Hæstiréttur íslands

Mál nr. 447/2011


Lykilorð

  • Dómari
  • Ómerking héraðsdóms


                                     

Föstudaginn 27. janúar 2012.

Nr. 447/2011:

Ákæruvaldið

(Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)

gegn

X

(Gestur Jónsson hrl.)

Dómarar. Ómerking héraðsdóms.

Dómur héraðsdóms um sakfellingu X var ómerktur, enda höfðu ekki þrír héraðsdómarar skipað dóm við nýja meðferð málsins í kjölfar þess að fyrri héraðsdómur hafði verið ómerktur með vísan til 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 12. júlí 2011 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, til vara að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins, en að því frágengnu að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til meðferðar á ný.

Mál þetta var höfðað á hendur ákærða með ákæru ríkislögreglustjóra 19. nóvember 2009 og var það þingfest 16. desember sama ár. Ákærði neitaði sök. Að undangenginni aðalmeðferð var dómur felldur á málið 21. apríl 2010, þar sem ákærði var sýknaður af kröfum ákæruvaldsins. Af þess hálfu var dóminum áfrýjað 19. maí 2010, en með dómi Hæstaréttar 24. febrúar 2011 í máli nr. 325/2010 var héraðsdómurinn ómerktur og meðferð málsins frá upphafi aðalmeðferðar 22. mars 2010. Málið var tekið fyrir á ný í héraðsdómi 29. apríl 2011 og dómtekið að lokinni aðalmeðferð 16. júní sama ár. Í hinum áfrýjaða dómi, sem kveðinn var upp 30. júní 2011 af einum héraðsdómara, var ákærði sakfelldur samkvæmt ákæru og dæmdur til að sæta fangelsi í tvö ár.

Í dómi Hæstaréttar 24. febrúar 2011 var rakið efni nánar tiltekinna gagna, sem lögð höfðu verið fram við fyrri meðferð málsins í héraði en héraðsdómur hafði ekki tekið tillit til við úrlausn þess. Vegna þessa var litið svo á að ætla yrði að niðurstaða í dóminum um sönnunarmat kynni að vera röng svo að einhverju skipti við úrlausn málsins og var hann því ómerktur „með vísan til 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008“ um meðferð sakamála. Samkvæmt 3. málslið þess lagaákvæðis skulu þrír héraðsdómarar skipa dóm í máli við nýja meðferð þess þegar fyrri héraðsdómur hefur verið ómerktur á grundvelli ákvæðisins. Þessa var ekki gætt þegar mál þetta kom öðru sinni til meðferðar í héraði og úr því var leyst. Af þeim sökum er óhjákvæmilegt að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og meðferð málsins frá og með þinghaldi 14. júní 2011 og vísa því enn á ný heim í hérað til löglegrar meðferðar.

Allur áfrýjunarkostnaður málsins verður felldur á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur ásamt meðferð málsins frá og með þinghaldi 14. júní 2011 og er málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar.

Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun Gests Jónssonar hæstaréttarlögmanns, skipaðs verjanda ákærða, 627.500 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. júní 2011.

Mál þetta, sem dómtekið var 16. júní sl., er höfðað með ákæru ríkislögreglustjóra dagsettri 19. nóvember 2009, á hendur X, [...] fyrir fjárdrátt, með því að hafa 8. október 2008, í starfi sínu sem framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Landsbanka Íslands hf., dregið sér 118.544.950 krónur, andvirði GBP 712.323,94, sem hann lét millifæra af innlendum gjaldeyrisreikningi nr. 0114-38-200162 í eigu NBI Holding Ltd., kt. 700501-9060, félags á vegum bankans sem ákærði í tengslum við starf sitt var stjórnarmaður og hafði prókúru fyrir, yfir á eigin bankareikning nr. 0117-26-521, en daginn eftir lét ákærði millifæra sömu fjárhæð yfir á bankareikning nr. 0115-15-380583, einnig í hans eigu. 

Í ákæru er háttsemin talin varða við 1. mgr. 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákæruvald krefst þess að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.  

Ákærði neitar sök. Krefst hann sýknu og að sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði. 

Mál þetta var upphaflega dómtekið að lokinni aðalmeðferð 23. mars 2010.  Það var endurupptekið og dómtekið á ný og dæmt 21. apríl 2010. Með dómi héraðsdóms var ákærði sýknaður af sakarefnum samkvæmt ákæru. Málinu var af hálfu ákæruvaldsins áfrýjað til Hæstaréttar Íslands. Með dómi Hæstaréttar frá 24. febrúar 2011 í máli nr. 325/2010 var hinn áfrýjaði dómur ómerktur ásamt meðferð málsins frá og með þinghaldi 22. mars 2010 og var málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar. Fór ný aðalmeðferð málsins fram fyrir þeim héraðsdómara er nú dæmir málið 15. og 16. júní 2011. 

Með bréfi dagsettu 26. nóvember 2008 fór skilanefnd Landsbanka Íslands hf. þess á leit við ríkislögreglustjóra að fram færi rannsókn á tilteknum millifærslum er átt hefðu sér stað innan bankans 8. og 9. október 2008. Í bréfinu kemur fram að 8. október 2009 hafi X, ákærði í máli þessu, millifært peninga að fjárhæð 118.544.950 krónur af reikningi NBI Holding Ltd nr. [...]-[...]-[...]62 inn á reikning nr. [...]-[...]-[...]21 í eigu ákærða. Degi síðar hafi ákærði millifært sömu fjárhæð af framangreindum reikningi sínum inn á reikning nr. [...]-[...]-[...]83 einnig í hans eigu þar sem fjárhæðin lægi óhreyfð. Við skoðun á færslum starfsmanna Landsbanka Íslands hf. sem framkvæmd hafi verið af hálfu Deloitte fyrir skilanefnd Landsbanka Íslands hf. hafi komið fram framangreind millifærsla, en auk þess hafi hún komið upp í eftirlitskerfi bankans sem greini óeðlilegar fjármagnshreyfingar. NBI Holding Ltd. hafi verið stofnað 22. maí 2001 sem sjálfseignarsjóður á Guernsey. Íslenskur umboðsaðili sé Landsbanki Íslands hf. og í framkvæmdastjórn hafi setið ákærði, B og C. Ákærði og C hafi þá báðir verið starfsmenn Landsbanka Íslands hf. Reikningur NBI Holding Ltd. nr. [...]-[...]-[...]63 hafi verið stofnaður 10. nóvember 2005 en greiðslur inn á hann hafi verið framkvæmdar sama dag eða 70.107.434 krónur. Sú fjárhæð hafi verið millifærð af reikningum nr. [...]-[...]-[...]17 og [...]-[...]-[...]09 (sic) einnig í eigu NBI Holding Ltd. en þær greiðslur hafi upphaflega borist af reikningi nr. [...]-[...]-[...]1 í eigu LB Holding Ltd sem eyðilagður hafi verið 30. desember 2002. Í bréfinu kemur fram að það sé mat Landsbanka Íslands hf. að ákærði hafi ekki sannanlega verið eigandi þeirra fjármuna sem hafi verið inni í félaginu NBI Holding Ltd. heldur hafi hann verið í framkvæmdastjórn félagsins sem starfsmaður Landsbankans. Millifærslur hans inn á hans persónulega reikninga hafi því virst óeðlilegar. Að höfðu samráði við Fjármálaeftirlitið sé það ósk Landsbanka Íslands hf. að framangreindar millifærslur verði skoðaðar af hálfu lögreglu.

Með bréfi skilanefndar fylgdi minnisblað Deloitte frá 20. nóvember 2008 vegna málsins. Í minnisblaðinu er m.a. rakið hvernig skoðun á færslum í Norkom kerfi Landsbanka Íslands hf. hafi leitt færslurnar í ljós. Fram kemur að nánast engar upplýsingar séu til um félagið NBI Holding Ltd., en samkvæmt gögnum úr bankanum sé hann ekki eigandi félagsins. Starfsmaður úr innri endurskoðun bankans hafi verið fenginn til að safna upplýsingum um félagið og hafi starfsmaðurinn m.a. spurt M regluvörð bankans um félagið. Í framhaldi af fyrirspurn til regluvarðar hafi komið svar í tölvupósti frá ákærða um félagið þar sem ákærði hafi greint frá því að félagið hafi verið stofnað árið 2001. Félagið hafi ekki verið í eigu bankans heldur hafi ákærði haft milligöngu um stofnun þess utan um verkefni sem ákærði hafi séð um á sínum tíma. Greiðsla til félagsins hafi í raun verið lokun á IG reikningi þar sem greiðslan séu kaup bankans á gjaldeyri við lokun IG reiknings. Í minnisblaðinu er rakið að það sem ákærði sé væntanlega að vísa til sé að félagið hafi verið að loka gjaldeyrisreikningi og hafi andvirði þess í framhaldinu verið ráðstafað inn á reikning ákærða. Deloitte vanti skýringu á því í eigu hvers þetta félag hafi verið og hvert hafi verið tilefnið fyrir greiðslu ákærða. Rétt sé að hafa í huga að gjaldeyrisreikningurinn hafi verið óhreyfður frá stofnun hans 10. nóvember 2005 en þar áður hafi fjárhæðin virst koma af öðrum reikningi í eigu félagsins sem hafi verið lokað um leið og þessi reikningur hafi verið stofnaður. Þá sé félagið ekki skráð á lista regluvarðar yfir félög tengd ákærða.

Bréfi skilanefndar Landsbankans fylgdu tölvubréfasamskipti á milli ákærða og regluvarðar Landsbanka Íslands hf. frá 18. og 19. nóvember 2008 þar sem regluvörður er að leita upplýsinga um félagið NBI Holding Ltd. Ákærði svarar því til að hann þekki félagið. Fram kemur að það tengist greiða við Kaupþing fyrir margt löngu. Sé búið að biðja um að því verði lokað ásamt ,,Trust“ því tengt. Með bréfinu er afrit af stofnskírteini fyrir NBI Holding Ltd. frá 22. maí 2001 undirritað á Guernsey. Þá fylgdi umsókn til Hagstofu Íslands frá 25. maí 2001 undirrituð af ákærða um kennitölu fyrir erlent fyrirtæki vegna bankaviðskipta á Íslandi. Fram kemur að í framkvæmdastjórn sitji ákærði, B og C. Íslenskur umboðsaðili eða tengdur aðili sé Landsbanki Íslands hf. Með bréfi slitastjórnar fylgdu yfirlit um færslur á reikning nr. [...]-[...]-[...]29 í eigu NBI Holding Ltd. Samkvæmt yfirliti fyrir árið 2002 var upphafsstaða á reikningi í upphafi þess árs 25.330.382,26 krónur. Inn á reikninginn er lagt í nokkrum færslum á því ári og tekið út af reikningi. Nema færslur yfirleitt einhverjum hundruðum milljóna. Stendur reikningurinn hæst í 1.009.732.181,74 krónum 25. nóvember 2002. Í lok árs er inni á þeim reikningi 540.820,74 krónur. Þá er yfirlit um reikning nr. [...]-[...]-[...]17 fyrir árið 2005 einnig í eigu NBI Holding Ltd. Upphafsstaða þess reiknings í upphafi þess árs er 66.117.880 krónur en lokastaða 0 krónur. Einungis ein innborgun er á reikninginn og er staða á reikningi 10. nóvember 2005 samtals 70.107.434 krónur, en þann dag er sú fjárhæð tekin út af reikningnum. Þá fylgja hreyfingar á þessum reikningi fyrir árin 2002 til 2004. Hreyfingar eru óverulegar fyrir utan að á árinu 2002 eru lagðar inn á reikninginn 59.969.153,49 krónur, en fyrir það var staða hans 0. Þá eru á meðal þessara gagna hreyfingar á reikningi nr. [...]-[...]-[...]62 fyrir árin 2005 til 2008. Inn á þann reikning eru lagðar inn GBP 648.842,52 þann 10. nóvember 2005. Þar til GBP 712.323,94 eru teknar út af reikningnum 8. október 2008 eru einu hreyfingar á reikningi innborgun á vöxtum af reikningi og útgreiðsla á fjármagnstekjuskatti fyrir utan að 8. október 2008 eru einnig teknar út af þeim reikningi GBP 23.207,33. 

Með bréfi skilanefndar er samantekt sem dagsett er 26. nóvember 2008. Ekki kemur fram frá hverjum samantektin stafar en gera verður ráð fyrir því að um sé að ræða vinnuskjal frá starfsmanni Deloitte þar sem lögregla hefur merkt skjalið með þeim hætti að það, ásamt öðrum gögnum frá Deloitte, hafi borist lögreglu með bréfi skilanefndar. Þá sækir samantekt þessi stoð í reikningsyfirlit á skjölum í rannsóknargögnum málsins merkt 2/13 til 13/13. Samkvæmt þessu yfirliti átti sér stað útborgun 30. desember 2002 af reikningi nr.[...]-[...]-[...]1 í eigu LB Holding Ltd. að fjárhæð 34.969.153 krónur og var fjárhæðin lögð inn á nýstofnaðan reikning nr. [...]-[...]-[...]17 í eigu NBI Holding Ltd. Að auki átti sér stað færsla af reikningi nr. [...]-[...]-[...]29 í eigu NBI Holding Ltd. að fjárhæð 25.000.000 krónur sama dag. Með áföllnum vöxtum hafi innstæða á þessum reikningi numið 70.107.434 krónum. Þann 10. nóvember 2005 hafi fjárhæðin verið tekin út reikningnum og hann eyðilagður. Fjárhæðin hafi verið lögð inn á gjaldeyrisreikning nr. [...]-[...]-[...]62 í eigu NBI Holding Ltd. sem GBP 648.842,52. Sú fjárhæð hafi verið lögð inn á reikning ákærða 8. október 2008. 

