Hæstiréttur íslands

Mál nr. 401/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


Þriðjudaginn 28. júní 2011.

Nr. 401/2011.

Lögreglustjórinn á Akranesi

(Halla Bergþóra Björnsdóttir settur lögreglustjóri)

gegn

X

(Leifur Runólfsson hdl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. júní 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. júní 2011, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi í einangrun allt til föstudagsins 1. júlí 2011 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að hann verði ekki látinn sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

                                              

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. júní 2011.

Lögreglustjórinn Akranesi hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], til heimilis að [...],[...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi vegna alvarlegrar líkamsárásar og húsbrots í 5 daga eða allt til föstudagsins 1. júlí 2011.  Þess er krafist að X verði látinn vera í einrúmi á meðan á gæsluvarðhaldi stendur.

Í greinargerð kemur fram að til rannsóknar hjá lögreglunni á Akranesi sé alvarleg líkamsárás og húsbrot á A, kt. [...],[...],[...] nú í dag um kl. 07:00.

Lögreglan hafi verið kvödd að [...] á [...] á fyrrgreindum tíma.  Á vettvangi hafi hist fyrir framangreindur A svo og X. A hafi verið með X í tökum og vettvangur verið mjög blóðugur.  A hafi verið með mikinn skurð á höfði og skýrt frá því að X hefði brotist inn í íbúð hans og hann hefði vaknað við það.  Hann hafi sagt X hafa ráðist að sér og slegið sig í höfuðið með járnbarefli.  A hafi sagst  hafa náð að verjast öðru höggi í höfuðið og náð X í tök og haldið uns lögreglan hafi komið á vettvang.

X hafi verið í mjög miklu vímuefnaástandi þegar hann hafi verið handtekinn og hafi hann skýrt lögreglumönnum frá því að hann hefði slegið A í höfuðið, en framburður hans verið ruglingslegur.

Reynt hafi verið að yfirheyra A í dag að viðstöddum verjanda hans, en m.a. vegna vímuástands hans hafi ekki náðst heillegur framburður í samhengi.

Rannsókn málsins sé mjög skammt á veg komin.  Eftir sé að yfirheyra vitni og leita vitna, en sakborningurinn hafi enga samvinnu veitt við rannsóknina. 

Um sé að ræða alvarlega líkamsárás sem að sögn læknis hefði getað leitt til dauða árásarþolans.

Um heimild til gæsluvarðhalds sé vísað til a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, til b-liðar 1. mgr. 99. gr. og 102. gr. sömu laga hvað varði kröfu um einangrun.

Eins og að framan greinir er kærði grunaður um alvarlega líkamsárás.   Með vísan til greinargerðar lögreglu og rannsóknargagna málsins þykir kominn fram rökstuddur grunur um að kærði hafi gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing liggur við. Rannsókn málsins er á frumstigi.  Fallist er á með lögreglustjóranum á Akranesi að skilyrði a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 séu uppfyllt. Er krafa um gæsluvarðhald því tekin til greina eins og nánar greinir í úrskurðarorði. Með sömu rökum er fallist á að kærði sæti einangrun í gæsluvarðhaldinu.

Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Kærði, X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 1. júlí 2011 kl. 16.00. 

Kærði skal sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldi stendur.