Hæstiréttur íslands

Mál nr. 196/2007


Lykilorð

  • Bankaábyrgð


         

Fimmtudaginn 13. desember 2007.

Nr. 196/2007.

Auto Reykjavík hf. og

Auto Ísland ehf.

(Hákon Árnason hrl.)

gegn

Glitni banka hf.

(Kristinn Bjarnason hrl.)

 

Bankaábyrgð.

AR hf. og AÍ ehf. seldu A hf. rekstur bílaleigu með kaupsamningi 20. maí 2005. Af því tilefni gaf bankinn G hf. út yfirlýsingu þar sem hann ábyrgðist gagnvart seljendum greiðslu tilgreindra eftirstöðva kaupverðsins í samræmi við skilmála kaupsamningsins. Ágreiningur reis milli kaupanda og seljenda um tiltekin atriði varðandi efndir samningsins. Eftir að gerðardómur hafði fjallað um ágreining er laut að fjárhagslegu uppgjöri samningsaðila en vísað öðrum ágreiningi frá gerðardómi krafði AR hf. og AÍ ehf. kaupandann um eftirstöðvar kaupverðsins. Kaupandanum taldi sér heimilt að skuldajafna gagnkröfu sem hann ætti vegna viðskiptanna við kröfu seljenda. AR hf. og AÍ ehf. kröfðu þá G hf. um greiðslu fjárhæðarinnar og reistu kröfuna á fyrrnefndri ábyrgðaryfirlýsingu. Bankinn synjaði greiðslu kröfunnar þar sem ekki hefði verið leyst úr öllum ágreiningi um gagnkröfu kaupandans á hendur seljendum. Í dómi Hæstaréttar var talið að nánar tilgreind atriði í yfirlýsingu bankans bentu til þess að honum hefði borið að inna eftirstöðvar þeirrar greiðslu sem deilt var um til AR hf. og AÍ ehf. þegar ljóst varð að kaupandinn myndi ekki greiða hana sjálfur og að kaupandinn hefði ekki haft neitt um það að segja. Þá benti orðalag kaupsamningsins, sem vísað var til í ábyrgðaryfirlýsingu bankans, til þess að ekki hefði mátt inna eftirstöðvar kaupverðsins af hendi með skuldajöfnuði nema með gagnkröfum sem tilheyrðu svonefndu fjárhagslegu uppgjöri kaupverðsins. Var því fallist á með AR hf. og AÍ ehf. að G hf. hefði ekki getað synjað greiðslu samkvæmt ábyrgðaryfirlýsingunni eftir að gerðardómur hafði leyst úr þeim ágreiningi sem undir hann heyrði. Voru kröfur AR hf. og AÍ ehf. teknar til greina þannig að upphafstími dráttarvaxta miðaðist við þann dag er gerðardómurinn hafði lokið dómi á málið.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 13. apríl 2007. Þeir krefjast þess að stefndi greiði þeim 174.611 bandaríkjadali ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 182.703 bandaríkjadölum frá 20. maí 2006 til 24. október sama ár, en af 174.611 bandaríkjadölum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefjast þeir málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og að áfrýjendur verði dæmdir óskipt til að greiða honum  málskostnað fyrir Hæstarétti.

I.

Í máli þessu deila aðilar um túlkun á yfirlýsingu stefnda, sem þá hét Íslandsbanki hf., 20. maí 2005 og fól í sér „ábyrgð á greiðslu skv. kaupsamningi“ eins og það var orðað í fyrirsögn á yfirlýsingunni. Yfirlýsingu þessari var beint til áfrýjenda. Svo sem fram kemur í hinum áfrýjaða dómi var hér um að ræða ábyrgð vegna kaupsamnings sama dag, þar sem áfrýjendur seldu fyrirtækinu Alp ehf. bílaleigu, sem þeir höfðu um árabil rekið undir nafninu Avis. Yfirlýsing stefnda hljóðaði svo:

„Vísað er til kaupsamnings, dags. í dag, milli Auto Reykjavík hf. og Auto Íslands ehf. sem seljenda og Alp ehf., kt. 540400-2290, Vatnsmýrarvegi 10, 101 Reykjavík, sem kaupanda, þar sem kaupandi kaupir allan bílaleigurekstur Auto Reykjavík hf. og Auto Ísland ehf. Samkvæmt ákvæðum kaupsamnings skal kaupverð m.a. greiðast þannig að eftirstöðvar kaupverðs kr. 135 milljónir, umreiknaðar yfir í USD 2.082.369 miðað við skráð opinbert viðmiðunargengi Seðlabanka Íslands þann 19. maí 2005. Eftirstöðvar greiðast þannig að 55% af eftirstöðvum kaupverðs, USD 1.145.303 greiðist þann 20. október 2005 og 45% af eftirstöðvum kaupverðs, USD 937.066 greiðist þann 20. maí 2006.

Með yfirlýsingu þessari ábyrgist Íslandsbanki hf., kt. 550500-3530, gagnvart seljendum greiðslu ofangreindra eftirstöðva kaupverðs, allt í samræmi við skilmála kaupsamnings. Komi til þess að kaupandi vanefni ofangreindar greiðslur mun Íslandsbanki hf. innan þriggja daga frá því að tilkynning hefur borist frá seljendum um slíkt greiða þann hluta viðkomandi greiðslu sem kaupandi hefur vanefnt gagnvart seljanda.“

Í kaupsamningnum, sem þarna liggur til grundvallar, var tekið fram að tilboð sem Alp ehf. hafði gert áfrýjendum 13. maí 2005 skyldi „teljast hluti þessa kaupsamnings með tilvísun.“ Þá var í kaupsamningnum svofellt ákvæði: „Bankatrygging: Fyrir afhendingu skal kaupandi leggja fram bankatryggingu fyrir öllum greiðslum samkvæmt þessu tilboði ... Seljendur geta gengið á tryggingu þessa þegar niðurstaða um fjárhagslegt uppgjör liggur fyrir samkvæmt 2. mgr. 3. gr., sbr. 7. mgr. 2. gr. tilboðsins.“ 

Í 2. gr. tilboðsins 13. maí 2005 var fjallað um kaupverð hins selda. Þar var kveðið á um fjárhæð þess og gjalddaga auk þess sem nefnd voru atriði sem komið gátu til leiðréttingar á fjárhæð kaupverðsins. Í 7. mgr. greinarinnar, sem til var vísað í kaupsamningnum, sagði meðal annars svo: „Fyrir afhendingu skal tilboðsgjafi leggja fram bankatryggingu fyrir öllum greiðslum samkvæmt þessu tilboði ... Hægt verður að ganga á tryggingu þessa þegar niðurstaða um uppgjör liggur fyrir. Verði ágreiningur skal honum skotið til gerðardóms sem skal skipaður einum manni.“ Í 2. mgr. 3. gr. tilboðsins, sem einnig var vísað til í kaupsamningnum, kom meðal annars fram að svonefnt uppgjör skyldi fara fram 31. ágúst 2005. Bæði í kaupsamningnum og tilboðinu er tekið fram að eftirstöðvar kaupverðsins, sem gjaldfalli 20. maí 2006 skuli greiða „í reiðufé“.

