýrið, Six days seven nights, Konungur ljónanna II, stolt Simba, tvo áletraða glerplatta og hljóðnema af gerðinni Aiwa. Honum voru afhentir framangreindir munir.
Björn Bjarki kvaðst hafa séð tvær konur, einn karlmann og tvo drengi í verslun kaupfélagsins miðvikudaginn 4. ágúst sama ár, um kl. 18.30. Svaraði lýsing hans á fólkinu til lýsingar á ákærðu Guðrúnu Halldóru, ákærðu Maríu og Úlfari.
Ákærða Guðrún Halldóra kom fyrir dóm þann 24. nóvember sl. Hún neitaði sök. Við aðalmeðferð málsins var framburður ákærðu Guðrúnar Halldóru varðandi þennan ákærulið á þá leið að hún myndi eftir því að hún hafi farið inn í verslun kaupfélagsins í Borgarnesi, en hún neitaði því að hafa stolið þaðan munum. Kvaðst ákærða telja að þeir munir sem fundust í fórum þeirra hafi verið komnir frá ákærðu Maríu.
Ákærða María kom fyrir dóm þann 24. nóvember sl. Við það tækifæri greindi hún svo frá að hún myndi ekki eftir því að hafa stolið þeim munum sem í þessum lið ákærunnar greinir, enda hafi hún verið undir miklum áhrifum vímuefna á þessum tíma. Við aðalmeðferð málsins var framburður ákærðu Maríu á þá leið að þann 4. ágúst 1999 hafi hún verið á ferð í Borgarnesi ásamt ákærðu Guðrúnu Halldóru, en Úlfar Ólafsson hafi dvalist í hjólhýsi skammt frá Borgarnesi. Ákærða kvaðst ekki muna eftir því að hún hafi farið inn í verslun kaupfélagsins greint sinn og stolið þaðan munum.
Björn Bjarki Þorsteinsson kom fyrir dóminn. Hann var spurður um þá muni sem fundust við leit lögreglunnar í Borgarnesi í og við hjólhýsi í landi Galtarholts í kjölfar þjófnaðar í verslun kaupfélagsins. Hann kvaðst hafa útbúið sérstakan lista yfir þá muni sem stolið var og skilað honum til lögreglu. Vitnið sagði að þann 4. ágúst 1999, milli kl. 18 og 19, hafi hann veitt tveimur konum, einum karli og tveimur drengjum sérstaka athygli í versluninni þar sem hegðun kvennanna og karlsins hafi verið mjög leitandi í alla staði og þau hafi dreift sér um verslunina. Sagði vitnið að hann hafi reynt að fylgjast með fólkinu, en hann hafi verið kallaður í annað starf og þurft að hverfa á brott. Kvaðst hann hafa haft grun um að eitthvað hefði horfið úr versluninni, en hann hafi í fyrstu ekki vitað nákvæmlega hvað það var. Vitnið kvaðst hafa fengið munina sem hurfu til baka. Hann kvaðst ekki hafa séð fólkið áður. Vitnið sagði að fólkið hafi komið saman inn í verslunina, sest niður við kaffiborð og því næst farið inn í verslunina aftur.
Við munnlegan málflutning breytti sækjandi málsins heimfærslu varðandi þennan ákærulið þannig að í stað þess að heimfæra meint brot ákærðu undir þjófnað samkvæmt 244. gr. almennra hegningarlaga yrði það heimfært undir hylmingu samkvæmt 254. gr. sömu laga.
Fyrir liggur í málinu að þeir munir sem taldir eru upp í þessum ákærulið fundust við leit lögreglu í og við hjólhýsi í landi Galtarholts í Borgarbyggð að kvöldi 5. ágúst 1999. Í rannsóknargögnum málsins er þó ekki sérgreint hverjir þessara muna fundust í hjólhýsinu og hverjir fundust við það. Jafnframt er upplýst í málinu að þessum munum var stolið í verslun Kaupfélags Borgfirðinga, Borgarnesi, að líkindum um sólarhring áður en þeir fundust. Af gögnum málsins er ljóst að ákærðu voru ekki yfirheyrðar um þetta sakarefni við lögreglurannsókn málsins. Við dómsmeðferð málsins mundi ákærða Guðrún Halldóra eftir því að hún hafi farið í verslun kaupfélagsins í Borgarnesi. Ákærða María mundi eftir því við sama tækifæri að hún hafi verið á ferð í Borgarnesi þann 4. ágúst 1999 ásamt ákærðu Guðrúnu Halldóru, en hún myndi ekki eftir því að hafa farið inn í verslun kaupfélagsins greint sinn. Ákærða María var að eigin sögn eigandi og umráðamaður hjólhýsisins, en ákærða Guðrún Halldóra var þar gestkomandi ásamt fleirum.
Þegar atvik málsins eru virt er það mat dómsins að ákærðu hafi, eins og á stóð, ekki getað dulist að þeir munir sem um getur í þessum ákærulið hlytu að vera illa fengnir. Hafa þær með háttsemi sinni unnið sér til refsingar samkvæmt 1. mgr. 254. gr. almennra hegningarlaga.
1.2 Fimmtudaginn 5. ágúst 1999, kl. 19.30, kom Ragnheiður S. Jóhannsdóttir, Kveldúlfsgötu 18, Borgarnesi, starfsmaður verslunarinnar Gallerís Handar, Borgarbraut 55, Borgarnesi, á lögreglustöðina í Borgarnesi. Hún kvað tvær konur hafa komið í verslunina í hádeginu þennan sama dag og hafi önnur kvennanna rætt lengi við hana við afgreiðsluborðið á meðan hin gekk um búðina og skoðaði hluti. Ragnheiður kvaðst síðan hafa tekið eftir því að ýmsir hlutir voru horfnir úr hillum verslunarinnar. Hún gaf lýsingu á konunum sem komu í verslunina og svaraði lýsing hennar til útlits ákærðu Maríu og ákærðu Guðrúnar Halldóru.
Ragnheiður kvaðst sakna eftirtalinna muna úr versluninni: Tveggja hálsmena úr hrosshári, armbands úr hrosshári, útsaumaðrar dagbókar, svarts spilakassa úr tré, hálsmens úr skel, lyklaveskis með ásaumuðu selskinni, renndrar tréskálar, lyklakippu úr steini, tuskubrúðu, slípaðs fugls úr tré, þriggja kertastjaka með steinskífu, jólasveinaplatta úr gleri, tveggja hálsmena úr skel og kuðungi, renndrar trésúlu, hálsmens úr steini og tveggja englabangsa úr taui.
Klukkan 22.15 kom í ljós að ákærða María var orðin meðvitundarlítil í fanga-klefanum. Læknir var fenginn á lögreglustöðina og skoðaði hann ákærðu Maríu. Hann taldi að ákærða María væri veik sökum langvarandi lyfjaneyslu og var flutningur hennar á sjúkrahús í Reykjavík undirbúinn, en þegar flytja átti ákærðu Maríu vaknaði hún úr lyfjamókinu og neitaði að láta flytja sig á sjúkrahús.
Þann 26. september sama ár kom Ragnheiður aftur á lögreglustöðina í Borgarnesi, til þess að leggja fram kæru og krefjast bóta f.h. Gallerís Handar svf., vegna þjófnaðar sem framinn var í versluninni 5. ágúst sama ár.
Ragnheiður skýrði svo frá að hún hafi verið við vinnu sína við afgreiðslu í versluninni Gallerí Hönd þann 5. ágúst sama ár. Hún sagði að rétt eftir hádegið hafi tvær konur komið í verslunina og hafi þær einungis gengið um og skoðað. Ragnheiður sagði að önnur konan, sú ljóshærða, hafi gefið sig á tal við hana og haldið athygli hennar á meðan hin konan gekk um verslunina. Kvaðst Ragnheiður ekki hafa orðið vör við að konur þessar tækju neitt úr versluninni. Nokkru eftir að konurnar voru farnar kvaðst Ragnheiður hafa uppgötvað að munir höfðu horfið úr hillum verslunarinnar. Kvaðst hún í framhaldi af því hafa tilkynnt lögreglunni um þá muni sem hefðu horfið úr versluninni. Í framhaldi af því kvaðst hún hafa útbúið lista yfir þá muni sem saknað var úr versluninni.
