Hæstiréttur íslands
Mál nr. 59/2004
Lykilorð
- Líkamstjón
- Skaðabætur
- Örorka
- Þjáningarbætur
- Vextir
- Fyrning
|
|
Fimmtudaginn 23. september 2004. |
|
Nr. 59/2004. |
Hlöðver Sigurðsson(Einar Gautur Steingrímsson hrl.) gegn Tryggingamiðstöðinni hf. (Guðmundur Pétursson hrl.) |
Líkamstjón. Skaðabætur. Örorka. Þjáningabætur. Vextir. Fyrning.
H, sem rak veitingarekstur í eigin nafni, lenti í umferðarslysi á árinu 1995. Að því er snerti bætur til H fyrir varanlega örorku taldi Hæstiréttur að við ákvörðun árslauna samkvæmt 7. gr. þágildandi skaðabótalaga væri óraunhæft að miða við þau verðmæti sem kynnu að hafa orðið til í einkarekstri H á árunum 1987 til 1995, enda réðist eignamyndun í slíkum rekstri af mörgum öðrum þáttum en vinnuframlagi H einu. Þá tókst H heldur ekki að sýna fram á að miða bæri við hærri árslaun en héraðsdómur hafi lagt til grundvallar, þ.e. meðallaun iðnaðarmanna. Var niðurstaða héraðsdóms, sem unað var við af stefnda, T hf., því staðfest. Jafnframt var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að hafna kröfu H um bætur fyrir tímabundið atvinnutjón þar sem hann hafi ekki sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir tekjuskerðingu á því tímabili sem um var að ræða. Þá hafnaði Hæstiréttur kröfu T hf. um lækkun þjáningabóta til H á grundvelli sérstakrar heimildar lokamálsliðar 1. mgr. 3. gr. skaðabótalaga. Að því er snerti vexti af kröfu H tók Hæstiréttur fram að T hf. hafi ekki tilgreint sérstaklega er tilteknar greiðslur voru inntar af hendi til H til hvers þær skyldu ganga. Við þær aðstæður hafi H verið rétt að ráðstafa hverri greiðslu fyrst til greiðslu áfallinna vaxta, en því sem þá hafi staðið eftir til lækkunar á höfuðstól kröfunnar. Var enginn hluti vaxtakröfu H því talinn fyrndur og krafa hans um vexti frá slysdegi tekin til greina.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 30. janúar 2004. Hann krefst þess aðallega að stefnda verði gert að greiða sér 23.773.738 krónur með 2% vöxtum frá 5. desember 1995 til 17. september 2002, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum fimm nánar tilgreindum innborgunum samtals að fjárhæð 5.602.499 krónur, sem gangi fyrst til greiðslu áfallinna vaxta af kröfunni miðað við innborgunardaga en síðan til lækkunar höfuðstóls hennar, auk innborgunar að fjárhæð 2.655.171 króna, sem greidd var 20. nóvember 2003. Til vara krefst áfrýjandi lægri fjárhæðar úr hendi stefnda. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, en honum hefur verið veitt gjafsókn fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst þess aðallega að héraðsdómur verði staðfestur og sér dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.
Stefndi greiddi áfrýjanda 2.655.171 krónu 20. nóvember 2003 í samræmi við niðurstöðu hins áfrýjaða dóms.
I.
Málavextir eru þeir að áfrýjandi varð fyrir umferðarslysi á Höfðabakka í Reykjavík 5. desember 1995. Ekki er ágreiningur um bótaskyldu stefnda vegna slyssins. Meðal gagna málsins eru taugasálfræðilegt mat Þuríðar J. Jónsdóttur taugasáfræðings, 22. febrúar 1998, greinargerð Grétars Guðmundssonar læknis, 23. febrúar 1998 og sálfræðilegt mat Gylfa Ásmundssonar sálfræðings, 1. júlí 1998 er lúta öll að afleiðingum slyssins fyrir áfrýjanda. Þá liggja einnig fyrir fjórar álits- og matsgerðir um afleiðingar slyssins og áhrif þeirra á heilsufar áfrýjanda. Er niðurstöðum þeirra nánar lýst í hinum áfrýjaða dómi. Þar er einnig lýst niðurstöðu matsmanns 16. júní 2003, sem dómkvaddur var til að meta „hvert hafi verið markaðsverðmæti vinnuframlags“ áfrýjanda „síðustu 12 mánuði fyrir slysið“. Aðilar eru sammála um að leggja niðurstöðu hinna dómkvöddu yfirmatsmanna 6. mars 2003 til grundvallar uppgjöri bóta varðandi varanlegan miska áfrýjanda vegna slyssins, stig varanlegrar örorku hans og tímabil til viðmiðunar tímabundins atvinnutjóns. Þá eru þeir sammála um við hvaða tímabil skuli miða uppgjör þjáningabóta. Fyrir Hæstarétti er ágreiningur aðila fjórþættur: Við hvað skuli miða árslaun áfrýjanda við ákvörðum bóta fyrir varanlega örorku, sbr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993; hvort áfrýjandi hafi orðið fyrir tímabundnu atvinnutjóni og þá við hvaða laun eða tekjur skuli miða bætur fyrir það, sbr. þágildandi 2. gr. skaðabótalaga; hvort beita skuli heimild lokamálsliðar 1. mgr. 3. gr. skaðabótalaga til skerðingar þjáningabóta og loks greinir aðila á um fyrningu vaxta af bótakröfu áfrýjanda.
II.
Áfrýjandi rak frá 1986 veitingarekstur í eigin nafni. Á árinu 1997 var reksturinn seldur einkahlutafélaginu Hlöllabátum ehf., sem mun vera í eigu áfrýjanda. Samkvæmt 1. tölulið A liðar 7. gr. þágildandi laga um tekjuskatt og eignarskatt nr. 75/1981 með síðari breytingum skyldi sá sem vinnur við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi reikna sér til tekna eigi lægra endurgjald fyrir starf sitt en hefði hann innt það af hendi fyrir óskyldan eða ótengdan aðila. Voru framtaldar tekjur áfrýjanda vegna þessa 1.564.512 krónur árlega fyrir árin 1993, 1994 og 1995 en 1.720.968 krónur fyrir árið 1996. Framtaldar launatekjur áfrýjanda vegna starfa hjá Hlöllabátum ehf. fyrir árið 1997 voru 1.162.377 krónur, 1.189.836 krónur fyrir árið 1998 og 665.000 krónur fyrir árið 1999. Árið 1993 nam tap af rekstri áfrýjanda 947.992 krónum, 7.012.490 krónum árið 1994 og 9.090.116 krónum 1995. Árið 1996 var hagnaður af rekstri áfrýjanda 1.408.824 krónur en það ár var bókfærð sala á nánar tilgreindri eign og söluhagnaður af henni 6.407.829 krónur færður til tekna. Í árslok 1996 var eigið fé í rekstrinum neikvætt um 16.701.411. krónur.
Áfrýjandi reisir kröfu sína um bætur fyrir varanlega örorku á því að við ákvörðun árslauna samkvæmt þágildandi 7. gr skaðabótalaga beri að miða við þau verðmæti sem til hafi orðið í einkarekstri áfrýjanda á árunum 1987 til 1995, en þau hafi hann skapað með vinnu sinni. Miðað við tilteknar forsendur um söluverðmæti og matsverð eigna rekstrarins í árslok 1995 hafi nettó eignaaukning í rekstrinum á þessu tímabili numið nærri 30 milljónum króna. Sé þessari eignamyndun skipt niður á mánuði komi í ljós að 12 mánaða eignaaukning að viðbættum reiknuðum launum nemi hærri fjárhæð en hámarksviðmiðun þágildandi 3. mgr. 7. gr skaðabótalaga um árslaun. Því sé krafan miðuð við þar greint hámark. Í yfirmatsgerð 6. mars 2003 er fjallað nokkuð um þessa duldu eignamyndun í rekstri áfrýjanda og komist að þeirri niðurstöðu að hún hafi numið miklu mun lægri fjárhæð en áfrýjandi telur eða um 2.700.000 krónum.
