Hæstiréttur íslands
Mál nr. 34/2013
Lykilorð
- Lánssamningur
- Ábyrgð
|
|
Fimmtudaginn 23. maí 2013. |
|
Nr. 34/2013.
|
Ingólfur Helgason (Jóhannes Bjarni Björnsson hrl.) gegn Arion banka hf. (Stefán A. Svensson hrl.) |
Lánssamningur. Ábyrgð.
A hf., höfðaði mál gegn I og krafðist efnda á skuldbindingu samkvæmt lánssamningi frá 4. janúar 2006 milli K hf. og I. Í samningnum kom fram að lánið væri veitt til hlutafjárkaupa. Á hinn bóginn var óumdeilt að lánsfjárhæðin var ekki notuð til kaupa á hlutum í bankanum heldur var hún lögð inn á tvo reikninga í eigu I. Af þessari ástæðu byggði A hf. á því að samþykkt stjórnar K hf. frá 25. september 2008, þar sem forstjóra bankans var veitt heimild til að fella niður persónulega ábyrgð á lánum starfsmanna til hlutabréfakaupa í bankanum, tæki ekki til lánveitingarinnar. Héraðsdómur féllst á kröfu A hf. um greiðsluskyldu I samkvæmt lánssamningnum. Taldi dómurinn hvorki vera unnt að fallast á að samþykkt stjórnar K hf. né yfirlýsing forstjóra bankans á grundvelli hennar hafi breytt efni samningsins. Staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu hins áfrýjaða dóms með vísan til forsendna hans.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Eiríkur Tómasson og Greta Baldursdóttir.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. janúar 2013. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Ingólfur Helgason, greiði stefnda, Arion banka hf., 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 17. október 2012.
Mál þetta, sem var dómtekið 9. október sl., er höfðað 12. júlí 2011 af Arion banka hf., Borgartúni 19 í Reykjavík, gegn Ingólfi Helgasyni, til heimilis að 8 Rue Jean-Pierre Kemmer, Fentage, Lúxemborg.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða honum skuld að fjárhæð 9.339.610 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 30. ágúst 2010 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar ásamt virðisaukaskatti.
Stefndi krefst þess að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Til vara er þess krafist að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins.
Í greinargerð krafðist stefndi frávísunar málsins. Með úrskurði 2. febrúar 2012 var þeirri kröfu hafnað.
II.
Stefnandi reisir kröfur sínar á lánssamningi, dags. 4. janúar 2006, en með honum veitti Kaupþing banki hf. stefnda lán að fjárhæð 50.000.000 króna. Stefndi var þá starfsmaður bankans, en í greinargerð kemur fram að frá september 2005 hafi hann verið yfir viðskiptabankastarfsemi Kaupþings banka á Íslandi. Í samningnum kemur fram að lánið sé veitt til hlutafjárkaupa og að lántaki veiti bankanum heimild til að ráðstafa láninu til greiðslu og uppgjörs á slíkum viðskiptum. Samkvæmt úttekt PricewaterhouseCoopers hf. á lánum lykilstarfsmanna í bankanum, dags. 23. apríl 2010, var lánsfjárhæðinni hins vegar ekki ráðstafað með þeim hætti heldur voru 40 milljónir króna lagðir inn á vörslureikning nr. [...]902 í eigu stefnda og 10 milljónir króna inn á innlánsreikning hans nr. [...]167.
Til tryggingar á endurgreiðslu lánsins voru hlutir stefnda í bankanum, að nafnverði 2.800.075 krónur, veðsettir samkvæmt handveðsyfirlýsingu 13. desember 2005 ásamt síðari viðaukum, sbr. grein 5.1 í lánssamningnum. Með handveðsyfirlýsingunni voru hlutabréfin sett að handveði til tryggingar á greiðslu á öllum skuldum stefnda við bankann. Afsalaði stefndi umráðum sínum yfir hinu veðsetta en hélt þó atkvæðisrétti og arði af bréfunum. Bæði í lánssamningnum og handveðsyfirlýsingunni er kveðið á um að stefnda sé óheimilt að selja eða veðsetja hlutina þar til lánið verði að fullu endurgreitt nema með skriflegu samþykki bankans. Í 12. gr. lánssamningsins er kveðið á um, að kjósi bankinn að hagnýta sér ekki þegar í stað rétt sinn samkvæmt honum að fullu eða að hluta, takmarki „það ekki heimild hans eða möguleika til að hagnýta sér þann rétt síðar“. Sams konar ákvæði er að finna í handveðsyfirlýsingunni.
