Hæstiréttur íslands
Mál nr. 549/2011
Lykilorð
- Vinnuslys
- Skaðabætur
- Líkamstjón
- Örorka
- Sakarskipting
|
|
Fimmtudaginn 14. júní 2012. |
|
Nr. 549/2011.
|
Sigurður Bergþórsson (Grímur Sigurðsson hrl.) gegn A 1988 hf. (Einar Baldvin Axelsson hrl.) Fjölhæfni ehf. og (enginn) ERREMM ehf. (Kristín Edwald hrl.) og ERREMM ehf. og A1988 hf. gegn Sigurði Bergþórssyni |
Vinnuslys. Skaðabætur. Líkamstjón. Örorka. Sakarskipting.
Deilt var um ábyrgð á tjóni sem S varð fyrir er hann féll fram af vörubretti sem híft hafði verið upp með lyftara í 2,65 m hæð. S var að vinna við uppsetningu á hillum sem E hf. hafði tekið að sér að setja upp fyrir A hf. í húsnæði þess síðarnefnda. Þáði S laun frá F ehf. fyrir þessa vinnu en félagið hafði lánað E ehf. hann til starfans. Lyftarinn var í eigu A hf. og sá sem stjórnaði honum var starfsmaður þess félags. Starfsmenn E ehf. höfðu veg og vanda af uppsetningu hillnanna og leiðbeindu S áður en verkið hófst. Talið var að A hf. og E ehf. bæru sameiginlega ábyrgð á tjóni S á grundvelli reglna um vinnuveitendaábyrgð en F ehf. var sýknað af kröfu S þar sem félagið hafði ekki komið að verkinu og hafði ekki boðvald yfir S við framkvæmd þess. S var látinn bera tjón sitt að hálfu leyti sjálfur þar sem hann hafði sýnt stórfellt gáleysi með því að standa á vörubretti þar sem engar fallvarnir voru til staðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Greta Baldursdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 7. október 2011. Hann krefst þess aðallega að gagnáfrýjendum og stefnda Fjölhæfni ehf. verði sameiginlega gert að greiða sér 17.676.302 krónur með 4,5% ársvöxtum af 2.783.550 krónum frá 2. mars 2005 til 27. júní 2006 en frá þeim degi af 15.022.919 krónum til 5. nóvember 2006 en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu til 2. júlí 2009 en frá þeim degi með dráttarvöxtum af 17.676.302 krónum til greiðsludags. Til vara krefst hann þess að gagnáfrýjendum og stefnda verði sameiginlega gert að greiða sér 17.676.302 krónur með 4,5% ársvöxtum af 3.865.625 krónum frá 2. mars til 3. ágúst 2005 en frá þeim degi af 17.676.302 krónum til 2. júlí 2009 en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 til greiðsludags. Að þessu frágengnu krefst hann þess að gagnáfrýjendum og stefnda verði sameiginlega gert að greiða sér 9.280.871 krónu með 4,5% ársvöxtum af 3.865.625 krónum frá 2. mars til 3. ágúst 2005 en frá þeim degi af 9.280.871 krónu til 2. janúar 2011 en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 til greiðsludags. Þá krefst aðaláfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi, ERREMM ehf., áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 29. nóvember 2011. Hann krefst aðallega sýknu af kröfum aðaláfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti en til vara að kröfur aðaláfrýjanda verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður.
Gagnáfrýjandi, A 1988 hf. áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 15. desember 2011. Hann krefst aðallega sýknu af kröfum aðaláfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti en til vara að kröfur aðaláfrýjanda verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður.
Stefndi, Fjölhæfni ehf., hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti. Samkvæmt 3. mgr. 158. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála ber að líta svo á að hann krefjist staðfestingar héraðsdóms.
Aðaláfrýjandi hefur stefnt Sjóvá-Almennum tryggingum hf. til réttargæslu fyrir Hæstarétti.
Eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi slasaðist aðaláfrýjandi er hann féll fram af vörubretti sem híft hafði verið upp með lyftara í 2,65 m hæð. Þegar atvikið átti sér stað var aðaláfrýjandi að vinna við uppsetningu á hillum sem gagnáfrýjandinn ERREMM ehf. hafði selt gagnáfrýjandanum A 1988 hf. og skuldbundið sig til að setja upp í húsnæði þess síðarnefnda. Lyftarinn var í eigu gagnáfrýjandans A 1988 hf. og sá sem stjórnaði honum var starfsmaður félagsins. Aðaláfrýjandi fékk greidd laun frá stefnda Fjölhæfni ehf. fyrir þessa vinnu en sá síðarnefndi mun hafa lánað ERREMM ehf. hann til starfans.
II
Í málinu liggur fyrir matsgerð dómkvaddra manna um tjón aðaláfrýjanda og er hvorki ágreiningur um tjón hans né útreikning bóta. Snýst ágreiningur aðila einkum um ábyrgð á tjóni aðaláfrýjanda, meðal annars hvort hann skuli bera tjón sitt sjálfur. Þá er ágreiningur um hvort frádráttur á grundvelli 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 eigi rétt á sér auk þess sem deilt er um forsendur og upphafstíma dráttarvaxta. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest sú niðurstaða hans að gagnáfrýjendurnir A 1988 hf. og ERREMM ehf. beri skaðabótaábyrgð á tjóni aðaláfrýjanda en að sýkna beri stefnda Fjöltækni ehf. af kröfum hans. Þegar litið er til aldurs, menntunar og reynslu aðaláfrýjanda, þykir hann hafa sýnt af sér stórfellt gáleysi þegar hann lét lyfta sér upp í 2,65 m hæð til að vinna umrætt verk við þær aðstæður að standa á vörubretti þar sem engar fallvarnir voru til staðar. Að því virtu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður fallist á niðurstöðu hans um að aðaláfrýjandi skuli bera helming tjóns síns sjálfur.
III
Fyrir héraðsdómi var uppi ágreiningur um vísitöluútreikning á þjáningarbætur og bætur vegna varanlegs miska, sbr. 15. gr. skaðabótalaga. Við meðferð málsins fyrir Hæstarétti var fallið frá mótmælum að þessu leyti. Er ekki ágreiningur um útreikning bótafjárhæða sem byggðar eru á fyrirliggjandi matsgerð samtals að fjárhæð 17.641.302 krónur sem sundurliðast svo: Þjáningabætur 227.150 krónur, bætur vegna varanlegs miska 3.638.475 krónur og bætur vegna varanlegrar örorku 13.771.707 krónur. Þá er staðfest sú niðurstaða hins áfrýjaða dóms að krafa aðaláfrýjanda um annað fjártjón er einungis viðurkennd að fjárhæð 3.970 krónur.
Eins og fram er komið er ágreiningur með aðilum hvort skaðabætur til aðaláfrýjanda vegna líkamstjóns hans eigi að sæta frádrætti samkvæmt 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er staðfest sú niðurstaða hans að krafa aðaláfrýjanda skuli sæta frádrætti að þessu leyti. Samkvæmt fyrirliggjandi útreikningi tryggingastærðfræðings, sem ekki er ágreiningur um, nemur þessi frádráttur 8.463.635 krónum. Er tjón aðaláfrýjanda því samtals að fjárhæð 9.177.667 krónur og með hliðsjón af því sem að framan greinir ber hann sjálfur ábyrgð á helmingi þess. Verða gagnáfrýjendur því dæmdir til að greiða honum 4.588.834 krónur með vöxtum eins og greinir í dómsorði en niðurstaða hins áfrýjaða dóms um dráttarvexti verður staðfest með vísan til forsendna. Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað verða staðfest.
Gagnáfrýjendur verða dæmdir til að greiða aðaláfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Gagnáfrýjendur, A 1988 hf. og ERREMM ehf. greiði óskipt aðaláfrýjanda, Sigurði Bergþórssyni, 4.588.834 krónur með 4,5% ársvöxtum af 1.932.813 krónum frá 2. mars til 3. ágúst 2005, en frá þeim degi af 4.588.834 krónum til 10. mars 2011, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af sömu fjárhæð frá þeim degi til greiðsludags.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms skulu að öðru leyti vera óröskuð.
Gagnáfrýjendur greiði óskipt aðaláfrýjanda 700.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur fimmtudaginn 7. júlí 2011.
Mál þetta var upphaflega tekið til dóms 10. febrúar sl. Það er höfðað með birtingu stefnu 8. október 2008 og með framhaldsstefnu sem þingfest var 2. júní 2009. Með úrskurði uppkveðnum 9. mars sl., var málinu vísað frá dómi án kröfu. Með dómi Hæstaréttar Íslands 28. apríl sl. í máli nr. 204/2011 var úrskurðurinn felldur úr gildi og lagt fyrir dóminn að taka málið til efnismeðferðar. Málið var endurupptekið og dómtekið á ný 1. júlí sl., að lokinni aðalmeðferð.
Stefnandi er Sigurður Bergþórsson, Holtsgötu 21, Reykjavík.
Stefndu eru Hlutafélagið Eimskipafélag Íslands, Korngarði 2, Reykjavík, Rými ehf., Háteigsvegi 7, Reykjavík, Fjölhæfni ehf., Ránarvöllum 12, Reykjanesbæ og til réttargæslu Sjóvá-Almennar tryggingar hf., Kringlunni 5, Reykjavík.
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru aðallega að stefndu, Hf. Eimskipafélag Íslands, Rými ehf. og Fjölhæfni ehf., verði sameiginlega dæmdir til að greiða stefnanda ,,kr. 17.676.302 með 4,5% ársvöxtum af kr. 2.783.550 frá 2. mars 2005 til 27. júní 2006, en frá þeim degi af kr. 15.022.919 til 5. nóvember 2006, en frá þeim degi með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, til 2. júlí 2009, en frá þeim degi með dráttarvöxtum af kr. 17.676.302, auk áfallinna vaxta, til greiðsludags.“
Til vara er þess krafist að stefndu verði dæmdir til að greiða stefnanda sameiginlega ,,kr. 17.676.302 með 4,5% vöxtum af kr. 3.865.625 frá 2. mars 2005 til 3. ágúst 2005, en frá þeim degi af kr. 17.676.302 til 2. júlí 2009 en frá þeim degi með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, til greiðsludags“.
Til þrautavara er þess krafist að stefndu greiði stefnanda ,,kr. 9.280.871 með 4,5% vöxtum af kr. 3.865.625 frá 2. mars 2005 til 3. ágúst 2005, en frá þeim degi af kr. 9.280.871 til 2. janúar 2010 en frá þeim degi með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu til greiðsludags“.
Í öllum tilvikum er krafist málskostnaðar úr hendi stefndu sameiginlega, líkt og málið væri ekki gjafsóknarmál, samkvæmt málskostnaðarreikningi eða mati dómsins auk virðisaukaskatts.
