Hæstiréttur íslands
Mál nr. 77/2005
Lykilorð
- Kærumál
- Börn
- Aðfarargerð
|
|
Miðvikudaginn 16. mars 2005. |
|
Nr. 77/2005. |
K(Júlíus Vífill Ingvarsson hdl.) gegn M (Lárentsínus Kristjánsson hrl.) |
Kærumál. Börn. Aðfarargerð.
K kærði úrskurð héraðsdóms, þar sem M var heimilað að fá son sinn og K tekinn úr umráðum K og afhentan sér með beinni aðfarargerð, en M fór með forsjá drengsins. Eftir uppkvaðningu hins kærða úrskurðar var K úrskurðuð forsjá drengsins til bráðabirgða uns dómur félli í forsjármáli aðila. Hafði M því ekki forsjá drengsins að svo stöddu. Þegar af þeirri ástæðu var beiðni M um aðfarargerðina hafnað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson, og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. febrúar 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 15. febrúar 2005, þar sem varnaraðila var heimilað að fá son sinn og sóknaraðila, A, tekinn úr umráðum sóknaraðila og afhentan sér með beinni aðfarargerð. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og synjað verði um hina umbeðnu aðfarargerð. Hún krefst og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með úrskurði Héraðsdóms Vestfjarða 15. mars 2005 var sóknaraðila úrskurðuð forsjá sonar aðila til bráðabirgða uns dómur fellur í forsjármáli þeirra. Hefur varnaraðili því ekki forsjá drengsins að svo stöddu. Þegar af þeirri ástæðu verður beiðni varnaraðila hafnað.
Rétt er að aðilarnir beri hvort sinn kostnað af rekstri málsins fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Hafnað er beiðni varnaraðila, M, um að honum verði heimilað að fá son sinn og sóknaraðila, A, tekinn úr umráðum sóknaraðila, K, og fenginn sér með beinni aðfarargerð.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 15. febrúar 2005.
Mál þetta barst dóminum 17. janúar 2005 og var tekið til úrskurðar 8. febrúar sama ár. Gerðarbeiðandi er M [...], en gerðarþoli er K [...].
Gerðarbeiðandi krefst þess að forsjá A, sonar málsaðila, verði komið á með beinni aðfarargerð. Þá krefst gerðarbeiðandi málskostnaðar úr hendi gerðarþola.
Gerðarþoli krefst þess að kröfu gerðarbeiðanda verði hrundið, auk þess sem honum verði gert að greiða málskostnað.
I.
Málsaðilar voru í óvígðri sambúð og eignuðust þau soninn A, sem fæddist [...] 1992. Við sambúðarslit á árinu 2001 reis ágreiningur með málsaðilum um hvernig haga ætti forsjá barnsins. Var dómsmálaráðuneytinu falið að úrskurða í málinu, sbr. 1. mgr. 34. gr. þágildandi barnalaga, nr. 20/1992.
Með úrskurði ráðuneytisins 25. febrúar 2002 var gerðarbeiðanda falin forsjá barnsins. Í niðurlagi úrskurðar ráðuneytisins segir svo:
„Hvað varðar persónulega eiginleika foreldra telur ráðuneytið manninn vera fleiri kostum búinn sem uppalandi en konuna og byggir þetta mat bæði á greinargerð félagsfræðings, sem kannaði málið fyrir barnaverndarnefnd, og umsögn umsjónarkennara drengsins og tilsjónarmanns barnaverndarnefndar ...
Í niðurstöðu greinargerðar félagsfræðingsins kemur fram, að hugmyndir mannsins um uppeldismál séu heilbrigðar, hann virðist eiga auðvelt með að setja mörk og láta drenginn fara eftir reglum. Þá telur félagsfræðingurinn það helstu kosti mannsins að hann eigi auðvelt með að hafa reglu og aga á heimilinu og drengnum. Þá megi sjá á samskiptum þeirra feðga að drengurinn beri mikla virðingu fyrir föður sínum. Hjá öðrum umsjónarkennara drengsins kemur fram að svo virðist sem maðurinn setji drengnum einfaldar og skýrar reglur. Í niðurstöðu félagsfræðingsins varðandi konuna kemur hins vegar fram að þótt viðhorf hennar til uppeldsmála séu heilbrigð snúi þau þó einna helst að ástúð og umhyggju, sem og að tjá drengnum tilfinningar hennar í hans garð en hún virðist eiga þeim mun erfiðara með að setja drengnum mörk og fylgja þeim eftir á heimilinu.