Lánið, ásamt áföllnum vöxtum, bar að endurgreiða með einni greiðslu 1. desember 2010. Ef veðhlutfall færi undir 120% af eftirstöðvum skuldarinnar var stefnda skylt, að fenginni tilkynningu bankans, að leggja fram frekari tryggingar, sbr. gr. 5.2 í samningnum. Heimilt var að segja „öllu láninu upp einhliða og fyrirvaralaust og án aðvörunar eða sérstakrar uppsagnar“ meðal annars ef lántaki legði ekki fram viðbótartryggingu innan tilskilins frests, sbr. d-lið greinar 9.1. Í 6. gr. samningsins, sem ber yfirskriftina „Takmörkun ábyrgðar“, segir að ábyrgð lántaka á skuldinni takmarkist við andvirði handveðsins og hvers kyns viðbótartrygginga, en að auki skuli hann „bera ábyrgð á greiðslu 10% skuldarinnar eins og hún er á hverjum tíma með öðrum eignum sínum“. Kæmi til vanefnda gat lánveitandi því eingöngu leitað fullnustu í handveðinu og viðbótartryggingum en þar að auki gæti „lánveitandi innheimt 10% skuldarinnar með því að leita fullnustu í öðrum eignum“ lántaka. Samkvæmt grein 10.1 í samningnum urðu allar beiðnir um breytingar á skilmálum lánssamningsins, svo og breytingarnar sjálfar, að vera skriflegar.
Með yfirlýsingu stjórnar Kaupþings banka hf., 25. september 2008, var persónuleg ábyrgð á lánum starfsmanna til hlutabréfakaupa í bankanum felld niður. Samkvæmt þýðingu löggilts skjalaþýðanda segir í fundargerð stjórnarfundar um þetta atriði: „Á grundvelli tillagna Starfskjaranefndar hefur stjórnin ákveðið að veita Hreiðari Má Sigurðssyni heimild til þess að fella niður og ljúka persónulegri ábyrgð starfsmanna í tengslum við öll hlutfjárkaupalán starfsmanna, sem keypt hafa hluti í Kaupþingi, með það að markmiði að stuðla að því að starfsmönnum sé kleift að einbeita sér að störfum sínum í bankanum. Ábyrgð starfsmanna takmarkast við hlutabréfin sem hafa verið sett að veði.“ Hinn 25. september 2008 undirrituðu forstjóri bankans, Hreiðar Már, og stefndi yfirlýsingu þess efnis að bankinn hefði ákveðið að stefndi yrði ekki krafinn persónulega um efndir á hlutafjárkaupalánum sem veitt hefðu verið til kaupa á hlutum í Kaupþingi. Af hálfu stefnanda er því haldið fram að þessi niðurfelling taki ekki til lánsins sem hér um ræði. Af þeim sökum hafi láninu verið ráðstafað til stefnanda með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 21. október 2008 um ráðstöfun eigna og skulda Kaupþings til Nýja Kaupþings, nú stefnanda þessa máls.
Stefnda var tilkynnt 17. maí 2010 að veðtrygging lánssamningsins væri komin niður fyrir umsamið lágmark. Stefndi lagði ekki fram nýjar tryggingar innan tilskilins frests. Með bréfi, sem stefnda var afhent 30. ágúst 2010, var honum tilkynnt um gjaldfellingu lánssamningsins. Í stefnu kemur fram að þar sem stefndi hafi ekki orðið við greiðslukröfu sé málshöfðunin óhjákvæmileg.
Rétt er að taka fram að Kaupþing banki hf. höfðaði mál 29. júní 2010 gegn stefnda þar sem krafist er riftunar á þeirri ráðstöfun frá 25. september 2008 að fella niður persónulega ábyrgð stefnda á greiðslu fjögurra annarra lánssamninga með vísan til riftunarreglna laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og greiðslu á 1.171.960.639 króna.
III.
1. Málsástæður og lagarök stefnanda
Um aðild sína vísar stefnandi til þess að með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 21. október 2008, um ráðstöfun eigna og skulda Kaupþings til Nýja Kaupþings banka hf., sem nú er stefnandi máls þessa, Arion banki hf., hafi réttindi og skyldur samkvæmt lánssamningi Kaupþings og stefnda, þ.m.t. veðréttindi sem honum hafi tengst og síðari viðaukar, verið framseld til stefnanda. Stefnandi teljist þannig kröfuhafi samkvæmt lánssamningnum sem mál þetta varði. Samkvæmt gr. 16.1 í lánssamningnum lúti hann íslenskum lögum og skuli mál vegna hans rekin fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Því sé stefnda réttilega stefnt fyrir þeim dómstól, sbr. 3. mgr. 42. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Stefnandi kveðst reisa kröfur sína á fyrrgreindum lánssamningi, sem Kaupþing hafi gert við stefnda 4. janúar 2006 (nr. 0690-35-2941). Í gr. 2.3 í lánssamningnum hafi komið fram að lánið væri veitt til fjármögnunar hlutabréfakaupa, þ.e. á hlutum í Kaupþingi. Lánsfjárhæðin hafi hins vegar aldrei verið nýtt til kaupa á hlutabréfum í Kaupþingi heldur hafi fjármununum verið ráðstafað annað eins og rakið hefur verið. Fyrir liggi að Kaupþing hafi fellt niður persónulegar ábyrgðir starfsmanna bankans vegna lána til kaupa á hlutabréfum í Kaupþingi, en krafa um riftun vegna þeirrar ráðstöfunar sé núna til úrlausnar dómstóla. Stefnandi telur hins vegar að þar sem láninu hafi að sönnu ekki verið ráðstafað til kaupa á hlutabréfum í Kaupþingi þá hafi niðurfelling bankans á persónulegum ábyrgðum starfsmanna ekki náð til þess láns sem stefnandi krefur stefnda um efndir á. Af því leiði jafnframt að láninu hafi verið ráðstafað til stefnanda með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, dags. 21. október 2008, um ráðstöfun eigna og skulda Kaupþings til Nýja Kaupþings banka hf., nú stefnanda máls þessa Arion banka hf. Stefnandi teljist þannig kröfuhafi samkvæmt lánssamningnum.
