Print

Mál nr. 65/2011

Lykilorð
  • Ærumeiðingar
  • Tjáningarfrelsi

                                     

Fimmtudaginn 10. nóvember 2011.

Nr. 65/2011.

Frjáls miðlun ehf.

Brynhildur Gunnarsdóttir og

Guðjón Gísli Guðmundsson

(Þórarinn V. Þórarinsson hrl.)

gegn

Guðríði Arnardóttur

Ólafi Þór Gunnarssyni og

Hafsteini Karlssyni

(Viðar Lúðvíksson hrl.)

Ærumeiðingar. Tjáningarfrelsi.

F ehf., B og GG höfðuðu mál gegn GA, Ó og H vegna ummæla sem þau síðarnefndu höfðu uppi vegna viðskipta F ehf. og sveitarfélagsins K. Ekki var fallist á að sýkna bæri GA, Ó og H vegna aðildarskorts, enda máttu lesendur álykta af orðalagi þeirra ummæla sem ómerkingar var krafist á að með þeim væri að minnsta kosti öðrum þræði gefið í skyn að F ehf., B og GG hefðu krafið K um greiðslur fyrir þjónustu án þess að fyrir lægi að til þess hefði verið fullt tilefni. Í dómi Hæstaréttar var rakið að umfjöllun um ætlaðar brotalamir í stjórnsýslu K í tilefni af skýrslu og greinargerð endurskoðunar­fyrirtækisins D hf. hefði varðað opinber málefni og átt fullt erindi til almennings. GA, Ó og H hefðu verið kjörnir bæjarfulltrúar í K þegar ummæli þeirra féllu og höfðu sem slíkir sérstakt aðhalds- og eftirlitshlutverk. Mikilvægt þótti að færi þeirra til að rækja þetta hlutverk yrði ekki heft umfram það sem brýnir lögvarðir hagsmunir annarra krefðust. Í umræðum um ónógt aðhald og eftirlit af hálfu K með viðskiptum sveitarfélagsins við F ehf. þótti óhjákvæmilegt að í einhverju mæli yrði fjallað um fyrirtækið og reikningsgerð af þess hálfu. Talið var að F ehf. yrði að þola slíka umræðu að vissu marki og var vísað til þess að fyrirtækið hefði um árabil átt verulegan hluta viðskipta sinna við K. Einnig var bent á að ummæli GA, Ó og H hefðu fallið í kjölfar skýrslu og greinargerðar þekkts endurskoðunarfyrirtækis þar sem viss gagnrýni kom fram á fyrirkomulag viðskipta K og F ehf. Litið var til þess að vafi um það fyrir hvað K hafði greitt F ehf. var að hluta til risinn af ófullkominni reikningsgerð félagsins og virtust athugasemdir D hf. um þetta hafa verið réttmætar. Í greinargerð D hafði verið gagnrýnt að tveimur verkum sem F ehf. var greitt fyrir hefði verið ólokið og óljóst hvort bærinn hefði fengið eitthvað fyrir þá vinnu sem greitt var fyrir. Að mati Hæstaréttar voru ekki komnar fram fullnægjandi skýringar á þessum atriðum af hálfu F ehf. Varðandi ummæli GA um að mögulegt væri að vísa málinu í opinbera rannsókn og til ríkissaksóknara var í dómi Hæstaréttar tekið fram að öllum væri heimilt að kæra ætlaða refsiverða háttsemi til lögreglu eða ákæruvalds, nema fyrirmæli þagnarskyldu stæðu því í vegi. Í ljósi þessa taldi Hæstiréttur að nægilegt tilefni hefði verið til að GA, Ó og H viðhöfðu þau ummæli sem krafist var ómerkingar á og að þau hefðu ekki gengið nær F ehf., B og GG en efni stóðu til. Voru GA, Ó og H því sýknuð.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson og Eiríkur Tómasson.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 1. febrúar 2011. Þau krefjast þess að eftirgreind ummæli í grein stefndu sem birtist í Morgunblaðinu 12. júní 2009 verði ómerkt: „Fyrirtækið Frjáls miðlun hefur fengið greitt fyrir óunnin og/eða hálfkláruð verk og skýrar vísbendingar um að fyrirtækið hafi fengið greitt oftar en einu sinni fyrir sama verk.“ Ennfremur að ómerkt verði eftirgreind ummæli sem höfð voru eftir stefndu Guðríði Arnardóttur í Fréttablaðinu 17. júní 2009: „Það sem við getum gert í Samfylkingunni er að við getum vísað málinu í opinbera rannsókn og við getum vísað ákveðnum þáttum til ríkissaksóknara og óskað eftir því að hann gefi út ákæru í málinu“. Þá er þess krafist að stefndu verði hverju um sig gert að greiða 200.000 krónur til að birta dóminn í þremur dagblöðum. Ennfremur er þess krafist að stefndu Guðríði Arnardóttur verði gert að greiða hverjum áfrýjanda um sig 2.000.000 krónur, en hvorum stefndu Ólafi Þór Gunnarssyni og Hafsteini Karlssyni verði gert að greiða hverjum áfrýjanda 900.000 krónur, allt með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 12. júní 2009 til 28. október sama ár, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefjast áfrýjendur málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndu krefjast þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur en til vara að kröfur áfrýjenda verði einungis teknar til greina að hluta og fjárkröfur þeirra lækkaðar. Í báðum tilvikum er þess krafist að áfrýjendur verði dæmd óskipt til greiðslu málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Í héraðsstefnu kemur fram að áfrýjandinn Frjáls miðlun ehf. sérhæfi sig meðal annars í hönnun, uppsetningu myndefnis, vinnslu og framsetningu á kynningarefni ýmiss konar, ljósmyndatöku og myndvinnslu. Þar kemur og fram að áfrýjendurnir Brynhildur Gunnarsdóttir og Guðjón Gísli Guðmundsson séu eigendur og starfsmenn félagsins. Brynhildur og Guðjón Gísli eru hjón og er Brynhildur dóttir Gunnars I. Birgissonar fyrrverandi bæjarstjóra Kópavogs. Af gögnum málsins er ljóst að stór hluti af starfsemi félagsins hefur á undanförnum árum verið við margs konar verkefni fyrir Kópavogsbæ.

Á fundi bæjarráðs Kópavogs 8. apríl 2009 lögðu bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar fram eftirfarandi bókun: „Fulltrúar Samfylkingarinnar óska eftir yfirliti yfir allar greiðslur til fyrirtækisins Frjálsrar miðlunar, Brynhildar Gunnarsdóttur, Guðjóns Gísla Guðmundssonar og tengdra aðila síðustu 10 ár. Skal yfirlitið sundurliðað eftir árum og þar með taldar greiðslur á árinu 2009. Við óskum eftir því að það yfirlit nái yfir allar stofnanir og deildir bæjarins, sundurliðaðar upphæðir eftir sviðum annars vegar og verkum hins vegar. Sérstaklega skal tilgreina hvort um útboð var að ræða eða ekki.“ Af þessu tilefni tók skrifstofustjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs bæjarins saman skýrslu sem dagsett var 6. maí 2009 og sýnist hafa verið lögð fyrir bæjarráð 13. sama mánaðar. Í skýrslunni kemur fram að verkefni tengd auglýsinga- og kynningamálum hafi ekki verið boðin út hjá bænum á þessu tímabili. Engin viðskipti hafi verið skráð á eigendur Frjálsrar miðlunar ehf. persónulega eða aðila þeim tengdum, en umbeðnar upplýsingar um greiðslur vegna viðskipta við félagið voru gefnar sundurliðar eftir árum frá ársbyrjun 2000 til 6. apríl 2009 og niður á einstök verkefni og stjórnsýslueiningar bæjarins frá ársbyrjun 2003. Í heild námu viðskipti bæjarins við félagið á þessu tímabili samkvæmt skýrslunni 51.487.856 krónum.

Á fundi bæjarstjórnar Kópavogs 26. maí 2009 var samþykkt tillaga um að Deloitte hf. yrði falið að gera greinargerð um viðskipti bæjarins við Frjálsa miðlun ehf. (FM) á árunum 2003 til 2008 að báðum árum meðtöldum. Deloitte hf. skilaði allítarlegri greinargerð 9. júní sama ár. Helstu niðurstöður greinargerðarinnar sem dregnar eru saman í upphafi hennar eru svohljóðandi: „Almennt virðist ekki hafa verið gerðar verðkannanir eða leitað tilboða í verkefni sem FM hefur unnið fyrir Kópavogsbæ. Viðskiptin eru því hugsanlega brot á lögum um opinber innkaup þar sem ekki er gerður hagkvæmnissamanburður eins og skal gera samkvæmt sömu lögum. • Reikningar frá FM virðast í mörgum tilfellum bókaðir á ranga bókhaldslykla í fjárhagsbókhaldi. •  Almennt hafa ekki verið gerðir skriflegir verksamningar vegna verkefnanna. • Reikningar frá FM fullnægja ekki skilyrðum virðisaukaskattslaga um sundurliðun upplýsinga en lögum samkvæmt skulu reikningar bera með sér magn, einingaverð og heildarverð eftir því sem við verður komið. • Við teljum ekki heimilt að nýta endurgreiðslu virðisaukaskatts af þjónustu FM en það hefur verið gert í sumum tilvikum. • Það vekur athygli að frá 23. mars 2005 hefur bærinn móttekið og greitt 6 reikninga frá FM vegna afmælisrits. Verkefninu virðist ekki hafa verið lokið og ekki liggja fyrir aðrar afurðir en drögin að uppsetningu sem voru prentuð út 23. mars 2005.“

Í meginmáli greinargerðarinnar kemur meðal annars fram að viðskipti bæjarins og Frjálsrar miðlunar ehf. hafi á þessu tímabili numið 39.114.253 krónum og að þeirra  vegna hafi félagið gefið út samtals 185 reikninga. Gagnrýnt er að ekki hafi verið af hálfu bæjarins til skráðar reglur um samþykkt reikninga og lagt til að úr því yrði bætt. Varðandi reikninga Frjálsrar miðlunar ehf. segir að algengast sé að á þeim sé almennur texti um verkefnið og þeir beri „því nær undantekningalaust ekki með sér hvað er verið að innheimta fyrir, hve mikil vinna er að baki, hve margar myndir eða hvaða verkefni þeir tengjast.“ Í lok greinargerðarinnar er umfjöllun um fjögur verkefni sem skoðuð hafi verið sérstaklega. Þeirra á meðal eru reikningar Frjálsrar miðlunar ehf. vegna afmælisrits, sem fyrirhugað var að gefa út í tilefni af 50 ára afmæli bæjarins og reikningar félagsins vegna vinnu við gagnvirkt götukort. Í kaflanum um afmælisritið er meðal annars rakið að á tímabilinu 21. september 2004 til 19. október 2005 hafi Frjáls miðlun ehf. gefið út 12 reikninga vegna verkefnisins samtals að fjárhæð 3.412.500 krónur. Drög að útliti og uppsetningu afmælisritsins hafi verið prentuð út 23. mars 2005. Eftir þann dag hafi sex reikninganna verið gefnir út, en fjárhæð þeirra er samtals 1.680.750 krónur, án þess að fyrir liggi hvað hafi verið innifalið í þeirri þjónustu sem þá var greitt fyrir, en engar aðrar „afurðir“ liggi fyrir, en drögin frá 23. mars 2003. Varðandi gagnvirka götukortið er gerð grein fyrir að Frjáls miðlun ehf. hafi gefið út fimm reikninga vegna verkefnisins frá desember 2003 til október 2005 samtals að fjárhæð 747.000 krónur. Verkefninu sé ekki lokið og skrifstofustjóri markaðsskrifstofu bæjarins, sem umsjón hafi með upplýsingavef bæjarins, kannist hvorki við að hafa samþykkt að farið yrði af stað með þróun á gagnvirku götukorti né að hafa séð slíkt kort á vef bæjarins.

 Skömmu eftir að greinargerðinni var skilað afhenti Deloitte hf. ódagsettar „skýringar“ við greinargerðina þar sem nokkuð var dregið í land með ummæli í henni um að ákvæði laga um opinber innkaup kynnu að hafa verið brotin í viðskiptum bæjarins við Frjálsa miðlun ehf.

Í kjölfar skýrslu skrifstofustjóra fjármála- og stjórnsýslusviðs bæjarins var mikið fjallað í fjölmiðlum um viðskipti Kópavogsbæjar og Frjálsrar miðlunar ehf. Má þar nefna sjálfstæða umfjöllun um málið í DV 15. maí 2009 og Kastljósi Ríkissjónvarpsins 28. sama mánaðar. Eftir að greinargerð Deloitte hf. kom fram rituðu kjörnir fulltrúar í bæjarstjórn einnig blaðagreinar um málið. Þannig ritaði Gunnar I. Birgisson grein í Morgunblaðið 11. júní 2009 og stefndu rituðu í sameiningu grein á sama vettvangi daginn eftir, en í þeirri grein eru fyrri ummælin sem áfrýjendur krefjast ómerkingar á. Málið var áfram fréttaefni næstu daga og birtist meðal annast frétt um það í Fréttablaðinu 17. júní 2009. Í þeirri frétt er að finna síðari ummælin sem áfrýjendur krefjast að ómerkt verði, en þau eru höfð eftir stefndu Guðríði.

II

Áfrýjendur telja að fyrri ummælin sem krafist er ómerkingar á hafi falið í sér ásökun á hendur þeim öllum um óheiðarleika í viðskiptum og refsiverð svik og þau síðari séu brigslyrði í þeirra garð um refsiverða háttsemi. Þau reisa kröfur sínar um ómerkingu ummælanna á 1. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og heimfæra „saknæmi umstefndra ummæla til 234., 235. og 236. gr. sömu laga.“

Stefndu reisa sýknukröfu sína í fyrsta lagi á aðildarskorti þar sem ummælum sem kröfur áfrýjanda varða hafi ekki verið beint að þeim heldur hafi gagnrýnin eingöngu beinst að stjórnsýsluháttum í Kópavogi. Ljóst er að tilefni fjölmiðlaumfjöllunarinnar voru skýrsla og greinargerð um stjórnsýsluframkvæmd í Kópavogi og ætlaðar brotalamir á henni. Það á einnig við um meginefni greinar stefndu í Morgunblaðinu 12. júní 2009 og fréttar í Fréttablaðinu 17. sama mánaðar þar sem síðari ummælin eru höfð eftir stefndu Guðríði. Það fær því þó ekki breytt að lesendur máttu með réttu álykta af orðalagi þeirra ummæla sem ómerkingar er krafist á og samhengi þeirra við annan texta í umfjölluninni að með ummælunum væri að minnsta kosti öðrum þræði gefið í skyn að áfrýjendur hefðu krafið sveitarfélagið um greiðslur fyrir þjónustu án þess að fyrir lægi að til þess hefði verið fullt tilefni. Stefndu verða því ekki sýknuð vegna aðildarskorts.