Eins og fram kemur hér á undan kom til afskipta barnaverndarnefndar Z-bæjar af drengnum, m.a. vegna hegðunarvandamála hans. Þá kemur fram í umsögn umsjónarkennara drengsins að hann sé frekar skapmikill og eiga oft í útistöðu við skólafélaga. Þá er hann að sögn kennarans nokkuð þrjóskur og vill ná sínu fram. Ráðuneytið telur að af þessu verði ekki dregin önnur ályktun en sú að drengurinn, sem er að verða tíu ára, sé skapmikill og ekki nægilega agaður, þannig að hann muni geta átt í verulegum erfiðleikum í framtíðinni búi hann ekki við aga og festu, sem faðir virðist frekar geta veitt honum en móðir. Drengurinn virðist sjálfur gera sér grein fyrir mun á foreldrum sínum í þessu efni og telur sig eiga auðveldara með að komast upp með ákveðna hluti hjá móður en föður.
Það er mat ráðuneytisins með vísun til þess sem að ofan er rakið að maðurinn hafi til að bera persónulega eiginleika umfram konuna til þess að annast uppeldi drengsins og hann hafi einnig til að bera betri skilning á þörfum drengsins fyrir festu og stöðuleika, og getu umfram móður, til að sinna þessum þörfum. Þá telur ráðuneytið enn fremur að maðurinn sé líklegri en konan til að geta veitt drengnum stuðning og aðstoð í aðstæðum, sem upp kunna að koma í daglegu lífi hans og reynast honum erfiðar.
Hvað varðar tengsl drengsins við foreldra sína verður ekki betur séð en tengst við báða foreldra séu góð. Fram kemur hjá fyrrnefndum félagsfræðingi að konan sýnir drengnum mikla hlýju og væntumþykju. Maðurinn virðist hins vegar eiga erfiðara með þetta, sem og að tjá drengnum tilfinningar sínar. Þrátt fyrir þetta virðist félagsfræðingnum að þeir feðgar nái mjög vel saman og þeir hafi sterkar tilfinningar til hvors annars. Þá finnst drengnum hann geta rætt alla hluti við föður sinn, ásamt því að fá útskýringar á þeim hlutum sem hann telur sig þurfa. Enn fremur hafi komið fram hjá drengnum að þótt faðir hans sýni ekki tilfinningar sínar á sama hátt og móðir, þ.e. með faðmlögum og snertingu, finni hann það hjá föður að honum þykir vænt um hann.
Ráðuneytið telur að framangreint staðfesti að drengurinn sé ekki síður tengdur föður tilfinningalega en móður, þó að foreldrar tjái honum væntumþykju sína með mismunandi hætti og drengurinn sé ekki í vafa um að föður hans þyki vænt um hann.
Eitt af þeim atriðum sem skoða þarf við úrlausn í forsjármáli er hvort foreldra sé líklegra til að viðhalda eðlilegri umgengi barns við hitt foreldra sinna til frambúðar. Fram kemur í greinargerð félagsfræðingsins að konan talar vel um manninn og virðist hafa fullan huga á því að halda góðu sambandi við hann varðandi drenginn. Það sama kom fram hjá manninum í viðtali við félagsfræðinginn, þ.e. að hann muni reyna að stuðla að góðu sambandi við konuna með hagsmuni drengsins að leiðarljósi, verði honum falin forsjá hans. Maðurinn talar hins vegar ekki vel um konuna og virðist búa með honum reiði í hennar garð vegna vanhæfni hennar í heimilishaldi og ýmsu sem varðar uppeldi drengsins. Þrátt fyrir þetta er það mat ráðuneytisins að maðurinn muni ekki standa gegn eðlilegri umgengni drengsins og móður, verði honum falin forsjá drengsins. Telur ráðuneytið að sú staðreynd að hann hefur óskað eftir að foreldrar fari sameiginlega með forsjá drengsins styðji það að hann muni ekki láta reiði sína í garð konunnar hamla umgengi hennar og drengsins. Enn fremur telur ráðuneytið það styðja þessa niðurstöðu að maðurinn virðist gera sér góða grein fyrir þörfum drengsins og þar af leiðandi þörfum til að umgangast móður sína.