Stefnandi gerir ekki kröfur á hendur réttargæslustefnda, Sjóvá-Almennum tryggingum hf.
Stefndi Hf. Eimskipafélag Íslands krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins eða samkvæmt málskostnaðarreikningi.
Til vara er þess krafist að kröfur stefnanda verði stórlækkaðar og málskostnaður felldur niður.
Stefndi Rými ehf. krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins eða samkvæmt málskostnaðarreikningi.
Til vara er þess krafist að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og málskostnaður felldur niður.
Stefndi Fjölhæfni ehf. krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda.
Til vara er þess krafist að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar og aðeins teknar til greina að óverulegu leyti.
Í báðum tilvikum krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda samkvæmt málskostnaðarreikningi eða að mati dómsins.
Af hálfu réttargæslustefnda eru engar kröfur gerðar.
Málsatvik
Stefndi, Hf. Eimskipafélag Íslands bauð í nóvember 2004 út kaup á hillukerfi og uppsetningu þess í vöruhóteli stefnda og tók stefndi tilboði stefnda Rýmis ehf. í verkið. Stefndi, Rými ehf., mun hafa samið við tvo verktaka um uppsetningu hillukerfisins, Stefán Má Sturluson smið og stefnda, Fjölhæfni ehf. Stefnandi var á þessum tíma starfsmaður stefnda Fjölhæfni ehf. en mun hafa verið lánaður til stefnda Rýmis ehf. til að vinna að uppsetningu hillukerfisins.
Hinn 2. mars 2005 varð stefnandi fyrir vinnuslysi er hann var að festa upp hillueiningar. Hann stóð á vörubretti sem lyft hafði verið upp í 2,65 metra hæð með lyftara. Lyftarinn var í eigu stefnda Eimskips hf. og stjórnað af starfsmanni félagsins, Bjarna Garðarssyni, en Stefán Már stóð á gólfinu og leiðbeindi stefnanda. Stefnandi mun hafa verið að festa lykkju í þverslá þegar sláin losnaði, með þeim afleiðingum að hreyfing kom á brettið. Við það missti stefnandi jafnvægið og féll niður á gólf og lenti á fótunum með þeim afleiðingum að báðir hælar hans brotnuðu.
Stefnandi var fluttur á slysadeild Landspítalans þar sem hann var skoðaður. Við þá skoðun kom í ljós hælbrot á báðum fótum.
Stefnandi óskaði eftir því að Atli Þór Ólason bæklunarskurðlæknir mæti afleiðingar slyssins fyrir stefnanda. Niðurstaða læknisins, sem ekki var dómkvaddur, var sú að varanlegur miski stefnanda væri 40 stig og varanleg örorka 50%. Er niðurstaða hans dagsett 30. júní 2006 og mat hann stöðugleikapunkt stefnanda 27. júní 2006. Undir rekstri málsins voru dómkvaddir Halldór Baldursson bæklunarlæknir og Ingvar Sveinbjörnsson hæstaréttarlögmaður til að meta afleiðingar slyssins. Niðurstaða matsmanna samkvæmt matsgerð frá 25. maí 2009, var sú að varanlegur miski stefnanda væri 45 stig og varanleg örorka 60%. Þeir töldu að heilsufar hans hefði verið orðið stöðugt 3. ágúst 2005.
Undir rekstri málsins var Halldór Baldursson bæklunarlæknir dómkvaddur á ný til að meta hversu stór hluti af metinni örorku stefnanda hjá almannatryggingum og lífeyrissjóðum væri tilkominn vegna afleiðinga umrædds vinnuslyss stefnanda. Niðurstaða matsmannsins sem er frá 31. janúar 2010, var sú að örorka stefnanda, eins og hún er metin í örorkumatsgerðum almannatrygginga, sé að 40% leyti tilkomin vegna afleiðinga umrædds vinnuslyss, og að örorka stefnanda, eins og hún er metin í matsgerðum vegna orkutaps á vegum lífeyrissjóða, sé að 75% leyti tilkomin vegna afleiðinga umrædds vinnuslyss. Í matsgerð Atla Þórs Ólasonar kemur fram að stefnandi var við nám í Iðnskólanum í Reykjavík við trésmíði, en hætti þegar hann átti eftir eina önn. Þá hafði stefnandi unnið verkamannavinnu við húsbyggingar í mörg ár fyrir slys það sem mál þetta fjallar um
Stefnandi krafði stefndu Rými ehf. og réttargæslustefnda um bætur með bréfum í október 2006, en réttargæslustefndi, sem mun vera vátryggingafélag stefndu Eimskips hf. og Rýmis ehf., hefur neitað bótaskyldu í málinu.
Aðilar málsins deila um aðdraganda þess að vörubretti var notað við vinnu stefnanda og um verkstjórn á staðnum. Stefndu hafna bótaskyldu á grundvelli eigin sakar stefnanda. Ekki er ágreiningur milli aðila um niðurstöðu matsgerðar hinna dómkvöddu matsmanna, en deilt er um útreikning kröfunnar, þar á meðal um frádrátt samkvæmt 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, upphafstíma dráttarvaxta og þá vísitölu sem útreikningur grundvallast á.
Stefnandi kom fyrir dóminn við aðalmeðferð málsins og gaf skýrslu. Fyrir dóminn komu einnig og gáfu skýrslur matsmennirnir Ingvar Sveinbjörnsson og Halldór Baldursson og vitnin Bjarni Garðarsson, Stefán Már Sturluson, Þorsteinn Þorsteinsson og Gunnar Már Gunnarsson.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi byggir bótakröfu sína á almennu skaðabótareglunni og þeim sérsjónarmiðum sem eigi við um beitingu reglunnar þegar slys verður á vinnustað, vegna sakar starfsmanna og/eða vegna ófullnægjandi aðbúnaðar. Stefnandi kveðst byggja á ströngu sakarmati á ábyrgð vinnuveitanda á hættulegum tækjum og aðstæðum á vinnustað. Stefnandi byggir einnig á því að stefndu beri skaðabótaábyrgð á verkstjórn og vinnubrögðum starfsmanna sinna samkvæmt ólögfestri reglu íslensks skaðabótaréttar um vinnuveitandaábyrgð.
Stefnandi fullyrðir að sá sem verk sé unnið fyrir teljist vinnuveitandi í skilningi vinnuveitandaábyrgðar skaðabótaréttar. Stefnandi hafi verið á launum hjá stefnda Fjölhæfni ehf. og unnið að verki sem stefndi Rými ehf. hafi verið að vinna fyrir stefnda Eimskip. Stefnandi hafi því unnið verkið í þágu allra stefndu. Stefnandi hafi verið starfsmaður stefnda Fjölhæfni ehf. en einnig stefnda Rýmis ehf., við vinnu sína sem hafi falist í uppsetningu hillna í húsnæði stefnda Eimskips hf. Stefnandi byggir á því að slys hans megi rekja til samverkandi atriða sem allir stefndu hafi borið ábyrgð á, ýmist hver fyrir sig eða allir í sameiningu.
Stefnandi byggir á því að verklagi, verkstjórn og vinnuaðstöðu hafi verið ábótavant á vinnustað þegar slysið átti sér stað og að allir stefndu beri ábyrgð á því. Stefnandi vísar til þess að í 1. mgr. 17. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, komi fram að þar sem fleiri atvinnurekendur eigi aðild að starfsemi á sama vinnustað, skuli þeir og aðrir, sem þar starfi, sameiginlega stuðla að því að tryggja góðan aðbúnað og heilsusamleg og örugg starfsskilyrði á vinnustaðnum.
Stefnandi vísar til þess að 46. gr. laga nr. 46/1980 kveði á um að tæki skuli þannig úr garði gerð að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar. Farið skuli að viðurkenndum stöðlum, lagaákvæðum og reglugerðum, svo og fyrirmælum Vinnueftirlits ríkisins, að því er varðar aðbúnað, hollustuhætti og öryggi. Þá hafi 3. gr. þágildandi reglugerðar nr. 431/1997, um notkun tækja, m.a. lagt þá skyldu á atvinnurekanda að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að tæki sem starfsmönnum eru látin í té innan fyrirtækis henti til þeirra verka sem vinna eigi eða séu hæfilega löguð að þeim, þannig að starfsmenn geti notað þau án þess að öryggi þeirra eða heilsu stafi hætta af.
Samkvæmt grein 3.1.2. í viðauka II við reglugerð nr. 431/1997 megi einungis lyfta mönnum með tækjum og búnaði sem til þess er ætlaður. Reglur Vinnueftirlits ríkisins nr. 3/1991 mæli í 1. grein fyrir um að nota skuli þar til gerða körfu til þess að lyfta fólki. Stefnandi telur sannað með skýrslu eftirlitsmanns Vinnueftirlitsins að meginorsök slyssins hafi verið sú að ekki hafi verið notuð viðurkennd mannkarfa við verkið. Með því hafi verið brotið gegn öryggiskröfum í 4.- 6., 13., 37. 42. og 86. gr. laga nr. 46/1980. Fyrirsvarsmönnum stefndu hafi verið skylt að sjá til þess að vinnuaðstæður væru með þeim hætti að ekki stafaði hætta af fyrir starfsmenn.
Stefnandi vísar til reglna IV. kafla laga nr. 46/1980 og telur þær mæla fyrir um ríkar skyldur og ábyrgð vinnuveitanda á öllum aðbúnaði á vinnustað og öryggi starfsmanna við framkvæmd starfs. Ábyrgð á aðbúnaði og öryggi verði því ekki lögð á ófaglærðan, reynslulausan starfsmann sem slasist. Starfsmaður stefnda, Eimskips hf. hafi lyft stefnanda án mannkörfu til að vinna verk sem leiddi til slyss og hafi hvorki starfsmenn stefnda Eimskips hf. né starfsmenn annarra stefndu gefið stefnanda ábendingar um að vinna verkið með öðrum hætti.
Stefnandi byggir á því að stjórnandi lyftarans hafi sýnt af sér saknæma háttsemi. Stefndu beri vinnuveitandaábyrgð á stjórnandanum og því verklagi sem hafi verið notað við að lyfta stefnanda upp. Hvað varði stefndu Fjölhæfni ehf. og Rými ehf. sé nægilegt til að fella vinnuveitandaábyrgð á aðila að tjónvaldur vinni í raun fyrir hann og lúti verkstjórn hans. Annars vegar sé stjórnandi lyftarans ábyrgur fyrir stjórnun og notkun lyftara síns og eigi að þekkja reglur sem gilda um notkun lyftara. Í yfirheyrslu lögreglu yfir stjórnandanum komi fram að hann hafi þekkt reglur sem gildi um það þegar mönnum er lyft með lyftara. Stefnandi telur að stjórnandinn hafi gerst sekur um vanrækslu með því að lyfta stefnanda upp í hátt í þriggja metra hæð án þess að stefnandi væri í mannkörfu. Þá hafi stjórnandinn sagst hafa vikið frá tækinu og ekki verið á staðnum þegar slysið hafi orðið en það brjóti gegn 3. málslið greinar 3.1.2. í II. viðauka þágildandi reglugerðar um notkun tækja, nr. 431/1997. Hins vegar hafi stjórnandinn ekki hagrætt lyftaranum þannig að sem öruggast væri fyrir stefnanda, enda hafi Vinnueftirlitið talið í skýrslu eftirlitsmanns að meðvirkandi þáttur slyssins hafi verið staða lyftarans sem ekki hafi staðið beint að hillunum heldur verið á ská við þær.
