Hæstiréttur íslands
Mál nr. 326/2006
Lykilorð
- Landamerki
|
|
Fimmtudaginn 3.maí 2007. |
|
Nr. 326/2006. |
Landeigendur Ytra-Njarðvíkurhverfis með Vatnsnesi sf. (Ólafur Björnsson hrl.) gegn íslenska ríkinu (Karl Axelsson hrl.) Landeigendafélagi Járngerðarstaða og Hópstorfu Hermanni Kristjánssyni Jörundi Kristjánssyni Valgerði Ólafsdóttur Gylfa A. Pálssyni Maríu Ester Kjeld Hönnu Kjeld Kristbjörgu Kjeld Matthíasi Kjeld Benedikt Jónssyni Guðrúnu Jónsdóttur Margréti Agnesi Jónsdóttur (Ragnar Aðalsteinsson hrl. Ragnar Tómas Árnason hdl.) Sólveigu Eggertsdóttur og Sigurlaugu Eggertsdóttur (enginn) og íslenska ríkið Hermann Kristjánsson Jörundur Kristjánsson Valgerður Ólafsdóttir Gylfi A. Pálsson María Ester Kjeld Hanna Kjeld Kristbjörg Kjeld Matthías Kjeld Benedikt Jónsson Guðrún Jónsdóttir og Margrét Agnes Jónsdóttir gegn Landeigendum Ytra-Njarðvíkurhverfis með Vatnsnesi sf.
|
Landamerki.
Deilt var um hvar merki sameiginlegs lands Ytra-Njarðvíkurhverfis og Vatnsness væru í Stapafelli, en útlit fjallsins er nú mjög breytt vegna malartöku frá því að landamerkjabréf voru gerð. Samkvæmt landamerkjabréfum fyrir landið og aðrar jarðir sem liggja umhverfis fjallið var Stapafell hornpunktur fyrir aðliggjandi jarðir. Í aðalkröfu L var miðað við að tvö merki væru í fjallinu. Ekki var fallist á það og meðal annars vísað til þess að það landamerkjabréf, sem krafan var byggð á, hefði ekki að geyma lýsingu á þeirri línu sem L taldi vera á milli punktanna tveggja, auk þess sem aðeins væri miðað við einn stað í fjallinu í öðrum landamerkjabréfum. Í varakröfu L var miðað við að punkturinn væri þar sem verið hefði hæsti hnjúkur í fjallinu austan Stapafellsgjár. Í forsendum Hæstaréttar var vísað til þess að í lýsingu verkfræðingsins Z, sem kannaði á árinu 1953 hvar á fjallinu lönd jarða mættust, væri augljóslega vísað til kennileitis vestan Stapafellsgjár. Hefðu síðari mælingar á því hvar þetta kennileiti hefði verið leitt til þeirrar niðurstöðu að það hefði verið á norðausturhluta meginfjallsins vestan gjár. Þá hefði kennileiti líkt því, sem landamerkjabréf og lýsing Z vísuðu til, ekki sést frá sumum þeirra jarða, sem landamerkjabréfin taka til, hefði það verið staðsett á fjallinu austan gjár. Auk þess yrði ráðið af ljósmyndum að einungis hluti fjallsins austan Stapafellsgjár hefði sést úr Ytri-Njarðvík, en meginfjallið skyggt á það að öðru leyti. Tekið var fram að ekki réði úrslitum þótt í landamerkjabréfi fyrir Ytra-Njarðvíkurhverfi og Vatnsnes væri vísað til hæstu þúfu á austurhluta fjallsins, enda ekki tekið fram að þúfan væri austan Stapafellsgjár og fjallið legið í norðaustur og suðvestur. Var samkvæmt því staðfest niðurstaða héraðsdóms um að miða skyldi merki við punkt þar sem Stapafell var hæst áður en malartekja hófst þar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson og Haraldur Henrysson fyrrverandi hæstaréttardómari.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. júní 2006. Hann krefst þess aðallega að viðurkennt verði að landamerki milli sameiginlegs lands Ytra-Njarðvíkurhverfis með Vatnsnesi og aðliggjandi jarða gagnáfrýjenda og stefndu liggi frá punkti úr Stapafellsgjá með hnitin 327960 og 384732 í punkt á austurenda Stapafells með hnitin 327313 og 383061, þaðan í punkt við Stapafellshnjúk með hnitin 326846 og 382987, þaðan beina línu í punkt við Kirkjuvogsklofninga með hnitin 325731 og 386161 og þaðan í punkt við Þrívörður með hnitin 324672 og 388298. Til vara krefst hann viðurkenningar á því að merkin liggi frá fyrrgreindum punkti í Stapafellsgjá í punkt á austurenda Stapafells með hnitin 327313 og 383061 og þaðan í fyrrgreindan punkt við Kirkjuvogsklofninga. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti óskipt úr hendi gagnáfrýjenda og stefndu.
Gagnáfrýjandinn íslenska ríkið áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 11. júlí 2006. Hann krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur um annað en málskostnað, sem sér verði dæmdur í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjendurnir Hermann, Jörundur, Valgerður, Gylfi, María Esther, Hanna, Kristbjörg, Matthías, Benedikt, Guðrún og Margrét Agnes áfrýjuðu héraðsdómi fyrir sitt leyti 25. júlí 2006. Þau krefjast þess að héraðsdómur verði staðfestur um annað en málskostnað, sem þeim verði dæmdur í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi Landeigendafélag Járngerðarstaða og Hópstorfu krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Stefndu Sólveig og Sigurlaug hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Dómarar Hæstaréttar gengu á vettvang 17. apríl 2007.
I.
Í málinu er deilt um hvar merki sameiginlegs lands Ytra-Njarðvíkurhverfis og Vatnsness eru í Stapafelli á Reykjanesi, en í héraðsdómi er tekið upp orðalag í landamerkjabréfum fyrir það land og aðrar jarðir, sem liggja umhverfis fjallið. Í öllum tilvikum er Stapafell hornpunktur fyrir aðliggjandi jarðir og er í einstökum landmerkjabréfum lýst tilgreindum stað í fjallinu þótt notuð séu mismunandi nöfn eða orð fyrir þann stað, sem miðað er við. Í tilviki Ytra-Njarðvíkurhverfis og Vatnsness heldur aðaláfrýjandi fram að landamerkjabréf fyrir það lýsi tveimur stöðum í fjallinu, það er „hæðsta hnjúk á austurenda Stapafells“ og „Stapafellshnjúk“ og að landamerkjalínan liggi frá öðrum í hinn. Í landamerkjabréfum fyrir aðrar jarðir er ótvírætt að aðeins er miðað við einn stað í fjallinu. Með vísan til forsendna héraðsdóms er fallist á að landamerkjabréf Ytra-Njarðvíkurhverfis og Vatnsness beri að skýra á þann veg að þar sé lýst einum stað í Stapafelli en ekki tveimur. Eru bréfin að því leyti eins og landamerkjabréf fyrir aðrar jarðir, þar sem tilgreindum stað í fjallinu er lýst sem hornmarki. Kemur aðalkrafa aðaláfrýjanda samkvæmt þessu ekki til frekari álita í málinu.
II.
Aðaláfrýjandi hefur gert varakröfu fyrir Hæstarétti, sem felur í sér að landamerkjapunktur Ytra-Njarðvíkurhverfis og Vatnsness í Stapafelli verði ákveðinn þar sem verið hafi hæsti hnjúkur í fjallinu austan Stapafellsgjár og þaðan liggi landamerkjalínan í Kirkjuvogsklofninga. Landamerki, sem yrðu þannig ákveðin, falla innan aðalkröfu aðaláfrýjanda og kemur varakrafa hans til úrlausnar í málinu.
