Hæstiréttur íslands

Mál nr. 463/1999


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gagn
  • Verjandi


Mánudaginn 29

 

Mánudaginn 29. nóvember 1999.

Nr. 463/1999.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

X

(Karl G. Sigurbjörnsson hdl.)

 

Kærumál. Gögn. Verjandi

 

Kærður var úrskurður héraðsdómara þar sem fallist var á kröfu lögreglustjóra um skýrslutöku yfir X fyrir dómi og framlengingu frests til að synja verjanda X um aðgang að gögnum varðandi rannsókn opinbers máls í þrjár vikur, á grundvelli b. liðar 1. mgr. 74. gr. a. laga nr. 19/1991. Var niðurstaða héraðsdóms staðfest með vísan til forsendna úrskurðarins.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Markús Sigurbjörnsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. nóvember 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. nóvember 1999, þar sem fallist var á kröfu sóknaraðila um að tekin yrði skýrsla fyrir dómi af varnaraðila, svo og að framlengdur yrði í þrjár vikur frestur til að synja verjanda varnaraðila um aðgang að gögnum varðandi rannsókn opinbers máls, sem beinist að varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að sóknaraðila verði gert að afhenda verjanda endurrit allra gagna, sem málið varðar, til vara endurrit allra gagna, sem eru eldri en einnar viku gömul, en til þrautavara endurrit allra annarra gagna en skýrslna þeirra, sem að málinu koma. Þá er krafist kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. nóvember 1999.

                Ár 1999, þriðjudaginn 23. nóvember er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Pétri Guðgeirssyni héraðsdómara, kveðinn upp úrskurður um kröfu lögreglustjórans í Reykjavík að fram fari skýrslutaka fyrir dómi af [...] og að framlengdur verði í þrjár vikur frestur sá sem lögregla hefur til þess að synja verjanda hans um aðgang að rannsóknargögnum.

Málavextir.

                Lögreglan í Reykjavík hefur krafist þess að tekin verði skýrsla af kærða, [...], fyrir dómi og að jafnframt verði framlengdur í þrjár vikur frestur sá sem lögregla hefur til þess að synja verjanda kærða um aðgang að rannsóknargögnum máls nr. 10-1999-27798. 

[...]

Niðurstaða.

                Kærði hefur viðurkennt að vera riðin við stórfellt fíkniefnabrot. Rannsókn málsins er ekki lokið og ber mikið á milli kærða og annarra sem grunaðir eru í málinu. Þá er eftir að afla gagna í því frá [...]. Nauðsyn þykir vera á því að kærði verði yfirheyrður fyrir dómi um þátt sinn í málinu. Þá þykir vera hætta á því að hann gæti spillt fyrir rannsókn málsins ef hann fengi aðgang að gögnum þess. Þykir því vera rétt og í samræmi við b-lið 1. mgr. 74. gr. b, laga um meðferð opinberra mála að verða við kröfu lögreglunnar í Reykjavík um að að fram fari skýrslutaka fyrir dómi af kærða, [...], og að framlengdur verði í þrjár vikur frestur sá sem lögregla hefur til þess að synja verjanda hans um aðgang að rannsóknargögnum málsins.

Úrskurðarorð:

                Fallist er á kröfu lögreglustjórans í Reykjavík um að fram fari skýrslutaka yfir kærða, [...], fyrir dómi. Jafnframt er framlengdur í 3 vikur frestur sem lögregla hefur til þess að synja verjanda kærða um aðgang að öllum rannsóknar­gögnum máls nr. 10-1999-27798.