Ragnheiði voru sýndir munir sem voru haldlagðir og teknir úr vörslum ákærðu Maríu og ákærðu Guðrúnar Halldóru þegar þær voru handteknar 5. ágúst sama ár. Hún kvaðst þekkja eftirtalda muni úr versluninni Gallerí Hönd: Svartur spilakassi úr tré, hjartalaga hálsmen úr skel, bók með tauáklæði, lyklaveski úr leðri og selskinni, rennd og slípuð tréskál, rennd og slípuð fuglsstytta úr tré, armband, fléttað úr hrosshári og tvö hálsmen, fléttuð úr hrosshári. Ragnheiður fékk þessa muni afhenta. Sagði hún að enn vantaði sjö muni. Þá væri svarti spilakassinn skemmdur svo að hann væri óhæf söluvara. Kvað hún lakkið á kassanum hafa rispast svo mikið að svo til ógerlegt væri að gera við kassann. Hún sagði að munirnir væru handunnir og að verslunin hefði þá í umboðssölu fyrir framleiðendur. Þeir munir sem vantaði, svo og spilakassinn væru verðlagðir á samtals 23.790 krónur. Kvaðst hún gera þá kröfu f.h. verslunarinnar að konunum sem urðu uppvísar að þjófnaðinum úr versluninni yrði refsað og jafnframt gerði hún kröfu um að þeim yrði gert að greiða versluninni Gallerí Hönd fyrrgreint tjón að upphæð 23.790 krónur.
Ákærða Guðrún Halldóra var fyrst yfirheyrð hjá lögreglunni í Borgarnesi aðfaranótt 6. ágúst sama ár, eftir dvöl í fangageymslu, en hún hafði verið handtekin kl. 18.45 daginn áður í hjólhýsahverfi í landi Galtarholts, Borgarbyggð, grunuð um þjófnað úr verslunum, íþróttamiðstöðinni og einbýlishúsi í Borgarnesi. Ákærða skýrði svo að um kl. 12 á hádegi hafi hún komið til Borgarness frá Galtarholti ásamt ákærðu Maríu Sveinsdóttur. Kvað hún systur ákærðu Maríu hafa ekið þeim til Borgarness. Systir ákærðu Maríu hafi ekið þeim að verslun kaupfélagsins, þar sem hún hafi farið inn og keypt bjór. Að svo búnu hafi systir ákærðu Maríu ekið þeim að Hyrnunni þar sem hún og ákærða María hafi farið úr bifreiðinni, en systir ákærðu Maríu hafi farið í bifreiðinni aftur að Galtarholti. Sagði ákærða að daginn áður hefði hún ásamt sambýlismanni sínum, Úlfari Ólafssyni, og syni sínum komið í heimsókn til ákærðu Maríu. Kvað hún ákærðu Maríu hafa boðið þeim að dveljast í hjólhýsi í landi Galtarholts.
Ákærða sagði að hún og ákærða María hafi gengið eftir Borgarbraut og komið við í verslun sem selur handunnar vörur. Í versluninni hafi hún rætt nokkra stund við afgreiðslukonuna á meðan ákærða María skoðaði sig um í versluninni, en hún hafi ekki fylgst með ákærðu Maríu á meðan þær voru inni í versluninni. Ákærða sagði að hún hafi ekki orðið vör við að ákærða María tæki muni þar innandyra. Kvaðst hún neita því að hafa haldið afgreiðslukonunni upptekinni á meðan ákærða María stakk á sig munum í versluninni. Ákærða kvaðst hafa rætt við afgreiðslukonuna um styttur sem hún hafi haft áhuga á að kaupa og ætlaði að láta taka frá fyrir sig.
Þær ákærða María hafi síðan gengið að íþróttamiðstöðinni þar sem ákærða María hafi farið inn til þess að fara í sturtu. Kvaðst ákærða hafa beðið fyrir utan á meðan. Ákærða sagði að sig hafi farið að lengja eftir ákærðu Maríu og hún hafi spurt eftir henni hjá starfsfólki íþróttamiðstöðvarinnar. Kvaðst hún hafa fengið hringja í afgreiðslunni og hafi hún hringt í sambýlismann sinn. Ákærða kvaðst síðan hafa fengið leyfi til að fara niður í búningsklefa til að leita að ákærðu Maríu og þar hafi hún fundið hana. Sagði ákærða að ákærða María hafi verið komin með tösku sem hún átti ekki og kvaðst hún ekki hafa spurt hana hvar hún hefði fengið töskuna. Hún hafi ekki viljað blanda sér í hennar mál. Ákærða sagði að ákærða María hafi gefið sér armband og hálsmen við íþróttamiðstöðina. Ákærða María hafi ekki sagt henni hvar hún hefði fengið þessa hluti og hún hafi ekki spurt hana að því.
Ákærða sagði að frá sundlauginni hafi þær gengið um miðbæ Borgarness. Kvaðst hún hafa misst af ákærðu Maríu og fundið hana eftir stutta stund þar sem hún stóð í svaladyrum á íbúðarhúsi. Ákærða sagði að hún þekkti ekki göturnar í Borgarnesi og hún vissi ekki við hvaða götu þetta hús stóð. Kvað hún sig minna að húsið hafi verið hvítt að lit. Ákærða kvaðst hafa farið inn í húsið til ákærðu Maríu og hafi hún rétt sér svartan bakpoka, en í honum hafi m.a. verið í sími. Ákærða María hafi sagt henni að fara út úr húsinu og það hafi hún gert. Ákærða kvaðst svo hafa gengið að verslun sem heitir Hraðkaup og keypt þar í matinn. Þaðan hafi hún farið að Hyrnunni og fengið þar far með sendibíl að Galtarholti. Sagði ákærða að hún hafi ákveðið að athuga ekki frekar með ákærðu Maríu til þess að lenda ekki í klandri vegna háttsemi hennar.
Ákærða sagði að hún teldi að ákærða María hafi verið búin að neyta lyfja áður en þær fóru til Borgarness því að hún hafi verið mjög ör og mikill æðibunugangur á henni. Sagði ákærða að hún neitaði því að hafa aðstoðað ákærðu Maríu við þjófnaðina og kvaðst ekki geta útskýrt hvers vegna hún fór inn í einbýlishúsið eða hvers vegna hún tók við bakpokanum.
Ákærða Guðrún Halldóra var yfirheyrð öðru sinni síðdegis sama dag hjá lögreglunni í Borgarnesi. Aðspurð kvaðst ákærða vilja bæta við fyrri framburð. Hún kvaðst hafa tekið lítinn svartan bakpoka úr Íþróttamiðstöðinni í Borgarnesi af tegundinni Nike, en pokann hafi verið tómur. Aðspurð sagði ákærða að þegar ákærða María kom úr sturtu hafi hún verið með fullan bakpoka af einhverju dóti og þar á meðal hafi verið sandalar o.fl. Sagði ákærða að þegar þær komu frá Íþróttamiðstöðinni hafi þær staðnæmst á gangstéttinni við Skallagrímsgarð, Borgarbrautarmegin, og þar hafi ákærða María hent úr blárri snyrtitösku inn í garðinn m.a. gleraugum og linsum, og síðan hafi hún einnig hent snyrtitöskunni inn í garðinn. Ákærða sagði að ákærða María hafi svo sett sandalana sem hún hafði með sér úr íþróttamiðstöðinni í plastpoka sem þær hafi fengið að geyma í húsi við aðalgötuna.
Ákærða sagði að þær hafi svo rætt um að fá sér eitthvað að borða og kvaðst hún hafa viljað fara á Hyrnuna, en ákærða María hafi viljað fara í aðra átt og hafi hún ruglað eitthvað sem ákærða hafi ekki skilið, en allt í einu hafi ákærða María verið horfin. Kvaðst ákærða hafa verið að svipast um eftir henni þegar hún heyrði að kallað var til sín úr garðdyrum á húsi þar við götuna og hafi það reynst vera ákærða María sem kallaði. Hafi hún þá verið komin inn í húsið og staðið í garðdyrunum. Samkvæmt tilvísun ákærðu var þarna um að ræða húsið nr. 46 við Borgarbraut.
Ákærða sagði aðspurð að hún hafi farið til ákærðu Maríu inn í húsið um garðdyrnar. Þá hafi ákærða María verið búin að setja myndbandstæki í sjal og garðklippur í bláa úlpu sem ákærða María hafði meðferðis, en ákærða kvaðst eiga. Ákærða sagði að ákærða María hafi sagt henni að taka myndbandstækið og garðklippurnar og fara með það og fela þessa muni einhversstaðar. Kvaðst ákærða hafa farið með þessa muni yfir í næsta garð og kvaðst hún hafa falið þá þar á bakvið hús. Ákærða kvaðst einnig hafa tekið við svörtum pakpoka hjá ákærðu Maríu þarna í húsinu. Í pokanum hafi m.a. verið sími.
Ákærða kvaðst ekki hafa farið aftur inn í húsið eftir að hún faldi myndbandstækið og garðklippurnar og kvaðst hún, eins og hún hefði greint frá í fyrri skýrslu sinni, hafa farið og verslað í versluninni Hraðkaupum og síðan hafi hún fengið far með sendibíl að hjólhýsahverfinu í landi Galtarholts. Þá kvaðst ákærða hafa sótt plastpokann með sandölunum í áður en hún fór frá Borgarnesi.
