Hæstiréttur íslands

Mál nr. 134/2015


Lykilorð

  • Fjármálafyrirtæki
  • Lánssamningur
  • Gengistrygging
  • Endurgreiðsla ofgreidds fjár
  • Greiðsla
  • Réttaráhrif


                                     

Fimmtudaginn 10. desember 2015.

Nr. 134/2015.

Landsbankinn hf.

(Aðalsteinn E. Jónasson hrl.)

gegn

Parlogis ehf.

(Gunnar Sturluson hrl.)

Fjármálafyrirtæki. Lánssamningur. Gengistrygging. Endurgreiðsla ofgreidds fjár. Greiðsla. Réttaráhrif.

Árið 2008 gerðu L hf. og P ehf. með sér samning um svokallað fjölmyntalán til P ehf. Ári síðar eignaðist L hf. allt hlutafé í P ehf. og var lánið greitt upp í lok þess árs. Árið 2010 hófst svokallað opið söluferli á P ehf. sem lauk með sölu allra hluta í félaginu til Lþ ehf. Árið 2012 tilkynnti L hf. P ehf. að bankinn hefði endurútreiknað tiltekið eldri lán aðila frá árinu 2007 þar sem að það hefði verið gengistryggt lán í íslenskum krónum. Jafnframt var tilgreint að fyrrgreint fjölmyntalán aðila frá árinu 2008 hefði verið í erlendri mynt og ætti því ekki að sæta endurútreikningi. Þessu var P ehf. ósammála og krafði L hf. um endurgreiðslu fjár sem félagið taldi sig hafa ofgreitt. Í dómi Hæstaréttar kom fram að uppgreiðsla lánsins árið 2009 hefði farið fram í tengslum við endurskipulagningu á fjárhag P ehf. og hefði markmiðið verið að afskrifa í verulegum mæli skuldir félagsins til þess að það yrði rekstrarhæft á ný. Allt hlutafé í P ehf. hefði síðan verið selt Lþ ehf. eftir að fjárhagur félagsins hafði verið endurskipulagður. Kaupendur hlutafjárins hefðu haft aðgang að gögnum um félagið og hefðu framkvæmt áreiðanleikakönnun á því og hefði mátt vera fullkunnugt um hvernig með skuldir félagsins hefði verið farið og hvers eðlis þær hefðu verið. Þá hefði ákvörðun kaupverðsins verið miðuð við þá forsendu að framangreindu skuldarsambandi hefði verið lokið. Samkvæmt þessu og í samræmi við reglur kröfuréttar um réttaráhrif greiðslu og lok skuldarsambanda var ekki fallist á kröfu P ehf. Kom því ekki til athugunar hvort í samningnum hefði verið mælt fyrir um ólögmæta gengistryggingu. Var L hf. sýknaður af kröfu P ehf.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 19. febrúar 2015. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Landsbanki Íslands hf. og einkahlutafélagið Par-lo gerðu með sér samning 31. maí 2007 um lán hins fyrrnefnda til þess síðarnefnda, en lánið fékk auðkennið 8117 í bókum bankans. Á forsíðu samningsins var fjárhæð lánsins tilgreind svo að hún væri: ,,ISK 355.250.000“. Í upphafi samningstextans sagði að aðilarnir gerðu með sér: ,,Lánssamning um fjölmyntalán til 6 mánaða að jafnvirði kr. 355.250.000 ... í neðanskráðum myntum og hlutföllum: USD 8,5% EUR 18% JPY 8% SEK 6,5% CHF 9% ISK 50% Fjárhæð hvers erlends gjaldmiðils ákvarðast þó ekki fyrr en tveimur virkum bankadögum fyrir útborgunardag lánsins.“ Beiðni um útborgun lánsins var undirrituð sama dag og þess óskað að lánsfjárhæðin yrði greidd inn á reikning Par-lo ehf. nr. 0327-26-1223.

Sami banki gerði 4. júní 2008 samning við stefnda, sem hafði yfirtekið Par-lo ehf. samkvæmt samrunaáætlun 15. nóvember 2007, um lán sem fékk auðkennið 11805 í bókum bankans. Lánið var til fimm ára og skyldi greitt upp með 20 afborgunum á þriggja mánaða fresti, í fyrsta sinn 21. ágúst 2008. Á hverjum af 19 fyrstu gjalddögunum skyldi greiða 1/40 hluta lánsfjárhæðarinnar en á lokagjalddaga þess 21/40 hluta hennar. Á forsíðu lánssamningsins var lánsfjárhæðin tilgreind þannig: ,,ISK 350.000.000“. Í samningstextanum sagði meðal annars að aðilar hans gerðu með sér: ,,Lánssamning um fjölmyntalán til 5 ára að jafnvirði kr. 350.000.000 ... í neðanskráðum myntum og hlutföllum: ISK 30% EUR 26% JPY 11% CHF 13% USD 11% SEK 9% Fjárhæð hvers erlends gjaldmiðils ákvarðast þó ekki fyrr en tveimur virkum bankadögum fyrir útborgunardag lánsins.“ Að öðru leyti er efni lánssamningsins, að því leyti sem þörf er á, lýst í hinum áfrýjaða dómi.

Stefndi útfyllti beiðni um útborgun lánsins sama dag en í henni sagði meðal annars: ,,Vinsamlegast notið útborgunarfjárhæð til uppgreiðslu á erlendu láni Par-lo ehf. ... lán nr. ... 8117.“

Ágreiningslaust er að áfrýjandi hafi með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008 tekið við öllum réttindum og skyldum samkvæmt síðarnefndum lánssamningi af Landsbanka Íslands hf. sem seinna fékk annað heiti og er nú undir slitum. Það er einnig óumdeilt að stefndi lenti í miklum fjárhagsvandræðum í tengslum við þá efnahagserfiðleika sem urðu haustið 2008. Landsbanki Íslands hf. hafði lánað einkahlutafélaginu DM fjármuni til að kaupa stefnda og yfirtók áfrýjandi einnig kröfur á hendur DM ehf. samkvæmt framangreindri ákvörðun Fjármálaeftirlitsins. Bú þess félags var tekið til gjaldþrotaskipta á árinu 2009. Áfrýjandi leysti til sín allt hlutafé í stefnda með kaupsamningi við þrotabúið 7. september 2009.

Í tilkynningu sem mun hafa verið gefin út af stefnda í samráði við áfrýjanda í lok september 2009 var því lýst að gengið hafi verið frá sölu á öllu hlutafé í stefnda til áfrýjanda. Stærstu lánveitendur stefnda, áfrýjandi og Atorka Group hf., væru að leggja lokahönd á fjárhagslega endurskipulagningu stefnda ,,þar sem hluta skulda félagsins verður breytt í hlutafé og Landsbankinn verður í kjölfarið meirihlutaeigandi. Markmið þessara breytinga er að skapa Parlogis hf. traustan rekstrargrundvöll til framtíðar.“ Af gögnum málsins má sjá að ætlunin hafi verið að eyða neikvæðu eigin fé félagsins með afskrift skulda og aukningu hlutafjár og lækka jafnframt vaxtabyrði félagsins. Eftir breytinguna yrði eigið fé þess jákvætt. Yrði eignarhlutur kröfuhafanna tveggja í félaginu að lokinni endurskipulagningu þess þannig að áfrýjandi ætti um 80% en Atorka Group hf. um 20%.

Ágreiningslaust er einnig að lánið sem auðkennt var 11805 var greitt upp í desember 2009 í tengslum við endurskipulagningu á fjárhag stefnda. Af láninu höfðu þá verið greiddar fjórar afborganir og vextir en eftirstöðvar þess voru greiddar upp með láni, sem fékk auðkennið 12114. Í málinu er eðli þess láns ekki til úrlausnar.

Haldinn var hluthafafundur í stefnda 25. febrúar 2010, en félaginu hafði þá verið breytt í einkahlutafélag. Í fundargerð sagði að þann dag hafi eini hluthafinn í félaginu tekið þær ákvarðanir um málefni þess, sem þar greindi, meðal annars um að staðfesta að: ,,Kröfuhafar í Parlogis ehf. samþykkja að breyta kröfum sínum á félagið í hlutafé að fjárhæð 956.000.000 krónur. Kaupverð hvers nýs hlutar verður 1 króna. Greiða má fyrir hina nýju hluti með framsali krafna á hendur Parlogis ehf. Greiðsla skal vera að lágmarki 1 króna af umbreytanlegum kröfum í hlutafé á móti 1 krónu hlutfjár. Eftirtaldir aðilar skrá sig fyrir hinum nýju hlutum eins og hér segir: [Áfrýjandi] 736.000.000 kr. Atorka Group hf. 517.000.000 kr. Þar af hlutafé 220.000.000 kr. Þar af yfirverð 297.000.000 kr.“ Á fundinum var jafnframt ákveðið að breyta samþykktum félagsins þannig að nafnverð hlutafjár þess hækkaði úr 150.000.000 krónum í 1.106.000.000 krónur. Undir fundargerðina rituðu fulltrúar Eignarhaldsfélagsins Vestia ehf., dótturfélags áfrýjanda, fulltrúi áfrýjanda og fulltrúi Atorku Group hf.

Degi eftir hluthafafundinn í stefnda var gert samkomulag milli þeirra þriggja sem síðast greinir og sátu hluthafafundinn og stefnda. Sagði þar að á undirritunardegi samkomulagsins væri ,,Vestia eigandi alls hlutafjár“ í stefnda en það væri 150.000.000 krónur. Tilgreindar voru þær kröfur sem áfrýjandi og Atorka Group hf. ættu á hendur félaginu, hinn fyrrnefndi ætti kröfu að ,,jafnvirði u.þ.b. kr. 2.293.750.101“ og af því yrði 736.000.000 krónum breytt í hlutafé en hinn síðarnefndi 517.000.000 krónur og yrði því öllu breytt í hlutafé að nafnvirði 220.000.000 krónur á genginu 2,35. Samið var um skipan stjórnar á gildistíma samkomulagsins á þann hátt að áfrýjandi tilnefndi tvo stjórnarmenn en Atorka Group hf. einn. Samkomulagið var ótímabundið en það skyldi þó falla úr gildi ef tilgreind skilyrði væru uppfyllt, meðal annars það að Eignarhaldsfélagið Vestia ehf. seldi allan hlut sinn í félaginu.

II

Svokallað opið söluferli hófst á stefnda 10. maí 2010 og lauk því síðari hluta júlímánaðar það ár með sölu allra hluta í félaginu til Lyfjaþjónustunnar ehf. Kaupverð alls hlutafjár í félaginu mun hafa verið 250.000.000 krónur. Í fréttatilkynningu frá áfrýjanda vegna sölunnar sagði meðal annars: ,,Alls fengu 12 aðilar ítarleg kynningargögn um Parlogis og á grundvelli þeirra lögðu 4 aðilar fram óskuldbindandi tilboð. Í framhaldi af því fengu þessir bjóðendur aðgang að gagnaherbergi til að framkvæma áreiðanleikakönnun á félaginu, áður en lagt var fram bindandi tilboð. Söluferlinu lauk ... með undirritun kaupsamnings við Lyfjaþjónustuna. Parlogis á sér langa sögu sem eitt helsta dreifingarfyrirtæki á vörum til íslensks heilbrigðiskerfis ... Rekstur Parlogis er í ágætu horfi og hafa stjórnendur og starfsmenn fyrirtækis náð góðum árangri í erfiðu árferði en fyrirtækið varð fyrir miklum skakkaföllum í tengslum við efnahagshrunið og gengisfall krónunnar. Lánveitendur félagsins, Landsbankinn og Atorka brugðust við þeim áföllum með því að breyta hluta skulda í hlutafé og sköpuðu félaginu þannig nýjan rekstrargrundvöll. Salan nú á öllu hlutafé í Parlogis er þannig síðasti hluti velheppnaðs endurreisnarferlis góðs og rekstrarhæfs fyrirtækis.“

Áfrýjandi ritaði stefnda bréf 4. september 2012 þar sem því var lýst að tiltekið lán bankans sem haft hafi auðkennið 8154 hafi verið gengistryggt lán í íslenskum krónum sem bankinn hafi af nánar greindu tilefni endurútreiknað og hafi eftirstöðvar lánsins því lækkað úr 736.000.000 krónum í 157.066.714 krónur. Þar sem lánið hafi verið afskrifað í tengslum við skuldauppgjör félagsins væri endurútreikningurinn einungis til upplýsingar. Af bréfinu má einnig sjá þá afstöðu áfrýjanda að lánið sem hafði auðkennið 11805 og tvö önnur tilgreind lán hafi verið í erlendri mynt og ættu því ekki að sæta endurútreikningi.

Í bréfi til áfrýjanda 4. janúar 2013 kom fram sú afstaða stefnda að lánið með auðkenninu 11805 hafi verið lán í íslenskum krónum en að hluta bundið gengi erlendra gjaldmiðla. Láninu hafi að fullu verið varið til þess að greiða upp annað lán með auðkenninu 8117 sem einnig hafi verið ,,ólögmætt gengistryggt lán.“ Stefndi kvað í bréfinu að lán 11805 hafi verið greitt upp að hluta með greiðslu afborgana og vaxta en að öðru leyti með nýju láni auðkenndu 12114. Taldi stefndi sig hafa ofgreitt áfrýjanda 172.840.070 krónur miðað við 31. desember 2012 og bæri bankanum að endurgreiða félaginu þá fjárhæð. Stefndi höfðaði svo málið til heimtu þessarar kröfu 29. ágúst 2013, en lækkaði síðar aðal- og varakröfu sína í þær fjárhæðir, sem greinir í upphafi hins áfrýjaða dóms.