Í rannsóknargögnum málsins er að finna ýmis gögn er varða sjálfseignarsjóðinn The 1886 Trust á Ermasundseyjunni Guernsey og félögin NBI Holding Ltd og LB Holding Ltd. Á meðal þeirra gagna er bréf ákærða frá 18. maí 2001, merkt IB/1.1 í rannsóknargögnum málsins, til Q sem skráður er hjá Legis Trust Ltd. í St Peter Port á Guernsey. Efni bréfsins varðar sjálfseignarsjóðinn og félögin tvö. Fram kemur að félagið LB Holding Ltd, sem starfrækt sé undir sjálfseignarsjóðnum The 1886 Trust, sé aflandsfélag sem hafi verið stofnað til að halda utan um hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. Félagið NBI Holding Ltd. verði notað til að halda utan um bréf sem Landsbanki Íslands hf. eigi í öðrum félögum en bankinn vilji ekki að komi fram í efnahagsreikningi bankans. Þá er á meðal rannsóknargagna bréf er ákærði ritar til stjórnar NBI Holding Ltd. með aðsetur á Guernsey 18. maí 2001 þar sem ákærði samþykkir að starfa sem stjórnarmaður fyrir félagið. Á skjali merkt IB/7.4, 5/9 ritar Q til stjórnar NBI Holding Ltd. með aðsetur á Guernsey 25. mars 2004 þar sem hann samþykkir að starfa sem stjórnarmaður fyrir félagið. Samskonar bréf ritar hann til stjórnar LB Holding Ltd. Á sama veg ritar P bréf til beggja stjórna sama dag. Á skjali merkt IB/1.6 rita ákærði, C og B undir umboð ákærða til handa, dagsett 12. október 2000, til að rita og fara með prókúru fyrir félagið LB Holding Ltd. Þann 12. mars 2004 segir B sig úr stjórn LB Holding Ltd. og NBI Holding Ltd. 

Með tölvubréfi 8. desember 2008, sem merkt er IB/3 í rannsóknargögnum málsins, sendi M regluvörður Landsbanka Íslands hf. lögreglu ýmis gögn úr fórum bankans er varða félagið NBI Holding Ltd. Á skjali merkt IB/3.3 liggur fyrir staðfesting þess efnis að 3. nóvember 2006 hafi nafni NBI Holding Ltd. verið breytt á Guernsey í ZVV Holding Ltd.  Á meðal þeirra rannsóknargagna er lögð hafa verið fram og varða félagið NBI Holding Ltd. kemur fram að allt frá árinu 2001 eru félögin First Overlap Ltd. og Second Overlap Ltd., bæði með aðsetur á 1 Le Marchant Street, St. Peter Port á Guernsey, eigendur hlutabréfa í félaginu NBI Holding Ltd. Stjórnarmenn í félaginu NBI Holding Ltd. eru ákærði, sem er með skráð aðsetur í höfuðstöðvum Landsbanka Íslands hf. í Reykjavík og B, sem er með skráð aðsetur í St Peter Port á Guernsey. Fram kemur að á árinu 2005 eru stjórnarmenn NBI Holding Ltd. skráðir ákærði, með sama aðsetur og áður og Q og P, báðir með skráð aðsetur á Le Marchant Street, St. Peter Port á Guernsey. Eru þeir allir enn skráðir stjórnarmenn á árinu 2007. Á skjali merkt IB/7.11 er bréf Q til stjórnar ZVV Holding Ltd. sem tilgreinir að frá og með 31. júlí 2007 sitji hann ekki lengur í stjórn félagsins. Samsvarandi bréf er ritað vegna LB Holding Ltd. Á skjali í rannsóknargögnum málsins merkt IB/10 er bréf C til lögreglu 23. desember 2008. Í bréfinu kemur fram að C hafi í nóvember 2002 sagt sig úr stjórn félaga tengdum Landsbanka Íslands hf. á Ermasundseyjunni Guernsey. Einnig hafi hann í nóvember 2002 sagt lausu starfi sínu í bankanum sem framkvæmdastjóri Alþjóða- og fjármálasviðs Landsbanka Íslands hf. Með bréfinu fylgdi afrit af bréfum C til stjórna NBI Holding Ltd. og LB Holding Ltd. frá 21. nóvember 2002 þar sem hann segir sig úr stjórn umræddra félaga. Jafnframt fylgdi afrit af bréfi A bankastjóra Landsbanka Íslands hf. til C frá 26. nóvember 2002 þar sem A staðfestir móttöku bréfs C frá 21. nóvember 2002 um þá ákvörðun C að hverfa úr starfi hjá bankanum.  

Í rannsóknargögnum merkt IB/4.9 2/2 er tölvubréf frá F, sérfræðingi hjá Landsbanka Íslands, til V, starfsmanns bankans 8. október 2008 kl. 10.59. Í bréfinu fer F þess á leit við V að hún eyðileggi reikning nr. [...]-[...]-[...]62, í eigu NBI Holding Ltd. og leggi fjárhæð reikningsins inn á reikning nr. [...]-[...]-[...]21 í eigu ákærða. Sama dag kl. 11.06 fer V þess á leit við Y með tölvubréfi að hún annist þetta verk.

Með tölvubréfi 23. janúar 2009 fór verjandi ákærða þess á leit við lögreglu að kannað yrði með yfirlit yfir samninga sem ákærði hafi varðveitt hjá sér fyrir hönd Landsbanka Íslands hf. og hann látið skilanefnd bankans í hendur skömmu eftir að hún hafi tekið við stjórn bankans. Fram kemur að ákærði fullyrði að á meðal þessara gagna séu skjöl sem tengist NBI Holding Ltd., þ. á m. stofnskjöl og viðskiptasamningar er félagið hafi gert. Ritara skilanefndar bankans sendir rannsóknarlögreglumanni tölvubréf 3. mars 2009 í tilefni af þessu og lætur lögreglu í té umræddan lista. Er listi þessi í rannsóknargögnum málsins merktur IB/5.1, 4/5. Ber hann yfirskriftina Samningar sem fela í sér fjárhagslegar skuldbindingar fyrir bankann. Fram kemur nafn félagsins NBI Holding Ltd. í fjögur skipti. Er það í fyrsta sinn 28. maí 2001 og fært í athugasemd lánssamningur og að Landsbanki Íslands hf. láni 686.000.000 króna. Næst kemur nafn félagsins fyrir 25. júní 2001 og er fært í athugasemdir lánssamningur og að Landsbanki Íslands hf. láni 125.457.856 krónur. Næsta kemur nafn félagsins fyrir 21. desember 2001 og fært í athugasemd að um sé að ræða samning um kaup á hlutafé. Síðast kemur nafn félagsins fyrir 7. júní 2002 og þess getið í skýringu að um sé að ræða kaupsamning þar sem NBI Holding Ltd. selji Landsbanka Íslands hf. eignarhlut í Vátryggingarfélagi Íslands hf. Þá eru á meðal rannsóknargagna merkt IB/7 ársreikningur fyrir NBI Holding Ltd. 31. desember 2001, sem undirritaður er 29. ágúst 2002. Í skýrslu stjórnar kemur fram að félagið starfi á fjármálamarkaði í samstarfi við Landsbanka Íslands hf. Félagð sé í eigu sjálfseignarsjóðsins The 1886 Trust. Í ársreikningi kemur fram undir lið um fjárfestingar í fyrirtækjum að félagið eigi eignarhlut í Kaupþingi hf. og Vátryggingarfélagi Íslands hf. Á skjali merkt IB/7.14 eru m.a. reikningur er lögmannsstofan Legis Corporate Service Ltd., með aðsetur á 1 Le Marchant Street, St. Peter Port á Guernsey hefur gert stjórn ZVV Holding Ltd. 20. desember 2007 þar sem krafist er þóknunar fyrir stjórnarsetu í félaginu fyrir árið 2008 og þóknunar fyrir þjónustu ritara. Þá er á sama stað í rannsóknargögnum málsins bréf lögmannsstofunnar til ákærða 12. febrúar 2009 þar sem vakin er athygli á vangreiddum reikningum lögmannsstofunnar vegna árlegrar þóknunar fyrir sjálfseignarsjóðinn The 1886 Trust og félögin LB Holding Ltd. og ZVV Holding Ltd.

Á meðal rannsóknargagna, merkt IB/7.10 er tölvubréf frá M regluverði Landsbanka Íslands hf. 4. október 2007 til starfsmanns Fjármálaeftirlitsins varðandi fyrirkomulag kaupréttarsamninga hjá Landsbanka Íslands hf. Er bréfið ritað í framhaldi af ósk Fjármálaeftirlitsins 2. október 2007 um greinargerð um fyrirkomulag þeirra samninga. Í svari regluvarðar kemur m.a. fram að Landsbankinn hafi gert kaupréttarsamninga við starfsmenn og stjórnendur innan samstæðu Landsbankans í samræmi við starfskjarastefnu bankans. Ættu starfsmenn og stjórnendur kauprétt á hlutabréfum í bankanum á tilteknu gengi. Fram kemur að Fjármálaeftirlitið óski eftir upplýsingum um raunverulega eigendur tiltekinna sjálfseignarfélaga og er LB Holding Ltd. þar á meðal. Í svari regluvarðar kemur fram að umrædd félög séu í eigu sjálfseignarfélaga, nefnd ,,Trust“, sem séu raunverulega í eigu alþjóða líknarfélaga. Gera verði skýran greinarmun á ,,Trust“ og þeim félögum sem keypt hafi bréf í Landsbankanum. Stofnaðir hafi verið sjálfseignarsjóðir en það séu sjóðir sem eigi sig sjálfir. Þessum sjóðum sé stjórnað af svonefndum ,,Trustee“ og séu ávallt sjónarmið rétthafa eða svonefndra ,,beneficiary“ höfð að leiðarljósi. ,,Trustee“ stjórni því ,,Trust“ með þann tilgang að leiðarljósi að tryggja að markmið sjóðs náist, þ.e. að geta staðið við samninga um að selja hlutabréf í eigu félaganna á tilteknu verði á fyrirfram ákveðnum tíma. Rétt sé að leggja ríka áherslu á að ,,Trust“ lagahefð sé löng og rík í engilsaxneskum rétti. Landsbankinn hafi gert kaupréttarsamninga við lykilstarfsmenn sína og til að tryggja efndir á þessum samningum hafi Landsbankinn gert samning við félög í eigu umræddra sjálfseignarsjóða. Af hálfu Landsbankans sé því um að ræða baktryggingu vegna kaupréttarsamninga. Hvorki ,,Trust“ né viðkomandi félög muni í raun skila hagnaði enda hafi félögin gert skuldbindandi samninga um að selja Landsbankanum hlutabréf á ákveðnu verði á fyrirfram umsömdum tíma. Það hafi tíðkast í slíkum sjóðum að telja líknarfélög sem rétthafa eða ,,beneficial owners“ að slíkum félögum en vegna þess að ekki muni koma til þess að sjóðir eða félög skili hagnaði muni fjármunir ekki renna til líknarfélaga. Segja megi að rétthafar eða ,,beneficiary“ séu starfsmenn Landsbankans sem gert hafi kaupréttarsamninga við bankann. Þeir séu það hins vegar ekki enda skipti það starfsmenn ekki máli hvernig eða með hvaða hætti Landsbankinn tryggi sig gagnvart efndum á samningum þeim til handa. Stjórnandi ,,Trustee“ gæti hins vegar ekki tekið ákvörðun sem stangist á við tilgang og markmið sjóðsins og félaga í hans eigu. Þetta fyrirkomulag hafi þá þýðingu að Landsbankinn hafi tryggt efndir vegna kaupréttarsamninga við starfsmenn án þess að bera markaðsáhættu bréfanna. 

Eftir að ákæra í máli þessu var gefin út og málið þingfesti fyrir héraðsdómi 16. desember 2009 aflaði verjandi ákærða gagna er fram voru lögð fyrir dómi við fyrstu meðferð málsins fyrir héraðsdómi. Er um að ræða skjöl þingmerkt sem dskj. nr. 6 til og með 196. Er stór hluti framlagðra dómskjala tölvubréf og skjöl þeim tengd á milli ákærða og einstaklinga í Landsbanka Íslands hf., sem og valdir kaflar úr fjölmiðlaumfjöllun hér á landi í októbermánuði 2009 Á dskj. nr. 7 er minnisblað frá A bankastjóra til bankaráðs Landsbanka Íslands hf. dagsett 26. júní 2000. Nöfn A og ákærða eru rituð undir minnisblaðið. Í minnisblaðinu kemur m.a. fram að bankaráð hafi samþykkt á fundi 16. júní 2000 stofnun The 1886 Trust á Guernsey sem sé uppleysanlegur sjálfseignarsjóður. Til að annast fjármálaumsýslu fyrir sjóðinn hafi verið stofnað fyrirtækið LB Holding Ltd. á Guernsey. Sé gerð tillaga um að bankastjóra verði heimilað að selja LB Holding Ltd. hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. fyrir allt að 700 milljónir króna m.v. markaðsgengi á söludegi og hlutabréf bankans í Decode. Þá sé óskað eftir heimild til að selja öll víkjandi skuldabréf sem bankinn eigi í öðrum lánastofnunum. Bankinn muni hafa milligöngu um fjármögnun LB Holding Ltd. á kaupunum. Til að byrja með geti verið um lán frá bankanum að ræða en í framhaldinu komi til greina að LB Holding Ltd. tryggi aðra fjármögnun. The 1886 Trust hafi gert tillögu um að B lögmaður, C og ákærði skipi stjórn LB Holding Ltd. Hafi bankastjóri lýst því yfir við Legis Trust Ltd. sem sé umsjónaraðili The 1886 Trust að hann hafi ekki athugasemdir við þessa skipan. Á dskj. nr. 22 er afrit af fundargerð framkvæmdastjórnar Landsbanka Íslands hf. frá 5. júní 2001. Undir liðnum önnur mál var ræddur efnahagsreikningur bankans. Er fært í fundargerð að ákærði hafi bent á að hlutabréf í tilteknu félagi yrðu færð úr fjárfestingarbók í veltubók Landsbanka Íslands framtaki í júní. Nauðsynlegt sé að bæta tryggingastöðu bankans vegna útlána til LB Holding Ltd. Kanna þurfi með sölu Decode bréfa frá LB Holding Ltd. til NBI Holding Ltd. Á dskj. nr. 37 svarar ákærði fyrirspurn varðandi NBI Holding Ltd. Fram kemur að félagið sé eignarhaldsfélag með aðsetur á Guernsey. Félagið sé í eigu sjálfseignarsjóðs sem Landsbankinn hafi stofnað á eyjunni. NBI Holding Ltd. sé með þriggja manna stjórn og myndi ákærði og C meirihluta stjórnar. Verkefni félagsins sé einvörðungu tímabundið eignarhald á hlutabréfum. Á dskj. nr. 40 og 41 er afrit af kaupsamningum. Er þar fyrst til að telja kaup Landsbanka Íslands hf. á hlutafé í Vátryggingarfélagi Íslands hf. og síðan á hlutafé í Líftryggingarfélagi Íslands hf. Þá er bankanum veitt heimild til að ráðstafa hlutum í Vátryggingarfélagi Íslands hf. með samningi til NBI Holding Ltd. sem sé eignarhaldsfélag undir stjórn Landsbanka Íslands hf. Þá er afrit af kaupsamningi þar sem NBI Holding Ltd. kaupir hlutafé í Vátryggingarfélagi Íslands hf. af Landsbanka Íslands hf. Í tölvubréfi á dskj. nr. 43 frá 31. desember 2001 vekur ákærði athygli á mikilvægi þess að halda viðskiptum Landsbanka Íslands hf. og NBI Holding Ltd. aðgreindum til að ná fram afkomu- og eiginfjármarkmiðum Landsbanka Íslands hf. Þegar komi að fyrsta gjalddaga þurfi NBI Holding Ltd. að semja um lánalínu hjá Landsbanka Íslands hf. til að standa við skuldbindingar sínar. Mikilvægt sé að kjör á lánalínum séu þau sömu og þau kjör sem Landsbanki Íslands hf. hafi samið um við Lífís.