Þegar metið er hvar draga skuli mörk milli tjáningarfrelsis, sem nýtur verndar samkvæmt 73. gr. stjórnarskrár og friðhelgi einkalífs, sem varin er af 71. gr. hennar skiptir miklu hvort það efni sem birt er geti talist þáttur í almennri þjóðfélagslegri umræðu og eigi þannig erindi til almennings, sbr. til dæmis dóma Hæstaréttar 1. júní 2006 í máli nr. 541/2005, sem birtur er á bls. 2759 í dómasafni þess árs og 1. mars 2007 í máli nr. 278/2006. Umfjöllun um ætlaðar misfellur í stjórnsýslu Kópavogsbæjar í tilefni af framangreindri skýrslu og greinargerð varðaði opinber málefni og átti þar með fullt erindi til almennings. Stefndu voru kjörnir bæjarfulltrúar í Kópavogi og höfðu sem slíkir sérstakt aðhalds- og eftirlitshlutverk. Eru sterk þjóðfélagsleg rök til þess að svigrúm þeirra til að rækja það hlutverk verði ekki takmarkað umfram það sem brýnir lögvarðir hagsmunir annarra krefjast. Í opinberri umfjöllun um stjórnsýsluframkvæmd Kópavogsbæjar er laut að viðskiptum bæjarins við Frjálsa miðlun ehf. var óhjákvæmilegt að í umræðum um ónógt aðhald og eftirlit af hálfu bæjarins með þeim viðskiptum væri í einhverjum mæli fjallað um félagið og reikningsgerð af þess hálfu. Áfrýjandinn Frjáls miðlun ehf. hafði um árabil átt verulegan hluta viðskipta sinna við Kópavogsbæ. Félagið varð því að þola slíka umfjöllun og gagnrýni henni tengda að vissu marki og verður að setja því þröng mörk að tjáningarfrelsi stefndu verði við þessar aðstæður takmarkað með tilliti til hagsmuna áfrýjenda, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 16. febrúar 1995 í máli nr. 122/1992, sem birtur er á bls. 408 í dómasafni þess árs.

Við mat á þeim ummælum sem ómerkingarkrafa áfrýjenda lýtur að verður í fyrsta lagi að hafa í huga að þau eru sett fram á grundvelli upplýsinga sem fyrir lágu í skýrslu skrifstofustjóra hjá Kópavogsbæ og greinargerð endurskoðunarfyrirtækisins Deloitte hf. í opinberri umræðu sem fram fór í beinu framhaldi af því að þessar upplýsingar komu fram. Þannig birtist greinin með fyrri ummælunum, sem krafist er að ómerkt verði, aðeins þremur dögum eftir birtingu greinargerðar Deloitte hf. Í því samhengi verður og að gæta þess að hún var unnin af þekktu endurskoðunarfyrirtæki sem fengið hafði verið til verksins að beiðni bæjarstjórnar Kópavogs og mátti því að fyrra bragði ganga út frá að sú gagnrýni sem þar birtist væri á rökum reist. Í öðru lagi verður að líta til þess að vafi um það fyrir hvað Kópavogsbær hafði greitt Frjálsri miðlun ehf. á að hluta rætur að rekja til ófullkominnar reikningsgerðar félagsins, en í greinargerð Deloitte hf. var talið að reikningar þess bæru nær undantekningalaust ekki með sér hvað verið væri að innheimta fyrir, hversu mikil vinna lægi að baki þeim, hve margar myndir eða hvaða verkefnum þeir tengdust. Af þeim reikningum Frjálsrar miðlunar ehf. sem fram hafa verið lagðir í málinu verður ekki annað séð en að sú gagnrýni hafi verið réttmæt.

 Í fyrri ummælunum sem krafist er ómerkingar á er því haldið fram að áfrýjandinn Frjáls miðlun ehf. hafi fengið greitt fyrir óunnin og/eða hálfkláruð verk og að skýrar vísbendingar séu um að félagið hafi fengið greitt oftar en einu sinni fyrir sama verk. Í greinargerð Deloitte hf. lýtur gagnrýni í tveimur atriðum að því að verkum þeim sem Frjálsri miðlun ehf. var greitt fyrir hafi ekki verið lokið og óljóst sé hvort bærinn hafi fengið eitthvað fyrir vinnu þá sem félaginu var greitt fyrir. Er þar eins og að framan er rakið annars vegar um að ræða afmælisritið og hins vegar götukortið gagnvirka. Ljóst er að afmælisritið kom aldrei út og ekkert gagnvirkt götukort var gefið út á grundvelli vinnu áfrýjenda. Af skýrslum starfsmanna Kópavogsbæjar fyrir héraðsdómi verður ráðið að það hvernig fór sé af ástæðum sem ekki varði áfrýjendur. Þar sem ekki liggja fyrir í málinu verksamningar, verkbeiðnir eða verklýsingar varðandi þessi verkefni er hins vegar ekki unnt að leggja dóm á það á grundvelli framlagðra gagna hvort áfrýjandinn Frjáls miðlun ehf. hafi lokið umbeðnum verkþáttum. Í greinargerð Deloitte hf. er eins og að framan er rakið einnig bent á að eftir að drög að afmælisritinu voru prentuð hafi Frjáls miðlun ehf. gert bænum sex reikninga samtals að fjárhæð 1.680.750 krónur án þess að séð verði hvað hafi komið í staðinn. Í málinu eru engin frekari gögn um afrakstur þessarar vinnu, önnur en ný útprentun af drögum að afmælisritinu, 7. maí 2009. Þar eru myndir og uppsetning með nákvæmlega sama hætti og í drögunum sem áður voru prentuð, að því undanskildu, að ein ný mynd er birt á bls. 33, tvær nýjar opnur með 15 myndum eru á bls. 70 til 73, en í fyrri drögum vantaði tvær opnur í samfellt blaðsíðutal, texti hafði að hluta verið settur við myndir og „gervitexti“ í meginmál ritsins til að sýna útlit þess. Verður því að telja að á þessu hafi ekki enn komið fram fullnægjandi skýringar. Varðandi síðari ummælin sem krafist er ómerkingar á er loks til þess að líta að öllum er heimilt að kæra ætlaða refsiverða háttsemi til lögreglu eða ákæruvalds, nema fyrirmæli um þagnarskyldu standi því í vegi, sbr. 1. málslið 3. mgr. 52. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Þegar litið er til alls þess sem að framan er rakið verður að telja að nægilegt tilefni hafi verið fyrir stefndu að viðhafa þau ummæli sem áfrýjendur krefjast ómerkingar á og að þau hafi ekki gengið nær áfrýjendum en efni stóðu til. Verður hinn áfrýjað dómur því staðfestur.

Áfrýjendum verður sameiginlega gert að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.    

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjendur, Frjáls miðlun ehf., Brynhildur Gunnarsdóttir og Guðjón Gísli Guðmundsson, greiði sameiginlega stefndu Guðríði Arnardóttur 440.000 krónur, stefnda Ólafi Þór Gunnarssyni 350.000 krónur og stefnda Hafsteini Karlssyni 350.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 2. nóvember 2010.

Mál þetta, sem tekið var til dóms 5. október sl., er höfðað með stefnu þingfestri 28. október 2009. Stefnendur eru Frjáls miðlun ehf., Hrauntungu 16,  Kópavogi, Brynhildur Gunnarsdóttir, Hrauntungu 16, Kópavogi, og Guðjón Gísli Guðmundsson, Hrauntungu 16,

Kópavogi. Stefndu eru Guðríður Arnardóttir, Fífulind 2, Kópavogi, Ólafur Þór Gunnarsson  Þinghólsbraut 32, Kópavogi og Hafsteini Karlsson Selbrekku 19, Kópavogi.

Dómkröfur stefnenda eru þær aðallega að eftirfarandi ummæli í stafliðum A-F, sem stefndu létu falla um stefnendur, verði dæmd dauð og ómerk samkvæmt heimild í 1. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Gegn stefndu öllum vegna eftirfarandi ummæla sem stefndu létu falla um stefnendur vegna viðskipta Kópavogsbæjar við stefnendur í grein sinni „Hvar á að draga mörkin“ sem birtist í Morgunblaðinu föstudaginn 12. júní 2009. Gerð er krafa um að ummælin verði dæmd dauð og ómerk.

A.      „Fyrirtækið Frjáls miðlun hefur fengið greitt fyrir óunnin og/eða hálfkláruð verk og skýrar vísbendingar um að fyrirtækið hafi fengið greitt oftar en einu sinni fyrir sama verk.“

B.      „Hvort sem hér er um að ræða lögbrot eða ekki er þetta klárlega spilling í opinberri stjórnsýslu. Slíkt á ekki að umbera og gildir þá einu hvort lög eru brotin eða ekki.“

C.       „Skýrsla Deloitte og umfjöllun fjölmiðla um málið undanfarnar vikur hefur sýnt svo enginn vafi leikur á að fyrirtækið Frjáls miðlun hefur notið óeðlilegrar fyrirgreiðslu hjá Kópavogsbæ og notið þannig tengsla sinna við bæjarstjóra Kópavogs.“

Gegn stefndu Guðríði einni vegna ummæla er fram koma í frétt DV 15. maí 2009 „Milljónir fyrir rit sem aldrei kom út.“

D.       „fyrir ýmis verk sem ekki virðast mjög veigamikil.“

Gegn stefndu Guðríði einni vegna ummæla í kvöldfréttum sjónvarps kl. 19:00 14. maí 2009:

E.       „Þetta eru háar upphæðir fyrir verk sem í fljótu bragði virðast frekar lítil og einföld.“

Gegn stefndu Guðríði einni vegna ummæla í Fréttablaðinu 17. júní 2009 á bls. 6 í frétt blaðsins er ber yfirskriftina „Íhuga að fara fram á opinbera rannsókn“.

F.       „Það sem við getum gert í Samfylkingunni er að við getum vísað málinu í opinbera rannsókn og við getum vísað ákveðnum þáttum til ríkissaksóknara og óskað eftir því að hann gefi út ákæru í málinu.“

Þess er krafist að stefndu verði hverju fyrir sig gert að greiða 500.000 krónur til að kosta birtingu dóms í fjórum dagblöðum. Til vara er krafist að stefndu verði dæmd til greiðslu lægri fjárhæðar að mati dómsins.

Þess er krafist að stefndu Guðríði verði gert að greiða stefnendum hverju fyrir sig miskabætur samkvæmt b lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 að fjárhæð 2.000.000 króna og beri sú fjárhæð vexti samkvæmt 1. mgr. 8. gr., sbr. 1. málsl. 4. gr. vaxtalaga nr. 38/2001, frá 12. júní 2009 til 28. október 2009, þingfestingardags, en dráttarvexti frá þeim degi samkvæmt  9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 til greiðsludags.

Þess er krafist að stefnda Hafsteini verði gert að greiða stefnendum hverju fyrir sig miskabætur samkvæmt b lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga  nr. 50/1993 að fjárhæð 900.000 krónur og beri sú fjárhæð vexti samkvæmt 1. mgr. 8. gr. sbr., 1. málsl. 4. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 12. júní 2009 til 28. október 2009, þingfestingardags, en dráttarvexti frá þeim degi samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 til greiðsludags.

Þess er krafist að stefnda Ólafi verði gert að greiða stefnendum hverju fyrir sig miskabætur samkvæmt  b lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga  nr. 50/1993 að fjárhæð 900.000 krónur og beri sú fjárhæð vexti samkvæmt 1. mgr. 8. gr. sbr., 1. málsl. 4. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 12. júní 2009 til 28. október 2009, þingfestingardags, en dráttarvexti frá þeim degi samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 til greiðsludags.

Þess er krafist að stefndu verði hvert fyrir sig dæmd til greiðslu málskostnaðar samkvæmt mati réttarins að viðbættum virðisaukaskatti.

Stefndu krefjast þess öll  aðallega að þau verði sýknuð af öllum kröfum stefnenda. Til vara krefjast stefndu þess að kröfur stefnenda verði einungis teknar til greina að hluta og að tildæmdar fjárhæðir verði allar lækkaðar verulega frá kröfum stefnenda. Í báðum tilvikum krefjast stefndu þess að þeim verði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnenda að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi að teknu tilliti til þess að stefndu er ekki virðisaukaskattsskyld.

Fyrir dóminn komu aðilarnir Brynhildur Gunnarsdóttir og Hafsteinn Karlsson og gáfu skýrslu. Þá gáfu vitnaskýrslur Björn Þorsteinsson, Ólafur Briem, Þór Jónsson, Guðrún Pálsdóttir og Sigurður Björnsson.

I.

Málavaxtalýsing stefnenda.

Stefnendur segja Frjálsa miðlun ehf. vera fyrirtæki er sérhæfi sig meðal annars í hönnun, uppsetningu myndefnis, vinnslu og framsetningu á kynningarefni ýmiss konar, ljósmyndatökum og myndavinnslu. Á undanförnum árum hafi stór hluti verkefna félagsins verið ýmiss konar hönnunarvinna fyrir Kópavogsbæ, gerð skýrslna, kynningarefnis og annarra verkefna sem snúi að hönnun ásamt ljósmyndatöku og ljósmyndavinnslu.  Stefnendur Brynhildur og Guðjón séu starfandi eigendur stefnanda Frjálsrar miðlunar ehf. Á fundi bæjarráðs Kópavogsbæjar 8. apríl 2009 hafi verið lögð fram bókun af hálfu fulltrúa Samfylkingarinnar þar sem óskað hafi verið yfirlits yfir greiðslur til stefnenda og tengdra aðila á síðustu 10 árum.

Svar við erindinu hafi verið lagt fram 13. maí 2009 þar sem lögð hafi verið fram samantekt Sigurðar Björnssonar, skrifstofustjóra fjármála- og stjórnsýslusviðs, þar sem fram komi allar greiðslur Kópavogsbæjar til framangreindra aðila á síðustu 10 árum, sundurliðaðar bæði eftir árum og verkum, og nái til allra stofnana og deilda Kópavogsbæjar. Hafi komið í ljós að viðskiptin námu rúmlega 50 milljónum króna að meðtöldum virðisaukaskatti á 10 ára tímabili.