Stefnandi vísar til þess að það liggi fyrir að persónuleg ábyrgð stefnda samkvæmt lánssamningum hafi verið bundin við 10%, sbr. nánar gr. 6.1 í samningnum. Af því leiði jafnframt að ábyrgð stefnda sé takmörkuð við 10% af þeirri lánsfjárhæð sem ráðstafað hafi verið til stefnanda með umræddri ákvörðun Fjármálaeftirlitsins. Því sé stefndi krafinn um 10% af gjaldfallinni samningsfjárhæð ásamt áföllnum samningsvöxtum, sbr. nánar hér síðar, eða sem svari til persónulegrar ábyrgðar hans á lánsskuldinni samkvæmt gr. 6.1 í lánssamningnum.
Á því sé byggt að um gjaldfallna skuldbindingu sé að ræða. Stefnandi vísar hér til þess að stefndi hafi ekki orðið við kröfu stefnanda um að leggja fram frekari tryggingar, sbr. kröfu þar að lútandi 17. maí 2010. Með vísan til gr. 5.2 í lánssamningnum hafi stefnanda verið heimilt að gjaldfella útistandandi lánsskuldbindingu, sbr. bréf stefnanda þar að lútandi til stefnda, dags. 26. ágúst 2010, sbr. og gr. 9.1 d) í lánssamningnum. Skuldbinding stefnda sé því að lögum fallin í gjalddaga.
Samkvæmt yfirliti yfir útreikning lánsins og þróun, þ. á m. samningsvaxta, til gjaldfellingardags þann 30. ágúst 2010, sundurliðar stefnandi kröfu sína með eftirfarandi hætti:
1. Höfuðstóll lánsfjárhæðar............................................... (kr. 87.967.566)
2. Áfallnir samningsvextir................................................... (kr. 5.428.533)
Samtals................................................................. (kr. 93.396.099)
3. 10% lánsskuldbindingar,
sbr. gr. 6.1. í lánssamningi ................................. kr. 9.339.610
Stefnufjárhæð.................................................................. kr. 9.339.610
Um útreikning lánsins á hverjum tíma vísar stefnandi til framlagðs yfirlits yfir lánið og þróun þess, þ.m.t. varðandi tilgreiningu samningsvaxta á tímabilinu, til gjaldfellingardags þann 30. ágúst 2010.
Stefnandi kveður lánið hafa borið breytilega REIBOR-vexti, sbr. gr. 3.1 í samningnum, að viðbættu 1,2% vaxtaálagi. Vextir hafi reiknast skv. gr. 3.4 í samningnum á þriggja mánaða fresti frá 4. janúar 2006 og skyldu vextir, auk álags, leggjast við höfuðstól á tólf mánaða fresti. Síðasta vaxtatímabilið hafi endað á gjalddaga lánsins 1. desember 2010 og skyldu áfallnir vextir þá greiðast ásamt höfuðstól lánsins með einni greiðslu, sbr. nánar gr. 3.4 í samningnum. Um útreikning samningsvaxta á tímabilinu sé vísað til yfirlits yfir lánið, þ.m.t. samningsvaxta, og þróun þess til gjaldfellingardags.
Stefnandi krefst dráttarvaxta af skuldinni samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Hann byggir á því að upphafstíma dráttarvaxta eigi að miða við gjalddaga lánsins, sbr. heimild í 3. gr. lánssamningsins, þ.e. 30. ágúst 2010, en þá hafi skuldin verið gjaldfelld.
Varðandi lagarök vísar stefnandi um varnarþing einkum til 3. mgr. 42. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Varðandi efndir á lánsskuldbindingu sé einkum vísað til meginreglu samninga- og kröfuréttar um skuldbindingargildi samninga. Um dráttarvaxtakröfu vísar stefnandi til 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Kröfu um málskostnað styður stefnandi við 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur aðili og beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda.
2. Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi byggir sýknukröfu sína fyrst og fremst á því að stjórn Kaupþings banka hf. hafi á stjórnarfundi þann 25. september 2008, samþykkt að fella niður persónulega ábyrgð hans af umræddu láni og tekið ákvörðun um að ábyrgð hans og annarra starfsmanna í sömu stöðu takmarkaðist við hlutabréfin sem hefðu verið sett að veði. Stefnda hafi verið tilkynnt um þessa niðurstöðu sama dag með tilkynningu forstjóra.
