Hæstiréttur íslands

Mál nr. 115/2002


Lykilorð

  • Kærumál
  • Litis pendens áhrif
  • Kröfugerð
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi


Mánudaginn 18

 

Mánudaginn 18. mars 2002.

Nr. 115/2002.

Heimilistæki hf.

(Björn L. Bergsson hrl.)

gegn

Bjarna Ágústssyni og

Haraldi Hjartarsyni

(Jón Steinar Gunnlaugsson hrl.)

 

Kærumál. Litis pendens áhrif. Kröfugerð. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.

Hæstiréttur felldi úr gildi úrskurð héraðsdóms um að vísa frá máli H hf. gegn B og H. Úrskurðurinn var reistur á því að kröfur H hf. væru hinar sömu og félagið hefði uppi sem gagnkröfur í málum sem B og H höfðu hvor í sínu lagi höfðað á hendur félaginu. Í dómi Hæstaréttar kemur fram að H hf. hafði engar kröfur gert í málum B og H á hendur félaginu þegar mál þess á hendur B og H var þingfest. Þegar af þessum sökum séu ákvæði 4. mgr. 94. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála því ekki til fyrirstöðu að héraðsdómari taki málið til efnismeðferðar.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. mars 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. febrúar 2002, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og þeim dæmdur málskostnaður í héraði ásamt kærumálskostnaði.

I.

Málið á rætur að rekja til starfsloka varnaraðila hjá sóknaraðila. Vegna þessa höfðuðu varnaraðilar hvor í sínu lagi mál á hendur sóknaraðila 23. ágúst 2001, þar sem þeir kröfðu sóknaraðila annars vegar um skaðabætur, sem næmu þriggja mánaða launum, og hins vegar um svonefndar bónusgreiðslur. Voru málin þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur 4. september 2001 og sóknaraðila veittur frestur til að leggja fram greinargerðir. Það gerði hann á dómþingi 13. nóvember sama árs. Áður en til þess kom höfðaði sóknaraðili mál þetta á hendur varnaraðilum 12. október 2001. Í málinu krefst hann þess að þeir verði dæmdir til að greiða sér skaðabætur vegna saknæmrar og ólögmætrar háttsemi í starfi hjá sér. Krefst sóknaraðili þess aðallega að varnaraðilum verði gert að greiða sér óskipt 6.000.000 krónur, en til vara að ábyrgð þeirra verði skipt þannig að varnaraðilinn Bjarni Ágústsson verði dæmdur til að greiða sér 733.917 krónur, en varnaraðilinn Haraldur Hjartarson 660.000 krónur. Var málið þingfest á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur 16. október 2001.

Í greinargerðum sóknaraðila í áðurnefndum málum varnaraðila gegn honum krafðist hann aðallega sýknu af kröfum þeirra, en til vara að þær yrðu lækkaðar. Kom þar fram að krafa sóknaraðila um sýknu væri reist á því að varnaraðilar hefðu með saknæmri og ólögmætri háttsemi glatað rétti sínum til launa í uppsagnarfresti. Þá lýsti sóknaraðili yfir skuldajöfnuði við kröfur varnaraðila með kröfu sinni um skaðabætur úr hendi þeirra.

Með hinum kærða úrskurði var máli sóknaraðila gegn varnaraðilum vísað frá dómi á þeim grundvelli að kröfur hans væru reistar á sömu málsástæðum og kröfur hans í málum varnaraðila á hendur honum, auk þess sem kröfur hans í þeim málum væru hinar sömu, að því er snerti gagnkröfur hans til skuldajafnaðar, og varakrafa hans í þessu máli. Samkvæmt þessu taldi héraðsdómari að sóknaraðili gæti ekki krafist dóms um kröfur sínar meðan málum varnaraðila á hendur honum væri ólokið, sbr. 4. mgr. 94. gr. laga nr. 91/1991.

II.

