Hæstiréttur íslands

Mál nr. 412/2004


Lykilorð

  • Kærumál
  • Vanreifun
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi að hluta


Fimmtudaginn 4

 

Þriðjudaginn 2. nóvember 2004.

Nr. 412/2004.

Eðalvörur ehf.

(Ólafur Thóroddsen hdl.)

gegn

Karon ehf.

(enginn)

 

Kærumál. Vanreifun. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi að hluta.

E ehf. kærði frávísun héraðsdóms á kröfu þess um staðfestingu á riftun á tilteknum samningum við K ehf. Hélt E ehf. því fram að K ehf. hefði vanefnt samningana í verulegum atriðum. Taldist grundvöllur málatilbúnaðar E ehf. vera nægilega skýr til þess að unnt væri að fjalla efnislega um riftunarkröfu hans. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi að því er kröfu E ehf. snerti og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar um hana.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. október 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. september 2004, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Eins og nánar kemur fram í hinum kærða úrskurði gerði Björn Eydal Þórðarson, fyrir hönd óstofnaðs hlutafélags, kauptilboð 5. janúar 2002 í tilgreindan rekstur sóknaraðila. Tilboðsverðið var 9.100.000 krónur og skyldu kaupin ná til „viðskiptasambanda, viðskiptavildar, reksturs, innréttinga og tækja“ sóknaraðila að Sundaborg 1, Reykjavík. Þá myndi varnaraðili yfirtaka skyldur sóknaraðila samkvæmt húsaleigusamningi vegna Sundaborgar 1 og kaupa lager sóknaraðila. Jafnframt var kveðið á um að sóknaraðili skyldi veita varnaraðila „einkaumboð á Íslandi fyrir sölu á öllum framleiðsluvörum frá Korea Ginseng Corporation“ en um það yrði gerður „sérstakur umboðssamningur“ þar sem nánar yrði kveðið á um réttindi og skyldur samningsaðila. Tilboð þetta var áritað af fyrirsvarsmanni sóknaraðila og er ágreiningslaust að þannig hafi komist á samningur með því efni sem í tilboðinu greinir. Mun varnaraðili síðan hafa innt kaupverðið af hendi. Hinn 15. janúar 2002 var gerður samningur milli málsaðila, nefndur Sole Distributor Agreement, um dreifingu varnaraðila á svokölluðu kóreönsku rauðu eðalginsengi. Er meginefni samningsins rakið í hinum kærða úrskurði, jafnframt því sem tíundað er efni viðauka við hann sem gerður var 20. janúar 2002. Deilur risu milli málsaðila vegna lögskipta þeirra. Höfðaði sóknaraðili mál 10. desember 2003 og gerði kröfu um riftun samningsins 15. janúar 2002 og viðaukans frá 20. sama mánaðar. Varnaraðili höfðaði gagnsakarmál 16. janúar 2004. Gerði hann meðal annars þá kröfu að rift yrði kaupsamningi aðila frá 5. janúar 2002.

Héraðsdómari vísaði með úrskurði sínum bæði aðalsök og gagnsök frá dómi án kröfu. Forsendur fyrir frávísun aðalsakar voru að ekki lægju fyrir í málinu haldbær gögn um fjárhagslegt mat á því hver hlutur dreifingarréttar á framleiðsluvörum Korea Ginseng Corporation væri í samningnum 5. janúar 2002. Þá hafi sóknaraðili nú samið við annað fyrirtæki um dreifingarrétt þennan, en ekki liggi fyrir kaupverð samkvæmt þeim samningi. Einnig taldi héraðsdómari málið vanreifað af hálfu varnaraðila, þar sem engin tilraun væri gerð til að sýna fram á með staðfestum bókhaldsgögnum eða öðrum haldbærum gögnum að viðskipti aðila hafi verið með þeim hætti sem hann staðhæfir.

Fyrir Hæstarétti heldur sóknaraðili því fram að niðurstaða héraðsdómara mótist af málatilbúnaði í gagnsök í héraði, sem sé vanreifaður. Sóknaraðili reisi hins vegar kröfu sína um riftun á því að varnaraðili hafi vanefnt umræddan samning 15. janúar 2002 og viðaukann 20. janúar 2002. Hafi héraðsdómara borið að fjalla efnislega um þennan málatilbúnað. Ekki skipti máli hver hlutur af samningsfjárhæð samkvæmt samningnum 5. janúar 2002 hafi verið vegna dreifingarréttarins á rauðu eðalginsengi, enda hafi sá þáttur ekki verið sérstaklega tilgreindur í samningnum. Með sama hætti skipti ekki máli hvað sóknaraðili hafi fengið greitt fyrir dreifingarrétt samkvæmt nýjum dreifingarsamningi við þriðja aðila varðandi þessar vörur.