Stefnandi telur að Gunnar Már Gunnarsson, starfsmaður stefnda Rýmis ehf., hafi verið verkstjóri yfir verkinu og komi það fram í skýrslu Vinnueftirlitsins. Með slælegri verkstjórn hafi verið brotið gegn 21.- 23. og 86. gr. laga nr. 46/1980. Þörf sé á fullnægjandi verkstjórn við eins hættulegt verk og hér um ræði, einkum þegar starfsmaðurinn sem vinni verkið sé fenginn að láni og hafi því viðkomandi verk ekki að aðalstarfi.
Stefnandi byggir á því að tegund ráðningarsambands stefnda Rýmis ehf. og Gunnars skipti ekki máli gagnvart stefnanda. Gunnar hafi komið fram gagnvart stefnanda sem starfsmaður stefnda Rýmis ehf. Vinnuveitendur geti ekki komist hjá strangri ábyrgð sinni á verkstjórn og öryggi á vinnustað með því að ráða inn einn starfsmann sem „sjálfstæðan verktaka“. Vinnuveitandaábyrgð byggi á því að sá sem verði fyrir tjóni geti sótt bætur til raunverulegs vinnuveitanda. Starfsmaður geti ekki misst bótarétt gagnvart vinnuveitanda við það eitt að vinnuveitandinn kjósi að gera verktakasamning í stað launasamnings við þann starfsmann sem tjóninu veldur. Ljóst sé að Gunnar hafi ekki unnið á eigin vegum, með eigin starfsmenn eða verkfæri, og hafi ekki ráðið starfstíma eða framvindu verksins að öðru leyti. Þvert á móti hafi Gunnar mætt til vinnu á sama tíma og aðrir og unnið í samstarfi við starfsmenn stefndu með tækjum stefndu.
Í lögregluskýrslu, dags. 4. mars 2005, sé haft eftir Stefáni Sturlusyni að stefnandi sé starfsmaður stefnda Fjölhæfni ehf. Skýrslu Vinnueftirlitsins, sem ekki hafi verið andmælt, sé beint að stefnda Fjölhæfni ehf. og því beint til félagsins að bannað sé að lyfta mönnum nema þeir séu í viðurkenndri körfu og skuli úrbætur strax gerðar. Það gefi til kynna að stefndi Fjölhæfni ehf. hafi einnig borið skyldur gagnvart stefnanda hvað varðar verkstjórn.
Ljóst sé að starfsmenn stefndu Rýmis ehf. og jafnvel Fjölhæfni ehf. hafi ráðið tilhögun verksins og hafi stefnandi einungis unnið verkið samkvæmt fyrirmælum yfirboðara sinna.
Því hafi verið haldið fram í greinargerðum stefndu að matsgerð Atla Þórs Ólasonar væri ófullnægjandi sönnun um afleiðingar slyssins. Hafi Halldór Baldursson, læknir, og Ingvar Sveinbjönrsson, hæstaréttarlögmaður, því verið dómkvaddir til að leggja mat á afleiðingar slyssins samkvæmt skaðabótalögum nr. 50/1993. Þeir hafi skilað matsgerð, dagsettri 25. maí 2009, og af henni sé ljóst að tjón stefnanda sé meira en áður hafi verið talið.
Stefnandi bendir á að samkvæmt 29. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála sé með framhaldsstefnu heimilt að auka við fyrri kröfu eða hafa uppi nýja kröfu í máli eftir þingfestingu en fyrir aðalmeðferð ef skilyrðum 1. mgr. 27. gr. laganna er fullnægt og það verði ekki metið aðilanum til vanrækslu að hafa ekki gert kröfur sínar í einu lagi í öndverðu. Skilyrði 1. mgr. 27. gr. laganna séu til staðar enda séu framhaldskröfurnar samrættar upphaflegu kröfunum. Þá verði það ekki metið stefnanda til vanrækslu að gera ekki kröfurnar fyrr.
Stefnandi byggir útreikning skaðabótakröfu sinnar á ákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993 og leggur til grundvallar örorkumat Halldórs Baldurssonar, læknis, og Ingvars Sveinbjörnssonar, hæstaréttarlögmanns, frá 25. maí 2009.
Samkvæmt matinu sundurliðast krafa stefnanda þannig:
1. Þjáningabætur......................................................................... kr. 227.150,-
2. Varanlegur miski 45 stig........................................................ kr. 3.638.475,-
3. Varanleg örorka 60%........................................................... kr. 13.771.707,-
4. Annað fjártjón........................................................................ kr. 38.970,-
SAMTALS............................ kr. 17.676.302,-
Um tímabundið atvinnutjón
Samkvæmt örorkumatinu hafi stefnandi verið óvinnufær með öllu í fimm mánuði og einn dag. Tjónið sé miðað við síðustu launagreiðslu 158.400 krónur,- x 5,03 mánuðir = 796.752 krónur. Til frádráttar komi launagreiðslur og greiðsla úr slysatryggingu launþega en vegna þeirra sé ekki gerð krafa um greiðslu á tímabundnu atvinnutjóni.
Um 1. tölulið Þjáningabætur
Matsmenn telji stefnanda hafa verið rúmfastan í skilningi 3. gr. skaðabótalaga frá 2. mars 2005 til 8. mars 2005 eða í 7 daga. Samkvæmt ákvæðum 3. gr. skaðabótalaga, sbr. 1. mgr. 15. gr., séu þjáningabætur vegna hvers dags sem stefnandi hafi verið rúmliggjandi 2.630 krónur, miðað við vísitölu í júní 2009 (1.300 x 6634/3282). Sé því krafist greiðslu á 2.630 krónur x 7 = 18.410 krónur, vegna þessa þáttar.
Matsmenn telji að stefnandi hafi verið veikur án þess að vera rúmfastur í skilningi 3. gr. skaðabótalaga frá 9. mars 2005 til 3. ágúst 2005 eða í 147 daga. Samkvæmt ákvæðum 3. gr. skaðabótalaga, sbr. 1. mgr. 15. gr., séu þjáningabætur vegna hvers dags sem stefnandi hafi verið veikur 1.420 krónur, miðað við lánskjaravísitölu í júní 2009 (700 x 6634/3282). Sé því krafist greiðslu á 1.420 krónum x 147 = 208.740 krónur, vegna þessa þáttar.
Samtals nemi krafa vegna þessa liðar því 208.740 + 18.410 = 227.150 krónur.
Um 2. tölulið Varanlegur miski
Matsmenn meti varanlegan miska stefnanda vegna afleiðinga slyssins 45 stig. Fjárhæðin sé reiknuð skv. 4. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 15. gr. skaðabótalaga, miðað við lánskjaravísitölu í október 2006 (4.000.000 x 6634/3282 = 8.085.500). Krafa vegna varanlegs miska nemi því 8.085.500 krónum- x 45% = 3.638.475 krónur.
Um 3. tölulið Varanleg örorka
Matsmenn meti varanlega örorku stefnanda, skv. 5. 7. gr. skaðabótalaga, vegna slyssins 60%.
Þrjú síðustu almanaksár fyrir slysdag hafi tekjur stefnanda, leiðréttar samkvæmt launavísitölu til stöðugleikapunkts í ágúst 2005 (268,9), verið sem hér segi:
|
Ár |
Árstekjur |
Uppfærðar árstekjur |
|
2004 (vísitala 250,3) |
1.543.681,- |
1.658.393,- |
|
2003 (vísitala 239,1) |
1.193.940,- |
1.342.746,- |
|
2002 (vísitala 226,4) |
2.382.865,- |
2.830.178,- |
Meðalárslaun stefnanda nemi því 1.943.772 krónur, en að viðbættu 6% framlagi atvinnurekanda í lífeyrissjóð 2.060.399 krónur
Á stöðugleikatímapunkti hafi stefnandi verið 37 ára og 77 daga gamall. Margföldunarstuðull samkvæmt 6. gr. skaðabótalaga verði því 11,140.
11,180 10,988 = 0,192
0,192 x 77/365 = 0,040
11,180 - 0,040 = 11,140
Bætur vegna varanlegrar örorku séu því 2.060.399 krónur- x 11,140 x 60% = 13.771.707 krónur
Um 4. tölulið Annað fjártjón
Stefnandi óskar greiðslu á útlögðum kostnaði vegna skattframtala og útprentana úr staðgreiðsluskrá o.fl., samtals að fjárhæð 3.970 krónur. Þá hafi stefnandi einnig orðið fyrir ýmiss konar útgjöldum vegna afleiðinga slyssins, s.s. ferðakostnaði vegna ferða til lækna, kaupa á verkjalyfjum o.fl. Um sé að ræða kostnað sem honum sé örðugt að sýna fram á með framvísun reikninga. Í sáttaskyni sé óskað greiðslu á 35.000 krónur vegna þessa þáttar. Vegna þessa þáttar sé því samtals óskað greiðslu á 38.970 krónur.
Stefnandi byggir vaxtakröfu sína á 16. gr. skaðabótalaga og 9. gr. sbr. III. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.
Stefnandi krefst vaxta samkvæmt 1. mgr. 16. gr. skaðabótalaga af bótum fyrir styttra þjáningartímabilið, samkvæmt mati dómkvaddra matsmanna, og lægra mati á varanlegum miska, samkvæmt mati Atla Þórs Ólasonar, frá slysdegi 2. mars 2005, til upphafsdags metinnar örorku samkvæmt mati dómkvaddra matsmanna, þ.e. 3. ágúst 2005.
Stefnandi gerir kröfu um 4,5% vexti af öðru fjártjóni, miska og varanlegri örorku samkvæmt mati Atla Þórs Ólasonar en þjáningum samkvæmt mati dómkvaddra matsmanna, alls 15.022.919 krónur frá 3. ágúst 2005 til 5. nóvember 2006. Hinn 5. október 2006 hafi stefnandi sent kröfubréf og sé því krafist dráttarvaxta af þeirri fjárhæð sem þá lá fyrir, að frádreginni lækkun vegna styttra þjáningartímabils og tímabundins atvinnutjóns, frá og með 5. nóvember 2006 þangað til mánuði eftir að framhaldsstefna málsins er lögð fram.