Fallast verður á það með héraðsdómi að burtséð frá mismunandi mati á hversu mikil dulin eignamyndun hafi verið í rekstri áfrýjanda sé viðmiðun af þessu tagi til ákvörðunar árslauna samkvæmt 7. gr. skaðabótalaga óraunhæf, enda ræðst eignamyndun í slíkum rekstri af mörgum öðrum þáttum en vinnuframlagi áfrýjanda einu, þar á meðal vinnuframlagi annarra starfsmanna og markaðsaðstæðum, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 29. nóvember 2001 í máli nr. 143/2001.
Áfrýjandi byggir á því til vara að miða beri árslaunin við markaðsverðmæti vinnuframlags hans síðustu 12 mánuði fyrir slysið. Var að hans beiðni, eins og að framan greinir, dómkvaddur maður til að meta þetta markaðsvermæti. Eru niðurstöður matsgerðarinnar 16. júní 2003 raktar í hinum áfrýjaða dómi. Eru þær að meginstefnu reistar á viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra fyrir reiknað endurgjald við eigin rekstur í staðgreiðslu fyrir árið 1995. Verður ekki séð að matsmaður hafi aflað sjálfstæðra gagna varðandi grundvöll matsins ef frá er talið óformlegt viðtal við nafngreindan veitingamann. Þegar litið þessa veika grundvallar matsins, þess að áfrýjandi hefur sjálfur, eins og að framan er rakið, með framtölum sínum árin 1995 og 1996 lagt mat á hvert endurgjald fyrir vinnu hans síðustu 12 mánuðina fyrir slysið hefði orðið hefði hann innt hana af hendi fyrir óskyldan aðila, sem og þess að fallast verður á það með yfirmatsmönnum að ekki verði séð að það mat áfrýjanda sé í ósamræmi við eðli og afkomu rekstrarins, verður niðurstaða um árslaun áfrýjanda til ákvörðunar örorkubótum ekki byggð á matsgerðinni 16. júní 2003. Verður því ekki talið að áfrýjanda hafi tekist að sýna fram á að miða skuli við hærri árslaun en gert var í hinum áfrýjaða dómi, en með honum var stefnda gert að greiða áfrýjanda 7.424.547 krónur í bætur vegna varanlegrar örorku að viðbættum 445.473 krónum vegna tapaðra lífeyrisréttinda. Þar sem stefndi unir niðurstöðu héraðsdóms um þennan þátt málsins verður hún staðfest. Stefndi verður samkvæmt því dæmdur til að greiða áfrýjanda 7.870.020 krónur í bætur fyrir varanlega örorku.
Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um bætur fyrir tímabundið atvinnutjón.
Ekki er ágreiningur um að miða skuli þjáningabætur áfrýjanda við að hann hafi verið veikur en ekki rúmliggjandi frá 5. desember 1995 til 28. febrúar 1997. Stefndi krefst þess hins vegar að nýtt verði heimild lokamálsliðar 1. mgr. 3. gr. skaðabótalaga um að víkja til lækkunar frá fjárhæðum þeim, sem kveðið var á um í þágildandi 1. málslið málsgreinarinnar. Krefst hann þess að bæturnar verði skertar um 50% eftir að náð er þeirri fjárhæð, sem greinir í lokamálsið 1. mgr. greinarinnar. Féllst héraðsdómur á það. Stefndi hefur ekki fært fram nein haldbær rök fyrir því að sérstök ástæða sé til að beita þessari lækkunarheimild, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 14. júní 2001 í máli nr. 32/2001. Verður krafa áfrýjanda samkvæmt þessum lið að fjárhæð 419.430 krónur því tekin að fullu til greina.
Ekki er ágreiningur um miskabótakröfu áfrýjanda að fjárhæð 1.601.100 krónur.
Stefndi telur að áfallnir vextir á kröfu áfrýjanda fyrir 17. september 1998 séu fyrndir samkvæmt 2. tölulið 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda, en þá voru fjögur ár liðin frá því að mál þetta var höfðað fyrir héraðsdómi. Áfrýjandi heldur því hins vegar fram að hann hafi ráðstafað fjórum nánar tilgreindum innborgunum stefnda, fyrst til greiðslu áfallinna vaxta af kröfu sinni og síðan til greiðslu höfuðstóls hennar. Hafi stefndi ekki tilgreint til hvaða hluta kröfu áfrýjanda þessar innborganir skyldu renna. Með þeim hafi allir vextir eldri en frá 27. janúar 1999 verið greiddir og reyni því ekki á ákvæði laga um fyrningu vaxta. Þær innborganir sem hér um ræðir eru 200.000 krónur er stefndi greiddi 29. desember 1997, 200.000 krónur er hann greiddi 18. mars 1998, 1.000.000 krónur er hann greiddi 2. september 1998 og 700.000 krónur er greiddar voru 27. janúar 1999. Stefndi mótmælir því að greiðslum frá honum vegna slyssins hafi fyrst verið ráðstafað til að greiða vexti en síðan inn á þann höfuðstól, sem vextir reiknast af. Ávallt hafi verið ljóst hvaða kröfuliði var verið að greiða og engar athugasemdir eða fyrirvarar gerðir af hálfu áfrýjanda varðandi það. Meðal gagna málsins er yfirlit yfir greiðslur stefnda til áfrýjanda vegna slyssins 30. október 2002, er stefndi lagði fram í héraðsdómi. Er hver fyrrnefndra greiðslna þar tilgreind sem „innágreiðsla v/slyss“, en varðandi aðrar greiðslur á yfirlitinu er tiltekið til hvers viðkomandi greiðsla skuli ganga. Hvorki hafa verið lagðar fram í málinu kvittanir fyrir móttöku þessara greiðslna né önnur gögn er varða einstakar greiðslur. Verður samkvæmt framansögðu við það að miða að stefndi hafi ekki tilgreint sérstaklega er greiðslur þessar voru inntar af hendi til hvers þær skyldu ganga. Verður að telja að áfrýjanda sé við þær aðstæður rétt að ráðstafa hverri framangreindra greiðslna fyrst til greiðslu áfallinna vaxta, en því sem þá kann að standa eftir til lækkunar á höfuðstól kröfunnar, sbr. dóm Hæstaréttar 17. október 2002 í máli nr. 230/2002. Þar sem því hefur ekki verið mótmælt af hálfu stefnda að umræddar greiðslur hafi nægt til að greiða að fullu vexti eldri en frá 17. september 1998 verður enginn hluti vaxtakröfu áfrýjanda talinn fyrndur og krafa hans um vexti frá slysdegi tekin til greina.
Samkvæmt framansögðu verður stefndi dæmdur til að greiða áfrýjanda 9.890.550 krónur með vöxtum eins og í dómsorði greinir allt að frádregnum innborgunum á 200.000 krónum 29. desember 1997, 200.000 krónum 18. mars 1998, 1.000.000 krónum 2. september 1998, 700.000 krónum 27. janúar 1999, 3.502.499 krónum 8. apríl 2003 og 2.655.171 krónu 20. nóvember 2003.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað verður staðfest á þann hátt er í dómsorði greinir.
Stefndi verður dæmdur til að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti er rennur í ríkissjóð, en gjafsóknarkostnaður áfrýjanda í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, allt eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Stefndi, Tryggingamiðstöðin hf., greiði áfrýjanda, Hlöðveri Sigurðssyni, 9.890.550 krónur með 2% ársvöxtum frá 5. desember 1995 til 17. september 2002 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum á 200.000 krónum 29. desember 1997, 200.000 krónum 18. mars 1998, 1.000.000 krónum 2. september 1998, 700.000 krónum 27. janúar 1999, 3.502.499 krónum 8. apríl 2003 og 2.655.171 krónu 20. nóvember 2003.
