Hæstiréttur íslands

Mál nr. 552/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjármálafyrirtæki
  • Slit
  • Lánssamningur
  • Gengistrygging


                                     

Þriðjudaginn 15. september 2015.

Nr. 552/2015.

Þrotabú BG Holding ehf.

(Reimar Pétursson hrl.)

gegn

LBI hf.

(Kristinn Bjarnason hrl.)

Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slit. Lánssamningur. Gengistrygging.

L hf. krafðist viðurkenningar á því að lánssamningur sem LÍ hf., forveri L hf., veitti B ehf. hefði verið um lán í erlendum myntum. Í úrskurði héraðsdóms kom fram að textaskýring lánssamningsins tæki ekki af skarið um hvers efnis samningurinn væri og því þyrfti að líta til atriða sem lytu að því hvernig hann hefði verið efndur og framkvæmdur. Í því sambandi var litið til þess að láninu hefði verið ráðstafað til greiðslu eldri skuldbindinga sem að meirihluta voru í erlendum gjaldmiðlum, auk þess sem ríflega helmingur af vöxtum lánsins, sem greiddur hefði verið, hefði verið inntur af hendi í erlendum gjaldmiðlum. Þá hefðu innborganir á lánið að mestu leyti verið í sterlingspundum. Ennfremur hefðu eftirstöðvar lánsins við skilmálabreytingu þess einungis verið tilgreindar í erlendum myntum. Loks var talið að framburður stjórnarmanns B ehf. benti til þess að um erlent lán hefði verið að ræða. Í ljósi þessa var það mat héraðsdóms að um lánssamning í erlendum myntum hefði verið að ræða. Í dómi Hæstaréttar var hinn kærði úrskurður staðfestur með þeirri athugasemd að í skilmálaskrá, sem samin hefði verið í tilefni af lánveitingunni, hefði komið fram að L hf. væri tilbúið til að endurfjármagna tilteknar skuldir B ehf. og um fjárhæðina vísað til þess að hún væri að jafnvirði 28.000.000.000 krónum í þeim erlendu myntum sem aðilar semdu um. Með vísan til þessa, en að öðru leyti til forsendna hins kærða úrskurðar, væri fallist á að lánssamningurinn hefði verið í erlendri mynt.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Helgi I. Jónsson og Þorgeir Örlygsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. ágúst 2015. Kærumálsgögn bárust réttinum 31. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. ágúst 2015, þar sem viðurkennt var að lánssamningur sóknaraðila og Landsbanka Íslands hf. 19. desember 2007 ásamt viðauka 31. júlí 2008 væri um lán í erlendum gjaldmiðlum. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að viðurkennt verði að fyrrgreindur lánssamningur sé um lán í íslenskum krónum sem bundið sé gengi erlendra gjaldmiðla. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði snýst ágreiningur aðila um hvort samningur 19. desember 2007 milli sóknaraðila og Landsbanka Íslands hf., sem nú ber nafn varnaraðila, en viðauki við hann er frá 31. júlí 2008, sé um lán í erlendri mynt eða hvort um sé að ræða lán í íslenskum krónum, sem bundið sé gengi erlendrar myntar og fari því í bága við 14. gr., sbr. 13. gr., laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Í skýrslu Stefáns Hilmars Hilmarssonar, sem var stjórnarmaður í sóknaraðila, fyrir héraðsdómi kom fram að í aðdraganda að gerð lánssamningsins hafi verið samin svonefnd skilmálaskrá þegar legið hafi fyrir að bankinn var tilbúinn til þess að veita lánið. Skilmálaskráin, sem er frá 6. desember 2007, er á ensku nefnd Term sheet en liggur fyrir í íslenskri þýðingu. Á því skjali kemur fram að Landsbanki Íslands hf. sé tilbúinn að endurfjármagna tilteknar eldri skuldir sóknaraðila, sem þar eru tilgreindar í íslenskum krónum, samtals að fjárhæð 28.000.000.000 krónur. Um fjárhæð láns segir: ,,Jafnvirði kr. 28.000.000.000 ... í þeirri erlendu mynt/myntum (valkvæðar myntir) sem um semst milli lánveitanda og lántaka.“

Með þessari athugasemd, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar er fallist á að lánssamningur aðila hafi verið í erlendri mynt og fari því ekki í bága við framangreind ákvæði laga nr. 38/2001. Verður úrskurðurinn því staðfestur.

Sóknaraðili greiði varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Þrotabú BG Holding ehf., greiði varnaraðila, LBI hf., 1.500.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. ágúst 2015

I

                Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 9. júní sl., barst dóminum 11. janúar 2013 með bréfi skiptastjóra þrotabús BG Holding ehf.

Sóknaraðili, LBI ehf., Álfheimum 74, Reykjavík, krefst þess að viðurkennt verði að lánasamningur nr. 10524 frá 19. desember 2007 ásamt viðauka frá 31. júlí 2008 milli Landsbanka Íslands hf. sem lánveitanda og BG Holding ehf. sem lántakanda sé um lán í erlendum gjaldmiðlum. Jafnframt krefst sóknaraðili málskostnaðar.

Varnaraðili, þrotabú BG Holding ehf., Lækjargötu 2, Reykjavík, krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað. Jafnframt krefst hann þess að viðurkennt verði að lánasamningur nr. 10524 frá 19. desember 2007 ásamt viðauka frá 31. júlí 2008 milli Landsbanka Íslands hf. sem lánveitanda og BG Holding ehf. sem lántakanda sé um skuldbindingu í íslenskum krónum sem bundin er við gengi erlendra gjaldmiðla. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar.