Deila málsaðila lýtur einkum að því hvort skilyrði ábyrgðaryfirlýsingarinnar fyrir því að áfrýjendur geti krafist greiðslu samkvæmt henni séu komin fram.

II.

Svo sem fram kemur í yfirlýsingu stefnda 20. maí 2005 átti að inna lokagreiðslu kaupverðs 937.066 bandaríkjadali af hendi 20. maí 2006. Í bréfi 10. maí 2006 taldi kaupandinn Alp ehf. orðið ljóst að gerðardómur þyrfti að fjalla um ágreining vegna uppgjörs, sem fram hafi átt að fara 31. ágúst 2005. Kvaðst hann tilbúinn til að gera tillögur um gerðardómsmann og óskaði eftir að áfrýjandi kæmi með sínar tillögur svo unnt yrði að skipa gerðardóminn „fyrir lok þessarar viku.“ Þá var í bréfinu nefnt að ferns konar ágreiningur væri kominn upp milli aðila. Í fyrsta lagi væri ágreiningur um fjárhagslegt uppgjör. Í öðru lagi væri ágreiningur vegna verðmæta sem ekki hefðu verið afhent. Í þriðja lagi væri ágreiningur um verðmæti hins selda og í fjórða lagi væri ágreiningur vegna brota á samkeppnisákvæði. Í bréfinu segir svo: „Ljóst er að mun heppilegra væri ef unnt væri að útkljá öll ágreiningsatriðin fyrir einum og sama úrskurðaraðilanum. Er því óskað samkomulags ... um að gerðardómurinn fjalli jafnframt um þessi atriði.“

Samkvæmt því sem fram kemur í gögnum málsins höfnuðu áfrýjendur því að „gerðardómsákvæðið yrði útvíkkað“. Í tölvubréfi lögmanns áfrýjenda til stefnda 22. maí 2006 var krafist greiðslu á 937.066 bandaríkjadölum, sem átti að greiða 20. maí 2006. Sama dag mun kaupandinn Alp ehf. hafa greitt 706.683 bandaríkjadali til áfrýjenda en haldið eftir 230.203 bandaríkjadölum vegna ætlaðra gagnkrafna sinna af þeim ástæðum sem nefndar höfðu verið í bréfinu 10. maí 2006. Hér skeikar nokkrum bandaríkjadölum í samlagningu en aðilar eru sammála að miða við nefndar fjárhæðir. Kaupandinn lagði málið fyrir gerðardóm með stefnu 29. maí 2006. Þar hafði hann uppi kröfur með þessari fjárhæð og krafðist staðfestingar á að sér hefði verið heimilt að skuldajafna með henni upp í kröfu áfrýjenda 20. maí 2006.

Gerðardómur gekk 17. október 2006. Þar var komist að þeirri niðurstöðu að ekki ætti undir gerðardóminn að fjalla um önnur ágreiningsatriði en þau sem heyrðu til fjárhagslegu uppgjöri samkvæmt 2. gr. tilboðs Alp ehf. og var kröfum kaupandans um önnur atriði vísað frá dóminum. Meðal annars var tekið fram í forsendum dómsins að skilja mætti kaupsamning aðila svo að ágreiningur um uppgjör á þeim þáttum, sem útkljá hafi átt áður en gengið yrði að bankaábyrgðinni, hafi átt undir gerðardóminn, enda hafi ekki verið unnt að ganga að bankaábyrgðinni fyrr en að slíkri niðurstöðu fenginni. Þær kröfur kaupandans, sem gerðardómurinn féllst á að hefðu tilheyrt hinu fjárhagslega uppgjöri og kaupandinn hefði mátt skuldajafna á móti greiðslunni 20. maí 2006, námu 47.500 bandaríkjadölum. Öðrum kröfum sem kaupandinn hafði uppi og taldar voru falla undir valdsvið gerðardómsins var hafnað. Námu þær 8.092 bandaríkjadölum.

Þann 18. október 2006 kröfðu áfrýjendur stefnda um 182.703 bandaríkjadali sem voru eftirstöðvar greiðslunnar 20. maí 2006 að frádreginni þeirri fjárhæð, sem gerðardómurinn hafði talið kaupandanum heimilt að nota til skuldajafnaðar. Með bréfi lögmanns Alp ehf. 20. október 2006 til áfrýjenda og stefnda var lýst samþykki við að greiða áfrýjendum 8.092 bandaríkjadali í samræmi við niðurstöðu gerðardómsins, það er að segja þær kröfur Alp ehf. sem gerðardómurinn hafði fjallað um efnislega en hafnað. Mun þessi fjárhæð hafa verið greidd 24. október 2006. Hins vegar var haldið fast við þá kröfuliði sem gerðardómurinn hafði vísað frá sem og réttinn til að nota þá til skuldajafnaðar við greiðsluna 20. maí 2006. Taldi kaupandinn að því hefði ekki enn stofnast réttur áfrýjendum til handa til að ganga að bankatryggingunni hjá stefnda. Stefndi mun sjálfur í framhaldinu hafa synjað greiðslu og höfðuðu áfrýjendur þá mál þetta til heimtu eftirstöðvanna 174.611 bandaríkjadala auk þeirra dráttarvaxta sem í dómkröfu þeirra greinir.

III.

Svo sem fyrr segir snýst ágreiningur málsaðila um túlkun á yfirlýsingu stefnda 20. maí 2005. Telja áfrýjendur aðallega að stefnda hafi verið skylt að inna eftirstöðvar greiðslunnar 20. maí 2006 af hendi án þess að nokkuð frekar kæmi til en krafa áfrýjenda um það. Til vara byggja þeir á því að stefnda hafi að minnsta kosti orðið þetta skylt þegar niðurstaða gerðardómsins lá fyrir, þar sem þá hafi verið orðið ljóst hver væri efnisleg niðurstaða í fjárhagslegu uppgjöri á kaupverði samkvæmt kaupsamningnum 20. maí 2005, sbr. 2. gr. tilboðs Alp ehf. 13. maí 2005 og þar með hver væri fjárhæð þeirrar kröfu sem kaupandinn Alp ehf. hafi mátt draga frá við greiðsluna 20. maí 2006. Telja áfrýjendur að í báðum tilvikum verði að líta svo á að ábyrgð stefnda hafi tekið til þess að greiða dráttarvexti af því sem ógreitt var alveg frá gjalddaganum 20. maí 2006.