Frá og með mánuði eftir að framhaldsstefnan er lögð fram, þ.e. 2. júlí 2009, sé krafist dráttarvaxta af 17.676.302 krónur auk áfallinna vaxta, til greiðsludags.
Um varnarþing vísar stefnandi til 1. mgr. 33. gr., sbr. 1. mgr. 42. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Réttargæsluaðild á stoð í 21. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Málskostnaðarkrafa stefnanda byggir á 1. og 3. mgr. 129., 1. og 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Stefnandi krefst málskostnaðar líkt og málið væri eigi gjafsóknarmál. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og sé því nauðsynlegt að taka tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun málskostnaðar.
Stefnandi útskýrir aðalkröfu sína samkvæmt dómskjali 60, sem ber yfirskriftina lækkun á dómkröfum, þannig að einungis sé lækkuð vaxtakrafa frá því sem verið hafi í framhaldsstefnu.
Í framhaldsstefnu hafi verið krafist vaxta af bótum fyrir þjáningar og varanlegan miska frá slysdegi, 2. mars 2005, til upphafsdags metinnar örorku samkvæmt mati dómkvaddra matsmanna, þ.e. 3. ágúst 2005. Rétt sé að þetta tímabil nái til upphafsdags metinnar örorku samkvæmt matsgerð Atla Þórs, þ.e. til 27. júní 2006.
Breytingin felist þannig í því að nú sé krafist vaxta fyrir þjáningar og varanlegan miska frá slysdegi til 27. júní 2006. Frá og með þeim degi sé krafist vaxta af öðru fjártjóni, miska og varanlegri örorku samkvæmt mati Atla Þórs en þjáningum samkvæmt mati dómkvaddra matsmanna, alls 15.022.919 krónur til 5. nóvember 2006.
Að öðru leyti sé krafan eins og í framhaldsstefnu.
Stefnandi útskýrir varakröfu sína þannig að krafan sé gerð samkvæmt mati dómkvaddra matsmanna. Hún sé eins og krafa á dómskjali nr. 59 (útreikningur í kjölfar niðurstöðu tryggingastærðfræðings frá 3. febrúar 2011), fyrir utan að ekki sé gert ráð fyrir frádrætti samkvæmt 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og sé því krafist dráttarvaxta af öllum höfuðstólnum frá og með mánuði eftir birtingu framhaldsstefnu.
Málsástæður og lagarök stefnda Hf. Eimskipafélags Íslands
Stefndi Eimskip hf. mótmælir því að félagið, eða menn sem það ber ábyrgð á eftir reglunni um vinnuveitandaábyrgð, hafi sýnt af sér gáleysi eða á nokkurn hátt brotið gegn skyldum sínum samkvæmt lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, reglugerðum settum á grundvelli laganna eða öðrum réttarreglum.
Stefndi Eimskip hf. byggir á því að rekja megi slys stefnanda til eigin sakar hans og/eða óhappatilviljunar. Slysið hafi átt sér stað vegna atvika sem stefndi beri ekki bótaábyrgð á að lögum og beri því að sýkna félagið af kröfum stefnanda.
Stefndi byggir á því að stefnandi hafi nánast lokið menntun í trésmíði við iðnskóla og hafi verið með langa starfsreynslu á því sviði þegar hann hafi lent í slysinu. Hann hafi verið 37 ára á slysdegi og hafi unnið áður svipuð verk fyrir meðstefnda Rými ehf.
Stefnandi og samstarfsmaður hans Stefán Már hafi óskað eftir því að fá eitthvað til að lyfta þeim upp og hafi þeir fengið að láni lyftara með manni frá stefnda til þess. Þeim hafi verið bent á að nota öryggiskörfu þegar verið væri að lyfta þeim með lyftaranum. Þeir hafi þó kosið að nota frekar vörubretti til að standa og athafna sig á.
Stefndi segir myndir frá slysstað sýna að slám hafi verið staflað á stærstan hluta af brettinu. Stefnandi hafi því aðeins verið með lítið pláss í einu horni brettisins til að standa á og athafna sig og ekkert til þess að grípa í ef t.d. einhver hreyfing kæmi á brettið. Bretti sem komið sé fyrir á göfflum lyftara liggi laust og óstöðugt á göfflunum og þurfi ekki mikið að gerast hjá þeim sem standi á brettinu til þess að hreyfing komi á brettið.
Stefndi telur að stefnandi hafi mátt gera sér grein fyrir því hvaða vinnubrögð væru réttust við verkið, hvað skyldi varast til að forðast hugsanleg slys við notkun á lyftaranum og hvaða hættur fylgi því að láta lyfta sér upp á lausu vörubretti í stað öryggiskörfu. Þrátt fyrir þetta hafi stefnandi ákveðið að nota laust bretti í stað öryggiskörfu til þess að lyfta sér. Stefnandi verði því sjálfur að bera það tjón sem rekja megi til þess að ekki hafi verið notuð öryggiskarfa við verkið, enda hafi honum verið fullljóst að stórhættulegt hafi verið að láta lyfta sér upp með þessu hætti.
Stefndi byggir á því að um hafi verið að ræða einfalt starf sem stefnandi og samstarfsmaður hans hafi sjálfir ráðið hvernig væri unnið.
Stefndi fullyrðir að með því að nota ekki öryggiskörfu, þrátt fyrir ábendingar þar um, hafi stefnandi ekki staðið undir þeim skyldum sem á honum hafi hvílt samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Stefnandi verði sjálfur að bera ábyrgð á því að fara ekki eftir þeim ráðstöfunum sem gerðar hafi verið til að auka öryggi hans. Þrjár öryggiskörfur hafi verið til staðar í vöruhóteli félagsins og hafi þær ekki allar verið í notkun þegar slysið hafi átt sér stað.
Stefndi mótmælir því að tjón stefnanda megi rekja til brota félagsins á lögum og reglugerðum um aðbúnað á vinnustað og meðferð lyftara eða að það megi rekja til sakar stjórnanda lyftarans og verkstjórnar.
Í fyrsta lagi byggir stefndi á því að félagið hafi ekki verið vinnuveitandi þeirra manna sem stefnandi telur að eigi sök á slysinu og geti því ekki borið ábyrgð á tjóni stefnanda á grundvelli hinnar ólögfestu reglu íslensks skaðabótaréttar um vinnuveitandaábyrgð.
Fyrir liggi að stefndi hafi gert verksamning við meðstefnda Rými ehf. gegn greiðslu fastra verklauna um sölu og uppsetningu á brettahillukerfi. Stefndi hafi engin afskipti haft af verkframkvæmdum og hvorki stjórnað verkinu né haft eftirlit með vinnubrögðum þeirra sem unnu verkið. Meðstefndi Rými ehf. hafi verið sjálfstæður verktaki gagnvart stefnda. Stefndi byggir á því að viðsemjandi sjálfstæðs verktaka sé ekki skaðabótaskyldur vegna athafna verktakans, starfsmanna hans og undirverktaka hans. Stefán Már, meðstefndi Fjölhæfni ehf. og Gunnar Már hafi verið sjálfstæðir undirverktakar meðstefnda Rýmis ehf. við framkvæmd verksins. Stefán Már hafi sinnt verkinu sjálfur en meðstefndi Fjölhæfni ehf. hafi lánað til verksins starfsmann sinn, stefnanda. Stefndi sé því ekki skaðabótaskyldur vegna athafna eða athafnaleysis þeirra.
Stefndi fullyrðir að ekki séu uppfyllt skilyrði reglunnar um vinnuveitandaábyrgð vegna athafna eða athafnaleysis Bjarna Garðarssonar, starfsmanns stefnda. Stefndi byggir á því að um hafi verið að ræða lán á lyftara með stjórnanda án þess að sérstök greiðsla hafi komið fyrir. Það hafi verið gert til að aðstoða stefnanda við vinnu þess verks sem meðstefndi Rými ehf. hafi ráðið hann til að inna af hendi með samstarfsmanni sínum. Stefndi byggir á þeirri meginreglu að við lán á vélum eða tækjum með stjórnanda án þess að greiðsla komi fyrir sé það lántakinn sem beri vinnuveitandaábyrgð á tjóni sem vélin eða lánaður stjórnandi hennar valdi. Þetta byggi á þeim rökum annars vegar að viðkomandi verk sem tækið sé fengið til að vinna sé liður í ákveðinni heildarframkvæmd sem stjórnandi lyftarans vinni fyrir og undir verkstjórn lántaka. Hins vegar sé unnið að framgangi hagsmuna lántaka þegar tjóni er valdið og því eigi lántakinn að bera vinnuveitandaábyrgð á tjóni sem verði vegna saknæmrar háttsemi stjórnandans.
Stefndi telur ekki ljóst af gögnum málsins hvort Stefán Már og stefnandi hafi starfað undir verkstjórn verkstjóra á vegum meðstefnda Rýmis ehf. eða hvort þeir hafi sjálfir stjórnað verkinu, en um þetta séu þeir ósammála í lögregluskýrslum sínum. Hins vegar liggi fyrir og hafi stefnandi viðurkennt það við skýrslutöku hjá lögreglu, að þeir hafi einhliða tekið þá ákvörðun að óska eftir því við stefnda að fá lánaðan lyftara og stjórnanda, til þess að nota í þeirra þágu við framgang verksins. Því verði að leggja til grundvallar að notkun lyftarans hafi verið liður í ákveðinni heildarframkvæmd, sem stjórnandi lyftarans hafi unnið á vegum stefnanda og Stefáns Más undir verkstjórn þeirra sjálfra. Það sé ósannað að stefndi hafi samið sérstaklega við stefnanda og Stefán Má um að vinna hluta af því verki sem þeir hafi tekið að sér gagnvart meðstefnda Rými ehf. sem verktaki eða sjálfstæður framkvæmdaraðili. Lyftaravinnan verði því ekki skilin frá verkinu í heild sinni og á hana litið sem sjálfstæðan verkþátt sem stefndi beri vinnuveitandaábyrgð á.
Í öðru lagi byggir stefndi á því, yrði talið sannað að stefndi beri ábyrgð á athöfnum stjórnanda lyftarans, Bjarna Garðarssonar, samkvæmt reglunni um vinnuveitendaábyrgð, að sýkna beri stefnda þar sem ekki hafi verið sýnt fram á að slysið megi rekja til saknæmrar háttsemi stjórnandans eða til lyftarans sjálfs.
Lyftarinn hafi verið af viðurkenndri gerð og ekki hafi verið gerðar athugasemdir við hann í skýrslu Vinnueftirlitsins. Þá hafi stjórnandi lyftarans verið með réttindi til þess að stjórna lyftaranum og þekkt þær reglur sem um hann gildi.
