Hæstiréttur íslands
Mál nr. 564/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
Föstudaginn 1. október 2010. |
|
|
Nr. 564/2010. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H.B. Snorrason saksóknari) gegn X (Guðmundur Ágústsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Páll Hreinsson og Viðar Már Matthíasson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. september 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. september 2010, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 8. október 2010 klukkan 16 og sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími. Þá er krafist kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. september 2010.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, allt til föstudagsins 8. október n.k. kl. 16.00.
Þá er gerð krafa um að sakborningur sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.
Í greinargerð lögreglu kemur fram að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsaki nú ætluð stórfelld brot gegn 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt og gegn peningaþvættisákvæði almennra hegningarlaga sbr. 264 gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur þann 15. september sl. hafi sakborningur verið úrskurðuð í gæsluvarðhald til dagsins í dag, á grundvelli rannsóknarhagsmuna í málinu.
Upphaf þessa máls séu tilkynningar frá Íslandsbanka og frá Arion banka um peningafærslur sem hafi þótt grunsamlegar og ekki samræmast upplýsingum og eða viðskiptum hjá reikningshöfum í bönkunum.
Við nánari skoðun lögreglu hafi komið í ljós að um hafi verið að ræða greiðslur inn og út af reikningum tveggja fyrirtækja A, kt. [...], og B, kt. [...]. Hafi reikningsyfirlit sýnt háar fjárgreiðslur frá tollstjóra inn á reikninga þessar tveggja fyrirtækja. Fjárhæðirnar hafi verið síðan smám saman teknar út af reikningunum fyrirtækjanna að mestu í reiðufé. Innlagnir og úttektir sem til rannsóknar eru áttu sér stað frá október 2009 til júní 2010.
Við upplýsingaöflun lögreglu m.a. hjá skattrannsóknarstjóra hafi komið í ljós að hinar háu greiðslur inn á reikningana hafi verið endurgreiðslur á innskatti vegna endurbóta á húsnæði en slíkar endurgreiðslur séu gerðar á grundvelli sérstakrar skráningar á virðisaukaskattsskrá skv. reglugerð nr. 577/1989.
Við nánari eftirgrennslan um grundvöll þessara endurgreiðslna hafi komið í ljós að húsnæði það sem félögin tvö fengu endurgreiddan innskatt vegna hafi aldrei verið í eigu félaganna eða þeirra einstaklinga sem að þeim stóðu eða hafi verið í forsvari fyrir þau. Endurgreiðslurnar byggðu því á röngum og/eða tilhæfulausum grundvelli og bendir því allt til að greiðslurnar hafi verið fengnar með sviksamlegum hætti úr ríkissjóði. Endurgreiðslur á innskatti til A, hafi samtals verið kr. 174.330.155, sem lagðar hafi verið inn á reikning félagsins í Arionbanka. Endurgreiðslur til B, voru samtals kr. 103.000.000., sem lagðar hafi verið inn á reikning félagsins í Íslandsbanka.
Sakborningur, X, hafi verið stjórnarformaður B, og hafi framkvæmdastjóri félagsins verið með prókúru til ársloka 2009. X hafi við yfirheyrslur viðurkennt að hafa stofnað bankareikning B í Íslandsbanka og að hafa tekið samtals um 19,5 milljónir króna í reiðufé út af reikningnum og millifært 16 milljónir króna af reikningnum inn á reikning A. Segist hún hafa gert þetta að beiðni Y, fyrrum sambýlismanns síns. Hann hafi beðið hana að stofna bankareikninginn vegna þess að hann ætti von á endurgreiðslu vegna byggingarframkvæmda. Kvaðst X hafa vitað að það kæmi endurgreiðsla inn á bankareikninginn í október 2009. Sagði hún Y hafa beðið hana um að fara í ákveðna banka og taka út ákveðnar upphæðir í hvert skipti. Kvaðst X yfirleitt hafa farið í um 3 banka er hún var stödd í Reykjavík og tekið út peninga og farið með þá heim til Y. Sagði hún Y hafa gefið þær skýringar að honum vantaði peninga og þyrfti að greiða aðra reikninga. X sagðist ekki hafa þegið peninga fyrir að taka þetta verkefni að sér en að Y hefði látið hana hafa pening í tvö skipti um 400 þúsund krónur samtals. X sagðist hafa gert þetta í greiðaskyni við Y því hann hefði oft lánað henni pening. X segist ekki hafa komið nálægt því að skrá félagið sérstakri skráningu á virðisaukaskattskrá né að sækja um endurgreiðslur á innskatti.