Eftir að þessar upplýsingar komu fram hafi stefnda Guðríður, sem sé oddviti lista Samfylkingarinnar í Kópavogi, séð ástæðu til þess að tjá sig um viðskipti stefnenda og Kópavogsbæjar. Í fyrsta lagi í fréttum sjónvarps 14. maí 2009 þar sem fjallað hafi verið um beiðni stefndu um upplýsingar. Hafi verið talað við hana í fréttatímanum og þar sem hún hafi  sagt m.a: „Þetta eru háar upphæðir fyrir verk sem í fljótu bragði virðast frekar lítil og einföld.“ Einnig komi fram í fréttinni að stefnda muni óska eftir opinberri rannsókn á málinu ef umrædd viðskipti eigi sér ekki eðlilegar skýringar.

Aftur hafi stefnda Guðríður séð ástæðu til að tjá sig en vitnað hafi verið í hana í umfjöllun DV 15. maí 2009: „Milljónir fyrir rit sem aldrei kom út.“ Þar sé fjallað ítarlega um viðskipti stefnanda Frjálsrar miðlunar ehf. og Kópavogsbæjar, sérstaklega varðandi afmælisrit Kópavogsbæjar. Í lok greinarinnar sé vitnað í stefndu Guðríði og haft eftir henni  að það hafi komið stefndu á óvart hversu háar fjárhæðir fyrirtæki dóttur Gunnars I. Birgissonar, bæjarstjóra, stefnanda  Brynhildar, hafi fengið á liðnum árum og hversu háar greiðslur hafi verið fyrir ýmis verk sem ekki virðist mjög veigamikil. Sé síðan vitnað í tvö tiltekin verk þessu til stuðnings, gerð umhverfisviðurkenninga og gerð gagnvirks götukorts. 

Stefndu, sem öll séu bæjarráðsmenn í Kópavogi, hafi krafist þess að kafað yrði dýpra í viðskipti stefnenda og Kópavogsbæjar. Forsvarsmenn Kópavogsbæjar hafi orðið við þeirri beiðni og látið endurskoðunarfyrirtækið Deloitte gera úttekt á viðskiptum stefnenda og Kópavogsbæjar. Sú úttekt hafi verið birt 9. júní 2009 og voru helstu niðurstöður hennar að almennt hafi ekki verið gerðar verðkannanir eða leitað tilboða í verkefni sem stefnendur hefðu unnið fyrir Kópavogsbæ. Hafi fyrirtækið talið að hugsanlega væri um brot á lögum um opinber innkaup að ræða. Þá hafi reikningar frá stefnanda Frjálsri miðlun ehf. verið bókaðir á ranga bókhaldslykla í fjárhagsbókhaldi og skriflegir verksamningar almennt ekki verið gerðir vegna verkefnanna. Reikningar frá stefnanda hafi enn fremur ekki fullnægt skilyrðum virðisaukaskattslaga um sundurliðun upplýsinga. Enn fremur hafi Deloitte talið að ekki væri heimilt að nýta endurgreiðslu virðisaukaskatts af þjónustu stefnanda Frjálsrar miðlunar ehf. en það hafi verið gert í sumum tilvikum. Að lokum hafi Deloitt talið að það vekti athygli að frá 23. mars 2005 hafi bærinn móttekið og greitt 6 reikninga frá stefnanda Frjálsri miðlun ehf. vegna afmælisrits en verkefninu hafi ekki verið lokið og ekki liggi fyrir aðrar afurðir en drög að uppsetningu sem prentuð hafi verið út 23. mars 2005.

Deloitte hafi síðar sent frá sér viðauka til skýringar á skýrslunni eftir ábendingar sem vörðuðu tilvísun til lagaákvæða í upphaflegu greinargerðinni. Komi þar m.a. fram að ekki hafi verið kannað ofan í kjölinn hvort um brot á ákvæðum laga um opinber innkaup hafi verið að ræða heldur einvörðungu verið vakin athygli á því að þessi ákvæði gætu hafa verið brotin.

Þremur dögum síðar, föstudaginn 12. júní 2009, hafi stefndu öll skrifað grein í Morgunblaðið undir yfirskriftinni: „Hvar á að draga mörkin?“ Sé í greininni fjallað um skýrslu Deloitte um viðskipti Kópavogsbæjar við stefnanda Frjálsa miðlun ehf.  og sé þar bæjarstjóri Kópavogs ásakaður um óheilindi vegna gagnrýni sinnar á skýrslu Deloitte. Komi m.a. fram í grein stefndu að

  1. „Fyrirtækið Frjáls miðlun hefur fengið greitt fyrir óunnin og/eða hálfkláruð verk og skýrar vísbendingar um að fyrirtækið hafi fengið greitt oftar en einu sinni fyrir sama verk.“
  2. „Hvort sem hér er um að ræða lögbrot eða ekki er þetta klárlega spilling í opinberri stjórnsýslu. Slíkt á ekki að umbera og gildir þá einu  hvort lög eru brotin eða ekki.“
  3. „Skýrslu Deloitte og umfjöllun fjölmiðla um málið undanfarnar vikur hefur sýnt svo enginn vafi leikur á að fyrirtækið Frjáls miðlun hefur notið óeðlilegrar fyrirgreiðslu hjá Kópavogsbæ og notið þannig tengsla sinna við bæjarstjóra Kópavogs.“

Þáverandi bæjarstjóri Kópavogs hafi leitaði til LEX lögmannsstofu og farið fram á lögfræðilegt álit á ályktunum Deloitte. Sérstaklega hafi verið óskað eftir að athugað yrði hvort þær skoðanir, sem settar væru fram í áliti Deloitte um að brotið hafi verið gegn lögum um opinber innkaup, fengju staðist. Niðurstaða lögmannsstofunnar hafi verið sú að ekki hafi verið brotið gegn ákvæðum laga um opinber innkaup og samningar hafi ekki verið yfir viðmiðunarfjárhæðum laganna. Því hafi ekki verið skylt að bjóða út innkaup á grundvelli laga um opinber innkaup ef einstakir samningar næðu ekki viðmiðunarfjárhæðum reglugerðar nr. 807/2007. Engir einstakir samningar stefnanda hafi náð þeim fjárhæðum og hafi Kópavogsbæ því ekki verið skylt að bjóða út verk- eða þjónustukaup sem samið hafi verið um við stefnanda.

Eftir þessa niðurstöðu LEX lögmannsstofu hafi stefnda Guðríður enn séð ástæðu til að tjá sig í fjölmiðlum um viðskipti stefnenda og Kópavogsbæjar og sé m.a. haft eftir henni í Fréttablaðinu 17. júní 2009: „Það sem við getum gert í Samfylkingunni er að við getum vísað málinu í opinbera rannsókn og við getum vísað ákveðnum þáttum til ríkissaksóknara og óskað eftir því að hann gefi út ákæru í málinu“. Bendi stefnda Guðríður í framhaldinu sérstaklega á vinnu við afmælisrit Kópavogsbæjar og að greitt hafi verið oftar en einu sinni fyrir sömu ljósmyndirnar.

Þann 30. júní hafi Bæjarstjórn Kópavogs leitað álits Samband íslenskra sveitarfélaga á niðurstöðum Deloitte um viðskipti stefnenda og Kópavogsbæjar. Meginniðurstöður álitsins séu þær að ekki væri unnt að skilja ákvæði laga um opinber innkaup svo að sveitarfélagi sé skylt samkvæmt lögum að leita eftir fleiri en einu tilboði þegar heildarfjárhæð sé undir viðmiðunarfjárhæð um opinber innkaup á Evrópska efnahagssvæðinu. Frekar væri um að ræða áminningu um að gæta góðra stjórnsýsluhátta við framkvæmd innkaupa. Þá sé gerð athugasemd við þá niðurstöðu Deloitte að viðskipti stefnanda Frjálsrar miðlunar ehf. og Kópavogsbæjar hefðu verið yfir viðmiðunarmörkum laga um opinber innkaup og leidd rök að því að Deloitte hafi beitt rangri aðferðafræði við þetta mat. Ólíklegt væri að lög um opinber innkaup hafðu verið brotin í viðskiptum Kópavogsbæjar við stefnanda Frjálsa miðlun ehf.  þar sem samið hefði verið um verkefni á mismunandi tímum og í mörgum tilvikum um algerlega sjálfstæð verkefni að ræða. Þá hafi ekki verið mögulegt að gera lengri samninga um fleiri verk í einu í ljósi þess að fjárhagsáætlun gildi aðeins fyrir eitt ár í einu og því ekki hægt að gera verk- eða þjónustusamninga til margra ára í senn.

Málsástæðurstefnenda.

Ómerking ummæla í grein stefndu í Morgunblaðinu 12. júní 2009.

A:„Fyrirtækið Frjáls miðlun hefur fengið greitt fyrir óunnin og/eða hálfkláruð verk og skýrar vísbendingar um að fyrirtækið hafi fengið greitt oftar en einu sinni fyrir sama verk.“

Ofangreind ummæli komi fyrir í grein sem stefndu hafi skrifað í Morgunblaðið í tilefni af útkomu skýrslu Deloitte um viðskipti stefnanda Frjálsrar miðlunar ehf. og Kópavogsbæjar. Með þessum orðum séu stefndu að kasta rýrð á þau verk sem stefnendur hafi unnið fyrir Kópavogsbæ með því að halda því fram að þau hafi annaðhvort ekki unnið þau eða jafnvel að greitt hafi verið fyrir verkefni sem ekki hafi þurft að vinna. Hafni stefnendur þessu alfarið og telja að um ósannar og órökstuddar fullyrðingar sé að ræða og leggja verði sönnunarbyrði á stefndu fyrir réttmæti þeirra. Stefnendur hafi unnið öll þau verk sem þau hafi fengið greitt fyrir og komi ekkert annað fram í téðri skýrslu. Þá sé einnig fjallað um að einhver verk hafi verið „hálfkláruð“. Ekki sé ljóst af greininni hvaða verk sé átt við en mögulega sé verið að vísa til vinnu stefnenda við afmælisrit Kópavogsbæjar sem vísað sé til í skýrslu Deloitte. Umrætt afmælisrit hafi ekki verið „hálfklárað“ af hálfu stefnenda, heldur  hafi það verið fullunnið, enda hafi stefnendur einvörðungu átt að sjá um uppsetningu og hönnun ritsins. Allur texti hafi átti að koma frá starfsmönnum Kópavogsbæjar. Ábyrgð á útgáfu ritsins hafi ekki legið hjá stefnendum heldur hjá verkkaupa. Stefnendum sé ókunnugt um hvers vegna umrætt rit hafi ekki komið út líkt og áformað hafi verið. Sé því hér um ranga fullyrðingu að ræða. Mögulegt sé einnig að verið sé að vísa til vinnu stefnenda við gagnvirkt götukort fyrir Kópavogsbæ. Að því verkefni hafi stefnendur komið en ekki haft yfirumsjón með því, heldur hafi þau aðeins átt að sjá um afmarkaða hluta verkefnisins. Sú vinna hafir ekki farið í súginn og geti enn haft gildi fyrir Kópavogsbæ kjósi bæjarfélagið að ljúka nauðsynlegri tæknivinnslu. Þá sé í lok ofangreindrar setningar því haldið fram að stefnendur hafi fengið greitt oftar en einu sinni fyrir sama verkið. Sú fullyrðing sé bæði órökstudd og  ósönn og þó alvarlegust tilvitnaðra ummæla þar sem í þeim felist ásökun stefndu um refsiverða háttsemi af hálfu stefnenda.  

B: „Hvort sem hér er um að ræða lögbrot eða ekki er þetta klárlega spilling í opinberri stjórnsýslu. Slíkt á ekki að umbera og gildir þá einu hvort lög eru brotin eða ekki.“

Hér haldi stefndu áfram að kasta rýrð á stefnendur með því að halda því fram að þau hafi ekki verið valin til verka fyrir Kópavogsbæ vegna sérhæfingar og hæfni heldur á grundvelli einhvers sem  þau kalla „spillingu“ í opinberri stjórnsýslu. Sé þetta augljóslega til þess fallið að sverta orðspor stefnenda enda orðræða stefndu í upphrópunarstíl. Geti slík ummæli haft neikvæð áhrif á möguleika stefnenda til þess að afla sér verkefna, bæði hjá bæjarfélaginu og öðrum. Hafni stefnendur fullyrðingum stefndu og telja að samskipti sín og Kópavogsbæjar hafi verið eðlileg eins og á stóð.

C: „Skýrsla Deloitte og umfjöllun fjölmiðla um málið undanfarnar vikur hefur sýnt svo enginn vafi leikur á að fyrirtækið Frjáls miðlun hefur notið óeðlilegrar fyrirgreiðslu hjá Kópavogsbæ og notið þannig tengsla sinna við bæjarstjóra Kópavogs.“

Fullyrðingar stefndu um að hér leiki enginn vafi á að stefnandi Frjáls miðlun ehf. hafi notið óeðlilegrar fyrirgreiðslu vegna tengsla eigenda fyrirtækisins við bæjarstjóra Kópavogs séu að sama skapi órökstuddar. Þrátt fyrir að viðskipti stefnenda og Kópavogsbæjar hafi verið mikil á undanförnum árum eigi það sér eðlilegar ástæður. Mörg þeirra verka, sem unnin hafi verið, séu smá í sniðum og því svari ekki kostnaði að fara í umfangsmiklar verðkannanir þegar endanleg upphæð sé ekki mjög há. Sé því í raun eðlilegt að gengið sé til samstarfs um smærri verkefni við aðila sem Kópavogsbær hafi reynslu af samstarfi við. Þetta staðfesti Birgir Hlynur Sigurðsson, sviðsstjóri skipulags- og umhverfissviðs Kópavogsbæjar, í bréfi sínu 8. maí 2009 og bendi einnig á að ekki sé óeðlilegt að leitað sé til sömu aðilanna þegar viðkomandi aðilar skili dagsverkinu af miklum metnaði. Stefnandi Frjáls miðlun ehf. eigi gott safn mynda úr Kópavogi og því eðlilegt að leita til þeirra og hafi bæjarskipulag Kópavogsbæjar nýtt sér það. Þá beri að líta til þess að í mörgum tilvikum hafi verk verið boðin út á vegum Kópavogsbæjar og stefnandi hafi ekki fengið þau verk. Nefna megi t.d. gerð ársskýrslu fyrir árin 2004, 2005 og 2008. Ef slík óeðlileg fyrirgreiðsla væri til staðar væri eðlilegt að álykta að stefnandi Frjáls miðlun ehf. hefði fengið fleiri verk en hann fékk. Í þau skipti sem stefnandi hafi fengið samning að undangenginni verðkönnun eða útboði hafi félagið verið með lægsta tilboð í verkið það árið. Árin 2002-2003 og 2005 hafi ekki farið fram formlegt útboð á þessum verkum en stefnandi hafi fengið verkin þau ár. Fyrrverandi bæjarritari, Ólafur Briem, hafi staðfest að í þessum tilvikum hafi verið gerðar verðkannanir, formlegar og óformlegar, og hafi val byggst á góðri reynslu af viðskiptum við stefnanda Frjálsa miðlun ehf.  Hér beri að minna á niðurstöður Lex lögmannsstofu  og áliti Sambands íslenskra sveitarfélaga en í báðum þessum álitum sé talið að engin af þeim verkum, sem stefnandi hafði unnið fyrir Kópavogsbæ, hafi verið útboðsskyld og því hafi ákvæði laga um opinber innkaup ekki verið brotin. Verði því að telja að umræddar staðhæfingar stefndu séu beinlínis rangar og beri stefndu sönnunarbyrði fyrir öðru.