Í héraðsdómi er lýst aðstæðum á Stapafelli, sem eru nú gjörbreyttar frá því áðurnefnd landamerkjabréf voru gerð. Mjög mikil malartekja hefur farið þar fram allt frá árinu 1953, sem leitt hefur til þess að öll kennileiti eru horfin og fjallið lækkað um tugi metra. Er nú svo komið að einungis lítill hluti þess er enn óhreyfður. Í málinu nýtur hins vegar við uppdrátta af Stapafelli og umhverfi þess og loftmynda, einkum frá seinni árum, auk þess sem ljósmyndir, teknar 1942 og 1943 frá Ytri-Njarðvík, sýna útlínur fjallsins að hluta áður en því var raskað. Þá hafa verið lagðar fyrir Hæstarétt loftljósmyndir frá árinu 1945, sem einnig sýna Stapafell í upprunalegri mynd. Fjallið liggur í stefnu norðaustur og suðvestur og klauf Stapafellsgjá efri hlutann í sundur eftir fjallinu endilöngu. Þar mótar nú aðeins óljóst fyrir gjánni. Hún sést hins vegar glöggt á þeim loftljósmyndum, sem lagðar hafa verið fyrir Hæstarétt. Þær sýna jafnframt að mun stærri hluti fjallsins lá vestan og norðan við gjána en handan hennar. Þá er óumdeilt að fjallið var einnig mun hærra norðvestan við gjána en suðaustan hennar. Verður ráðið af gögnum málsins að hæstu punktar á fyrrnefnda hlutanum hafi verið í 110 til 120 metra hæð, en suðaustan gjár hafi hæð fjallsins einungis náð 75 til 80 metrum. Þá liggur fyrir að á árinu 1953 fól gagnáfrýjandinn íslenska ríkið Zóphóníasi Pálssyni verkfræðingi að kanna nánar hvar á Stapafelli lönd jarða mættust, en fyrir dyrum stóð að hefja vinnslu malarefna úr fjallinu. Er í héraðsdómi tekin upp lýsing Zóphóníasar á staðháttum þegar komið var upp á fjallið. Sagði hann meðal annars að þar hafi verið nærri láréttur, rennisléttur melur og að eina sjáanlega mishæðin hafi verið stuttur klapparhryggur, um einn metri á hæð, sem nokkur sandur hafði safnast að, en uppi á klöppinni hafi verið allstór grasi vaxin þúfa. Enga vörðu eða mishæð hafi hins vegar verið að sjá vestast á fjallinu. Hann hafi haft hornamæli meðferðis og mælt afstöðuna til nokkurra kennileita svo unnt yrði að setja þessa þúfu inn á kort.
Mælingar, sem gerðar hafa verið á því hvar það kennileiti var, sem Zóphónías Pálsson lýsti, hafa leitt til þeirrar niðurstöðu að það hafi verið á norðausturhluta meginfjallsins vestan gjár. Verður að skilja málatilbúnað aðaláfrýjanda svo að ekki sé vefengt að hnitasetning samkvæmt niðurstöðu héraðsdóms sýni þann punkt á fjallinu, sem Zóphónías lýsti. Mælingin fellur saman við lýsingu hans sjálfs á aðstæðum, en hann kvað þúfuna vera á austurhluta fjallsins og nærri þeim stað þar sem fjallið var hæst. Augljóslega var þar vísað á stað vestan Stapafellsgjár. Lýsing hans er skýr og afdráttarlaus og er ekkert fram komið, sem dregið getur úr gildi hennar. Ekki nýtur við annarra heimilda um staðhætti ef undan er skilin lýsing Guðmundar A. Finnbogasonar frá 1972, en hann var fulltrúi landeigenda í Ytri-Njarðvík á fundi sem haldinn var að þeirra frumkvæði um landamerki í Stapafelli og við vettvangsgöngu á fjallið, sem þá þegar hafði verið raskað verulega. Þar fjallar hann um „þúfuna“ á Stapafelli með þeim hætti að hún hafi verið austan við gjána. Um það voru fulltrúar annarra landeigenda honum ósammála, svo sem hermt er í frásögn af nefndum fundi og vettvangsgöngu. Lýsing Guðmundar gefur hins vegar enga vísbendingu um annað en að hann hafi talið einungis eina þúfu geta hafa verið kennileiti á fjallinu.
Í héraðsdómi er tekið upp orðalag í landamerkjabréfum jarða, sem land eiga í Stapafell, en merkjum er þar gjarnan lýst svo að miðað sé við þúfu eða vörðu á fjallinu. Kennileitið, sem Zóphónías Pálsson lýsti, var á meginfjallinu þar sem það sást úr öllum áttum og virðist öðrum slíkum ekki hafa verið til að dreifa. Sú aðferð er alþekkt í landamerkjabréfum að miða mörk jarða við sýnileg og augljós einkenni í landslagi, sem skera sig úr og sjást langt að. Kennileiti líkt því, sem landamerkjabréf og lýsing Zóphóníasar vísa til, hefði ekki sést frá sumum þeirra jarða, sem landamerkjabréfin taka til, hefði það verið staðsett á fjallinu austan gjár. Þá verður ráðið af ljósmyndum frá 1942 og 1943, sem áður var getið, að einungis hluti fjallsins austan Stapafellsfjár hafi sést úr Ytri-Njarðvík, en meginfjallið skyggt á það að öðru leyti. Kennileitið, sem áður er lýst, var á norðausturhluta fjallsins. Getur engum úrslitum ráðið þótt í landamerkjabréfi fyrir Ytra-Njarðvíkurhverfi og Vatnsnes sé vísað til hæstu þúfu á austurhluta fjallsins, en þar segir ekki að þúfan sé austan Stapafellsgjár.
Eftir rannsókn sína og vettvangsferð gerði Zóphónías Pálsson uppdrátt af Stapafelli og nágrenni 1955, sem sýnir hornmark allra jarða í Stapafellsþúfu á norðausturhluta fjallsins. Þá hefur aðaláfrýjandi lagt fram ljósmynd af Stapafelli frá árinu 1953 sem sýnir að þá þegar hófst mikil efnistaka ofan af fjallinu. Eins og málið liggur fyrir hlýtur einstökum landeigendum í Ytri-Njarðvík og síðar aðaláfrýjanda að hafa verið fullljóst að rétti til efnistöku var frá upphafi stýrt miðað við landamerki, sem aðrir eigendur fjallsins gengu út frá í samræmi við niðurstöðu Zóphóníasar. Engu að síður sáu þeir ekki ástæðu til að aðhafast fyrr en 1972 þegar sá fundur var haldinn, sem áður var getið, þar sem gagnstæðum sjónarmiðum var lýst. Enn leið langur tími þar til aðaláfrýjandi hreyfði málinu næst við gagnáfrýjandann íslenska ríkið á árinu 2000 og höfðaði loks málið 2005. Var landeigendum og síðar aðaláfrýjanda þó í lófa lagið að aðhafast fyrr og áður en kennileitum var spillt og hefur tómlæti þeirra þannig með öðru stuðlað að því að um aðstæður á Stapafelli áður en efnisvinnsla hófst er ekki við annað að styðjast en lýsingu Zóphóníasar Pálssonar.
Að virtu öllu því, sem að framan er rakið, og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður niðurstaða hans staðfest, þar á meðal um málskostnað. Aðaláfrýjandi verður dæmdur til að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar segir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Aðaláfrýjandi, Landeigendur Ytra-Njarðvíkurhverfis með Vatnsnesi sf., greiði gagnáfrýjandanum íslenska ríkinu 500.000 krónur og gagnáfrýjendunum Hermanni Kristjánssyni, Jörundi Kristjánssyni, Valgerði Ólafsdóttur, Gylfa A. Pálssyni, Maríu Ester Kjeld, Hönnu Kjeld, Kristbjörgu Kjeld, Matthíasi Kjeld, Benedikt Jónssyni, Guðrúnu Jónsdóttur og Margréti Agnesi Jónsdóttur og stefnda Landeigendafélagi Járngerðarstaða og Hópstorfu 40.000 krónur hverjum í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóm Reykjaness 16. mars 2006.
Mál þetta var þingfest 27. apríl 2005 og tekið til dóms 2. mars sl.
Aðalstefnandi er Landeigendafélag Ytra-Njarðvíkurhverfis með Vatnsnesi sf., Hólagötu 15, Njarðvík.
Í aðalsök eru stefndu Landeigendafélag Járngerðarstaða og Hópstorfu, Baugholti 1, Keflavík vegna Járngerðarstaða í Grindavík og Hóps I og III, Grindavík. Íslenska ríkinu er stefnt í aðalsök vegna Húsatófta í Grindavík og Hafna í Reykjanesbæ. Þá er Sólveigu Eggertsdóttur, Kleppsvegi 64, Reykjavík og Sigurlaugu Eggertsdóttur, Kópavogsbraut 1b, Kópavogi, stefnt vegna Innri-Njarðvíkur I og II í Reykjanesbæ. Hermanni Kristjánssyni, Illugagötu 46, Vestamannaeyjum, Jörundi Kristjánssyni, Hringbraut 136 í Keflavík og Valgerði Ólafsdóttur, Kóngsbakka 2, Reykjavík er stefnt í aðalsök vegna Stapakots vestra í Reykjanesbæ. Þá eru ennfremur stefndu í aðalsök Gylfi A. Pálsson, Tjarnargötu 10, Reykjanesbæ, María Esther Kjeld, Bjarkargötu 10, Reykjavík, Hanna Kjeld, Fagrabergi 20, Hafnarfirði, Kristbjörg Kjeld, Flókagötu 58, Reykjavík, Matthías Kjeld, Dalsbyggð 19, Garðabæ, Benedikt Jónsson, Baugholti 23, Reykjanesbæ, Guðrún Jónsdóttir, Skaftahlíð 30, Reykjavík og Margrét Agnes Jónsdóttir, Skerplugötu 2, Reykjavík, öll vegna Tjarnarkots í Reykjanesbæ.
Aðalstefndi, íslenska ríkið, hefur höfðað gagnsök gegn öllum ofangreindum.
