Hæstiréttur íslands
Mál nr. 169/2003
Lykilorð
- Gæsluvarðhald
- Skaðabótamál
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 13. nóvember 2003. |
|
Nr. 169/2003. |
Þórlaug Erna Ólafsdóttir (Sigurmar K. Albertsson hrl.) gegn íslenska ríkinu (Guðrún Margrét Árnadóttir hrl.) |
Gæsluvarðhald. Skaðabótamál. Gjafsókn.
Þ var handtekin vegna gruns um sölu fíkniefna. Við leit í bifreið og á heimili hennar fannst nokkurt magn ætlaðra fíkniefna auk áhalda til fíkniefnaneyslu og minnisbóka. Var Þ úrskurðuð í 10 daga gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna, sbr. a. lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Við frekari rannsókn kom í ljós að magn fíkniefna sem fannst á heimilinu var mun minna en ætlað var í upphafi. Þ var í opinberu máli sakfelld fyrir að hafa haft vörslur á tilgreindum fíkniefnum en sýknuð af ákæru um sölu þeirra. Í málinu krafðist Þ bóta vegna ólögmætrar frelsissviptingar, rangra sakargifta og mannorðsmissis. Í héraðsdómi, sem Hæstiréttur staðfesti með vísan til forsendna hans, var talið að með hliðsjón af því að Þ hafi verið fundin sek um vörslur á amfetamíni og hassi, framburði vitna um meinta viðtöku hennar, neyslu og sölu á fíkniefnum og upplýsingum í minnisbókum Þ, sem veitt hafi sterkar grunsemdir um dreifingu á fíkniefnum og Þ hafi ekki gefið trúverðugar skýringar á, þætti ekki unnt að fallast á með henni að ekki hafi verið nægilegt tilefni til að hneppa hana í gæsluvarðhald. Í þágu rannsóknarinnar hafi þurft að taka skýrslur af fjölmörgum vitnum og afla gagna og hafi rannsóknin staðið fram á síðasta dag gæsluvarðhaldsins. Var því ekki fallist á að gæsluvarðhaldsvist Þ hafi staðið lengur en nauðsynlegt hafi verið. Ekki þótti heldur sýnt fram á að aðgerðir lögreglu hafi verið framkvæmdar á óþarflega hættulegan, særandi og móðgandi hátt. Þótt Þ hafi einungis verið sakfelld fyrir vörslur á litlu magni fíkniefna væri ekki unnt að líta svo á að hún hefði verið sýknuð í skilningi 1. mgr. 175. gr. laga nr. 19/1991 eða að hún hefði verið borin röngum sökum. Var Í sýknað af kröfum hennar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Pétur Kr. Hafstein.
Héraðsdómi var áfrýjað 7. maí 2003. Áfrýjandi krefst þess, að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 1.500.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 5. apríl 2002 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en áfrýjandi nýtur gjafsóknar á báðum dómstigum.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Til vara er þess krafist, að dómkrafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður fyrir Hæstarétti látinn falla niður.
Með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Rétt er, að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður. Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda greiðist úr ríkissjóði, eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Þórlaugar Ernu Ólafsdóttur, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, 300.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 7. febrúar 2003.
Mál þetta var höfðað 27. mars 2002, þingfest 9. apríl sama ár og dómtekið 17. desember sama ár.
Stefnandi er Þórlaug Erna Ólafsdóttir, [kt. og heimilisfang].
Stefndi er íslenska ríkið og er dómsmálaráðherra stefnt til fyrirsvars fyrir það.
Stefnandi krefst þess að íslenska ríkið verði dæmt til að greiða henni 1.500.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. laga nr. 38/2001 frá 5. apríl 2002 til greiðsludags. Þá er gerð krafa um málskostnað úr hendi stefnda eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál.
Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hennar hendi en til vara að dómkröfur verði stórkostlega lækkaðar og málskostnaður látinn niður falla.
Helstu málsatvik
Tildrög máls þessa voru þau að aðfararnótt 28. ágúst 1999 barst lögreglunni í Keflavík ábending um að stefnandi væri að selja A fíkniefni í bifreið sinni. Þau voru bæði handtekin þar sem þau voru í bifreiðinni við Bolafót í Njarðvík og færð til lögreglustöðvar. Við leit á A fannst 0,88 g af meintu amfetamíni sem hann kvað stefnanda hafa verið að selja honum.
Tekin var skýrsla af A skömmu eftir handtöku. Greindi hann frá því helgina áður hefði hann verið í samkvæmi þar sem stefnandi var stödd og hún þá tjáð honum að hún gæti útvegað honum amfetamín og gefið honum upp símanúmer sitt. Hann hafi sagt vini sínum frá þessu og hafi vinurinn síðar hringt og beðið hann um að útvega 1 g af amfetamíni. Hafi A þá hringt í GSM síma stefnanda en hún hringt til baka 10 mínútum síðar og þau mælt sér mót. Hann hafi hitt stefnanda við Hótel Kristínu og farið yfir í bifreið hennar. Á leiðinni á bensínstöð við Fitjar hafi hún afhent honum plastpoka sem innihélt amfetamín og hann greitt henni 5.000 krónur fyrir. Hún hefði síðan tekið bensín á bifreiðina og á leiðinni til baka hefði lögreglan stöðvað aksturinn og þau verið handtekin.
Í skýrslu sem tekin var af stefnanda í kjölfarið neitaði hún að hafa selt A amfetamín þá um kvöldið. Hún kvaðst hafa hitt A í Njarðvík og farið að ræða við hann. Hún hafi sagt vera á leið til að kaupa bensín og hann boðist til að koma með og aðstoða hana.
Við leit í bifreið þeirri sem stefnandi ók fundust ætluð fíkniefni ásamt öðru sem talið var geta tengst fíkniefnaneyslu og minnisbækur. Efnin fundust í gleraugnahulstri og rauðri buddu sem voru í bakpoka í aftursæti bifreiðarinnar. Samkvæmt frumprófun lögreglu var um að ræða 14 g af ætluðu amfetamíni og 2,8 g af ætluðu hassi. Við nákvæmari vigtun og prófun tæknideildar lögreglunnar í Reykjavík kom í ljós að í bifreiðinni voru 10,39 g af amfetamíni og 5,69 g af hassi.
Lögreglumenn fóru ásamt fíkniefnaleitarhundi kl. 7:35 að þáverandi heimili stefnanda að [...] og gerðu húsleit á grundvelli skriflegs samþykkis stefnanda. Við komu á staðinn var eiginmaður stefnanda Ingvi Jón Kjartansson handtekinn vegna gruns um fíkniefnamisferli og var hann viðstaddur leitina. Við húsleitina fundust meint fíkniefni víðsvegar um heimili þeirra, meint áhöld til fíkniefnaneyslu og fleira svo sem minnisbækur og minnisblöð, sem lagt var hald á.
