Hæstiréttur íslands
Mál nr. 745/2013
Lykilorð
- Líkamsárás
- Miskabætur
- Skaðabætur
- Skilorð
|
|
Fimmtudaginn 30. október 2014. |
|
Nr. 745/2013.
|
Ákæruvaldið (Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari) gegn Þóri Hlyni Ríkharðssyni (Guðrún Sesselja Arnardóttir hrl.) |
Líkamsárás. Miskabætur. Skaðabætur. Skilorð.
Þ var sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 fyrir að hafa slegið A hnefahögg í andlitið með þeim afleiðingum að A hlaut kjálkabrot á tveimur stöðum. Við ákvörðun refsingar var meðal annars litið til þess að árásin var fólskuleg og tilefnislaus og olli umtalsverðu heilsutjóni. Var refsing Þ ákveðin skilorðsbundið fangelsi í fjóra mánuði auk þess sem honum var gert að greiða A 1.023.295 krónur í miska- og skaðabætur.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari og Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 8. nóvember 2013 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing hans verði milduð. Þá krefst hann þess aðallega að einkaréttakröfu verði vísað frá dómi, til vara sýknu af henni, en að því frágengnu að tildæmd fjárhæð verði lækkuð.
A krefst þess aðallega að ákærði verði dæmdur til að greiða sér samtals 1.704.181 krónu með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. janúar 2012 til 10. maí 2013, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst hann þess að ákvæði héraðsdóms um einkaréttarkröfu hans verði staðfest.
Samkvæmt framburði vitnanna A, brotaþola í málinu, B og C, voru fjórir menn á vettvangi líkamsárásar þeirrar, sem ákært er fyrir í máli þessu. Þótt vitnið B vissi ekki hvað ákærði héti fyrir atburð þann, er hér um ræðir, kannaðist það við hann og bar kennsl á hann af ljósmynd sem þann mann er verið hefði á brotavettvangi. Þá greindi vitnið D frá því í hljóðritaðri skýrslutöku hjá lögreglu sama dag og atvik gerðust að ákærði hefði verið með sér á vettvanginum og rengdi vitnið ekki þann framburð sinn fyrir dómi.
Enda þótt ekki verði fallist á það með héraðsdómi að góður samhljómur sé með frásögn brotaþola og vitnanna B og C af klæðaburði ákærða umrædda nótt fær það því ekki breytt að ekkert er fram komið í málinu sem bendir til þess að annar en ákærði hafi veitt brotaþola þá áverka sem hann sannanlega hlaut aðfaranótt 1. janúar 2012 og lýst er í ákæru. Að þessu gættu, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærða, refsingu og skilorðsbindingu hennar.
Að teknu tilliti til afleiðinga líkamsárásarinnar eru miskabætur brotaþola ákveðnar 500.000 krónur, en að öðru leyti er staðfest niðurstaða héraðsdóms um bætur honum til handa. Verður ákærði því dæmdur til að greiða brotaþola 1.023.295 krónur með vöxtum eins og í dómsorði greinir.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað og þóknun lögmanns brotaþola eru staðfest.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði segir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en einkaréttarkröfu A.
Ákærði, Þórir Hlynur Ríkharðsson, greiði A 1.023.295 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. janúar 2012 til 10. maí 2013, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 682.823 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guðrúnar Sesselju Arnardóttur hæstaréttarlögmanns, 627.500 krónur.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 23. júlí 2013.
Mál þetta, sem dómtekið var 29. maí sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Akureyri 14. mars 2013 á hendur Þóri Hlyni Ríkharðssyni, kt. [ ],[ ],[ ];
„fyrir líkamsárás, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 1. janúar 2012, á bifreiðaplani við Ráðhúsið á Akureyri, Geislagötu 9, slegið A, kt. [ ], hnefahögg í andlitið, með þeim afleiðingum að hann kjálkabrotnaði, en hann hlaut kjálkabrot á tveimur stöðum gegnum neðra kjálkabein, hægra megin, annarsvegar gegnum framtennur í neðri kjálka, með svolítilli gliðnun og einnig aftan til neðan við liðamót kjálkabeinsins við höfuðkúpuna.
Telst þetta varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20, 1981.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“
Í ákæru er vísað til einkaréttarkröfu brotaþola, A, en við flutning málsins var endanleg skaðabótakrafa hans á hendur ákærða að fjárhæð 1.704.181 króna, með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38, 2001 um vexti og verðtryggingu, frá 1. janúar 2012 til birtingar kröfu, en síðan með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 6. gr., sömu laga til greiðsludags. Að auki var gerð sú krafa að ákærði yrði dæmdur til að greiða lögmannsþóknun brotaþola að teknu tilliti til virðisaukaskatts samkvæmt mati dómsins.
Skipaður verjandi ákærða, Helga Vala Helgadóttir héraðsdómslögmaður, hefur fyrir hönd ákærða krafist þess að hann verði sýknaður af öllum kröfum, bæði kröfum ákæruvalds sem og einkaréttarkröfu um skaðabætur. Til vara gerir hún þá kröfu að ákærði verði dæmdur til að þola vægustu refsingu sem lög framast leyfa og að hún verði skilorðsbundin, en einnig að skaðabótakrafan verði lækkuð.
I.
1. Samkvæmt rannsóknargögnum lögreglu, frásögn ákærða, framburði brotaþola og vitna eru helstu atvik máls þessa þau að í lok árs 2011 kom ákærði, Þórir Hlynur, til Akureyrar í boði vinar síns, vitnisins E. Dvaldi ákærði á heimili vitnisins um áramótin, í innbænum, í [ ].
Óumdeilt er að á gamlárskvöld lögðu ákærði og nefnt vitni leið sína á heimili vitnisins F í [ ] í Glerárhverfi, en þar voru þeir á meðal fjölmargra gesta í áramótateiti. Liggur og fyrir að ákærði og E hafi ásamt öðrum gestum farið í miðbæ Akureyrar á nýársnótt, þar sem þeir héldu áfram áramótagleðinni.
Samkvæmt rannsóknargögnum voru brotaþoli, A, og vinur hans, vitnið B, í áramótagleðskap á gamlárskvöldi, en héldu nokkru eftir miðnættið í miðbæ Akureyrar til skemmtanahalds. Lögðu þeir leið sína í skemmtistaði í miðbæ Akureyrar og þar á meðal í Sjallann við Geislagötu. Er þetta gerðist var brotaþoli með skerta hreyfigetu á hægri handlegg og nær algjörlega blindur á hægra auga vegna slyss sem að hann hafði orðið fyrir í september 2011.
Af gögnum verður helst ráðið að laust fyrir klukkan 03:30 umrædda nótt hafi brotaþoli og vitnið B farið út úr Sjallanum og gengið stuttan spöl til norðurs, að Ráðhúsinu við Geislagötu, þar sem þeir hittu fyrir vitnið D, en hann hafði áður verið í áramótateiti vitnisins F í [ ]. Verður ráðið af frásögn þeirra að til ýfinga hafi komið með Eannars vegar og brotaþola A og B hins vegar. Er óumdeilt að þeim atgangi þeirra lauk á bifreiðastæði vestan Ráðhússins þegar fjórði aðilinn sem var þar á vettvangi blandaði sér í málin og sló A hnefahögg í andlitið með þeim afleiðingum að hann féll við. Er atvik gerðust var vitnið C nærri vettvangi, á bifreiðastæðinu, vestan við Ráðhúsið.
Í frumskýrslu lögreglu er greint frá því að klukkan 04:38 nefnda nótt hafi verið óskað eftir aðstoð lögreglu með forgangi að Ráðhúsinu á Akureyri. Segir frá því í skýrslunni að lögreglumenn hafi hraðað sér á vettvang og að þar hafi þeir hitt fyrir brotaþolann A og vitnið B, nánar tiltekið við gatnamót [ ] og [ ], sem er norðan Ráðhússins. Greint er frá því í skýrslunni að A hafi verið með sýnilega höfuðáverka, sem blætt hafi úr og að lögreglumennirnir hafi verið upplýstir um að áverkinn væri af völdum hnefahöggs. Mjög stuttu eftir komu lögreglu komu á vettvang sjúkraflutningamenn og fluttu þeir brotaþola á slysadeild Sjúkrahússins á Akureyri. Í skýrslunni segir að vitnið B hafi greint lögreglumönnum frá því að til orðaskaks og hnippinga hefði komið milli A og vitnisins D, en að hávaxinn aðili hafi blandað sér í atgang þeirra og slegið A hnefahögg í andlitið með þeim afleiðingum að hann féll við og vankaðist og fékk fyrrgreinda blóðáverka sína. Vegna þessa hefði vitnið kallað eftir aðstoð og haldið af stað frá Ráðhúsinu, en D og félagi hans farið af vettvangi. Í skýrslunni segir einnig frá því að lögreglumennirnir hafi haft tal af brotaþola, A, á slysadeild Sjúkrahússins á Akureyri og þar hlýtt á frásögn hans um viðskipti hans við D, en jafnframt að þeim atgangi hafi lokið er hann hefði fengið feiknahögg hægra megin á andlitið og þá vankast og fallið á snjóskafl. Tekið er fram að brotaþoli hafi sagt að hann hefði ekki séð hver hefði slegið hann með greindum hætti þar sem hann væri hálfblindur á hægra auga vegna fyrrgreinds slyss á árinu 2011, en engu að síður haft af því spurnir að árásaraðilinn væri ákærði í máli þessu. Á sjúkrahúsinu var lögreglumönnunum sagt frá því að ákærði væri kjálkabrotinn, en að auki með sýnilegan skurð á vinstri augabrún.