Stefndi telur á hinn bóginn að ábyrgðaryfirlýsingin hafi aðeins falið í sér ábyrgð á greiðslu þess, sem kaupandinn Alp ehf. teldist skulda áfrýjendum eftir að leyst hefur verið úr öllum ágreiningi um gagnkröfur hans á hendur þeim. Var fallist á þetta í hinum áfrýjaða dómi og krefst stefndi staðfestingar hans.

Samkvæmt málflutningi fyrir Hæstarétti er ekki deilt um að ágreiningsefnum sem lutu að hinu svonefnda fjárhagslega uppgjöri samkvæmt kaupsamningi áfrýjenda og Alp ehf. hafi lokið með gerðardóminum 17. október 2006.

IV.

Yfirlýsingu stefnda 20. maí 2005 er milliliðalaust beint til áfrýjenda. Í yfirlýsingunni eru taldar upp með fjárhæðum og dagsetningum þær afborganir kaupverðsins sem ábyrgð stefnda tekur til. Síðan er tekið fram að stefndi ábyrgist áfrýjendum greiðslu „ofangreindra eftirstöðva kaupverðsins“ og sagt að komi til þess að kaupandi vanefni „ofangreindar greiðslur“ muni stefndi „innan þriggja daga frá því að tilkynning hefur borist frá seljendum um slíkt“ greiða þann hluta viðkomandi greiðslu sem kaupandi hafi vanefnt gagnvart seljanda. Þau atriði sem hér hafa verið auðkennd benda ótvírætt til þess að stefnda hafi borið skylda til að inna eftirstöðvar greiðslunnar 20. maí 2006 af hendi til áfrýjenda þegar ljóst varð að kaupandinn myndi ekki greiða hana sjálfur og að kaupandinn hafi ekki haft neitt um það að segja. Á hinn bóginn er einnig tekið fram í yfirlýsingunni að stefndi takist á hendur ábyrgð á greiðslu eftirstöðva kaupverðs allt „í samræmi við skilmála kaupsamnings.“ Kemur þá til úrlausnar hvort þessi hluti yfirlýsingarinnar feli það í sér að stefndi hafi með henni ekki ábyrgst annað og meira en greiðslu kaupandans eftir að búið væri að leysa úr öllum ágreiningsefnum sem risu um efndir samningsins.

Í ákvæði kaupsamningsins um bankatryggingu er tekið fram að seljendur geti gengið að tryggingunni þegar niðurstaða um fjárhagslegt uppgjör liggi fyrir og um það vísað til þeirra ákvæða tilboðsins 13. maí 2005 sem fyrr voru tilgreind. Þar er fjallað um kaupverðið og hið fjárhagslega uppgjör sem átti að vera lokið fyrir 31. ágúst 2005. Orðalag samningsins um að eftirstöðvar, þar með talið lokagreiðsluna 20. maí 2006, skuli greiða í reiðufé, bendir til þess að ekki hafi mátt inna hana af hendi með skuldajöfnuði nema með gagnkröfum sem tilheyrðu svonefndu fjárhagslegu uppgjöri kaupverðsins. Samkvæmt þessu verður fallist á sjónarmið áfrýjenda um að stefndi geti ekki synjað greiðslu samkvæmt yfirlýsingu sinni á þeirri forsendu að kaupandinn Alp ehf. telji sig enn eiga gagnkröfur á hendur áfrýjendum sem ekki hefur verið leyst úr. Tilvísun yfirlýsingarinnar til kaupsamningsins verður þó talin hafa þá þýðingu, að áfrýjendur hafi fyrst getað krafist greiðslu er hið fjárhagslega uppgjör lá fyrir, en það var ekki fyrr en gerðardómurinn hafði lokið dómi á ágreiningsefni samningsaðilanna, sem að því lutu, hinn 17. október 2006. Verður upphafstími dráttarvaxtakröfu áfrýjenda því miðaður við þann dag.

Samkvæmt framansögðu verður fallist á kröfu áfrýjenda með dráttarvöxtum sem nánar eru tilgreindir í dómsorði. Þá verður stefndi dæmdur til að greiða áfrýjendum óskipt málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti svo sem í dómsorði greinir. 

Dómsorð:

Stefndi, Glitnir banki hf., greiði áfrýjendum, Auto Reykjavík hf. og Auto Ísland ehf., 174.611 bandaríkjadali með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 182.703 bandaríkjadölum frá 17. október 2006 til 24. sama mánaðar en af 174.611 bandaríkjadölum frá þeim degi til greiðsludags og 1.200.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. febrúar 2007.

Mál þetta, sem var tekið til dóms 19. febrúar sl. er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Auto Reykjavík hf., Knarrarvogi 12, Reykjavík og Auto Ísland ehf., Barónsstíg 2, Reykjavík, á hendur Glitni banka hf., Kirkjusandi, Reykjavík, með stefnu birtri  8. nóvember 2006.

Stefnendur krefjast þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnendum USD 174.611 auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 af USD 182.703 frá 20. maí 2006 til 24. október, en af USD 174.611 frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist greiðslu málskostnaðar að viðbættu álagi og virðisaukaskatti.

Stefndi krefst aðallega sýknu að svo stöddu. Til vara er þess krafist að dómkröfur stefnenda beri ekki dráttarvexti fyrr en að 15 dögum liðnum frá dómsuppsögu. Til þrautavara er þess krafist að dráttarvaxtakrafa stefnenda miðist við dómsuppsögu í gerðardómsmálinu Alp ehf. gegn Auto Reykjavík hf. og Auto Ísland ehf. þ.e. 17. október 2006.

Vegna aðalkröfu krefst stefndi þess að stefnendur verði in solidum dæmdir til að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati dómsins að viðbættum virðisaukaskatti ofan á málflutningsþóknun.

   Í greinargerð sinni til Héraðsdóms gerði stefndi kröfu um frávísun málsins, en féll frá þeirri kröfu 5. febrúar 2007.

Málavextir.

