Hæstiréttur íslands
Mál nr. 310/2015
Lykilorð
- Ávana- og fíkniefni
- Upptaka
|
|
Fimmtudaginn 14. janúar 2016. |
|
Nr. 310/2015.
|
Ákæruvaldið (Daði Kristjánsson saksóknari) gegn Ragnari Ajaal Magnússyni Arqunov (Björgvin Jónsson hrl.) |
Ávana- og fíkniefni. Upptaka.
R var sakfelldur fyrir fíkniefnalagabrot með því að hafa haft í vörslum sínum 24 kannabisplöntur og fyrir að hafa um nokkurt skeið ræktað fíkniefnin. Var refsing R ákveðin fangelsi í 30 daga en fullnustu refsingarinnar var frestað skilorðsbundið í tvö ár, auk þess sem áðurgreindar plöntur voru gerðar upptækar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Helgi I. Jónsson og Karl Axelsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 28. apríl 2015 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur að öðru leyti en því að refsing verði þyngd.
Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins en til vara að héraðsdómur verði staðfestur.
Í ákæru er ranglega tilgreint að brot það, sem ákærða er gefið að sök, hafi átt sér stað 17. október 2013, en ekki 7. sama mánaðar svo sem gögn málsins bera með sér að rétt sé. Þar sem vörn ákærða var ekki áfátt af þessum sökum stendur þetta ekki í vegi fyrir því að dæmt verði um sakarefnið, sbr. 2. málslið 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Með þessari athugasemd, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Ragnar Ajaal Magnússon Arqunov, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 385.951 krónu, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Björgvins Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 372.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 15. desember 2014
Málið er höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dagsettri 20. maí 2014, á hendur:
,,Ragnari Ajaal Magnússyni Arqunov, kt. [...],
dvst. [...], Reykjavík,
fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa fimmtudaginn 17. október 2013 í sumarhúsi að [...] í [...] haft í vörslum sínum 24 kannabisplöntur og hafa um nokkurt skeið fram til þessa dags ræktað greindar plöntur sem lögregla fann við leit.
Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 4., 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar og jafnframt er krafist upptöku á 24 kannabisplöntum samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.“
Verjandi ákærða krefst aðallega sýknu en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa. Málsvarnarlauna er krafist að mati dómsins.
Hinn 8. október 2013 tilkynnti A um kannabisræktun í sumarbústað sínum að [...] í [...]. Er lögreglan kom þangað greindi A svo frá að Ragnar, [...], hefði um nokkurt skeið haft aðsetur í sumarbústaðnum. Hún kvaðst vita af fíkniefnaneyslu hans og kvað hún kannabisræktun vera í bústaðnum.
Tekin var skýrsla af ákærða hjá lögreglunni 29. apríl 2014. Hann kvaðst eigandi plantnanna sem í ákæru greinir og hefði hann ræktað þær um nokkurt skeið. Hann hefði ætlað efnið til eigin nota.
Nú verður rakinn framburður ákærða og vitnisburður fyrir dómi
Ákærði neitar sök. Spurður um breyttan framburð fyrir dómi frá því sem var hjá lögreglunni, er hann játaði að hafa ræktað og haft í vörslum sínum plönturnar sem um ræðir, kvaðst ákærði hafa verið undir miklu álagi á þeim tíma. Hann hefði verið heimilislaus og því hefði hann búið í [...] að [...]. Hann hefði ekki átt annan kost en að játa hjá lögreglunni. Hann kveðst ekki hafa verið eigandi fræjanna eða plantnanna sem spruttu upp af þeim, hann hefði ekki átt pottana sem plönturnar voru ræktaðar í og heldur ekki áburðinn sem notaður var eða ljósin sem notuð voru við ræktunina. Spurðu um eigandann nafngreindi hann konu sem eigandann.
Vitnið A, [...], kvað ákærða, [...], hafa verið með aðsetur í sumarhúsinu á þessum tíma. Hún hefði hringt í lögreglu og tilkynnt um ræktunina en ástæðan verið sú að hún hefði verið hrædd um heilsu [...] vegna fíkniefnaneyslu hans sem hún lýsti.
Vitnið B lögreglumaður lýsti komu lögreglunnar í sumarhúsið sem um ræðir og því þegar tekin var þar niður kannabisræktun. A, eigandi hússins, hefði tilkynnt um ræktunina og hún hefði sagt ákærða, [...], hafa dvalið í húsinu. Fram kom að hún hefði áhyggjur af fíkniefnaneyslu hans.
Vitnið C lögreglumaður lýsti komu lögreglunnar í sumarhúsið sem um ræðir. A hefði tilkynnt um kannabisræktun í bústaðnum og ákærði, [...], hefði ræktað kannabis en hann hefði haft búsetu þarna um nokkurt skeið.
Niðurstaða
Ákærði neitar sök. Samkvæmt framburði ákærða og vitnisburði hafði ákærði búsetu í sumarhúsinu á þessum tíma og hafði verið þar um nokkurt skeið. Hann var því húsráðandi og vörslumaður kannabisplantnanna. Fyrir dómi lýsti ákærði því að hann hefði ekki verið eigandi munanna sem notaðir voru við ræktunina en framburður hans um þetta og skýringar á breyttum framburði frá því sem var hjá lögreglu er mjög ruglingslegur og ótrúverðugur og verður ekki byggt á hinum breytta framburði. Sannað er með framburði ákærða hjá lögreglunni, með vitnisburði lögreglumannanna B og C, með stoð í vitnisburði A, [...], og með öðrum gögnum málsins, en gegn neitun ákærða, að hann hafi gerst sekur um háttsemi þá sem í ákæru greinir. Eignarhald sem ákærði bar um fyrir dómi skiptir ekki máli eins og á stendur. Brot ákærða er rétt fært til refsiákvæða í ákærunni.
Ákærði hlaut á árinu 1996 refsidóm fyrir fíkniefnalagabrot og gekkst undir lögreglustjórasátt fyrir sams konar brot á árinu 2006. Refsing ákærða þykir hæfilega ákvörðuð 30 daga fangelsi en rétt þykir að fresta fullnustunni skilorðsbundið eins og dómsorði greinir.
Með vísan til 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 eru dæmdar upptækar 24 kannabisplöntur.
Ákærði greiði 78.923 krónur í útlagðan sakarkostnað ákæruvaldsins.
Ákærði greiði 175.700 króna málsvarnarlaun Guðmundar St. Ragnarssonar héraðsdómslögmanns að meðtöldum virðisaukaskatti.
Einar Laxness aðstoðarsaksóknari flutti málið fyrir ákæruvaldið.
Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.
Dómsorð:
Ákærði, Ragnar Ajaal Magnússon Argunov, sæti fangelsi í 30 daga en fresta skal fullnustu refsingarinnar skilorðsbundið í 2 ár frá birtingu dómsins að telja og falli refsingin niður að þeim tíma liðnum, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Upptækar eru dæmdar 24 kannabisplöntur.
Ákærði greiði 78.923 krónur í útlagðan sakarkostnað ákæruvaldsins.
Ákærði greiði 175.700 króna málsvarnarlaun Guðmundar St. Ragnarssonar héraðsdómslögmanns.