Á dskj. nr. 54 er afrit af fundargerð fjármálanefndar Landsbanka Íslands hf. frá 11. janúar 2002. Undir lið um eignarhaldsfélög kemur fram að ákærði hafi kynnt stöðu varðandi eignarhaldsfélög á Guernsey. LB Holding Ltd. hafi verið stofnað til að halda utan um kauprétt starfsmanna og héldi það félag utan um eign í bréfum Landsbankans. Mikið gap væri miðað við núverandi markaðsverð bréfanna. NBI Holding Ltd. snéri að viðskiptalegum atriðum og væri stærsta málið viðskipti við Kaupþing. Ákveðið hafi verið að lánin tilheyrðu 108. Um væri að ræða sérstök tilvik og hefði ekkert með vanaleg útlánamál að gera. Réttast væri að ákvarðanir um vextina væru hjá 108 eins og málum væri háttað. C hafi spurt hvort nokkur þörf væri á því að lán til þessara eignarhaldsfélaga þyrftu að fara fyrir lánanefndir þar sem um rekstrarlega ákvörðun hverju sinni væri að ræða. Samþykkt hafi verið að ákærði myndi ákvarða kjör lána til NBI Holding Ltd. og LB Holding Ltd. hverju sinni. Á dskj. nr. 57 er afrit af bréfi PricewaterhouseCoopers til Landsbanka Íslands hf. frá 28. febrúar 2002 vegna endurskoðunar á ársreikningi Landsbanka Íslands hf. fyrir árið 2001. Bréfið ber yfirskriftina afskriftarreikningur útlána. Er þar m.a. vikið að lánum til LB Holding Ltd. Af þessu tilefni hefur Landsbanki Íslands hf. ritað endurskoðunarfyrirtækinu bréf sem dagsett er 3. mars 2002. Í því er m.a. vikið að lánum til LB Holding Ltd. og lýst hvernig það félag hafi verið stofnað á Guernsey til að halda utan um hlutabréfkaup í Landsbankanum í tengslum við kaupréttarsamninga starfsmanna bankans. Með því móti væri eignarhald á félaginu ekki hjá bankanum sjálfum. Í niðurlagi er því lýst að þó LB Holding Ltd. sé ekki í eigu bankans hafi tveir fulltrúar úr yfirstjórn bankans setið í stjórn félagsins og gætt þess að LB Holding Ltd. ætti ekki í öðrum viðskiptum en með eignarhald á hlutabréfum án vitneskju bankans. Á dskj. nr. 60 kemur fram að á árinu 2002 hafi LB Holding Ltd. verið á lista um 25 stærstu eigendur Landsbanka Íslands hf. og verið þriðji stærsti hluthafinn. Á dskj. nr. 61 er tölvubréf frá ákærða til A frá 19. mars 2002 þar sem ákærði innir A eftir því hvort ekki sé rétt að ákærði mæti á aðalfund Vátryggingarfélags Íslands hf. sem fulltrúi NBI Holding Ltd. A svarar því játandi. Á dskj. nr. 77 er afrit kaupsamnings frá 7. júní 2002 þar sem NBI Holding Ltd. selur Landsbanka Íslands hf. eignarhlut í Vátryggingarfélagi Íslands hf.

Samkvæmt dskj. nr. 125 barst ákærða tölvubréf frá aðstoðarmanni forsætisráðherra 6. október 2008 kl. 02.04 sem er yfirlýsing ríkisstjórnar Íslands um tryggingar á innstæðum í bönkum. Yfirlýsingu þessa framsendir ákærði áfram sama dag kl. 09.07 og aftur kl. 09.19 og þá til allra á sviði rekstrar. Í yfirlýsingunni áréttar ríkisstjórn Íslands að innstæður í innlendum viðskiptabönkum, sparisjóðum og útibúum þeirra hér á landi verði tryggðar að fullu. Með innstæðum sé átt við allar innstæður almennra sparifjáreigenda og fyrirtækja sem trygging innstæðudeildar tryggingarsjóðs innstæðueigenda taki til.

Með auglýsingu Fjármálaeftirlitsins frá 7. október 2008 var skipuð skilanefnd fyrir Landsbanka Íslands hf. Var það gert á grundvelli nýsamþykktra laga um heimild til fjárveitinga úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. nr. 125/2008. Var skilanefndinni m.a. falið að vinna að því að tryggja áframhaldandi viðskiptastarfsemi Landsbanka Íslands hf. á Íslandi. Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 9. október 2008 var eignum og skuldum Landsbanka Íslands hf. ráðstafað til Nýja Landsbanka Íslands hf. Gilti það því um innlendar innstæður á bankareikningum.

Er mál þetta var endurupptekið í héraði 21. apríl 2010 lagði ákæruvald fram dskj. nr. 207. Íslensk þýðing af þessu dómskjali var lögð fram við aðalmeðferð málsins 15. júní 2011 sem dskj. nr. 236. Er um að ræða samning frá 30. júní 2000 milli Landsbanka Íslands hf., sem þar er nefndur ,,the Settlor“ og Legis Trust Ltd. á Guernsey, nefnt ,,the Trustee“. Samningurinn er um stofnun ,,The 1886 LB Trust“. Af hálfu Landsbanka Íslands hf. er samningur þessi undirritaður af A bankastjóra. Í samningnum segir í upphafi að ,,the Settlor“ hafi lagt ,,the Trustee“ til fjármuni, sem tilgreindir séu í 1. viðauka við samninginn og voru 100 sterlingspund, til að stofna ,,the Trust Fund“ og að viðbótarframlag kunni að vera afhent með sama hætti. Í kjölfarið eru skilgreind ýmis hugtök sem samningurinn hefur að geyma. Meðal þeirra er ,,Beneficiaries“, en það merki þá sem svo séu nefndir í 2. viðauka við samningin og þann sem bætt sé við sem ,,Beneficiary“ samkvæmt 10. gr. a. í samningnum. Samkvæmt henni má hvenær sem er bæta við nöfnum nýrra ,,Beneficiaries“, hvort heldur er mönnum eða líknarsamtökum. Í 2. viðauka standa nöfn Landsbanka Íslands hf. og Landsbréfa Íslands hf. sem ,,Beneficiaries“.

Ákærði gaf skýrslu vegna málsins hjá lögreglu 22. desember 2008 og 14. maí 2009. Þá gaf hann skýrslu við fyrri aðalmeðferð málsins fyrir dómi 22. mars 2010 og við endurupptöku þess 21. apríl 2010. Loks gaf hann skýrslu við aðalmeðferð málsins hér fyrir dómi 15. júní 2011. Ákærði kvaðst hafa hafið störf í Landsbanka Íslands hf. 18. júní 1985 og fyrst starfað í áætlanadeild á fjármálasviði. Árið 1986 hafi hann tekið við hjá nýstofnuðum verðbréfaviðskiptum Landsbanka Íslands hf. og starfað þar til ársins 1989. Í framhaldinu hafi ákærði verið í námi í tvo vetur, en starfað í bankanum á sumrin. Þann 1. september 1991 hafi ákærði komið aftur til starfa og þá sem forstöðumaður í fjárreiðudeild. Hafi ákærði tekið við fjárhagsdeild bankans 1997 sem forstöðumaður og verið skipaður fjármálastjóri bankans. Á árinu 1989 eða 1999 hafi starfsheitið breyst í framkvæmdastjóri rekstrarsviðs. Á árinu 2000 hafi bæst við störf ákærða að sjá um eignadeild bankans. Á þessum sviðum hafi ákærði starfað þar til hann hafi hætt störfum í bankanum í lok nóvember 2008. 

Ákærði kvað Landsbanka Íslands hf. hafa stofnað sjálfseignarsjóðinn The 1886 Trust á Ermasundseyjunni Guernsey á árinu 2000. Sjóðurinn hafi verið eigandi tveggja hlutafélaga sem einnig hafi verið með aðsetur á eyjunum en félögin heiti LB Holding Ltd. og NBI Holding Ltd. Tilgangur félagsins LB Holding Ltd. hafi verið að kaupa hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. til að verja kaupréttarskuldbindingar bankans gagnvart starfsmönnum bankans. Gerður hafi verið samningur um það að starfsmenn ættu rétt á að kaupa bréf í bankanum á tilteknu gengi miðað við fyrirfram ákveðinn tíma. Hafi Landsbankinn tryggt sig með því að félagið LB Holding Ltd. hafi verið látið kaupa bréf Landsbanka Íslands hf. og bankinn síðan gert samning við LB Holding Ltd. um að eiga rétt á að kaupa bréfin á fyrirfram umsömdu verði síðar. Hafi bankinn greitt fyrir þóknun sem átt hafi að duga til að félagið gæti staðið skil á sínum gjöldum vegna lántöku til kaupa á bréfunum. Tilgangur með stofnun félagsins hafi verið að halda því í ákveðinni fjarlægð frá bankanum. Ef bankinn hefði sjálfur átt umrædd hlutabréf hefði það rýrt eigið fé bankans. Starfsmenn JP Morgans bankans í London hafi mælt með þessari leið. Yfirstjórn Landsbanka Íslands hf. hafi ákveðið hve mikið LB Holding Ltd. keypti af bréfum í Landsbankanum til að mæta kaupréttarsamningum. LB Holding Ltd. hafi síðan tekið lán til að fjármagna kaupin. Verðbréfamiðlun Landsbankans hafi séð um að kaupa bréfin og fyrirtækjasvið Landsbankans séð um lánveitinguna fyrst í stað en síðan hafi lán verið tekin í öðrum innlendum bönkum. Ákærði hafi skrifað undir lántökur fyrir hönd LB Holding Ltd. Öll starfsemi LB Holding Ltd. hafi farið fram á Íslandi. Í stjórn LB Holding Ltd. hafi í upphafi verið ákærði, C og B. B hafi hætt störfum hjá umsýsluaðilanum á Guernsey einhverju síðar en aðrir starfsmenn umsýsluaðilans þá komið inn í stjórn í staðinn. LB Holding Ltd. hafi upphaflega verið stofnað til að halda utan um kaupréttarsamningana. Síðar hafi komið fram hugmyndir um að nota félagið í víðtækari tilgangi en það hafi verið talið óheppilegt að blanda öðrum verkefnum saman við hlutabréf vegna kauprétta. Þá hafi félagið NBI Holding Ltd. verið stofnað. Félagð NBI Holding Ltd. hafi í upphafi verið með þrjá í stjórn. Hafi félagið verið stofnað til að kaupa hlutabréf í Kaupþingi, en síðar hafi félagið orðið kaupandi að hluta af eign Landsbanka Íslands hf. í Vátryggingarfélagi Íslands hf. Fjármálafyrirtæki hafi mátt eiga hlut í öðru fjármálafyrirtæki upp að ákveðinni prósentu en færi eignarhlutur yfir ákveðið hlutfall þá hafi það sem umfram sé dregist frá eigin fé viðkomandi fyrirtækis. NBI Holding Ltd. hafi keypt umrædd hlutabréf í Kaupþingi hf. og Vátryggingarfélagi Íslands hf. og tekið lán fyrir þeim kaupum. Ekki hafi ákærði komið að kaupum NBI Holding Ltd. á hlutabréfum í Kaupþingi hf. Þá kvaðst ákærði ekki muna eftir að hafa ritað undir lánaskuldbindingar félagsins. Ákveðið hafi verið fyrirfram að kaup NBI Holding Ltd. í umræddum félögum skyldi vera til skamms tíma. Á einhverjum tíma hafi það gerst að gengi hlutabréfa í Landsbanka Íslands hf. hafi lækkað en þá hafi NBI Holding Ltd. gengist í ábyrgð fyrir LB Holding Ltd. Sennilega hafi einhverjar peningagreiðslur farið á milli þeirra fyrirtækja er það var. Á árinu 2003 hafi C farið út stjórn NBI Holding Ltd. og á árinu 2005 Q og P verið komnir í stjórn félagsins. Q hafi síðan gengið úr stjórn á árinu 2007 og ákærði og P því verið einir áfram í stjórn. Ákærði kvaðst hafa fengið samþykktir bæði LB Holding Ltd. og NBI Holding Ltd. í hendur við stofnun þeirra og lesið þær yfir. Ákærði kvað umrædd félög hafa stundað sjálfstæða starfsemi og þjónað eigin tilgangi. Hafi ákærði ekki þurft að leita til yfirmanna sinna í Landsbanka Íslands hf. varðandi ákvarðanir um störf sín í þágu félaganna. Hafi ábyrgð ákærða sem stjórnarmanns snúið að félögunum tveim. Þá hafi Landsbankinn ekki séð um bókhald félaganna. Hafi ákærði litið svo á að það væri ekki hluti af starfi hans sem framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Landsbanka Íslands hf. að starfa í félögunum. Hafi ákærði setið í stjórnum annarra félaga. Sem dæmi um það megi nefna að ákærði hafi setið í stjórn fasteignafélagsins Totus ehf. Það félag hafi verið stofnað til að halda utan um byggingu nýs tónlistarhúss á Íslandi. Þegar það félag hafi lent í greiðsluerfiðleikum hafi ákærði ekki getað vísað á Landsbanka Íslands hf. um ábyrgð í tengslum við stjórnarsetuna. Með sama hætti hafi verið hagað ábyrgð ákærða gagnvart félögunum tveim á Guernsey. Ákærði kvaðst ekki hafa komið að stofnun sjálfseignarsjóðsins The 1886 Trust. Landsbanki Íslands hf. hafi verið stofnaðili sjóðsins og lagt honum til stofnfé. Ákærði kvaðst þeirrar skoðunar að þrátt fyrir að hafa stofnað umræddan sjálfseignarsjóð hafi Landsbanki Íslands hf. eftir það ekki getað gefið stjórnendum sjóðsins fyrirmæli. Eftir stofnunina hafi verið skorið á tengsl á milli stofnandans, eða þess sem væri skilgreindur sem ,,settlor“ og sjóðsins. Ákærði kvaðst hafa litið svo á að erlend góðgerðarsamtök hafi verið rétthafar eða svonefndir ,,Beneficiaries“ að sjóðnum. Hafi honum ekki verið kunnugt um að Landsbanki Íslands hf. eða Landsbréf Íslands hf. væru það.