          II

Málavextir

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, upp kveðnum 14. mars 2012, var bú BG Holding ehf. tekið til gjaldþrotaskipta. Sóknaraðili lýsti kröfum samkvæmt lánasamningi BG Holding ehf. og forvera sóknaraðila, sem þá hét Landsbanki Ísland hf. Sóknaraðili starfaði sem banki en er nú til slitameðferðar á grundvelli laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. lög nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

BG Holding ehf. var dótturfélag Baugs Group hf., sem líka er gjaldþrota. BG Holding ehf. var stofnað árið 2003 til að fara með eignarhald eigna Baugs Group hf. og tengdra félaga í Bretlandi. Í desember 2007 stóð yfir endurfjármögnun félagasamstæðunnar og leituðu fyrirsvarsmenn hennar til sóknaraðila um fjármögnun. Skjöl vegna samninga aðila, sem öll voru samin af sóknaraðila, eru á ensku en íslensk þýðing þeirra liggur fyrir í málinu og er við hana stuðst hér í framhaldi. Í skilmálaskrá (e. term sheet), frá 6. desember 2007, kemur fram að sóknaraðili sé reiðubúinn að endurfjármagna tilteknar eldri skuldir Baugs Group hf., BG Holding ehf. og Unity Investments ehf. Lánið til BG Holding ehf. skyldi vera fimm ára „kúlulán“ að jafnvirði 28 milljarða króna í erlendum myntum sem um semdist milli lánveitanda og lántaka. Þá er í skilmálaskránni ákvæði um fjárhæð og greiðslufyrirkomulag vaxta, tryggingar, vanefndaúrræði lánveitanda o.fl.

Þann 19. desember 2007 var undirritaður lánasamningur (e. loan agreement) vegna lánsins. Á forsíðu hans kemur fram að um sé að ræða lánasamning um 28.000.000.000 króna milli Landsbanka Íslands hf. sem lánveitanda, BG Holding ehf. sem lántaka og Baugs Group hf. sem ábyrgðaraðila.

Í 1. gr. samningsins kemur fram að lánveitandi sé reiðubúinn að veita lántaka aðgang að fjölmyntaláni að jafnvirði 28.000.000.000 íslenskra króna í þar tilgreindum myntum og fjárhæðum. Kveðið er á um að 30% skuli vera evrur (EUR) 20% japönsk jen (JPY), 30% svissneskir frankar (CHF) og 20% sterlingspund (GBP). Engar fjárhæðir umræddra gjaldmiðla eru tilgreindar í samningnum sjálfum en mælt er fyrir um að frá þessari stundu skuli lánið tilgreint í fjárhæð þessara erlendu gjaldmiðla eða jafnvirði þeirra í öðrum erlendum gjaldmiðlum. Tekið er fram að ef greiddar eru afborganir, vextir eða aðrar greiðslur af láninu í íslenskum krónum skuli lántaki greiða í samræmi við sölugengi lánveitanda á viðkomandi gjalddaga. Samningurinn er sagður falla sjálfkrafa úr gildi berist ekki ádráttarbeiðni (e. drawndown notice) skv. 2. gr. hans innan viku frá undirritun hans.

                Í 2. gr. samningsins er fjallað um ádráttarbeiðni og kemur þar fram að lánið skuli vera aðgengilegt í þar tilgreindum níu gjaldmiðlum. Íslenskar krónur eru ekki þar á meðal, en m.a. eru þar nefndir þeir fjórir gjaldmiðlar sem að framan er vísað til.

                Í 3. gr. samningsins er kveðið á um að lánið skuli endurgreiðst að fullu að fimm árum liðnum með einni afborgun hinn 5. janúar 2013. Þó var lántaka heimilt að greiða tiltekna lágmarksfjárhæð inn lánið.

Í 5. gr. samningsins er kveðið á um að greiða eigi LIBOR-vexti fyrir hverja mynt með 3,2% vaxtaálagi. Var hvert vaxtatímabil einn mánuður og átti að greiða vexti mánaðarlega, í fyrsta sinn þann 5. febrúar 2008. Greiða átti vexti í þeim gjaldmiðli sem tilgreindur var sem gjaldmiðill lánsins eða lánshlutans.

Í 8. gr. samningsins er ákvæði sem heimilar með nánar greindum skilyrðum að lántaki geti óskað eftir myntbreytingu þannig að hin útistandandi lánsfjárhæð samanstandi, í heild eða að hluta, af einum eða fleiri öðrum erlendum myntum eða mynteiningum, og í öðrum hlutföllum en upphaflega var samið um. Einnig kemur fram heimild fyrir lánveitanda, geti hann ekki boðið lántaka tiltekna mynt eða ef slíkt hefði í för með sér umtalsverðan kostnað fyrir hann, að nota Bandaríkjadali í stað hinnar umbeðnu myntar.

           Þá eru ýmis fleiri ákvæði í samningnum, m.a. um vanskil, heimild lánveitanda til gjaldfellingar lánsins og ábyrgðir. Baugur Group hf. gekkst í óskipta ábyrgð vegna lánsins. Þá átti að setja hlutabréf í eigu BG Holding ehf. í breskum félögum og hluthafalán ytra að veði til tryggingar greiðslu lánsins.