Stefndi byggir á því að þrjár öryggiskörfur hafi verið til staðar í vöruhóteli stefnda þegar slysið hafi átt sér stað. Stjórnandinn hafi boðið stefnanda og samstarfsmanni hans að nota öryggiskörfu við verkið og margbent þeim á hættuna sem hafi fylgt því að nota vörubretti í stað öryggiskörfu. Fullyrðingar í stefnu um að hvorki starfsmenn stefnda né annarra stefndu hafi gefið stefnanda ábendingar um að vinna verkið með öðrum hætti en hann gerði séu því rangar. Stefnandi og samstarfsmaður hans hafi hins vegar ákveðið að fara ekki eftir ráðleggingum stjórnandans og nota bretti í stað öryggiskörfunnar, einkum vegna þess að erfitt hafi verið að koma slám fyrir í körfunni og vegna þess að þægilegra hafi verið að vinna verkið af brettinu. Einnig hafi þeir raðað slám þannig á brettið að lyftarinn hafi þurft að standa á ská við hillurnar svo stefnandi gæti athafnað sig á brettinu við verkið, en þeir hafi stjórnað því hvar lyftarinn hafi staðið hverju sinni.
Stefndi segir að við skýrslutöku af stjórnandanum hjá lögreglu hafi komið fram að stefnandi og samstarfsmaður hans hafi þrýst á að lyfta þeim upp á vörubrettinu í stað öryggiskörfunnar. Stefndi byggir á því að slysið megi rekja til gáleysis stefnanda og samstarfsmanns hans en ekki til saknæmrar háttsemi stjórnandans, sem hafi gert sitt ýtrasta til að tryggja öryggi þeirra. Rangt sé og ósannað að rekja megi slysið til þess að stjórnandinn hafi vikið frá lyftaranum og ekki verið á staðnum þegar slysið átti sér stað.
Í þriðja lagi byggir stefndi á því að ósannað sé að félagið hafi brotið lög og reglur um aðbúnað og verkstjórn á vinnustaðnum eða um meðferð lyftara. Sönnunarbyrði hvíli á stefnanda um að tilvitnuð lög og reglugerðir hafi verið brotin og að orsakatengsl séu milli þessara meintu brota og tjónsins.
Stefndi hafi engin afskipti haft af framkvæmd verksins, þar með talið áhöldum og tækjum sem notuð hafi verið, eða aðbúnaði við verkið að öðru leyti. Eina aðkoma stefnda að verkinu hafi verið þegar hann hafi fallist á beiðni stefnanda og Stefáns Más um að fá lánaðan lyftara með stjórnanda og boðið þeim upp á að nota öryggiskörfu sem sérhönnuð sé til þess að festa á gaffla lyftarans og lyfta fólki í. Lyftarinn og öryggiskarfan hafi uppfyllt þau lög og reglugerðir sem um þessi tæki gilda. Ekki hafi verið gerðar athugasemdir við gerð og búnað lyftarans í skýrslu Vinnueftirlitsins.
Stefndi hafi með þessu fullnægt skilyrðum laga nr. 46/1980 og reglugerða settum á grundvelli þeirra, og stuðlað að því að tryggja góðan aðbúnað og örugg starfsskilyrði á vinnustaðnum. Stefndi geti ekki borið ábyrgð á því að stefnandi hafi kosið að fara ekki eftir ábendingum stjórnandans og nota ekki öryggiskörfu.
Stefndi telur ósannað að verkstjórn hafi verið í hans höndum. Í skýrslu Vinnueftirlitsins og lögregluskýrslum komi fram að verkstjórn hafi annað hvort verið í höndum stefnanda sjálfs og Stefáns Más eða í höndum Gunnars Más Gunnarssonar, sem allir hafi starfað sem undirverktakar hjá meðstefnda Rými ehf. Stefndi hafi því ekki borið skyldur verkstjóra eftir 21.- 23. gr. og 86. gr. laga nr. 46/1980.
Stefndi fullyrðir að skýrslu Vinnueftirlitsins hafi verið beint til meðstefnda Fjölhæfni ehf. en ekki til stefnda. Því hafi stefndi ekki haft tækifæri til þess að andmæla henni. Skýrslan feli hvorki í sér neina lokaákvörðun hvað stefnda varði né bindi félagið á nokkurn hátt.
Loks kveðst stefndi, eftir því sem við á, byggja á sömu málsástæðum og lagarökum og meðstefndu Rými ehf. og Fjölhæfni ehf.
Málskostnaðarkrafa byggir á 21. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Stefndi byggir varakröfu sína á því að örorkumat Atla Þórs Ólasonar sé of hátt. Þá beri að draga frá skaðabótum allar greiðslur sem stefnandi kunni að hafa fengið eða eigi rétt á að fá frá þriðja aðila vegna slyssins, s.s. greiðslur úr almannatryggingum, lífeyrissjóðsgreiðslur o.fl. Þá andmælir stefndi kröfu um dráttarvexti frá fyrri tíma en dómsuppsögu. Loks beri að lækka skaðabætur vegna eigin sakar stefnanda, en um þá kröfu vísar stefnandi til málsástæðna fyrir aðalkröfu eftir því sem við á.
Stefndi andmælir málsástæðum og lagarökum stefnanda í framhaldssök. Stefndi mótmælir sérstaklega útreikningi stefnanda á einstökum kröfuliðum, einkum varðandi þá vísitölu sem notuð sé, sem og dráttarvaxtakröfu stefnanda. Stefnandi hafi lagt fram nýja kröfu og upplýsingar um hana við fyrirtöku málsins 2. júní 2009. Ekki geti komið til greiðslu dráttarvaxta fyrr en í fyrsta lagi að mánuði liðnum frá þeim degi er framhaldsstefna var lögð fram, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Málsástæður og lagarök stefnda Rýmis ehf.
Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að hann beri ekki ábyrgð á tjóni stefnanda þar sem óhappið verði ekki rakið til atvika sem stefndi beri skaðabótaábyrgð á að lögum. Stefndi telur að sérreglur um vinnuveitendaábyrgð eigi ekki við enda hafi enginn þeirra er komu að verkinu verið í ráðningarsambandi við stefnda eða háður boðvaldi hans. Á því er byggt að stefnandi beri sjálfur ábyrgð á slysinu enda hafi hann ekki nýtt sér tiltækan öryggisbúnað þrátt fyrir ítrekaðar hvatningar til þess.
Í fyrsta lagi byggir stefndi á því að hann beri ekki skaðabótaábyrgð á tjóni sem leiði af vinnutilhögun undirverktaka. Stefndi mótmælir því að stefnanda nægi að sanna í hvers þágu verkið sér unnið til að fella ábyrgð á stefnda. Stefndi vísar til þeirrar meginreglu að verktaki beri sjálfur ábyrgð á tjóni sem til hans megi rekja. Stefndi hafi leitað til sjálfstæðra verktaka til að setja upp vöruhillur í húsnæði meðstefnda, þeirra Stefáns Más Snorrasonar og meðstefnda Fjölhæfni ehf. Óumdeilt sé að stefnandi hafi verið starfsmaður meðstefnda Fjölhæfni ehf. en ekki stefnda. Stefndi fullyrðir að um sértækt verkefni hafi verið að ræða og hafi sömu aðilar verið ráðnir í sams konar verkefni áður. Meðstefndi Fjölhæfni ehf. hafi valið starfsmann til að vinna verkið og hafi stefnandi lotið boðvaldi þess félags.
Stefndi fullyrðir að verkstjórn hafi verið í höndum þeirra verktaka sem sáu um verkið, ekki stefnda. Stefndi andmælir því að Gunnar Már Gunnarsson hafi verið verkstjóri á slysstað og að hann hafi verið starfsmaður stefnda þegar slysið hafi átt sér stað. Gunnar Már hafi verið sjálfstæður verktaki sem hafi tekið að sér ýmis verkefni fyrir stefnda. Hann hafi þó ekki tekið umrætt verk að sér, heldur hafi hann einungis komið með vörur á staðinn ef til þurfti.
Stefndi mótmælir því að stefnandi eða aðrir sem að verkinu komu hafi verið starfsmenn stefnda. Undirbúningsfundur hafi verið haldinn með þeim verktökum sem komu að verkinu og starfsmanni meðstefnda Eimskips hf. Á fundinum hafi teikningar að uppsetningu á vöruhillunum verið skoðaðar og farið yfir líklega framvindu verksins, en önnur verktilhögun, þ. á m. öryggisþættir og verklag á vinnustað, hafi verið í höndum verktaka.
Stefndi segir umrætt verkefni hafa falist í einfaldri uppsetningu á vöruhillum. Verkinu hafi átt að ljúka á ákveðnum tíma, með fyrirvara vegna þeirrar starfsemi sem hafi verið í húsnæðinu. Vöruhótelið hafi verið í fullum rekstri meðan unnið hafi verið við uppsetningu og nauðsynlegt hafi verið að haga vinnu í samræmi við það. Vöruhillurnar hafi verið settar upp í samræmi við teikningar og hafi það ekki þarfnast sérstakrar fagþekkingar. Stefndi hafi ekki séð verktökum fyrir sérstökum tækjum eða tólum. Vinnutími þeirra hafi aðeins ráðist af aðstæðum á vinnustað og hvort búið væri að rýma fyrir þeim hillueiningum sem hafi þurft að setja upp. Stefndi hafi því ekkert boðvald haft yfir stefnanda eða öðrum er að verkinu hafi komið. Stefndi hafi ekki verið atvinnurekandi á sameiginlegum vinnustað eins og stefnandi byggi á.
Í öðru lagi mótmælir stefndi því að hann hafi borið ábyrgð á vinnuaðstöðu á slysstað, eða að slysið megi rekja til þess að vinnuaðstöðu hafi verið ábótavant.
Stefndi andmælir því að hann hafi verið atvinnurekandi á slysstað í skilningi 1. mgr. 17. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Stefndi hafi ráðið verktaka til að setja upp vöruhillur sem seldar hafi verið meðstefnda Eimskipi hf. en hafi ekki komið að verktilhögun á verkstað né að skipulagi vinnuaðstöðu. Þá hafi enginn starfsmaður á verkstað lotið boðvaldi stefnda.
Stefndi byggir á því að stefnandi beri sjálfur ábyrgð á því að hafa notað lyftara og vörubretti en ekki önnur tæki sem sérstaklega hafi verið ætluð til notkunar við þessar aðstæður. Stefnanda hafi verið bent á að nota við vinnu sína mannkörfu sem tiltæk hafi verið á staðnum en hann hafi kosið að gera það ekki. Stefnandi og vinnufélagi hans hafi m.a. borið fyrir sig að ekki væri hægt að setja slár á körfuna og að erfitt væri að athafna sig í mannkörfu.
