Hæstiréttur íslands
Mál nr. 235/1999
Lykilorð
- Vátrygging
- Kaupleiga
|
|
Fimmtudaginn 25. nóvember 1999. |
|
Nr. 235/1999. |
Eyþór Steinarsson (Steingrímur Þormóðsson hrl.) gegn Vátryggingafélagi Íslands hf. (Hákon Árnason hrl.) |
Vátrygging. Kaupleiga.
E tók bílkrana á kaupleigu hjá G. Sagði í samningi um leiguna að G væri eigandi kranans allan samningstímann. Að beiðni G gaf vátryggingafélagið V út vátryggingarskírteini fyrir húftryggingu á krananum með vátryggingarfjárhæðinni 8.500.000 krónur. Kraninn eyðilagðist nokkrum vikum eftir að kaupleigu-samningurinn var gerður. Greiddi V vátryggingarfjárhæðina til G. E stefndi V og krafðist þess að fá greiddar bætur fyrir kranann á grundvelli markaðsverðs hans, sem E taldi vera 13.007.385 krónur. Í vátryggingarbeiðni G, sem V samþykkti, var tekið fram að G væri rétthafi bóta, ef til tjóns kæmi. Var því talið var að G hefði verið vátryggður í skilningi laga um vátryggingarsamninga og húftryggingin einungis til hagsbóta G, sbr. 54. gr. laganna. Þá þótti ekki sannað að E að hefði sjálfur keypt húftrygginu á bílkrananum hjá V. Samkvæmt því þótti E ekki hafa sýnt fram á að hann ætti kröfu til húftryggingarbóta úr hendi V. Var félagið sýknað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Guðrún Erlendsdóttir.
Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 19. apríl 1999, en það var fellt niður 4. júní með vísan til 157. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Ný áfrýjunarstefna var gefin út 14. júní með vísan til 4. mgr. 153. gr. laganna. Krefst áfrýjandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 13.007.385 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 17. nóvember 1997 til greiðsludags, að frádregnum 8.384.700 krónum, sem stefndi greiddi 28. janúar 1998. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara, að kröfur áfrýjanda verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður.
I.
Með samningi 4. september 1997 tók áfrýjandi bílkrana á kaupleigu hjá Glitni hf. Kom skýrt fram í samningnum að Glitnir hf. væri eigandi bílkranans og eignarréttur félagsins að leiguhlutnum héldist á samningstímanum, en honum skyldi ljúka 1. október 2004. Í 12. gr. samningsins sagði að hið leigða skyldi allan samningstímann vera vátryggt í samræmi við kröfur Glitnis hf. og að leigutaki skyldi greiða iðgjöld af þeim vátryggingum. Þar sagði einnig að leigutaka væri heimilt að taka frekari vátryggingar vegna hins leigða. Á forsíðu samningsins var ritað „ábyrgðar og kaskótrygging“ í reit, sem merktur var: „Tegundir trygginga“. Er óumdeilt að hér hafi verið átt við að skylda áfrýjanda eftir samningnum næði bæði til lögmæltrar ábyrgðartryggingar og húftryggingar bílkranans.
Sama dag og kaupleigusamningurinn var gerður sendi Glitnir hf. stefnda í símbréfi beiðni um ábyrgðar- og kaskótryggingu vegna bílkranans. Í beiðninni var tekið fram, að áfrýjandi væri vátryggingartaki, að verðmæti tækis væri 8.500.000 krónur og loks að Glitnir hf. væri eigandi hins leigða og væri því „rétthafi bóta“, ef tjón yrði. Gaf stefndi í framhaldi af því út vátryggingarskírteini með vátryggingarfjárhæðinni 8.500.000 krónum fyrir tímabilið frá 8. september 1997 til 1. september 1998. Afrit af skírteininu ber með sér að áfrýjandi var vátryggingartaki. Ekki er deilt um að stefndi krafði áfrýjanda um iðgjöld af vátryggingum þessum með því að senda honum gíróseðla. Ekki liggja fyrir gögn um hvort iðgjöldin hafi verið greidd eða hver það gerði.