Stefnendur áttu og ráku um árabil bílaleigu á Íslandi undir nafninu Avis. Hinn 3. maí 2005 var sett fram kauptilboð í eignir og rekstur stefnenda, sem tilheyrðu bílaleigunni. Tilboðið var grundvöllurinn að sölu rekstrar og eigna frá stefnendum til Alp ehf., en forsendurnar breyttust frá tilboðinu þar til kaupin voru frágengin með undirritun tilboðs hinn 13. maí 2005.  Hinn 20. maí 2005 var gengið frá kaupsamningi vegna viðskiptanna.

Í 3. gr. kaupsamningsins er fjallað um kaupverð og greiðslutilhögun. Kaupverðið var ákveðið 359.500.000 kr. Skyldi greiða kaupverðið með eftirfarandi hætti: (a) allt að 30 milljónir kr. skyldu greiddar með yfirteknum skuldum stefnenda við Avis Europe plc. og Auto Europe ltd.; (b) 194,5 milljónir kr. skyldu greiddar við undirritun og (c) 185 milljónir kr. skyldu greiddar í USD á tveimur tilteknum gjalddögum, þ.e. 1.145.303 USD hinn 20. október 2005 og 937.066 USD hinn 20. maí 2006.

Um bankaábyrgð er fjallað í 4. gr. samningsins og þar segir að fyrir afhendingu skuli Alp hf. leggja fram bankatryggingu fyrir öllum greiðslum samkvæmt tilboðinu.  Stefnendur eigi að geta gengið á trygginguna þegar niðurstaða um fjárhagslegt uppgjör liggi fyrir. Bankaábyrgð var veitt af hálfu stefnda hinn 20. maí 2005 vegna eftirstöðvar kaupverðs að fjárhæð 135 millj. kr.

Samkvæmt 10. gr. samningsins bar að leggja ágreining um fjárhagslegt uppgjör milli aðila undir gerðardóm. Ágreiningur reis með aðilum og fór hann til gerðardóms. Megin niðurstaða gerðardómsins frá 17. október 2006 var sú, að hluti af kröfum Alp ehf. um heimild til skuldajöfnunar á hendur stefnendum var vísað frá gerðardómi, en heimilt var að skuldajafna öðrum greiðslum. Í kjölfar gerðardómsins kröfðu stefnendur stefndu um greiðslu á 182.703 USD. Lögmaður Alp ehf. hafnaði kröfu stefnenda og taldi að enn hefði ekki stofnast réttur til handa stefnendum til að ganga að bankatryggingunni. Stefnendur ítrekuðu kröfu sína 2. nóvember sl. Í ljósi þess að krafa stefnenda hefur ekki verið greidd er mál þetta höfðað.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnendur byggja á bankaábyrgð þeirri sem stefndi veitti Alp ehf. vegna kaupa á Avis bílaleigunni af stefnendum í maí 2005. Með henni hefur stefndi tekist á hendur sjálfskuldarábyrgð samkvæmt skilmálum ábyrgðarinnar. Til að ábyrgð stefnda verði virk þarf einungis efndatíminn að vera runninn upp og að tilkynningu hafi verið beint til hans um að aðalskuldari, Alp ehf., hafi vanefnt á gjalddaga. Slíkar tilkynningar hafa verið sendar. Þegar af þessari ástæðu ætti að fallast á dómkröfur stefnanda.

Þegar Alp ehf. greiddi ekki réttilega síðustu greiðsluna á gjalddaga hennar, 20. maí 2006, var send greiðsluáskorun til bankans. Bankinn hafnaði greiðsluskyldunni að svo stöddu á þeim grundvelli að ábyrgðin væri skilyrt þar sem hún vísaði í skilmála kaupsamnings. Orðrétt segir í  bankaábyrgðinni frá 20. maí 2005: „Með yfirlýsingu þessari ábyrgist [stefndi] gagnvart seljendum greiðslu [...] eftirstöðva kaupverðs, allt í samræmi við skilmála kaupsamnings. Komi til þess að kaupandi vanefni ofangreindar greiðslur mun [stefndi] innan þriggja daga frá því að tilkynning hefur borist frá seljendum um slíkt greiða þann hluta viðkomandi greiðslu sem kaupandi hefur vanefnt gagnvart seljanda.“ Stefnendur telja að þrátt fyrir að skilyrðið sé komið fram með niðurstöðu gerðardómsins og að hið fjárhagslega uppgjör yfirtekinna skulda hafi farið fram, hefur stefndi ekki staðið við greiðsluskyldu sína samkvæmt bankaábyrgðinni.

Stefnendur halda því fram að um skýringu á bankaábyrgðinni fari samkvæmt almennum túlkunarreglum, þ.á m. þeirri að lánastofnanir verði að bera hallann af ætluðum óskýrleika ábyrgðaryfirlýsingar sem þær hafa sjálfar samið. Af hálfu stefnda hefur ekki verið útskýrt af hverju ekki hefur verið greitt samkvæmt ábyrgðinni eða hvort stefndi telji skilyrði hennar ekki hafa komið fram. Stefnendur telja að ekki sé hægt að ráða annað af yfirlýsingunni sjálfri en að hún sé orðin virk enda sé hún fremur afdráttarlaus.

Stefnendur halda því fram að ábyrgð stefnda sé orðin virk samkvæmt orðalagi hennar þar sem skilyrði um niðurstöðu gerðardómsins er komið fram og hinu fjárhagslega uppgjöri þar með lokið, sbr. ákvæði kaupsamnings þar að lútandi. Verður þetta ekki skilið á annan hátt en þann að ætlaður ágreiningur um önnur atriði milli stefnanda og Alp ehf. skuli fá sjálfstæða úrlausn. Með öðrum orðum ber stefnda að greiða samkvæmt bankaábyrgðinni, þ.e. greiðsla ábyrgðarinnar fari fram óháð slíkum deilum.

Við skýringu bankaábyrgðarinnar telur stefnandi að einnig beri að líta til þess að ábyrgðin sé afsprengi kaupsamningsins.  Verða orð og innihald bankaábyrgðarinnar þar af leiðandi ekki skýrð án tillits til þess skilnings sem samningsaðilar, annars vegar stefnendur og hins vegar Alp ehf., lögðu í hana á þeim tíma sem hún var frágengin og þess tilgangs sem hún var sett fram í. Afstaða stefnenda er að bankaábyrgðin sé orðin virk.  Hvað varðar skilning Alp ehf. er vísað til bréfs lögmanns þeirra 10. maí 2005 þar sem viðurkennt sé að ágreiningur sé ferns konar, þ.m.t. sé ágreiningur um fjárhagslegt uppgjör, sem fór síðar fram hjá gerðardómi og er því að fullu lokið. Draga stefnendur af þessu þá ályktun að samningsaðilar hafi verið sammála um hvað fælist í orðunum fjárhagslegt uppgjör sem bankaábyrgðin væri skilyrt við.

