Hæstiréttur íslands

Mál nr. 414/2008


Lykilorð

  • Vinnusamningur
  • Samkeppni
  • Févíti
  • Skaðabætur


Fimmtudaginn 12

 

Fimmtudaginn 12. mars 2009.

Nr. 414/2008.

Einar Þór Sigurgeirsson

(Guðmundur B. Ólafsson hrl.)

gegn

Egilssyni ehf.

(Anton B. Markússon hrl.)

 

Vinnusamningur. Samkeppni. Févíti. Skaðabætur.

E réð sig til starfa hjá ES ehf. Í ráðningasamningi hans var ákvæði þess efnis að honum væri ekki heimilt í tvö ár eftir starfslok hjá ES ehf. að hefja störf hjá samkeppnisaðila á sama rekstrarsviði og að brot á því varðaði févíti allt að 10% af föstu mánaðarkaupi fyrir hvern dag. E sagði starfi sínu lausu og réð sig þremur mánuðum síðar til A. Höfðaði ES ehf. mál gegn E og krafðist bóta þar sem E hefði brotið gegn fyrrgreindu ákvæði ráðningarsamnings síns. Talið var ljóst að A hafi verið samkeppnisaðili ES ehf. Samkeppnisákvæði ráðningarsamningsins hafi ekki verið fallið úr gildi þrátt fyrir breytingar á starfssviði E. Ákvæðið hafi ekki verið víðtækara en nauðsynlegt hafi verið til að varna samkeppni og gildistími þess hæfilegur. Yrði að líta svo á að það hafi ekki skert atvinnufrelsi E með ósanngjörnum hætti. Voru því ekki talin skilyrði til að telja loforð E óskuldbindandi með vísan til 36. eða 37. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Yrði samkeppnisákvæðinu því ekki að öllu leyti vikið til hliðar. Hins vegar var litið svo á, miðað við stöðu E og þá hagsmuni sem gátu verið í húfi fyrir ES ehf., að umsamin fjárhæð févítis hafi verið úr hófi. Var E dæmdur til að greiða ES ehf. bætur sem voru taldar hæfilegar 500.000 krónur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 27. júlí 2008. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda en til vara að hún verði lækkuð. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi réði áfrýjandi sig til starfa sem sölumaður hjá stefnda í janúar 2003. Í 7. gr. ráðningarsamnings, sem þeir gerðu 3. apríl sama ár var ákvæði þess efnis að áfrýjanda væri ekki heimilt í tvö ár eftir starfslok hjá stefnda að hefja störf hjá samkeppnisaðila á sama rekstarsviði, svo og að brot á því varðaði févíti allt að 10% af föstu mánaðarkaupi fyrir hvern dag. Föst mánaðarlaun samkvæmt samningnum voru 200.000 krónur. Stefndi mun á þessum tíma hafa rekið heildverslun á sviði ritfanga. Í aðilaskýrslu forsvarsmanns hans fyrir héraðsdómi, sem ekki hefur verið mótmælt að þessu leyti, kom fram að starfsmenn hafi á þeim tíma verið rúmlega tíu og sölumenn þar af fjórir talsins. Fallast verður á með stefnda að við þær aðstæður kunni persónuleg tengsl einstakra sölumanna við stóran hluta viðskiptavina félagsins að hafa skapað nauðsyn á að varna því að þeir réðu sig til keppinauta stefnda og tækju með sér viðskipti. Ráðningarsamningur aðilanna var endurnýjaður 30. nóvember 2004. Föst laun áfrýjanda hækkuðu þá í 220.000 krónur, en fyrrgreint samkeppnisákvæði var óbreytt.