Stefndi kveður stefnanda hafa viðurkennt að hann væri bundinn af umræddri ákvörðun stjórnarinnar og byggi málatilbúnaður hans á þeim grunni. Aðila greini hins vegar á um það hvað hafi falist í ákvörðun stjórnarinnar og hvort hún hafi fellt niður persónulega ábyrgð stefnda að fullu eða aðeins að hluta.
Stefndi telur að hefðbundin orðskýring og lýsing stjórnarinnar á tilgangi og markmiði ákvörðunarinnar leiði til þess að um sé að ræða algera niðurfellingu á persónulegri ábyrgð stefnda á umræddum lánum, en ekki aðeins lækkun eins og stefnandi haldi fram. Vísar stefndi sértaklega til þess sem fram komi í samþykkt stjórnarinnar þessa efnis.
Á því er byggt að lán það sem hér sé til úrlausnar tengist hlutafjárkaupalánum enda hafi því verið mörkuð sú staða strax í upphafi, sbr. gr. 2.3 og 6. gr. lánssamningsins. Að auki sé óumdeilt og viðurkennt í málatilbúnaði stefnanda að yfirlýsing stjórnarinnar og yfirlýsing forstjóra taki til þessa láns.
Stefndi leggur í þessu sambandi áherslu á að í yfirlýsingunni sé sérstaklega tiltekið að niðurfelling persónulegrar ábyrgðar nái til allra hlutafjárkaupalána, en ekki aðeins hluta lánanna eins og stefnandi haldi fram. Þá sé tekið fram að með umræddri ákvörðun stjórnarinnar takmarkist ábyrgð starfsmanna við hlutabréfin sem hafi verið sett að veði, en það fari ekki saman við málsástæðu stefnanda. Ekkert í yfirlýsingu stjórnar Kaupþings gefi að mati stefnda tilefni til að túlka hana þannig að endurreikna eigi hvert lán fyrir sig, sem tengist hlutafjárkaupum, eins og stefnandi hafi gert og að niðurfelling persónulegrar ábyrgðar nái aðeins til hluta lánsins sem svari til uppreiknaðs kostnaðarverðs hlutabréfa. Slík túlkun á samþykkt stjórnarinnar feli enda ekki í sér sérstaka ívilnun fyrir stefnda eða aðra í sömu stöðu, sem væru þá betur komir ef uppgjör ætti sér stað í samræmi við samninga aðila.
Stefndi telur að túlkun stefnanda fari einnig berlega gegn markmiðum með niðurfellingunni. Þar vísi stefndi til þess sem segi í samþykktinni að niðurfellingin fari fram „með það að markmiði að stuðla að því að starfsmönnum sé kleift að einbeita sér að störfum sínum í bankanum“. Sitji starfsmenn eftir með persónulega ábyrgð á hluta skulda sinna náist þetta markmið ekki, enda skipti engu fyrir áhyggjur og einbeitingu starfsmanna hvort skuldin sem hann ráði ekki við sé meiri eða minni. Vandamál starfsmanna væru því enn óleyst.
Í lok samþykktar stjórnarinnar segi einnig: „Ábyrgð starfsmanna takmarkast við hlutabréfin sem hafa verið sett að veði.“ Þetta ákvæði í samþykkt stjórnarinnar samrýmist að mati stefnda ekki túlkun stefnanda á inntaki fyrri hluta samþykktarinnar. Þá telur hann að jafnvel þótt fallist yrði á skilning stefnanda á inntaki fyrri hluta samþykktarinnar leiði þessi hluti hennar til þess að hver sá hluti persónulegrar ábyrgðar sem eftir standi takmarkist við hlutabréfin sem hafi verið sett að veði. Vísar stefndi í þessu sambandi enn fremur til frumtexta tilkynningarinnar til stefnda á ensku. Stefndi telur þennan texta algerlega ótvíræðan um að persónuleg ábyrgð hans takmarkist við þau hlutabréf sem hann hafi sett að veði. Í þessu felist að persónulegri ábyrgð stefnda verði aðeins fullnægt með því að ganga að hinum veðsettu bréfum og verði ekki hægt að hafa uppi kröfur á hendur stefnda um annað.
Stefndi vísar einnig til álitsgerða Viðars Más Matthíassonar og Harðar Felix Harðarsonar. Álitsgerðir þessar hafi verið unnar fyrir stefnanda og í þeim telur stefndi að sú forsenda birtist, sem stefnandi beri ábyrgð á, að persónuleg ábyrgð hafi fallið að fullu niður og sé engin. Þá vísar stefndi til þeirrar staðreyndar að lánin hafi verið metin á 0 krónur við framsal til stefnanda og að það hafi verið útskýrt með því að persónulegar ábyrgðir hefðu verið felldar niður. Allt þetta telur stefndi að styðji skilning hans á inntaki samþykktar stjórnarinnar. Sérstaklega sé vísað til álitsgerðar Viðars Más, bls. 13, en þar sé haft eftir stefnanda sjálfum að þegar í upphafi árs 2008 hafi yfirstjórn Kaupþings látið þau boð út ganga að starfsmenn þyrftu ekki að hafa áhyggjur af þeirri áhættu sem hlytist af því að gera ekki samninga upp þegar í stað, þar sem ekki yrði gengið að þeim persónulega.