Ómerking ummæla stefndu Guðríðar í DV, kvöldfréttum sjónvarps og í Fréttablaðinu.

D: „...fyrir ýmis verk sem ekki virðast mjög veigamikil.“

Framangreind setning sé höfð eftir stefndu Guðríði í umfjöllun DV um viðskipti stefnenda og Kópavogsbæjar. Í framhaldinu nefni hún tvö dæmi um slík „veigalítil“ verk, annars vegar gerð umhverfisviðurkenninga og hins vegar gerð gagnvirks götukorts. Bæði þessi verk hafi að ósk bæjaryfirvalda verið unnin af metnaði og því ekki óeðlilegt að nokkur kostnaður hljótist af vinnu við þau. Í vinnu við umhverfisviðurkenningarnar, sem samtals hafi kostað 1.986.527 krónur á 5 ára tímabili, hafi falist hönnun, setning, útlit, myndvinnsla, litaprentanir og umsjón með verki og myndataka vegna gerðar umhverfisviðurkenninganna. Telji stefnendur að umrætt verk sé ekki lítilvægt í þeim skilningi sem stefnda Guðríður virðist telja. Slík ummæli séu til þess fallin að kasta rýrð á stefnendur alla, stefnanda Frjálsa miðlun ehf. sem fyrirtæki í rekstri og stefnendur Brynhildi og Guðjón sem fagmenn og valda þeim öllum umtalsverðum búsifjum. Ummælin séu til þess fallin að gefa mögulegum viðskiptamönnum það til kynna að stefnendur skili lítilvægum verkum fyrir hátt endurgjald. Hér beri einnig að benda á að stefnandi Frjáls miðlun ehf. hafi tekið þátt í útboði á vegum Kópavogsbæjar um gerð umhverfisviðurkenninga fyrir árið 2009 og verið með lægsta tilboð í verkið. Það tilboð hafi verið hærra en kostnaður vegna umhverfisviðurkenninga fyrir árin 2004 og 2007  og megi sjá af þessu að kostnaðurinn, sem greiddur hafi verið fyrir téðar umhverfisviðurkenningar, hafi ekki verið óeðlilegur. Þá sé einnig villa í útreikningum Deloitte en reikningur frá 11.10.2006, sem vitnað sé til í skýrslunni og talinn sé til kostnaðar vegna umhverfisviðurkenninga, sé ekki vegna vinnu við þær heldur vinnu vegna gerðar margmiðlunarsýningar, hönnunar á hulstri og umsjón með verkum. Því beri að draga fjárhæð umrædds reiknings frá heildartölunni sem Deloitte leggi til grundvallar fyrir árið 2006.  Þá beri að nefna, varðandi hið gagnvirka götukort, að að baki því liggi einnig mikil hönnunarvinna, gagnaöflun, ýmis konar úrvinnsla gagna, tímafrek kortavinna og annað það sem fylgi slíku verkefni og skýri þá fjárhæð sem greidd hafi verið fyrir verkið.  Framangreind ummæli verði því með engu móti réttlætt hvað þetta verkefni varðar.

E: „Þetta eru háar upphæðir fyrir verk sem í fljótu bragði virðast frekar lítil og einföld.“

Þessi ummæli hafi stefnda Guðríður viðhaft í fréttum Ríkissjónvarpsins 14. maí 2009. Séu þau hliðstæð við ummæli í D lið hér að framan. Það sem sé þó alvarlegt sé að hér sé verið að endurtaka ærumeiðandi ummæli í fjölmiðli sem sé með mikið áhorf. Geri það ummæli stefndu Guðríðar enn alvarlegri og séu þau enn frekar til þess fallin að kasta rýrð á stefnendur og valda þeim tekjutapi í framtíðinni.

F: „Það sem við getum gert í Samfylkingunni er að við getum vísað málinu í opinbera rannsókn og við getum vísað ákveðnum þáttum til ríkissaksóknara og óskað eftir því að hann gefi út ákæru í málinu.“

Þessi ummæli stefndu Guðríðar hafi verið höfð eftir henni í umfjöllun Fréttablaðsins frá 17. júní 2009 um viðskipti stefnenda og Kópavogsbæjar. Þessi ummæli þurfi að skoða í samhengi við ummæli stefndu Guðríðar fyrr um sumarið, nánar tiltekið í fréttum Ríkissjónvarpsins 14. maí 2009, þar sem stefnda hóti því að hún muni óska eftir opinberri rannsókn á málinu fáist ekki fullnægjandi skýringar á viðskiptum stefnanda Frjálsrar miðlunar ehf. og Kópavogsbæjar. Virðist því sem stefnda telji að á þessum tímapunkti hafi hún fullnægjandi upplýsingar til þess að staðhæfa að viðskiptin hafi verið óeðlileg og þeir sem beri ábyrgð á viðskiptunum verði sóttir til saka. Í ofangreindum ummælum felist því upphrópun um að stefnendur hafi tekið þátt í ólöglegu athæfi með viðskiptum sínum við Kópavogsbæ. Felist í slíkri upphrópun alvarleg aðdróttun gegn æru allra stefnenda, enda augljóst að ásakanir um þátttöku í ólögmætu athæfi hafa alvarleg áhrif fyrir æru allra. Það sem sé sérstaklega alvarlegt sé að hvergi komi fram nánari rökstuðningur fyrir því hvað nákvæmlega hafi verið ólögmætt eða þá hvaða fyrirmælum laga hafi verið farið gegn. Stefnendur hafi síst á móti því að viðskipti þeirra við Kópavogsbæ verði rannsökuð ofan í kjölinn en þau telji að endurteknar yfirlýsingar stefndu um tilefni til opinberrar rannsóknar,  án þess að því sé fylgt eftir með formlegri kæru, feli í sér gróft tilræði við æru þeirra. Ekki síst þegar ummælin komi fram sem hluti af langvinnri ófrægingarherferð um fyrirtækið og aðstandendur þess.

Stefnendur telja að framangreind ummæli stefndu í stafliðum A-F varði við 234., 235., og 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og því beri að ómerkja þau með vísan til 1. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga, enda ljóst að ummæli stefndu séu bæði óviðurkvæmileg, tilhæfulaus og smekklaus og til þess fallin að sverta ímynd stefnenda, bæði í augum almennings sem og núverandi og framtíðarviðskiptavina þeirra. Hagsmunir stefnenda af því að fá ummælin dæmd dauð og ómerk séu því ótvíræðir. Við mat á ofangreindum ummælum verði að taka tillit til þess að stefnendur teljist ekki opinberar persónur og nauðsynlegt sé að stjórnmálamenn, líkt og stefndu séu, dragi ekki aðra aðila en nauðsynlegt er inn í hringiðu þá sem stjórnmálaumræða sé í. Telja stefnendur að þeir hafi verið dregnir inn í umræðuna að ósekju og hafi stefndu gróflega mistúlkað þær upplýsingar sem fyrir lágu um viðskipti stefnenda og Kópavogsbæjar. Með störfum sínum fyrir Kópavogsbæ tóku stefnendur ekki þátt í opinberri umræðu um samfélagsmál né gerðust þau á nokkru stigi þátttakendur í slíkri umræðu. Ásakanir stefndu hafi þannig verið einhliða atlögur að faglegum starfsheiðri stefnenda og auk þess falið í sér grófar dylgjur í þeirra garð um ólögmætt atferli. Staða stefndu sem kjörnum sveitarstjórnarmönnum eigi fráleitt að opna þeim víðtækari heimildir til að ausa samborgara sína dylgjum og svívirðingum og verði því ekki metinn lögmætur hluti opinberrar umræðu.  Langvinnar og endurteknar árásir stefndu á æru stefnenda hafi stórlega skaðað ímynd þeirra. Telja stefnendur að framangreindar fullyrðingar  stefndu hafi falið í sér brot á  réttindum þeirra samkvæmt 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrár nr. 33/1944, sbr. 1. mgr. 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu.

Við þetta mat verði einnig að taka tillit til þess að ummæli í stafliðum A-F séu öll þannig úr garði gerð að stefndu hefðu getað aflað sér nánari upplýsingar um sannleiksgildi þeirra áður en farið hafi verið með slík ummæli í fjölmiðla. Hér verði stefndu sem kjörnir bæjarfulltrúar að gæta ákveðins hófs í framsetningu ummæla sinna á þann veg að taka tillit til þeirra aðila sem skaðast gætu við orðræðu þeirra.

Samlagsaðild.

Stefnendur vilja taka af öll tvímæli um að þeir hafi hagsmuni af því að fara í mál þetta á grundvelli samlagsaðildar, sbr. 19. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Öll framangreind ummæli er fram koma í stafliðum A-F, sem krafist sé ómerkingar á, varði viðskipti milli stefnanda Frjálsrar miðlunar ehf. og Kópavogsbæjar og hafi lögaðilinn því augljósa hagsmuni af því að krefjast ómerkingar og bóta fyrir ærumeiðandi ummæli sem beint sé gagnvart lögaðilanum. Stefnendur Brynhildur Gunnarsdóttir og Guðjón Gísli Guðmundsson séu starfandi eigendur Frjálsrar miðlunar ehf. Brynhildur sé dóttir Gunnars I. Birgissonar, fyrrverandi bæjarstjóra Kópavogs, og Guðjón sé eiginmaður Brynhildar og þar með tengdasonur Gunnars. Ofangreind ummæli í stafliðum A-F varði þau einnig í ljósi þess að verið sé að væna þau um að hafa nýtt sér stöðu sína í gegnum lögaðilann Frjálsa miðlun ehf., gagnvart þáverandi bæjarstjóra Kópavogs, til þess að afla félaginu verkefna hjá Kópavogsbæ. Heiður þeirra, bæði sem einstaklinga og sem eigenda fyrirtækis, hafi því beðið alvarlegan hnekki við ummæli stefndu. Teljist stefnendum öllum því heimilt að fara í mál þetta á grundvelli samlagsaðildar.

Hið sama eigi við um samlagsaðild stefndu til varnar. Stefndu hafi skrifað þá grein sem vitnað sé til í stafliðum A-C í sameiningu og séu titluð sameiginlegir höfundar. Þá varði öll ummælin viðskipti stefnenda og Kópavogsbæjar á einn eða annan veg og teljist því skilyrðum 2., sbr. 1. mgr. 19. gr. laga um meðferð einkamála fullnægt varðandi samlagsaðild til varnar.

Miskabótakrafa.

Stefnendur byggja einnig á því að umrædd ummæli stefndu, sem fram koma í stafliðum A-F, hafi veikt stöðu stefnanda Frjálsrar miðlunar ehf. á samkeppnismarkaði og svert ímynd stefnenda Brynhildar og Guðjóns. Aðdróttanirnar séu ærumeiðandi og einfaldlega rangar og bornar fram án þess að stefndu hafi haft nokkuð fyrir sér. Virðing stefnenda allra hafi því beðið hnekki sem og æra þeirra og ímynd.

Fjöldi fólks lesi Morgunblaðið, DV, Fréttablaðið og horfi á kvöldfréttir Ríkissjónvarpsins og því hafi útbreiðsla þessara ummæla verið mikil og náð til margra. Almenn og sérstök varnaðaráhrif skaðabótareglna standi því til þess að stefnendum verði dæmdar háar miskabætur. Í því sambandi beri einnig að nefna að ummæli stefndu hafi haft bein áhrif á fjárhag stefnenda með þeim hætti að eftir þá umræðu, sem stefndu stóðu fyrir, hafi eftirspurn eftir þjónustu stefnanda Frjálsrar miðlunar ehf. frá stofnunum Kópavogskaupstaðar því sem næst þurrkast upp. Stefnandi hafi byggt upp viðamikla sérþekkingu á málefnum Kópavogs, m.a. afar viðamikið myndasafn sem nýst hafi í kynningarþjónustu fyrir stofnanir sveitarfélagsins. Samdráttur í verkefnum fyrir stofnanir bæjarfélagsins sé því tilfinnanlegur. Stefndu hafi mátt vera það ljóst að sú hrina meiðandi ummæla, aðdróttana og dylgja, sem þau hafi þeytt yfir stefnendur, væri til þess fallin að valda þeim skaða, m.a. með því að forstöðumenn bæjarstofnana forðuðust að dragast inn í þann flaum  ásakana með því að halda áfram viðskiptum sem höfðu þó að þeirra mati verið bænum hagfelld. Sé eðlilegt að þetta hafi áhrif á fjárhæð miskabótanna.

Krafa stefnenda um miskabætur er byggð á 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Við mat á miskabótum vísa stefnendur til grunnraka að baki 234., 235. og 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Um frekari rökstuðning fyrir miskabótakröfu stefnenda er vísað til röksemda í umfjöllun um ummæli stefndu í liðum A-E hér að ofan.

Lagarök stefnenda.

Kröfur sínar um ómerkingu ummæla styðja stefnendur við 234., 235. og 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. og 1. og 2. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sem og grunnraka þeirra sem búa að baki framangreindum lagagreinum. Stefnandi vísar einnig til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

Vísað er einnig til 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrár nr. 33/1944, sbr. 1. mgr. 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu sem lögfestur var með lögum nr. 62/1994.