Í aðalsök gerir aðalstefnandi þá kröfu að draga eigi landamörk hins sameiginlega lands Ytra-Njarðvíkurhverfis með Vatnsnesi á Stapafelli gagnvart aðliggjandi jörðum á þann hátt að þau skuli liggja frá línu, sem dregin er frá Vogshól (punktur A), hnit 327825, 387654 Ísnet 93 og þaðan upp í Stapafellsgjá (punktur B), hnit 327960, 384732 Ísnet 93 og síðan úr Stapafellsgjá í austur enda Stapafells (punktur C), hnit 327313, 383061 Ísnet 93 og þaðan í Stapafellshnjúk (punktur D), hnit 326846, 382987, sem er vestan megin við gjána, sem sker Stapafell og fari þaðan í beina línu í Kirkjuvogsklofninga (punktur E), hnit 325731, 386161 og þaðan í Þrívörður (punktur F) hnit 324672, 388298.
Aðalstefndi krefst þess að honum verði tildæmdur málskostnaður úr hendi þeirra aðalstefndu sem hafa uppi varnir í málinu samkvæmt mati dómsins. Ekki eru gerðar málskostnaðarkröfur á hendur þeim aðalstefndu sem samþykkja kröfugerð aðalstefnanda fyrir dómi eða með útivist.
Gagnstefnandi, íslenska ríkið, krefst sýknu í aðalsök en gerir þær dómkröfur í gagnsök að viðurkennt verði að landamerki jarða sem liggja að Stapafelli mætist á fjallinu með hniti 327114, 383160 Ísnet 93. Þá krefst gagnstefnandi málskostnaðar úr hendi aðalstefnanda.
Gagnstefndi, Landeigendafélag Y-Njarðvíkurhverfis með Vatnsnsesi sf., krefst sýknu af kröfu gagnstefnanda í gagnsök.
Aðalstefndi, Landeigendafélag Járngerðarstaða og Hópstorfu, gerir þær dómkröfur að hann verði sýknaður af öllum kröfum aðalstefnanda í aðalsök og að aðalstefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað. Í gagnsök fellst aðalstefndi, Landeigendafélag Járngerðarstaða og Hópstorfu, á dómkröfur gagnstefnanda.
Aðalstefndu Hermann Kristjánsson, Jörundur Kristjánsson og Valgerður Ólafsdóttir, vegna Stapakots vestra, svo og Gylfi A. Pálsson, María Ester Kjeld, Hanna Kjeld, Kristbjörg Kjeld, Matthías Kjeld, Benedikt Jónsson, Guðrún Jónsdóttir og Margrét Agnes Jónsdóttir vegna Tjarnarkots gera öll þær kröfur að þau verði alfarið sýknuð af kröfum aðalstefnanda í aðalsök. Þau fallast hins vegar á kröfur gagnstefnanda í gagnsök. Málskostnaðar er krafist af þeirra hálfu úr hendi aðalstefnanda.
Aðalstefndu Sólveig Eggertsdóttir og Sigurlaug Eggertsdóttir vegna Innri-Njarðvíkur I og II, Reykjanesbæ hafa ekki látið málið til sín taka þar sem útivist varð af þeirra hálfu við þingfestingu málsins.
Aðalsök og gagnsök voru sameinuð og málið rekið sem eitt mál.
I.
Frá því fyrir lögtöku landamerkjalaga árið1882 hefur Stapafell á Reykjanesi verið hornpunktur milli jarðanna sem að því liggja, Húsatófta, Hafna, Járngerðarstaða, Hóps, Ytri-Njarðvíkurtorfu og Innri Njarðvíkurtorfu. Í máli þessu er deilt um hvar á Stapafelli þessi hornpunktur sé staðsettur og eins hvort þeir séu einn eða tveir.
Efnistaka hófst í Stapafelli 1953 í tengslum við framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli og hefur efnistaka haldið áfram allt til þessa dags. Hefur fjallinu verið raskað það mikið að flest kennileiti eru horfin og fjallið lækkað um tugi metra. Af lýsingum og gamalli loftmynd sem tekin var 1947 má þó gera sér grein fyrir að gjá gekk í gegnum fjallið og skipti því í tvo helminga.
Í landamerkjalýsingum er ýmist talað um umræddan skurðpunkt sem hæsta hnjúk á austurenda Stapafells, Stapafellshnjúk, þúfu á Stapafelli, Stapafellsþúfu, þúfu á innri enda Stapafells eða vörðu á Stapafelli.
Af hálfu aðalstefnanda er því haldið fram að punktarnir séu tveir á sitthvorum hluta Stapafells eins og það leit út áður en efnistaka hófst. Er kröfugerð aðalstefnanda miðuð við það. Af hálfu stefndu og gagnstefnanda er því mótmælt og haldið fram að ofangreind örnefni og kennileiti séu í raun eini og sami staðurinn á Stapafelli.
II.
Í málinu hafa verið lögð fram landamerkjabréf og önnur heimildarskjöl. Verður efni þeirra nú rakið að því leyti sem hér skiptir máli.
Merki Hafnahrepps voru samkvæmt lýsingu Vilhjálms Hinriks Ívarssonar sem skráð var fyrir Örnefnastofnun 1977-1978: „Þaðan lágu mörkin suðvestur að suðri í Steindrang. Hann er nú horfinn, en það var grjótþúst, er stóð nálægt því sem er nú varnargirðingarhliðið, sem er næst suðvestan Ásenda, en þeir eru í Njarðvíkurhreppi. Frá Steindrang er línan í stóran, klofinn klapparhól, sem er nærri beinni stefnu í Stapafellsþúfu á Stapafelli. Ekki sér hennar merki lengur, því búið er að nema burtu fellið nær ofan til miðs og aka því til flugvallargerðar.... Úr Stapafellsþúfu liggja mörkin um miðjar Súlur, næsta fell fyrir sunnan, nokkuð hátt með þremur hnjúkum, ...“
Samkvæmt merkjalýsingu 4. september 1889 milli Kirkjuvogs og Grindavíkurhrepps skulu merki vera: „Frá veginum úr miðri „Haugsvörðugjá“ og þaðan beina stefnu í þúfuna, sem er á innri endanum í Stapafelli.
Í milli Kirkjuvogs og Njarðvíkur eru þessi landamerki: Frá áðurnefndri þúfu á innri enda Stapafells, þaðan beina stefnu í svonefndan Stóra-Klofning, úr Stóra-Klofning í Steindrang, úr Steindrang í Háaleitisþúfu.
Þann 5. febrúar 1954 var gert samkomulag um merki milli Húsatófta í Grindavík og Kirkjuvogshverfisjarða í Hafnarhreppi. Þau skulu vera lína: „úr Haugum á norðvesturbarmi Haugsvörðugjár beina stefnu á Stapfellsþúfu á norðausturenda Stapafells. ...“
Landamerkjabréf Húsatófta er frá 1. júní 1889 og lýsir merkjum m.a. á þennan veg: „ ... og svo sjónhending norður hraun í norðvestur-norður takmarkalínuna úr Sýrfelli og sunnan í Sandfell, Súlur og í Þúfu á Stapafelli, sem aðskilur Húsatóftaland frá löndnum Hafna og Njarðvíkna. Austnorðaustur landamerki milli Húsatófta og Járngerðarstaða frá sjó, og svo úr Bjarnagjá í Þúfu á Stapafelli.“
Landamerkjabréf Járngerðarstaða er frá 19. október 1823 og lýsir merkjum m.a. á þennan veg: „Að vestan ... frá Markhól við sjóinn beina stefnu í Stapafellsþúfu, þaðan í Arnarstein fyrir ofan Snorrastaðavatnsgjá, úr Arnarsteini í þúfuna á Skógafelli-litla, ...“
Landamerkjabréf Hóps er frá 8. júní 1889 og lýsir m.a. merkjum þannig:
„ ... þaðan sem sjónhending ræður á hæðsta hnúk [á] Stóra-Skógfelli, þaðan á hæsta hnjúk á Litla-Skógfelli, þar á móts við landamerki jarðarinnar Járngerðarstaða. Þar eð óglöggt hefur verið að ákveða glögg heiðarlandamerki milli jarða þessara, þá hefur eigandi jarðarinnar Járngerðarstaða, ... samþykkt að jörðin Hóp skyldi bera hér eftir óátalið 1/5 af öllu heiðarlandi þessara jarða, sem er rétt hlutfall samanborið við „forngildu“ beggja jarðanna.“
Lýsing merkja Innra-Njarðvíkurhverfis og Voga frá 25. júní 1889:
„Úr miðri innri Skoru á Stapa, beina línu í Arnarklett svokallaðan, sem stendur í hrauninu fyrir ofan Vatnsgjá, úr Arnarkletti beina línu suður í vörðu, sem er á Stapafelli, úr Stapafelli í Stapafellsgjá, þaðan beina línu í Vogshól, úr Vogshól beina línu í vörðu, sem stendur á svonefndum Grænás ...“
Lýsing merkja milli Ytra- Njarðvíkuhverfis og Vatnsness er frá 20. september 1889:
„Landamerki á millum Ytra- og Innra Njarðvíkurhverfis eru úr miðju Merkiskeri, beint í Grænás, þaðan beint í Vogshól, þaðan upp í Stapafellsgjá og þaðan í hæsta hnjúk á austurenda Stapafells. Úr Stapafellshnjúk beina línu í Kirkjuvogsklofninga, þaðan í Þrívörður ...“
Önnur merkjalýsing var gerð 20. maí 1922 og er hún nákvæmlega eins.