Stefndi greiði 300.000 krónur í málskostnað í héraði og 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti, er renni í ríkissjóð. Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans 600.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 31. október 2003.
Stefnandi málsins er Hlöðver Sigurðsson, kt. 290846-7819, Gerðhömrum 14, Reykjavík, en stefndi er Tryggingamiðstöðin hf., kt. 660269-2079, Aðalstræti 6-8, Reykjavík.
Málið er höfðað með stefnu dagsettri 17. september 2002, sem árituð var sama dag um birtingu af lögmanni stefnda. Það var þingfest hér í dómi 26. sama mánaðar.
Málið var dómtekið 13. október sl. að afloknum skýrslutökum og munnlegum málflutningi.
Stefnandi fékk veitta gjafsókn í málinu með leyfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 22. maí 2003.
Dómkröfur:
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 23.773.738 krónur, auk 2% ársvaxta frá 5. desember 1995 til stefnubirtingardags, sem höfuðstólsfærist á 12 mánaða fresti, í fyrsta skipti 5. desember 1996. Stefnandi krefst þess,að krafan beri dráttarvexti, sem reiknist frá stefnubirtingardegi til greiðsludags, af samanlagðri fjárhæð höfuðstóls og þegar áfallinna vaxta frá þeim degi til greiðsludags, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001, allt að frádregnum eftirtöldum greiðslum stefnda. Þann 29. desember 1997 200.000 kr., þann 18. mars 1998 200.000 kr., þann 2. september 1998 1.000.000 kr., þann 27. janúar 1999 700.000 kr., og þann 8. apríl 2003 3.502.499 kr.
Stefnandi krefst einnig málskostnaðar úr ríkissjóði og málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.
Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda, en til vara lækkunar á dómkröfum stefnanda. Í aðalkröfu krefst stefndi málskostnaðar að mati dómsins, en í varakröfu að málskostnaður verði felldur niður.
Málavextir, málsástæður og lagarök málsaðila.
Málavextir eru í aðalatriðum þeir, að stefnandi varð fyrir umferðarslysi við Gullinbrú í Reykjavík hinn 5. desember 1995. Við slysið tognaði stefndi á hálsi, herðum og á hægri öxl. Einnig hlaut hann varanlegan heilaskaða, einkum á framheila að áliti sérfræðinganna Þuríðar J. Jónsdóttur, taugsáfræðings, Gylfa Ásmundssonar, sálfræðings og Grétars Guðmundssonar, taugasérfræðings, en hvert um sig skoðaði stefnanda. Vottorð þeirra liggja fyrir í málinu. Einnig liggja fyrir fjölmörg læknisvottorð, sem ekki þykir ástæða til að lýsa sérstaklega.
Stefnandi lýsir málsatvikum svo, að hann hafi rekið þrjá skyndibitastaði undir firmaheitinu Hlöllabátar, auk kjötvinnslu, þegar slysið átti sér stað. Uppbygging fyrirtækisins hafi gengið vel, þar til hann lenti í slysinu. Gott gengi fyrirtækisins hafi ekki birst í ársreikningum þess, eins og algengt sé hjá fyrirtækjum í örri uppbyggingu. Verðmætin hafi hins vegar komið í ljós, eins og framlögð skjöl sýni, þegar stefnandi hóf að selja einstaka veitingastaði úr veitingahúsakeðju sinni. Stefnandi stofnsetti einkahlutafélagið Hlöllabáta ehf. á árinu 1997 og lagði eignir einkafirma síns til félagsins. Einkahlutafélagið seldi tvo veitingastaði annan við Ingólfstorg en hinn í Lækjargötu vorið 1998 fyrir 38 milljónir króna, og nam verð staðarins við Ingólfstorg u.þ.b. 34 til 35 milljónum króna að mati stefnanda.
Stefnandi reiknaði sér laun fyrir slysið og næsta ár á eftir í samræmi við viðmiðunarreglur ríkisskattstjóra um reiknað lágmarksendurgjald sjálfstætt starfandi atvinnurekenda fyrir starf við eigin atvinnurekstur. Miðaði stefnandi endurgjald sitt við lágmarksskattstofn atvinnurekenda, sem hefðu 2-4 menn í vinnu.
Framtaldar tekjur stefnanda voru sem hér segir:
Árin 1994 og 1995 1.564.512 kr. hvort ár. Árið 1996 1.720.068 kr. Árið 1997 1.162.377 kr. greitt af Hlöllabátum ehf. og eftirleiðis. Árið 1998 1.189.836 kr. Árið 1999 665.000 kr.
Stefndi viðurkennir bótaskyldu gagnvart stefnanda. Ágreiningur málsaðila snýr að því, við hvaða laun eða tekjur miða skuli bótagreiðslur til stefnanda, skv. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 (eftirleiðis skbl.), að bótum vegna tapaðra lífeyrisréttinda, en einnig að þjáningabótum honum til handa, skv. 3. gr. skbl., svo og að skaðabótum vegna tímabundins atvinnutjóns skv. 2. gr. skbl.
Fjölmargar matsgerðir liggja fyrir um afleiðingar slyssins og áhrif þeirra á heilsufar stefnanda, sem nú verður lítillega lýst.
Fyrst ber að geta matsgerðar Atla Þórs Ólasonar, læknis, sem dagsett er 29. júlí 1998. Í niðurlagi matsgerðarinnar kemur fram, að stefnandi hafi reynst ófær um að reka fyrirtæki sitt, sem ætla megi að stafi af skemmdum á framheila, sem leiði til skerðingar á einbeitingu, minni og skipulagshæfileikum, eins og fram komi í tveimur sálfræðilegum mötum og áliti taugalæknis. Síðan segir svo: Að þessum upplýsingum sammetnum er talið ljóst að geta Hlöðvers til að reka fyrirtæki sitt hafi verulega skerst. Hann kynni að vera fær til einfaldari verklegra starfa. Varanleg fjárhagsleg örorka er metin 50%. Niðurstaða Atla Þórs var að öðru leyti sú, að þjáningabætur skv. 3. gr. skbl. væri á þann veg: Rúmliggjandi, ekkert. Batnandi, með fótaferð, tvö ár. Varanlegur miski, skv. 4. grein: 30%. Varanleg örorka skv. 5. grein: 50%. Hefðbundin, varanleg læknisfræðileg örorka: 30%.
Stefndi vísaði málinu til örorkunefndar, sem skilaði álitsgerð 14. desember 1999. Niðurstaða örorkunefndar var sú, að stefnandi hefði beðið 20% miska af völdum slyssins, en mat varanlega örorku hans 30%.
Stefnandi var ósáttur við niðurstöðu örorkunefndar og fór þess á leit við Héraðsdóm Reykjavíkur hinn 5. desember 1995, að dómkvaddir yrðu matsmenn til að meta varanlegan miska og varanlega örorku hans af völdum slyssins. Einnig var þess beiðst, að matsmenn mætu, hvenær ekki væri frekari bata að vænta á heilsufari stefnanda af völdum slyssins (stöðugleikatímapunkt), samkvæmt 2. og 3. gr. skbl., eins og segir í matsbeiðni. Hinir dómkvöddu matsmenn, Stefán Már Stefánsson, lagaprófessor og Albert Páll Sigurðsson, heila- og taugasérfæringur, skiluðu niðurstöðu 23. maí 2000 og mátu varanlegan miska stefnanda 25% og að varanleg örorka hans væri sú sama. Hinn 24. ágúst s.á. lögðu matsmenn mat á það, við hvaða tímamark miða skyldi stöðugleikapunkt stefnanda í kjölfar slyssins. Að þeirra mati taldist stefnandi hafa verið rúmliggjandi í 7 daga og batnandi án þess að vera rúmliggjandi frá 12. desember 1995 til 28. febrúar 1997, sem var sama niðurstaða og Atli Þór hafði komist að. Tímabundið atvinnutjón stefnanda töldu matsmenn hafa verið þannig:
Frá 5. desember 1995 til 31. mars 1996 100%, frá 1. apríl 1996 til 30. september s.á. 75% og frá 1. október til 28. febrúar 1997 50%.