III

Eins og áður greinir var lán sem bar auðkennið 11805 greitt upp að fullu í desember 2009 með öðru láni er bar auðkennið 12114. Á þeim tíma var áfrýjandi eini eigandi stefnda. Uppgreiðsla lánsins fór fram í tengslum við endurskipulagningu á fjárhag stefnda og var markmiðið að afskrifa í verulegum mæli skuldir félagsins til þess að það yrði rekstrarhæft á ný. Var umtalsverður hluti skuldanna felldur niður og eignuðust tveir kröfuhafar, áfrýjandi og Atorka Group hf., þess í stað hlutafé í félaginu, eins og lýst hefur verið. Allt hlutafé í stefnda var síðan selt Lyfjaþjónustunni ehf. eftir að fjárhagur félagsins hafði verið endurskipulagður. Kaupendur hlutafjárins höfðu aðgang að gögnum um félagið og framkvæmdu áreiðanleikakönnun á því og mátti þar með vera fullkunnugt um hvernig með skuldir félagsins hafði verið farið og hvers eðlis þær voru. Enginn vafi getur leikið á því að við ákvörðun kaupverðs allra hluta í stefnda, sem var 250.000.000 krónur, var ekki við það miðað að unnt yrði að taka upp á ný til endurskoðunar skuldarsambönd, eins og það sem stofnað hafði verið til með lánssamningnum 4. júní 2008 og hafði lokið með fullri greiðslu í desember 2009. Í bréfi áfrýjanda til stefnda 4. september 2012 var sérstaklega tilkynnt að bankinn teldi ekki forsendur til þess að endurútreikna lánið, sem haft hafði auðkennið 11805. Eru atvik máls þessa frábrugðin því sem við átti í dómi Hæstaréttar 12. desember 2013 í máli nr. 463/2013 þar sem banki hafði að eigin frumkvæði endurútreiknað lán, þar sem skuldarsambandinu hafði áður verið lokið, en með því viðurkenndi bankinn í raun að lántakinn ætti rétt til endurheimtu ofgreidds fjár vegna lánsins. Atvik máls þess, sem hér er til úrlausnar, renna að öðru leyti einnig stoðum undir þá málsástæðu áfrýjanda að við sölu stefnda hafi bæði kaupandi og áfrýjandi miðað ákvörðun kaupverðsins við þá forsendu að því skuldarsambandi, sem stefndi reisir kröfu sína á, væri lokið. Samkvæmt þessu og í samræmi við reglur kröfuréttar um réttaráhrif greiðslu og lok skuldarsambanda verður ekki fallist á að stefndi geti átt þá kröfu á hendur áfrýjanda að fjárhæð 142.755.116 krónur eða aðra lægri fjárhæð sem hann hefur uppi í máli þessu vegna síðastgreinds láns. Þarf þá ekki að taka til athugunar hvort lánið hafi upphaflega verið lán í íslenskum krónum og að hluta bundið gengi erlendra gjaldmiðla eða hvort það hafi að hluta verið lán í erlendri mynt. Með vísan til alls framangreinds verður áfrýjandi sýknaður af kröfu stefnda.

Stefndi greiði áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn verður í einu lagi, eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Landsbankinn hf., er sýkn af kröfu stefnda, Parlogis ehf.

Stefndi greiði áfrýjanda 2.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 25. nóvember 2014.

                Mál þetta, sem dómtekið var hinn 14. nóvember sl., að lokinni aðalmeðferð, var höfðað fyrir dómþinginu af Parlogis ehf., Krókhálsi 14, Reykjavík, á hendur Landsbankanum hf., Austurstræti 11, Reykjavík, með stefnu þingfestri 5. september 2013.

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær aðallega, að stefnda, Landsbankanum hf., verði gert að greiða stefnanda 142.755.116 krónur ásamt aðallega dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 4. febrúar 2013 til greiðsludags, til vara með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna frá málshöfðunardegi til greiðsludags.

Til vara krefst stefnandi þess, að stefnda, Landsbankanum hf., verði gert að greiða stefnanda 107.093.498 krónur ásamt aðallega dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 4. febrúar 2013 til greiðsludags, til vara með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna frá málshöfðunardegi til greiðsludags.

Þess er einnig krafist að stefndi verði í öllum tilvikum dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað.

Stefndi krefst þess aðallega að verða sýknaður af aðal- og varakröfum stefnanda.

Til þrautavara krefst stefndi lækkunar á öllum kröfum stefnanda.

                Þá er í öllum tilvikum krafist málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnanda.

II

Málsatvik eru þau að hinn 4. júní 2008 gerðu stefnandi og Landsbanki Íslands hf., með sér samning um svokallað fjölmyntalán stefnda til stefnanda að jafnvirði 350.000.000 króna. Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, dagsettri 9. október 2008 var tilteknum eignum og skuldum Landsbanka Íslands hf. ráðstafað til stefnda.  Tók stefndi þar á meðal yfir réttindi og skyldur samkvæmt þessum viðskiptasamningi.

Á forsíðu lánssamningsins er lánsfjárhæðin tilgreind sem „ISK 350.000.000,-“. Á 2. bls. samningsins segir að aðilar geri með sér: „Lánssamning um fjölmyntalán til 5 ára að jafnvirði kr. 350.000.000, - Krónur þrjúhundruð og fimmtíu milljónir 00/100, í neðanskráðum myntum og hlutföllum: ISK 30% EUR 26% JPY 11% CHF 13% USD 11% SEK 9%.“  Þá segir og í inngangsorðum samningsins að „fjárhæð hvers erlends gjaldmiðils ákvarðast þó ekki fyrr en tveimur virkum bankadögum fyrir útborgunardag lánsins.  Bankadagur í samningi þessum er virkur dagur þegar bankar eru opnir á Íslandi og þeim fjármálamiðstöðvum fyrir þá gjaldmiðla sem tilgreindir eru í samningnum.  Skuldin verður þá eftirleiðis tilgreind með fjárhæð þeirra erlendu mynta eða jafngildi þeirra í öðrum erlendum myntum.  Greiði lántaki afborganir, vexti og dráttarvexti eða aðrar greiðslur í íslenskum krónum skal hann greiða samkvæmt sölugengi bankans á gjalddaga.“

Í grein 2.2 í lánssamningnum kemur fram að greiðslustaður sé hjá bankanum og að lántaki óskaði eftir því að reikningur hans nr. 0113-26-244 hjá bankanum yrði skuldfærður fyrir afborgun og/eða vöxtum.  Er um að ræða tékkareikning í íslenskum krónum.

Í grein 2.3 kemur fram að lántaka sé heimilt að greiða lánið hraðar upp, gegn tilteknu uppgreiðslugjaldi.  Þó skuli lágmarksgreiðsla nema a.m.k. jafnvirði 10 milljóna íslenskra króna hverju sinni.

Í gr. 3.1 í lánssamningnum var kveðið á um að af þeim hluta lánsins sem var í erlendum myntum skyldi stefnandi greiða breytilega vexti jafnháa LIBOR-vöxtum í samræmi við lengd vaxtatímabilsins hverju sinni, auk 2,95% vaxtaálags.

Samkvæmt gr. 3.3 voru vaxtakjör lánshlutans í íslenskum krónum REIBOR-vextir að viðbættu álagi.

Í grein 4.1 í samningnum er kveðið á um að sé lánið í skilum geti lántaki óskað eftir því við bankann á vaxtagjalddaga að „myntsamsetningu“ þess verði breytt, þannig að „eftirstöðvar skuldarinnar miðist að öllu leyti eða að hluta við aðrar erlendar myntir eða mynteiningar, eina eða fleiri, og í öðrum hlutföllum en upphaflega var um samið“.  Við „umreikning“ vegna myntbreytingar skyldi nota sölugengi þess gjaldmiðils sem hætt væri að miða við og kaupgengi þess gjaldmiðils sem framvegis yrði miðað við samkvæmt gengisskráningu Landsbanka Íslands hf. á íslensku krónunni tveimur virkum bankadögum fyrir myntbreytinguna.

Í grein 7 í samningnum kemur fram að stæði lántaki ekki í skilum með greiðslu afborgana eða vaxta á gjalddaga bæri honum að greiða dráttarvexti og færi um þá samkvæmt ákvæðum laga nr. 38/2001, um vexti og verðtyggingu.  Bankinn hefði um það val hvort krafist yrði dráttarvaxta af fjárhæðinni í erlendri mynt eða „af skuldinni breyttri í íslenskar krónur“.

Í grein 1.2 í samningnum kemur fram að lántaki skyldi senda bankanum beiðni um útborgun með a.m.k. tveggja virkra bankadaga fyrirvara, þar sem tiltekinn yrði sá reikningur sem leggja skyldi lánshlutann inn á.  Var form að útborgunarbeiðni fest við samninginn sem viðauki 1.

Stefnandi fyllti samdægurs inn í viðkomandi viðaukaform.  Ekki var þar tilgreindur reikningur, heldur kom fram beiðni um að útborgunarfjárhæð yrði notuð til „uppgreiðslu á erlendu láni Par-lo ehf., kt. 560507-1270, lán nr. 0106-8117“.  Lánsfjárhæðin fór alfarið til uppgreiðslu á tilvitnuðum lánssamningi.  Lántaki þess láns hafði verið sameinaður stefnanda, samkvæmt samrunaáætlun, dagsettri 15. nóvember 2007, sbr. gr. 9.1 í lánssamningi stefnanda og stefnda.

Stefndi kveður að í kaupnótu sem stefnandi fékk vegna láns nr. 11805 4. júní 2008 komi fram að lánsfjárhæð lánsins hafi verið: 2.461.706,78 sænskar krónur, 497.094,90 Bandaríkjadollar, 611.641,35 svissneskir frankar, 52.245.895 japönsk jen, 760.869,57 evrur og 105.000.000 króna.  Frá þeim hluta lánsins sem var í íslenskum krónum dragist 10.000 krónur vegna kostnaðar við skjalagerð.  Framangreindar erlendu myntir hafi verið greiddar inn á gjaldeyrissreikninga fyrirtækjabanka LBI í þeim myntum sem tilgreindar eru hér að framan, þ.e. í sænskum krónum, Bandaríkjadollurum, svissneskum frönkum, japönskum jenum og evrum.  Íslensku krónurnar voru greiddar inn á sjóðsreikning fyrirtækjabanka LBI í íslenskum krónum.

                Stefndi kveður að þegar framangreindar fjárhæðir höfðu verið lagðar inn á gjaldeyrissreikninga og sjóðsreikning fyrirtækjabanka LBI hafi þær verið dregnar af reikningunum til að greiða niður lán nr. 8117.  Stefnandi hafi síðan fengið afhentar sjálfstæðar kvittanir fyrir greiðslu hvers lánshluta láns nr. 8117.  Í kvittunum sem séu fyrir hvern gjaldmiðil komi fram að stefnandi hafi greitt: 497.094,90 Bandaríkjadollara, 611.641,35 svissneska franka, 2.461.706,78 sænskar krónur, 52.245.895 japönsk jen, 760.869,57 evrur og 104.501.731 íslenska krónu en inni í þeirri fjárhæð sé 750 króna vanskilagjald og 820 króna tilkynningar- og greiðslugjald.  Á öllum kvittunum sé samhljóða texti sem sé eftirfarandi: „Innborgun, lán 11805 notað til að greiða inn á lánið.“  Framangreindar fjárhæðir séu nákvæmlega hinar sömu og komi fram á kaupnótu láns 11805. 

Stefndi kveður stefnanda hafa notað það sem eftir stóð af lánshlutanum í íslenskum krónum,  488.269 krónur, til að kaupa eftirfarandi myntir: 1.320,28 svissneska franka, 5.055,37 sænskar krónur, 129.903 japönsk jen, 1.098,28 evrur og 1.242,64 Bandaríkjadollar.  Þessar myntir hafi svo stefnandi einnig notað til að greiða niður lán nr. 8117 eins og komi fram í kvittun sem stefnandi hafi fengið vegna þessara viðskipta, þar sem standi orðrétt:  „Innborgun, lán 11805 notað til að greiða inn á lánið“.

Stefndi kveður stefnanda hafa fengið tilkynningar um gjalddaga frá LBI og síðar stefnda en í þeim hafi skuld stefnanda ævinlega verið tilgreind í viðkomandi myntum, þ.e. sænskum krónum, Bandaríkjadölum, svissneskum frönkum, japönskum jenum, evrum og íslenskum krónum.  Tilkynningar og greiðslugjald hafi verið tilgreint í íslenskum krónum.  Í kvittunum sem stefnandi fékk vegna greiddra gjalddaga eru greiðslur hans einnig tilgreindar í sömu myntum eða sænskum krónum, Bandaríkjadölum, svissneskum frönkum, japönskum jenum, evrum og íslenskum krónum.  Í sömu kvittunum kom svo fram að stefnandi hafði keypt svissneska franka, evrur, japönsk jen, sænskar krónur og Bandaríkjadali.