Þessu til stuðnings er einnig vísað til gerðardómsins sem túlkaði valdsvið sitt þröngt. Kemur það m.a. fram í forsendum gerðadóms, en þar segir: „Skilja má því kaupsamning aðila svo, og með tilliti til orðalags tilboðsins, að ágreiningur um uppgjör á þeim þáttum, sem útkljá átti áður en gengið yrði að bankaábyrgðinni, hafi átt undir sérstakan gerðardóm, sem skipaður skyldi einum manni, enda var ekki unnt að ganga að bankaábyrgðinni fyrr en að slíkri niðurstöðu fenginni.“  Enn fremur segir í dómi gerðardóms: „Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. kaupsamningsins skyldi leggja ágreining sem upp kæmi um fjárhagslegt uppgjör milli aðila undir gerðardóm, sbr. „7. mgr. 2. gr. tilboðsins“. Samkvæmt 4. gr. kaupsamningsins skyldi afhent bankaábyrgð fyrir öllum greiðslum samkvæmt tilboðinu og ráðgjafarsamningi og átti að vera unnt að ganga að þeirri ábyrgð þegar niðurstaða um fjárhagslegt uppgjör lægi fyrir samkvæmt 2. mgr. 3. gr., sbr. 7. mgr. 2. gr. tilboðsins.“ Í niðurlagi gerðardóms segir orðrétt: „Ljóst er [...] að verulegur dráttur varð á málinu vegna þeirra krafna [Alp ehf.] sem gerðardómurinn telur að hafi verið hinu fjárhagslega uppgjöri óviðkomandi og er vísað frá gerðardóminum.“ 

Af þessum og öðrum ummælum í gerðardómi verði ekki önnur ályktun dregin, að mati stefnenda, en að títtnefndu fjárhagslegu uppgjöri stefnanda og Alp ehf. sé lokið. Af því leiðir að fyrir liggur vanefnd af hálfu Alp ehf. í skilningi bankaábyrgðarinnar. Tilvitnuð ummæli gerðardóms gefa afdráttarlaust til kynna að stefnendum sé því, út frá forsendum og niðurstöðum gerðardóms, heimilt að ganga að bankaábyrgðinni. 

Með vísan til alls framangreinds telja stefnendur ljóst að stefndi getur ekki borið því við að bankaábyrgðin sé ekki orðin virk. Á þeim forsendum ber að fallast á dómkröfur stefnenda.

Krafa um dráttarvexti frá 20. maí 2006 byggir á 1. mgr. 6. gr laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, sbr. einnig 7. gr. sömu laga. Alp ehf. vanefndi greiðsluskyldu sína vegna gjalddaga kaupverðsins þann 20. maí 2006. Bankaábyrgð stefnda varð virk þremur dögum síðar í samræmi við orðalag ábyrgðarinnar og greiða ber dráttarvexti frá gjalddaga greiðslunnar. Það kemur fram í gerðardóminum að skuldajöfnuður Alp ehf. var óheimill nema að því er varðar USD 47.500 og því ber að greiða dráttarvexti frá gjalddaga af mismuninum sem eru USD 182.703 sem voru í vanskilum frá 20. maí 2006. Hinn 24. október 2006 greiddi Alp ehf. USD 8.092  inn á skuld sína og tekur kröfugerð stefnenda mið af þeirri greiðslu.

Krafa um málskostnað byggir á 129. og 130. gr. laga um meðferð einkamála, sbr. einnig lög um virðisaukaskatt nr. 50/1988.  Krafa um álag ofan á málskostnað byggir á 131. gr. laga um meðferð einkamála. Stefndi er fjármálafyrirtæki og starfar samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002. Þannig ber stefnda að viðhafa eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti, sbr. m.a. 19. gr. laganna. Þá er stefndi einn stærsti banki landsins og kemur í viðskiptalífinu víða að kaupum og sölum fyrirtækja, fjármögnunum o.þ.h.

Aðkoma stefnda að kaupum Alp ehf. á eignum og rekstri stefnenda var mikil og útgáfa bankaábyrgðar stefnda var forsenda þess að stefnendur samþykktu kauptilboð Alp ehf. Upphaflegt kauptilboð gerði ekki ráð fyrir því að veitt væri bankaábyrgð, vegna greiðslna en stefnendur gerðu kröfu til að svo væri enda um mikla hagsmuni að ræða. Ótækt var talið að gera slíkan samning án þess að vera með tryggar greiðslur kaupverðsins. Þar kom stefndi að málinu og var kunnugt um þessa forsendu stefnenda. Samdi stefndi bankaábyrgð sem stefnendur áttu að geta gengið að ef vanskil yrðu á greiðslum af hálfu Alp ehf. Skemmst er frá að segja að stefnendur hefðu ekki gert samning um sölu Avis bílaleigunnar nema að hafa trygga bankaábyrgð að baki.

Engin svör hafa borist frá stefnda vegna kröfu stefnenda um greiðslu úr ábyrgðinni sem verður að teljast óskiljanleg háttsemi af hálfu aðila sem hefur starfsleyfi sem banki og á að starfa eftir þeim reglum sem gilda um fjármálafyrirtæki. Telja stefnendur að háttsemi stefnda eigi að leiða til þess að stefnda verði gert að greiða álag ofan á málskostnað stefnenda. Slík háttsemi verður til þess að það traust, sem verður að vera fyrir hendi í viðskiptalífinu, hverfur. Senda verður þau skilaboð til banka, líkt og stefnda, að það gangi ekki upp að bankaábyrgð hafi ekki það gildi sem allur almenningur telur að hún hafi, þ.e. að það sé öryggi sem fylgir slíkum ábyrgðum.  Á þessum forsendum og með vísan til 131. gr. laga um meðferð einkamála gera stefnendur þá kröfu að stefndi verði dæmdur til greiðslu álags ofan á málflutnings-þóknun.

Stefnendur byggja kröfur sínar á meginreglum samninga- og kröfuréttar um gildi sjálfskuldarábyrgðar og á almennum túlkunarreglum. Krafa um málskostnað er byggð á 129. og 130. gr. laga um meðferð einkamála, sbr. einnig lög um virðisaukaskatt nr. 50/1988. Krafa um álag ofan á málskostnað á 131. gr. laga um meðferð einkamála.  Krafa um dráttarvexti er studd við 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, sbr. einnig 7. gr. sömu laga.