Stefndi greiddi stefnanda bætur á grundvelli niðurstöðu hinna dómkvöddu matsmanna og miðaði uppgjörið við framtaldar tekjur stefnanda á árinu 1995.
Undir rekstri málsins lagði stefnandi fram beiðni um dómkvaðningu yfirmatsmanna. Í matsbeiðni er þess óskað, að yfirmatsmenn mætu varanlegan miska stefnanda, varanlega örorku hans og tímabundið atvinnutjón í kjölfar umferðarslyssins 5. desember 1995. Þess var sérstaklega beiðst, að dómkvaddur yrði lögfræðingur, sem einnig væri löggiltur endurskoðandi, til að leggja mat á áhrif slyssins á rekstur fyrirtækis stefnanda. Dómkvaddir voru Helgi V. Jónsson, hrl. og löggiltur endurskoðandi, Júlíus Valsson, sérfræðingur í gigtarlækningum og embættislækningum og Sigurður Thorlacius, tryggingayfirlæknir og sérfræðingur í heila- og taugasjúkdómum. Í tengslum við dómkvaðningu yfirmatsmanna fór stefnandi þess á leit, með vísan til 2. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991 (hér eftir eml.) að skýrsla yrði tekin fyrir dómi af sérstaklega tilgreindum einstaklingum. Skýrslu gáfu Dagný Laxdal, vinkona stefnanda og Kolfinnu Sigrúnar Guðmundsdóttur, eiginkonu hans, eiginkona stefnanda, Guðborg Hildur Kolbeins, fjölskylduvinur stefnanda og eiginkonu hans, Salóme Ýr Rúnarsdóttir, starfsmaður hjá Hlöllabátum frá árinu 1997 og Karl Eron Sigurðsson, fjölskylduvinur og sendibílstjóri, sem annaðist útkeyrslu á vörum fyrirtækisins og aðstoðaði við rekstur þess af og til. Yfirmatsmenn fengu endurrit skýrslna þessara einstaklinga til afnota við matsgerð sína.
Niðurstaða yfirmatsmanna var á þá leið, að stefnandi hafi beðið 30% varanlegan miska af völdum slyssins. Þar af 5% vegna vægrar tognunar í hálsi og hægri öxl, en 25% vegna heilaskaða. Varanleg örorka stefnanda var metin 50%.
Í niðurstöðukafla yfirmatsgerðarinnar segir svo: Við mat á varanlegri örorku er m.a. horft til skattframtala þeirra, sem fyrir liggja, en þar kemur fram að laun yfirmatsbeiðanda eru fram til ársins 1997 reiknuð með hliðsjón af gildandi reglum skattyfirvalda um sjálfstætt starfandi einstaklinga. Eftir það eru laun hans hjá einkahlutafélaginu ákvörðuð með svipuðum hætti. Verður ekki séð að ákvörðuð laun séu í ósamræmi við eðli og afkomu rekstrar þegar til lengri tíma er litið. Hafði slysið ekki áhrif á upphæð reiknaðra launa til yfirmatsbeiðanda fyrr en 1999 en það ár og síðan er vinnuframlag yfirmatsbeiðanda og eiginkonu hans metið sem næst til helminga. Lögmaður yfirmatsbeiðanda, endurskoðandi hans og vitni, sem komið hafa fyrir dóm hafa haldið því fram að vinnuframlag yfirmatsbeiðanda í þágu rekstrar hans hafi skerst verulega og eiginkona hans tekið við umsjón hans með rekstrinum. Á það verður að fallast að trúlegt sé að vinnuframlag hans hafi skerst verulega vegna afleiðinga slyssins. Þegar hins vegar er horft til framtíðar telja yfirmatsmenn að yfirmatsbeiðandi ætti að geta nýtt reynslu sína og iðnmenntun. Þótt ekki sé hægt að gera ráð fyrir að hann vinni þar sjálfstætt, ætti hann að geta unnið afmörkuð störf hjá öðrum. Auk þess ætti hann að geta unnið önnur störf, þar sem reynir fremur á líkamlegt atgerfi en andlegt.
Yfirmatsmenn staðfestu niðurstöðu matsmannanna, Stefáns Más og Alberts Páls, um þá tímalengd, sem miða skyldi tímabundið atvinnutjón stefnanda við. Málsaðilar eru sammála um að leggja yfirmatsgerð til grundvallar um hlutfall varanlegrar örorku stefnanda og miskastig hans.
Stefndi greiddi stefnanda einnig bætur á grundvelli yfirmatsgerðarinnar og miðaði uppgjör sitt sem áður við framtaldar tekjur hans á árinu 1995, hafnaði greiðslu bóta fyrir tímabundið atvinnutjón og bótum fyrir misst lífeyrisréttindi. Þá greiddi stefndi stefnanda 319.556 krónur í þjáningabætur. Stefndi telur sig þannig hafa gert full skil að greiðslum til stefnanda. Verður sjónarmiðum hans lýst síðar.
Stefnandi sætti sig ekki við tekjuviðmiðun stefnda og niðurstöðu yfirmatsgerðarinnar að þessu leyti og fór þess því á leit við dóminn, að dómkvaddur yrði matsmaður eða matsmenn til að meta: Hvert hafi verið markaðsverðmæti vinnuframlags stefnanda síðustu 12 mánuði fyrir slysið þ. 5. desember 1995.
Dómurinn kvaddi Þórhall Björnsson, viðskiptafræðing og löggiltan endurskoðanda, til verksins. Komst matsmaður að þeirri niðurstöðu, að ekki væri um aðra leið að ræða en leggja viðmiðunarregur ríkisskattstjóra til grundvallar niðurstöðu sinni.
Hún er þríþætt og byggir í öllum tilvikum á þeirri forsendu, að starfsemi stefnanda hafi verið svo viðamikil, að hann hafi greitt fleiri en tíu starfsmönnum árslaun og viðmiðunarlaun hans hefðu því átt að falla í flokk B í viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra.
Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir mánaðarlaunum að fjárhæð 223.102 kr. eða 2.677.222 kr. í árslaun. Í niðurlagi þessa kafla matsgerðarinnar segir svo: Hér eru viðmiðunarlaun miðuð við venjuleg dagvinnulaun að viðbættum 15% skv. tölulið 2. Matsmaður vísar hér til upplýsinga, sem hann aflaði sér hjá ríkisskattstjóra.
Í annan stað byggir matsmaður á upplýsingum Karls Erons, sem áður er getið, um mjög mikla vinnu stefnanda í þágu fyrirtækis síns fyrir slysið 5. desember 1995 og hækkar viðmiðunarlaun í 30% í stað 15%, eins og ríkisskattstjóri miðar við, sbr. hér að framan. Þannig reiknuð nemi áætluð mánaðarlaun 290.032 kr. Síðan segir í matsgerðinni: Hér er eingöngu lagt til grundvallar hvað "öðrum aðila" sem ráðinn hefði verið til verksins hefði þurft að greiða. Dulin eignamyndun sem á sér hugsanlega stað í rekstrinum varðar þessi hugsanlega greiddu laun ekki neinu. Einnig það að hver sá duldi hagnaður varð á árinu 1995 er ekki ljóst.
Í þriðja lagi vísar matsmaður til óformlegs samtals við Bjarna Óskarsson, veitingamann, sem rekur Nings-veitingastaðina. Bjarni hafi álitið að í dag þyrfti að greiða 450.000 kr. í mánaðarlaun manni, sem ynni jafnmikið og stefnandi hefði unnið á árinu 1995. Að teknu tilliti til hækkunar á launavísitölu frá árslokum 1995 til apríl þessa árs, svöruðu þau laun til 268.109 kr. mánaðarlauna á árinu 1995.