Áfrýjandi fór í september á skrifstofu stefnda og keypti þar svonefnda frjálsa ábyrgðartryggingu vegna rekstrar bílkranans fyrir vátryggingartímabilið frá 4. september 1997 til 1. september 1998. Hann kveðst einnig hafa beðið um „al-kaskótryggingu“ fyrir bílkranann og heldur því fram að samningur hafi stofnast um hana með sér og stefnda. Starfsmenn stefnda, sem komu fyrir dóm, báru að áfrýjandi hafi komið á skrifstofuna um þessar mundir og keypt ábyrgðartrygginguna, en þeir könnuðust ekki við að önnur húftrygging hefði verið tekin vegna bílkranans en sú, sem áður getur, og gilda skyldi fyrir vátryggingartímabilið frá 8. september 1997 til 1. september 1998. Áfrýjandi hefur ekki sannað með víðhlítandi gögnum að rétt sé staðhæfing hans um að stefndi hafi tekið að sér húftryggingu með öðru efni en fyrr greinir.
Í héraðsdómi er því lýst að bílkraninn skemmdist svo 19. nóvember 1997 að hann var metinn ónýtur. Greiddi stefndi Glitni hf. 28. janúar 1998 bætur fyrir algert tjón með vátryggingarfjárhæðinni 8.500.000 krónum, að frádreginni eigin áhættu vátryggðs 115.300 krónum, eða 8.384.700 krónur.
II.
Í 1. mgr. 54. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga er svohljóðandi meginregla um rétt vátryggðs til bóta, þegar vátryggingaratburð hefur borið að höndum: „Sé hlutur vátryggður og eigi greint, hverjum sú trygging skuli til hagsbóta, þá telst vátryggingin vera hverjum þeim til hagsbóta, er bíða mundi tjón við það, að hluturinn skemmdist eða færi forgörðum, vegna þess að hann ætti hlutinn eða veðrétt í honum eða önnur óbein eignarréttindi, eða vegna þess, að hann bæri áhættuna af því, að hluturinn færist.“
Í vátryggingarbeiðni Glitnis hf. 4. september 1997 var eins og fyrr segir berum orðum tekið fram að félagið væri rétthafi bóta, ef til tjóns kæmi. Er ljóst að með orðinu rétthafi er átt við vátryggðan í merkingu 3. mgr. 2. gr. laga nr. 20/1954. Ekki er annað komið fram en að stefndi hafi samþykkt vátryggingarbeiðnina athugasemdalaust. Verður því að legga til grundvallar að með húftryggingarsamningnum hafi verið kveðið sérstaklega á um að vátryggingin væri einungis til hagsbóta Glitni hf.
Samkvæmt framansögðu hefur áfrýjandi ekki sýnt fram á að hann eigi kröfu á húftryggingarbótum úr hendi stefnda vegna vátryggingaratburðarins 19. nóvember 1997. Þarf þá ekki að taka afstöðu til annarra röksemda, sem hann styður dómkröfu sína við. Verður héraðsdómur því staðfestur um annað en málskostnað.
Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðst í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.
Áfrýjandi, Eyþór Steinarsson, greiði stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf., samtals 450.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. janúar 1999.
1. Mál þetta var höfðað með framlagningu skjala í dómi 5. febrúar 1998 og dómtekið 11. þ.m.
Stefnandi er Eyþór Steinarsson, kt. 110165-5529, Goðaborgum 3, Reykjavík.
Stefndi er Vátryggingafélag Íslands hf., kt. 690689-2009, Ármúla 3, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 13.007.385 krónur ásamt dráttarvöxtum frá 17. nóvember 1997 til greiðsludags. Allt að frádregnum 8.384.700 krónum, sem voru greiddar 28. janúar 1998, en sú lækkun kröfunnar var sett fram við aðalmeðferð málsins 11. þ.m.
Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans, en til vara að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar og málskostnaður felldur niður.