Í 4. mgr. 94. gr. laga nr. 91/1991 segir að þegar mál hefur verið þingfest verði dóms ekki krafist um þær kröfur, sem eru gerðar í því, í öðru máli. Ef dóms er krafist þannig um kröfu í öðru máli skal vísa henni frá dómi. Eins og að framan er rakið hafði sóknaraðili engar kröfur gert í málum varnaraðila á hendur honum þegar mál þetta var þingfest í héraði 16. október 2001. Þegar af þessum sökum eru ákvæði 4. mgr. 94. gr. laga nr. 91/1991 því ekki til fyrirstöðu að héraðsdómari taki mál þetta til efnismeðferðar. Þá verður heldur ekki fallist á að aðrar ástæður, sem varnaraðilar bera fyrir sig, leiði til þess að málinu verði vísað frá héraðsdómi.

Samkvæmt framansögðu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

Varnaraðilar verða dæmdir til að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

Varnaraðilar, Bjarni Ágústsson og Haraldur Hjartarson, greiði í sameiningu sóknaraðila, Heimilistækjum hf., 75.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. febrúar 2002.

I

Mál þetta var höfðað 12. október 2001 og tekið til úrskurðar um frávísunarkröfu stefndu 28. janúar sl. Stefnandi er Heimilistæki hf. kt. 640979-0389, Sætúni 8, Reykjavík en stefndu Bjarni Ágústsson kt. 290645-7199, Fjarðarseli 23, Reykjavík og Haraldur Hjartarson kt. 140547-4689, Dísarási 15,  Reykjavík.

Stefnandi krefst þess aðallega að stefndu verði dæmdir in solidum til greiðslu skaðabóta að fjárhæð 6.000.000 króna með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá 16. október 2001 til greiðsludags.  Til vara krefst hann þess að stefndu verði dæmdir pro rata til greiðslu skaðabóta, stefndi Bjarni til greiðslu 733.917 króna og stefndi Haraldur til greiðslu 660.000 króna í báðum tilvikum með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá 16. október 2001 til greiðsludags.

Stefndu gera þær dómkröfur aðallega að kröfum stefnanda verði vísað frá dómi.  Til vara gera þeir kröfu um að aðalkröfu stefnanda verði vísað frá dómi og til þrautavara að þeir verði sýknaðir af öllum kröfum stefnanda.  Þá gera stefndu kröfu um málskostnað í öllum tilvikum.

Hinn 28. janúar 2002 fór fram munnlegur málflutningur um frávísunarkröfu stefndu og er einungis sá þáttur málsins hér til úrlausnar.  Dómkröfur stefnanda í þessum þætti málsins eru þær að frávísunarkröfunni verði hrundið og honum dæmdur málskostnaður úr hendi stefndu.

II

Málavextir eru þeir að stefndu störfuðu hjá stefnanda í deild sem annaðist um sölu eftirlits- og öryggiskerfa.  Í störfum sínum voru þeir í tengslum við erlenda birgja sem stefnandi seldi búnað fyrir hér á landi, í ýmsum tilvikum sem einkaumboðsaðili þeirra.  Sáu stefndu um pantanir á búnaði frá útlöndum auk þess sem þeir öfluðu tilboða frá birgjunum vegna tilboða sem stefnandi gerði viðskiptamönnum sínum.

Sem hluti af endurskipulagningu á starfsemi stefnanda um áramótin 1999/2000 kom til álita að fyrirtækið léti af starfsemi á sviði eftirlits- og öryggiskerfa.  Ræddar voru slíkar hugmyndir en ekkert afráðið í þeim efnum.  Niðurstaðan varð síðan sú að halda starfseminni áfram óbreyttri hvað þetta varðaði.