Þann 18. október 2003 var rituð yfirlýsing um samkomulag milli stefnanda og eigenda Innri-Njarðvíkur og Tjarnarkots um eftirfarandi merki milli jarðanna:
„Að óskipt land jarðanna Innri-Njarðvíkur, Tjarnarkots og Stapakots liggi allt austan línu, sem dregin er úr Vogshól ( hnit: 327825, 387854 Ísnet 93), og þaðan í Stapafellsgjá (hnit: 327960, 384732 Ísnet 93) og þaðan í Hæstahnjúk á austurenda Stapafells (hnit: 327313, 383061 Ísnet 93).
Vestan þessarar línu liggur óskipt land Landeigenda Ytri-Njarðvíkurhverfis m/Vatnsnesi.“
Undir þessar yfirlýsingu var ritað af hálfu landeigenda Ytra-Njarðvíkurhverfis m/Vatnsnesi og ennfremur rituðu undir eigendur Innri-Njarðvíkur og Stapakots, en ekki eigendur Tjarnarkots.
III.
Lagðar hafa verið fram álitsgerðir nokkurra aðila sem komið hafa að málinu. Zóphónías Pálsson verkfræðingur fór á fjallið 1953. Segir meðal annars í greinargerð hans frá 26. júní 2000:
„Árið 1953 stóð til að ráðast í allmiklar framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli sem kröfðust mikils fyllingarefnis, og höfðu forráðamenn varnarmála fengið augastað á Stapafelli í því sjónarmiði. Á korti því sem herforingjaráðið danska hafði gert af þessu svæði árið 1908, er sýnt að þrír hreppar eigi land upp í fjallið og er skurðpunktur þeirra á vesturenda fjallsins. Hins vegar bentu landamerkjalýsingar þeirra fimm jarða sem land eiga í fjallið til þess að þessi punktur væri frekar á austurenda þess. Forráðamenn varnarmála báðu því mig að kanna þetta nánar. Ég var mér því úti um landamerkjalýsingar þeirra jarða sem um ræðir, þ.e. fyrir Ytri-Njarðvík, Innri-Njarðvík, Járngerðarstaði og Hóp, Húsatóftir og Hafnir, og hélt á vettvangskönnun ásamt aðstoðarmanni mínum, Friðjóni Júlíussyni. Enginn vegur var þá kominn, og engu var enn farið að raska á fjallinu. Þegar upp á fjallið var komið sýndi það sig, að þarna var nærri láréttur rennisléttur melur svo til gróðurlaus. Eina mishæðin sem sjáanleg var þarna uppi var stuttur klapparhryggur, eða það sem jarðfræðingar kalla „gang“. Var hann aðeins um meter á hæð, um hálfan meter á breidd, en nokkra metra á lengd. Nokkur sandur hafði safnast þarna að, og upp á klöppinni var allstór grasi vaksin þúfa. Enga vörðu né mishæð var hinsvegar að sjá á vesturenda fjallsins, þar sem kort dananna gerði ráð fyrir landamerkjaskurðpunktinum. Ég hafði hornamæli meðferðis, og mældi afstöðu til nokkurra kennileita, svo hægt væri að staðsetja þessa þúfu inn á kort, og eins væri hægt að mæla þennan stað út síðar, þó þúfan og klöppin sem hún stóð á væri horfin.
Ég fór nú að líta nánar á landamerkjalýsingarnar. Í lýsingu á landamerkjum Ytri-Njarðvíkur og Vatnsness frá 17. marts 1882 [Rétt 20. september 1889] segir svo: „Landamerki á milli Ytra- og Innra hverfis eru úr miðju Merkiskeri beint í Grænás þaðan beint í Vogshól, þaðan upp í Stapafellsgjá og þaðan í hæðsta hnjúk á austurenda Stapafells. Úr Stapafellshnjúk beina línu í Kirkjuvogsklofninga, þaðan í Þrívörður,“ o.s. frv. Þarna er beinlínis tekið fram að hornpunktur Ytri-Njarðvíkur á Stapafelli sé „hæðsti hnúkur á austurenda Stapafells.“ Síðan segir: „úr Stapafellshnjúk beina línu í Kirkjuvogsklofninga.“ Þetta benti eindregið til þess að hornpunktur Ytri-Njarðvíkurlands, væri þessi eini klapparhnúkur, sem var á austurenda fjallsins og að kort dananna sem sýndi þennan hornpunkt á vesturenda fjallsins, væri rangt.
Landamerkjalýsing Járngerðarstaða segir mörk jarðarinnar liggja frá „Markhól við sjó beina stefnu í Stapafellsþúfu, þaðan í Arnarstein fyrir ofan Snorrastaðavatnsgjá.“
Þarna er landamerkjapunktur jarðarinnar á Stapafelli skilgreindur sem „Stapafellsþúfa“, en eina þúfan á fjallinu var á austurenda þess. Landamerki Húsatófta í Stapafelli eru líka skilgreind við Stapafellsþúfu. Allt þetta benti til þess að landamerkjapunktur sá, þar sem framangreindar fimm jarðir mætast á Stapafelli, væri þessa eina þúfa sem var að finna á fjallinu. Þegar ég kom í bæinn sneri ég mér til fyrrverandi bónda úr Höfnum, sem sagður var fróður, en því miður man ég ekki lengur nafn hans. Spurði ég hann hvar landamerki Hafna væru á Stapafelli. Var hann ekki í neinum vafa um það, og lýsti nákvæmlega þúfunni á austurenda fjallsins. Þegar þetta allt lá fyrir, þóttist ég vera viss um hvar landamerkin lægju í fjallinu, og að kort dananna frá 1908 væri kolrangt hvað þetta snerti.“
Þann 2. ágúst 1972 er haldinn fundur hjá lögreglustjóranum á Keflavíkurflugvelli og voru þar mættir fulltrúar landeigenda úr syðri hreppum Gullbringusýslu. Tilefni fundarins var að Guðmundur Finnbogason frá Hvoli í Innri-Njarðvík hafði kært til lögreglustjóra að búið væri að raska gömlum landamerkjapunkti á Stapafelli. Á þessum fundi lagði Guðmundur fram greinargerð um Stapafellsþúfu þar sem segir meðal annars:
„Stapafell, eins og það var og hét frá náttúrunnar hendi, var að rótinni til og upp fyrir miðjar hlíðar samstætt fell, en að ofan tvískipt, að vestanverðu mikið hærra, næstum alveg gróðurlaust upp hlíðarnar, sandmelur og grjótskriður, mjókkandi upp og þar efst nokkuð hár klettadrangur. Að austanverðu þar frá kom dalur, Stapafellsdalur, er lá, sem næst frá norðri til suðurs á milli fellhnúkanna. Stapafellsdalurinn var að mestu gróinn lyngmóum með smá meldrögum og mosaflákum í og með. Eystri fellshnúkurinn var mun mikið lægri en sá vestari. Hann var frá rótum að norðan og austan og nær alla leið upp vaxinn grasgróðri og lyngbörðum, mosatrefjum með moldar og leirskriðum í milli. Þar uppi var svipaður gróður á breiðu svæði. Upp á þessum eystri hnúk Stapafells var Stapafellsþúfan staðsett og var það á austurbrúninni, aðeins norðan til við miðja austur hlíðina á fellinu. Þúfan var grasi- og lyngigróinn hóll, upp á honum miðjum var hlaðin grjótvarða, sem var fyrir röskum þrjátíu árum ca. 3-4 fet á hæð, þá fallin að nokkru að ofan. Það mun hafa verið 1925, eða fyrir 47 árum, að ég kom fyrst upp á Stapafellsþúfu. Það var í vorsmalamennsku með fjáreigendum úr I-Njarðvíkurhverfi. Þeir, sem þá komu með mér þar upp, voru þeir, Andrés Grímsson í Ólafsvelli, Kristinn Jónsson í Akri og Finnbogi Guðmundsson, faðir minn, í Tjarnarkoti. Við vorum góða stund í fögru veðri þar uppi, og er mér það enn í fersku minni, er þeir félagar sýndu mér og sögðu um staði og örnefni er þaðan sáust.
Andrés, sem var þeirra lang elztur og mjög vel kunnugur öllum landamerkjum og örnefnum, sýni mér landamerkjalínu Grindvíkinga og Njarðvíkinga, er hann sagði, að lægju frá Stapafellsþúfu, þar sem við sátum og beina línu í Arnarklett, en Arnarklettur er skammt upp í suðaustur frá Snorrastaðatjörnum, er liggja skammt ofan til við Háabjalla í landi Vogamanna.
