Hæstiréttur íslands
Mál nr. 236/2005
Lykilorð
- Kærumál
- Málskostnaður
- Gjafsókn
|
|
Mánudaginn 13. júní 2005. |
|
Nr. 236/2005. |
X (Hilmar Magnússon hrl.) gegn Reykjavíkurborg (Anton Björn Markússon hdl.) |
Kærumál. Málskostnaður. Gjafsókn.
Sveitarfélagið R höfðaði mál gegn X þar sem það krafðist þess að X yrði svipt forsjá sonar síns. Svo fór að málið var fellt niður. R var hins vegar talið hafa haft fullt tilefni til málsóknarinnar, en ástæður þess að málið var fellt niður voru breyttir hagir X. Með því að R hafði náð markmiði sínu með málsókninni var málskostnaður felldur niður. Talið var að kostnaður vegna vinnu lögmanns X, sem samkvæmt tímaskýrslu fór í að fjalla um umgengni X við barn sitt, teldist til málskostnaðar og þar með gjafsóknarkostnaðar hennar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Guðrún Erlendsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. maí 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. júní sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. maí 2005, þar sem kveðið var á um málskostnað í máli varnaraðila gegn sóknaraðila og það fellt niður. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að dæmdur verði hærri málskostnaður úr hendi varnaraðila en gert var í hinum kærða úrskurði og þóknun lögmanns hennar hækkuð. Þá krefst hún kærumálskostnaðar.
Varnaraðili hefur einnig kært úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti og krefst þess aðallega að málskostnaður verði felldur niður, en til vara að að hann verði lækkaður.
Svo sem fram kemur í hinum kærða úrskurði naut sóknaraðili gjafsóknar í máli þessu samkvæmt bréfi dómsmálaráðherra 14. júlí 2004. Sóknaraðili lagði fram málskostnaðarreikning ásamt tímaskýrslu, þar sem grein var gerð fyrir vinnustundum lögmanns hennar við rekstur málsins. Fallast má á með sóknaraðila að kostnaður vegna vinnustunda, sem samkvæmt tímaskýrslunni fóru í að fjalla um umgengni sóknaraðila við barn sitt, teljist til málskostnaðar samkvæmt g. lið 1. mgr. 129. gr. laga nr. 91/1991 og þar með gjafsóknarkostnaðar sóknaraðila samkvæmt 1. mgr. 127. gr. laganna. Að þessu virtu þykir þóknun lögmanns sóknaraðila hæfilega ákveðin 600.000 krónur sem greiðast skal með öðrum gjafsóknarkostnaði úr ríkissjóði.
Samkvæmt gögnum málsins hafði varnaraðili, þegar málið var höfðað, fullt tilefni til málshöfðunarinnar, sbr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Ástæður þess að málið var fellt niður voru breyttir hagir sóknaraðila. Þykir mega líta svo á að varnaraðili hafi náð markmiði sínu með málsókninni á þann veg að fella beri málskostnað milli aðila niður.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Dómsorð:
Málskostnaður í héraði fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, X, í héraði greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar 600.000 krónur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. maí 2005.
I
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar um niðurfellingu málsins og málskostnaðarkröfu stefnda á hendur stefnanda 13. maí s.l., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Reykjavíkurborg á hendur X, [...], Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda voru þær, að stefnda yrði svipt forsjá sonar síns,A[...], sbr. a- og d- liður 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
Dómkröfur stefndu voru þær, að hún yrði sýknuð af öllum kröfum stefnanda og að forsjá sonar stefndu haldist óbreytt, þ.e. að hún verði óskipt í höndum stefndu. Þá krefst stefnda málskostnaðar úr hendi stefnanda, samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi, eins og mál þetta væri eigi gjafsóknarmál.
Í þinghaldi hinn 3. maí sl. óskaði lögmaður stefnanda eftir að fella málið niður, en lögmaður stefnda krafðist málskostnaðar, og óskaði lögmaðurinn eftir fresti til þess að fá að leggja fram málskostnaðarreikning sinn vegna málsins. Málinu var frestað í því skyni til 13. maí sl. Lögmaður stefnanda mótmælti málskostnaðarkröfunni. Var málið tekið til úrskurðar.
II
Málið var þingfest 15. júní 2004 og var frestað að kröfu lögmanns stefnda til framlagningar greinargerðar til 21. september 2004. Fór málið út af hinu reglulega dómþingi 21. september 2004, er greinargerð stefndu hafði verið lögð fram. Undirritaður dómari fékk málinu úthlutað 4. október 2004. Var málið tekið fyrir hinn 18. október sl. Í því þinghaldi var óskað eftir fresti til framlagningar matsgerðar, en dómkvaðning matsmanns hafði áður farið fram, að kröfu lögmanns stefndu. Málinu var síðan ítrekað frestað til framlagningar áðurgreindrar matsgerðar, en hún var síðan lögð fram í þinghaldi hinn 15. apríl sl. Málinu var síðan frestað, að ósk lögmanns stefnanda til 3. maí sl., en í því þinghaldi óskaði lögmaður stefnanda eftir að fella málið niður án kostnaðar. Lögmaður stefndu samþykkti niðurfellingu málsins, en krafðist málskostnaðar úr hendi stefnanda, eins og málið væri eigi gjafsóknarmál, og óskaði eftir fresti til framlagningar málskostnaðarreiknings til 13. maí sl. Stefnandi mótmælti málskostnaðarkröfu stefndu.
Með bréfi dómsmálaráðuneytisins, dagsettu 14. júlí 2004, var stefndu veitt gjafsókn í máli þessu.
Samkvæmt lyktum málsins ber stefnanda að greiða stefnda málskostnað, sbr. 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, sem rennur í ríkissjóð.
Með hliðsjón af umfangi málsins, málskostnaðarreikningi stefndu, sem og útlögðum kostnaði hennar vegna þess, þykir málskostnaður hæfilega ákveðinn 938.765 krónur, þar af útlagður kostnaður vegna matsgerðar og réttargjalda 488.765 krónur. Við ákvörðun málskostnaðar var m.a. litið til þess að töluverður hluti málskostnaðar stefndu varðar umgengnisrétt, sem ekki er hluti af dómkröfum í málinu og kemur því kostnaður vegna þeirrar kröfu ekki til álita í máli þessu. Þá hefur við ákvörðun málskostnaðar ekki verið litið til reglna um virðisaukaskatt.
Gjafsóknarkostnaður stefndu, 938.765 krónur, sem er þóknun lögmanns hennar, 450.000 krónur, og útlagður kostnaður 488.765 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Krafa stefnanda um að fella málið niður er jafnframt tekin til greina.
Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Málið er fellt niður.
Stefnandi, Reykjavíkurborg, greiði stefndu, X, 938.765 krónur í málskostnað, sem rennur í ríkissjóð.
Gjafsóknarkostnaður stefndu, 938.765 krónur, sem er málflutningsþóknun lögmanns hennar, Hilmars Magnússonar hrl., 450.000 krónur, og útlagður kostnaður 488.765 krónur, greiðist úr ríkissjóði.