Í júní 2005 keypti stefndi verslanir með heitinu Office 1 Superstore. Við það mun starfsmönnum hafa fjölgað verulega og eðli rekstrarins breyst með því að smásala hafi bæst við fyrri starfsemi. Starf áfrýjanda og starfskjör tóku samkvæmt gögnum málsins einnig miklum breytingum í kjölfarið. Föst laun hans hækkuðu í 400.000 krónur og hann tók við starfi rekstrarstjóra. Samkvæmt framburði áfrýjanda fékkst hann sem slíkur við ýmis verkefni, en meginviðfangsefni hans sýnist hafa verið rekstur verslana stefnda. Forsvarsmaður stefnda bar fyrir héraðsdómi að áfrýjandi hafi verið öflugur starfsmaður og sinnt ýmsum verkefnum. Sjálfur bar áfrýjandi fyrir dómi að hann hafi ábyggilega gegnt lykilhlutverki hjá félaginu. Þrátt fyrir þessar breytingar var ekki gerður nýr ráðningarsamningur milli aðilanna. Þótt ýmis ákvæði ráðningarsamningsins frá 30. nóvember 2004 hafi þannig ekki lengur átt við verður ekki litið svo á að þörf stefnda á að varna samkeppni vegna hugsanlegrar ráðningar áfrýjanda hjá keppinautum hafi minnkað við það að áfrýjandi tókst á hendur ábyrgðarmeiri störf í þágu stefnda. Eru því ekki efni til að telja að forsendur hafi breyst svo að samkeppnisákvæði 7. gr. samningsins hafi fallið úr gildi.

Fyrir liggur í málinu að áfrýjandi sagði upp ráðningarsamningnum 1. júlí 2007 með þriggja mánaða uppsagnarfresti. Samkvæmt margnefndu samkeppnisákvæði var áfrýjanda ekki heimilt að hefja störf hjá samkeppnisaðila stefnda á sama rekstrarsviði í tvö ár eftir þau starfslok. Þótt túlka verði þröngt í þessu sambandi hverjir talist geti samkeppnisaðilar stefnda á sama rekstrarsviði er ljóst að til þeirra taldist fyrirtækið A4, sem áfrýjandi réði sig til frá 1. október 2007 að telja, enda kom meðal annars fram í vitnisburði þáverandi framkvæmdastjóra þess fyrirtækis fyrir héraðsdómi að „stórir aðilar“ á skrifstofuvörumarkaði væru þrír, þar á meðal það fyrirtæki og stefndi. Forsvarsmaður stefnda bar fyrir dómi mjög á sömu lund. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest sú niðurstaða hans að samkeppnisákvæðinu verði ekki að öllu leyti vikið til hliðar.

Miðað við stöðu áfrýjanda og þá hagsmuni, sem í húfi gátu verið fyrir stefnda, verður að líta svo á að umsamin fjárhæð févítis, 10% af föstum mánaðarlaunum fyrir hvern dag sem áfrýjandi braut gegn samkeppnisákvæði ráðningarsamnings þeirra í allt að tvö ár, sé úr hófi. Eru bætur til stefnda hæfilega ákveðnar 500.000 krónur, en sú fjárhæð skal bera vexti eins og dæmdir voru í héraði.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað verður staðfest, en rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Einar Þór Sigurgeirsson, greiði stefnda, Egilssyni ehf., 500.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 5. maí 2008 til greiðsludags.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 5. maí 2008.

I.

Mál þetta, sem dómtekið var að lokinni aðalmeðferð 9. apríl sl. er höfðað með stefnu birtri 16. desember 2007 af Egilsson ehf., Skútuvogi 1d, Reykjavík, á hendur Einari Þór Sigurgeirssyni, Galtalind 13, Kópavogi.

Dómkröfur stefnanda eru þær aðallega að stefnda verði gert að greiða stefnanda 29.200.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 18. nóvember 2007 til greiðsludags. Til vara krefst stefnandi þess að dómurinn dæmi honum bætur að álitum sem beri dráttarvexti frá 18. nóvember 2007. Í báðum tilvikum krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu samkvæmt málskostnaðarreikningi úr hendi stefnda.

Dómkröfur stefnda eru þær aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins. Til vara er þess krafist að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega.

II.