Ákærði var inntur eftir efni fundargerðar á dskj. nr. 54. Ákærði kvað tilvísun í 108 vera tilgreiningu á lánasviði Landsbanka Íslands hf. Kvaðst ákærði hafa verið ósammála þeirri nálgun er hafi orðið niðurstaða fundarins um að ákærði myndi ákvarða kjör lána til NBI Holding Ltd. og LB Holding Ltd. Að því er varðar svarbréf Landsbanka Íslands hf. á dskj. nr. 58 kvaðst ákærði ekki hafa samið það bréf. Beri hann því ekki ábyrgð á orðalagi bréfsins. Að því er varði efni tölvupósts á dskj. nr. 61 hafi ákærði einfaldlega viljað taka af allan vafa um það þar sem ella hafi getað orðið misskilningur um hver ætti að sækja aðalfund Vátryggingarfélags Ísland hf. Ákærði kvaðst þeirrar skoðunar að ekki hafi almenn vitneskja verið um félagið NBI Holding Ltd. á meðal starfsmanna Landsbanka Íslands hf., en einhverjir starfsmenn hafi þó vitað um félagið. Ákærði kvaðst ekki geta staðfest að dskj. nr. 207 væri samningur vegna The 1886 Trust  sjálfseignarsjóðsins. Af tölvurönd á skjalinu mætti þó sjá að skjalið hafi verið sent á faxi til Íslands á árinu 2001. Skjal þetta hafi aldrei verið borið undir ákærða við rannsókn málsins hjá lögreglu. Væri ákærða ekki kunnugt um hvort skjalinu hafi verið breytt eftir 2001. Ákærði kvaðst hafa aflað sér upplýsinga frá fyrirtækjaskrá á Guernsey eftir dóm Hæstaréttar í máli nr. 325/2010 24. febrúar 2011 um The 1886 Trust. Á dskj. nr. 218 komi t.a.m. fram að NBI Holding Ltd., sem síðar varð ZVV Holding Ltd., sé skráð í eigu félaganna First Overlap Ltd. og Second Overlap Ltd. The 1886 Trust sjálfseignarsjóðurinn sé því ekki eigandi félagsins. Dskj. nr. 219 leiði hið sama í ljós. Hafi ákærði reynt að fá frekari upplýsingar frá yfirvöldum og einstaklingum á Guernsey en ákærði fengið þau svör að frekari upplýsingar yrðu ekki veittar nema fyrir milligöngu skilanefndar Landsbanka Íslands hf. Það sé staðfest á dskj. nr. 231. Hafi verið farið fram á við skilanefndina að hún myndi leita eftir frekari upplýsingum með bréfi á dskj. nr. 231 en skilanefndin hafi hafnað því með bréfi sem sé á dskj. nr. 240. Ákærði kvaðst hafa óskað eftir því að losna úr stjórn félaganna tveggja á Guernsey á árinu 2009 en við því hafi ekki verið brugðist fyrr en á árinu 2010. Hafi ákærða borist upplýsingar um það að sjálfseignarsjóðurinn The 1886 Trust hafi ekki samþykkt það fyrr.

Ákærði kvaðst hafa óskað eftir því við F að fjármunir á bankareikningi NBI Holding Ltd. nr. [...]-[...]-[...]62 yrðu færðir yfir á reikning ákærða 8. október 2008. Fjármunirnir hafi ekki verið færðir á réttan reikning og hafi ákærði því óskað eftir því næsta dag að fjármunirnir yrðu færðir yfir á annan reikning eða reikning nr. [...]-[...]-[...]83. Ákærði kvaðst hafa verið þess fullviss frá upphafi að færsla þessi kæmi upp í eftirlitskerfi bankans. Eftirlitskerfin hafi verið nokkur. Þannig hafi innri endurskoðun bankans tekið eftir færslunni. Svokallað Norkom eftirlitskerfi eigi að taka eftir færslum sem þessum, en það kerfi eigi að gera bankanum fært að taka eftir grunsamlegum færslum. Loks hafi markaðseftirlit bankans sérstakt eftirlitskerfi sem taki eftir stórum færslum. Allt fjármálaumhverfið á Íslandi hafa verið erfitt um mánaðarmótin september október 2008. Þá hafi verið í gangi öflug umræða um að það þyrfti að hólfa niður eða skipta upp hverjum ætti að bjarga og hverjum ekki ef fjármálastofnanir hér á landi færu á hliðina. Hafi ákærði talið líklegt að eignir erlendra fyrirtækja yrðu látnar brenna upp. Hafi ákærði af þessum ástæðum viljað koma eignum NBI Holding Ltd. í öruggt skjól á íslenskum bankareikningi í eigu íslensks einstaklings. Hafi ákærði talið, þrátt fyrir setningu hinna svonefndu neyðarlaga 6. og 7. október 2008, óvíst að innstæður á bankareikningum væru tryggðar að fullu. Hafi yfirlýsing er ríkisstjórn Íslands hafi sent frá sér verið orðuð þannig að innstæður verði tryggðar, en ekki að þær væru tryggðar. Hafi hann af þeim ástæðum m.a. ekki talið öruggt að innstæða á bankareikningi NBI Holding Ltd. væri tryggð. Ákærði hafi talið að einstaklingar eða fyrirtæki yrðu að vera búsett á Íslandi til að tryggingaverndin væri örugg. Ákærði hafi verið búinn að vera með fjármunina á eigin reikningi í ríflega mánuð er mál þetta hafi komið upp. Hafi ákærði ekki verið búinn að taka ákvörðun um hve lengi hann hafi ætlað að halda þeim þar en það hafi hann m.a. ætlað að ræða við D nýskipaðan bankastjóra Landsbanka Íslands hf. eftir hrunið. Hafi ákærði einfaldlega verið óöruggur um fjármunina. Hafi hann ítrekað reynt að ná af D dagana eftir hrun en það hafi verið erfitt því ekki hafi verið unnt að ná sambandi við hana. Ekki kvaðst ákærði hafa sent henni tölvupóst vegna málsins. Ákærði kvaðst hafa óttast um sinn eigin sparnað á þessum tíma eða 6. október 2008, þrátt fyrir yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar. Hafi hann verið með töluverða fjármuni inni á innstæðureikningi í eigin nafni. Hafi hann skipt þeirri fjárhæð niður á reikninga eiginkonu sinnar og þriggja sona. Um hafi verið að ræða sömu hugsun og varðandi þá fjármuni sem geymdir hafi verið inni á reikningi NBI Holding Ltd. Ákærði kvaðst lengi hafa setið í stjórn tryggingasjóðs innstæðueigenda. Hafi hann af þeim ástæðum vitað um getu sjóðsins til að standa við skuldbindingar sínar. Aðrir stjórnarmenn í þeim sjóði hafi einnig haft áhyggjur af sjóðnum. Hafi þeirri spurningu verið varpað fram hvort útlendingar með innstæður á reikningi hér á landi væru einnig tryggðir af sjóðnum. Ákærði kvaðst hafa verið í forsvari fyrir Landsbanka Íslands hf. í samskiptum við Fjármálaeftirlitið í kringum hrunið. Hafi hann annast upplýsingagjöf af hálfu bankans. Hafi honum borist yfirlýsing ríkisstjórnarinnar um ábyrgð á innstæðum með tölvupósti að morgni 7. október 2008 og hann þegar farið með þá yfirlýsingu á fund bankastjóra. Ákærða kvað sér hafa verið kunnugt um ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um stofnun skilanefndar fyrir Landsbanka Íslands hf. seint 9. október 2008, eða á milli kl. 16 og 17. Millifærslu þá sem málið snýst um hafi ákærði gefið fyrirmæli um að morgni 8. október 2008. Ákærði kvað nokkrum starfsmönnum Landsbanka Íslands hf. hafa verið ljós millifærslan. Þannig hafi F verið hún ljós, sem og gjaldkerunum V og Y og tveim starfsmönnum á gjaldeyrisborði bankans en þaðan hafi þurft að fá upplýsingar um gengi. Þá kvaðst ákærði telja að útibússtjóri bankans í [...] hafi vitað af millifærslunni. Engin leynd hafi því verið yfir ráðstöfuninni. Ef ákærði hafi viljað leyna millifærslunni hafi hann getað annast hana sjálfur í heimabanka og jafnvel millifært fjárhæðina á reikninga er ákærði hafi átt í erlendum bönkum. 

Ákærði kvaðst hafa þekkt umræðu um hina svonefndu ,,WaMu“ aðferð í starfsemi fjármálafyrirtækja. Aðferðin væri kennd við Washington Mutual bankann í Bandaríkjunum og hvernig þeim banka hafi verið skipt upp við greiðsluþrot hans. Hafi bankanum verið skipt upp þannig að í einn hluta hafi verið settar góðar skuldbindingar og slæmar í annan og eignir sem ekki væri vilji að taka yfir. Samskonar aðferð hafi verið notuð hér á landi með því að skipta bönkum upp í gamla og nýja banka. Með þessari aðferð væri gerður greinarmunur á innstæðueigendum með þeim hætti að ákveðið væri hverjum ætti að bjarga og hverjum ekki. Hafi ákærði rætt þessi atriði við tvo af fulltrúum ytri endurskoðanda fyrir bankann. Í viðræðum við þá hafi ákærði nefnt að þeir yrðu í sínum störfum varðandi sína eigin viðskiptavini að huga að þeim viðskiptavinum sínum sem væru erlendir þar sem þeir gætu ,,frosið inni“. Ákærði kvaðst ósammála því er kæmi fram í dómi Hæstaréttar í máli nr. 325/2010 að allri óvissu hafi verið eytt með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 9. október 2008. Áfram hafi verið gríðarleg óvissa um stöðu bankanna. Ekki hafi komið fram fyrr en í endanlegum efnahagsreikningi fyrir Landsbankann í maí 2009 hvað hafi verið skilið eftir í gamla bankanum. Í því efni væri óútskýrt hvernig farið hafi verið með 11 til 12 milljarða af innlánum.

A fyrrum bankastjóri Landsbanka Íslands hf., kvaðst hafa verið eini bankastjóri Landsbanka Íslands hf. frá 1998 til vorsins 2003, er E hafi verið ráðinn sem bankastjóri við hlið A. Eftir það hafi þeir starfað saman samkvæmt tiltekinni verkaskiptingu. Á borði A eftir ráðningu E hafi m.a. verið alþjóðasvið bankans. Á árunum í kringum 2000 hafi bankinn verið að leita fyrir sér með stofnun aflandsfélaga í þeim tilgangi að sinna ákveðinni starfsemi á vegum bankans fyrir viðskiptavini hans. Leitað hafi verið að staðsetningu þar sem lagaumgjörð í kringum slíka starfsemi væri traust og góð. Niðurstaða þeirrar vinnu hafi verið sú að Ermasundseyjan Guernsey hafi hentað vel til slíkrar starfsemi en alþjóðasvið bankans hafi leitt þessa vinnu. Sjóðasvið Landsbanka Íslands hf. hafi verið rekið í gegnum félagið Landsbréf Íslands hf. Það félag hafi viljað setja upp svokallaða sjóðasjóði, þ.e. sjóði sem ættu ekki beint hlutabréf eða skuldabréf heldur ættu eignarhluti í öðrum sjóðum. Þetta væru áhættuminni sjóðir sem gætu nýtt sér sérfræðiþekkingu erlendis. Á þessum árum hafi ekki verið heimilt samkvæmt íslenskum lögum að reka slíka sjóði hér á landi. Það hafi verið upphafleg ástæða þess að farið hafi verið til Guernsey. Á þessum grundvelli hafi þrír sjóðir, svonefndir fortjónasjóðir, verið reknir. Sjálfseignarsjóðurinn The 1886 Trust hafi verið stofnaður 30. júní 2000 og fljótlega eftir það hafi félögin LB Holding Ltd. og NBI Holding Ltd. verið stofnuð og verið dótturfélög sjálfseignarsjóðsins. Hafi sjálfseignarsjóðsfyrirkomulagið byggst á enskri lagahefð. Við stofnun slíkra sjóða væri skilið á milli þess aðila er kæmi sjóði á fót með sjóðsframlagi og sjóðsins sjálfs. Sjóðurinn væri þó áfram rekinn í samræmi við óskir stofnandans. LB Holding Ltd. hafi haldið utan um hlutabréf tengd kaupréttarsamningum starfsmanna Landsbanka Íslands hf. Eðlilegt hafi þótt að hafa afmarkað félag er héldi utan um þau réttindi starfsmanna og hlutafé á móti þeim. NBI Holding Ltd. hafi síðan verið stofnað til að eiga og halda utan um hlutabréf í skamman tíma. Um hafi t.d. verið að ræða hlutabréf í Kaupþingi hf, Vátryggingarfélagi Íslands hf. og Decode. Eignarhluturinn í Vátryggingafélagi Íslands hf. hafi verið íþyngjandi fyrir eigið fé Landsbanka Íslands hf. á þeim tíma vegna reglna sem gilt hafi á Íslandi. Af þeim ástæðum hafi eignarhluturinn bundið meira af eigin fé bankans. Alltaf hafi verið tilgangurinn með stofnun NBI Holding Ltd. að félagið ætti bréfin í tiltölulega skamman tíma. Hafi A farið til Ermasundseyjanna og ritað undir nauðsynleg skjöl til stofnunar sjóðsins og félaganna. Hafi bankinn ráðið lögmannsstofuna Legis Trust Ltd. til að annast stofnun sjóðsins og félaganna. Þar á bæ hafi bankinn gengið inn í nokkuð staðlað félags- og sjóðaform. A kvaðst hafa kynnt sér fyrirkomulagið sjálfur, en auk hans hafi starfsmenn bankans þeir C og ákærði komið að málinu. Að auki hafi nokkrir aðrir starfsmenn bankans komið að málinu, s.s. starfsmenn á sjóðasviðinu. Tilgangur með stofnun sjóðsins og félaganna hafi verið að afmarka þær eignir sem félögin hafi átt um stund samkvæmt samningum sem gerðir hafi verið. Hafi endurkauparéttindi bankans verið tryggður og bundinn við tiltekið atvik eða tiltekinn tíma. A kvaðst telja að Landsbanki Íslands hf. og Landsbréf Íslands hf. hafi verið tilgreindir sem rétthafar eða ,,Beneficiaries“ varðandi sjálfseignarsjóðinn þegar sjóðareksturinn hafi verið en fljótlega eftir það kvaðst A telja að alþjóðlegi Rauðikrossinn hafi verið gerður að rétthafa sjóðsins. A kvaðst þó ekki muna hvernig gengið hafi verið frá því. Er A var bent á að samkvæmt skjölum hafi félögin First Overlap Ltd. og Second Overlap Ltd. verið skráð sem hluthafar, kvaðst A ekki muna eftir þeim. Seta ákærða og C í stjórn félaganna NBI Holding Ltd. og LB Holding Ltd. hafi komið til þar sem þeir hafi notið trausts innan bankans.