2. Með kaupleigusamningi, dagsettum 4. september 1997, seldi Glitnir hf. stefnanda á kaupleigu bílkranann RS-709 af gerðinni Coles, árgerð 1982. Samningsverð nam 8.500.000 krónum og samningstími var til 31. október 2004. Samningurinn var á grundvelli almennra samningsskilmála samkvæmt kjörleið 2. Samkvæmt 1. grein samningsins skyldi eignarrétturinn að hinu leigða haldast hjá Glitni hf., en flytjast til leigutaka við lok samningstíma, og þá skyldi, samkvæmt 17. grein, leigutaki eignast hið leigða með afsali, enda hefði hann að fullu efnt skuldbindingar sínar samkvæmt samningnum. Í 11. grein segir, að leigutaki beri ábyrgð á og skuli bæta Glitni hf. allt það tjón, sem verða kunni á hinu leigða, meðan það er í vörslum hans eða meðan hann beri að öðru leyti áhættuna af því. Vátryggingarfé, sem kunni að fást vegna tjóns á hinu leigða, skuli renna til Glitnis hf. og lækki þá krafa félagsins á hendur leigutaka sem því nemur. Um vátryggingar og skaðabótaábyrgð segir í 12. grein: “Hið leigða skal vera vátryggt í samræmi við kröfur Glitnis hf. á meðan samningur þessi varir. Leigutaki greiðir iðgjöld af vátryggingum þessum og eru þau ekki innifalin í greiðslu samkvæmt 2. grein samningsins. Leigutaka er heimilt að taka sjálfur frekari vátryggingar vegna hins leigða ef slíkt skerðir ekki hagsmuni Glitnis hf. Á meðan samningur þessi er í gildi ber leigutaki ábyrgð á því tjóni sem hið leigða kann að valda með beinum eða óbeinum hætti. Verði Glitni hf. gert að greiða bætur fyrir slíkt tjón getur félagið endurkrafið leigutaka um þá fjárhæð.” Samkvæmt ökutækjaskrá var Glitnir hf. skráður eigandi bílkranans frá 8. september 1997.
Með símbréfi til stefnda hinn 4. september 1997 bað Glitnir hf. um lögboðna ábyrgðartryggingu og kaskótryggingu fyrir bílkranann RS-709. Var bílkraninn verðsettur í tryggingarbeiðninni á 8.500.000 krónur. Í beiðninni er stefnandi tilgreindur sem tryggingartaki og vísað er til þess að um kaupleigusamning sé að ræða. Þá segir: “Glitnir hf. er eigandi hins leigða þar til samningurinn fellur úr gildi og er því rétthafi bóta ef til tjóns kemur. Óheimilt er að fella trygginguna úr gildi án samráðs við Glitni hf.” Í samræmi við beiðni Glitnis hf. var bílkraninn tekin í húftryggingu (alkaskótryggingu) fyrir 8.500.000 krónur og var tryggingartímabilið ákveðið 8. september 1997 til 1. september 1998. Samkvæmt staðfestingu stefnda frá 26. september 1997 tryggði stefnandi bílkranann frjálsri ábyrgðartryggingu fyrir tímabilið 4. september 1997 til 1. september 1998.
Í stefnu segir, að stefnandi hafi snemma í september 1997 farið í skrifstofur hins stefnda félags og gengið frá tryggingu fyrir bílkranann. Hann hafi tekið hefðbundna ábyrgðartryggingu og einnig alkaskótryggingu. Einnig hafi hann beðið um rekstrarstöðvunartryggingu, en verið sagt, að hann hefði ekki þá tekjureynslu að hægt væri að veita honum slíka tryggingu. Þá hafi stefnandi tekið svokallaða “króktryggingu” eða ábyrgðartryggingu fyrir því, sem kynni að skemmast við hífingar bílkranans. Stefnandi hafi skýrt starfsmanni stefnda frá því, að bílkraninn væri ekki undir 11.500.000 krónum að verðmæti og að hann vildi tryggja verðmæti hans eða raunvirði. Þetta hafi verið ákvörðunarástæða stefnanda fyrir því að taka hjá hinu stefnda félagi alkaskótryggingu fyrir bílkranann.