Aðild, bæði til varnar og sóknar, styðja stefnendur við 19. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Kröfur um vexti, þar með talda dráttarvexti og vaxtavexti, styðja stefnendur við reglur III. og IV. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

             Krafa um málskostnað er studd við 1. mgr. 130. gr. laga 91/1991 um meðferð einkamála. Varðandi varnarþing er vísað til 32 gr. laga númer 91/1991.

II.

Málavaxtalýsing stefndu Guðríðar Arnardóttur.

 Stefnda sér ekki ástæðu til að gera sérstakar athugasemdir við málavaxtalýsingu stefnenda sem slíka að því er varðar þá atburði sem þar er lýst og eru þungamiðja máls þessa.  Hins vegar telur stefnda lýsingu stefnenda að nokkru leyti gildishlaðna og er mótmælt að því leyti af hálfu stefndu.  Þá sé það ekki nákvæmt í málavaxtalýsingu stefnenda að stefndu hafi krafist þess að kafað yrði dýpra í viðskipti stefnenda og Kópavogsbæjar og að forsvarsmenn Kópavogsbæjar hafi orðið við þeirri beiðni. Hið rétta sé að bæjarráð Kópavogsbæjar hafi verið einhuga um að leita til endurskoðunarfyrirtækis í því skyni að láta rannsaka málið.  Náðst samkomulag milli allra í bæjarráði um að leita til Deloitte í því skyni.

Stefnda telur ekki þörf á að endurtaka lýsingu málavaxta í heild sinni hér þrátt fyrir þessa annmarka á málavaxtalýsingu stefnenda að mati stefndu.

Ástæða sé til að árétta af hálfu stefndu að öllum þeim ummælum sem mál þetta varðar og stefnda viðhafði, ýmist ein eða í félagi við meðstefndu, hafi verið beint að bæjaryfirvöldum í Kópavogsbæ en ekki stefnendum. Ummælin hafi enda öll varðað  stjórnsýslu og stjórnsýsluhætti Kópavogsbæjar í tengslum við kaup á tiltekinni þjónustu.  Stefnda hafi verið þeirrar skoðunar að bæjaryfirvöld í Kópavogsbæ hefðu á undanförnum árum hvorki gætt góðra stjórnsýsluhátta né hagsmuna bæjarfélagsins til hins ýtrasta við kaup á þjónustu af stefnanda Frjálsri miðlun ehf.  Hafi stefndu þótt, ásamt meðstefndu, rík ástæða vera til að þau viðskipti yrðu skoðuð nánar, meðal annars með það fyrir augum að kanna hvort lög kynnu að hafa verið brotin með viðskiptunum.  Stefnda hafi fylgt málinu eftir, bæði á fundum bæjaryfirvalda í Kópavogi og í fjölmiðlum.  Þau ummæli, sem stefnda hafi viðhaft af því tilefni, hafi öll verið sett fram af hlutlægni, sanngirni og í góðri trú.  Telur stefnda að þau gögn, sem lögð hafa verið fram af hálfu bæjaryfirvalda vegna málsins, og önnur gögn sem stefnda hefur aflað, styðji ummæli hennar fyllilega.

Ummælum stefndu hafi  hins vegar ekki verið beint að stefnendum og ummælin ekki varðað þau. Stefnendur eigi því enga kröfu á hendur stefndu svo sem nánar verði rakið í umfjöllun um málsástæður hér síðar.

Málsástæður og lagarök stefndu Guðríðar.

A. Aðalkrafa – krafa um sýknu.

Af hálfu stefndu er öllum kröfum og málsástæðum stefnenda mótmælt.  Byggir stefnda einkum á þeim málsástæðum, sem hér fara á eftir, til stuðnings sýknukröfu sinni í málinu.  Í þessum kafla er einnig að finna andsvör stefndu við helstu málsástæðum sem stefnendur reisa kröfur sínar á.

1.       Ummælum stefndu var ekki beint að stefnendum og þau varða ekki stefnendur. Aðildarskortur.

Stefnendur krefjist ómerkingar á tilteknum ummælum sem stefnda hafi viðhaft í greininni „Hvar á að draga mörkin“  í Morgunblaðinu þann 12. júní 2009, í frétt DV þann 15. maí 2009, í kvöldfréttum sjónvarps þann 14. maí 2009 og í Fréttablaðinu þann 17. júní 2009.  Öll viðkomandi ummæli eiga það hins vegar sammerkt að þeim hafi verið beint að bæjaryfirvöldum í Kópavogsbæ og þau varði stjórnsýsluhætti og meðferð stjórnsýsluvalds bæjaryfirvalda á tilteknum tíma.  Með ummælunum hafi ekki með nokkru móti verið vegið að stefnendum, mannorði þeirra, æru, starfsheiðri eða öðrum þáttum, sem notið geti bótaverndar.

Þá séu ummæli stefndu ekki óviðurkvæmileg eða niðrandi í nokkurs garð, allra síst stefnenda.

Þar eð ummælunum hafi ekki verið beint að stefnendum og ummælin varði ekki stefnendur geti þeir ekki haft uppi nokkrar kröfur á hendur stefndu vegna ummælanna.  Verði því að sýkna stefndu af fjárkröfum stefnenda sökum aðildarskorts, sbr. að sínu leyti 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Stefnda sé lýðræðislega kjörinn bæjarfulltrúi í minnihluta bæjaryfirvalda í Kópavogsbæ og hafi verið það einnig á þeim tíma er hin umstefndu ummæli voru viðhöfð.  Sem kjörnum bæjarfulltrúa beri stefndu að halda uppi virku eftirliti og aðhaldi með stjórnsýslu Kópavogsbæjar og meðferð þess valds sem bæjaryfirvöld hafa. Innkaup bæjaryfirvalda í Kópavogi á þjónustu séu meðal þeirra atriða sem stefndu beri að hafa virkt eftirlit með í því sambandi.

Eins og nánari grein verði gerð fyrir hér síðar hafi stefndu þótt vera ástæða til að gera athugasemdir við kaup Kópavogsbæjar á þjónustu af stefnanda Frjálsri miðlun ehf. síðustu misserin. Eigendur þess fyrirtækis muni vera stefnendur, Brynhildur Gunnarsdóttir og Guðjón Gísli Guðmundsson, en þau séu dóttir og tengdasonur þáverandi bæjarstjóra Kópavogsbæjar, Gunnars I. Birgissonar. Af hálfu stefndu hafi ekki með nokkru móti verið unnt að fjalla um kaup Kópavogsbæjar á þjónustu af Frjálsri miðlun ehf. öðruvísi en að nafn þess fyrirtækis bæri á góma.  Leiði það af eðli máls.

Hér síðar verði fjallað nánar um tjáningarfrelsi stefndu og einstök ummæli stefndu sem stefnendur hafi krafist ómerkingar á. Hér sé þó rétt að nefna að stefnda byggi á því að tjáningarfrelsi hennar sem kjörins bæjarfulltrúa í Kópavogsbæ verði ekki þrengt svo að henni verði gert ókleift að fjalla um stjórnsýsluhætti bæjarins og gera við þá stjórnsýsluhætti athugasemdir.

Með vísan til framangreinds telur stefnda málsókn stefnenda og kröfugerð þeirra langsótta og að í raun sé þar komið langt út fyrir verndarsvið friðhelgi einkalífs og reglna um vernd mannorðs. Stefnendur hafi ekki, og geti ekki, orðið fyrir tjóni af völdum þeirra saklausu og hlutlægu ummæla sem stefnda hafi viðhaft um stjórnsýslu bæjaryfirvalda í Kópavogi.

2.   Bótagrundvöllur og saknæmi. Ekki um ólögmæta meingerð að ræða, tjáningarfrelsi o.fl.

Stefnendur hafi ekki gert grein fyrir grundvelli bótakrafna sinna.  Ekki verði t.a.m. séð hvort stefnendur byggi á sakarreglu skaðabótaréttar, hlutlægum bótareglum eða öðrum skaðabótareglum til stuðnings kröfum sínum.  Þess í stað vísi stefnendur eingöngu til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og tiltekinna ákvæða almennra hegningarlaga nr. 19/1940.  Þær reglur hafi ekki að geyma ákvæði um bótagrundvöll.  Þar eð stefnendur byggi kröfur sínar ekki á fullnægjandi bótagrundvelli eða málsástæðum beri að sýkna stefndu af kröfum stefnenda í málinu.  Úr þessum annmarka geti stefnendur ekki bætt á síðari stigum málsins.

Hvað sem því líði byggi stefnda á því að saknæmisskilyrði 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 hafi ekki verið uppfyllt í ummælum hennar og að hinu sama gegni að því er varðar ákvæði 234.–236. og 241. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, enda hafi stefnda ekki viðhaft nein óviðurkvæmileg ummæli.  Beri því að sýkna stefndu af öllum kröfum stefnenda í málinu.

Ákvæði 26. gr. skaðabótalaga geri að skilyrði fyrir greiðslu miskabóta að tjónvaldur hafi gerst sekur um ólögmæta meingerð.  Sú krafa sé samofin saknæmisskilyrðinu og feli í sér að miskabætur verði ekki dæmdar nema að um hafi verið að ræða ásetning eða stórkostlegt gáleysi þegar viðeigandi ummæli hafi verið viðhöfð.  Þau skilyrði séu síst uppfyllt í tilviki stefndu, enda hafi ummæli hennar verið viðhöfð í góðri trú og stuðst við hlutlaust og sanngjarnt mat hennar á kringumstæðum.  Því áliti sínu komi stefnda á framfæri með hlutlausum og sanngjörnum hætti án þess að vegið hafi verið hið minnsta að stefnendum, mannorði þeirra eða æru.  Sú framsetning stefndu hafi verið vel innan marka tjáningarfrelsis hennar.

Jafnframt sé ljóst að háttsemi þurfi að vera af tilteknum grófleika til að teljast ólögmæt meingerð.  Það skilyrði sé síst uppfyllt í málinu.  Þá sé bent á að í norrænum rétti hafi verið talið að niðurlæging sé helsta einkenni ólögmætrar meingerðar í skilningi skaðabótalaga.  Það sé niðurlægingin sem grundvalli miskabótakröfuna.  Um þetta vísist til dóma og fræðiskrifa sem reifuð verði við munnlegan flutning málsins.  Eins og nánar verði fjallað um hér síðar verði ekki séð að ummæli stefndu geti með nokkru móti talist óviðurkvæmileg eða niðurlægjandi fyrir stefnendur.  Geti því ekki hafa verið um að ræða ólögmæta meingerð.

Hér verði og að hafa í huga að stefnendur hafi verið í viðskiptum við Kópavogsbæ sem sé opinber aðili. Verði stefnendur eðlilega að þola að þeir séu nefndir á nafn, sem og þau viðskipti sem stefnendur hafi átt við Kópavogsbæ, að svo miklu leyti sem umfjöllunin varði stjórnsýsluhætti Kópavogsbæjar.  Önnur niðurstaða væri algjörlega óásættanleg frá sjónarmiði tjáningarfrelsis stefndu og þeirrar skyldu hennar sem kjörins bæjarfulltrúa að veita stjórnsýslu Kópavogsbæjar aðhald.

Það væri óviðunandi, og þvert ofan í þær kröfur sem gera megi í lýðræðissamfélagi, ef unnt væri að leggja skaðabótaskyldu á stefndu vegna ummæla sem feli í sér rökstudda og hlutlæga gagnrýni á bæjaryfirvöld. Slík niðurstaða gengi þvert gegn meginreglunni um tjáningarfrelsi, sem varið sé af 73. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. stjórnskipunarlög nr. 33/1944.  Eigi það einkum við þegar ummæli séu eðlilegur þáttur í sanngjarnri pólitískri umræðu.  Sé rétt að benda á í því sambandi að stefnandi Brynhildur nefni sjálf í viðtali við DV að umræðan hafi verið pólitísk.  Verði að meta stöðu aðila málsins í því ljósi.

Stefnda byggir á grundvallarreglunni um tjáningarfrelsi sem verndað sé jafnt í 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu sem lögfestur hafi verið með lögum nr. 62/1994.  Umrædd mannréttindaákvæði hafi fengið verulega aukið vægi á undanförnum árum, jafnt í dómaframkvæmd Hæstaréttar sem Mannréttindadómstóls Evrópu.  Þessi ákvæði hafa grundvallarþýðingu við úrlausn þessa máls, enda myndi skylda stefndu til að þola ómerkingu ummæla og til að greiða stefnendum miskabætur fela í sér gríðarlegar og ósanngjarnar takmarkanir á tjáningarfrelsi hennar.

Hæstiréttur sem og Mannréttindadómstóll Evrópu hafi margsinnis staðfest að skýra verði undantekningar frá tjáningarfrelsi þröngt, enda verði þær samkvæmt 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar að teljast „nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum“ og samkvæmt 2. mgr. 10. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu verði að bera „nauðsyn til þeirra í lýðræðislegu þjóðfélagi“.  Stefnda telur með vísan til eðlis og efnis ummælanna fjarri lagi að slík nauðsyn sé fyrir hendi í þessu máli.

Stefnda byggir sérstaklega á því í þessu sambandi að íslenskir dómstólar og Mannréttindadómstóll Evrópu hafi lagt til grundvallar að gildisdómar njóti aukinnar verndar tjáningarfrelsis umfram ósannaðar staðreyndir.  Þá sé almennt viðurkennt að tjáningarfrelsið sé einnig rýmkað í pólitískri umræðu og í opinberri umræðu sem erindi á við almenning.  Eigi þær reglur við í máli þessu.

3.   Meint tjón stefnenda er ósannað. Krafa um miskabætur órökstudd.

Stefnendur hafi ekki lagt fram neinar sönnur fyrir því að þau hafi orðið fyrir tjóni vegna ummæla stefndu. Auk þess lúti málsástæður stefnenda að meintu hefðbundnu fjártjóni stefnenda en ekki hagsmunum sem miskabótum sé ætlað að bæta. 

Stefnendur haldi því fram í stefnu að hin umstefndu ummæli stefndu hafi verið „óviðurkvæmileg, tilhæfulaus og smekklaus og til þess fallin að sverta ímynd stefnenda, bæði í augum almennings, sem og núverandi og framtíðarviðskiptavina þeirra“.