Er A gaf skýrslu við meðferð málsins 15. júní 2011 kvað hann stjórnarsetu ákærða og C ekki hafa tengst störfum þeirra í bankanum á sama tíma. Hafi Landsbankinn ekki verið með boðvald gagnvart ákærða í tengslum við störf fyrir félögin. Er A gaf skýrslu hjá lögreglu 16. janúar 2009 lýsti hann atvikum varðandi félögin þannig að kaup á bréfum LB Holding Ltd. og lántökur þeim tengd hafi verið innan bankans. Ákærði hafi verið framkvæmdastjóri rekstrarsviðs og þetta verið eðlilegur þáttur á hans verksviði að sjá um þetta. Í upphafi hafi C, ásamt ákærða, haft yfirsýn yfir félög sem Landsbanki Íslands hf. hafi átt á Guernsey. C hafi hætt störfum hjá bankanum í lok árs 2002 og eftir það hafi ákærði haft megin umsjón með LB Holding Ltd., NBI Holding Ltd. og The 1886 Trust. Það hafi verið stjórnarmenn frá Landsbanka Íslands hf. í LB Holding Ltd. og NBI Holding Ltd. Aldrei hafi átt að vera neinn peningur í sjálfseignarsjóðnum The 1886 Trust. Í fyrri aðalmeðferð málsins 22. mars 2010 greindi A frá því að svonefndir ,,Trustee“ hafi stýrt sjálfseignarsjóðnum The 1886 Trust sem ákveðið hafi stofnun dótturfélaga. Nefndir ,,Trustee“ hafi síðan veitt ákveðnum mönnum umboð til að fara með stjórnir, stjórnun hlutafélaganna og hafi það komið í hlut ákærða að stýra málefnum NBI Holding Ltd. og LB Holding Ltd. í umboði sjálfseignarsjóðsins. Ákærði hafi verið á rekstrarsviði bankans og hafi það verið eðlilegur hluti af starfi hans hjá Landsbanka Íslands hf. að vera í tengslum við félögin og hafi hann haft umsjón með þeim og það verið hluti af starfssviði hans innan bankans.

A kvaðst vita til þess að frá árinu 2003 hafi NBI Holding Ltd. verð með litla starfsemi. Kvaðst hann muna eftir því að ekki hafi þótt ástæða til að leggja félagið niður. Hafi verið talið að gott gæti verið að hafa tengsl við aðila vegna viðskipta í skamman tíma. Honum hafi verið ljóst að einhverjir fjármunir í eigu NBI Holding Ltd. væru á bankareikningi í eigu félagsins í Landsbankanum og hafi honum ekki komið fjárhæðin á óvart er hún hafi verið borin undir A er mál þetta hafi farið af stað. Hafi ákærði haft formlega heimild sem prókúruhafi fyrir NBI Holding Ltd. að millifæra fé af reikningum félagsins. A kvað svonefnda ,,WaMu“ aðferð hafa verið rædda innan bankans dagana fyrir fall hans.

E fyrrum bankastjóri Landsbanka Íslands hf. kvaðst í starfi sínu sem bankastjóri Landsbankans hafa þekkt til félagsins LB Holding Ltd. á Ermasundseyjunni Guernsey, en ekki til félagsins NBI Holding Ltd. Hafi E upphaflega frétt af félaginu LB Holding Ltd. í tengslum við sameiningaráform Landsbankans  og Búnaðarbanka Íslands. Í þeim viðræðum hafi ákærði gert grein fyrir því að félagið LB Holding Ltd. héldi utan um kaupréttarsamninga starfsmanna Landsbankans. Þá hafi komið fram að sjálfseignarsjóður á eyjunni ætti þetta félag. Hafi E ekki frétt af því fyrr en síðar að sá sjóður bæri nafnið The 1886 Trust. Hafi komið fram að ágóði sem yrði til í þessari starafsemi ætti að renna til Rauðakrossins. E kvaðst aldrei hafa skoðað samþykktir sjálfseignarsjóðsins en sjóðurinn og félögin hafi orðið til fyrir komu hans til bankans. Ekki kvaðst E hafa fengið vitneskju um af hverju ákærði og C hafi verið skráðir í stjórn félaganna. NBI Holding Ltd. hafi aldrei verið hluti af samstæðu Landsbanka Íslands hf. E kvaðst telja að eftirlitskerfi Landsbanka Íslands hf. hefði átt að veita athygli millifærslu fjármuna af þeirri stærð er ákærði hafi látið millifæra fyrir sig 8. október 2008. Myndi hann eftir umræðu um óvissu um innstæður á bankareikningum dagana fyrir og í upphafi hrunsins. Allt hafi verið mjög óljóst og það víðar en hér á landi. Myndi E eftir umræðu um hina svonefndu ,,WaMu“ aðferð í því sambandi. Einhver umræða hafi verið um stöðu útlendinga í sambandi við tryggingar innlána. Ákærði hafi rætt við sig í október 2008 og gert sér grein fyrir því að hann hafi bjargað milljörðum fjármuna í eigu aflandsfélaga við fall bankans. Hafi E talið að ákærði væri í þeim efnum að fjalla um kaupréttarfélögin.  

D, fyrrum bankastjóri Landsbanka Íslands hf., kvaðst hafa starfað sem bankastjóri í Landsbanka Íslands hf. í framhaldi af því að nýi bankinn hafi verið stofnaður 9. október 2008. Sem bankastjóri hefði hún starfað út febrúar 2009. Hafi ákærði greint henni frá því að hann þyrfti að ná tali af henni til að ræða málefni aflandsfélaga. Hafi D á móti spurt ákærða hvort þetta væru ekki málefni sem tengdust fremur gamla bankanum. Dagarnir eftir að hún hafi tekið við sem bankastjóri hafi verið mjög erfiðir og hún mjög umsetin. Hafi dagurinn engan vegin dugað fyrir þau verkefni sem hafi þurft að sinna. Hafi henni verið kunnugt um að ákærði hafi a.m.k einu sinni leitað eftir fundi með henni. Hann hafi verið fremur hægverskur og rólegur að eðlisfari. Kvaðst D telja ólíklegt að eftirlitskerfi bankans hefði ekki veitt athygli þeirri millifærslu er ákærði lét framkvæma fyrir sig 8. október 2008. 

C kvaðst hafa hafið störf í Landsbanka Íslands 1991 sem sérfræðingur í hagdeild sem síðar hafi breyst í fyrirtækjaviðskipti. Á árunum 1995 til 1996 hafi hann orðið forstöðumaður útlánavandamála, en 1998 hafi hann orðið framkvæmdastjóri alþjóða- og fjármálasviðs. Því starfi hafi hann gegnt þar til hann hafi sagt upp störfum í bankanum í nóvember 2002. Að því er varðar starfsemi svonefndra aflandsfélaga hafi afskipti C af þeim málefnum hafist á árinu 1997 er bankastjóri bankans hafi óskað eftir skýrslu frá C um slíka starfsemi. Málið hafi þá fyrst og fremst varðað útlánaþjónustu til dótturfélaga íslenskra fyrirtækja. Skoðunin hafi farið fram með dönskum ráðgjafa sem hafi áður starfað með Landsbankanum. Margar aflandsmiðstöðvar hafi verið skoðaðar, en á endanum hafi verið mælt með Guernsey því þar hafi skilyrðin verið ströngust og eftirlitið virkast því ekki hafi mátt velja stað sem myndi sverta ímynd Landsbankans. Ekkert hafi orðið af starfsemi um útlánaþjónustuna. Málið hafi verið tekið upp aftur á árinu 1998 af þáverandi bankastjóra A. Þá hafi málið verið tekið upp í þeim tilgangi að bjóða sjóði sem hafi verið skráðir í Kauphöllinni á Guernsey en ákveðið félag hafi haldið utan um það. A hafi í upphafi verið stjórnarmaður í þessu félagi en síðan hafi C tekið við seint á árinu 1999. Í aflandsstarfseminni hafi þessi þátturinn snúið að C. Að því er varðar félögin LB Holding Ltd. og NBI Holding Ltd. hafi A og ákærði beðið C um að taka sæti í stjórnum þeirra félaga, LB Holding Ltd. vorið 2000 og NBI Holding Ltd. á árinu 2001. Aljóða- og fjármálasvið bankans hafi sótt um kennitölu fyrir LB Holding Ltd. 23. júní 2000. Aðkoma C að málefnum þessara félaga hafi ekki verið meiri en þetta. Hafi honum fundist dótturfélögin tvö vera dótturfélög sjálfseignarsjóðsins The 1886 Trust. Félögin hafi verið sett á fót af hálfu Landsbankans til að hafa með eignir að gera sem bankinn hafi ekki viljað hafa í efnahagsreikningi bankans til að íþyngja honum ekki. C kvaðst hafa hætt í bankanum í lok árs 2002 og hafi hann um leið sagt stjórnarsetum sínum lausum í félögunum. Kvaðst C telja að ástæða þess að hann hafi verið beðinn um að sitja í stjórnum þessara félaga hafi verið sú að hann hafi þekkt vel til á Guernsey. Lögmannsstofan Legis Trust Ltd. á Guernsey hafi aðstoðað við stofnun sjálfseignarsjóðsins og félaganna tveggja á eyjunni. Hafi lögmannsstofan verið með í ráðum frá upphafi, en bent hafi verið á hana af aðilum sem þekkt hafi til.

M kvaðst hafa haft það hlutverk að vera regluvörður í Landsbanka Íslands hf. en það hlutverk hafi falið í sér að hafa eftirlit með hagsmunaárekstri innan bankans og að bera ábyrgð á aðgerðum gegn peningaþvætti. Í starfi sínu sem regluvörður hafi honum verið kunnugt um félagið LB Holding Ltd. sem hafi verið með aðsetur á Guernsey en félagið hafi verið rekið í tengslum við kaupréttarsamninga starfsmanna bankans. Hafi hann ekki vitað um tilvist félagsins NBI Holding Ltd. Hafi LB Holding Ltd. verið á hluthafalista bankans. Þá hafi hann ekki haft neina vitneskju um sjálfseignarsjóðinn The 1886 Trust. M kvaðst hafa sent starfsmanni Fjármálaeftirlitsins tölvupóst 4. október 2007 er fram kæmi í rannsóknargögnum málsins merkt IB/7.10., en fyrirspurn hafi lotið að fyrirkomulagi kaupréttarsamninga starfsmanna bankans. Tölvupósturinn hafi efnislega verið saminn af skattasérfræðingi bankans á þeim tíma. Hafi svarið lotið að félagi því er annast hafi kaupréttarsamningana. M kvaðst hafa fengið fyrirspurn frá innri endurskoðanda bankans með tölvupósti sem hafi varðað félagið NBI Holding Ltd. Hafi M í framhaldi leitað upplýsinga um félagið innan bankans, svo sem fram komi í póstum í rannsóknargögnum merkt. IA/1.2, 1/3 til 3/3. Er síðasta svar ákærða hafi borist hafi M verið búinn að fá þau fyrirmæli að aðhafast ekkert frekar í málinu. Eftir að mál þetta hafi farið af stað hafi ákærði verið boðaður til fundar af slitastjórn Landsbanka Íslands hf. Á þeim fundi hafi M verið. Ákærða hafi mjög verið brugðið er málið hafi verið borið undir hann. Hafi ákærði gefið þá skýringu að hann hafi ætlað að vernda þessa peninga þar sem hann hafi óttast að ríkið myndi einungis tryggja innstæður innlendra félaga. Hafi hann viljað koma eigninni yfir á íslenska kennitölu. Hafi viðbrögð ákærða ekki verið óeðlileg er hann hafi verið inntur eftir millifærslunum miðað við þann fjölda einstaklinga er mætt hafi honum. Ákærði hafi látið M fá möppu er ákærði hafi látið af störfum í bankanum með gögnum um NBI Holding Ltd. Þau gögn hafi M látið í hendur skilanefndar bankans. Þá gæti M staðfest að ákærði hafi sent sér tölvupóst 2. febrúar 2010 þar sem ákærði hafi vakið athygli á því að ekki væri enn búið að millifæra fjármuni NBI Holding Ltd. út af reikningi ákærða. Fjárhæðin hafi í framhaldi af þessu verið færð út af reikningi ákærða yfir á annan reikning í Landsbanka Íslands hf. Sé fjárhæðin sennilega enn á bókhaldslykli í bankanum. 