Stefnandi heldur því fram að stefndu hafi verið kunnugt um þessar hugleiðingar og hafi þeir talið að lag væri að sölsa þessa starfsemi undir sig.  Hafi þeir í því skyni stofnað fyrirtækið Topptækni ehf. og hafi stofnfundur þess félags verið haldinn 4. febrúar 2000.  Hafi stefndu dregið dul á aðgerðir þessar og stefndi, Bjarni, látið undir höfuð leggjast að segja starfi sínu lausu.  Stefndi, Haraldur, hafi hins vegar gert það hálfum mánuði eftir stofnun fyrirtækis stefndu.  Heldur stefnandi fram að stefndu hafi síðan nýtt sér aðstöðu sína í starfi hjá stefnanda, í þágu hins nýstofnaða félags, með upplýsingum og trúnaðargögnum sem þeir höfðu aðgang að í starfi sínu.  Þegar stefnanda hafi síðan borist upplýsingar um háttsemi stefndu hafi stefnda, Bjarna, verið sagt upp störfum þegar í stað og stefnda Haraldi vikið úr starfi og hafi þeir báðir horfið til starfa hjá fyrirtæki sínu.

Stefndu kveðast hafa verið í viðræðum við stefnanda um framtíð sína hjá fyrirtækinu og hafi þeir í þeim viðræðum lýst yfir áhyggjum sínum af þróun mála innan fyrirtækisins, en fjöldi starfsmanna hafi hætt störfum á skömmum tíma.  Hafi lítið sem ekkert komið út úr þeim viðræðum og hafi stefndi, Bjarni, sagt upp starfi sínu hjá stefnanda þann 9. febrúar 2000 og hafi stefndu stofnað fyrirtækið Topptækni ehf. þann 10. febrúar sama ár, en stofnfundargerðin verið dagsett aftur í tímann, eða þann 4. febrúar 2000.  Þann 18. febrúar 2000 hafi síðan stefndi, Haraldur, sagt upp og 21. febrúar 2000 hafi síðan forstjóri stefnanda tjáð þeim að nærveru þeirra væri ekki óskað framar og að þeir fengju ekki greidd frekari laun vegna þess mats stefnanda að stofnun stefndu á framangreindu félagi væri slíkur trúnaðarbrestur á starfsskyldum stefndu að hann réttlætti fyrirvaralausa riftun beggja vinnusamninganna.

Í kjölfar riftunar stefnanda á vinnusamningi aðila höfðuðu stefndu þessa máls þann 23. ágúst 2001 mál á hendur stefnanda þessa máls til greiðslu vinnulauna og skaðabóta og voru þau mál þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur 4. september sl.  Stefndi, stefnandi þessa máls, krefst sýknu í þeim málum en til vara lækkunar fjárkröfu.  Í málum þessum byggir stefnandi þessa máls á því að auk þess sem stefndu þessa máls hafi fyrirgert rétti til launa í uppsagnarfresti lýsi hann yfir skuldajöfnuði vegna skaðabótakröfu á móti kröfu um vangreiddan bónus. Telur stefnandi þessa máls að stefndu séu bótaskyldir sem nemi þriggja mánaða launum enda hafi þeir valdið honum fjártjóni með framgöngu sinni.

III

Stefnandi kveður að stefndu hafi borið að efna ráðningarsamning en hvorugum þeirra hafi verið sagt upp eða þeir sagt sjálfir upp þegar þeir hafi hafist handa við að stofna eigin fyrirtæki, sölsa undir sig trúnaðargögn frá stefnanda og leitast við að sannfæra erlenda birgja um að stefnandi hygðist ekki sinna sölu á vörum þeirra og boðið fram þjónustu fyrirtækis síns.  Kveður stefnandi trúnaðarskylduna eina helstu grundvallarskyldu starfsmanns í gagnkvæmu ráðningarsambandi.  Felist í þessu meðal annars að leggja rækt við hagsmuni vinnuveitanda og misfara ekki með gögn þau sem starfsmanni sé treyst fyrir.  Gegn þessum skyldum hafi stefndu brotið með ólögmætum hætti.