Eins og að framan greinir hefur varnaraðili ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti og kemur úrskurður héraðsdómara um frávísun gagnsakar því ekki til endurskoðunar. Í máli þessu krefst sóknaraðili staðfestingar á riftun sinni á framangreindum samningi 15. janúar 2002 og viðaukasamningnum 20. sama mánaðar. Reisir hann kröfu sína á því að varnaraðili hafi í verulegum atriðum vanefnt þessa samninga og rekur ýmis atriði er hann telur vera því til stuðnings. Þau tengsl sem óneitanlega virðast vera á milli samningsins 5. janúar 2002 og samninganna 15. og 20. sama mánaðar þykja ekki ein og sér eiga að leiða til þess að aðalsök verði vísað frá dómi. Grundvöllur málatilbúnaðar sóknaraðila telst þannig nægilega skýr til þess að unnt sé að fjalla efnislega um riftunarkröfu hans. Verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi að því er aðalsök snertir og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar um kröfur í aðalsök.

Varnaraðili verður dæmdur til að greiða sóknaraðila kærumálskostnað, eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi að því er aðalsök varðar og er lagt fyrir héraðsdómara að taka aðalsök í málinu til efnismeðferðar.

Varnaraðili, Karon ehf., greiði sóknaraðila, Eðalvörum ehf., 150.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. september 2004.

Mál þetta, sem dómtekið var 7. september 2004, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Eðalvörum ehf., kt. 630894-2129, Glaðheimum 18, Reykjavík, gegn Karon ehf., kt. 560102-2050, Lyngási 14, Garðabæ, með stefnu sem birt var 10. desember 2003.  Stefndi gagnstefndi með stefnu, er birt var 16. janúar 2004, en lögð fram í Héraðsdómi Reykjavíkur 22. sama mánaðar.

Dómkröfur stefnanda í aðalsök eru að staðfest verði riftun hans á samningi aðila, stefnanda og stefnda, frá 15. janúar 2002, „Sole Distributor Agreement” og viðauka þar við frá 20. janúar 2002.  Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins.

Dómkröfur stefnda í aðalsök eru að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda nema rift verði samhliða kaupsamningi aðila dags. 5. janúar 2002 um kaup stefnda á einkaumboði á Íslandi fyrir sölu á öllum framleiðsluvörum frá Korea Ginseng Corporation og stefnandi jafnframt dæmdur til að endurgreiða stefnda 7.280.000 krónur auk dráttarvaxta skv. III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 16. janúar 2004 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins.

Dómkröfur stefnanda í gagnsök eru að rift verði með dómi kaupsamningi gagnstefnanda við gagnstefnda, dags. 5. janúar 2002, að því leyti er varðar kaup gagnstefnanda á einkaumboði á Íslandi til sölu á öllum framleiðsluvörum frá Korea Ginseng Corporation.  Þá er þess krafist að gagnstefnda verði gert að greiða gagnstefnanda 7.280.000 krónur auk dráttarvaxta skv. III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 16. janúar 2004 til greiðsludags.  Auk þess krefst gagnstefnandi að gagnstefnda verði gert að endurgreiða gagnstefnanda útlagðan kostnað vegna lögfræðiþjónustu, alls 331.337 krónur, og er krafist dráttarvaxta af þeirri fjárhæð frá 18. mars 2003 fram til greiðsludags, skv. III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/200.  Þess er og krafist að gagnstefndi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar að mati dómsins.

Dómkröfur gagnstefnda eru að félagið verði sýknað af öllum dómkröfum gagnstefnanda í gagnsök.  Þá er krafist málskostnaðar úr hendi gagnstefnanda.  Í greinargerð gagnstefnda er því lýst yfir að gagnstefndi andmæli því ekki að aðalsök og gagnsök verði sameinuð í einu máli.

 

Helstu málavextir eru að 5. janúar 2002 undirrituðu Björn Eydal Þórðarson fyrir hönd óstofnaðs hlutafélags og Sigurður Þórðarson fyrir hönd stefnanda svokallað Kauptilboð þar sem hið óstofnaða hlutafélag er tilboðsgjafi en stefnandi tilboðshafi.  Þar segir m.a. að tilboðsgjafi geri tilboðshafa bindandi kauptilboð að upphæð 9.100.000 kr. í núverandi rekstur tilboðshafa á innanlandsmarkaði og að húsaleigusamningur sem tilboðshafi hafi í Sundaborg 1 verði yfirtekin af tilboðsgjafa.  Í skjalinu er greint frá því að kaupin nái til viðskiptasambanda, viðskiptavildar, reksturs, innréttinga og tækja stefnanda í Sundaborg 1 og tilboðsgjafi muni kaupa lager stefnanda á kostnaðarverði fyrir 15. apríl 2002 en þar sé  eingöngu um auðseljanlegar vörur að ræða.  Í kauptilboðinu segir svo:

 

Tilboðshafi veiti tilboðsgjafa einkaumboð á Íslandi fyrir sölu á öllum framleiðsluvörum frá Korea Ginseng Corporation og verður gerður um það sérstakur umboðssamningur.  Tilboðsgjafi skal greiða 6% umboðslaun á innkaupsverði frá framleiðanda eins og það er í dag.  Tilboðshafi má ekki gera verðbreytingar nema verð breytist frá framleiðanda.  Nánar verður kveðið á um réttindi og skyldur beggja aðila í umboðssamningi sem tilboðsgjafi og tilboðshafi munu gera sín á milli á næstu dögum.  Fyrirvari skal vera á umboðssamningi að Korea Ginseng Corporation samþykki umboðssamninginn.  Samþykki Korea Ginseng Corporation ekki umboðssamninginn mun kauptilboð þetta falla niður og vera ógilt.