Samningur Par-lo ehf. og Landsbanka Íslands hf., dagsettur 31. maí 2007, sem stefnandi hafði yfirtekið og umþrættur samningur þessa máls var notaður til uppgreiðslu á, var í öllum atriðum sem máli skipta samhljóða þeim samningi.  Á forsíðu samningsins er lánsfjárhæðin tilgreind sem „ISK 355.250.000,-“. Á 2. bls. samningsins segir að aðilar geri með sér:

„Lánssamning um fjölmyntalán til 6 mánaða að jafnvirði kr. 355.250.000, - Krónur þrjúhundruð og fimmtíu milljónir, tvö hundruð og fimmtíu þúsund 00/100, í neðanskráðum myntum og hlutföllum:

USD 8,5%

EUR 18%

JPY 8%

SEK 6,5%

CHF 9%

ISK 50%“

Í grein 2.2 í lánssamningnum kemur fram að greiðslustaður sé hjá bankanum og að lántaki óski eftir því að reikningur hans hjá bankanum verði skuldfærður fyrir afborgun og/eða vöxtum.  Ekkert reikningsnúmer var þó fyllt inn í þann reit.

Í grein 2.3 kemur fram að lántaka sé heimilt að greiða lánið hraðar upp, gegn tilteknu uppgreiðslugjaldi.  Þó skuli lágmarksgreiðsla nema a.m.k. jafnvirði 20 milljóna íslenskra króna hverju sinni.

Í grein 4.1 í samningnum er kveðið á um að væri lánið í skilum gæti lántaki óskað eftir því við bankann á vaxtagjalddaga að „myntsamsetningu“ þess yrði breytt, þannig að „eftirstöðvar skuldarinnar miðist að öllu leyti eða að hluta við aðrar erlendar myntir eða mynteiningar, eina eða fleiri, og í öðrum hlutföllum en upphaflega var um samið“.  Við „umreikning“ vegna myntbreytingar skyldi nota sölugengi þess gjaldmiðils sem hætt væri að miða við og kaupgengi þess gjaldmiðils sem framvegis yrði miðað við samkvæmt gengisskráningu Landsbanka Íslands hf. á íslensku krónunni tveimur virkum bankadögum fyrir myntbreytinguna

Í 7. grein samningsins kemur fram að stæði lántaki ekki í skilum með greiðslu afborgana eða vaxta á gjalddaga bæri honum að greiða dráttarvexti og færi um þá samkvæmt ákvæðum laga nr. 38/2001, um vexti og verðtyggingu.  Bankinn hefði um það val hvort krafist yrði dráttarvaxta af fjárhæðinni í erlendri mynt eða „af skuldinni breyttri í íslenskar krónur“.

Í grein 1.2 í samningnum kemur fram að lántaki skyldi senda bankanum beiðni um útborgun með a.m.k. tveggja virkra bankadaga fyrirvara, þar sem tiltekinn yrði sá reikningur sem leggja skyldi lánshlutann inn á.  Var form að útborgunarbeiðni fest við samninginn sem viðauki 1.

Stefnandi fyllti samdægurs inn viðkomandi viðaukaform og óskaði eftir því að lánsfjárhæðin yrði greidd inn á tilgreindan reikning í eigu lántaka nr. 0327-26-1223.  Var þar um að ræða tékkareikning í íslenskum krónum.

Það lán sem mál þetta tekur til var aðeins eitt lána stefnanda hjá stefnda.  Hinn 1. desember 2009 var framkvæmd fjárhagsleg endurskipulagning hjá stefnanda með þeim hætti að tiltekið lán var afskrifað og önnur endurfjármögnuð.  Á þeim tíma var stefnandi ekki í eigu núverandi hluthafa heldur að mestu undir yfirráðum stefnda sjálfs.  Hafði stefndi því fullt forræði yfir því hvernig endurskipulagningunni var háttað.

Á árinu 2009 varð þáverandi eigandi stefnanda, DM ehf., gjaldþrota.  LBI hafði lánað DM ehf. fjármuni til kaupa á stefnanda og þær kröfur færðust yfir til stefnda með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins hinn 9. október 2008.  Stefndi leysti til sín allt  hlutafé í stefnanda frá þrotabúi DM ehf. og fékk samþykki Samkeppniseftirlitsins fyrir þeim kaupum.  Þegar stefndi hafði tekið yfir hlutina í stefnanda tóku starfsmenn innan samstæðu hans sæti í stjórn stefnanda og skipuðu meirihluta stjórnar.

Stefndi kveður að fjárhagsstaða stefnanda sjálfs hafi einnig verið slík að hann hafi þurft aðstoð stefnda, sem lánveitanda, til að halda áfram rekstri.  Í stað þess að gefa stefnanda upp til gjaldþrotaskipta hafi efnahagsreikningur félagsins verið endurskipulagður. Endurskipulagningin hafi verið unnin í miklu samráði við helstu stjórnendur og stjórn stefnanda.  Endurskipulagningin hafi meðal annars falið í sér að verulegum hluta af skuldum stefnanda hafi verið breytt í hlutafé.  Aðgerðin hafi falið í sér að stefndi breytti 736.000.000 króna í hlutafé á genginu 1 og Atorka Group hf., sem jafnframt hafi átt kröfur á stefnanda, hafi breytt 517.000.000 króna í hlutafé, á nafnvirði 220.000.000 króna á genginu 2,35, en framangreindir aðilar hafi verið stærstu kröfuhafar stefnanda.  Þessi aðgerð hafi aukið hlutafé félagsins um 956.000.000 króna, en fjárhæð þessi hafi ráðist af því hvaða skuldum stefnandi hafi getað staðið undir eftir umbreytinguna.  Í framhaldi af því hafi stefndi og síðar Eignarhaldsfélagið Vestia ehf., sem var dótturfélag stefnda á þessum tíma, átt um 80% hlutafjár í stefnanda en Atorka Group hf. hafi verið eigandi um 20% hlutafjár.  Samhliða þessum aðgerðum hafi verið unnið að því að endurskipuleggja lán stefnanda sem eftir voru og hafi numið 1.351.000.000 króna.  Í því skyni hafi stefnanda verið veitt tvö ný lán til að greiða upp eldri skuldbindingar.  Þessar aðgerðir hafi miðað að því að gera stefnanda kleift að standa undir greiðslubyrði af lánum eftir endurskipulagninguna.  Lækkun skulda hafi leitt til þess að stefnandi hafi orðið rekstrarhæft félag á ný og þar með unnt að hefja söluferli félagsins.  Stefndi kveður að alger forsenda fyrir breytingu skulda í hlutafé af hálfu stefnda hafi verið að eftirstöðvar annarra skulda væru rétt metnar.  Stefndi hafi þannig fallist á að fella niður og afskrifa skuldir stefnanda í þeim mæli sem nauðsynlegt hafi verið til að gera stefnanda að rekstrarhæfu félagi á nýjan leik.  Forsvarsmönnum stefnanda á þessum tíma hafi verið þetta fullkomlega ljóst.

Eignarhaldsfélagið Vestia ehf. og Atorka Group hf. settu allt hlutafé sitt í stefnanda í söluferli á árinu 2010.  Stefndi kveður að söluferlið hafi meðal annars falið í sér að kaupendur framkvæmdu áreiðanleikakönnun á stefnanda, þar sem t.d. hafi verið farið yfir lánamál stefnanda.  Niðurstaða söluferlisins hafi verið það að Eignarhaldsfélagið Vestia ehf. og Atorka Group hf. hafi skrifað undir kaupsamning við Lyfjaþjónustuna ehf. hinn 23. júlí 2010, en með honum hafi allt hlutaféð verið selt fyrir 250.000.000 króna.  Samningurinn var háður fyrirvörum, svo sem um samþykki eftirlitsstofnana.  Afhending á hlutunum fór svo fram þegar skilyrði kaupsamnings voru uppfyllt og lauk þá aðkomu stefnda að stefnanda.

Stefnandi kveður að lán það sem mál þetta tekur til hafi hins vegar verið að fullu uppgreitt af stefnanda hinn sama dag, 1. desember 2009, með töku nýs láns í íslenskum krónum, auðkennt sem lán nr. 12114.  Þetta megi sjá af greiðslukvittunum um útborgun lánsins, þar sem fram komi að því hafi að fullu verið ráðstafað til uppgreiðslu á láni nr. 0106-36-11805 og að það lán sé því í kjölfarið að fullu uppgreitt.  Hafi stefnandi staðið að fullu í skilum með greiðslur af því láni í íslenskum krónum sem tekið hafi verið til að greiða upp lán nr. 0106-36-11805.

Með bréfi, dagsettu 4. september 2012, tilkynnti stefndi stefnanda meðal annars að þar sem lánssamningur nr. 11805 hafi verið greiddir út í Bandaríkjadölum, sænskum krónum, japönskum jenum, evrum, svissneskum frönkum og íslenskum krónum og með vísan til dómafordæma Hæstaréttar Íslands í málum nr. 3/2012 og dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-1682/2010 teldist lánið ekki gengistryggt og yrði ekki endurreiknað.

Með bréfi, dagsettu 4. janúar 2013, hafnaði stefnandi því að lánsféð hefði verið greitt út í erlendum myntum, enda hefði hann enga gjaldeyrisreikninga haft.  Lánsféð hefði verið greitt út með þeim hætti að því hafi verið varið til uppgreiðslu á láni Par-lo ehf., nr. 0106-36-11805. Sú lánsfjárskuldbinding hefði hins vegar bersýnilega verið í íslenskum krónum, gengistryggð með ólögmætum hætti, enda sá lánssamningur að öllu leyti sambærilegur hinum síðarnefnda, auk þess sem lánsféð hefði sannanlega verið greitt út í íslenskum krónum.

                Með bréfi, dagsettu 8. febrúar 2013, hafnaði stefndi þessum röksemdum stefnanda og ítrekaði fyrri afstöðu sína.  Byggði stefndi þá afstöðu á því að þær „erlendu myntir“ sem teknar hefðu verið að láni hefðu verið „nýttar til uppgreiðslu á öðrum erlendum lánum.“  Því hefði engin ofgreiðsla átt sér stað og ekki tilefni til endurreiknings á láninu.

Stefnandi telur þessa röksemdafærslu stefnda engan veginn fást staðist.  Þannig virðist stefndi byggja á því að unnt sé að breyta ólögmætu gengistryggðu láni sem greitt var út í íslenskum krónum, í lögmætt erlent lán, með gerð nýs sambærilegs lánssamnings.  Stafi það af því einu að með því verði útborgun síðara lánsins, sem notuð sé til að greiða upp hið ólögmæta gengistryggða lán, með einhverjum hætti talin vera í erlendri mynt.  Telur stefnandi þessa röksemdafærslu allt að því fjarstæðukennda og er honum því nauðsynlegt að höfða mál þetta.

III

Stefnandi byggir á því að umþrættur samningur máls þessa hafi verið um lánsfé í íslenskum krónum, hverrar afborganir voru tengdar með ólögmætum hætti við gengi erlendra gjaldmiðla.  Slíkt sé í andstöðu við ákvæði 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Stefnandi telur að leiða megi ákveðin viðmið af dómum Hæstaréttar Íslands til hvers beri að líta við mat á því hvort um lánsfé í íslenskum krónum eða erlendum myntum sé að ræða, og vísar hann sérstaklega til dóms réttarins í máli nr. 155/2011, en þar hafi verið fjallað um nær alfarið sambærilegan samning og hinn umþrætta samning máls þessa. 

                Stefnandi byggir á því að röksemdir réttarins í framangreindum málum leiði til þess að telja verði að umþrættur lánssamningur fyrirliggjandi máls hafi í raun verið um íslenskt lánsfé, þar sem afborganir hafi verið tengdar með ólögmætum hætti við gengi erlendra gjaldmiðla. Því til stuðnings bendir stefnandi á eftirfarandi þætti.

Í fyrsta lagi að höfuðstóll lánssamningsins sé einungis tilgreindur í íslenskum krónum. Þannig hafi á forsíðu samningsins verið kveðið á um að um væri að ræða: „ISK 350.000.000,- Lánssamningur.“  Höfuðstóll hafi síðan verið skilgreindur á bls. 2 í samningnum í íslenskum krónum, að fjárhæð 350.000.000 króna.  Þrátt fyrir að hlutföll gengisviðmiða hafi verið tilgreind hafi hvergi í samningnum verið að finna tilgreiningu á fjárhæð skuldarinnar í erlendum myntum.  Hafi fjárhæð lánsins því í grunninn verið ákveðin í íslenskum krónum.

Í öðru lagi bendi orðalag samninganna til þess að lánsféð hafi ekki raunverulega verið veitt í erlendum myntum heldur hafi gengi þeirra aðeins verið til viðmiðunar.  Þetta eigi sérstaklega við um myntbreytingarheimild samningsins í 4. gr. hans.  Þar komi glöggt fram að hinir erlendu gjaldmiðlar hafi verið til viðmiðunar.  Orðalagi ákvæðisins og samningsins sé að öðru leyti lýst í málsatvikalýsingu hér að framan, en ljóst megi vera af þessu að beinlínis komi fram í samningunum að lánsféð hafi verið miðað við gengi erlenda gjaldmiðla.  Slíkt sé ólögmæt gengistrygging lánsfjár í andstöðu við 13. og 14. gr. laga um vexti og verðtryggingu.

