Hæstiréttur íslands

Mál nr. 425/2005


Lykilorð

  • Vinnuslys
  • Líkamstjón
  • Örorka
  • Skaðabætur
  • Fyrning
  • Skipting sakarefnis
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 16

 

Fimmtudaginn 16. mars 2006.

Nr. 425/2005.

Már Jónsson

(Dögg Pálsdóttir hrl.)

gegn

Brimi hf.

(Hákon Árnason hrl.)

 

Vinnuslys. Líkamstjón. Örorka. Skaðabætur. Fyrning. Skipting sakarefnis. Gjafsókn.

M varð fyrir vinnuslysi 1991 og greiddi réttargæslustefndi honum bætur vegna þess í kjölfar dóms Hæstaréttar 16. september 1999 í samræmi við yfirmatsgerð, sem aðilar voru sammála um að leggja til grundvallar. Taldi M að ófyrirséðar breytingar hefðu orðið á heilsu sinni frá því dómur gekk í málinu og varanlegar afleiðingar slyssins orðið meiri en komist var að í yfirmatsgerðinni. Í dómi Hæstaréttar sagði að þó að þessar aðstæður gætu leitt til þess að skilyrði væru til að taka ákvörðun skaðabóta upp á ný, sbr. nú 11. gr. laga nr. 50/1993, breytti það engu um hvenær fyrningartími á kröfu hans yrði talinn hafa byrjað að líða. Yrði að miða við hann hefði byrjað að líða á slysdegi og hefði málsókn hans, sem lauk með dómi Hæstaréttar 1999, ekki rofið fyrningu kröfunnar. Málsókn hans 2001, sem síðar féll niður, rauf heldur ekki fyrningu hennar, sbr. 11. gr. laga nr. 14/1905. Var krafan því talin fyrnd og B ehf. sýknað.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 27. september 2005 og krefst þess að viðurkennt verði að krafa hans um skaðabætur úr hendi stefnda að fjárhæð 10.805.986 krónur sé ekki fyrnd og að hún verði að öðru leyti tekin til efnislegrar úrlausnar í héraði. Hann krefst og málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt fyrir réttinum.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Vátryggingafélagi Íslands hf. hefur verið stefnt til réttargæslu.

Svo sem nánar er rakið í héraðsdómi slasaðist áfrýjandi við vinnu sína 27. nóvember 1991 og var þá ljóst að hann hafði orðið fyrir líkamstjóni. Hann höfðaði mál til greiðslu skaðabóta og lauk því með dómi Hæstaréttar 16. september 1999. Greiddi réttargæslustefndi bætur samkvæmt dóminum 20. sama mánaðar. Áfrýjandi telur örorku sína hafa reynst mun meiri en lagt hafði verið til grundvallar í dómi Hæstaréttar í samræmi við samhljóða yfirlýsingar aðilanna í málinu um að byggt skyldi í þeim efnum á yfirmatsgerð, sem aflað hafði verið undir rekstri þess. Hann höfðaði nýtt mál til heimtu frekari skaðabóta með stefnu 27. nóvember 2001, þar sem tekið var fram að honum bæri nauðsyn til að höfða það til þess að rjúfa lögbundinn fyrningarfrest. Það mál var fellt niður en nýtt ekki höfðað innan sex mánaða.

Áfrýjandi höfðaði mál þetta 25. janúar 2005 til heimtu áðurgreindri kröfu. Í málflutningi fyrir Hæstarétti kom fram að hann reisi hana á því að varanlegar afleiðingar slyssins 27. nóvember 1991 hafi orðið miklu meiri en metnar hafi verið í fyrrnefndri yfirmatsgerð. Hér sé um að ræða „ófyrirséða versnun“ frá því, sem þar hafi verið reiknað með, en ekki sé á því byggt að áður óþekktir áverkar hafi komið í ljós, sem rekja mætti til slyssins. Þótt ófyrirséðar breytingar kunni að hafa orðið á heilsu áfrýjanda frá því að dómur gekk í fyrra máli hans á árinu 1999 og þær kynnu út af fyrir sig að geta leitt til þess að skilyrði væru til að taka ákvörðun skaðabóta upp á ný, sbr. nú 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, getur það engu breytt um hvenær fyrningartími á kröfu hans verður talinn hafa byrjað að líða. Vegna þessa og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.

Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.

Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Más Jónssonar, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 250.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8. september 2005.

Mál þetta, sem dómtekið var 29. ágúst sl., var höfðað 25. janúar 2005 af Má Jónssyni, Hraunbæ 88, Reykjavík, á hendur Brimi hf., Fiskitanga, Akureyri, og Vá­trygginga­félagi Íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík, til réttargæslu.

Stefnandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða honum 10.805.986 krónur með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 13. desember 2000 til 20. desember 2004, en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt 15. gr., sbr. 10. gr. sömu laga til greiðsludags og að dráttarvextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 20. desember 2005.  Einnig krefst stefnandi málskostnaðar að viðbættu álagi vegna 24,5% virðisaukaskatts.

Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og að honum verði dæmdur máls­kostnaður úr hendi stefnanda að mati dómsins, en til vara að stefnukröfur verði lækkaðar verulega og málskostnaður látinn niður falla.

Í þinghaldi 27. apríl sl. var ákveðið samkvæmt heimild í 31. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 að skipta sakarefninu þannig að fyrst yrði dæmt um þann ágreining málsaðila hvort krafa stefnanda í málinu væri fyrnd og er dómurinn kveðinn upp til úr­lausnar á því. Stefnandi krefst þess að dæmt verði að kröfur stefnanda í málinu séu ekki fyrndar og að málið verði tekið til efnislegar úrlausnar um framangreindar kröfur stefnanda. Í þessum þætti málsins krefst stefnandi þess að ákvörðun um málskostnað verði látin bíða efnislegrar meðferðar málsins. Falli dómur stefnda í vil þannig að dæmt verði að krafa stefnanda sé fyrnd krefst stefnandi málskostnaðar eins og málið væri ekki gjafsóknarmál en stefnanda var veitt gjafsókn 21. febrúar 2005. Af hálfu stefnda er krafist sýknu og málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins.  

Af hálfu réttargæslustefnda eru ekki gerðar sjálfstæðar dómkröfur enda engar kröfur gerðar á hendur honum.

Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna

Stefnandi varð fyrir vinnuslysi 28. nóvember 1991 er hann starfaði sem 1. vélstjóri á skipi stefnda, Hólmadrangi ST-70. Í slysinu tognaði hann í mjóbaki. Stefnandi höfðaði mál 1. september 1997 þar sem hann krafðist bóta fyrir tjón sem hann taldi sig hafa orðið fyrir vegna slyssins. Með dómi Hæstaréttar 16. september 1999 var stefnandi talinn bera ábyrgð á slysinu að 1/3 hluta sjálfur en gagnaðili að 2/3 hluta. Voru bætur vegna örorku stefnanda og miska dæmdar 4.000.000 króna, en í málinu var samkomulag um að yfir­mat yrði lagt til grundvallar þar sem varanleg öroka stefnanda var metin 12%. Réttargæslu­stefndi greiddi stefnanda bætur samkvæmt dóminum 20. september sama ár og telur stefndi tjón stefnanda að fullu bætt. Stefnandi hefur hins vegar höfðað málið í þeim til­gangi að fá greiddar bætur vegna viðbótartjóns sem hann telur að hafi komið fram eftir að yfirmatið lá fyrir og eigi hann sjálfstæða kröfu á hendur stefnda vegna þess.