2. Samkvæmt gögnum lögreglu var G rannsóknarlögreglumaður kvaddur til starfa á nýársdag 2012 og liggur fyrir að á grundvelli lýstra gagna, en einnig vegna ljósmyndar sem vitnið B hafði aflað á Facebook og afhenti lögreglu, hafi frekari grunsemdir beinst að ákærða í máli þessu. Vegna þessa hafði rannsóknarlögreglumaðurinn símasamband við ákærða þar sem hann var staddur á heimili vitnisins D, í [ ]. Var ákærði, en einnig E, boðaður til yfirheyrslu á lögreglustöðina, en auk þess voru önnur tiltæk vitni boðuð til skýrslugjafar. Var vitnið B fyrst yfirheyrt nefndan dag klukkan 13:02, en síðan vitnið D klukkan 13:41, og loks vitnið E klukkan 15:18. Ákærði var yfirheyrður sem sakborningur klukkan 14:41, en í framhaldi af því var hann vistaður um tíma í fangaklefa. Hann var á ný tekinn til yfirheyrslu klukkan 16:13 nefndan dag. Skýrslurnar voru teknar með hljóði og hluta til einnig með mynd. Eru þau gögn einnig á meðal rannsóknargagna lögreglu.
Við frumrannsókn fór nefndur lögreglumaður í vistarverur ákærða á heimili E og tók með leyfi ákærða ljósmyndir af rauðleitri húfu en einnig rauðköflóttri skyrtu, sem voru í handfarangri hans. Ljósmyndir þessar eru á meðal gagna málsins, en einnig yfirlitsmynd yfir ætlaðan brotavettvang, en þar má m.a. sjá Ráðhúsið á Akureyri við Geislagötu 9, skemmtistaðinn Sjallann, nr. 9 við sömu götu, en einnig næsta nágrenni annarra skemmtistaða í miðbænum, þ. á m. Kaffi Akureyri, Kaffi Amor og Pósthúsbarinn.
Við meðferð málsins fyrir dómi voru af hálfu ákærða og verjanda hans lagðar fram ljósmyndir, en einnig myndbandsupptaka. Er ágreiningslaust að myndefnið var tekið í fyrrnefndu áramótateiti á gamlárskvöldi 31. desember 2011 og aðfaranótt 1. janúar 2012 í og við húsnæði vitnisins F í [ ] á Akureyri. Á myndefninu má m.a. sjá auk ákærða fyrrnefnd vitni, E og D. Verður helst ráðið að ákærði hafi verið íklæddur grænköflóttri skyrtu, en auk þess er hann með dimmrauða uppbretta húfu á höfði.
3. Samkvæmt áverkavottorði H, sérfræðings í skurðlækningum við Sjúkrahúsið á Akureyri, sem dagsett er 22. febrúar 2012, og ritað var vegna komu A á sjúkrahúsið umrædda nótt, segir m.a.:
„Uppgefið er í sjúkraskrá að milli kl: 03 og 04 hafi A lent í orðaskiptum við hið minnsta 2 menn, sem hann mun hafa þekkt fyrir, en orðaskiptin enduðu með barsmíðum. Hann fékk nokkur högg í andlitið og aðallega á hægri hluta andlits. Hann mun hafa verið mjög vankaður fyrstu mínúturnar og var með verk í kjálkanum og átti erfitt með að opna og loka munni að fullu. Einnig með höfuðverk yfir vinstri augabrún þar sem er skurður, að öðru leyti ekki getið um áverka.
Í heilsufarssögu stendur að hann hafi í september 2011 orðið fyrir slysi sem endaði með nærri algjörri blindu á hægra auga og broti á hægri handlegg þar sem hann mun hafa þurft spelku utan um handlegginn með pinnum í gegn í lengri tíma og mun ennþá vera að kljást við skerta hreyfingu í úlnliðnum eftir þetta.
Í skoðun er þess getið að A hafi verið áttaður á stað og stund og eigin persónu en þvoglumæltur og ófær um að loka munninum. Hann hafi 2 cm skurð á vinstri augabrún sem var saumaður. Hann fékk saltvatn í æð og verkjastillandi meðferð framan eftir morgni. Gerð var sneiðmynd af höfði sem sýndi brot gegnum neðra kjálkabeinið, hægra megin á tveimur stöðum, annarsvegar í gegnum framtennur í neðri kjálka með svolítilli gliðnun og einnig aftan til neðan við liðamót kjálkabeinsins við höfuðkúpuna. Af þessum myndum var ljóst að kjálkabeinið var óstöðugt og nauðsynlegt að hafa samband við kjálkaskurðlækna í Reykjavík. Eftir samskipti við sérfræðinga var ákveðið að hann flyttist suður, annað hvort með flugi eða með bíl en ákveðið var að hann færi í aðgerð sennilega daginn eftir á Landspítala háskólasjúkrahúsi. Hann var útskrifaður héðan með nál til lyfjagjafar eftir þörfum í æð. Frekari afspurnir af honum hafa ekki verið skráðar í sjúkraskrá Sjúkrahússins á Akureyri.
Undirritaður kom ekki frekar að þessu tilfelli annað en að vera til ráðlegginga þegar hann kom inn þarna að morgni nýársdags en einnig er skráð í okkar rafrænu sjúkraskrá þann 04.01.12. viðtal við I, lækni á Dalvík, þar sem hún gaf honum lyfseðil fyrir stílum og mixtúru en hann gat illa kyngt sýklalyfi og verkjalyfi í töfluformi sem hann hafði fengið eftir aðgerðina í Reykjavík. Þann 12.01.12. er einnig skráð símtal á Dalvík vegna lyfja en þá er rætt um að hann þurfi að klára próf vikuna eftir og talað um í framhaldi að e.t.v. að senda tilvísun til sérfræðings m.t.t. lyfjagjafar vegna ADHD. Þann 16.01.12. er skráð vottorð frá I lækni um að hann hafi ekki treyst sér í próf þann dag. Frekari nótur í sjúkraskrá er ekki að finna.
Varðandi ferli á LSH vísast á lækna þar. Varðandi ástand hans í dag væri rétt að hafa samskipti við lækna á Dalvík.
Samantekt:
A [ ] fékk áverka eftir högg á hægri kjálka sem leiddi til kjálkabrots á 2 stöðum seint um aðfaranótt nýársdags 2012 og kom á slysadeildina. Var eftir skoðun og rannsóknir sendur suður til Reykjavíkur á LSH til aðgerðar. Læknabréf varðandi aðgerðina og hvort hefur farið fram formlegt eftirlit í Reykjavík stendur ekki skráð í okkar skjölum en skráð eru nokkur viðtöl milli sjúklings eða aðstandenda við heimilislækni á Dalvík.“
Þá liggur fyrir í málinu vottorð J MSc, sérfræðings í munn- og kjálkaskurðlækningum, sem ritað var vegna lýstrar aðgerðar sem A gekkst undir í Reykjavík eftir dvöl hans á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Vottorðið er dagsett 20. september 2012, en þar segir m.a.:
„Meðferð: Gert var að brotum í svæfingu og titanplötur og skrúfur notaðar til að stabilisera brotið í vinstri hlið í réttu biti.
Brot á subcondylar svæði hægra megin lá vel og var stabiliserað með því að festa tennur saman með teygjum í góðu biti.
Batahorfur: Sjúklingur greri sára sinna vel og við skoðun 27. febrúar s.l. höfðu brot gróið vel og bit var gott. Sjúklingur var örlítið dofinn í tannholdi við framtennur vinstra megin, líklegt verður að telja að sjúklingur muni ná sér að fullu.“
II.
Ákærði, Þórir Hlynur Ríkharðsson, skýrði frá því í fyrri yfirheyrsluskýrslu hjá lögreglu 1. janúar 2012 að hann hefði á gamlárskvöld og nýársnótt verið í fylgd vinar síns, vitnisins E. Hann kvaðst hafa hafið áfengisneyslu á heimili E um klukkan 22:00, en síðar um kvöldið farið í áramótateiti. Þá hefðu þeir haldið skemmtan sinni áfram á skemmtistöðum í miðbæ Akureyrar, en að aflokinni skemmtan hefði hann fylgt E heim og verið þar er lögreglumaður boðaði hann á lögreglustöð til yfirheyrslu vegna þessa máls.
Í nefndu áramótateiti kvaðst ákærði m.a. hafa hitt vitnið D, en kvaðst í raun ekkert hafa þekkt til hans á þessum tíma. Eftir teitið kvaðst ákærði hafa farið á skemmtistaði, fyrst á Kaffi Amor en síðan á Kaffi Akureyri og bar að þar hefði hann hafst við uns hann hefði haldið á heimili E, en treysti sér ekki til að segja til um nákvæman tíma að því leyti. Vísaði ákærði til þess að hann hefði verið undir áhrifum áfengis þessa nótt, en þrátt fyrir það kvaðst hann minnast gjörða sinna. Nánar aðspurður af rannsakara kannaðist ákærði ekki við að hafa verið í fylgd vitnisins D á þeim tíma sem brotaþolinn A varð fyrir líkamsárásinni í miðbæ Akureyrar og neitaði hann sök alfarið. Ákærði kvaðst þannig ekki kannast við að hafa átt í handalögmálum eða slegið nokkurn mann umrædda nótt. Þá kvaðst ákærði ekki minnast þess að hafa farið í skemmtistaðinn Sjallann nefnda nótt.
Við yfirheyrsluna var ákærða kynntur framburður D hjá lögreglu þess efnis að þeir hefðu þá um nóttina verið saman við Ráðhúsið í Geislagötu. Ákærði kvaðst kannast við vettvang, en áréttaði fyrri frásögn og þar á meðal að hann myndi ekki eftir því að hafa verið með D og af þeim sökum hlyti að vera um misminni vitnisins að ræða.
Við lok yfirheyrslunnar má sjá og heyra að rannsakari biður ákærða að sýna sér hendur sínar, en í framhaldi af því er honum kunngert að hann sé handtekinn og verði vistaður í fangaklefa á meðan frumrannsókn standi yfir.