Í þriðja lagi byggir stefnandi á því að báðir aðilar hafi efnt aðalskyldur sínar í íslenskum krónum.  Ekki sé ágreiningur milli aðila um að stefnandi hafi ávallt greitt afborganir og vexti í íslenskum krónum.  Þá hafi lánið verið að fullu uppgreitt með nýju láni í íslenskum krónum.  Ágreiningur sé hins vegar fyrir hendi milli aðila um hvort stefndi hafi innt sína skyldu af hendi í íslenskum krónum.

Líkt og að framan sé rakið hafi stefndi byggt á því í samskiptum sínum við stefnanda að lánið hafi verið greitt út í erlendri mynt og hafi hann lagt fram svonefnda kaupnótu því til staðfestingar.  Stefnandi hafnar því að slík gögn geti haft þýðingu enda hafi þau ekki haft áhrif á niðurstöðu sambærilegra mála fyrir Hæstarétti Íslands.  Líta verði til þess í hvaða mynt lánið hafi verið greitt út, nánar tiltekið, hvort aðilar hafi efnt skyldur sínar með því að fjárhæðir í erlendum gjaldmiðlum skiptu um hendur.

Ágreiningslaust sé með aðilum að lánið hafi að fullu verið nýtt til uppgreiðslu á láni Par-lo ehf. hjá stefnda, nr. 0106-8117.  Lánsféð hafi því aldrei farið inn á neina reikninga eða verið stefnanda til ráðstöfunar.  Engir erlendir gjaldmiðlar hafi því skipt um hendur.  Við mat á því í hvaða mynt lánið hafi verið greitt út verði því að líta til þess í hvaða mynt lán Par-lo ehf., nr. 0106-8117 hafi verið.

Stefnandi byggir á því að rétt eins og umþrættur lánssamningur þessa máls hafi samningur Par-lo ehf., nr. 0106-8117, verið um íslenskt lánsfé, tengt með ólögmætum hætti við gengi erlendra gjaldmiðla.  Efni samningsins hafi alfarið verið sambærilegt efni hins umþrætta lánssamnings máls þessa og megi því að mestu vísa til þeirra sjónarmiða sem þar hafi verið rakin varðandi túlkun hans.  Þannig hafi höfuðstóll eingöngu verið tilgreindur í íslenskum krónum, jafnt á forsíðu sem í tilgreiningu á bls. 2 í samningnum.  Þá komi glöggt fram í myntbreytingarheimild, gr. 4.1 í samningnum, að hinir erlendu gjaldmiðlar hafi einungis verið til viðmiðunar.  Því til viðbótar liggi síðan fyrir að lánið hafi verið greitt út í íslenskum krónum inn á tilgreindan tékkareikning Par-lo ehf., sbr. útborgunarbeiðni, og stefnandi hafi greitt af láninu í íslenskum krónum.  Eigi því öll sjónarmið úr tilvitnuðum dómi Hæstaréttar Íslands nr. 155/2011 við um lánið.  Af því leiði að lán Par-lo ehf., nr. 0106-8117 hafi verið um íslenskt lánsfé.  Þar sem útborgun hins umþrætta lánssamnings þessa máls hafi verið varið beint til uppgreiðslu á því láni, geti það ekki hafa verið greitt út í erlendum myntum, heldur þvert á móti í íslenskum krónum.  Stefnandi hafði enga gjaldeyrisreikninga og engir erlendir gjaldmiðlar hafi skipt um hendur í viðskiptunum.  Hafi því aðalskylda stefnda gagnvart stefnanda verið efnd í íslenskum krónum.

Af framansögðu leiði að öll sjónarmið Hæstaréttar Íslands úr máli nr. 155/2011 eiga við um hinn umþrætta lánssamning máls þessa.  Hafi hann því verið um íslenskt lánsfé, tengt með ólögmætum hætti við gengi erlendra gjaldmiðla í andstöðu við 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

                Með vísan til framangreinds byggir stefnandi á því að samningur aðila hafi kveðið á um ólögmæta gengistryggingu lánsfjár í íslenskum krónum í andstöðu við ákvæði 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.  Af því leiði að stefnandi hafi við uppgreiðslu samningsins greitt stefnda hærri fjárhæðir en stefndi hafi átt tilkall til.  Krefji því stefnandi stefnda um endurgreiðslu á þeim ofgreiddu fjárhæðum.

Stefnandi grundvallar endurkröfu sína á því að þrátt fyrir dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 471/2010, þar sem komist hafi verið að þeirri niðurstöðu að um vexti skyldi fara eftir 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001, verði hann ekki krafinn um greiðslu frekari vaxta fyrir liðna tíð.  Vísar stefnandi því til stuðnings til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 464/2012 og þeirra sjónarmiða sem þar séu rakin.  Byggir stefnandi á því að hann hafi á einstökum gjalddögum frá stofndegi krafnanna greitt bæði vexti og afborganir af höfuðstól samningsins.  Hafi stefnandi verið í góðri trú um að greiðslur hans á vöxtum fælu í sér fullar og réttar efndir af hans hálfu, enda hafi hann gengið út frá því að ákvæði samninganna um gengistryggingu væru gild. 

Stefnandi vísar til þess að stefndi hafi sent honum greiðsluseðla fyrir hvern gjalddaga þar sem fram komi fjárhæð greiðslu sem hafi byggst á umsömdum vöxtum.  Stefnandi hafi greitt í samræmi við það og hafi sú greiðsla verið móttekin án athugasemda af hálfu stefnda.  Þá hafi stefnandi fengið fullnaðarkvittanir fyrir uppgreiðslu lánsins, dagsettar 21. desember 2009, þar sem fram komi fjárhæðir bæði afborgana og vaxta.

Þá vísar stefnandi til þess að algjör festa hafi verið á framkvæmd samninganna út gildistíma þeirra, enda hafi aldrei neinn endurútreikningur farið fram af hálfu stefnda. Framkvæmdin hafi því verið viðhöfð allan gildistíma samninganna.  Viðbótarkrafa stefnda um vexti fyrir liðna tíð vegna samnings þessa máls myndi fela í sér kröfu að fjárhæð um 32.000.000 króna, sem telja verður umtalsverða.

Loks vísar stefnandi til þess að aðstöðumunur hafi verið fyrir hendi milli aðila samningsins.  Stefndi sé fjármálafyrirtæki sem boðið hafi ýmsar vörur í fjármálastarfsemi, þar með talið samninga sem stefndi byggi á að hafi falið í sér ólögmæta gengistryggingu. Starfsemi stefnanda felst aftur á móti í vörustjórnun fyrir fyrirtæki sem markaðssetja lyf, hjúkrunarvörur og aðrar heilsutengdar vörur.  Ljóst sé að stefnandi hafi ekki haft yfir að búa slíkri sérþekkingu um fjármálastarfsemi að jafnað verði til þeirra sem fjármálafyrirtæki, líkt og stefndi, búa einir yfir.

Með vísan til allra framangreindra atriða, sem meta verði heildstætt, verði að telja það standa stefnda nær en stefnanda að bera þann vaxtamun sem af lögvillu þeirra um lögmæti gengistryggingar hafi leitt.  Geti lög nr. 151/2010 ekki haggað þeirri niðurstöðu enda fæli það í sér afturvirkt inngrip í eignaréttindi stefnanda sem vernduð séu af 72. gr. stjórnarskrárinnar.

Að teknu tilliti til framangreindra málsástæðna stefnanda í stefnu þessari, að samningur aðila hafi verið um lánsfé í íslenskum krónum, gengistryggt með ólögmætum hætti og að stefnda sé óheimilt að krefja stefnanda um viðbótargreiðslu fyrir vexti umfram það sem stefnandi hefur þegar greitt, sé ljóst að stefnandi hafi ofgreitt stefnda af hinum umþrætta lánssamningi máls þessa.

Stefnandi byggir á því að samkvæmt almennum reglum kröfuréttar eigi stefnandi rétt á því að fá þessa ofgreiðslu sína endurgreidda frá stefnda.  Byggir stefnandi á því að hann hafi við uppgreiðslu lánsins greitt stefnda meira en honum hafi borið, með vísan til framangreindra röksemda.  Krefji stefnandi því stefnda um endurgreiðslu á því ofgreidda fé.  Byggir stefnandi þá kröfu á 1. ml. 5. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2008, um vexti og verðtryggingu, sem og meginreglunni um endurgreiðslu ofgreidds fjár. 

Í endanlegri aðalkröfu geri stefnandi þá kröfu að stefndi greiði honum 142.755.116 krónur. Er sú krafa fundin út með þeim hætti að miðað er við höfuðstól skuldarinnar í íslenskum krónum og allar greiðslur upp í höfuðstól dregnar frá. Höfuðstóll er ekki vaxtareiknaður fram til uppgreiðslu enda allar vaxtagreiðslur að fullu greiddar. Í kjölfar uppgreiðslu stefnanda myndist inneign stefnanda hjá stefnda þar sem hann hafi ofgreitt miðað við það sem honum hafi borið að gera.  Með lækkun aðalkröfu sinnar miðist fjárhæð hennar nú við að krafa hans eigi ekki að bera vexti frá uppgreiðsludegi, 1. desember 2009. 

Með bréfi, dagsettu 4. janúar 2013, hafi stefnandi krafið stefnda um greiðslu.  Af þeim sökum krefjist stefnandi dráttarvaxta af kröfufjárhæðinni frá 4. febrúar 2013, þegar liðinn hafi verið mánuður frá því að hann krafði stefnda sannanlega um greiðslu, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001, en til vara frá málshöfðunardegi.

Endanleg varakrafa stefnanda sé á því byggð að verði af einhverjum ástæðum ekki talið að sjónarmið byggð á meginreglum kröfuréttar um gildi fullnaðarkvittana eigi við, sé stefnda heimilt að endurreikna samninginn miðað við REIBOR-vexti auk 2.5% álags, svo sem samið hafi verið um að skyldi gilda um íslenska hluta samnings aðila, í stað vaxta samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001. 

Stefnandi krefst þess að krafa hans beri dráttarvexti frá 4. febrúar 2012, þegar liðinn var mánuður frá því að hann krafði stefnda sannanlega um greiðslu, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001, en til vara frá höfðun máls þessa, sbr. 4. mgr. 5. gr. laganna.

Um lagarök vísar stefnandi til laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, einkum 13., 14., og 18. gr. laganna og almennra reglna kröfu- og samningaréttar um m.a. endurgreiðslu ofgreidds fjár og gildi fullnaðarkvittana. 

Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á 1. mgr. 130. gr., laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sbr. XXI. kafla sömu laga.

IV

                Sýknukröfu sína byggir stefndi á því, að málsaðilar hafi nú þegar samið um uppgjör á láni nr. 11805. Þeir hafi þegar samið sín á milli um það hvernig fara eigi með uppgjör á láni nr. 11805.  Stefnandi eigi því enga frekari kröfu á hendur stefnda.  Fjárhagsleg endurskipulagning stefnanda hafi meðal annars falið í sér að skuldir stefnanda hafi verið aðlagaðar greiðslugetu hans.  Aðgerðin hafi falið í sér stórkostlega eftirgjöf skulda af hálfu stefnda, sem verið hafi aðalkröfuhafi stefnanda, og umbreytingu skulda í hlutafé í stefnanda.  Liður í endurskipulagningunni hafi síðan verið að lánssamningur nr. 11805 hafi verið gerður upp.  Þegar framangreind uppgreiðsla hafi átt sér stað hafi stefnandi verið í meirihlutaeigu stefnda og þáverandi dótturfélags hans.  Stjórnendur stefnanda, þar á meðal stjórnarmenn stefnanda, hafi tekið ákvarðanir um endurskipulagningu fjárhags félagsins í samráði við sérfræðinga á fyrirtækjasviði stefnda.  Aðilar hafi gert með sér samkomulag um að endurskipuleggja skuldir stefnanda út frá tilteknum rekstrarforsendum og með þeim hætti að ljóst væri að stefnandi gæti staðið undir skuldum sínum til framtíðar og stundað sinn rekstur.  Hefði ekki verið farið í slíka aðgerð sé ljóst að stefnandi hefði ekki getað staðið við skuldbindingar sínar gagnvart stefnda og öðrum kröfuhöfum og hefði stefndi þá haft heimild til að gjaldfella skuldbindingar stefnanda og um leið knúið fram skuldaskil sem vafalaust hefðu leitt til gjaldþrots stefnanda.