Stefndi byggir einnig á því að sama niðurstaða leiði af þeirri ákvörðun Kaupþings, sem tekin hafi verið í janúar 2008, að gjaldfella ekki lánssamninga vegna hlutabréfakaupa þrátt fyrir að veðþekja þeirra hafi verið komin undir 120%, eins og heimild hafi verið til að gera í lánssamningnum. Telur stefndi að þegar í janúar 2008 hafi bankinn með þeirri ákvörðun tekið yfir áhættuna af því að lánið innheimtist að fullu, enda hafi verið um að ræða einhliða ákvörðun Kaupþings sem hafi byggst á þeirri forsendu að sú ráðstöfun væri bankanum hagfelld og hagfelldari en að gjaldfella og leysa til sín veðsetta hluti og gera þá upp viðkomandi skuldir. Um forsendur bankans að þessu leyti vísar stefndi til þess sem fram komi í málavaxtalýsingu en ekki síður þær skýringar sem Viðar Már Matthíasson hafi tekið upp í áliti sínu og komnar séu frá stefnanda sjálfum.
Verði talið að í samþykkt stjórnar Kaupþings hafi ekki falist ákvörðun um niðurfellingu að fullu á persónulegri ábyrgð stefnda samkvæmt þeim lánssamningi sem hér sé deilt um, heldur hafi í raun aðeins átt að lækka hana með tilliti til hlutafjárkaupa stefnda, byggir stefndi á því að sú lækkun hafi átt að taka mið að verðmæti hlutanna þann 25. september 2008. Samkvæmt ákvæðum í 6. grein lánssamningsins hafi persónuleg ábyrgð stefnda verið bundin við það að eftirstöðvar væru af skuldinni eftir uppgjör vegna innlausnar og að slíkt uppgjör miðaðist við verðmæti hlutanna þegar það færi fram. Stefndi telur útilokað að túlka ákvörðun stjórnar Kaupþings þannig að hún hafi verið íþyngjandi fyrir hann og aukið persónulega ábyrgð hans með því að miða niðurfellinguna á hinni persónulegu ábyrgð aðeins við framreiknað kaupverð hlutabréfanna en ekki markaðsvirði þeirra, enda sá réttur þegar til staðar í lánssamningnum. Væri stefndi þá verr settur en ef uppgjör hefði átt sér stað þann 25. september 2008.
Hinn 25. september 2008 hafi verðmæti veðsettra hlutabréfa stefnda verið yfir þeim skuldum sem veðin tryggðu, en veðsettir hlutir hafi verið 3.720.075 og dagslokagengi 25. september 2008 hafi numið 755 krónum á hlut. Verðmæti hlutabréfanna hafi þannig numið 2.808.656.625 krónum eða verið yfir samanlagðri fjárhæð þeirra skulda sem bréfunum hafi verið ætlað að tryggja. Persónulegir hagsmunir stefnda hafi því augljóslega staðið til þess að fram færi uppgjör og að hann yrði leystur undan áhættu vegna hlutabréfakaupanna í samræmi við ákvæði lánssamninganna og handveðsins.
Verði talið að rétt túlkun á samþykkt stjórnar Kaupþings banka sé sú að aðeins hafi átt að fella niður persónulega ábyrgð að því leyti sem veðsett hlutabréf stæðu að baki henni, telur stefndi að í sínu tilviki hafi engin persónuleg ábyrgð verið til staðar eftir slíka lækkun og því beri að sýkna hann.
Stefndi byggir sýknukröfu sína enn fremur á 36. gr. samningalaga, verði talið að persónuleg ábyrgð sé fyrir hendi, enda sé ósanngjarnt að stefnandi geti nú fært ábyrgð og áhættu af því að veðsett hlutabréf dugi ekki til uppgjörs á skuldinni yfir á stefnda í ljósi atvika málsins. Þau atvik sem stefndi vísar hér sérstaklega til eru eftirfarandi:
· Að forsenda að baki hlutabréfalánum Kaupþings hafi verið að þau lán yrðu aldrei til þess að stofna fjárhag starfsmanna í hættu. Um þessa forsendu vísast til ítarlegrar umfjöllunar í málavöxtum og umfjöllunar í álitsgerð Viðars Más Matthíassonar.
