Hæstiréttur íslands

Mál nr. 593/2015

K (Oddgeir Einarsson lögmaður)
gegn
M (Valborg Þ. Snævarr hrl.)

Lykilorð

  • Börn
  • Forsjá


                                     

Fimmtudaginn 21. janúar 2016.

Nr. 593/2015.

K

(Oddgeir Einarsson hrl.)

gegn

M

(Valborg Þ. Snævarr hrl.)

Börn. Forsjá.

K og M deildu um forsjá tveggja barna þeirra og lögheimili. Hafði forsjá barnanna verið sameiginleg en lögheimili þeirra verið hjá M. Bjuggu aðilar lengst af í sama sveitarfélagi en árið 2014 flutti M ásamt börnunum í annað bæjarfélag. Samkvæmt matsgerð dómkvadds matsmanns voru báðir aðilar hæfir til að fara með forsjána. Taldi héraðsdómur að það þjónaði framtíðarhagsmunum systkinanna best að lögheimili þeirra yrði áfram hjá M og að hann færi jafnframt með forsjá þeirra. Í dómi Hæstaréttar kom fram að af matsgerðinni yrði ráðið að vilji barnanna stæði til þess að flytja aftur til þess sveitarfélags þar sem þau hefðu áður búið. Við mat á því hvernig forsjá og lögheimili yrði háttað eftir því sem barni væri fyrir bestu væri vilji barns eitt þeirra atriða sem líta bæri til, sbr. 2. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003. Hefði í hinum áfrýjaða dómi, sem skipaður var sérfróðum meðdómendum, farið fram heildarmat á aðstæðum barnanna og hvernig forsjá þeirra og lögheimili yrði háttað eftir því sem þeim væri fyrir bestu. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms var hann staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 9. september 2015. Hún krefst þess að sér verði falin forsjá barnanna A og B og að lögheimili þeirra verði hjá sér. Þá krefst hún þess að stefnda verði gert að greiða einfalt meðlag með hvoru barni frá dómsuppkvaðningu til 18 ára aldurs þeirra. Loks krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Af matsgerð dr. H sálfræðings 7. apríl 2015 verður ráðið að vilji barnanna, A og B, standi fremur til þess að flytjast aftur til [...], en vera um kyrrt á [...] og kemur sá vilji skýrar fram hjá drengnum. Þegar lagt er mat á hvernig forsjá og lögheimili verði háttað eftir því sem barni er fyrir bestu, ber að líta til þeirra atriða sem greinir í 2. mgr. 34  gr. barnalaga nr. 76/2003. Vilji barna þeirra sem í hlut eiga er eitt þeirra atriða, svo fremi að börn hafi nægilegan þroska og aldur til að tjá hann, en jafnframt ber að virða í heild þau atriði sem fyrrnefnt ákvæði tilgreinir. Með hinum áfrýjaða dómi, sem skipaður var sérfróðum meðdómendum, fór fram heildarmat á aðstæðum barnanna og hvernig forsjá þeirra og lögheimili yrði háttað eftir því sem þeim væri fyrir bestu, en ágreiningslaust er að vilji beggja aðila stendur til þess að systkinin verði búsett á sama stað. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsenda hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur með þeim hætti sem í dómsorði greinir.

Rétt þykir að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.

Dómsorð:

Stefnda, M, er falin forsjá barnanna A og B og skal lögheimili þeirra vera hjá stefnda.

Ákvæði héraðsdóms um meðlag, fyrirkomulag umgengni og málskostnað eru staðfest.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 13. ágúst 2015.

Mál þetta, sem dómtekið var 23. júní sl., er höfðað af K, kt. [...], [...], [...], gegn M, kt. [...], [...], [...], með stefnu birtri 31. október 2014.

Endanlegar kröfur stefnanda eru þær að henni verði dæmd forsjá ólögráða barna aðila, A, kt. [...] og B, kt. [...], til átján ára aldurs þeirra og að lögheimili þeirra verði hjá henni.  Enn fremur krefst stefnandi að stefnda verði gert að greiða henni einfalt meðlag með börnunum til framfærslu þeirra eins og barnalífeyrir er ákveðinn hverju sinni, frá dómsuppsögu til átján ára aldurs.  Þá krefst stefnandi að dómurinn ákveði inntak umgengi barnanna við það foreldri sem ekki verður falin forsjá þeirra.  Loks krefst stefnandi þess að stefnda verði gert að greiða henni málskostnað ásamt virðisaukaskatti.

Endanlegar kröfur stefnda eru að kröfum stefnanda um forsjá barnanna A og B verði hafnað og að honum verði falin forsjá þeirra til átján ára aldurs.  Til vara krefst stefndi að forsjá barnanna verði áfram sameiginleg en að lögheimili þeirra verði hjá honum.  Til þrautavara krefst stefndi að núverandi samkomulagi um forsjá og lögheimili barnanna, sem komið var á með dómsátt 27. apríl 2011 haldist óbreytt.  Þá krefst stefndi að stefnanda verði gert að greiða honum einfalt meðlag með börnunum A og B og enn fremur að í dómi verði kveðið á um inntak umgengisréttar þeirra og þess foreldris sem börnin hafa ekki lögheimili hjá.  Loks krefst stefndi að í öllum tilvikum verði honum dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda, að viðbættum virðisaukaskatti.

I.

Málsatvik samkvæmt stefnu, greinargerð og framlögðum gögnum eru í stuttu máli þau, að málsaðilar kynntust skömmu fyrir aldamótin, en þau áttu þá fyrir sitt hvort barnið.  Þau gengu í hjónaband og stofnuðu heimili í [...], en á árunum 2003 og 2005 eignuðust þau saman þau tvö börn sem hér koma við sögu, A og B, en áður höfðu þau eignast stúlkuna C, sem fædd er í [...] 2000.

Hjónabandi aðila lauk árið 2007.  Nokkru síðar hóf stefndi sambúð með núverandi sambýliskonu sinni, vitninu D, [...], sem fædd er [...].

Haustið 2007 höfðaði stefndi forsjármál, en því lauk með dómsátt þann 3. september 2008.  Samkvæmt sáttinni var forsjá allra barna aðila sameiginleg, en kveðið var á um að elsta barnið, stúlkan C, skyldi eiga lögheimili og vera búsett hjá stefnanda, en að lögheimili og búseta drengsins A skyldi vera hjá stefnda.  Í sáttinni var kveðið á um að lögheimili stúlkunnar B skyldi skiptast á milli aðila árlega.  Þannig skyldi hún búa hjá stefnda fyrsta árið en hið næsta hjá stefnanda og síðan koll af kolli.  Í sáttinni var enn fremur kveðið á um reglulega umgengni barnanna þannig að þau skyldu dvelja tvær vikur í senn hjá hvoru foreldri.  Sátt þessi var gerð fyrir Héraðsdómi Vesturlands, en til grundvallar lágu m.a. undir- og yfirmatsgerðir dómkvaddra matsmanna, en þær eru dagsettar 22. ágúst 2007 og 31. janúar 2008.

Samkvæmt gögnum höfðaði stefndi að nýju forsjármál á hendur sóknaraðila vorið 2010 fyrir Héraðsdómi Vesturlands.  Við meðferð málsins var dómkvaddur matsmaður og ritaði hann skýrslu, sem dagsett er 25. febrúar 2011.  Við aðalmeðferð málsins, sem fram fór hinn 27. apríl 2011 tókst með aðilum dómsátt.  Í sáttinni var sem fyrr kveðið á um að aðilar færu sameiginlega með forsjá nefndra barna.  Enn fremur var í sáttinni kveðið á um að lögheimili elstu stúlkunnar, C skyldi sem fyrr vera hjá stefnanda og að lögheimili drengsins A skyldi vera hjá stefnda.  Aftur á móti var ákveðið að lögheimili yngsta barnsins, stúlkunnar B, skyldi vera hjá stefnda.  Tóku meðlagsgreiðslur mið af þessu fyrirkomulagi.  Með sáttinni var einnig kveðið á um gagnkvæma umgengni aðila og þá þannig að sá aðili sem börn voru ekki með lögheimili hjá skyldi hafa þau hjá sér aðra hverja helgi frá fimmtudegi eftir skóla til mánudagsmorguns. Nánar var kveðið á um umgengnina, m.a. um hátíðisdaga og í sumarleyfum, og var miðað við að börnin skyldu dvelja hjá hvorum aðila fyrir sig í fjórar vikur samfellt yfir sumartíðina.  Í niðurlagi nefndrar sáttar sagði að aðilar væru sammála um að leita sérfræðiaðstoðar í því augnamiði að bæta samvinnu sína um málefni barnanna.