Við frumathugun lögreglu gaf hvítt efni í grænni tedós, sem fannst í eldhúsi, væga jákvæða litasvörun gagnvart fíkniefnaprófun og amfetamínprófun. Skrap af brúnum og hörðum mola sýndi væga jákvæða svörun við hassprófun. Molinn, sem líktist mjög steini, fannst í körfu með uppvöfðum þvottapokum við inngang í eldhús. Við frumvigtun meintra fíkniefna var það niðurstaða lögreglunnar að um væri að ræða 7,5 g af meintu maríjúana, 256,5 g af meintu hassi, 7,5 g af meintri hassolíu og 165 g af meintu amfetamíni. Þar af var brúni molinn 253,5 g en hvíta efnið í tedósinni 140 g. Tæknideild lögreglunnar í Reykjavík framkvæmdi síðar prófun á umræddum efnum og leiddi hún í ljós að á heimilinu fundust 0,78 g af amfetamíni og 5,33 g af hassi. Efnið í tedósinni reyndist mjólkursykur en brúni molinn var ekki rannsakaður frekar.
Í framhaldi af húsleitinni lagði lögreglustjórinn í Keflavík fram kröfu um gæsluvarðhald yfir stefnanda, eiginmanni hennar og A. Lögregluskýrslur fylgdu kröfunum.
Krafa um gæsluvarðhald yfir stefnanda byggði á því að fram væri kominn rökstuddur grunur um að hún væri viðriðin dreifingu og sölu á fíkniefnum. Var sá grunur studdur framburði A, niðurstöðum leitar í bifreið stefnanda og á heimili hennar. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness, uppkveðnum 29. ágúst 1999, var stefnanda gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 7. september 1999 kl. 19:00 en eiginmaður hennar til 3. september. Stefnandi kærði úrskurðinn til Hæstaréttar sem staðfesti hann með dómi 3. september 1999. Krafa um gæsluvarðhald var tekin til greina á grundvelli rannsóknarhagsmuna, sbr. a-lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Féllst héraðsdómari á að fyrir lægi rökstuddur grunur um aðild stefnanda að brotum gegn lögum nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni. Fallist var á að veruleg hætta væri á því að stefnandi hefði áhrif á vitni og næði að spilla sakargögnum héldi hún óskertu frelsi.
Við fyrstu yfirheyrslu hjá lögreglu 28. ágúst viðurkenndi eiginmaður stefnanda að hafa flutt til Íslands frá Spáni 20. júní 1999 um 15 g af hassi og um 8 g af amfetamíni. Kvað hann þau efni sem fundust við leit í bifreiðinni og á heimili þeirra vera afganginn af þeim efnum og þau ætluð til eigin nota. Fljótlega eftir að heim var komið hafi hann og stefnandi skipt hassinu á milli sín og hvort um sig fengið u.þ.b. 4 gr. Hann kannaðist ekki við að hafa átt meira af efnum en gat þess að hvíta efnið í tedósinni gæti verið mjólkursykur.
Við yfirheyrslu lögreglu yfir eiginmanni stefnanda 1. september 1999 kom fram að hann hefði verið búinn að blanda 1-2 g af amfetamíninu með mjólkursykri og hefði hann þynnt efnið út til helminga eða allt að 2/3 hlutum ef hann ætlaði að nota efnið sjálfur og sett það í 1 g pakkningar. Hann kvaðst ekki hafa blandað amfetamínið sem fundist hefði í bifreiðinni og sagði stefnanda hljóta að hafa tekið það úr íbúð þeirra hjóna án hans vitundar. Hann kvaðst sem fyrr ekki hafa sett ætluð fíkniefni í bifreiðina. Við yfirheyrsluna kannaðist hann við fyrrnefndan stein og kunni ekki skýringu á því af hverju skrap af honum gaf jákvæða litasvörun við hassprófi en gat sér þess til að smitast hefði af fingrum hans.
Stefnandi var yfirheyrð 1. september kl. 20:25. Við yfirheyrslu þá bar hún á sama veg og áður varðandi samskipti hennar og A og neitaði að hafa hringt í hann fyrr um kvöldið. Hún kvaðst ekki kannast við fíkniefnin sem fundust í bakpoka í aftursæti í bifreiðinni en hallaðist helst að því að A hafi sett þau þar. Tól til fíkniefnaneyslu sem fundust í bílnum kvaðst hún ekkert vita um en kvað A eða eiginmann sinn geta átt þessa hluti. Hún kvaðst ekkert hafa vitað innflutning eiginmanns hennar á fíkniefnum fyrr en hann hafi verið stöðvaður í tollinum og þau fíkniefni tekin af honum þar. Hún kvað hann ekki hafa flutt önnur fíkniefni inn í landið. Hún kvað græna dós með hvítu efni vera mjólkursykur sem hún hefði átt í mörg ár og notað til að blanda saman við meðal sem hún gaf sonum sínum þegar þeir voru litlir. Hún kvaðst eiga veski, merkt henni og B, sem fannst við hlið hjónarúmsins og innihélt 1 g af meintu amfetamíni. Hún kvaðst ekkert vita hver hefði sett meint amfetamín í veskið. Hún kvaðst ekkert hafa vitað um fíkniefni eða áhöld sem fundust á heimili hennar eða hver hafi komið þessu fyrir en kvaðst vita til þess að Ingvi ætti stundum hassmola til eigin neyslu. Aðspurð um nöfn á aðilum sem skrifuð voru í minnisbækur sem fundust við leitina og um símtöl við þá aðila nýlega kvaðst stefnandi ekki hafa átt nein símtöl við þá nýlega.
Með úrskurðum Héraðsdóms Reykjaness l. september 1999 var fallist á kröfur lögreglu um að upplýsinga yrði aflað frá Landsímanum og Tali um símanotkun aðila málsins á ákveðnu tímabili. Í kjölfar þess voru rituð bréf 2. september. Ennfremur voru unnar upplýsingaskýrslur um ýmis skrifleg gögn er fundust við leit hjá stefnanda og talin voru geta gefið til kynna að hún legði stund á sölu fíkniefna. Leitað var til tæknideildar lögreglunnar í Reykjavík 3. september varðandi ítarlegri rannsókn á haldlögðum efnum og skilaði hún skýrslum um þau 4.-6. október 1999.