· Er hlutabréf Kaupþings hafi farið að lækka á seinni hluta árs 2007 og á árinu 2008 hafi yfirstjórn Kaupþings ákveðið að láta ekki fara fram uppgjör þótt komið væri niður fyrir lágmarks veðþekju (120%), heldur tilkynna starfmönnum að ekki yrði krafist frekari trygginga, sem hafi leitt til þess að ekkert uppgjör hafi átti sér stað. Þá hafi stjórnendur Kaupþings jafnframt látið þau boð út ganga að starfsmenn þyrftu ekki að hafa áhyggjur af þeirri áhættu sem fylgdi þeirri ákvörðun að gera ekki strax upp skuldir þeirra, þar sem ekki yrði gengið að þeim persónulega. Um þetta vísar stefndi til álitsgerðar Viðars Más þar sem hann hefur eftirfarandi eftir stefnanda sjálfum: „Upplýst hefur verið að yfirstjórn KB hafi upplýst starfsmenn bankans um það að þeir þyrftu ekki að hafa áhyggjur af því að gengið yrði að skuldinni á þá persónulega, þótt hún væri þegar takmörkuð. Rétt er að taka fram að fullyrt hefur verið, að á þessum tíma höfðu nánast allir starfsmenn bankans getað selt bréfin og greitt upp skuld sína og margir átt auk þess verulega fjárhæð til ráðstöfunar.“ Stefndi tekur fram að hann hafi sannanlega verið í þessari aðstöðu á þessum tíma og átt verulegar fjárhæðir afgangs eftir uppgjör. Sú umframeign hafi tapast nær öll frá janúar 2008 til 25. september 2008 þegar stjórnin hafi að lokum tekið formlega ákvörðun um að fella niður persónulega ábyrgð starfsmanna. Um þetta vísar stefndi einnig til álits Harðar Felix Harðarsonar, þar sem gerð sé grein fyrir því hvað stefnandi hafi upplýst hann um við gerð álitsins, og fundargerð stjórnar Kaupþings frá 25. og 26. september 2008, þar sem fram kemur að starfsmenn hafi verið fullvissaðir um að lausnir yrðu fundnar.
· Að stefndi og aðrir starfsmenn hafi verið í þeirri stöðu að hafa ekki getað sjálfir tekið ákvörðun um að selja hluti sína til að takmarka áhættuna. Annars vegar hafi hlutabréfin verið að handveði og því sala þeirra óheimil án samþykkis veðhafa, sbr. ákvæði handveðssamnings. Að auki hafi stefndi verið bundinn af stefnu bankans um langtímaeignarhald lykilstjórnenda bankans á hlutum, sem viðurkennt hafi verið af stjórn bankans að takmarkaði í raun möguleika hans til sölu og þar með möguleika hans til að takmarka áhættu sína, sbr. fundargerð stjórnar bankans frá 25. og 26. september 2008. Um þetta er einnig vísað til fyrrgreindra álitsgerða.
· Að það hafi alfarið verið á valdi og í höndum Kaupþings, hvorum tveggja sem veðhafa og sem vinnuveitanda, að ráða því hvernig yrði farið með þessa lánssamninga. Það hafi verið einhliða ákvörðun bankans, tekin vegna hans eigin hagsmuna en ekki persónulegra hagsmuna starfsmannanna, að fresta uppgjöri á lánssamningunum. Með því hafi skapast áhætta fyrir starfsmennina sem bankanum hafi verið ljós, enda hafi hann lýst því samhliða yfir að starfsmenn yrðu ekki látnir bera þá áhættu, sem skapaðist vegna eigin ákvarðana bankans.
Stefndi byggir á því að ósanngjarnt sé og óeðlilegt að hann, og aðrir starfsmenn bankans, verði nú látnir bera áhættu af því að verðmæti veðsins dugi ekki til uppgjörs skuldarinnar, enda hafi það verið áhætta sem Kaupþing hafi tekið vitandi vits, vegna eigin hagsmuna bankans. Stefndi tekur fram í þessu sambandi að engu skipti varðandi þessar skuldir að hvaða leyti þær hafi verið komnar til vegna beinna fjárfestinga í hlutabréfum. Svo lengi sem skuldin hafi verið tryggð með hlutabréfum í Kaupþingi hafi hún verið seld undir þessar aðstæður og ákvörðun Kaupþings.
Verði talið að fyrir hendi sé persónuleg ábyrgð stefnda byggir hann af þessum sökum á því að henni verði að víkja til hliðar og fella niður, enda hafi hún orðið til vegna ákvarðana og framgöngu kröfuhafans sjálfs. Einnig verði að hafa í huga að stefnandi þessa máls hafi áður nýtt sér þá aðstöðu að persónuleg ábyrgð hafi fallið niður til að þurfa ekki að greiða fyrir lánssamning stefnda og að sannað sé að hann hafi verið framseldur til stefnanda fyrir 0 krónur.
Stefndi telur að krafa stefnanda geti ekki borið dráttarvexti frá 30. ágúst 2010 enda hafi stefnanda verið óheimilt að gjaldfella skuldina á þeim degi með vísan til ónógrar tryggingarþekju þar sem Kaupþing hafi í janúar 2008 fallið frá rétti til gjaldfellingar af þeirri ástæðu. Stefnandi sem framsalshafi sé bundinn af eftirgjöf á rétti til gjaldfellingar og upplýst sé að stefnanda hafi og sé kunnugt um að hún hafi átt sér stað. Fyrsti mögulegi dráttarvaxtadagur sé 2. desember 2010.