Liggi fyrir að stefndu hafi efnt til samkeppnisrekstrar við stefnanda er þeir voru enn í starfi hjá honum.  Þá liggi enn fremur fyrir að þeir hafi tekið undir sjálfa sig mikið magn mikilvægra gagna er varðað hafi viðskipti stefnanda og hafi í ýmsum tilvikum falið í sér viðskiptaleyndarmál sem stefnandi hafði brýna hagsmuni af að samkeppnisaðilar kæmu ekki höndum yfir.

Kveðst stefnandi hafa orðið fyrir beinu fjártjóni vegna framangreindrar háttsemi stefndu.  Þeir hafi náð að sölsa undir fyrirtæki sitt samninga sem þeir hafi unnið að á vegum stefnanda og náð samningum við erlenda birgja um að selja vörur þeirra, birgja sem stefnandi hafi haft umboð fyrir og séu stefndu skaðabótaskyldir vegna þess tjóns.

Varðandi varakröfu sína kveður stefnandi að leyst hafi verið úr því á vettvangi dómsmála að ólögmæt og saknæm brot atvinnurekanda á ráðningarsamningi skapi starfsmönnum sem fyrir slíku verði bótarétt úr hendi atvinnurekanda. Hafi bætur í slíkum tilvikum verið dæmdar á grundvelli meðalhófssjónarmiða og þá annaðhvort dæmdar að álitum eða beinlínis miðað við þriggja mánaða laun starfsmanns.  Þá sé fyrir því rótgróin dómvenja að starfsmaður sem stökkvi brott úr starfi án fyrirvara sé bótaskyldur gagnvart atvinnurekandanum sem nemi hálfum uppsagnarfresti.

Ráðningarsamningar séu gagnkvæmir samningar sem kveði á um gagnkvæm réttindi og skyldur aðila.  Geti það því ekki verið áhorfsmál að stefndu hafi með framgöngu sinni bakað sér bótaskyldu gagnvart stefnanda.

Byggir stefnandi á því að stefndu séu bótaskyldir gagnvart stefnanda sem nemi þriggja mánaða launum enda hafi þeir beinlínis valdið stefnanda fjártjóni með framgöngu sinni í starfi hjá stefnanda.  Hafi framganga þeirra í raun verið það alvarleg að það skapi tvímælalaust bótarétt sem nemi andvirði þriggja mánaða launa verði ekki á aðalkröfuna fallist.

Um greiðsluskyldu vísar stefnandi til meginreglna vinnuréttar um trúnaðarskyldur í gagnkvæmu ráðningarsambandi og meginreglna skaðabótaréttar og vinnuréttar um greiðslu skaðabóta vegna ólögmætra, saknæmra brota á gagnkvæmum ráðningarsamningi.  Um vexti vísar hann til III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 og um málskostnað til 130. gr. laga nr. 91/1991.

IV

Aðalkrafa stefndu byggir á því í fyrsta lagi að vegna litis-pendens áhrifa eigi að vísa kröfum stefnanda frá dómi með vísan til 4. mgr. 94. gr. laga nr. 91/1991.  Þann 4. september sl. hafi stefndu þingfest hvor í sínu lagi mál gegn stefnanda þessa máls og gert þær dómkröfur meðal annars að stefnanda þessa máls verði gert að greiða þeim skaðabætur vegna ólögmætrar riftunar á vinnusamningum.  Muni niðurstaða þeirra mála ráðast af því hvort talið verði að stefndu í þessu máli hafi vanefnt vinnusamninga sína með þeim hætti að riftun hafi verið lögmæt.

Hafi stefnandi í þessu máli uppi skaðabótakröfur á hendur stefndu vegna meintra brota á vinnusamningum þeirra.  Muni niðurstaða þessa máls meðal annars ráðast af því hvort talið verði að stefndu hafi vanefnt vinnusamninga sína með þeim hætti að riftun hafi verið lögmæt.