Við yfirheyrslu yfir stefnanda 4. september kvað hún það geta verið að A hefði hringt í hana í þeim tilgangi að vita hvar C væri. Hún gaf þær skýringar á nöfnum, tölustöfum og táknum í minnisbókum, sem fundust bæði við leit í bifreiðinni og heima hjá henni, að þetta væru dæmi sem hún hefði sett upp vegna þess að hún hafi ætlað að biðja þessa stráka um að lána sér fyrir kaupum á tölvu. Hún kvaðst ekki muna hvað áritun í minnisblöð; GUL, RAUÐ, GRÆN, SILFUR, þýddi en hún hafi skrifað þetta á blaðið. Hún kannaðist ekki við að tengsl væru milli þess og að fíkniefni, sem voru í bílnum, voru merkt með gulum og grænum miðum. Hún kvaðst ekki muna hvað „TRÉ" sem stóð á miðanum þýddi en kvað það hljóta að tengjast því að hún hafi ætlað að gróðursetja tré við Seltjörn. Hún kannaðist ekki við að tengsl væru milli þess og umbúða utan af meintum fíkniefnum sem mynd af tré var teiknað á.
Dagana 6. og 7. september voru teknar framburðarskýrslur af nokkrum aðilum af tilefni er fram þótti koma í gögnum frá símafyrirtækjum og gögnum er fundust hjá stefnanda. Tekin var skýrsla af stefnanda 7. september, þar sem hún var spurð út í tengsl sín við umrædda aðila framburður þeirra og borinn undir hana. Í ljós kom að á þriggja mánaða tímabili voru 1600 símtöl skráð úr og í farsíma hennar og flest þeirra til fólks sem lögregla taldi þekkt og grunað um fíkniefnaneyslu. Stefnandi tjáði sig lítið um þessi símtöl.
Stefnandi var leyst úr gæsluvarðhaldi 7. september 1999.
Ákæra var gefin út á hendur stefnanda og eiginmanni hennar 25. júní 2001 vegna brota á lögum um ávana- og fíkniefni og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Ákæruefni á hendur stefnanda voru samkvæmt II. tl. ákæru sala á 1 g af amfetamíni 28. ágúst 1999 til A og að hafa þá haft í vörslum sínum og í bifreiðinni 10,39 g af amfetamíni og 5,69 g af kannabisefni. Ákæruefni samkvæmt III. lið ákæru, á hendur báðum ákærðu, að hafa haft í vörslum sínum og á heimili 5,33 g af kannabisefni og 0,78 g af amfetamíni auk tækja til neyslu fíkniefna er fundust 28. ágúst 1999 við húsleit lögreglunnar. Ákæruefni á hendur stefnanda í IV. lið ákæru voru brot gegn umferðarlögum og lögum um ávana og fíkniefni, með því að hafa aðfaranótt föstudagsins 28. janúar 2000 ekið bifreið án þess að vera fær um að stjórna henni örugglega vegna neyslu örvandi og deyfandi efna og að hafa í vörslum sínum 1,07 g af amfetamíni. Síðasti ákæruliðurinn snertir ekki það sakarefni sem hér er til umfjöllunar.
Með dómi Héraðsdóms Reykjaness 1. október 2001 var stefnandi sýknuð af II. lið ákæru. Stefnandi var sakfelld fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni samkvæmt III. lið ákæru. Að því er varðaði IV. lið ákæru var hún sakfelld fyrir vörslur á 1,07 g af amfetamíni en sýknuð vegna brota á umferðarlögum.
Ríkislögmanni var 5. mars 2002 send bótakrafa þar sem þess var krafist að stefndi greiddi stefnanda skaðabætur vegna ólögmætrar frelsissviptingar og mannorðsmissis. Ekki var fallist á kröfuna af hálfu stefnda. Bótakrafa stefnanda sundurliðast þannig:
Bætur vegna ólögmætrar gæsluvarðhaldsvistar í 10 sólarhringa: 1.000.000 kr.
Miskabætur og bætur vegna rangra sakargifta: 500.000 kr.
Samtals: 1.500.000 kr.
Málsástæður og lagarök aðila
Stefnandi byggir á því að stefnda beri að greiða henni skaðabætur vegna ólögmætrar frelsissviptingar og rangra sakargifta. Þá byggir stefnandi á því að stefnda beri að greiða henni miskabætur vegna mannorðsmissis.
Af hálfu stefnanda er því haldið fram að eiginmaður hennar hafi strax í upphafi játað að hafa flutt til landsins smávægilegt magn fíkniefna og að það magn hafi samsvarað raunverulegu magni efna sem fundist hafi við húsleit og í bifreið.
Stefnandi byggir á því að frelsissvipting hennar og einangrun, á meðan á rannsókn ofangreinds á hendur henni stóð, hafi verið ólögmæt þar sem skilyrði gæsluvarðhalds hafi ekki verið fyrir hendi í upphafi. Þá byggir stefnandi á því að burtséð frá öllum hugleiðingum um raunverulega þörf gæsluvarðhalds í málinu liggi fyrir að litlar sem engar rannsóknaraðgerðir hafi verið framkvæmdar lengst af gæsluvarðahaldsvist stefnanda, eða allt þar til skýrslur hafi verið teknar af nokkrum aðilum 6. september 1999. Skýrslur þessar hafi engin áhrif haft á úrslit málsins.
Af hálfu stefnanda er á því byggt að lögreglan í Keflavík hafi strax við fyrstu rannsóknaraðgerðir vitað eða mátt vita að raunverulegt magn fíkniefna á heimilinu væri hverfandi. Um einkar ámælisverða hegðun hafi verið að ræða hjá lögreglu, þar sem mikilvægum staðreyndum hafi í raun verið leynt fyrir dómstólum þeim sem fjölluðu um gæsluvarðhaldskröfuna. Stefnandi og eiginmaður hennar hafi frá upphafi verið samstarfsfús og reiðubúin til að upplýsa málið. Gæsluvarðhald stefnanda hafi því ekki verið nauðsynlegt vegna rangra upplýsinga frá henni eða eiginmanni hennar. Vegna þessara atvika er stefnda skaðabótaskyldur gagnvart stefndu á grundvelli 176. gr. laga nr. 19/1991.
Stefnandi byggir jafnframt á því að hún hafi verið borin röngum sökum sem hún hafi verið sýknuð af auk þess sem hún hafi í raun sætt harðari refsingu en brotið gaf til kynna. Sú frelsissvipting sem falist hafi í gæsluvarðahaldinu hafi verið mun meiri refsing en raunveruleg brot buðu upp á. Stefnandi hafi verið sýknuð að langmestu leyti af þeim brotum sem hún hafi verið ákærð fyrir og ákæra því að hluta til byggð á röngum sakargiftum. Þá byggir stefnandi einnig á því að refsing hennar, ef hún hefði verið ákveðin, hefði orðið vægari en nemur 11 daga frelsissviptingu. Því beri að greiða stefnanda bætur vegna rangra sakargifta en ekki aðeins bætur vegna frelsissviptingar.