Stefndi kveður málskostnaðarkröfu sína byggjast á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
IV.
Í máli þessu krefur stefnandi stefnda um efndir á skuldbindingu samkvæmt lánssamningi frá 4. janúar 2006 milli Kaupþings banka hf. og stefnda. Málsóknin er reist á þeirri forsendu að yfirlýsing stjórnar bankans frá 25. september 2008, sem rakin er í kafla II, taki ekki til lánveitingarinnar, þar sem láninu hafi ekki verið ráðstafað til kaupa á hlutum í bankanum. Enginn ágreiningur er um að fjármunirnir, sem stefndi tók að láni í umrætt sinn, hafi ekki verið notaðir til kaupa á hlutum í bankanum heldur hafi þeir verið lagðir inn á tvo reikninga í eigu stefnda. Hann telur engu að síður að yfirlýsing stjórnarinnar taki til þessarar lánveitingar. Verður fyrst leyst úr þessu ágreiningsatriði.
Með fyrrgreindri samþykkt stjórnar Kaupþings banka var forstjóra bankans veitt heimild til þess að „fella niður og ljúka persónulegri ábyrgð starfsmanna í tengslum við öll hlutafjárkaupalán starfsmanna, sem keypt hafa hluti í Kaupþingi “, eins og segir í þýðingu löggilts skjalaþýðanda. Átti ábyrgð starfsmanna framvegis að „takmarkast við hlutabréfin sem hafa verið sett að veði“. Samþykktin er almenn og lýtur ekki að einstökum starfsmönnum og lánssamningum þeirra, heldur virðist forstjóra hafa verið ætlað að hrinda henni í framkvæmd með breytingum á samningum í samræmi við fyrirmæli þeirra, sbr. til hliðsjónar grein 10.1 í lánsamningi þeim sem hér er til umfjöllunar.
Eins og vikið hefur verið að liggur fyrir í málinu yfirlýsing, dags. 25. september 2008, sem er undirrituð af forstjóra Kaupþings banka og stefnda. Þar kemur fram að bankinn hafi ákveðið að stefndi yrði ekki krafinn persónulega um efndir á lánum til hlutafjárkaupa, sem veitt hefðu verið til kaupa á hlutum í Kaupþingi, og að ábyrgð hans væri takmörkuð við veðsetta hluti hans í bankanum. Orðrétt er yfirlýsingin svohljóðandi á ensku, en þýðing löggilts skjalaþýðanda á henni liggur ekki fyrir: „Kaupthing bank has decided not to enforce your personel guarantee with regards to your equity loans to purchase shares in Kaupthing. Your liability is limited to the Kaupthing shares wich have been pledged.“ Í yfirlýsingu þessari er ekki vísað til einstakra lánssamninga, heldur er breytingin látin ná til allra lána sem veitt voru stefnda til hlutafjárkaupa í Kaupþingi banka. Umræddum lánasamningum var ekki breytt með almennri samþykkt stjórnarinnar, heldur með þessari yfirlýsingu. Því verður einkum að líta til hennar þegar afstaða er tekin til þess hvort persónuleg ábyrgð stefnda á efndum lánssamningsins frá 4. janúar 2006 kunni að hafa verið felld niður.
Leggja verður þá merkingu í yfirlýsinguna að hún taki aðeins til lána, sem notuð voru til að kaupa hluti í bankanum, enda er hún samkvæmt orðum sínum einskorðuð við slík lán. Verður síðari liður hennar, þar sem segir að ábyrgð stefnda skuli framvegis takmörkuð við hina veðsettu hluti í bankanum, ekki slitinn úr samhengi við það sem á undan kemur. Því verður að líta svo á að þar sé einungis vísað til ábyrgðar á lánum sem hafa verið notuð til hlutafjárkaupa í bankanum. Þessi skilningur fær einnig stoð í því að samþykkt stjórnarinnar, sem var tilefni fyrrgreindrar yfirlýsingar, átti rætur að rekja til tillagna starfskjaranefndar bankans. Af gögnum málsins verður ráðið að hlutverk hennar hafi verið bundið við að ákveða laun og starfskjör yfirmanna, og þá eftir atvikum kauprétt þeirra í bankanum og fjármögnun hans, en ekki að fjalla um peningalán bankans til frjálsrar ráðstöfunar þeirra, þó að eignarhlutur þeirra í bankanum kunni að hafa verið notaður til tryggingar á efndum slíkra skuldbindinga. Í því ljósi fær dómurinn heldur ekki séð að samþykkt stjórnarinnar stangist á við framangreindan skilning á yfirlýsingunni.
Þó að lán Kaupþings banka til stefnda 4. janúar 2006 hafi samkvæmt efni samningsins verið veitt til „fjármögnunar hlutafjárkaupa“, og að með henni hafi lánveitanda verið veitt heimild til að ráðstafa láninu til greiðslu og uppgjörs á slíkum viðskiptum, liggur fyrir að það var ekki notað í því skyni. Lánsféð var þvert á móti lagt inn á tvo reikninga stefnda til frjálsrar ráðstöfunar hans. Með yfirlýsingunni 25. september 2008 var aðeins felld niður ábyrgð lántaka á skuld sem stofnað hafði verið til vegna hlutafjárkaupa í Kaupþingi banka, eins og rakið hefur verið. Í ljósi þess sem að framan greinir er ekki unnt að fallast á að sú yfirlýsing taki til lánssamningsins frá 4. janúar 2006.
