Hæstiréttur íslands
Mál nr. 47/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Dómkvaðning matsmanns
|
|
Þriðjudaginn 10. febrúar 2015. |
|
Nr. 47/2015.
|
Sævar Jón Gunnarsson (Björn Þorri Viktorsson hrl.) gegn Landsbankanum hf. (Aðalsteinn E. Jónasson hrl.) |
Kærumál. Dómkvaðning matsmanns.
Aðilar deildu um skuldbindingargildi verðtryggingarákvæðis í tilteknum lánssamningi. Í kjölfar þess að aflað var ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins í málinu lagði S fram beiðni um að dómkvaddur yrði matsmaður til að svara ellefu spurningum til að skýra með nánari hætti eðli, inntak og framkvæmd útreikninga vísitölu neysluverðs og verðtryggðra lána og þeim stjórnvalds- og eftir atvikum vinnureglum sem tíðkaðar væru hér á landi. Var beiðni S hafnað þar sem matsspurningarnar þóttu ýmist tilgangslausar til sönnunar, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, í þeim fælust úrlausnaratriði sem ekki krefðust sérfræðilegs álits eða mats á staðreyndum, sbr. 1. mgr. 60. gr. laganna, þær reyndu á lagaleg atriði sem heyrðu undir dómstóla, sbr. 2. mgr. 60. gr. þeirra eða ekki hefði verið gerð viðhlítandi grein fyrir þýðingu þeirra fyrir sakarefni málsins.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. janúar 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. desember 2014, þar sem hafnað var beiðni sóknaraðila um dómkvaðningu matsmanns. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að umbeðin dómkvaðning fari fram. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Eins og greinir í hinum kærða úrskurði lagði sóknaraðili fram beiðni um dómkvaðningu matsmanns í máli sínu á hendur varnaraðila í framhaldi af ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins 24. nóvember 2014 í máli E-27/13, sem héraðsdómur aflaði að frumkvæði sóknaraðila. Matsspurningarnar, sem orðrétt eru teknar upp í hinum kærða úrskurði, eru í ellefu liðum og greinast sumar þeirra í fleiri undirliði. Þau atriði, sem sóknaraðili óskar svara við í þriðju og fjórðu matsspurningunni, er unnt að upplýsa með öðrum og nærtækari úrræðum og er fyrirhugað mat að þessu leyti tilgangslaust til sönnunar, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991. Fyrsti liður fimmtu matsspurningarinnar er óljós og með öllu skortir á að sóknaraðili hafi gert viðhlítandi grein fyrir þýðingu hans fyrir sakarefni málsins. Spurningin er því tilgangslaus til sönnunar, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991. Annar liður áttundu matsspurningar og fyrri liður þeirrar tíundu eru því marki brenndir að um er að ræða úrlausnaratriði sem ekki krefjast sérfræðilegs álits eða mats á staðreyndum, sbr. 1. mgr. 60. gr. laga nr. 91/1991. Það sama á við um fjórða lið fimmtu matsspurningar og einnig níundu og tíundu matsspurningu. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með skírskotun til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Sævar Jón Gunnarsson, greiði varnaraðila, Landsbankanum hf., 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. desember 2014.
Mál þetta var höfðað með stefnu þingfestri 29. janúar 2013. Stefnandi er Sævar Jón Gunnarsson, Höfðabraut 2, Akranesi. Stefndi er Landsbankinn hf., Austurstræti 11, Reykjavík. Við fyrirtöku málsins 5. desember sl. lagði stefnandi fram beiðni um dómkvaðningu eins matsmanns með vísan til IX. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Af hálfu stefnda var gerður fyrirvari við beiðnina og henni síðar mótmælt. Lögmönnum aðila var gefinn kostur á munnlegum athugasemdum í þinghaldi 17. desember sl. en ágreiningur aðila að svo búnu tekinn til úrskurðar.
Stefnandi vísar til þess að með matsbeiðni sinni freisti hann þess að skjóta frekari stoðum undir málsástæður sínar og kröfur í málinu sem snúist um að verðtryggingarákvæði lánssamningsins 19. nóvember 2008 séu óskuldbindandi. Stefnandi vísar til þess að í málinu reyni á réttarreglur um neytendalán, meðal annars samkvæmt reglum EES-samningsins. Bent er á ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins í þágu málsins 24. nóvember sl. og gagnaframlagningu stefnda vegna þess. Telur stefnandi að þessi atriði knýi hann til þess að leita álits hæfs og sérfróðs aðila til að skýra með nánari hætti eðli, inntak og framkvæmd útreikninga vísitölu neysluverðs og verðtryggðra lána samkvæmt lögum nr. 12/1995 og þeim stjórnvalds- og eftir atvikum vinnureglum sem tíðkaðar eru hér á landi. Í munnlegum athugasemdum sínum vísaði lögmaður stefnanda til þess að í stefnu komi fram áskilnaður um frekari gagnaöflun, meðal annars með matsbeiðni. Þá lagði hann áherslu á að tilefni til þess að leggja fram matsbeiðni hefði fyrst komið fram við téð álit EFTA-dómstólsins. Einnig kom fram að hann teldi rétt að til matsstarfa yrði kvaddur tryggingarstærðfræðingur eða maður með sambærilega kunnáttu.