Þann 19. desember 2007, sama dag og lánssamningurinn var undirritaður, undirritaði BG Holding ehf. ádráttarbeiðni þar sem óskað var eftir ádrætti í sömu myntum og hlutföllum er fram komu í lánasamningnum. Jafnframt gaf félagið fyrirmæli um það með hvaða hætti ætti að ráðstafa láninu en í samræmi við lánasamninginn kom fram að það ætti að nota til að greiða skuldir Baugs Group hf., BG Holding ehf. og Unity Investments ehf. Ekki er getið um nákvæmar fjárhæðir heldur vísað til þess hvaða lán, yfirdrætti og tap vegna afleiðuviðskipta, nefndra félaga eigi að greiða.  

Sóknaraðili afgreiddi lánið á grundvelli beiðni BG Holding ehf. Meðal gagna málsins er „kaupnóta“ bankans, dags. 27. desember 2007, stíluð á BG Holding ehf. Í skjalinu er vísað til láns númer 10524, með útgáfudegi 19. desember 2007, og síðan nefndur nánar tiltekinn höfuðstóll í evrum, sterlingspundum, svissneskum frönkum og japönskum jenum. Um sterlingspund segir t.a.m. að höfuðstóll sé 44.122.271,75, fyrsta vaxtatímabil 21. desember 2007 til 5. febrúar 2008, vextir séu 9,4975000%, vaxtaruna LIBOR og álag 3,200000%. Sams konar upplýsingar er að finna vegna hinna erlendu gjaldmiðlanna þriggja en vextir þar eru aðrir, sem og fjárhæðir. Nánar tiltekið er höfuðstóll í svissneskum frönkum 152.588.555,86 í japönskum jenum 10.035.842.294 og í evrum 91.853.471,84. Neðar í skjalinu eru svo tilgreind „Gjaldeyrisviðskipti“ vegna hvers og eins framangreindra gjaldmiðla. Þannig er BG Holding ehf. sagt hafa selt 44.122.281,75 sterlingspund (5.600.000.000 krónur), 152.588.555,86 svissneska frankar (8.400.000.000 krónur), 10.035.842.294 japönsk jen (5.600.000.000 krónur) og 91.853.471,84 evrur (8.400.000.000 krónur). Kemur fram í lok skjalsins að „[þ]ann 21.12.2007 var greitt vegna láns ISK 28.000.000.000“.

Láninu var síðan ráðstafað til greiðslu lána í íslenskum og erlendum gjaldmiðlum og inn á tékkareikninga/yfirdrætti í samræmi við ádráttarbeiðnina. Þannig runnu 22.728.080.078 krónur til greiðslu þriggja lána Baugs Group hf. og BG Holding ehf. Tvö þeirra voru að hluta til í erlendum gjaldmiðlum og nam greiðsla í þeim hluta lánanna, umreiknað í íslenskar krónur, samtals 15.080.808.853 krónum. Var miðað við sama gengi og BG Holding hf. seldi framangreinda gjaldmiðla á í uppgjöri lánanna. Inn á tékkareikninga Baugs Group hf. og Unity Investments hf. var greitt sem nemur samtals 5.271.919.922 krónum en því fé var ráðstafað til að greiða yfirdrætti og skuldir félaganna vegna afleiðusamninga.

                Eins og áður var getið átti að greiða lánið með einni afborgun 5. janúar 2013. Vexti skyldi hins vegar greiða mánaðarlega, í fyrsta sinn 5. febrúar 2008. Þann dag voru skuldfærðar af tékkareikningi Baugs Group hf. 257.908.874 krónur vegna vaxtagreiðslu. Greiðslunni var varið til að kaupa gjaldeyri í gjaldmiðlum þeim sem fram komu í lánasamningnum og er getið um fjárhæð greiðslu í viðkomandi gjaldmiðli.

BG Holding ehf. innti ekki af hendi greiðslu vegna vaxta sem voru á næsta gjalddaga, 5. mars 2008. Sendi sóknaraðili félaginu og Baugi Group hf. hinn 12. sama mánaðar tilkynningar um vanskil á erlendu láni þar sem fjárhæð vaxta er getið í þeim erlendu myntum sem lánasamningurinn kvað á um. Hinn 31. mars 2008 skuldfærði sóknaraðili 2.410.233 sterlingspund (374.019.974 krónur) af gjaldeyrisreikningi BG Holding ehf. til greiðslu á vöxtum vegna tímabilsins frá 5. febrúar til 31. mars 2008. Í greiðslukvittun kemur fram að sterlings­pundum sé ráðstafað beint til greiðslu vaxta í þeim gjaldmiðli en það sem eftir stendur sé selt í nafni BG Holding ehf. og svissneskir frankar, japönsk jen og evrur keypt til að standa straum af greiðslum vaxta í þeim gjaldmiðlum.

Þann 9. apríl 2008 skuldfærði sóknaraðili 44.222.881 krónu af tékkareikningi Baugs Group hf. til greiðslu á vöxtum vegna tímabilsins 31. mars 2008 til 7. apríl 2008 (gjalddagi var skv. greiðslutilkynningu síðastnefndan dag). Í greiðslukvittun kemur fram að gjaldeyrir, í þeim gjaldmiðlum sem lánasamningurinn kveður á um er keyptur í nafni BG Holding ehf. til að standa straum af greiðslum vaxta í þeim gjaldmiðlum.