Hinn 19. nóvember 1997 var stefnandi að vinna með bílkranann að hífingu dráttarbáts upp í skip í Þorlákshöfn, þegar kraninn féll niður í skipið. Var hann metinn ónýtur af stefnda og Vinnueftirliti ríkisins. Stefnandi snéri sér til stefnda varðandi bótaákvörðun um uppgjör tjónsins. Hann hélt því fram, að sér væri ekki unnt að fá jafngóðan krana kominn til landsins fyrir minna en um 12 milljónir króna og væri það því vátryggingarverð kranans. Stefnanda var tjáð, að Glitnir hf. væri rétthafi húftryggingarbóta fyrir bílkranann og yrði verðmæti hans bætt í samræmi við vátryggingarsamning Glitnis hf. og stefnda, eða með 8.500.000 krónum. Í bréfi stefnda frá 29. desember 1997 til stefnanda segir, að hugleiðingar hans um að vátryggingarverðið hafi ekki verið ákveðið fyrirfram séu skiljanlegar í ljósi skilmála alkaskó þar sem segi í 15. grein, að vátryggingarfjárhæð sé ekki tilgreind í vátryggingarskírteini. Skilmálar alkaskó taki fyrst og fremst mið af einkabifreiðum þar sem verðmæti sé mjög breytilegt. Þegar um sé að ræða atvinnutæki, svo sem kranabíla, vörubíla og fleira, sé verðmæti ákveðið fyrirfram og því eigi 15. grein skilmála ekki að öllu leyti við, þar sem vátryggingarupphæðin hafi verið ákveðin fyrirfram. Í bréfi stefnda, dagsett 31. desember 1997, til lögmanns stefnanda segir, að þegar um sé að ræða kaupleigutæki, sé það nær undantekningarlaus regla, að kaupleigufyrirtækið annist sjálft milligöngu um tryggingartöku. Vátrygging sé gefin út á nafni kaupleiguhafa, en kaupleigufyrirtækið sé jafnframt rétthafi og bætur jafnan greiddar kaupleigufyrirtæki ef tjón verði. Þá er vísað til þess, að fram komi í gögnum félagsins að vátryggingin hafi komist á fyrir milligöngu Glitnis hf.
Glitni hf. voru þann 28. janúar 1998 greiddar 100% bætur vegna tjóns á umræddum bílkrana, eða 8.384.700 krónur, að frádregnum 115.300 krónum vegna sjálfsáhættu.
3. Málsástæður stefnanda og lagarök.
Stefnandi hafi sem tryggingartaki og samningsaðili hins stefnda félags samið við félagið um að bílkraninn RS-709 væri tryggður alkaskótryggingu í samræmi við almenna skilmála félagsins númer 12 fyrir húftryggingu ökutækja. Vísað er til efnis 15. greinar: “Vátryggingarupphæð er ekki tilgreind í vátryggingarskírteininu en vátryggingarverðmæti ökutækisins er sú upphæð sem sambærilegt ökutæki að tegund, aldri og gæðum kostaði á almennum markaði á tjónsdegi miðað við staðgreiðslu.”
Glitnir hf. hafi ekki haft neitt umboð til þess frá stefnanda að gera tryggingarsamning við hið stefnda félag. Slíkur samningur geti því engan veginn haft gildi milli stefnanda og stefnda. Stefnandi byggir á því, að ekki fari milli mála, að hann sé tryggingartaki þeirrar tryggingar sem mál þetta snúist um, þó að Glitnir hf. sé ákveðinn rétthafi bótanna að 8.500.000 krónum. Þá hafi Glitnir hf. ekki haft heimild til að semja um ákveðið þak á vátryggingarupphæð tryggingarinnar, enda brjóti ákveðin vátryggingarfjárhæð í bága við ofangreinda vátryggingarskilmála.
Stefnandi styður fjárhæð dómkröfu sinnar við það, að sér hafi ekki verið unnt að fá sambærilegan bílkrana fyrir lægra verð en sem nemur kröfu sinni. Örðugt hafi verið að finna nákvæmt markaðsverð bílkranans RS-709. Þess vegna hafi verið farin sú leið að fá upplýsingar frá fimm innflytjendum líkra bílkrana um verð þeirra kominna hingað til lands. Fjárhæð dómkröfunnar, 13.007.385 krónur, er fundin með því að taka meðaltal af verðupplýsingum fyrirtækjanna, en öllu nær markaðsverði eða enduröflunarverði umrædds bílkrana verði ekki komist.
Stefnandi styður dómkröfu sína einnig við það, að bersýnilega sé ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju af hálfu stefnda að bera fyrir sig samningstilboð Glitnis hf. frá 4. september 1997. Í því efni verði að líta til efnis slíks samnings, stöðu samningsaðila og síðan þau atvik, sem urðu til þess að bílkraninn eyðilagðist. Stefnandi byggir á því, að það sé bersýnilega ósanngjarnt að bæta honum ekki raunvirði bílkranans og að hann hafi mátt treysta því að alkaskótryggingin væri þess efnis. Stefnandi bendir á, að með 8.500.000 krónum verði raunvirði bílkranans engan veginn bætt. Brjóti það einnig í bága við góða viðskiptavenju og heiðarleika í viðskiptum, með hliðsjón af atvikum öllum, að bera slíkan samning fyrir sig. Stefnandi byggir á því, að ekki geti staðist að Glitnir hf., sem vátryggður, geti verið einráður um efni tryggingarsamningsins, og hafi borið að kynna samningsgerðina fyrir stefnanda þannig að hún öðlaðist gildi gagnvart honum. Stefndi hafi sönnunarbyrði fyrir því, að sá samningur, sem hann byggi afstöðu sína á, sé í gildi milli aðila málsins, svo og hvers eðlis samningurinn sé og hvaða tryggingarskilmálar liggi honum til grundvallar.
