Hæstiréttur íslands
Mál nr. 162/2009
Lykilorð
- Veðsetning
- Tryggingarbréf
- Kröfugerð
- Málskostnaður
|
|
Fimmtudaginn 17. desember 2009. |
|
Nr. 162/2009. |
Sigríður Ágústa Gunnlaugsdóttir og Þórður Jón Sæmundsson (Bjarni Þór Óskarsson hrl.) gegn Byr sparisjóði (Jón Auðunn Jónsson hrl.) |
Veðsetning. Tryggingabréf. Kröfugerð. Málskostnaður.
Einkahlutafélag gaf út tryggingarbréf til tryggingar skuldum við B, allt að fjárhæð 20.000.000 króna. Með skjalinu var veittur 3. veðréttur í fasteign sem var þinglesin eign Þ og eiginkonu hans S. Þ og S rituðu bæði undir bréfið en S aðeins í reit sem bar yfirskriftina, „Samþykki maka þinglýst eiganda“. Deildu aðilar nú um það hvort eignarhluti S hefði jafnframt verið settur að veði. Talið var að feitletrað orðalag í meginmáli tryggingarbréfsins um að einbýlishúsið Smyrlahrauni 15, Hafnarfirði væri hin veðsetta eign, styddi þá skýringu að veðréttinum hefði ekki aðeins verið ætlað að ná til eignarhluta Þ heldur allrar eignarinnar með hluta S. Yrði að telja að það hefði þeim báðum verið ljóst eða mátt vera ljóst, enda hefðu þau ekki hreyft neinum mótmælum við veðsetningunni fyrr en innheimta skuldarinnar hófst. Var því litið svo á að með undirskrift S á bréfið hefði hún ekki aðeins verið að skrifa undir sem maki Þ heldur einnig sem eigandi veðsins og með því samþykkt veðsetninguna fyrir sitt leyti. Því hefði S þurft að gera fyrirvara ef til hefði staðið að undirskilja hennar eignarhluta. Var viðurkenningarkrafa B um stofnun veðréttarins tekin til greina.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 7. apríl 2009. Þau krefjast þess nú að hinum áfrýjaða dómi verði breytt á þann veg að staðfest verði að veðréttur hafi aðeins stofnast í helmingseignarhluta áfrýjandans Þórðar Jóns Sæmundssonar í fasteigninni nr. 15 við Smyrlahraun í Hafnarfirði, fastanúmer 207-9100, með tryggingarbréfi útgefnu 30. desember 2005 af Skorradal ehf. til tryggingar skuldum útgefanda við stefnda, að fjárhæð allt að 20.000.000 krónur. Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms á þann veg að með framangreindu tryggingarbréfi hafi stofnast veðréttur í eignarhlutum áfrýjenda beggja í framangreindri fasteign. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Áfrýjun héraðsdóms tekur aðeins til endurskoðunar á því ákvæði dómsins sem snertir staðfestingu á veðrétti í fasteign áfrýjenda að Smyrlahrauni 15, Hafnarfirði, og ákvörðun málskostnaðar til stefnda úr þeirra hendi.
Við flutning málsins fyrir Hæstarétti upplýstu málsaðilar að hin veðsetta fasteign hefði verið seld nauðungarsölu 27. nóvember 2008. Hefði stefndi orðið hæstbjóðandi. Við úthlutun á söluverði eignarinnar hefði verið lögð til hliðar fjárhæð til hagsbóta fyrir áfrýjendur ef Hæstiréttur féllist í þessu máli á kröfu þeirra. Aðalréttarágreiningur aðila væri í reynd óbreyttur og snerist nú eingöngu um hvort stofnast hefði með tryggingabréfinu 30. desember 2005 veðréttur í íbúðinni að Smyrlahrauni 15, Hafnarfirði, í heild eða einungis helmingseignarhluta áfrýjanda Þórðar Jóns. Af þessu tilefni breyttu málsaðilar kröfum sínum í þá veru sem fyrr greinir. Efnislega eru þetta sömu kröfur og fyrr og verður því fallist á að unnt sé að dæma málið á grundvelli hinna breyttu dómkrafna.
Stefndi hefur lagt fram í Hæstarétti afrit tilkynningar Sparisjóðs Hafnarfjarðar 14. mars 2006 til áfrýjandans Sigríðar Ágústu Gunnlaugsdóttur um tryggingabréf „með veði í eign þinni Smyrlahraun 15, íbúð 01 0101, ... Hafnarfjörður“, eins og komist er að orði, en áfrýjendur höfðu við upphaf aðalmeðferðar í héraði lagt fram afrit sams konar tilkynningar til áfrýjandans Þórðar Jóns.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um hinn umdeilda veðrétt á þann hátt sem í dómsorði greinir.