Við síðari yfirheyrslu ákærða hjá lögreglu nefnda dag, klukkan 16:13, áréttaði ákærði fyrri framburð sinn. Þá andmælti hann vitnisburði B þess efnis að hann hefði verið í rauðköflóttri skyrtu og með rauða húfu á höfðinu umrædda nótt og staðhæfði að hann hefði verið íklæddur Carhart gallaefnisskyrtu og í svörtum gallabuxum. Þá kvaðst hann hafa verið án höfuðfats. Þá kvaðst ákærði vera öruggur um að hann hefði aldrei farið í skemmtistaðinn Sjallann og andmælti að því leyti frásögn vitnisins B. Ákærði gat þess að hann brúkaði ekki greiðslukort þegar hann væri á skemmtistöðum og heimilaði því ekki rannsakara að kanna greiðslukortafærslur hans umrædda nótt.
Fyrir dómi, við þingfestingu og aðalmeðferð, neitaði ákærði sök og staðhæfði að á nýársnóttu 1. janúar 2012 hefði hann ekki átt nokkur samskipti við brotaþolann A. Ákærði bar að hann hefði ekkert þekkt til brotaþola eða vitnisins B og því ekkert átt sökótt við þá. Kvaðst ákærði því engar skýringar hafa á ásökunum þeirra í hans garð.
Frásögn ákærða fyrir dómi var að öðru leyti með líkum hætti og fram kom í áðurröktum skýrslum hans hjá lögreglu, þ. á m. um dvöl hans á heimili Eá gamlárskvöldi og í áramótateiti á heimili vitnisins F. Ákærði bar enn fremur að í teitinu hefði hann hitt vitnið D í fyrsta skipti, en vísaði til þess að þeir ættu sameiginlega vini sem tengdust m.a. vetraríþróttum. Ákærði bar að áramótateitið hefði ekki verið ýkja langt frá miðbæ Akureyrar, en þangað kvaðst hann hafa lagt leið sína um nóttina ásamt fleiri strákum og þar á meðal vini sínum, vitninu E. Ákærði bar að hann hefði haldið áfengisdrykkju sinn áfram á skemmtistaðnum Kaffi Akureyri og staðhæfði að hann hefði haldið þar kyrru fyrir þar til hann hefði farið á heimili E síðar um nóttina. Ákærði kvaðst nefnda nótt hafa verið mjög ölvaður, líkt og aðrir félagar hans, en bar að hann hefði þó ekki fengið „black out“. Aðspurður kvaðst ákærði hafa verið íklæddur græn/grá/svartköflóttri skyrtu og haft vínrauða húfu á höfði, en að því leyti staðfesti hann framlagðar ljósmyndir, sem teknar höfðu verið af honum í fyrrnefndu teiti. Vegna þess leiðrétti ákærði og frásögn sína hjá lögreglu um klæðaburð, að því er varðar skyrtu og að hann hefði ekki verið með húfu og sagði: „ það er rangt sem að ég hef sagt hjá lögreglunni já... já ég mundi ekkert hvernig ég var klæddur í skýrslutökunni, ég var bara skelkaður og ég var hræddur, það var bara það.“ Í þessu sambandi áréttaði ákærði að hann hefði verið ölvaður umrædda nótt og því verið timbraður við yfirheyrsluna, en að auki verið mjög brugðið er hann fékk boð símleiðis um að mæta á lögreglustöðina. Við yfirheyrsluna kvaðst ákærði m.a. hafa bent rannsakara á að hann bæri engin ummerki á höndum og af þeim sökum farið fram á að ljósmyndir yrðu teknar af honum, sbr. dskj. nr. 16-18. Að auki kvaðst ákærði hafa heimilað rannsakara að taka fyrrnefndar ljósmyndir af þeim fatnaði sem hann var með á heimili vitnisins E, en staðhæfði að rannsakarinn hefði einblínt á rauðköflótta skyrtu og rauða húfu, en áréttaði að hann hefði ekki verið íklæddur þeirri skyrtu þá um nóttina. Þá staðhæfði ákærði að hann hefði heimilað rannsakaranum að kanna bankafærslur hans umrædda nótt.
Vitnið E, fæddur [ ], skýrði frá því í skýrslu sinni hjá lögreglu að hann hefði farið ásamt góðum vini sínum, ákærða, í áramótateiti til vinar, vitnisins F. Á nýársnótt kvaðst vitnið hafa haldið áfram skemmtan sinni á veitingahúsinu Kaffi Akureyri í miðbæ Akureyrar og þá með ákærða og vísaði til þess að það væri venja þeirra að halda „saman á djamminu“. Vitnið kvaðst hafa haldið til á skemmtistaðnum „allt kvöldið“ og ekki farið á aðra veitingastaði í miðbænum. Vitnið kvaðst hafa neytt áfengis og farið á barinn, en auk þess dansað og af þeim sökum kvaðst það ekki geta fullyrt um hvort ákærði hafi verið með honum allt kvöldið, en myndi þó ekki eftir öðru en að svo hefði verið. Að aflokinni skemmtan kvaðst vitnið hafa farið til síns heima ásamt ákærða.
Vitnið E lýsti atvikum fyrir dómi með líkum hætti og það hafði áður gert hjá lögreglu og staðfesti m.a. að ákærði hefði dvalið á heimili þess, í innbæ Akureyrar, um nefnd áramót. Einnig staðfesti vitnið að þeir vinirnir hefðu farið í áramótateiti á heimili F, og bar að það hefði verið haldið í norðurhluta bæjarins. Vitnið sagði að í þessu teiti hefði nær allur vinahópur þess verið og ætlaði að ákærði hefði þekkt nokkurn hluta þeirra, en þar um vísaði það til þess að flestir þeirra legðu stund á tiltekna vetraríþrótt. Vitnið greindi frá því að það hefði verið mjög drukkið þessa nótt og af þeim sökum treysti það sér ekki til að segja til um hvenær vinahópurinn fór úr teitinu og á Kaffi Akureyri í miðbænum, en ætlaði að það hefði verið eitthvað eftir miðnættið, og sagði: „... ég man allavega, ég man bara eftir að hafa verið á þeim stað sem ég var með vinum mínum úr partíinu, meðal annars Þórir (ákærði) var á staðnum þar.“ Nánar aðspurt hvernig það og ákærði hefðu farið úr teitinu og í miðbæinn sagði vitnið: „Við löbbuðum ... já mig minnir það alveg pottþétt, ég held það já ... þetta er ekki neitt rosalega langt, ... röltum þar bara niður í bæ ... eins og ég segi mig minnir að við höfum rölt, en ég var drukkinn, við gætum hafa tekið far.“ Vitnið kvaðst minnast þess að hafa séð vitnið D í umræddu teiti og ætlaði að það hefði einnig séð hann á skemmtistaðnum Kaffi Akureyri þá um nóttina. Vitnið áréttaði að það hefði verið ölvað og ætlaði að það hefði alla eða mestalla nóttina dvalið á nefndum veitingastað, en vegna ástands síns kvaðst það ekki hafa fylgst með ferðum ákærða; „þetta var drykkjukvöld ... ég var þarna bara drukkinn og með mínum vinum, öllum í einu og var ekkert að fylgjast neitt með einum sérstökum, en þetta kvöld allavega var þannig að ég og Þórir enduðum saman heima.“ Vitnið treysti sér ekki til að segja til um hvenær um nóttina þeir komu á heimili þess, en ætlaði að það hefði allavega verið eftir klukkan 04. Vitnið kvaðst aldrei hafa heyrt af því þessa nótt að ákærði hefði átt í einhverjum átökum og fyrst frétt af kæru brotaþola er það var kvatt á lögreglustöð daginn eftir til að gefa skýrslu í málinu.
Vitnið F, fæddur [ ], kvaðst í skýrslu sinni fyrir dómi hafa haldið áramótateiti á heimili sínu að [ ], skammt norðan Glerár, um áramótin 2011/2012. Vitnið sagði að allt að þrjátíu gestir hefðu verið í teitinu og þar á meðal félagi þess, E, en einnig ákærði, en það kvaðst þá nýlega hafa kynnst honum. Vitnið kvaðst líkt og gestirnir hafa haldið áfram skemmtaninni í miðbæ Akureyrar og ætlaði að hópurinn hefði farið þangað með leigubifreiðum. Vitnið kvaðst ekki minnast þess að einhver gestanna hefði farið gangandi í miðbæinn og ætlaði helst að það hefði pantað stóra leigubifreið. Vitnið kvaðst ekki minnast þess hvaða gestir voru því samferða í bifreiðinni, en áfangastaður þess hefði verið skemmtistaðurinn Kaffi Akureyri. Vitnið ætlaði að flestir félagar hans hefðu haldið til á nefndum skemmtistað, en það kvaðst að auki hafa litið við á öðrum skemmtistöðum, þ.e. á Amor og Pósthúsbarnum og sagði: „ við vorum ekki allir saman allan tímann sko.“ Vitnið ætlaði að það hefði verið með þeim fyrstu í félagahópnum sem hætti skemmtanahaldi þessa nótt, en vitnið kvaðst þá hafa haldið til síns heima.