Stefnandi höfðaði mál að nýju 27. nóvember 2001 vegna tjónsins, en fram hefur komið að það var fellt niður. Af hálfu stefnda er því haldið fram að það mál hafi ekki rofið fyrningu þar sem það hafi verið fellt niður án þess að mál væri höfðað á ný innan sex mánaða eins og gera þurfi samkvæmt 11. gr. laga um fyrning skulda og annarra kröfu­réttinda nr. 14/1905. Stefnandi telur annars vegar að honum hafi ekki verið kunnugt um hversu miklu tjóni hann hafi orðið fyrir fyrr en upplýsingar um það hafi komið fram á árinu 2001 og hafi fyrningarfrestur þá byrjað að líða og hins vegar að málssóknin 1. septem­ber 1997 hafi rofið fyrningu en þá hafi nýr fyrningarfrestur byrjað að líða. 

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi vísar til vinnuslyssins sem hann varð fyrir 28. nóvember 1991. Skipið hafi þá verið í eigu Hólmadrangs hf. sem síðar hafi sameinast stefnda samkvæmt samruna­áætlun 30. maí 2000. Réttargæslustefndi hafi greitt stefnanda 511.680 krónur í bætur úr slysatryggingu sjómanna 15. maí 1996, en ágreiningur um frekari bætur hafi leitt til málshöfðunar stefnanda á hendur stefndu. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 23. nóvem­ber 1998 hafi stefndi verið talinn bera fulla bóta­ábyrgð á slysinu og hafi bætur verið dæmdar á grundvelli útreiknings Jóns Erlings Þorláks­sonar. Stefndi hafi áfrýjað dóminum og með dómi Hæstaréttar 16. september 1999 hafi nokkur hluti ábyrgðar á slysinu verið felld á stefnanda sjálfan en áfrýjandi í málinu talinn bera 2/3 hluta sakar­innar. Dómkvaddir matsmenn hafi metið varanlega örorku stefnanda 8% en tíma­bundna örorku 100% í þrjá mánuði. Yfirmatsmenn sem hafi verið dómkvaddir að beiðni stefndu hafi komist að þeirri niðurstöðu að brjósklos sem stefnandi væri haldinn yrði ekki rakið til slyssins en þeir hafi metið varanlega læknisfræðilega örorku sem afleiðingu slyssins 12% en tímabundna örorku 100% í þrjá mánuði. Í dómi Hæstaréttar hafi verið byggt á niðurstöðu héraðsdóms um heildartjón vegna varanlegrar örorku og miska, alls 6.000.000 króna, og hafi áfrýjanda því verið gert að greiða stefnanda 4.000.000 króna ásamt vöxtum.

Stefnandi byggir málssóknina á því að eftir að matsgerðirnar voru framkvæmdar og dómur Hæstaréttar kveðinn upp hafi heilsufari stefnanda farið ört hrakandi. Hann hafi verið langtímum frá vinnu vegna einkenna frá mjóbaki og nú sé svo komið að hann ráði aðeins við að vera mjög stopult í vinnu. Hann hafi verið í stöðugri meðferð sjúkraþjálfara og lækna á þessu tímabili. Hann hafi vegna þessa ítrekað gert kröfu um að bótamál hans yrði opnað á ný en því hafi verið hafnað af hálfu stefndu.

Í vottorði Boga Jónssonar bæklunarskurðlæknis 23. ágúst 2000 komi fram að telja verði ótvírætt að núverandi einkenni stefnanda í baki verði rakin til vinnuslyssins 28. nóvember 1991.