Hinn 31. júlí 2008 var gerð skilmálabreyting á lánasamningum (e. amendment to loan agreement). Í inngangi skilmálabreytingarinnar/viðaukans kemur m.a. fram að um sé að ræða breytingu á lánasamningi upphaflega að fjárhæð 28.000.000.000 króna, dagsettum 19. desember 2007. Eru eftirstöðvar höfuðstóls lánsins hinn 5. maí 2008 sagðar 10.066.479.490 JPY, 153.280.658,38 CHF, 92.392.945,14 EUR og 44.425.955,03 GBP. Í 1. gr. viðaukans er þess m.a. getið að lánasamningurinn breytist þannig að lántaki greiði áfallna vexti á lánið í hverjum mánuði, næst 5. júní 2010. Vextir skyldu reiknast frá 5. maí 2008. Í 2. gr. viðaukans var þess getið að önnur ákvæði samningsins skyldu haldast óbreytt. Af gögnum má ráða að sóknaraðili hafi samhliða þessu bætt vangoldnum vöxtum við höfuðstól lánsins og framkvæmt „uppgreiðslufærslu vegna framlengingar“. Kemur fram í kvittunum fyrir greiðslu, í hverjum gjaldmiðli lánsins, að „leggur sé uppgreiddur“.

                Hinn 4. febrúar 2009 gjaldfelldi sóknaraðili skuld BG Holding ehf. skv. lánssamningnum. Fram kemur í yfirlýsingu sóknaraðila að lán, skuldabréf og aðrir samningar ábyrgðaraðila samkvæmt lánasamningum, Baugs Group hf., séu í vanskilum eða hafi verið felld í gjalddaga og sé því um vanefndatilvik að ræða undir e-lið gr. 12.1 í lánasamningnum. Gerði sóknaraðili kröfu um að eftirstöðvar lánsins ásamt áföllnum vöxtum yrðu þegar greiddar. Er þess getið að eftirstöðvar lánsins séu auk vaxta 10.396.124.536 JPY, 160.636.299,13 CHF, 98.128.968,96 EUR og 47.479.995,37 GBP.

Þann 6. febrúar 2009 var BG Holding ehf. tekið til skiptameðferðar (e. administration) í Bretlandi að kröfu sóknaraðila. Voru félaginu skipaðir breskir umsjónarmenn/skiptastjórar (e. administrators).

Þann 21. apríl og 4. maí 2010 fékk sóknaraðili greitt upp í lánið samtals 4.647.726.732 krónur og 57.787.164,92 sterlingspund á grundvelli handveðs­yfirlýsinga sem settar höfðu verið til tryggingar skuldum BG Holding ehf. hjá sóknaraðila. Þá áttu sér stað frekari greiðslur inn á lánið, enn fremur í sterlingspundum, vegna sölu á eignum BG Holding ehf. í Bretlandi sem settar höfðu verið að veði til tryggingar greiðslu lánsins.

             Eins og áður var getið var bú BG Holding ehf. tekið til gjaldþrotaskipta 14. mars 2012 og hafnaði skiptastjóri búsins kröfu sóknaraðila á grundvelli lánasamningsins í búið. Var ágreiningi um réttmæti kröfu sóknaraðila vísað til dómsins í bréfi skiptastjórans mótteknu 11. janúar 2013. Sóknaraðili lagði fram greinargerð sína 17. maí sama ár þar sem gerð er krafa um að tiltekin fjárhæð, í skuldaröð skv. 111. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o. fl., yrði viðurkennd í búið. Varnaraðili lagð fram greinargerð sína 10. janúar 2014, þar sem aðallega var gerð krafa um frávísun málsins, til vara að öllum dómkröfum sóknaraðila yrði hafnað, en til þrautavara að þær yrðu stórlega lækkaðar. Þá krafðist hann þess að kröfurnar fengju aðra stöðu í skuldaröð. Málinu var að ósk aðila frestað ítrekað til frekari gagnaöflunar og sáttaumleitana. Í þinghaldi 18. mars 2015 óskuðu aðilar eftir því að sakarefninu yrði skipt þannig að fyrst verði skorið úr um hvort lánssamningur lántakanda sé í íslenskum krónum bundinn við gengi erlendra gjaldmiðla eða hvort um sé að ræða lán í erlendum gjaldmiðlum. Varnaraðili lýsti því jafnframt yfir að hann félli frá frávísunarkröfu sinni. Dómari fellst á þessa sakarskiptingu samkvæmt 31. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Því er beðið með að leysa úr þeim ágreiningi hvort lokamálsliður 2. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu geti tekið til skuldbindingar samkvæmt samningnum. Tekur kröfugerð aðila mið af þessu.

                                                                                              III

Málsástæður sóknaraðila

                Af hálfu sóknaraðila er á því byggt að samningur aðila og atvik að öðru leyti sýni glögglega að BG Holding ehf. hafi tekið erlent lán hjá sóknaraðila. Þetta komi fram í lýsingu á lánveitingunni, á skilmálaskrá, en vísað sé til hennar í gr. 9.2 í lánssamningnum. Í gr. 2.1 sé lýst þeim myntum sem hægt er að fá lánið í. Lántaki hafi ekki getað fengið lán í íslenskum krónum. Lántaki hafi átt þess kost að breyta fjárhæð lánsins og samsetningu gjaldmiðla eftir undirritun lánasamningsins. Vegna þessa hafi ekki verið unnt að skilgreina í lánssamningnum fjárhæð erlendra gjaldmiðla, heldur hafi orðið að notast við hámarksjafnvirðis­fjárhæð í íslenskum krónum og hlutföll til viðmiðunar. Í gr. 1.4 í lánssamningnum sé þannig gert ráð fyrir því að samningur aðila falli niður ef varnaraðili sendir sóknaraðila ekki ádráttarbeiðni innan viku frá undirritun lánssamningsins. Jafnframt vísar sóknaraðili til gr. 2.2 þar sem gert sé ráð fyrir því að lántaki sendi ádráttarbeiðni eftir að lánasamningur hafi verið undir­ritaður þar sem meðal annars komi fram fjárhæð og þeir gjaldmiðlar sem óskað sé eftir að draga vegna lánsins. Framangreind ákvæði sýni að BG Holding ehf. hefði getað breytt samsetningu gjaldmiðla í ádráttarbeiðni sem aftur skýri af hverju fjárhæðar í erlendum myntum var ekki getið í lánssamningnum.