Ákærða sagði að hún hafi ekki getað náð neinu sambandi við ákærðu Maríu í íbúðarhúsinu því hún hafi verið orðin útúrrugluð. Kvaðst ákærða t.d. ekki hafa skilið hvað ákærða María var að segja. Ákærða kvaðst því hafa tekið þá ákvörðun að koma sér burtu.
Ákærða Guðrún Halldóra kom fyrir dóm 24. nóvember sl. Hún neitaði sök. Við aðalmeðferð málsins var framburður ákærðu Guðrúnar Halldóru, efnislega á þann veg að hún hafi ekki haft muni á brott með sér úr umræddri verslun.
Ákærða María Sveinsdóttir var yfirheyrð hjá lögreglunni í Borgarnesi eftir hádegi þann 6. ágúst sama ár. Eftir að henni hafði verið kynnt tilefni yfirheyrslunnar skýrði hún svo frá: Hún kvaðst hafa farið til Borgarness frá hjólhýsahverfinu í landi Galtar-holts um kl. 12 á hádegi daginn áður ásamt ákærðu Guðrúnu Halldóru.
Ákærða sagði að systir sín, sem ætti einnig hjólhýsi í þessu hjólhýsahverfi, hafi ekið þeim til Borgarness. Fyrst hafi hún ekið þeim að vínbúð ÁTVR þar sem ákærða Guðrún Halldóra hafi farið inn og keypt bjór. Að svo búnu hafi systir hennar ekið þeim Guðrúnu Halldóru að Hyrnunni í Borgarnesi þar sem þær hafi farið úr bílnum, en systir ákærðu hafi farið aftur að hjólhýsahverfinu.
Ákærða sagði að hún hafi leitað að sundlauginni í Borgarnesi og á leiðinni þangað hafi hún og ákærða Guðrún Halldóra komið við í verslun sem selur handunnar vörur, Gallerí Hönd. Þær hafi farið inn í verslunina og tekið til við að skoða þær vörur sem voru þar til sölu. Sagði ákærða að ákærða Guðrún Halldóra hafi rætt við afgreiðslukonuna, en sjálf hafi hún gengið um og skoðað.
Aðspurð viðurkenndi ákærða að hafa stolið munum í versluninni Gallerí Hönd. Ákærðu voru sýndir munir sem fundust í fórum hennar og ákærðu Guðrúnar Halldóru daginn áður. Henni var sýndur svartur trékassi, hálsmen úr hrosshári, bók með tauáklæði, hálsmen úr steini og skeljum og rennd tréskál. Ákærða kvaðst viðurkenna að hafa stolið framangreindum hlutum. Er hún var spurð hvort hún hafi tekið þarna eitthvað meira sagði ákærða að hún myndi það ekki. Ákærða var spurð hvort hún hafi séð ákærðu Guðrúnu Halldóru stela einhverju í versluninni Gallerí Hönd. Hún kvað sér ekki vera kunnugt um það. Ákærða neitaði því að það hafi verið skipulagt hjá þeim ákærðu Guðrúnu Halldóru að stela í framangreindri verslun.
Ákærða sagði að frá versluninni Gallerí Hönd hafi þær farið í Íþróttamiðstöðina í Borgarnesi þar sem hún hafi farið í sturtu. Ákærða sagði að ákærða Guðrún Halldóra hafi ekki komið með sér í sturtu, en hún hafi verið inni þegar hún kom úr sturtunni. Aðspurð hvort hún hafi stolið munum í eða við búningsklefa í Íþróttamiðstöðinni neitaði hún því alfarið. Aðspurð hvort ákærða Guðrún Halldóra hafi stolið þar munum sagði ákærða að henni væru ókunnugt um það, en hún teldi það ólíklegt því hún hafi ekki séð ákærðu Guðrúnu Halldóru með neitt nema rauða bakpokann/töskuna sem hún hafi lánað henni þegar þær fóru af stað til Borgarness.
Ákærða var spurð hvort hún hafi farið inn í húsið að Borgarbraut 46, þar sem húsráðandi hafi komið að henni um kl. 16.50 þann 5. ágúst 1999, við að stela munum úr húsinu. Hún kvaðst ekki muna eftir því. Ákærða kvaðst muna óljóst eftir sér þegar hún kom úr Íþróttamiðstöðinni eftir að hafa farið þar í sturtu. Hún hafi verið mjög þyrst og leitað að söluturni. Hafi hún orðið viðskila við ákærðu Guðrúnu Halldóru. Ákærða kvaðst ekki muna eftir því að hafa farið inn í íbúðarhús. Hún kvaðst muna næst eftir sér á Hyrnunni þar sem hún hafi keypt sér ís og gosdrykk. Hún hafi síðan farið út og kvaðst hún hafa setið handan götunnar sem liggur í boga við Hyrnuna. Þar hafi hún setið smástund, en síðan hafi hún farið inn í Hyrnuna aftur. Þar hafi starfsmaður gefið sig á tal við hana og skömmu síðar hafi lögreglan komið á staðinn og handtekið hana.
Ákærða var spurð um ástæðu minnisleysis hennar. Hún kvaðst hafa notað amfetamín þá um daginn og nóttina áður. Ákærðu var sýnd mislit leðurbudda sem lagt var hald á við leit í hjólhýsi hennar daginn áður. Hún kvaðst eiga þessa buddu. Aðspurð um innihaldið sagði ákærða að það væru sprautur og skeið sem hún hafi notað þegar hún sprautaði sig með amfetamíni. Hún kvaðst hafa klárað amfetamínið aðfaranótt eða að morgni 5. ágúst.
Ákærða María kom fyrir dóm 24. nóvember sl. Hún kvaðst kannast við að hafa stolið tveimur hálsmenum úr hrosshári úr verslun Gallerís Handar í Borgarnesi þann 5. ágúst 1999. Hún kvaðst ekki muna hvort hún hafi stolið fleiru í þessari verslun. Kvað hún skýringuna vera minnisleysi sökum vímuefnaneyslu. Við aðalmeðferð málsins var framburður ákærðu Maríu á þá leið að hún hafi komið í verslunina Gallerí Hönd í Borgarnesi. Kvað hún það vera rétt að hún hafi tekið muni í versluninni, en hún gæti ekki munað hvaða hluti var þar um að ræða.
Ragnheiður Sjöfn Jóhannsdóttir kom fyrir dóminn. Vitnið kvað tvær konur hafa komið inn í verslunina Gallerí Hönd greint sinn. Hafi önnur kvennanna haldið athygli vitnisins á meðan hin gekk um verslunina. Sagði vitnið að í fyrstu hafi hún ekki tekið eftir neinu, en þegar hún ætlaði að fara að laga til í hillum eftir að konurnar voru farnar úr versluninni hafi hún tekið eftir því að eitthvað af varningi var horfið. Kvaðst hún hafa gert lista yfir hina horfnu muni og afhent hann lögreglu eftir lokun verslunarinnar. Sagði vitnið að enginn hafi komið inn í verslunina í millitíðinni og því væri ekki möguleiki á að aðrir en konurnar hafi tekið þessa muni. Vitnið kvaðst hafa fengið eitthvað af hlutunum til baka og hafi sumir þeirra verið skemmdir.
Jónbjörn Bogason, lögregluvarðstjóri í Borgarnesi, kom fyrir dóminn. Vitnið kvað tilkynningu hafa borist frá konu búsettri við Borgarbraut í Borgarnesi. Kvað hann konuna hafa tilkynnt lögreglu að hún hefði mætt ókunnri konu sem hafi verið að koma út úr íbúð hennar. Sagði vitnið að áður hefði lögreglunni borist tilkynning um að ákærða María væri stödd í söluskálanum Hyrnunni og hafi hún verið handtekin þar vegna þess að hún hafi verið grunuð um ýmsa þjófnaði í Borgarnesi. Sagði vitnið að þessu næst hafi lögreglan handtekið ákærðu Guðrúnu Halldóru þar sem hún var stödd í hjólhýsi í landi Galtarholts í Borgarbyggð. Þar hafi ýmsir munir fundist sem síðar hafi komið í ljós að voru þýfi. Vitnið sagði að ákærða María hafi verið í annarlegu ástandi við handtökuna og hafi ástand hennar versnað þegar leið á kvöldið. Læknir hafi verið kallaður til og hafi hann talið að ástand hennar væri til komið vegna langvarandi lyfjaneyslu. Vitnið sagði að sér hafi virst ákærða Guðrún Halldóra vera allsgáð. Vitnið kvað lögreglumenn hafa farið á þá staði sem tilkynningar höfðu borist um þjófnaði, t.d. í Íþróttamiðstöðina, Gallerí Hönd og að Borgarbraut 46. Einnig hafi fundist í fórum ákærða Maríu farsímatól sem horfið hafi úr bifreið við Borgarbraut. Loks staðfesti vitnið skýrslur þær sem hann gerði við lögreglurannsókn málsins.