Í vottorði Gunnars Þórs Jónssonar bæklunarskurðlæknis 19. desember 2001 komi fram að hann hafi skoðað stefnanda í þrjú skipti á tímabilinu maí 2000 til nóvember 2001. Stefnandi sé greinilega mjög þjakaður af verkjum í baki, eigi erfitt með gang og að reisa sig úr sæti. Við skoðun sé áberandi stirðleiki í baki og hliðarsveigjur verulega minnkaðar og sársaukafullar. Á tímabilinu hafi komið fram ný einkenni frá baki með mis mikilli leiðni niður í ganglimi sem hafi verið orðið mjög áberandi í nóvember 2001. Verkir væru orðnir stöðugir. Í ljósi þess að stefnandi hafi enga sögu haft um mjóbakseinkenni fyrir vinnuslysið en hafi við það fengið langvarandi og stöðug einkenni frá mjóbaki, sem hafi síðan verið viðvarandi og á síðustu árum farið hratt vaxandi, þá verði að telja yfirgnæf­andi líkur fyrir því að slysið og núverandi bakeinkenni stefnanda tengist.

Vegna viðvarandi bakverkja hafi stefnandi leitað til Jóseps Ó. Blöndal yfirlæknis á St. Franciskusspítalanum í Stykkishólmi 23. maí 2001. Í vottorði hans 27. júní 2002 komi fram að stefnandi fái endurtekin bakverkjaköst, iðulega með læsingum frá árinu 1999, og hann sé einnig farinn að fá verki í báðar mjaðmir. Þá sé af og til dofi framanvert á vinstra læri við lengri stöður og setur. Stefnandi hafi dvalið á spítalanum í Stykkishólmi í þrjár vikur í nóvember 2001. Honum hafi verið vísað til Bjarna Valtýssonar verkjasérfræðings til meðferðar.

Stefnandi hafi óskað matsgerðar frá Birni Önundarsyni 17. desember 2002. Í mats­gerð hans 16. febrúar 2003 meti hann tímabundinn miska stefnanda 100% í 9 mánuði eftir vinnuslysið og varanlegan miska 40%.

Stefnandi hafi verið í meðferð hjá Bjarna Valtýssyni, svæfinga- og gjörgæslulækni, frá 18. janúar 2002. Í vottorði læknisins frá október 2003 segi að þar sem stefnandi hafi svarað deyfingu í smáliðum í Stykkishólmi hafi hann verið sendur til læknisins til frekari deyfinga.  Í vottorðinu sé talið að vinnuslysið hafi verið upphaf einkenna stefnanda. Mjög miklar líkur séu á því að stefnandi verði vangæfur í baki það sem eftir er ævi sinnar, en einkenni hans hafi staðið óslitið frá 1991. Lækning sé að mati læknisins ekki möguleg.

Yngvi Ólafsson, sérfræðingur í bæklunarskurðlækningum, hafi skoðað stefnanda 8. júní 2004, en hann hafi verið yfirmatsmaður í fyrra máli stefnanda ásamt Sigurði Thorlacius og Gunnari Kr. Guðmundssyni. Í vottorði Yngva 3. ágúst 2004 komi fram að fyrir­liggjandi matsgerðir skiptist í tvennt, annars vegar matsgerðir sem telji brjósklos afleiðingu vinnuslyssins og hins vegar matgerðir sem telji svo ekki vera. Öll álit seinni tíma, þ.e. álit Gunnars Þórs Jónssonar, Boga Jónssonar, Jóseps Blöndal, Bjarna Valtýs­sonar og Björns Önundarsonar falli í fyrri hópinn en hluti matsgerðanna frá 1998 í þann seinni.  Yngvi telur í vottorði sínu að á engan hátt sé hægt að fullyrða að brjósklosið sé afleiðing slyssins en á sama hátt sé vafasamt að fullyrða að það sé það ekki. Hins vegar telji hann að varanlegar afleiðingar slyssins hafi verið vanmetnar.

Stefnandi byggi bótakröfu sína á hendur stefnda á því að með dómi Hæstaréttar 16. september 1999 liggi fyrir að stefnda beri 2/3 hluta sakar vegna vinnuslyss er stefnandi varð fyrir við störf hjá stefnda 28. nóvember 1991.  Bótaskylda vegna slyssins á grundvelli almennu sakarreglu skaðabótaréttarins sé þannig óumdeilanlega fyrir hendi.