Stefnendur haldi því fram að ummæli stefndu hafi „veikt stöðu stefnanda A [Frjálsrar miðlunar ehf.] á samkeppnismarkaði og svert ímynd stefnenda B og C [stefnenda Brynhildar og Guðjóns] enda um ærumeiðandi aðdróttanir að ræða, sem séu einfaldlega rangar og bornar fram án þess að stefndu hafi haft nokkuð fyrir sér“.  Í stefnu segi einnig: „Virðing stefnenda allra hefur því beðið hnekki, sem og æra þeirra og ímynd“.

Öllum framangreindum fullyrðingum stefnenda er alfarið mótmælt af hálfu stefndu sem röngum og ósönnuðum.  Hér verði sérstaklega að hafa í huga að æra manns sé ekki gildi manns í sjálfu sér, heldur hugmynd, dómur eða álit um þetta gildi. Verði þannig ekki séð hvernig ummæli stefndu kynnu að hafa valdið því að orðspor eða ímynd stefnenda skaðaðist.  Í öllu falli er algjörlega ósannað af hálfu stefnenda að ummælin hafi valdið þeim nokkrum álitsspjöllum eða tjóni.  Hafi stefnendur raunar alls ekki reynt að sýna fram á tjón sitt nema með almennum fullyrðingum í stefnu.

Athygli vekur að stefnendur halda því fram að ummæli stefndu hafi haft „bein áhrif á fjárhag stefnenda með þeim hætti að eftir þá umræðu sem stefndu stóðu fyrir hefur eftirspurn eftir þjónustu stefnanda A frá stofnunum Kópavogskaupstaðar því sem næst þurrkast upp“.

Þá segi á sama stað í stefnu: „Stefndu mátti vera það ljóst að sú hrina meiðandi ummæla, aðdróttana og dylgja sem þau þeyttu yfir stefnendur væri til þess fallin að valda þeim skaða, m.a. með því að forstöðumenn bæjarstofnana forðuðust að dragast inn í þann flaum ásakana með því að halda áfram viðskiptum sem höfðu þó að þeirra mati verið bænum hagfelld.  Er eðlilegt að þetta hafi áhrif á fjárhæð miskabótanna.“

Framangreindum fullyrðingum stefnenda sé alfarið mótmælt sem röngum og ósönnuðum. Umræddar málsástæður stefnenda feli í sér rökstuðning fyrir kröfu um greiðslu almennra skaðabóta, þ.e. vegna beins fjártjóns. Stefnda mótmælir því að stefnendur eigi nokkurn slíkan bótarétt en bendir á að telji stefnendur sig eiga slíka skaðabótakröfu þá verði stefnendur að höfða málið á slíkum grundvelli, færa fram sönnur fyrir fjártjóni sínu og gera kröfur um greiðslu almennra skaðabóta.  Það hafi stefnendur ekki gert, heldur þess í stað sett fram miskabótakröfu sem einhvers konar staðgengil almennrar skaðabótakröfu. Verði því að sýkna stefndu af miskabótakröfum stefnenda.

Hvað sem framangreindu líði sé rétt að benda á að alvarleg efnahagskreppa gangi nú yfir landið.  Sú kreppa hafi haft gríðarlega neikvæð áhrif á fjárhag sveitarfélaga og haft í för með sér stórminnkaða eftirspurn eftir þjónustu af öllum toga, þar á meðal í Kópavogsbæ.  Dregið hafi verið úr kaupum á þjónustu á öllum stigum hjá öllum sveitarfélögum svo sem stefnendum ætti að vera vel kunnugt. Útgáfustarfsemi á vegum Kópavogsbæjar hafi verið minni en ella frá vori 2009.  Frjálsri miðlun ehf. hafi verið boðið að gera verðtilboð í þau verk sem unnin hafi verið.  Fyrirtækið hafi átt lægsta tilboðið í gerð umhverfisviðurkenninga fyrir árið 2009 og fengið verkið.  Gerð ársskýrslu bæjarins hafi einnig verið boðin út en annar aðili átt lægsta tilboðið og fengið það verk. Vera kunni að nýr bæjarstjóri Kópavogsbæjar taki ákvarðanir um kaup á þjónustu með öðrum hætti en fyrirrennari hans í starfi.  Hver sem ástæðan kunni að vera þá sé þar ekki við stefndu að sakast. 

Stefnda mótmælir kröfum stefnanda Frjálsrar miðlunar ehf. sérstaklega á þeim grundvelli að þar sé á ferðinni lögpersóna sem njóti ekki æruverndar með sama hætti og menn.  Í öllu falli hafi engar sönnur verið leiddar að því að hagsmunir þeirrar lögpersónu hafi verið skertir með þeim hætti að réttlæti kröfu um greiðslu miskabóta.

Stefnda mótmælir kröfum stefnenda Brynhildar og Guðjóns sérstaklega á þeim grundvelli að hvergi í stefnu sé gerð viðhlítandi grein fyrir grundvelli bótakröfu þeirra eða hvernig réttur þeirra til bóta gæti verið til kominn. Af umfjöllun í stefnu megi ráða að þau hafi verið starfandi eigendur Frjálsrar miðlunar ehf. þegar ummæli stefndu voru viðhöfð. Slíkt eignarhald eitt og sér geti ekki verið fullnægjandi grundvöllur krafna stefnenda Brynhildar og Guðjóns. Verði því að sýkna stefndu af kröfum Brynhildar og Guðjóns í málinu.

4.   Tilefni ummæla stefndu.

Með hliðsjón af öllu framangreindu, og þá einkum með vísan til þess að ummælum stefndu var ekki beint að stefnendum, telur stefnda sig ekki þurfa að færa fram réttlætingu fyrir ummælum sínum.  Vegna málatilbúnaðar stefnenda og til frekari skýringar á málinu vill stefnda hins vegar nefna dæmi sem hér fara á eftir um viðskipti stefnanda Frjálsrar miðlunar ehf. og Kópavogsbæjar sem meðal annars hafi þurft frekari skoðunar við. Þá telur stefnda að margt í skýrslu Deloitte hafi staðfest réttmæti og tilefni ummæla stefndu. 

                Dæmi (i).  Afmælisrit Kópavogsbæjar.

Eins og fram komi í skýrslu Deloitte, dags. 9. júní 2009, hafi stefnandi Frjáls miðlun ehf. sent Kópavogsbæ 12 reikninga fyrir alls  3.412.500 krónur á bilinu september 2004 til október 2005 vegna vinnu við gerð Afmælisrits Kópavogsbæjar. Yfirleitt hafi texti reikninganna verið „Vinna við gerð afmælisrits 2005“ eða sambærilegur.  Einnig sé að finna á tæplega helmingi reikninganna textaskýringuna: „Ljósmyndataka“, „ljósmyndir“, „myndvinnsla“ og þess háttar. Reikningarnir séu afar háir og óljóst sé fyrir hvað Kópavogsbær hafi verið að greiða.  Athygli veki í því sambandi að stefnandi Brynhildur hafi haldið eftirfarandi fram í viðtali við DV þann 15. maí 2009: „Bærinn er með handritið að afmælisritinu, við skiluðum því fullunnu með fullt af myndum tilbúnu til prentunar.  En ég veit ekki af hverju það var ekki gefið út.“ Hið rétta sé að handritið hafi verið langt frá því að vera tilbúið. Í það hafi vantað t.a.m. allan texta.  Í stað raunverulegs texta hafi verið notaður til uppfyllingar aftur og aftur sami texti úr eldra riti frá árinu 2003 (svokallaður „dummy“ texti).  Þá hafi enginn texti eða skýringar verið undir myndum, heldur standi undir öllum myndum: „Texti undir mynd / Text under picture“. Þá hafi stefndu þótti vel í lagt af hálfu Kópavogsbæjar að greiða rúmar 3.400.000 króna fyrir uppsetningu á ljósmyndum stefnenda sem stefnendur hafi auk þess notað í önnur verkefni fyrir Kópavogsbæ, svo sem bæklinginn „Kópavogur – byggð og saga“.

Þá veki það svo athygli að eftir að mál þetta hafi farið af stað með fyrirspurn einstaklinga úr minnihluta bæjaryfirvalda í byrjun árs 2009 virðist Frjáls miðlun ehf. hafa hafið vinnu á ný við afmælisritið. Hafi Frjáls miðlun ehf. í framhaldi af því skilað nýju handriti til Kópavogsbæjar, dags. 7. maí 2009. Stefnda geri eftirfarandi athugasemdir við þetta nýja handrit:

Búið sé að setja inn formála í nýja handritið að afmælisritinu 7. maí 2009 en slíkan formála hafi ekki verið að finna í útgáfunni í mars 2005. Athygli veki hins vegar að formálinn í handritinu 7. maí 2009 sé orðréttur formáli Gunnars I. Birgissonar, þáverandi bæjarstjóra, úr bæklingnum „Kópavogur – byggð og saga“ sem gefinn hafi verið út árið 2007.  Í handritinu að afmælisritinu 7. maí 2009 sé texti formálans hins vegar af einhverjum ástæðum eignaður Sigurði Geirdal, fyrrverandi bæjarstjóra Kópavogsbæjar, sem lést í nóvember 2004.  Telur stefnda þessi vinnubrögð Frjálsrar miðlunar ehf. gefa til kynna að stefnendur hafi í flýti viljað láta líta svo út vorið 2009 að meiri vinna hefði verið lögð í handritið að afmælisritinu en raunin var.

Texti í handritinu þann 7. maí 2009 hafi væntanlega verið unninn árið 2007 svo sem íbúatölur gefa til kynna.

Örstuttur myndatexti hafi verið unninn á íslensku fyrir neðan margar ljósmyndanna.

Þrátt fyrir þann sáralitla mun, sem sé á handritinu í mars 2005 og handritinu þann 7. maí 2009, hafi Frjáls miðlun ehf. sent Kópavogsbæ alls 6 reikninga að fjárhæð samtals 1.680.750 krónur á þessu tímabili,  þ.e. frá 25. apríl 2005 til 19. október 2005. Fjöldi þeirra reikninga innihaldi skýringartextann „ljósmyndataka“, „myndataka“ og þess háttar, án þess að séð verði að neinar ljósmyndir hafi bæst við milli útgáfnanna tveggja.  Gefi það til kynna að Frjáls miðlun ehf. hafi sent Kópavogsbæ reikninga oftar en einu sinni vegna sama verks.  Skýringar hafi ekki fengist á þessu af hálfu Frjálsrar miðlunar ehf. en á því fyrirtæki hvílir sönnunarbyrðin, enda ætti þjónustuaðila að vera í lófa lagið að leiða sönnur að því verki sem hann hefur unnið.

Þá veki athygli hversu margir reikninganna séu að nákvæmlega sömu fjárhæð, þ.e. 311.250 krónur, án þess að séð verði að það eigi sér neinar rökrænar skýringar.

                Dæmi (ii).  Götukort.

Frjáls miðlun ehf. hafi gert Kópavogsbæ allnokkra reikninga vegna vinnu við gagnvirkt götukort, samtals að fjárhæð 747.000 krónur. Þar á meðal séu 3 reikningar dagsettir þann 10. október 2005, samtals að fjárhæð 350.000 krónur. Þá veki athygli að hvorki markaðsstjóri Kópavogsbæjar né aðrir, sem hefðu með réttu átt að eiga aðkomu að málinu, kannist við að um þetta verk hafi verið beðið af hálfu Kópavogsbæjar. Þá verði ekki séð að Frjáls miðlun ehf. hafi skilað neinni afurð verksins fyrr en eftir að mál þetta kom upp, þ.e. sumarið 2009.

Frjálsri miðlun ehf. ætti að vera í lófa lagið að leggja fram verkbeiðni vegna verksins ef slík beiðni hafi verið gerð. Sömuleiðis ætti fyrirtækinu að vera í lófa að lagið að sýna fram á þá sjálfstæðu vinnu sem innt hafi verið af hendi við verkið.

                Dæmi (iii).  Kaup á ljósmyndum.

Víða í bókhaldi Kópavogsbæjar megi finna færslur yfir kaup bæjarins á ljósmyndum af Frjálsri miðlun ehf. Ekki sé ljóst hvað felist í umræddum „kaupum“ á ljósmyndum, enda verði ekki séð að Frjáls miðlun ehf. hafi skilið það svo að í þeim kaupum fælist höfundaréttur eða einu sinni einkaréttur til notkunar á viðkomandi ljósmyndum.  Í það minnsta verði ekki betur séð en að Frjáls miðlun ehf. hafi aftur notað og selt ljósmyndir, sem fyrirtækið hafði áður „selt“ Kópavogsbæ, svo sem í afmælisritið og bæklinginn „Kópavogur – byggð og saga“.

Vegna þessa verði ekki séð hvaða tilgangi umrædd „kaup“ á ljósmyndum þjónuðu fyrir Kópavogsbæ og virðist sem þau hafi verið í besta falli óþörf í flestum tilvikum, enda hafi Kópavogsbæ verið gerður reikningur þegar myndirnar hafi síðan verið notaðar á öðrum vettvangi fyrir bæinn.

                Dæmi (iv).  Bæklingurinn „Kópavogur – byggð og saga“.

Stefnda leggi fram reikninga Frjálsrar miðlunar ehf. vegna vinnu við bæklinginn „Kópavogur – byggð og saga“ en bæklingarnir hafi verið gefnir út árið 2007.  Samtals nemi umræddir reikningar 700.000 krónum auk virðisaukaskatts. Í skýringum á reikningunum segi meðal annars: „Ljósmyndir“, „ljósmyndataka“ og „ljósmyndavinnsla“.  Samt sem áður séu allar myndirnar úr bæklingnum einnig að finna í handritinu að afmælisriti Kópavogsbæjar frá því í mars 2005. Þá veki athygli að enska útgáfa bæklingsins sé eins og sú íslenska að öllu leyti nema hvað textinn sé annar.  Samt sem áður sé reikningurinn vegna ensku útgáfunnar jafn hár og fyrir þá íslensku, þrátt fyrir að mun minni vinna hafi augljóslega verið lögð í það verk. Að mati stefndu gefi þetta til kynna að Frjáls miðlun hafi sent reikninga til Kópavogsbæjar oftar en einu sinni vegna sama verks að einhverjum hluta.