Stefndi kveður að megintilgangur þess að greiða lán nr. 11805 að fullu hafi verið að gera stefnanda að rekstrarhæfu félagi sem hægt væri að selja nýjum eiganda.  Verðmæti félaga taki mið af ýmsum þáttum en mestu skipti annars vegar arðsemi rekstrar, þ.e. mismunur á rekstrartekjum og rekstrargjöldum, og hins vegar nettó eignastaða, þ.e. mismunur á eignum og skuldum.  Að loknu söluferli hafi náðst samningar um kaup núverandi eiganda á stefnanda og hafi kaupverðið tekið mið af framangreindum þáttum.  Augljóst sé að sá endurkröfuréttur, sem stefnandi haldi fram í máli þessu, hefði átt að koma til hækkunar á umsömdu kaupverði hlutafjár stefnanda til nýs eiganda í ljósi þess að nettó eignastaða stefnanda hefði þá verið hærri.  Stefnandi hljóti að vera bundinn við þær aðgerðir sem ákveðnar hafi verið af hálfu stjórnenda stefnanda á þeim tíma sem hann hafi verið í meirihlutaeigu samstæðu stefnda. Augljóst sé að ef kröfur stefnanda ná fram að ganga muni nýr eigandi njóta hagnaðar af endurgreiðslunni án þess að hafa lagt nokkuð fram af sinni hálfu enda hafi allar greiðslur lánsins farið fram áður en stefnandi hafi komist í hans eigu.  Slík niðurstaða fæli í sér ólögmæta auðgun til handa nýjum eiganda stefnanda.  

Stefndi kveður að stjórnendur stefnanda á þessum tíma hafi verið starfsmenn Vestia sem þá hafi verið dótturfélag í fullri eigu stefnda.  Hlutverk þeirra hafi verið að koma að fjárhaglegri endurskipulagningu félaga sem stefndi hafi leyst til sín og gera þau rekstrarhæf ef kostur væri.  Tilgangurinn hafi ávallt verið sá að unnt yrði að selja félögin að nýju með sem minnstu tjóni fyrir stefnda, í formi niðurfellingar og afskrifta skulda.  Stjórnendum stefnanda hafi þannig verið fullkomlega ljóst að ekki yrðu afskrifaðar skuldir í meira mæli en nauðsyn hafi verið til að gera stefnanda að rekstrarhæfu félagi á nýjan leik.  Þeim hafi því einnig verið ljóst að alger forsenda af stefnda hálfu fyrir afskriftum skulda hafi verið sú, að nauðsyn væri á afskriftunum til að gera stefnanda rekstrarhæfan á nýjan leik.

Stefndi byggir einnig á því að með fjárhagslegri endurskipulagningu á stefnanda hafi stefnandi fengið alla þá leiðréttingu sem hann hefði getað átt rétt til samkvæmt láni nr. 11805. Hin fjárhagslega endurskipulagning hafi falið í sér að skuldum stefnanda við stefnda að fjárhæð 736 milljónir króna hafi verið breytt í hlutafé.  Hefði verið farin sú leið að endurreikna lán stefnanda með þeim hætti sem stefnandi gerir nú kröfu um hefði hin fjárhagslega endurskipulagning falið í sér að ekki hefði verið þörf á að breyta skuldum í hlutafé sem nemi stefnufjárhæð máls þessa.  Kröfugerð stefnanda feli þannig í sér ólögmæta auðgun stefnanda til handa.  Kæmi til frekari leiðréttingar væri stefndi nauðbeygður til að rifta hinni fjárhagslegu endurskipulagningu og krefjast endurgreiðslu á því fé sem hafi verið afskrifað og breytt í hlutafé þar sem forsendur fyrir endurskipulagningunni hafa þá tekið verulegum breytingum og brostið.  Stefndi áskilji sér allan rétt til að hafa uppi kröfur á hendur stefnanda eða eiganda hans, fari svo ólíklega að stefnandi teljist eiga rétt til greiðslna úr hendi stefnda vegna láns nr. 11805.

                Stefndi byggir jafnframt á því í þessu sambandi að kröfur stefnanda myndu leiða til ósanngjarnrar niðurstöðu og dómstólar ættu ekki að veita slíkri niðurstöðu brautargengi með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.

Stefndi byggir jafnframt sýknukröfu sína á því að lán nr. 11805 sé erlent lán.  Með undirritun sinni á hinn umþrætta lánssamning nr. 11805 hafi stefnandi skuldbundið sig til að taka lán í erlendum gjaldmiðlum.  Stefnanda beri að efna gerðan samning og virða skuldbindingu sína.  Sýknukrafa stefnda sé þannig á því byggð að krafa hans á hendur stefnda, samkvæmt hinum umþrætta lánssamningi, sé skuldbinding í erlendum myntum og falli þess vegna utan gildissviðs VI. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, sbr. 1. mgr. 13. gr. þeirra laga.  Lánssamningurinn sjálfur, sem og framkvæmd lánveitingarinnar, beri með sér að um skuldbindingu í erlendum myntum sé að ræða.

Stefndi mótmælir því sérstaklega að lán nr. 8117 hafi verið í íslenskum krónum og bundið gengistryggingu og byggir á því að um hafi verið að ræða fjölmyntalán í samtals sex gjaldmiðlum líkt og skýrlega komi fram í samningnum.

Stefndi vísar til þess að skuldbinding stefnanda samkvæmt lánssamningi nr. 8117 hafi verið gerð upp hjá LBI í maí 2008.  Lánið hafi því ekki verið hluti af þeim eignum sem færst hafi til stefnda með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, dagsettri 9. október 2008.  Stefndi sé því ekki réttur aðili til að svara fyrir um þann lánssamning og beri því að sýkna hann vegna aðildarskorts, þar sem málatilbúnaður stefnanda byggi á framangreindri málsástæðu, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Fallist dómurinn ekki á framangreint byggir stefndi á því að ekki skipti máli við mat á lánssamningi nr. 11805 hvort lánssamningur nr. 8117 standist kröfur sem gerðar hafa verið af dómstólum til að lán teljist hafa verið veitt í erlendri mynt.  Fyrir liggi að á þeim tíma sem uppgjörið hafi farið fram hafi báðir aðilar litið svo á að um erlendan lánssamning væri að ræða og ljóst sé af gögnum málsins að uppgjör láns 8117 hafi farið fram í erlendum myntum. Fyrir liggi því að útgreiðsla vegna láns 11805 hafi farið fram í erlendum myntum.

Stefndi byggir á því að niðurstaða um það hvort lán af þeim toga sem hér sé um deilt sé í íslenskum krónum eða erlendum gjaldmiðlum ráðist af ákveðnu heildarmati.  Slíkt heildarmat leiði án vafa til þess að skuldbinding stefnanda samkvæmt láni nr. 11805 teljist vera í erlendum gjaldmiðlum.  Stefndi mótmælir fullyrðingu stefnanda um að texti lánssamningsins beri með sér að skuldbindingin sé í íslenskum krónum, sem rangri, og byggir á því að texti lánssamningsins beri með sér að um sé að ræða skuldbindingu í erlendum myntum.

Stefndi hafi og efnt aðalskyldu sína í erlendum myntum.  Í útborgunarbeiðni vegna láns nr. 11805 komi skýrt fram að útborgunarfjárhæðin eigi að vera notuð til uppgreiðslu á erlendu láni Par-lo ehf., kt. 560507-1270, lán nr. 0106-8117.  Ætlun aðila hafi þannig augljóslega verið að eitt erlent lán væri notað til að greiða annað.  Kaupnóta, sem stefnandi hafi fengið afhenta þegar andvirði láns nr. 11805 hafi verið greitt út og nýtt til að greiða niður lán nr. 8117, sýni að stefnandi hafi fengið að láni: 2.461.706,78 sænskar krónur, 497.094,90 Bandaríkjadali, 611.641,35 svissneska franka, 52.245.895 japönsk jen, 760.869,57 evrur og 105.000.000 íslenskra króna.  Í kvittunum fyrir greiðslum vegna láns nr. 8117, sem stefnandi hafi einnig fengið afhent samhliða, komi fram að framangreindar fjárhæðir hafi verið notaðar til að greiða niður lán nr. 8117.  Ekki komi fram að þessum gjaldmiðlum hafi verið skipt yfir í íslenskar krónur heldur séu eingöngu tilgreindar þær erlendu fjárhæðir sem greiddar hafi verið inn á lán 8117.  Við framkvæmd útgreiðslunnar hafi hin erlenda fjárhæð verið færð á sérstakan reikning í viðkomandi mynt sem skráður sé eign „Landsbankinn hf. fyrirtækjab.“, en tilvísunarnúmer gefi til kynna að innborganir á reikningana stafi frá lánssamningi nr. 11805 og útborganir af reikningunum stafi af greiðslum á lánssamningi nr. 8117.  Með láni nr. 11805 hafi stefnandi tekið 105.000.000 íslenskra króna að láni auk hinna erlendu mynta. Framkvæmdin við útgreiðslu þessara fjármuna hafi verið á þá leið að framangreind fjárhæð hafi verið lögð inn á sjóðsreikning í íslenskum krónum í eigu fyrirtækjabanka LBI og frá þeirri fjárhæð hafi um leið verið dregnar 10.000 krónur til að greiða kostnaðinn sem stefnandi hafi borið af lántökunni.  Því næst hafi 104.501.731 króna verið dregin af sjóðsreikningum til að greiða inn á lán nr. 8117 og 1.570 króna kostnað sem fallið hafði á lánið, eins og yfirlit yfir sjóðsreikninginn og kvittun fyrir greiðslu sýni.  Stefnandi hafi notað það sem eftir stóð af lánsfjárhæðinni í íslenskum krónum, þ.e. 488.269 krónur, til að kaupa 1.320,28 svissneska franka, 5.055,37 sænskar krónur, 129.903 japönsk jen, 1.098,28 evrur og 1.242,64 Bandaríkjadali.  Myntirnar hafi svo verið notaðar til að greiða lán nr. 8117 enn frekar niður. Hefði lánið að öllu leyti verið í íslenskum krónum segi það sig sjálft að LBI hefði fært alla lánsfjárhæðina í gegnum sjóðsreikning sinn í íslenskum krónum, en ekki í gegnum þá gjaldeyrisreikninga fyrir hverja mynt sem stefnandi hafi tekið að láni.  Sýnir þetta svo ekki verði um villst að skuldbinding stefnanda gagnvart stefnda hafi verið í sænskum krónum, Bandaríkjadölum, svissneskum frönkum, japönskum jenum, evrum og íslenskum krónum. LBI hafi þannig efnt aðalskyldu sína samkvæmt lánssamningi nr. 11805 í erlendum gjaldmiðlum með því að framkvæma beiðni stefnanda um að greiða niður erlent lán nr. 8117.

Endurgreiðsla lánssamnings nr. 11805 hafi farið þannig fram að stefnandi hafi aðeins greitt fjóra af þeim 40 gjalddögum sem umsamdir hafi verið.  Í öllum tilvikum liggi fyrir að keyptar hafi verið erlendar myntir til að nota til uppgreiðslu lánsins.  Lánið hafi verið gert upp að fullu þegar fjárhagur stefnanda hafi verið endurskipulagður ásamt öðrum lánum stefnanda hjá stefnda.  Til að fjármagna endurskipulagningu stefnanda hafi annars vegar skuldum verið breytt í hlutafé og hins vegar veitt ný lán.  Nauðsynlegt hafi verið að þær skuldir sem breyta hafi átt í hlutafé væru í íslenskum krónum þar sem hlutafé stefnanda hafi verið skráð í íslenskum krónum.  Lánssamningur nr. 8154 hafi verið notaður í þessum tilgangi.  Samtímis hafi verið gerðir tveir nýir lánssamningar, annars vegar nr. 12113, sem hafi verið í evrum, og svo hins vegar nr. 12114, sem hafi verið í íslenskum krónum.  Þegar lán nr. 11805 hafi verið gert upp hafi stefnandi keypt erlendar myntir af stefnda til að greiða upp erlendu hluta lánsins. Stefndi byggir á því að kaup á erlendum gjaldeyri til endurgreiðslu á erlendum hlutum samningsins sýni, svo ekki verður um villst, að um lán í erlendum myntum hafi verið að ræða.

Stefnandi byggir á því að texti lánssamningsins sýni að hann hafi verið í erlendum myntum.  Upphafsorð lánssamningsins kveði á um að um sé að ræða fjölmyntalán í þeim myntum og hlutföllum sem þar greini, þ.e. íslenskar krónur 30%, evrur 26%, japönsk jen 11%, svissneskir frankar 13%, Bandaríkjadollarar 11% og 9% sænskar krónur.  Svo sem fram komi í samningnum skyldi fjárhæð hvers gjaldmiðils ákvarðast tveimur virkum bankadögum fyrir útborgunardag lánsins.  Tekið sé fram að skuldin verði þá eftirleiðis tilgreind með fjárhæð þeirra erlendu mynta.  Í samræmi við þetta ákvæði hafi skuld stefnanda ávallt verið tilgreind með fjárhæð þeirra erlendu mynta sem hann hafi tekið að láni með lánssamningnum eftir að skrifað hafði verið undir hann.

Samkvæmt ákvæðum samningsins hafi stefnanda verið heimilt að greiða afborganir, vexti og dráttarvexti eða aðrar greiðslur í íslenskum krónum en þá skyldi hann greiða samkvæmt sölugengi bankans á gjalddaga.  Ljóst sé því að aðalskylda stefnanda hafi verið að greiða í viðeigandi myntum en hann hafi haft rétt til að greiða í íslenskum krónum.  Engin þörf hefði verið að kveða á um rétt til að greiða í íslenskum krónum í samningnum ef lánið hefði verið að öllu leyti í íslenskum krónum.