                Sóknaraðili byggir jafnframt á því að ákvæði gr. 5 í lánasamningum, þar sem fjallað er um vexti, sýni einnig glögglega að samið hafi verið um lán í erlendri mynt. Þannig hafi verið samið um að greiddir yrðu LIBOR-vextir í hverri mynt fyrir sig en ljóst sé að slíkir vextir eru ekki birtir vegna skuldbindinga í íslenskum krónum.

                Sóknaraðili bendir á að ákvæði gr. 8 í lánssamningnum styðji einnig að um erlent lán sé að ræða. Í ákvæðinu komi skýrt fram að heimild lántaka til að skipta um þá gjaldmiðla, sem lánið sé í á hverjum tíma sé bundin við erlenda gjaldmiðla og því ekki mögulegt að skipta láninu yfir í íslenskar krónur. Þá hafi BG Holding ehf. óskað eftir því með ádráttarbeiðni að fá lán í erlendri mynt.

                Sóknaraðili vísar til þess að stærstur hluti þess fjár sem fenginn hafi verið að láni hafi runnið til greiðslu skuldbindinga í erlendri mynt. Ef lagðar eru saman þær fjárhæðir, sem hafi runnið beint til greiðslna á skuldbindingum í erlendri mynt, sjáist að jafnvirði 15.080.808.853 króna hafi verið nýtt til slíkra greiðslna. Séu þá ótaldir þeir peningar sem greiddir hafi verið út í íslenskum krónum en hafi verið nýttir til að gera upp skuldir í erlendri mynt.

                Sóknaraðili byggir á því að atvik sem komi til eftir að lánið var veitt sýni jafnframt að um erlent lán sé að ræða. Að þessu leyti vísar sóknaraðili í fyrsta lagi til kaupnótu þar sem erlendur höfuðstóll lánsins komi fram en gjaldmiðlarnir séu seldir aftur fyrir íslenskar krónur. Þeirri fjárhæð hafi verið ráðstafað annars vegar með því að kaupa gjaldmiðla og greiða upp lán en hins vegar til að greiða upp lán og greiða út íslenskar krónur. Í öðru lagi komi skýrt fram á tilkynningum um gjalddaga og vanskilatilkynningum að um erlent lán sé að ræða en ávallt hafi verið krafist greiðslu í erlendri mynt auk þess sem höfuðstóll hvers lánshluta fyrir sig hafi verið tilgreindur í erlendri mynt. Í þriðja lagi telur sóknaraðili að lánið hafi verið endurfjármagnað miðað við 5. maí 2008 í tengslum við skilmálabreytinguna þann 31. júlí 2008. Uppgreiðsla á höfuðstól lánsins þá sýni að aðilar hafi samið um að lánið væri í erlendum myntum. Eftir skilmálabreytinguna hafi því enginn vafi leikið á því að lánið hafi verið í erlendum gjaldmiðlum, enda sé erlendur höfuðstóll skýrlega tilgreindur þar.

                Sóknaraðili vísar að lokum til þess að almennt gildi samningsfrelsi að lögum. Við túlkun samninga sé því mikilvægt að leiða í ljós vilja samningsaðila og þær forsendur sem hafi legið til grundvallar samningsgerðinni. Vegna þessa verði að líta til eðlis starfsemi BG Holding ehf. auk forsögu viðskipta félagsins og móðurfélags þess við sóknaraðila. Starfsemi BG Holding ehf. hafi að öllu leyti verið erlendis. Eignir félagsins hafi verið í erlendum félögum. Þá hafi bókhald félagsins og ársreikningar verið í sterlingspundum. Vegna þessa hafi það verði rökrétt að félagið tæki lán í erlendri mynt. Með því að taka lán í íslenskum krónum hefði félagið skapað gjaldeyrisáhættu vegna mikilla sögulegra sveiflna á gengi íslensku krónunnar. Þá bendir sóknaraðili á að í ársreikningi félagsins fyrir árið 2007, dagsettum 10. júní 2008, þ.e. eftir að lán það sem deilt er um í málinu var tekið, komi fram í hvaða myntum lán félagsins séu. Þar séu engar skuldir í íslenskum krónum og sé því ljóst að BG Holding ehf. hafi talið skuldbindingu þá sem deilt er um í málinu skuldbindingu í erlendum myntum.