Í greinargerð félagsfræðingsins er það talinn kostur við að fela konunni forsjá drengsins að hún hafi mjög sterka fjölskyldu á bak við sig sem sé tilbúin að veita henni þá aðstoð við uppeldi drengsins sem hún telji sig þurfa. Maðurinn geti hins vegar ekki reitt sig á slíkt liðsinni fjölskyldu sinnar. Af þessu tilefni tekur ráðuneytið fram að liðsinni vandamanna við uppeldi barna, einkum ungra barna, getur skipt miklu máli fyrir það foreldri sem með forsjá fer. Það er hins vegar mat ráðuneytisins að liðsinni vandamanna geti ekki bætt upp vankanta sem kunna að vera á hæfi foreldris til að annast uppeldi barns. Við mat á því hvoru foreldra skuli fela forsjá barns verður fyrst og fremst að líta til þess hvort foreldra sé líklegra til þess að geta annast uppeldi barnsins, eitt og óstutt. Það væri í andstöðu við meginreglur barnaréttar að fela foreldri, sem ekki virðist valda að fullu uppeldishlutverki sínu, forsjá barns með vísun til þess að vandamenn foreldrisins muni aðstoða það í uppeldishlutverkinu. Eins og fram hefur komið hér á undan í umræddri greinargerð félagsfræðings virðist konan eiga í erfiðleikum með að hugsa um heimili sitt, án utanaðkomandi aðstoðar, og þar með ala drenginn upp við reglu og þrifnað á heimili. Það er mat ráðuneytisins að þótt maðurinn muni ekki njóta aðstoðar fjölskyldu sinnar við uppeldi drengsins muni það ekki koma að sök því hann virðist hafa alla burði til að annast uppeldi hans einn, þó að ekki verði fram hjá því litið að hann virðist ekki hafa látið sig varða þrifnað á sameiginlegu heimili fjölskyldunnar.
Þótt það sé ekki lagaskilyrði að börnum yngri en tólf ára sé veittur kostur á að tjá sig um forsjármál hefur úrskurðaraðili til hliðsjónar vilja barns, liggi hann fyrir. Úrlausnaraðili er hins vegar ekki bundinn við að leggja afstöðu barns til grundvallar niðurstöðu sinni, en eðlilega vex vægi afstöðu barns eftir því sem það eldist. Drengurinn, sem er að verða tíu ára, hefur látið það í ljósi að hann vilji búa hjá móður en sú afstaða hans virðist einkum vera byggð á því að móðir hans sé eftirgefanlegri í samskiptum þeirra en faðir hans. Ráðuneytið er ekki bundið af þessari afstöðu drengsins og verður niðurstaða varðandi forsjá hans ekki byggð á henni einni heldur verður að taka ákvörðun í málinu á grundvelli þess sem drengnum er fyrir bestu, eftir að heildstætt mat hefur verið lagt á alla þá þætti sem reifaðir haf verið hér á undan.
Að öllum gögnum máls þessa vandlega virtum og með vísan til framanritaðs, telur ráðuneyti það koma drengnum A best að lúta forsjá föður. Er því ákveðið, samkvæmt heimild í 34. gr. barnalaga, að drengurinn skuli lúta forsjá hans.“
Eftir að úrskurður ráðuneytisins gekk um forsjá A hefur hann búið í Z-bæ hjá gerðarbeiðanda. Gerðarþoli flutti hins vegar frá Z-bæ til Y-bæjar og gekk í hjúskap. Hefur drengurinn haft umgengni við gerðarþola eftir nánara samkomulagi málsaðila.
Um jólin 2004 fór A í umgengni til gerðarþola en snéri ekki aftur til gerðarbeiðanda 3. janúar 2005 eins og ráð hafði verið gert fyrir. Daginn eftir leitaði gerðarbeiðandi til sýslumannsins í Z-bæ sem ritaði samdægurs bréf til sýslumannsins í Y-bæ með ósk um að hann með aðstoð barnaverndaryfirvalda hlutaðist til um að drengurinn færi til gerðarbeiðanda. Hinn 6. janúar 2005 kom gerðarþoli fyrir sýslumann í Y-bæ og greindi frá því að drengurinn hefði átt bókað far með flugi frá Reykjavík til Y-bæjar. Vegna veðurs hefði hins vegar ekki verið hægt að fljúga fyrr en 5. sama mánaðar. Þegar til kom hefði drengurinn neitað snúa aftur til gerðarbeiðanda og borið því við að honum liði illa hjá föður sínum. Gerðarþoli lýsti því yfir við sýslumann að hún vildi að drengurinn fengi að ráða því hvort hann yrði hjá sér eða gerðarbeiðanda og myndi hvorki þvinga hann til að vera né fara. Einnig lagði gerðarþoli til að drengurinn dveldi hjá sér fram á vor þegar skóla lyki en þá yrði endurmetið hjá hvorum málsaðila drengurinn yrði.