 

Á tímabilinu frá undirskrift kauptilboðs til gerðar kaupsamnings mun tilboðshafi, með aðstoð tilboðsgjafa ef þurfa þykir, ganga í það að tryggja tilboðsgjafa sömu viðskiptasambönd og tilboðsgjafi hefur með höndum við alla aðra birgja sína.  Gangi það ekki eftir mun kaupverðið lækka til samræmis við áætlaða veltuminnkun og framlegðartap sem því mun fylgja.  Skulu þessi mál vera frágengin skriflega þegar afhending fer fram.

 

Kaupverð miðast við að brúttósala án virðisaukaskatts sé um 20 milljónir.  Nái sala næsta árs ekki því marki skal kaupverð skerðast að sama hlutfalli.  Stefnt er að því að afhending skuli fara fram 15. janúar 2002 og fyrr ef öllum skilyrðum til sölu er fullnægt.

 

Tilboðshafi aðstoði kaupanda fyrst um sinn eftir nánara samkomulagi með það að leiðarljósi að stuðla af fremsta megni að velgengni rekstrar.  Seljandi mun einnig sinna þeim málarekstri sem skapast á markaði á síðustu misserum.  Þau mál eru alfarið á könnu og ábyrgð tilboðshafa sem mun þó upplýsa kaupanda um gang mála eftir því sem atburðarás verður.

 

Þann 15. janúar 2002 gerðu aðilar með sér svonefnt Sol Distributor Agreement [einkadreifingarsamningur].  Þar segir m.a. að samkomulag sé með aðilum að aðalstefnandi útnefni aðalstefnda sem einkaaðila til dreifingar á kóresku rauðu ginsengi [nefnt í samkomulaginu KRG] á Íslandi og að aðalstefndi kaupi aðeins rautt ginseng frá aðalstefnanda á tímabilinu 15. janúar 2002 til 31. desember 2004.  Samkomulagið er undirritað af Sigurði Þórðarsyni fyrir hönd aðalstefnanda en af Birni Eydal Þórðarsyni fyrir hönd aðalstefnda.

Samkomulagið kveður þó á um ákveðnar skyldur Björns Eydal Þórðarsonar sjálfs um að dreifa af fremsta megni KRG á þessu tímabili „in all adequate Ginseng distribution  Channels” með samkomulagi við stefnanda.  Þá segir:

 

Björn Eydal Þórðarson will sell KRG in its own name and on its own invoice under the licence of Eðalvörur.

 

To the obligations of Björn Eydal Þórðarson belongs furthermore:

·         Drawing up the yearly marketing plan inclusively sales and advertisement plan.

·         Public relations and sales promotion.

·         Stocking of KRG.

·         Placement of sales promotion material with the customers.

·         Factoring, dispatch, collection.

·         Covering of returned goods.

·         Observation of the competition.

·         Monthly short status and sales report.

 

Í samkomulaginu er kveðið á um að aðalstefnandi muni útvega og selja aðalstefnda allar vörur á samningstímabilinu sem Korea Ginseng Corporation framleiðir.  Þá segir að aðalstefndi skuldbindi sig til að kaupa KRG fyrir minnst 75.000 Bandaríkjadali árið 2002, 90.000 Bandaríkjadali  árið 2003 og 90.000 Bandaríkjadali 2004.  Jafnframt er kveðið á um að Björn Eydal Þórðarson muni verja 35.000 Bandaríkjadölum árlega frá 2002 til 2004 „for the marketing activities (advertising, sales promotion, public relations, scientific supports a.s.o.)”. Þá er kveðið á um rétt til að falla frá samkomulaginu 31. desember ár hvert fari svo að aðalstefndi verji ekki þeirri fjárhæð er samið var um til umræddra vörukaupa auk 35.000 Bandaríkjadala til að auglýsa vöruna.  Og orðrétt segir í þessu skriflega samkomulagi aðila:

 

This agreement can also be cancelled anytime without notice by both paries if ... or in case that the business activities are stopped or there is another important reason that does not allow a continuation of the agreement.

 

Þann 20. janúar 2002 undirrituðu Sigurður Þórðarson fyrir hönd aðalstefnanda og Björn Eydal Þórðarson fyrir hönd aðalstefnda svohljóðandi skjal:

 

„Viðauki við “Sole Distributor Agreement” milli

Eðalvara ehf. kt. 630894-2129 og Karon ehf. kt.

5601102-3060 dagsettur 20. janúar 2002 og

Kauptilboð milli sömu aðila dagsett 5. janúar 2002.