Sé um sömu atvik að ræða í málum þessum og sé verið að fjalla um sömu kröfur og málsástæður í þessu máli og í þeim málum sem þingfest voru  4. september sl.

Benda stefndu á að væri málum þessum ekki úthlutað til sama dómara gæti niðurstaðan orðið sú að einn dómari teldi vinnuveitandann eiga kröfu á starfsmennina en annar að starfsmennirnir ættu kröfur á vinnuveitandann.  Þessar niðurstöður væru þó byggðar í öllum meginatriðum á sömu málavöxtum, atburðum, málsástæðum og kröfum.

Verði ekki fallist á aðalkröfu stefndu á framangreindum grundvelli krefjast þeir til vara að vísa eigi aðalkröfu stefnanda frá vegna þess að hún sé of óákveðin og óljós til að dómur verði á hana lagður og brjóti þannig gegn ákvæðum d liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Þá byggja stefndu einnig á því að málsástæður stefnanda í aðalkröfu séu svo vanreifaðar og samhengi málsástæðna svo óljóst að vísa eigi aðalkröfu stefnanda frá dómi sbr. e  lið 1. mgr. 80. gr. og 1. mgr. 100. gr. laga nr. 91/1991.

Með aðalkröfu sinni brjóti stefnandi gegn meginreglunni um ákveðna og ljósa kröfugerð sem fram komi í d lið 1. mgr. 80. gr. laganna en þar segi að stefnandi skuli greina fjárhæð kröfu sinnar í stefnu.  Þó sé ein undantekning heimiluð því í sama lið segi að í stefnu megi krefjast bóta fyrir tiltekið skaðaverk án þess að greina frá fjárhæð bótakröfu ef enn sé óvíst um hana.  Þetta sé undantekningarregla sem skýra verði þröngt enda sé tilgangur hennar að mæta þörfum þeirra sem telji sig eiga skaðabótakröfu án þess að þeim sé enn fært að staðreyna fjárhæð hennar og hætta sé á fyrningu eða sambærilegum réttarspjöllum ef mál verði ekki höfðað þá þegar.

Viðurkenni stefnandi að hann hafi ekki hugmynd um hversu mikið hið meinta tjón sé og giski á einhverja tölu sem sé óheimilt samkvæmt íslenskum réttarfarsreglum og því krefjist stefndu frávísunar af þeim sökum.

Varðandi vanreifun kveða stefndu að stefnandi byggi aðalkröfu sína á því að stefndu beri skaðabótaábyrgð in solidum gagnvart stefnanda.  Byggi stefnandi á reglum um skaðabætur innan samninga þar sem stefndu hafi brotið vinnusamninga sína og valdið stefnanda tjóni.  Kveða stefndu að þeir hafi ekki gert sameiginlegan samning heldur tvo aðskilda samninga og því geti þeir aldrei borið ábyrgð in solidum.  Geri stefnandi enga tilraun til að skýra málsgrundvöll sinn að þessu leyti og því séu málsástæður stefnanda svo vanreifaðar og samhengi málsástæðna svo óljóst að ekki verði hjá því komist að krefjast frávísunar á kröfunni, enda séu annmarkar slíkir að ekki verði barið í brestina undir rekstri málsins.