Vitnið A, brotaþoli, fæddur [ ], skýrði frá því í skýrslu sinni hjá lögreglu að hann hefði á nýársnótt 2012 farið í miðbæinn, um klukkan 02:30, ásamt vini sínum, vitninu B. Sagði hann að þeir hefðu fyrst farið á skemmtistaðinn Kaffi Amor, en síðan í skemmtistaðinn Sjallann. Vitnið kvaðst umrædda nótt ekki hafa verið „að ráði ölvaður“, en það kvaðst hafa drukkið tvo bjóra á síðarnefnda skemmtistaðnum. Eftir um klukkustundardvöl kvaðst vitnið hafa fylgt B út úr Sjallanum þar sem hann hafi ætlað að hringja í móður sína, en vitnið notað tækifærið til að reykja. Vitnið sagði að þegar B hafi verið að ræða í símann hefði það veitt því eftirtekt hvar ákærði í máli þessu hélt um vitnið D, líkt og eitthvað amaði að honum. Vitnið kvaðst hafa kannast við D og því kallað til hans og beðið hann um að koma til sín. Vitnið bar að D hefði hlýtt kallinu og hann þá spurt hvað angraði hann. Vitnið bar að D hefði án orða hrækt á það og kvaðst það þá hafa innt hann eftir því hverju sú hegðan sætti, en D svarað til því að það væri ætíð með stæla við hann. Vitnið staðhæfði að þetta hefði ekki verið sannleikanum samkvæmt og því hefði fyrrgreind framkoma D verið óskiljanleg. Vitnið bar að D hefði haldið áfram stælum sínum, en vitnið lagt að honum að róa sig niður. Vitnið kvað D m.a. hafa gengið fast að sér, en það þá ýtt honum frá enda á þeim tímapunkt óttast að hann myndi kýla sig. Vitnið bar að D hefði ekki hætt athæfi sínu og m.a. beðið vitnið um að ýta við sér. Kvaðst vitnið hafa gert það en samhliða hörfað undan. Vitnið kvað D við greindar aðstæður hafa kýlt sig einu sinni í kinnbeinið „einhversstaðar“. Vegna þessa kvaðst vitnið enn hafa beðið D að hætta atgangi sínum og jafnframt sagt við hann að það gæti ekki tekið á móti honum vegna þess slyss sem það hafði orðið fyrir nokkrum mánuðum áður. Vitnið sagði að D hefði þrátt fyrir það ekki látið af athæfinu og meðal annars kýlt vitnið einu sinni í andlitið með þeim afleiðingum að það fékk skurð á augabrún, en að auki hefði hann skallað það einu sinni á hálsinn og reynt að gera slíkt aftur en þá skallað í öxl þess. Vitnið sagði í lögregluskýrslunni að D hefði samtals kýlt sig fjórum sinnum í andlitið og bar að allan þann tíma hefði fyrrnefndur vinur þess, B, verið að tala í síma, en að lokum gengið í milli þeirra og sagt D að róa sig niður. Vitnið kvað D hafa brugðist illa við þessum afskiptum B, þrátt fyrir að þeir tveir hefðu verið vinir. Vitnið staðhæfði að ákærði hefði við þessar aðstæður gengið til vitnisins og tekið um bringu þess og spurt hvort að það væri með eitthvert vesen. Vitnið kvaðst hafa svarað því til að svo væri ekki og farið fram á að ákærði léti sig í friði. Vitnið bar að ákærði hefði þá farið frá en D haldið áfram stælum sínum en B þá enn reynt að ræða við hann og staðið í milli þeirra. Vitnið kvaðst við þessar aðstæður hafa fengið þungt högg hægra megin á kjálkann, en ekki séð hver veitti honum höggið og vísaði til þess að það væri blint á hægra auga vegna fyrrgreinds slyss. Vegna hnefahöggsins kvaðst vitnið nánast hafa fallið í götuna og hálfvankast, en síðan reynt að reisa sig við og átta sig á hvað hefði gerst. Ætlaði vitnið að það hefði verið um 10 sekúndur að ná áttum, en eftir það séð hvar D og ákærði gengu á brott. Eftir það kvaðst vitnið hafa hlýtt á frásögn B um að það hefði verið ákærði sem kýldi hann hnefahögginu og að hann hefði fyrir barsmíðina sagt: „.. greinilega einhver hér sem á skilið að vera kýldur.“ Vitnið kvaðst ekki hafa heyrt þessi orð ákærða en hins vegar hlýtt á frásögn B um að ákærði hefði snúið baki að því fyrir árásina, en tekið 180° sveiflu og kýlt það í andlitið hægra megin.
Við skýrslutökuna bar vitnið að lýst atburðarás hefði hafist á milli skemmtistaðarins Sjallans og Ráðhússins við Geislagötu, en að það hefði hrakist vegna atgangs D til norðurs og síðan vestur fyrir Ráðhúsið. Vitnið bar að á móts við kjallarastiga Ráðhússins hefði ákærði kýlt það lýstu hnefahöggi.
Við skýrslutökuna sagði vitnið að sauma hefði þurft fjögur spor í vinstri augabrúnina vegna þess höggs sem það hlaut frá D, en vegna lýsts atgangs hans kvaðst það að auki hafa fengið bólgu á kinnbeinið. Vitnið staðhæfði að kjálkabrotið væri afleiðing hnefahöggs ákærða í greint sinn. Vitnið áréttaði að það hefði ekki séð höggið frá ákærða og bar að upplýsingar þar um hefði það einungis frá B er hefði sagt að árásaraðilinn hefði verið „strákurinn sem var með D.“
Vitnið staðhæfði að D hefði í greint sinn verið mjög ölvaður, en það kvaðst ekki hafa áttað sig á ástandi ákærða að öðru leyti en því að hann hefði virst mjög æstur miðað við að vitnið hefði aldrei átt við hann samskipti áður. Vitnið áréttaði að ástand þess líkt og B hefði verið mjög gott, enda hefðu þeir í raun verið á leiðinni til síns heima er atvik máls gerðust.
Brotaþoli, A, lýsti atvikum máls fyrir dómi með líkum hætti og hann hafði áður gert há lögreglu í fyrrgreindri skýrslu. Hann kvaðst þannig hafa verið að skemmta sér umrædda nýársnótt ásamt vini sínum B í miðbæ Akureyrar og m.a. farið í skemmtistaðinn Sjallann. Þá kvaðst hann hafa fylgt B út úr Sjallanum þegar hann ákvað að hringja í móður sína. Við það tækifæri kvað hann þá hafa gengið aðeins frá skemmtistaðnum og að Ráðhúsinu við Geislagötu, um 30 til 50 metra, þar kvaðst hann fyrst hafa séð til vitnisins D þar sem hann var í fylgd ungs manns. Brotaþoli kvaðst hafa þekkt D fyrir, en ekki fylgdarmanninn, en síðar þekkt hann af mynd sem B hafði tekið af Facebook og þannig staðreynt að þarna var á ferð ákærði í máli þessu. Brotaþoli bar að B hefði kannast við ákærða í greint sinn. Brotaþoli kvað ákærða hafa verið íklæddan köflóttri skyrtu og með húfu á höfðinu, en treysti sér ekki til að segja til um lit húfunnar, en sagði: „Þetta er derhúfa eða húfa, ég man ekki, ég var ekki að horfa á hann sko.“
Brotaþoli sagði að nefndir piltar, D og ákærði, hefðu verið fótgangandi í greint sinn skammt frá Ráðhúsinu og bar að þeir hefðu gengið í átt að Sjallanum. Kvaðst hann hafa veitt því eftirtekt að ákærði hélt um D og þar sem hann hefði þekkt til D og ætlað að eitthvað hrjáði hann hefði hann kallað til hans. Brotaþoli áréttaði frásögn sína fyrir lögreglu um atgang D eftir þetta, og bar að D hefði byrjað á því að hrækja framan í hann og ætlaði að hann hefði hrækt á móti. Nánar aðspurður bar brotaþoli að margt fólk hefði verið á vettvangi er atvik gerðust; „eitthvað aðeins frá sko“. Við nefndar aðstæður kvaðst brotaþoli hafa staðið andspænis D, en ákærði verið fyrir aftan D og B staðið skammt frá þeim, að tala í símann. Brotaþoli staðhæfði að þeir hefðu því verið fjórir á vettvangi, þ.e. sunnan við Ráðhúsið, er atgangurinn byrjaði milli hans og D. Brotaþoli áréttaði að D hefði ítrekað reynt að slá til hans og skalla, en þar sem hann hafi verið eftir sig eftir fyrrgreint slys nokkrum mánuðum áður, hefði hann í raun verið einhentur og að auki sjónlaus á hægra auga. Af þessu sökum hefði hann ekki viljað lenda í áflogum og því reynt að róa D en án árangurs og sagði: „Ég man að hann náði einu höggi á mig þarna á vinstri eða hérna á augabrúnina og svo náði hann að skalla mig eitthvað í framan og ég náði samt alltaf einhvern veginn að verja mig, halda honum frá mér með vinstri hönd.“ Vegna atgangs D kvaðst hann hafa hörfað undan og þannig hrakist vestur fyrir Ráðhúsið, en samhliða kallað til B um að reyna að róa D þar eð þeir hefðu verið vinir. Hann kvaðst jafnframt hafa reynt að halda sig í hæfilegri fjarlægð frá D en framhaldinu lýsti hann þannig: „... hann (D) eitthvað öskrað á mig, þá man ég þegar að Þórir Hlynur sem sagt kemur svona upp að mér ... hann kom upp að andlitinu á mér eins og hann væri bara að fara að ráðast á mig og eitthvað og ég var að halda D frá ... og segir eitthvað, minnir eitthvað þú átt skilið að vera kýldur eða eitthvað ... B stóð þarna við hliðina á D, félagi minn, D stóð á móti mér og ég var alltaf að reyna að halda honum í hæfilegri fjarlægð til að hann myndi ekki koma og ráðast á mig, svo náttúrlega Þórir Hlynur var með honum ... hérna megin við D, ég var náttúrlega ekkert að fylgjast með honum útaf því að ég var að einblína á D, að hann myndi ekki ráðast á mig.“ Nánar aðspurður ætlaði brotaþoli að þessi atgangur Dhefði varað í 5 til 10 mínútur, en staðhæfði að barsmíðar og högg hans hefðu ekki valdið honum miklum skaða fyrir utan skurðinn á augabrúninni. Vísaði brotaþoli einnig til þess að barsmíðar D hefðu ekki verið fastar og hann að auki náð að koma sér undan þeim að mestu, en lýsti athæfi hans nánar þannig: „já náði einu höggi á augabrúnina, síðan náði hann eitthvað svona litlum höggum eitthvað hér og þar eitthvað, en var ekkert þannig séð, ég er ekkert að segja frá því.“ Brotaþoli bar að á meðan á þessu stóð hefði hann í raun engin samskipti haft við ákærða fyrir utan þau ótilgreindu orð sem ákærði viðhafði við hann er hann gekk fast að andliti hans. Kvað hann þau samskipti aðeins hafa varað í um 5 sekúndur, en lýsti framhaldinu þannig: „... þá fékk ég bara dúndur í andlitið ... hérna á hægra andlitið ... Þórir Hlynur sló mig það kom náttúrlega ekki annað til greina nema hann hafi slegið mig ... ég sá ekki beint þegar að hann sló mig, útaf því að ég er náttúrulega blindur á auganu en ég sá að hann var hérna hægra megin við mig og svo var sem sagt D á móti mér þannig að ég var að verjast honum, þannig að það kemur enginn annar til greina heldur en hann.“ Ítrekað aðspurður staðhæfði brotaþoli að hnefahöggið hefði alls ekki getað komið frá D þar sem hann hefði einblínt á hann rétt fyrir barsmíðina og þá ekki frá B og bar aðrir en þeir fjórir hefðu ekki verið á vettvangi, en sagði enn fremur: „Ég man að ég spurði B þarna um leið og ég var kýldur bara eitthvað, og hann bara eitthvað já Þórir Hlynur kýldi þig.“
Við hnefahöggið kvaðst brotaþoli hafa fallið og vankast og ekki getað hreyft munninn á eftir. Brotaþoli kvaðst því ekki hafa verið í nokkrum vafa um að hann hefði hlotið kjálkabrotið af völdum þessa síðasta höggs sem hann varð fyrir og áréttaði að það hefði ákærði veitt honum. Er atvik gerðust kvaðst brotaþoli hafa verið undir áhrifum áfengis, en ekki verulega og af þeim sökum kvaðst hann minnast atburðarásarinnar að öllu leyti. Hann kvaðst þannig strax hafa áttað sig á því að hann hafði orðið fyrir verulegum meiðslum vegna hnefahöggs ákærða. Þannig hefði mikið blætt úr munni hans, en auk þess hefði kjálki hans verið alveg fastur.