Málsástæður og lagarök stefnanda.
Stefnandi sundurliðar kröfur sínar svo:
Tímabundið tekjutap 5.420.380 kr.
Töpuð lífeyrisréttindi 325.223
5.745.603
Frá dregst greiðsla frá Tryggingastofnun 459.099
Frá dregst greiðsla frá stefnda 717.068
Tímabundið tekjutap alls 4.569.436 kr.
Þjáningabætur (451 dagur x 930 kr. 419.430
Bætur fyrir varanlegur miska 1.601.100
Bætur fyrir varanlega örorku 15.832.847
Töpuð lífeyrisréttindi v/varanl. örorku 1.350.926
23.773.739
Greitt af stefnda í höfuðstól og kostnað 5.602.499
Krafa stefnanda um örorkubætur tekur mið af aldri hans.
Ofangreind dómkrafa stefnanda er á því byggð, að tekjur hans hafi á slysdegi verið mun hærri, en nemi framreiknaðri hámarksbótafjárhæð 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Stefnandi vísar til framlagðs skjals, sem Magnús B. Benediktsson, löggiltur endurskoðandi, samdi að beiðni lögmanns hans til stuðnings dómkröfu sinni. Það er svohljóðandi: Ef miðað er við að söluverðmæti Hlöllabáta í árslok 1995 séu kr. 38.000.000,- að viðbættum kr. 10.000.000,- fyrir Þórðarhöfða þá er það samtals kr. 48.000.000,- sem er eignamyndun á árunum 1987-1995 ef þeirri tölu er bætt við neikvætt eigið fé í árslok 1995 (18.388.441,-) þá er nettó eignaaukningin ca. 30.000.000,- sem gerir 3.333.333 á ári eða kr. 277.778 á mánuði þessi ár. Og ef við bætum reiknuðu laununum við eins og þau voru á árinu 1995 þá er þetta kr. 408.154,- á mánuði, sem er í raun þau laun sem Hlöðver hefur haft út úr rekstri Hlöllabáta á árunum 1987-1995.
Þannig reiknaðar tekjur stefnanda nemi verðbættar frá slysdegi árslaunum að fjárhæð 6.534.941 kr., sem svari til 530.828 kr. á mánuði og séu því vel yfir hámarki bóta samkvæmt skaðabótalögum.
Stefnandi byggir á því, að í rekstri fyrirtækja geti falist svonefnt dulið eigið fé. Þar sé í aðalatriðum átt við eigið fé, sem ekki mælist í ársreikningum af ýmsum ástæðum. Megi í því sambandi nefna fyrningu eigna umfram raunvirði þeirra, viðskiptavild, sem skili sér síðar inn í reksturinn eða, að ársreikningar sýni mikinn kostnað við markaðssetningu eða stækkun, sem komi félaginu síðar til góða í auknum tekjum eða við sölu. Þessi hafi orðið raunin í rekstri stefnanda. Veruleg eignamyndun hafi átt sér stað, sem hafi komið fram við sölu tveggja af þremur veitingastöðum hans og orðið til við þrotlausa vinnu stefnanda sjálfs.
Stefnandi byggir einnig á því, ef ekki verði fallist á framangreinda tekjuviðmiðun, að miða skuli við það endurgjald, sem greiða hefði þurft jafnhæfum starfsmanni, sem fenginn hefði verið til starfsins í stað stefnanda og unnið jafnlangan vinnudag og hann hafði áður unnið. Stefnandi vísar í þessu sambandi til 7. gr. laga nr. 75/1981 um tekju og eignaskatt (hér eftir skattalög), eins og greinin var orðuð á slysdegi. Þar segi: Vinni maður við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi skal hann telja sér til tekna eigi lægra endurgjald fyrir starf sitt og hefði hann innt það af hendi fyrir óskyldan eða ótengdan aðila.
Þórhallur Björnsson, endurskoðandi, hafi verið dómkvaddur til að meta hvaða laun hefði þurft að greiða staðgengli stefnanda. Niðurstaða hans sýni, hversu fráleit tekjuviðmiðun stefnda sé. Heildartjón stefnanda nemi, samkvæmt matsgerð Þórhalls 9.848.305 kr. sé miðað við 290.032 kr. mánaðarlaun, 8.638.668 kr., ef 268.109 kr. mánaðarlaun væru lögð til grundvallar, og 6.155.333 kr. væri miðað við 223.102 kr. mánaðarlaun. Lögmaður stefnanda lagði fyrir dóminn til glöggvunar nánari sundurliðun þessara fjárhæða við aðalmeðferð málsins, án þess að þau skjöl væru formlega lögð fram. Ástæða þess var sú að fyrri útreikningar á dskj. nr. 79-81 voru byggðir á röngum forsendum.
Fyrir liggi, að stefnandi hafi aðeins haft 2-4 menn í vinnu, þegar viðmiðunarlaun þau, sem stefndi vilji leggja til grundvallar, voru ákveðin. Gleymst hafi að hækka viðmiðunarlaunin, þegar fyrirtæki stefnanda óx fiskur um hrygg. Þessi mistök eigi hins vegar ekki að hafa áhrif á ákvörðun tekjuviðmiðunar við uppgjör á skaðabótum til stefnanda. Byggja verði á þeirri grundvallarhugsun skaðabótalaga, að tjónþoli fái tjón sitt að fullu bætt. Við þá ákvörðun beri að líta til þeirra kosta, sem stefnandi eigi til að afla sér tekna með vinnu, sem sanngjarnt og eðlilegt sé að hann starfi við, sbr. 2. mgr. 5. gr. skbl. Því fari fjarri að svo verði, ef sú tekjuviðmiðun, sem stefndi beiti, verði lögð til grundvallar í þessu máli. Eins og heilsu stefnanda sé nú háttað geti hann aðeins unnið einföld störf, þar sem ekki reyni á mannleg samskipti. Hann hafi ekki getu til að vinna önnur störf en verkamannavinnu á lægstu töxtum. Á hinn bóginn hafi komið í ljós við sölu tveggja veitingastaða stefnanda á árinu 1998, hversu mikið dulið eigið fé hann hafi í raun aflað á átta ára rekstrartíma fyrir slysið. Engar líkur séu á öðru en stefnandi hefði haldið áfram að byggja upp fyrirtæki sitt, ef slysið og afleiðingar þess hefðu ekki staðið því í vegi. Því megi halda fram, að kröfugerð stefnanda miðist við árslaun á grundvelli 2. mgr. 7. gr. skbl., en stefnandi telur að krafa hans eigi stoð í 1. mgr. ákvæðisins, sem einnig leiði af 2. mgr. þess.
Stefnandi sundurliðar kröfu sína um bætur fyrir tímabundið atvinnutjón þannig:
Frá 5. des. '95 til 31. mars '96 (100% í 3,83 mán.) kr. 1.917.981
frá 1. apríl til 30. sept. '96 (75% í 6 mán.) kr. 2.251.543
frá 1. okt. til 28. febr. '97 (50% í 5 mán.) kr. 1.250.857
Samtals kr. 5.420.380
Töpuð lífeyrisréttindi 6% kr. 325.223
Samtals vegna tímabundins atvinnutjóns kr. 5.745.603
Greitt af stefnda kr. 717.068
Greitt af Tryggingastofnun kr. 459.099
Tímabundið tekjutap kr. 4.569.436
Bætur fyrir tímabundið atvinnutjón séu byggðar á sömu tekjuforsendum og bætur fyrir varanlega örorku.