Hinn 6. janúar 2005 mætti gerðarbeiðandi aftur fyrir sýslumann í Z-bæ og var kynnt það sem komið hafði fram fyrr um daginn þegar málið var tekið fyrir af sýslumanninum í Y-bæ með konunni. Gerðarbeiðandi hafnaði tillögu gerðarþola um að drengurinn yrði hjá henni fram á vor og krafðist þess að hann snéri aftur. Gerðarþoli mætti síðan hjá sýslumanni 7. sama mánaðar og ítrekaði fyrri afstöðu.
Að tilhlutan sýslumannsins í Y-bæ ræddi Jóhann B. Loftsson, sálfræðingur, við drenginn. Í bréfi sálfræðingsins 8. janúar 2005 segir meðal annars svo:
„...
Greinilegt er að A ber góðar tilfinningar til beggja foreldra sinna. Honum virðist finnast þau bæði réttlát og góðar manneskjur og hann sér ekki fyrir sér að það rofni samband við annað foreldrið hvar sem hann muni búa, enda talar hann nær daglega við það foreldri sem er fjarverandi hverju sinni að eigin sögn.
Hann segir föður sinn hafa meiri aga, bæði í sambandi við nám og tiltekt á heimili enda segir hann að sér gangi nokkuð vel í námi og einnig í gítarleik. A segist líka vera í körfubolta sem hann stundar vel. Honum finnst faðir hans vera lengi í vinnunni en í reynd vinnur faðir hans til klukkan 18:00 en móðir hans til kl. 17:00 á virkum dögum. Ekki er að heyra á A að hann sé á nokkurn hátt að flýja heimili föður af því honum líði þar illa.
Það sem í þessu viðtali virðist vega þyngst á ákvörðun A um að vilja flytjast til móður sinnar virðist vera að hann telur sig geta eignast eða eiga betri vini í Y-bæ en Z-bæ og hann virðist telja að skólinn í Y-bæ sé skemmtilegri. Hann segir móður sína búna að sjá til þess að hann byrji í skólanum í Y-bæ næstkomandi miðvikudag og að hann muni byrja í tónlistarskóla staðarins fljótlega.
A segir móður sína ætla í nýja forsjárdeilu og lætur í veðri vaka að hún hafi þróað með honum þessa hugmynd um flutning búsetu hans. Hún hefur einnig sagt, að hans sögn, að hann eigi ekki að fara í heimsókn til föður síns fyrr en forsjá sé komin yfir til hennar því annars gæti faðir hans haldið honum hjá sér. A segir B eiginmann móður hans hafa mikinn áhuga á að A setjist að hjá þeim.
A telur föður sinn ekki líklegan til að bregðast við af hörku þó hann flytji í Y-bæ enda getur A alveg hugsað sér að flytjast til hans aftur seinna. Hann telur hins vegar að móðir hans muni gráta í marga daga ef hann fari til Z-bæjar.
A virðist alveg ákveðinn í að vilja flytja lögheimili sitt til móður. Ákvörðun hans virðist hins vegar byggjast á fremur léttvægum atriðum, það er að segja mest á vonum um félagslega betri stöðu en ekki á mismunandi tilfinningatengslum við foreldrana. Hann býr í Z-bæ við agaðar og þekktar aðstæður sem virðast góðar að því er best verður séð, en vill flytja í aðstæður þar sem fremur óljóst er hvernig hann muni skjóta rótum félagslega.“
Hinn 10. janúar 2005 mætti gerðarþoli hjá sýslumanninum í Y-bæ og var kynnt álit sálfræðingsins. Gerðarþoli ítrekaði að hún vildi að drengurinn fengi að ráða hjá hvorum málsaðila hann yrði búsettur. Einnig kom fram hjá gerðarþola að hún treysti sér varla til að þvinga drenginn til að snúa aftur.