Þær spurningar sem stefnandi óskar eftir að matsmaður svari eru eftirfarandi:
1. Hvernig er vísitala neysluverðs, hér eftir nefnd „vísitalan” skv. lögum nr. 12/1995 nákvæmlega reiknuð út? Hvernig er aflað upplýsinga um magntölur og verð til að reikna út fjárhæð neyslukörfuna?
2. Að hvaða marki er hægt að ráða af lögum nr. 12/1995 hvernig vísitalan er reiknuð út í hverju tilviki og hvaða þætti í útreikningi hennar er ekki unnt að ráða af lögunum?
3. Hvar liggja fyrir opinberar upplýsingar um forsendur og útreikningsaðferðir vísitölunnar umfram þær sem fram koma í lögunum sjálfum?
4. Að hvaða marki er hægt að ráða af þeim upplýsingum sem liggja utan tilvitnaðra laga hvernig vísitalan er reiknuð út í hverju tilviki og hvaða þætti í útreikningi hennar er ekki unnt að ráða af þessum umframupplýsingum?
5. Hver eru helstu álitaefni við ákvörðun magnstærða og verðs til að reikna út vísitöluna? Hvernig er leyst úr slíkum álitaefnum á erlendum vettvangi og hér á landi? Geta ákvarðanir um val á leiðum í þessu sambandi haft áhrif á niðurstöðu útreikninga? Af hvaða gögnum getur lántakandi verðtryggðs láns (neytandi) ráðið hver þessi álitaefni eru, hvernig leyst er úr þeim og hvort ákvörðun um úrlausn þeirra hafi áhrif á niðurstöðu útreikninga?
6. Eru fleiri en ein aðferð til að reikna verðvísitölu? Hverjar eru þessar aðferðir? Má ráða af lögum hvaða aðferð er beitt hér á landi? Af hvaða gögnum geta neytendur ráðið hvaða aðferð er beitt við útreikninginn og hvort aðferðin hafi þýðingu um niðurstöðu útreikninga?
7. Er hætta á kerfisbundinni skekkju við útreikning vísitölunnar eins og hann er framkvæmdur hér á landi? Hvaða orsakir gætu legið til grundvallar slíkri skekkju? Eru kerfisbundnar skekkjur líklegar til að valda hærra gildi vísitölunnar en ella? Liggja fyrir alþjóðlegar og innlendar rannsóknir um þetta efni? Ef svo er, hverjar eru helstu niðurstöður þeirra rannsókna?
8. Reiknar Hagstofa Íslands út aðra vísitölu neysluverðs en vísitöluna? Ef svo er, hver er hún og hvernig er hún frábrugðin vísitölu neysluverðs? Þróast þessar vísitölur eins á milli mánaða eða yfir lengri mælingartímabil? Ef fjárskuldbindingar eru tengdar verðlagsþróun neysluvara, myndi það þá skipta máli um fjárhæð þessara skuldbindinga við hvaða vísitölu neysluverðs þær eru tengdar?
9. Hvaða möguleika hefur neytandi án sérfræðiþekkingar á vísitölunni á að spá fyrir um þróun hennar til 5 ára, 10 ára, 20 ára og 40 ára með nægilegri vissu til að geta áætlað greiðslur af verðtryggðu láni á lánstímanum? Hvaða möguleika hafa sérfróðir aðilar til að spá fyrir um gildi vísitölunnar til sama tíma?
10. Er reikniaðferð á afborgunum af verðtryggðum jafngreiðslulánum birt með opinberum hætti þannig að hún geti talist gagnsæ og auðskiljanleg fyrir almennan neytanda? Er af hálfu opinberra aðila haldið uppi eftirliti með útreikningi lánastofnana á vöxtum og afborgunum slíkra lána til að tryggja að hann sé réttur og sambærilegur milli lánastofnana?
11. Beitir Hagstofa Íslands einhverjum þeim aðferðum, við útreikning vísitölunnar, form og innihald grunns vísitölunnar, eða neyslukannanir sem liggja til grundvallar ákvörðun um þær vörur sem eru innan vísitölunnar, sem ekki eru lögfestar eða koma fram í skýrum stjórnvaldsfyrirmælum?