Málsástæður og lagarök stefnda.

Sýknukröfu sína byggir stefndi á því að sá tími sé ekki kominn er hann verður krafinn um efndir á ábyrgðaryfirlýsingu þeirri sem hann gaf út til stefnenda þann 20. maí 2006. Stefndi telur að skuldbindingar hans samkvæmt fyrrgreindri ábyrgðaryfirlýsingu ráðist eðli máls samkvæmt af efni ábyrgðaryfirlýsingarinnar. Þegar efni hennar er skoðað nánar sést strax að ekki er um skilyrðislausa ábyrgðaryfirlýsingu að ræða, heldur er um skilyrta ábyrgð að ræða, þ.e. ábyrgðin tekur til greiðslu eftirstöðva kaupverðs, allt í samræmi við skilmála kaupsamnings. Í þessu sambandi er sérstaklega mótmælt skilningi stefnenda á eðli sjálfskuldarábyrgða sem kemur fram í stefnu.

Samkvæmt ábyrgðaryfirlýsingunni ábyrgðist stefndi  eftirstöðvar kaupverðs, ef Alp ehf. greiddi ekki það sem fyrirtækinu bæri að greiða samkvæmt kaupsamningnum. Greiðsluskylda Alp ehf. ræðst hins vegar ekki einungis af þeim skuldbindingum sem kaupandi tók á sig samkvæmt kaupsamningnum, hún er einnig háð því að seljandi standi við sínar samningsskyldur enda öðlast kaupandi samkvæmt kaupalögum og almennum reglum kröfuréttarins ýmsan rétt gagnvart seljanda, t.d. rétt til skuldajafnaðar, vanefni seljandi skyldur sínar samkvæmt kaupsamningi. Kaupsamningur sá sem ábyrgðaryfirlýsing stefnda tengist er um flókin kaup  á margþættum rekstri þar sem fjallað er í löngu máli um hvað hið selda er og hvernig og með hverju kaupverð skuli greiðast. Viðsemjandi stefnenda, Alp ehf., sem keypti bílaleigurekstur af stefnendum, hefur ítrekað gert kröfur um skuldajöfnuð vegna vanefnda stefnenda á skyldum þeirra samkvæmt kaupsamningnum. Síðast gerði Alp grein fyrir skuldajöfnunarkröfum sínum 20. október sl. að gengnum gerðardómi um tiltekin ágreiningsmál aðila kaupsamningsins. Samkvæmt Alp ehf. eru eftirstöðvar kaupverðs engar  samkvæmt skilmálum kaupsamningsins. Í ljósi þess að ábyrgðaryfirlýsing stefnda er ekki skilyrðislaus hlýtur stefndi því að hafna, a.m.k að svo stöddu þeim kröfum að hann greiði f.h. Alp ehf. það sem stefnendur halda fram að séu eftirstöðvar kaupverðs. Önnur afstaða gæti valdið stefnda réttarspjöllum enda á stefndi ekki endurkröfurétt á Alp hf., ef hann greiðir umfram skyldu.

Stefnendur segja sem svo að með því að gerðardómur hafi fjallað um þau ágreiningsatriði sem hann gerði, sé það skilyrði komið fram sem ábyrgðaryfirlýsing stefnda er bundin og ábyrgðin sé þar með orðin virk.  Stefndi getur ekki fallist á þetta. Alp ehf. leggur  ekki sama skilning í niðurstöðu gerðardómsins og stefnendur gera. Í fyrrgreindu bréfi Alp ehf. til stefnenda og stefnda frá 20. október sl. vísar fyrirtækið í gerðardóminn og segir m.a.: „Varðandi greiðslu úr ábyrgð Glitnis er ljóst að enn er uppi ágreiningur með aðilum um fjárhagslegt uppgjör samningsins þar sem seljandi viðurkennir ekki þá kröfuliði kaupanda sem gerðardómurinn tók ekki afstöðu til.“   Alp hf. rekur síðan það sem gerðardómurinn segir  um skilyrði þess að unnt sé að ganga á ábyrgð stefnda, þ.e. að uppgjör vegna lögskila þurfi að hafa farið fram sem og uppgjör á öllum greiðslum sem fara áttu fram samkvæmt 2. gr. tilboðsins; gerðardómurinn hafi ekki tekið afstöðu til þessara liða, ágreiningur sé um hver skyldi vera fjárhæð síðustu greiðslu sem Alp hf. bar að greiða samkvæmt kaupsamningnum (greiðslan 20. maí 2006), nánar tiltekið hverri fjárhæð væri heimilt að skuldajafna.

Stefnendur halda því hins vegar fram að þar sem ábyrgðaryfirlýsingin sé afsprengi kaupsamningsins og undanfarandi tilboðs verði að túlka ábyrgðaryfirlýsinguna í ljósi ákvæða þessara samninga. Slík túlkun leiði til þeirrar niðurstöðu að sé komin niðurstaða um uppgjör sem heyri undir gerðardóm skv. samningi aðila þá sé jafnframt fullnægt skilyrðum ábyrgðaryfirlýsingarinnar og hún þar með orðin virk.

Stefndi mótmælir því að heimilt sé að túlka efni ábyrgðarinnar með þeim hætti sem stefnendur gera.  Stefndi gaf út skýra ábyrgðaryfirlýsingu með fyrirvara, sem felur í sér að stefnda beri ekki að greiða, ef Alp ehf. ber ekki að greiða. Túlkun stefnenda þrengir því þau skilyrði sem ábyrgðaryfirlýsingin er bundin með því að leita skýringa á efni hennar í samningum sem stefndi kom ekki að, hvorki í heild né einstökum ákvæðum, eins og t.d. því sem fjallar um gerðardóm þann sem nú hefur dæmt í tilteknum ágreiningi aðila kaupsamningsins.