Stefnandi rekur verslanirnar Office 1 Superstore en þegar stefndi réð sig til starfa hjá honum, 15. janúar 2003, var stefnandi heildverslun og starfaði sem birgir bóka- og ritfangaverslana með allar slíkar vörur að bókum frátöldum. Stefndi var upphaflega ráðinn til starfa hjá stefnanda sem sölumaður og námu umsamin mánaðarlaun hans 200.000 krónum. Fólst starf stefnda einkum í sölu ritfanga og umsjón með netverslun fyrirtækisins ásamt almennri afgreiðslu, þ.e. símsvörun og móttöku viðskiptavina og öðrum störfum sem til féllu innan fyrirtækisins. Fyrri ráðningarsamningur stefnda og stefnanda er dagsettur 3. apríl 2003 og þar er að finna eftirfarandi ákvæði í 7. gr.:

„Launþega er ekki heimilt í tvö ár eftir starfslok að hefja störf hjá samkeppnisaðila á sama rekstrarsviði, né stofna til eigin rekstrar í samskonar eða tengdum rekstri. Brot á ofangreindu ákvæði 7. gr. varða févíti allt 10% af föstu mánaðarkaupi fyrir hvern dag“.

Samningurinn  var endurskoðaður 30. nóvember 2004 og laun hækkuð í 220.000 krónur á mánuði en framangreint ákvæði 7. gr. var óbreytt.

Í júlímánuði 2005 keypti stefnandi verslanir Office 1 Superstore. Stefndi var gerður að rekstrarstjóra verslananna í september 2005 og voru laun hans þá hækkuð í 400.000 krónur á mánuði auk fríðinda. Ekki var gerður nýr ráðningarsamningur við stefnda.

Hinn 1. júlí 2007 sagði stefndi starfi sínu hjá stefnanda lausu en hinn 1. október sama ár réði hann sig til starfa hjá fyrirtækinu A4. Stefnandi ritaði stefnda bréf dagsett 18. október 2007 þar sem farið var fram á það við stefnda að hann léti af störfum hjá A4 þar sem hann hefði með því að ráða sig til fyrirtækisins brotið gegn 7. gr. ráðningarsamnings síns við stefnanda. Var stefnda jafnframt tilkynnt að léti hann ekki af störfum fyrir 31. sama mánaðar yrði höfðað mál gegn honum á grundvelli samningsbundinna skaðabóta. Af hálfu stefnda var kröfu stefnanda hafnað með bréfi dagsettu 31. sama mánaðar. Í kjölfarið var mál þetta höfðað eins og áður er lýst.

Við aðalmeðferð málsins gáfu skýrslu fyrir dómi fyrirsvarsmaður stefnanda, Egill Þór Sigurðsson, og stefndi. Þá komu fyrir dóminn sem vitni Hannes Sigurbjörn Jónsson, framkvæmdastjóri Office 1 Superstore, Daníel Guðbrandsson, framkvæmdastjóri heildsölu stefnanda, Árni Eggert Harðarson, sölumaður hjá stefnanda, Hildur Birna Gunnarsdóttir, sölustjóri fyrirtækjaþjónustu hjá Office 1 Superstore, og Ólafur Stefán Sveinsson, yfirmaður vörusviðs hjá A4.

III.

Stefnandi byggir aðalkröfu sína á því að stefndi hafi með því að ráða sig til samkeppnisaðila stefnanda gerst brotlegur við 7. gr. ráðningarsamningsins og beri því skaðabótaábyrgð gagnvart stefnanda. Bendir stefnandi á að það sé meginregla samningaréttarins að samninga beri að halda og að við brot á gerðum samningum komi til reglur um skaðabótaábyrgð innan samninga. Um sé að ræða vanefndaábyrgð sem feli í sér að ef aðili vanefni samning þá öðlist gagnaðili bótarétt. Orðalag 7. gr. ráðningarsamningsins sé skýrt og hafi stefnda því mátt vera ljóst að með því að ráða sig til samkeppnisaðila hefði hann gerst brotlegur við ákvæðið og þar með bakað sér skaðabótaskyldu.