Varanlegar afleiðingar stefnda vegna vinnuslyssins hafi reynst verulega meiri en orðið var árið 1998 þegar yfirmat fór fram. Þau möt sem legið hafi fyrir við dóm Hæstaréttar hafi verið byggð á því að áverkar og afleiðingar vinnuslyssins gætu valdið stefnanda einhverjum óþægindum í framtíðinni. Þróun heilsufars stefnanda frá árinu 1998 þegar möt þessi voru gerð sýni með óyggjandi hætti að óþægindin er stefnandi hafi haft í kjölfar vinnuslyssins hafa reynst langt umfram það sem mötin hafi lagt til grundvallar. Stefnandi sé að mestu óvinnufær til þess að stunda störf sem vélstjóri og til annarra starfa, þar sem reyni á stoðkerfi líkama hans. Þannig eigi hann rétt á frekari bótum vegna slyss­ins og að mál hans verði tekið upp á ný. Hann hafi með engu fyrirgert rétti sínum til þess að krefjast frekari bóta vegna þessa tjóns sem hafi komið til eftir að örorka hans var metin af yfirmatsmönnum í fyrra máli, þó svo að ágreiningslaust hafi verið í því máli að byggt yrði á yfirmatinu. Stefnandi telji sig þannig eiga óbætt tjón vegna vinnuslyssins sem honum beri að fá bætt.

Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 14/1905 hefjist fyrningarfrestur kröfu þegar hún verði gjaldkræf. Sé um að ræða kröfur sem ekki hafi ákveðið tímamark hefjist fyrningar­frestur þegar fyrst sé unnt að krefjast greiðslu. Samkvæmt læknisvottorðum sem liggi fyrir í málinu hafi tjón stefnanda orðið mun meira en þegar yfirmat hafi verið gert á árinu 1998. Tjón stefnanda hafi fyrst verið orðið ljóst á árinu 2001, en hann hafi þá fyrst gert sér grein fyrir heildartjóni sínu og öðlast þannig vitneskju um kröfu sína. Fyrningar­fresturinn teljist því frá þeim tíma. Þá hafi stefna í fyrra máli sem birt hafi verið 1. september 1997 rofið fyrningu og einnig stefna sem birt var 27. nóvember 2001 en það mál hafi síðar verið fellt niður.

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi vísar til þess að ágreiningur hafi risið með aðilum um bótaskyldu stefnda gagnvart stefnanda vegna slyssins en hann hafi verið endanlega til lykta leiddur með dómi Hæstaréttar 16. september 1999. Réttargæslustefndi hafi greitt stefnanda bætur í samræmi við niðurstöðu Hæstaréttar. Í málinu hafi legið fyrir matsgerðir dómkvaddra undir- og yfirmatsmanna um afleiðingar slyssins. Við uppgjör á tjóni stefnanda hafi verið lögð til grundvallar matsgerð dómkvaddra yfirmatsmanna, læknanna Sigurðar Thorlacius, Yngva Ólafssonar og Gunnars Kr. Guðmundssonar, en niðurstaða þeirra hafi verið sú að varanleg örorka stefnanda af völdum slyssins teldist 12%. Við meðferð dómsmálsins fyrir héraðsdómi hafi málsaðilar lýst því yfir að þeir væru sammála um að leggja yfirmatið til grundvallar varðandi læknisfræðilega örorku stefnanda. Niðurstaða undirmatsmanna hafi verið sú að læknisfræðileg örorka stefnanda af völdum slyssins væri 8%. Í matsgerðum undir- og yfirmatsmanna hafi verið lagt mat á það hvort brjósklos er stefnandi hlaut, teldist afleiðing slyssins. Í báðum matsgerðum hafi niðurstaða verið samhljóða um að brjósklosið teldist ekki afleiðing slyssins.