Þá byggir stefndi á því að enda þótt á það yrði fallist, að túlka bæri efni ábyrgðar hans með hliðsjón af kaupsamningi stefnenda og Alp ehf. þá hafni hann því að kaupsamningurinn styðji fullyrðingar stefnenda um efni ábyrgðaryfirlýsingarinnar. Í kaupsamningnum er vikið að gerðardómi aðila samningsins í einum málslið, þ.e. 2. málsið 1. mgr. 10. gr. þar sem segir: „Komi upp ágreiningur um fjárhagslegt uppgjör milli aðila skal gerðardómur fjalla um málið, sbr. 7. mgr. 2. tilboðsins.“ Hér er því valdssvið gerðadómsins ákvarðað sem ágreiningur um „fjárhagslegt uppgjör“ milli aðila. Tilvísunin í 7. mgr. 2. málsliðar tilboðsins þrengir ekki valdssviðið enda er með þeirri tilvísun fyrst og fremst verið að vísa til þess að gerðardómurinn skuli vera skipaður einum manni eins og þar er kveðið á um. Eins og fyrr segir þá er kaupsamningur sem ábyrgðin tengist flókin og við efndir hans þurftu margvísleg uppgjör að fara fram sem kaupsamningur og tilboð gera og ráð fyrir. „Gerðardómur skal fjalla um fjárhagslegt uppgjör milli aðila“ segir í ofangreindu ákvæði. Ekki verður séð af þessu að sú þrönga skilgreining á valdssvið dómsins sem stefnendur hafa haldið fram hafi við rök að styðjast.

Önnur ákvæði í samþykktu tilboði Alp ehf. í rekstur stefnenda sem víkja að uppgjörum milli aðila styðja ekki heldur túlkun stefnenda. Í 2. mgr. 3. gr. tilboðsins er fjallað um margvíslegt uppgjör milli aðila miðað við lögskil en ekki er skírskotað sérstaklega til uppgjörs vegna lögskila í 7. mgr. 2. gr. tilboðsins. Í síðara ákvæðinu er þvert á móti vísað til almenns uppgjörs á kaupverðinu en 2. gr. tilboðsins ber yfirskriftina „Kaupverð“.  Það er því engum vafa undirorpið  að kaupsamningur og tilboð gerðu ráð fyrir að margvíslegt uppgjör færi fram milli aðila og að þau þyrftu að fara fram áður en unnt væri að ganga að ábyrgð stefnda. Enn skal minnt á það að uppgjör vegna skuldajöfnunarkröfu Alp ehf. hefur ekki farið fram.

Stefnendur gera mikið úr því að gerðardómur hafi túlkað valdssvið sitt þröngt sem renni stoðum undir þann skilning þeirra að einungis nánar tilgreind uppgjör þyrftu að liggja fyrr svo ganga mætti að ábyrgð stefnda.

Af þessu tilefni vill stefndi vekja athygli á að hvorki í kaupsamningnum né tilboði er minnst á að gerðardómurinn eigi að fjalla um efni ábyrgðaryfirlýsingar stefnda og því síður hefur stefndi nokkurn tíma fallist á að gerðadómurinn skyldi úrskurða um efni ábyrgðaryfirlýsingar hans. Þegar gerðardómurinn nefnir, í rökstuðningi fyrir niðurstöðu sinni, að skilja megi „kaupsamning aðila svo, og með tilliti til orðalags tilboðsins, að ágreiningur um uppgjör á þeim þáttum, sem útkljá átti áður en gengið yrði bankaábyrgðinni¸ hafi átt undir sérstakan gerðadóm .... enda var ekki unnt að ganga að bankaábyrgðinni fyrr en að slíkri niðurstöðu fenginni“  þá  er gerðardómurinn með þessu einungis að afmarka og skilgreina eigin lögsögu; hann er ekki að ákvarða hvaða skilyrði þurfi að vera fyrir hendi svo ábyrgðaryfirlýsing stefnda verði virk.  Ef  túlkun stefnenda væri rétt, á rökstuðningi gerðardómsins að þessu leyti, jafngilti það því að gerðardómurinn væri að úrskurða um efni ábyrgðaryfirlýsingarinnar, en þar með væri dómurinn kominn út fyrir valdssvið sitt.

Telji rétturinn hins vegar að í niðurstöðu gerðardóms, um hvaða uppgjör heyri undir lögsögu hans, megi fá leiðbeiningu um hver séu skilyrði ábyrgðaryfirlýsingarinnar verður að hafa í huga að túlkun og niðurstaða gerðardómsins byggir á óskýrum ákvæðum. Dómurinn viðurkennir þetta sjálfur þar sem hann segir á bls. 14, 3. mgr.:  „Kaupsamningur aðila frá 20. maí 2005, og kauptilboð frá 13. maí s.á. eru ekki alls kostar skýr varðandi afmörkun ágreinings sem bera mátti undir gerðardóm.“

Stefndi byggir á því að allan vafa um efni ábyrgðaryfirlýsingarinnar verði að túlka honum í hag. Stefndi mótmælir þeirri staðhæfingu stefnenda að þar sem stefndi hafi útbúið ábyrgðaryfirlýsinguna beri hann hallann af ætluðum óskýrleika hennar. Þvert á móti hljóti stefnendur að bera hallann af því ef vafi ríkir um efni ábyrgðarinnar. Krafan um ábyrgðina kom frá stefnendum, hún var í þeirra þágu og þeir hljóta því fyrst og fremst að bera ábyrgð á efni hennar, en í þessu felst ekki, eins og stefnendur virðast telja, að þeir geti komið eftir á og einhliða skilgreint hvert efni ábyrgðarinnar sé. Jafnframt skal minnt á það að stefndi átti ekki aðild að gerðardómsmálinu og gat því ekki komið sjónarmiðum á framfæri um efni ábyrgðarinnar.  Efni ábyrgðaryfirlýsingarinnar verður ekki óskýrt fyrr en menn fara að halda því fram að efni hennar ráðist af ákvæðum utan hennar, þ.e tilteknum ákvæðum í fyrrnefndum kaupsamningi og tilboði.

Dráttarvaxtakrafa stefnenda miðast við 20. maí 2006. Stefndi neitar því að kröfur hans geti borið dráttarvexti fyrr en frá þessum tíma. Á þessum tíma hafði Alp ehf. lýst yfir skuldajöfnuði á móti öllum eftirstöðvum kaupverðsins. Greiðsluskylda stefnda hafði því ekki stofnast á þessum tíma. Gerðardómur sem dæmdi um ágreining stefnenda og Alp ehf. féllst að hluta til á skuldajöfnunarkröfur Alp ehf. Krafa stefnenda á hendur stefnda getur því í fyrsta lagi borið dráttarvexti frá 17. október 2006, dómsuppsögudegi gerðardómsins.