Stefnandi byggir á því, að fjárhæðir á skattframtali hans fyrir það tímabil, sem krafa hans um tímabundið atvinnutjón spannar yfir, hafi ranglega verið færðar honum til tekna. Á þessu tímabili hafi hann verið óvinnufær og eiginkona hans staðið fyrir rekstri fyrirtækisins. Hann hafi því engar tekjur haft þetta tímabil og því hafi hann ekki tekið tillit til framtalinna tekna á þessu tímabili í kröfugerð sinni.
Stefnandi sundurliðar kröfu sína til þjáningabóta þannig, að um sé að ræða 451 dag og dagbætur nemi 930 kr., samtals 419.430 kr.
Ekki sé ágreiningur með málsaðilum um upphæð miskabóta.
Stefnandi kveður stefnda hafa greitt honum samtals 5.602.499 kr., sem fyrst hafi gengið til greiðslu vaxta, en auk þess hafi stefndi greitt 1.396.551 kr., sem gengið hafi inn á höfuðstól og 717.068 kr. inn á tímabundið atvinnutjón, eins og áður sé getið.
Stefnandi vísar til skaðabótalaga, einkum 3.-7. gr. og 10. gr., til stuðnings kröfum sínum. Málskostnaðarkröfu sína byggir stefnandi á ákvæðum 129. og 130. gr. laga nr. eml., en kröfu um virðisaukaskatt á tildæmdan málkostnað á lögum nr. 50/1988.
Málsástæður og lagarök stefnda.
Stefndi byggir sýknukröfu sína á því, að hann hafi greitt stefnanda fullar bætur vegna umrædds slyss. Stefnandi og lögmaður hans hafi móttekið eftirfarandi greiðslur:
Þjáningabætur kr. 319.556
miskabætur - 1.636.500
varanleg fjárhagsleg örorka - 5.493.155
vextir samkvæmt 16. gr. skbl. - 542.306
yfirmatskostnaður - 596.550
kostnaður vegna fyrri matsgerða - 106.300
útlagður kostnaður stefnanda - 162.706
lögmannsþóknun m. vsk. - 753.661
Samtals kr. 9.610.734
Hafnað hafi verið kröfu stefnanda um bætur fyrir tímabundið atvinnutjón. Stefndi byggir að öðru leyti á því, að því er varðar örorkubótakröfu stefnanda, að sú aðferð að yfirfæra meint dulið eigið fé úr rekstri til tekna hans sjálfs, fái ekki staðist. Bæði sé það, að eignamyndun félagsins stafi allt eins af framlagi annarra starfsmanna en stefnanda eins, og einnig að tekjum af atvinnurekstri og launatekjum verði ekki blandað saman, þar sem fyrrnefndu tekjurnar gangi til áframhaldandi reksturs að stórum hluta. Sú eignamyndun, sem orðið hafi og stefnandi byggi á, hafi fyrst komið fram á árinu 1998 við sölu tilgreindra eigna hlutafélags, sem stefnandi stóð að, og því sé alls óvíst um eignastöðu stefnanda á slysdegi, en stefnandi beri sönnunarbyrðina fyrir því, hvernig henni var háttað. Þá byggir stefndi á því, að rekstrarstaða stefnanda og einkahlutafélagsins, sem tók við rekstri hans, hafi verið með þeim hætti, að enginn grundvöllur hafi verið fyrir því að greiða honum hærri laun en færð voru á skattframtal hans á árinu fyrir slysið og ætíð síðan.
Á sömu forsendu hafnar stefndi þeirri staðhæfingu stefnanda, að mistök hafi valdið því að lægri laun hafi verið færð á framtal hans, en honum hafi verið skylt að telja fram, samkvæmt 2. mgr. 1. tl. A í 7. gr. skattalaga. Í 59. gr. skattalaga komi fram að veita megi undanþágu frá ákvæðum 7. gr., ef skilyrði séu fyrir hendi. Í niðurlagsákvæði sömu lagagreinar segi, að við ákvörðun um reiknað endurgjald megi aldrei mynda tap, sem sé meira en nemi samanlögðum almennum fyrningum skv. 38. gr. og gjaldfærslu skv. 53. gr. Ljóst sé, að fyrirtæki stefnanda hafi nær óslitið verið rekið með miklu tapi, þannig að engin skilyrði hafi verið fyrir því að ætla honum hærri laun, en fram komi á skattframtölum hans.
Sömu sjónarmið eigi einnig við um þá málsástæðu stefnanda fyrir varakröfu, sem þó hafi ekki verið sett fram berum orðum, að leggja skuli til grundvallar laun starfsmanns, sem ráðinn hefði verið til að taka að sér starf stefnanda. Því sé niðurstaða matsgerðar Þórhalls Björnssonar, löggilts endurskoðanda, málinu með öllu óviðkomandi.
Með vísan til framangreindra sjónarmiða telur stefndi að fallast beri á sýknukröfu hans gagnvart kröfu stefnanda um bætur fyrir varanlega örorku.
Stefndi hafnar kröfu stefnanda um bætur fyrir tímabundið atvinnutjón, þar sem fyrir liggi á framlögðum skattframtölum hans, að hann hafi haldið óskertum launum á því tímabili, sem tímabundið atvinnutjón hans miðist við. Stefnandi hafi fengið greiddar 459.099 kr. frá Tryggingastofnun ríkisins vegna tímabundinnar óvinnufærni af völdum slyssins. Stefndi hafi greitt stefnanda 717.068 kr. í bætur vegna tímabundins atvinnutjóns á fyrri stigum málsins fyrir tímabilið frá slysdegi til 3. maí 1996. Í ljós hafi komið, þegar stefndi hafi fengið skattframtöl stefnanda í hendur, að stefnandi hefði ekki beðið tjón vegna tímabundins atvinnutjóns. Upphæðin hafi því verið dregin frá við uppgjör á tjóni stefnanda hinn 25. maí 2001 á grundvelli matsgerðar dómkvaddra undirmatsmanna.
Þá hafnar stefndi kröfu stefnanda um bætur fyrir 6% misst framlag vinnuveitanda í lífeyrissjóð á þeirri forsendu, að ósannað sé með öllu, að framlag hafi verið greitt af tekjum stefnanda fyrir slysið. Stefnandi hafi ekkert lagt fram, sem renni stoðum undir þessa kröfu hans. Eigi þetta við bæði um kröfu stefnanda til bóta fyrir tímabundið atvinnutjón og bætur fyrir varanlega örorku. Stefndi bendir einnig á í þessu sambandi, að ósannað sé, að stefnandi verði fyrir tjóni við það að reikna ekki með 6% framlagi í lífeyrissjóð.
Stefndi telur sig hafa fullgreitt stefnanda þjáningabætur með greiðslu á 319.556 kr. Bótafjárhæðina styður stefndi þeim rökum, að verðbættar hámarksþjáningabætur skv. 3. gr. skbl. hafi í maí 2001 numið 248.412 kr. Stefndi hafi talið forsendur til að skerða þjáningabætur um 50%, eftir að hámarkinu var náð, og vísar til þess, að stefnandi hafi verið orðinn vinnufær, áður en þjáningabótatímabilinu lauk.
Stefndi mótmælir loks vaxtakröfu stefnanda. Í fyrsta lagi séu vextir frá fyrri tíma en 17. september 1998 fyrndir. Í annan stað mótmælir stefndi vaxtakröfu stefnanda í tengslum við bótakröfu fyrir tímabundið atvinnutjón. Í 16. gr. skbl. komi ekki fram, að greiða skuli vexti á bætur fyrir tímabundið atvinnutjón. Þá mótmælir stefndi þeirri fullyrðingu stefnanda að greiddar fjárhæðir hafi fyrst gengið til greiðslu vaxta og síðan inn á höfuðstól, sem vextir reiknist af. Ávallt hafi verið ljóst, hvaða bótaliði stefndi hafi verið að greiða. Uppgjör hans til stefnanda sýni það glöggt og engar athugasemdir hafi verið gerðar við móttöku fjárins eða áskilnaður gerður að því er ráðstöfun varðaði. Stefndi mótmælir sérstaklega dráttarvaxtakröfu stefnanda og telur að ekki beri að greiða dráttarvexti, fyrr en frá dómsuppsögudegi, ef um áfellisdóm verði að ræða.