 

Viðauki þessi er gerður til þess að skilgreina nánar fyrrgreindan samning.

 

Ákvæði 1. gr. og 2. gr. þessa viðauka eiga einungis við ef Karon ehf. hefur staðið við ákvæði samningsins og að Eðalvörur ehf. hafi virkan “Sole Agent Agreement”.

 

1.     Eðalvörur ehf. skuldbinda sig til þess að endurnýja samninginn við Karon ehf. með 6% álagningu svo oft sem Karon ehf. óskar þess.

2.     Eðalvörur ehf. skuldbinda sig til þess að fara ekki sjálfar að markaðssetja vörur þær sem Karon ehf. er að taka við dreifingu á, né að selja þær þriðja aðila til dreifingar á íslenska markaðnum.

3.     Þar sem tiltekið er í “Sole Distributor Agreement” að Eðalvörur geti rift samningnum ef Eðalvörur samþykkja ekki nýjan kaupanda að Karon ehf. þá er einungis átt við að Eðalvörur geti hafnað hugsanlegum nýjum dreifingaraðila að vörum KRG en ekki rift samningnum í kjölfar þess.  Eðalvörur hafa rétt til að hafna hugsanlegum nýjum dreifingaraðila að vörum KRG ef sá aðili hamlar á einhvern hátt dreifingu á vörum KRG.

4.     Eðalvörur geta þó ekki rift samningum ef til ófyrirsjáanlegra aðstæðna kemur svo sem náttúruhamfara, stríðs eða efnahagslegs hruns, né er hægt að halda aðilum ábyrgum vegna þessa.”

 

Ekki var gengið frá kaupsamningi með þeim hætti sem kauptilboðið, dskj. nr. 3, mælir fyrir um, en í stefnu í aðalsök er því lýst yfir að aðalstefndi hafi greitt fyrir viðskiptavild og birgðir og hafið síðan dreifingarstarfsemi sína.  Í október 2002 kvartaði forsvarsmaður aðalstefnanda yfir því við forsvarsmann aðalstefnda að verulega vantaði upp á að innkaup aðalstefnda stæðust væntingar og þar sem langt væri liðið á árið færi hann fram á að forsvarsmaður aðalstefnda upplýsti hvenær á árinu gerði yrði viðbótarpöntun þannig að ákvæði dreifingarsamningsins yrði uppfyllt.  Og í bréfi frá forsvarsmanni aðalstefnanda til forsvarsmanns aðalstefnda, dags. 24. janúar 2003, segir:

 

Svo sem fram hefur komið í samtölum okkar og bréfaskrifum er langur vegur frá því að Karon hafi staðið við dreifingarsamning sinn við Eðalvörur á Rauðu Eðalginsengi.  Meðal þeirra atriða sem Karon hefur vanrækt er að svara bréfum sem til fyrirtækisins er beint og varða samningsbundnar skyldur fyrirtækisins. ...

 

Nú er svo komið að þessi háttsemi fyrirtækisins hefur skaðað og sett í uppnám viðskiptatengsl Eðalvara og Korea Ginseng Corporation, þar sem Eðalvörum hefur ekki verið unnt að ganga frá markaðsskýrslum og áætlunum þar sem allar upplýsingar um það hefur skort frá þinni hálfu.

Korea Ginseng Corporation hefur hótað viðurlögum og uppsögn samninga, sem að sjálfsögðu myndi hafa sambærileg áhrif á samning okkar.

 

Hér með er skorað á þig að lagfæra þetta strax og ekki síðar en innan 4 daga frá dagsetningu bréfs þessa.

 

Þann 23. júní 2003 sendi lögmaður aðalstefnanda forsvarsmanni aðalstefnda símskeyti þar sem hann tjáir honum að aðalstefnandi hafi falið honum að rifta „Sole Distributor Agreement dags. 15. janúar 2002.”  Þá segir í skeytinu:

 

Umbj. m. telur, að verulegt markaðslegt tjón hafi hlotist vegna vanefnda yðar hér innanlands og gagnvart erlendum viðsemjendum umbj. m.  Til að koma í veg fyrir frekari skaða er umb. m. þó til viðtals um að kaupa af yður lager af þeim vörum, sem samkomulagið tekur til, og hugsanlega með einhverju álagi.  Ef þér fallist á slíkt, bið ég yður að kynna mér afstöðu yðar þar að innan 10 daga frá móttöku þessarar riftunaryfirlýsingar.

 

Afstöðu um riftun verður ekki breytt og fylgt eftir með málsókn nema aðilar semji um slit á samstarfi þeirra innan 15 daga héðan í frá.