Þetta var í fyrsta skipti, sem ég kom þar upp, en seinna kom ég oft upp á Stapafellsþúfu meðan hún var allt fram fyrir 1940.
Andrés í Ólafsvelli var fæddur í I-Njarðvíkurhverfi. Hann hafði sína vissu um Stapafellsþúfu frá þeim mönnum, er hann smalaði með sem unglingur. Voru þeir sumir hverjir fæddir um og fyrir 1820 og uppaldir þar í hverfi. Höfðu þeir sína vitneskju frá sínum næstu á undan o.s.fr. Eins og var um Magnús Magnússon, bónda í Hólmfastskoti. Hann ólst upp með Andrési í I-Njarðvík og var nokkrum árum eldri en hann.
Ég kom með Magnúsi upp á Stapafellsþúfuna. Hann var ekki í neinum vafa, fremur en aðrir, um tilveru hennar á þessum stað.
Fyrir nokkrum árum fékk ég fregnir um, að til væri landamerkjakort, er sýndi landamæri Grindavíkur, Hafna og Njarðvíkur. Á þeim uppdrætti var Stapafellsþúfan uppteiknuð, sem landamerkjapunktur. Ég hafði grun um að þetta landamerkjakort sýndi ekki hinn rétta stað Stapafellsþúfunnar. Ég var einnig þess áskynja, að merkingar á landi höfðu verið framkvæmdar samkvæmt þessu korti. Þar mátti sjá áberandi frávik frá þeirri línu, er lá úr Stapafellsþúfu í Arnarklett.
Því gerði ég það til enn frekari staðfestingar á því, sem hér hefur verið sagt að fara á fund nokkurra manna úr Höfnum og af Miðnesi, er smöluðu kringum Stapafell, sumir vor og haust í marga áratugi, og bað þá um að segja mér, hvar Stapafellsþúfan hafi verið. Þeir voru allir á einu máli um þann sama stað, er hér hefur verið frá sagt, og sögðust þeir vera tilbúnir, hvenær sem er að undirskrifa það.“
Gagnstefnandi fékk Gunnar F. Guðmundsson sagnfræðing til þess að gefa álit sitt og segir meðal annars í álitsgerð hans:
„Að athuguðu máli sýnist mér skynsamlegast að álykta að landamerkjabréf Ytri-Njarðvíkurhverfis og Vatnsness (undirritað 20. sept. 1889 og þinglesið 16. júní 1890) sé að formi til í samræmi við aðrar hliðstæðar heimildir og víki ekki frá þeirri meginreglu í landamerkjalýsingum að einn punktur taki við af öðrum jafnvel þótt lítils háttar ósamræmi í orðalagi geti vakið grunsemdir um annað. Enn fremur hefur mátt búast við að Stapafellshnjúkur væri staðsettur með líkum hætti og hæsti hnjúkurinn á austurenda Stapafells ef um tvö kennileiti væri að ræða (t.d.: „Stapafellshnjúk á vesturenda Stapafells beina línu í Kirkjuvogsklofninga...“) Þetta hefði verið þeim mun nauðsynlegra ef Stapafellshnjúkur var lítt þekkt örnefni fyrr á tímum eins og álykta má af því að það kemur ekki fyrir í örnefnaskrá Ara Gíslasonar.“
Sigurgeir Skúlason landfræðingur setti landamerki inn á kort það sem aðalstefnandi byggir kröfur sínar á. Í ódagsettri greinargerð hans og Kristmundar B. Hannessonar segir meðal annars:
„Í landamerkjabréfi Innra Njarðvíkurhverfis og Ytri Njarðvíkurhverfis m/Vatnsnesi frá 20. september 1889, nr. 178 segir: „þaðan beint í Vogshól, þaðan upp í Stapafellsgjá og þaðan í hæðsta hnjúk á austurenda Stapafells“. Það er rétt að þessi lýsing er mjög skýr. Fellið liggur suðvestur-norðaustur og má segja að á því séu fjögur horn sem liggja í höfuðáttirnar.
Stapafellsgjá gengur í gegnum fellið til suðvesturs og klýfur það. Á því horni sem skagar í austur „austan gjár“ hlýtur sá punktur að vera sem er á austurenda Stapafells en ekki á norður horni þess eins og Zóphónías telur vera.
Í landamerkjabréfi dags. 20. maí 1922, nr. 61 fyrir sömu jarðir, er sama lýsing endurtekin og undirrituð af öllum eigendum Ytri-Njarðvíkurhverfis m/Vatnsnesi, Innri-Njarðvíkurhverfis, Kirkjuvogstorfunnar í Höfnum og fyrir Keflavíkurlandareignina. Það er ólíklegt að allir þessir menn hafi ruglast á höfuðáttunum og líka þeir sem á undan þeim fóru.
Þó menn hafi ekki verið með áttaviðmiðanir alveg nákvæmar eins og Gunnar F. Guðmundsson telur þá getur ekki verið vafi á því þarna hvað var austurendi fellsins þegar komið er upp á Stapafellsgjána. Eins getur annað vart staðist en að menn hafi gengið á merkin og lýst þeim samkvæmt því enda lágu þarna leiðir milli byggðarlaga svo ekki hefur það átt að valda erfiðleikum að ganga á merkin þarna.
Þegar gengið er á merkin og komið er upp í Stapafellsgjá, sem ekki er ágreiningur um hvar er, og horft er á Stapafell þaðan er ekki hægt að villast á því hvað er austurendi fellsins. Þaðan er horft á endann á fellinu og þaðan séð er punktur Zóphóníasar, sem er vestan gjárinnar sem klýfur fellið, á vestari hluta Stapafells en ekki austari og eru frekar líkur á að menn sem gerðu landamerkjalýsinguna hefðu talið þann stað sem Zóphónías velur sem landamerkjapunkt, vera á vestri hluta fellsins en ekki á austari enda þess. ...
Ekki virðist vera vafi á punktinum á austurenda Stapafells og að hann er á austurendanum en ekki norðurendanum eins og Zóphónías setti hann inn. Danir settur hreppamarkalínuna öðruvísi niður en hún er talin vera í dag. Þeir hefðu ekki sett línuna svona niður án þesss að hafa góðar heimildir fyrir því enda kom Bjarni Sæmundsson, fiskifræðingur þar mjög við sögu og hlýtur hann að teljast góð heimild. Miðað við hreppamarkalínu Dana í gegnum Stapafell styður línan það að í fellinu séu tveir landamerkjapunktar fyrir Ytri Njarðvíkur, annar á austurenda Stapafells og hinn á hæsta hnúk fellsins en hreppamarkalínan kemur á austurenda fellsins og beit í hæsta hnúk fellsins og þaðan áfram í Kirkjuvogsklofninga. ...
Sigurgeir tók GPS staðsetningarpunkta á Kirkjuvogsklofningum og færði þá inn á gamla loftmynd af svæðinu (sjá mynd) þá kom í ljós að ef tekin var bein lína í gegnum klofningana og framlengd í Stapafell kom hún í fellið þar sem það er hæst (113 m) og í hreppamarkalínu Dana.
Þetta bendir allt til þess að punktarnir í landamörkum Ytri-Njarðvíkur í Stapafelli séu tveir.“
Í greinargerð Zóphóníusar Pálssonar 26. september 2002 segir meðal annars: „Það hefur valdið nokkrum heilabrotum af hverju merkjalýsing Ytri-Njarðvíkur segir að merkjapunktur þeirrar jarðar á fjallinu sé skilgreindur sem, „hæsti hnjúkur á austurenda Stapafells“. Skýringin virðist vera sú, að eftir fjallinu næstum því miðju, gengur dæld, eða dalur, frá suðvestri til norðausturs. Norðvestari hluti fjallsins er þó nokkuð meiri um sig en sá suðeystri, en einkum er norðvestri hluti fjallsins töluvert hærri en sá suðeystri, og samkvæmt amerískum kortum, sem voru gerð áður en farið var að taka efni ofan af fjallinu, sýnir norðvestari hlutann ná upp allt að 121 m hæð, meðan suðeystri hlutinn náði aðeins um 80 m hæð.
Frá norð norðvestri séð skyggir norðvestri hluti fjallsins á þann suðeystri, svo hann sést tæplega úr þeirri átt (t.d. frá Klofningi). Einhverjum Njarðvíkingnum sem leit á fjallið úr þeirri átt, hefur því sýnst, 1813, að hæsti hnjúkurinn á fjallinu væri á austurenda þess, þar sem það leit þannig út frá honum séð, og sá hefur fært það í letur, sem síðan hefur haldist.