Ámundi Sigurðsson, héraðslögreglumaður í Borgarnesi, kom fyrir dóminn. Vitnið kvaðst hafa handtekið ákærðu Maríu í söluskálanum Hyrnunni í Borgarnesi eftir ábendingu starfsfólks þar. Hún hafi verið ör og flóttaleg við handtöku. Sagði vitnið að sér hafi virst sem hún hafi látið eitthvað ofan í sig og fljótlega eftir það hafi hún orðið rænulítil og utan við sig. Því hafi læknir verið kallaður til.
Vitnið kvaðst hafa verið viðstaddur leit í hjólhýsinu þar sem ákærða María og ákærða Guðrún Halldóra dvöldust ásamt Úlfari Ólafssyni. Kvað hann lögreglu hafa fundið ýmislegt dót í hjólhýsinu og í grennd við það. Vitnið staðfesti að þeir hlutir sem fram kæmu á lista yfir muni og greint væri frá í skjölum málsins hafi fundist við leit í hjólhýsinu og í á að giska tíu metra svæði þar í kring. Sagði vitnið að svo virtist sem reynt hafi verið að fela þá muni sem voru fyrir utan hjólhýsið.
Svo sem að framan greinir neitar ákærða Guðrún Halldóra sök. Hún hefur þó staðfest að hún hafi komið í verslunina Gallerí Hönd þann 5. ágúst 1999 ásamt ákærðu Maríu. Ákærða María hefur einnig staðfest að hún hafi komið í umrædda verslun. Jafnframt hefur hún viðurkennt að hafa stolið tveimur hálsmenum úr hrosshári úr vesluninni. Við aðalmeðferð málsins sagði hún að það væri rétt að hún hafi tekið muni úr versluninni, en hún gæti ekki munað um hvaða hluti var að ræða. Þegar ákærða var handtekin síðar sama dag var hún m.a. með á sér rennda tréskál, en aðrir munir sem nefndir eru í þessum lið ákæru fundust við leit í eða við hjólhýsi hennar í landi Galtarholts sama dag. Með játningu ákærðu er sannað að hún hafi stolið tveimur hálsmenum úr hrosshári úr versluninni. Þegar litið er til þess að sá hlutur sem fannst á ákærðu við handtöku, og með stoð í framburði vitnanna Ragnheiðar Sjafnar Jóhannsdóttur og Ámunda Sigurðssonar telur dómurinn sannað að hún hafi tekið framangreinda tréskál ófrjálsri hendi úr versluninni Gallerí Hönd greint sinn. Þá verður einnig að telja sannað með framburði vitnanna Ámunda Sigurðssonar og Jónbjörns Bogasonar svo og með stoð í framburði vitnisins Ragnheiðar Sjafnar að ákærða hafi einnig tekið ófrjálsri hendi aðra muni sem um getur í þessum ákærulið úr versluninni. Með þessu hefur ákærða brotið gegn 244. gr. almennra hegningarlaga. Þótt upplýst sé að ákærða Guðrún Halldóra hafi verið í versluninni Gallerí Hönd á sama tíma og ákærða María þykir gegn staðfastri neitun hennar ósannað að hún hafi gerst sek um það athæfi sem henni er gefið að sök í þessum ákærulið. Ber því að sýkna hana af ákærunni varðandi þennan ákærulið.
1.3 Fimmtudaginn 5. ágúst 1999, kl. 14.35, hafði Sigurður Þorsteinsson, starfsmaður Íþróttamiðstöðvarinnar í Borgarnesi, samband við lögregluna í Borgarnesi og tilkynnti um þjófnað á munum frá gestum Íþróttamiðstöðvarinnar. Kvaðst hann hafa tvær konur sem voru í sundlauginni fyrr um daginn grunaðar um þjófnaðinn. Sigurður kvað eftirtöldum munum hafa verið stolið: Fern pör af svörtum barnasandölum, stuttbuxur með hvítum röndum, svartur bakpoki, tegund Nike, snyrtitaska með gleraugum í, tvær öskjur fyrir augnlinsur, maskari, tegund Body Shop, varalitsblýantur, túpa fyrir andlitskrem, tegund Body Shop, brúsi af hárfroðu og budda sem í voru gleraugu, blá að lit.
Fimmtudaginn 12. ágúst sama ár, kom Kristján Sigurjónsson, Vanabyggð 6b, Akureyri, á lögreglustöðina í Borgarnesi til þess að vitja um muni sem stolið var frá Berglindi Sveinbjörnsdóttur, Nesbala 96, Seltjarnarnesi, 5. sama mánaðar í Íþrótta-miðstöðinni í Borgarnesi. Kristján kvaðst þekkja eftirtalda muni sem voru í vörslum lögreglu: Svartur bakpoki með Nike merki á. Svartir sandalar með Puma merki á. Kristjáni voru afhentir þessir munir.
Föstudaginn 13. ágúst sama ár, kom Helga Jakobsdóttir, Fagrahjalla 22, Vopna-firði, á lögreglustöðina á Vopnafirði vegna meints þjófnaðar á skófatnaði í Íþrótta-miðstöðinni í Borgarnesi 5. sama mánaðar. Skýrði hún svo frá að greint sinn hafi hún farið í sund í sundlauginni í Borgarnesi. Með henni hafi verið tvær konur. Kvað hún þær hafa skilið skófatnað sinn eftir í kjallara hússins á þar til gerðum skórekka. Þegar þær komu aftur að skórekkanum hafi verið búið að stela tvennum sandölum sem hún og önnur konan sem var með henni áttu. Þær hafi haft samband við starfsfólk Íþróttamiðstöðvarinnar, en fengið þau svör að það gæti lítið gert annað en að taka niður nafn hennar, lýsingu á skónum og símanúmer hennar. Hún veitti viðtöku sömu skóm hjá lögreglunni á Vopnafirði.
Ákærða Guðrún Halldóra kom fyrir dóm þann 24. nóvember sl. Hún neitaði sök.
Framburður ákærðu Guðrúnar Halldóru við aðalmeðferð málsins var á þann veg að hún neitaði því að hafa stolið ýmsum munum í Íþróttamiðstöðinni í Borgarnesi. Ákærða kvaðst hafa hætt við að fara í sturtu, en þess í stað hafi hún setið fyrir utan Íþrótta-miðstöðina og drukkið bjór. Hún kvaðst muna eftir því að ákærða María var með snyrtitösku meðferðis sem hún hafi ekki kannast við. Kvað hún sig ráma í að ákærða María hafi gefið sér armband og eitthvað fleira eftir að hún kom úr sundinu eða sturtunni. Kvaðst ákærða ekki hafa gert sér grein fyrir því að ákærða María hefði stolið munum úr Íþróttamiðstöðinni. Ákærða kvaðst ekki muna eftir því að hafa tekið svartan Nike bakpoka í íþróttamiðstöðinni, en ákærða hafði játað það við lögreglurannsókn málsins.
Ákærða María kom fyrir dóm þann 24. nóvember sl. Framburður ákærðu um sakarefnið var á þann veg að hún myndi að hún og ákærða Guðrún Halldóra voru með snyrtitösku þegar þær voru staddar í Skallagrímsgarði í Borgarnesi þann 5. ágúst 1999. Sagði ákærða að hún myndi ekki hvernig umrædd snyrtitaska komst í vörslur þeirra. Ákærða kvaðst halda að þennan dag hafi hún komið í Íþróttamiðstöðina í Borgarnesi til þess að fara í sturtu. Kvaðst hún ekki muna hvort ákærða Guðrún Halldóra var með henni í för. Hún myndi þó að þær hafi verið í Borgarnesi þennan dag. Ákærða var spurð hvort hún myndi að það væri eitthvað sérstakt sem styrkti þá staðhæfingu hennar að hún og ákærða Guðrún Halldóra hafi ekki haft samráð. Ákærða sagði að það sem hún ætti við væri að þær hafi ekki farið til Borgarness í þjófnaðarleiðangur. Kvaðst hún hafa vaknað í fangaklefa á lögreglustöðinni í Borgarnesi og þá hafi læknir verið kominn til hennar vegna mjög slæms ástands hennar af völdum fíkniefnaneyslu. Við aðalmeðferð málsins skýrði ákærða María svo frá að hún hafi farið í Íþróttamiðstöðina í Borgarnesi þann 5. ágúst 1999, ásamt ákærðu Guðrúnu Halldóru. Hún kvaðst hafa farið þar í sturtu ásamt ákærðu Guðrúnu Halldóru og hafi þær ætlað að fara í áfengis-verslunina á eftir til þess að kaupa bjór. Ákærða sagði að hún og ákærða Guðrún Halldóra hafi tekið snyrtitösku í íþróttamiðstöðinni, en hún myndi ekki eftir að hafa tekið annað.
