Hæstiréttur íslands
Mál nr. 464/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Farbann
- Börn
- Sératkvæði
|
|
Fimmtudaginn 7. september 2006. |
|
Nr. 464/2006. |
K(Hilmar Magnússon hrl.) gegn M (Valborg Þ. Snævarr hrl.) |
Kærumál. Farbann. Börn. Sératkvæði.
Fallist var á að beita heimild 4. mgr. 35. gr. barnalaga nr. 76/2003 og leggja bann við því að farið yrði með barn málsaðila úr landi meðan máli um breytingu á forsjá þess hefði ekki verið ráðið til lykta. Ekki var talið að lagaskilyrði væru til að ákveða að bannið stæði lengur en meðan málinu væri ólokið fyrir héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hrafn Bragason og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. ágúst 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. ágúst 2006 þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að sóknaraðila sé óheimilt að fara með barnið A úr landi þar til dómur gengur í máli, sem varnaraðili hefur höfðað til að fá forsjá barnsins breytt. Kæruheimild er í 5. mgr. 35. gr. barnalaga nr. 76/2003. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hún kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar þannig að óheimilt verði að fara úr landi með barnið A meðan ekki hefur verið ráðið til lykta fyrir dómstólum máli sem varnaraðili hefur höfðað gegn sóknaraðila um breytingu á forsjá barnsins.
Af gögnum málsins má ráða að sóknaraðili hyggst fara með barnið til X þar sem hún hefur verið ráðin tímabundið til starfa við sendiráð Íslands. Varnaraðili hefur af þeim sökum höfðað mál gegn sóknaraðila þar sem hann krefst þess að honum verði dæmd forsjá barnsins. Styður hann kröfuna einkum við að fyrirhugaður flutningur réttlæti breytingu á forsjá.
Breytingar á högum, dvalarstað og félagslegu umhverfi barns geta gefið tilefni til að forsjá þess sé tekin til athugunar að nýju. Varnaraðili á rétt á að fá úr því skorið fyrir dómstólum hvort ástæða sé til að breyta forsjá barnsins vegna framangreindra fyrirætlana sóknaraðila. Ber að flýta meðferð málsins í samræmi við 3. mgr. 38. gr. barnalaga. Með þessari athugasemd og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður að fallast á að beita skuli heimild 4. mgr. 35. gr. barnalaga og leggja bann við því að sóknaraðili fari með barnið úr landi. Ekki eru lagaskilyrði til að ákveða að bannið standi lengur en meðan málinu er ólokið fyrir héraðsdómi. Verður því fallist á að sóknaraðila sé óheimilt að fara með barnið úr landi eins og nánar greinir í dómsorði.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Óheimilt er að fara úr landi með barnið A meðan ekki hefur verið ráðið til lykta fyrir héraðsdómi máli sem varnaraðili, M, hefur höfðað gegn sóknaraðila, K, um breytingu á forsjá barnsins.
Sératkvæði
Hrafns Bragasonar
Kröfugerð er rakin í atkvæði meirihluta dómenda og þar er einnig tíundað hvert sé tilefni máls þessa. Ég er sammála athugasemd meirihlutans um að breytingar á högum, dvalarstað og félagslegu umhverfi barns geti gefið tilefni til þess að forsjá þess sé tekin til athugunar að nýju og að flýta beri meðferð þess máls. Varnaraðili hefur höfðað slíkt mál og leitar þess hér að fá úrskurð um að sóknaraðila verði talið óheimilt að fara með barn þeirra úr landi allt þar til dómur gengur í því máli.
Sóknaraðili tilkynnti varnaraðila 3. júlí 2006 að hún hygðist flytja búferlum til X ásamt fjölskyldu sinni, enda hefði hún verið ráðin til starfa við íslenska sendiráðið í Y til næstu tveggja ára. Varnaraðili mun hafa ritað að beiðni sóknaraðila undir yfirlýsingu þess efnis að hann myndi að lokinni sumarleyfisumgengni við barnið skila því til X, en móðirin fer ein með forræði þess samkvæmt óáfrýjuðum dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 30. september 2002.
Sóknaraðili er íslenskur ríkisborgari og í sambúð með manni sem fæddur er og uppalin á Íslandi og hefur starfað hér. Tengsl hennar við landið eru því mikil og sterk. Y er alþjóðleg borg þar sem sömu aðstæður eiga að vera fyrir hendi, sem á Íslandi, til þess að barnið fá notið þeirra aðstoðar, sem það þarf á að halda, en það þjáist af helftarlömun. Ekkert liggur fyrir um að sóknaraðili muni ekki þrátt fyrir flutning frá landinu með þessum hætti veita fullan atbeina til áframhaldandi meðferðar forræðismálsins hér á landi eða hún ætli að meina barninu að umgangast föður sinn að breyttum aðstæðum. Það eru mikil inngrip í líf sóknaraðila og barnsins að meina því för af landinu og verður ekki heimilað nema af því gefna tilefni að sóknaraðili ætli að tefja meðferð málsins. Dómur hefur þegar gengið einu sinni um forsjá barnsins og hefur sóknaraðili ein haft forsjá þess um fjögurra ára skeið. Þegar til alls framangreinds er litið verður ekki talið að varnaraðili hafi sýnt fram á þær aðstæður að farbannið verði heimilað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. ágúst 2006.