 

Af hálfu aðalstefnda segir að eftir að lögmaður aðalstefnanda sendi framangreint skeyti hafi fundur verið haldinn með málsaðilum.  Vísað er til tölvubréfs frá lögmanni aðalstefnda til lögmanns aðalstefnanda 7. október 2003 þar sem segir frá því að dregist hafi af ákveðnum ástæðum að senda tillögur frá aðalstefnda og áréttað, að á fundinum hafi forsvarsmenn aðalstefnda óskað eftir því að bundinn yrði endir á samskipti aðila og „að kaupin varðandi dreifingu og umboð á Rauðu Eðal Ginsengi frá Kóreu yrðu látin ganga til baka”.  Þá segir í bréfinu:

 

Í samningi aðila var við það miðað að Gingsengið væri 80% af verðmætum kaupanna, en kaupverðið var kr. 9.100.000.  Þykir umbj. mínum því sanngjarnt að Eðalvörur greiði fyrir þennan hluta viðskiptanna 80% m.v. kaupsamning aðila – þ.e. 7.280.000.  Benda umbj. mínir í þessu tilliti á þá staðreynd að þeir telja mjög líklegt að Eðalvörur geti selt dreifinguna aftur á þessu sama verði eða jafnvel hærra.  Er þá til vörulagers Gingsengsins að líta, en verðmæti þess lagers sem umbj. mínir eru nú með er að verðmæti ca. 3.400.000.  Fara umbj. mínir þess á leit að umbj. þinn leysi til sín lagerinn á kostnaðarverði með 1,5 álagningu – þ.e. 3.400.000 x 1,5 – 5.100.000.  Er heildarálagning mun hærri en sem þessu nemur og telja umbj. mínir að umbj. þinn eigi vart í erfiðleikum á að selja lagerinn mun hærra verði og með því dekka allan þann kostnað sem af málinu öllu hefur skapast.

Miðað við ofangreindar forsendur setja umbj. mínir því fram hugmynd þeirra að greiðslu umbj. þíns að fjárhæð kr. 12.380.00, gegn afhendingu allra réttinda og skyldna er varða dreifingu á Rauðu Eðal Gingsengi og afhendingu lagers er varðar allar þær vörur.

Ég heyri frá þér þegar þú hefur farið yfir málið með umbj. þínum.

 

Í tölvubréfi lögmanns aðalstefnanda til lögmanns aðalstefnda 29. október 2003 lýsti lögmaður aðalstefnanda því yfir að frekari viðræður væru tilgangslausar.  Brot aðalstefnda væri það ítrekuð og alvarleg að haldið yrði áfram með að fá staðfestingu á riftun fyrir dómi.

Upplýst er að aðalstefnandi hefur fengið Eggert Kristjánsson ehf. til þess að sjá um dreifingu hér á landi á framleiðsluvörum Korea Ginseng Corporation.

 

Í aðalsök byggir aðalstefnandi á því að aðalstefndi hafi með augljósum hætti vanefnt samkomulag aðila frá 15. janúar 2002.  Aðalstefndi hafi engar vörur pantað árið 2003, ekki starfað innan þess markaðsramma sem samningur aðila kveður á um.  Þá hafi hann ekki lagt fram gögn um að hafa auglýst, svo sem honum var skylt, og gengið á svig við fyrirmæli umboðsaðila og vísindaleg gögn um eiginleika KRG.  Aðalstefndi hafi vanrækt kynningu og þjónustu við smásöluaðila og vanefnt greiðslu húsaleigu í Sundaborg 1 svo og greiðslu húsgjalda þar aðalstefnanda til tjóns.

 

Stefndi í aðalsök byggir á því að aðalstefnandi hafi leynt því að verulega hafi dregið úr sölu á framleiðsluvörum Korea Ginseng Corporation þegar aðalstefnandi seldi aðalstefnda rekstur sinn.  Þá hafi fyrirsvarsmaður aðalstefnanda tjáð aðalstefnda að leigusamningur, er kaupunum fylgdi, væri háður sex mánaða uppsagnarfresti, en komið hafi í ljós eftir samkomulag aðila að aðalstefnandi hafði endurnýjað leigusamninginn og að uppsagnarákvæðum hans hafði verið breytt þannig að uppsagnarfresturinn var tólf mánuðir.  Munnlegt samkomulag hafi orðið með aðilum um að hvor um sig myndi greiða helming uppsagnarfrests samningsins.  Við þetta hafi aðalstefnandi ekki staðið og hafi aðalstefndi orðið að greiða þrjá mánuði aukalega umfram það sem aðalstefnandi hafði í byrjun upplýst aðalstefnda um að hann þyrfti að sæta.

Þá er byggt á því að vörulager sem aðalstefnandi lét aðalstefnda í té hafi verið illseljanlegur enda þótt í kauptilboðinu segi að eingöngu sé um auðseljanlegar vörur að ræða.

Aðalstefndi hafnar því að hafa ekki látið aðalstefnanda í té umbeðnar söluskýrslur og markaðsáætlanir, og vísar til þess að hvergi sé kveðið á um það í samningum aðila með hvað hætti það sé gert.  Hafi það verið framkvæmt með reglulegum símtölum milli aðila, þá í tölvupósti og viðhengjum við þau.  Þá er staðhæft að aðalstefndi hafi allan samningstímann átt hálfs árs vörubirgðir utan upphafsmánaða samstarfsins.