Stefnandi byggir á því að stefnda eigi að greiða stefnanda miskabætur vegna mannorðsmissis og atlögu gegn persónu og æru hennar samanber 26. gr. skaðabótalaga. Ásamt því að þola frelsissviptingu og gæsluvarðhald í tæplega 11 sólarhringa hafi athafnir lögreglunnar í Keflavík valdið henni verulegum miska vegna mannorðsmissis og röskunar. Strax eftir handtöku stefnanda hafi fréttamiðlar fengið upplýsingar um að stórfellt fíkniefnamisferli hefði verið upprætt af lögreglunni og að hún væri grunuð um stórfellda og langvarandi sölu fíkniefna í Keflavík og nærliggjandi bæjarfélögum. Fyrirgangur lögreglunnar á svæðinu og rannsóknarathafnir allar hafi gert það að verkum að engum hafi dulist hver hinn meinti "höfuðpaur" hins mikla fíkniefnamisferlis væri. Síðan hafi stefnandi ekki getað um frjálst höfuð strokið í sínum heimabæ og hún, og raunar öll fjölskylda hennar, orðið fyrir aðkasti og samfélagslegri höfnun.
Stefnandi byggir á því að ef eðlilega hefði verið staðið að verki af hálfu lögreglunnar í Keflavík hefðu eingöngu raunverulegar staðreyndir málsins komið fram á opinberum vettvangi og að málið hefði þá vart talist fréttnæmt. Með því að halda því fram opinberlega að á heimilinu hafi fundist 98,6% meira af fíkniefnum en raun varð á hafi lögreglan í Keflavík bakað íslenska ríkinu skyldu til greiðslu miskabóta, sbr. t.d. 26. gr. laga nr. 50/1993.
Um lagarök vísar stefnandi til meginreglna skaðabóta og refsiréttur auk meginreglna opinbers réttarfars og stjórnarskrár lýðveldisins um þvingunaraðgerðir. Þá vísar stefnandi til ákvæðar laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991, sérstaklega 175. og 176. gr. Þá vísar hann til reglna skaðabótalaga nr. 50/1993, einkum til 26. gr. um miskabætur.
Af hálfu stefnda er því mótmælt að uppfyllt sé skilyrði um bótarétt samkvæmt 176., sbr. 175 gr. laga nr. 19/1991 vegna þeirrar gæsluvarðhaldsvistar er stefnandi sætti. Staðhæfingum stefnanda um ólögmæta og saknæma háttsemi ákæruvalds og lögreglu við rannsókn málsins og ákæru, sem varða kynnu bótaskyldu samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga er mótmælt.
Af hálfu stefnanda er því haldið fram að forsögu málsins megi rekja til grunsemda lögreglunnar í Keflavík, allt frá árinu 1998, um að stefnandi stundaði umfangsmikla sölu og dreifingu fíkniefna og hún og eiginmaður hennar væru fíkniefnaneytendur.
Af hálfu stefnanda er vísað til aðdraganda handtöku stefnanda, rannsóknar málsins og þess sem hún hafi leitt í ljós. Því er haldið fram skilyrði hafi verið fyrir hendi til að hneppa stefnanda í gæsluvarðhald á grundvelli a- liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Hún hafi verið grunuð um brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni með sölu og dreifingu fíkniefna en brot á þeim geta varðað 6 ára fangelsi og þannig uppfyllt skilyrði a- liðs 1. mgr. 103. gr. um að háttsemi varði fangelsisrefsingu. Við leit í bifreið stefnanda hafi fundist talsvert magn fíkniefna og minnisbækur sem vakið hafi grun um sölustarfsemi. Þá hafi legið fyrir framburður A þess efnis að stefnandi hefði selt honum fíkniefni þau sem fundust á honum við handtökuna.
Á engan hátt fái staðist að dómstólar hafi verið blekktir af lögreglu eða ákæruvaldi varðandi magn efna við fyrirtöku gæsluvarðhaldskröfunnar. Í skýrslu um vigtun efna er fundust á heimili stefnanda, sem fylgdu gæsluvarðhaldskröfu, hafi komið skýrlega fram að hvítt efni í tedós og harður brúnn moli, er líktist steini, hafi gefið væga svörun við fíkniefnaprófun. Af hálfu stefnda er því haldið fram að sterkar líkur séu á að sú blöndunarstarfsemi, sem eiginmaður stefnanda bar um við yfirheyrslu 1. september 1999, sé skýringin á því að efnið í dósinni gaf væga jákvæða svörun sem amfetamín við frumathugun lögreglu og að smitast hafi efni á stein í meðförum hans.
Því er haldið fram af hálfu stefnda að rannsókn á meintri dreifingu og sölu stefnanda á fíkniefnum, öflun gagna því tengd að fengnum úrskurðum dómstóla, könnun þeirra og yfirheyrsla vitna hafi verið hraðað eftir föngum. Hafi stefnanda mátt vera ljóst mikilvægi þess að skýra greiðlega og undanbragðalaust frá og þannig að unnt væri að afla staðfestinga á að rétt væri frá greint. Stefnandi hafi frá upphafi neitað vitneskju um málið og framburður hennar fyrir lögreglu og síðar dómi hafi verið með miklum ólíkindablæ og torveldað stefnandi rannsókn málsins, samanber lokamálslið 1. mgr. 175. gr. laga nr. 19/1991.
Með dómi Héraðsdóms Reykjaness hafi stefnandi verið sakfelld fyrir að hafa í vörslum sínum á heimili 5,33 g af kannabisefni og 0,78 g af amfetamíni, auk tækja til neyslu fíkniefna er fundust við húsleit lögreglu 28. ágúst 1999. Stefnandi hafi því ekki uppfyllt skilyrði 1. mgr. 175. gr. laga nr. 19/1991 og eigi það að leiða til sýknu af öllum kröfum hennar um bætur vegna gæsluvarðhaldsins.
Því er haldið fram af hálfu stefnda að gæsluvarðhaldsúrskurður Héraðsdóms Reykjaness frá 29. ágúst, sem staðfestur var af Hæstarétti 3. september 1999 og gæsluvarðhaldsvist sú er stefnandi sætti á grundvelli hans til 7. september, hafi verið lögmætar aðgerðir sem helgast hafi af rannsóknarhagsmunum, sbr. a- lið l. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Bresti þegar af þeim ástæðum skilyrði fyrir að stefnandi geti átt bótarétt samkvæmt 176. gr. vegna aðgerðanna þótt skilyrði 175. gr. teldust fyrir hendi.