Nú var Stapinn eða berggangurinn, sem fjallið er sennilega kennt við, mjög nálægt hæðsta hnjúknum, og þúfan, sú eina sem sjáanleg var uppi í fjallinu í mars 1953, og varðan á Stapafelli sem nefnd er í sumum landamerkjalýsingunum, hlýtur að vera þessi eini bergstapi sem þar var að finna, því vörðu eða vörðubrot, var hvergi að sjá árið 1953. Þar sem bergstapinn, og hrafnaþúfan á honum gaf mun skýrari afmörkun en hæðsti hnjúkurinn, eða Stapafellshnjúkur, þótti mér sjálfsagt 1953 að miða við bergstapann og þúfuna, enda staðfesti einn ágætur bóndi úr Höfnum, að Stapafellsþúfan væri af öllum Hafnabændum talin sú viðurkennda landamerkjavarða á fjallinu. Það kemur einnig greinilega fram á bréfi, sem Njarðvíkingurinn Guðmundur A. Finnbogason ritaði sýslumanninum á Keflavíkurflugvelli, 31. júlí 1972. Hann segir: „Stapafellsþúfan var og er mikilvægur landamerkjapunktur á landamærum Grindavíkur, Hafna og Njarðvíkur landareigna.“ Lýsir Guðmundur Stapafelli og Stapafellsþúfu, sem hann segir hafa verið vel þekkta meðal bænda í Njarðvík. Tilefni bréfs Guðmundar var hinsvegar, að kæra að búið væri að fjarlægja Stapafellsþúfuna, og lækka fjallið heilmikið, en síðan hafði verið settur stöpull, með stöng og fána. Taldi Guðmundur merki þetta sett af handahófi og krafðist þess að það yrði fært á sinn rétta stað, þar sem Stapafellsþúfan stóð.
Sýslumaður (lögreglustjórinn), á Keflavíkurflugvelli boðaði af þessu tilefni eftirtalda á sinn fund 3. ágúst 1972. ...
Eftir að lögreglustjórinn hafði tekið skýrslur eins og hann þurfa þótti, hélt hópur þessi í vettvangsgöngu upp á Stapafell. Kom þá í ljós að Guðmundur Finnbogason hafði rétt fyrir sér. Búið var að ýta það miklu efni ofan af fjallinu, að bæði bergstapinn og þúfan var horfið. Hér hafði efnistökumönnum orðið á slæm mistök, því engin hafði heimild til að fjarlægja þetta landamerki. Sem betur fór hafði ég verið það forsjáll þegar að ég gekk á fjallið árið 1953, að ég hafði þá gert baksburðarmælingu frá vörðunni til nokkurra þekktra kennileita, svo unnt væri að endurstaðsetja hana síðan ef svo illa tækist til að henni væri spillt. Lét ég Guðmundi Björnssyni, mælingarverkfræðingi í té niðurstöðu þessara mælinga og út frá þeim, gat hann með mælingartæki sínu fundið þann stað sem þúfan hafði staðið á. Var verkstjóra og ýtumönnum uppálagt að steypa þarna vandaðan landamerkjastöpul, og sjá til þess að hann fengi að standa óáreittur framvegis. Virtust fyrrnefndir fundarmenn vera ásáttir með þessi málalok, allir nema Guðmundur Finnbogason, en ekki gat hann bent á neinn annan stað, enda var búið að gera mikið jarðrask þarna uppi á fjallinu, og allt öðru vísi umhorfs þar en áður. Lýsing Guðmundar Finnbogasonar í bréfinu til lögreglustjórans á Keflavíkurflugvelli, er býsna rétt varðandi Stapafell og Stapafellsþúfuna, nema hann ruglaðist í ríminu þegar hann telur hana hafa verið uppi á austari hnjúk Stapafells og á austurbrúninni, en þetta hefur hann sennilega úr landamerkjalýsingu Ytri-Njarðvíkur. Ekki er vitað til þess að síðan hafi verið hróflað við þessum steypta stöpli.
Leiða má hugann að því, að hverjir sem upphaflega ákváðu að þessar landareignir skyldu eiga land í fjallið Stapafell, hafa að sjálfsögðu valið þann punkt í fjallinu sem sést vel úr öllum áttum og getur verið óumdeilanlegur, þ.e. hæðsta hnjúkinn á fjallinu og þegar svo vel vill til að rétt við hæðsta hnjúkinn er bergstapi, sá eini sem sker sig úr uppi á fjallinu er eðlilegt að nota hann og hrafnaþúfu þá sem uppi á honum er til skilgreiningar. Hinsvegar er illskiljanlegt hvernig Danirnir fundu upp á því að sýna þennan markapunkt á vesturenda fjallsins, miðað við allar þær landamerkjalýsingar sem fyrir lágu.“
IV.
Aðalstefnandi byggir á landamerkjabréfum Innri-Njarðvíkurhverfis og Ytri-Njarðvíkurhverfis með Vatnsnesi sem beri saman mörkin milli jarðanna frá Vogshól, þaðan upp í Stapafellsgjá og þaðan í hæsta hnjúkinn á austurenda Stapafells. Þessi lýsing sé talin mjög skýr þar sem fellið liggi suðvestur-norðaustur og megi því segja að á því séu fjögur horn sem liggi í höfuðáttirnar. Stapafellsgjá gangi í gegnum fellið til suðvesturs og kljúfi það. Á því horni sem skagi í austur hljóti sá punktur að vera sem sé á austurenda Stapafells en ekki á norðurhorni þess eins og sumir hafi talið. Landamerkjabréf frá 20. maí 1922 fyrir sömu jarðir séu á sömu lund og sama lýsing endurtekin og undirrituð af öllum eigendum Ytri-Njarðvíkurhverfis m/Vatnsnesi, Innri-Njarðvíkurhverfis, Kirkjuvogstorfum í Höfnum og eigendur Keflavíkurlandareigna. Telur aðalstefnandi að þessir eigendur hafi haft höfuðáttirnar á hreinu.
Þegar gengið sé á merkin og komið upp í Stapafellsgjá, sem ekki sé ágreiningur um hvar sé, og horft á Stapafell þaðan, sé ekki unnt að villast á því hvað sé austurendi fellsins. Þaðan sé horft á endann á fellinu og þaðan séð sé merkjapunktur, sem Zóphónías Pálsson hafi teiknað á uppdrátt, á vestari hluta Stapafells en ekki þeim austari.
Í landamerkjabréfi Voga og Innri-Njarðvíkurhverfis segi svo: „Beina línu suður í vörðu sem er á Stapafelli, úr Stapafelli í Stapafellsgjá.“ Þessi lýsing styðji það að punkturinn sé á austurenda Stapafells því ef punkturinn væri á norðurendanum þyrfti landamerkjalínan fyrst að fara yfir Stapafellsgjána til að komast í þann punkt og síðan til baka í gjána sem sé mjög óeðlileg tilhögun.
Í landamerkjabréfi Húsatófta í Grindavík sé fyrst lýst landamörkum milli Húsatófta að vestan og Hafna þar til komið sé í Stapafell. Þá sé talað um þúfu sem aðskilji land Húsatófta frá löndum Hafna og Njarðvíkna. Síðan sé lýst mörkum milli Húsatófta að austan og Járngerðarstaða frá sjó og í þúfu frá Stapafelli. Ef þetta væri saman þúfan sé undarlegt að í fyrri hluta lýsingarinnar sé sagt að hún aðskilji lönd Húsatófta, Hafna og Njarðvíka en ekki sé talað um Járngerðarstaði. Í seinni lýsingunni sé svo aðeins talað um Húsatóftir og Járngerðarstaði. Þetta bendi sterklega til þess að um tvo staði séð að ræða á Stapafelli.
Í örnefnaskrá yfir Kirkjuvog í Höfnum, sem Ari Gíslason hafi skráð eftir Gunnlaugi Jósefssyni, Guðmundi Samúelssyni, Þorsteini Bjarnasyni og Hinriki Ívarssyni, hafi hann eftir þeim að Stapafellið sé að mjög litlu leyti í landi Hafna.
Hreppamarkalína Dana í gegnum Stapafell styðji það að í fellinu séu tveir landamerkjapunktar fyrir Ytri-Njarðvíkur.
V.
Gagnastefnandi byggir á því að kennileitin Stapafellsþúfa, Stapafellshnjúkur, varða á Stapafelli og austurendi Stapafells sé í raun einn og sami punkturinn sem myndi hornmörk jarða aðila þessa máls. Hnitpunktar þeir sem í dómkröfum gagnstefnanda greini séu fundnir með aðstoð Landforms ehf. og Verkfræðistofu Suðurlands ehf. en hæðarlínum Stapafells úr kortum frá 1908, 1947, 1980 og 1989 hafi verið varpað með stafrænum hætti á loftmynd frá Loftmyndum ehf. Kortin hafi verið fengin frá Landmælingum Íslands en þau séu unnin úr eldri loftmyndum. Þessi vinna hafi óumdeilanlega leitt í ljós hvar hæðsti punktur Stapafells hafi verið áður en jarðrask á fjallinu hafi hafist.
