Hæstiréttur íslands

Mál nr. 6/2004


Lykilorð

  • Kærumál
  • Dómari
  • Vanhæfi


Miðvikudaginn 11

 

Miðvikudaginn 11. febrúar 2004.

Nr. 6/2004.

Hjálmar Þ. Baldursson

(Kristján Stefánsson hrl.)

gegn

Hallgrími Bergssyni

Ástu Mikkaelsdóttur og

Sjóvá-Almennum tryggingum hf.

(enginn)

 

Kærumál. Dómarar. Vanhæfi.

H krafðist þess að héraðsdómari viki sæti í mál sem hann hafði höfðað gegn H, Á og S hf. til greiðslu skaðabóta. Talið var ekki hefði verið sýnt fram á nein atvik eða aðstæður, sem valdið gætu því að héraðsdómarinn yrði talinn vanhæfur til að fara með málið vegna ákvæðis g. liðar 5. gr. laga nr. 91/1991. Var kröfu H því hafnað.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. desember 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. janúar 2004. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. desember 2003, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að Sigurður Hallur Stefánsson héraðsdómari viki sæti í máli, sem sóknaraðili hefur höfðað gegn varnaraðilum. Kæruheimild er í a. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að dómaranum verði gert að víkja sæti í málinu.

Varnaraðilar hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar hefur ekki verið sýnt fram á nein atvik eða aðstæður, sem valdið geta því að héraðsdómarinn verði talinn vanhæfur til að fara með málið vegna ákvæðis g. liðar 5. gr. laga nr. 91/1991. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. desember 2003.

Stefnandi, Hjálmar Þ. Baldursson, Lóuási 9, Hafnarfirði, höfðaði mál þetta 27. mars 2003 á hendur Hallgrími Bergssyni, Hlíðarvegi 24, Kópavogi, Ástu Mikkaels­dóttur, sama stað, og Sjóvá-Almennum tryggingum hf, Kringlunni 5, Reykjavík.  Hann krefst  greiðslu skaðabóta að fjárhæð 5.525.016 krónur auk vaxta og máls­kostnaðar.  Stefndu krefjast aðallega sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans en til vara að kröfurnar verði lækkaðar verulega og málskostnaður felldur niður.

Í málinu krefst stefnandi bóta vegna tímabundins atvinnutjóns og þjáningabóta vegna umferðarslyss sem hann varð fyrir þann 27. september 1999.

Í upphafi þinghalds þ. 12. þ.m., er aðalmeðferð skyldi fara fram, lagði lögmaður stefnanda fram kröfu um að dómarinn víki sæti og var krafan þegar tekin til úrskurðar.

Framangreind kröfugerð stefnanda og rökstuðningur er svohljóðandi:

„Í g-liði 5. gr, laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 er fjallað um vanhæfi dómara. Þar segir að dómari teljist vanhæfur til að fara með mál ef fyrir eru hendi atvik eða aðstæður sem leiða til þess að draga megi í hlutdrægni hans í efa. Nú háttar svo til að téður dómari hefur tekið afstöðu til mats kæranda í áður höfðuðu dómsmáli. Þar hafnaði dómari matinu án kröfu.

Í því máli sem nú er lagt fyrir dómara er og byggt á þessu mati. Í ljósi þessa vakna spurningar um það hvort dómari hafi ekki þegar gert upp hug sinn hvað matið varðar og sé því ófær um að líta hlutlaust til þess nú. Við það kvikna efasemdir um það hvort dómari gæti litið óhlutlægt á málið. Þar sem vafi leikur á því verður að telja dómara vanhæfan til að fara með rekstur þessa máls. Því er gerð krafa um að dómari víki sæti.

Í Hrd. 1972:1047 háttaði svo til að HR hafnaði því að dómari teldist vanhæfur þó svo að hann hefði áður dæmt í málum byggðum á sömu málsefnum. Þar hafði aðili krafist þess að dómari víki sæti vegna þessa. Í máli því sem nú er fyrir rétti horfir öðruvísi við. Í fyrra máli var vafi á því hvort úrlausnir dómsmála eins dómara gætu valdið því að hann teldist óhæfur til að fara með mál byggð á sama málsefni. Þá var og málarekstur milli óskyldra aðila. Ekki leikur vafi á því að dómsúrlausn eins máls getur haft fordæmisgildi um rekstur annars máls. Aðkoma dómara að fleiri málum en einu veldur ekki vanhæfi. Úrlausn héraðsdómara um mál verður aðeins hrundið af hæstarétti. Því er fordæmisgildi eins héraðsdóms fyrir annan óumdeilt.

Í því máli sem nú er fyrir dómi er spurning um það hvort úrlausn um mat í einu máli getur haft áhrif um úrlausn sama mats í öðru máli. Þá hefur dómari áður tekið afstöðu í máli viðkomandi aðila. Þar sem dómari telur sig bundinn af meginreglum réttarfars um líka niðurstöðu mála er líklegt að fyrri afstaða hans til matsins hafi áhrif á niðurstöðu hans í nýju máli. Þetta leiðir til efasemda um hlutleysi dómara.”

Umferðarslys það, sem um ræðir í þessu máli, er hið þriðja í röð fjögurra umferðarslysa sem stefnandi lenti í á tiltölulega skömmum tíma; hið fyrsta varð 8. janúar 1999, annað 13. apríl s.á. og hið fjórða 20. maí 2000.

Fyrra mál, sem stefnandi vísar til, er nr. E-4496/2003 og höfðaði stefnandi það á hendur Heiðrúnu Jónu Ingólfsdóttur, Guðbirni Ingólfi Ólafssyni og tjónafulltrúa Lloyd´s á Íslandi.  Með dómi uppkveðnum 20. nóvember 2003 voru stefndu sýknuð af kröfum stefnanda en hann hafði krafist skaðabóta, þ.e. bóta fyrir tímabundið atvinnutjón og þjáningabóta, vegna umferðarslyssins 13. apríl 1999.

Þar sem segir í sætisvikningarkröfu að dómari hafi í framangreindu máli hafnað mati “án kröfu” mun vera átt við að í því máli var lagt fram mat tveggja lækna um heilsutjón stefnanda af völdum allra framangreindra slysa, þ.á m. um tímabundið atvinnutjón stefnanda og tímabil sem þjáningabætur miðast við.

Stefnandi reisir kröfugerð sína í þessu máli einnig á framangreindu mati.  Stefndu hafa hins vegar aflað mats þriggja dómkvaddra matsmanna; tveggja lækna og eins lögfræðings.

Niðurstaða dóms, svo og þær afstöður til krafna og málsástæðna sem hún hlýtur að byggjast á, leiðir ekki til vanhæfis  dómara til að fara með og dæma annað mál.  Þetta sést greinilegast af því að dómari verður ekki vanhæfur til að fara með og dæma mál öðru sinni eftir ómerkingu dóms sem hann hefur kveðið upp.

Samkvæmt framangreindu er niðurstaða úrskurðar þessa sú að kröfu stefnanda um að dómari málsins, Sigurður H. Stefánsson héraðsdómari, víki sæti er hafnað.

Úrskurðinn kveður upp Sigurður H. Stefánsson héraðsdómari.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

                Kröfu stefnanda um að dómari málsins víki sæti er hafnað.