Jafnframt byggir stefnandi á því að stefndi beri ekki eingöngu skyldur samkvæmt 7. gr. ráðningarsamningsins heldur einnig gagnvart 6. gr. hans en samkvæmt þeirri grein hafi stefndi verið bundinn trúnaði um hvaðeina sem hann varð áskynja varðandi fyrirtækið og viðskiptavini þess. Stefndi hafi ráðið sig til A4 sem rekstrarstjóra en ljóst sé að með því að taka við sambærilegri stöðu hjá samkeppnisaðila, hafi þessi trúnaður verið brotinn. Stefnandi hafi mátt ganga út frá því að upplýsingar sem stefndi hafði aflað sér um viðskiptavini og fyrirtæki stefnanda væru ekki nýttar af samkeppnisaðila hans. Bendir stefnandi á að Hæstiréttur Íslands hafi slegið því föstu að nægjanlegt sé að aðili hafi brotið gegn trúnaðarskyldu sinni gagnvart vinnuveitanda sínum eða fyrrum vinnuveitanda þótt ósannað sé að slíkar trúnaðarupplýsingar séu misnotaðar.

Þá byggir stefnandi á því að efnisregla 7. gr. ráðningarsamningsins eigi við fullum fetum enda sé skuldbindingin ekki víðtækari en nauðsynlegt sé til að varna samkeppni né heldur skerði hún með ósanngjörnum hætti atvinnufrelsi stefnda. Eigi því ákvæði 1. mgr. 36. gr. samningalaga nr. 7/1936 því ekki við. Stefnandi hafi haft ríka hagsmuni af því að stefndi réði sig ekki hjá samkeppnisaðila á sama rekstrarsviði. Ljóst sé að framangreind 7. gr. sé ekki staðlað ákvæði heldur ákvæði sem sett hafi verið inn í ráðningarsamninginn til að girða fyrir að þeir, sem gegndu trúnaðarstörfum fyrir stefnanda, misnotuðu upplýsingar sem þeim var trúað fyrir í starfi sínu. Upplýsingar, sem hér um ræði, séu þess eðlis að þær varði afar viðkvæm málefni eins og upplýsingar um einstaka viðskiptamenn, efni viðskiptasamninga og aðra þætti í starfsemi stefnanda.

Stefnandi hafni því sem fram komi í bréfi lögmanns stefnda um að starfssvið stefnda hjá A4 sé það ólíkt að stefnandi hafi enga sérstaka hagsmuni af því að stefndi starfi ekki fyrir A4. Ljóst sé að störfin séu að öllu leyti sambærileg. Stefndi hafi gegnt stöðu rekstrarstjóra hjá stefnanda og hafi tekið við starfi rekstrarstjóra verslana hjá A4. Engra gagna njóti við um hvaða starfi stefndi gegni hjá A4 en starfsheiti hans sé ekki að finna á heimasíðu A4 og því líti stefnandi svo á að stefndi gegni sama starfi hjá A4 og hann gerði hjá stefnanda. Skori stefnandi á stefnda að sýna fram á að starf hans hjá A4 sé annars konar en hann gegndi hjá stefnanda.

Fyrir liggi að milli stefnanda og A4 ríki mikil samkeppni en bæði fyrirtækin selji skrifstofuvörur, pappírsvörur, tölvur og fylgihluti, rekstrarvörur og skrifstofutæki og virðist nánast eini munur á vöruúrvali fyrirtækjanna og þar með þeim markaði, sem þau starfa á, vera sá að A4 býður upp á skrifstofuhúsgögn sem Office 1 Superstore gerir ekki.

Stefnandi sundurliðar fjárkröfu sína þannig:

Greiðsla kr. 40.000 á dag í tvö ár (730 dagar)                                    Kr. 29.200.000

Um grundvöll greiðsluskyldu vísar stefnandi til 7. gr. ráðningarsamnings aðila þar sem fram kemur að dagsektarákvæði miðist við 40.000 krónur á dag og gildi í 2 ár og launaseðla þar sem fram kemur að grunnlaun stefnanda voru 400.000 krónur á mánuði. Stefnandi krefst dráttarvaxta af dómkröfunni frá 18. nóvember 2007, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.