Gagnstefnandi telur málsástæður og rök aðalstefnanda í andstöðu við fyrirliggjandi landamerkjalýsingar og landfræðilegar staðreyndir. Í því sambandi bendir gagnstefnandi á að hvergi í öllum þeim landamerkjabréfum sem liggi frammi í málinu sé lýsing á þeirri línu sem eigi að vera á milli þessara tveggja meintu punkta á Stapafelli. Slíkt dragi mjög úr staðhæfingum aðalstefnanda þar sem það tíðkist ekki við lýsingu landamerkja að enda lýsingu á einum punkti og halda síðan áfram á þeim næsta án þess að gerð sé grein fyrir því hvernig landamerkin liggi milli þessara punkta. Ef um tvo punkta hefði verið að ræða á Stapafelli hefði lýsingin hljóðað um landamerki „úr hæsta hnjúk á austurenda Stapafells, í Stapafellshnjúk á vesturenda Stapafells.“ Slík lýsing sé hins vegar ekki í hinum skýru landamerkjabréfum sem liggi frammi í málinu. Ályktun aðalstefnanda í stefnu sé jafnframt í ósamræmi við öll önnur landamerkjabréf aðliggjandi jarða. Hvergi í þeim landamerkjabréfum sé að finna lýsingu þess efnis að um tvo sjálfstæða punkta á Stapafelli sé að ræða. Þvert á móti gefi öll landamerkjabréfin eindregið til kynna að punkturinn sé aðeins einn.
Þessi skilningur á framlögðum landamerkjabréfum komi heim og saman við lýsingu Zóphóníasar Pálssonar á aðstæðum á Stapafelli árið 1953. Eina kennileitið sem tækt sé til nota sem hornpunkt landamerkja sé þúfan sem staðsett hafi verið á efsta hnjúk fjallsins sem Zóphónías hafi lýst. Þessi þúfa sé jafnframt eini punkturinn á fjallinu sem sést hafi úr öllum áttum. Gagnstefnandi styðji kröfu sína við þennan punkt.
Þá telur gagnstefnandi að ekki sé hægt að túlka „hæsta hnjúk á austurenda Stapafells“ og „Stapafellshnjúk “ sem tvö aðskilin kennileiti. Yfirgnæfandi líkur séu fyrir því að átt sé við sama kennileitið. Almenn málvitund hnígi og til sömu niðurstöðu.
Gagnstefnandi bendir á að í landamerkjalögum frá 17. mars 1882 hafi verið lögð skylda á landeigendur að halda við og skrásetja landamerki jarða sinna. Samkvæmt 3. gr. laganna hafi landeigendi átt að sýna hverjum þeim, sem land áttu til móts við hann, lýsinguna og fá samþykki þeirra fyrir henni. Þessa merkjalýsingu hafi átt að afhenda sýslumanni til þinglesturs á manntalsþingi. Áður en slíkt var gert hafi þó verið lögð sú skylda á sýslumann að grennslast eftir hvort landeigandi hafi ekki uppfyllt skyldur sínar. Samkvæmt þessu telur gagnstefnandi ljóst að landamerki jarða sem liggja að Ytra-Njarðvíkurhverfi með Vatnsnesi, sem öll lýsi einum punkti á Stapafelli, hafi öll verið samþykkt af fyrrum eigendum Ytri-Njarðvíkurhverfis með Vatnsnesi. Fyrri rétthafar landsins hafi því viðurkennt landamerki Hafna og Húsatófta miðað við að hornpunkturinn sé aðeins einn á Stapafelli. Aðalstefnandi geti ekki öðlast ríkari rétt en fyrri eigendur hvað þetta varðar. Í þessu sambandi bendir gagnstefnandi ennfremur á að Franz Siemsen, sýslumaður í Gullbringu- og Kjósasýslu frá 1886 til 1899, hafi unnið meiri hluta þeirra landamerkjabréfa sem liggi frammi í málinu. Það auki verulega sönnunargildi og trúverðugleika bréfanna varðandi fullyrðingar gagnstefnanda.
Gagnstefnandi telur varhugavert hjá aðalstefnanda að byggja mál sitt nær eingöngu á landakorti Herforingjaráðs Dana frá 1908. Fræðimenn hafi gagnrýnt kort Dananna fyrir óvandaða meðferð á örnefnum Íslands sökum tungumálaörðugleika. Kortin hafi ennfremur verið gerð í öðrum tilgangi. Ástæða þess að Danirnir minnist á vesturenda Stapafells sé fyrst og fremst sú að þeir töldu þar hæsta punkt fjallsins vera, 113 metrar, en ekki vegna þess að þar hafi verið hreppamarkapunktur.
Gagnstefnandi heldur því fram að landamerkjapunktur aðalstefnanda, merktur C, sé ekki og hafi aldrei verið hæsti hnjúkur á austurenda Stapafells. Eins og framlögð dómskjöl sýni sé þessi punktur í 75 til 80 metra hæð en þar hafi ekki jarðrask átt sér stað ennþá. Þegar horft sé til Stapafells frá Ytri-Njarðvík sé útilokað að punktur C hafi sést vegna þess að hann hafi þá verið í hvarfi við hæsta punkt Stapafells sem hafi verið 111 metra hár. Punktur í dómkröfum gagnstefnanda sé því hinn eini mögulegi hæsti hnjúkur á austurenda Stapafells.
Gagnstefnandi byggir kröfur sínar einnig á tómlæti. Í því sambandi bendir gagnstefnandi á að árið 1972 hafi einn landeiganda í Ytri-Njarðvíkurhverfi, Guðmundur A. Finnbogason, kært það að búið hafi verið að fjarlægja Stapafellsþúfuna. Skýrslur hafi verið teknar og gengið á vettvang í framhaldi af því. Þar sem þúfan sjálf hafi verið fjarlægð hafi verið lagt fyrir framkvæmdaraðila að reisa landamerkjastöpul á þeim stað er Zóphónías Pálsson hafi mælt út Stapafellsþúfuna árið 1953. Engir frekari eftirmálar hafi orðið vegna kærunnar en ekki sé vitað til þess að þessi stöpull hafi verið reistur. Dómkröfur gagnstefnanda miðist hins vegar við að landamerki jarða sem liggja að Stapafelli mætist á þeim stað sem reisa átti stöpulinn. Aðalstefnandi hafi átt að hefjast handa við málshöfðun árið 1972 og sé hann því búinn að fyrirgera rétti sínum til að hafa uppi kröfur í málinu vegna tómlætis síns.
Gagnstefnandi byggir kröfu sína einnig á 2. gr. laga nr. 46/1905 um hefð. Gagnstefnandi hafi eignast jörðina Hafnir árið 1948 og jörðina Húsatóftir árið 1955. Skilyrði hefðarlaga séu því augljóstlega uppfyllt. Við kaup beggja jarðanna hafi aðilar verið í góðri trú um landamerki jarðanna og hafi gagnstefnandi frá þeim tíma ráðstafað og hagnýtt sér hið umdeilda landsvæði undir efnisnámur án athugasemda og mótmæla gagnstefnda. Því sé ljóst að gagnstefnandi hafi unnið eignarrétt fyrir hefð á landsvæði því sem liggi milli kröfulínu aðalstefnanda og kröfulínu gagnstefnanda.
VI.
Frá því fyrir lögtöku landamerkjalaga 1882 hefur Stapafell á Reykjanesi verið hornpunktur jarðanna sem að því liggja. Að sunnan og austan Húsatóftir, Hóp og Járngerðarstaðir, að vestan Hafnir en að norðan lönd Ytri-Njarðvíkurtorfu og Innri-Njarðvíkurtorfu.
Í málinu er deilt um hvar á Stapafelli umrætt hornmerki sé og eins hvort þau séu eitt eða fleiri. Af hálfu aðalstefnanda er því haldið fram að merkin séu tvö en aðrir aðilar málsins telja að landamerki mætist í einum skurðpunkti á Stapafelli.
Efnistaka hófst úr Stapafelli 1953 og hefur haldið áfram æ síðan. Flest kennileiti eru nú horfin af fellinu og það hefur verið lækkað um tugi metra. Tvær lýsingar eru af fellinu eins og það var áður en byrjað var að raska því og er þeirra getið hér að framan. Þá hefur verið lögð fram í málinu loftmynd af fellinu sem tekin var 1947. Gjá, sem getið er um í lýsingu og sést á loftmyndinni, skiptir fellinu í tvo hluta. Gjáin sést varla lengur því svo mjög eru allar aðstæður breyttar frá því sem áður var.
Landamerkjalýsingar eru raktar hér að framan. Í þeim er hornmerki á Stapafelli ýmist tilgreind sem þúfa á Stapafelli, Stapafellsþúfan, hæsti hnjúkur á austurenda Stapafells, Stapafellshnjúkur eða varða á Stapafelli.