Í febrúar 2003 hafi réttargæslustefnda borist matsgerð Björns Önundarsonar læknis frá 16. febrúar sama ár. Í matsgerðinni komist læknirinn að þeirri niðurstöðu að brjósklos stefnanda sé að rekja til slyssins og meti hann læknis­fræðilega örorku af völdum slyssins 40%. Með bréfi 24. mars 2003 hafi endurupptöku málsins verið hafnað af hálfu réttargæslustefnda. Meðal annars hafi verið bent á það að matsgerð læknisins hnekkti ekki niðurstöðum dómkvaddra undir- og yfirmats­manna. Dómsmálið, sem stefnandi hafi höfðað 27. nóvember 2001, hafi síðar verið fellt niður af hálfu stefnanda.

Stefnandi hafi eftir slysið 1991 lent í tveimur öðrum slysum, er metin hafi verið til örorku, en í stefnu sé þess í engu getið. Fyrra slysið hafi orðið 24. janúar 1995 við vinnu stefnanda um borð í sama skipi, en þar hafi verið um að ræða áverka á vinstra hné. Í matsgerð Sigurjóns Sigurðssonar bæklunarlæknis frá 15. mars 2001 sé miski af völdum þessa slyss talinn vera 10%. Síðara slysið hafi jafnframt orðið við vinnu um borð í skipinu 20. júní 1996 er stefnandi hafi misst jafnvægið og fallið aftur fyrir sig er hann hafi staðið upp á svokallaðri slæðu á krana. Stefnandi hafi eftir fallið fundið fyrir verkjum í baki og bólguhnútur hafi myndast við vinstra herðablað og hálsinn stífnað upp. Varanlegur miski stefnanda af völdum þessa slyss hafi verið metinn 18% og varanleg örorka 25%. Í matsgerð læknisins vegna seinna slyssins komi fram að stefnandi hafi strax fundið fyrir miklum verkjum í hálsi og baki og þrátt fyrir ýmiss konar meðferð hafi hann enn viðvarandi einkenni frá hálsi og leiðniverk þaðan niður í vinstra herðasvæðið og vinstri öxl og upphandlegg og einnig niður í vinstra herðablað. Við þetta slys hafi einnig ýfst upp fyrri einkenni sem hann hafi haft í baki vegna afleiðinga slyss sem hann hafi orðið fyrir 28. nóvember 1991. Hann hefði náð sér það vel í þessu slysi að hann hefði getað starfað áfram sem vélstjóri en samt hafi hann haft viss óþægindi. Slys 20. júní 1996 hafi ýft upp gamla verkinn í bakinu en einnig hafi bæst við verkir í vöðvum vinstra megin í bakinu. Þrátt fyrir ýmiss konar meðferð hafi stefnandi enn töluverð einkenni. Hann hafi reynt að fara út á sjó aftur en hafi gefist upp vegna þess að bakið hafi gefið sig og einnig hafi hann orðið að fara í land vegna verkja í vinstri öxl. Nú sé svo komið að hann treysti sér ekki lengur út á sjó og það langt um liðið frá því áverki þessi átti sér stað að ekki sé að vænta frekari bata.

Aðalkröfu stefnda um sýknu byggi hann í fyrsta lagi á því að með þegar uppgerðum bótum sé allt tjón stefnanda af völdum vinnuslyssins 28. nóvember 1991 að fullu bætt og ósannað að stefnandi hafi orðið fyrir frekara tjóni. Bætur sem stefnanda voru greiddar samkvæmt dómi Hæstaréttar 16. september 1999 hafi verið mótteknar án nokkurs fyrir­vara. Niðurstaða um bótafjárhæð hafi m.a. byggst á yfirmatsgerðinni um að stefnandi hefði hlotið 12% varanlega örorku af völdum slyssins og að brjósklos teldist ekki af­leiðing slyssins. Niðurstöðum yfirmatsmanna hafi ekki verið hnekkt, en við flutning máls­ins hafi því verið lýst yfir af hálfu stefnanda að hann væri sammála því að leggja yfir­matið til grundvallar. Með því hafi stefnandi skuldbundið sig til að hlíta niðurstöðu þess.