5.      Einstök ummæli stefndu.

Stefnda byggir á því að ekkert í þeim ummælum, sem stefnendur reisi málatilbúnað sinn á, hafi falið í sér ærumeiðingar, meiðyrði, móðganir eða aðdróttanir í garð stefnenda eða geti með nokkru móti verið grundvöllur krafna stefnenda í málinu. Telur stefnda jafnframt ósannað að nokkuð í þeim ummælum hafi verið óviðurkvæmilegt eða til þess fallið að valda stefnendum tjóni. Þá hafi öll ummæli stefndu verið vel innan marka tjáningarfrelsis hennar. Ummælin hafi öll verið sett fram á hlutlausan, smekklegan og faglegan hátt.  Þar sé ekki með neinum hætti dróttað að stefnendum eða ráðist á æru þeirra heldur sé þar einfaldlega fjallað um stjórnsýslu og verklag bæjaryfirvalda í Kópavogsbæ á tilteknu tímabili.  Þá séu ummælin sett fram í lifandi og frjálsri pólitískri umræðu um málefni sem varði íbúa Kópavogsbæjar miklu. Ummælin varði bæði staðreyndir en hafa einnig að geyma viðhorf stefndu til tiltekinna atvika. Þau viðhorf séu sett fram að gefnu tilefni og á grundvelli tjáningarfrelsis stefndu og verði ekki talin fela í sér skaðabótaskylda meingerð gegn stefnendum. Telur stefnda kröfugerð stefnenda afar langsótta og óskýra í ljósi þessa. Stefnda telur sig ekki þurfa að færa fram réttlætingu fyrir ummælum sínum gagnvart stefnendum, en vísar umfram skyldu til þeirra dæma, sem nefnd eru í liðum (i) – (iv) í kafla 4. hér að framan.

Ummæli A:

Ummæli stefndu þess efnis að Frjáls miðlun ehf. hafi „fengið greitt fyrir óunnin og / eða hálfkláruð verk“ og að fyrirtækið „hafi fengið greitt oftar en einu sinni fyrir sama verk“ feli í sér vísun til stjórnsýsluhátta stjórnenda Kópavogsbæjar á þessum tíma. Stefnda hafi fyrir því heimildir að Kópavogsbær hafi greitt Frjálsri miðlun ehf. fyrir tiltekin verk áður en þeim verkum hafi verið lokið.  Stefnda telur slíkar fyrirframgreiðslur ekki vera í samræmi við góða stjórnsýsluhætti og að við slíkar greiðslur hafi bæjaryfirvöld ekki haft hagsmuni bæjarins að leiðarljósi.  Þess í stað hefði verið rétt að greiða ekki fyrir viðkomandi verk fyrr en þeim hefði verið lokið svo sem venja sé við verkkaup af þeirri tegund sem hér um ræðir.

Sem dæmi um verk, sem Frjáls miðlun ehf. hafi fengið greitt fyrir án þess að hafa lokið, megi nefna dæmi (i) og (ii) í kafla 4. hér að framan.  Sem dæmi um tilvik þar sem stefnda telji að Frjáls miðlun ehf. hafi fengið greitt oftar en einu sinni fyrir sama verk megi nefna dæmi (i), (iii) og (iv) í kafla 4. hér að framan. 

Samkvæmt framangreindu styðjist ummæli stefndu við staðreyndir sem stefnda telji til marks um slæm vinnubrögð í stjórnsýslu Kópavogsbæjar og mat stefndu á þeim staðreyndum.  Þau ummæli hafi stefnda sett fram í skjóli tjáningarfrelsis síns. Með ummælunum sé hins vegar ekki með nokkru móti vegið að stefnendum.  Stefnda hafi enda ekki haldið því fram að stefnendur hafi gerst sek um nokkuð ólögmætt í þessu sambandi, enda sé ekki ólögmætt að fá greitt fyrir verk áður en verkinu sé lokið. Þá sé heldur ekki ólögmætt að fá greitt oftar en einu sinni fyrir sama verkið, t.d. ef seldur er afnotaréttur að tiltekinni ljósmynd svo sem virðist hafa átt sér stað í tilviki Frjálsrar miðlunar ehf.  Þau gögn sem stefnda hafi undir höndum bendi til þess að Frjáls miðlun ehf. hafi notað tilteknar ljósmyndir í fleiri en eitt verk sem fyrirtækið hafi unnið fyrir Kópavogsbæ. Stefnda telur að bæjaryfirvöld hefðu átt að vera á varðbergi gagnvart slíku.  Ummæli stefndu feli í sér alvarlegar athugasemdir við stjórnsýslu Kópavogsbæjar en enga aðdróttun um refsiverða háttsemi af hálfu stefnenda. Málið varði einfaldlega mat á því hvort bæjaryfirvöld hafa gætt hagsmuna bæjarins til hins ýtrasta í viðskiptum sínum við Frjálsa miðlun ehf.  Stefnda telur að svo hafi ekki verið.

Ummæli B:

Ummælin lúti að því mati stefndu að spilling hafi átt sér stað í stjórnsýslu Kópavogsbæjar.  Rétt sé að undirstrika að stefnda sé ekki ein um þetta mat, enda hafi verið fjallað um málið í DV og öðrum fjölmiðlum á svipuðum nótum.

 Stefnendur haldi því fram að með ummælunum kasti stefnda „rýrð á stefnendur með því að halda því fram að þau hafi ekki verið valin til verka fyrir Kópavogsbæ vegna sérhæfingar eða hæfni heldur á grundvelli einhvers sem þau kalla „spillingu“ í opinberri stjórnsýslu.“ Þá haldi stefnendur því fram að ummæli sem þessi geti „haft neikvæð áhrif á möguleika stefnenda til þess að afla sér verkefna, bæði hjá bæjarfélaginu og öðrum.

Málatilbúnaður stefnenda undir þessum lið sé órökstuddur, ósannaður og langsóttur að mati stefndu. Bendir stefnda á að tilvísun hennar til spillingar í stjórnsýslunni feli ekki endilega í sér tilvísun til vals á Frjálsri miðlun ehf. sem viðsemjanda Kópavogsbæjar. Fleiri atriði geti falið í sér spillingu eða brot gegn góðum stjórnsýsluháttum, svo sem ákvarðanir um fjölda verkefna, stærð verkefna, tilhögun greiðslna, fjárhæð greiðslna, viðskiptakjör o.fl.  Það sé því rangt hjá stefnendum að ummæli stefndu feli eingöngu í sér vísan til vals á Frjálsri miðlun ehf. sem viðsemjanda Kópavogsbæjar.

Ummæli C:

Ummælin lúti að því mati stefndu að Frjáls miðlun ehf. hafi notið óeðlilegrar fyrirgreiðslu hjá Kópavogsbæ og notið þannig tengsla sinna við bæjarstjóra Kópavogs. Hér eigi að flestu leyti við sömu málsástæður og stefnda byggi á að því er varðar umfjöllun um ummæli B hér að framan.

Stefnda byggir á að bréf Birgis Hlyns Sigurjónssonar, sviðsstjóra á skipulags- og umhverfissviði Kópavogsbæjar, sé afar almenns eðlis og hafi ekki sönnunargildi í málinu.

Athygli veki að stefnendur bendi á að „í mörgum tilvikum hafa verk verið boðin út á vegum Kópavogsbæjar og stefnandi hefur ekki fengið þau verk ....“ Stefnda fái ekki séð hvernig þetta fái hjálpað málstað stefnenda. Þvert á móti bendi þetta til þess að þegar útboðum var beitt við kaup á þjónustu fyrir Kópavogsbæ hafi minkað möguleikar Frjálsrar miðlunar ehf. á að fá verk. Kemur raunar á óvart að Frjáls miðlun ehf. skuli ekki hafa getað boðið betur í umrædd verk þegar höfð séu í huga sá efniviður og sú reynsla sem ætla megi að Frjáls miðlun ehf. búi yfir eftir áralanga vinnu fyrir Kópavogsbæ.

Stefnda mótmælir þeirri röksemdafærslu stefnenda að „Ef slík óeðlileg fyrirgreiðsla væri til staðar væri eðlilegt að álykta að stefnandi A hefði fengið fleiri verk en hann fékk.“  Allt eins mætti álykta sem svo að Frjáls miðlun ehf. hefði fengið færri verk ef tilboða hefði verið leitað fremur en að leitað hefði verið beint til fyrirtækisins.

Ummæli D:

Ummælin lúti að því mati stefndu að Frjáls miðlun ehf. hafi unnið ýmis verk sem ekki hafi virst mjög veigamikil. Ummælin feli í sér huglægt mat stefndu á umfangi einhvers hluta af þeim verkum sem Frjáls miðlun ehf. hafi unnið fyrir Kópavogsbæ. Ummælin verði að meta í ljósi frelsis stefndu til að tjá skoðanir sínar og í ljósi mats á umfangi umræddra verkefna.  Ummælin séu einnig sárasaklaus og í þeim felist ekkert sem telja megi óviðurkvæmilegt.  Telja megi víst að allir vinni öðru hverju verk sem ekki séu mjög veigamikil.  Í þessu tilliti vísar stefnda til skýringar Íslenskrar orðabókar, 3. útg. 2002, þar sem orðið „veigamikill“ sé skýrt þannig: „sem mikill veigur, kraftur, ending er í – mikils verður, efnismikill“. Með ummælunum sé ekki kastað neinni rýrð á stefnendur eða þeirra verk, enda felist ekki í hugtakinu „veigalítill“ nein vísan til gæða viðkomandi verks, til þess hvort verkið sé unnið af metnaði eða til þess hvort endurgjaldið fyrir verkið hafi verið hátt eða lágt. Kröfugerð stefnenda að þessu leyti sé afar langsótt og byggi á afbökun á raunverulegu efni ummæla stefndu.  Þá séu fullyrðingar stefnenda þess efnis að ummæli stefndu séu til þess fallin að valda stefnendum „umtalsverðum búsifjum“ sama marki brenndar.

Ummæli E:

Ummælin lúti að því mati stefndu að Frjáls miðlun ehf. hafi fengið tiltölulega háar greiðslur fyrir verk sem að mati stefndu virðist í fljótu bragði vera frekar lítil og einföld.

Hér eigi það sama við og áður, þ.e. að ummælin feli í sér huglægt mat stefndu á umfangi einhvers hluta af þeim verkum sem Frjáls miðlun ehf. hafi unnið fyrir Kópavogsbæ og endurgjaldinu fyrir þau verk. Ummælin verði að meta í ljósi frelsis stefndu til að tjá skoðanir sínar og mats á umfangi umræddra verkefna. Ummælunum sé beint að bæjaryfirvöldum í Kópavogsbæ. Athugasemdir sem þessar séu eðlilegur og nauðsynlegur hluti af starfi stefndu sem bæjarfulltrúi. Ummælunum sé ekki beint að stefnendum og með ummælunum sé ekki með nokkru móti vegið að þeim.  Stefndu hafi einfaldlega þótt að háar fjárhæðir hefðu verið greiddar fyrir verk sem virtust frekar lítil og einföld.  Stefnda hafi ekki haldið því fram að stefnendur hafi sýnt af sér neins konar refsiverða og siðlausa háttsemi í því sambandi.

Stefnda gerir hins vegar alvarlegar athugasemdir við uppsetningu umfjöllunar stefnenda hér að lútandi þar sem ummæli stefndu séu slitin úr samhengi.  Hið rétta sé að ummæli stefndu í kvöldfréttum Sjónvarpsins þann 14. maí 2009 hafi verið eftirfarandi: „Ég ætla ekkert að fullyrða að svo komnu máli að viðskiptin séu undarleg en þetta eru mikil viðskipti og regluleg og það er nánast mánaðarlega sem eru greiddir reikningar til fyrirtækisins og þetta eru viðskipti á bilinu 6-8 milljónir á ári.  Þetta eru háar upphæðir fyrir verk sem í fljótu bragði virðast frekar lítil og einföld“.

Þegar ummælin séu metin í heild megi sjá að þau fela einungis í sér vangaveltur stefndu um hvort eðlilega hafi verið staðið að kaupum á þjónustu af Frjálsri miðlun ehf. af hálfu Kópavogsbæjar og hvort hugsanlega hefði mátt ná fram hagræðingu með öðrum aðferðum. Ekki sé með nokkru móti vegið að æru, mannorði eða virðingu stefnenda með ummælunum.  Fjölmargir fái greidd há laun eða há verklaun eftir atvikum fyrir verk sem aðrir álíti frekar lítil og einföld.  Það geti ekki talist ærumeiðandi aðdróttun að setja fram skoðun á slíku tilviki, enda sé ekki með því verið að veitast að þeim sem verkið vann og greiðsluna þáði.  Ábending stefndu hafi beinst að verkkaupanum.

Ummæli F:

Ummælin lúti að því að stefnda telur að unnt sé að óska eftir rannsókn á tilteknum atriðum að því er varðar kaup Kópavogsbæjar á þjónustu af Frjálsri miðlun ehf. Stefnda fær ekki skilið hvernig stefnendur telji að ummælin geti talist ærumeiðandi. Með ummælunum hafi stefnda bent á einfalda staðreynd sem öllum hafi verið kunn, þ.e. að unnt væri að óska eftir rannsókn á tilteknum þáttum við framangreind þjónustukaup. Stefnendur haldi því fram að í ummælunum felist „upphrópun um að stefnendur hafi tekið þátt í ólöglegu athæfi með viðskiptum sínum við Kópavogsbæ“.  Þetta sé alrangt hjá stefnendum. Ummæli stefndu, eins og önnur ummæli er mál þetta varði, hafi lotið að bæjaryfirvöldum í Kópavogsbæ og meðferð þeirra á því valdi sem þeim hafi verið falið. Að mati stefndu hafi kjörinn meirihluti bæjarins ekki fylgt góðum stjórnsýsluháttum við kaup bæjarins á þjónustu af Frjálsri miðlun ehf.  Stefnda hafi haft tiltekin úrræði til að afla gagna og upplýsinga um þau kaup, en þar sem þeim úrræðum sleppti, hafi verið unnt að óska eftir rannsókn opinberra aðila á viðskiptunum.  Örstutt umfjöllun stefndu um þann möguleika geti eðli máls samkvæmt ekki talist fela í sér meiðyrði eða aðdróttanir gegn stefnendum.