Kröfum stefnanda um miskabætur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga er eindregið vísað á bug þar sem engum ólögmætum né saknæmum athöfnum ákæruvalds og lögreglu, er skoðast geti sem ólögmæt meingerð í skilningi ákvæðisins, hafi verið til að dreifa. Staðhæfingar stefnanda um að ákæra hafi verið reist á röngum sakargiftum í hennar garð fái með engu móti staðist. Sýkna af vörslum á efnum sem fundist hafi í bifreiðinni hafi grundvallast á breyttum framburði eiginmanns stefnanda við aðalmeðferð fyrir dómi þar sem hann hafi staðhæft að fíkniefnin hefðu verið í eigu hans og komist inn í bifreiðina án vitundar og vilja stefnanda.
Staðhæfingar stefnanda um að framganga lögreglu og rannsóknarathafnir hafi falið í sér árás á persónu hennar og mannorð séu engum gögnum studdar og fá ekki staðist. Þá verði stefndi ekki gerður ábyrgur fyrir því að málið komst til fjölmiðla eða fyrir umfjöllun þeirra.
Til stuðnings lækkunarkröfum er á því byggt að sýkna beri af einstökum kröfuliðum stefnanda og að aðrir verði lækkaðir stórkostlega.
Niðurstaða
Bótaréttur stefnanda ræðst af því hvort skilyrði 175. og 176. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, til að dæma stefnanda bætur, teljist fyrir hendi en 175. gr. var breytt í núverandi horf með 42. gr. laga nr. 36/1999.
Samkvæmt 176. gr. má dæma bætur vegna handtöku, leitar á manni eða í húsi, halds á munum, rannsóknar á heilsu manns, gæsluvarðhalds og annarra aðgerða sem hafa frelsisskerðingu í för með sér, aðrar en fangelsi, ef lögmæt skilyrði hefur brostið til slíkra aðgerða eða ef ekki hefur verið, eins og á stóð, nægilegt tilefni til slíkra aðgerða eða þær hafa verið framkvæmdar á óþarflega hættulegan, særandi eða móðgandi hátt.
Samkvæmt 175. gr. má taka kröfu um bætur fyrir fjártjón og miska til greina meðal annars ef sakborningur hefur verið dæmdur sýkn með óáfrýjuðum eða óáfrýjanlegum dómi vegna þess að sú háttsemi sem sakborningur var borinn hefur talist ósaknæm eða sönnun ekki fengist um hana. Þó má fella niður bætur eða lækka þær ef sakborningur hefur valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisir kröfu sína á.
Sýslumaðurinn í Keflavík lagði fram kröfu fyrir Héraðsdómi Reykjaness, undir miðnætti 28. ágúst 1999, um að stefnanda yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi til þriðjudagsins 7. september kl. 19.00. Í greinargerð með kröfunni var lýst handtöku stefnanda og leit í bifreið og á heimili hennar. Fram kom að í bifreiðinni hafi fundist efni sem við prófun lögreglu hafi reynst vera amfetamín og kannabisefni. Einnig hafi fundist þar minnisbækur og blöð með upplýsingum sem lögreglu þætti sterklega benda til að tengdust meðferð, kaupum og sölu fíkniefna. Þá var þess getið að við leit á heimili stefnanda hafi lögregla fundið umtalsvert magn efna sem við frumprófun lögreglu hafi reynst vera amfetamín og kannabisefni. Krafa um gæsluvarðhald var reist á a- og c-lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 og talinn fram kominn sterkur rökstuddur grunur um brot stefnanda gegn lögum nr. 65/1974 sem gætu varðað fangelsi. Talin var sérstök hætta á að stefnandi torveldaði rannsókn málsins færi hún frjáls ferða sinna en rannsókn málsins væri á frumstigi.
Kröfunni fylgdi meðal annars skýrsla lögreglu um frumviktun efna sem fundust á heimili stefnanda. Þar var meðal annars lýst efnum sem fundust í eldhúsi. Annars vegar var um að ræða hvítt efni í grænni tedós úr blikki sem vigtaðist 140 g með umbúðum. Skráð var að væg jákvæð litasvörun hafi fengist gagnvart fíkniefnaprófun og amfetamínprófun. Hins vegar var brúnn harður moli, 253,5 g að þyngd, sem líktist mjög steini. Skrap af honum var talið sýna væga jákvæða svörun við hassprófun. Í umræddri skýrslu var lýst samtals 18 meintum fíkniefnafundum í íbúðinni og svörun við fíkniefnaprófun var ýmist sögð vera sterk, jákvæð eða væg jákvæð. Alls var átta efnum lýst með vægri jákvæðri svörun.
Stefnandi var úrskurðuð í gæsluvarðhald til þriðjudagsins 7. september kl. 19.00 eða í tæpa 10 sólarhringa. Í úrskurðinum var vísað til þess að af rannsóknargögnum væri ljóst að rannsókn væri á frumstigi en að fyrir lægi rökstuddur grunur um aðild stefnanda að brotum gegn lögum nr. 65/1974, en brot gegn þeim gætu varðað allt að 6 ára fangelsi. Vísað var til framburðar A og þess mikla magns af ætluðum fíkniefnum sem lögregla hefði fundið við leit á heimili stefnanda og í bifreiðinni [...]. Tekið var fram að stefnandi hefði staðfastlega neitað allri vitneskju um hin ætluðu fíkniefni og því ljóst að yfirheyra þyrfti eiginmann hennar og vitni og kanna nánar haldlögð gögn, þ.á m. minnisbækur með ýmsum upplýsingum. Fallist var á með lögreglustjóra að veruleg hætta væri á því að stefnandi hefði áhrif á vitni og næði að spilla sakargögnum héldi hún óskertu frelsi. Var krafa lögreglustjóra tekin til greina með vísan til a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Gæsluvarðhaldsvist er ein þeirra rannsóknaraðgerða sem íslenska ríkið getur þurft að svara til bóta fyrir samkvæmt 176. gr. laga nr. 19/1991. Til þess að bætur verði dæmdar þurfa lögmæt skilyrði fyrir gæsluvarðhaldi að hafa brostið eða að ekki hafi verið eins og á stóð nægilegt tilefni til slíkra aðgerða eða þær hafi verið framkvæmdar á óþarflega hættulegan, særandi eða móðgandi hátt.
Sem fyrr segir taldi héraðsdómari skilyrði til að hneppa stefnanda í gæsluvarðhald á grundvelli a-liðs 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Skilyrði ákvæðisins eru að rökstuddur grunur liggi fyrir um að sakborningur hafi framið brot og að brotin geti varðað fangelsisrefsingu. Miðað er við refsimörk lagaákvæðis en ekki raunrefsingu fyrir meint brot. Fyrir liggur að stefnanda voru gefin að sök brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 sem varðað geta allt að 6 ára fangelsi. Héraðsdómarinn taldi að rökstuddur grunur lægi fyrir um aðild stefnanda að slíkum brotum.