V

Stefnandi höfðar mál þetta á hendur stefndu til greiðslu skaðabóta vegna tjóns, sem hann telur sig hafa orðið fyrir vegna meintrar saknæmrar og ólögmætrar háttsemi stefndu í starfi hjá stefnanda.  Eins og rakið hefur verið voru þann 4. september sl. þingfest tvö mál í Héraðsdómi Reykjavíkur, þar sem stefndu í þessu máli gera kröfur, hvor í sínu lagi, á hendur stefnanda þessa máls til greiðslu skaðabóta vegna meintrar ólögmætrar riftunar á vinnusamningi auk þess sem þeir gera kröfu um ógreiddar bónusgreiðslur vegna vinnu þeirra við sölu á myndlyklum árið 1998.  Mál þessi eru númer E-7570/2001 og E-7571/2001.  Í dómsmálum þessum gerir stefnandi þessa máls kröfur um sýknu á þeim grundvelli að stefnendur, stefndu þessa máls, hafi brotið gegn skyldum sínum samkvæmt gagnkvæmum ráðningarsamningum og því fyrirgert öllum réttindum samkvæmt þeim. Með háttsemi sinni hafi þeir valdið stefnanda þessa máls tjóni sem þeir beri skaðabótaábyrgð á og eigi þeir því ekki rétt á launagreiðslum í uppsagnarfresti eins og þeir krefjist.  Þá gerir stefnandi, stefndi í fyrrgreindum dómsmálum, auk þess gagnkröfu til skuldajafnaðar á móti kröfum stefnenda, stefndu þessa máls, vegna bónusgreiðslna,  á þeim forsendum að hann eigi skaðabótakröfur á hendur þeim báðum.

Í 4. mgr. 94. gr. laga nr. 91/1991 segir að þegar mál hefur verið þingfest verði dóms ekki krafist um þær kröfur sem séu gerðar í því í öðru máli.  Sé dóms þannig krafist um kröfu í öðru máli skuli vísa henni frá dómi.

Í fyrrgreindum dómsmálum sem þingfest voru þann 4. september 2001 gerir stefndi, stefnandi þessa máls, kröfu um sýknu.  Byggir hann sýknukröfu sína á þeirri meginmálsástæðu að stefnendur, stefndu þessa máls, hafi með saknæmri háttsemi sinni valdið honum tjóni sem þeir beri ábyrgð á og því eigi að sýkna hann af kröfu um laun í uppsagnarfresti. Að auki krefst hann sýknu vegna kröfu um vangreiddan bónus á grundvelli skuldajafnaðar, þar sem hann telur starfsmennina vera bótaskylda vegna fyrrgreindrar saknæmu háttsemi þeirra og byggir á því að þeir séu bótaskyldir sem nemur þriggja mánaða launum þeirra, enda hafi þeir beinlínis valdið stefnanda fjártjóni. 

Í því máli sem hér er til meðferðar byggir stefnandi kröfur sínar á sömu málsástæðum og hann byggir á sem stefndi í hinum málunum, að vegna saknæmrar háttsemi stefndu eigi hann kröfu á skaðabótum, en ljóst er að niðurstaða eldri málanna hlýtur að byggja á því hvort stefnendur, stefndu í þessu máli, hafi með saknæmri háttsemi sinni valdið stefnanda tjóni. Þá eru kröfur stefnanda í fyrrgreindum málum, hvað snertir gagnkröfu hans til skuldajafnaðar, nákvæmlega þær sömu og varakrafa hans í þessu máli.   Nemur varakrafan þriggja mánaða launum starfsmannanna, 733.917 krónur hvað snertir stefnda Bjarna og 660.000 krónur hvað snertir stefnda Harald.

Að því virtu sem nú hefur verið rakið verður með vísan til 4. mgr. 94. gr. laga nr. 91/1991 ekki krafist dóms um kröfur stefnanda í máli þessu meðan hinum fyrri dómsmálum hefur ekki verið lokið og verður því þegar af þeirri ástæðu að taka kröfu stefndu um frávísun málsins í heild sinni frá dómi til greina.

Með hliðsjón af atvikum þykir þó rétt að hver aðili um sig beri ábyrgð á sínum kostnaði.

Af hálfu stefnanda flutti mál þetta Björn L. Bergsson hrl. en af hálfu stefndu Ásgeir Á. Ragnarsson hdl.

Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Máli þessu er vísað frá dómi.

Málskostnaður fellur niður.