Málsástæður varnaraðila

                Af hálfu varnaraðila er á því byggt að líta verði til forms og meginefnis lánssamningsins frá 19. desember 2007. Í fyrsta lagi sé á forsíðu lánssamningsins lánsfjárhæðin tilgreind í íslenskum krónum ,,ISK 28.000.000.000,-“. Hvergi sé hins vegar vikið orði að því á forsíðu lánssamningsins að um sé að ræða skuldbindingu í erlendum gjaldmiðlum né hver fjárhæð hennar sé í hinum erlendu myntum. Í annan stað sé til þess að líta að í gr. 1.1 í samningnum sé lánsfjárhæðin einnig tilgreind með skýrum hætti í íslenskum krónum, bæði með tölustöfum og bókstöfum. Hvorki í því ákvæði samningsins né í öðrum ákvæðum hans sé að finna tilgreiningu á því hversu há lánsfjárhæðin sé í erlendri mynt. Í þriðja lagi sé meginefni lánssamningsins í samræmi við efni skilmálaskjalsins (e. term sheet), sem hafi verið grundvöllur lánveitingarinnar, en til þess er vísað í gr. 9.2 í lánssamningnum sjálfum. Það skjal beri glögglega með sér að sóknaraðili hugðist veita BG Holding ehf. íslenskt lán að fjárhæð 28.000.000.000 króna til uppgreiðslu á eldri lánum sem þar séu tilgreind. Í skilmálaskjalinu sé erlendra gjaldmiðla hvergi getið og fjárhæð þeirra ekki tilgreind.

                Varnaraðili byggir á því að önnur ákvæði lánssamningsins gefi ótvírætt til kynna að skuldbindingin hafi verið í íslenskum krónum. Þannig komi í fyrsta lagi fram í gr. 2.2 í lánasamningnum að viðmiðunargengi gjaldmiðlanna fari eftir gengi þeirra tveimur virkum bankadögum fyrir útborgunardag lánsins. Þetta ákvæði samningsins geti vart þjónað öðrum tilgangi en þeim að binda skuldbindingu í íslenskum krónum við gengi erlendu gjaldmiðlanna á þeim tiltekna degi. Í annan stað beri form og efni lánssamningsins ótvírætt með sér að um hafi verið að ræða lán í íslenskum krónum. Hafi Hæstiréttur staðfest að ákvæði lánssamninga um endurgreiðslu í öðrum gjaldmiðlum en þeirri sem fram komi í yfirskrift lánssamningsins og meginefni hans breyti engu um hvers efnis samningsskuldbindingin sé, sbr. dóm réttarins í málinu nr. 446/2013. Í gr. 1.3 í lánssamningnum hafi sérstaklega verið gert ráð fyrir því að BG Holding ehf. gæti greitt afborganir, vexti og dráttarvexti eða aðrar greiðslur í íslenskum krónum. Í þriðja lagi vísar varnaraðili til ákvæða 8. kafla lánssamningsins þar sem fjallað sé um myntbreytingarheimildir. Í gr. 8.1 segir að sé skuldin samkvæmt lánssamningnum í skilum geti lántaki óskað eftir því við bankann á vaxtagjalddaga að myntsamsetningu lánsins verði breytt, þannig að eftirstöðvar skuldarinnar miðist, að öllu leyti eða að hluta, við aðrar erlendar myntir eða mynteiningar, eina eða fleiri, í öðrum hlutföllum en upphaflega var samið um. Verði ákvæðið ekki skilið með öðrum hætti en þeim að með því sé verið að gengistryggja lán í íslenskum krónum enda komi beinlínis fram í ákvæðinu að hægt sé að greiða eftirstöðvar skuldarinnar þannig að þær „miðist“ við aðrar myntir. Varnaraðili mótmælir því að ákvæði 5. gr. lánssamningsins um LIBOR-vexti sýni að með honum hafi verið samið um lán í erlendri mynt.

                Varnaraðili byggir á því að líta verði til þess hvernig útgreiðslu lánsins hafi verið háttað, í hvaða gjaldmiðli það var greitt út og hvernig lánsfjárhæðinni hafi verið ráðstafað. Lánið hafi verið veitt til uppgreiðslu og endurfjármögnunar á skuldbindingum sem tilgreindar séu í skilmálaskjali (e. term sheet), og getið er um í samskiptum starfsmanna sóknaraðila og fyrirsvarsmanns varnaraðila og gr. 9.2 í lánssamningnum sjálfum. Þá skyldi láninu varið til uppgreiðslu á yfirdráttarlánum sem tilgreind séu á bókunarblaði um ráðstöfun lánsins og ádráttarbeiðni. Lánsfjárhæðin hafi samkvæmt lánssamningnum verið greidd út í íslenskum krónum. Vísar varnaraðili til þess að í kaupnótu, sem sóknaraðili hafi útbúið segi: „Þann 21.12.2007 var greitt vegna láns ISK 28.000.000.000.“ Þær kvittanir sem sóknaraðili hafi gefið út vegna uppgreiðslna á eldri lánum sanni að hún hafi átt sér stað í íslenskum krónum, enda sú greiðslumynt tilgreind þar sérstaklega, bæði hvað varðar vexti og höfuðstól, auk þess sem hluta lánsins hafi verið ráðstafað til uppgreiðslu á yfirdráttarlánum, sem allt hafi verið íslenskir tékkareikningar en ekki gjaldeyrisreikningar, og afleiðusamningum Baugs Group hf. og dótturfélags þess, Unity Investment ehf., samtals að fjárhæð 5.271.919.922 íslenskra króna. Á öllum greiðslukvittunum sem fyrir liggi í málinu og sóknaraðili hafi gefið út komi fram að allar þær greiðslur sem áttu sér stað voru í íslenskum krónum.

                Varnaraðili mótmælir því að BG Holding ehf. hafi ekki verið mögulegt að tilgreina fjárhæð hvers lánshluta fyrir sig í erlendri mynt í lánssamningnum, þar sem félagið hafi í ádráttarbeiðni sinni getað breytt samsetningu gjaldmiðlanna. Í því sambandi verði að líta til þess að ádráttarbeiðnin hafi verið undirrituð hinn 19. desember 2007, þ.e. sama dag og lánssamningurinn. Því hafi legið fyrir samsetning þeirra gjaldmiðla sem lánsfjárhæðin hafi verið gengistryggð við sama dag og lánssamningurinn var undirritaður.