Með dómi Héraðsdóms Reykjaness 1. október 2001 var stefnandi sakfelld fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974. Samkvæmt því liggur fyrir að skilyrði a-liðs-1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 voru uppfyllt við uppkvaðningu gæsluvarðhaldsúrskurðar yfir stefnanda 29. ágúst 1999.
Í málinu liggur fyrir að lögreglan í Keflavík fann ætluð fíkniefni í bifreið sem stefnandi ók 28. ágúst 1999 og á fjölmörgum stöðum á heimili hennar. Yfirleitt var um að ræða lítið magn efna á hverjum stað. Umrædd efni voru merkt, sett í plastumbúðir og færð á lögreglustöð þar sem þau voru vigtuð og framkvæmd á þeim fíkniefnapróf. Samkvæmt skýrslu lögreglu, sem lokið var 28. ágúst 1999, kl. 22.20, fannst á heimili stefnanda 7,5 g af meintu maríjúana, 265,5 g af meintu hassi, 7,5 g af meintri hassolíu og 165 g af meintu amfetamíni. Stærsti hlutinn af þessum efnum var sem fyrr segir hvíta efnið í tedósinni og brúni molinn en þessi efndi sýndu væga jákvæða svörun við fíkniefnaprófun. Þau efni sem fundust við leit í bifreiðinni og á heimili stefnanda voru send til rannsóknar hjá tæknideild lögreglunnar í Reykjavík 3. september 1999. Í framlögðum rannsóknarniðurstöðum sem dagsett eru 4., 5. og 6. október 1999 var steinsins ekki getið og verður af því ráðið að hann hafi ekki verið sendur til rannsóknar. Efnið í tedósinni reyndist vera mjólkursykur.
Í fyrrnefndum dómi er haft eftir lögreglumanni þeim sem framkvæmdi frumprófun á umræddum steini að ekki hafi komið í ljós fyrr en á síðari stigum lögreglurannsóknarinnar að umræddur moli hefði verið steinn en ekki fíkniefni. Það hefði ekki legið fyrir þegar krafa um gæsluvarðhald hafi verið sett fram. Í dóminum kemur fram sú lýsing dómara að umræddur brúni moli væri í raun nær svartur á lit, þéttur í sér og glansandi, og glumið hefði í honum þegar hann hefði verið settur á borð dómara.
Í kröfu um gæsluvarðhald yfir stefnanda var fjallað um ætluð fíkniefni en engir frekari varnaglar slegnir enda þótt stærsti hluti ætlaðra fíkniefna hefðu aðeins sýnt væga jákvæða svörun við fíkniefnaprófun. Í úrskurði dómara voru það færð sem sérstök rök fyrir því að hneppa stefnanda í gæsluvarðhald að mikið magn af ætluðum fíkniefnum hefði fundist á heimili hennar. Ætla verður að skýrsla dagsett 28. ágúst 1999 um frumathugun lögreglu á efnunum hafi legið fyrir dómara sem úrskurðaði um kröfuna. Ekkert er fram komið í málinu um að lögreglan í Keflavík hafi í upphafi rannsóknar haft aðrar hugmyndir um þau efni en umrædd skýrsla gaf til kynna. Verður því ekki fallist á með stefnanda að lögregla hafi leynt dómara upplýsingum um efnin þegar gæsluvarðhaldskrafan var tekin fyrir.
Stefnandi neitaði frá upphafi allri vitneskju um fíkniefni í bifreiðinni og á heimili sínu. Í lögregluskýrslu 1. september 1999 kvað hún efni í dós vera mjólkursykur sem hún hafi notað saman við lyf handa sonum sínum þegar þeir voru litlir.
Eiginmaður stefnanda viðurkenndi strax við skýrslugjöf 28. ágúst 1999, að hafa flutt 15 g af hassi og 10 g af amfetamíni til landsins frá Spáni til eigin nota en kannaðist ekki við að eiga önnur fíkniefni. Við fyrirtöku gæsluvarðhaldskröfu bar hann að efnið í dósinni gæti verið mjólkursykur. Hann bar í lögregluskýrslu 1. september 1999 að umrædd efni væru fyrir þau hjón og að stefnandi hefði vitað hvar þau væru geymd á heimilinu. Honum væri kunnugt um að stefnandi hefði notað eitthvað af þessum efnum en hvorugt þeirra hefði selt fíkniefni. Þau hafi skipt hassinu fljótlega eftir að þau komu heim og stefnandi fengið um 4 g. Þá lýsti hann því hvernig hann þynnti amfetamínið með mjólkursykri en kannaðist ekki við að hafa blandað efnin sem fundust í bifreiðinni. Hann kvað þau hjónin hafa skipt amfetamíninu eins og hassinu. Hann kannaðist við stein sem verið hafi innan um viskustykki í körfu í eldhúsi. Hann kvað skrap af steininum hafa getað verið af fingrum sér og því hafa getað gefið jákvæða svörun við hassprófi. Hann kvað steininn ekki vera hass. Hann kannaðist ekki við dósina með hvíta duftinu en taldi efnið geta verið mjólkursykur til að drýgja amfetamín.
Í lögregluskýrslu 17. mars 2000 og fyrir dómi sneri eiginmaður stefnanda við blaðinu og taldi að stefnandi hefði ekki vitað um að fíkniefni væru í bakpoka þeim sem fannst í aftursæti bifreiðarinnar 28. ágúst 1999. Kvaðst hann hafa komið efnunum fyrir í bakpokanum til þess að sonur hans sæi þau ekki en stefnandi tekið bakpokann með sér án þess að vita um efnin.
Sem fyrr segir hefur því verið haldið fram af hálfu stefnda að lögreglan í Keflavík hafi lengi grunað stefnanda um að selja fíkniefni. Virðist það hafa verið meginorsök lögregluaðgerða gagnvart henni og þeirra rannsóknarúrræða sem gripið var til. Stefnandi var hins vegar aðeins ákærð fyrir að selja A 1 g af amfetamíni og fyrir vörslur á samtals 12,24 g af amfetamíni og 11,02 g af kannabisefni.
A bar frá upphafi að stefnandi hefði selt honum 1 g af amfetamíni en hún hefur ávallt neitað þessu. Framburður A var hins vegar ekki talinn staðfastur. Taldi dómurinn ekki fram komnar fullnægjandi sönnur fyrir því að stefnandi hefði selt honum amfetamín í bifreiðinni.