H kvaðst hafa verið forstöðumaður innri endurskoðunar Landsbanka Íslands hf. frá árinu 1997. Frá hausti 2001 til miðs árs 2003 hafi H gegnt starfi framkvæmdastjóra upplýsingartæknisviðs. Frá miðju ári 2003 hafi hann aftur orðið forstöðumaður innri endurskoðunardeildar bankans og hafi hann gegnt því starfi fram að falli bankans í október 2008. Þá hafi hann hafið störf í skilanefnd Landsbanka Íslands hf. Skilanefndin hafi sent lögreglu bréf þar sem óskað hafi verið eftir rannsókn á þeim millifærslum er ákærði hafi haft með höndum tengdum félaginu NBI Holding Ltd. Ekki hafi veri um kæru að ræða þar málið hafi ekki legið þannig fyrir á þeim tíma en í samráði við Fjármálaeftirlitið hafi verið ákveðið að senda mál til lögreglu á frumstigi þeirra án þess að mál væru fyllilega rannsökuð. H kvaðst hafa vitað um félagið LB Holding Ltd. með aðsetur á Ermasundseyjunni Guernsey. Hann hafi hins vegar ekki vitað um tilvist félagsins NBI Holding Ltd. Þá hafi hann ekki vitað um tilvist sjálfseignarsjóðsins The 1886 Trust. Í bankanum væri til listi yfir félög sem endurskoðun bankans næði til. Færslur félagsins LB Holding Ltd. hafi komið inn í starf innri endurskoðunar en félögin hafi ekki verið með eiginlega starfsemi og því ekki fallið undir innri endurskoðun. Þá hafi þau ekki verið í beinni eignaraðild bankans. Bankanum hafi tengst mörg félög á erlendri grundu og hafi yfirsýn yfir þau verið hjá bankastjórn og rekstrarstjóra bankans, en því starfi hafi ákærði gegnt. Nafn félagsins NBI Holding Ltd. hafi komið upp í tengslum við mál það sem hér væri til meðferðar. Hafi það tengst vinnu endurskoðunarfyrirtækisins Deloitte fyrir skilanefnd Landsbankans og Fjármálaeftirlitið. Sú rannsókn hafi verið víðfeðm. Neyðarlögin svonefndu hafi verið nýsett að morgni 7. október 2008. Mikil ringulreið hafi þá verið innan bankans og víðar. Upplýsingaflæði hafi verið lítið og lítið af leiðbeiningum að hafa. Þá daga hafi verið ákveðin óvissa um hvaða innstæður yrðu tryggðar. Á þriðja degi eftir gildistöku neyðarlaganna hafi fulltrúar erlendra fyrirtækja komið í bankann og óskað eftir svörum um stöðu mála. Hafi H ekki geta fullyrt hvaða innstæður myndu hafa forgang. Það hafi verið orðið skýrara á fimmtudegi og föstudegi. Töluverð óvissa hafi því verið á miðvikudeginum 8. október 2008. Kvaðst H hafa litið svo á að Landsbanki Íslands hf. ætti þá fjármuni með óbeinum hætti er hefðu verið inni á reikningi NBI Holding Ltd. H kvað ákærða hafa þekkt nokkuð vel eftirlitskerfi innan bankans vegna stöðu sinnar í bankanum. Þó hafi enginn nema innri endurskoðun þekkt eftirlitskerfin til hlítar. Hefði ákærði mátt vita að verulegar lýkur væru á því að millifærslan kæmi upp. Í lögregluskýrslu lýsti H því að þeir fjármunir er millifærðir hefðu verið inn á reikning ákærða hefðu verið færðir inn á reikning Landsbanka Íslands hf. og myndi skilanefnd bankans ekki leggja fram bótakröfu á hendur ákærða þar sem ekkert tjón hefði orðið.

G kvaðst hafa starfað sem sérfræðingur í innri endurskoðun Landsbanka Íslands hf. og þekkt starfsemi bankans vel eftir störf þar í 11 ár. Í bankanum hafi veri búið til ákveðið kerfi í framhaldi af falli bankans í október 2008. Hafi bankinn í samstarfi við endurskoðunarfyrirtækið Deloitte búið til eftirlitskerfi þar sem ákveðnar færslur og hreyfingar voru skoðaðar aftur í tímann vegna mikils fjárstreymis úr bankanum dagana í kringum fall hans. G kvaðst hafa þekkt félagið LB Holding Ltd. þó svo hún hafi ekki skoðað félagið sérstaklega. Þá hafi henni veri kunnugt um sjálfseignarsjóð og kaupréttarsamningana. Hafi hún því vitað um þá uppsetningu er bankinn hafi sett á fót varðandi þá samninga. Ákærði hafi verið framkvæmdastjóri rekstrarsviðs bankans og því þekkt bankann vel. Ákærða hafi því verið það ljóst að millifærslan frá 8. október 2008 kæmi upp í eftirlitskerfi þar sem fjárhæð hennar hafi verið það há, auk þess sem sérstakt gengi hafi þurft þar sem fjárhæðin hafi verið færð úr pundum í íslenskar krónur. Mikið af færslum hafi verið í bankanum á þessum tíma.

N og O kváðust hafa starfað hjá endurskoðunarfyrirtækinu PriceWaterhouseCoopers sem hafi verið ytri endurskoðandi fyrir Landsbanka Íslands hf. Félagið NBI Holding Ltd. hafi ekki verið hluti af samstæðu Landsbanka Íslands hf. og því ekki verið hluti af endurskoðun ytri endurskoðanda. Þeir hafi þó heyrt af því félagi. Dagana 6. og 7. október 2008 hafi N, O og ákærði átt óformlegt spjall saman í bankanum. Þá hafi m.a. verið rædd hin svonefnda ,,WaMu“ aðferð varðandi uppskiptingu banka. Rætt hafi verið um innstæður á bankareikningum og tryggingu þeirra m.t.t. neyðarlaganna svokölluðu. Þar hafi komið fram að óvissa væri um þessi atriði og hvort skipti máli hvort um væri að ræða íslendinga og íslensk fyrirtæki eða útlendinga og útlensk fyrirtæki. Hafi ákærði m.a. haft á orði að endurskoðunarfyrirtækið þyrfti að huga að sínum erlendu viðskiptavinum að þessu leyti til.  

K kvaðst hafa verið ráðinn sem forstöðumaður fjárstýringar, deildar innan verðbréfasviðs Landsbanka Íslands hf. á árinu 2003. Hafi K þekkt til aflandsfélaga í tengslum við Landsbanka Íslands hf. vegna kaupréttarsamninga starfsmanna Landsbankans. Félögin hafi ekki verið í eigu bankans. Í skýrslu hjá lögreglu gerði K grein fyrir því að LB Holding Ltd. hafi haldið á hlutabréfum í Landsbanka Íslands hf. og hafi haft þann tilgang að verja kaupréttarsamninga við starfsmenn bankans. Hafi K framkvæmt vaxtaútreikninga og gert grein fyrir veðstöðu LB Holding Ltd. í nokkrum skiptum m.a. þegar félagið hafi sótt um fjármögnun. LB Holding Ltd. hafi keypt bréf í bankanum og tekið lán til þess að kaupa bréfin. Bankastjórn bankans hafi tekið ákvörðun um kaup á bréfunum en verðbréfamiðlunardeild bankans séð um framkvæmdina. Bankastjórnin hafi beðið K um að framkvæma útreikningana á vaxtagreiðslum af lánum og veðstöðu félagsins til að finna út hve mikið eigið fé hafi verið hjá félaginu. Þeir fjármunir sem orðið hafi til inni á reikningum LB Holding Ltd. hafi getað verið arðgreiðsla, lán sem félagið hafi tekið til að kaupa bréf í bankanum eða vaxtagreiðslur sem bankinn hafi greitt ársfjórðungslega inn á reikning LB Holding Ltd. Þessar vaxtagreiðslur hafi verið hugsaðar til að mæta kostnaði LB Holding Ltd. vegna lántöku. Í einhverjum tilvikum hafi K að beiðni ákærða reiknað út vaxtagreiðslur. 

F kvaðst hafa hafið störf í útibúi Landsbanka Íslands hf. á [...] í Reykjavík á árinu 1980. Í október 2001 hafi hann farið til starfa í útibú bankans í [...] og verið útibússtjóri þar undir [...]. Vorið 2007 hafi hann farið til starfa í [...] þar sem hann hafi starfað sem sérfræðingur í einstaklingsviðskiptum. F kvaðst hafa þekkt ákærða frá því F hafi starfað í útibúi bankans á [...]. Hafi hann verið tengiliður ákærða síðan þá. Hafi hann annast á bilinu eina til tvær millifærslur eða afborganir fyrir ákærða á ári. Hafi ákærði haldið áfram að biðja F um þjónustu þó svo F hafi færst á milli útibúa. F kvað ákærða hafa hringt í sig og beðið um millifærslu út af reikningi NBI Holding Ltd. 8. október 2008 inn á eigin reikning ákærða. Hafi F tjáð ákærða að hann myndi taka beiðnina niður og senda á V starfsmann bankans í [...]útibúi. Sama dag kl. 10.59 hafi F sent V tölvubréf og beðið um millifærsluna. Póstinn hafi F sent á V skömmu eftir símtalið frá ákærða. Ákærði hafi aftur hringt 9. október 2008 og beðið um að fjárhæðin yrði millifærð af reikningi ákærða yfir á annan reikning í eigu ákærða. Ekkert hafi verið inni á þeim reikningi og hann því á núlli. Ekki hafi ákærði gefið skýringu á því hvers vegna hann hafi óskað eftir millifærslunni. Af millifærslunum hafi a.m.k fjórir starfsmenn bankans vitað.

R kvaðst hafa verið starfsmaður Landsbanka Íslands hf. í október 2008 og gegnt starfi forstöðumanns á skrifstofu bankastjórnar. Eftir að D hafi hafið störf sem bankastjóri hafi aðgengi að henni verið mjög erfitt. Allt hafi verið á hvolfi og margir að reyna að ná af henni. Kvaðst R muna eftir því að í tvígang hafi ákærði án árangurs reynt að ná af henni um þetta leyti. Ekki hafi R verið ljóst fundarefnið.

T kvaðst hafa starfað sem lögfræðingur hjá Landsbanka Íslands hf. Hafi hann hafið störf á lögfræðisviði, en hann hafi fært sig yfir á einkabankasvið á árinu 2004 og starfað þar fram til í október 2008. Á árinu 2005 hafi T unnið á eignastýringasviði á sviði einkabankaþjónustu þar sem hann hafi unnið að skattamálum og ráðgjöf því tengdu. Hafi T vitað af félaginu LB Holding Ltd. og að sjálfseignarsjóður ætti félagið. Hafi hann ekki vitað af félaginu NBI Holding Ltd. fyrr en eftir hrun. Hafi T vitað af þeim ,,strúktúr“ sem hafi verið í kringum sjálfseignarfélagið og LB Holding Ltd. í tengslum við kauprétt starfsmanna. Hafi hann skilið það svo að rétthafi sjálfseignarsjóðsins væru góðgerðarsamtök. T kvaðst hafa sent ákærða tölvupóst 3. nóvember 2008 er fram kæmi á dskj. nr. 182. Í október það ár hafi innan bankans átt sér stað umræða um kaupréttarfélögin. Hafi T talið að enginn starfsmaður bankans utan ákærði sæti í stjórnum félaga tengdum kaupréttum. Hafi T þótt rétt að vekja athygli ákærða á ábyrgð hans lögum samkvæmt sem stjórnarmanns í félagi. Hafi T tekið þetta upp hjá sjálfum sér en ákærða hafi hann þekkt. Í skýrslutöku hjá lögreglu lýsti T því að Landsbanki Íslands hf. hafi greitt ákveðið gjald til LB Holding Ltd. þegar kaupréttarsamningar starfsmanna hafi orðið virkir. Gjaldið hafi átt að endurspegla fjármagnskostnað af lánum LB Holding Ltd. Gjaldið hafi átt að greiða einu sinni á ári og hafi ákærði séð um að greiða gjaldið. Hafi T talið hugsunina þá að ekki ættu að verða til neinir fjármunir inni á reikningi LB Holding Ltd.

L kvaðst hafa verið starfsmaður skilanefndar Landsbanka Íslands hf. frá stofnun skilanefndar þar til í júlí 2010. Ákærði hafi afhent skilanefndinni lista yfir þjónustusamninga er hafi veri skuldbindandi fyrir bankann. Í framhaldi þessa hafi verið óskað eftir því að ákærði myndi afhenda umræddan lista rafrænt. Á þessum lista hafi nafn félagsins NBI Holding Ltd. komið fram. Skilanefndinni hafi borist bréf verjanda ákærða frá 8. apríl 2011. Efni bréfsins hafi verið rætt og því síðar svarað þannig að ekki yrði brugðist við þeirri beiðni er þar hafi komið fram.     

Z kvaðst hafa verið framkvæmdastjóri einstaklingsbankaþjónustu Landsbanka Íslands hf. á árinu 2008. Á árinu 2004 hafi verið komið á fót eftirlitskerfi með innlánum í bankann. Á þeim grundvelli hafi allar færslur í bankanum sem hafi verið af fjárhæðinni 20 milljónir króna og meira verið skoðaðar. Þetta kerfi hafi verið vel kynnt innan bankans en það hafi m.a. haft það að markmiði að upplýsa um nýja aðila sem væri að hefja viðskipti við bankann. Millifærsla sú er framkvæmd hafi verið 8. október 2008 og mál þetta snérist um hefði komið fram í kerfinu. Ákærði hafi örugglega þekkt þetta eftirlitskerfi. Í vikunni 6. til 10. október 2008 hafi Z setið á fundi í Landssambandi lífeyrissjóða. Þar hafi m.a. verið rætt um að færa eignir lífeyrissjóða heim til Íslands. Þá hafi borið á umræðu hjá fundarmönnum um að íslenskir bankar væru ekki öruggir. Á þessum tíma hafi viðskiptavinir bankans verið ákaflega óöruggir. Margar sögur hafi verið í gangi, m.a. um að útlendingar væru í hættu með innstæður sínar.