Í bréfi aðstoðarskólastjóra Grunnskólans í Z-bæ 24. janúar 2005 kemur fram að félagsleg staða A sé ekki eins og best verður á kosið en hafi þó lagast mikið á síðustu árum. Telur aðstoðarskólastjórinn að aukinn þroski og markviss vinna hafi skilað þeim árangri að bæta ástandið verulega. Félagsleg staða drengsins í nemendahópnum hafi batnað til muna sem einkum verði ráðið af því að árekstrar við skólafélaga séu afar fátíðar núorðið. Þá tekur aðstoðarskólastjórinn fram að samskipti við gerðarbeiðanda hafi að öllu leyti verið jákvæð.
Eftir að A snéri ekki aftur frá gerðarþola að loknu leyfi yfir jól og áramót hefur hann sótt nám í Grunnskóla Y-bæjar. Í bréfi skólastjóra grunnskólans 28. janúar 2005 kemur fram að drengurinn hafi fallið vel inn í nemendahópinn og líði vel í skólanum.
Í samræmi við 1. mgr. 45. gr., sbr. 43. gr., barnalaga, nr. 76/2003, var A gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við réttinn. Átti dómari fund með drengnum og þar kom fram að hann vildi dvelja hjá gerðarþola. Um ástæðu þess sagði drengurinn að félagsleg staða sín væri betri í Y-bæ en Z-bæ. Auk þess kom fram hjá drengnum að faðir hans ynni mikið og hefði því ekki rúman tíma til að sinna sér.
II.
Til stuðnings kröfu sinni vísar gerðarbeiðandi til þess að honum hafi með úrskurði dóms- og kirkjumálaráðuneytisins 25. febrúar 2002 verið falin forsjá sonar síns. Hafi úrskurður ráðuneytisins meðal annars verið reistur á því að gerðarbeiðandi sé hæfari til að fara með forsjána.
Gerðarbeiðandi bendir á að honum hafi gengið vel að annast drenginn svo sem ráðið verði af upplýsingum frá skóla drengsins í Z-bæ. Einnig hafi hann tekið framförum en af því verði ráðið að drengurinn búi við gott atlæti. Honum sé því fyrir bestu að snúa aftur í tryggar aðstæður hjá gerðarbeiðanda þar sem drengurinn búi við öryggi og þörfum hans sé mætt.
Til stuðnings kröfu sinni vísar gerðarbeiðandi til 45. gr. barnalaga, nr. 76/2003, og 78. gr. laga um aðför, nr. 90/1989.
III.
Gerðarþoli bendir á að forsjá barns verði komið á með aðfarargerð ef sá sem barn dvelst hjá neitar að afhenda það réttum forsjámanni, sbr. 45. gr. barnalaga, nr. 76/2003. Er því haldið fram að þetta ákvæði eigi ekki við í málinu, enda hafi gerðarþoli ekki neitað að afhenda drenginn. Hann hafi hins vegar sjálfur staðfastlega neitað að fara til gerðarbeiðanda. Með hliðsjón af aldri drengsins, sem er tæplega 13 ára gamall, telur gerðarþoli hvorki sig né aðra í stakk búna til að þvinga drenginn til að dvelja þar sem hann vilji með engu móti vera.
Gerðarþoli heldur því fram að A hafi liðið illa hjá gerðarbeiðanda í Z-bæ. Gerðarbeiðandi vinni mikið og hafi því takmarkaðan tíma til að sinna drengnum. Einnig bendir gerðarþoli á að drengnum hafi liðið illa í skóla í Z-bæ þar sem hann hafi orðið fyrir miklu einelti.
Gerðarþoli bendir á að A hafi ávallt frá því málsaðilar slitu sambúð sinni lýst yfir þeim eindregna vilja sínum að dvelja hjá gerðarþola. Þetta hafi meðal annars komið fram við meðferð málsins hér fyrir dómi. Einnig bendir gerðarþoli á að bein aðför sé harkaleg aðgerð sem beinist að drengnum sem vilji búa hjá móður. Aðferð af þessu tagi sé niðurlægjandi fyrir A og eigi það enn frekar við þar sem málsaðilar búi í litlum samfélögum úti á landi. Þá sé aðfarargerð ekki nauðsynleg þar sem gerðarþoli hafi höfðað forsjármál á hendur gerðarbeiðanda, auk þess að gera kröfu um að úrskurður til bráðabirgða gangi um forsjá barnsins.