Samkvæmt framansögðu er hvorki unnt að fallast á að samþykkt stjórnar Kaupþings banka 25. september 2008, né sú yfirlýsing sem undirrituð var sama dag, hafi breytt efni þess lánssamnings sem krafa stefnanda er reist á. Sú takmarkaða ábyrgð, sem kveðið er á um í 6. gr. samningsins, stóð því óhögguð eftir 25. september 2008. Hvorki í lánssamningnum né handveðsyfirlýsingunni eru ákvæði sem geta skotið stoðum undir málsástæðu stefnda þess efnis að með aðgerðum bankans hafi persónuleg ábyrgð hans fallið niður að því marki sem hin veðsettu hlutabréf stóðu að baki henni á þeim tíma. Af þeim sökum er þeirri málsástæðu hafnað.
Stefndi ber því einnig við að bankinn hafi fyrirgert rétti sínum til að bera fyrir sig hina persónulegu ábyrgð stefnda á greiðslu skuldarinnar með því að láta hjá líða að gera hana upp þegar verðmæti hinna veðsettu hlutabréfa var komið niður fyrir 120% af skuldinni, en söluandvirði þeirra dugði til efnda. Ákvörðun þessi hafi verið reist á hagsmunum bankans, þar sem ella hefði trúverðugleiki hans beðið hnekki og grafið hefði verið undan rekstri hans. Á sama tíma hafi stefnda verið fyrirmunað að selja bréfin til að greiða skuldina.
Hvað þessa málsástæðu varðar skal á það bent að stefndi, sem er viðskiptafræðingur að mennt og var yfirmaður viðskiptabanka Kaupþings á Íslandi, samþykkti með undirritun sinni á lánssamninginn 4. janúar 2006 og á handveðsyfirlýsinguna 13. desember 2005 að bankinn gæti áfram hagnýtt sér rétt sinn samkvæmt þeim þó að hann kysi að nýta sér hann ekki þegar í stað. Ekki liggur heldur fyrir að stefndi hafi óskað eftir því að bréfin yrðu seld eða að bankinn leysti þau til sín á markaðsverði, eins og handveðsyfirlýsingin veitti heimild til, er verðmæti þeirra fóru niður fyrir umsamin mörk, þannig að gera hafi mátt upp skuld samkvæmt lánssamningnum. Þá er til þess að líta að persónuleg ábyrgð stefnda á endurgreiðslu lánsins er takmörkuð við 10% af skuldinni. Stefndi fékk þrátt fyrir það alla lánsfjárhæðina til frjálsrar ráðstöfunar öndvert við þau lán sem voru notuð til kaupa á hlutabréfum í bankanum. Af þessum sökum er ekki unnt að fallast á að bankinn hafi fyrirgert rétti sínum til að bera fyrir sig þá takmörkuðu ábyrgð, sem stefndi ber persónulega á skuldbindingu sinni, hvorki á grundvelli almennra reglna kröfuréttar né með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.
Það er óumdeilt að krafa samkvæmt lánssamningnum er gjaldfallin. Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið ber stefnda að greiða skuld samkvæmt samningnum með þeirri takmörkun sem af honum leiðir, eins og stefnandi fer fram á. Ekki er ágreiningur um fjárhæð kröfunnar. Stefndi mótmælir hins vegar því að hún beri dráttarvexti frá þeim tíma sem stefnandi krefst. Með vísan til 12. gr. lánssamningsins, sem áður hefur verið vísað til, sem og fyrirliggjandi gagna, ber að hafna þeirri röksemd stefnda að í verki hafi verið fallið frá rétti til að gjaldfella skuldina yrði lántaki ekki við kröfu af hálfu bankans um auknar veðtryggingar í samræmi við ákvæði samningsins. Skuldbinding stefnda féll því í gjalddaga 30. ágúst 2010 þegar stefnda var afhent tilkynning þessa efnis, en óumdeilt er að stefndi hafði þá ekki lagt fram viðbótartryggingar. Samkvæmt grein 3.5 í lánssamningnum, og með vísan til 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, leggjast dráttarvextir á skuldina frá og með þeim degi. Því verður fallist á kröfu stefnanda eins og hún er fram sett.
Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefnda gert að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 800.000 krónur. Við ákvörðun hans er meðal annars tekið tillit til kostnaðar af þingfestingu málsins, að sérstakur málflutningur hefur farið fram um frávísunarkröfu stefnda sem og þess kostnaðar sem stefnandi hefur af greiðslu virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.
Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð :
Stefndi, Ingólfur Helgason, greiði stefnanda, Arion banka hf., 9.339.610 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 30. ágúst 2010 til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 800.000 krónur í málskostnað.