Ágreiningur málsaðila stafar af vafa við skýringu á efni tryggingarbréfs sem stefndi útbjó í starfsemi sinni sem fjármálafyrirtæki. Með hliðsjón af því og með vísan til 3. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti felldur niður.
Dómsorð:
Staðfest er að með tryggingabréfi 30. desember 2005, útgefnu af Skorradal ehf., fyrir fjárhæð allt að 20.000.000 krónur, hafi stofnast 3. veðréttur í fasteign að Smyrlahrauni 15 í Hafnarfirði, sem þá var þinglesin eign áfrýjenda Þórðar Jóns Sæmundssonar og Sigríðar Ágústu Gunnlaugsdóttur, til tryggingar skuldum Skorradals ehf. við stefnda, Byr sparisjóð.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 26. mars 2009.
Mál þetta var þingfest 3. september 2008 og tekið til dóms 26. febrúar sl. Stefnandi er Byr sparisjóður, Borgartúni 18, Reykjavík, en stefndu eru Skorradalur ehf., Smyrlahrauni 15, Hafnarfirði, Þórður Jón Sæmundsson og Sigríður Ágústa Gunnlaugsdóttir, sama stað, og Gunnar Ingi Gunnarsson, Grænuhlíð 66, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefnda Skorradal ehf. verði gert að greiða 241.375,80 svissneska franka og 24.244.529,00 japönsk jen með dráttarvöxtum frá 11. febrúar 2008 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi þess að honum verði heimilað að færa dráttarvexti á höfuðstól skuldarinnar á 12 mánaða fresti, í fyrsta skipti 11. febrúar 2009.
Stefnandi krefst þess að staðfestur verði veðréttur hans samkvæmt veðtryggingarbréfi, útgefnu 30. desember 2005, allsherjarveði tryggðu upphaflega með 3. veðrétti og uppfærslurétti í Smyrlahrauni 15, Hafnarfirði, af höfuðstól 20.000.000 króna.
Þá krefst stefnandi þess að staðfestur verði veðréttur hans samkvæmt veðtryggingarbréfi, útgefnu 30. desember 2005, allsherjarveði tryggðu upphaflega með 4. veðrétti og uppfærslurétti í Marteinslaug 14, 0202, Reykjavík, að höfuðstól 10.000.000 króna.
Stefnandi krefst málskostnaðar úr hendi stefndu.
Af hálfu stefnda Gunnars Inga Gunnarssonar og Skorradals ehf. hefur ekki verið tekið til varnar.
Stefndu Þórður Jón Sæmundsson og Sigríður Ágústa Gunnlaugsdóttir krefjast sýknu í málinu og málskostnaðar.
I.
Skuld stefnda Skorradals ehf. við stefnanda er tilkomin vegna lánssamnings frá 11. júlí 2007, upphaflega að fjárhæð 23.000.000 króna og var helmingurinn greiddur út í svissneskum frönkum og hinn helmingurinn í japönskum jenum. Lánið skyldi greiðast með 300 afborgunum á eins mánaðar fresti í fyrsta skipti 10. ágúst 2007, og bera LIBOR-vexti eins og þeir ákvarðast fyrir viðkomandi gjaldmiðil hverju sinni, að viðbættu 3,20% vaxtaálagi. Þann 10. desember 2007 var gerð skilmálabreyting á lánssamningnum þannig að nýr höfuðstóll varð 238.995,95 svissneskir frankar og 24.073.638,00 japönsk jen sem skyldi greiðast með 300 afborgunum á eins mánaðar fresti, í fyrsta skipti 10. febrúar 2008. Lánssamningurinn fór í vanskil á þeim degi.