Varakröfu sína byggir stefnandi á sömu málsástæðum og lagarökum og aðalkröfuna en verði ekki fallist á aðalkröfu krefst stefnandi þess að honum verði dæmdar bætur að álitum. Óyggjandi sé að stefndi hafi brotið ákvæði 7. gr. ráðningarsamningsins og með því að ráða sig hjá samkeppnisaðila stefnanda hafi hann því bakað sér skaðabótaábyrgð enda sé ljóst að hann hafi aflað sér upplýsinga um viðskipti og viðskiptavini stefnanda í starfi sínu hjá honum og skapað sér tengslanet sem nú nýtist samkeppnisaðila.

Um lagarök vísar stefnandi til meginreglu samningaréttar um skuldbindingargildi samninga sem og meginreglna laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936. Þá vísar stefnandi til meginreglna um skaðabætur innan samninga sem og almennra reglna um trúnaðarsamband og vinnusamband.

IV.

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að 7. gr. ráðningarsamnings aðila sé óskuldbindandi fyrir stefnda á grundvelli 36. og 37. gr. samningalaga nr. 7/1936 sem brjóti einnig í bága við 75. gr. stjórnarskrárinnar. Samningsákvæðið sé mjög íþyngjandi fyrir stefnda þar sem það sé almennt orðað og of víðtækt til þess að það hafi skuldbindingargildi gagnvart honum sem verið hafi almennur launþegi hjá stefnanda. Þegar stefndi ritaði undir ráðningarsamninginn hafi hann verið almennur sölumaður á ritföngum og öllum ljóst að hann myndi ekki öðlast í starfi sínu neinar upplýsingar sem ekki væru þekktar á markaði. Samningsákvæðið hefði ekki verið samið til að vernda hagsmuni stefnanda sérstaklega gagnvart stefnda þar sem um staðlað samningsákvæði sé að ræða sem allir aðrir starfsmenn þurftu að undirrita á þeim tíma. Því sé ranglega haldið fram í stefnu að ákvæði sem þetta sé einungis til að girða fyrir að þeir sem gegndu trúnaðarstörfum fyrir stefnanda misnotuðu ekki eða gætu misnotað upplýsingar sem þeim var trúað fyrir. Stefndi sem sölumaður á ritföngum hafi ekki gegnt meiri trúnaðarstörfum en aðrir starfsmenn stefnanda og starfsmenn gegna almennt hjá fyrirtækjum. Samningsákvæðið hafi eingöngu verið sett af hálfu stefnanda til að takmarka að óþörfu atvinnufrelsi starfsmanna sinna og í raun til þess að halda þeim í vistarböndum í tiltekinn tíma. Bæði áður tilvitnuð ákvæði samningalaga og 75. gr. stjórnarskrárinnar sé einmitt ætlað að vernda almenna starfsmenn fyrir slíkum samningsákvæðum og frelsisskerðingum af hálfu vinnuveitanda.

Stefndi byggir jafnframt á því að íþyngjandi ákvæði ráðningarsamningsins geti ekki tekið til annarra þátta en þekktir voru við samningsgerðina og þess samkeppnisumhverfis stefnanda sem þá var en ráðningarsamningurinn hafi verið gerður við upphaf ráðningar stefnda og síðan endurnýjaður 2004. Stefnandi hafi þá einungis verið heildverslun án almenns verslunarrekstrar og því geti samningsákvæðið aldrei tekið til annarrar starfsemi en heildsölu á ritföngum þó svo að starfsemi stefnanda sé önnur nú en í upphafi. Stefndi hafi margítrekað þegar hann tók við nýju starfi hjá stefnanda að hann vildi fá nýjan samning en því hafi ávallt verið hafnað.