Sigurður Þórarinsson, vaktstjóri í Íþróttamiðstöðinni í Borgarnesi, kom fyrir dóminn. Vitnið sagði að afgreiðslustúlkur í Íþróttamiðstöðinni hafi sagt sér að muna væri saknað frá sundlaugargestum og hafi verið spurt um tvær konur í tengslum við hvarf þeirra. Vitnið kvaðst hvorki hafa vitað hvað hvarf né hvað af því hafi skilað sér aftur. Hann vissi þó að eitthvað af þeim munum hafi komist til skila. Vitnið sagði að útlit kvennanna hafi valdið því að starfsfólkið hafi grunað konurnar um að eiga þátt í hvarfi munanna.
Elín Guðmundsdóttir, starfsmaður Íþróttamiðstöðvarinnar í Borgarnesi, kom fyrir dóminn. Vitnið skýrði svo frá að hún hafi veitt athygli tveimur konum þegar hún var við störf sín í afgreiðslu Íþróttamiðstöðvarinnar umræddan dag. Kvaðst hún hafa veitt þeim athygli vegna sérstaks klæðaburðar þeirra. Vitnið kvaðst einnig muna eftir þeim vegna þess að karlmaður hafi hringt og spurt eftir þeim og hún hafi komið þeim skila-boðum til þeirra. Eftir að konurnar voru farnar kvað vitnið fólk hafa komið í afgreiðsluna og kvartað yfir því að töskur og skó vantaði. Vitnið sagði að konurnar hafi sagt að þær ætluðu ekki í sund, heldur aðeins í sturtu. Þær hafi þó verið með allstórar töskur meðferðis þegar þær komu í íþróttamiðstöðina. Vitnið sagði að konurnar hafi báðar verið ljóshærðar, en önnur þeirra hafi verið talsvert eldri en hin. Sú eldri hafi verið með áberandi slæma húð.
Ákærðu hafa báðar staðfest að þann 5. ágúst 1999, hafi þær komið í Íþrótta-miðstöðina í Borgarnesi. Ákærða María kveðst hafa farið þar í sturtu, en ákærða Guðrún Halldóra kveðst hafa beðið hennar á meðan fyrir utan íþróttamiðstöðina. Upplýst er í málinu að þeir munir sem taldir eru upp í ákæru hurfu úr búningsklefa kvenna á svipuðum tíma og ákærðu voru í íþróttamiðstöðinni. Ákærða María hefur viðurkennt að hafa tekið þar ófrjálsri hendi snyrtitösku, en hún myndi ekki eftir að hafa tekið aðra muni þar. Með skýlausri játningu ákærðu Maríu telst sannað að hún hafi stolið framangreindri snyrtitösku í Íþróttamiðstöðinni í Borgarnesi greint sinn. Við lögreglurannsókn málsins viðurkenndi ákærða Guðrún Halldóra að hafa tekið svartan bakpoka í Íþróttamiðstöðinni, en við dómsmeðferð málsins dró hún þann framburð sinn til baka. Upplýst er í málinu að umræddur bakpoki fannst við leit í eða við hjólhýsið í landi Galtarholts, sem ákærðu dvöldust í, síðar sama dag. Þykir sú staðreynd veikja afturhvarf ákærðu frá framburði hennar hjá lögreglu. Að því virtu þykir ekki varhugavert að telja sannað að ákærða Guðrún Halldóra hafi stolið þessum bakpoka í Íþróttamiðstöðinni greint sinn. Í ákæru er því haldið fram að áðurnefndur bakpoki og sandalarnir sem nefndir eru í þessum ákærulið hafi fundist í vörslum þeirra. Þegar ákærða María var handtekin við Hyrnuna í Borgarnesi um kl. 18.30 sama dag, var hún með svarta sandala af tegundinni Puma í vörslum sínum. Í ljósi þess telur dómurinn ekki varhugavert að telja sannað að ákærða María hafi einnig tekið þessa sandala ófrjálsri hendi í Íþróttamiðstöðinni. Upplýst er í málinu að aðrir munir sem um getur í þessum ákærulið hafi fundist við leit í eða við hjólhýsið í landi Galtarholts sem ákærðu dvöldust í að kvöldi sama dags. Með framburði vitnanna Ámunda Sigurðssonar og Jónbjörns Bogasonar sem fær stoð í gögnum málsins telur dómurinn sannað að ákærðu hafi einnig tekið aðra muni sem um getur í þessum ákærulið ófrjálsri hendi í Íþróttamiðstöðinni í Borgarnesi greint sinn. Með þessari háttsemi sinni hafa ákærðu unnið sér til refsingar samkvæmt 244. gr. almennra hegningarlaga.
1.4 Fimmtudaginn 5. ágúst 1999, kl. 17, hafði Jóna Björg Ingólfsdóttir, Borgarbraut 46, Borgarnesi, sambandi við lögregluna í Borgarnesi. Greindi hún svo frá að þegar hún var að koma heim til sín nokkrum mínútum áður, hafi hún komið að konu í íbúð sinni sem hún þekkti ekki. Jónína Björg kvaðst hafa séð að konan var með svarta tösku sem í voru munir af heimili hennar. Kvað hún konuna hafa hlaupið norður Borgarbraut og horfið sjónum hennar. Jónína Björg kvað konuna hafa verið búna að safna munum á heimili hennar í fjórar töskur, sængurver, koddaver og lak og skilið eftir á gólfinu. Kvað hún konu þessa hafa verið í annarlegu ástandi, ljóshærða, með skellur í andliti, klædda í gallabuxur og blússu.
Við leit utandyra bakvið húsið að Borgarbraut 46 fann lögreglan myndbandstæki og rafmagnsgarðklippur. Jónína Björg kvaðst eiga þessa muni og voru þeir afhentir henni. Hún kvaðst ætla að skoða þá muni sem safnað hafði verið saman í íbúð hennar og láta lögreglu vita hvort hún saknaði einhvers.
Klukkan 18.30 sama dag var ákærða María Sveinsdóttir, sem svaraði til lýsingar Jónínu Bjargar á konu þeirri sem var í íbúð hennar, handtekin við veitingaskálann Hyrnuna í Borgarnesi. Hún var færð á lögreglustöðina í Borgarnesi og vistuð í fanga-klefa. Hún var í annarlegu ástandi og óviðræðuhæf.
Ákærða María var með eftirtalda muni á sér sem lögreglan lagði hald á: Eitt par af svörtum sandölum, tegund Puma, hálsfesti úr silfri, gullhringur með tveimur steinum í, gullhringur með fléttum í, hálsfesti úr gulli, armband með silfurkúlum, silfurhringur með þremur steinum í, slípaður steinn, merktur Álfasteini, lyklakippa með áföstum steini, hálsmen með steinum og rennd tréskál.
Þar sem lögreglan hafði veitt ákærðu Maríu og vinkonu hennar, ákærðu Guðrúnu Halldóru, aðstoð daginn áður fóru tveir lögreglumenn að hjólhýsahverfinu við Galtarholt 3 í Borgarbyggð og handtóku þar ákærðu Guðrúnu Halldóru. Hún var flutt á lögreglustöðina í Borgarnesi og vistuð í fangaklefa.
Á vettvangi í hjólhýsahverfinu var staddur Úlfar Ólafsson, sambýlismaður ákærðu Guðrúnar Halldóru. Hann kvaðst hafa dvalið þar þennan dag ásamt syni ákærðu Guðrúnar Halldóru og vini hans á sama aldri, á meðan þær ákærða María og ákærða Guðrún Halldóra fóru til Borgarness. Úlfar heimilaði lögreglumönnunum leit í hjólhýsinu og fundust þar ýmsir munir sem ætla mátti að væru þýfi. Einnig fundust munir sem ætla mátti að væru þýfi, faldir í trjágróðri við hjólhýsið. Úlfar kvaðst ekki kannast við þessa muni og lagði lögregla hald á munina og flutti þá á lögreglustöðina í Borgarnesi.
Þann 13. september 1999, kom Jónína Björg Ingólfsdóttir á lögreglustöðina í Borgarnesi vegna þjófnaðarins að Borgarbraut 46, Borgarnesi þann 5. sama mánaðar. Hún kvaðst hafa komið á heimili sitt að Borgarbraut 46 þann 5. ágúst sama ár, kl. 17, og hafi hún þá komið að konu inni í húsinu. Jónína sagði að konan hefði verið með axlar-sítt hár og húð konunnar hafi verið flekkótt í andliti. Konan hafi verið klædd bláum gallastuttbuxum og blússu. Jónína sagði að kona þessi hafi greinilega verið í annarlegu ástandi. Kvaðst hún hafa spurt konuna hvað hún væri að gera inni í íbúðinni. Hafi hún þá sagt að hún væri í húshjálp og síðan hafi hún hlaupið út úr húsinu áleiðis norður Borgarbraut. Jónína sagði að konan hafi verið með svarta tösku á öxlinni þegar hún fór út úr húsinu og kvaðst hún hafa séð að í töskunni voru umbúðir utan af salatskeiðum úr setti sem var geymt í skáp í stofunni. Jónína kvaðst hafa ætlað að hringja og tilkynna þetta til lögreglu, en þá hafi hún séð að símtækið var horfið og að búið var að róta í skápum og hirslum og tína saman í fjórar handtöskur, lak og koddaver, sem skilið var eftir við útidyrnar.