Tvö tryggingarbréf voru gefin út til tryggingar ofangreindri skuld. Fyrra tryggingarbréfið er samkvæmt efni sínu gefið út af stefnda Skorradal ehf. þann 30. desember 2005. Það er sagt til tryggingar skuldum sem útgefandi þá eða síðar kunni að standa í við Sparisjóð Hafnarfjarðar, nú stefnanda málsins, allt að fjárhæð 20.000.000 króna. Með skjalinu er veittur 3. veðréttur í fasteigninni Smyrlahraun 15, íbúð 010101, bílskúr 020101, Hafnarfirði. Fyrir hönd stefnda Skorradals ehf. rita stefndu Þórður Jón Sæmundsson og Gunnar Ingi Gunnarsson undir skjalið. Óumdeilt er í málinu að á þeim tíma er hér um ræðir var umrædd fasteign, sem er einbýlishús með bílskúr, í eigu stefndu Sigríðar Ágústu og Þórðar Jóns og áttu þau helmingshlut hvort. Stefndi Þórður ritaði undir skjalið í reit sem ber yfirskriftina: „Samþ. framangreinda veðsetningu sem þinglesinn eigandi.“ Stefnda Sigríður skrifaði þar fyrir neðan í reit sem ber yfirskriftina: „Samþ. maka þinglýsts eiganda.“
Í annan stað liggur fyrir í málinu tryggingarbréf með sömu skilmálum og sama útgáfudegi og fyrra bréfið. Það er að fjárhæð 10.000.000 króna og hvílir á 4. veðrétti á eigninni Marteinslaug 14, íbúð 040202, Reykjavík, einnig til tryggingar skuld stefnda Skorradals ehf. við Sparisjóð Hafnarfjarðar, nú stefnanda. Undir tryggingarbréfið rita stefndu Þórður Jón og Gunnar Ingi f.h. stefnda Skorradals ehf. Þá ritar stefndi Gunnar Ingi einnig undir skjalið sem þinglýstur eigandi hinnar veðsettu eignar. Eins og áður sagði hefur stefndi Gunnar Ingi ekki tekið til varnar í málinu og hefur kröfum stefnanda um staðfestingu á veðrétti samkvæmt þessu tryggingarbréfi því ekki verið mótmælt.
Stefndi Þórður Jón sagði í skýrslu sinni fyrir dómi að það hafi staðið til af hans hálfu að veðsetja aðeins sinn eignarhluta í fasteigninni. Á sama hátt sagði Sigríður Ágústa að hún hafi talið sig vera að veðsetja einungis sinn eignarhluta.
II.
Í málinu krefst stefnandi greiðslu samkvæmt framangreindum lánssamningi. Vísar stefnandi í því sambandi til almennra reglna kröfuréttar um skyldu til greiðslu fjárskuldbindinga. Kröfu sína um staðfestingu á veðréttum samkvæmt fyrrgreindum tryggingarbréfum styður stefnandi þeim rökum að honum sé nauðsyn á að fá veðréttinn staðfestan til að geta boðið upp fasteignina Smyrlahraun 15, Hafnarfirði, og íbúð að Marteinslaug 14, Reykjavík, til lúkningar stefnukröfu. Stefndu Þórður Jón og Sigríður Ágústa séu þinglýstir eigendur að Smyrlahrauni 15 en stefndi Gunnar Ingi þinglýstur eigandi að íbúð að Marteinslaug 14, Reykjavík.
Varnir stefndu Þórðar og Sigríðar byggjast í fyrsta lagi á því að nafn Sigríðar kom ekki fram á fyrirkalli á bakhlið stefnu. Í öðru lagi komi ekki fram í málavaxtalýsingu í stefnu á hvaða forsendu stefndu Sigríður og Þórður þurfi að þola umbeðna staðfestingu á veðrétti. Í þriðja lagi ber að líta til þess að stefnda Sigríður tengist stefnda Skorradal ehf. ekkert. Hún sé skráður eigandi helmingshlutar í fasteigninni Smyrlahraun 15, Hafnarfirði. Hún hafi undirritað tryggingarbréfið sem maki stefnda Þórðar en ekki sem þinglesinn eigandi. Hún hafi því ekki heimilað veðsetningu á sínum eignarhluta og þurfi því ekki að þola staðfestingu veðréttar samkvæmt tryggingarbréfinu. Gera verði þá kröfu til stefnanda, sem hafi útbúið tryggingarbréfið og hafi sérfræðinga á þessu sviði í þjónustu sinni, að það komi skýrt fram í tryggingarbréfinu ef ætlunin hafi verið að veðsetningin næði einnig til hennar hlutar í fasteigninni.
III.
Fallast ber á kröfu stefnanda um að stefndi Skorradalur ehf. greiði stefnanda umkrafða skuld eins og nánar greinir í dómsorði. Hefur þeirri kröfu ekki verið mótmælt og er krafan í samræmi við framlögð skjöl og skilríki. Krafa stefnanda um staðfestingu á veðrétti samkvæmt framangreindu tryggingarbréfi, upphaflega með 4. veðrétti í Marteinslaug 14, 0202, Reykjavík, að höfuðstól 10.000.000 króna er einnig tekin til greina. Hefur þeirri kröfu ekki verið mótmælt og er hún í samræmi við framlögð skjöl málsins.