Málsaðilar héldu eftir greinda sáttagjörð báðir áfram búsetu sinni í [...], en fyrir liggur að stefnandi hóf fjarbúð árið 2010 með vitninu E [...], fæddum [...].  Hann hefur um árabil starfað í [...], en dvelur tíðum um helgar og í orlofum á heimili stefnanda.

Fyrir liggur að stefndi fluttist þann 1. ágúst 2014 til [...] ásamt sambýliskonu og stúlkubarni þeirra, sem fædd er 2013, en einnig áðurnefndum yngri börnum málsaðila, þeim A og B.  Af gögnum verður ráðið að fjölskyldan hafi í fyrstu búið í eign sem stefndi og sambýliskona hans höfðu keypt í bænum, en eftir að gallar komu fram í eigninni og kaupunum var rift fluttu þau í stuttan tíma í leiguhúsnæði.  Þann 10. október sl. fluttust þau ásamt nefndum börnum í núverandi húsnæði.  Þá um haustið hófu börnin A og B skólagöngu í [...], en stefndi og sambýliskona hans eignuðust annað stúlkubarn í desember sl.

Stefnandi hefur haldið áfram búsetu sinni í [...] ásamt elstu dóttur málsaðila, C, sem hefur um árabil stundað nám í grunnskóla þar í bæ.

II.

Við þingfestingu, hinn 6. nóvember sl., og undir rekstri málsins hafa málsaðilar lagt fram nokkur gögn, en kröfugerð þeirra varðaði í upphafi öll börnin, þ.e C, A og B.  Liggja þannig fyrir áðurnefndar undir- og yfirmatsgerðir sérfróðra matsmanna vegna fyrsta forsjármáls aðila, en eins og áður sagði lauk þeirri deilu með sátt fyrir dómi hinn 3. september 2008.  Þá hafa aðilar lagt fram gögn, sem tengjast öðru forsjármáli aðila, sem lauk með dómsátt, hinn 27. apríl 2011.  Á meðal gagna sem þá lágu fyrir, líkt og nú, voru auk fyrrgreindra matsgerða m.a. umsagnir Félags og skólaþjónustu [...] í [...], en einnig nýleg álitsgerð dómkvadds matsmanns, F, sálfræðings, sem dagsett er 25. febrúar 2011.  Í lokaorðum álitsgerðarinnar segir nefndur matsmaður:  Undirritaður telur að báðir foreldrar uppfylli skilmerki um viðunandi foreldrahæfni og ráði við að skapa börnunum viðunandi uppeldisskilyrði. Benda má á að þau skil, sem kennarar töldu sig verða vara við á ástandi og aðbúnaði barnanna á skólaárinu 2009-2010 eftir því hvort þau dvöldu á heimili móður eða föður, voru ekki lengur til staðar fyrri hluta skólaársins 2010-2011.  Á hinn bóginn er augljóst að báðir foreldrarnir geta bætt sig persónulega.  K þarf að læra og þjálfa sig í að verða ákveðnari og setja sjálfri sér og börnum sínum mörk.  M þarf að takast á við reiðistjórnun og vinna öðruvísi úr reiði sinni en ýmis dæmi í gögnum málsins, m.a. umsögn hans sjálfs og D, benda til.  Undirrituðum þykir ljóst að heimili föður ráði mun betur við uppeldishlutverkið eins og sakir standa og aðstæður benda til og verður að taka þar tillit til styrkleika D, sambýliskonu föður.  Hins vegar verður að taka jafnframt mið af sterkum tengslum allra barnanna við móður sína og ekki síst mismunandi viðhorfa og ólíkra tengsla C við foreldra sína.

Samkvæmt gögnum hefur Félags- og skólaþjónusta [...] haft málefni nefndra barna til meðferðar eftir að umræddu dómsmáli lauk með sátt málsaðila.  Verður ráðið að þar hafi málefni elstu stúlkunnar C verið fyrirferðarmest, m.a. vegna barnaverndartilkynningar um ofbeldi af hálfu stefnda í ágúst 2013, sbr. ákvæði 43. gr. barnaverndarlaga nr. 80, 2002.  Þeirri athugun lauk í nóvember sama ár án sérstakra viðbragða af hálfu nefndarinnar.  Auk þess liggja fyrir í málinu nýlegar umsagnir um stúlkuna frá Greiningar- og ráðgjafastöð ríkisins, en þar kemur m.a. fram, sbr. bréf dags. 25. febrúar og 28. maí sl., að hún hafi greinst á einhverfurófi og með kvíða og þunglyndi, en vegna þessa hefur hún að undanförnu verið í meðferð hjá sálfræðingi.

Samkvæmt vottorði sáttamanns hjá sýslumanninum í Reykjavík, sem dagsett er 26. september 2014, leituðu málsaðilar sátta vegna ágreinings um umgengni og forsjá nefndra barna.  Verður ráðið að tilefnið hafi verið afstaða stefnanda, sbr. bréf hennar til sýslumannsins [...], dags. 10. febrúar 2014, þess efnis að grundvöllur hinnar sameiginlegu forsjár væri brostinn, en jafnframt leitaði hún eftir jafnri búsetu barnanna á heimilum aðila.  Vegna þessa ágreinings voru haldnir sjö sáttafundir á tímabilinu frá 31. mars til 29. september 2014, sem að lokum reyndust árangurslausir.  Eins og fyrr er fram komið fluttust stefndi og D sambýliskona hans búferlum á nefndu tímabili til [...].

Í vottorði sáttamanns er stutt lýsing á afstöðu yngri barnanna, A og B, til ágreiningsefnisins.  Segir þar að börnin hafi ekki tekið afgerandi afstöðu til umgengnisfyrirkomulags né til forsjár, en að bæði hafi lýst yfir vilja til að hitta stefnanda reglulega.  Þá er skráð í vottorðið að stefndi hafi flutt með börnin fyrirvaralaust frá [...] til [...] og að þau hafi lýst yfir vanlíðan með framkvæmdina og verið í óvissu um framhaldið, þ.e. hvernig umgengni yrði háttað og um aðrar afleiðingar af flutningunum. Í vottorðinu segir að þrátt fyrir þetta hafi nefnd börnin virst vera opin fyrir tækifærum á nýjum stað og að þau hafi verið ánægð með móttökur í skóla á [...].

III.

Við upphaf dómsmeðferðar þessa máls, síðla árs 2014, var auk upphaflegrar kröfugerðar stefnanda, einnig tekist á um kröfur hennar um að til bráðabirgða yrði henni veitt forsjá barnanna A og B, líkt og stúlkunnar C.  Af þessu tilefni var afráðið af dómara að börnunum gæfist færi á að lýsa skoðunum sínum og högum utan réttar, sbr. ákvæði 43. gr. barnalaga nr. 76, 2003.  Er þetta gerðist lá fyrir að gagnkvæm umgengni barnanna við málsaðila hafði haldist þrátt fyrir búferlaflutninga stefnda og fjölskyldu hans sumarið 2014 og þá í samræmi við það sem aðilar höfðu áður samið um, sbr. fyrrnefnd dómsátt þeirra frá 27. apríl 2011. Nefnd áform gengu eftir, en þann 12. janúar sl. tjáðu yngri börnin, A og B, sig um málefni sín hjá dómsformanni, en elsta stúlkan C skoraðist undan þegar til kom.  Til aðstoðar hafði dómari fengið dr. G sálfræðing, en hún greindi aðilum og lögmönnum þeirra, í þinghaldi þann 13. janúar sl., frá því sem fram hafði komið.  Í þinghaldinu leitaði dómari eftir sátt með aðilum, en er það gekk ekki eftir var málið flutt um fyrrnefndar bráðabirgðakröfur stefnanda.  Með úrskurði dómsins hinn 20. janúar sl. var bráðabirgðakröfum stefnanda hafnað.

Í nefndu þinghaldi 13. janúar sl. lagði stefnandi fram beiðni um að dómkvaddur yrði matsmaður til að rita sérfræðilega álitsgerð um málefni málsaðila og ofangreindra barna og þá í samræmi við þau álitaefni, sem vikið er að í 34. gr. barnalaga nr. 76, 2003. Var dr. H sálfræðingur kvaddur til starfans.  Matsskýrsla hans er dagsett 7. apríl sl.