Þá verði að líta til hagsmuna stefnanda við gerð samningsákvæðisins. Stefnandi þurfi að sýna fram á að hann hafi einhverja hagsmuni af því að hafa jafníþyngjandi ákvæði í ráðningarsamningi og raun beri vitni. Hér sé um staðlað ákvæði að ræða sem öllum starfsmönnum stefnanda á þeim tíma hafi verið gert að skrifa undir þó svo að þeir byggju ekki yfir sérstökum upplýsingum sem teljist geti atvinnuleyndarmál um starfsemi stefnanda. Gera verði þá kröfu að þegar vinnuveitendur vilji vernda sig gagnvart samkeppni þá sé verið að vernda tiltekna hagsmuni en ekki einungis að takmarka atvinnufrelsi launþega til að ráða sig á sama starfssviði hjá nýjum vinnuveitanda. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á að í störfum sínum hafi stefndi öðlast upplýsingar sem geti talist avinnuleyndarmál og varði stefnanda miklu að stefndi nýti ekki þá vitneskju hjá samkeppnisaðila.

Stefndi vísar til þess að þegar meta eigi um hvers konar upplýsingar sé að ræða, verði að horfa til þess hvort um almennar markaðs- eða viðskiptaupplýsingar sé að ræða eða sérþekkingu sem stefndi öðlaðist hjá stefnanda. Upplýsingar um viðskiptavini eða verð vöru geti aldrei talist viðkvæmar upplýsingar á svo litlum markaði. Allir markaðsaðilar viti hvar hver þeirra á viðskipti og viti einnig um þau verð eða afslætti sem í boði séu t.d. á grundvelli opinberra útboða hjá Ríkiskaupum. Hér verði að koma eitthvað meira til sem teljist vera sérþekking eða upplýsingar sem vert sé að vernda. Stefnandi verði að sýna fram á með skýrum rökum hvaða upplýsingar verið sé að vernda og hafi sönnunarbyrði fyrir því að upplýsingarnar séu þess eðlis að þær gangi framar atvinnufrelsi stefnanda.

Stefndi byggir einnig á því að störf stefnda hjá stefnanda og A4 séu ekki sambærileg. A4 sé fyrirtæki sem byggist á áratugalöngum rekstri Odda skrifstofuvara sem hafði, áður en stefndi hóf þar störf, haft alla viðskipta- og rekstrarþekkingu sem völ er á. Stefndi hafi þar engu bætt við en hlutverk hans hafi verið að sjá um almennan rekstur, s.s. starfsmannamál, uppsetningu búða og samræmingu og útlit verslana A4. Stefndi hefði ekkert haft með fjármál eða viðskiptatengda þætti að gera, s.s. innkaup, afslætti eða önnur tengsl við viðskiptavini eða birgja. Það sé stefnanda að sýna fram á að starf stefnda hafi verið með þeim hætti að það skaðaði hagsmuni stefnanda. Þá geti samningsákvæðið ekki átt við um starfssvið sem komi til síðar eftir gerð ráðningarsamnings. Þá verði að hafa í huga að það að ráða sig til samkeppnisaðila getur aldrei talist brota á trúnaði við fyrri vinnuveitanda. Stefnandi hafi höfðað skaðabótamál í stað þess að krefjast lögbanns á störf stefnda til að tryggja þannig að trúnaðarupplýsingar færu ekki til samkeppnisaðila. Ástæða þess sé sú að stefnandi hefði aldrei getað sýn fram á að stefndi byggi yfir trúnaðarupplýsingum og því hefði ekki verið fallist á lögbannskröfu hans. Tilgangur og markmið stefnanda með samkeppnishindrandi ákvæði í ráðningarsamningnum hafi verið að hafa fjárhagslegan ávinning af fyrrum starfsmönnum sínum ef þeir störfuðu á sama starfssviði.

Þá bendir stefndi á að líta þurfi til þess að stefndi hafi sérþekkingu og menntun í verslunarstörfum sem hann harfi aflað sér áður en hann hóf störf hjá stefnanda. Gera verði ríkari kröfur ef skerða eigi atvinnufrelsi hans og möguleika á að afla sér framfærslu á þeim vettvangi sem hann hefur menntun og reynslu til. Jafnframt verði að horfa til þess að launakjör stefnda voru í engu samræmi við þær skuldbindingar sem í samningnum felast en gera verði þá kröfu að við gerð samkeppnishindrandi ákvæða í ráðningarsamningi sé tekið tillit til þess í launum ef skerða eigi atvinnufrelsi manna.