Stefndi gerir þá kröfu til vara, verði ekki fallist á aðalkröfu hans, að því er varðar skaðabætur stefnanda fyrir varanlega örorku, að við uppgjör þessara skaðabóta skuli miða við meðallaun iðnaðarmanna, framreiknuð til þingfestingardags málsins.
Árslaun iðnaðarmanna þannig reiknuð nemi 2.004.000 kr. Að teknu tilliti til aldurs stefnanda á slysdegi (-28%) og 50% örorku samkvæmt yfirmatsgerð nemi bótafjárhæðin 7.424.547 kr. Stefndi hafi greitt stefnanda vegna þessa bótaliðar 5.493.155. Mismunur nemi því 1.931.392 kr.
Niðurstaða.
Stefnandi og Kolfinna Sigrún Guðmundsdóttir, eiginkona hans, gáfu skýrslu við aðalmeðferð málsins og einnig var skýrsla tekin af Magnúsi B. Benediktssyni, löggiltum endurskoðanda, Þórhalli Björnssyni, löggiltum endurskoðanda og matsmanni, Helga V. Jónssyni, hrl. og dómkvöddum yfirmatsmanni og Karli Eroni Sigurðssyni, sendibílstjóra, sem þekkti til starfa stefnanda og eiginkonu hans fyrir og eftir slysið 5. desember 1995.
Skaðabætur fyrir varanlega örorku stefnanda:
Stefnandi byggir dómkröfur sínar, samkvæmt þessum bótalið, á áætlun vitnisins, Magnúsar B. Benediktssonar, eins og áður er lýst. Í áætlun hans er við það miðað, að sú verðmætasköpun, sem myndaði söluverð þeirra tveggja veitingastaða einkahlutafélags stefnanda, sem seldir voru í mars 1998, hafi öll átt sér stað, áður en stefnandi slasaðist og að hann einn hafi átt veg og vanda af verðmætaaukningunni. Þannig fundin mánaðarlaun, 277.778 kr., eru síðan verðbætt, án þess að tekið sé fram við hvaða tímamark þar sé miðað og grundvöllur dómkröfunnar þannig fenginn. Söluverð veitingastaðanna er þannig ekki bakreiknað m.v. verðlag á slysdegi en laun á hinn bóginn verðbætt. Magnús B. Benediktsson gerði dóminum grein fyrir þeim forsendum, sem hann byggði áætlun sína á.
Dómurinn lítur svo á kröfugerð stefnanda sé reist á svo veikum og óraunhæfum grunni, að ekki séu efni til að leggja hana til grundvallar við ákvörðun skaðabóta honum til handa fyrir varanlega örorku. Í þessu sambandi vísast einnig til síðari umfjöllunar.
Stefnandi gerði ekki varakröfu í málinu berum orðum, en lagði fram þrenns konar útreikninga, sem byggðir eru á mismunandi forsendum í matsgerð Þórhalls Björnssonar. Líta verður svo á, að í beiðni stefnanda um dómkvaðningu matsmanns, og framlagningu útreikninga á grundvelli niðurstöðu matsmannsins felist lækkun á aðalkröfu stefnanda og jafnframt varakrafa um skaðabætur fyrir varanlega örorku.
Ástæðulaust þykir að lýsa útreikningum stefnanda með sundurliðuðum hætti, en niðurstöðu þeirra er áður getið.
Í beiðni stefnanda um dómkvaðningu yfirmatsmanna var þess sérstaklega óskað, að dómkvaddur yrði lögfræðingur, sem jafnframt væri löggiltur endurskoðandi, til að leggja mat á áhrif slyssins á rekstur stefnanda. Fyrr í dóminum er aðfararorðum að niðurstöðu yfirmatsmanna um varanlega örorku orðrétt lýst og vísast til þess, sem þar segir. Í yfirmatsgerðinni undir kaflaheitinu Viðmiðunarlaun, er grein gerð fyrir framtöldum launum stefnanda og tekin afstaða til sjónarmiða hans um dulda eignamyndun og þeirrar málsástæðu að byggja beri bótakröfu fyrir varanlega örorku á meintri eignamyndun. Þar kemur fram, að verulegt tap hefur verið af rekstri stefnanda sjálfs og síðar einkahlutafélags í hans eigu frá því hann hóf veitingastarfsemi. Í matsgerðinni er því lýst, að á árinu 1993 hafi tap á rekstrinum numið 947.992 kr. en 7.012.491 kr. á árinu 1994. Eigið fé í árslok hafi verið neikvætt um 9.196.874 kr. Á árinu 1995 er tap á rekstrinum 9.090.116 kr. og neikvætt eigið fé í lok þess árs 18.388.441 kr. Í árslok 1996 er eigið fé af rekstri stefnanda neikvætt um 16.701.441 kr., þrátt fyrir sölu á fasteigninni Ingólfstorgi 1 til tengdamóður stefnanda fyrir 15 milljónir króna. Í þessum kafla matsgerðarinnar er því lýst, að við stofnun einkahlutafélags stefnanda hafi hann selt félaginu allar rekstrareignir sínar fyrir 18 milljónir króna og virðist jafna út neikvætt eigið fé rekstrar á persónulegu framtali, eins og segir í yfirmatsgerð. Tap einkahlutafélagsins nemur 5.068.438 kr. á árinu 1997 og eigið fé þess í árslok er neikvætt um 4.668.438 kr. Í lok þessa kafla matsgerðarinnar segir svo orðrétt: Sé skoðuð "dulin eign" í rekstri í árslok 1995 var veitingarekstur yfirmatsbeiðanda bókfærður á kr. 11.917.233. Á þeim tímamótum var eigið fé rekstrarins neikvætt um kr. 18.388.441. Eignir þurftu því að lágmarki að vera að söluverðmæti kr. 30.305.674. Eins og rakið var hér að framan sýnir bókhald yfirmatsbeiðanda að Ingólfstorg hafi verið selt á árinu 1996 fyrir 15.000.000 og aðrir veitingastaðir hans og það sem þeim fylgir einkahlutafélaginu Hlöllabátar ehf. fyrir kr. 18.000.000 á árinu 1997. Líta verður svo á að sölur þessar sýni verðmæti veitingastaðanna á þeim tíma, sem salan fór fram. "Dulin eign" miðað við þessar fjárhæðir nemur því um 2,7 millj. kr. eða kr.300.000 á ári miðað við útreikninga endurskoðenda á dómskjali 22. Þegar til þess er litið að sala á árinu 1998 er ekki minni á árunum eftir slysið og þess að verðmætisaukning veitingastaða yfirmatsbeiðanda getur vart talist tengjast alfarið vinnu hans, verður ekki séð að hann hafi sýnt fram á að hann eigi rétt til hærri viðmiðunartekna en leiðir af 1. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993.
Dómurinn lítur svo á, að rekstur þeirrar starfsemi, sem stefnandi stóð fyrir á árunum fyrir slysið 5. desember 1995 hafi ekki staðið undir hærri launagreiðslum til hans, en fram koma á skattframtali hans á slysárinu og skattframtölum næstu ára á undan. Skattframtöl hans þykja því gefa rétta mynd af rekstrarstöðu starfseminnar. Hún var nær öll þau ár, sem upplýsingar liggja fyrir um, rekin með verulegu tapi, sem leiddi til síaukinnar skuldasöfnunar. Rekstur fyrirtækja verður að jafnaði að skila arði, þegar til lengri tíma er litið, enda ekki á vísan að róa með framtíðarverðmæti eigna eða áunna viðskiptavild. Hvort tveggja er háð markaðsástæðum á hverjum tíma. Með vísan til þessa og þeirra röksemda, sem koma fram í yfirmatsgerð, þykir verða að hafna varakröfum stefnanda.