B. Varakrafa.

Varakrafa stefndu sé sett fram ef ekki sé unnt að sýkna stefndu. Til viðbótar við þær málsástæður, sem vísað sé til í umfjöllun um aðalkröfu stefndu, vísa stefndu til eftirtalinna atriða til stuðnings varakröfu sinni:

1. Miskabótakrafa stefnenda.

Stefnendur hafi uppi kröfur á hendur stefndu um greiðslu miskabóta að fjárhæð  2.000.000 króna til hvers stefnenda fyrir sig eða samtals að fjárhæð 6.000.000 króna.  Stefnda vekur athygli á því að stefnendur hafi uppi kröfur á hendur meðstefndu Ólafi og Hafsteini til greiðslu á 900.000 krónum úr hendi hvors til hvers stefnenda, þ.e. 2 x 2.700.000 krónur.  Samtals nemi miskabótakröfur stefnenda í máli þessu þannig 11.400.000 krónum. Stefnda mótmælir þeim kröfum stefnenda sem allt of háum og óraunhæfum, enda séu kröfurnar verulega á skjön við dómvenju.  Stefnda telur æru og mannorð stefnenda ekki hafa orðið fyrir tjóni vegna ummæla stefndu en hafi svo verið þá sé tjón stefnenda svo smávægilegt að dómur í málinu teljist fyllilega nægjanlegur til að rétta hlut þeirra. Séu því ekki efni til að dæma neinar miskabætur í málinu eða þá einungis smávægilega fjárhæð.  Þá vísar stefnda til sjónarmiða að baki 24. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 til stuðnings lækkunarkröfu sinni.

2. Krafa um greiðslu kostnaðar vegna birtingar dóms.

Stefnda mótmælir kröfum stefnenda um greiðslu á 500.000 krónum til að standa straum af birtingu dómsins í heild í fjórum dagblöðum.  Krafa stefnenda að þessu leyti sé ósönnuð, allt of há og í ósamræmi við dómvenju. Þá verði ekki séð til hvaða fjögurra dagblaða stefnendur vísi í þessu sambandi. Stefnda vekur athygli á því að stefnendur krefjist greiðslu á sömu fjárhæð úr hendi meðstefndu Ólafs og Hafsteins. Samtals nemi krafa stefnenda vegna birtingar dóms í málinu því 1.500.000 krónum. Verði þeirri háu kröfu ekki fundin nokkur réttlæting að mati stefndu.

3. Málskostnaður.

Sökum óvissu í málinu er því mótmælt að stefnendur eigi rétt til málskostnaðar úr hendi stefndu þó að kröfur þeirra verði að einhverju leyti teknar til greina, sbr. 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Stefnda mótmælir kröfum stefnanda Frjálsrar miðlunar ehf. um greiðslu virðisaukaskatts ofan á málskostnað. Telur stefnda enda allar líkur á því að Frjáls miðlun ehf. sé virðisaukaskattsskylt fyrirtæki, sbr. lög nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

4. Dráttarvextir.

Dráttarvextir verða fyrst dæmdir af kröfum stefnenda frá dómsuppsögudegi.  Kröfur stefnenda séu bæði óljósar og háðar verulegum vafa sem hafi gert stefndu nauðsynlegt að taka til varna í máli þessu.  Ósanngjarnt sér að stefnendur njóti þess í formi dráttarvaxta. Vísar stefnda að þessu leyti til sjónarmiða að baki 9. gr. laga nr. 38/2001.

Aðrar málsástæður og lagarök að baki aðal- og varakröfum.

Stefnda byggir á almennum reglum um ærumeiðingar og meiðyrði sem og sjónarmiðum að baki 234., 235., 236. og 241. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þá vísar stefnda til 73. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. stjórnskipunarlög nr. 33/1944 með síðari breytingum. Stefnda vísar og til 6. og 10. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og 18. og 19. gr. Alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Málskostnaðarkrafa stefndu er reist 129. og 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Krafa stefndu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988. Stefnda sé ekki virðisaukaskattsskyld í þessu tilliti og sé því nauðsynlegt að taka tillit til virðisaukaskattsins við ákvörðun málskostnaðar.

III.

                Málavaxtalýsing og málsástæður stefndu Ólafs og Hafsteins eru þær sömu og fram koma hjá stefndu Guðríði í kafla II. hér að framan að öðru leyti en því að þeim er ekki stefnt vegna ummæla undir D-, E- og F-lið í kröfugerð stefnenda.

IV.

                Málavextir eru óumdeildir. Stefnandi Frjáls miðlun ehf. er fyrirtæki sem sérhæfir sig m.a. í hönnun, uppsetningu myndefnis, vinnslu og framsetningu á kynningarefni ýmiss konar, ljósmyndatökum og myndvinnslu. Stefnendur Brynhildur Gunnarsdóttir og Guðjón Gísli Guðmundsson eru starfandi eigendur Frjálsrar miðlunar ehf. Brynhildur er dóttir Gunnars I. Birgissonar, fyrrverandi bæjarstjóra Kópavogs, og stefnandi Guðjón er tengdasonur hans.

                Á fundi bæjarráðs Kópavogsbæjar 8. apríl 2009 var lögð fram bókun af hálfu fulltrúa Samfylkingarinnar í bæjarstjórn þar sem óskað var yfirlits yfir greiðslur til stefnenda Frjálsrar miðlunar ehf.  á síðustu 10 árum. Svar við erindinu var lagt fram 13. maí 2009 þar sem fram kemur m.a. að viðskiptin hafi numið rúmum 50 milljónum króna að meðtöldum virðisaukaskatti á 10 ára tímabili. Stefndu, sem öll voru bæjarráðsmenn í Kópavogi, óskuðu eftir frekari úttekt á viðskiptum stefnenda Frjálsrar miðlunar ehf. við Kópavogsbæ. Var endurskoðunarfyrirtæki Deloitte fengið til þess að annast þá úttekt og birti það skýrslu sína 9. júní 2009. Í skýrslunni kom fram nokkur gagnrýni á fyrirkomulag viðskiptanna við stefnendur og er efni skýrslunnar rakið hér að framan.

                Þetta varð til þess að stefndu tjáðu sig opinberlega um málið og settu fram gagnrýni á framangreind viðskipti Kópavogsbæjar við stefnanda Frjálsa miðlun ehf. Tjáðu þau sig öll sameiginlega í blaðagrein 12. júní 2009 en auk þess átti stefnda Guðríður viðtöl við aðra fjölmiðla.

                Tjáningarfrelsi nýtur verndar skv. 73. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 þótt því séu settar skorður í 3. mgr. 73. gr. Samkvæmt 71. gr. stjórnarskrárinnar nýtur einkalíf manna, heimili og fjölskylda friðhelgi. Menn eiga samkvæmt því rétt á að njóta friðar um lífshætti sína og einkahagi. Þegar skarast fyrrgreindir hagsmunir stefndu af því að njóta tjáningarfrelsis og þeir hagsmunir stefnenda að njóta friðhelgi einkalífs, ber m.a. að líta til þess hvort hið birta efni, sem stefndu bera ábyrgð á, geti talist þáttur í almennri þjóðfélagsumræðu og eigi þannig erindi til almennings.

                Við úrlausn málsins verður að hafa í huga að hin umstefndu ummæli vörðuðu fyrst og fremst stjórnsýslu  og stjórnsýsluhætti í Kópavogi og töldu stefndu að bæjaryfirvöld hefðu ekki gætt góðra stjórnsýsluhátta né gætt hagsmuna bæjarfélagsins til hins ýtrasta við kaup á þjónustu af stefnanda Frjálsri miðlun ehf. Sem kjörnum bæjarfulltrúum bar stefndu að halda uppi virku eftirliti og aðhaldi með stjórnsýslu Kópavogsbæjar. Stefnendur voru í viðskiptum við opinberan aðila og eðli málsins samkvæmt gátu stefndu ekki fjallað um málið án þess að nafn Frjálsrar miðlunar ehf. bæri á góma og tengsl stefnenda Brynhildar og Guðjóns Gísla við fyrrverandi bæjarstjóra.

                Verður nú fjallað um ummæli þau sem krafist er ómerkingar á en ummæli í A-C hér að neðan birtust í sameiginlegri blaðagrein stefndu í Morgunblaðinu.

A.            „Fyrirtækið Frjáls miðlun hefur fengið greitt fyrir óunnin og/eða hálfkláruð verk og skýrar vísbendingar um að fyrirtækið hafi fengið greitt oftar en einu sinni fyrir sama verk.“

                Stefndu töldu sig hafa heimildir fyrir ofanrituðu og beindist gagnrýni þeirra að stjórnsýslu Kópavogs að greiða fyrirfram fyrir verk sem ekki var lokið og jafnframt að greiða tvisvar fyrir sama verk. Í þessum ummæli fólust ekki aðdróttanir um refsiverða hegðun stefnenda heldur beindist gagnrýnin að stjórnsýslu Kópavogs.

B.             Hvort sem hér er um að ræða lögbrot eða ekki er þetta klárlega spilling í opinberri stjórnsýslu. Slíkt á ekki að umbera og gildir þá einu hvort lög eru brotin eða ekki.“

                Þessi ummæli þykja eingöngu lúta að því mati stefndu að spilling hafi átt sér stað í stjórnsýslu Kópavogs. Verður að meta þessi ummæli stefndu í því ljósi að í umræddri blaðagrein í Morgunblaðinu 12. júní 2009 segir í næstu setningu á undan að bent sé á í endurskoðunarskýrslu Deloitte að fjöldi reikninga sé rangt bókaður og jafnvel sama verkið bókfært á þrjá mismunandi bókhaldslykla sama dag. Fjöldi slíkra reikninga útiloki að um mistök sé að ræða. Þegar ummælin eru skoðuð í þessu samhengi þykir ljóst að þau eiga ekki við stefnendur heldur einvörðungu stjórnsýslu Kópavogsbæjar.

          C. „Skýrsla Deloitte og umfjöllun fjölmiðla um málið undanfarnar vikur hefur sýnt svo enginn vafi leikur á að fyrirtækið Frjáls miðlun hefur notið óeðlilegrar fyrirgreiðslu hjá Kópavogsbæ og notið þannig tengsla sinna við bæjarstjóra Kópavogs.“

                Það var skoðun stefndu á þessum tíma, miðað við þær upplýsingar sem þau höfðu, að stefnandi Frjáls miðlun ehf. hefði notið óeðlilegrar fyrirgreiðslu hjá Kópavogi og notið þannig tengsla sinna við bæjarstjóra Kópavogs. Í þessum ummælum fólst hvorki refsiverð móðgun né aðdróttun, sbr. 234. gr. og 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, heldur gildisdómur þar sem stefndu lögðu mat sitt á staðreyndir. Ummælin voru ekki óviðurkvæmileg og verður ekki fallist á að stefndu hafi farið út fyrir mörk tjáningarfrelsis með þessum ummælum. Er þá sérstaklega haft í huga að ummæli voru viðhöfð í opinberri umræðu um stjórnsýslu í Kópavogi.

D.           „fyrir ýmis verk sem ekki virðast mjög veigamikil.“

                Framangreind ummæli eru höfð eftir stefndu Guðríði í umfjöllun DV um viðskipti stefnenda við Kópavogsbæ. Ummælin fela í sér huglægt mat stefndu á umfangi verks. Á engan hátt verður talið að ummælin séu talin móðgandi fyrir stefnendur eða í þeim hafi falist aðdróttanir.

E.            „Þetta eru háar upphæðir fyrir verk sem í fljótu bragði virðast frekar lítil og einföld.“

                Þessi ummæli fela einnig í sér huglægt mat stefndu Guðríðar í fréttum Ríkissjónvarpsins 14. maí 2009. Ummælin verður að meta í ljósi frelsis stefndu til að tjá skoðanir sínar sem bæjarfulltrúi um viðskipti bæjarins við stefnendur. Ummælin í fréttatímanum voru eftirfarandi: „Ég ætla ekkert að fullyrða að svo komnu máli að viðskiptin séu undarleg en þetta eru mikil viðskipti og regluleg og það er nánast mánaðarlega sem eru greiddir reikningar til fyrirtækisins og þetta eru viðskipti á bilinu 6-8 milljónir á ári. Þetta eru háar upphæðir fyrir verk sem í fljótu bragði virðist frekar lítil og einföld. “

                Þegar ummælin eru metin í heild verður talið að þau feli einungis í sér vangaveltur stefndu hvort eðlilega hafi verið staðið að kaupum á þjónustu af hálfu Kópavogsbæjar. Verður því talið að stefnda Guðríður hafi verið að sinna eftirlitsskyldu sinni sem bæjarfulltrúi en hafi ekki vegið að æru, mannorði eða virðingu stefnenda.

F.            „Það sem við getum gert í Samfylkingunni er að við getum vísað málinu í opinbera rannsókn og við getum vísað ákveðnum þáttum til ríkissaksóknara og óskað eftir því að hann gefi út ákæru í málinu“.

Þessi ummæli teljast á engan hátt ærumeiðandi heldur eru eingöngu vangaveltur um hvaða úrræði megi grípa til.

Eins og áður sagði vörðuðu framangreind ummæli stefndu fyrst og fremst stjórnsýsluhætti hjá Kópavogsbæ og voru stefndu að sinna eftirlitshlutverki sínu sem bæjarfulltrúar. Stefnendur hlutu óhjákvæmilega að dragast inn í þá umræðu. Samkvæmt öllu framansögðu þykja ofangreind ummæli stefndu ekki móðgandi fyrir stefnendur, sbr. 234. gr. almennra hegningarlaga né verður talið að í þeim felist aðdróttanir sem myndu verða virðingu stefnenda til hnekkis, sbr. 235. gr. almennra hegningarlaga. Eru því ekki efni til að dæma ummælin ómerk. Stefndu verða því alfarið sýknuð af kröfum stefnenda í málinu.

Eftir þessari niðurstöðu verða stefnendur dæmd til að greiða stefndu málskostnað. Þykir málskostnaður til stefndu Guðríðar hæfilega ákveðinn 380.000 krónur, til handa stefnda Ólafi 320.000 krónur og til handa stefnda Hafsteini 320.000 krónur. Allar fjarhæðir eru að virðisaukaskatti meðtöldum.

Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

DÓMSORÐ

Stefndu, Guðríður Arnardóttir, Ólafur Þór Gunnarsson og Hafsteinn Karlsson, skulu vera sýkn af kröfum stefnenda, Frjálsrar miðlunar ehf., Brynhildar Gunnarsdóttur og Guðjóns Gísla Guðmundssonar, í máli þessu.

Stefnendur greiði stefndu Guðríði 380.000 krónur í málskostnað, stefnda Ólafi 320.000 krónur í málskostnað og stefnda Hafsteini 320.000 krónur í málskostnað.