Stefnandi styður kröfu sína við 2. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga, sbr. og 5. gr. og 24. gr. sömu laga. Þá vísar stefnandi til grunnreglna samningaréttarins og til laga nr. 7/1936; sérstaklega er vísað til 36. gr. þeirra laga, a, b og c liða, sbr. lög nr. 14/1995. Stefnandi skírskotar til þeirrar sönnunarbyrði, sem lögð sé á atvinnurekanda samkvæmt 2. mgr. a lið 36. gr. og einnig til 1. mgr. b liðar 36. greinar.
4. Málsástæður stefnda og lagarök.
Sýknukrafa stefnda er reist á því, að rangt sé og ósannað að stefnandi hafi gert samning við stefnda um húftryggingu fyrir bílkranann RS-709. Hann eigi því engan rétt til húftryggingarbóta úr hendi stefnda á grundvelli slíks samnings, svo sem hann krefst.
Enginn hjá stefnda hefur tekið við beiðni frá stefnanda um húftryggingu fyrir RS-709, eins og stefnandi staðhæfir, hvað þá að slík beiðni hafi verið samþykkt og gengið frá tryggingu. Hefur stefnandi engar sönnur fært fram til stuðnings fullyrðingum sínum, þrátt fyrir óskir um skýringar .
Þá er rangt, sem stefnandi heldur fram, að Glitnir hf. hafi ekki haft heimild til að semja um verðmæti hins húftryggða eða skort umboð frá stefnanda til að gera tryggingarsamning við stefnda. Þurfti Glitnir hf. að lögum og samkvæmt kaupleigusamningi ekkert umboð frá stefnanda til að húftryggja bílkranann og verðsetja hið tryggða. Var Glitnir hf. eigandi bílkranans en ekki stefnandi sem aðeins hafði kranann á leigu með rétti til að fá hann keyptan við lok leigutímans eða árið 2004. Hafði Glitnir hf. því allar heimildir til að tryggja kranann án umboðs eða leyfis frá stefnanda. Er samningur Glitnis hf. og stefnda um húftryggingu bílkranans gildur og bindandi að lögum, þ.m.t. umsamið vátryggingarverð 8.500.000 krónur. Á 15. grein alkaskó skilmálanna ekki við hér, þar sem um verð hins vátryggða var samið fyrirfram.
Enn er rangt, sem stefnandi heldur fram, að það sé bersýnilega ósanngjarnt gagnvart honum og andstætt góðri viðskiptavenju, að stefndi beri fyrir sig “samningstilboð Glitnis hf. frá 4. september 1997” og bæti ekki stefnanda raunvirði bílkranans RS-709. Fyrir það fyrsta átti stefnandi, eins og áður segir, ekki bílkranann eða þá hagsmuni í bílkrananum, sem húftryggðir voru í samræmi við samningstilboð Glitnis hf. Var þar og skýrt tekið fram, að Glitnir hf. væri rétthafi bótanna, kæmi til tjóns. Var stefnandi aðeins leigutaki kranans á tjónsdegi. Átti stefnandi því engan rétt á húftryggingarbótum, sbr. og 54. gr. vsl. nr. 20/1954. Í öðru lagi er ósannað, að vátryggingarupphæðin, 8.500.000 krónur, hafi ekki svarað raunvirði bílkranans. Sanna upplýsingar um verð á bílkrönum frá fyrirtækjum, sem tilgreind eru af hálfu stefnanda, ekki hvert hafi verið markaðsverð eða raunvirði RS-709 á tjónsdegi. Er þar ekki um sams konar tæki að ræða, kaupkjör lítt tilgreind og óupplýst hvort verð sé með eða án virðisaukaskatts. Hins vegar er viðurkennt af stefnanda, að bílkraninn RS-709 hafi kostað 8.500.000 krónur við komu til landsins.