Jónína kvaðst hafa yfirfarið munina sem búið var að tína saman og kvaðst hún sakna eftirtalinna muna: Flora Danica gullhálsfesti, Flora Danica gullhrings, tveggja stórra salatskeiða úr setti, Panasonic myndbandstækis, rafmagnsklippa, Sony símtækis, slípaðs steins frá Álfasteini, hálsfesti úr silfri, gullhrings með tveimur steinum, gullhrings með fléttum, hálsfesti úr gulli og armbands með silfurkúlum.
Jónínu voru sýndir munir sem voru í vörslum lögreglunnar í Borgarnesi, en sex síðasttöldu munirnir höfðu verið teknir úr vörslum ákærðu Maríu Sveinsdóttur þegar hún var handtekin þann 5. ágúst sama ár. Jónína kvaðst kannast við þessa muni og sagði að hún ætti þá. Hún kvað lögreglu hafa afhent sér myndbandstækið og rafmagnsklippurnar eftir að tækin höfðu fundust bakvið hús nr. 48 við Borgarbraut. Jónína kvaðst einnig eiga Sony símatækið, en það hafði fundist við hjólhýsi í landi Galtarholts 3.
Ákærða Guðrún Halldóra kom fyrir dóm þann 24. nóvember sl. Hún kannaðist við að hafa farið inn í húsið nr. 46 við Borgarbraut í Borgarnesi þann 5. ágúst 1999, og að hafa farið þaðan út með myndbandstæki og símtæki. Kvaðst hún hafa lagt myndbandstækið frá sér skammt frá húsinu. Þá kvað ákærða það vera rétt að símtækið hafi fundist við hjólhýsi í landi Grafarholts í Borgarbyggð sama dag. Sagði ákærða að hún kannaðist ekki við að hafa tekið aðra hluti sem um getur í þessum ákærulið úr húsinu. Framburður ákærðu Guðrúnar Halldóru um þennan ákærulið við aðalmeðferð málsins var á þá leið að hún myndi eftir því að hafa farið inn í einbýlishús í Borgarnesi ásamt ákærðu Maríu. Sagði ákærða að ákærða María hafi rétt sér dót, e.t.v. mynd-bandstæki, og sagt henni að drífa sig í burtu og það hafi hún gert. Kvaðst ákærða hafa lagt myndbandstækið frá sér í garði skammt frá. Þá kvaðst ákærða muna að hún hafi einnig haft meðferðis þráðlausan síma. Ákærða kvaðst hafa tekið við bakpoka frá ákærðu Maríu með dóti í og hafi hún talið að ákærða María ætti þennan bakpoka. Hún staðfesti fyrri skýrsluna sem tekin var af henni hjá lögreglunni í Borgarnesi við rannsókn málsins. Ákærða sagði að það væri ekki rétt sem fram kæmi í síðari skýrslunni sem tekin var af henni, að hún hafi staðfest hvar húsið var. Hún kvaðst gera athugasemdir við það sem þar kæmi fram um að hún hafi tekið garðklippur og kvað hún það ekki vera rétt. Hún myndi heldur ekki eftir neinum sandölum og hún hafi ekki farið inn í húsið.
Ákærða María kom fyrir dóm þann 24. nóvember sl. Skýrði hún þá svo frá, að hún kannaðist við að hafa þann 5. ágúst 1999, farið inn í íbúðarhús í Borgarnesi. Hún kvaðst ekki muna hvort hún hafi gert eitthvað þar. Ákærðu var bent á að samkvæmt ákærunni hafi munir sem hurfu úr húsinu nr. 46 við Borgarbraut í Borgarnesi, fundist í fórum hennar þegar hún var handtekin við Hyrnuna þar í bæ sama dag. Ákærða kvaðst ekki mótmæla því, en tók fram að hún myndi hvorki eftir handtökunni né neinu í sambandi við hana. Við aðalmeðferð málsins kvaðst ákærða muna eftir því að hafa farið ínn í íbúðarhús henni ókunnugt í Borgarnesi. Kvaðst hún hafa ráfað um húsið, en hún gæti ekki gert nánari grein fyrir gerðum sínum þar. Hún kvaðst ekki muna eftir því að hafa tekið hluti þar innandyra. Loks staðfesti ákærða skýrslu þá sem hún gaf við lögreglurannsókn málsins.
Jónína Björg Ingólfsdóttir kom fyrir dóminn. Greindi hún svo frá að þann 5. ágúst 1999, hafi hún komið heim til sín og opnað útidyrnar með lykli. Þegar hún kom inn hafi hún séð töskur á gólfinu í stofunni og annars staðar í íbúðinni. Í framhaldi af því hafi hún komið auga á konu í íbúðinni og hafi hún innt hana eftir því hvað hún væri að gera þarna. Konan hafi svarað því til að hún ynni við heimilishjálp og hin væri niðri að baka. Hafi konan sagt að hún ætti ekki að skúra, heldur einungis að þurrka af. Vitnið sagði að hún hafi séð að búið var að taka utan af rúmfötum hennar og setja talsvert af munum í þau. Sagði vitnið að hún hafi ætlað að hringja í lögregluna, en hún hafi ekki fundið símann. Konan hafi spurt vitnið hvernig hún hafi komist inn. Vitnið kvaðst hafa komið auga á ýmsa muni sem hún þekkti og hafi konan verið með þá í einhvers konar poka eða skjóðu. Kvaðst vitnið hafa spurt konuna hvað þetta væri og gripið í pokann, en þá hafi konan kippt pokanum til sín og hlaupið út. Vitnið kvaðst hafa farið í næsta hús og lýst konunni fyrir bróðursyni sínum sem er lögreglumaður. Sagði vitnið aðspurð að hún hafi einungis séð eina konu á heimili sínu umrætt sinn. Vitnið sagði að greinilegt hafi verið að búið hafi verið að fara um allt hús og leita að munum og taka. Sagði vitnið að hún hafi áttað sig á því að konan hafi verið undir áhrifum lyfja eða fíkniefna. Lýsti vitnið konunni sem grannri og ljóshærðri. Hún hafi verið klædd í gallabuxnastuttbuxur og verið í rósóttri blússu sem hún hafi haft bundna um sig miðja. Loks staðfesti vitnið skýrsluna sem hún gaf við lögreglurannsókn málsins.
Ákærða Guðrún Halldóra hefur viðurkennt að þann 5. ágúst 1999, hafi hún farið inn í húsið nr. 46 við Borgarbraut og farið þaðan út með myndbandstæki og símtæki. Fram kom hjá ákærðu að ákærða María hafi rétt henni henni dót og sagt henni að koma sér burtu. Við lögreglurannsókn málsins viðurkenndi ákærða Guðrún Halldóra að hafa einnig farið með garðklippur út út húsinu, en við dómsmeðferð málsins dró hún þann framburð sinn til baka. Dómurinn telur sannað með játningu ákærðu Guðrúnar Halldóru að hún hafi tekið ófrjálsri hendi myndbandstækið og símtækið sem um getur í þessum lið ákæru. Gegn neitun hennar telst ósannað að hún hafi haft fleiri hluti á brott með sér úr húsinu. Með háttsemi sinni hefur ákærða Guðrún Halldóra unnið sér til refsingar samkvæmt 244. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærða María kannast við að hafa þann 5. ágúst 1999, farið inn í íbúðarhús í Borgarnesi. Hins vegar kveðst hún ekki muna hvort hún hafi tekið hluti þar innandyra ófrjálsri hendi. Vitnið Jónína Björg Ingólfsdóttir hefur greint frá því að þegar hún kom heim til sín framangreindan dag, hafi kona henni ókunn verið fyrir í húsinu. Kona þessi hafi verið með poka sem í hafi verið ýmsir munir sem vitnið kvaðst hafa þekkt. Hafi konan hlaupið út úr íbúðinni með pokann í höndunum. Þegar ákærða María var handtekin síðar sama dag við veitingaskálann Hyrnuna var hún með í vörslum sínum muni sem upplýst er að hurfu úr húsinu nr. 46 við Borgarbraut í Borgarnesi sama dag. Vitnið Ámundi Sigurðsson hefur staðfest að hann hafi staðið að framangreindri handtöku ákærðu Maríu. Telur dómurinn sannað með vísan til framanritaðs að það hafi verið ákærða María sem vitnið Jónína Björg sá í húsi sínu framangreindan dag með poka sem í voru munir sem hún þekkti og fundust í fórum hennar þegar ákærða var handtekin. Þá þykir einnig sannað með vísan til framanritaðs og með stoð í framburði ákærðu Guðrúnar Halldóru, að ákærða María, hafi átt þátt í því ásamt ákærðu Guðrúnu Halldóru að taka myndbandstæki og símtæki ófrjálsri hendi úr þessu sama húsi. Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið verður ákærða María sakfelld fyrir að hafa stolið þeim munum sem um getur í þessum ákærulið, að undanskildum rafmagns-garðklippunum, sem telja verður ósannað að hafi verið teknar ófrjásri hendi úr framan-greindu húsi. Með athæfi sínu hefur ákærða unnið sér til refsingar samkvæmt 244. gr. almennra hegningarlaga.