Af hálfu aðalstefnda segir að útgjaldskyldu vegna auglýsinga skv. 9. gr. samkomulagsins sé bersýnilega ósanngjörn.  Aðalstefnda sé gert að auglýsa fyrir ákveðna upphæð í Bandaríkjadölum án þess að tekið sé mið af því að raunveruleg sala var mun minni en aðalstefnandi hafði sagt að hún væri.

Aðalstefndi mótmælir því að hafa vanrækt kynningu og þjónustu við smásöluaðila og andmælir því að hafa ekki haft samráð við aðalstefnanda um auglýsingar og kynningu á vörunum.

 

Stefnandi í gagnsök byggir á því að samningur aðila frá 5. janúar 2002 og dreifingarsamningur sem gerður var í kjölfarið um dreifingu á framleiðsluvörum Korea Ginseng Corporation á Íslandi séu svo nátengdir gerningar að ómögulegt sé að rifta bara öðrum.  Riftun dreifingarsamningsins hafi engin áhrif á réttarstöðu gagnstefnanda sem einkaumboðsmanns vörusölu Korea Ginseng Corporation á Íslandi.  Hins vegar feli þessi yfirlýsing gagnstefnda um riftun og eftirfarandi samningur gagnstefnda og Eggerts Kristjánssonar ehf. um umboð á dreifingu á framleiðslu Korea Ginseng Corporation á Íslandi í sér svo stórkostlegar vanefndir á samningi aðila frá 5. janúar 2002 að samningurinn sé einskis virði fyrir gagnstefnanda og honum því heimilt að rifta honum og krefjast endurgreiðslu kaupverðsins.

 

Stefndi í gagnsök byggir á því að grundvöll skorti fyrir fjárkröfu gagnstefnanda á hendur honum í gagnsök.  Gagnstefnandi hafi í engu hrakið málsástæður gagnstefnda í aðalsök og geti ekki byggt kröfu um riftun á kauptilboðinu frá 5. janúar 2002 og fjárkröfu því fylgjandi á eigin vanefndum.  Þá byggir gagnstefndi á því að gagnstefnandi hafi samþykkt riftunina í reynd með því að selja sjálfur framleiðslu frá Korea Ginseng Corporation til Eggerts Kristjánssonar ehf.  Að lokum byggir gagnstefndi á því að fjárhæð kröfunnar sé óskýrð, engin gögn séu lögð fram henni til skýringar.

Gagnstefndi hafnar kröfu gagnstefnanda um útlagðan lögfræðikostnað og krefst sýknu þar á vegna aðildarskorts.

 

Sigurður Þórðarson, forsvarsmaður aðalstefnanda/gagnstefnda, gaf skýrslu fyrir rétti.  Hann sagði m.a. að fyrirtæki hans, Eðalvörur, hefði haft í rúm fimmtán ár umboð fyrir rautt eðalginseng en árið 2002 hafi fyrirtækinu verið falið einkaumboð á rauðu eðalginsengi í stórum hluta Skandinavíu.

Er hann seldi reksturinn, kvaðst hann ekki aðeins hafa selt dreifing á rauðu ginsengi, hann hafi þá einnig selt aðalstefnda umboð fyrir ýmsar aðrar nafngreindar vörur.  Hann vísaði til dskj. nr. 31, sem hann kveður sýna sölu á ginsengi frá því í febrúar 1999 til og með janúar 2002, samtals að fjárhæð 42.225.227 kr., og samanlagða sölu á ginsengi og öðrum vörum sem seldar voru samtímis og málið snýst um, samtals að fjárhæð 80.899.463 kr.

Við töku hans á einkaumboði á rauðu eðalginsengi í Skandinavíu, kvað hann Kóreumenn hafa óskað eftir því að hann væri ekki bundinn sérstaklega við markað í einu landi.  Aðspurður kvaðst hann, áður en gengið var til samninga, hafa sýnt Birni Eydal Þórðarsyni bókhald Eðalvara ehf. og lykiltölur úr því staðfestar af endurskoðanda, en allir ársreikningar félagsins hefðu verið endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda.  Hann neitaði því að aðilar hefðu rætt um að rautt eðalginseng væri 80% hluti af verðmæti samninga aðila.

Hann sagði að kauptilboðið, sem samþykkt var 5. janúar 2002, fjalli ekki einungis um sölu á dreifingarrétti á framleiðsluvörum frá Korea Ginseng Corporation heldur einnig um sölu á umboðum á öðrum vörum frá öðrum framleiðendum.  Hann sagði að tíu dögum síðar hafi verið gerður dreifingarsamningur sem sneri einvörðungu að rauðu eðalginsengi.  Hann kvaðst engar kvaðir hafa lagt á kaupandann varðandi aðrar vörutegundir en rautt eðalginseng.