Eftir hnefahöggið kvaðst brotaþoli hafa reynt að forða sér af vettvangi enda óttast að ákærði og Dmyndu halda áfram barsmíðum sínum. Brotaþoli kvaðst og hafa hringt á sjúkrabifreið, en þar sem nokkur tími hefði liðið þar til aðstoðin barst hefði hann gengið til móts við sjúkrabifreiðina, þ.e. norður með Ráðhúsinu og út á Glerárgötuna, og bar að vinur hans, B, hefði aðstoðað hann eftir föngum.
Fyrir dómi staðhæfði brotaþoli að fyrir utan sár á vinstri augabrún hefði hann enga áverka hlotið af völdum greinds atgangs D. Vegna lýstra áverka af völdum ákærða á kjálka kvaðst brotaþoli fyrst hafa fengið aðhlynningu á Sjúkrahúsinu á Akureyri, en í framhaldi af því, þann 1. janúar, ekið til Reykjavíkur, og bar að þar hefði kjálki hans verið víraður saman og hefði svo verið allt til 10. febrúar 2012. Að auki kvað hann afleiðinguna af hnefahöggi ákærða hafa verið þá að hann hefði þurft að leita til tannlæknis þar sem nauðsynlegt hefði reynst að holufylla eina tönn. Fyrir dómi staðhæfði brotaþoli að hann hefði ekki enn náð sér eftir kjálkabrotið og vísaði til þess að hann væri með dofatilfinningu í munninum.
Vitnið B, fæddur [ ], skýrði frá því við yfirheyrslu hjá lögreglu að hann hefði farið í skemmtistaðinn Sjallann ásamt brotaþolanum A á nýársnótt þann 1. janúar 2012. Eftir að hafa dvalið þar um hríð kvaðst vitnið hafa farið út af skemmtistaðnum í þeim tilgangi ræða við móður sína í síma og beðið A að fylgja sér. Vitnið kvaðst hafa veitt því eftirtekt þegar hann hafði hringt í móður sína að tveir aðilar gengu framhjá þeim og bar að þeir hefðu verið með „smá derring við þá“. Vegna símtalsins kvaðst vitnið hafa staðið svolítið frá A, en veitt því eftirtekt hvar hann og vitnið D, sem það kvaðst hafa þekkt fyrir, áttu í deilum. Er atvik gerðust kvaðst vitnið ekki hafa verið ölvað og þá ekki A, en ætlaði að ákærði og D hefðu eitthvað verið ölvaðir. Vitnið bar að ákærði hefði í upphafi ekki verið alveg á vettvangi þar sem A og D voru að rífast og bar að hann hefði á þeirri stundu verið í einhverjum viðræðum við nærstaddan aðila og ætlaði að um par hefði verið að ræða. Vitnið kvaðst þannig ekki hafa séð að ákærði hefði afskipti af rifrildi D og A og því hefði framganga hans skömmu síðar verið algjörlega að tilefnislausu. Vitnið kvaðst hafa reynt að stoppa atgang D gagnvart A, en bar að þá hefði ákærði, Þórir Hlynur, komið að og sagt efnislega við D, að einhver ætti skilið kjaftshögg. Í beinu framhaldi af þessum orðum kvaðst vitnið hafa séð að ákærði snéri sér við og sló A í andlitið með þeim afleiðingum að hann féll niður og vankaðist. Eftir höggið kvaðst vitnið hafa veitt því eftirtekt að það blæddi úr munni A, en að auki séð blóð á augabrún hans. Vitnið kvaðst hafa furðað sig á þessu þar sem það hafði aldrei séð D slá til A, en síðar heyrt frásögn hans þar um er vitnið hringdi til hans síðar um nóttina þar sem hann var sjúkrahúsi.
Vitnið bar að umræddur atburður hefði gerst á bifreiðastæði við [ ], nálægt stiga að kjallara. Vitnið kvaðst hafa þekkt til D fyrir atburðinn og vísaði til þess að þeir hefðu stundað tiltekna vetraríþrótt.
Vitnið sagði að ákærði hefði er atvik gerðust verið í rauðköflóttri langerma skyrtu og með rauða uppbretta húfu á höfðinu. Nánar aðspurt um hnefahögg ákærða áréttaði vitnið að ákærði hefði snúið sér eiginlega í hálfhring og síðan kýlt A beint á neðri kjálkann. Vitnið bar að höggið hefði verið fast og sagði að það hefði komið „alveg ógeðsleg hljóð við höggið á kjálkann á A ... þetta væri hrottalegasta högg sem hann hefði séð.“ Vegna þessa kvaðst vitnið hafa verið mjög óttaslegið um A og ítrekaði að hann hefði fallið niður við höggið en síðan án árangurs reynt að standa upp og hlaupa af vettvangi. Vitnið kvaðst hafa reynt að róa A niður og í framhaldi af því hringt á Neyðarlínuna, en átt í smá erfiðleikum með að greina frá staðsetningu þeirra. Eftir atburðinn kvaðst vitnið ætla að ákærði og D hefðu farið inn í skemmtistaðinn Sjallann, að minnsta kosti hefðu þeir gengið í áttina að skemmtistaðnum. Þá kvaðst vitnið síðar um nóttina hafa séð þá félaga, ákærða og D, í Sjallanum.
Við skýrslutöku lögreglu greindi vitnið frá því að það hefði gætt að ákærða á Facebook eftir atburðinn og séð þar mynd af honum. Vitnið staðhæfði að á myndinni hefði ákærði verið íklæddur mjög svipaðri skyrtu og með svipaða húfu og hann hafði verið í er atvik gerðust. Vegna þessa kvaðst hann hafa prentað út myndina og afhent lögreglu.
Fyrir dómi lýsti vitnið B atvikum máls með líkum hætti og það hafði áður gert hjá lögreglu, þ. á m. um dvöl þess og A í Sjallanum, en einnig er þeir fóru þaðan út og sáu fyrst til vitnisins D og ákærða milli skemmtistaðarins og Ráðhússins. Vitnið áréttaði að það hefði þekkt D fyrir, en einnig kvaðst það hafa kannast við ákærða í sjón, en ekki þekkt hann með nafni. Vísaði vitnið til þess að það hefði áður séð mynd af ákærða, en auk þess þekkt marga félaga hans. Vitnið kvaðst því ekki hafa vitað nafn ákærða fyrr en það skoðaði Facebook-færslu hans síðar um nóttina. Vitnið bar að ákærði hefði verið íklæddur köflóttri skyrtu og ætlaði að hún hefði verið rauðleit. Vitnið vísaði þó til þess að það væri litblint: „... en ég var ekkert eitthvað að pæla í skyrtunni hans samt.“
Vitnið kvaðst við fyrrgreindar aðstæður nærri Ráðhúsinu hafa rætt við foreldra sína í síma, en þá heyrt fyrir aftan sig að A og D voru eitthvað að rífast. Vegna þessa kvaðst það hafa snúið sér við og sýnst sem svo að D væri að reyna að búa til eitthvert vesen. Vitnið kvaðst á sama tíma hafa séð að par var þarna nærri og að ákærði, Þórir Hlynur, var eitthvað að kýta við það.