J kvaðst hafa starfað sem framkvæmdastjóri á eignastýringasviði Landsbanka Íslands hf. Kvaðst J hafa vitað að sjálfseignarsjóður væri eigandi að félaginu NBI Holding Ltd. Ekki hafi hann þekkt samþykktir sjálfseignarsjóðsins en hann hafi þó vitað að Landsbanki Íslands hf. væri ekki eigandi sjóðsins. Hafi J heyrt af því að góðgerðarsamtök væru rétthafar að sjóðnum. Landsbanki Íslands hf. hafi á sínum tíma átt eignarhlut í Vátryggingarfélagi Íslands hf. Hafi bankinn selt hluta bréfa sinna í tryggingarfélaginu er það hafi verið skráð á markað. Hafi bréfin farið inn í NBI Holding Ltd.

Þ kvaðst hafa verið svonefndur póstmeistari Landsbanka Íslands hf. Hafi hann í starfi sínu séð um þær framkvæmdir við tölvupóstkerfi starfsmanna bankans er snéri að notendum kerfisins. Hafi hann t.a.m. borið ábyrgð á því að póstólfum starfsmanna hafi verið settar skorður varðandi stærð. Á árinu 2001 hafi póstkerfið verið svonefnt ,,ms mail“ kerfi en á því ári hafi verið farið yfir í svonefnd ,,exchange“ kerfi. Stærðarmörk miðað við 25 ,,megabite“ hafi verið sett á hvern notanda. Þeir sem farið hafi yfir þau mörk hafi ekki getað sent frá sér tölvupóst. Eftir að bankinn hafi verið hlutafélagavæddur hafi E bankastjóri beitt sér fyrir því að póstkerfi starfsmanna hafi verið stækkuð verulega. Fyrir þann tíma hafi Þ reglulega sent starfsmönnum póst og bent þeim á að eyða úr pósthólfum sínum. Starfsmönnum hafi verið bent á að geyma póst á svokölluðum ,,pc“ skrám. Ákærði hafi fyllt pósthólf sitt og óskað því að gögn sín yrðu færð yfir á ,,pc“ skrár. Hafi Þ reglulega annast það fyrir ákærða. Þrátt fyrir að Þ hafi sýnt ákærða hvernig þetta væri framkvæmt hefði ákærði viljað að Þ gerði þetta fyrir sig í hvert sinn. Hafi Þ verið kunnugt um að ákærði gerði þær kröfur til sinna undirmanna að þeir mættu ekki eyða neinum tölvupósti.

Berglind Kristinsdóttir lögreglufulltrúi staðfesti þátt sinn í rannsókn málsins og gerði grein fyrir einstökum atriðum í framvindu hennar. Fram kom að þrátt fyrir að lögreglu hafi verið kunnugt um stjórnarsetu P í NBI Holding Ltd. hafi ekki verið haft samband við hann vegna málsins. Hafi ekki verið haft samband við aðra úr stjórn félagsins en ákærða. Ekki hafi heldur verið haft samband við eiganda hlutafélagsins. Ekki kvaðst Berglind þekkja hlutafélögin First Overlap Ltd. eða Second Overlap Ltd. að öðru leyti en því að þau hafi komið fram í rannsóknargögnum málsins á skjali merkt IB/3.2, 21/21. Við rannsókn málsins hafi verið litið svo á að félögin LB Holding Ltd. og NBI Holding Ltd. væru í eigu sjálfseignarsjóðsins The 1886 Trust. Ekki hafi undir rannsókn málsins verið haft samband við lögmannsstofuna Legis Trust Ltd. á Guernsey. 

Niðurstaða:  

Mál þetta er höfðað með ákæru ríkislögreglustjóra 19. nóvember 2009 þar sem ákærða er gefinn að sök fjárdráttur með því að hafa í starfi sínu sem framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Landsbanka Íslands hf. dregið sér 118.544.950 krónur, andvirði GBP 712.323,94. Í ákæru er atvikum lýst þannig að ákærði hafi látið millifæra fjárhæðina af innlendum gjaldeyrisreikningi nr. [...]-[...]-[...]62 í eigu NBI Holding Ltd., félags á vegum bankans sem ákærði í tengslum við starf sitt sem stjórnarmaður og hafði prókúru fyrir, yfir á eigin bankareikning nr. [...]-[...]-[...]21, en daginn eftir hafi ákærði látið millifæra sömu fjárhæð yfir á bankareikning nr. [...]-[...]-[...]83, einnig í hans eigu. Í ákæru er þessi háttsemi talin varða við 1. mgr. 247. gr. laga nr. 19/1940.

Rannsókn og meðferð málsins fyrir dómi hefur að talsverðu leyti beinst að því að leiða í ljós stöðu sjálfseignarsjóðsins The 1886 Trust, sem er með skráð aðsetur á Ermasundseyjunni Guernsey, og hlutafélaganna NBI Holding Ltd. og LB Holding Ltd. sem skráð eru á sama stað. Hefur meðferðin m.a. lotið að því að upplýsa um eignarhald á hlutafélögunum, sjálfstæði sjálfseignarsjóðsins og tengsl þessara lögaðila við Landsbanka Íslands hf. Þá hefur meðferðin beinst að því að leiða í ljós hvort NBI Holding Ltd. hafi verið félag á vegum Landsbankans, svo sem atvikum er lýst í ákæru, og hvort ákærði hafi verið stjórnarmaður í NBI Holding Ltd. og haft prókúru fyrir félagið í tengslum við starf sitt sem framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Landsbankans.

Meðal þeirra vitna sem gefið hafa skýrslu fyrir dómi var A, fyrrverandi bankastjóri Landsbanka Íslands hf. Lýsti hann atvikum svo að á árunum í kringum 2000 hafi bankinn leitað fyrir sér með stofnun svonefndra aflandsfélaga í tengslum við tiltekna starfsemi Landsbanka Íslands hf. Ákveðið hafi verið að koma slíkri starfsemi á fót á Guernsey. Kvaðst A hafa farið utan til að líta á aðstæður. Lögmannsstofan Legist Trust Ltd., með aðsetur á Guernsey, hafi annast verkefnið fyrir bankann og hann gengið inn í staðlað umhverfi í stofnun sjóðsins og hlutafélaganna. Hafi A undirritað stofnsamning fyrir sjálfeignarsjóðinn The 1886 Trust og skjöl til að koma á fót hlutafélögunum NBI Holding Ltd. og LB Holding Ltd. Hlutafélögin hafi verið dótturfélög sjálfseignarsjóðsins. LB Holding Ltd. hafi verið stofnað til að halda utan um kaupréttarsamninga starfsmanna Landsbankans en hlutafélagið NBI Holding Ltd. til að halda utan um hlutabréf í skamman tíma. Um hafi verið að ræða hlutabréf í Kaupþingi hf., Vátryggingarfélagi Íslands hf. og Decode. Hafi eignarhluturinn í Vátryggingarfélagi Íslands hf. verið íþyngjandi fyrir eigið fé Landsbanka Íslands hf. Við stofnun sjálfseignarsjóða væri skilið á milli þess aðila er kæmi sjóðnum á fót með sjóðsframlagi og sjóðsins sjálfs. Er A gaf skýrslu hjá lögreglu vegna málsins 16. janúar 2009 lýsti hann því að aldrei hafi átt að vera neinir fjármunir í sjálfseignarsjóðnum. Við aðalmeðferð málsins 22. mars 2010 lýsti A því að komið hafi í hlut ákærða að stýra málefnum NBI Holding Ltd. og LB Holding Ltd. í umboði sjálfseignarsjóðsins. Ákærði hafi verið á rekstrarsviði bankans og hafi það verið eðlilegur hluti af starfi hans hjá Landsbanka Íslands hf. að vera í tengslum við félögin og hafi hann haft umsjón með þeim og það verið hluti af starfssviði hans innan bankans. Við meðferð málsins fyrir dómi 15. júní 2011 lýsti A því hins vegar þannig að stjórnarseta ákærða í félögunum hafi ekki tengst störfum hans í bankanum og bankinn ekki verið með boðvald gagnvart honum í tengslum við störf fyrir félögin tvö. A kvaðst telja að alþjóðlegi Rauðikrossinn hafi átt að vera rétthafi að sjálfseignarsjóðnum þó svo Landsbankinn og Landsbréf Íslands hf. hafi verið skráðir rétthafar í upphafi. Ekki þekkti hann til félaganna First Overlap Ltd. og Second Overlap Ltd. þó svo þau væru skráð sem hluthafar í NBI Holding Ltd. samkvæmt stofnskjölum félagsins og hluthafaskrá á Guernsey.

Á meðal gagna málsins er tölvubréf M regluvarðar Landsbanka Íslands hf. 4. október 2007 til Fjármálaeftirlitsins, sem svar við fyrirspurn  um hverjir væru „raunverulega eigendur sjálfseignarfélaganna LB Holding Ltd. (stofnað árið 2000) ...“ og fleiri, sem talin voru upp. Í svari regluvarðar kemur fram að umrædd félög séu í eigu sjálfseignarfélaga, nefnd ,,Trust“, sem séu raunverulega í eigu alþjóða líknarfélaga. Gera verði skýran greinarmun á ,,Trust“ og þeim félögum sem keypt hafi bréf í Landsbankanum. Stofnaðir hafi verið sjálfseignarsjóðir en það séu sjóðir sem eigi sig sjálfir. Þessum sjóðum sé stjórnað af svonefndum ,,Trustee“ og séu ávallt sjónarmið rétthafa eða svonefndra ,,beneficiary“ höfð að leiðarljósi. ,,Trustee“ stjórni því ,,Trust“ með þann tilgang að leiðarljósi að tryggja að markmið sjóðs náist, þ.e. að geta staðið við samninga um að selja hlutabréf í eigu félaganna á tilteknu verði á fyrirfram ákveðnum tíma. Fram kemur að rétt sé að leggja ríka áherslu á að ,,Trust“ lagahefð sé löng og rík í engilsaxneskum rétti. Landsbankinn hafi gert kaupréttarsamninga við lykilstarfsmenn sína og til að tryggja efndir á þessum samningum hafi Landsbankinn gert samning við félög í eigu umræddra sjálfseignarsjóða. Af hálfu Landsbankans sé því um að ræða baktryggingu vegna kaupréttarsamninga. Hvorki ,,Trust“ né viðkomandi félög muni í raun skila hagnaði enda hafi félögin gert skuldbindandi samninga um að selja Landsbankanum hlutabréf á ákveðnu verði á fyrirfram umsömdum tíma. Það hafi tíðkast í slíkum sjóðum að telja líknarfélög sem rétthafa eða ,,beneficial owners“ að slíkum félögum en vegna þess að ekki muni koma til þess að sjóðir eða félög skili hagnaði muni fjármunir ekki renna til líknarfélaga. Segja megi að rétthafar eða ,,beneficiary“ séu starfsmenn Landsbankans sem gert hafi kaupréttarsamninga við bankann. Þeir séu það hins vegar ekki enda skipti það starfsmenn ekki máli hvernig eða með hvaða hætti Landsbankinn tryggi sig gagnvart efndum á samningum þeim til handa. Stjórnandi ,,Trustee“ gæti hins vegar ekki tekið ákvörðun sem stangist á við tilgang og markmið sjóðsins og félaga í hans eigu. Þetta fyrirkomulag hafi þá þýðingu að Landsbankinn hafi tryggt efndir vegna kaupréttarsamninga við starfsmenn án þess að bera markaðsáhættu bréfanna.

Á meðal gagna málsins er bréf ákærða frá 18. maí 2001 til Q sem skráður er hjá Legis Trust Ltd. í St Peter Port á Guernsey. Efni bréfsins varðar sjálfseignarsjóðinn og félögin tvö. Fram kemur að félagið LB Holding Ltd, sem starfrækt sé undir sjálfseignarsjóðnum The 1886 Trust, sé aflandsfélag sem hafi verið stofnað til að halda utan um hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. Félagið NBI Holding Ltd. verði notað til að halda utan um bréf sem Landsbanki Íslands hf. eigi í öðrum félögum en bankinn vilji ekki að komi fram í efnahagsreikningi bankans.

A bankastjóri hefur ritað minnisblað til bankaráðs Landsbanka Íslands hf. 26. júní 2000. Í minnisblaðinu kemur m.a. fram að bankaráð hafi samþykkt á fundi 16. júní 2000 stofnun The 1886 Trust á Guernsey sem sé uppleysanlegur sjálfseignarsjóður. Til að annast fjármálaumsýslu fyrir sjóðinn hafi verið stofnað fyrirtækið LB Holding Ltd. á Guernsey. Sé gerð tillaga um að bankastjóra verði heimilað að selja LB Holding Ltd. hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. fyrir allt að 700 milljónir króna m.v. markaðsgengi á söludegi og hlutabréf bankans í Decode. Þá sé óskað eftir heimild til að selja öll víkjandi skuldabréf sem bankinn eigi í öðrum lánastofnunum. Bankinn muni hafa milligöngu um fjármögnun LB Holding Ltd. á kaupunum. Til að byrja með geti verið um lán frá bankanum að ræða en í framhaldinu komi til greina að LB Holding Ltd. tryggi aðra fjármögnun. Á dskj. nr. 40 og 41 er afrit af kaupsamningum. Er þar fyrst til að telja kaup Landsbanka Íslands hf. á hlutafé í Vátryggingarfélagi Íslands hf. og síðan á hlutafé í Líftryggingarfélagi Íslands hf. Er bankanum veitt heimild til að ráðstafa hlutum í Vátryggingarfélagi Íslands hf. með samningi til NBI Holding Ltd. Fram kemur að það félag sé eignarhaldsfélag undir stjórn Landsbanka Íslands hf.