                Varnaraðili mótmælir þeirri staðhæfingu sóknaraðila að ekki getið leikið vafi á því að umrætt lán teljist erlent lán eftir skilmálabreytingu, eða viðauka, sem gerð hafi verið á lánssamningnum hinn 31. júlí 2008. Með skilmálabreytingunni hafi einungis verið samið um að fresta vaxtagreiðslum varnaraðila til 5. júní 2010, og að vextir skyldu reiknast frá 5. maí 2008. Varnaraðili hafnar því að með viðaukanum hafi upphaflegt lán verið endurfjármagnað með nýjum lánshlutum í erlendri mynt enda hafi engir fjármunir færst á milli varnaraðila og BG Holding ehf. vegna hennar, engin raunveruleg viðskipti hafi legið þar að baki, hvorki í íslenskum krónum né í erlendum gjaldmiðlum og enginn erlendur gjaldeyrir verið millifærður inn á gjaldeyrisreikning vegna þeirra. Hafi verið um raunverulega endurfjármögnun lánsins að ræða hefði þurft að gera nýjan lánssamning.

IV

Niðurstaða

Í máli þessu deila aðilar um það hvort lán sem Landsbanki Íslands hf., forveri sóknaraðila, veitti BG Holding ehf., hafi verið lögmætt erlent lán eða hvort það hafi verið í íslenskum krónum bundið gengi erlendra gjaldmiðla og með því farið í bága við ófrávíkjanleg ákvæði 13. og 14., sbr. 2. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. dóma Hæstaréttar Íslands frá 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og 153/2010.

Í lánssamningnum, sem gerður var á ensku en liggur fyrir í íslenskri þýðingu í gögnum málsins, eru á forsíðu undir fyrirsögn tilgreindar „KR 28.000.000.000“. Í inngangi samningsins er þess getið að hann sé á milli Landsbanka Íslands hf. sem lánveitanda, BG Holding ehf. sem lántaka og Baugs Group hf. sem ábyrgðaraðila. Í 1. gr. samningsins kemur fram að lánveitandi veiti lántaka „aðgang að fjölmyntaláni að heildarfjárhæð sem samsvarar kr. 28.000.000.000 ... í eftirfarandi myntum og fjárhæðum.“  Síðan eru tilgreindar evrur í hlutfallinu 30%, japönsk jen í hlutfallinu 20%, svissneskir frankar í hlutfallinu 30% og sterlingspund í hlutfallinu 20%. Þá er tekið fram að lánið skuli hér eftir tilgreina í þessum erlendu gjaldmiðlum eða jafngildi þeirra í gjaldmiðli sem er tiltækur lánveitanda. Í 2. gr. samningsins er kveðið á um skilyrði um útgreiðslu lánsins og tilgreindar níu erlendar myntir sem lánið verði aðgengilegt í en íslenskar krónur eru ekki þar á meðal. Þá er í 3. gr. samningsins fjallað um endurgreiðslu lánsins en ekki vikið að því sérstaklega í hvaða mynt endurgreiðslan skuli fara fram að öðru leyti en því að tekið er fram að lántaka skuli vera heimilt að fyrir fram greiða lánið að fullu eða að hluta en þá skuli fjárhæð slíkrar greiðslu að lágmarki nema 10.000.000 króna. Samkvæmt 5. gr. skulu vextir af láninu vera LIBOR-vextir auk tilgreinds vaxtaálags. Í 8. gr. er fjallað um heimild til myntbreytinga en einungis var í boði að breyta „myntfæti lánsins“ í aðra þá erlendu mynt sem getið er um í 2. gr. samningsins.

Í dómum sínum um hvort lán sé í erlendri mynt eða íslenskum krónum bundið gengi erlendra gjaldmiðla hefur Hæstiréttur fyrst og fremst lagt til grundvallar skýringu á texta þeirrar skuldbindingar sem lántaki hefur gengist undir. Þegar sú textaskýring tekur ekki af skarið um hvers efnis skuldbindingin er að þessu leyti hefur verið litið til atriða sem lúta að því hvernig hún hefur verið efnd og framkvæmd að öðru leyti. Að mati dómsins tekur textaskýring lánssamningsins frá 17. desember 2007 ekki af skarið um hvers efnis samningurinn er að þessu leyti og því ber í samræmi við framangreint að líta til atriða sem lúta að því hvernig hann var efndur og framkvæmdur.

Samkvæmt gögnum málsins afgreiddi sóknaraðili lánið 27. desember 2007 á grundvelli ádráttarbeiðni BG Holding ehf. frá 17. sama mánaðar. Af kaupnótu má ráða að það hafi verið innt af hendi í sömu erlendu myntum og getið er um í beiðninni og að BG Holding ehf. hafi selt þær til sóknaraðila og þannig fengið 28.000.000.000 króna. Láninu var síðan ráðstafað til greiðslu eldri lána félagsins og Baugs Group hf. í íslenskum og erlendum gjaldmiðlum og inn á tékkareikningareikninga Baugs Group hf. og Unity Investments hf. í íslenskum krónum. Meirihluti lánanna var í erlendum gjaldmiðlum og við uppgjör þeirra var miðað við sama gengi og BG Holding hf. seldi framangreinda gjaldmiðla á. Sú fjárhæð sem lögð var inn á tékkareikningana mun hafi verið notuð til þess að greiða yfirdráttarlán og afleiðusamninga Baugs Group hf. og Unity Investments hf. en umræddir afleiðusamningar voru í erlendum gjaldmiðlum. Af framangreindu má því ráða að íslensk króna hafi verið notuð sem viðmiðunarmynt í uppgjöri aðila, þ.e. að skuldbindingum félaganna sem voru í erlendum gjaldmiðlum hafi verið umbreytt í íslenskar krónur við endurfjármögnun þá sem fram fór með hinu umþrætta láni. Félögin fengu aldrei íslenskar krónur til frjálsra umráða heldur var láninu alfarið ráðstafað til greiðslu eldri skuldbindinga sem að meirihluta voru í erlendum gjaldmiðlum.