Stefndi telur að af vaxtaákvæði samningsins sé ljóst að stefnandi hafi annars vegar fengið erlendar myntir að láni sem borið hafi LIBOR-vexti og svo hins vegar íslenskar krónur sem hafi borið REIBOR-vexti, sbr. gr. 3.1 og 3.3 í samningnum.  Hefði lánið að öllu leyti verið í íslenskum krónum hefði LBI, eðli máls samkvæmt, kveðið á um það í samningnum að öll lánsfjárhæðin bæri REIBOR-vexti, enda hafa vextir af lánum í íslenskum krónum aldrei verið skráðir á millibankamarkaði í London, þ.e. LIBOR-vextir.  Í gr. 3.6 komi svo fram að við vaxtaútreikning skuli taka mið af þeim vaxtareglum er varði dagafjölda sem í gildi séu á alþjóðlegum gjaldeyrismörkuðum á hverjum tíma.

Í gr. 5.1 sé síðan settur fyrirvari af hálfu stefnda um að ætti hann ekki kost á fjármögnun á lánskjörum sem gerðu honum kleift að endurlána lánsfjárhæðina í sama gjaldmiðli eða á sama vaxtareikningsgrundvelli og gengið væri út frá við samningsgerðina skyldi hann tilkynna stefnanda það með 10 daga fyrirvara og bjóða honum önnur lánskjör.

Í 4. gr. lánssamningsins sé síðan að finna myntbreytingarheimild.  Með henni hafi stefnanda verið veitt heimild til að óska eftir að myntsamsetningu lánsins yrði breytt. Heimildin einskorðaðist hins vegar við erlendar myntir sem staðið hafi til boða hjá LBI og síðar stefnda og skýr fyrirvari sé í ákvæðinu um aðgengi LBI að hinum erlendu myntum. 

Í gr. 7.1 sé kveðið á um að standi stefnandi ekki skil á greiðslu vaxta eða afborgunar á gjalddaga beri honum að greiða dráttarvexti af gjaldfallinni fjárhæð frá gjalddaga til greiðsludags.  Stefndi hafi haft um það val hvort krafist væri dráttarvaxta af fjárhæðinni í erlendri mynt eða af skuldinni breyttri í íslenskar krónur.  Augljóst sé að slíkt vanefndarákvæði hefði ekki þurft hefði lánið að öllu leyti verið í íslenskum krónum.

Í gr. 11.2 komi fram að yrði samningnum sagt upp væri stefnda heimilt að umreikna skuldina í íslenskar krónur miðað við sölugengi stefnda á þeim myntum sem hver lánshluti væri í.

Í 14. gr. samningsins sé fyrirvari um að ef stefnda yrði ómögulegt að afla lánsfjár erlendis til fjármögnunar á lánssamningnum á sambærilegum kjörum og gengið væri út frá við gerð hans gæti stefndi gjaldfellt eftirstöðvar samningsins.

Fjárhæð lánsins hafi verið tilgreind í erlendum myntum í síðari skjölum. Tilkynningar um gjalddaga beri með sér að lánið hafi verið í erlendum myntum.  Höfuðstóll lánsins fyrir og eftir greiðslu ásamt fjárhæð afborgunar og vaxta sé þar ávallt tilgreindur í erlendum myntum. Kvittanir fyrir greiðslum afborgana og vaxta beri einnig með sér að um hafi verið að ræða lán í erlendum myntum.  Þær sýni höfuðstól fyrir og eftir greiðslu og hversu há fjárhæð í erlendum myntum hafi verið greidd í afborgun annars vegar og vexti hins vegar.

Þegar allt framangreint sé virt verði að mati stefnda að leggja til grundvallar að stefnandi hafi tekið erlent lán en ekki gengistryggt lán í íslenskum krónum.  Stefndi bendir á að í dómaframkvæmd hafi langt í frá verið gerð krafa um að öll framangreind atriði eigi við um lánssamning til að hann teljist vera um erlent lán.

Stefndi byggir þrautavarakröfu sína um lækkun dómkrafna á því í fyrsta lagi, að rangt sé að líta svo á að stefndi sé að krefja um viðbótarvexti og að sjónarmið um fullnaðarkvittanir komi í veg fyrir slíka viðbótarkröfu.  Það tilvik sem hér sé til umfjöllunar feli ekkert slíkt í sér enda sé lánssamningur nr. 11805 að fullu greiddur og stefndi hafi ekki haft uppi neinar viðbótarkröfur á hendur stefnanda vegna hans.  Hér sé það þvert á móti stefnandi, eða lántakinn, sem hafi uppi kröfur um endurgreiðslu fjár úr hendi stefnda, sem lánveitanda, og sú endurgreiðsla byggist á meginreglum kröfuréttar um endurgreiðslu ofgreidds fjár.  Sjónarmið um fullnaðarkvittanir verði ekki höfð uppi til að rökstyðja endurgreiðslukröfu stefnanda. Dómar Hæstaréttar Íslands í málum nr. 600/2011, 464/2012 og/eða 50/2013, þar sem niðurstaðan hafi oltið á því hvort sjónarmið um fullnaðarkvittanir ættu rétt á sér eða ekki, eigi því ekki við um það tilvik sem hér sé til úrlausnar.  Meginregla kröfuréttar, um að kröfuhafi sem fengið hafi minna greitt en hann hafi átt rétt á, gildi um lögskipti málsaðila.

Telji dómurinn að varnir stefnda feli í sér kröfu um viðbótargreiðslu vegna vaxta fyrir liðna tíð, sé þrautavarakrafa stefnda byggð á meginreglu kröfuréttar um að kröfuhafi sem fengið hafi minna greitt en hann eigi rétt á eigi viðbótarkröfu á hendur skuldara um það sem vangreitt sé.  Meginreglan eigi sér örugga stoð í dómaframkvæmd.  Af meginreglunni leiði að einungis við sérstakar aðstæður verði tilkalli kröfuhafa til viðbótargreiðslu hafnað. Stefndi telur að atvik málsins séu með þeim hætti að fylgja beri meginreglunni.  Reglur kröfuréttar um gildi fullnaðarkvittana komi því ekki í veg fyrir að stefndi geti krafið stefnanda um að hann efni lánið að fullu.

Stefndi byggir á að með vísan til almennra lögskýringarreglna verði að skýra undantekningu frá framangreindri meginreglu þröngt.  Stefndi hafnar því að atvik þessa máls geti leitt til þess að rétturinn felli atvik þess undir undantekningarregluna frá framangreindri meginreglu um fullnaðargildi kvittana.  Dómar Hæstaréttar Íslands, m.a. í málum nr. 600/2011, nr. 464/2012 og nr. 50/2013, hafi því ekki það fordæmisgildi gagnvart lánssamningi nr. 11805 að rétturinn geti vikið frá framangreindri meginreglu.  Stefndi hafnar því sérstaklega að þau sjónarmið sem byggt sé á í máli nr. 50/2013 eigi við í þessu máli, þar sem í því máli hafi verið deilt um jafngreiðslulán, en það lán sem hér sé um deilt kveði á um jafnar afborganir.  Telji dómurinn engu að síður að horfa beri til þessara dóma byggir stefndi á að undantekningarreglan sem dómarnir byggi á eigi ekki við í þessu máli.  Vísar stefndi þessu til stuðnings m.a. til þess að stefnandi hafi ekki getað verið í góðri trú um að greiðslur hans til LBI og síðar stefnda hafi falið í sér fullar og réttar efndir.  Stefnanda hafi ekki getað dulist við gerð lánssamningsins að forsendur fyrir því að hann væri að greiða svo lága vexti, sem raun ber vitni, hafi verið að hann tæki á sig gengisáhættuna sem fylgir því að taka lán í erlendum gjaldmiðlum.  Þetta eigi sérstaklega við hér þar sem hluti lánsins hafi verið í íslenskum krónum og hafi í því tilfelli verið samið um að honum bæri að greiða REIBOR-vexti fyrir þann hluta lánsins, sbr. gr. 3.3 í lánssamningnum og hafi stefnanda verið ljóst að slíkir vextir séu mun hærri en LIBOR-vextir.  Um þann mun vísist til vaxta sem Seðlabanki Íslands birti samkvæmt 10. gr., sbr. 4. gr., laga nr. 38/2001, vaxta sem LBI og síðar stefndi hafi boðið viðskiptavinum sínum á óverðtryggðum lánum í íslenskum krónum og veginna vaxta samkvæmt skilmálum lánanna sem vaxtagreiðslur stefnanda hafi verið byggðar á.

                Þá hafi aldrei komist á festa í framkvæmd endurgreiðslu lánssamningsins.  Samkvæmt gr. 2.1 í lánssamningnum hafi hann verið til 5 ára og hafi stefnandi átt að greiða lánið að fullu á næstu fimm árum með 20 afborgunum á 3 mánaða fresti þannig að á fyrstu 19 gjalddögunum, hverjum um sig, hafi átt að greiðast 1/40 hluti lánsfjárhæðarinnar og á lokagjalddaga, hinn 21. maí 2013, hafi átt að greiðast 21/40 hluti lánsfjárhæðarinnar.  Endurgreiðsluferli lánsins hafi þannig í reynd miðast við að lánstíminn væri til 10 ára. Stefnandi hafi aðeins greitt fjóra gjalddaga þegar lánið hafi verið gert upp við fjárhagslega endurskipulagningu á stefnanda en þeir gjalddagar sem eftir hafi staðið hafi verið greiddir í einu lagi hinn 21. desember 2009.

                Jafnframt byggi stefndi á því að undir engum kringumstæðum verði hægt að leggja til grundvallar að endurreikningur á láni stefnanda, vegna meintrar ólögmætrar gengistryggingar, geti haft í för með sér röskun á fjárhagslegri stöðu hans.  Stefndi vísar hér til þess að viðbótakrafan sem höfð sé uppi í þessu máli sé mun lægri en Hæstiréttur Íslands hafi litið til við mat á því hvort víkja eigi frá framangreindri meginreglu, eða aðeins 5,66% ef miðað er við að lánið beri REIBOR-vexti í heild sinni og að stefnandi eigi ekki fullnaðarkvittanir eftir 22. maí 2009.  Viðbótarkrafan verði enn lægri, eða aðeins 3,98%, ef miðað er við að íslenski hluti lánsins eigi að bera REIBOR-vexti að viðbættu álagi og þeir hlutar lánsins sem hafi verið tilgreindir í erlendum myntum eigi að bera vexti, samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.  Af þessari ástæðu sé ekki hægt að líta svo á að viðbótarkrafan sé umtalsverð og geti talist hafa í för með sér röskun á fjárhagslegri stöðu stefnanda.  Stefndi vísar einnig til þess að hann hafi þegar lækkað skuldir stefnanda um hundruð milljóna og aðstoðað hann í gegnum verulega fjárhagslega erfiðleika.  Án þessarar aðstoðar og aðkomu væri óvíst að stefnandi gæti stundað daglegan rekstur.  Staðan sé því í raun og veru sú að stefndi hafi bætt fjárhagslega stöðu stefnanda verulega og verði rétturinn að horfa til þess þegar metið sé hvort einhver röskun á fjárhagslegri stöðu hafi átt sér stað.  Einnig sé á því byggt að ekki geti verið um fjárhagslega röskun að ræða þar sem stefndi hafi ekki uppi neina viðbótarkröfu á hendur stefnanda heldur sé staðan sú að stefnandi krefji stefnda um endurgreiðslu með aðkomu dómstóla.

                Af framangreindu sé ljóst að skilyrðum undantekningarreglunar um fullnaðargildi kvittana sé ekki fullnægt í máli þessu.  Leiði þetta til þess að rétturinn verði að beita meginreglu kröfuréttar um að kröfuhafi sem fengið hafi minna greitt en hann hafi átt rétt til gildi um lögskipti málsaðila og hafna kröfu stefnanda um fullnaðarkvittanir.

                Komist rétturinn að þeirri ólíklegu niðurstöðu að lánssamningur nr. 11805 hafi falið í sér gengistryggingu og að sjónarmið um fullnaðarkvittanir komi í veg fyrir að unnt sé að endurreikna samninginn frá upphafstíma hans byggir stefndi á því að endurútreikningsdagur lánsins eigi að vera 22. maí 2009, sem sé síðasti greiddi gjalddaginn sem stefnandi hafi innt af hendi áður en fjárhagur hans hafi verið endurskipulagður.  Eftir framangreint tímamark hafi vanskil stefnanda hafist og þau staðið fram til desember 2009 þegar lán nr. 11805 hafi verið gert upp að fullu með nýju láni.  Stefndi byggir á því að greiðsla sem berst eftir langvarandi vanskil og fari fram með nýju láni sé ekki til þess fallin að hafa sömu áhrif og ef um reglulegar afborganir í samræmi við skilmála lánsins hefði verið að ræða.  Sjónarmið um fullnaðarkvittanir geti því aldrei átt við um slíka síðari gjalddaga.  Staða lánsins hinn 22. maí 2009 hafi verið 328.918.185 krónur miðað við framangreindar forsendur og beri að miða endurútreikning lánsins og mögulegan endurkröfurétt stefnanda við þá stöðu. 