Lagt var fyrir Sigurð dskj. nr. 4 og 5, þ.e. Sole Distributor Agreement, dags. 15. janúar 2002 og viðauki, dags. 20. janúar 2002.  Hann sagði að aðalstefndi hefði tekið við dreifingu á rauðu eðalginseng eftir 20. janúar 2002.  Hann sagði að fljótlega hefði komið í ljós að aðalstefndi vanefndi að auglýsa vöruna og að fara eftir íslensku aðferðafræðinni í markaðs- og verðlagsmálum um rautt eðalginseng svo sem samningur gerði ráð fyrir.

Sigurður sagði að í nóvember 2003 hafi fyrsta vörupöntun komið frá aðalstefnda.  Pantaðar hafi verið vörur fyrir 1.460.000 kr.  Aðalstefndi hafi ekki sett bankatryggingu fyrir þessari pöntun, eins og samningur aðila gerir ráð fyrir, og auk þess greitt með innistæðulausum tékka.  Önnur pöntun hafi verið gerð og gefin út á hana reikningur 15. desember 2003 að fjárhæð 2.785.563 kr.  Þann reikning hafi aðalstefnandi ekki fengið greiddan fyrr en eftir innheimtu lögfræðings 4. febrúar 2003.

Sigurður kvaðst hafa fengið áminningu frá Korea Ginseng Corporation  23. janúar 2003 svo sem dskj. 6.24 sýnir.  Þá sagði hann að í júní 2003 hafi svo verið komið að vörur hefðu ekki verið pantaðar í sjö mánuði.  Aðalstefnda hafi þá verið sent riftunarskeyti.  Eftir það hafi verið haldinn fundur hjá lögmanni aðalstefnda, Lúðvík Erni Steinarssyni.  Þar hafi lögmaðurinn lagt til að aðalstefnandi greiddi kaupverðið að miklu leyti til baka en því hefði hann hafnað vegna þess að búið var að skaða umboðið er nam hærri fjárhæð en kaupverðinu.  Aðalstefndi hafi heldur ekki boðið honum að taka aftur við öðru en dreifingunni á ginsenginu sem aðalstefndi hafði klúðrað.

Eftir að hafa rift samningi við aðalstefnda kvaðst Sigurður hafa samið við Eggert Kristjánsson ehf. um dreifingu.  Kvaðst hann á þeim tíma ekki hafa haft neinar vörur á lager en Eggert Kristjánsson ehf. hefði keypt allar vörurnar af aðalstefnda, Karton ehf.

Aðspurður sagði Sigurður, að ef til vill væri þessi upphæð, 35.000 bandarískra dala árlega, til að auglýsa rautt eðalginseng, sem 9. gr. dreifingarsamningsins gerði ráð fyrir að Karton ehf. greiddi, há upphæð miðað við árlegt innkaupsverð að fjárhæð 90.000 bandarískra dala.  En ekki ef miðað væri við þá háu álagningu sem tíðkast á þessari vöru - sem sé margfalt innkaupsverðið.

 

Björn Eydal Þórðarson gaf skýrslu fyrir rétti.  Hann sagði m.a. að strax fyrsta mánuð eftir að umrædd kaup urðu hafi sala verið undir væntingum.  Allt vorið hafi sölutölur verið undir því sem fyrri sölur voru sagðar hafa verið.  Kvaðst hann þó hafa farið eftir öllu sem Sigurður hafi bent honum á í sambandi við auglýsingar.  Samskipti aðila hefðu því versnað.  Hann sagði að vanhöld hefðu orðið á því að aðalstefnandi stæði við að styðja Karon ehf. svo sem 5. gr. dreifingarsamningsins gerir ráð fyrir.  Hann kvaðst hins vegar hafa staðið við að verja 35.000 bandarískra dala, svo sem 9. gr. samningsins segir, til auglýsinga og rúmlega það.  Hann sagði að reyndar hafi verið hætt að auglýsa vöruna eftir að aðalstefnandi lýsti riftun.

Björn sagði að talað hefði verið um það að ginsengið væri 80% af verðmæti samnings aðila, jafnvel meira.  Hann sagði að miðað við sölu aðalstefnda á ginsengi hefði hagnaður af sölu þess verið enginn, sölukvaðir hafi gjörsamleg étið upp alla framlegð. 

Björn sagði að reikning, sem fram kemur sem fskj. með dskj. nr. 5 að fjárhæð samtals 1.461.630 kr. með virðisaukaskatti, hafi hann fyrst verið beðinn um að greiða hjá lögmanni aðalstefnanda.  Forsagan hafi verið sú að um tvær pantanir hafi verið að ræða, er hann hafi ætlað að fá í tveimur sendingum.  Þær hafi hins vegar komið saman.  Í millitíðinni hafi Sigurður ætlað að fá lengri greiðslufrest fyrir hönd aðalstefnda.  Því hafi ekki verið gengið frá tryggingum, sem Sigurður lagði fram, enda ekki neinn tilgangur í að leggja fram tvöfalda tryggingu.  Munnlega hafi verið samið um að þetta yrði gert upp þegar vörurnar kæmu.  Þetta hafi svo farið á þann veg að þegar vörurnar komu  hafi andvirðið farið beint í innheimtu hjá lögmanni.