Er aðilar máls höfðu lýst sýnilegri gagnaöflun lokið var aðalmeðferð málsins háð þann 23. júní sl., en jafnframt var í þinghaldinu af hálfu dómara leitast við að leiða málið til lykta með sátt að fullu eða hluta til.  Að því leyti var sérstaklega vísað til áðurgreindra gagna um stúlkuna C, aldurs hennar og þeirra ráðstafana sem þá hafði verið gripið til vegna aðstæðna hennar.  Í samræmi við áætlun sem gerð var í þinghaldinu, með aðstoð lögmanna aðila, héldu sáttaumleitanir aðila áfram.  Leiddu þær að lokum til þess aðilar náðu sátt um málefni stúlkunnar þann 31. júlí sl.  Með sáttinni var farið að vilja stúlkunnar um að hún myndi áfram eiga lögheimili í [...], á heimili stefnanda, en enn fremur var þar kveðið á um umgengni við stefnda og aðrar ráðstafanir henni til heilla.  Vegna þessa var málið endurupptekið, en í framhaldi af því staðfestu aðilar sáttina fyrir dómi.  Aðilar lögðu síðan málið í dóm að nýju, en þá aðeins um fyrrgreindan ágreining þeirra um börnin A og B, sbr. endanlegar dómkröfur þeirra hér að framan.

IV.

Í staðfestri matsskýrslu dr. H sálfræðings er að nokkru rakin forsaga málsins, en samkvæmt vætti hans fyrir dómi hafði hann undir höndum við gerð hennar eldri matsskýrslur og önnur gögn.  Í skýrslunni, sem dagsett er 7. apríl sl., er gerð grein fyrir tilhögun matsvinnunnar og þar á meðal að matsmaður hafi á tímabilinu frá 11. febrúar til 28. mars sl. rætt einslega við aðila og börn þeirra þrjú í heimahéraði og gert viðeigandi sálfræðiprófanir.  Jafnframt hafi fyrri sálfræðipróf, sem gerð höfðu verið í tengslum við hin fyrri forsjármál, verið höfð til hliðsjónar, m.a. að því er varðaði vilja barnanna til búsetu.  Til þess er að líta að eftir gerð matsskýrslunnar lögðu aðilar fram nýleg gögn frá grunnskóla barnanna A og B.

Í matsskýrslunni eru rakin viðtöl matsmannsins við aðila og börnin og einnig lífssaga þeirra að nokkru.  Enn fremur er farið yfir niðurstöður fyrrnefndra sálfræðiprófa.

Í lokakafla skýrslunnar er vísað til áðurgreindra atriða, en einnig er vikið að þeim álitaefnum sem vísað var til í matsbeiðni.  Rétt þykir að rekja efni skýrslunnar, en þá með hliðsjón af endanlegri kröfugerð málsaðila, þar sem sátt tókst með þeim um málefni stúlkunnar C undir rekstri málsins.

Um foreldrahæfni stefnanda og framtíðaráform segir í skýrslunni:

Það er niðurstaða þessarar athugunar á K sé hæf til þess að fara með forsjá barnanna. K var samvinnuþýð og svaraði spurningum hreinskilnislega. Niðurstöður benda ekki til geðveiki eða persónuröskunar hjá henni. Vandamál með kvíða eða þunglyndi greinast ekki, en á fyrri árum var hún í óreglu, misnotaði áfengi og um tíma fíkniefni. Hún fór í meðferð og kveðst hafa lært mikið af því að vinna í sínum málum og náð tökum á þessum neysluvanda. Niðurstöður benda til þess að hún sé þýðlynd og stöðuglynd, en finni fyrir sveiflum í sinni líðan. Hún virðist fremur viðkvæm, auðsæranleg og hættir sennilega til sjálfsásakana, og þess að skorta ákveðni eða festu við að setja fólki mörk. Hún virðist geta notið sín vel í félagsskap annarra og í spennandi umhverfi, og líka þar sem hún er ein með sjálfri sér og þar sem fátt er að gerast.

Framtíðaráform móður eru að búa í [...]. Þar hefur móðir átt heima lengst af og þar býr flest hennar fjölskyldufólk. Fyrirhugað er að hún skipti um starf í apríl 2015, hætti hjá Samgöngustofu og hefji starf sem verslunarstjóri hjá [...]. Móðir er í fjarbúð með manni sem starfar hjá [...] og býr í [...].

Um foreldrahæfni og framtíðaráform stefnda segir í skýrslunni:

Það er niðurstaða þessarar athugunar að M sé hæfur til þess að fara með forsjá barnanna. Hann var samvinnuþýður og svaraði spurningum af hreinskilni. Niðurstöður benda hvorki til geðveiki né persónuröskunar hjá honum. Hann á sögu um þunglyndi, en það er ekki til staðar nú. Hann mælist félagslyndur og með áhuga fyrir spennandi og skemmtilegum verkefnum. Það liggur misvel á honum, hann verður daufur eða þreyttur eins og af ástæðulausu, fær þrálátar áhyggjur og lætur sumt fara í taugarnar á sér. Langvinnir verkir eftir slysfarir trufla svefn hans. Verkjunum hefur M vanist með árunum og harkar þá af sér með eigin ráðum, en verkjalyf dugðu honum lítt. Hann hlífir sér lítið og gerir jafnframt kröfur til annarra um að þola álag og kvarta ekki. M virðist vanmeta nokkuð hve erfiður sá missir er fyrir tvö yngri börn þeirra K að fara úr umhverfi sem þau hafa vanist alla sína tíð og að fjarlægjast eða missa sambönd við fólk sem þau tengjast tilfinningalega.

Framtíðaráform föður um búsetu eru á [...]. Þar hefur D sambýliskona hans sem er lífeindafræðingur fengið starf við sitt hæfi við Héraðssjúkrahúsið. Faðir er heimavinnandi og með 75% örorku vegna varanlegra afleiðinga af sjóslysi árið 1998 og svo tveimur bílslysum. M og D hafa fest kaup á einbýlishúsi, sem þau hafa komið sér fyrir í og eru byrjuð að gera upp.

Báðir foreldrar hafa áður fyrr lent í vanda vegna áfengisneyslu en matsmaður fann ekki vísbendingar um slíkan vanda nú. Móðir smakkaði áfengi fyrst 16 ára gömul. Hún hefur farið í fíkniefna- og áfengismeðferð. Hún skilgreinir sig ekki sem alkóhólista og kveðst geta átt vín og neytt þess í hófi, sjaldan og án vandræða. Faðir smakkaði áfengi fyrst 16-17 ára gamall. Neysla hans hefur verið aðallega bjór eða léttvín um helgar eða á kvöldin. Hann missti ökuréttindi í 18 mánuði árið 2008 fyrir ölvunarakstur.

Að mati matsmanns eru foreldrarnir, hvort um sig, hæfir til að sinna uppeldi barnanna. Þau taka foreldrahlutverkið alvarlega og hafa næga getu til að mæta þörfum barnanna Börnunum getur verið vel borgið í forsjá þeirra hvors um sig. Foreldrarnir hafa ólíka nálgun varðandi uppeldi þeirra og sýna ólíka styrkleika þannig að þau bæta hvort annað upp og börnin njóta í meginatriðum góðs af.

Um ytri aðstæður og um umbúnað barnanna heimili málsaðila segir í skýrslunni:

Báðir foreldrar búa við ágætar og rúmgóðar aðstæður til þess að hafa börnin hjá sér. Á báðum heimilum virðist fjölskyldulíf vera sett í forgang. Beggja vegna er venjulegur nútíma húsbúnaður fyrir hendi og ekki annað að sjá en að viðhöfð sé almenn snyrtimennska og hreinlæti. Að mati matsmanns er vel búið að börnunum bæði hjá móður og föður. Börnin virðast finna sig örugg og heimakomin hjá hvoru foreldrinu sem er.

Athugun bendir til þess að daglegri umönnun barnanna sé sinnt vel á báðum heimilum. Þar sé með viðeigandi hætti og af umhyggju hugað að hag barnanna, passað upp á að þau nærist vel, séu vel búin og líði sem best.

Á báðum heimilum voru ... börnin frjálsleg og virtist líða vel þegar matsmaður kom í heimsókn  .. Yngri börnin eru frískleg og glöð

Um tengsl málsaðila við börnin A og B segir í skýrslunni:

Tengsl foreldra hvors um sig við börnin eru jákvæð og sterk. Börnunum líður vel hjá föður og þeim líður vel hjá móður. Þau finna stuðning frá hvoru foreldri um sig og finna sig geta leitað til þeirra.

Um viðhorf drengsins A til búsetu og um umgengni segir í skýrslunni:

A var í fyrstu ekki viss um hvað honum finnist um að hafa flutt til [...], en sagði svo að það hafi verið erfitt fyrir hann að fara þangað og vera svona mikið í burtu frá móður. Samt væri ágætt að vera á [...]. Hann sagði að sér gengi ágætlega í [...] og hefði eignast vini, en hann saknar skólans í [...] og krakkanna þar. Hann langar meira að vera í skólanum í [...] en á [...]. A finnst leiðinlegt að ferðast á milli [...] og [...]. Í fluginu verður hann oft flugveikur. Hann vill samt ekki fækka ferðunum. Hann kveðst vilja vera jafn mikið hjá sínum foreldrum og fá að hitta mömmu sína meira. Hann saknar afa og ömmu í [...], fleira fólks þar og umhverfisins.