                Stefndi byggir á að við endurreikning lánssamningsins beri að nota REIBOR-vexti í stað LIBOR-vaxta í ljósi þess að lánssamningurinn kveði skýrt á um að lánsfé í íslenskum krónum eigi að bera REIBOR-vexti að viðbættu álagi, sbr. gr. 3.3 í lánssamningnum.  Í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 471/2010 komist rétturinn að þeirri niðurstöðu að skýra beri 4. gr. laga nr. 38/2001 á þann veg að vaxtaskilmálar ákvæðisins kæmu til fyllingar samningum með ógild samningsákvæði um vaxtahæð.  Á sama hátt og í framangreindum dómi Hæstaréttar Íslands séu hér bein og órjúfanleg tengsl á milli ákvæða í lánssamningnum um gengistryggingu og samningsákvæða um LIBOR-vexti.  Þar sem óheimilt hafi verið að gengistryggja lánið hafi ekki verið unnt að taka mið af ákvæðum þess um LIBOR-vexti.  Eðli máls samkvæmt hafi ógilt ákvæði um gengistryggingu því leitt til þess að samningsákvæði um LIBOR-vexti, en slíkir vextir hafa aldrei verið skráðir vextir af lánum í íslenskum krónum, varð marklaust um leið og ákvæði um gengistryggingu varð það.  Þar sem lánssamningurinn kveði, eftir sem áður, á um að lánið beri vexti verði að leggja til grundvallar að lánið eigi frá upphafi að bera vexti í samræmi við  gr. 3.3 í samningnum, en þar sé kveðið skýrt á um að vaxtakjör lánshluta, sem lántaki taki í íslenskum krónum, miðist við REIBOR-vexti að viðbættu tilteknu álagi.  Texti samningsins sé því alveg skýr um að íslenskar krónur eiga að bera REIBOR-vexti, en þessu til stuðnings vísar stefndi einnig til dóms Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-4095/2012.

                Stefndi mótmælir sérstaklega útreikningum stefnanda sem líti fram hjá því að hluti lánsins hafi verið í íslenskum krónum frá upphafi og hafi þar af leiðandi borið REIBOR-vexti ásamt álagi samkvæmt lánssamningnum.  Við endurútreikning hafi stefnandi, þrátt fyrir þessa staðreynd, kosið að reikna alla leggi samningsins, það er að segja jafnt þann sem hafi verið í íslenskum krónum og þá sem tilgreindir hafi verið í erlendum myntum og hafi borið LIBOR-vexti, samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr., laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.  Augljóst sé að slík aðferðafræði eigi sér enga stoð í dómum Hæstaréttar Íslands og standist ekki skoðun að stefnandi geti átt rétt til endurreiknings á íslensku láni sem umsamið sé að beri íslenska vexti. Miðað við framangreindar forsendur geti krafa stefnanda aldrei orðið hærri en 107.093.498 krónur miðað við 1. desember 2009.

                Stefndi byggir til vara á því að íslenski hluti lánsins eigi að bera REIBOR-vexti ásamt álagi og þeir hlutar lánsins sem hafi verið tilgreindir í erlendum myntum eigi að bera vexti samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr., laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.  Með vísan í þann rökstuðning sem áður sé settur fram beri hins vegar að miða við að sjónarmið um fullnaðarkvittanir eigi ekki við eftir 22. maí 2009.  Miðað við þessar forsendur geti krafa stefnanda aldrei orðið hærri en 113.126.887 krónur, miðað við 1. desember 2009, en stefnandi eigi ekki rétt til vaxta eftir þetta tímamark.

                Fallist dómurinn ekki á framangreint byggir stefndi á að við beitingu undantekningarreglunnar verði að líta til þess hvernig stefnandi hafi átt að greiða afborganir og vexti af láninu samkvæmt ákvæðum lánssamningsins og að teknu tilliti til dóma Hæstaréttar Íslands í málum nr. 600/2011 og nr. 464/2012.  Í þessum dómum hafi rétturinn lagt til grundvallar að við mat á því hvort um viðbótarkröfu um vexti sé að ræða af hálfu kröfuhafa sé metið hversu mikið lánið hefði átt að lækka miðað við þann fjölda gjalddaga sem lántaki hefði þá greitt af láninu og miðað við að um lán í íslenskum krónum hefði verið að ræða, sem jafnframt væri óverðtryggt.  Krafa stefnda gangi í raun út á sömu aðferð við að endurreikna lánið enda ljóst að miðað við þann mælikvarða sem Hæstiréttur Íslands hafi lagt til grundvallar geti þá ekki verið um viðbótakröfu um vexti að ræða í raun.  Þessi aðferð styðjist einnig við þau sjónarmið sem fram hafa komið í framangreindum dómum Hæstaréttar Íslands að hinn rangi lagaskilningur aðila, sem hafi legið til grundvallar lögskiptum þeirra, verði í uppgjöri einungis leiðréttur til framtíðar.  Í þessu sambandi sé jafnframt vísað til meginreglu samningaréttar um skuldbindingargildi samninga og þess að stefnandi geti ekki haft réttmætar væntingar til þess að höfuðstóll lækkaði meira við greiðslu á hverri afborgun en samningur aðila hafi gert ráð fyrir.  Bendir stefndi á, í því sambandi, að samkvæmt gr. 2.3 hafi lántaka einungis verið heimilt að greiða lánið hraðar niður að bankinn samþykkti slíkar greiðslur.

Samkvæmt gr. 2.1 í lánssamningnum hafi stefnandi átt að greiða lánið til baka á fimm árum með 20 afborgunum á þriggja mánaða fresti en þó þannig að á fyrstu 19 gjalddögunum skyldi greiðast 1/40 hluti af höfuðstólnum og á lokagjalddaga skyldi greiða 21/40 hluta.  Á hverjum gjalddaga hafi þannig átt að greiða 8.750.000 krónur inn á höfuðstól lánsins.  Byggir stefndi á því að stefnandi hafi einungis greitt fjóra gjalddaga sem sjónarmið um fullnaðarkvittanir geti gilt um og því beri að miða við að upphaflegur höfuðstóll lækki um 35.000.000 króna og endurreiknaður höfuðstóll eftir greiðslu afborgunar 22. maí 2009 sé því 315.000.000 króna.  Að teknu tilliti til framangreinds geti krafa stefnanda aldrei orðið hærri en 128.027.716 krónur miðað við að lánið beri REIBOR-vexti ásamt álagi.  Verði ekki á það fallist telur stefndi að miða eigi við að íslenski hluti lánsins eigi að bera REIBOR-vexti ásamt álagi og þeir hlutar lánsins sem hafi verið tilgreindir í erlendum myntum eigi að bera vexti samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr., laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.  Geti krafa stefnanda því aldrei orðið hærri en 127.728.050 krónur.  Framangreindar skuldir hafa verið framreiknaðar frá 22. maí 2009 til 1. desember 2009 þegar lánið hafi verið gert upp.

Með þessari aðferðafræði hafi stefndi að fullu tekið tillit til sjónarmiða um fullnaðarkvittanir þann tíma sem stefnandi hafi réttilega getað talið lánið vera í skilum samkvæmt skilmálum þess.  Gagnstæð niðurstaða myndi leiða til þess að stefnandi kæmist hjá því að greiða fulla vexti á gjalddaga en fengi samt sem áður að greiða lánið hraðar niður. Augljóst sé að slík niðurstaða gangi ekki upp.

                Telji dómurinn hins vegar að sjónarmiðum um fullnaðarkvittanir verði beitt á þá gjalddaga sem greiddir hafi verið með fullnaðargreiðslunni 1. desember 2009 teldist stefnandi hafa greitt samtals sex gjalddaga lánsins og heildarlækkun á höfuðstól sem hann ætti rétt á með sömu reikniaðferð væri þá 52.500.000 króna og höfuðstóll miðað við 1. desember 2009 væri þá 297.500.000 krónur.  Að teknu tilliti til framangreinds geti krafa stefnanda aldrei orðið hærri en 125.888.537 krónur miðað við að öll lánsfjárhæðin beri REIBOR-vexti ásamt álagi.  Fallist rétturinn ekki á það byggir stefndi á að íslenski hluti lánsins eigi að bera REIBOR-vexti ásamt álagi og þeir hlutar lánsins sem hafi verið tilgreindir í erlendum myntum eigi að bera vexti samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr., laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, og geti krafa stefnanda því aldrei orðið hærri en 125.923.245 krónur.  Framangreindar skuldir hafi verið framreiknaðar frá 23. nóvember 2009 til 1. desember 2009.

                Stefndi byggir til vara á því að krafa stefnanda geti aldrei orðið hærri en 137.715.232 krónur miðað við að hann eigi ekki fullnaðarkvittanir eftir 22. maí 2009 og að frá þeim degi til 1. desember 2009 beri lánið REIBOR-vexti ásamt álagi.  Fallist rétturinn ekki á það byggir stefndi á því að þeir hlutar lánsins sem hafi verið tilgreindir í erlendum myntum beri vexti samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr., laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, og íslenski hluti lánsins beri REIBOR-vexti að viðbættu álagi.  Miðað við þessar forsendur geti krafa stefnanda aldrei orðið hærri en 137.428.038 krónur.  Um rökstuðning fyrir því að miða beri við þessa dagsetningu vísar stefndi til umfjöllunar hér að framan en eftir þennan tíma hafi greiðslur stefnanda verið inntar af hendi í tengslum við fjárhagslega endurskipulagningu stefnanda og með aðkomu stefnda.  Slíkar greiðslur geti ekki talist uppfylla þau skilyrði sem geta leitt til þess að undantekningarreglan eigi við.

Telji rétturinn að stefnandi eigi fullnaðarkvittanir fyrir öllum greiddum gjalddögum byggir stefndi á því að krafa stefnanda geti aldrei orðið hærri en 142.755.166 krónur með vísan í framangreind sjónarmið.  Miðist þeir útreikningar við að íslenskur hluti lánsins hljóti ávallt að bera REIBOR-vexti líkt og samningurinn kveði á um.

                Í stefnu gerir stefnandi kröfu um dráttarvexti og miðar upphafsdaga dráttarvaxta við 4. febrúar 2013 með vísan til bréfs sem stefnandi sendi stefnda, og dagsett er 4. janúar 2013.  Stefndi mótmælir dráttarvaxtakröfu stefnanda þar sem bréf þetta geti ekki á nokkurn hátt talist vera formlegt kröfubréf enda sé í því aðeins að finna vangaveltur stefnanda um lánssamninga og órökstudda beiðni um að stefndi greiði honum nær 200.000.000 króna. 

Um lagarök vísar stefndi til laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, og almennra reglna samninga- og kröfuréttar um samningsfrelsi, skuldbindingargildi loforða, ólögmæta auðgun og efndaskyldu krafna. 

Kröfu um málskostnað byggir stefndi á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

V

                Ágreiningur málsins varðar lánssamning milli stefnanda og stefnda, áður Landsbanki Íslands hf., dagsettan 4. júní 2008.  Greinir aðila á um það hvort lán samkvæmt samningnum sé bundið ólögmætri gengistryggingu í skilningi 14. gr. laga nr. 38/2001 eða hvort lánið sé í erlendum gjaldmiðlum.  Auk þess lýtur ágreiningur aðila að því hvort stefnandi eigi rétt til endurreiknings lána sem gerð voru upp í tengslum við fjárhagslega endurskipulagningu og fólu í sér stórfelldar niðurfærslur lána á meðan stefnandi var dótturfélag stefnda.  Þá ríkir ágreiningur um það hvort meginregla kröfuréttar, um að kröfuhafi, sem fengið hafi minna greitt en hann eigi rétt til, eigi viðbótarkröfu á hendur skuldara, gildi um lögskipti málsaðila eða hvort undantekning frá meginreglunni um gildi fullnaðarkvittana eigi við.

Í máli þessu er fram komið að umdeildur lánssamningur, sem áður er lýst, er efnislega sambærilegur þeim lánssamningi sem fjallað var um í dómi Hæstaréttar Íslands 9. júní 2011 í máli nr. 155/2011.  Af hálfu stefnda á því byggt að sakarefni máls þessa sé frábrugðið því sem leyst var úr með dómi Hæstaréttar Íslands, einkum viðvíkjandi því hvernig málsaðilar efndu aðalskyldur sínar samkvæmt samningnum.

Ákvæðum umdeilds samnings er lýst hér að framan.  Á forsíðu samningsins stendur: „ISK 350.000.000 Lánssamningur“.  Í upphafi hans segir að samningurinn væri gerður „um fjölmyntalán til 5 ára að jafnvirði kr. 350.000.000...í neðanskráðum myntum og hlutföllum“.  Síðan eru tilgreindir gjaldmiðlarnir sex og hlutföll þeirra og kveðið á um að fjárhæð hvers þeirra yrði ekki ákveðin fyrr en tveimur virkum bankadögum fyrir útborgunardag lánsins, en skuldin yrði þá eftirleiðis tilgreind með fjárhæð þeirra erlendu mynta eða jafngildi þeirra í öðrum erlendum myntum.  Eina tilgreining lánsins í samningnum er samkvæmt þessu í íslenskum krónum.  Hvergi er getið um fjárhæð skuldarinnar í hinum erlendu gjaldmiðlum, heldur aðeins hlutföll þeirra og viðmiðun við virði íslensku krónunnar á tilteknum degi fyrir útborgun lánsins.  Fjárhæð lánsins var þannig í grunninn tiltekin í íslenskum krónum.  Í samræmi við dóma Hæstaréttar Íslands, m.a. í máli nr. 155/2011, gefa ákvæði sambærilegra samninga ekki skýrt til kynna hvort skuldbinding aðila sé í íslenskum krónum eða erlendum gjaldmiðlum og þarf þá að meta heildstætt, meðal annars eftir efndum aðila, hvort samið hafi verið um lán í erlendum gjaldmiðlum eða íslenskum krónum, bundið við gengi erlendra gjaldmiðla með ólögmætum hætti. 