Þrátt fyrir skýra niðurstöðu matsmanna, sem allir hafi verið reyndir læknar, hafi Björn Önundarson læknir komist að þeirri niðurstöðu að brjósklos stefnanda sé afleiðing slyssins 1991. Matsgerðar hans hafi verið aflað rúmum 11 árum eftir slys stefnanda, en hún hnekki á engan hátt niðurstöðum dómkvaddra matsmanna um sama álitaefni. Í mats­gerðinni sé komist að þeirri niðurstöðu að stefnandi hafi ekki fengið nein aukin óþægindi í baki af völdum slyssins í júní 1996, þrátt fyrir að stefnandi hafi lýst hinu gagnstæða fyrir Sigurjóni Sigurðssyni við mat hans á afleiðingum slyssins. Auk þess sé ekki að sjá af mati Björns að neinar ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið á afleiðingum slyssins á heilsu stefnanda frá því að yfirmat var framkvæmt. Því séu ekki fyrir hendi nein þau skilyrði er réttlætt gætu endurupptöku málsins.

Í öðru lagi byggi stefndi kröfu sína um sýknu á því að stefnukröfur teljist fyrndar samkvæmt lögum nr. 14/1905. Stefna í málinu hafi verið birt 25. janúar 2005. Þá hafi verið liðin meira en 13 ár frá slysinu og kröfur vegna þess því fyrndar samkvæmt 2. tl. 4. gr. laganna, en fyrningarfrest beri að miða við tjónsdag. Samsvarandi reglu um fyrningu bóta 10 árum eftir vátryggingaratburð sé enn fremur að finna í 29. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingasamninga. Krafa stefnanda í málinu sé því löngu fallin niður fyrir fyrningu.

Stefna sem birt var 1. september 1997 hafi ekki rofið fyrningu, en ágreiningur þess máls hafi verið til lykta leiddur með dómi Hæstaréttar 16. september 1999. Þá geti stefna sem birt var 27. nóvember 2001 ekki talist hafa rofið fyrningu, þar sem það mál hafi síðar verið fellt niður án þess að mál væri höfðað á ný innan 6 mánaða, líkt og kveðið sé á um í 11. gr. laga nr. 14/1905.

Niðurstaða

Ágreiningslaust er í málinu að skaðabótakrafa stefnanda fyrnist á 10 árum samkvæmt 2. tl. 4. gr. laga um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda nr. 14/1905. Upphaf fyrningar­frests verður að telja frá þeim degi er tjónið varð, 27. nóvember 1991, en samkvæmt því sem fram hefur komið var ljóst frá þeim degi að stefnandi hafði orðið fyrir líkamstjóni vegna slyssins. Breytir engu í því sambandi þótt afleiðingar slyssins kæmu ekki að fullu fram fyrr en síðar og að ekki hafi verið tímabært að reikna út fjárhæð bóta fyrr en unnt var að afla gagna um tjónið.

Þótt fyrning kröfu stefnanda vegna tjónsins sem hann varð fyrir af völdum slyssins hafi verið rofin með málssókninni 27. september 1997 var því máli lokið með dómi Hæsta­réttar 16. september 1999. Sá dómur er bindandi um úrslit sakarefnisins samkvæmt 1. mgr. 116. gr. laga um meðferð einkamála, en stefnandi ráðstafaði því þannig, eins og óumdeilt er og fram kemur í hinum áfrýjaða héraðsdómi, að lagt yrði til grundvallar við úrlausnina að hann hefði hlotið 12% varanlega örorku vegna slyssins. Málssóknin á árinu 1997 getur því ekki hafa rofið fyrningu á kröfu stefnanda í þessu máli sem er byggð á því að varanleg örorka hans vegna slyssins hafi síðar reynst mun meiri en lagt var til grundvallar við dómsúrlausnina 1999. Samkvæmt því ber að hafna þeirri málsástæðu stefnanda að fyrning kröfunnar sem hér um ræðir hafi verið rofin með málssókninni 27. september 1997.