Nánar segir í matsskýrslunni um viðhorf barnanna A og B til núverandi aðstæðna og um umgengni:

Af viðtölum við .... börnin tvö má ráða að þeim finnst þau tilheyra hvort sem er hjá föður og hjá móður, en þau skynja sig greinilega tilheyra meira í umhverfinu í [...] heldur en á [...]. Þau finna fyrir meiri tengingu við fólk á fyrrnefnda staðnum.

Börnin ... eru jákvætt og sterkt tengd D stjúpmóður sinni og vön því að hún sinni þeim. Þau eru líka jákvætt en minna tengd E kærasta móður, sem hún er í fjarbúð með, enda hafa þau ekki reynslu af að búa á heimili með honum.

Ferðir barnanna á milli [...] og [...] hafa reynst ... börnunum erfiðar. Þeim finnst eins og að þau séu varla komin til móður seinnipart föstudags en að þau séu að fara seinnipart sunnudags. Langur tími þessara daga fer í bíl- og flugferðir sem þau verða þreytt af, auk þess sem þau hafa orðið bílveik og flugveik. Börnin hafa þó ekki viljað fækka ferðum af því að þau hafa ekki viljað minnka umgengnina. Þeim hefur fundist sá tími sem er á milli föstudaga til sunnudaga hjá móður vera of fljótur að líða, þannig að þau hafa ekki getað hitt fólk sem þau hafa viljað hitta og ekki getað komist yfir að gera það sem þau hafa viljað gera. Matsmaður telur ráðlegt að huga að því að breyta umgengni með þeim hætti að fækka ferðum í eina ferð í mánuði og hafa helgina langa, t.d. frá fimmtudegi til þriðjudags. Þetta útheimtir að foreldrar hafi samstarf varðandi nám og heimavinnu barnanna þannig að tryggt sé að þau dragist ekki aftur úr í námi.

Móðir sýnir að mati matsmanns meiri skilning en faðir á þeim söknuði sem .. börnin finna til þess umhverfis sem þau best þekkja og til þess fólks sem þau tengjast tilfinningalega í [...]. Hún virðist einnig hafa meiri skilning á því álagi sem ferðir á milli heimilanna eru fyrir yngri börnin.

Faðir hefur að mati matsmanns tekið vel á því að styrkja sjálfstraust A, tengja hann félagslega á [...] og leggja sig fram um að hann ástundi nám og fái góðar einkunnir í [...]. Faðir virðist búa yfir meiri ákveðni og eftirfylgni en móðir, þar sem hann leggur áherslu á að börnin veigri sér ekki við hlutum sem þeim finnast erfiðir og að þau haldi út það sem þau byrja á. Hann hjálpar þeim til að styrkjast persónulega við að fást við verkefni og standast mótlæti.

Matsmaður telur að móðir fari offari í því að ásaka föður um ofbeldi gagnvart börnunum, þó að í stöku tilvikum hafi hann brugðist of hart við. Það myndi að mati matsmanns koma sér betur fyrir börnin ef foreldrar létu af ásökunum um annars vegar vanrækslu og hins vegar ofbeldi. Við uppeldi barnanna hafa báðir betra við tímann að gera.

Matsmaður telur að báðir foreldrar séu líklegir til að virða skilmála sem kunna að verða settir um breytta umgengni. Báðir foreldrar eru hlynntir umgengni barnanna við hitt foreldrið og að hún sé rúm í tíma, en sú fjarlægð sem hefur myndast við flutning föður norður setur umgengni skorður, sérstaklega vegna ástundunar skóla, íþrótta og annarra tómstundaáhugamála. Sú staða er komin upp að ...börnin, A og B, óska eindregið eftir meiri umgengni við móður, en faðir hefur annaðhvort ekki áttað sig á því eða að hann hefur ekki tekið það til greina.

Við aðalmeðferð málsins staðfesti dr. I efni matsgerðarinnar, þar á meðal að því er varðaði forsjárhæfni beggja málsaðila og jákvæð tengsl þeirra við börnin A og B, en einnig gagnvart systur þeirra C.  Hann bar að aðilar hefðu ólíka persónugerð en sagði að þau væru einnig með ólíkar uppeldisaðferðir.  Hann áréttaði að þau gætu bæði ráðið við foreldrahlutverkið og bar að þau hefðu styrkst í því hlutverki með árunum.  Aftur á móti skorti verulega á hjá þeim að þau ættu samræður sín í milli um börnin.  Hann kvaðst ekki hafa orðið var við að börnin hefðu orðið fyrir vanrækslu eða að þau byggju við einhver konar harðneskju og bar að öll orðræða málsaðila í garð hvors annar hefði verið svolítið ýkt.

Matsmaðurinn sagði að A og B liði vel hvort sem þau hefðust við á heimili stefnanda eða stefnda, en bar að þau hefðu bæði lýst vilja til að dvelja lengur hjá stefnanda.  Þá hefðu þau bæði einnig haft orð á því að þau söknuðu umhverfisins í [...].

Nánar aðspurður áréttaði matsmaðurinn að A hefði lýst vilja sínum til að fá að búa í [...] og það jafnvel þrátt fyrir að B yrði þar ekki með honum.  Hann sagði að A saknaði vina og ættmenna sinna í [...], en sagði að drengurinn væri með fyrrgreindri ósk sinn ekki að velja á milli málsaðila.  Hann sagði að A fyndi sig eiga meira heima í [...], líkt og systir hans B, og áréttaði m.a. að drengurinn ætti þar sterkt ættarnet.  Hann sagði að A hefði verið seinni til en B við að aðlagast nýjum aðstæðum á [...].  Hann sagði að aðlögun hans hefði gengið vel og bar að ekkert óeðlilegt hefði verið í því ferli.  Matsmaðurinn vísaði til þess að drengurinn hefði myndað tengsl við tvær yngri systur sínar á heimili stefnda og sagði að mikilvægt væri að hann ræktaði þau tengsl. Matsmaðurinn lét það álit í ljós að koma mætti til móts við óskir drengsins með því að lengja umgengni hans við stefnanda enda væri mikilvægt fyrir hann að vera í miklum tengslum við báða foreldra sína.

Matsmaðurinn vísaði til þess að A hefði um margra ára skeið verið með lögheimili og aðalbúsetu hjá stefnda og því myndi það verð röskun á högum hans ef það yrði niðurstaðan að þessum aðstæðum hans yrði snúið við, en lét það álit í ljósi að vegna tengslanets drengsins í [...] myndi hann klára sig af því.  Aftur á móti væri drengnum mjög mikilvægt vegna þeirra vandamála sem hann ætti við að glíma að hann byggi við skýran ramma og sagði að slíkur rammi hefði verið að mótast við hinar nýju aðstæður á [...], á heimili stefnda.

Matsmaðurinn lét það álit í ljós að ráðlegast væri í ljósi aðstæðna að A og B yrðu áfram saman.  Þar um vísaði hann m.a. til lítils aldursmunar, kærleika og þess sterka sambands sem væri á milli þeirra.  Hann sagði að veruleg breyting yrði á högum þessara barna ef mál skipuðust á þann veg að þau yrðu með aðalbúsetu á sitt hvoru heimilinu og mikill söknuður.

Matsmaðurinn sagði að B hefði mikla aðlögunarhæfni og bar að hún hefði aðlagast vel á [...], líkt og hún hefði áður gert í [...].  Hann sagði að hún væri vel tengd ættmennum sínum í móðurætt í [...], ekki síst móðurforeldrum, líkt og bróðir hennar, en bar að hún ætti einnig mjög góð tengsl við föðursystur, sem byggi á neðri hæð á heimili föður á [...].

Matsmaðurinn sagði að A og B hefði jákvætt viðhorf til unnusta móður þeirra, en bar að hann væri ekki í miklu uppeldishlutverki þar sem hann hefði ekki fasta búsetu á heimilinu.  Hann sagði að börnin væru með sterk og jákvæð tengsl við sambýliskonu föður og bar að hún hefði miklu uppeldishlutverki að gegna.

V.

Eins og fyrr sagði hafa aðilar lagt fram gögn frá skóla- og félagsmálayfirvöldum, sem varða m.a. börnin A og B.  Liggja þannig fyrir umsagnir kennara og skólastjórnanda í Leik- og Grunnskóla [...] á fyrstu skólaárunum, en einnig annaryfirlit og námsframmistöðumat frá [...] á [...] skólaárið 2014-2015.