Loks er á því byggt að stefnandi þurfi að sanna tjón sitt til þess að geta fengið dæmdar bætur samkvæmt févítisákvæðum ráðningarsamningsins. Stefnandi hafi hins vegar ekki orðið fyrir tjóni og geti því ekki krafist bóta.

Varakröfu sína um verulega lækkun bótakröfu stefnanda byggir stefndi á því að fjárhæð févítisbótanna sé í engu samræmi við laun stefnda og lýsi stefnufjárhæð þessa máls í raun fáránleika samningsákvæðisins. Þá bendir stefndi á að taka beri tillit til þess að stefndi hætti störfum eftir þriggja mánaða starf hjá A4 og geti bætur því aldrei reiknast nema miðað við þann tíma. Stefndi krefst þess að jafnframt verði tekið tillit til ákvæða 24. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 um almenna lækkunarheimild bótakrafna. Loks mótmælir stefndi sérstaklega dráttarvaxtakröfu stefnanda.

V.

Niðurstaða.

Ágreiningslaust er að stefndi undirritaði ráðningarsamninga við stefnanda 3. apríl 2003 og 30. nóvember 2004 með samkeppnisákvæði í 7. gr. en efni þess er áður lýst. Stefndi byggir sýknukröfu sína í málinu á því að ákvæðið sé brot á stjórnarskrárvörðum rétti hans til atvinnufrelsis, sbr. 75. gr. stjórnarskrárinnar. Samkvæmt dómvenju girðir stjórnarskrárákvæðið ekki fyrir það að slík samkeppnisákvæði séu í samningum manna enda er gert ráð fyrir því í 37. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.

Samkvæmt báðum ráðningarsamningunum var stefndi samkvæmt orðanna hljóðan ráðinn sem sölumaður til stefnanda. Fyrir liggur að við lok starfstíma síns hjá stefnanda, gegndi stefndi starfi rekstrarstjóra verslana hjá Office 1 Superstore og sagði stefndi hér fyrir dóminum að hið nýja starf hans hjá A4 hefði falist í því að samræma útlit verslana A4, vera yfirmaður verslunarstjóranna og sjá um daglegan rekstur hjá verslununum, þ.m.t. starfsmannamál. Þrátt fyrir að starf stefnda hjá stefnanda hafi tekið einhverjum breytingum á starfstímanum var ráðningarsamningnum ekki breytt hvað varðar margnefnt samkeppnisákvæði og hélt það því gildi sínu. Við mat á því hvort um sambærileg störf sé að ræða, verður að miða við störfin eins og þau voru þegar stefndi réði sig til samkeppnisaðilans. Verður því ekki fallist á það með stefnda að störf hans hjá stefnanda og A4 hafi ekki verið sambærileg.

Fyrirsvarsmaður stefnanda lýsti því hér fyrir dóminum að stefndi hefði verið góður og öflugur starfsmaður sem hafi verið trúað fyrir miklu og að starfssvið hans hafi ekki í upphafi eingöngu verið bundið við sölumennsku. Þá kom fram að stefndi hafi sem rekstrarstjóri hjá Office 1 Superstore verið stjórnandi hjá fyrirtækinu og var framburður stefnda á sama veg að þessu leyti þar sem hann kvaðst hafa unnið sem rekstrarstjóri við hlið markaðsstjóra, innkaupastjóra, og yfirmanns fyrirtækjasviðs. Stefndi bar hér fyrir dóminum að hann hefði um tíma bæði gegnt störfum rekstrarstjóra og markaðsstjóra og jafnframt unnið við starfsmannahald, þ.m.t. starfsmannaráðningar. Þá hafi hann á tímabili verið yfirmaður fyrirtækjasviðs Office 1 Superstore og þekkt margar hliðar starfseminnar. Kannaðist stefndi við að hafa verið lykilstarfsmaður fyrirtækisins en taldi sig þó hins vegar ekki hafa búið yfir trúnaðarupplýsingum þótt hann tæki jafnframt fram að fyrirtækið hefði ekki viljað flagga afsláttarkjörum sínum.