Vitnið kvaðst aldrei hafa séð barsmíðar ganga á milli D og A í greint sinn og því aðeins heyrt frásögn þess síðarnefnda um það eftir atburðinn. Vitnið bar að atgangur D og A við [ ] hefði varað í 5 til 7 mínútur, en á því tímabili kvaðst það hafa lokið símtali sínu og farið til þeirra og rætt við þá í þeim tilgangi að stía þeim í sundur. Vitnið bar að er það gerðist hefði ákærði bæst í hópinn og því hefðu þeir í raun verið „allir saman bara á einum fermetra ...“. Vitnið sagði að ákærði hefði viðhaft einhver orð við D, en ekki heyrt almennilega orðaskil, en í framhaldi af því fylgst með því er ákærði hefði tekið snúning eða sveiflu og barið A af fullu afli í andlitið; „hérna á kjálkann einhversstaðar, bara í andlitið í rauninni sko, hægri ...“. Vitnið staðhæfði að það væri alveg hundrað prósent öruggt um að það hefði verið ákærði sem sló til A í greint sinn; „já 120%,“ og vísað m.a. til þess að á vettvangi hefði verið lýsing. Vitnið kvaðst enga skýringu hafa á barsmíð ákærða og sagði að atlaga hans hefði verið alveg tilefnislaus.
Vitnið áréttaði að er atvik gerðust hefði það ekki verið ölvað, en ályktaði að svo hefði verið ástatt með ákærða og D. Eftir barsmíð ákærða kvaðst vitnið hafa fylgst með því hvar hann gekk af vettvangi ásamt D og bar að þeir hefðu farið í átt að Sjallanum. Vitnið sagði að fyrst eftir hnefahöggið hefði A verið án meðvitundar, en síðan reynt að standa á fætur. Vitnið kvaðst við komu lögreglu hafa skýrt frá málavöxtum, en síðan haldið áfram skemmtan sinni í miðbænum og þá jafnframt haldið áfram neyslu áfengis. Kvaðst vitnið m.a. hafa lagt leið sína á ný í Sjallann, en ef til vill einnig litið við á öðrum skemmtistöðum í miðbænum. Vitnið staðhæfði að í Sjallanum hefði það séð ákærða á nýjan leik og kvaðst það þá hafa spurst fyrir um hann og fengið upp nafn hans. Vitnið kvaðst hafa veitt því eftirtekt að ákærði var í fylgd pilts og ætlaði að það hefði verið félagi hans, E.
Vitnið C, fæddur [ ], skýrði frá því í skýrslu sinni hjá lögreglu að það hefði farið á dansleik í Sjallann í miðbæ Akureyrar á nýársnótt 2012. Þá um nóttina kvaðst vitnið m.a. hafa verið með félaga sínum við salerni skemmtistaðarins, en vegna troðnings þar hefðu þeir ákveðið að fara út og að Ráðhúsinu þar skammt frá. Vitnið sagði að félagi þess hefði tafist á leiðinni og því ekki fylgt því eftir. Vitnið kvaðst hafa lagt leið sína yfir bifreiðastæðið vestan Ráðhússins og að girðingu við lóðir að húsum við Laxagötu. Við greindar aðstæður kvaðst vitnið hafa veitt því eftirtekt að á bifreiðastæðinu nærri Ráðhúsinu voru fjórir strákar með ýtingar. Það kvaðst hafa þekkt tvo þeirra, þá A og D. Vitnið sagði að D hefði verið í fylgd einhvers stráks sem það kannaðist ekki við og bar að sá aðili hefði verið í brettafatnaði, þ.e. brettabuxum og of stórri hettupeysu og með röndótta húfu. Vitnið kvaðst hafa veitt því eftirtekt að Dvar að ýta við A, en jafnframt heyrt orðræðu hans um að A ætti að hætta að vera svona harður og eitthvað fleira í þeim dúr. Vitnið bar að nefndur félagi D hefði snúið baki að því þar sem það stóð upp við fyrrgreinda girðingu. Vitnið kvaðst ekki hafa séð D veitast að A með barsmíðum og bar að frekar hefði verið um einhvers lags stimpingar að ræða. Vitnið sagði að á meðan á þessum atgangi D stóð hefði nefndur félagi hans staðið þar hjá. Þannig hefði D verið vinstra megin við A en hinn óþekkti aðili verið meira hægra megin við hann. Vitnið sagði að atvik hefðu síðan æxlast þannig að er A og D hefðu stigið frá hvor öðrum hefði félagi D slegið A upp úr þurru, frá hægri hliðinni, með þeim afleiðingum að hann féll á götuna. Eftir þetta kvaðst vitnið hafa fylgst með því er A forðaði sér af vettvangi á fjórum fótum í átt að íþróttavellinum, en félagi hans fylgt honum eftir. Á sama tíma kvað vitnið D og félaga hans hafa gengið suður Geislagötu, í átt að miðbænum.
Fyrir dómi lýsti nefnt vitni, C, atvikum máls með líkum hætti og hér að framan var rakið og þar á meðal ferð sinni ásamt félögum í skemmtistaðinn Sjallann á nýársnótt 2012. Vitnið kvaðst hafa neytt áfengis á gamlárskvöldi en ekki bætt á sig eftir komu þess á skemmtistaðinn. Vitnið ætlaði að það hefði verið um klukkan 3 um nóttina sem það hefði farið ásamt félaga sínum að salerni, en þar sem þar hefði verið mikil biðröð hefðu þeir ákveðið að fara út fyrir, en þar kvaðst það hafa orðið viðskila við félaga sinn. Kvaðst vitnið hafa lagt leið sína að Ráðhúsinu og síðan gengið þar yfir bifreiðastæði og að girðingunni við Laxagötu. Eftir það kvaðst vitnið hafa fylgst með þeirri atburðarás sem þar varð í um 5 mínútur. Vitnið bar að á bifreiðastæðinu hefðu verið fyrir fjórir piltar, en það kvaðst hafa þekkt í sjón þá A og D. Vitnið bar að með þeim hefðu verið tveir aðrir piltar. Vitnið kvaðst í upphafi hafa fylgst með ýfingum A og D, en sagði að fimmti aðilinn hefði einnig komið við sögu í skamma stund. Vitnið kvaðst hafa ályktað að D hefði hótað þessum fimmta aðila þar sem hann hefði farið af vettvangi og ekki komið meira við sögu. Vitnið kvaðst hafa fylgst með atburðarásinni í um 10 metra fjarlægð og áréttaði að á vettvangi hefðu aðeins verið fyrrnefndir fjórir piltar. Vitnið kvaðst hafa greint lögreglu frá atvikum máls í skýrslu sinni hjá lögreglu á sínum tíma og staðhæfði að þá hefði það munað atburðarásina betur.
Nánar aðspurt fyrir dómi kvaðst vitnið hafa veitt því eftirtekt að D var að ýta í A og hafi sér virst á þeirri stundu sem A væri hræddur við hann, en lýsti því nánar þannig: „Hann var bara að ýta eitthvað í hann og þú veist ég sá ekki meira en það sko.“ Vitnið sagði að A og D hefðu rifist, en það kvaðst ekki hafa heyrt orðaskil. Vitnið kvaðst ekki hafa séð D slá til A í greint sinn. Vitnið áréttaði að með D hefði verið ungur maður, en það kvaðst ekkert hafa þekkt til hans eða séð hann áður. Vitnið bar að þessi óþekkti aðili hefði ekki verið með nein sérkenni, en það lýsti honum nánar þannig: „... ég sá bara einhvern skilurðu snoðaðan gaur minnir mig í hettupeysu og gallabuxum eða eitthvað ... eða ef til vill húfu ...“. Vitnið kvaðst hafa fylgst með þessum atgangi D gagnvart A í um 5 mínútur, en áréttaði að á vettvangi hefði einnig verið félagi A. Vitnið lýsti atvikum máls eftir þetta með eftirfarandi hætti: „... og þá kemur þessi sem er með D og sem sagt A greinilega tekur ekki eftir honum eða eitthvað sko því hann nær bara almennilegu höggi í andlitið á honum skilurðu ... hérna í kinnina sko eða þú veist einhversstaðar kjálkann eða eitthvað ... þokkalega fast myndi ég telja, sko allavega þannig að hann sló hann í jörðina og þú veist hann var ekkert að standa í lappirnar eftir þetta sko, hann skreið einhvern veginn þarna burtu bara.“ Nánar aðspurt kvaðst vitnið vera 100% öruggt um að það hafi ekki verið D sem sló A með lýstum hætti og áréttaði að það hafi greinilega séð að hnefahöggið kom frá fyrrnefndum félaga D. Vitnið bar að eftir þetta hefði félagi A komið honum til aðstoðar, en að D og nefndur félagi hans hefðu farið af vettvangi og gengið suður Geislagötuna, í átt að Sjallanum og miðbænum. Vitnið kvaðst ekki hafa skipt sér frekar af málum heldur hitt fyrrgreindan félaga sína á nýjan leik.
Vitnið D, fæddur [ ], skýrði frá því í skýrslu sinni hjá lögreglu að hann hefði byrjað áfengisneyslu á gamlárskvöldi um klukkan 22:00 og bar að þá um nóttina hefði það verið mjög ölvað. Vitnið kvaðst minnast þess að umrædda nótt hefði það verið að rífast við vitnið B vestan við Ráðhúsið, nærri tröppum, en jafnframt minnast þess að hafa verið að rífast við A. Vitnið tók fram að það hefði þekkt vitnið B. Vitnið skýrði frá því að þegar það átti þessi viðskipti við A og B við Ráðhúsið hefði verið í fylgd með því ákærði, Þórir Hlynur. Vitnið kvaðst í raun ekki hafa þekkt ákærða á þessum tíma og þá aðeins í gegnum félaga sinn, en þeir hefðu allir tengst vetraríþróttum. Vitnið áréttaði að þeir fjórir hefðu verið þarna á vettvangi þegar atvik gerðust. Vitnið kvaðst minnast þess að ýtingar hefðu verið með því og A og ætlaði að þeir hefðu ef til vill hrækt hvor á annan. Vitnið kvaðst raunar ekki minnast þessa gjörla sökum eigin ölvunar. Vitnið sagði að í þessum atgangi hefði ákærði, Þórir Hlynur, greinilega kýlt A, en nánar aðspurt af rannsakanda kvaðst það þó ekki hafa séð þá barsmíð með eigin augum.