Fram kemur í umsögnum að á árunum 2009 og 2010 hafi skólastjórnendur leikskólans og grunnskólans í [...] haft áhyggjur af tilfinningalegu ójafnvægi hjá A og B.  Tekið er fram að ekki hafi fundist skýringar á þessari líðan barnanna, en þess getið að þetta ,,ástand“ hafi verið sýnilegra þegar þau hafi verið hjá stefnanda.  Samkvæmt bréfi Félags- og skólaþjónustu [...] dagsettu 24. apríl nefnt ár leiddi könnun barnaverndar m.a. það í ljós að orsök vanlíðunar og óvissu hjá börnunum væri að leita í misfellum í aðbúnaði þeirra á heimilum málsaðila.  Vegna þessa var aðilum boðin stuðningsúrræði, en þau að auki eindregið hvött til að bæta samskiptin sín í milli með velferð barnanna í huga.  Eins og áður var rakið var vikið að þessu umfjöllunarefni í matsskýrslu frá árinu 2011 og að mál hefðu þróast til betri vegar.

Í framlagðri skýrslu sálfræðings eru leiddar líkur að því að drengurinn A glími við ADHD einkenni.  Þá er í tveimur umsögnum bekkjarkennara í [...] vegna skólaársins 2013/2014, er drengurinn var í 5. bekk, greint frá því að hann hafi ekki sama úthald og jafnaldrar hans og þurfi á talsverðum sérstuðningi að halda.  Tekið er fram að hann virðist vera ánægður í skólanum, en það sagt að hann tengist þó ekki mikið bekkjarfélögum sínum og sé því mikið einn að sýsla.  Greint er frá því að heimanámi drengsins sé ágætlega fylgt eftir af stjúpu hans og að hún hafi verið í samstarfi við skólann.  Að auki komi hún með stefnda á foreldrafundi, án stefnanda, sem komi ein.  Tekið er fram að umhirða drengsins hafi almennt verið ágæt.

Í bréfi skólastjóra og deildarstjóra yngri deildar [...] á [...], dagsettu 4. desember 2014, er greint frá líðan, námslegri stöðu og umhirðu A frá því að hann hóf nám í 6. bekk þá um haustið.  Greint er frá því að drengurinn hafi farið í þroskamat á árum áður, sem hafi gefið til kynna að hann þurfi góðan stuðning við nám sitt.  Í því sambandi er sagt að fram hafi komið upplýsingar um að drengurinn hafi einkenni athyglisvanda og ofvirkni og sagt að það krefjist ákveðinna vinnubragða af hálfu foreldra og skóla.  Í bréfinu segir einnig að mætingar drengsins hafi verið góðar, en að hann eigi erfitt með stærðfræði og af þeim sökum hafi hann fengið aðlagað efni.  Þá segir að hugtakaskilningur drengsins sé lítill, að hann hafi litla trú á eigin getu og eigi erfitt með að halda skipulagi og að halda utan um eigin gögn.  Greint er frá því að í upphafi skólaársins hafi A átt erfitt með að tengjast öðrum og að hann hafi þá verið afar vansæll, en að mál hafi síðan þróast heldur til betri vegar og eigi hann einn vin í skólanum.  Greint er frá því að drengurinn hafi rætt við námsráðgjafa og tjáð sig um líðan sína.  Fram kemur að utanumhald um skólagögn drengsins hafi verið ábótavant og að hann hafi lítt sinnt heimanámi sínu, en að það ástand hafi heldur lagast eftir að samræður urðu um málefnið á milli skólans og heimilis hans eins og það er orðað.  Það álit er látið í ljós að drengurinn þurfi mikla aðstoð og eftirfylgni við alla umhirðu og skipulag.  Í frammistöðumati sem gert var febrúar sl. segir m.a. frá því að A vinni oftast vel, en þess er getið að gæta verði að því að hann missi ekki af spjalli við félagana.  Greint er frá því að hann hafi tekið miklum framförum í stærðfræði og sé metnaður, sjálfstæði og vinnusemi það sem einkenni helst nám hans.  Tekið er fram að drengurinn sé áhugasamur eða oftast áhugasamur í ensku, í samfélagsfræði og í list- og verkgreinum.  Þá segir að hann standi sig vel í íþróttum og að þar sé virkni hans og framkoma til fyrirmyndar, en að hann þurfi að taka sig á í sundi.  Loks er tekið fram að drengurinn hafi sýnt áhuga og verið samstarfsfús vegna árshátíðar skólans, en honum gangi stundum illa að skilja hvað orð þýði.

Í umsögn skólastjórnanda leikskólans í [...] í lok árs 2009 segir m.a. að veturinn 2008 hafi borið á talsverðum leiða og viðkvæmni hjá stúlkunni B, en að breytingar hafi orðið þar á til batnaðar og hafi hún orðið glaðlyndari og félagslyndari og verið í góðu jafnvægi er frá leið.  Tekið er fram að stúlkan hafi mætt vel í skólann, hvort sem að hún hafi dvalið hjá stefnanda eða stefnda, en einnig hafi umhirða hennar  verið eðlileg.

Í tveimur bréfum umsjónarkennara í Grunnskóla [...], dagsettum 31. janúar og 5. desember 2014, segir að B hafi stundað nám í 1.-3. bekk.  Fram kemur að stúlkan hafi mætt vel og verið glaðlynd og félagslynd.  Þá segir að hún hafi verið góður námsmaður og með gott úthald.  Einnig segir að umhirða hennar hafi almennt verið ágæt.  Tekið er fram að heimanámi stúlkunnar hafi verið fylgt vel eftir, en að samskipti skólans hafi einkum verið við stjúpmóður.  Þá hafi foreldrar stúlkunnar komið á fundi sitt í hvoru lagi og hafi sá háttur verið viðhafður að ósk stefnda.

Í bréfi skólastjóra og deildarstjóra yngri deildar [...] á [...], dagsettu 4. desember 2014, er greint frá líðan, námslegri stöðu og umhirðu B frá því að hún hóf þar nám í 4. bekk þá um haustið.  Í bréfinu segir að mætingar stúlkunnar hafi verið góðar, að hún hafi fengið góðar umsagnir frá öllum kennurum sínum varðandi nám í frammistöðumati haustið 2014.  Enn fremur hafi henni gengið vel í samvinnu við aðra nemendur.  Tekið er fram að stúlkan sé vinnusöm og dugleg, að hún hafi sinnt heimalestri ágætlega og sýnt framfarir.  Greint er frá því að stúlkunni hafi verið vel tekið af bekkjarfélögum og að hún hafi fallið vel inn í hópinn.  Þá hafi ekki verið merkjanlegar breytingar á aðlögun eða líðan stúlkunnar frá því að hún hóf námið.  Greint er frá því að hún hafi verið örugg í fasi og yfirleitt glöð.  Þá hafi umhirða hennar verið góð. Í frammistöðumati, sem gert var febrúar sl., kemur fram að stúlkunni líði almennt vel í skólanum og eigi í góðum í samskiptum við bekkjarfélaga og kennara.  Tekið er fram að hún eigi gott með að vinna sjálfstætt en einnig með öðrum, að hún taki leiðbeiningum vel og geti vel tjáð sig munnlega og tekið virkan þátt í umræðum, en eigi ekki eins gott með að koma hugsunum sínum á blað.

VI.

Stefnandi byggir á því að börnunum A og B sé ótvírætt fyrir bestu að hún fari ein með forsjá þeirra, en þar um vísar hún til ákvæða 2. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76, 2003. 

Stefnandi reisir kröfur sínar á því að hún sé án efa mun tengdari börnunum en stefndi, enda hafi hún verið aðalumönnunaraðili þeirra allt frá fæðingu þeirra.  Þá telur stefnandi að stefndi hafi ekki til að bera þá eiginleika sem þurfi til að tryggja börnunum velferð og viðunandi aðstæður, en þar um vísar hún til 1. gr. barnalaganna.  Stefnandi byggir á því að stefndi og sambýliskona hans geti ekki tryggt velferð barnanna sem skildi enda hafi þau bæði gerst sek um að hafa beitt líkamlegu ofbeldi.  Hún byggir á því að þetta verði að hafa í huga við úrlausn málsins og enn fremur að stefndi sé ekki fær um að taka tillit til velferðar barnanna þegar komi að ákvörðunartöku varðandi umgengni og búsetu líkt og dæmin sýni.

Stefnandi staðhæfir að hún sé afar reglusöm og hafi verið það um langa hríð, en hún hafi ekki neytt áfengis um árabil.  Þá hafi hún að undanförnu verið í öruggu starfi hjá Samgöngustofu með starfsstöð í [...].  Við flutning var til þess vísað að á næstunni myndi stefnandi taka við verslunarstjórastöðu hjá [...] í bænum.  Stefnandi vísar til þess að hún búi í eigin húsnæði í bæjarfélaginu [...] ásamt elstu dóttur aðila, en þar búi einnig foreldrar hennar og nánasta fjölskylda, svo og vinir barnanna.  Að auki búi elsta systir barnanna, dóttir stefnanda, einnig í [...], en hún starfi þar í grunnskólanum.