Að framangreindu virtu ætti að vera ljóst, að stefnandi hefur hvorki laga- eða samningsgrundvöll fyrir kröfum sínum.
Yrði af einhverjum ástæðum talið, að stefnandi ætti rétt til húftryggingarbóta fyrir RS-709, takmarkast sá bótaréttur við sannað tjón stefnanda við að RS-709 fór forgörðum, vegna þess að stefnandi átti þá eignarrétt í kranabílnum eða veðrétt eða bar áhættuna af því að RS-709 færist, sbr. 1. mgr. 54. gr. vsl. nr. 20/1954. Hefur stefnandi ekki sýnt fram á, að nokkuð af þessu sé til staðar. Þá gætu bætur til stefnanda aldrei numið meiru en sönnuðu markaðsverði RS-709 á tjónsdegi að frádregnum hinum umsömdu bótum til Glitnis hf. að fjárhæð 8.500.000 krónur. Á Glitnir hf. líka, hvað sem öðru líður, sjálfstæðan rétt til húftryggingarbóta á grundvelli 54. gr. vsl. nr. 20/1954, þar sem Glitnir hf. átti eignarréttinn að RS-709, en stefnandi var aðeins leigutaki samkvæmt kaupleigusamningi Glitnis hf. og stefnanda. Námu hagsmunir Glitnis hf. í RS-709 vátryggingarfjárhæðinni, 8.500.000 krónum.Upphafstíma dráttarvaxta er mótmælt frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi og krafist er málskostnaðar úr hendi stefnanda á grundvelli c liðs 131. gr. eml. hver sem úrslit máls verða.
5. Aðilar öfluðu matsgerða undir rekstri málsins.
Hinn 14. maí 1998 var dómkvaddur óvilhallur, sérfróður matsmaður, Valgarð Zophaníasson bifvélavirkjameistari, til að meta raunvirði bílkranans RS-709 þann 19. nóvember 1997 og markaðsverð sams konar bílkrana þann dag. Í ódagsettri matsgjörð segir, að sambærilegir kranar muni ekki vera til sölu hér á landi og hafi því verið skoðaðir erlendir sölulistar og verðviðmiðun samkvæmt listum. Verð á sambærilegum krana muni vera um 80.000 sterlingspund. Að viðbættum flutningskostnaði til landsins og aðflutningsgjöldum er niðurstöðufjárhæð matsins 11.661.000 krónur.
Stefndi óskaði yfirmats, og á dómþingi 1. október 1998 voru Jón Haukur Sigurðsson framkvæmdastjóri og Teitur Gústafsson viðskiptafræðingur dómkvaddir til starfans. Samkvæmt yfirmatsgjörð, dagsettri 30. nóvember 1998, mátu þeir verð á sambærilegum krana um 80.000 sterlingspund. Að viðbættum flutningskostnaði og aðflutningsgjöldum nemur niðurstöðufjárhæð matsins 11.569.000 krónum.
Stefndi samdi um húftryggingu bílkranans, sem um ræðir í málinu, á grundvelli tryggingarbeiðni eiganda hans, Glitnis hf., 4. september 1997. Hefur stefndi greitt Glitni hf. fullar bætur vegna altjóns kranans. Glitnir hf. var vátryggingartaki og vátryggður í skilningi 2. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingasamninga, en með því að stefnandi var tilgreindur sem vátryggingartaki krafði stefndi hann um iðgjaldagreiðslur, sem hann átti að standa straum af samkvæmt kaupleigusamningi Glitnis hf. og stefnanda. Gegn neitun stefnda hefur stefnandi ekki sýnt fram á, að réttarsamband hafi stofnast milli þeirra um húftryggingu bílkranans.
Samkvæmt þessu er niðurstaða dómsins sú, að sýkna beri stefnda af kröfum stefnanda. Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefnanda til að greiða stefnda málskostnað, sem er ákveðinn 400.000 krónur.
Mál þetta dæmir Sigurður Hallur Stefánsson héraðsdómari.
D ó m s o r ð:
Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., er sýknaður af kröfum stefnanda, Eyþórs Steinarssonar.
Stefnandi greiði stefnda 400.000 krónur í málskostnað.