Fram er komið að stefndi gegndi stjórnunarstöðu hjá stefnanda um tíma og var þar áður mikilvægur starfsmaður sem var ekki með nákvæmlega afmarkað  starfssvið. Er komið fram að stefndi var í beinu sambandi við viðskiptamenn og bar ríka trúnaðarskyldu. Þegar litið er til starfa stefnda hjá stefnanda verður að líta svo á að stefndi hafi hlotið að búa yfir ýmsum upplýsingum um starfsemi stefnanda.  

Það er grunnregla í samningarétti að samninga skuli halda. Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 7/1936 er gert ráð fyrir að atvinnurekandi geti samið við starfsfólk um að það ráði sig ekki í vinnu hjá öðrum í framhaldi af ráðningartímanum. Eru þar jafnframt tilgreindar tilteknar ástæður sem valda því að slík samningsákvæði séu óskuldbindandi. Í samkeppnisákvæði framangreindra ráðningarsamninga milli aðila þessa máls lofar launþegi m.a. að hefja ekki störf hjá samkeppnisaðila á sama rekstrarsviði í tvö ár frá starfslokum. Fyrirsvarsmaður stefnanda bar hér fyrir dóminum að í raun féllu einungis tvö fyrirtæki undir skilgreiningu ákvæðisins um samkeppnisaðila á sama rekstrarsviði. Verður því að telja að samningsákvæðið hafi verið þröngt og afmarkað og sett í því skyni að vernda ákveðna og lögmæta samkeppnishagsmuni. Gildistími ákvæðisins er tvö ár sem telst hæfilegur. Ákvæðið verður ekki talið vera víðtækara en nauðsynlegt var til þess að varna samkeppni. Fram kom hjá stefnda hér fyrir dóminum að hann hefði átt auðvelt með að afla sér atvinnu eftir að hann lauk störfum hjá stefnanda. Þegar allt framanritað er virt verður ekki talið að umrætt samningsákvæði hafi skert atvinnufrelsi stefnda með ósanngjörnum hætti. Eru því hvorki skilyrði til þess að telja loforð stefnda óskuldbindandi fyrir hann með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga nr. 7/1936 né til 36. gr. sömu laga.

Samkvæmt 7. gr. ráðningarsamnings aðila varðar brot gegn ákvæðinu févíti allt að 10% af föstu mánaðarkaupi fyrir hvern dag. Fram er komið að mánaðarlaun stefnda voru 200.000 krónur í upphafi en hækkuðu síðar í 400.000 krónur. Stefnandi gerir kröfu um að stefndi greiði 40.000 krónur á dag í tvö ár eða 730 daga. Framlagðir ráðningarsamningar sýna að stefndi gekkst undir framangreint févíti ryfi hann samninginn við stefnanda en viðmiðunin um allt að 10% af föstu mánaðarkaupi fyrir hvern dag hefur væntanlega átt að vera til þess fallin að koma í veg fyrir samningsrof. Er leitt í ljós að stefndi varð ekki við áskorun stefnanda um að hætta í nýja starfinu.

Ekki verður fallist á það með stefnda að stefnandi þurfi að sanna tjón vegna brots stefnda á títtnefndu samningsákvæði um févíti enda felur það í sér samningsbundnar bætur. Við ákvörðun bóta verður litið til þess að stefndi réði sig sem launaðan starfsmann til samkeppnisaðila og starfaði þar í þrjá mánuði en stofnaði ekki sitt eigi fyrirtæki og þykir rétt að horfa til mánaðarlauna stefnda við gerð fyrri ráðningarsamningsins. Þykir verða að ákveða heildarbætur til stefnanda vegna samningsrofs stefnda að álitum og teljast þær hæfilega metnar 1.300.000 krónur. Verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda þá fjárhæð með dráttarvöxtum frá dómsuppsögu til greiðsludags eins og nánar greinir í dómsorði.

Með vísan til ákvæða 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.

Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

Dómsorð:

Stefndi, Einar Þór Sigurgeirsson, greiði stefnanda, Egilssyni ehf., 1.300.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá uppsögu dóms þessa til greiðsludags.

Málskostnaður fellur niður.