Fyrir dómi skýrði vitnið D frá því að á gamlárskvöldi 31. desember 2011 hefði það farið í áramótateiti á heimili vitnisins F að [ ] í Glerárhverfi. Vitnið bar að þar hefði verið margt gesta og m.a. vitnið E og ákærði í máli þessu, Þórir Hlynur. Vitnið kvað nefnda aðila, líkt og margir aðrir sem voru í þessu teiti, hafa tengst vetraríþróttum. Er atvik gerðust kvaðst vitnið hafa kannast við ákærða vegna nefnds félagsskapar, en bar að það hefði kynnst honum mun betur síðar og væri hann nú meðal vina þess.
Vitnið skýrði frá því að það hefði verið mjög ölvað er veislugestir lögðu leið sína í miðbæ Akureyrar nefnda nýársnótt og af þeim sökum kvaðst það lítt geta greint frá gjörðum sínum. Vitnið kvaðst minnast þess að hafa farið úr teitinu með einhverjum strákunum, en treysti sé ekki til að nafngreina þá, en sagði að þeir hefðu farið út úr bifreið nærri skemmtistaðnum Sjallanum og Ráðhúsinu og sagði: „Ég fór í Sjallann, ég veit ekkert hvert strákarnir fóru.“
Nánar aðspurt kvaðst vitnið hafa „lent í einhverjum svona kýting við A, svona ýtingum og rifrildi ... ég man ekki hver af strákunum, það voru strákarnir bara með mér, ég man ekki hverjir, get ekki nefnt nafn.“ Aðspurt kvaðst vitnið á þessum tíma hafa kannast við vitnið B en hins vegar aldrei séð A. Vitnið áréttaði að í greint sinn hefði það verið mjög ölvað og af þeim sökum væru minnisglöp hjá því um atburðarásina. Vitnið kvaðst þannig ekki minnast þess hver ástæðan var fyrir ýfingum þess og A, en ætlaði að þar hefði verið á ferðinni „einhver fylleríisvitleysa ... mig rámar í það, man ekki mikið, ég man að við vorum eitthvað að rífast og ýtast og hræktum á hvern annan og eitthvað svona.“ Vitnið sagði að lýst viðskipti þess við A hefðu gerst skammt frá Sjallanum, nánar tiltekið á bifreiðastæði vestan við Ráðhúsið. Í ýfingunum kvaðst vitnið ekki hafa kýlt A í andlitið.
Fyrir dómi kvaðst vitnið minnast þess að með A í greint sinn hafi verið fyrrnefndur B, en það kvaðst í raun ekki hafa munað eftir honum þegar það gaf skýrslu sína hjá lögreglu daginn eftir. Þá kvaðst vitnið heldur ekki minnast þess að ákærði, Þórir Hlynur, hefði verið á vettvangi í greint sinn. Loks kvaðst það ekki minnast þess hvernig viðskiptum þess og A lauk, en eftir það kvaðst það hafa farið í Sjallann og haldið skemmtan sinni áfram, en haldið til síns heima um morguninn, um klukkan 7-8, að það ætlaði. Nánar aðspurt kvaðst vitnið oft hafa hitt ákærða fyrir greindan atburð í tengslum við tiltekna vetraríþrótt. Vitnið áréttaði að það hefði þó kynnst ákærða mun betur síðar og bar að þeir hefðu orðið vinir. Kvaðst vitnið m.a. hafa náð í ákærða á flugvöllinn fyrir aðalmeðferð málsins.
Vitnið sagði að það minntist þess ekki að hafa verið með félögum sínum er það leit við í skemmtistaðnum Sjallanum nýársnótt, en eftir næturlanga skemmtan kvaðst það hafa vaknað daginn eftir við símhringingu lögreglu og í framhaldi af því farið á lögreglustöðina og gefið áðurrakta skýrslu. Vegna ástands síns kvaðst vitnið hafa þegið boð lögreglu um að það yrði sótt til skýrslutökunnar og lýsti nánar ástandi sínu þannig: „... ég meina ég er enn ölvaður, ég myndi ekki segja að ég væri orðinn edrú eftir 4, 5 tíma svefn.“
Fyrir dómi var vitninu kynnt samantekt rannsakara af áðurrakinni skýrslu þess hjá lögreglu þann 1. janúar 2012, klukkan 11:41 til 13:47. Vitnið áréttaði frásögn sína um að það myndi ekki eftir því að ákærði Þórir Hlynur hefði verið með því á vettvangi vestan Ráðhússins, er það átti í viðskiptum við A umrædda nótt og sagði: „Ég get ekki sagt það, þá hef ég verið að skýra rangt frá ... ég hef verið að skýra rangt frá, því að ég man ekki eftir að Þórir hafi verið með mér.“ Vitnið kvaðst ekki hafa skýringar á þeim vitnisburði sem það hafði gefið hjá lögreglu.
Fyrir dómi var vitninu kynnt hljóðritun af fyrrgreindri skýrslu þess hjá lögreglu og þá einnig með vísan til þess að „hann hafi verið hálf fullur“ þegar það gaf hana. Eftir að hafa hlýtt á hljóðritunina kvaðst vitnið ekki andmæla efni skýrslunnar að því er varðaði viðveru ákærða á ætluðum brotavettvangi og sagði nánar þar um: „Ég ætla ekki að halda því fram að hann hafi ekki verið þarna, ég man ekki eftir að hann hafi verið þarna, ég man ekki hvað ég sagði í þessari skýrslutöku nema bara eitt og eitt, ég man ekki heild. Ég man að ég fór þarna uppeftir jú ... ég get ekki sagt það eða þú veist hvort hún (skýrslan) sé röng ... ég veit það ekki, ég man eins og ég segi ég man ekki hvað ég sagði þegar að ég fór þarna uppeftir ( á lögreglustöðina) og ég er ekki að taka fyrir það að hann hafi ekki verið með mér. Ég man ekki hvort að hann hafi verið með mér eða ekki þegar ég hugsa til baka ... ég man ekki hvað ég sagði, þannig að ég get ekki rengt þetta, sagt að þetta sé rangt.“ Fyrir dómi voru sérstaklega borin undir vitnið upphafsorð þess samkvæmt hinni hljóðrituðu skýrslu þar sem fram kemur að það hafi farið úr áðurnefndu gamlársteiti með leigubifreið í miðbæinn og að þá hafi ákærði verið með honum. Vitnið svaraði: „Já það er það sem að ég sagði greinilega í upptöku lögreglu.“
Vitnið H, sérfræðingur í skurðlækningum á Sjúkrahúsinu á Akureyri, staðfesti efni áðurrakins vottorðs, dagsetts 22. febrúar 2012, um áverka brotaþolans, A. Vitnið bar að samkvæmt röntgenmyndum hefði áverki brotaþola á kjálka verið „alveg hreint og klárt brot, nýtt brot ... þetta gerist við eitt ákveðið högg, hvort að það er sterkara eða minna en önnur högg gerðu ...“ Vitnið vísaði til þess að brotaþoli hefði við komu á sjúkrahúsinu borið merki um fleiri ákomur á andlitið. Vitnið staðhæfði að kjálkaáverki brotaþola hefði ekkert tengst hinu alvarlega slysi sem hann varð fyrir í september 2011.
Vitnið G, rannsóknarlögreglumaður, lýsti aðgerðum sínum á nýársdag 2012 með líkum hætti og hér að framan hefur verið rakið. Vitnið bar að það hefði haft uppi á ákærða í máli þessu eftir að vitnið B lét því í té ljósmynd sem tekin hafði verið af Facebook og í framhaldi af því boðað ákærða og vitni á lögreglustöð. Vitnið sagði að við komu ákærða á lögreglustöðina hefði verið áfengislykt af honum, en staðhæfði að hann hefði verið vel meðvitaður um gjörðir sínar, að öðrum kosti kvaðst vitnið ekki hafa yfirheyrt hann um málsatvik og ætlaðar sakir. Hefði það sama gilt um vitnin. Vitnið benti og á að önnur skýrsla hefði verið tekin af ákærða síðar þennan dag. Vegna þess sem fram hafi komið hjá vitnum við frumrannsókn kvaðst vitnið hafa farið ásamt ákærða í vistarverur hans og tekið myndir af flekkóttri skyrtu og tiltekinni húfu, en ekki leitað að öðrum fatnaði í tösku ákærða. Vitnið kvaðst við frumrannsóknina jafnframt hafa tekið ljósmyndir af höndum ákærða og dró ekki í efa að það hafi verið gert samkvæmt beiðni ákærða, enda þótt slíkt væri venja í líkamsárásarmálum. Um nefndar myndir, sem fyrst voru lagðar fram við meðferð málsins fyrir dómi eftir ábendingu ákærða og verjanda hans sagði vitnið: „... sem sagt upphleypt og rauðleitt, það er svo sem ekkert hægt að sjá neitt, myndirnar tala sínu máli“. Vitnið kvaðst ekki minnast þess að ákærði hefði heimilað að sækja mætti gögn á bankareikning hans, það kvaðst einfaldlega ekki minnast þess, og bar að það hefði að minnsta kosti ekki verið gert.
III.
Í máli þessu er ákærða gefin að sök líkamsárás, með því að hafa síðla nætur á nýársnótt 1. janúar 2012, á bifreiðaplani við Ráðhúsið á Akureyri, Geislagötu 9, slegið A hnefahögg í andlitið, með þeim afleiðingum að hann kjálkabrotnaði, eins og nánar er lýst í ákæru.
Við alla meðferð málsins hefur ákærði neitað sök.