Í þriðja lagi telur stefndi að stefnandi verði að bera fulla ábyrgð á tjóni sínu vegna eigin sakar. Stefnandi hafi áður unnið svipað verk og honum hafi átt að vera kunnugt um þá hættu sem falist hafi í því að vinna við þessar aðstæður. Þá hafi stefnandi átt að nýta sér tiltækan öryggisbúnað.
Að eigin sögn hafi stefnandi staðið fyrir innan þá slá sem hann hafi verið að setja upp þegar hann hafi misst jafnvægið og dottið fram af vörubrettinu. Á myndum Vinnueftirlitsins af slysstað megi sjá að við þær aðstæður hafi stefnandi snúið inn að vörubrettinu. Rými á vörubrettinu hafi verið mjög takmarkað og stefnandi hafi snúið baki í brún vörubrettisins og staðið alveg úti á brún þess. Mörgum slám hafi verið komið fyrir á vörubrettinu og hafi þær staðið langt út fyrir vörubrettið og lítið pláss hafi verið til að athafna sig. Mjög varhugavert hafi verið að vinna við slíkar aðstæður og hafi stefnanda mátt vera það ljóst. Stefnandi hafi getað notað viðurkennda mannkörfu.
Í fjórða lagi byggir stefndi á því að stefnandi beri sönnunarbyrði fyrir því að málavextir séu með þeim hætti sem haldið sé fram í stefnu. Stefndi mótmælir sérstaklega þeirri fullyrðingu að skýrslu Vinnueftirlitsins hafi ekki verið andmælt. Skýrslunni sé beint að meðstefnda Fjölhæfni ehf. en ekki stefnda og hafi hann því ekki haft tækifæri til þess að andmæla skýrslunni fyrr en að liðnum 14 daga fresti. Þeirri fullyrðingu í skýrslunni að Gunnar Már hafi verið verkstjóri á slysstað andmælir stefndi sem rangri.
Stefndi byggir á því að bætur beri að lækka verulega vegna eigin sakar stefnanda. Þá mótmælir stefndi niðurstöðu örorkumats Atla Þórs Ólasonar sem of hárri. Stefndi hafnar kröfu stefnanda um dráttarvexti frá fyrra tímamarki en dómsuppsögudegi. Loks telur stefndi að draga beri frá skaðabótum þær greiðslur sem stefnandi kann að hafa fengið eða eigi rétt á að fá frá þriðja aðila vegna slyssins, t.d. greiðslur úr almannatryggingum, greiðslur úr lífeyrissjóðum o.fl.
Stefndi vísar til almennra reglna skaðabótaréttarins, einkum um sönnun tjóns og sönnunarbyrði, orsakatengsl og eigin sök tjónþola. Einnig vísar stefndi til skaðabótalaga nr. 50/1993 og 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Málskostnaðarkrafa stefnda er byggð á 21. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Stefndi mótmælir málsástæðum og lagarökum stefnanda í framhaldssök. Þá andmælir stefndi kröfu stefnanda um upphafstíma dráttarvaxta. Stefnandi hafi lagt fram nýja kröfu og upplýsingar um hana við fyrirtöku málsins 2. júní 2009. Krafan geti ekki borið dráttarvexti frá fyrra tímamarki en að mánuði liðnum frá þeim degi er framhaldsstefna var lögð fram, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Stefndi mótmælir einnig kröfu um dráttarvexti frá fyrra tímamarki en dómsuppsögu. Stefndi andmælir útreikningi stefnanda á einstökum kröfuliðum, hvað varðar útreikning á vísitölu, vöxtum og dráttarvöxtum. Þá ítrekar stefndi að draga beri frá skaðabótum þær greiðslur sem stefnandi kann að hafa fengið eða eigi rétt á að fá frá þriðja aðila vegna slyssins.
Málsástæður og lagarök stefnda Fjölhæfni ehf.
Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að tjónið verði ekki rakið til saknæmrar háttsemi stefnda, starfsmanna stefnda eða neinna atvika sem hann beri skaðabótaábyrgð á að lögum. Stefnandi beri sönnunarbyrði fyrir því að stefndi sé skaðabótaskyldur gagnvart honum.
Stefndi kveður að verk meðstefnda, Rýmis ehf., í vöruhóteli meðstefnda Eimskips hf. hafi falist í uppsetningu á hillueiningum er meðstefndi, Rými ehf., hafi selt meðstefnda Eimskipi hf. Verkið hafi alfarið verið á vegum meðstefnda Rýmis ehf. Einu tengsl stefnda við verkið hafi verið þau að hann hafi leigt meðstefnda Rými ehf. stefnanda sem starfsmann í um tvær vikur, og hafi meðstefndi, Rými ehf., nýtt sér starfskrafta hans í sína þágu við verkið. Aðrir starfsmenn stefnda hafi ekki komið að verkinu. Stefndi hafi ekki verið aðili að samningi meðstefndu Rýmis ehf. og Eimskips hf.
Aðrir sem að verkinu hafi komið, Stefán Már Sturluson, Gunnar Már Gunnarsson og Þorsteinn Þorsteinsson, hafi verið á vegum meðstefnda Rýmis ehf., utan stjórnanda lyftarans, Bjarna Garðarssonar, er hafi verið starfsmaður meðstefnda Eimskips hf. Stefnandi og Stefán Már hafi unnið verkið. Við starfið laut stefnandi boðvaldi verkstjóra Rýmis ehf., þeirra Gunnars Más og Þorsteins auk þess sem Rými ehf. hafi lagt stefnanda til þau verkfæri og tæki er hann hafi notað til starfans. Verkstjórn og eftirlit með verkinu hafi verið í höndum meðstefnda Rýmis ehf., enda hafi verkið verið unnið á ábyrgð þess félags gagnvart meðstefnda Eimskipi hf. Stefndi hafi ekki verið í aðstöðu til að skipta sér af stjórnun verksins. Stefnandi hafi því starfað á ábyrgð meðstefnda Rýmis ehf. að umræddu verki. Að því marki sem slysið verði rakið til gáleysis stefnanda sjálfs upphefji eigin sök stefnanda vinnuveitandaábyrgð stefnda á gáleysi stefnanda.
Í skýrslu Vinnueftirlitsins sé meginorsök slyssins talin sú að ekki hafi verið notuð viðurkennd mannkarfa við verkið og að meðverkandi þáttur gæti verið staða lyftarans, sem hafi staðið á ská við hillurnar. Stefndi mótmælir því að hann geti borið vinnuveitandaábyrgð á stjórnanda lyftarans, en hann hafi verið starfsmaður meðstefnda Eimskips hf. Stefndi andmælir því einnig að hann sé bótaskyldur á grundvelli vinnuveitandaábyrgðar ef talið verði að slysið verði að einhverju leyti rakið til aðgæsluleysis samstarfsmanns stefnanda, Stefáns Más, en hann hafi ekki heldur verið starfsmaður stefnda.
Stefndi byggir á því að ekkert hafi verið athugavert við aðbúnað á vinnustað. Sönnunarbyrði um annað hvíli á stefnanda. Fyrir liggi að viðurkenndar mannkörfur hafi verið til staðar á vinnustaðnum og hafi stefnanda og Stefáni Má borið að nota þær er þeir ákváðu að nota lyftarann sem vinnupall við verkið. Þeir hafi hins vegar ákveðið að nota körfurnar ekki. Þá telur stefndi að meðstefndi Rými ehf. hafi borið ábyrgð á að aðbúnaður og öryggi á vinnustaðnum uppfyllti skilyrði laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.
Stefndi mótmælir því að hann beri ábyrgð á ætlaðri ófullnægjandi verkstjórn. Umrætt verk hafi verið unnið af meðstefnda Rými ehf. fyrir meðstefnda Eimskip hf. Verkstjórn og eftirlit með því hafi alfarið verið í höndum meðstefnda Rýmis ehf. og á ábyrgð þess félags og hafi stefndi ekki verið í neinni aðstöðu til að stjórna vinnu stefnanda. Þá hafi verið um tiltölulega einfalt verk að ræða, á sviði þar sem stefnandi hafði langa starfsreynslu. Engin ástæða hafi því verið til að hafa verkstjóra til að leiðbeina stefnanda við verkið. Því hafi mátt treysta að stefnandi myndi beita öruggum vinnuaðferðum við verkið, sbr. m.a. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.
Stefndi fullyrðir, til rökstuðnings fyrir bæði aðalkröfu og varakröfu, að slysið verði að öllu eða að mestu leyti rakið til eigin gáleysis stefnanda. Í yfirheyrslu lögreglu yfir stjórnanda lyftarans, Bjarna Garðarssyni, komi fram að mannkörfur hafi verið til staðar. Stefnandi og samstarfsmaður hans í verkinu hafi ekki viljað nota slíka körfu við vinnu sína, þrátt fyrir að stjórnandinn hafi margbent þeim á hættuna sem því fylgdi að nota vörubretti en ekki körfu, þar sem þeim hafi þótt óþægilegra að nota körfuna. Stefnandi hafi með þessu sýnt af sér mikið gáleysi, en slysið hefði ekki orðið ef slík karfa hefði verið notuð. Stefndi byggir á því að stefnandi hafi sjálfur ákveðið að láta lyfta sér upp á vörubretti í stað þess að nota tiltæka mannkörfu. Með vali sínu hafi stefnandi tekið áhættu sem hann verði sjálfur að bera fulla ábyrgð á, á grundvelli reglna skaðabótaréttarins um eigin sök tjónþola, enda hafi stefnanda mátt vera ljóst að hann gæti misst jafnvægið og dottið af brettinu.
Stefndi byggir á því að skaðabætur til stefnanda beri að lækka vegna eigin sakar hans. Þá verði ekki lögð á stefnda bótaábyrgð að því marki sem slysið verði rakið til gáleysis stjórnanda lyftarans eða samstarfsmanns stefnanda, enda hafi þeir ekki verið starfsmenn stefnda.
Einnig andmælir stefndi kröfugerð stefnanda, bæði efnislega og tölulega. Í fyrsta lagi mótmælir stefndi sönnunargildi örorkumats Atla Þórs Ólasonar læknis, sem hafi verið aflað einhliða og án dómkvaðningar í samræmi við 9. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Stefnda hafi því ekki gefist færi á að koma sjónarmiðum sínum og athugasemdum á framfæri.
Í öðru lagi mótmælir stefndi tekjuviðmiðun í kröfugerð stefnanda varðandi bætur fyrir tímabundið atvinnutjón. Stefnandi hafi fengið greidd laun frá stefnda til 31. maí 2005 og hafi meðalmánaðarlaun hans á þessu tímabili numið 139.840 krónum. Miða beri tímabundið atvinnutjón stefnanda við þessa mánaðarlaunaviðmiðun en ekki 158.400 krónur eins og gert sé í kröfugerð stefnanda.