Á það skal og bent að þegar stefnendur í tölvupóstssamskiptum milli 22. og 29. maí 2006 beindu fyrst kröfu til stefnda að hann greiddi eftirstöðvar kaupverðs 2006 héldu þeir því fram að það væri aðeins eitt uppgjör sem gerðardómur ætti að fjalla um, þ.e. hvort yfirtaka Alp ehf. á skuldum stefnenda gagnvart sérleyfisveitendum (Avis Evrópu) væri hærri eða lægri en 30.000.000 kr., sjá bls. 4 í greinargerð stefnenda í gerðardómsmálinu. Gerðardómurinn komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að ýmis önnur uppgjör ættu undir lögsögu hans, sbr. bls. 14 í dómnum. Þannig héldu stefnendur fram greiðsluskyldu stefnda á röngum forsendum í lok maí 2006.  Þegar af þessari ástæðu var höfnun stefnda á þessum tíma á greiðslu réttmæt.

Stefndi hafnar því alfarið að lagaskilyrði fyrir álagningu á málskostnað séu fyrir hendi. Stefnendur beri alla ábyrgð á því hve óskýr ákvæði kaupsamnings eru um skilmála bankaábyrgðarinnar eins og fyrr er rakið.  Stefnendur hafa áður gert kröfu um greiðslu frá stefnda samkvæmt ábyrgðaryfirlýsingunni enda þótt fyrir hafi legið skuldajöfnunarkrafa frá Alp ehf. Enn gera stefnendur kröfu um að stefndi greiði eftirstöðvar sem Alp ehf. heldur fram að ekki séu til staðar. Stefndi hefur gert umbj. stefnenda grein fyrir því munnlega að hann teldi að skilyrðum fyrir greiðslu samkvæmt ábyrgðinni væri ekki fullnægt. Fékk stefndi þau skilaboð innan við þremur vikum eftir að gerðardómur gekk. Varla hefðu stefnendur höfðað mál jafnskömmu eftir uppsögu gerðardómsins og raun ber vitni hefðu skilaboð bankans um að ekki yrði greitt ekki legið fyrir.

Stefndi byggir kröfur sínar á meginreglum samninga- og kröfuréttar um túlkun samninga.  Krafa um málskostnað er byggð á 129. og 130. gr. laga um meðferð einkamála, sbr. einnig lög um virðisaukaskatt nr. 50/1988.

Forsendur og niðurstaða.

   Eins og að framan greinir seldu stefnendur bílaleigu undir nafninu Avis, sem stefnendur höfðu rekið um árabil og var kaupandi Alp ehf. Samningurinn var gerður 20. maí 2005. Með yfirlýsingu sama dag frá Íslandsbanka hf., nú stefnda, ábyrgðist bankinn gagnvart stefnendum greiðslu eftirstöðva kaupverðs, allt í samræmi við skilmála kaupsamnings.  Stefndi hefur ekki hafnað ábyrgðinni, heldur telur hana ekki vera orðna virka.

   Framlögð gögn bera með sér að ágreiningur varð milli stefnenda og Alp ehf. um efndir á kaupsamningnum. Í bréfi lögmanns Alp ehf. til stefnenda taldi hann að ágreiningurinn væri ferns konar. Í fyrsta lagi um fjárhagslegt uppgjör, í öðru lagi vegna verðmæta sem ekki voru afhent, í þriðja lagi um verðmæti hins selda og í fjórða lagi vegna ætlaðra brota á samkeppnisákvæðum. Því var óskað eftir að gerðardómurinn, sem stefnendur og Alp ehf. höfðu samið um í kaupsamningi sínum, tæki til allra atriða. Stefnendur höfnuðu því.  Niðurstaða gerðardómsins frá 17. október 2006 var m.a. sú að vísa frá hluta af þeim kröfum sem Alp ehf. taldi sig eiga á stefnendur. Í bréfi lögmanns Alp ehf. frá 20. október 2006 var gert upp á grundvelli gerðardómsins. Þannig var þeim kröfum skuldajafnað, sem vísað var frá gerðardóminum við ógreitt kaupverð og eftirstöðvarnar greiddar stefnendum.  Því liggur fyrir í málinu, að Alp ehf. telur sig hafa gert upp við stefnendur, m.a. með þessum skuldajöfnuði. Alp ehf. er ekki aðili að dómsmáli þessu og ekki er tekin afstaða til réttmætis skuldajafnaðarins í dómi þessum.

   Eins og að framan greinir er aðkoma stefnda einungis þannig, að sama dag og stefnendur og Alp ehf. gera kaupsamninginn, þ.e. 20. maí 2005, gefur bankinn út yfirlýsingu „um ábyrgð á greiðslu skv. kaupsamningi“.  Þar segir meðal annars að bankinn ábyrgist greiðslu eftirstöðva kaupverðs að fjárhæð 135 milljónir kr. umreiknað yfir í USD 2.082.369 miðað við skráð opinbert viðmiðunargengi Seðlabanka Íslands þann 19. maí 2005.  Þannig var ábyrgð tekin á eftirstöðvum kaupverðs USD 1.145.303,  sem voru greiddar 20. október 2005, og eftirstöðvum kaupverðs USD 937.066, sem greiða átti 20. maí 2006.  Það er lokagreiðslan samkvæmt kaupsamningnum og snýr ágreiningur málsins að því hvort sú greiðsla hafi verið að fullu greidd eða ekki.

   Í kaupsamningum hvílir skylda á báðum samningsaðilum. Almennt sagt ber seljanda að  afhenda hið selda í fullnægjandi ástandi og kaupanda að greiði hið umsamda verð, allt á umsömdum tímum. Gögn málsins bera það með sér að Alp ehf. telur að stefnendur hafi vanefnt skyldur sínar samkvæmt samningnum og þar af leiðandi komi til krafan um skuldajöfnuðinn. Í ljósi orðalags ábyrgðaryfirlýsingar stefnda, sem og orðalags 2. ml. 7. tl. 2. gr. tilboðsins frá 13. maí 2005 og einnig með hliðsjón af því að stefndi var ekki aðili að gerðardómsmálinu, telur dómurinn réttmætt að úrlausn verði fengin í ágreining stefnenda og Alp ehf. áður en hægt verði að ganga að tryggingu stefnda.  Þar sem Alp ehf. er ekki aðili að máli þessu verður ekki hjá því komist að sýkna stefnda að svo stöddu af öllum kröfum stefnenda í málinu svo sem hann hefur krafist. Með vísan til 130. gr. eml. ber stefnanda að greiða stefnda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 500.000 kr.

Af hálfu stefnanda flutti málið Heiðar Ásberg Atlason hdl.

Af hálfu stefnda flutti málið Eggert Ólafsson hdl.

Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

DÓMSORÐ

Stefndi, Glitnir banki hf., er sýknaður að svo stöddu af kröfum stefnenda, Auto Reykjavík hf. og Auto Ísland ehf.

Stefnendur greiði stefnda 500.000 kr. í málskostnað.