Hvað varðar það ákæruatriði að stefnandi hafi haft í vörslum sínum í umræddri bifreið 10,39 g af amfetamíni og 5,69 g af hassi þótti dómaranum, með hliðsjón af eindreginni neitun stefnanda og því að ekki fundust fingraför hennar á neinum þeim fíkniefnum sem haldlögð voru eftir leit í bifreiðinni og loks þeim framburði eiginmanns hennar að hann hafi verið eigandi efnanna, varhugavert að telja fyllilega sannað að stefnandi hafi greint sinn haft efnin í vörslum sínum í skilningi laga nr. 65/1974.
Um það ákæruatriði að stefnandi hafi haft í vörslum sínum 0,78 g af amfetamíni og 5,33 g af hassi sem fundust á heimili hennar segir svo í dóminum:
"Samkvæmt áðurnefndri leitarskýrslu Hrafns Ásgeirssonar lögreglumanns fundust fíkniefni, ætluð fíkniefni og tæki og tól tengd fíkniefnaneyslu víðs vegar um íbúð ákærðu. Þannig fannst spegilflís með amfetamíni á og sogröri til hliðar á áberandi stað á hillu í geymslu inn af eldhúsi íbúðarinnar. Þá lágu leifar af „jónu" ásamt þar til gerðri klemmu til reykinga í litlum öskubakka í hjónaherbergi, sömuleiðis sáust þar tómir plastpokar með efnisleifum í, nokkur filmubox með efnisleifum í og minnisbækur og blöð, sem ákærða Þórlaug Erna kannast við að eiga og þykja veita sterka vísbendingu um að hún hafi verið viðriðin fíkniefnamisferli, enda margar skýringar hennar hjá lögreglu á færslum í bókunum með hreinum ólíkindum. Nægir að nefna í því sambandi eftirfarandi dæmi úr lögregluskýrslu ákærðu 4. september 1999. Ákærðu var þá kynnt ljósrit úr einni minnisbókinni, með dagsetningunni 28. ágúst 1999 og eftirgreindum nöfnum ásamt tölustöfum fyrir aftan hvert nafn: [D] 5, [E] 5, [F] 5, [G] 5, (ólæsilegt) 10, [H] 10, [I], [I] og loks [J] 20. Aðspurð kvaðst ákærða hafa skráð þessar upplýsingar sem dæmi vegna þess að hún hefði "ætlað að biðja þessa stráka að lána sér fyrir kaupum á tölvu. Hún kvað tölurnar sem standa fyrir aftan nöfnin vera upphæðir. 10 merkir 10.000 kr. og S táknar 5000 kr."
Samkvæmt því sem nú síðast var rakið og með vísan til framburðar ákærða Ingva Jóns við lögreglurannsókn málsins, þar á meðal um að ákærða Þórlaug Erna hafi vitað af fíkniefnainnflutningi hans eftir á, vitað hvar efnin hefðu verið geymd á heimilinu, fengið 4 grömm af hassi við helmingaskipti á því og neytt hvort tveggja hass og amfetamíns í kjölfar innflutnings á efnunum, telur dómurinn, þrátt fyrir eindregna neitun ákærðu Þórlaugar Ernu við rannsókn og dómsmeðferð málsins, nægilega sannað, sbr. 45., 46. og 47. gr. laga um meðferð opinberra mála, að ákærða hafi vitað eða mátt vita að fíkniefni væru geymd á heimili þeirra hjóna. Ber því að sakfella hana fyrir vörslur á 0,78 grömmum af amfetamíni og 5,33 grömmum af hassi, sem sannanlega fundust við húsleit greint sinn, sbr. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni. Varðar háttsemi ákærðu að öðru leyti við sömu ákvæði og tilgreind eru að framan í tengslum við sakfellingu meðákærða Ingva Jóns."
Ýmislegt fleira kemur fram í framangreindum dómi og rannsóknargögnum sem styður það að stefnandi hafi átt fíkniefni og jafnvel selt. Lögregla aflaði heimildar Héraðsdóms Reykjaness 1. september 1999 til að fá upplýsingar frá símafyrirtækjum um símtöl úr og í síma sem stefnandi notaði. Í ljós kom að skráð höfðu verið um 1600 símtöl úr og í farsíma stefnanda á þriggja mánaða tímabili. Lögregla kannaði við hverja stefnandi hefði verið í símasambandi við og taldi að flest símtölin hefðu verið við fólk sem væri þekkt og grunað um fíkniefnaneyslu.
Lögregla tók í framhaldinu skýrslu af nokkrum þessara einstaklinga 6. og 7. september 1999. Eitt vitnanna bar að honum væri kunnugt um að stefnandi væri að selja fíkniefni, hann hefði ekki keypt af henni efni en vissi að menn hefðu gert það. Hann kannaðist við stefnandi hefði hringt í hann á vinnustað, kvað hana vera snarruglaða og sífellt röflandi. Annað vitni kvað stefnanda vera á kafi í neyslu fíkniefna, hún hafi stundum vakað vikum saman og verið kolrugluð. Hann kvað „á hvers munni” að stefnandi væri að selja fíkniefni og vissi til þess að aðilar sem hann þekkti hefðu keypt af henni fíkniefni en vildi ekki nafngreina þá. Hann kvaðst ekki hafa keypt af stefnanda fíkniefni. Þriðja vitnið kvaðst ekki vera kunnugt um að stefnandi seldi fíkniefni en hann hafi grunað það. Fjórða vitnið kvaðst ekki vilja tjá sig um það mál hvort hann hefði keypt fíkniefni af stefnanda. Fimmta vitnið kvaðst hafa frétt hjá vini sínum að hægt væri að fá fíkniefni hjá stefnanda. Hann hafi hringt í hana í nokkur skipti í því skyni að fá keypt efni en stefnandi hafi sagt að hún ætti ekki efni og ekki viljað eiga við hann viðskipti þar sem hún þekkti hann ekki. Sjötta vitnið kvaðst ekki vera kunnugt um hvort stefnandi neytti fíkniefna eða dreifði þeim.
Framangreindar upplýsingar, sem fram koma í rannsóknargögnum og dómi, benda til þess að grunur lögreglu hafi átt við nokkur rök að styðjast þótt rannsóknin hafi leitt til þess að stefnandi yrði ekki sakfelld nema fyrir hluta af þeim fíkniefnabrotum sem til rannsóknar voru.
Með hliðsjón af því að stefnandi var fundin sek um vörslur á amfetamíni og hassi sem fannst á heimili hennar, framburðar eiginmanns hennar um að hún hafi fengið í sinn hlut og neytt hluta þeirra fíkniefna sem hann flutti til landsins, framburðar A um samskipti þeirra, framburðar vitna sem kváðust hafa haft vitneskju um að stefnandi hefði selt fíkniefni og upplýsinga í minnisbókum stefnanda, sem veita sterkar grunsemdir um dreifingu á fíkniefnum og stefnandi gaf ekki trúverðugar skýringar á, þykir ekki unnt að fallist á með stefnanda að ekki hafi verið nægilegt tilefni til þess að hneppa hana í gæsluvarðhald.