Ekki er um það deilt að fyrrgreindu láni 4. júní 2008 var ráðstafað til uppgreiðslu annars láns hjá Landsbanka Íslands hf.  Var þannig ekki um það að ræða að lánsfjárhæðin væri greidd í íslenskum krónum inn á bankareikning lántaka, eins og átti við í fyrrgreindum dómi Hæstaréttar Íslands 9. júní 2011.  Sama dag og umdeildur lánssamningur var gerður undirritaði stefnandi beiðni um útborgun lánsins, þar sem fram kemur að hann óskaði eftir að lánið yrði notað til uppgreiðslu á erlendu láni Par-lo ehf. hjá Landsbanka Íslands hf.  Óumdeilt er að útborgunarfjárhæð lánsins var ráðstafað til greiðslu á því láni og er sá lánssamningur efnislega sambærilegur umdeildum lánssamningi.  Samkvæmt þeim lánssamningi skyldi fjárhæð lánsins lögð inn á íslenskan reikning stefnanda og sami reikningur skuldfærður fyrir greiðslu afborgana og vaxta.  Báðir samningsaðilar skyldu því efna meginskyldur sínar samkvæmt samningunum með greiðslum í íslenskum krónum.  Verður því að líta svo á að stefnandi hafi með útborgunarbeiðni sinni óskað eftir útborgun lánsins, samkvæmt umdeildum lánssamningi, í íslenskum krónum.  Með því að einu fjárhæðir sem beint eða óbeint voru tilgreindar í lánsamningi voru í íslenskum krónum og að erlendir gjaldmiðlar skiptu í raun aldrei um hendur, verður að líta svo á að umdeilt lán hafi verið í íslenskum krónum, bundið gengi erlendra gjaldmiðla.  Breytir það ekki þessari niðurstöðu, með vísan til umrædds fordæmis Hæstaréttar Íslands, að lánið var í kerfum stefnda formlega greitt út í erlendum myntum áður en fjárhæðinni var breytt í íslenskar krónur til uppgreiðslu téðs láns stefnanda.  Verður þannig að leggja til grundvallar að lánið hafi verið greitt út í íslenskum krónum með sambærilegum hætti og í því máli sem leyst var úr með fyrrgreindum dómi Hæstaréttar Íslands.

Svo sem áður greinir kvað lánssamningurinn 4. júní 2008 á um að lántaki óskaði eftir því að tiltekinn bankareikningur hans í íslenskum krónum yrði skuldfærður fyrir afborgun og/eða vöxtum.  Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða dómsins að sakarefni máls þessa sé sambærilegt því sem leyst var úr með umræddum dómi Hæstaréttar Íslands 9. júní 2011, sem ber því að leggja til grundvallar sem fordæmi við úrlausn málsins.  Verður því fallist á að umdeilt lán hafi verið í íslenskum krónum, að hluta bundið við gengi erlendra gjaldmiðla.  Samkvæmt 13. gr. og 14. gr., sbr. 2. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, og dómafordæmum Hæstaréttar Íslands er lánabinding eða annars konar skuldbinding í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla óheimil.  Slík verðtrygging er ólögmæt og ógild. 

Í máli þessu leitar stefnandi eftir endurgreiðslu á því sem hann telur sig hafa ofgreitt stefnda vegna ólögmætra ákvæða um bindingu fjárhæðar skuldar sinna við gengi tiltekinna erlendra gjaldmiðla í umþrættum lánssamningi, sem áður er lýst.  Stefndi hefur krafist sýknu af kröfum stefnanda og byggir á því að þegar umþrætt lán var gert upp hafi stefnandi verið í eigu stefnda.  Í tengslum við uppgjörið hafi farið fram fjárhagsleg endurskipulagning á fyrirtækinu og hluta af skuldum stefnanda hafi verið breytt í hlutafé áður en félagið hafi verið selt.  Forsenda þessarar niðurfærslu á skuldum stefnanda hafi verið að eftirstöðvar annarra skulda væru rétt metnar.  Hins vegar liggur fyrir í málinu að umþrætt lán var greitt upp með öðru íslensku láni stefnanda hjá stefnda.  Samkvæmt því, og þar sem að komist hefur verið að þeirri niðurstöðu hér að framan að umþrætt lán sé íslenskt lán að hluta bundið við gengi erlendra gjaldmiðla, með ólögmætum hætti, verður ekki fallist á að heildarendurskoðun á skuldum og eignum stefnanda, geti leitt til þess að víkja beri frá skýrum fyrirmælum 5. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001, um að kröfuhafa beri að endurgreiða skuldara þá fjárhæð sem hann hafi ranglega af honum haft vegna ólögmætra vaxta og/eða verðtryggingar.  Hefur stefndi og ekki sýnt fram á það með útreikningum eða öðrum hætti að stefnandi hafi, við endurskipulagninguna, hagnast um þá fjárhæð, sem hann krefur stefnda nú um.  Með sömu rökum verður ekki talið að ákvæði 36. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, geti leitt til þess að stefnandi geti ekki krafið stefnda um ofgreitt fé vegna ólögmætrar gengistryggingar.

Við uppgjör lánssamningsins var því tekið mið af forsendum sem standast ekki 13. gr. og 14. gr. laga nr. 38/2001, samkvæmt dómafordæmi Hæstaréttar Íslands.  Stefnandi byggir á því að sé miðað við útreikninga sem samræmist lögum eigi hann rétt á endurgreiðslu á mismuninum milli þess sem hann hafi greitt og þess sem hann hafi átt að greiða.  Kröfurnar byggir hann á meginreglum kröfuréttar um endurheimt ofgreidds fjár.  Endanlega kröfugerð sína byggir stefnandi á útreikningum sem hann kveður í samræmi við 18. gr. laga nr. 38/2001, sbr. lög nr. 151/2010, og dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 600/2011, sem fjallar um útreikninga samkvæmt því ákvæði.  Stefnandi telur endanlega kröfugerð sína vera í samræmi við athugasemdir stefnda að öðru leyti.

Eftir að stefnandi lagði fram endanlega kröfugerð eiga athugasemdir í greinargerð stefnda við útreikning kröfugerðar stefnanda eftir atvikum ekki við enda ekki tölulegur ágreiningur um endanlegan útreikning stefnanda á dómkröfum.

Aðalkrafa stefnanda byggir á því að hann geti borið fyrir sig gildi fullnaðarkvittana og hafi því að fullu greitt samningsvexti fram til þess dags er lánið var greitt upp 21. desember 2009.  Fram kemur í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 471/2010, að þegar ákvæði í samningum með gegnistryggingu hefur verið metið ógilt sé óhjákvæmilegt að líta fram hjá ákvæðum samnings um vaxtahæð.  Eins og í því máli var kveðið á um að umdeilt lán bæri vexti í samningi aðila.  Í þessu máli hagar hins vegar svo til að í samningi aðila er kveðið á um að sá hluti lánsins sem var í íslenskum krónum skyldi bera REIBOR-vexti ásamt umsömdu álagi.  Sú vaxtaviðmiðun er lögmæt og verður því að líta svo á að skuldbindingar stefnanda sem ranglega tóku mið af gengi erlendra gjaldmiðala hafi því með réttu átt að bera fyrrgreinda REIBOR-vexti.  Aðalkrafa stefnanda tekur mið af því að stefnandi hafi þegar greitt að fullu vexti vegna þess hluta lánsins sem var gengistryggður með ólögmætum hætti og að stefndi eigi ekki viðbótakröfu vegna mismunar á þegar greiddum LIBOR-vöxtum og REIBOR-vöxtum, í samræmi við ákvæði samningsins.  Varakrafan tekur hins vegar mið af því að allt lánið skuli bera REIBOR-vexti frá upphafi. 

Í samræmi við meginreglu kröfuréttar getur kröfuhafi krafið skuldara um þá fjárhæð sem vantar á fullar efndir kröfu.  Tilkalli kröfuhafa um viðbótargreiðslu verður einungis hafnað við sérstakar aðstæður.  Við mat á því hvort víkja skuli frá framangreindri meginreglu þarf að skoða atvik heildstætt.  Hefur þessi meginafstaða verið áréttuð í dómum Hæstaréttar Íslands, þar sem fram hefur komið að, að vissum skilyrðum fullnægðum, geti fullnaðarkvittanir valdið því að kröfuhafi glati frekari kröfu.  Að baki undantekningunni búa sjónarmið um öryggi í viðskiptum og að það geti haft í för með sér mikla röskun á fjárhagslegri stöðu skuldara að standa kröfuhafa skil á umtalsverðum viðbótargreiðslum fyrir liðna tíð þvert á væntingar sínar. 

Við mat á því hvort svo standi á að efni séu til að víkja frá meginreglunni um rétt kröfuhafa til viðbótargreiðslu hefur í fyrsta lagi verið litið til þess hvort skuldari hafi verið í góðri trú og þannig hvorki vitað né mátt vita að greiðsla hans væri ófullnægjandi þegar hann innti hana af hendi.  Ljóst er að aðilar gengu út frá því í þau fjögur skipti sem greiðslur voru inntar af hendi af láninu að ákvæði lánssamningsins um gengistryggingu höfuðstóls þess væru gild.  Stefnandi var því í góðri trú um að greiðslur hans fælu í sér fullar efndir.  Þá hefur í annan stað verið litið til þess hvort sá munur hafi verið á aðstöðu aðila að það réttlæti að hafna viðbótarkröfu og í framhaldi af því hvorum þeirra stæði nær að bera áhættu af þeim mistökum sem leiddu til þess að vangreitt var.  Í þeim efnum hefur einkum verið litið til þess hvort festa hafi verið komin á framkvæmd samnings, hversu langur tími hafi liðið frá því að mistök komu fram þar til krafa var höfð uppi, hvorum aðila megi fremur kenna um að mistök hafi orðið, hvort samningssamband sé í eðli sínu einfalt eða flókið og hvert sé umfang viðbótarkröfu.  Öll eru þessi atriði ásamt öðrum til viðmiðunar og ekkert eitt þeirra getur ráðið úrslitum um hvort vikið skuli frá meginreglunni um að kröfuhafi eigi rétt til viðbótargreiðslu.  Þar ræður heildarmat, en því verulegra sem óhagræði skuldarans yrði af viðbótargreiðslu því sterkari eru rökin til að víkja frá meginreglunni.

Í máli þessu verður að líta svo á að aðstöðumunur hafi verið með aðilum með því að stefndi er fjármálafyrirtæki.  Vegna þessa stóð það jafnframt stefnda nær að gæta þess að ekki væru í samningi aðila skilmálar sem stönguðust á við ófrávíkjanleg ákvæði laga nr. 38/2001.  Á hinn bóginn er til þess að líta að stefnandi greiddi lánið upp rétt rúmu ári eftir að það var veitt, löngu fyrir umsaminn gjalddaga.  Höfðu áður verið greiddir fjórar afborganir af höfuðstól.  Verður ekki talið að með því hafi slík festa verið komin á framkvæmd lánssamningsins að réttlætt geti frávik frá meginreglunni.  Samkvæmt aðalkröfu stefnanda nemur viðbótarkrafa vegna vaxta u.þ.b. 32.000.000 króna.  Er sú fjárhæð veruleg af greiddum vöxtum en á hinn bóginn óverulegur hluti af höfuðstól lánsins, sem taka verður mið af í þessu tilviki vegna hins skamma lánstíma.  Þá verður við mat á því hversu mikla röskun á fjárhagslegri stöðu stefnanda viðbótarkrafan veldur að líta til þess að hann hefur í raun þegar greitt hana.  Að öllu þessu gættu eru ekki skilyrði til að víkja frá meginreglunni um rétt kröfuhafa til viðbótargreiðslu. 

                Að virtum öllum framangreindum atriðum þykir stefnandi ekki hafa sýnt fram á að áskilnaður um samningsbundna REIBOR-vexti valdi honum svo verulegri og óvæntri röskun á fjárhagslegri stöðu að það standi stefnda nær að bera áhættuna af þeim vaxtamun sem áður er lýst. 

Þegar framangreint er virt þykir rétt að fallast á útreikning endanlegrar varakröfu stefnanda ásamt dráttarvöxtum, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, eins og krafist er. 

Með hliðsjón af framangreindri niðurstöðu og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefndi dæmdur til þess að greiða stefnanda málskostnað og þykir hann hæfilega ákveðinn 800.000 krónur.

Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð:

Stefndi, Landsbankinn hf., greiði stefnanda, Parlogis ehf., 107.093.498 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 4. febrúar 2013 til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 800.000 krónur í málskostnað.