Lagt var fyrir Björn dskj. nr. 24, sem ber fyrirsögnina: SÖLUTÖLUR Á RAUÐU EÐAL GINSENGI Í AÐFÖNGUM.  Kvað Björn þetta vera yfirlit yfir sölutölu til Aðfanga.  Hann kvað Eðalvörur hafa unnið þessa vinnu fyrst en svo Karon.  Björn kvaðst sjálfur hafa útbúið þetta skjal eftir tölum frá starfsmanni Aðfanga.

Lagt var fyrir Björn dskj. nr. 25, sem er tölvupóstur milli Sigurðar Þórðarsonar og Björns Eydal Þórðarsonar ásamt skjali er ber fyrirsögnina: Rautt Eðalginseng markaðsáætlun og söluskýrsla.  Björn kvað fylgiskjalið vera frá sér.  Var hann spurður af lögmanni aðalstefnanda hvers vegna aðalstefndi hefði ekki lagt fram staðfest gögn um auglýsingabirtingar.  Björn sagði að í fyrsta lagi hefði verið beðið um þetta þegar bókhaldið var hjá endurskoðanda,  en þegar beiðnin var ítrekuð hafi ágreiningur aðila verið með þeim hætti að hann hefði ekki séð neinn tilgang í því að leggja það fram, enda hafi þá verið búið að ræða um að aðalstefnandi tæki umboðið til baka eða seldi til þriðja aðila.  Auk þess sagði Björn að ekkert væri talað um það í neinu samkomulagi aðila að aðalstefndi eigi að leggja fram slík gögn.

Björn upplýsti að hann væri viðskiptafræðingur að mennt. Aðspurður kvað hann Karon ehf. hafa selt birgðir af rauðu eðalginsengi til Eggerts Kristjánssonar ehf.

 

Ályktunarorð:  Skjalfestir samningar aðila eru fyrir það fyrsta samþykkt kauptilboð frá 5. janúar 2002.  Hið samþykkta kauptilboð gerir ráð fyrir að aðalstefndi greiði aðalstefnanda 9.100.000 krónur fyrir „núverandi rekstur tilboðshafa á innanlandsmarkaði” og þá segir að kaupin nái til „viðskiptasambanda, viðskiptavildar, reksturs, innréttinga og tækja Eðalvara í Sundaborg 1”.  Þá er kveðið á um að aðalstefnandi veiti aðalstefnda einkaumboð á Íslandi fyrir sölu á öllum framleiðsluvörum frá Korea Ginseng Corporation og verði gerður um það sérstakur umboðssamningur.

Þessi sérstaki umboðssamningur var ekki gerður.  En gerður var samningur 15. janúar 2002 sem fjallar um að aðalstefnandi afhendi aðalstefnda einka-dreifingarétt á kóresku rauðu ginsengi og forgangsrétt á öðrum vörum framleiddum af Korea Ginseng Corporation til endursölu á Íslandi.

Ekki er deilt um að aðalstefndi greiddi aðalstefnanda 9.100.000 kr.  Þá er ekki ágreiningur um að innifalið í þessari fjárhæð er greiðsla aðalstefnda fyrir umboð á ýmsum öðrum vörum en framleiðsluvörum Korea Ginseng Corporation.

Í aðalsök krefst aðalstefnandi að staðfest verði riftun hans á samningi aðila frá 15. janúar 2002 og viðauka þar við frá 20. janúar 2002.  Telur aðalstefnandi sig eiga rétt til að samningi þessum sé rift án nokkurrar endurgreiðsla á kaupverði sökum þess að aðalstefndi hafi skaðað umboðið er nemi hærri fjárhæð en þeirri sem aðalstefndi greiddi aðalstefnanda fyrir umræddan dreifingarétt.  Aðalstefnandi hefur jafnframt samið við annan aðila, Eggert Kristjánsson ehf., um dreifingu á framleiðsluvörum Korea Ginseng Corporation.

Ekki liggja fyrir í málinu nein haldbær gögn um það á hvað hlutur dreifingaréttar á framleiðsluvörum Korea Ginseng Corporation var metin fjárhagslega í samningi aðila, þ.e. hvaða hlutur það er af 9.100.000 kr. er aðalstefndi greiddi aðalstefnanda.  Þá liggur ekki fyrir hvaða fjárhæð aðalstefnandi fær eða fékk frá Eggerti Kristjánsson ehf. fyrir dreifingaréttinn.

Málið er einnig vanreifað af hálfu aðalstefnda/gagnstefnanda.  Engin tilraun er gerð til að sýna fram á með staðfestum bókhaldsgögnum eða öðrum haldbærum gögnum að viðskipti aðila hafi verið með þeim hætti sem hann staðhæfir.

Samkvæmt framangreindu verður ekki komist hjá því að vísa málinu sjálfkrafa frá dómi.  Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af rekstri málsins.

Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ:

Máli þessu er vísað sjálfkrafa frá dómi.  Málskostnaður fellur niður.