Rannsókn lögreglu var sem fyrr segir viðamikil. Ýmis mjög tortryggileg efni og áhöld fundust við leit á heimili hennar. Minnisbækur með nöfnum, tölum og dagsetningum fundust og reyndist stefnandi eigandi þeirra. Það sem í þær hafði verið skráð gaf fullt tilefni til frekari rannsóknar. Tilefni var til að óska eftir upplýsingum um símtöl við stefnanda en þekkt er að farsímar koma oft við sögu við dreifingu fíkniefna. Taka þurfti skýrslur af fjölmörgum mönnum sem getið var um í minnisbókum og höfðu verið í símasambandi við stefnanda. Rannsókninni var haldið áfram allt fram á síðasta dag gæsluvarðhaldsins og nýjar upplýsingar virðast stöðugt hafa verið að koma í ljós. Ekki verður því fallist á með stefnanda að rannsóknin hafi tekið lengri tíma en nauðsynlegt var.
Af gögnum málsins má ráða að lögreglu hafi mátt vera ljóst fljótlega eftir að rannsóknin hófst að brúnn moli væri steinn en ekki hass. Í því sambandi verður þó að hafa í huga að líklegasta orsök þess að skrap af steininum sýndi væga jákvæða svörun við hassprófi er sú að steinninn hafi verið handfjatlaður í tengslum við meðferð fíkniefna eins og eiginmaður stefnanda kom sjálfum í hug en af framburði hans verður ráðið að fíkniefni hafi verið meðhöndluð í talsverðum máli á heimilinu. Jákvæð svörun margra haldlagðra hluta og efna við fíkniefnaprófun virðist eiga sér sömu skýringu en þessar frumrannsóknarniðurstöður virðast hafa átt talsverðan þátt í hversu viðamikla rannsókn lögregla réðst í. Rannsóknarniðurstöður tæknideildar lögreglunnar í Reykjavík lágu ekki endanlega fyrir fyrr en 6. október 1999. Með hliðsjón af þessu og öðru því sem upplýst hefur verið um gang rannsóknarinnar þykir stefnandi ekki hafa sýnt fram á að ástæða hafi verið til að sleppa henni úr gæsluvarðhaldi fyrr en gert var.
Framburður eiginmanns stefnanda og þau ætluðu fíkniefni sem fundust gáfu sem fyrr segir tilefni til þeirra rannsóknaraðgerða sem lögregla greip til gagnvart stefnanda. Stefnandi þykir ekki hafa sýnt fram á að rannsóknaraðgerðir hafi verið framkvæmdar á óþarflega hættulegan, særandi og móðgandi hátt. Ekki hefur heldur verið í ljós leitt að upplýsingastreymi frá lögreglu um rannsókn málsins hafi verið með óeðlilegum hætti. Af skýrslum sem lögregla tók 6. og 7. september af nokkrum mönnum sem stefnandi hafði verið í símasambandi við, og áður er gerð grein fyrir, er ljóst að fleiri en lögregla grunaði stefnanda um að selja fíkniefni.
Auk þess að hafa verið sakfelld fyrir vörslur á 1,07 g af amfetamíni sem fundust við handtöku stefnanda 28. janúar 2000 var hún sem fyrr segir sakfelld fyrir vörslur á fíkniefnum sem fundust við húsleit á heimili hennar 28. ágúst 1999. Þessi brot voru talin varða við lög nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni. Krafa um gæsluvarðhald var tekin til greina á grundvelli rökstudds grunar um brot á þessum sömu ákvæðum. Enda þótt stefnandi hafi ekki verið fundin sek um vörslur á nema litlum hluta þeirra ætluðu fíkniefna sem fundust á heimili hennar og getið var um í gæsluvarðhaldsúrskurði verður ekki fallist á með henni að hún hafi verið sýknuð af þeim brotum sem henni voru gefin að sök, í skilningi 1. mgr. 175. gr. laga nr. 19/1991. Með hliðsjón af framangreindri sakfellingu, upphaflegum framburði eiginmanns hennar um þau fíkniefni sem fundust í bakpoka í aftursæti bifreiðar við handtöku stefnanda 28. ágúst 1999 og því sem áður er frá greint um líklegustu ástæður þess að svo margir hlutir, sem haldlagðir voru á heimili stefnanda, sýndu jákvæða svörun við fíkniefnaprófun verður ekki fallist á með stefnanda að hún hafi verið borin röngum sökum í málinu.
Í framangreindum dómi kemur fram að brot þau sem stefnandi var sakfelld fyrir hafi ekki varðað hærri refsingu en 125.500 króna sekt samkvæmt gildandi leiðbeiningum ríkissaksóknara. Með hliðsjón af því meðal annars, að stefnandi hafði setið 10 daga í gæsluvarðhaldi, ákvað dómarinn að fresta ákvörðun refsingar skilorðsbundið í eitt ár. Það að stefnandi var samkvæmt framansögðu ekki dæmd til fangelsisrefsingar fyrir fíkniefnabrot sín breytir því ekki að skilyrði 175. gr. laga nr. 19/1991 fyrir bótakröfu þykja ekki fyrir hendi.
Þegar af framangreindum ástæðum verður að sýkna stefnda af öllum bótakröfum stefnanda. Með hliðsjón af atikum öllum þykir þó rétt að fella málskostnað niður.
Dómsmálaráðherra veitti stefnanda gjafsókn vegna rekstrar málsins fyrir héraðsdómi með gjafsóknarleyfi, útgefnu 28. október 2002. Af hálfu stefnanda hefur verið lagt fram málskostnaðaryfirlit og vinnutímaskýrsla en samkvæmt henni varði lögmaður stefnanda tæpum 40 klst. til reksturs málsins. Gjafsóknarkostnaður stefnanda, samtals 383.300 krónur, greiðist úr ríkissjóði, en hann er þóknun Halldórs H. Backman hdl., sem þykir hæfilega ákveðin 336.600 krónur, og útlagður kostnaður 46.700 krónur. Þóknun lögmanns stefnanda inniheldur ekki virðisaukaskatt.
Sigurður Tómas Magnússon héraðsdómari kveður upp dóminn.
D ó m s o r ð
Stefndi, íslenska ríkið, er sýknað af öllum kröfum stefnanda, Þórlaugar Ernu Ólafsdóttur, í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda samtals, 383.300 krónur, þar af lögmannsþóknun Halldórs H. Backman hdl., 336.600 krónur, greiðist úr ríkissjóði.