Gerðarþoli heldur því fram að vafi leiki á hæfni gerðarbeiðanda til að sinna drengnum. Því til stuðnings bendir gerðarþoli á að fram hafi komið í bréfi móðursystur drengsins 28. janúar 2005 að hann hafi trúað syni bréfritara fyrir því sumarið 2003 að gerðarbeiðandi vekti sig um nætur til að horfa á klámmyndir. Einnig vísar gerðarþoli í ódagsetta yfirlýsingu R þar sem fram komi að gerðarbeiðandi hafi orðið drukkinn í afmælisveislu á árinu 2000 og sýnt af sér óviðeigandi framkomu í garð tveggja ungra drengja. Í þessu sambandi bendir gerðarþoli á að synja eigi um beina aðför ef varhugavert verður talið að aðfarargerðin nái fram að ganga á grundvelli þeirra sönnunargagna sem heimilt er að afla, sbr. 3. mgr. 83. gr. laga um aðför, nr. 90/1989.
Loks bendir gerðarþoli á að A sé nauðsynlegt að byggja upp sjálftraust sitt og losna við áhyggjur og kvíða sem sótt hafi á hann vegna eineltis í skóla í Z-bæ. Nauðsynlegt sé að auka bjartsýni drengsins á lífið en hafa muni þveröfug áhrif verði drengurinn sendur aftur með valdi til gerðarbeiðanda.
IV.
Svo sem hér hefur verið rakið fer gerðarbeiðandi með forsjá sonar málsaðila í samræmi við úrskurð dóms- og kirkjumálaráðuneytisins frá 25. febrúar 2002. Gerðarþoli hefur ekki fallist á að skila drengnum til gerðarbeiðanda að lokinni umgengni hans við gerðarþola yfir nýliðin jól og áramót. Þótt gerðarþoli reisi neitun sína á vilja drengsins verður aðfararbeiðni réttilega beint að gerðarþola á grundvelli 45. gr. barnalaga, nr. 76/2003.
Úrlausn um hvort barn verður afhent gerðarbeiðanda með beinni aðfarargerð úr umsjá gerðarþola verður ekki reist á því einu að gerðarbeiðandi fari með forsjá barnsins. Í samræmi við höfuðreglu barnaréttar ber við slíka ákvörðun sem endranær þegar málum barna er skipað að taka það ráð sem barni er fyrir bestu. Því verður aðfararbeiðni synjað ef varhugavert þykir fyrir velferð barns að gerðin nái fram að ganga.
Þegar ágreiningur málsaðila var til úrlausnar í dómsmálaráðuneytinu kom fram vilji drengsins til að dvelja hjá gerðarþola. Var sú afstaða hans talin reist á því að gerðarþoli væri eftirgefanlegri en gerðarbeiðandi. Eftir að drengurinn snéri ekki aftur til gerðarbeiðanda kannaði sálfræðingur viðhorf barnsins að þessu leyti. Á grundvelli þeirrar athugunar taldi sálfræðingurinn að drengurinn byggði þessa afstöðu sína um búferlaflutning á léttvægum atriðum. Að þessu virtu verður ekki fallist á það með gerðarþola að barnið sjálft, sem er á 13. aldursári, fái ráðið því hjá hvoru foreldri það dvelji.
Svo sem hér hefur nánar verið rakið var ákveðið með úrskurði dómsmálaráðuneytisins að gerðarbeiðandi færi með forsjá barnsins. Var sú niðurstaða reist á heildstæðu mati á því að drengnum væri fyrir bestu að alast upp hjá föður. Í málinu hefur ekkert komið fram sem fær breytt þeirri niðurstöðu eða bendir til að hann búi ekki við gott atlæti hjá gerðarbeiðanda. Verður í þeim efnum ekki byggt á einhliða yfirlýsingum frá venslafólki gerðarþola sem aflað hefur verið í tilefni af máli þessu og eru ekki studdar neinum gögnum.
Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið verður fallist á kröfu gerðarbeiðanda um að forsjá hans yfir syni málsaðila verði komið á með beinni aðfarargerð.
Eftir þessum málsúrslitum verður gerðarþola gert að greiða gerðarbeiðanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðin eins og í úrskurðarorði greinir.
Benedikt Bogason, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Gerðarbeiðanda, M, er heimilt að fá son málsaðila, A, tekinn úr umráðum gerðarþola, K, og afhentan sér með beinni aðfarargerð.
Gerðarþoli greiði gerðarbeiðanda 100.000 krónur í málskostnað.