Í þriðja lagi byggir stefndi á því að lækka beri fjárhæð þjáningabóta með vísan til lokamálsliðar 1. mgr. 3 gr. skaðabótalaga þar sem veikindatímabil stefnanda sé óvenju langt.
Í fjórða lagi beri að draga frá hugsanlegum bótum fyrir varanlega örorku þær bætur sem stefnandi hafi þegar fengið greiddar úr atvinnuslysatryggingu launþega. Stefndi hafi tryggt stefnanda sem launþega hjá Verði tryggingum hf. og samkvæmt yfirliti frá tryggingafélaginu hafi stefnandi fengið greiddar úr slysatryggingunni bætur vegna 40% læknisfræðilegrar örorku þann 27. júlí 2006, 3.355.099 krónur. Einnig skuli draga frá bótum allar bætur sem stefnandi kunni að hafa fengið eða eigi rétt á grundvelli laga nr. 117/1993 og/eða laga nr. 100/2007, sem og örorkulífeyri sem stefnandi hafi fengið greiddan eða eigi rétt á að fá greiddan úr lífeyrissjóði. Um þennan frádrátt vísar stefndi til 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.
Í fimmta lagi mótmælir stefndi dráttarvaxtakröfu stefnanda. Stefnandi hafi fyrst krafið stefnda um bætur með stefnu málsins. Kröfubréf frá 5. október 2006 hafi eingöngu verið send meðstefnda Rými ehf. og réttargæslustefnda. Dráttarvextir geti fyrst reiknast þegar mánuður sé liðinn frá stefnubirtingardegi, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Um lagarök vísar stefndi m.a. til almennra reglna skaðabótaréttarins, til meginreglna skaðabótaréttar um sönnunarbyrði og reglna um gáleysi og eigin sök tjónþola. Stefndi vísar einnig til skaðabótalaga nr. 50/1993 og laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Málskostnaðarkrafa stefnda byggir á 21. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Stefndi mótmælir kröfum stefnanda í framhaldssök, bæði efnislega og tölulega. Stefndi byggir á því að kröfugerð stefnanda í framhaldssök sé án tengsla og samræmis við upphaflega kröfugerð hans. Í framhaldssök virðist það vera ætlun stefnanda að móta algerlega nýja kröfugerð í málinu, en ekki auka við upphaflegar dómkröfur stefnanda. Ekki komi skýrt fram í framhaldsstefnunni hvort stefnandi hyggist jafnframt falla frá upphaflegri kröfugerð sinni.
Stefndi andmælir sérstaklega útreikningi stefnanda á fjárhæðum bóta vegna 1. mgr. 3. gr. og 4. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Stefnandi miði framreikning samkvæmt 15. gr. laga nr. 50/1993 við seinna tímamark en október 2006, gagnstætt þeim útreikningum er stefnandi hafi byggt á í stefnu. Þessar breytingar séu ekki í samræmi við skilyrði 29. gr. laga nr. 91/1991.
Stefndi mótmælir einnig kröfum stefnanda um vexti og dráttarvexti. Varðandi hækkun á dómkröfum stefnanda með framhaldsstefnu verði dráttarvextir ekki reiknaðir fyrr en í fyrsta lagi að liðnum mánuði frá þeim degi þegar framhaldsstefnan hafi verið lögð fram, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001.
Niðurstaða
Mál þetta á rætur að rekja til vinnuslyss sem stefnandi varð fyrir 2. mars 2005 í húsnæði stefnda, Eimskips hf. er hann var að vinna við uppsetningu á hillum, sem stefndi, Rými ehf. hafði tekið að sér fyrir stefnda Eimskip hf. Er slysið varð var stefnandi launþegi hjá stefnda Fjölhæfni ehf., en það félag kom að þessu verki með þeim hætti, að Rými ehf. fékk verktaka til að vinna verkið. Annars vegar var um að ræða Stefán Má Sturluson, sem vann með stefnanda við verkið er slys varð, og hins vegar stefnda, Fjölhæfni ehf., sem fékk stefnanda til þess að vinna við verkið með Stefáni.
Ekki er ágreiningur um það hvernig slysið átti sér stað, eða um líkamstjón stefnanda. Hins vegar er deilt um aðdraganda þess að vörubretti var notað við vinnu stefnanda og um verkstjórn á vinnustaðnum. Einnig er deilt um útreikning kröfu stefnanda og frádrátt á grundvelli 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.
Í 1. mgr. 2. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum er mælt fyrir um að þau lög gildi um alla starfsemi þar sem einn eða tveir menn vinna, hvort sem um sé að ræða eigendur fyrirtækja eða starfsmenn. Meginregla 13. gr. laga nr. 46/1980 kveður á um að atvinnurekandi skuli tryggja að fyllsta öryggis, góðs aðbúnaðar og hollustuhátta sé gætt á vinnustað, við framkvæmd vinnu og um vélar, tækjabúnað og fleira.
Í 17. gr. sömu laga er mælt fyrir um að þar sem fleiri atvinnurekendur eigi aðild að starfsemi á sama vinnustað, skuli þeir og aðrir sem þar starfi, sameiginlega stuðla að því að tryggja góðan aðbúnað og heilsusamleg og örugg starfsskilyrði á vinnustaðnum. Þá er mælt fyrir um í 41. gr. laganna að vinnustaður samkvæmt lögum þessum sé umhverfi innan húss eða utan, þar sem starfsmaður hefst við eða þarf að fara um vegna starfa sinna. Sá staður þar sem stefnandi slasaðist, þ.e. vöruhótel stefnda Eimskips hf. telst því vinnustaður hans í skilningi 41. gr. laganna.
Í 46. gr. laganna er meðal annars mælt fyrir um að áhöld, tæki og annar búnaður skuli þannig úr garði gerður að gætt sé fyllsta öryggis og að fylgja skuli ákvæðum laga og reglugerða að því er varðar aðbúnað, hollustuhætti og öryggi. Lögin leggja skyldur á aðra en atvinnurekanda um að fylgja fyrirmælum laganna. Þannig segir í 29. gr. laganna að sá sem selur, afhendir eða sýnir meðal annars verkfæri, áhöld, tæki og annað það sem ætlað er til notkunar við atvinnurekstur skuli tryggja að það, sem hér um ræðir sé þegar það er sýnt eða afhent til notkunar, útbúið með tilskildum hlífðar- og öryggisbúnaði og að notkun þess leiði ekki af sér slysa- eða sjúkdómshættu, sbr. VII. kafla laganna. Í 3. mgr. 29. gr. laganna segir einnig að ef einhver búnaður, sem talinn er upp í 1. mgr. greinarinnar og tilbúinn er til notkunar, sé afhentur áfram, endurseldur, lánaður út eða leigður, gildi þær reglur sem að framan greinir. Samkvæmt þessum reglum ber sá sem lánar eða leigir búnað til notkunar við atvinnurekstur einnig ábyrgð á því að búnaðurinn standist þær kröfur sem gerðar eru í lögunum eða reglum settum samkvæmt þeim.
Í máli þessu er fram komið að stefnanda og félaga hans voru léð afnot af lyftara og vörubretti, til þess að koma fyrir hillueiningum í húsnæði Eimskips hf., en starfsmaður stefnda Eimskips hf., Bjarni Garðarsson, sá um að lyfta stefnanda og félaga hans í þá hæð sem til þurfti til að koma hillueiningunum fyrir. Framburður þeirra Bjarna, stefnanda og félaga hans, Stefáns Más, er misvísandi um það hvort þeim hafi verið boðin öryggiskarfa við verkið, en af framburði Bjarna fyrir dómi og hjá lögreglu verður ráðið að honum er vel kunn hættan af því að lyfta mönnum án öryggiskörfu. Engu að síður féllst hann á að lyfta stefnanda á vörubretti upp í 2,65 m hæð, en meginorsök slyssins er að rekja til þess að ekki var notuð öryggiskarfa við verkið, heldur vörubretti það sem stefnandi stóð á, í framangreindri hæð. Brot starfsmanns stefnda, Eimskips hf. á framangreindum ákvæðum laga nr. 46/2980, m.a. 29. gr. þeirra, sem honum áttu þó að vera kunn, felur í sér saknæma og ólögmæta háttsemi af hans hálfu, sem stefndi, Eimskip hf. ber ábyrgð á samkvæmt ólögfestri reglu skaðabótaréttar um vinnuveitandaábyrgð.
Stefnandi var á þeim tíma er slys varð starfsmaður stefnda, Fjölhæfni ehf.
Í málinu er fram komið að stefndi, Fjölhæfni ehf., kom ekki að uppsetningu hillueininga þeirra sem um ræðir með neinum hætti. Fyrirsvarsmenn þess félags komu ekki á verkstað og verður ekki séð að stefndi Fjölhæfni ehf. hafi haft nokkurt boðvald yfir stefnanda við verk það sem stefndi Rými ehf. hafði tekið að sér að vinna fyrir stefnda Eimskip hf. Verður því ekki lögð skaðabótaábyrgð á það félag vegna þess tjóns sem stefnandi varð fyrir.
Hins vegar er ljóst, þegar litið er til framburðar vitnisins Þorsteins Þorsteinssonar, starfsmanns Rýmis ehf., að starfsmenn þess höfðu afskipti af framgangi verksins, en þeir Þorsteinn og Gunnar Már Gunnarsson, annar starfsmaður Rýmis ehf., sáu um að koma með efni á verkstað, auk þess sem vitnið Þorsteinn kvaðst hafa leiðbeint stefnanda og félaga hans við uppsetningu hillueininganna. Við uppsetningu þeirra var augljóslega þörf á einhvers konar lyftibúnaði, til að koma efstu hillueiningunum fyrir, en vitnið Þorsteinn kvað það viðtekna venju að verkkaupi, þ.e. stefndi Eimskip hf., sæi um að útvega slíkan lyftibúnað. Kvaðst vitnið ekki hafa skipt sér af því hvaða lyftibúnaður yrði notaður og kvað það vera á ábyrgð þeirra sjálfra sem ynnu vinnuna að velja öruggan búnað. Þá kvað vitnið að hann hafi ekki farið þess á leit við stefnda Fjölhæfni ehf., að þeir kæmu reglulega til að fylgjast með verkinu og kvaðst ekki vita hvort verkstjórn af hálfu stefnda, Fjölhæfni ehf. hefði verið innifalin í því verði sem stefndi Rými ehf. greiddi fyrir útselda vinnu af þeirra hálfu.