Ekki verður fallist á þá málsástæðu stefndu Sigríðar og Þórðar, sem einnig er byggt á varðandi frávísunarkröfu þeirra í málinu, að það varði sýknu að nafn hennar féll niður í fyrirkalli á bakhlið stefnu. Kemur sú málsástæða ekki til álita þar sem mætt var af hennar hálfu við þingfestingu málsins og tekið til varnar. Þá þykja nægilega framkomin í stefnu rök stefnanda og sjónarmið fyrir því hvers vegna stefndu Sigríður og Þórður þurfi að þola staðfestingu á veðrétti, en stefndu byggja sýknukröfu sína einnig á því að brestur sé á því í málatilbúnaði stefnanda.
Meginvörn stefndu Sigríðar er að hún hafi ekki undirritað skjalið sem veðsali heldur aðeins sem maki Þórðar. Fyrir liggur að þau áttu eignina Smyrlahraun 15, Hafnarfirði, í óskiptri sameign og átti hvort þeirra helmingshlut. Í meginmáli tryggingarbréfsins er feitletrað að veðsett sé eignin „Smyrlahraun 15, íbúð 010101, bílsk. 020101, Hafnarfjörður“, sem er einbýlishús. Þetta orðalag styður þá skýringu að veðréttinum hafi ekki aðeins verið ætlað að ná til eignarhluta Þórðar heldur allrar eignarinnar og þar með hlutar Sigríðar. Talið verður að stefndu báðum hafi verið þetta ljóst eða mátt vera ljóst, enda hreyfðu þau engum mótmælum við veðsetningunni fyrr en innheimta skuldarinnar hófst. Verður litið svo á að með undirskrift sinni undir tryggingarbréfið hafi Sigríður ekki einvörðungu verið að skrifa undir sem maki Þórðar heldur einnig sem eigandi veðsins og með því samþykkt veðsetninguna fyrir sitt leyti. Með undirskrift sinni gaf Sigríður gilt loforð um veðsetninguna og hefði hún þurft að gera fyrirvara ef til hefði staðið að undanskilja hennar eignarhluta í sameign stefndu.
Þau sjónarmið stefndu að bréfin hafi verið útbúin af bankastofnun, sem hafi sérfræðinga á þessu sviði og skjöl frá slíkri stofnun eigi að vera nákvæm og skýr, hagga ekki framangreindri niðurstöðu.
Þá haggar heldur ekki þessari niðurstöðu samkomulag um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga sem bankar, sparisjóðir og stjórnvöld gerðu 1. nóvember 2001 en sjónarmiðum í þá veru var hreyft í málflutningi. Þetta samkomulag nær einungis til skulda einstaklinga en ekki fyrirtækja eins og háttar í þessu máli.
Framangreint tryggingarbréf verður því talin gild veðsetning af hálfu stefndu Þórðar og Sigríðar.
Samkvæmt öllu framansögðu verður fallist á kröfu stefnanda að öllu leyti. Eftir þessari niðurstöðu verða stefndu Skorradalur ehf., Þórður Jón Sæmundsson og Sigríður Ágústa Gunnlaugsdóttir, dæmd til að greiða málskostnað. Verður stefndi Skorradalur ehf. dæmdur til að greiða stefnanda 700.000 krónur í málskostnað og stefndu Þórður Jón og Sigríður Ágústa dæmd til að greiða stefnanda 120.000 krónur í málskostnað. Í báðum tilvikum er tekið tillit til reglna um virðisaukaskatt.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
Dómsorð
Stefndi, Skorradalur ehf., greiði stefnanda, Byr sparisjóði, 241.375,80 svissneska franka og 24.244.529,00 japönsk jen með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 11. febrúar 2008 til greiðsludags.
Staðfestur er 3. veðréttur í fasteign stefndu, Þórðar Jóns Sæmundssonar og Sigríðar Ágústu Gunnlaugsdóttur, að Smyrlahrauni 15, Hafnarfirði, fasteignamatsnúmer 207-9100, samkvæmt tryggingarbréfi, útgefnu 30. desember 2005 af stefnda, Skorradal ehf., að fjárhæð allt að 20.000.000 króna, til tryggingar skuldum útgefanda við stefnanda.
Staðfestur er 4. veðréttur í fasteign stefnda, Gunnars Inga Gunnarssonar, að Marteinslaug 14, 0202, Reykjavík, samkvæmt tryggingarbréfi, útgefnu 30. desember 2005, af stefnda Skorradal ehf., til tryggingar skuldum útgefanda við stefnanda allt að fjárhæð 10.000.000 króna.
Stefndi Skorradalur ehf. greiði stefnanda 700.000 krónur í málskostnað.
Stefndu Þórður Jón Sæmundsson og Sigríður Ágústa Gunnlaugsdóttir greiði stefnanda 120.000 krónur í málskostnað.