1. Aðilar deila um hvort hornmerkið sé eitt eða tvö á Stapafelli. Landamerkjabréf Ytri-Njarðvíkurhverfis og Vatnsness frá 20. september 1889 var samið á grundvelli landamerkjalaga frá 1882. Það var samþykkt af þeim er hlut áttu að máli og síðan þinglýst eins og skylt var. Landamerkjabréfið styðst við eldri landamerkjalýsingu frá 30. október 1813 og nánast sama lýsing færð inn í landamerkjabók 20. maí 1922. Í landamerkjabréfinu frá 20. september 1889 segir að landamerki á milli ytra og innra hverfis séu „ ... úr miðju Merkiskeri, beint í Grænás, þaðan beint í Vogshól, þaðan upp í Stapafellsgjá og þaðan í hæsta hnjúk á austurenda Stapafells. 2. Úr Stapafellshnjúk beina línu í Kirkjuvogsklofninga.“
Dómurinn telur að þetta landamerkjabréf, en aðalstefnandi byggir málatilbúnað sinn á því, sé að formi til í samræmi við aðrar hliðstæðar heimildir og víki ekki frá þeirri meginreglu í landamerkjalýsingu að einn punktur taki við af öðrum. Hvergi er lýsing á þeirri línu sem aðalstefnandi telur vera milli merkis á hæsta hnjúk á austurenda Stapafells í Stapafellshnjúk vestan við gjá. Hvergi í öðrum landamerkjalýsingum, sem lagðar hafa verið fram í málinu, er að finna lýsingu á því að merkin séu tvö á Stapafelli. Þvert á móti geta landamerkjabréfin aðeins um eitt merki. Herforingjaráðskortið frá 1908 hefur ekki sama gildi um landamerki milli jarða eða hreppa enda gert í öðrum tilgangi. Sama á við um örnefnaskrá sem getur aðeins verið heimild til hliðsjónar.
Þessi niðurstaða fær einnig nokkra stoð í lýsingu Zóphóníusar Pálssonar sem gekk á Stapafell 1953. Lýsti hann fjallinu sem nærri láréttum rennisléttum mel er upp var komið. Eina mishæðin sem sjáanleg var þarna uppi var stuttur klapparhryggur með þúfu á. Kemur fram í lýsingu Zóphóníusar að hann hafi enga vörðu eða mishæð séð á vesturenda fjallsins þar sem kort Dananna geri ráð fyrir landamerkjaskurðpunktinum.
Dómurinn telur því ekki unnt að túlka „hæst hnjúk á austurenda Stapafells“ og „Stapafellshnjúk “ sem tvö aðskilin kennileiti. Verður talið að hornpunkturinn sé aðeins einn enda hnígur almenn málvitund einnig til þeirrar niðurstöðu.
2. Deilt er um hvar þessi punktur sé á fjallinu. Stapafell var upp fyrir miðjar hlíðar samstætt fell en að ofan tvískipt. Dalur eða gjá lá í gegn milli fellhnjúkanna. Vesturhluti fellsins var mun hærri en sá austari. Samkvæmt amerískum kortum sem voru gerð áður en farið var að taka ofan af fjallinu náði norðvestari hlutinn allt að 121 metra hæð meðan suðeystri hlutinn náði aðeins um 80 metra hæð. Eins og áður sagði gekk Zóphónías Pálsson á fjallið 1953 og lýsti klapparhrygg með þúfu á en þessi berggangur hafi verið mjög nálægt hæsta hnjúk Stapafells og hafi hann sést úr öllum áttum. Í lýsingu Zóphóníusar segir að þetta hafi verið eina kennileitið á Stapafelli og skorið sig úr uppi á fellinu.
Það er því skoðun dómsins að eins og málið liggur fyrir beri að ákvarða mörkin í sem bestu samræmi við málsgögn í heild. Þegar gögnin eru virt þykir eðlilegast að miða við að skurðpunkturinn sé aðeins einn og hann sé þar sem Stapafell var hæst, á Stapafellshnjúk. Verður talið að þar mætist landamerki þeirra jarða sem lönd eiga að Stapafelli.
Kröfugerð gagnstefnanda miðast við hnitpunkt sem fundin var með aðstoð Landforms ehf. og Verkfræðistofu Suðurlands ehf. en hæðarlínum Stapafells úr kortum frá 1908, 1947, 1980 og 1989 var varpað með stafrænum hætti á loftmynd frá Loftmyndum ehf. Kortin voru fengin frá Landmælingum Íslands en þau eru unnin meðal annars úr eldri loftmyndum. Verður fallist á með gagnstefnanda að þannig hafi verið fundinn hæsti punktur Stapafells eins og hann var áður en jarðrask hófst á fjallinu.
3. Deilt er um hvort markalínan liggi í Stapafellsgjá eða beint úr Vogshól í Stapafellshnjúk. Krafa aðalstefnanda lítur að því að draga eigi línuna frá Vogshóli í nyrðri enda Stapafellsgjár og þaðan í Stapafell. Aðrir aðilar málsins, sem sett hafa fram kröfur, telja að miða eigi við beina línu frá Vogshól í Stapafell. Aðalstefndu, eigendur Tjarnarkots og Stapakots, hafa sérstaklega mótmælt þessum kröfum aðalstefnanda enda varðar þessi krafa eingöngu hagsmuni þeirra, þ.e. mörkin milli Ytri og Innri Njarðvíkur.
Þegar bændur á Reykjanesi fóru að eignast ábýlisjarðir sínar sjálfir og fengu þeim afsalað frá konungi og Skálholtsstól tóku þeir að huga að landamerkjum meira en áður hafði verið og gangast fyrir því að skjalfesta þau. Landamerki Njarðvíkurjarðanna voru skjalfest 1813 en þann 30. október það ár komu bændur í Njarðvík og Kirkjuvogi saman fyrir sáttanefnd og gerðu með sér samkomulag. Í sáttargjörðinni segir að merkjalínan liggi úr Grænás „ ... þaðan beint í Vogshól og þaðan í Stapafellsgjá hvað Ytrinjarðvíkur bændur láta sér og fullkomlega lynda.“
Þann 25. júní 1889 undirrituðu eigendur jarða í Ytra- og Innra- Njarðvíkurhverfi landamerkjabréf þar sem landamerkjum milli hverfanna er lýst þannig að línan liggi í Stapafellsgjá. Af hálfu aðalstefnanda er því haldið fram að allir þeir sem hagsmuni hafi átt að gæta hafi undirritað þetta landamerkjabréf og hefur því ekki verið mótmælt af hálfu þeirra sem stefnt er vegna Tjarnarkots og Stapakots.
Í landamerkjabréfi 20. maí 1922 er einnig sagt að línan liggi frá Vogshóli í Stapafellsgjá. Segir jafnframt að landamerkin séu samkvæmt landamerkjabréfi frá 30. október 1813 sem hafi verið samþykkt og undirritað af öllum landeigendum Ytri- og Innri-Njarðvík og Kirkjuvogseigendum. Landamerkjabréfið frá 1922 er og undirritað af öllum jarðeigendum í Innri- Njarðvík
Þá liggur fyrir í málinu yfirlýsing frá 18. október 2003 sem undirrituð er af eigendum Stapakots þar sem fram kemur m.a. að markalínan liggi í Stapafellsgjá.
Samkvæmt framansögðu verður talið að núverandi eigendur Stapakots og Tjarnarkots séu bundnir af framangreindum yfirlýsingum fyrrverandi eigenda jarða í Innri-Njarðvík. Verður litið svo á að þeir hafi samþykkt að merkjalínan fari í Stapafellsgjá en ekki beint úr Vogshól í Stapafell.
Niðurstaða málsins í heild verður því sú að landamörk Ytri-Njarðvíkur með Vatnsnesi gagnvart aðliggjandi jörðum skulu liggja samkvæmt línu sem dregin er frá Vogshól (hnit 327825, 387654 Ísnet 93), þaðan í Stapafellsgjá (hnit 327960, 384732 Ísnet 93) og síðan úr Stapafellsgjá í Stapafell þar sem landamerki allra jarða er liggja að Stapafelli mætast á fjallinu með hnit 327114, 383160 Ísnet 93, þaðan í beina línu í Kirkjuvogsklofninga (hnit 325731, 386161) og þaðan í Þrívörður (hnit 324672, 388298).
Rétt þykir að málskostnaður falli niður milli aðila.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan ásamt meðdómsmönnunum Einari G. Péturssyni dr. phil og Kristjáni Torfasyni lögfræðingi.
DÓMSORÐ:
Landamerki milli Járngerðarstaða, Hóps I og II, Húsatófta, Hafna, jarða í Ytri- Njarðvík og Innri-Njarðvík skulu skulu liggja samkvæmt línu sem dregin er frá Vogshól (hnit 327825, 387654 Ísnet 93), þaðan í Stapafellsgjá (hnit 327960, 384732 Ísnet 93) og síðan úr Stapafellsgjá í Stapafell þar sem landamerki allra jarða er liggja að Stapafelli mætast á fjallinu með hnit 327114, 383160 Ísnet 93, þaðan í beina línu í Kirkjuvogsklofninga (hnit 325731, 386161) og þaðan í Þrívörður (hnit 324672, 388298).
Málskostnaður fellur niður.