Fyrir liggur að ákærði var í áramótagleðskap ásamt vinum sínum og félögum í heimahúsi, og að hann hélt áfram gleðskap sínum í miðbæ Akureyrar þá um nóttina, ekki síst á skemmtistaðnum Kaffi Akureyri. Hefur ákærði borið að hann hafi hitt vitnið D í áramótateiti í heimahúsi, en ekki fylgst með honum eftir það og þar á meðal ekki er hann átti í viðskiptum við brotaþola, en einnig vitnið B skammt norðan skemmtistaðarins Sjallans og nærri Ráðhúsinu á Akureyri.
Leggja ber til grundvallar í málinu, ekki síst í ljósi samhljóða framburða brotaþola og vitnanna D, B og C, að komið hafi til atgangs millum vitnisins D annars vegar og hins vegar brotaþola, en einnig að nokkru B, skammt norðan skemmtistaðarins Sjallans í Geislagötu. Samkvæmt frásögn þeirra færðist atgangurinn til nokkurn spöl og lauk á bifreiðastæði vestan Ráðhússins við sömu götu.
Samkvæmt frásögn brotaþola hlaut hann vegna viðskiptanna við D áverka á vinstri augabrún, en einnig aðra minni háttar áverka í andliti. Aðaláverka sinn, kjálkabrotið, kvaðst brotaþoli hins vegar hafa fengið vegna þungs hnefahöggs, sem hann fékk frá fjórða aðilanum, sem einnig var á vettvangi, á bifreiðastæðinu vestan Ráðhússins. Brotaþoli hefur staðhæft að skömmu eftir atgang þennan hafi hann séð mynd af þessum fjórða aðila, sem vinur hans, vitnið B, hafði aflað. Brotaþoli hefur staðfastlega borið að þar hafi hann þekkt ákærða í máli þessu fyrir greindan fjórða aðila, sem var á vettvangi. Brotaþoli hefur jafnframt borið að ákærði hafi verið fylgdarmaður vitnisins D í greint sinn.
Samkvæmt vætti vitnisins B þekkti það til ákærða fyrir lýstan atgang við Ráðhúsið og hefur það við alla meðferð málsins staðfastlega borið að það hafi verið ákærði sem var í fylgd vitnisins D í greint sinn. Fyrir liggur að vitnið afhenti lögreglu við frumrannsókn málsins mynd af ákærða, sem það hafði tekið af svokallaðri Facebook, en þannig kvaðst það hafa staðreynt nafn ákærða.
Vitnið Dbar í vitnaskýrslu sinni hjá lögreglu daginn eftir atburðinn, að ákærði hefði verið í fylgd þess er það átti í útistöðum við brotaþola í greint sinn. Vitnið lýsti hins vegar minnisglöpum þar um fyrir dómi sökum áfengisdrykkju umrædda nótt. Vitnið staðfesti engu að síður frásögn sína hjá lögreglu rétta eftir að hafa hlýtt á hljóðritun af lögregluskýrslu sinni fyrir dómi.
Að mati dómsins er frásögn vitnisins B trúverðug um viðveru ákærða á vettvangi, en einnig er hún samhljóða skýrslu vitnisins D hjá lögreglu. Þá er frásögn þeirra í samræmi við áðurrakinn framburð brotaþola. Að auki er að áliti dómsins góður samhljómur með frásögn vitnisins B, brotaþola og vitnisins C að því er varðar klæðaburð ákærða margnefnda nótt, sbr. og framlagðar ljósmyndir.
Að ofangreindu virtu er að áliti dómsins eigi varhugavert að telja sannað, þrátt fyrir neitun ákærða, að ákærði hafi verið á brotavettvangi í umrætt sinn og þá í fylgd vitnisins D.
Fyrir dómi hefur vitnið B skilmerkilega lýst hnefahöggi ákærða og afleiðingum þess. Frásögn vitnisins er í samræmi við trúverðugan framburð vitnisins C og brotaþola, en að auki hefur hún stoð í frásögn vitnisins D hjá lögreglu, svo og staðfestu læknisvottorði. Að þessu virtu er nægjanlega sannað að ákærði hafi gerst sekur um hina alvarlegu áverka sem brotaþoli varð fyrir, og sem honum eru gefnir að sök, og er háttsemi hans rétt lýst og færð til refsiákvæða í ákæru ákæruvalds.
IV
Ákærði, sem er tvítugur, hefur samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins áður gerst sekur um refsiverða háttsemi, en hann var þann 26. mars 2009 dæmdur í 60 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir líkamsárás. Ákærði var því 16 ára er hann framdi brotið. Vegna ungs aldurs á verknaðarstundu hefur þessi refsing ekki áhrif nú, sbr. ákvæði 71. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
Við ákvörðun refsingar ákærða í því máli sem hér er til umfjöllunar verður einkum litið til þess að atlaga hans gegn brotaþola var fólskuleg og tilefnislaus og olli umtalsverðu heilsutjóni, sbr. 1. tl. 70. gr. hegningarlaganna. Þá hefur ákærði enga iðran sýnt. Þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í fjóra mánuði. Með hliðsjón af ungum aldri ákærða á verknaðarstundu, en einnig sökum þess að nokkur dráttur varð á meðferð málsins hjá lögreglu og ákæruvaldi, þykir eftir atvikum fært að fresta fullnustu refsingarinnar með þeim hætti sem í dómsorði greinir.
Þorsteinn Hjaltason héraðsdómslögmaður hefur fyrir hönd brotaþola, A, krafðist skaða- og miskabóta, sbr. endanleg kröfugerð hans fyrir dómi
Bótakrafan var fyrst lögð fram hjá lögreglu, en hún er dagsett 4. október 2012. Krafan var birt ákærða eftir að lögreglustjórinn á Akureyri hafði gefið út ákæru sína 14. mars 2013, þann 10. apríl sama ár. Endanleg og lækkuð krafa brotaþola var lögð fram við aðalmeðferð málsins, 29. maí sl., að fjárhæð 1.704.101 króna, og var hún þá rökstudd frekar. Krafan er og sundurliðuð. Er í fyrsta lagi um að ræða miskabætur að fjárhæð 1.100.000 krónur, í öðru lagi er krafist endurgreiðslu á reikningum vegna meðferðar á kjálkabroti og tannviðgerðar, samtals að fjárhæð 269.940 krónur. Í þriðja lagi er gerð krafa á reikningum vegna lyfjakaupa, sjúkraflutnings, komugjalda á sjúkrahús og heilsugæslu og vottorðs, að fjárhæð 61.005 krónur, og í fjórða lagi vegna ferðakostnaðar vegna ítrekaðra ferða til sérfræðilækna í Reykjavík, m. a. vegna eldsneytis, 30.016 krónur, gjalds vegna ferða um Hvalfjarðargöng, 2.000 krónur, vegna gistingar, 5.000 krónur, og vegna kílómetragjalds og aðstoðar, 155.400 krónur, eða samtals 192.416 krónur. Loks er krafist málskostnaðar vegna lögmannsþjónustu við gerð bótakröfu og málflutnings við aðalmeðferðar málsins, að fjárhæð 376.500 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti.
Bótakröfunni er mótmælt af hálfu ákærða, þar á meðal sem of hárri.
Ákærði hefur verið sakfelldur fyrir líkamsárás gagnvart brotaþola. Ber ákærði bótaábyrgð samkvæmt almennri sakarreglu skaðabótaréttar á tjóni brotaþola. Verður tekin afstaða til kröfunnar, eins og henni er lýst í ákæru.
Að ofangreindu virtu verður fallist á að ákærði verði dæmdur til að greiða reikninga brotaþola vegna annars og þriðja liðar hér að ofan, samtals að fjárhæð 411.895 krónur. Krafa brotaþola vegna ferðakostnaðar er að nokkru rökstudd m.a. með reikningi, en auk þess liggur fyrir, sbr. m.a. áðurrakin læknisvottorð, að honum var nauðsynlegt að leita til sérfræðinga í Reykjavík vegna áverka sinna. Að þessu virtu og með hliðsjón af andmælum ákærða verður fallist á nokkurn hluta fjórða liðar, og að álitum, með 112.000 krónum. Fallist er á að ákærði hafi bakað sér skyldu til að greiða miskabætur samkvæmt 26. laga nr. 50, 1993 um skaðabætur. Ákveðast þær eftir atvikum 400.000 krónur. Um vexti fer sem í dómsorði greinir.
Þá verður ákærði dæmdur til að greiða brotaþola málskostnað að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og í dómsorði greinir.
Ákærði greiði sakarkostnað ákæruvalds samkvæmt sakarkostnaðaryfirliti, 64.555 krónur, en að auki málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, að teknu tilliti til virðisaukaskatts, en einnig útlagðan ferðakostnað, eins og í dómsorði greinir.
Málið flutti Eyþór Þorbergsson fulltrúi af hálfu ákæruvalds, Helga Vala Helgadóttir héraðsdómslögmaður, skipaður verjandi ákærða, og Þorsteinn Hjaltason héraðsdómslögmaður, lögmaður brotaþola.
Gætt var ákvæða 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88, 2008.
Ólafur Ólafsson héraðsdómari kveður upp dóminn.
D Ó M S O R Ð:
Ákærði, Þórir Hlynur Ríkharðsson, sæti fangelsi í fjóra mánuði, en fresta skal fullnustu refsingar og falli hún niður að liðnum þremur árum frá uppsögu dómsins að telja, haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22, 1955.
Ákærði greiði A 923.295 krónur í miska- og skaðabætur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38, 2001, frá 1. janúar 2012 til 10. maí 2013, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá greiði ákærði A 188.250 krónur í kostnað vegna lögmannsþjónustu.
Ákærði greiði 544.731 krónu í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Helgu Völu Helgadóttur héraðsdómslögmanns, 345.125 krónur og 135.056 krónur vegna útlagðs ferðakostnaðar.