Með beiðni til Héraðsdóms Reykjavíkur, dags. 14. júlí sl., fór sóknaraðili, M, [kt. og heimilsfang], fram á úrskurð um að varnaraðila, K, [kt. og heimilsfang], væri óheimilt að fara með barnið, A, [kt. og heimilisfang], úr landi, allt þar til dómur gengur í máli sem sóknaraðili hefur höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur um breytingu á forsjá stúlkunnar. Verður málið þingfest í héraðsdómi þann 12. september nk. Þess var óskað sérstaklega að kveðið yrði á um að úrskurður skuli standa allt þar til dómur gengur í málinu fyrir Hæstarétti, kæmi til áfrýjunar niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur, eða þar til áfrýjunarfrestur væri liðinn eða eftir atvikum aðilar lýstu því yfir að niðurstöðu héraðsdóms yrði ekki áfrýjað.
Mál þetta var þingfest þann 24. júlí sl.
Í greinargerð sóknaraðila kemur fram að varnaraðili hefði með bréfi þann 3. júlí sl. tilkynnt sóknaraðila að hún hyggi á búsetu í X, ásamt fjölskyldu sinni, enda hafi hún verið ráðin til starfa við íslenska sendiráðið í Y til næstu tveggja ára. Hafi hún tjáð sóknaraðila að hún hyggi á brottför þangað þriðjudaginn 18. júlí, til undirbúnings fyrir væntanlega búsetu þar. Sóknaraðili hafi undirritað yfirlýsingu, að beiðni varnaraðila, þess efnis að hann myndi að lokinni sumarleyfisumgengni við barnið, skila því til X, enda fer móðir ein með forsjá þess.
Sóknaraðili kveðst telja afar mikilvægt að úrskurðað verði um farbann svo fljótt sem verða má til að Héraðsdómur Reykjavíkur geti kveðið upp dóm um framtíðar forsjá barnsins. Sé hætt við því, komist varnaraðili með stúlkuna úr landi, að erfitt geti reynst að koma barninu hingað til lands að nýju fallist dómurinn á forsjárkröfu sóknaraðila.
Sóknaraðili vísar til 4. mgr. 35. gr. laga nr. 76/2003 til stuðnings kröfu þessari en lagaskilyrðum þeirrar lagagreinar sé fullnægt með því að stefna hafi verið birt og forsjármál þar með höfðað. Þá sé og ljóst og fyrir liggi sönnun þess að konan hyggst flytjast úr landi með barnið.
Í greinargerð varnaraðila kemur fram að forsjá barnsins, A, hafi verið óskipt hjá henni síðan í september 2002 er dómur þess efnis var kveðinn upp í héraðsdómi Reykjavíkur. Varnaraðili kveðst hafa virt í hvívetna þann umgengnisrétt er barnið hafi við sóknaraðila, umgengnin hafi verið bæði regluleg og ríkuleg. Varnaraðili telur hugleiðingar sóknaraðila um að öll tengsl muni rofna, fari varnaraðili með barnið til X, fjarri lagi. Varnaraðili sé einungis að fara til starfa fyrir utanríkisþjónustuna, tímabundið til tveggja ára, en ráðgeri að flytja til Íslands að þeim tíma liðnum. Varnaraðili kveðst muni koma í heimsóknir til Íslands með stúlkuna og muni hún þá vera í sambandi við föður sinn, auk venjubundinnar umgengni í sumarleyfum.
Að mati varnaraðila er krafa um farbann með öllu órökstudd og ótímabær. Ekki sé að finna neinar ástæður fyrir farbanni nema að höfðað hafi verið forsjármál á hendur varnaraðila, sem þingfest verði í haust. Varnaraðili gerir þá kröfu að hafnað verði kröfu sóknaraðila þess efnis að ekki megi að óloknu forsjármáli fara úr landi með barnið, A, allt þar til endanlegur dómur gengur í málinu. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar að skaðlausu úr hendi sóknaraðila.
Fyrir liggur að sóknaraðili hefur höfðað mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur vegna forsjár dóttur málsaðila, A og að varnaraðili hyggst fara með hana úr landi til dvalar í X. Í 4. mgr. 35. gr. barnalaga nr. 76/2003 segir að hafi forsjármáli eigi verið ráðið til lykta fyrir héraðsdómi, þá geti dómari, að kröfu málsaðila, kveðið svo á í úrskurði að ekki megi að óloknu máli fara með barnið úr landi. Ljóst er að meðferð forsjármálsins eða fullnusta dóms um forsjá yrði torvelduð ef barnið færi úr landi til dvalar, eins og varnaraðili ráðgerir. Eru því lagaskilyrði til að fallast á beiðni sóknaraðila um að eigi megi að svo vöxnu fara úr landi með barnið A, eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.
Úrskurðarorð:
Varnaraðila, K, er óheimilt að fara með barnið, A, [kt. og heimilisfang], úr landi, allt þar til dómur gengur í máli sem sóknaraðili, M, hefur höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur um breytingu á forsjá stúlkunnar.
Bann þetta stendur allt þar til dómur gengur í Hæstarétti komi til áfrýjunar niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur eða þar til áfrýjunarfrestur er liðinn eða eftir atvikum aðilar lýsa því yfir að niðurstöðu héraðsdóms verði ekki áfrýjað.