Á meðal gagna málsins er afrit af bréfi PricewaterhouseCoopers til Landsbanka Íslands hf. frá 28. febrúar 2002 vegna endurskoðunar á ársreikningi Landsbanka Íslands hf. fyrir árið 2001. Bréfið ber yfirskriftina afskriftarreikningur útlána. Er þar m.a. vikið að lánum til LB Holding Ltd. Hefur Landsbanki Íslands hf. ritað endurskoðunarfyrirtækinu bréf 3. mars 2002. Í því er m.a. vikið að lánum til LB Holding Ltd. og lýst hvernig það félag hafi verið stofnað á Guernsey til að halda utan um hlutabréfkaup í Landsbankanum í tengslum við kaupréttarsamninga starfsmanna bankans. Með því móti væri eignarhald á félaginu ekki hjá bankanum sjálfum. Í niðurlagi er því lýst að þó LB Holding Ltd. sé ekki í eigu bankans hafi tveir fulltrúar úr yfirstjórn bankans setið í stjórn félagsins og gætt þess að LB Holding Ltd. ætti ekki í öðrum viðskiptum en með eignarhald á hlutabréfum án vitneskju bankans. Í gögnum málsins kemur fram að á árinu 2002 hafi LB Holding Ltd. verið þriðji stærsti hluthafinn í Landsbanka Íslands hf.

Samkvæmt framansögðu fóru hlutafélögin NBI Holding Ltd. og LB Holding Ltd. með mikla fjárhagslega hagsmuni tengda Landsbanka Íslands hf. Með stofnun þeirra og sjálfseignarsjóðsins var ætlunin að slíta á formleg tengsl við Landsbankann þar sem félögin fóru með eignir bankans er þóttu íþyngja um of efnahagsreikningi Landsbankans. Félagið NBI Holding Ltd. átti um hríð stóran eignarhlut í Vátryggingarfélagsi Íslands hf., auk þess að fara með stóran eignarhlut í Kaupþingi hf. og eignarhlut í Decode. Um tíma var LB Holding Ltd. þriðji stærsti hluthafinn í Landsbanka Íslands hf. Fram er komið að Landsbankinn lánaði félögum þessum fyrir kaupum á eignum félaganna. Var hvorki þeim né sjálfseignarsjóðnum ætlað að skila hagnaði. Gögn málsins leiða í ljós að fjármunir hafi runnið á milli innlánsreikninga þessara félaga. Þó svo Landsbankinn hafi tryggt sig gagnvart kaupréttarsamningum þeim er fóru í gegnum LB Holding Ltd. með sérstökum samningum við félagið væri fjarstæðukennt að ætla að stjórnendur Landsbankans hefðu látið frá sér ákvörðunarvald um þá gríðarmiklu hagsmuni er félög þessi áttu. Kemur enda fram í minnisblaði bankastjóra frá 26. júní 2000 að félagið NBI Holding Ltd. sé undir stjórn Landsbankans. Af þessu og að öðru því er að framan var rakið verður því slegið föstu hver tengsl hafi verið á milli Landsbanka Íslands hf. við sjálfseignarsjóðinn og hlutafélögin tvö á Guernsey. Enginn vafi getur leikið á því að bankinn hafði í raun fulla stjórn á félögunum hvað sem leið því lagalega umhverfi sem þeim var búið í erlendri lögsögu. Verður lagt til grundvallar að sú lýsing á atvikum sem fram kemur í ákæru sé rétt að NBI Holding Ltd. hafi verið félag á vegum Landsbanka Íslands hf. Ákærði var starfsmaður bankans og verður að líta svo á að sú staðreynd hafi legið að baki því að honum var falin stjórn á málefnum NBI Holding Ltd. sem bankinn réði í raun yfir. Framburður A hér fyrir dómi 15. júní 2011 breytir ekki þessari niðurstöðu, en sá framburður hans gengur þvert gegn gögnum málsins og því er A hefur áður haldið fram við rannsókn og fyrri meðferð málsins fyrir dómi. Þá hafa bæði A fyrrum bankastjóri og M regluvörður lýst því að ekki hafi verið ætlunin að sjálfseignarsjóðurinn eða hlutafélögin tvö myndu skila neinum hagnaði. Þóknun til þeirra hafi átt að standa undir útgjöldum er félögin myndu hafa í starfsemi sinni. Fyrir liggur að er millifærsla fjármunanna átti sér stað 8. og 9. október 2008 hafði a.m.k. frá árinu 2005 engin eiginleg starfsemi verið í hlutafélaginu NBI Holding Ltd. eða færslur á reikningi aðrar en greiðsla fjármagnstekjuskatts og innborgun vaxta. Hafði innstæða á reikningi félagsins vaxið jafnt og þétt á þessum tíma. Af þessu og öðru því er fram er komið verður dregin sú ályktun að raunverulegur ráðstöfunaraðili þeirra fjármuna er voru inni á gjaldeyrisreikningi nr. 0114-38-200162 var Landsbanki Íslands hf.

Svo sem áður var rakið er brot ákærða talið varða við 1. mgr. 247. gr. laga nr. 19/1940. Fjárdráttur hefur verið skilgreindur sem einhliða og ólögmæt tileinkun sérgreindra fjárverðmæta eða peninga, sem séu eign annars manns eða lögaðila að nokkru eða öllu leyti, en í vörslum hins brotlega sjálfs, enda sé tileinkun verðmætanna af ásetningi og í auðgunarskyni gerð. Helstu sérkenni fjárdráttar samkvæmt þessu eru þau að brotið felst í ólögmætri tileinkun á fjárverðmætum annarra sem hinn brotlegi hefur sjálfur í vörslum sínum.   

Málsvörn ákærða lýtur m.a. að því að tileinkun hafi skort af hans hálfu til fjármunanna. Ber hann því við að hann hafi millifært fjármuni hlutafélagsins NBI Holding Ltd. af gjaldeyrisreikningi í eigu félagsins í Landsbanka Íslands hf. og yfir á eigin reikning 8. október 2008 þar sem hann hafi óttast mjög að fjármunir félagsins myndu ,,brenna upp“ við fall bankanna. Dagana fyrir setningu hinna svonefndu neyðarlaga og næstu þar á eftir hafi verið rætt um að vafi væri á því að innstæður erlendra fyrirtækja hér á landi myndu njóta tryggingaverndar samkvæmt lögum um innstæðutryggingar. Hafi yfirlýsing ríkisstjórnar Íslands ekki breytt því að ástæða hafi verið til að efast um að innstæður erlendra fyrirtækja væru tryggðar, en yfirlýsingin hafi verið orðuð með þeim hætti, auk þess sem réttmætt hafi verið að efast um getu tryggingarsjóðsins og íslenska ríkisins til að efna þá yfirlýsingu að vernda allar innstæður í íslenskum bönkum hér á landi. Hafi hann ekki talið aðstæður enn það tryggar er rannsókn málsins hafi farið af stað að hann hafi séð ástæðu til að færa fjárhæðina aftur inn á reikning í eigu félagsins.

Að því er þessa málsvörn ákærða varðar liggur fyrir og er viðurkennt af hálfu ákærða að Landsbanka Íslands hf. hafi aðfaranótt 6. október 2008 borist tölvubréf frá aðstoðarmanni forsætisráðherra með yfirlýsingu ríkisstjórnar Íslands um tryggingar á innstæðum í bönkum. Þeirri yfirlýsingu hafi ákærði komið áfram innan bankans að morgni 6. október. Yfirlýsing ríkisstjórnar Íslands um tryggingar innstæðna frá 5. október 2008  liggur fyrir í gögnum málsins og er þannig: ,,Ríkisstjórn Íslands áréttar að innstæður í innlendum viðskiptabönkum, sparisjóðum og útibúum þeirra hér á landi verða tryggðar að fullu. Með innstæðum er átt við allar innstæður almennra sparifjáreigenda og fyrirtækja sem trygging innstæðudeildar Tryggingasjóðs innstæðueigenda tekur til.“  Þá liggur fyrir að hin svokölluðu neyðarlög, eða lög um heimild til fjárveitinga úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., nr. 125/2008, voru sett 6. október 2008. Skipaði Fjármálaeftirlitið Landsbanka Íslands hf. skilanefnd 7. október 2008 og fól henni m.a. að vinna að því að tryggja áframhaldandi viðskiptastarfsemi Landsbanka Íslands hf. hér á landi. Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008 var eignum og skuldum Landsbanka Íslands hf. ráðstafað til Nýja Landsbanka Íslands hf.

Í málinu liggur fyrir að ákærði var boðaður á fund skilanefndar Landsbanka Íslands hf. 25. eða 26. nóvember 2008 þar sem leitað var skýringa hans á millifærslu þeirra fjármuna er sakarefni máls þessa snýst um. Hafði ákærði þá enn ekki gert reka að því að millifæra fjármunina aftur inn á reikning í eigu NBI Holding Ltd., þó svo fyrir lægi yfirlýsing ríkisstjórnar Íslands um tryggingar á innstæðum í innlendum viðskiptabönkum, að lög nr. 125/2008 höfðu öðlast gildi og að á grundvelli þeirra laga hafi Fjármálaeftirlitið skipað Landsbankanum skilanefnd og ráðstafað eignum hans og skuldum til Nýja Landsbanka Íslands hf. Þó svo ákærði kunni dagana 6. til 9. október 2008 að hafa haft réttmæta ástæðu til að efast um tryggingavernd innstæðna í útibúum bankans eftir þjóðerni reikningseiganda gat honum ekki dulist að varðveisla fjármuna hins erlenda félags á vegum Landsbanka Íslands hf. inni á eigin reikningi var til þess fallin að varpa grundsemdum á tilefni varðveislunnar.

Ákærði ber því einnig við í málsvörn sinni að hann hafi ekki viðhaft leynd er hann hafi millifært fjármunina 8. og 9. október 2008 af gjaldeyrisreikningi í eigu NBI Holding Ltd. og yfir á eigin reikning. Ekki færri en fimm einstaklingar innan bankans hafi vitað um millifærsluna. Að því er þessa málsvörn ákærða varðar er til þess að líta að leynd er ekki hugtaksatriði fjárdráttar, þó svo hún einkenni iðulega slíka brotastarfsemi. Leynd getur skipt máli sem sannindamerki um tileinkun og tileinkunarásetning. Ákærði fór þess á leit við samstarfsmann sinn F 8. október 2008 að F annaðist millifærslu ríflega 118.000.000 króna af reikningi NBI Holding Ltd. inn á persónulegan reikning ákærða. Fór hann þess á leit við F næsta dag að fjárhæðin yrði millifærð af reikningi ákærða inn á annan reikning í eigu ákærða. F gaf skýrslu við rannsókn og meðferð málsins fyrir dómi. Fram kom að ákærði hafi ekki gefið skýringar á umræddum millifærslum. Þó svo ákærði hafi ekki leynt millifærslunni sem slíkri upplýsti hann hins vegar engan um ástæður millifærslunnar. Fyllsta ástæða var til þess fyrir ákærða að upplýsa bankastjóra Landsbanka Íslands hf. um ráðstöfun fjármunanna í ljósi þess að bankinn var raunverulegur ráðstöfunaraðili þeirra. Tilraunir ákærða í þá veruna eftir að D var orðinn bankastjóri voru ekki sannfærandi og átti hann þess kost að koma til hennar upplýsingum um þetta efni eftir öðrum leiðum en að hitta hana á fundi.

Svo sem áður er rakið lét ákærði millifæra fjármuni í eigu hlutafélagsins NBI Holding Ltd. inn á persónulegan reikning sinn 8. október 2008 og aftur næsta dag yfir á annan reikning í sinni eigu. Ákærði var ekki eigandi þessara fjármuna þó svo hann hafi verið stjórnarmaður í félaginu og haft prókúru fyrir það. Voru þeir í reynd til ráðstöfunar fyrir Landsbankann. Þegar litið er til þess í fyrsta lagi að ákærði upplýsti bankastjóra Landsbankans á engum tíma um að hann hefði millifært fjármuni af reikningi NBI Holding Ltd. yfir á eigin reikning sem fyllst ástæða var fyrir hann að gera, í öðru lagi að engin ástæða var til fyrir ákærða að láta fjármunina vera áfram inni á eigin reikningi eftir að eignir og skuldir Landsbankans höfðu verið fluttar yfir í Nýja Landsbanka Íslands hf., í þriðja lagi að með því að varðveita fjármunina inni á eigin reikningi svipti ákærði félagið sem slíkt og Landsbankann yfirráðum yfir fjármununum og loks í fjórða lagi að ákærði hafði ekkert aðhafst í þeim tilgangi að millifæra fjármunina aftur yfir á reikning í nafni hlutafélagsins er skilanefnd bankans leitaði skýringa ákærða á millifærslunni um 7 vikum síðar telur dómurinn hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi þegar þar var komið með þessari háttsemi sinni tileinkaði sér á ólögmætan hátt í auðgunarskyni og af ásetningi fjárverðmæti sem fólust í innstæðu á innlánsreikningi er hann hafði í sínum vörslum en annar aðili var eigandi að. Með því hefur ákærði gerst sekur um fjárdrátt samkvæmt ákæru, en innstæða á bankareikningi getur verið andlag fjárdráttar, samanber dóma Hæstaréttar Íslands í málum nr. 532/2005 og nr. 406/2009. Er háttsemin réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

Ákærði er fæddur í ágúst 1960. Hefur hann ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi svo kunnugt sé. Er refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 2 ár.

Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 325/2010 er tekið fram að ákvörðun sakarkostnaðar í héraði bíði nýs efnisdóms. Við meðferð málsins hér fyrir dómi var upplýst að þegar hafi verið greidd málsvarnarlaun til skipaðs verjanda samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 21. apríl 2010. Voru málsvarnarlaun verjanda ákærða þá að viðbættum virðisaukaskatti ákvörðuð 4.000.000 krónur. Í ákvörðun réttarins nú verður miðað við að ákvarða skipuðum verjanda málsvarnarlaun miðað við alla meðferð málsins fyrir héraðsdómi allt frá þingfestingu málsins 16. desember 2009. Í samræmi við það greiði ákærði málsvarnarlaun skipaðs verjanda, svo sem í dómsorði greinir. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Ekki hefur annan sakarkostnað leitt af málinu.

Af hálfu ákæruvalds flutti mál þetta Valtýr Sigurðsson hæstaréttarlögmaður.

Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp dóminn.

D ó m s o r ð:

Ákærði, X, sæti fangelsi í 2 ár. 

Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Gests Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 4.518.000 krónur.