Ákæra dagsett 11. janúar 2001
Þann 8. febrúar 2000, ritaði Guðjón Ægir Sigurjónsson, héraðsdómslögmaður á Selfossi, lögreglunni í Hafnarfirði bréf f.h. Guðmundar Kristjánssonar, Háeyrarvöllum 4, Eyrarbakka, til að koma á framfæri kæru á hendur Úlfari Ólafssyni og Guðrúnu Halldóru Valsdóttur, ákærðu í máli þessu. Í bréfinu sagði að málsatvik væru í stuttu máli þau, að með leigusamningi dagsettum 9. ágúst 1997, hafi ákærða Guðrún Halldóra tekið á leigu fasteign kæranda að Brekkubyggð 85, Garðabæ. Leigusamningurinn hafi verið tímabundinn frá 9. ágúst 1997 til 1. september 1998. Samningurinn hafi ekki verið endurnýjaður formlega af hálfu aðila. Með vísan til 59. gr. húsaleigulaga hafi verið litið svo á að komist hefði á nýr ótímabundinn leigusamningur milli aðila.
Þar sem leigjandi hefði vanefnt stórkostlega skyldur sínar samkvæmt leigu-samningnum hafi kærandi lýst yfir riftun á samningnum þann 7. september 1999, og krafist þess að leigjandi rýmdi húsnæðið innan sjö daga. Leigjandi hafi þráast við að rýma húsnæðið og hafi lögskiptum aðila lokið með útburðargerð þann 14. desember sama ár. Í kjölfar þess hafi kærandi hafist handa við að rýma húsnæðið.
Við rýmingu húsnæðisins hafi komið í ljós leigusamningur milli ákærða Úlfars og kæranda, Guðmundar Kristjánssonar, dagsettur 1. apríl 1999. Jafnframt hafi Guðmundur fundið frumrit leigusamnings milli hans og ákærðu Guðrúnar Halldóru sem hafi verið áritaður um aflýsingu 28. ágúst 1998.
Kærandi hafi aldrei gert leigusamning við ákærða Úlfar. Með samanburði á undirritunum á leigusamningunum tveimur megi ráða að nafnritun kæranda hafi verið fölsuð á síðari samninginn. Megi því ætla að ákærði Úlfar hafi brotið gegn ákvæðum XVII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Jafnframt væri ljóst að ákærðu Guðrúnu Halldóru hafi verið fullkunnugt um fölsunina þar sem hún hafi bæði verið vitundarvottur að undirritunum á leigusamninginn auk þess sem hafi búið í fasteigninni ásamt ákærða Úlfari. Í ljósi framangreinds væri af hálfu kæranda gerð krafa um að ákærðu yrði refsað fyrir athæfi sitt.
Ákærði Úlfar var yfirheyrður um sakarefnið 29. ágúst 2000. Hann kvaðst viðurkenna að hafa skrifað nafn Guðmundar Kristjánssonar á leigusamninginn. Kvaðst ákærði hafa gert það af illri nauðsyn, þar sem Guðmundur hefði svikið þau ákærðu Guðrúnu Halldóru um að koma og gera leigusamning, til þess að þau fengju húsaleigubætur. Gat ákærði þess að þau hafi ítrekað reynt að ná til Guðmundar á þessum tíma, en ákærða Guðrún Halldóra hafi verið upphaflegur leigutaki húsnæðisins að Brekkubyggð 85, Garðabæ. Kvað ákærði þau Guðrúnu Halldóru hafa látið þinglýsa húsaleigusamningnum hjá sýslumanninum í Hafnarfirði og hafi ákærða Guðrún Halldóra vottað samninginn sem hann falsaði. Ákærði kvaðst ekki hafa haft af þessu fjárhagslegan ávinning, en hann hafi gert þetta til að fá réttmætar húsaleigubætur. Ákærði kvaðst ekki muna hvers vegna hann var skrifaður sem leigutaki þar sem ákærða Guðrún Halldóra var upphaflegur leigutaki að húseigninni.
Ákærða Guðrún Halldóra var yfirheyrð um sakarefnið 4. janúar sl. Hún kvaðst ekki muna eftir því að hafa tekið þátt í því að gera þennan húsaleigusamning og hún myndi ekkert um málið að öðru leyti. Er ákærðu var sýnt baksíða umrædds húsaleigusamnings kvaðst hún kannast við að þetta væri rithönd hennar, en hún gæti ekki tjáð sig um málið að öðru leyti.
Við dómsmeðferð málsins skýrði ákærði Úlfar svo frá að hann hafi haft leyfi húseigandans Guðmundar Kristjánssonar til að rita nafn hans á húsaleigusamning þann sem er dagsettur 1. apríl 1998. Leyfið hafi verið veitt munnlega og það hafi verið skýrt og afdráttarlaust. Kvað hann leyfið hafa verið veitt þar sem fyrri samningur hafi verið útrunninn og kvaðst ákærði ekki hafa séð neitt athugavert við það. Kvaðst ákærði til öryggis hafa viljað hafa samning í höndunum um það að hann leigði húsnæðið. Þá kvaðst hann ekki hafa fengið greiddar húsaleigubætur.
Afstaða ákærðu Guðrúnar Halldóru til þessarar ákæru er sú að hún neitar sök. Framburður ákærðu Guðrúnar Halldóru við aðalmeðferð málsins var á þá leið að það hafi verið rætt að ákærði Úlfar yrði leigutaki í stað hennar. Ákærða kvaðst ekki vita hvenær samningurinn var gerður. Þá kvaðst ákærða hvorki muna hvort hún hafi ritað nafn sitt undir samninginn né hvort og þá hverjir höfðu þá ritað nafn sitt á hann. Ákærða kvaðst þó kannast við að nafn hennar væri ritað á samninginn og hún kannaðist við að þetta væri sín undirskrift. Sagði ákærða að hún hafi ekki vitað að um fölsun á nafni leigusala var að ræða.
Guðmundur Kristjánsson kom fyrir dóminn. Hann kvaðst hafa leigt ákærðu Guðrúnu Halldóru húseign sína að Brekkubyggð 85, Garðabæ. Hann kvaðst hafa frétt að mikið væri farið að ganga á í íbúðinni og hafi hann látið bera ákærðu Guðrúnu Halldóru út úr íbúðinni. Vitnið kvaðst hafa frétt síðar að húsaleigusamningur hefði verið falsaður, þar sem nafn vitnisins hafi ranglega verið ritað undir og upphaflega leigusamningnum hafi verið aflýst hjá sýslumanninum í Hafnarfirði án vitundar hans. Sagði vitnið að hann hafi aldrei leigt ákærða Úlfari íbúð sína að Brekkubyggð 85, heldur ákærðu Guðrúnu Halldóru. Hafi hvorki staðið til að leiga ákærða Úlfari íbúðina né hafi ákærði Úlfar haft samband við vitnið um það. Hugsanleg áframhaldandi leiga ákærðu Guðrúnar Halldóru hafi átt að skoðast þegar að því kæmi. Vitninu var sýnt frumrit hins meinta falsaða húsaleigusamnings. Hann kvað undirskrift nafns hans á bakhlið skjalsins ekki stafa frá sér. Loks sagði vitnið að ákærði Úlfar hafi ekki haft umboð frá sér til að rita undir samninginn.
Meðal gagna málsins er bréf félags- og heilbrigðissviðs Garðabæjar og er það svar við fyrirspurn rannsóknara um greiðslur húsaleigubóta til ákærðu Guðrúnar Halldóru og ákærða Úlfars. Í bréfinu segir að ákærða Guðrún hafi fengið greiddar húsaleigubætur hjá Garðabæ tímabilið september 1997 til og með ágúst 1998. Ákærði Úlfar hafi aftur á móti hvorki fengið greiddar húsaleigubætur hjá Garðabæ né sótt um þær.
Niðurstaða
Ákærði Úlfar hefur viðurkennt að hafa ritað nafn Guðmundar Kristjánssonar á húsaleigusamning þann sem mál þetta snýst um. Vitnið Guðmundur hefur aftur á móti neitað því að hafa veitt ákærða Úlfari leyfi til þess. Á hinn bóginn er upplýst í málinu að ákærði fékk ekki greiddar húsaleigubætur samkvæmt samningnum. Þetta atriði var ekki rannsakað við lögreglurannsókn málsins svo sem eðlilegt hefði verið.