Stefndi telur matsbeiðni stefnanda í fyrsta lagi of seint fram komna. Með hliðsjón af málatilbúnaði stefnanda hafi verið fullt tilefni til þess að leggja beiðnina fram í beinu framhaldi af þingfestingu málsins eða framlagningu greinargerðar stefnda. Í annan stað telur stefndi beiðnina lúta að lagaatriðum sem dómara beri sjálfum að leggja mat á samkvæmt 2. mgr. 60. gr. laga nr. 91/1991. Í þriðja lagi bendir stefndi á að þau atriði sem stefnandi óski svara við megi finna í lögum, stjórnvaldsfyrirmælum eða í upplýsingaveitum á vegum hins opinbera. Þá sé stefnanda í lófa lagið að upplýsa um ýmis atriði með fyrirspurn til opinberra aðila. Í fjórða lagi telur stefnandi ýmsar spurningar ótengdar eða þýðingarlausar fyrir málatilbúnað stefnanda og því andstæðar 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991.
Niðurstaða
Beiðni stefnanda um mat var lögð fram í beinu framhaldi af ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins 24. nóvember sl. sem dómurinn hafði aflað að frumkvæði stefnanda. Með hliðsjón af þessu, svo og í ljósi almenns áskilnaðar stefnanda um frekari gagnaöflun, verður ekki á það fallist að beiðni stefnanda um dómkvaðningu sé svo seint fram komin að fyrir liggi að matsgerð samkvæmt henni verði tilgangslaus til sönnunar, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991, eða beiðnin sé ósamrýmanleg meginreglunni um skilvirka meðferð dómsmála. Verður beiðni stefnanda því ekki hafnað af þessari ástæðu.
Matsbeiðni stefnanda er að verulegu leyti því marki brennd að þar er óskað eftir því að matsmaður, sem stefnandi telur að eigi að vera tryggingarstærðfræðingur, upplýsi um atriði sem annað hvort kom berum orðum fram í settum lögum og stjórnvaldsfyrirmælum eða fela í sér nánari túlkun á réttarreglum sem styðjast við slíkar heimildir. Það kemur ekki í veg fyrir dómkvaðningu matsmanns þótt í matsspurningu sé gert ráð fyrir því að matsmaður taki afstöðu til lagalegra atriða þegar spurningunni er svarað. Hins vegar getur megin tilgangur mats ekki verið sá að fá skorið úr um efni réttarreglna, hvort heldur er almennt eða með hliðsjón af atvikum máls, sbr. 2. mgr. 60. gr. laga nr. 91/1991. Að mati dómara brjóta spurningar í fyrsta lið fyrstu matsspurningar, önnur matsspurning, fjórða matsspurningu, fyrstu þrír liðir áttundu matsspurningar og síðari liður 10. matsspurningar bersýnilega gegn þessum áskilnaði. Þá snúast spurningar í síðasta lið fimmtu matsspurningar, sjötta matsspurning og 9. matsspurning í reynd einnig á lagaleg atriði sem heyrir undir dóminn samkvæmt ákvæði 2. mgr. 60. gr. laga nr. 91/1991.
Þótt játa verði stefnanda svigrúmi til þess að afla matsgerðar til stuðnings málsástæðum sínum, meðal annars í ljósi þess að hann ber kostnað og áhættu af sönnunargildi matsgerðar, verður allt að einu að gera þá kröfu til matsbeiðni að fyrirhuguð matsgerð hafi það að markmiði að afla sérfræðilegs álits eða mats á staðreyndum svo sem gert er ráð fyrir með 1. mgr. 60. gr. laga nr. 91/1991. Með síðari lið fyrstu matsspurningar, öðrum lið fimmtu matsspurningar og 11. matsspurningu gerir stefnandi hins vegar ráð fyrir að matsmaður upplýsi um tilteknar staðreyndir án þess að fram fari, að séð verður, skoðun eða mat svo sem gert er ráð fyrir með umræddu ákvæði. Verður enn fremur að telja að stefnanda sé tæk önnur og nærtækari úrræði til þess að fá upplýst um atriði sem þessi, t.d. með öflun og framlagningu skriflegra gagna eða skýrslum vitna. Er hið fyrirhugaða mat að þessu leyti í tilgangslaust til sönnunar samkvæmt 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991. Þótt þriðji liður fimmtu matsspurningar lúti vissulega að mati er hér ekki um að ræða úrlausnaratriði sem þarfnast sérþekkingar við.
Sjöunda matsspurning stefnanda beinist að „kerfisbundinni skekkju“ við útreikning vísitölu eins og hann er framkvæmdur hér á landi. Dómari telur spurningar stefnanda í þessum lið óljósar auk þess sem á skortir að stefnandi hafi gert viðhlítandi grein fyrir þýðingu þeirra fyrir sakarefni málsins.
Samkvæmt öllu framangreindu verður beiðni stefnanda um dómkvaðningu matsmanns hafnað í heild sinni.
Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð
Beiðni stefnanda, Sævars Jóns Gunnarssonar, um dómkvaðningu matsmanns er hafnað.