Stefnandi byggir á því að verði orðið við kröfum hennar muni það tryggja áframhaldandi búsetu A og B í [...], en hún geti þá tryggt þeim þann stuðning sem þeim sé nauðsynlegur, enda hafi hún sterkt bakland í heimabyggð.  Vísar stefnandi til þess að með slíku fyrirkomulagi gefist börnunum tækifæri til að umgangast móðurforeldra sína að vild og staðhæfir að samskipti þeirra við þau hafi ætið verið mikil, til að mynda eftir skóla á daginn.  Stefnandi vísar til þess að vegna þessa hafi söknuður verið hjá börnunum er stefndi flutti með þau til [...].  Telur stefnandi að sú ákvörðun stefnda að flytja með börnin fyrirvaralaust úr heimabyggð sinni hafi komið niður á þessum samskiptum barnanna við móðurforeldrana og áréttar að með þeim sé mikill kærleikur, enda hafi móðurforeldrarnir alla tíð veitt þeim mikinn stuðning.

Stefnandi staðhæfir að elsta dóttir stefnda, sem lengst af hafi búið hjá móður sinni í [...], en hafi nýverið flust til [...], sé í góðu sambandi við hana og komi hún oft í heimsókn til í [...], en hafi ekki verið í samskiptum við stefnda, föður sinn, að undanförnu vegna samskiptaörðugleika þeirra í millum.

Stefnandi byggir á því að forsendur sameiginlegrar forsjár séu brostnar, en í því sambandi vísar hún til 4. mgr. 34. gr. barnalaganna.  Stefnandi byggir á því að allar forsendur skorti til að slíkt samstarf geti þrifist líkt og mál hafi þróast.  Þessu til stuðnings bendir stefnandi á að stefndi hafi neitað að mæta með henni á sameiginlegar uppákomur barnanna, svo sem á foreldrafundi í skólum, og vísar til þess að umsjónarkennarar barnanna hafi lýst yfir vonbrigðum með þessa afstöðu hans.  Þessu til viðbótar bendir stefnandi á að stefndi og sambýliskona hans hafi kosið að mæta ekki til fermingarveislu elstu dóttur aðila, C, vorið 2014.

Stefnandi byggir á því að samskiptahættir stefnda séu með þeim hætti að þeir valdi börnunum miklu hugarangri og hafi þeir haft áhrif á börnin.

Stefnandi byggir á því að í ljósi aðstæðna hljóti nokkur óvissa að ríkja um framtíð stefnda á [...], og þar meðal um það hvort að þar verði framtíðarbúseta fjölskyldu hans.  Þar um vísar hún einkum til þess að stefndi hafi búið á [...] á ólíkum stöðum frá því að hann kom þangað.  Vegna þess sé til staðar óöryggi varðandi framfærslu og búsetu hans, en slíkt henti ekki börnunum.

Um lagarök vísar stefnandi einkum til 1. gr., 34. gr., sbr. 28. gr. og 37. gr. barnalaga nr. 76, 2003, en einnig til 53. gr., sbr. 6. mgr. 57. gr. og VI. kafla laganna.  Enn fremur vísar stefnandi til laganna í heild sinni og þeim meginreglum og undirstöðum sem þar koma fram. Þá byggir stefnandi á 1. og 2. mgr. 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barns, sbr. lög nr. 19, 2013.  Varðandi málskostnað vísar stefnandi til 130. gr. laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála, en um virðisaukaskatt til laga nr. 50, 1988 um virðisaukaskatt.

Stefndi byggir kröfu sína um að hann eigi að fá forsjá barnanna A og B, en einnig um að lögheimili þeirra verði hjá honum á ákvæði 2. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76, 2003.  Hann rökstyður forsjárkröfuna m.a. með því að með málarekstri sínum hafi stefnandi sýnt að hún vilji ekki lengur viðhalda þeirri sameiginlegu forsjá sem samkomulag hafi orðið um með fyrri dómsáttum, fyrst árið 2008 og síðan aftur 2011.  Vegna þessa séu forsendur á áframhaldandi sameiginlegri forsjá brostnar og því sé eðlilegt að hann fái forsjána í sínar hendur, enda þjóni það hagsmunum barnanna best.

Stefndi bendir á að fyrir liggi í málinu fjöldi álita frá kennurum, sálfræðingum og félagsráðgjöfum og byggir á því að þessi gögn gefi glögga mynd af þörfum barnanna og þeirri staðreynd að hann sé mun betur í stakk búinn til að sinna þeim heldur en stefnandi.  Hann vísar m.a. til þess að börnunum A og B hafi vegnað vel í námi og félagslega og að þau hafi yfirstigið þá erfiðleika sem fylgdu skilnaðinum á sínum tíma.  Hann byggir á því að börnin séu í góðu andlegu jafnvægi og hafi greinilega blómstrað með því að hafa lögheimili sitt hjá honum.

Stefndi bendir á að drengurinn A hafi verið greindur með athyglisbrest, en það hafi kallað á þéttan uppeldisramma, mikla reglu og öryggi.  Stefndi byggir á því að af gögnum verði ráðið að hann hafi veitt drengnum viðunandi uppeldisaðstæður. Aftur á móti geti þau vandkvæði sem upp hafi komið varðandi elsta sameiginlega barn aðila, stúlkuna C, verið vísbending um það hvers megi vænta um velferð yngri barnanna verði stefnanda falin forsjá þeirra og að þau spor hræði.  Því megi ekki taka áhættu varðandi framtíð barnanna A og B.  Hann byggir á því að vegna þess eigi börnin rétt á því að vera áfram hjá honum og sambýliskonu hans, í því góða atlæti sem þau njóti á heimili þeirra.

Stefndi segir að stefnandi sýni börnunum blíðu, en geti ekki veitt þeim það uppeldi, öryggi og reglu sem til þurfi.  Hann staðhæfir að stefnandi sé lítið til staðar og sinni því börnunum ekki nægilega þegar þau séu hjá henni.  Þá eigi stefnandi erfitt með að axla ábyrgð, en velti henni yfir á foreldra sína þegar hún sé með börnin.  Enn fremur standi hún ekki við loforð, sem skapi óöryggi hjá börnunum, en að auki eigi hún í erfiðleikum með að eiga samskipti við stefnda.  Stefndi vísar til þess að stefnandi segist lifa í gegnum börnin og því sé mögulegt að hún geri ekki greinarmun á milli sinna þarfa og þarfa barnanna.

Stefndi vísar til þess að í könnunarferli Félags- og skólaþjónustu hafi komið fram að mikið ósamræmi hafi verið á milli heimila barnanna varðandi uppeldisreglur og aðbúnað, þ.e. annars vegar hjá honum og sambýliskonu hans og hins vegar hjá stefnanda.  Hafi þar hallað á stefnanda, sem ekki hafi veitt börnunum jafnskýran uppeldisramma og hann.  Í þessu samhengi bendir stefndi sérstaklega á óboðaða heimsókn sem framkvæmd hafi verið af Félagsþjónustu [...] til stefnanda í fyrri málarekstri um forsjárdeilur.  Telur stefndi að þessi heimsókn staðfesti orð hans um að stefnandi sé ekki fær um að setja börnunum nauðsynleg mörk og að sinna grundvallarþörfum þeirra að því er varðar aðhald í skóla, hreinlæti á heimili og um hollt mataræði.  Segir stefndi að þetta sé í samræmi við reynslu hans, en að frekari staðfesting þessa hafi ekki fengist hjá félagsþjónustu þrátt fyrir beiðni hans þar um.  Til frekari stuðnings vísar stefndi til fyrri matsgerða í hinum eldri dómsmálum.  Telur stefndi að af þessu öllu megi ráða að stefnandi hafi sýnt sjálfsfegrun og ætlar að hún hafi ekki gefið raunsæja mynd af því álagi sem fylgi því að hafa hjá sér þrjú börn.  Stefndi staðhæfir að stefnandi hafi ekki getað sinnt elstu dóttur aðila, C, með fullnægjandi hætti og þ.a.l. séu engir möguleikir á því að hún geti sinnt tveimur börnum til viðbótar.  Í þessu sambandi áréttar stefndi að drengurinn A eigi við athyglisbrest að stríða.  Því þurfi að sinna honum vel og hafa utan um hann skýran uppeldisramma.  Á hinn bóginn sé dóttirin B talsvert yngri, en það kalli einnig á að utan um hennar mál sé vel haldið. Stefndi bendir sérstaklega á að eftir að málsaðilar skildu á árinu 2007 hafi stefnandi aldrei haft öll börnin lengur hjá sér en sem nemur fjórum vikum í sumarleyfi og staðhæfir hann að þá hafi hún oftast látið foreldra sína sjá um börnin á daginn á meðan hún hafi stundað vinnu.  Vegna þessa sé engin reynsla fyrir hendi um að stefnandi geti annast öll börnin í lengri tíma.