Stefnandi fékk greiddar bætur úr hendi réttargæslustefnda 20. september 1999 í samræmi við framangreindan dóm Hæstaréttar. Stefnandi gerði engan fyrirvara um að hann teldi sig eiga rétt á frekari bótum vegna slyssins þegar uppgjörið fór fram. Af gögnum málsins verður ekki ótvírætt ráðið að ófyrirséðar afleiðingar slyssins hafi fyrst komið fram eftir uppgjörið. Í álitsgerð Gunnars Þórs Jónssonar bæklunarskurðlæknis 19. desember 2001 kemur meðal annars fram að heilsu stefnanda frá baki og stundum með verkjaleiðni niður í ganglimi hafi farið versnandi. Brjósklos hægra megin sjáist vel á rann­sókn frá 1995 og einnig við segulómrannsókn 1998. Við slysið hafi stefnandi fengið langvarandi stöðug einkenni frá mjóbaki er hafi allar götur síðan verið viðvarandi og á síðustu árum farið hratt vaxandi. Í örorkumati Sigurjóns Sigurðssonar læknis, sem gert var í tilefni af vinnuslysi sem stefnandi varð fyrir 20. júní 1996, kemur meðal annars fram að stefnandi hafi ekkert unnið eftir það slys þar til í byrjun febrúar 1999. Frá því um mitt sumar 1999 hafi stefnandi verið mjög slæmur í bakinu. Fram kemur í öðrum læknisfræði­legum gögnum málsins að stefnandi hafi haft slæma verki í mjóbaki frá slysdegi sem hafi smám saman versnað. Einnig kemur þar ótvírætt fram að heilsu stefnanda hefur hrakað og af þeim má ráða að læknar, sem skoðað hafa stefnanda, telji að afleiðingar slyssins kunni að hafa verið vanmetnar. Fram koma einnig skiptar skoðanir þeirra annars vegar á því hvort óyggjandi sé að brjósklos í hryggjarliðum stefnanda verði talið stafa af slysinu og hins vegar hvort auknir bakverkir stefnanda verði taldir stafa af brjósklosinu. Með tilliti til þessa er ekki rétt að líta svo á að gögn málsins sýni að nýjar upplýsingar hafi komið fram um tjón stefnanda eftir að uppgjörið fór fram sem leiði til að upphaf fyrningarfrests teljist frá árinu 2001 eins og stefnandi telur. Ber því að hafna þeirri málsástæðu stefnanda. 

Skilyrði þess að málssóknin, sem byrjuð var 27. nóvember 2001 en féll síðar niður, rjúfi fyrningu er að nýtt mál verði höfðað innan sex mánaða frá því að málið féll niður samkvæmt 11. gr. laga nr. 14/1905. Ágreiningslaust er að það var ekki gert. Fyrning var því ekki rofin með þessu eins og stefnandi heldur fram.

Samkvæmt framangreindu var tíu ára fyrningarfrestur liðinn án þess að fyrning væri rofin með þeim hætti sem lög gera ráð fyrir þegar stefnandi höfðaði málið 25. janúar 2005. Krafa stefnanda er því fallin niður fyrir fyrningu. Ber með vísan til þess að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í málinu.

Rétt þykir með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála að máls­kostnaður falli niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Daggar Pálsdóttur hrl., sem þykir hæfilega ákveðinn 450.000 krónur án virðisauka­skatts.

Dóminn kvað upp Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari.

DÓMSORÐ:

Stefndi, Brim ehf., er sýknað af kröfum stefnanda, Más Jónssonar, í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Daggar Pálsdóttur hrl., 450.000 krónur án virðisaukaskatts.