Lánið var til fimm ára og átti að greiðast með einni afborgun hinn 5. janúar 2013. Vexti skyldi hins vegar greiða mánaðarlega, í fyrsta sinn 5. febrúar 2008. Einungis ein vaxtagreiðsla var innt af hendi á gjaldaga en 5. febrúar 2008 voru skuldfærðar af tékkareikningi Baugs Group hf. 257.908.874 krónur til greiðslu vaxta samkvæmt samningum. Hinn 31. mars 2008 voru skuldfærð 2.410.233 sterlingspund, sem samsvaraði 374.019.974 krónum, af gjaldeyrisreikningi BG Holding ehf. hjá sóknaraðila til greiðslu á vöxtum vegna tímabilsins frá 5. febrúar til 31. mars 2008. Þann 9. apríl 2008 voru skuldfærðar 44.222.881 króna af tékkareikningi Baugs Group hf. hjá sóknaraðila til greiðslu á vöxtum vegna tímabilsins 31. mars 2008 til 7. apríl 2008 (gjalddagi var skv. greiðslutilkynningu síðastnefndan dag). Í þeim tilvikum sem greiðslur fóru fram í íslenskum krónum voru keyptir gjaldmiðlar í samræmi við lánasamninginn til að greiða afborgun lánsins í viðkomandi mynt. Samkvæmt framangreindu var ríflega helmingur af vöxtum lánsins inntur af hendi í erlendum gjaldmiðli áður en það var gjaldfellt 4. febrúar 2009. Innborganir á lánið, eftir að það var gjaldfellt, voru að langstærstu leyti í sterlingspundum en um var að ræða greiðslur vegna trygginga sem sóknaraðili hafði fyrir skuldum BG Holding ehf. hjá sóknaraðila, þ.m.t. vegna nefnds lánasamnings.

Hinn 31. júlí 2008 var gerð skilmálabreyting á lánasamningum (e. amendment to loan agreement) sem fól í sér að greiðslum á vöxtum lánsins var frestað. Þótt í inngangi samningsins sé vísað til þess að hann hafi upphaflega verið að fjárhæð 28.000.000.000 króna er til þess að líta að eftirstöðvar hans eru einungis tilgreindar í hinum erlendu myntum.

                Loks verður ekki litið fram hjá því að BG Holding ehf. var stofnað til að fara með eignarhald breskra eigna Baugs Group hf. og tengdra félaga. Í skýrslu fyrrum fjármálastjóra og aðstoðarforstjóra Baugs Group ehf., og stjórnarmanns í BG Holding ehf., Stefáns Hilmars Hilmarssonar, fyrir dóminum kom fram að fyrirsvarsmenn félagasamstæðunnar hefðu litið svo á að þeir hefðu, við gerð hins umþrætta lánasamnings, talið sig vera að taka erlent lán, þ.e. lán sem myndi taka breytingum í samræmi við breytingar á gengi erlendra gjaldmiðla. Hafi vaxtakjör lánsins tekið mið af því. Vegna þess hve vextir af lánum í sterlingspundum hafi verið háir, á þessum tíma, hafi verið ákveðið að taka lán í fleiri myntum þótt eignir félagasamstæðunnar, og tryggingar fyrir lánasamningnum, hafi að mestu verið í sterlingspundum. Þá staðfesti Stefán Hilmar, það sem ráða má af fyrirliggjandi ársreikningi BG Holding ehf. vegna ársins 2007, að félagið hefði fært hið umþrætta lán í sterlingspundum í bókhaldi sínu.

Líkt og dómaframkvæmd ber með sér ræðst niðurstaða um það hvort lán af þessum toga sé í íslenskum krónum eða erlendum gjaldmiðlum af ákveðnu heildarmati. Að mati dómsins stendur slíkt heildarmat ótvírætt til þess að lán það sem hér er um deilt teljist hafa verið í erlendum gjaldmiðlum og er því fallist á viðurkenningarkröfu sóknaraðila.

Með vísan til þessara málsúrslita verður varnaraðila gert að greiða sóknaraðila málskostnað, sbr. 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, sem þykir hæfilega ákveðinn 1.240.000 krónur.

                Við uppkvaðningu úrskurðarins var gætt ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991.

                Af hálfu sóknaraðila flutti málið Guðmundur Óli Björgvinsson hrl. vegna Kristins Bjarnasonar hdl. en af hálfu varnaraðila flutti málið Sigurður Kári Kristjánsson hdl.

   Kolbrún Sævardóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

                                                               Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Viðurkennt er að lánssamningur nr. 10524 frá 19. desember 2007 ásamt viðauka frá 31. júlí 2008 milli Landsbanka Íslands hf. sem lánveitanda og BG Holding ehf. sem lántakanda er um lán í erlendum gjaldmiðlum.

                Varnaraðili, BG Holding ehf., greiði sóknaraðila, LBI hf., 1.240.000 krónur í málskostnað.