Stefndi byggir á því að við skipan forsjár beri lögum samkvæmt að líta til þess hvort að foreldri tryggi rétt barns til umgengni.  Hann staðhæfir að frá hausti 2013 hafi umgengnin hans við elstu dóttur aðila, C, verið mjög stopul og hafi stefnandi almennt ekki látið vita þegar hennar var ekki að vænta, en að auki hafi stefnandi stuðlað að minni samvistum þeirra mæðgina með öðrum hætti.  Stefndi telur sig hins vegar vera traustan og ábyrgan föður sem vilji verja miklum tíma með börnum sínum.  Bendi hann á að framlögð gögn sýni að hann veiti börnunum gott heimili, ástúð, aðhald og festu og styðji þau þannig til að standa á eigin fótum í framtíðinni.  Jafnframt staðhæfir stefndi að sambýliskona hans sé honum traustur bakhjarl við uppeldi barnanna.

Stefndi staðhæfir að samkvæmt gögnum í hinum eldri forsjármálum komi samróma álit fram hjá kennurum og sálfræðingum að drengnum, A, líði betur hjá honum og þar fái hann þann ramma og aðhald sem hann þurfi.  Á annan veg sé farið þegar drengurinn dvelji hjá stefnanda, en þá sinni hann námi sínu verr og eigi það til að strjúka úr skólanum.  Hið sama hafi í raun gilt um elstu dóttur málsaðila, C, en við flutning var til þess vísað að hún hefði ekkert farið í skólann á vorönn 2015.

Stefndi vísar til þess að hann hafi byggt upp fallega fjölskyldu með sambýliskonu sinni og eigi börn hans, A og B, nú tvö hálfsystkini, sem einnig séu á heimilinu.  Hann byggir á því að A og B eigi rétt á því að taka þátt í venjulegu heimilishaldi og þeirri samveru og samstöðu sem því fylgi.  Í þessu samhengi vísar hann til þess að í mati dómkvadds matsmanns frá árinu 2010 komi fram sláandi munur á þeim anda sem ríki á milli barnanna eftir því hvort þau hafi verið í umsjón stefnanda eða hjá honum.  Hjá honum hafi ríkt kátína og mikið jákvætt samspil milli systkinanna, en slíku hafi ekki verið fyrir að fara á heimili stefnanda.

Stefndi byggir á því að af öllum fyrirliggjandi gögnum megi ráð að það sé augljóslega börnunum A og B fyrir bestu að honum verði falin forsjá þeirra, en þannig verði framtíðarheill þeirra best tryggð.  Engir óvissuþættir séu til staðar varðandi þann aðbúnað sem börnin njóti á heimili hans og sambýliskonunnar.  Þá sýni forsaga málsins glögglega að hjá honum fái börnin það sem þau eigi kröfu á varðandi aðbúnað, ástúð og festu í uppeldinu.

Að því er varðar aðrar kröfu hans í málinu, vara og þrautavarakröfur, vísar hann til þess sem hér að ofan var rakið, en jafnframt bendir hann á að verði gerð breyting á, t.a.m. á lögheimili, verði það gríðarleg röskun fyrir börnin A og B og þá til hins verra.

Stefndi krefst þess að dómurinn ákvarði um inntak umgengnisréttar og fer fram á að hann verði með líkum hætti á hvorn veginn sem málið fari.  Þar um leggur hann tilteknar tillögur fram um umgengni aðra eða þriðju hverju helgi, en því til viðbótar umgengni í skólaorlofum, um hátíðisdaga og í sumarleyfum.

Um lagarök vísar stefndi til V. kafla barnalaga nr. 76, 2003, einkum 34. gr., sbr. 28. gr. og 53. og 57. gr.  Að því er varðar málskostnað vísar stefndi til XXI. kafla laga nr. 91, 1991, en um virðisaukaskatt til laga nr. 50, 1988.

VII.

Fyrir dómi gáfu málsaðilar aðilaskýrslur, en vitnaskýrslur gáfu E, unnusti stefnanda, D sambýliskona stefnda, J, vinkona stefnanda og K, þroskaþjálfi og heimilisvinur stefnda. Einnig staðfesti, eins og hér að framan var rakið, hinn dómkvaddi matsmaður skýrslu sína og svaraði spurningum um einstaka þætti hennar.

Eins og áður er fram komið tókst undir rekstri þessa máls sátt með málsaðilum um forsjá og lögheimili, en einnig um umgengni stúlkunnar C, en hún er nú 15 ára.  Í sáttinni segir að í samræmi við vilja stúlkunnar verði lögheimili hennar, a.m.k. fyrst um sinn og meðan hún lýkur grunnskólanámi, áfram hjá stefnanda, en að það verði endurskoðað vorið 2016.  Þá er í sáttinni kveðið á um að aðilar fari sameiginlega með forsjá stúlkunnar, en einnig eru ákvæði um önnur mikilsverð atriði, sem taka mið af vanda hennar og væntanlegri aðgerðaráætlun því tengdu.  Um umgengni stúlkunnar við stefnda segir í sáttinni að hún skuli að lágmarki vera einu sinni í mánuði, en einnig er kveðið á um hátíðar- og sumarumgengni.  Nánar er kveðið á um önnur atriði, þ. á m. um að stefndi beri kostnað af umgengninni, um upplýsingastreymi um málefni stúlkunnar og um bætt samskipti á milli aðila.

Endanlegur ágreiningur málsaðila í málinu er um forsjá, lögheimili og umgengni og meðlagsgreiðslur vegna barnanna A, sem er tæplega 12 ára, og B, sem er 10 ára.

Samkvæmt 2. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76, 2003 skal í dómi ákveða hvernig forsjá og lögheimili barns er háttað eftir því sem því er fyrir bestu.  Skal dómur líta m.a. til hæfis foreldris, stöðugleika í lífi barns, tengsla barns við báða foreldra, skyldu þeirra til að tryggja rétt barns til umgengni, hættu á að barnið, foreldrar eða aðrir á heimili hafi orðið eða verði fyrir ofbeldi og vilja barns að teknu tilliti til aldurs og þroska.  Er hér um grundvallarreglu barnaréttar að ræða.

Við meðferð málsins fyrir dómi tjáðu börnin A og B sig um málefni sín, en það gerðu þau einnig við gerð matsskýrslu hins dómkvadda matsmanns.

Samkvæmt matsgerð og vætti matsmanns fyrir dómi eru báðir málsaðilar hæfir til að fara með forsjá nefndra barna, A og B, og verður það lagt til grundvallar við úrlausn ágreinings þeirra um forsjá og lögheimili, en einnig um aðra þá þætti sem hér eru til úrlausnar

Fyrir liggur að báðir aðilar hafa sterk og jákvæð tengsl við börn sín, A og B, en þau hafa farið sameiginlega með forsjá þeirra allt frá skilnaði árið 2007.  Að áliti dómsins sýnir þetta, eins og við var að búast, að börnunum þykir vænt um foreldra sína og hafa þau sýnt vilja til að búa hjá þeim báðum.  Af gögnum verður ráðið að málsaðilar hafi báðir styrkt stöðu sína sem foreldrar undanfarin ár.  Þá má ætla að betur muni takast til um samskipti þeirra á næstunni, m.a. í ljósi fyrrnefndrar réttarsáttar þeirra um dótturina C.  Verður að telja að aðilum sé báðum ljóst að það eru mjög ríkir hagsmunir fyrir börn þeirra, miðað við það sem á undan hefur gengið, að þeir eigi betri og uppbyggilegri samskipti sín á milli en verið hefur og þá um atriði sem varðar velferð allra barna þeirra.

Samkvæmt 31. gr. barnalaga, sbr. 1. gr. laga nr. 69, 2006, fara foreldrar sameiginlega með forsjá barna sinna eftir skilnað og slit sambúðar nema annað sé ákveðið.  Skulu foreldrar ákveða hjá hvoru þeirra barn skuli eiga lögheimili.

Fyrir liggur að í kjölfar fyrri málaferla og endurtekinna réttarsátta málsaðila hefur drengurinn A verið með lögheimili hjá stefnda allt frá árinu 2008.  Með réttarsátt aðila á árinu 2011 var ákveðið að það sama skyldi gilda um stúlkuna B.  Hefur stefndi og sambýliskona hans, D, þannig verið aðalumönnunaraðilar nefndra barna í nokkur ár.