Það er hugtaksskilyrði skjalafals að til þess að verknaður sé refsiverður þurfi skjalið að hafa verið notað til að blekkja með því í lögskiptum. Fyrir liggur að um það var ekki að ræða í máli þessu. Samkvæmt því er ósannað að ákærði Úlfar hafi gerst sekur um skjalafals svo sem honum er gefið að sök. Ber samkvæmt því að sýkna ákærða Úlfar af þeirri háttsemi sem honum er gefin að sök í þessari ákæru. Leiðir sú niðurstaða sjálfkrafa til þess að sýkna ber ákærðu Guðrúnu Halldóru af ákæru um hlutdeild í skjalafalsi ákærða Úlfars.
Samkvæmt sakavottorði ákærða Úlfars hefur hann frá árinu 1975 hlotið 20 refsidóma, þar af eru fjórir hæstaréttardómar. Hann hefur m.a. verið dæmdur fyrir manndráp, þjófnað, fjársvik, skjalafals, nytjastuld, umferðarlagabrot og áfengislagabrot. Síðast hlaut ákærði dóm þann 11. desember 2000, fangelsi í 30 daga fyrir sviptingarakstur. Ákærði hlaut dóm í Hæstarétti 5. október 2000, þriggja mánaða fangelsi, fyrir þjófnað, en með þeim dómi var staðfestur dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 19. janúar 2000. Þann 14. september 2000, var ákærði dæmdur í sex mánaða fangelsi fyrir þjófnað og gripdeild. Þar áður var hann þann 31. mars 1999, dæmdur í 450.000 króna sekt og sviptingu ökuréttar í þrjú ár fyrir ölvunar- og sviptingarakstur. Þá var hann þann 27. nóvember 1998, dæmdur í 6 mánaða fangelsi fyrir sviptingarakstur og þjófnað.
Samkvæmt sakavottorði ákærðu Guðrúnar Halldóru hefur hún fjórum sinnum gengist undir sátt vegna brota á umferðarlögum og tvívegis hefur hún hlotið dóm vegna slíkra brota frá árinu 1990. Þann 23. apríl 1999, var ákærða dæmd í 30 daga fangelsi, skilorðsbundið í tvö ár fyrir skjalafals. Loks var ákærða þann 7. júlí 2000, dæmd í 60 daga fangelsi, skilorðsbundið í þrjú ár fyrir sviptingarakstur og þjófnað. Dómurinn frá 23. apríl 1999, var dæmdur með.
Samkvæmt sakavottorði ákærðu Maríu var hún þann 11. maí 1983, sakfelld fyrir skjalafals og fjársvik, en ákvörðun refsingar var frestað skilorðsbundið í tvö ár. Í október 1998, gekkst ákærða undir tvær lögreglustjórasáttir með greiðslu sekta, þá fyrri vegna fíkniefnabrots, en þá síðari vegna þjófnaðar. Þann 12. apríl 1999, var ákærða dæmd í 8 mánaða fangelsi skilorðsbundið í þrjú ár fyrir þjófnað, skjalafals, fjársvik og fíkniefnabrot. Kæmi til fullnustu refsingarinnar skyldi þrettán daga gæsluvarðhaldsvist hennar koma til frádráttar. Loks sættist ákærða þann 12. apríl 2000, á greiðslu sektar fyrir hraðakstur.
Við ákvörðun refsingar ákærða Úlfars verður höfð hliðsjón af 77. gr. og 78. gr. almennra hegningarlaga. Þá verður einnig að líta til ítrekunaráhrifa vegna eldri dóma fyrir auðgunarbrot, sem kveðnir voru upp 27. nóvember 1998, 15. september 1997 og 29. september 1994, sbr. 71. gr. og 255. gr. almennra hegningarlaga. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í fimm mánuði.
Við ákvörðun refsingar ákærðu Guðrúnar Halldóru verður höfð hliðsjón af 77. gr. og 78. gr. almennra hegningarlaga. Þá ber að taka upp dóminn sem ákærða hlaut þann 7. júlí 2000, og gera ákærðu refsingu í einu lagi fyrir þau brot sem hún hefur hér verið sakfelld fyrir og samkvæmt síðastgreindum dómi, sbr. 60. gr. almennra hegningarlaga. Þykir refsing ákærðu hæfilega ákveðin fangelsi í átta mánuði. Eftir atvikum öllum þykir þó unnt að skilorðsbinda refsinguna í þrjú ár, svo sem nánar greinir í dómsorði.
Með þeim brotum sem ákærða María hefur verið sakfelld fyrir rauf hún skilorð dómsins sem hún hlaut þann 12. apríl 1999. Ber nú að taka hann upp og gera ákærðu refsingu í einu lagi fyrir þau brot sem hún hefur nú verið sakfelld fyrir og samkvæmt nefndum dómi. Við ákvörðun refsingar verður höfð hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga. Refsing ákærðu þykir hæfilega ákveðin fangelsi í tólf mánuði. Unnt þykir að ákveða að fullnustu níu mánaða af refsingunni skuli fresta og að hún skuli falla niður að liðnum þremur árum eins og nánar greinir í dómsorði. Til frádráttar óskiorðsbundnum hluta refsingar komi þrettán daga gæsluvarðhald ákærðu samkvæmt dóminum frá 12. apríl 1999.
Ákærði Úlfar verður dæmdur til að sæta upptöku á 0,97 g af amfetamíni sem lögregla lagði hald á við rannsókn mála samkvæmt liðum 1 og 2 í A-kafla ákæru. Ákærða Guðrún Halldóra verður dæmd til að sæta upptöku á 0,31 g af amfetamíni sem lögregla lagði hald á við rannsókn máls samkvæmt lið 1 í B-kafla ákæru. Þá ber að gera upptækar sprautur og nálar til fíkniefnanotkunar sem lögregla lagði hald á að Brekku-byggð 85, Garðabæ 25. ágúst og 15. nóvember 1999.
Í málinu liggja frammi fjórar bótakröfur og eru þær tilgreindar í ákæru. Ákærða Guðrún Halldóra var sýknuð af ákæru um skjalafals sem tengist kröfu Sigríðar Högnadóttur f.h. söluskálans Goðahrauni, Vestmannaeyjum. Ber því að vísa þessari bótakröfu frá dómi. Ákærðu Úlfar og Guðrún Halldóra voru sýknuð af ákæru um skjlafals sem tengist bótakröfum Bjargar Gilsdóttur f.h. verslunarinnar Fjölsporta og Jóhanns Kristjánssonar f.h. Olíuverslunar Íslands hf. Ber því að vísa þessum bótakröfum frá dómi. Bótakröfu Ragnheiðar S. Jóhannsdóttur f.h. Gallerís Handar sf. hefur verið mótmælt og þess krafist að henni verði vísað frá dómi. Krafan er ekki studd neinum gögnum og ber þegar af þeirri ástæðu að vísa henni frá dómi.
Ekki verður séð af gögnum málsins að kostnað hafi leitt af rannsókn þess. Ákærðu verða dæmd til greiðslu málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, svo sem nánar greinir í dómsorði.
Júlíus B. Georgsson settur héraðsdómari kvað upp dóminn.
Dómsorð:
Ákærði, Úlfar Ólafsson, sæti fangelsi í 5 mánuði.
Ákærða, Guðrún Halldóra Valsdóttir, sæti fangelsi í 8 mánuði. Fullnustu refsingarinnar er frestað og fellur hún niður að þremur árum liðnum frá birtingu dóms þessa að telja, haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærða, María Sveinsdóttir, sæti fangelsi í 12 mánuði. Fullnustu 9 mánaða af refsingunni er frestað og fellur sá hluti hennar niður að þremur árum liðnum frá birtingu dóms þessa að telja, haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Til frádráttar óskilorðsbundnum hluta refsingar komi 13 daga gæsluvarðhaldsvist ákærðu.
Ákærði Úlfar sæti upptöku á 0,97 g af amfetamíni. Ákærða Guðrún Halldóra sæti upptöku á 0,31 g af amfetamíni. Ákærðu sæti sameiginlega upptöku á sprautum og nálum til fíkniefnanotkunar sem fundust á heimili þeirra eða á þeim sjálfum.
Skaðabótakröfum Sigríðar Högnadóttur, f.h. söluskálans Goðahrauni,
Vestmannaeyjum, Bjargar Gilsdóttur f.h. Fjölsports, Jóhanns Kristjánssonar f.h. Olíuverslunar Íslands hf. og Ragnheiðar S. Jóhannsdóttur f.h. Gallerís Handar sf. er vísað frá dómi.
Ákærði Úlfar greiði 3/5 hluta af 110.000 króna málsvarnarlaunum skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, á móti 2/5 hlutum sem greiðist úr ríkissjóði.
Ákærða Guðrún Halldóra greiði 3/5 hluta af 140.000 króna málsvarnarlaunum skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, á móti 2/5 hlutum sem greiðist úr ríkissjóði.
Ákærða María Sveinsdóttir greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 80.000 krónur.