Eins og að framan greinir er stefnandi ekki sjálfstæður verktaki. Af hálfu stefnda Rýmis ehf., var ekki farið fram á að fylgst væri með verkinu af hálfu stefnda Fjölhæfni ehf., en hins vegar er fram komið að stefndi Rými ehf. hafði veg og vanda að uppsetningu hillnanna. Þorsteinn Þorsteinsson, starfsmaður Rýmis ehf., leiðbeindi stefnanda áður en verkið hófst og starfsmenn stefnda Rýmis ehf. komu með efni á staðinn til verksins. Þorsteinn vissi að þörf var lyftarabúnaðar til að koma hillukerfinu fyrir, en stefnanda var lyft á vörubretti með lyftara. Sú aðferð við að lyfta mönnum er hættuleg og brýtur gegn ákvæðum laga nr. 46/1980, m.a. 17. gr. laganna, 23. gr., 28. gr. og 37. gr. þeirra. Taldi Þorsteinn að stefnandi bæri einn ábyrgð á því hvaða tæki voru notuð til að lyfta honum í þá hæð sem þörf var á til að koma hillukerfinu fyrir. Hann lét sér í léttu rúmi liggja hvernig stefnandi innti það verk sitt af hendi, enda þótt hann vissi að stefnandi væri ekki sjálfstæður verktaki og þrátt fyrir vitneskju hans um að ekki væri fylgst með starfsaðferðum stefnanda af hálfu stefnda Fjölhæfni ehf. Það gáleysi hans og vanræksla sem fólst í því að stuðla ekki að því að stefnandi beitti verklagi sem tryggt gæti öryggi hans og samrýmdist ákvæðum laga nr. 46/1989, fellir skaðabótaábyrgð á stefnda Rými ehf., á grundvelli reglna um vinnuveitandaábyrgð. Ber Rými ehf. því skaðabótaábyrgð á því tjóni sem af þessu hlaust, sameiginlega með stefnda, Eimskipi hf.
Stefnandi var á slysdegi 36 ára gamall. Hann hafði stundað nám í trésmíði, en ekki lokið því. Fyrir dómi kvaðst hann hafa lokið að mestu bóklega náminu, en átt eftir verklega hlutann. Hann hafði að baki nokkra reynslu á sviði trésmíði, en kvaðst ekki hafa haft reynslu af uppsetningu sams konar hillueininga og hann vann við er slys varð. Hann kvaðst hafa vitað af því að til var öryggiskarfa á staðnum. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laga nr. 46/1980 bar honum að stuðla að því að starfsskilyrði innan verksviðs hans væri fullnægjandi að því er varðaði öryggi og aðbúnað hans sjálfs. Stefnanda hlaut að vera ljós sú hætta sem af því stafaði að láta lyfta sér upp í 2,65 m hæð á vörubretti, sem hlaðið var slám til uppsetningar og að ekkert mátti út af bregða til að ekki kæmi hreyfing á brettið, eins og raun varð. Vörubrettið var án alls öryggisbúnaðar og augljós hættan sem af því stafaði að láta lyfta sér upp í þá hæð sem nauðsynleg var, til þess að inna verkið af hendi. Jafnvel þótt ekki sé í ljós leitt hvort öryggiskarfa hafi verið tiltæk á þeim tíma er verkið var unnið, verður að meta stefnanda sjálfum til gáleysis að nota vörubrettið til þessara starfa. Verður hann í ljósi ofangreinds að bera tjón sitt að hálfu leyti sjálfur.
Stefnandi hefur krafist þess aðallega að fá greiddar bætur úr hendi stefndu, án þess að frádrætti samkvæmt 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga sé beitt við útreikning kröfu hans, en þrautavarakröfu sína miðar hann við frádrátt samkvæmt því ákvæði og hefur lagt fram útreikning tryggingastærðfræðings á ,,eingreiðsluverðmæti greiðslna úr lífeyrissjóðum og almanntryggingum með skerðingu vegna vaxtatekna og greiðslna úr lífeyrissjóðum“. Er ágreiningur um það hvort beita eigi frádrætti á grundvelli 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga.
Samkvæmt skýrum fordæmum Hæstaréttar Íslands, m.a. dómi frá 18. september 2003 í máli nr. 520/2002, og dómi frá 14. febrúar 2008 í máli nr. 307/2007 ber að draga frá skaðabótakröfu vegna líkamstjóns greiðslur af félagslegum toga og miða þann frádrátt við þann tímapunkt er tjónþoli gat ekki vænst frekari bata. Verður ákvæði 4. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1993 ekki skilið á annan veg en þann en að haga beri útreikningi kröfu í samræmi við það sem gert hefur verið með útreikningi tryggingastærðfræðings í málinu, en þrautavarakrafa stefnanda er eins og að framan greinir grundvölluð á þeim útreikningi og byggir á því að krafan eigi að sæta frádrætti á grundvelli 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga.
Ágreiningur málsins lýtur einnig að því, hvaða lánskjaravísitölu beri að nota við útreikning þjáningabóta og varanlegs miska og þá lýtur ágreiningur að upphafsdegi dráttarvaxta.
Fyrir liggur að samkvæmt matsgerð dómkvaddra matsmanna, þeirra Halldórs Baldurssonar og Ingvars Sveinbjörnssonar, sem ekki hefur verið hnekkt, var heilsufar stefnanda orðið stöðugt 3. ágúst 2005. Verður lánskjaravísitala ágústmánaðar 2005 því notuð til viðmiðunar við útreikning þjáningabóta og varanlegs miska, sbr. 15. gr. laga nr. 50/1993, en hún er 4792 stig. Lánskjaravísitala júnímánaðar 2009 er 6634 stig.
Stefnandi var rúmfastur í 7 daga og eru þjáningabætur til handa stefnanda vegna þess tímabils því sem hér um ræðir 12.600 krónur. (1800 x 7 dagar). Stefnandi var veikur án þess að vera rúmfastur í 147 daga. Þjáningabætur vegna þess tímabils verða því 142.443 krónur (969 x 147 dagar).
Samtals nema þjáningabætur til handa stefnanda því 155.043 krónum og kemur því ekki til skoðunar hvort lækka beri fjárhæð þjáningabóta með vísan til lokamálsliðar 1. mgr. 3. gr. skaðabótalaga, eins og stefndi, Fjölhæfni ehf. hefur krafist.
Samkvæmt matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna var varanlegur miski stefnanda metinn 45% og stefnandi var á slysdegi 36 ára gamall eins og að framan greinir. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. skaðabótalaga skulu því bætur til hans nema 4.000.000 króna, framreiknaðar í samræmi við breytingar á lánskjaravísitölu, sbr. 15. gr. laganna. Eins og að framan greinir var heilsufar stefnanda orðið stöðugt 3. ágúst 2005 og lánskjaravísitala í ágúst 2005 var 4792 stig. Varanlegur miski nemur því, í samræmi við metið miskastig, 45%, 2.491.903 krónum.
Stefnandi hefur krafist bóta vegna varanlegrar örorku að fjárhæð 13.771.707 krónur. Þá hefur stefnandi fengið tryggingastærðfræðing til að reikna út frádrátt á grundvelli 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Samkvæmt þeim útreikningi er varanlegur miski og varanleg örorka samtals að fjárhæð 9.014.751 krónur, að teknu tilliti til frádráttarins. Þegar varanlegur miski að fjárhæð 3.638.475 krónur, samkvæmt útreikningi tryggingastærðfræðingsins, er dreginn frá þeirri fjárhæð verður töluleg niðurstaða varanlegrar örorku 5.376.275 krónur.
Krafa stefnanda að fjárhæð 3.970 krónur vegna útlagðs kostnaðar verður tekin til greina, en ekki hafa verið færðar sönnur á annan útlagðan kostnað.
Stefndu hafa mótmælt upphafstíma dráttarvaxtakröfu stefnanda. Kröfugerð stefnanda hefur tekið margvíslegum breytingum undir rekstri málsins. Þannig var gefin út framhaldsstefna 2. júní 2009, sem breytti í töluverðum atriðum kröfugerð stefnanda. Eftir það, eða í desember 2010, var lagður fram útreikningur tryggingastærðfræðings á eingreiðsluverðmæti greiðslna úr lífeyrissjóðum. Enn var lagður fram nýr útreikningur tryggingastærðfræðings við upphaf aðalmeðferðar málsins fyrra sinni 10. febrúar 2011, auk þess sem þá var lagt fram skjal sem ber yfirskriftina ,,lækkun á dómkröfu“. Þegar litið er til framangreinds verður með vísan til 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu að miða við að krafa stefnanda beri dráttarvexti frá 10. mars 2011, enda komu þær upplýsingar til handa stefndu sem gerði þeim kleift að meta fjárhæð bóta, fyrst fram 10. febrúar 2011.
Þegar allt framangreint er virt verða stefndu, Eimskipafélag Íslands hf. og Rými ehf., dæmd til að greiða helming þeirra bótagreiðslna sem stefnandi á rétt á, samkvæmt framangreindum útreikningi, en helming tjóns síns ber stefnandi sjálfur vegna eigin sakar. Þannig verða þessir stefndu dæmdir sameiginlega til að greiða stefnanda 4.013.596 krónur með 4,5% ársvöxtum af 1.323.473 krónum frá 2. mars 2005 til 3. ágúst 2005, sbr. 16. gr. skaðabótalaga, en frá þeim degi af 4.013.596 krónum til 10. mars 2011, en með dráttarvöxtum af þeirri fjárhæð samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.
Stefndi, Fjölhæfni ehf., er sýknaður af kröfu stefnanda.
Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 er rétt að hver aðila beri sinn kostnað af málinu.
Stefnandi hefur gjafsóknarleyfi í málinu frá Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu frá 15. febrúar 2008. Greiðist gjafsóknarkostnaður hans að fjárhæð 3.592.185 krónur úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns stefnanda, Daníels Isebarn Ágústssonar hdl., að meðtöldum virðisaukaskatti, 2.500.000 krónur og útlagður kostnaður að fjárhæð 1.092.185 krónur.
Af hálfu stefnanda flutti málið Daníel Isebarn Ágústsson héraðsdómslögmaður.
Af hálfu stefndu fluttu málið Björgvin Jónsson hæstaréttarlögmaður, Einar Baldvin Axelsson hæstaréttarlögmaður og Guðjón Ármannsson héraðsdómslögmaður.
Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan dóm.
D ó m s o r ð:
Stefndu, Eimskipafélag Íslands hf. og Rými ehf. greiði stefnanda, Sigurði Bergþórssyni, sameiginlega 4.013.596 krónur með 4,5% ársvöxtum af 1.323.473 krónum frá 2. mars 2005 til 3. ágúst 2005, en frá þeim degi af 4.013.596 krónum til 10. mars 2011, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 4.013.596 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Stefndi, Fjölhæfni ehf. er sýkn af kröfu stefnanda.
Málskostnaður fellur niður milli aðila.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, 3.592.185 krónur, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns stefnanda, Daníels Isebarn Ágústssonar hdl., 2.500.000 krónur og útlagður kostnaður að fjárhæð 1.092.185 krónur.