Lengst af bjuggu aðilar í sama sveitarfélagi, [...], en veruleg breyting varð þar á er stefndi flutti ásamt fjölskyldu sinni, þ. á m. börnunum A og B, til [...] sumarið 2014, sbr. að því leyti ákvæði 1. mgr. 28. gr. a barnalaga.

Samkvæmt matsskýrslu, sem er í samræmi við önnur gögn eru sterk og jákvæð tengsl milli A og B og nefndrar sambýliskonu stefnda, en hún hefur komið að uppeldi þeirra í mörg undanfarin ár.  Af gögnum verður ráðið að stefndi og sambýliskona hans hafi á hinum nýja vettvangi, líkt og áður, komið til móts við þroska barnanna með því að fylgja eftir námi þeirra, tómstundum og tilfinningalegum þörfum.  Og þrátt fyrir að nokkuð sé um liðið verður að áliti dómsins ekki litið fram hjá forsögu málsins og gögnum, sem vísa til þess að heimili stefnda hafi gengið betur að ráða við uppeldishlutverkið heldur en stefnanda, sbr. það sem að nokkru var rakið í II.- IV. kafla hér að framan.  Í því samhengi verður að áliti dómsins ekki horft fram hjá því að drengurinn A hefur vegna persónugerðar sinnar ríka þörf fyrir mikla aðstoð og eftirfylgni við alla umhirðu og skipulag.  Samkvæmt skýrslu matsmanns og öðrum gögnum, sem einnig eru í samræmi við vitnisburð K, þroskaþjálfa, virðast þessi mikilvægu atriði í góðu lagi á núverandi heimili stefnda, þrátt fyrir nokkra hnökra í byrjun búsetunnar á [...].

Af gögnum verður ráðið að stúlkunni B hafi mörg undanfarin ár farnast vel í leik og starfi og þá einnig á síðasta skólaári eftir að hún fluttist búferlum til [...].

Daglegt líf barnanna virðist samkvæmt framansögðu í góðum skorðum og liggur fyrir að ekki verður rask á högum þeirra við óbreytt ástand.  Börnin eru þannig hluti af fjölskyldu sem þau hafa tilheyrt í mörg ár, en að auki hafa nýverið bæst við tvær hálfsystur þeirra.  Börnin virðast búa við festu og öryggi og er eftir atvikum mikilsvert að þau fái að festa betur rætur í hinu nýja umhverfi.

Af gögnum verður ráðið að stefnandi hafi sinnt uppeldishlutverki sínu vel gagnvart börnunum A og B hin síðustu ár miðað við aðstæður.  Þá liggur fyrir að hún á gott bakland í stórfjölskyldu sinni í [...] þar sem börnin hafa lengst af dvalið.  Það er álit dómsins, m.a. í ljósi vitnisburðar matsmanns, að vilji A til að vera meira í [...] tengist fremur því að hann vilji verja meiri tíma þar, og tengist því ekki endilega ósk hans um að flytjast af heimili stefnda.

Samkvæmt skýrslum málsaðila fyrir dómi var það eindregin vilji þeirra að A og B verði búsett á sama stað.  Samkvæmt vitnisburði matsmanns er það fyrirkomulag farsælast fyrir börnin.  Dómurinn tekur undir þetta, en af gögnum verður m.a. ráðið að börnin séu nátengd, en auk þess virðist A treysta mjög á systur sína, B. 

Að framangreindu virtu og í ljósi grundvallarreglu barnaréttar um að þarfir og hagsmunir barns ráði því, en ekki hagsmunir foreldranna eða annarra ættingja, hverjum verður falin forsjá og/eða lögheimili þá er það niðurstaða dómsins að það þjóni framtíðarhagsmunum systkinanna A og B betur að sú skipan mála haldist sem nú ríkir.  Það er því niðurstaða dómsins að þau verði með lögheimili hjá föður sínum, stefnda.  Enn fremur er það niðurstaðan dómsins, m.a. í ljósi langvarandi ágreinings aðila, að þau lúti bæði forsjá föður síns.  Verður því að þessu leyti að hafna dómkröfum stefnanda.

Í ljósi ofangreindrar niðurstöðu dómsins skal stefnandi greiða einfalt meðlag með A og B eins og það er ákveðið hjá Tryggingastofnun ríkisins til fullnaðs átján ára aldurs, eins og segir í dómsorði.

Af hálfu málsaðila er gerð krafa um að kveðið verði á um inntak umgengnisréttar.  Í því efni er til þess að líta að við meðferð málsins hafa málsaðilar, hvor um sig, vísað til vilja barna sinna, A og B, um að umgengni þeirra verði breytt og þá þannig að hún verði aukin miðað við það sem ákveðið var í sáttagjörð þeirra frá 27. apríl 2011.  Aðilar staðhæfa að það fyrirkomulag sem komið var á með sáttinni hafi vegna breyttra aðstæðna og þá einkum vegna búferlaflutnings stefnda og fjölskyldu hans sumarið 2014 valdið börnunum erfiðleikum, enda sé nú langt á milli heimila þeirra.  Í þessu samhengi er að áliti dómsins einnig til þess að líta að eins og nú er komið hafa börnin takmarkaða samveru við stefnanda og móðurfjölskyldu sína.  Að öllu þessu virtu, en einnig með hliðsjón af matsskýrslu hins dómkvadda matsmanns, er það niðurstaða dómsins að farsælast sé að miðað verði við að hin reglubundna umgengni barnanna við stefnanda fari fram á þriggja vikna fresti, eins og nánar greinir í dómsorði.  Þar kunna málsaðilar hins vegar að finna annan flöt á síðar meir, enda hafa þeir að áliti dómsins báðir heilbrigða sýn á barnauppeldi, á sjálfa sig sem uppalendur og á þarfir barna sinna.  Að áliti dómsins er að því leyti mikilvægt að umgengni barnanna taki a.m.k að nokkru mið af skólagöngu, og falli reglubundin skólaleyfi innan vetrar saman við umgengnina þykir rétt að ákveða að hún skuli þá eftir atvikum lengjast sem því nemur.  Um umgengni um páska, jól og áramót fer eins og í dómsorði greinir.  Að því er varðar umgengni í sumarleyfum barnanna skal henni hagað þannig að þau verði hvor um sig í fimm vikur hjá hvorum málsaðila.  Rétt þykir að stefnandi kveði á um það tímabil og geri stefnda það kunnugt með sannanlegum hætti fyrir 1. apríl 2016, en árið 2017 verði farið að ósk stefnda þar um, enda geri hann stefnanda orð um það fyrir 1. apríl og svo koll af kolli.  Ákvæði um umgengni um hátíðar og í sumarleyfi upphefja ákvæði um reglulega umgengni.

Líkt og atvikum er háttað er það niðurstaða dómsins að kostnað vegna umgengninnar greiði aðilar að jöfnu.

Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91, 1991 þykir eftir atvikum rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.

Fyrir uppkvaðningu dómsins var gætt ákvæða 115. gr. laga nr. 91, 1991.

Dóm þennan kveða upp Ólafur Ólafsson héraðsdómari, dr. Rúnar Helgi Andrason sálfræðingur og Eyrún Kristína Gunnarsdóttir sálfræðingur.

D Ó M S O R Ð :

Felld er úr gildi réttarsátt aðila frá 27. apríl 2011 um sameiginlega forsjá og umgengni málsaðila með börnum þeirra A og B.

Forsjá og lögheimili systkinanna A og B skal vera hjá stefnda.

Stefnandi skal greiða stefnda einfalt meðlag með A og B frá dómsuppsögudegi til átján ára aldurs þeirra, eins og það er ákveðið hverju sinni af Tryggingastofnun ríkisins.

Regluleg umgengni A og B skal vera frá fimmtudegi til mánudags þriðju hverja helgi.  Upphaf umgengni skal miðast við að börnin fari til umgengnisforeldris eftir skóladag á fimmtudegi en verði komin heim til forsjár- og lögheimilisforeldris fyrir klukkan 21:00 á mánudegi.

Börnin skulu njóta umgengni við aðila önnur hver jól og önnur hver áramót, líkt og málsaðilar ákveða.  Hið sama gildir um umgengni barnanna við málsaðila um páska.  Þá skulu þau njóta sumarumgengni við hvorn málsaðila í fimm vikur og skal dagsetning skiptanna ákveðin eigi síðar en 1. apríl ár hvert.  Regluleg umgengni fellur niður á meðan á umgengni barnanna í sumarfríi stendur.

Kostnað vegna umgengninnar greiði aðilar að jöfnu.

Málskostnaður fellur niður.