Við yfirheyrslur af X hafi einnig komið fram að hún hafi afsalað sér prókúru á bankareikningi B heima hjá X og að við það tækifæri hafi Z verið veitt prókúra. Z, sem einnig sé sakborningur í þessu máli, hafi borið að Y hafi komið honum í samband við X, sem væri eigandi B. Þau hafi hist haustið 2009 og Z þá veitt prókúra á bankareikning félagsins. Sagði Z að við það tilefni hefði X látið hann fá miða með nöfnum á bankaútibúum þar sem hann átti að leysa út peninga, upplýsingar um bankareikninginn og upphæðirnar sem átti að taka út í hvert skipti. Z sagðist hafa farið í bankann eins og mælt hafði verið fyrir. Hann hefði svo farið með féð heim til sín en ónafngreindur maður hafi komið í tvö skipti, kynnt sig sig sem svo að hann væri að sækja fé fyrir B og sótt peninginn. Sagði Z að hann hefði talið sig vera að aðstoða X við að taka út framangreinda fjárhæð þar sem hún byggi úti á landi og ætti ekki auðvelt með að nálgast þessa peninga. Z kvaðst hafa fengið um kr. 250.000 sem greiðslu fyrir fyrrnefnda aðstoð en mundi ekki hvort hann hefði samið um þá greiðslu við X eða við Y.
Með vísan til framangreinds og til gagna málsins sé uppi rökstuddur grunur um að sakborningur hafi gerst sek um peningaþvætti og eigi hlutdeild í stórfelldum skattalagabrotum þar sem yfir hundrað milljónir hafi verið sviknar úr ríkissjóði.
Rannsókn málsins sé margþætt og umfangsmikil. En auk kærða sæta fimm aðrir einstaklingar gæsluvarðhaldi. Gögn og upplýsingar benda til að hlutverkum hafi verið skipt á milli einstaklinganna í brotum þessum. Þá virðist rannsókn málsins hafa leitt í ljós að maður að nafni Y hafi einn, eða ásamt öðrum, skipt verkum á milli aðilanna, gefið þeim fyrirmæli og móttekið fjármunina frá umræddum einstaklingum. Þá liggur og fyrir að sakborningar málsins hafi þegið hluta afrakstursins Y.
Margir fleiri aðilar séu tengdir málinu og á lögregla enn eftir að yfirheyra fjölda manns, fara yfir umfangsmikil tölvugögn og rekja slóð þeirra peninga sem sviknir voru úr ríkissjóði. Y, sem verið hafi eftirlýstur hafi verið í fyrrakvöld að íslenskum tíma handtekinn í [...]. Nú liggi fyrir að fá hann framseldan og að yfirheyra hann. Að mati lögreglu sé mikilvægt að tryggja að Y verði yfirheyrður áður en hann á þess kost að komast í samband við þá sem nú sitja í gæsluvarðhaldi. Má ætla að ef sakborningur verði látinn laus muni hún eiga þess kost að torvelda rannsókn málsins, svo sem með því að hafa samband við samverkamenn eða með því að koma undan fjármunum og gögnum. Lögregla telur það brýnt fyrir framgang málsins að fallist verði á kröfu um gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna svo unnt sé að ljúka nauðsynlegri rannsókn án þess að sakborningur geti spillt rannsókninni. Af framangreindum ástæðum sé einnig farið fram á að sakborningur sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldi stendur.
Í málinu liggi fyrir mat Hæstaréttar Íslands, sjá dóma nr. 538/2010, 539/2010, 540/210 og 541/2010, um að lagaskilyrðum a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 séu fullnægt í máli þessu og ekkert nýtt fram komið í málinu sem breytt getur því mati.
Meint sakarefni séu stórfelld skattalagabrot og peningaþvætti en brotin séu talin geta varðað við almenn hegningarlög nr. 19/1940 og lög um virðisaukaskatt nr. 50/1988. Við þessum brotum liggi allt að 6 ára fangelsisrefsing. Um heimild til gæsluvarðhalds sé vísað til a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Um heimild til einangrunar á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur sé vísað til b-liðar 1. mgr. 99. gr. sömu laga.
Til rannsóknar eru ætluð brot gegn 1. mgr. 162. gr. almennra hegningarlaga sbr. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt og gegn peningaþvættisákvæði almennra hegningarlaga, og er rökstuddur grunur um háttsemi kærðu sem getur varðað allt að 6 ára fangelsi. Fallist er á með lögreglu að brýnir hagsmunir séu fyrir því að kærðu verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, enda er rannsókn málsins, sem er allumfangsmikil, á því stigi að líklegt má telja að kærða geti torveldað hana gangi hún laus. Með vísan til framangreinds, hjálagðra gagna og a- liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, er krafa ríkislögreglustjóra tekin til greina þannig að kærða sæti áfram gæsluvarðhaldi til föstudagsins 8. október nk. kl. 16.00. Þá er með sömu rökum fallist á að kærða sæti einangrun skv. b- lið 1. mgr. 99. gr. laganna.
Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kærða, X, kt. [...], skal sæta áfram gæsluvarðhaldi til föstudagsins 8. október n.k. kl. 16.00.
Kærða skal sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.
.