Því verður ekki fallist á þau sjónarmið stefnanda, að miða skuli skaðabætur fyrir varanlega örorku hans við laun staðgengils, eða önnur laun, sem matsmanninum, Þórhalli Björnssyni, var falið að leggja mat á.
Skaðabætur fyrir varanlega örorku.
Í 2. mgr. 5. gr. skbl. segir, að við mat á örorkutjóni skuli líta til þeirra kosta, sem tjónþoli eigi til að afla sé tekna með vinnu sem sanngjarnt sé að ætlast til að hann starfi við. Í 2. mgr. 7. gr. sömu laga er heimild veitt til þess að víkja frá fyrirmælum 1. mgr. sama lagaákvæðis, þegar óvenjulegar aðstæður séu fyrir hendi, t.d. breytingar á tekjum eða atvinnuháttum.
Augljóst þykir, að slys það, sem stefnandi varð fyrir, breytti aðstæðum hans verulega. Óraunhæft þykir því að líta til fortíðar stefnanda við mat á framtíðartekjum hans. Í álitsgerð Atla Þórs, sem áður er lýst, og reyndar velflestum matsgerðum og vottorðum, sem liggja fyrir í málinu, kemur fram, að stefnandi sé alls ófær um að gegna því starfi, sem hann vann fyrir slysið. Í matsgerð yfirmatsmanna er m.a. á því byggt að stefnandi ætti að geta nýtt sér reynslu sína og iðnmenntun, þegar litið sé til framtíðar, þótt ekki sé hægt að gera ráð fyrir, að hann vinni sjálfstætt.
Með vísan til þessa þykir rétt að ákvarða stefnanda bætur fyrir varanlega örorku, sem miðist við meðallaun iðnaðarmanna, eins og stefndi byggir varakröfu sína á.
Framsetning stefnda á varakröfu og sú fjárhæð, sem þar er tilgreind, hefur ekki sætt andmælum af hálfu stefnanda. Þykir því rétt að leggja hana til grundvallar.
Stefnda ber því að greiða stefnanda í bætur vegna varanlegrar örorku 7.424.547 kr.
Við mat á heildarbótum stefnanda þykir einnig verða að taka tillit til þeirrar skerðingar, sem örorka hans hlýtur að hafa á aflahæfi hans og möguleika hans til að afla sér lífeyrisréttinda. Með vísan til þessa ber stefnda að bæta stefnda tjón hans vegna tapaðra lífeyrisréttinda með 445.473 kr. (6%).
Niðurstaða þessa þáttar málsins er því sú, að stefndi skal greiða stefnanda 2.376.865 krónur. Þá hefur verið tekið tillit til þeirrar fjárhæðar, sem stefndi hefur þegar greitt stefnanda í bætur vegna varanlegrar örorku (7.424.547 + 445.473=7.870.020 - 5.493.155= 2.376.865).
Stefndi skal greiða stefnanda 2% ársvexti frá 17. september 1998 til dómsuppsögudags, en dráttarvexti, samkvæmt III. kafla laga nr. 31/2001, frá þeim degi til greiðsludags.
Þjáningabætur samkvæmt 3. gr. skbl.
Hafnað er kröfu stefnanda um greiðslu þjáningabóta umfram það, sem stefndi hefur þegar greitt, með vísan til 3. gr. skbl. Þar er mælt svo fyrir, að heimilt sé að greiða hærri fjárhæð en 200 þúsund krónur í þjáningabætur, þegar sérstaklega standi á. Stefndi hefur að mati dómsins fullgreitt stefnanda bætur samkvæmt þessum bótalið.
Bætur fyrir tímabundið atvinnutjón samkvæmt 2. mgr. 2. gr. skbl.
Yfirmatsmenn töldu tímabundið atvinnutjón stefnanda hafa verið með eftirfarandi hætti: Frá 5. desember 1995 til 31. mars 1996 100%, frá 1. apríl 1996 til 30. september s.á. 75% og frá 1. október til 28. febrúar 1997 50%.
Framtaldar tekjur stefnanda á árinu 1996 námu 1.720.968 kr. en 1.162.377 kr. á árinu 1997. Þegar litið er til þessa svo og til þeirrar fjárhæðar, sem stefnandi fékk greidda frá Tryggingastofnun ríkisins, þykir stefnandi ekki hafa sýnt fram á, að hann hafi orðið fyrir tekjuskerðingu á því umræddu tímabili. Ekki þykir heldur ástæða til að taka tillit til tapaðra lífeyrisréttinda á tímabili tímabundins atvinnutjóns, eins og hér stendur á, enda hefur stefnandi ekki fært sönnur á það, að lífeyristekjur hans muni lækka, þegar að lífeyristöku kemur, né heldur gögn um það, að hann hafi sjálfur greitt lífeyrissjóðsiðgjöld af launatekjum sínum á þessu tímabili.
Kröfu hans um bætur fyrir tímabundið atvinnutjón er því hafnað.
Ekki er ágreiningur með málsaðilum um miskabótakröfu stefnanda og hefur stefndi fengið þá kröfu fullgreidda með 1.636.500 krónum.
Stefndi hefur greitt stefnanda 542.306 krónur í vexti. Um er að ræða fullnaðargreiðslu vaxta af þeim fjárhæðum, sem stefndi hefur greitt að fullu, eins og lýst hefur verið hér að framan. Eftir standa því aðeins vextir af þeirri fjárhæð, sem stefndi dæmist til að greiða stefnanda og áður er lýst.
Stefndi krefst málskostnaðar úr hendi stefnanda með vísan til 130. gr. eml. og úr hendi ríkissjóðs á grundvelli veittrar gjafsóknar.
Stefndi hefur greitt útlagðan kostnað stefnanda vegna læknisvottorða og matsgerða, samtals 865.556 krónur, samkvæmt upplýsingum lögmanns stefnanda við aðalmeðferð málsins. Þeirri fullyrðingu lögmanns stefnda var ekki mótmælt af lögmanni stefnanda. Þá hefur stefndi greitt lögmanni stefnanda í tveimur greiðslum samtals 753.661 krónur í innheimtu- og málskostnað.
Stefndi dæmist til að greiða stefanda málskostnað, sem ákveðst 300.000 krónur að teknu tilliti til virðisaukaskatts og þeirra greiðslna, sem stefndi hefur þegar stefnanda og lögmanni hans.
Stefnandi skal einn bera kostnað við matsgerð Þórhalls Björnssonar, endurskoðanda, sem nam 180.000 krónum.
Stefnandi fékk gjafsókn, eins og áður er lýst. Stefnandi á því kröfu á hendur ríkissjóði um tildæmda fjárhæð. Þóknun Þórhalls Björnssonar, endurskoðanda 180.000 krónur skal greiðast úr ríkissjóði. Ríkissjóður öðlast framkröfu á hendur stefnda, kjósi stefnandi að ganga að ríkissjóði um greiðslu tildæmds málskostnaðar, að þóknun Þórhalls Björnssonar undanskilinni.
Skúli J. Pálmason héraðsdómari kveður upp þennan dóm.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, Tryggingarmiðstöðin hf., greiði stefnanda, Hlöðveri Sigurðssyni, 2.376.865 krónur, ásamt 2% ársvöxtum frá 17. september 1998 til dómsuppsögudags, en dráttarvexti samkvæmt III. kafla laga nr. 31/2001 frá þeim degi til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 300.000 krónur í málskostnað. Ríkissjóður greiði stefnanda tildæmda málskostnaðarfjárhæð, en skal eiga endurkröfu á hendur stefnda um tildæmda málskostnaðarfjárhæð. Ríkissjóður greiði sérstaklega án endurkröfuréttar 180.000 krónur.